Vífilsstaðaspítali 100 ára
Á laugardag [4. sept. 2010] er liðin öld síðan berklahæli tók formlega til starfa á Vífilsstöðum. Af því tilefni fer fram skemmtun og fræðsla fyrir alla fjölskylduna á Vífilsstöðum. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, er formaður afmælisnefndar.
„Berklar hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda en urðu ekki risastórt vandamál hér á landi fyrr en upp úr aldamótunum 1900,“ segir Pétur, en á árunum 1911 til 1925 voru berklar algengasta dánarorsök Reykvíkinga og fimmtungur dauðsfalla á landsvísu.
„Berklar eru smitandi sjúkdómur og því var berklasjúklingum fyrirskipað að búa á afviknum stað til að draga úr smithættu. Í þeim tilgangi var Vífilstaðahælið byggt og valinn staður í sveit, þar sem til varð sérstætt samfélag sjúklinga sem bjuggu þar árum saman,“ segir Pétur.
Berklar eru oft kallaðir hvíti dauði, en sé ástand berklatímans fært til nútíðar væru 6.000 Íslendingar með sjúkdóminn. „Oft voru berklar dauðadómur en sjúklingar voru misjafnlega illa haldnir. Margir höfðu fótaferð meðan aðrir voru veikari. Á berklahælinu voru framkvæmdar flóknar og erfiðar skurðaðgerðir sem í dag þættu vafalaust hrottalegar, eins og þegar lungu sjúklinga voru höggvin í lækningaskyni. Þá var trú manna að ferskt loft gerði sjúklingunum gott og því útbúinn leguskáli þar sem sjúklingar voru vafðir í teppi og látnir liggja á bekkjum til að anda að sér fersku útiloftinu.“
Pétur segir berkla hafa látið í minni pokann upp úr miðri síðustu öld þegar lyf fundust við sjúkdómnum, en eftir að berklahælinu var lokað opnaði Landspítalinn sjúkradeildir fyrir öndunarfærasjúklinga á Vífilsstöðum. „Á berklatímanum var mikið af ungu fólki á Vífilsstöðum og vitaskuld kviknuðu ástarsambönd í því lokaða samfélagi. Við undirbúning afmælishátíðarinnar hef ég hitt þónokkra sem komu undir á Vífilsstaðahælinu og eðlilega fæddust börn á þeim fjölda ára sem sjúklingar þurftu að dvelja þar. Einnig voru dæmi um að berklasjúk börn væru tekin af foreldrum sínum og látin búa á hælinu í einhver ár.
Vífilsstöðum fylgir því merkileg saga og átakanleg, því auðvitað var þungbært fyrir fólk að verða fangar síns sjúkdóms á afviknum stað. Dauðinn vofði þar alltaf yfir og margir dóu, en stundum fékk fólk að fara heim ef það var talið læknað og heimsóknir leyfðust,“ segir Pétur. Vífilsstaðir eru landnámsjörð, þar sem Ingólfur Arnarson gaf Vífli, húskarli sínum og þræl, bústað.
„Jörðin var lengi í eigu kirkjunnar og á Vífilsstöðum hefur alltaf verið rekinn búskapur. Á tímum berklahælisins var þar umtalsverður kúabúskapur og þar stendur enn risastórt fjós. Spítalann teiknaði Rögnvaldur Ólafsson og þykir húsið enn með glæsilegustu byggingum landsins. Það reis á aðeins átján mánuðum og mikið í sjálfboðavinnu, því allir skildu hve mikið lá við og lögðust á eitt,“ segir Pétur. Hann segir fagurt landslag Vífilsstaða leika hlutverk á afmælisdaginn.
„Við verðum með leiðsögn um landareignina, siglingar á Vífilsstaðavatni, hoppukastala og grillaðar pylsur úti við, en sögusýningu og málþing í húsnæði spítalans. Þar sýnum við gamlar sjúkrastofur, myndir og ýmislegt sem tengist sögunni, og tölum um sögu berklaveikinnar ásamt því sem fólk segir frá mannlífi á Vífilsstöðum sem var,“ segir Pétur sem í vikunni kvaddi síðasta heimilisfólkið á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Vífilsstöðum. „Hlutverk Vífilsstaða eftir afmælið er óráðið en ég vildi glaður sjá eitthvað heilbrigðistengt í húsinu áfram.“
Við þetta má bæta að í tilefni afmælisins var gefið út fróðlegt blað; Vífilsstaðir – sagan í 100 ár. Í því kemur m.a. fram að Rögnvaldur Ólafsson hafi teiknað aðalbygginguna og Guðjón Samúelsson húsameistari yfirlæknisbústaðinn.
Á myndinni hér að ofan frá miðri 20. öld eru merkingar með eftirfarandi skýringum: 1 Mjólkurhús, 2 Fjós, 3 Hlaða, 4 Hlandþró, 5 Heygaltar, 6 Bílskúrar, 7 Trésmíðaversktæði, 8 Búshús (bústaður bústjóra), 9 Ráðhús (bústaður ráðsmanns), 10 Rimman, 11 Eilífðin, 12 Pilsakot, 13 Læknabústaður, 14 Hænsnabú, 15 Yfirlæknisbústaður, 16 Davíðsborg og Önnuborg, 17 Líkhús, smíða- og saumastofa, 18 Vífilsstaðahælið, 19 Leguskáli, 20 Smiðja og bílskúrar.
Í afmælisblaðinu vegna 100 ára afmælis Vífilsstaðaspítala 5. sept. 2010 er komið víða við. Þar segir m.a.: „Á Vífilsstöðum er mikill húsakostur. Aðalbygginguna teiknaði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og yfirlæknisbústaðinn Guðjón Samúelsson húsameistari. Umtalsverður kúabúskapur var á Vífilsstöðum. Í dagblaðinu Vísi 20. október 1931 segir frá búskapnum á Vífilsstöðum. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að við upphaf starfsemi Vífilsstaðaspítala 1910 sé talið að ræktað land hafi gefið af sér um 60 hesta heyfengs. Búskapur á jörðinni hófst 1916 og var starfræktur til ársins 1974. Blaðið segir frá því að fljótlega eftir að búskapurinn byrjaði hafi hafist umtalsverð ræktun á landi undir forystu Þorleifs Guðmundssonar bústjóra og síðar Björns Konráðssonar, sem tók við búforráðum árið 1925. Aðallega hefur áhuganum á nýræktuninni verið beint að túnrækt og síðar að garðrækt.
Jarðræktin tók stórstígum framförum 1921 þegar þúfubaninn kom til landsins. Í blaðinu kemur fram að bústofninn hafi aukist jafnhliða ræktuninni og hafi um 70 nautgripir verið á búinu 1931, þar af um 60 mjólkandi kýr, sem að meðaltali gáfu af sér um 3334 lítra. Auk túnræktar gáfu kartöflugarðar af sér um 80 tonn og rófur vel á annað hundrað tonn. Auk þess var mikil kálrækt á Vífilsstöðum.
Í nóvemberbyrjun 1906 kom fram hugmynd um stofnun Heilsuhælisfélags meða Oddfellowsfélaga. Hælinu var fundinn staður á Vifilsstöðum. Fljótlega kom í ljós að daggjöld sjúklinga gátu ekki staðið undir rekstrinum. Í byrjun árs 1916 yfirtók landssjóður reksturinn.
Eftir því sem heyskaparþörf minnkaði á túnum Vífilsstaða vegna minnkandi búrekstrar hófts nýtt tímabil í trjárækt á staðnum. Frumkvæði í þeim efnum tók Georg Lúðvíksson, sem var forstjóri Ríkisspítalanna 1954-1959, og naut hann góðs liðsinnis Helga Ingvarssonar yfirlæknis og Björns Konráðssonar bústjóra. Afrakstur af því starfi var hinn stórglæsilegi trjálundur sem blasir við sunnan við hælið. Lundurinn er m.a. merkur fyrir þær sakir að hann var sérstaklega skipulagður í upphafi. Það gerði Jón H. Björnsson, sem var fyrsti Íslendingurinn sem menntaði sig sem landslagsarkitekt.“
Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, bls. 26.