Völvuleiði

Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 fjallar Sigurður Ægisson um “Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi“. Völvur voru fölkunnugar og sögðu fyrir um örlög manna og óorðna hluti. Víða um land, einkum fyrir austan og suðaustan, eru völvuleiði; þúfur í túni, óreglulegar þústir, steinar eða hólar og fylgir oft blettinum sú arfsögn, að sá sem byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn. Hér er drepið niður í frásögnina.

Völvuleiði

FERLIRsfélagar á Völvuleiði ofan Dysja á Álftanesi.

“Hin fornu trúarbrögð Íslendinga eru nefnd ásatrú, eða norræn trú. Árið 999 eða 1000 lögðust þau af, að nafninu til a.m.k., og kristin trú var lögleidd. Ásatrúin var margþætt, og skartaði ýmsum kynjaverum. Þar í flokki voru t.d. dísir, fylgjur og völvur.
Um þessi fyrirbæri er nú á dögum lítið vitað, enda ritaðar heimildir um þennan fyrsta sögulega tíma landsmanna flestar tiltölulega ungar, og því með kristnum formerkjum. Sem dæmi má nefna, að hinar elstu Íslendingasögur eru taldar ritaðar á fyrsta þriðjungi 13. aldar. Engin þeirra er samt til í frumriti sínu; elsta varðveitta söguhandritið er brot úr Egilssögu, frá miðri 13. öld.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Leyningshólum, innst í Eyjafirði; rúnasteinn liggur þar yfir. Jónas Hallgrímsson, skáld, kom þar mörgum sinnum til rannsókna.

Ein heimild telst þó merkilegri en aðrar, þegar kemur að því að forvitnast um völvurnar. Það er Eiríkssaga rauða, er m.a. segir frá Þorbjörgu nokkurri, sem kölluð var lítilvölva. Sagan er talin rituð um miðja 13. öld, en geymir þó tiltölulega lítt brenglaðar eldri myndir, eins og reyndar eftirfarandi lýsing gefur til kynna. Þar segir orðrétt: Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.
Þessi heimild er ómetanleg, og mun vera nákvæmasta lýsing á búnaði seiðkonu eða völvu, er geymst hefur. Athyglisvert er að lesa um þessi dýrindis klæði, sem benda til þess hver virðingarstaða þessara kvenna í raun var á heiðnum tíma. Má geta þess til dæmis, að samkvæmt Grágás var kattarskinn margfalt verðmeira en refaskinn.

Völvuleiði

Völvuleiði við Einholt á Mýrum (Guðm. Ólafsson).

Mikill fjöldi álagabletta á Íslandi er lifandi dæmi um “neista heiðninnar” fram á okkar daga, þ.e.a.s. trú á huldufólk og álfa margs konar.
Eitt af því sem gæti líka hafa varðveist frá gamalli tíð er merkilegt fyrirbæri, sem kallast völvuleiði, en það eru minjar og örnefni víða um land, einkum þó fyrir austan og suðaustan. Oft er þar um að ræða þúfur í túni, óreglulegar þústir, steina eða hóla.
Um flest þessara völvuleiða er ekkert meira vitað; örfáum fylgja þó sagnir, munnlegar eða ritaðar. Kemur þar iðulega fram, að sá, er byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn.

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn, er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð fyrir utanaðkomandi árásum um aldir. Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á Hólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar, sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri ófúið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða, en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið. 

Það athyglisverðasta við þessi „leiði“ — burtséð frá því, hvað undir kann að liggja — er, að menn hafa verið að hlúa að þeim allt fram á okkar tíma, þ.e.a.s. undir lok 20. aldar, hlaða þau upp og snurfusa, og það í landi, sem búið er að vera kristið í næstum 1000 ár.

Völvurnar

Þeir, sem á landnámsöld vildu fræðast um komandi tíma, gengu m.a. til völvu. Hún var fjölkunnug og sagði fyrir örlög manna og óorðna hluti.
Orðið völva er talið dregið af fornu orði, völur, er merkir stafur, en þess lags tæki munu völvurnar hafa notað, m.a. er þær frömdu seið. Orðtakið „að fara á vonarvöl”, þ.e.a.s. að vera með betlara- eða göngumannastaf, er einnig komið frá þessu, en sumar eða allar völvurnar flökkuðu um.
Af fornum bókum má ráða, þrátt fyrir allt, að völvur hafa á 8., 9., og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar.
Og nú er spurt: Hafi þessar eftirlegukindur heiðindóms lifað fram á 11. öld og haldið iðju sinni áfram, hvað skyldi þá hafa verið gert með jarðneskar leifar þeirra síðar? Í kristnu landi, vel að merkja. Ekki kom til greina að setja þær í kirkjugarð, og því hefur bara eitt verið til ráða: að grafa þær fyrir utan svæði hinnar vígðu moldar.
Á milli 50 og 60 völvuleiði (þ.e.a.s. örnefni óg/eða minjar) hafa varðveist fram á okkar daga á Íslandi, á meðan engin heimild eða vitneskja er til um slík örnefni á Norðurlöndunum og Grænlandi. Mörg leiðanna snúa í norður-suður, eins og títt var með grafir heiðinna manna, en sum þó einnig í austur-vestur.

Staðirnir

Völvuleiði

Völvuleiði – eitt af mörgum.

Í raun og veru skiptir ekki nokkru máli hvort völvuleiðin eru raunverulegar grafir eða ekki. Út frá þjóðfræðilegu sjónarmiði er hitt áhugaverðara, að þessi örnefni kviknuðu, og héldust lifandi fram á okkar daga. Það eitt segir margt.
Tekist hefur verið að finna, með dyggri aðstoð góðra manna, 49 staði á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að vera grafnar. Yfirleitt má finna heimildir um þessi leiði á prenti; í sumum tilvikum þó ekki. Stundum eru fleiri en eitt leiði á hverjum stað. Langoftast er talað um völvuleiði í þessu sambandi (ýmist ritað með hástaf eða litlum), en fyrir kemur þó Völvuhóll, og á örfáum stöðum er þess einungis getið, að þar sé völva grafin, en örefnið sjálft hefur týnst.

Lokaorð

Völvuleiði

Völvuleiðið á Hólmahálsi endurreist.

Í ritgerðarkorni sem þessu verður ekki komist langt í greiningu á jafn viðamiklu efni og hér er á borðinu. Enda var tilefnið ekki það, heldur að vekja athygli á þessu merkilega örefni, Völvuleiði, sem enginn virðist hafa lagt niður fyrir sig að rannsaka fyrr en núna.
Ef við drögum saman ofanritað, kemur þetta í ljós: Til er á Íslandi, einkum þó austanlands og suður eftir, fjöldi svokallaðra völuleiða. Oft er hér um að ræða þúfu í
túni eða utan, stundum í laginu eins og gröf; yfirleitt er samt um ólögulega þúst að ræða, kannski vegna aldursins. Í örfáum tilfellum er þessum leiðum haldið við, og fylgir þá einhver gömul sögn, um að happ reki á fjörur þess, er slíkt gerir, eða því um líkt.

Völvuleiði

Völvuleiðið á Garðaholti ofan Dysja.

Fundist hafa um 50 staðir á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að liggja grafnar. Þó vantar hálft landið inn í myndina, einhverra hluta vegna.
Völvuleiðin eru flest orðin máð og lasin, og því erfitt að sjá hvernig þau í raun snúa. Þó má í sumum tilvikum greina stefnuna, og er hún þá ýmist norður-suður eða austur-vestur. Hvað þetta allt gefur til kynna, er ómögulegt að vita á þessu stigi málsins. En framtíðin á vonandi eftir að skera úr um það.”

Heimildir:
-https://www.bbl.is/folk/menning/volvur-og-volvuleidi
-Lesbók Morgunblaðsins 21. nóv. 1992, Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi, Sigurður Ægisson, bls. 6-8.

Völvuleiði

Völvuleiði á Íslandi.