Tvöföldun Reykjanesbrautar – fornleifaskráning II

Reykjanesbraut

Í „Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi“, Reykjavík 2020, er m.a. fjallað um minjar á jörðunum Lónakoti, Óttarsstöðum, Straumi, Þorbjarnarstöðum, Péturskoti, Stóra-Lambhaga og Litla-Lambhaga, auk Hvaleyrar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum skráningarinnar.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Óttarstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 160.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó að hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu.
Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.
Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár.
lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Péturskot

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75×75 m að stærð.
Péturskot kemur fyrst fram í manntali 1880 og kemur fram í manntölum til 1910 en er ekki getið í manntali 1920. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur þar sem gamli bærinn stóð en þar sést þó mikið hleðslugrjót úr hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Rétt austan við bæjarstæðið var útihús merkt inn á túnakort frá 1919. Á þessum stað er grjóthlaðin L-laga hleðsla. Lagning Reykjanesbrautar árið 1965 umturnaði heimatúni Péturskots og er norðurhluti þess kominn undir veginn.
Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð (VNV-ASA).

Péturskot

Péturskot.

Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Það er Tóftir Péturskots, horft til norðurs. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið. Tóftin var betur varðveitt þegar Þjóðminjasafn Íslands skráði Péturskot um 1990.

Péturskot

Pétursspor.

Á túnakort frá 1919 er merkt útihús um 10 m austan við Péturskotsbæ. Þar sem útihúsið var má greina L-laga hleðslu. Hún er um 3,5 m á kant en 0,7 m há. Í hleðslunni eru 7 umför af stæðilegu hraungrýti. Hleðslan er í litlu innskoti í mosagrónum kletti sem er í austurhluta túnsins. Þéttur mosi er á efsta umfari hleðslunnar.

Péturskot

Péturshróf.

Pétursspor var stígur milli kotsins og Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Brýr liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60×40 m að stærð.
Péturshróf var naust neðan Péturskots. „Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða, og Stóra-Lambhaga, og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn.

Péturskot

Péturskot – könnunarskurðir er gefa áttu til kynna aldur kotsins.

Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina,“ segir örnefnaskrá. Péturshróf er um 380 m NNV við bæ og rúmum 50 m norðan við Reykjanesbraut. Péturshróf er í Straumsvík, rétt sunnan við mosagróinn klettadranga.
Péturshróf er einföld tóft, 7,5×3,5 m að stærð og snýr hún norður-suður. Veggir eru grjóthlaðnir og nokkuð hlykkjóttir. Í hleðslum sjást mest 2-4 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, veglegastir að sunnan. Byrgið er breiðast til austurs en mjókkar aðeins eftir því sem vestar er farið. Byrgið er opið til austurs, að sjó.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Þorbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki.

Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra-Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,“ segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9×5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak. Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – eldhús.

Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – bæjarhóllinn.

Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Bæjarhólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir
skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – Steinbogi.

Steinbogi var garður upp í Aukatún; „Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi,“ segir í örnefnaskrá.
Steinbogi eða hlaðin brú liggur yfir litla tjörn í Aukatúni, um 110 m sunnan við Litla-Lambhaga. Hleðslan liggur yfir tjörn eða deiglendi í grónu hrauni.
Hleðslan er um 5 m löng en 2 m breið. Hún snýr NNA-SSV. Hleðslan rís 0,4 m hærra en umhverfið og er grjóthlaðin en mikið gróin. Ekki sést í umför í hleðslunni þótt víða standi stæðilegt grjót upp úr gróðrinum.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 168.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok allt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.“ DI IV, 751–752..

Hvaleyri

Hvaleyri.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
HafnarfjörðurLýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða

Stóravarða 2023.

Stóravarða var landamerki Hvaleyrar og Lambhaga; „Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem
alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,“ segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin  millum Þorbjarnarstaða og Gerðis (rauð) ekki verið skráð (einungis sögð „óljós“).

Niðurstaða fornleifaskráningarinnar í heild var; „Innan svæðisins voru skráðari 56 fornleifar á 43 minjastöðum. Allir staðirnir teljast til fornleifa og njóta verndar sem slíkir en minjagildi þeirra er misjafnt. Í skýrslunni var gerð tilraun til að leggja mat á gildi hvers minjastaðar og voru niðurstöðurnar þær að þrír minjastaðir hefðu mjög mikið gildi, átta mikið gildi, 15 staðir töldust hafa nokkurt minjagildi og 17 lítið. Rétt er að ítreka að algengara er að margar fornleifar/minjaeiningar falli undir þá staði sem flokkaðir voru með mikið eða mjög mikið minjagildi heldur en þá sem töldust hafa lítið minjagildi sem oftast eru stakar fornleifar fremur en þyrpingar.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um þrjú minjasvæði vegna mikils gildi sem stakar minjar eða minjaheildir. Þó að mögulegt sé að komast hjá raski á nokkrum fjölda minja innan úttektarsvæðins er ljóst að mörgum minjum verði raskað að hluta eða öllu leyti að óbreyttu. Niðurstaðan er því að áhrif framkvæmda við breikkun Reykjanesbrautar á svæði frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi muni hafa neikvæð áhrif á fornminjar“.

Ljóst er að fórna þarf nokkrum fornleifum sögunnar millum framangreindra bæja við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá ofanverðu Lónakoti að ofanverðu Hvaleyri. Samt ert leitt til þess að vita hversu skráningaraðilar hafa haldið illa á málum með því að horfa framhjá augljósum fyrirliggjandi heimildum er kynnu að hafa gert verk þeirra miklu mun markvissara, ekki síst til lengri framtíðar litið.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar framangreind skráning er skoðuð er ljóst að skráningaraðilinn hefur hvorutveggja haft takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og ekki reynt að afla sér augljóslegra fyrirliggjandi gagna er koma gætu að gagni. Þá er leitt til þess að vita að starfsfók Minjastofnunnar skuli ekki hafa dug í sér til að gera viðhlýtandi athugasemdir við augsýnilega endurteknar vanskapaðar fornleifaskráningar, sem til þess berast.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.

Reykjanesbraut

Fyrirhugað vegastæði tvöföldunar Reykjanesbrautar ofan Straums.