Vatnsleysuheiði – Flekkuvíkurheiði
Við fyrstu sýn virðast heiðarnar lítt áhugaverðar tilsýndar, en þegar betur er að gáð mátti í þeim finna bæði fornar og áður óskráðar mannvistarleifar sem og áhugaverðar ábendingar um breytingar í gróðurfari umliðinna alda.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a.: „Suður og nokkru ofar í heiðinni er hóll, sem heitir Svartavarða, og áfram ofar er hóll, sem heitir Digravarða. Hlaðnar vörður og vörðubrot eru á öllum þessum hólum. Heiðarslakkinn í austur af Digruvörðu er kallaður Digravörðulágar. Ofan Digruvörðu eru svo litlir hólar, sem heita Geithólar, og skammt þar frá aðrir, sem heita Svínhólar.“ Segja má með sanni að víða leynast vörður og vörðubrot. Með lagni má þó greina vörður frá öðrum „vörðum“. Norðan við Digravörðulágar eru t.d. slík mannvirki, en þegar betur er að gáð er augljóst að þar hafa refaveiðimenn verið að verki. Bæði hafa verið hlaðin skjól á hólum og gamlar hlaðnar refagildrur verið aflagaðar eftir að þær hættu að þjóna hlutverki sínu sem slíkar. Skjólin eru seinna tíma mannvirki, þ.e. eftir að byssan kom til sögunnar, en gildrurnar eru leifar enn eldri veiðiaðferða – þá þegar aflagðra.
Undir hólnum að suðaustanverðu var lítill hlaðinn stekkur eða kví. Austan við mannvirkið má ætla að hafi verið hús, líkum þeim er sjá má í seljum. Munurinn var þó sá að ekkert eldhús var þarna greinilegt, sennilega vegna nálægðar við bæinn. „Digravörðulágar“ munu þá heita gróningarnir góðu efra.
Haldið var áfram upp heiðina uns komið var að heillegum vörðum upp undir núverandi Reykjanesbraut. Þegar tekið var stöðumat á svæðinu var einna líklegast að ætla að þarna hafi fyrrum legið þjóðleið frá Kúagerði og áfram yfir heiðarnar áleiðis að Vogastapa. Bæði var leiðin einstaklega greiðfær og eðlileg í alla staði. Fyrir Grindvíkinga eða aðra Suðurnesjamenn myndu sparast nokkrar klukkustundir á göngu ef farin væri þessi greiðfæra leið millum staða en farin væri Ströndin. Um hefði verið að ræða svo til beina leið að Skógfellaleið eða Stapagötu. Og þá var bara að sannreyna áætlunina.
Þegar leiðin var gengin var jafnan komið að vandlega hlöðnum vörðum eða greinlegum vörðubrotum. Til hægri handar, á klapparhryggjum, voru og heillegar vörður, sem erfitt var að sjá hvaða tilgangi öðrum hafi gegnt en að vera leiðarmerki yfir heiðarnar. Þegar komið var upp að Hafnhólum (þeim Stóra) mátti sjá að gatan hélt áfram til vesturs yfir heiðina. Ætlunin er að fylgja henni til enda síðar.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a. um þetta svæði: „Heiðarslakkinn suðaustur og upp af þeim er kallaður Miðmundarlágar. Næsta kennileiti er nokkuð stór klapparhóll, sem er kallaður Litli-Hafnhóll. Annar hóll er nokkru ofar, og heitir sá Stóri-Hafnhóll. Báðir þessir hólar eru svipaðir að því leyti, að þeir hafa sprungið eftir endilöngu eða frá norðri til suðurs í jarðskjálftum eða eldsumbrotum. Breiðar gjár hafa þá skipt hólunum í tvennt. Nú eru þær að mestu uppfylltar jarðvegi. Hafnhólar eru á hæsta punkti heiðarinnar á nokkuð stóru svæði og sjást mjög vel af sjó. Þeir voru og eru sjálfsagt enn notaðir sem mið af grunnslóð. Frá Litla-Hafnhól er svo línan um hól, sem á eru vörður tvær, og kallast hann Bræður.“ Síðastnefna kennileitið er vel þekkt.
Auðvelt var að fylgja leið áfram til vesturs norðan núverandi Reykjanesbrautar. Mjög líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið gata undir fótum Grindvíkinga millum Innnesja og Útnesja, aukinheldur Rosmhvalsnesinga. Reykjanesbrautin virðist hafa verið lögð með sömu hagsmuni og sjónarmið í huga og gilt hafa um aldir.
Og þá var bara eftir að leita að fyrrnefndri fjárborg í óravíddinni.
Gengið var til norðvesturs áleiðis niður Flekkuvíkurheiðina frá miðlægum Hafnhólum uns komið var að vandlega hlaðinni vörðu nokkru suðaustan Miðmundahóla í Flekkuvíkurlandi. Þar virðist vera um landamerki að ræða, enda eldri vörðuleifar skammt frá. Þarna hafði leið legið um fyrrum með stefnu á Staðarborg, sem blasti við sem kennileiti í suðvestri. Þegar hugsanleg leið var fetuð til baka upp heiðina að áleiðis að Hafnhólum kom fyrrnefnd „fjárborg“ í ljós. Um var að ræða hringlaga hleðslu á annars sléttu landi. Op virtist til suðurs.
Hér, á þessum stað, var í raun komið hið ágætasta viðfangsefni til verulegra skoðanaskipta. Mannvirkið var hringlaga. Veggir stóðu grónir að utanverðu, en grjótför að innanverðu. Mannvirkið hafði fallið bæði út á við og inn. Ef þarna hefði verið um fjárborg (sú 98. á Reykjanesskaganum) að ræða hefði hún verið hlaðin ofar, t.a.m. á nálægum klapparhólum. Óljós gata lá niður (eða upp) með tóftinni. Staðarborgin blasti við í suðvestri og Hafnhólar til beggja handa í norðaustri.
Hér má sjá lýsingu af göngu um Kálfatjarnarheiði, þá næstu að vestan, og óvæntum fornleifafundum þar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. HÉR má sjá myndband úr Strandarheiðinni.Heimildir m.a.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu, Flekkuvík og Kálfatjörn.