Valahnúkar – Músarhellir – Mygludalir – Húsfell – Búrfell – Kolhóll

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.