Vogarétt
Vogaréttin ofan Réttartanga vestan Voga var um tíma lögrétt fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurbændur. Réttin sést glögglega á loftmyndum frá árinu 1954. Eftir það á tilteknu tímabli virðist hún hafa horfið af yfirborðinu, án nokkurra athugasemda.
Í örnefnaslýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir: „Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur.“
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin.“
Skammt norðvestar á tanganum má enn sjá leifar enn eldri réttar í fjöruborðinu og dregur tanginn mjög líklega nafn af henni. Sjórinn hefur sópað henni burt að mestu.
Í leit að upplýsingum um Vogaréttina svaraði Sigurður Ingi Jónsson: „Ég reyndi að stilla saman gömlu loftmyndinni og annarri frá 2019 og fæ ekki betur séð en að malbikað hafi verið yfir réttina (sjá mynd)“.
Sesselja Guðmundsdóttir bætti við: „Já, byggingar Vogalax fóru yfir hana ca. 1983. Búið var að taka grjótið úr henni í hafnargerð að mig minnir. Nýja réttin á Ströndinni var byggð og tekin í notkun 1956“ [ofan við Hlöðunes].
Meira um „Hlöðunesréttina“ (Strandarréttina/Vogaréttina) síðar.
Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Voga.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Voga.