Þróun ferðamála – og tillögur um aðgerðir

Reykjanesskagi

Með þessari umfjöllun eru engar myndir af litbrigðum Reykjanesskagans – með því má segja að amen fylgi efninu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Segja má að Reykjanesskaginn endurspegli öll önnur náttúru- og minjasvæði landsins. Líkt og þéttbýlisíbúarnir á höfuðborgarsvæðinu fara langar leiðir til að skoða sögulega staði og furðusmíð jarðmyndunarinnar, áhrif rofafla og litaafbrigði væri ekki óraunhæft að ætla að aðrir íbúar landsins kæmu á Skagann til að skoða stórkostleika hans. En svo er ekki. Í huga landsbyggðabúans hefur höfuðborgarsvæðið neikvæða ímynd og þar með svæðið í heild. Og vegna þess að allt of margur höfuðborgaríbúinn vill heldur leita langt fyrir skammt verður nýting hinna nærtæku verðmæta minni en ætla mætti.

Seltún

Seltún.

Mikilvægt er að ferðamálastjórnvöld hugi alvarlega að markvissri stefnugerð í nýtingu einstakra svæða landsins sem og þess sem heildar, þ.e. geri heilstæða tímasetta áætlun sem felur í sér a) greiðara aðgengi, b) takmarkanir, c) merkingar, d) uppbyggingu, e) varðveislu, f) endurgerð og g) gjaldtöku.
Margar þykkar skýrslur hafa verið gerðar um lítið sem ekki neitt í þessum efnum – og nær öllum verið komið fyrir í skúffum eða í hillum til varanlegrar varðveislu. Kostnaður við skýrslugerðina hefur verið meiri en sem nemur þeim fjármunum, sem varið hefur verið til markvissra og varanlegra aðgerða, en afraksturinn hins vegar verið lítill sem enginn.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Hér á eftir verða framangreindir þættir metnir út frá aðstæðum á Reykjanesskaganum, en auðvelt ætti að vera að heimfæra þá á landið allt. Sérhver þáttur er í raun viðfangs- og úrvinnsluverkefni út af fyrir sig.

a) Huga þarf að og ákveða hvort (sjá hins vegar lið b) greiðara aðgengi eigi að verða að einstökum svæðum. Í dag liggja jeppaslóðar víða inn á og um annars óaðgengileg svæði fyrir ferðafólk. Slóðarnir liggja um mela og móa með tilheyrandi landsspjöllum. Roföflin (vatn, vindur, frost og þýða) hafa  náð að spilla landi verulega og eyða jarðvegi. Hægt er að koma í veg fyrir frekari eyðingu með því að gera svæðin aðgengilegri með takmarkaðri vegagerð (í slóðastað). Með því að leggja þjappaða grús í slóðana í jarðvegshæð og gera þá færa flestum ökutækjum yrði komið í veg fyrir alvarlegri áhrif rofaflanna, auk þess sem miklu mun fleirum yrði gert fært að skoða áhugaverða staði.

Gunnuhver

Gunnuhver.

b) Takmarkanir á aðgengi að seinstökum svæðum þarf að meta. Frá sérstaklega verðmætum stöðum, sem þola illa átroðning (sjá hins vegar lið d), þarf að hrinda akandi umferð frá, þ.e. gera fólki erfiðara að komast á vettvang, t.d. einungis fótgangandi. Það myndi fækka ferðafólki og minnka líkur á verulegu raski. Gott aðgengi á aðra staði myndi undirstrika afstöðu yfirvalda til nauðsynlegra takmarkana á þessi svæði. Þeirra þyrfti að gæta sérstaklega, t.d. með aðkomu landvarða (sjá lið g).

Reykjadalur

Reykjadalur.

c) Merkingar eru ferðafólki nauðsynlegar, hvort sem um er að ræða sem vegvísa í upphafi ferðar eða þegar komið er á vettvang. Huga þarf skipulega að vandaðri útgáfu efnis um merkilega staði. Útgáfan þarf að vera aðgengileg sem flestum á helstu tungumálum. Fylgja þarf henni eftir með samræmdum (og umhverfisvænum) merkingum á stöðunum.

d) Á einstökum svæðum þarf sérstaklega að huga að skipulegri uppbyggingu, s.s. stígagerð og stýringu umferðar. Ákveða þarf hvar leiðarendi ökutækjanna á að vera og hvar fætur ökumanns og farþega eiga að taka við. Á aðgengilegum upphaftsstöðum þarf að koma fyrir merkingum og nauðsynlegum upplýsingum og leiðbeiningum fyrir ferðafólk (sjá lið c).

Ölfusvatnsölkelda

Ölfusvatnsölkelda.

e) Ákvörðun um varðveislu einstakra staða eða svæða er nauðsynleg, hvort sem varðar  eða fornleifaskrá. Huga þarf að öllu landinu með framangreint að markmiði. Núverandi friðlýsingaskrá fornleifa er úrelt og auk þess hefur einungis verið lagðar fram tillögur að varðveislu einstakra (og fjölmargra) náttúruminja umfram þær, sem þegar hafa verið friðlýstar. Landsmenn hafa hingað til státað sig af því að hafa yfir að ráða einstakri og ósnertri náttúruparadís. Að áliti ferðamanna er eftirsóknin mest í þær af öllu. Tryggja þarf að þær vonir fylgi raunhæfum hughrifum þeirra.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

f) Endurgerð menningarverðmæta og sögulegra viðfangsefna þarf ekki að vera feymnismál. Hingað til hefur fé einungis verið lagt í „sögutengda“ staði, þ.e. staði er gætu hafa verið vettvangur fornra sagna – jafnvel þótt það hafi hvorki verið staðfest með rökum né þeir haft sérstaka þýðingu sem búskaparleg heilstæða byggðar hér á landi. Dæmi má nefna Eiríksstaði. Stjórnmálamenn samþykktu fjárveitingu til verkefnisins vegna nafnsins, vitandi að aldrei yrði hægt að sanna að nefndur Eiríkur rauði hafi búið þar.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Á Reykjanesskaganum, sem dafnaði um aldir af tveimur meginástæðum, útræði og fjárbúskap, eru enn minjar um fjölda verstöðva, nausta og vara, auk u.þ.b. 250 sýnilegra minja fornra selja. Hvers vegna ekki að endurgera a.m.k. eina verbúð og eitt sel – svona til að undirstrika þessa þætti búskaparsögunnar – og efla áhuga ferðalanga. Samkvæmt nýjustu rannsóknum koma fleiri ferðalangar en áður til landsins en nokkru sinni fyrr, en þeir staldra styttra við. Hvaða svæði er þá nærtækara en höfuðborgarsvæðið?

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

g) Huga þarf að því hvort ekki eigi að taka upp gjaldtöku inn á einstök meginsvæði að ákveðnum úrbótum gerðum. Vegagerð kostar sitt, sem og merking og endurgerð einstakra minja. Jafnvel takmarkanir á einstök svæði kosta peninga, sbr. tillöguna um landverði. Meirihluti landsmanna eiga einungis fólksbifreiðar. Betra aðgengi að einstökum stöðum myndi auka möguleika þeirra á að komast á vettvang. Auk þess myndi betri vegagerð minnka skemmdir á ökutækjunum til mikilla muna – og þar með spara viðgerðarkostnað. Með auknum áhuga og fjölda ferðamanna er líklegt að aðsókn muni aukast verulega á einstök áhugaverð svæði. Með hæfilegri og sanngjarnri greiðslu að aðgenginu mætti á móti stýra álaginu – og þar með minnka líkur á varanlegu raski. Slíkt hefur verið reynt víða erlendis með góðum árangri.

Þessi skýrsla á að rúmast á einni A4 síðu (enda án grafa og fallegra ljósmynda). Innihaldið er stjórnvöldum að kostnaðarlausu. Ef þau vilja nýta sér innihaldið, ferðaþjónustunni til góðs – þá hefur höfundinum verið vel launað.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.