Trölladyngja – Selsvellir – Hraunssel – Leggjabrjótshraun – Núpshlíðarháls
Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.
Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.
Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.
Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.
Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.
Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.
Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.
Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.