Vindássel

Í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III” frá árinu 2012 er m.a. fjallað um “Byggðasögu Kjósarhrepps“.

Byggðasaga Kjósarhrepps
Kjósarhreppur er í sunnanverðum Hvalfirði. Hreppurinn nær frá Miðdalsá og norðurhlíðum Esju í suðri, að suðurbakka Botnsár í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni, Hvalfells og Hvalvatns í norðri. Að austan marka svo fjöllin Hlíðar, Kjölur, Leggjabrjótur og Botnssúlur skil á milli Kjósarhrepps og Þingvallasveitar. Syðst í Kjósinni í norðurhlíðum Esjunnar eru fimm dalir sem liggja gróflega norður-suður.

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Vestastur er Hrútadalur, þá Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og loks Svínadalur austast. Innan hreppsins eru fimm fjöll; Eyrarfjall, Meðalfell, Reynivallaháls, Þrándarstaðafjall og Múlafjall, sem skipta svæðinu niður í sex stóra dali til viðbótar.
Miðdalur sunnan við Eyrarfjall, Kjósardalur milli Eyrarfjalls og Reynivallaháls, Laxárdalur milli Meðalfells/Möðruvallaháls og Reynivallaháls, Hlíða- og Skálafellsháls, Fossárdalur milli Reynivallaháls og Þrándarstaðafjalls, Brynjudalur milli Þrándarstaðafjalls/Suðurfjalls og Múlafjalls og svo loks Botnsdalur milli Múlafjalls og Selfjalls/Háafells. Upp af Fossárdal er svo Seljadalur á milli Reynivallaháls og Kjalar. Flesta bæi Kjósarhrepps er að finna í þessum dölum en þó eru nokkrir bæir dreifðir eftir Hvalfjarðarströnd. Eitt stórt vatn er í Kjósinni vestanverðri milli Esju og Meðalfells sem kallast Meðalfellsvatn og hefur þar myndast á síðustu áratugum stór sumarbústaðabyggð. Slíka byggð er einnig að finna við mynni Eilífsdals litlu vestar og á Hvalfjarðarströnd vestan við Hvammsvík. Laxá í Kjós er ásamt Meðalfellsvatni eitt stærsta aðdráttarafl Kjósarinnar enda áin ein vinsælasta laxveiðiá landsins.
Helstu bæir sem skráðir voru í Kjósarhreppi dreifast misjafnt um svæðið en flesta þeirra má þó finna í Kjósar- og Laxárdölum. Í Miðdal eru nú bæirnir Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur, sem og bærinn Eilífsdalur við mynni samnefnds dals. Kjósardal er skipt í tvennt af Dælisá og Bugðu sem renna saman og mynda eitt langt vatnsfall sem eitt sinn var nefnt Eilífsá. Vestan við Bugðu eru bæirnir Eyri, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes norðaustan undir Eyrarfjalli en bæirnir Sandur, Eyjar, Flekkudalur, Grjóteyri og Meðalfell eru austan við árnar tvær. Flestir bæir eru austan við Meðalfellsvatn á meðan sjálfur Meðalfellsbærinn er norðan við vatnið.
Austan við Bugðu í Laxárdal eru svo bæirnir Neðri-Háls, Valdastaðir, Sogn, Reynivellir, Vindás og Hækingsdalur norðan við Laxá. Sunnan við ána eru Fremri-Háls, Írafell, Möðruvellir, Þorláksstaði, Hurðarbak, Káranes og Káraneskot.

Kjós

Kjós – kort.

Vestanvert við norðurmynni Fossárdals var bærinn Fossá og upp og suður af Fossárdal er Seljadalur þar sem má finna leifar bæjarins Reynivallasels. Bæirnir Ingunnarstaði, Þrándarstaði og Skorhagi (Múli) eru í Brynjudal. Á Hvalfjarðarströnd eru bæirnir Útskálahamar norðvestan undir Eyrarfjalli og Hvammur, Hvammsvík og
Hvítanes norðan undir Reynivallahálsi og vestan við Fossá. Enginn bær sem tilheyrir Kjósarhreppi er í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni.
Þegar saga Kjósarinnar er skoðuð má sjá að talsvert af bæjum hefur þar byggst upp og fallið í eyði í gegnum aldirnar, þó að stærstu jarðirnar hafi verið í stöðugri ábúð. Í meðfylgjandi töflu er að finna yfirlit yfir þekkta bæi og býli á svæðinu ásamt upplýsingum um hvenær þeirra er fyrst getið í heimildum.
Kjósarhreppur
Frásögnum um landnám í Kjós ber ekki alveg saman. Kjósin virðist þó sannarlega hafa verið hluti af landnámi Ingólfs Arnarsonar. Samkvæmt Landnámu nam Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs Arnarssonar land á Kjalarnesi en hafði aðeins yfir að ráða svæðinu á milli Mógilsár og Miðdalsár (Mýdalsár). Kjalnesingasaga áætlar Helga, vinum hans og vandamönnum hins vegar mun stærra svæði eða allt land milli Leiruvogs og Botnsár. Samkvæmt Kjalnesingasögu útdeildi Helgi landinu til skipverja “ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.
Í sögunni eru nefndir þrír bæir í Kjósinni; Þrándarstaðir í Brynjudal, Eilífsdalur og Hækingsdalur í ofanverðum Laxárdal, sem Helgi bjóla útdeildi til skipaverja sinna (sjá kort 2). Það er áhugavert að allar þessar jarðir eru í þröngum dölum langt frá hver annarri í útjaðri Kjósarinnar sem gæti gefið til kynna að Helgi bjóla hafi haldið bestu svæðunum fyrir sjálfan sig og fjölskyldumeðlimi. Bærinn Þrándarstaðir er ekki nefndur aftur í heimildum fyrr en í dómabréfi árið 1509.7 Hækingsdals er einnig getið í Sturlungu og í landamerkjabréfi frá árinu 1270 þar sem merkja milli bæjanna Vindáss og Hækingsdals er getið og kemur þar bæjarnafnið Vindás fram í fyrsta skipti.8 Vindásjörð hefur því greinilega einnig byggst nokkuð snemma. Eilífsdalur er nefndur um 50 árum fyrr, eða um 1220, ímáldaga Saurbæjarkirkju og árið 1478 eru landamerki milli Eilífsdals og Miðdals (Mýdals) nefnd í fornbréfi. Munnmæli eru um að bænhús hafi verið bæði í Hækingsdal og að Þrándarstöðum.
Í Landnámu er sagt frá fjórum aðal landnámsmönnum í Kjósinni; Svartkeli hinum katneska, Hvamm-Þóri, Þorsteini Sölmundarsyni og Valþjófi Örlygssyni. Svartkell nam samkvæmt Landnámu land vestast í Kjósinni frá Miðdalsá að Eilífsá (nú Dælisá og Bugða). Á hann að hafa búið fyrst að Kiðafelli en flutt síðar norðaustur fyrir Eyrarfjall að kirkjujörðinni (Hvalfjarðar-) Eyri).

Kjós

Kjós – bæir.

Heimildir eru annars þöglar um Kiðafell fyrr en komið er fram til um 1700 en Eyrar er næst getið árið 1198 í Sturlungu og Eyrarkirkja er einnig nefnd í kirknaskrá Páls þegar um 1200 og máldaga Saurbæjarkirkju um 1220.11 Meintur flutningur Svartkels frá Kiðafelli til Eyrar þar sem er betra undirlendi norðaustan og austan undir Eyrarfjalli gæti einfaldlega verið til marks um að landgæði hafi þótt betri þar, sér í lagi þegar fram liðu stundir, en undirlendi við bæjarstæði Kiðafels, suðvestan við Eyrarfjall, er takmarkað þar sem bærinn stendur nokkuð hátt í fjallshlíð stutt frá Miðdalsá og strönd Hvalfjarðar.

Kjós

Kjós-bæir.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi samkvæmt Landnámu. Í Sturlungu er Hvammur orðinn að stórbýli árið 1237 og er útkirkja nefnd þar í Hítardalsbók um 1367. Í Harðar sögu er sagt frá því þegar Ormur sonur Hvamm-Þóris gefur Bolla þræl sínum land að Bollastöðum. Bollastaða er annars ekki getið í heimildum fyrr en í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 þar sem jörðin er talin upp sem eyðibýli. Mannvistarleifar sem gætu verið leifar af bænum eru rétt austan við landamerkin milli Valdastaða og Neðri-Háls á landsvæði innan landnáms Hvamm-Þóris.
Þorsteinn Sölmundarson nam samkvæmt Landnámu land í Brynjudal milli Bláskeggsár og Fossár en ekki er ljóst hvar hann bjó. Hann átti son sem Refur hét og talinn er hafa búið að Múla (GK-357:008) eða á Stykkisvöllum í Brynjudal (Gullhlaðsvöllum) og gæti faðir hans hafa búið á svipuðum slóðum. Þó er ekki útilokað að hann hafi búið í norðanverðum Botnsdal eða jafnvel enn norðvestar í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Múla er annars getið í máldaga Reynivallakirkju árið 135216 en bærinn var fluttur að Skorhaga um eða fyrir 1600 þegar skriður grafa eldra bæjarstæði að mestu.

Meðalfellsvatn - skilti

Meðalfellsvatn – skilti.

Í Kjalnesinga sögu er sagt frá kristnum Íra að nafni Örlygur sem kom til Íslands með konu og uppkomnum syni. Samkvæmt sögunni fékk Örlygur land hjá Helga bjólu frænda sínum, reisir bæ og kirkju að Esjubergi og býr á jörðinni til æviloka. Samkvæmt Landnámu nam Valþjófur sonur Örlygs “Kjós alla” og bjó að Meðalfelli við Meðalfellsvatn. Trúlega er þar átt við landsvæðið sem afmarkast af landnámi Svartkels að vestan og Hvamm-Þóris að norðan og austan, milli Eilífsár og Laxár suður að Esju og Skálafelli. Kirkjan að Meðalfelli er nefnd í kirknaskrá Páls um 1200. Innan þessa landsvæðis eru einnig Möðruvellir þar sem Valbrandur sonur Valþjófs er sagður hafa byggt fyrst en hann bjó þar árið 1198 samkvæmt Sturlungu.
Landnám Örlygs á Kjalarnesi og Valþjófs sonar hans í Kjósinni gefur til kynna að Helgi bjóla hafi sannarlega haft einhver yfirráð yfir landsvæðum í Kjósinni líkt og Kjalnesinga saga greinir frá þótt Landnáma taki ekki beint undir það. Valþjófi hefur trúlega verið úthlutað landsvæði fyrir sína fjölskyldu og vini um leið og föður hans þar sem hann kom til landsins fulltíða. Þeir sem námu fyrst land í Kjósinni hafa því flestir trúlega haft einhver tengsl við Helga bjólu og fjölskyldu hans og fylgt þeim að málum. Því til stuðnings má t.d. nefna frásögn í Kjalnesinga sögu sem greinir frá því þegar Búi Andríðarson erfir eigur tengdaföður síns Þorgríms goða Helgasonar bjólu. Þar segir m.a.: “Tók þá Búi við mannaforræði. Hafði hann allt út at Nýjahrauni ok inn til Botnsár,“ sem gefur til kynna að stuðnings- og venslamenn fjölskyldunnar hafi verið til staðar a.m.k. norður í Botnsdal.
Aðrir bæir í Kjósarhreppi sem nefndir eru í elstu heimildum er bærinn Valdastaðir sem nefndur er í Sturlungu árið 1237 og í fornbréfum frá 1352. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni en staðsetning þess er óþekkt. 22 Ekki er ljóst hvort Valdastaðir byggjast úr landi Bollastaða, á svipuðum tíma og jörðin Neðri-Háls eða úr óskiptu landi Hvamms.
Bollastaðatóftir eru h.u.b. á merkjum Neðra-Háls og Valdastaða og gætu jarðirnar hafa byggst úr landareign Bollastaða eftir að jörðin leggst í eyði.

Kjós

Kjós – bæir.

Kuml eru talin góð sönnun fyrir byggð á 10. öld en engin slík hafa enn fundist í Kjósarhreppi. Sú kenning hefur verið sett fram að skýringar kumlaleysisins gæti a.m.k. að hluta verið að leita í háu hlutfalli kristinna landnáms- manna á svæðinu en slíkar hugmyndir hafa ekki verið rannsakað neitt frekar.
Dreifing kirkna og bænhúsa á miðöldum getur einnig gefið mikilvægar vísbendingar um byggðasögu. Slík hús voru víða á bæjum fyrir siðaskipti og talið er að flest slík hús hafi verið reist í heimagrafreitum um eða stuttu eftir kristnitöku í byrjun 11. aldar. Gera má ráð fyrir að þeir bæir sem nefndir eru í kirknaskrá Páls um 1200 hafa mjög líklega verið sjálfstæðar jarðir í byrjun 11. aldar. Samkvæmt máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá 1220 voru sóknarmörk kirkjunnar á miðöldum um Eilífsá og tíundir lögðust til kirkjunnar af öllum jörðum vestan við ána nema af Eyri og Miðdal þar sem einnig voru kirkjur. Hálfkirkja var að Eyjum en hennar er getið fyrst í máldaga frá 1180. Miðdalur hefur trúlega byggst út úr landnámi Svartkels en Eyjar út úr landnámi Valþjófs en báðar jarðirnar hafa trúlega verið komnar í byggð snemma á 11.öld, ef ekki fyrr. Örlygur faðir Valþjófs var í Kjalnesingasögu sagður kristinn þegar hann kom til Íslands og líklegast hefur Valþjófur sonur hans verið það einnig. Því er ekki útilokað að kirkjan að Meðalfelli hafi verið reist áður en kristni var lögtekin. Kirkjur voru einnig að Reynivöllum og á Ingunnarstöðum strax um 1180 samkvæmt máldögum.
Báðar jarðir hafa greinilega orðið til snemma. Reynivellir hafa trúlega byggst út úr landnámi Hvamm-Þóris á meðan Ingunnarstaðir gætu hafa byggst úr landi Múla í landnámi Þorsteins.
Auk þeirra kirkna og bænhúsa sem þegar hafa verið nefnd eru munnmæli um bænhús nefnd í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1705, á bæjunum Neðri-Hálsi (Stóri Háls og Írafelli en nákvæm staðsetning þeirra er óþekkt. Hafi bænhús verið á þessum jörðum styrkir það hugmyndir um að þessir bæir hafi verið komnir í byggð um eða stuttu eftir kristnitöku. Þeir hafa þá byggst úr landnámi Hvamm-Þóris (Háls) og Valþjófs (Írafell). Þess ber reyndar að geta að hvorugs bæjar er að nokkru getið í elstu heimildum. Neðri-Háls er fyrst getið í heimild frá um 1468 og Írafell virðist hvergi nefnt fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar.

Kjós

Kjós – fornleifar.

Samkvæmt Svavari Sigurðssyni eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Ekki er útilokað að Neðri-Háls hafi í fyrstu aðeins heitið Háls eftir Reynivallahálsi en fengið á sig forliðinn Stóri-/Neðri- eftir að Efri-Háls byggðist (e-ð fyrir 1468?) mun ofar í Laxárdalnum undir Skálafellshálsi. Algengustu ósamsettu liðir í bæjarnöfnum Landnámu eru Fell, Dalur, Holt, Nes, Vík, Hóll, Á og Eyri og eru náttúrunafnaendingar einnig nokkuð algengar. Samkvæmt þessu gæti Írafell verið nokkuð gamalt bæjarnafn. Írar koma sannarlega við sögu í Landnámu og ekki er útilokað að Írafell dragi nafn af þeim sem þar reisti fyrstur bær.
Af þessum upplýsingum hér að ofan er greinilegt að mörg af bestu landsvæðum Kjósarinnar voru komin í byggð fljótlega eftir landnám. Vitað er um a.m.k. fjóra aðra bæi (Þúfa, Sogn, Hurðarbak og Káranes) sem samkvæmt heimildum hafa verið komnir í byggð fyrir lok 14. aldar en annarra jarða er ekki getið fyrr en síðar. Margar þeirra gætu þó vel hafa verið komnar í byggð á miðöldum, ef ekki fyrr, þó heimildir um það séu af skornum skammti.
Úr landnámi Svartkels hafa byggst jarðirnar Morastaðir, Útskálahamar, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes. Þúfa er nefnd fyrst í jarðabréfum frá 1352/1397. Eins og áður sagði eru bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu svo ekki er útilokað að Þúfa hafi verið byggð snemma út úr Eyrarlandi. Það sama mætti hugsanlega líka segja um Bæ því þó nafnið sé ekki náttúrunafn er það einfalt og ósamsett. Jarðarinnar er þó ekki getið í heimildum fyrr en um 1508. Báðir bæirnir eru í Kjósardal austan og suðaustan undir Eyrarfjalli og eru ágætis jarðnæði. Svipaða sögu er að segja um bæina Blönduholt og Laxárnes milli Bugðu og Hvalfjarðarstrandar, fast suðvestan við ósa Laxár. Laxárness er fyrst getið í sölubréfi árið 1483 en Blönduholts í jarðabréfum árið 1616. Allar þessar jarðir teljast meðalstórar (16-20 hdr) og hafa því líklegast flestar byggst út úr Eyrarlandi eftir landnám, en í hvaða röð það hefur gerst er ómögulegt að segja. Að lokum má svo nefna bæina Morastaði og Úskálahamar sem fyrst eru nefndir í heimildum í byrjun 18. aldar. Morastaðir hafa mjög líklega verið byggðir úr landi Kiðafells eða Miðdals en hvenær það hefur gerst er óljóst. Bæjarnöfn með endinguna –staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Útskálahamar hefur trúlega byggst seint úr landi Kiðafells eða Eyrar enda er bæjarstæðið fremur slæmt, á strönd Hvalfjarðar norðvestan undir Eyrarfjalli þar sem undirlendi er af nokkuð skornum skammti.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Líklegt er að Flekkudalsjarðir sem upphaflega voru líklega ein jörð, hafi upphaflega byggst úr landnámi Valþjófs Örlygssonar frá Meðalfelli við mynni Flekkudals sunnan við Meðalfellsvatn. Svipaða sögu er að segja um Þorláksstaði, Hurðarbak og Káranes og loks Sogn (eða Sofn), Sand og Fremri-Háls (Litli-Háls). Flekkudalsbæjar er fyrst getið í sölubréfi frá árinu 1483. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 eru bæirnir orðnir tveir en þeir voru þó ætíð taldir saman (40 hdr) fram til ársins 1802. Jörðin Sandur er einnig sunnan undir Meðalfellsvatni og vestan við Sandsá líkt og Flekkudalsbæirnir en jörðin er fyrst nefnd í heimildum árið 1687 og þá metin á 10 hdr. Ef sett er fram sú tilgáta að jörðin Sandur hafi á einhverjum tímapunkti verið byggð úr landi Flekkudals hefur jörðin upphaflega verið 50 hdr jörð sem myndi þýða að hún hefði verið með dýrustu jörðum í Kjós og mætti ætla að hefði komist mjög snemma í byggð. Bæjarnafnið Sandur gefur til kynna að bærinn gæti tilheyri elsta búsetustigi á svæðinu.

Vindás

Vindás.

Bæirnir Hurðarbak og Káranes eru báðir nefndir í máldaga Meðalfellskirkju árið 1397. Þeir eru h.u.b. hlið við hlið á suðurbakka Laxár norðan undir Meðalfelli ásamt Þorláksstöðum austan við Þorláksstaðaás. Þorláksstaðir eru taldir hafa verið komnir í byggð eitthvað fyrir 1640 en –staðar endingin gæti þó jafnvel gefið til kynna að bærinn verði til á seinni stigum landnáms. Káranes samkvæmt Jarðabók Árna og Páls dýrasta jörðin af þessum þremur, metin á 30 hdr, en hinar eru metnar á 20 hdr. Ekki er útilokað að í upphafi hafi aðeins ein jörð verið á þessu svæði sem afmarkað er af Bugðu í vestri, Laxá í norðri og austri og Meðalfelli í suðri. Einhvern tíman á fyrstu öldum má svo gera ráð fyrir að jörðinni hafi verið skipt upp í þrennt, annað hvort í einu eða tveimur þrepum. Sé raunin sú að allt þetta svæði hafi upphaflega tilheyrt sömu jörðinni hefði hún verið um 70 hdr og líklega með fyrstu jörðum í Kjósinni til að byggjast úr landnámi Valþjófs. Ekki er þó hægt að útiloka að að jarðirnar þrjár hafi ætíð verið aðskildar og byggst ein og ein úr landi Meðalfells.
Jörðin Sogn (12 hdr) er nefnd í máldaga Reynivallakirkju árið 1352 sem eign kirkjunnar og hefur jörðin verið byggð eitthvað fyrir þann tíma annað hvort úr landi Reynivalla eða Valdastaða. Fremri Háls (Litli-Háls) er efsti bærinn í Laxárdal og í sjálfri Kjósinni, en hans er ekki minnst í heimildum fyrr en í byrjun 18. aldar.
Staðsetning hans svo langt inni í landi og í þröngum dal mætti túlka sem vísbendingu um að hann byggist fremur seint þegar annað og hentugra jarðnæði var á þrotum, og sannarlega eftir að Neðri- eða Stóri-Háls kom til sögunnar. Hvenær nákvæmlega það ætti að hafa verið er óþekkt.
Jarðirnar Hvítanes og Fossá hafa líklega báðar verið byggðar úr landnámi Hvamm-Þóris norðan Reynistaðaháls, en þeirra beggja er getið nokkuð seint í heimildum. Hvítanes er skráð í erfðabréfi frá árinu 1585 en Fossárbæjar er ekki getið nein staðar svo vitað sé fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar. Nöfn beggja þessa jarða (samsett náttúrunöfn) mætti túlka sem vísbendingu um að þær gætu hafa byggst snemma. Báðar jarðirnar eru meðalstórar (metnar á 16 og 20 hdr 1705) en undirlendi er á báðum stöðum takmarkað og verður því að teljast líklegt er að þær hafi byggst úr landi Hvamms og Þrándarstaða, landsvæðið norðan við Fossána) eftir að aðrar og landbetri jarðir á svæðinu eru komnar í byggð.
Önnur stærri býli og bæir sem voru í byggð í Kjósarhreppi þegar Jarðabók Johnsens er gerð árið 1847eru Káraneskot, Þúfukot, Eyrar-Uppkot og Eyrar-Útkot, Miðdalskot, Meðalfellskot, Eyjahóll, Vesturkot, Hvammsvík og Hrísakot.

Kiðafell

Kiðafell.

Býlin draga oftast nöfn af heimajörðinni ef frá er talið Vesturkot sem byggðist út úr landi Reynivalla og Hrísakot sem byggðist út úr landi Ingunnarstaða. Flest þessara býla eru komin í byggð í byrjun 18. aldar (sjá töflu 1) fyrir utan Miðdalskot sem nefnt er fyrst um 1802. Auk þeirra bæja og býla sem þegar eru upptalin voru skráð um 50 önnur býli, hjáleigur og tómthús í Kjósarhreppi sem þýðir um 1,2 býli á hverja jörð, sem er rétt neðan við gróft meðaltal (1,6) þegar tölurnar eru bornar saman við sjö aðra hreppi sem áður hafa verið skráðir51. Flest eiga býlin það sameiginlegt að hafa verið fremur stutt í byggð. Upplýsingar um þau er að finna í töflu 1 (merktar með gráu) en býlin eru talin upp á eftir lögbýlinu sem þau byggjast frá.
Heimildir um eldri býli eru mjög óljósar en þegar nær dregur aldamótum 1900 fjölgar heimildum. Af bústöðunum 50 voru 20 í byggð á 17. öld eða fyrr, sex í byggð á 18. öld og fyrr og 24 í byggð á einhverjum tímapunkti frá lokum 18. aldar og fram á 20. öld.
Flest býli voru skráð að Eyri, eða átta, en þar af voru fimm tómthúsbýli ásamt býlinu Harðbala frá 19. öld sem líklega hafa tengst útgerð á þessu svæði. Fimm býli voru skráð frá Valdastöðum (sex ef Valdastaðir II eru taldir með) og fjögur frá Meðalfelli. Á flestum jörðum voru aðeins skráð 0-3 býli. Þegar jarðir skráðar með fleiri en eitt býli voru skoðaðar nánar kom í ljós að oftar en ekki virðist aðeins eitt býli (í mesta lagi tvö) hafa verið í byggð á hverri jörð á sama tíma og sjálft lögbýlið.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.

Vindássel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III” – I. bindi, um bæina Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdal, Miðdalskot, Hækingsdal og Vindás.

Káranes
Káranes
20 hdr 1673, Jarðabréf, 19. 20 hdr 1705. Káranes er komið í byggð árið 1705 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en Káraneskot, hjáleiga, virðist ekki í byggð þetta sama ár. Þó er vísbending í texta um að þar sé engu að síður tvíbýli. Þar segir: “Ábúandinn Grímur Magnússon, býr á hálfri. Annar Loftur Bjarnason, býr á hálfri.” JÁM III, 409-410. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: “a xxc j heimalandi. Leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. So gropttur.” DI IV, 115-116. Rjómabú var á jörðinni. Örnefnaskrá, 2. 1705: Landþröng er mikil, og bólgna vötn yfir mestallan haga um vetur, og gjörist því jörðin vetrarþúng í mesta máta.” JÁM III, 410. 1840: “Heyskapur er þar nokkur á bökkum líkt og á hinu kotinu og landslag sama.” SSGK, 258.
Túnakort 1917: Tún 3,7 teigar, garðar 1000 m2 . Allt sléttað.
“Fyrir austan bæjarhúsin er Áarhóll við vað [Höfðavað] á ánni, og svo er hóll heima við bæ, sem heitir Bæjarhóll,” segir í örnefnaskrá. Káranes er um 2 km austan við Laxárnes, um 1,8 km NNA við Meðalfell og um 300 m suðvestan við Laxá. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var gamli bærinn fast SSV við núverandi íbúðarhús 2010).
Káranes var byggt úr landi Meðalfells. Káranesbær er í Túnakort Káraness og Káraneskots frá árinu 1917 í miðjum Laxárdal á lágu holti sem stendur 2-10 m upp úr mýrinni og snýr NNA-SSV.
Á bæjarhólnum er íbúðarhús sem byggt var 1965-1967 og sléttað tún. “Hann [Hestgangur] var sunnan við gamla íbúðarhúsið, sem var sunnan við núverandi íbúðarhús,” segir í svörum við spurningum um örnefnaskrá. Í grein eftir Halldór Jónsson um Jón Halldórsson í Káranesi segir m.a.: “Íbúðarhús 10×12 al. með veggjum að hálfu leyti steyptum og að hálfu leyti úr timbri, járnvarið með kjallara undir (einlyft),”. Bæjarhóll Káraness er um 40 m á lengd, um 20 m á breidd, 1-3 m á hæð og snýr NNA-SSV. Hóllinn er að mestu sléttað grasigróið tún/lóð umhverfis núverandi íbúðarhús. Útihús voru nyrst í bæjarröðinni og hestgangur syðst.

Káranes

Laxá í Kjos, Káranes og Káraneskot.

Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1965-1967 og stendur á miðjum hólnum þar sem útihús voru áður. Þegar húsið var byggt komu í ljós í grunni þess gólfskánir og hleðslur eldri bæjar. Ekki virðist vera kjallari undir nýja húsinu. Á meðan verið var að byggja nýja húsið stóð gamli bærinn fast sunnan við það. Gamli bærinn var svo rifinn árið 1968 en grunnur hans finnst enn undir sverði. Gamli bærinn var byggður um 1896 og lá bæjarröðin NNA-SSV með framhlið til VNV. Bærinn var timburhús með hlöðnum kjallara en seinna voru steyptir veggir utan um bæinn. Húsið var um 60 m2 að flatarmáli á þremur hæðum þ.e. Kjallari, jarðhæð og ris.
Þegar bærinn var rifinn voru lítil eldiviðargeymsla og smíðaskúr áföst honum að norðanverðu (sem höfðu verið byggð við húsið eftir 1896). Gengið var um aðalinngang til austurs inn í eldiviðargeymsluna. Þegar inn var komið var gengið til hægri inn í bæinn sjálfan til suðurs. Framdyr og kjallaratröppur voru hlið við hlið vestarlega á norðurhlið bæjarins. Tröppur voru vestar og dyr inn á gang á jarðhæð austar. Þegar Pétur Lárusson, bóndi í Káranesi, man fyrst eftir sér voru þrjú herbergi í kjallara. Kartöflugeymsla, þvottahús og mjölgeymsla. Mjölgeymslan varð seinna baðherbergi. Á tímabili var einnig olíukynding í kjallaranum. Á jarðhæð voru tvö herbergi til vesturs og eldhús og stofa til austurs. Gangur var á milli eldhúss og nyrðra herbergis og herbergjanna tveggja. Þar var gengið upp í ris. Í risinu voru geymsluloft og eitt svefnherbergi. Eina loftræstingin í húsinu voru litlar túður í veggjunum sem fylltar voru með tuskum á vetrum.

Káraneskot
Hjáleiga Káraness, ekki í byggð árið 1705 þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skrifuð. JÁM III, 409. Í Jarðabók Johnsens frá 1847 er Káraneskot skráð sem hjáleiga. Þar segir í neðanmálsgrein. “Sýslumaður skiptir dýrleikanum jafnt niður á milli Káraness og kotsins, 10 h.á hvoru.” JJ, 99. 1840: “… niður á flatlendi, á flötum hávaða við lítið seg; hefir allsæmilegan heyskap og mýrlendi til beitar, ekki mikið.” segir í Sýslu- og sóknalýsingum Gullbringu- og Kjósasýslna. SSGK, 257.
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Káraneskot um 290 m SSV við Káranes. Það var nálægt því sem núverandi íbúðarhús í Káraneskoti stendur, um 280 m SSV við Káranes. Á þessu svæði er nýlegt íbúðarhús ásamt umfangsmiklum útihúsum og malarplani fast norðan við íbúðarhúsið. Sunnan við íbúðarhúsið er sléttað tún.
Enginn greinilegur bæjarhóll er sjáanlegur á svæðinu vegna bygginga, sléttunar og trjágróðurs. Samkvæmt Pétri Lárussyni heimildamanni stóð eldri torfbær á svipuðum stað og yngra steinsteypt hús sem byggt var um 1930. Í steinhúsinu var kjallari, jarðhæð og ris en fjósið og hlaðan voru stakstæð og byggð úr torfi og grjóti. Þessi hús voru rifin á seinni hluta 20. aldar þegar núverandi hús voru byggð. Samkvæmt túnakorti virðist svæðið sem torfbærinn stóð á vera um 40×40 m að stærð. Bærinn sjálfur var um 22 m á lengd, um 10 m á breidd og snéri austur-vestur. Um fimm hús/rými virðast hafa verið í gamla bænum en nákvæmt hlutverk þeirra er óþekkt. Ekki er alveg ljóst hversu lengi hefur verið búið í Káraneskoti en hugsanlega hefur byggð ekki verið það lengi á þessum stað að náðst hafi að byggjast upp greinilegur bæjarhóll.

Laxárnes
Laxárnes
16 hdr 1705. Laxveiði góð árið 1705, þá sagt að áður hafi selveiði verið til hlunninda.
1483: Jarðarinnar er getið í sölubréfi. DI V, 800. 1507: Jarðarinnar er getið í dómabréfi, þá virðist jörðin vera í Saurbæjarkirkjusókn. DI VIII, 146.
Flóakot: Hjáleiga í byggð fyrir 1685 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Í bókinni Kjósarmenn segir frá því er kotið er aftur byggt upp um 1861 og var í byggð til 1870. Þar hefur ekki verið búið síðan. JÁM III, 398; Kjósarmenn, 451.
Melkot: Hjáleiga frá 1843-1849 og frá 1864-1882. Kjósarmenn, 444. HÞ telur Laxárnes réttara en Laxanes. HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”.
Árbók 1923, 34. 1705: “Engjar eru öngvar, so annarstaðar þarf til að kaupa ut supra.” JÁM III, 398. Túnakort 1917: Tún 3,8 teigar, allt sléttað, garðar 820 m2.
“Móinn við voginn er kargþýfður, kafloðinn með háum bökkum við sjó, og brotnað því nokkuð. Mjóst er orðið milli bakkans og vestur túnsins við garðlagshornið um 16 metra. Þaðan norður eftir er túnefnið mikið og gott. Túnið alt afgirt.”
Bærinn Laxárnes var um 2 km vestan við Káranes, um 200 m norðvestan og neðan við Hvalfjarðarveg 47 og um 50 m NNA við Sauðhól þar sem nú (2010) eru mikil steinsteypt útihús. Í bókinni Ljósmyndir segir svo: “Hús voru mjög ljeleg á jörðinni, er Ingvar [Bjarni Ingvar Jónsson] tók við [1928]. Kom hann sjer upp íbúðarhúsi úr timbri, steinsteypta heyhlöðu væna með áföstu fjósi, og
eina steinsteypta votheyshlöðu reisti hann. Enn fremur hefir hann byggt litla heyhlöðu við fjárhús með veggjum úr torfi og grjóti og með járnþaki. Kom þessi hlaða í stað lítillar og mjög lélegrar
heyhlöðu, er þar var áður.” Á því svæði sem gamli bærinn stóð eru slétt malarplan, gamalt timburhús frá 1934 og umfangsmikil steinsteypt útihús með bárujárnsþaki. Ekkert sést til bæjarhóls vegna sléttunar og þeirra miklu útihúsa sem risu árið 1977.
Laxárnes er ekki lengur í byggð en landið er nýtt fyrir hrossabeit. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var hefðbundnum kúabúskap hætt í Laxárnesi í kring um 1980 en jörðin er enn leigð út og landið vel nýtt.

Melkot

Melkot

Melkot – tóftir.

Í Jarðabók Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: “Prestur nefnir Melkot, sem nýbýli, en þareð þess hvorki er getið 1802 né af sýslumanni, er því hér sleppt.” Melkot er einnig nefnt í örnefnaskrá Laxárness: “Eftir holtinu liggur nýr vegur. Suður af austurenda þess við Skorá eru rústir eftir Melkot, og þar aðeins neðar með ánni er hvammur, sem oft var matazt í á engjum. Hann heitir Matarbolli.” Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Í Saurbæjarsókn í Laxárnesslandi voru áður fyrr bæirnir Flóakot [010] og Melkot, hvorttveggja þurrabúðir.” Í Kjósarmenn segir um Melkot: “Árni Jónsson og kona hans Guðrún Einarsdóttir bjuggu í Melkoti, húsmannsbæ í Blönduholtslandi, 1843-49. […] Guðmundur [Guðmundsson] bjó í Melkoti 1864-82, en fluttist síðan til Reykjavíkur […].” Samkvæmt Kjósamönnum var Melkot í Blönduholtslandi en þar sem það er allsstaðar annarsstaðar talið með Laxárnesi er þetta líklegast bara villa. Það er um 1,4 km sunnan við Laxárnesbæ, um 80 m austan við Skorá og um 400 m suðvestan við Meðalfellsveg. Melkot var byggt á 1-3 m háu grasigrónu holti á austurbakka Skorár sem liggur norðaustursuðvestur. Fast norðaustan við holtið eru 5-6 samsíða skurðir og tún sem liggja norðvestur-suðaustur.

Mýdalur (Miðdalur)
Miðdalur
40 hdr 1705. Í Jarðabókinni frá 1705 er jörðin samanlagt metin á 40 hdr en henni var skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæjir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Einnig er getið um eyðihjáleigu á bænum sem ekki er vitað hvar var.
JÁM III, 385-389. Kirkjunnar 002 í Mýdal er fyrst getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1220: “[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund.” DI I 402. Varðveist hefur máldagi kirkjunnar frá því um haustið 1269: “Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina.” DI II, 64. Kirkjunnar er enn getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1315: “[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd” DI III, 32. Í máldaga kirkjunnar frá um 1367 segir að krikjan eigi: “xc j lande og viij ær,” DI III, 219. Í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1379 segir: ” [til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal,” DI III, 342. 1397:
Kirkjan er nefnd í máldaga Saurbæjarkirkju, DI IV, 114-115. 1397: “a xc j landi Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna.lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur.” DI IV, 115. 1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1491-1518]: Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru.” DI VII, 54. Jörðin átti uppsátursítak í landi Mela nálægt Kiðafellsárós. Konungur átti 6 hdr af jörðinni sem var árið 1847 metin á 36 hdr. JJ, 100. “Mýrdalskot [GK-333:001] er fyrst nefnt 1802, en áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðunni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg. … Annars segir þar, að eyðijörðin “Efri-Mýdalur” sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.” JJnm, 100. Jörðin heitir nú Miðdalur. Mýdalskot hjáleiga, lögð undir Mýdal. HÞ telur Mýdalsnafnið réttast: HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: “Tún, engjar og hagar eru sífeldum skriðum undir orpnar, sem árlega spilla, og er jafnan fyrir því hætt, jafnvel heygörðum og fjósum þeirra Sölmundar og Guðlaugs. … Engjar eru annars litlar mjög, snöggvar og grýttar. Landþröng er mikil. Hætt er fyrir snjóflóðum og foruðum.” JÁM III, 388. 1917: Tún 3,3 teigar, garðar 550m2. Mestallt tún á Miðdal er slétt.

Miðdalur

Miðdalur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er Miðdalur metinn á 40 hdr árið 1705. Þar segir m.a.: “Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; fjórða stendur í túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Mïdalskot.” Gamli bærinn í Miðdal sem merktur er inn á túnakort frá 1917 stóð 10-15 m norðan við íbúðarhúsið sem byggt var árið 1921 sem stendur enn sem hluti af fjósi og um 30 m ASA við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinnihluta 20. aldar. Bærinn stóð um 5 m
austan við íbúðarhúsið frá 1921 þar sem hlaðan stendur núna.
Nákvæm staðsetning bæjanna sem stóðu þétt saman samkvæmt Jarðabók Árna og Páls er óþekkt en líklegast hafa þeir staðið á svipuðum stað og bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1917. Á þessu svæði er nýtt hátæknifjós, hlaða og sléttað malarplan. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: “Þegar Guðmundur Brynjólfsson kemur að Miðdal [1921], kaupir hann jörðina og einnig Miðdalskot fyrir kr. 7000,00 og fylgdu kaupunum sex ær og ein kýr. Á báðum býlum var eiginlega allt í rústum og öll hús að kalla mátti komin að falli. … Hann reisti allstórt íbúðarhús úr steinsteypu með áfastri steinsteyptri heyhlöðu og tveim litlum votheysgryfjum steyptum, fjós yfir tuttugu gripi og áburðarkjallara undir fjósinu, ennfremur byggði hann litla fjárhúshlöðu og aðra hlöðu rjett við bæjarhúsin, en þessar hlöður og tilheyrandi gripahús byggði hann með veggjum úr torfi og grjóti með járnþökum.”
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var svæðið sem bærinn og aðrar tengdar byggingar og garðar stóðu á um 50×40 m stórt og snéri VNV-ASA. Ekkert sést til bæjarhóls vegna framkvæmda á 20. öld. Ekki er þó útilokað að einhverjar mannvistarleifar leynist enn undir sverði VNV við núverandi útihús og undir þeim eldri sem byggð voru um eða eftir 1921 norðarlega á bæjarstæðinu.

Hálfkirkja

Miðdalur

Miðdalur.

Heimild er um hálfkirkju að Miðdal. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: “Hjer hefur áður hálfkirkja verið, og er hún aflögð fyrir löngu, so sjötigir menn minnast valla að húsið var uppi, og þó voru tíðir löngu fyr aflagðar.” Í örnefnaskrá segir: “Brekka beint upp af bæ heitir Kirkjubrekka.” Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: “Kirkjubrekka: Eitt sinn var kirkja í Miðdal. Ef til vill hefur hún staðið undir þessari brekku. Ekki er vitað um grafreiti í Miðdal, nema að einn maður er jarðaður í þessari brekku. Grímur man eftir þúfu sem sagt var leiði þessa manns.” Nákvæm staðsetning hálfkirkjunnar og leiðisins er óþekkt en líklegast var kirkjan heima við bæ. Kirkjubrekka er um 100 m NNA við bæjarstæði og þó nokkuð ofarlega í hlíðinni ofan við bæ svo ekki er líklegt að brekkan tengist kirkjunni beint þó sjálft örnefnið tengist henni óneitanlega. Kirkjubrekka er vel grasigróin, nokkuð slétt og hallar í 5-20° til suðvestur.
MÝ(R)DALUR Á KJALARNESI (K) – Maríu (SAURBÆJARÞING) – HÁLFKIRKJA [um 1220]: “[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua Þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund,”. Máld DI I 402 [Saurbæjar]. [haustið 1269]: “Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina. Þar skal syngia annan hvern dag loghelgan. Ok enn fiorda hvern ottv song og kavpa .xviij. Avrum ad presti ur savrbæ og skal heima týund allra heima manna Lysa skal fyrer loghelga daga fra mariv messv. Vnz lidr paska vikv,”. Máld DI II 64. [1315]: “[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd,”. Máld DI III 32 [Saurbæjar].
[1367]: “xlvi. Mariukirkia j Mydal a xc j lande og viij ær. Les Vilchinsbok. Vtann hier stendur suo. Skal lukazt atian aurar j tijdaoffur preste j Saurbæ. Annad ber saman,”. Hítardalsbók DI III 219. [1379]: “[til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal ef þar bua landeigendur. Þa skulu þeir taka sina tijund heima og allra hiona sinna,”. Máld DI III 342, Máld DI IX 17 [Saurbæjar]. 1397: [sbr [1379]]; Máld DI IV 114-115 [Saurbæjar]. 1397: “a xc j landi. Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna. Lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur,”. Máld DI IV 115. [1491-1518]: “Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru. Þar skal syngia annan huern dag helgan og hinn fiorda huern ottusaung. Xvij avrar skulu lukast j tidaoffur og skal heima tkast tiund heimamanna. Lysa skal fyrir laughelga messudaga,”. Máld DI VII, 54 [AM 238 4to, bl. 133 (Bessastaðabók)].
1575: Gíslamáldagi. “Hälfkirkian i Mijdal.ä xc.i heimalande. Jtem iiij mälnijtu kugilldj. Jtem lijtel klucka. Jørdenn xxxc. Lausagötz xxxjc.” DI XV, 634. {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. Bl. 63, 64}. Heimild óljós. Í Kirkjubrekku eru tvær þústir og óljósar leifar, hugsanlega garður. Ólíklegt er þó að umræddar leifar séu af hálfkirkjunni enda staðsetningin ólíkleg vegna mikils halla í brekkunni og fjarlægðar frá bæjarstæði.

Efri-Mýdalur
Í Jarðatali Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: “Annars segir þar, að eyðijörðin “Efri-Mýdalur” sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.” Efri-Miðdals er Fjárhústóft GK-332:006, horft til suðurs ekki getið með þessu nafni í öðrum heimildum, hvorki í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 eða í yngri heimildum og hefur því hugsanlega aðeins verið í byggð um stutt skeið. Þó er talað um í Jarðabók Árna og Páls að Miðdalsjörðinni sé skipt í fjögur býli og að þrír aðskildir bæir séu allir á svipuðum stað. Ekki er ólíklegt að Efri-Mýdalur hafi verið einn að þessum bæjum. Ekkert er lengur vitað um hvar eyðibýlið stóð og hvorki eru þekkt örnefni sem gætu gefið vísbendingar um staðsetninguna né heldur eru rústir innan Miðdals sem gætu bent til bústaðar. Ekkert sést til fornleifa.

Helguhóll (huldufólksbústaður)

Helguhóll

Helguhóll í Miðdal.

“Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll,” segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá segir að huldufólk hafi búið í Helguhól. Helguhóll er náttúruleg klettastrýta í sunnanverðum Miðdal, um 1,4 km sunnan við bæ og um 930 m SSV við Grjótstekk. Strýtan er mjög greinileg neðarlega í fjallshlíð Tindstaðahnúks. Hún er um 100x 50 m stór, 10-20 m há og snýr norðaustur-suðvestur. Toppur hennar er ógróinn. Á þessu svæði er fjallshlíðin vel grasigróin og mýrlend og hallar í 10-30° til norðaustur.

Mýdalskot

Miðdalskot

Miðdalskot.

1705, er Mýrdal (GK-332) skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Konungur átti 6 hdr af jörðinni. 1847: Hjáleiga Mýdals GK-332. “Mýrdalskot … áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðinni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg.” JJnm, 100.
1917: Meirihluti túna í kotinu er slétt.
Miðdalskot var um 100 m VSV við eldri Miðdalsbæ sem byggður var fyrir 1921 og um 80 m suðvestan við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinni hluta 20. aldar. Um kotið segir svo í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson sem gefin var út árið 1953: “Baðstofa og bæjarhús öll voru með afbrigðum ljeleg í Miðdalskoti og allt í rauninni að falli komið, er þessi hjón [Gestur Bjarnason og Guðrún Stefánsdóttir] fóru þaðan, vorið 1921. Vorið 1921 var svo Miðdalskotið sameinað Miðdalnum …” Á þessu svæði er sléttað tún og liggur Eyrarfjallsvegur að Eilífsdal ANA við túnið. Engar leifar Miðdalskots sjást lengur og engar leifar í heimatúni þess. Ekki er ólíklegt að mannvistarleifar kunni að leynast undir sverði. Samkvæmt túnakorti voru um 8 hólf/hús í bæjarröðinni sem var um 30 x 20 m stór og snéri norðvestur-suðaustur. Trúlega hefur verið gengið inn í bæ að suðvestan.

Hækíngsdalur
Hækingsdalur
30 hdr. 1705. Bænhús var á jörðinni. Eyðihjáleigur tvær 1705, Sauðhús og Háamýri. JÁM III, 419-422. Bændaeign. 30 hdr. 1847. JJ, 100. 1237: Í Sturlungasögu er getið um mann úr Hækingsdal. Sturlunga saga I, 405 og 407. Varðveist hefur landamerkjabréf Vindáss GK-347:001 frá því um 1270 þar sem getið er merkja milli Vindáss og Hækingsdals. DI II, 81-82. Samkvæmt Hannesi Þorsteinssyni er Hækingsdallur réttnefni. “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”.
Árbók 1923, 34. 1705: “Túnunum hverutveggjum spillir skriða og snjóflóð, og er fyrir því árlegur háski, kostar og oft erfiði af að moka. Enginu spillir ogso skriða.” JÁM III,
421. 1840: “… Þar er heyskapur nokkur, en beitiland arðgott, einkum á sumrum og landrými …”Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 256.
Gamli bærinn í Hækingsdal var nálega þar sem íbúðarhúsið á jörðinni stendur nú. Gamli bærinn var þó örlítið vestar, þ.e. austasti hluti hans var við vesturjaðar íbúðarhúss og náði til vesturs, milli þess og útihúss sem nú hefur verið rifið. Greinilegur bæjarhóll er að sunnan og vestan. Aðrar hliðar hans fjara út inn í landslagið.
Bæjarhóllinn er 50 X 30 m að stærð og 1-1,5 m á hæð. Hann snýr norðvestur-suðaustur. Grunnur núverandi íbúðarhúss var grafinn ofan í bæjarhólinn að hluta til og nú (2003) er að mestu bara hlað og grasflöt þar sem gamli bærinn stóð.
Gamli bærinn var burstabær með fjórum burstum. Vestasta burstin var rifin um 1950 en fram að því var búið í gamla bænum. Umrædd burst var rifin þegar útihús var byggt vestan bæjar en hinar burstirnar þrjár stóðu lengi. Kjallari var undir 2 burstunum. Fjós var sambyggt bæ að aftan austast. Innangengt var í það úr bæjargöngunum. Árið 1976 var teiknuð upp afstöðumynd af túninu í Hækingsdal eftir tilsögn Hannesar Guðbrandssonar. Þar er teiknuð mynd af bænum. Austast var fjós og fast fram af því Reykkofi (gamalt eldhús), vestan við fjósið kom skemma, svo búr, þá gangur stofa og eldhús. Vestast var skúr og síðan lítið sund svo mókofi og fjóshlaða fast við bæinn.

Selflatir (sel)

Selflatir

Sel við Selflatir.

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi góða, þar sem heita Selsvellir á Geitahlíð.” Í örnefnaskrá segir m.a.: “Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km frá bænum.” Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar um Hækingsdal segir einnig: “Eitt sel enn er í suðaustur frá bæjardyrunum í Hækingsdal. Það sel tilheyrði Hækingsdal, það stendur á Selflötum vestan undir Brattafjalli í Kjósarskarði.”
Selflatir eru 20-30 m austan við Laxá í norðvesturhlíð Brattafells um 3,7 km SSV við Hækingsdal. Selflatir eru grasigróin fjallshlíð og fjallsrætur Brattafells austan við Laxá upp af Þórufossi. Brekkan hallar 5-30° í VNV.
Samkvæmt Guðbrandi Hannessyni, heimildamanni, er selið horfið undir skriður. Engar tóftir eða líklegar þústir sjást á Selflötum eða í nágrenni þeirra norðan við Brattafellsgilslæk. Innst inni í Brattafellsgilinu gætu þó verið leifar fast undir suðurbrún gilsins á suðurbakka Brattafellsgilslækjar á svæði sem er um 14×10 m að flatarmáli. Þar er hugsanlega lítil rétt eða aðhald, sem nú (2011) er fullt af jarðvegi. Brúnin hallar 50-80° í norðvestur. Þar er lítið annað en óljós ferköntuð dæld sem er um 4×1,5-2 m að innanmáli og 0,2-0,5 m á dýpt, með hugsanlegum grjóthleðslum í köntum. Um 4 m norðar á suðurbakka Brattafellsgilslækjar er 0,2-0,5 m há þýfð og ávöl þúst B sem er um 8×7 m að flatarmáli. Ekki er útilokað að fornleifar finnist undir sverði en þó gæti einnig verið aðeins um náttúrumyndun að ræða. Í grasinu glittir víða í grjót en engar greinilegar vegghleðslur.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel ofan Blautaflóa.

“Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Norðaustan og upp af Blautaflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs.
Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í grjót.

Vindás
Vindás
20 hdr 1705. Bústaður sóknarprests í Kjós gefin af kóngi eftir að bærinn að Reynivöllum eyðilagðist í skriðum og snjólflóði árið 1664. JÁM III, 422-423.
Varðveist hefur landamerkjabréf jarðarinnar frá því um 1270. Um landamerki milli Vindáss og Reynivalla annarsvegar og Vindáss og Hækingsdals hinsvegar. DI II, 81-82. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja skjólgarð GK-347:034 í landi jarðarinnar ásamt kastar skurði GK-347:011. (DI III 70-71, DI IV, 116-117, DI VI,
178-79). 1705: “Engjar eru nær öngvar, sem þessari jörðu fylgdi áður hún var prestunum gefin, og brúkar því presturinn engið, sem óskpilt varð eftir, þá beneficium fordjarfaðist, so mikið af því og lítið sem hönum líkar. Högum spilla skriður.” JÁM III, 422-423.
1840: “… Heyskaparlítil jörð með stóru og þýfðu túni. Þar er allgott beitarland um sumar og vetur og skógarblettur af smáviði í Sandfellshlíð.”

Vindás

Vindás.

Vindásbærinn er í Laxárdal austan við Laxá og VNV undir Sandfelli. Hann er um 3 km SSA við Reynivelli 348:001 og um 5,5 km VNV við Hækingsdal 346:001. Leifar af bæjarhólnum eru nú (2011) um 10 sunnan við gamla fjósið og um 70 m suðvestan við yngsta íbúðarhúsið sem byggt var árið 1952. Í landi Vindáss er sumarbúðir KFUM og KFUK en þær eru staðsettar rúma 3 km suðaustan við bæ 001 rétt norðvestan við landamerki Vindáss og Hækingsdals. Þar sem gamli bærinn stóð er sléttað tún, steinsteypt fjós, einföld röð af háum lauftrjám og slétt malarplan þar fast fyrir sunnan en þar eru m.a. geymdar heyrúllur og vélar. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson var tvíbýli að Vindási frá um 1820 og fram til 1884. Ekki er ljóst hvort búið var á tveimur stakstæðum bæjum eða ekki. Ekki er útilokað að annar bærinn hafi staðið þar sem heitir Ljóskollutóft en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Gamli bærinn er nú (2011) horfinn vegna bygginga sem reistar voru á 20. öld.
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, byggði Ólafur Einarsson (í Vindási 1905-1944) steinsteypt hús á bæjarhólnum, t.d. votheyshlöðu sem og tvær heyhlöður úr torfi og grjóti á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er lengur búið að staðaldri í Vindási en tún eru enn nýtt til sláttu og sem beitiland fyrir hesta. Samkvæmt túnakorti frá 1917 var bæjarröðin um 30×40 m stór og snéri gróflega norðursuður. Í túninu sunnan við malarplanið eru í dag (2011) óljósar leifar bæjarhólsins sem er um 30×25 m að flatarmáli, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austurvestur. Engar greinilegar dældir eru í hólnum en mjög líklegt er að fornleifar finnist þar undir sverði. Að minnsta kosti 5-10 m af lengd norðurhluta gamla bæjarhólsins virðist horfinn undir malarplan og útihús.

Vindássel (sel)

Vindássel

Vindássel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal [skráð undir númerinu GK-348b:001 sem hluti af Seljadal],”. Í svörum Hannesar Guðbrandssonar bónda í Hækingsdal við spurningum Þjóðháttadeildar segir einnig um sel frá Vindási: “Vindássel var einnig til þarna vestur af Sandfelli. Á Vindásflóum stendur það. Einn flóinn heitir Selflói þar sem selið hefur staðið líklega.” Vindássel fannst ekki á flóunum austur og norðaustur af Sognsseli um 2 km austur af bæ í Vindási. Flóarnir norðan við Sandfell og Sandfellstjörn eru mjög deigir og á mörgum stöðum mjög rofnir í drullu- og sandflög. Selflói er ekki nefndur í örnefnaskrá Vindáss svo staðsetning selsins er mjög óljós. Ekki er útilokað að það sé horfið vegna rofs eða sokkið í þúfur og mýri.

Svínaskarðsvegur (leið)

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur.

“Svínaskarðsvegur sem var mjög fjölfarinn á sumrin bæði af Kjósverjum, og þó einkum þeim sem ferðuðust á hestum milli Reykjavíkur og norðurog vesturlandsins, lá yfir Laxá á Norðlingavaði, upp Klifsnes, Vindáshlíð, Sandfellsmela norðan við Sandfell, sunnan við Hryggi, vestan við Dauðsmannsbrekku og síðan áfram yfir að Hvalfirði [í landi Fossár]. Þessi vegur meðan hann lá um Vindásland, var alltaf í daglegu tali nefndur Þjóðvegur,” segir í örnefnaskrá. Svínaskarðsvegur sést ennþá vel austan, norðaustan og norðan við Sandfell og á Reynivallahálsi um 2 km austan við bæjarhól og um 140 m austan við Sandfellstjörn. Slóðinn liggur að mestu um sendna og grýtta mela og mosagróna móa. Svínaskarðsvegur er 2-5 m breiður malarvegur eða slóði sem liggur frá Laxá í suðri upp Vindáshlíð norður fyrir Sandfell að austanverðu að landamerkjum Vindáss í norðri. Vegurinn hefur verið um 4,5 km á lengd í Vindáslandi. Vegurinn er ennþá vel greinilegur mest alla leiðina frá brekkunum ofan við sumarbúðirnar í Vindáshlíð að landamerkjum í norðri.

Selstígur (leið)

Selsstígur

Selsstígurinn ofan Sandfells. Gatnamót eru við Svínaskarðsveg.

“Selstígur lá yfir Ása, austan við Eystri Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.”
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, var beygt út af leið suðvestan undir Múla þegar farið var Selstíg. Þá var farið upp með Múlalæk um 200 m norðan við Hústóftir og um 1,5 km suðaustan við bæ. Selstígur lá um grýtta bratta fjallshlíð, grasigróna móa og gróðurlausa grýtta mela. Selstígur lá upp með Múlalæk í norðaustur en þegar komið var upp á brúnina var beygt í NNA meðfram Sandfelli.
Gengið var um stíginn í boga meðfram Sandfellinu norðvestan verðu og norður fyrir það sunnan við Sandfellstjörn í ANA, en stígurinn tengdist Svínaskarðsleið 046 um 2,1 km austan við bæ og 300 m suðaustan við Sandfellsvatn. Stígurinn hefur verið um 2 km á lengd.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi; Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdalur, Miðdalskot, Hækingsdalur og Vindás. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Laxárnes

Laxárnes.

Ingunnarstaðasel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III” – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot.

Reynivellir
Reynivellir
Beneficial. 30 hdr. 1847. “Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.” JJ, 100 (nmgr.) Staður, dýrleiki ekki gefin upp 1705 vegna þess að þá var jörðin í eyði eftir snjóflóð sem féll um 1699. Þá var henni skipt upp í 3 býli, Nýjabæ, Austurkot og Vesturkot sem öll voru í byggð.
Kirkjunnar á Reynivöllum er fyrst getið í máldaga Ingunnarstaðakirkju og kirkjunnar í Eyjum: [1180]: “ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,” DI I, 266.
[1180]: “Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reynevollom;” DI I, 267. c. 1200: “veisla ger mót Páli bp á yfirreið,” Biskupasögur I, 340.
1200: Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls biksups. DI XII, 9. Í máldaga kirkjunnar frá 1352 segir: “a kirkian. allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. kiosar sker. fiogara tiga sauda beit j mula lannd. lamba hofnn j eilyfsdal. ellefu tigum. ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. er annar kastar skurdur j eyiarlannd. þridie til valldastada. xij rossa beit j þufu lannd. vj j eyrar lannd.” DI III, 70-71. Næsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá um 1367: “xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann.” DI III, 219. Í Vilcinsbók frá því um 1397 segir: “a heimaland allt. Sornsland. þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnada.” DI IV, 116-117. Í mádlaga Eyjakirkju frá 1397 segir: “[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. paskadag oc kyndilmessv.” DI IV, 116. Í máldaga Ingunnarstaðakrikju frá því 1397 segir: “ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia,” DI IV 118. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1478 segir: “Mariukirkia a reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. þridiunng j laxfosse. siofarfoss allann. kiosarsker. bollstædijnngahyl. ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. kastar skurd j vinndas lannd. annan j þorlaksstada lannd. þ[ridia] j ualldastada lannd. tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. xij hrossa beit a veturinn j þufu land. vj hrossa beit [j] eyrar lannd.” DI VI, 178-79. 1486: Bréf um kirkjuna. DI VI, 586-87. 1575: Máldagi kirkjunnar. DI XV, 632-633. 1847: “Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.” JJ, 100 (nmgr.). Einnig var um tíma búið á Reynivallaseli og á Gerði en þar var byggt timburhús yfir vinnumann um 1930.
1705: “Túnin eru stórlega fordjörfuð, þau eru sjálum heimastaðnum fylgdu, og mikinn part eyðilögð, og er jafnan voði fyrir meiri skaða, so að ekki dirfast menn bygð að setja í hinu forna bæjarstæi síðan snjóflóð 1699 yfirfjell staðinn, braut hús, deyddi prestinn og 6 manneskjur aðrar, en beinbraut og limlesti þá, sem þó urðu með stórerfiði úr snjóflóðarústunum með mannsöfnuð upp mokaðir og náðust lífs, en þó að bana komnir. Engið, sem þó er bæði gott og mikið, skemmir stundum Laxá með grjóti og aur, þar með eru foruð á engjavegi, so að ekki verður tilsókt nema brúkað sje. Landþröngt er, so að ábúendur verða engið að beita, því að heimahagar eru mikinn part fordjarfaðir af skriðum.” JÁM III, 425. 1847: “Hve mikinn fénað prestsetrið Reynivellir framfæri, skýrir prestur eigi frá, en segir, að 5 kúg. fylgi heimajörðunni, og að túnið sé undirorpið skemmdum af snjóflóðum og aurskriðum, ef eigi árlega er við gjört með mannafla og kostnaði. Staðurinn á rétt til móskurðar og skóg til kola á Vindási, svo og skógarreit í Reynivallatúngum í Skoradal, en óvist var (1839) hvort hann á laxveiði í Laxá, sem eigi heldur í mörg undanfarin ár hefir verið notuð.” JJ,

Reynivellir (eldri bær)

Reynivellir

Reynivellir.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir m.a.: “Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldreiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar ríðir fluttar. Er í staðinu þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja, gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.” Elsti bærinn á Reynivöllum var nálega 30 m ofan við gömlu kirkjuna fast norðaustan við kirkjugarðsvegginn. Snjóflóð féll á bæinn 1699 og eftir það var hann fluttur um 200 m til SSA um 50 m neðan og VSV við núverandi íbúðarhús. Bærinn var á lágum, grasigrónum og grýttum hæðarrana norðaustan við kirkjugarðinn sem hallar um 5° í suðvestur. Lækur rennur rétt norðvestan við hólinn og kirkjugarðinn. Ofan við hæðina tekur við grasigróin brött brekka svo að bærinn hefur verið efst í heimatúni. Í Kjósarmenn segir m.a.:”… segir Fitjaannáll þannig frá þeim atburði [snjóflóði 1699], og getur jafnframt síra Odds: “Þann 15. janúar (1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið.[…] Síðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli [Nýibær] skammt frá.” Þar sem bærinn stóð er mjög þýft og grýtt en engar tóftir sjást. Greina má lága hæð norðaustan við kirkjugarðinn sem er um 40×40 m að flatarmáli en innan við 1 m á hæð.

Kirkjugarður (kirkja)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: “Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldeiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar tíðir fluttar. Er í staðinn þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.” Kirkjan á Reynivöllum stóð áður inni í kirkjugarði, um 190 m NNV við nýja bæinn 003 en rétt suðvestan við elsta þekkta bæjarstæðið á Reynivöllum. Kirkjan, sem byggð var 1859 (004), var færð úr garðinum (fyrir 1917), í um 100 m til suðausturs þar sem hún stendur nú. Garðurinn og kirkjan snúa bæði VNV-ASA eða samsíða dalnum. Garðurinn er í aflíðandi halla til suðurs. Hann er stór og í honum fjöldamargar grafir. Garðurinn hefur greinilega verið stækkaður til suðurs og líklega til vesturs líka. Vírgirðing er umhverfis garðinn. Að norðan (norðaustan) er steinsteyptur kirkjugarðsveggur en að austan (suðaustan) þar sem aðkoman er að garðinum er grjóthlaðinn garður sem greinilega hefur nýverið verið endurhlaðinn. Garðurinn er nú (2003) um 55 X 60 m að stærð. Merki fjölmargra grafa sjást þó garðurinn hafi verið sléttaður að hluta. Elstu merktu leiðin eru frá því snemma á 19. öld en örfá ómerkt leiði sjást. Mikið hefur verið gróðursett í garðinn af ösp, birki og greni. Ekki er mjög greinilegt hvar kirkjan stóð en auður blettur er þó í garðinum, nálega í miðjum gamla garðinum. Er líklegast að kirkjan hafi verið þar. Bletturinn er um 15 m sunnan við við norðurhlið en 20-30 m vestan við austurhlið. Snemma á 20. öld lá leiðin heim að bænum fast neðan við kirkjugarð og kirkju en rétt ofan við bæ. Vegurinn lá áður um Kirkjustíg. Kirkjustígur byrjaði “vestur við Kipp á Hjallholti [sem er holtið upp af kirkjunni] heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í
krókum,” segir í örnefnaskrá. REYNIVELLIR Í KJÓS (K) -Maríu [1180]: “ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,” Máld DI I 266 [Ingunnarstaða]. [1180]: “Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom,” Máld DI I 267 [Eyja]. C. 1200: “veisla ger mót Páli bp á yfirreið,” Jarteinabók 1200, Bsk I, 340. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9. 1352: “Anno domini M°. Ccc°. L°. Secundo a þridia are biskups doms virduligs herra gyrdiz med gudz näd biskups j skalhollte so sem hann kom a[t] reynevollum j sinni visitacione reiknadist suo mikid gotz þad er kirkian ätte. Jnn primis vij manna klædi med hoklum. Iij kalekar. Þriar kanntara kapur. Ein med pell. Avnnur ed lynvef. Þridia med salun. Vj. Anntependia til vtalltara. Fimm anntependia til haalltaris. Vj. Alltarisdukar. Iiij. Sloppar. Tabulum fyrir alltare oc brijk medur. Smelltur kross oc skrijn. Glodarker. Baksturjarn. Glodaker elldbere. Vijgdz vatz ketill. Iij kerttistikur. Ein ampulla. Ein sacrarij munnlog. Tiolld vmhuerfi kirkiu. Og ad auk steintialld oc hrijnnga refil. Eitt fonntklædi oc skirnarsär. Mariu skript oc nicholas skript og gRadulae cum sequencijs. Iij lesbækur j are per anne circulum de sanctis oc de tempore. Songbokur per anni circulum tuær Euanngeliorum. Martyrjlogium. Capituliarius oc enn nockrar fornar bækur þær sem litit skolu. Fiorar samhrijngiur. Ij smaklockur oc ein vtiklocka. A kirkian. Allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. Þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. Kiosar sker. Fiogara tiga sauda beit j mula lannd. Lamba hofnn j eilyfsdal. Ellefu tigum. Ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. Er annar kastar skurdur j eyiarlannd. Þridie til valldastada. Xij rossa beit j þufu lannd. Vj j eyrar lannd. Seautian kyr. Xij ær. Viij ross. Ij hundrat j metfie. Ij hunndrad j vidum. Fiordung vax. Ij presta skylld og diakns.” Máld DI III, 70-71.
[1367]: “xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. Þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann les Vilchinzbok þui þetta ber samann,” Hítardalsbók, DI III, 219.
1397: “a heimaland allt. Sornsland. Þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. Tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnadal [+kastarskurði, beit, sauðahöfn, skjól í helli, lambarekstur, hrossabeit] er aa Þessu fie tveggia presta skylld og diakns. Portio medann sira Finnur hiellt halftt atta hundrad. Enn medann sira Vigfus hiellt ccc. Oc xiiij aurar. Jtem hefur sira Finnur lagtt til kirkiunnar halft Þridia hundrad,” Máld DI IV, 116-117.
1397: “[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. Paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti,”. Máld DI IV, 116 [Eyja]. 1397: “ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef Þeir vilia.” Máld DI IV, 118 [2 merkur, Ingunnarstaða]. [1478]: “Reyniveller j kios. Mariukirkia a
reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. Þridiunng j laxfosse. Siofarfoss allann. Kiosarsker. Bollstædijnngahyl. Ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. Kastar skurd j vinndas lannd. Annan j þorlaksstada lannd. Þ[ridia] j ualldastada lannd. Tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. Xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. Lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. Xij hrossa beit a veturinn j þufu land. Vj hrossa beit [j] eyrar lannd. Jtem þetta a hun jnnan sig et cetera. Jtem fiorar merkur vax. Jtem vij kyr oc eina kuijgu tuæuetra. Ix ær oc hrut tuæuetrann. Ij hesta er uoru metnir fyrir iij merkur bäder samann. Ij sænngur lettar. Halfa þridiu vod. Einn pott heilann oc annan brotinn. Eina munnlog sterka. Viij fiordunnga ketil oc annann vonndann. Eitt tinfat. Iij trefot.” Máld., DI VI, 178-79 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 121a-b – vitnað er í þannan máld. Í virðingargerð frá 2.11.1486 og mun hann því vera frá seinni hl. 15 aldar]. 2.11.1486: “Bref wm kirkiugiord aa Reyneuollum. Þath giorer ek arne prestr snæbiarnarson officialis heilagrar skalholltzkirkiu j mille huitar j borgarfirde ok helkunduheidar skalholltzbiskupsdæmis godum monnum viturligt med þessu minu opnv brefi at þa er ek reid j mitt profastdæme nidri wm gullbringu kom fyrir mik sira nikulas arnason sem þa hellt Reynevallar stad j kios. Beiddj hann mic ok krafdj vpp aa laganna vegna at sia ar at kirkiunne ok stadnum er hann villdj standa
sinne kirkiu reikninigsskp. Kalladj ek til med mier sex skælega menn presta ok leikmenn. Hafdj hann latid giora kirkiuna ok stadinn þa hann tok med. Var þa kirkia giord fyrir þriu hundrut. Enn stadurinn fyrir fimm hundrut. Jtem giordum vjer þa kirkiuna fyrir tuttugu hundrut enn stadinn fyrir fimtan hundrut. Atti kirkian at vera med golfi ok beckium. Ok aull vnder hellu. Fell þa aptur seytian hundrut fyrir kirkiubota. Enn tiu hundrut fyrir stadarbota. Hier med lagdj adrgreindur sira nikulas kirkiunne. Tiu hundrut j bokum ok messuklædum. Jtem stod þa epter j porcio ok mortuaria tuttugu hundrut. Var fyrgreindr sira nikulas hier med aullungis kvittur wm allan fornan reikningsskap kirkiunnar aa Reyneuollum fra þui er hann tok stadinn ok framan til þess sem þa war komet. Skylldj þesse fyrr greind tuttugu hundrut leggiazt kirkiunne til jnnstædu æfinlega hier epter þui hun var litil adr. Skylldj þesse tuttugu hundrut lukazt j suo uordnum peningvm. Tiu malnytu kugilldi ok tiu hundrut j aullvm þarfligvm peningum fridvirtvm. Jtem var adr gomul jnnstæda vij kyr ok tuæutur kuiga milk. Ix ær tuæuetur hrutur ok .ij. Hestar firir iij. Merkr bader ok þath at auk sem skrifath stendr jnnan gatta. Ok til sannennda hier vm settj ek officialatus jnscigle fyrir þetta bref skrifath aa Reyneuollum j kios fimtudaginn næsta epter festum sanctorum omnium anno dominj. M°. Cd° lxxx° sexto.” Virðing DI VI, 586-87 [Þjsks Bps Fasc. XII, 1, frumrit á skinni; AM Apogr. 2442]. 1575: Máld DI XV, 632-633. 26.2.1880:
Saurbæjarsókn lögð undir Reynivelli; (PP, 112) [lög].

Gíslagata (leið)

Gíslagata

Gíslagata.

“Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum,” segir í örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins frá árinu 1985 í grein eftir séra Gunnar Kristjánsson segir: “Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til
norðurs yfir Hálsinn.” Gíslagata lá upp á Reynivallaháls í norðaustur upp með Gíslholti og meðfram Gíslalæk á landamerkjum milli Reynivalla og Vindáss GK-347 um 2,2 km suðaustan við bæ 003. Gatan er ennþá mjög greinileg á hálsinum. Á þessu svæði niðri á jafnsléttu er skógræktargirðing og malarvegur. Hlíðar Reynivallaháls eru þarna lítt grónar og grýttar. Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg 356:026 ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt.

Seljadalur/Reynivallasel

Reynivallasel

Reynivallasel.

“[Björn Erlendsson] … Byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921. Kjósarmenn, 195-196. “Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km. Frá bænum. Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel.” Ö-Hækingsdalur, 9. “Þar var byggður lítill bær og fjenaðarhús … Er á Seljadal ágætt sauðfjárland, mýraflói og lyng og furðu hagsælt. Lítið tún var ræktað umhverfis þetta býli.”

Reynivallasel (sel)

Reynivallasel

Reynivallassel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

“Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,” segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í bókinni Kjósarmenn segir svo: “[Björn Erlendsson] … byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og
nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921.” Bærinn Reynivallasel er í Seljadal um 4,7 km ASA við Reynivelli og um 2,8 km SSA við Fossá, í litlu dalverpi um 1 km SSA við mynni Seljadals og um 400 m austan við Seljadalsá við suðvesturrætur Hornafells.
Seljadalur er um 2 km langur, 0,5-1 km breiður og snýr norður-suður. Gengið er inn í dalinn að norðanverðu úr Fossárdal upp nokkuð brattar grasigrónar brekkur sem halla í 10-45° til norður. Seljadalur er vel grasigróinn og þýfður en á köflum er dalurinn nokkuð deigur á bökkum Seljadalsár, sérstaklega í dalnum vestanverðum. Seljadalsá liggur norður-suður um miðjan dalinn. Umfangsmiklar hálfgrónar skriður eru í dalnum austanverðum undir Hornafelli um 400 m sunnan við bæjarstæðið í Seljadal. Einnig var hægt að ganga yfir í dalinn miðjan að vestanverðu frá syðri landamerkjum Reynivalla um Gíslagötu. Umhverfis Reynivallaselsbæ er vel grasigróin þýfð brekka sem hallar í 5-20° til vesturs í norðvesturhlíð/rótum Hornafells.
Þegar gengið er inn í Seljadalinn að norðanverðu sést ekki til bæjarins fyrr en komið er 300-350 m inn í dalinn. Seljadalur er mjög grösugur en trúlega hefur ekki mikið verið gert af því að slétta tún á þeim tíma sem búið var í dalnum. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir: “Seljadalur dregur nafn sitt af seli sem var þar frá prestsetrinu á Reynivöllum. Tóft sem er alveg að hverfa er það eina sem minnir á selið. … Selið í Seljadal var byggt upp aftur að einhverju leyti því að í því var búið í nokkur ár, líklega frá því um 1870. Föðurbróðir Hannesar [Guðbrandssonar í Hækingsdal f.1897] bjó þar síðastur manna til ársins 1921.” Í Innsveitum Hvalfjarðar segir Kristján Jóhannsson um Reynivallasel: “Rústirnar eru allmiklar og ekki auðvelt að ráða í hvernig húsaskipan hefur verið … Útihúsarústir eru skammt frá bænum, ögn ofar. Rétt norðan við bæjarhólinn er réttin og er hún mjög fallin.” Eins og áður var sagt er bæjarstæðið í litlu grasigrónu dalverpi á milli tveggja lækjargilja að norðan og sunnan sem eru 1-2 m djúp og 0,5-4 m á breidd. Svæðið sem flestar tóftirnar á er um 100 x 80 m að stærð, snýr austur-vestur og hallar í 5-20° til vesturs. Tóftirnar eru vel grasigrónar en hleðslur standa að mestu nokkuð hátt þó þær séu sannarlega víða mjög signar. Þrjár tóftir og tvær þústir voru skráðar á svæðinu. Norðan við nyrðra lækjargil eru svo tvær tóftir til viðbótar utan svæðis.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

“Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,” segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Vindás: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.” Falleg seltóft er innst í suðausturenda Seljadals á austurbakka Seljadalsár, um 1 km sunnan við Reynivallasel. Tóftin er um 3,3 km NNV við Hækingsdalsbæinn en aðeins um 900 m NNV við mót landamerkja milli Hækingsdals, Vindáss og Seljadals. Á þessu svæði er grasigróinn árbakki Seljadalsár. Tóftin er vestan undir 2-3 m háum hól, 2-4 m í austur frá ánni þar sem hún rennur niður í Seljadal að SSAverðu. Tóftin er þrískipt, um 15×5-10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggir tóftarinnar eru um 2 m á breidd, 0,4-1 m á hæð og mjög grasigrónir. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar.

Vesturkot
Hjáleiga Reynivalla, í byggð 1705: “Vesturkot, þriðja býli, gömul hjáleiga.
Dýrleikinn óviss, telst með heimastaðnum.” JÁM III, 424. Byggð lögð niður árið 1877 samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Péturson (bls. 194). Á túnakorti Reynivalla frá 1917 stendur um Vesturkot: “Túnblettur, grýttur sumstaðar og raklendur, ekki notaður.”
“Skammt fyrir utan bæinn að Reynivöllum er gil á merkjum móti Sogni. Það heitir Kotagil. Þar inn af heitir Vesturkot. Þar var býli austur frá gilinu,” segir í örnefnaskrá. “Kotin voru tvö, Vesturkot og Austurkot. Austurkot var nokkru austan við Reynivelli. Það fór úr byggð fyrir aldamót. Vesturkot var fyrst nefnt Sólbrekka,” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í bókinni Kjósarmenn segir um kotið: “Arnór Björnsson og fyrri kona hans Lilja Jónsdóttir tóku við búi í Vesturkoti af móður Lilju, og bjuggu þar 1857-1877, voru þau síðustu húsráðendur í Vesturkoti, við brottför þeirra var kotið lagt undir heimajörðina Reynivelli.” Þar segir einnig: “Þessi bær var nefndur Sólbrekka 1753, en ekki hélzt það.” Tóftir Vesturkots eru um 270 m NNV við Reynivelli, um 460 m NNV við Nýjabæ og um 95 m suðaustan við landamerkjagarð. Á þessu svæði er grasigróin, grýtt brekka sem hallar í 5-20° til suðvesturs, fast suðaustan við landamerki Sogns og Reynivalla. Í bókinni Ljósmyndir IIa eftir Halldór Jónsson kemur fram að um 1900 voru í Vesturkoti aðeins rústir af bæjarhúsum og léleg fjárhús ásamt heykumli. Túnbletturinn var sleginn af prestsetrinu en síðar notaður sem kúahagi. Svæðið sem Vesturkotstóftir ná yfir er um 35×25 m stórt og snýr norðaustursuðvestur. Bæjarstæðið er mjög sigið og illa farið vegna ágangs búpenings en þó grasigróið. Bæjartóftin er um 22×17 m stór og snýr norðaustur-suðvestur. Veggir eru grjót- og torfhlaðnir, 0,4-1,5 m á hæð og 2-5 m á breidd. Grjóthleðslur eru signar en greinilegar.

Sogn
Sogn
1705: 12 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. JÁM III, 426. 1352, [1367] 1397 [1478]: Jörðin eign Reynivallakirkju. DI III, 70-71, DI III, 219, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79.
Árið 1705 er jörðin nefnd Sofn eða Sogn, 1840 Sorn en 1847 Sogn. Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255. 1705: “Tún eru lítil og fordjarfast mjög af skriðum. Engið er gott en ærið votlent mikinn part og forað yfir að sækja, sem brúka þarf.” JÁM III, 426. 1840: “… heflir lítið tún og veitiland, en engi mikið á Laxárbökkum, vantar mótak …” Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255.
Bærinn Sogn er við rætur Reynivallaháls, um 400 m ASA við Valdastaði og um 1,4 km VNV við Reynivelli. Á þessu svæði er núverandi íbúðarhús byggt 1946, sléttað malarplan, gamalt steinsteypt fjós og stór barrtrjáreitur við norðvesturhorn fjóssins. Fast framan og SSV við malarplanið er brekka með lauf- og barrtrjálundi og malbikaðri heimreið heim að bænum. Brekkunni hallar í 5-10° til SSV. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað og rennur hann til SSV vestan við bæ en ábúendur hafa þó breytt rennsli hans neðan við gamla bæjarstæðið en þar rennur hann nú áfram í SSV í stað þess að beygja í SSA eins og sést á túnakorti frá 1917. Samkvæmt Snorra Ö. Hilmarssyni bónda á Sogni voru öll þau tré sem nú standa á bæjarstæðinu gróðursett árið 1991. Á heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er að finna almennar upplýsingar um Sogn í Kjós og ljósmynd af bænum frá því um 1918.

Heimildamaður er Ingunn Þormar f.21.11.1921 en hún var í sveit að Sogni á sumrin frá 1926-1931. Þá var tvíbýli að Sogni. Þar segir m.a.: “Ekki er vitað hvenær bærinn var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. … [Torfbær á ljósmynd frá 1918 og á túnakorti frá 1917:] Frá hægri: 1. Geymsla fyrir reiðtygi, ljái og allar þurrar vörur en áður fyrr bjuggu þarna foreldrar Gróu [Guðlaugsdóttur] og Jakobs [Guðlaugssonar]. 2. Inngangur. Ef farið var strax til hægri var gengið inn í geymsluna þar sem foreldrar Gróu [Ragnhildur Guðmundsdóttir og Guðlaugur Jakobsson] bjuggu áður. Innar voru hins vegar 3 tröppur og þar til hægri var herbergið þar sem Ragnhildur [Guðmundsdóttir], móðir Gróu, bjó nú en til vinstri var gengið inn í baðstofuna. 3. Þarna var búr og inn af því eldhús. Innar var síðan baðstofan þar sem heimilisfólkið bjó gisti [svo]. Í baðstofunni voru 4 rúm, 2 sitt hvoru megin. Oft var því tví- og þrímennt [svo] í hverju rúmi. 4. Smiðjan. Þar vann Jakob, se [svo] var járnsmiður, við að búa til skeifur og brýna ljái. 5. Geymslur fyrir Jakob, svipaðar þeim er Gróa og Sigurjón [Ingvarsson f. 29.10.1889] höfðu í húsinu lengst til hægri. 6. Steinhús [trúlega vestan við Bæjarlæk] þar sem Jakob bjó með fjölskyldu sinni. [Það sem ekki sést á ljósmynd:] Hægra megin við bæinn var fjósið [í bæjarröðinni samkvæmt túnakorti frá 1917], fjárhúsin [hugsanlega 008] voru vinstra megin en myndin er tekin fyrir framan hlöðuna [sjá 002]. … Segir Ingunn að allur fatnaður hafi verið skolaður úti við læk eftir að hafa verið þveginn inni í eldhúsi. Til að ná sem mestu vatni úr hverri flík voru þær lagðar á stein og spýtum slegið í fötin. Það var útikamar við bæinn [nákvæm staðsetning óþekkt] … Trégólf í baðstofunni en moldargólf annars staðar. Trégólfið var þvegið upp úr sandi. Vatn og sandur notað til að þvo gólfið, strigapoki notaður sem tuska. Bærinn var kyntur með taði og mó, … Sérstök kynding kom ekki í baðstofuna fyrr en 1928 þegar fyrsti ofninn kom þangað.” Samkvæmt túnakorti hefur bæjarstæðið verið a.m.k um 50×50 m að stærði. Á þessu svæði var m.a. sjálf bæjarröðin sem virðist hafa verið um 30×15 m að flatarmáli og snéri VNV-ASA, hlaða, þrjú útihús (002-004) og kálgarður 021. Gengið var inn í bæ að sunnanverðu. Engin greinileg merki um gamla bæinn eða bæjarhól.

Sognssel (sel)

Sognsel

Sognsel.

“Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognssel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. Frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur,” segir í örnefnaskrá Bjarna Ólafssonar frá Króki. “Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognssel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir,” segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar. Sognsselstóft er um 1,6 km ANA við bæ 001, um 4,9 km suðaustan við Sogn 350:001 og um 250 m norðvestan við Sandfellstjörn. Seltóftin er fast utan í 2-4 m háu holti að suðvestan. Holtið er aflangt, um 250 m á lengd, um 150 m á breidd og snýr NNA-SSV. Hlíðar holtsins eru þýfðar og mosa-, grasi- og lyngigrónar en holtið er þó ógróið í toppinn. Sognsselstóft er fjórskipt, ferköntuð og grjóthlaðin. Hún er um 8 x 7 m stór og snýr NNA-SSV. Veggir tóftarinnar eru 1-2 m á breidd og 0,5-1,2 m á hæð en hleðslur eru víða nokkuð signar og grasi- og mosagrónar. Gengið var inn í tóftina á VNV-hlið gróflega fyrir miðju eða um 4 m frá
norðvesturhorni tóftar.

Hvítanes
Hvítanes
20 hdr. 1705. JÁM III, 435. 1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18. Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Vígdrekar og Vopnagnýr, 69-76. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: “Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.” Kjósarmenn, 81. 1705: “Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.” JÁM III, 435. 1840: “… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.” SSGK, 255. Túnakort 1917: “Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar m2.”
“Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,” segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: “Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu. … Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].” Bæjarhóllinn á Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá.
Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina fyrir utan lítinn sumarbústað norðaustarlega á nesinu. Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Bæjarhóllinn á Hvítanesi virðist alveg óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASAVNV. Steinveggir yngsta íbúðarhúss 001B sem byggt var 1914 standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja. Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti. Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan.

Þrándarstaðir
Þrándarstaðir
20 hdr. 1705. Bænhús var á jörðunni. JÁM III, 437-438. 1705 er nefnd nafnlaus eyðihjáleiga, í byggð um 1675-1700. Talin vera sama jörð og Þorbjarnarstaðir nefndir í Harðarsögu sem talin er rituð á fyrir hluta 13. aldar. ÍF XIII, xlix. Jörðin nefnd í dómabréfi 1509 vegna úrskurðar um eignarétt á henni. DI VIII, 284. Bændaeign. 20 hdr. 1847. “Prestur einn nefnir Þrándarstaði “neðri” og “efri”. Skálholtsstóls hjálendan er talin í jarðabóks stólsins 13 2/3 h. að dýrleika.” JJ, 101 (nmgr.). 1840: “… heyskapur er ekki mikill, en beitarland betra og útigangur nokkur.” Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 254-255. Túnakort 1917: Tún 6,4 teigar, meira en 1/2 sléttað, garðar 1100 m2.
Bæjarhóllinn á Þrándarstöðum er að mestu óhreyfður. Hann er tæpum 200 m neðan (norðan) við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum. Grösugur hóll í sléttu túni. Hóllinn er stæðilegur. Síðustu leifar á honum voru nokkurra kálgarða en úr þeim hefur verið sléttað. Ryðja átti úr hólnum á síðari hluta 20. aldar en hætt var við það vegna þeirra minja sem þar kynnu að leynast. Þó var aðeins rutt úr austurhlið hans og jafnvel örlítið að sunnan. Norður- og austurhlið eru mun brattari heldur en aðrar hliðar. Samtals er bæjarhóllinn 40×30 m stór og er 2-3 m á hæð þar sem hann er hæstur. Dældir eru í hólnum en ekki sér móta fyrir neinum tóftum. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og allur húsakostur illa þekkt.

Bænhús
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: “Þrandarstader. Hjer hefur til forna bænhús verið, og heitir þar enn nú Bænhústóft í túninu. Enginn minnist sá, sem nú er á lífi, nær það hafi eyðilagst.” Ekkert er nú (2006) vitað um staðsetningu bænhúss á Þrándarstöðum en líklega hefur það verið nálægt gamla bænum á bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 200 m norðan við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum.

Efri-Þrándarstaðir
Nálega mitt á milli núverandi íbúðarhúss á Þrándarstöðum og bæjarhólsins var bærinn á EfriÞrándarstöðum þegar tvíbýlt var á jörðinni. Bæjarstæðið er um 80 m sunnan við bæjarhól 001 og um 110 m norðan við núverandi íbúðarhús.
Bæjarstæði Efri-Þrándarstaða er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn var í aflíðandi túni sem hallar 5-10° til NNA. Hann var byggður norðan í lágri hæð. Búið er að slétta yfir bæjarrústir Efri-Þrándarstaða. Þar sem bærinn stóð er þó enn óljós þúst sem er um 16 x 10 m stór, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Tvær um 0,4 m djúpar dældir eru í þústinni og snúa þær norður suður. Dæld A er vestar og er hún um 2×2,5 m að innanmáli á meðan dæld B er um 1 m austar og um 4×2 m að innanmáli. Lúther Ástvaldsson heimildamaður kannaðist ekki við öskuhaug á svæðinu en samkvæmt honum var gengið inn í gamla bæinn að norðvestanverðu og sést þar ennþá óljós tota í vestari dældinni. Lúther kannaðist ekki við neina brunna á svæðinu en hann telur að vatn hafi yfirleitt verið sótt í árnar. Bærinn hefur líklega verið byggður úr steinsteypu, timbri og bárujárni. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og húsakostur illa þekkt.

Íngunnarstaðir
Ingunnarstaðir
20 hdr 1705, Skálholtsdómkirkjueign, talið að hún hafi til forna verið 30 hdr. Bændaeign. 27 1/3 hdr. 1847. Kirkju á Ingunnarstöðum er fyrst getið í máldaga frá um 1180: “Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande.” (DI I 266). Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls frá um 1200 (DI XII 10). Í máldaga frá því um 1367 segir: “Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande.” (DI III 219) Í Vilcinsbók frá um 1397 segir: “a heimaland allt oc settung j Eyalanndi.” (DI IV 118) 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV 632). “Jarðabækurnar (hinar eldri, nema stólsjarðabókin) telja jörð þessa með Hrísakoti (A. M.), aðeins 20 hdr. Að dýrleika, og leggur sýslumaður 5 h. Þaraf á Hrísakot.” Jarðabók Johnsens, 101 (nm.gr.) Hrísakot var hjáleiga 1705 en er orðin bændaeign 1847. Tvö eyðibýli eru nefnd 1705, Gullhlaðsvellir og Þórunnarsel. Hálfkirkja var á jörðinni. JÁM III, 339-441.
1705: “Túnum og engjum grandar skriða til stórmeina og kostar oft stórerfiði af að moka. Hætt er fyrir snjólfóðum bæði á bæ og tún.” JÁM III, 440.
1840: “… sæmileg heyskapar og útigangsjörð; á hún hrístak og fjárbeit fram í dalnum, ekki frí fyrir skiðuáföllum og hefir lítið mótak eður ekki.” Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og
Kjósarsýslu, 254.
Gamli bærinn á Ingunnarstöðum stóð á svipuðum stað og nú (2003) stendur steinsteypt íbúðarhús. Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1914-20 en þar á undan stóð timburhús á jörðinni um skeið. Búið var að rífa síðasta torfbæinn um aldamótin 1900. Ógreinilegur bæjarhóll er á þessum stað. Hann má merkja að sunnan og vestan en fjarar hins vegar út til norðurs (inn í brekkuna ofan við) og austurs. Erfitt er að áætla stærð bæjarhólsins þar sem erfitt er að greina mörk hans til norðurs og austurs. Hann er þó nálægt því að vera 50-60×40 m og er mest 1,5 m á hæð. Þegar afi Guðrúnar Björnsdóttur heimildamanns kom að Ingunnarstöðum 1912 hafði síðasti torfbærinn verið rifinn. Hann hafði verið á svipuðum slóðum og steinsteypta íbúðarhúsið er í nú. Þegar það var byggt var komið ofan á nokkuð af grjóthleðslum og ösku og voru grjóthleðslurnar að hluta endurnýttar til að byggja lítinn garð vestan við íbúðarhúsið. Íbúðarhúsið sem nú er á bæjarhólnum er steinsteypt með kjallara. Íbúðarhúsið á Ingunnarstöðum var fyrsta timburhúsið í sveitinni.

Hálfkirkja
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 er getið um hálfkirkju á jörðinni: “Hjer er hálfkirkja og embætti flutt þá er heimafólk er til sacramentis.” Bænhús var á Ingunnarstöðum en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var. Samkvæmt heimildamanni fór tveimur sögum af staðsetningu bænhússins. Annars vegar var talað um að það hefði verið heima við bæinn en hins vegar að það hefði verið í nokkurri fjarlægð suðvestan við bæ. Lengi mátti sjá glitta í hleðslu við suðausturhorn íbúðarhússins á Ingunnarstöðum, milli þess og fjárhúss og voru uppi getgátur um að sú hleðsla gæti staðið í samhengið við bænhúsið. Lágur bæjarhóll þar sem steinsteypt íbúðarhús með kjallara og fjárhús standa. Vegur liggur að bænum og annar spotti fram hjá honum.
Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande. kyr .vi. oc .xxx. a. fiogur kugillde j gelldfe. halft annat hundrat j busgognom oc j husbuninge. hestr gelldr lastalauss. xij manaþa tiþa bæcr oc messo fot. silfr kalec. roþo cross. alltara klæþe ij oc blæia. bricar clæþe gloþa ker oc gloþa jarn [alltara steinn. kirkiu stoll. bakstr jarn* oc linslopp. kerta stika. munnlogar .ij. oc lyse steinn. biollur .v. Su er afvinna skylld a þeso fe. at þar scal vera seto prestr ef sa vill er þar byr. meþ biscops raþe. Joan prestr scal vera þar meþan hann vill oc fylgia þessu fe at allda eyþle. Heima manna tiund alla a circia þar er scylldoct at syngia annan hvarn dag oc inn .iiij. hvern otto song oc kaupa at preste .ij. morcom oc ef enginn fæsc prestr. þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til þessa kaup[s] ef þeir vilia. Biscops handsol ero a þessum circio fiam ollom. oc hann a valld oc forræþe einn at kavpa þessom kirkio fiam sva sem hann vill oc þa er hann vill til þurþar oc til miclonar vm fe eþa afvinno; Máld DI I 266 [* bætt við utanmáls í hdr. C. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10. [1367]: xlix. Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande. vij kyr og xxx asaudar. les Vilchinsbok þui þetta er eins; Hítardalsbók DI III 219. 1397: a heimaland allt oc settung j Eyalanndi. Sia er skylld af fie þessu ad þar skal vera setuprestur ef sa vill er þar byr med biskups rade. heimamanna tiund allra a kirkiann. Þar er skyllt ad syngia annann hvern dag oc fiorda hvern ottusong. lvka presti ij merkur. og ef ei fæst prestur. þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef þeir vilia. biskups handsol eru aa Þessum kirkiufiam ollumm Þar til Þurdar oc miklanar sem hann vill; Máld DI IV 118. 1575: Máld DI XV 632 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 64}.

Sel

Ingunnarstaðir

Ingunnarstaðir – sel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir:”Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.” Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir: “Næst eru Selflatir. Í botni [Brynju]dalsins og þar næst er hjalli sem heitir Langihjalli.” Í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar segir einnig um selið: “Austur af bakkanum er flatlendi, sem kallað var Eyrar einu nafni.
Þá taka við ónafngreindir hjallar og austur af [þeim] þeim Selflatir [svo], sem eru beint á móti gömlu beitarhúsunum frá Ingunnarstöðum. Þorlákur álítur, að þeir sem höfðu þar í seli, hafi haldið til í beitarhúsunum. Þorlákur sat þar yfir ám í kvíum, sem Kjósarmenn höfðu þar sameiginlega. Fært var frá í Hrísakoti til 1907.” Selið á Selflötum er um 2,5 km suðaustan við Ingunnarstaði, um 300 m sunnan við beitarhús og um 50 m sunnan við Brynjudalsá. Á Selflötum er grasigróið og víðáttumikið þýft graslendi sem hallar í 2-10° til norðausturs, að Brynjudalsá. Á Selflötum eru þrír áberandi hólar í hnapp á svæði sem er um 60×60 m stórt. Á stærsta hólnum er greinileg tvískipt tóft A sem er um 10 x 6 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.

Gullhladsveller (býli)

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: “Gullhladsveller heita í Ingunnarstaða landi. Þar ætla sumir að hafi bygð í gamla daga, og sjást þar enn nú nokkrar tóftaleifar. Ekki verður þar bygð þett, nema með stórskaða heimajarðarinnar, og enginn veit nær það hafi í eyði fallið, meina þó að landþröng hafi til þess verið orðsök.” Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um þetta svæði: “Þegar kemur fram úr Bótinni, taka við Gulllandsvellir, grasivaxin hæð, sem hallar niður af á smámýri. Þar út af er Gulllandsvallarmýri. Á ásnum eru gamlar tættur. Talið er, að þarna hafi verið býli.”
Stykkisvellir eru ofan og sunnan við suðurbakka Brynjudalsár um 850 m ASA við bæ 001 og um 600 m suðvestan við Hrísakot 360:001.

Gullvallsvellir

Gullvallsvellir – uppdráttur.

Rústirnar eru friðlýstar og í Friðlýsingaskrá segir: “Ingunnarstaðir. Forn rúst, er nefnist Gulllandsvellir, að sunnanverðu við Brynjudalsá, fyrir innan Þrándarstaði. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938.” Stykkisvellir eru þýft graslendi á eyri lækjar sem rennur úr Gjáargili norðan undir Suðurfjalli. Svæðinu hallar í um 2-5° til norðurs niður að Brynjudalsánni. Stykkisvellir eru svæði sem er um 250×120 m stórt og snýr norðvestur-suðaustur úr fjallshlíðinni niður á eyri Brynjudalsár. Vestan við Stykkisvelli er brött brekka sem hallar í 30-40° niður í mýri. Brúnin er 3-4 m há á þessu svæði. “Austur af Bótinni taka við sléttir vellir, Gullásvellir, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna. Framan vallanna er hár bakki, Gullásvalla-bakki. Norðan hans, að ánni, liggur lítil mýri, Gullásvallamýri (Gull-Þórir).” segir í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar. Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson um vellina: “Af stöðum sem nú eru óbygðir í Brynjudal eru Gulllandssvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Þar er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan að gil sem þar kemur ofan hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær hann. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom austan á hana. Þó sér svo vel fyrir henni að ég gat gjört uppdrátt af henni. … Tóftirnar eru 3. hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengda allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 31/2 fðm. Fjós rúst sést eigi, mun vera afbrotin.” Við skráningu fundust þrjár þústir á þessu svæði sem er um 60 x 40 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Svæðið er þýft og líklegt að fleiri mannvirki geti leynst í þúfunum á svæðinu þó ekkert sjáist á yfirborði.

Hrísakot
Hrísakot
Árið 1705 er Hrísakot afgömul hjáleiga eða afbýli Ingunnarstaða GK-359:001. JÁM III, 439-440. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson fór kotið í eyði árið 1919 en var nytjað frá Ingunnarstöðum fram til ársins 1953. Það ár byggðist kotið upp aftur fólki frá Ingunnarstöðum. Kjósarmenn, 43. Samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttiur, heimildamanni, fór Hrísakot endanlega í eyði um 1964. 1840: “… Heyskaparlítið; á skógarland og allgóða útbeit við hagahús [GK-360:013]; þar er ekki mótar …”
“Hrísakot stendur innarlega í dalnum innan við Ingunnarstaði og sömu megin í dalnum,” segir í örnefnaskrá. Bæjarhóll Hrísakots er sunnan undir Múlafjalli og norðan við Brynjudalsá, um 1,1 km austan við Ingunnarstaði 359:001. Hrísakot er nú (2011) skógræktarjörð en hætt var búskap á jörðinni að mestu um 1964. Á bæjarhólnum stendur tvískipt timbur- og bárujárnsfjárhús sem, samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttur heimildamanni, var byggt einhvern tíman milli 1925-30 þá trúlega frá Ingunnarstöðum. Suðvestan við bæjarhólinn og fjárhúsin er sléttað tún og suðaustan
við fjárhúsin er sumarbústaður og skógræktarreitur. Greinilegar mannvistarleifar eru á bæjarhólnum norðvestan, norðan og norðaustan við fjárhúsin. Á hjalla norðaustan og ofan við bæjarhólinn er barrskógur en norðvestan við hólinn er graslendi og stór ræsiskurður 5-10 m í burtu. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Í Hrísakoti bjó Pjetur Ottesen til ársins 1902, … Í Hrísakoti var, er hjer kemur sögu, fremur ljelegur bær, en túnið fremur greiðslægt. … Eftir að Pjetur Ottesen fór frá Hrísakoti, tekur jörðina bróðursonur hans, Oddur Pjetur Jónsson frá Ingunnarstöðum, … og býr hann þar til ársins 1919. … Oddur Pjetur byggði nýja baðstofu í Hrísakoti, bjarta og allvistalega og fleiri bæjarhús. … Er þessi baðstofa fyrir löngu horfin [árið 1953] og hin gömlu hús önnur.” Bæjarhólnum hefur verið raskað þó nokkuð á 20. öld en hefur hann trúlega verið um 50×50 m stór og 1-2 m á hæð. Fjárhúsin standa á miðjum hólnum. Lítið er greinanlegt af gamla bæ Odds Pjeturs sem stóð árið 1917 annað en 2-3 grasigrónir og þýfðir hólar sem eru 1-1,5 m á hæð og er 1-2 m norðvestan við timburfjárhúsin. Grjót má er víða í hólunum. Hólarnir mynda saman aflanga þúst sem er um 25×15 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í gegn um þústina er dæld sem er 5 x 1-3 m stór og snýr NNV-SSA. Dældin er 0,5-1,5 m djúp og sker þústina næstum í tvennt. Hér er líklega um að ræða rof vegna ágangs búpenings.
Engar aðrar dældir eru í þústinni. Ekki er ljóst hvort þessi þúst er leifar af gömlu húsunum sem hugsanlega hefur verið ýtt eitthvað til eða hvort þarna voru aðeins gamlir taðhaugar.

Heimild:
-“Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III” – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.

Dyljársel

Í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II” árið 2010 er fjallað um bæina Hurðarbak, Morastaði, Eilífsdal, Flekkudal, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaði, Fossá og Skorhaga.

Hurðarbak

Hurðarbak

20 hdr 1705, Meðalfellskirkjueign. JÁM III, 411. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 99. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: “a xxc j heimalandi. leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. so gropttur.” DI IV, 115-116. “Snjóflóð féll á bæinn 1699 og tók fjós og fé.” Hannes Þorsteinsson segir nafnið eiga að vera Hurðarbak en ekki Urðarbak eins og áður hafði verið lagt til að væri upprunaleg mynd þess. HÞ: “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: Selstöðu í Meðalfellsland þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því að búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt geta þó ekki við varað að peningur gángi á Meðalfells og Þorláksstaða engi. Túnin eru merkilega fordjörfuð af snjóflóðum og skriðum, og er fyrir hvörutveggja þessum jafnan yfirhángandi voveiflegur mannháski manna og fjenaðar, gjörist og árlega í næstu 20 ár hjer af mein og skaði, og kostar það ábúendur stórerfiði sjerhvört ár og moka skriður, og hefur landsdrottinn það hingað til öngvu launað. Landþröng hin mesta.” JÁM III, 411. 1840: “Þar er heyskapur allgóður, en mikið lítið beitiland og ekkert mótak.” SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 2.160 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Túnið girti hann [Sveinbjörn Guðmundsson 1906-1939] með netgirðingu. … En sjerstaklega gott verk gerði hann [Gunnar Holm 1939-1946] á Hurðarbaki með því að láta sljetta árbakkana (Laxár) í Hurðarbakslandi og yfirhöfuð engjarnar þar og Hurðarbaksnes, og er svo komið, að engjarnar mestallar að Hurðarbaki eru orðnar vjeltækar og fjótunnar og ná yfir mun stærra svæði en í tíð Sveinbjarnar Guðmundssonar. Gunnar fjekk sjer dráttarvjel til heimilisnota og fjekk hann hana viðeigandi greiðu og með þeim tækjum eru engjarnar að Hurðarbaki ákaflega fljótslegnar. Venjulega eru engjarnar á Hurðarbaki mjög grasgefnar, en Gunnar bar mikið á þær af útlendum áburði og eru þær nú [1949] í fremstu röð. Einnig bætti hann heimatúnið allmikið og stækkaði það nokkuð.”
Gamli bæjarhóllinn á Hurðarbaki er norðan undir Múlafjalli um 500 m VNV við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 3,6 km norðaustan við bæinn Flekkudal. Bærinn er að mestu leiti í eyði þó nýlegt íbúðarhús sé á jörðinni og landið sé að hluta nýtt sem hagi fyrir hesta. Jörðin Hurðarbak er nú (2009) í eigu ábúenda Efri-Flekkudals. Á þessu svæði er sléttaður, grasigróinn hagi fyrir hross. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Fór hún [brúðkaupsveislan] fram [28. nóvember 1902] í nýju timburhúsi litlu, sem reist hafði verið sumarið áður og var Stefán Hansson yfirsmiður. Hafði þar áður verið gömul og mjög ljeleg baðstofa, en portbyggð. Niðri var lítið stofuhús. Í hinu nýja húsi var herbergi í báðum endum uppi á lofti, en portið mjög lágt. Þótti þetta samt á þeim tímum hin bezta híbýlabót. Nokkrum árum síðar var steypt utan um húsið og það lengt dálítið til austurs með skúr. Útihús voru mjög léleg á Hurðarbaki á þeim tíma og voru fjárhúsin þá vestan við svonefndan Þorláksstaðaás. En vegna þess, að þau þóttu of langt frá bænum, voru þau rifin niður og flutt heim á túnið vestast. Þar var þá byggð heyhlaða við fjárhúsin og stendur hvort tveggja enn, en hlaðan endurbætt og ný fjárhús byggð við með góðum viðum í tíð Gunnars Hólm [1939-1946, sjá einnig Kjósarmenn], … Nokkru bætti hann húsin á Hurðarbaki, sjerstaklega fjárhúsin, kom sjer upp vinnuherbergi til að geta unnið að húsgagnabólstrun heima, breytti nokkuð íbúðarhúsinu og byggði dágott fjós í stað hins eldra.” Alveg er búið að slétta úr bæjarhólnum en Hurðarbak fór í eyði um 1973. Erfitt er því að sjá nokkurn greinilegan bæjarhól en hann hefur trúlega verið að minnsta kosti um 65 m á lengd, um 35 m á breidd og snúið VNV-ASA. Nú (2009) virðist hann aðeins um 1-3 m á hæð í grasigróinni brekku sem hallar um 20-30° í NNA. Samkvæmt Pétri Lárussyni, heimildamanni og bónda í Káranesi, var tvíbýli að Hurðarbaki á tímabili og kemur fram í bókinni Ljósmyndir I að þar bjuggu frændur, Sveinbjörn Guðmundsson frá Valdastöðum og Benedikt Einarsson í sama húsi frá árinu 1906 fram til ársins 1939. Samkvæmt Pétri var að Hurðarbaki steinsteypt hús með bárujárnsþaki þegar bærinn fór í eyði 1973 en mjög líklegt er að hér sé um sama hús að ræða og byggt var fyrst sem timburhús árið 1901. Reiðingur var í þaki til einangrunar og líklega einnig í veggjum.
Steinsteypan var gróf þar sem hún var drýgð með stórum steinum. Húsin að Hurðarbaki voru jöfnuð við jörðu um 1990 en núverandi íbúðarhús er trúlega byggt í kring um eða eftir 1980.

Morastaðir

Morarstaðir

16 hdr 1705, konungseign. JÁM III, 389. 1847: 16 hndr. Kirkjueign. JJ, 99. 1705: “Landþröng er mikil. Skriður spilla úthögum. Hætt er peníngi fyrir fornum torfgröfum.” JÁM III, 389-390.
Túnakort 1917: Tún 3,2 teigar, að mestu slétt, garðar 600 m2. Í bókinni Ljósmyndir eftir Halldór Jónsson segir: “Þegar Einar [Jónsson] byrjar búskap [1908] á Morastöðum, hefir hann tjáð mjer, að túnið hafi gefið af sjer 120 hesta, en nú [1949] með nýræktinni um eða yfir 500 hesta, er bezt lætur. Er nú Morastaðatúnið að mestu orðið sljett og vjeltækt. Meir en helmingur af ræktuðu landi er nú túnauki, gerður í tíð þeirra feðga. … Þegar Einar kom að jörðinni, voru engar girðingar til, en nú er túnið girt með netgirðingu og nokkuð af engjum, röskir tveir kílómetrar.”
Gamli bærinn á Morastöðum var um 1,1 km ASA við Kiðafell og fast norðan og norðvestan við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Þar sem gamli bærinn stóð áður stendur nú (2009) nýlegt timburhús og sléttað malarplan norðan og vestan við húsið. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir um bæinn á Morastöðum: “Hann [Einar Jónsson afi Bergmanns heimildamanns, á Morastöðum frá 1908-1946] keypti jörðina, rjeðst í stórframkvæmdir, en maðurinn bjartsýnn og stórhuga, byggði steinsteypt íbúðarhús í stað gamla bæjarins, steinsteypta heyhlöðu og fjós, steinsteyptar votheyshlöður, kjallara undir fjósinu fyrir áburðinn og stórbætti túnið og færði það út … Þegar Einar kom að Morastöðum, var þar eftir sögn hans heyhlaða með torfveggjum, er tók um 180 hesta heys. Nú [1949] er steinsteypt hlaða fyrir um 500 hesta og lítil hlaða með veggjum úr torfi og grjóti fyrir 70-80 hesta. Votheyshlöður hafa verið og gerðar á Morastöðum fyrir 150-200 hesta miðað við þurrhey. … Ýmsar fleiri framkvæmdir hafa verið gerðar á Morastöðum, steypt stórt hænsnahús og hesthús og settur upp setuliðsskáli til geymslu.” Ekkert er eftir af gamla bænum sem uppi var áður en steinsteyptu húsin sem lýst er hér að ofan voru byggð og enginn skýr bæjarhóll er greinanlegur á svæðinu. Hluti steinsteyptu húsanna stendur ennþá (2009) um 30 m VNV við núverandi íbúðarhús. Við austurenda íbúðarhússins á Morastöðum virðast vera leifar af hleðslugrjóti eða vegghleðslum svo ekki er ólíklegt að leifar af bæjarhól finnist einnig undir sverði austan við hús og undir malarplani. Bærinn stóð í brekku sem hallar um 10-20° í SSV á hjalla sem er um 30 m breiður, um 5 m hár og liggur austur-vestur í fjallshlíðinni norðan við Miðdalsá. Samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur bærinn verið um 30-40 m langur og trúlega hefur verið gengið inn að sunnanverðu. Núverandi íbúðarhús hefur trúlega verið byggt ofan í kálgarð.

Eilífsdalur

Eilífsdalur

20 hdr. 1705, Eilífsdalskot 1/4 jarðarinnar 1705 þá í byggð. JÁM III, 399, 400. 1690: 20 hdr. jörðin seld fyrir 60 hdr í lausafé. Jarðabréf, 21. Í Kjalnesinga sögu segir: “Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvágs ok Botnsár ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. … Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á Þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á Tindsstöðum ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.” ÍF XIV, 3. Nafnið Eilífsdalur kemur fyrst fyrir um 1220 í máldaga Saurbæjarkirkju: “[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc vr myrdal. ef þar bua landeigendr. þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. en ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. ef þav giora skiptingar tiund;” DI I, 402. 1352: Á Reynivallakirkja lambahöfn í Eilífsdal. DI III, 70-71.
1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1478]: Á Reynivallakirkja lambabeit í Lambatungum í Eilífsdal. DI VI, 178-179. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
1705: “Engið er fordjarfað af skriuðum, en túnin brjóta árlega tvær ár, sem hjá þeim falla, er og háksi af þessum hvorutveggjum skaða jafnlega. Sandfjúk grandar ogso túnunum.” JÁM III, 401. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 540 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: Engir voru kartöflugarðar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [1899-1912]. Kvað Oddur [Andrjesson], að reynt hafi verið að rækta kartöflur, en eigi lánazt vegna þess, hve jarðvegur er leirborinn þar sem til var sáð, og meiri hætta á næturfrostum þar í fjallakví að heita mátti. Fyrir allmörgum árum [texti skrifaður 1949] hefir þó verið hafizt handa í Eilífsdal um kartöfluræktun, en nokkuð fjær bænum, og gefizt yfirleitt allvel, enda í betri jarðvegi fyrir þann jarðargróða en heima við bæinn. … Í tíð Þórðar Oddssonar [1912-1941] var túnið girt með netgirðingu, en á árinu 1946 endurbættu bræðurnir [Oddur og Þorkell Þórðarsynir] girðinguna og stækkuðu hana, þannig, að hún nær um tún og engjar og er þa ð gott og mjög þarft verk.”
Gamli bærinn í Eilífsdal var um 3 km suðvestan við Flekkudal, um 320 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 100 m vestan við Dælisá. Við bæjarhólinn eru gömul steinsteypt útihús sem reist voru upp úr 1920, malarborin hestagirðing og grasigróin sléttuð tún og hagar.
Útihúsin eru nú (2009) notuð sem hesthús. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: “Mjög voru byggingar ljelegar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [um aldamótin 1900], fornleg baðstofa, nokkuð stór, með glugga á báðum endum, aðrar byggingar voru eftir þessu, eiginlega á fallandi fæti.” Þar segir einnig: “Tók þá [1912] við búi Þórður Oddson, … Búa þau [Þórður og kona hans] í Eilífsdal, þangað til synir þeirra tveir, …, taka við búi árið 1941, … Á síðari búskaparárum Þórðar Oddssonar var byggt laglegt íbúðarhús úr steinsteypu í Eilífsdal, heyhlöður tvær, votheyshlöður tvær og fjárhús við aðra heyhlöðuna. Var heimahlaðan steypt.” Bæjarhúsin sem sýnd eru á túnakorti frá árinu 1917 hafa verið fast sunnan og suðaustan við steinsteypt útihúsin sem byggð voru rétt fyrir, eða í kring um, árið 1940. Samkvæmt lýsingu Halldórs Jónssonar hafa þau verið byggð eitthvað fyrir aldamótin 1900. Á þessu svæði er aðeins ógreinilegur sléttaður og hálf grasigróinn bæjarhóll sem er um 80 m á lengd, um 50 m á breidd og 1-3 m á hæð. Hóllinn snýr austur-vestur og er hann hæstur þar sem gömlu útihúsin standa. Ekkert sést til fornleifa vegna sléttunar en mjög líklegt er að fornleifar finnist undir sverði.

Eilífsdalskot

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: “Jarðardýrleiki xx c. Er jörðin sundurdeild í tvö býli, og er afbýlið kallað Eilífsdalskot, fjórðúngur jarðarinnar.” Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Eilífsdalskot um 265 m NNV við bæjarþyrpingu og var heimatúnið 40-140 m norðan við Kotá og 30-230 m vestan við Dælisá. Mjög líklega er þetta sama kot skráð í bókinni Kjósarmenn undir nafninu Eilífsdalshjáleiga en þar var búið að minnsta kosti frá árinu 1681 fram til ársins 1740. Á svæðinu þar sem bærinn og kálgarðurinn stóðu eru útihús og hlaða úr bárujárni og timbri á steinsteyptum grunni. Útihúsin eru á sléttum hjalla utan í grasigrónum mel. Hjallinn hefur verið grafinn að hluta inn í hlíðina en brekkan umhverfis útihúsin hallar 20-45° í suður.Austar þar sem útihúsin stóðu breytist landslagið í grófan en frekar flatan malarkamb sem er gróinn mosa og grasi hér og þar. Samkvæmt Huldu Þorsteinsdóttur, heimildamanni, hefur Vegagerðin tekið mikið af efni til vegagerðar af þessu svæði og hefur því verið mjög raskað í gegnum árin. Á túnakort frá árinu 1917 eru merkt inn tvö hús í heimatúni. Túnið umhverfis kotið var 0,9 teigar, og þar var einn kálgarður 110 m2 að stærð. Eins og áður sagði var kotið, A, teiknað um 265 m NNV við bæjarhól Eilífsdals. Kálgarður C var um 5 m vestan við kotið.
Útihús B voru svo samkvæmt túnakorti um 135 m ANA við kot A. Á vettvangi virðist það þó ekki mögulegt miðað við stöðu Kotár og Dælisár. Útihús B var við vettvangsskráningu staðsett ofan við ármótin þar sem Kotá og Dælisá mætast eins og sýnt er á túnakorti en sá staður er ekki nema um 115 m norðaustan við kot A. Hugsanlegt er að kot A hafi þá staðið lengra í burtu frá bæ suðvestar en útihúsin. Þá er ekki ómögulegt að leifar finnist undir malarveginum niður að útihúsunum eða undir sverði í grasigrónum hrossahaga suðvestan við veginn þó ekkert sjáist á yfirborðinu. Einnig er mögulegt að árfarvegirnir hafi breyst síðan 1917 vegna uppmoksturs úr Dælisá og efnistöku á svæðinu og útihúsin því verið um 20 m ANA en þau voru skráð. Ekkert sést til fornleifa á þessum slóðum vegna
rasks.

Flekkudalur (enn efri)

Flekkudalur

40 hdr 1705, þá tveir bæir (sjá GK-340:001 og GK-340:017). JÁM III, 403. 1483: Jarðarinnar getið í sölubréfi, þá kaupir Margrét Vigfúsdóttir 10 hdr í Flekkudal, þá í Reynivallakirkjusókn, DI V, 800. 1847: 40 hndr. Bændaeign. Í Jarðatali Johnsens segir einnig: “Báðir Flekkudalir eru þángað til 1802 taldir saman. Prestur nefnir Efri- og Neðri-Flekkudal, með 1 ábúenda hvorn, en sýslumaður 1 Flekkudal, einsog líka prestur, Grjóteyri, sem engin jarðabók getur um, en máske er það sama sem jarðabækurnar kalla Neðri-Flekkudal, hvarámóti prestur að líkindum aðgreinir býlin á Flekkudal sjálfum (enum efri), í Efri- og Neðri Flekkudal, því sýslumaður telur 1 Flekkudal 25 h., en Grjóteyri 15 h. Að dýrleika, alls 40 h., einsog jarðabækurnar.” JJ, 100. 1705: “Hætt er fyrir skriðum og snjóflóðum bæði húsum og túni. Á brýtur engjar og tún og ber grjót yfir til stórmeina. Hætt er fyrir foruðum og dýjum.” JÁM III, 403. 1840: “… hefir fallegt tún, ekki mikið ummáls, engi nokkuð til hlítar og veitiland á dalnum um sumar, en minnni útbeit vetrar.” SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,5 teigar allt slétt, garðar 1000 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Er Guðni [Ólafsson 1935 til a.m.k. 1949] að bæta jörðin, með stækkun og umbótum á túninu og með uppþurrkun með skurðgröfu með fyrirhugaða frekari túnrækt.”
“Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin,” segir í örnefnaskrá Flekkudals. Í örnefnaskrá Grjóteyrar og Flekkudals segir einnig um Flekkudalsbæina: “Í Grjóteyrarlandi, vestan Flekkudalsár veit ég um þessi nöfn: Tutlutættur þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá eitt býli, mun það nafn frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fékk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Þegar undirritaður fluttist að Grjóteyri 1905 gekk Grjóteyrartúnið vestan ár undir nafninu Tutlutún, móarnir neðan þess Flekkudalsmóar.” Gamli bærinn í Flekkudal var um 570 m suðvestan við Flekkudal (enn neðri) (nú Grjóteyri) og um 100 m vestan við núverandi íbúðarhús í Flekkudal Efri þar sem áður hét Hjálmur. Leifar af bæjarhól eru við rætur Paradísarhnúks (fjallsrætur Esjunnar) neðst í grasigróinni brekku sem hallar um 10-20° í norðaustur. Á þessu svæði eru aðeins gömul, steinsteypt útihús og hlaða og sléttaður grasigróinn bæjarhóll. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Mikið gerði Ólafur [Einarsson bóndi í Flekkudal 1895-1935] að húsabótum og talsvert, að jarðabótum. Um aldamótin [1900] var mjög ljeleg baðstofa í Flekkudal, bekkbyggð, en í hennar stað byggði hann íbúðarhús úr steinsteypu, og þó það sje engan veginn gallalaust, var það mjög mikil bót frá því sem var, einnig allstóra heyhlöðu við íbúðarhúsið fyrir töðuna, og fjós og hesthús, einnig úr steinsteypu, allt áfast hvert öðru og svo hlöðu fyrir útheyskapinn og fjárhús við.” Samkvæmt Guðnýju G. Ívarsdóttur, heimildamanni, var syðri hluti gömlu útihúsanna í Flekkudal sem enn eru uppistandandi eitt sinn hluti af gamla bænum. Veggir þeirra eru steyptir úr mjög grófri grjót- og malarsteypublöndu líkt og var í íbúðarhúsinu að Hurðarbaki. Steypt var með stórum grjóthnullungum til að drýgja steypuna. Húsið var með timburþaki og þremur burstum og var fjósið 002 eins byggt. Guðný vissi ekki hvenær húsin voru byggð en ef tekið er mið af túnakorti frá árinu 1917 virðast þau þegar hafa verið byggð þá. Líklegt er að þau hafi verið byggð um eða rétt eftir aldamótin 1900 þegar Ólafur Einarsson var bóndi eins og segir hér að ofan. Bærinn brann 1949 en þá var byggt aftur ofan á hann og honum breytt í hlöðu. Fjárhús voru svo steypt fast norðan við hlöðuna og nýtt íbúðarhús byggt á Hjálmi. Á ljósmyndum í eigu Guðnýjar frá því kring um 1925 má sjá að grjóthleðslur eru á milli steyptu húsanna (burstanna) líkt og í torfbæjum og var grjóthlaðin stétt fyrir framan húsið. Aðeins sést girðing umhverfis kálgarða 008. Búið er að raska bæjarhólnum mjög mikið en hann hefur verið um 60 m á lengd, um 50 m á breidd og snúið norðvestur-suðaustur. Aðeins eru greinanlegar leifar eftir af hólnum sunnan við gamla bæinn (hlöðuna) og þar er hann sléttaður, grasigróinn og 1-2 m á hæð. Hóllinn er ávalur vegna sléttunar en ekki er þó ólíklegt að fornleifar leynist þar undir sverði.

Getið er um mögulegt sel 

Flekkurdalur

Flekkudalur – mögulegt sel….

“Þegar kemur austur fyrir Bláberjagil, heitir Stekkur, og þar innar er lækur, sem heitir Borgagil [Borg er náttúruleg klettaborg ],” segir í örnefnaskrá. Austan við Bláberjagil á Stekk eru hvorki meira né minna en fimm tóftir. Tvær þeirra eru hér skráðar saman þar sem þær voru nálægt hver annarri og keimlíkar í útliti. Tóftirnar eru á svæði sem er um 480 m norðvestan við bæjarhól 001 ofan (suðvestan) við malarveg sem liggur norðvestur-suðaustur niður að sumarbústað við Meðalfellsvatn. Tóftirnar eru í þýfðum grasi- og mosagrónum móa í brekku sem hallar 5-10° í norðaustur við rætur Esju. Tóftirnar tvær eru á svæði sem er um 80×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Fremri Háls (Litli Háls)

Fremri-Háls

12 hdr 1705. Eyðibýli 1705 voru Sauðafell, Möngutóftir (Margrétarkot) og Hulstaðir. JÁM III, 418. 1847: 12 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
Hannes Þorsteinsson: Fremri-Háls réttnefni. HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: “Túnin eru stórlega fordjörfuð af skriðum og enn hætt við meiri skaða bæði bænum og túnum, mönnum og fjenaði. Engjar öngvar í vissum stað, nema hvað slegið er vítt og dreift í heiðarlandi, og þó ekki í sama stað nema annaðhvört ár. En þær engjar, sem áður voru og nær liggja bænum, eru harnær eyðilagðar af skiðum og leir. Þverá, sem hjá túninu rennur, er kölluð Hálsá, brýtur túnið og ber grjót á. Hætt er bænum fyrir snjóflóði, og hefur það oft yfir fallið, so legið hefur við húsbroti.” JÁM III, 418. 1840: “Heyskapur er erfiður og reytingslegur, en landrými mikið og gott, helzt um sumartímann, vetrarþungt.” SSGK, 256. Túnakort 1917: Tún 6,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 950 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Nokkrar umbætur hafa verið gerðar á túni jarðarinnar í Jóns tíð [á tímabilinu 1927-1949] með hjálp dráttarvjelar.”
Gamli bæjarhóll að Fremri-Hálsi var um 50 m SSA við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Á þessu svæði eru malarplan og nýleg útihús og hlöður, steinsteypt og bárujárnsklædd. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Á Fremra-Hálsi voru í tíð þeirra hjónanna [Einars Ólafssonar og Jóhönnu Þorsteinsdóttur 1908-1922] ákaflega aumleg bæjarhús og síhrörnandi. Var þar loftbaðstofa og stofuhús lítið undir baðstofu, … Þegar Jóhanna fór frá Fremra-Hálsi, hófu þar búskap hjónin Sveinbjörn Jónsson … og Jónína Guðmundsdóttir … en þangað fluttu þau vorið 1922. Voru þessi hjón þar þangað til vorið 1927, …
Voru þessi hjón ákaflega dugleg bæði og efnahagur þeirra góður. Þau rifu eldri bæjarhúsin og byggðu bekkbaðstofu, sem var ólíku betri verustaður en gamla baðstofan. … Þegar þessi hjón fara frá Fremri-Hálsi, koma þangað hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Eyvindsdóttir [frá 1927 til dauðadags eða þar til Ingibjörg Jónsdóttir heimildarmaður tók við búi (?).] … Hefir Jón komið sjer upp allgóðu íbúðarhúsi [einhvern tíman á árunum 1927-1949, trúlega á fyrrihluta þessa tímabils]. Er það byggt úr steyptum steinum og hefir hann komið þar fyrir olíukyndingu. … Heyhlaða allgóð hefir verið byggð þar í hans tíð einnig [fyrir 1949].” Lítil sem ekkert er að sjá eftir af bæjarhólnum en samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur hann verið að minnsta kosti um 60 x 60 m að stærð. Búið er að slétta allt svæðið í malarplan og byggja hlöðu og útihús úr bárujárni og timbri á steyptum grunni. Fast suðvestan og ofan við hlöðurnar er um 2 m hátt grasigróið barð sem hugsanlega gæti falið leifar bæjarhóls en ekkert sést þó á yfirborði. Búið er að bera möl í þetta svæði en ekki er óhugsandi að leifar finnist undir sverði. Fyrir árið 1927 var vatn fyrir heimafólk og skepnur tekið úr bæjarlækjunum og borið heim að bæ.

Heimild er um sel við Sauðafell

Fremri-Háls

Fremri-Háls; mögulegt sel við Sauðafell[skot]…

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.” Þar segir einnig: “Saudafell hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi, bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda, áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. […] Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Er þar nú selstaða frá Hálsi.” Í örnefnaskrá Fremri-Háls segir svo frá: “Hálsá á upptök sín í Tjarnhólum, rennur eftir Seldal og áfram vestur með hlíðinni, sem síðar er nefnd, rennur skammt austan við bæ og út í Laxá. […].
Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.” Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: “Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel.” Sauðafell er um 2,1 km SSA við bæ 001 við sunnanvert mynni Seldals stutt frá austurbakka Hálsár og fast vestan við sléttað tún á Selflóa. Tóftirnar eru í þýfðum lyngi- og grasigrónum móa.

Valdastaðir

Valdastaðir

30 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. Munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni. 1237 er jarðarinnar getið í Sturlungu. Sturlunga saga I, 406. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja kastar skurð í landi jarðarinnar. DI III 70-71; DI IV, 116-117; DI VI, 178-79. 1705 er forn eyðihjáleiga í túninu og einnig nefnd þar Bollastaðir sem forn lögbýlisjörð sem Valdastaðir og Neðriháls GK-352 hafa haft afnot af. JÁM III, 428. 1847: Kirkjueign. 30 hndr. JJ, 100. 1705: “Túnin liggja undir skriðum og so engið, og jafnlega verði fyrir þeim skaða, spillist og nokkuð ár frá ári. Landþröngt er heldur en ekki, og stendur jörðin á horni landsins.” JÁM III, 428. 1840: “… þar er tún í betra lagi, engi nokkuð, lítið beitarland og stopul vetrarútbeit, vantar mótak …” SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 8 teigar, meirihluti sléttað, garðar 1900 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Þegar Guðmundur byrjar búskap á Valdastöðum [1875], var allt túnið kargaþýft. Tók hann brátt að sljetta það. Fyrstu áhöldin við túnasljettun voru torfljáir til ofanafristu og skófla. Vildi ganga illa að láta bitið haldast í ljánum í malarjarðvegi, eins og víða er í túnum undir Reynivallahálsi. … Þá var talið, að túnið hafi gefið af sjer að meðaltali árlega um 120 hestburði. Allt var þá ógirt, bæði tún og engjar. Síðan girti hann tún og að nokkru leyti engjar, mest með grjótgörðum. Þegar hann hætti búskap [1908], mun túnið hafa gefið af sjer um 300 hestburði, þá var það orðið mikið sljett, en ekki þó nærri allt. … Árið 1944 var talið, að túnið fóðraði um 20 nautgripi, 15 hross og 250 sauðfjár, en síðan hefir það verið stækkað að mjög miklum mun.

Valdastaðir

Valdastaðir og nágrenni.

Nokkuð löngu áður en Guðmundur hættir búskap, var farið að nota ávinnsluherfi, eða nálægt aldamótum, en kerran kemur til sögunnar töluvert síðar. Sláttuvjel var næst fyrst farið að nota á Valdastöðum nálægt árinu 1928 og rakstarvjel nokkru seinna. Af ræktuðu landi fengust árið 1944 um 600 hestburðir.”
Það hús sem merkt er inn á túnakort frá árinu 1917 var timburhús byggt í kringum aldamótin 1900. Nú eru tvö íbúðarhús á Valdastöðum. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni, heimildamanni, var gamli bærinn um 25 m ANA við vestara íbúðarhúsið á Valdastöðum og um 20 m norðan við það eystra. Líklega voru eldri bæir á svipuðum stað. Á þessu svæði er sléttað malarplan, steinsteypt gamalt fjós og bárujárnsklædd nýleg viðbygging. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson og Kjósarmenn eftir Harald Pétursson (ártal) segir: “Á Valdastöðum bjuggu um aldamótin merkishjónin Guðmundur Sveinbjarnarson og Katrín Jakobsdóttir. … Þá [1877] hóf hann [Guðmundur] búskap á allri jörðinni. Hafði áður verið tvíbýli og jafnvel þríbýli á Valdastöðum.” Í Kjósarmenn segir einnig: “Guðmundur átti heima í Kjós frá 11 ára aldri, fyrst í Eyrarkoti hjá Steina Halldórssyni og fluttist með honum að Valdastöðum [Austurbær] 1868, og þar átti hann heima síðan. Guðmundur hóf búskap á Valdastöðum 1875 í sambýli við Jakob tengdaföður sinn, en tók algerlega við hálflendunni í fardögum 1877, en hinni hálflendunni (vesturbænum) bætti hann við býli sitt 1882 og bjó upp frá því í einbýli á Valdastöðum til 1908, en þá brá hann búi og seldi jörðina sonum sínum tveimur. Þótt hann léti jörðina af hendi hafði hann þar fénað (sauðfé og hross) fram á elliár, stóðu fénaðarhús hans í aukatúni, þar sem nú standa Grímsstaðir.” Ekkert sést til fornleifa eða bæjarhóls vegna sléttunar og bygginga. Gamli bærinn sem merktur er inn á túnakort frá árinu 1917 var byggður í kringum aldamótin 1900. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni heimildamanni var gamli bærinn timburhús á tveimur hæðum með grjóthlöðnum kjallara. Húsið var einangrað með heyi og grjóthleðslur í kjallara voru styrktar með steypu. Kjallarinn var undir öllu húsinu en þar var fyrsta eldhúsið í húsinu ásamt kartöflugeymslu, geymslu, búri, miðstöðvarherbergi og baðherbergi. Eftir að eldhúsið var flutt upp á jarðhæð var komið upp þvottahúsi í kjallara. Gengið var inn í kjallarann að sunnan verðu en einnig tengdu tveir timburstigar allar hæðirnar inni í húsinu. Þegar gengið var inn í kjallarann var komið inn í stórt herbergi sem var fyrst eldhús en seinna þvottahús.
Beint á móti innganginum var búrið en að austan verðu voru geymsla, miðstöð og bað. Í vesturenda kjallara var svo kartöflugeymslan. Á jarðhæð voru tvær íbúðir. Í íbúðunum voru tvö eldhús, tvær stofur, tvö svefnherbergi, gangur og búr. Hægt var að ganga inn í húsið að sunnaverðu og kom maður þá inn á ganginn. Austan við ganginn sem lá norður-suður í gegn um allt húsið var svefnherbergi að norðanverðu fjær inngangi en stofa að sunnanverðu nær honum. Vestan við ganginn voru eldhús að norðan og svefnherbergi að sunnan. Vestan við eldhúsið var svo annað eldhús en vestan við svefnherbergið stofa. Búr var svo í norðvesturhorni hússins vestan við eldhúsin. Einnig var hægt að ganga að utan inn í vestari stofu og búr að vestanverðu. Upp úr 1965 voru svo baðherbergi og forstofa byggð við húsið vestanvert en fyrir þann tíma var klósettið í kjallaranum. Á annarri hæð var ris með kvisti. Fjögur herbergi voru uppi, tvö í kvisti. Gengið var upp stiga upp á framloftið en þar var gangur og geymsluloft undir súð. Í austur- og vesturendum var sitt hvort herbergið og svo tvö herbergi á milli þeirra í kvisti sunnan við framloftið. Ekki er ólíklegt að leifar eldri bæja leynist undir malarplani. Til gamans má geta að þetta hús var notað í fyrstu leiknu talmynd á Íslandi, “Milli fjalls og fjöru”, eftir Loft Guðmundsson og er hægt að fá meiri upplýsingar um hana hjá Kvikmyndasafni Íslands. Húsið brann árið 1974. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo um húsakost á Valdastöðum: “Snemma hóf Guðmundur húsbætur á Valdastöðum. Fjenaðarhúsin voru til og frá um túnið, en allt hey geymt heima í heygarði [staðsetning óþekkt]. Smám saman færði hann fjenaðarhúsin saman og síðar byggði hann heyhlöðu fyrir töðuna heima [003] og mun hún ein hin elzta í Kjósinni. Einnig byggði hann stóra og allvistlega baðstofu, eftir því sem þá gerðist, með kjallara undir. Mun baðstofan hafa verið 12 álna löng. Nokkru eftir aldamót, eða árið 1904, byggði hann íveruhús úr timbri, 12.10 álnir með íbúð í risi og kjallara undir. Var yfirsmiður Guðmundur Þórðarson, hreppstjóra á Neðri-Hálsi. Síðan hefir húsinu verið talsvert breytt og það stækkað að allmiklum mun.”

Fossá

Fossá

16 hdr 1705. JÁM, 436. 1847: 16 hndr. Bændaeign. JJ, 101. “Seljadalur: þar var búið fram til 1921. Á 17.öld sölsaði Reynivallaprestur undir sig Seljadal, en Fossá átti hann áður. Vindás átti þar líka sel, þess vegna er dalurinn kenndur við fleiri en eitt sel.” Ö-Fossá ath og viðb., 3 1840: “… ekki er hér heyskapur mikill, en hagkvisti gott og útigangur um vetur; partur norðan af Seljadal báðum megin liggur undir þessa jörð.” SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 5,9 teigar, mest sléttað, garðar 800 m2. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo: “Um aldamótin, eða laust eftir þau, tekur við búi á Fossá Ólafur Matthíasson, … Um aldamótin mátti segja, að túnið á Fossá væri sljett að einum fjórða hluta, sumt af því af náttúrunni. Ólafur Matthíasson gerði mikið að því að sljetta túnið, auðvitað með hinum gömlu aðferðum og höndum sínum. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir … að búa á Fossá og hafa búið þar síðan [skrifað 1949]. … Hafa þeir bætt túnið mjög mikið og haft til þess not af dráttarvjel. Eru báðir gefnir fyrir sauðfje og hafa mestmegnis haft þar sauðfjárbú og alifugla, en vegna veiki í sauðfjenu eru þeir farnir að leggja meiri rækt við að fjölga kúm og eru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur og flytja hana með mjólkurbílum, er flytja af Hvalfjarðarströnd. … Einnig áttu þeir, sem Skorhaga og Þrándarstaðamenn, rjett til reka fyrir landi jarðarinnar og fengu þeir mikið efni með þeim hætti, og gott, að því skapi.”
Bærinn Fossá er um 470 m sunnan við þjóðveg í Hvalfirði og um 240 m vestan við ána Fossá.
Land Fossár er nú skógræktar- og útivistarsvæði en samkvæmt minningargrein Björgvins Guðbrandssonar bónda á Fossá í Morgunblaðinu frá árinu 1988 og heimasíðum Skógræktarfélaga Kjósarsýslu og Kópavogs seldi Björgvin jörðina Skógræktarfélögum Kjósarsýslu og Kópavogs árið 1972, en hafði sjálfur ábúðarrétt á henni á meðan hann vildi búa.
Bæjarhóllinn er í sléttuðu graslendi við suðausturenda túns sem teygir sig til norðvestur frá bæ í átt að þjóðvegi 47. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Um aldamótin var á Fossá mjög ljeleg baðstofa og önnur bæjarhús af því skapi, baðstofan þröng og lítilfjörleg og einkum, er fjölskyldan stækkaði, en Ólafur [Matthíasson, bjó á Fossá 1899-1928] ljet reisa þar steinsteypt íbúðarhús, og var það talsverð híbýlabót, þótt þetta hús væri engan vegin svo vandað sem æskilegt hefði verið. Steypan reyndist illa. Fjekk nú þetta hús rækilegar umbætur á árinu 1946. Einnig reisti Ólafur heyhlöðu með járnþaki. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir frá Hækisdal að búa á Fossá og hafa búið þar síðan. …
Þessir bræður hafa gert varanlegar umbætur á íbúðarhúsinu, einnig byggt heyhlöðu áfast því og fjós, hesthús og fleira, og vel byggð og stæðileg fjárhús með áfastri heyhlöðu. Var þeim mikil hjálp í því að gera fengið ódýrt timbur og járn, er setuliðið var farið, og eitthvað hjá því. … Enga votheystóft er til á Fossá til þessa [1949].” Búskaparár Ólafs hér að ofan fengust í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson.
Bæjarhóllinn er ávalur og sporöskjulaga, um 45 m á breidd, um 50 m á lengd, 2-3 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Gamalt steinhús stendur enn norðvestan í hólnum en ekki er vitað nákvæmlega hvenær það var byggt. Út frá lýsingum í Ljósmyndir I og Kjósarmenn hefur það verið byggt á tímabilinu frá 1899-1928. Öll önnur hús á hólnum hafa verið sléttuð svo ekkert sést til þeirra lengur. Samkvæmt Inga Steinari Ólafssyni, heimildamanni, voru torf- og grjóthlaðin fjós, hlaða og hesthús sem reft var yfir vestan við íbúðarhús á bæjarhól en hann treysti sér ekki til að gefa frekari lýsingu á þeim. Þessi útihús hafa trúlega verið fjarlægð þegar Helgi og Björgvin bæta húsakostinn á Fossá.

Í heimildum segir frá Dys ofan Fossár 

Gíslagata

Dysin.

“Fyrir framan Rauðsmýri og Stóradal eru Sperribrekkur, og fossinn fremst í þeim, við veginn, heitir Mígandi. Skammt fyrir framan Míganda, við þjóðveginn, er Dys, samanb. þjóðs,” segir í örnefnaskrá. Dysið er um 1,7 m sunnan við bæjarhól 001 fast vestan við vegslóða 026 og um 50 m norðan við Míganda. Dysin er milli tveggja lítilla lækja. “Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn [026] vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt.” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins segir: “Austan götunnar [Gíslagata] á landamerkjum Reynivalla og Vindáss eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld.” Dysið er 6-8 m hár náttúrulegur sporöskjulaga mosagróinn klettur sem er grýttur í toppinn. Ekkert sést til mannvirkja.

Gíslagata

Dysin.

Samkvæmt séra Gunnari Kristjánssyni sóknarpresti á Reynivöllum er hér um munnmæli frekar en þjóðsögu að ræða og benti hann skráningarmanni vinsamlegast á umfjöllun um Magnús Sighvatsson í Kjósarmönnum en Magnús var bóndi á Fossá frá árinu 1728 til dánardags 1779. Þar segir m.a.: “Um hann [Magnús] hefur margt misjafnt verið sagt og ritað, enda var hann óvinsæll og sagður misindismaður, en ekki sést af dómabókum sýslunnar að hann hafi sætt opinberum ákærum eða verið dæmdur til refsingar, má því telja víst að ýmsar af sögum þeim er af Magnúsi gengu hafi fremur verið sprottnar af óvinsældum hans en illverkum. T.d. segir ein sagan þannig frá að Magnús hafi verið á ferð með síra Einari Illugasyni á Reynivöllum (d.1758), hafi Magnús ráðizt á prestinn, drepið hann og síðan rænt líkið miklu fé. Hið sanna um dauða prests er, að hann var í kaupstaðarferð og reið kófdrukkinn frá lest sinni og samferðarmönnum, síðan hafi hann fallið af baki í Svínaskarði og annar fótur hans orðið fastur í ístaði hnakksins og hesturinn dregið prest áfram. Þannig leikinn fannst prestur dauður (Sjá ennfr. Annál Sæmundar lögrm. Gissurarsonar). Um peningahvarf af líki síra Einars geta hvorki annállinn né aðrar samtímaheimildir.” Út frá þessu má ráða að Dauðsmannbrekkur séu frekar nefndar eftir slysadauða prests frekar en illverkum Magnúsar. Ekki er þó hægt annað en að velta því fyrir sér hvers vegna Magnús hefur verið stimplaður sem illmenni og hvort einhver fótur var fyrir sögunum.

Getið er um Gvendarbrunn
“Gvendarbrunnur er í læknum er rennur vestan við þjóðveginn, móti Míganda,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er sagður vera í lítilli lækjarsprænu um 1,65 km sunnan við bæ og 20-30 m NNA við Dys. Nákvæm staðsetning hans er ókunn. Lækurinn sem um ræðir er náttúrleg lækjarspræna sem rennur fast norðan og norðvestan við Dys og þaðan í norðaustur niður í Fossá. Lækurinn rennur í grýttum farvegi sem er ekki nema 0,2-0,5 m djúpur og 0,5-1,5 m breiður á þessum slóðum. Bakkar lækjarins eru grónir grasi, mosa og lyngi og mjög lágir. Vatnið er tært og svalandi. Ekkert sést til fornleifa.

Skorhagi (Múli)

Skorhagi

10 hdr. 1705. Eyðibýlið Þórkötlustaðir nefnt 1705. JÁM III, 441. Jörðin hét áður Múli og er Múla getið í máldaga Reynivallakirkju frá 1352. DI III, 70-71. Múla er getið í landnámu en þar bjó Refur hinn gamli sonur Þorsteins landnámsmanns í dalnum. Þar segir: “Hvamm-Þórir nam land millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; … Son Þórólfs smjors var Solmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjorgu kotlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðastrond; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfús Elliða-Grímsson.” ÍF I, 57, 59 (H18 og H19). Hannes Þorsteinsson: telur að jörðin hafi áður heitið Skorrhagi. HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: “Tún jarðarinnar brýtur Brynjudalsá. Engjunum spilla skiður, og hefur bærinn fluttur verið fyrir þann skuld, að skriður eyðilögðu hin fornu tún að ofan, en áin að framan.” JÁM III, 442. 1840: “… hér er heyskapur lítill, en góður útigangur vetur og sumar.” SSGK, 254. 1917: Tún 2,8 ha (meira en 1/2 þýft), garðar 729 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Nokkrar umbætur hefur Júlíus [Þórðarson 1922-1951] gert á túninu í seinni tíð. Litlir matjurtargarðar eru í Skorhaga og hefir bú þeirra hjóna jafna verið lítið og mjög treyst á beit með sauðfje. Kýr hafa verið þar fáar.”
Gamli bærinn í Skorhaga er um 2 m norðan við nýlegt steinsteypt íbúðarhús á jörðinni, um 210 m norðan við Brynjudalsá og um 1,3 km vestan við Þrándarstaði. Samkvæmt Séra Gunnari Kristjánssyni á Reynivöllum lést síðasti bóndinn í Skorhaga árið 1992 og lagðist þá niður búskapur. Gamli bærinn stendur enn á grasigrónu sléttlendi umkringdur húsagarði og sléttuðum túnum. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir svo um Skorhaga: “Vorið 1922 kemur að Skorhaga Júlíus bóndi Þórðarson … Í tíð þessara hjóna hefur verið byggð björt og hæfilega rúmgóð baðstofa, er það pallbaðstofa og allrúmgott eldhús við hlið hennar. Er þessi bygging með torfveggjum, en járnþaki, einnig hafa þau reist heyhlöðu litla með járnþaki [sjá 002]. Þeir feðgar hafa einnig reist geymsluhús úr timbri og fjárhús rjett við bæinn.” Í Skorhaga standa tvö íbúðarhús á um 20 m löngu og um 15 m breiðu svæði sem snýr norður-suður. Enginn bæjarhóll er greinilegur en þó má vera að leifar af eldri bæjum leynist undir sverði á svipuðu svæði og núverandi íbúðarhús eins og lýsing í bók Halldórs Jónssonar gefur til kynna, þar sem útihús var áður. Hugsanlegt er að mikill bæjarhóll hafi ekki náð að myndast á þessum stað þar sem heimildir segja frá því að bærinn hafi áður verið innar en verið færður utar í dalinn eitthvað fyrir 1600 vegna skriðufalla. Svæðið í kring um íbúðarhúsin hefur mjög líklega verið sléttað. Húsið er timburhús á tveimur hæðum sem er um 6 m á lengd, um 5 m á breidd og snýr norður-suður.
Þetta hús er nú (2009) notað sem geymsla. Á jarðhæð voru 3 (-4) herbergi og 2 uppi á lofti undir súð. Húsið er bárujárnsklætt timburhús. Steinsteyptur skorsteinn er sunnan við ás í miðju þaki og er þakgluggi eða kvistur um 0,4 m vestan við skorsteininn. Gengið er inn að vestan við suðvesturhorn hússins. Dyr hafa einhvern tíma einnig á austurhlið rétt sunnan við miðjan vegg en þeim hefur nú (2009) verið lokað og bárujárn neglt yfir. Ekki var hægt að fara inn í húsið en því virðist skipt í 3 herbergi niðri og 2 uppi í risi. Stiginn upp á loft er í austurenda húss fyrir miðju. Samkvæmt Sigurlaugu Júlíusdóttur, heimildamanni, voru 5 herbergi á neðri hæð þegar hún bjó í húsinu. Samkvæmt henni voru á neðri hæð stofa, eldhús, búr inn af eldhúsi, geymsla/herbergi og klósett. Tvö svefnherbergi voru uppi á lofti og er kvistur á því vestara á meðan gengið er upp stigann inn í hið eystra. Dyr eru á milli herbergja í miðju húsi. Þarna sváfu 2-3 manns í tíð Sigurlaugar. Húsið er mjög illa farið og þarfnast viðhalds. Nákvæmt byggingarár er ekki þekkt en líklegast er hér ekki um fornleif að ræða þar sem lýsingin á bæjarhúsunum í Skorhaga í Ljósmyndir I eru frá árinu 1949 og eiga greinilega við eldri bæjarhús í Skorhaga nema grjótveggirnir hafi verið fjarlægðir og járn sett í staðinn á seinni hluta 20.aldar.

Sagt er frá tóftum sels í landi Skorhaga

Múlasel

Múlasel í landi Skorhaga.

“Vestur af klettum er Seldalsholt, og þar vestur af er Seldalur,” segir í örnefnaskrá. Tvær ógreinilegar tóftir eru um 860 m VNV við bæ 001 og um 245 m norðaustan við Maríuhelli, fast suðvestur undir Seldalsholti. Á þessu svæði er frekar deigt graslendi. Um 4 m norðaustan og norðan við tóftirnar er um 1,5 m hár náttúrulegur grasigróinn bakki. Tóftirnar eru á um 30 löngu og um 20 m breiðu svæði í Seldal sem snýr austur-vestur. Tóft A er lítið annað en um 12 m langur og um 8 m breiður sporöskjulaga hóll sem snýr NA-SV. Hæð hólsins er 0,4-0,8 m. Engin greinanleg hólf eru greinileg í hólnum lengur. Um 20 m austan við tóft A undir náttúrulegum bakka er tóft B. Tóft B er einföld, um 5 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr austur-vestur. Innanmál hennar er 3 m á lengd og um 2 m á breidd. Veggir hennar eru mjög signir og grónir. Breidd þeirra er 2-3 m og hæð þeirra 0,4-0,6 m. Norðurveggur tóftarinnar er náttúrulegur bakki. Enginn inngangur er sjáanlegur. Tóftirnar virðast mjög fornar.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II: Hurðarbak, Morastaðir, Eilífsdalur, Flekkudalur, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaðir, Fossá og Skorhagi. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2010.

Múlasel

Múlasel – uppdráttur ÓSÁ.

Eyjasel

Í “Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I” árið 2008 er fjallað um bæina Þorláksstaði, Blönduholt, Þúfu, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, Eyrar-Útkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvelli, Írafell, Bæ, Meðalfell, Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahól, Flekkudal neðri, Sand, Neðri-Háls, Hvamm og Hvammsvík.

Þorlákstaðir

Þorláksstaðir

20 hdr 1705. Reynivellir áttu hér ítak, eldiviðargröf. “Haglítið er og landþröngt mjög, so að fyrir þann skuld verða heimamenn engið í beit að leggja, en átriðningur er mikill af annara manna peningum, bæði frá Eyjum, Hurðarbaki og Reynivöllum. Hætt er túninu mjög so fyrir snjóflóðum og skriðum … Landbrot mikið gjörir Laxá bæði á högum og engi, og bólgnar bæði áin og lækir úr fjallinu yfir mestan hluta graslendiss um vetur. Á engið, sem þó er besti kostur jarðarinnar, verður ekki sóktur heyskapur fyrir foruðum nema brúkað sje með stórerfiði.” JÁM, 413. 1840: “… þar er góður heyskapur og engi stórt, en lítið beitiland sumar og vetur.” 1917: Tún 5 teigar, garðar 1450m2. Mestallt slétt, þýfi í túnjöðrum.
1705: “Hætt er túninu mjög so fyrir snjóflóðum og skriðum, og hefur snjóflóð fyrir meir en 60 árum aftekið bæinn þar sem þá stóð hann, var hann því færður þángað sem nú er.”
“Bæjarlækur er næsta gil við Ásklif. Bærinn var færður, eftir að snjóflóð tók hann 1642,” segir í örnefnaskrá.
Yngra bæjarstæði á Þorláksstöðum, þ.e. yngra, er þar sem íbúðarhúsið stendur nú, nyrst í túni.
Núverandi íbúðarhús var reist á milli 1970 og 1980 en eldri bær var þá fast austan við húsið – steypt íbúðarhús með sambyggðu fjósi og hlöðu. Á túnakortinu frá 1917 eru sýnd þrjú hús í hnapp innan garðs og eru það sennilega bæjarhúsin. Íbúðarhúsið stendur á hól sem er mjög greinilegur. Bílastæði er sunnan við hann og stórt útihús með hlöðu austan til á hlaðinu en þar fer hóllinn lækkandi. Beitarhólf er við rætur hólsins að norðan. Lengd hólsins bendir eindregið til að hann sé náttúrulegur að einhverju leyti. Samkvæmt Bjarna Kristjánssyni var komið niður á einhverjar
hleðslur við byggingu íbúðarhússinss. Þá telur Bjarni að öskuhaugur sé norðan við hólinn, sennilega á því svæði þar sem áður voru kálgarðar skv. túnakorti frá 1917. Engar leifar af eldri mannvirkjum sjást nú á bæjarhólnum en þó má nefna að mikið grjót er undir girðingu sem markar beitarhólf norðan undir hólnum og ekki útilokað að þar leynist leifar af kálgarðshleðslu. Þegar kort var gert af túninu 1917 stóðu alls 9-10 hús í hnapp á bæjarstæðinu auk kálgarða bæði norðan og sunnan við bæjarstæðið.

Á Gildurás er hleðsla refagildru

Þorláksstaðir

Þorláksstaðir – refagildra á Gildruási.

“Norðan í fjallinu [Meðalfelli], austan frá, eru Gildurásbrekkur og hjallar tveir, sem heita Stóri- og LitliHjalli. … Vestur af þeim [Skothúsflötum] er Gildurás og nokkru vestar Litli-Gildurás og Ásklif,” segir í örnefnaskrá. Bjarni Kristjánsson kannast ekki við Gildurás og ekki heldur Magnús Sæmundsson, fyrrverandi bóndi á Eyjum. Hann er hér skráður vegna þess að örnefnið gæti verið vísbending um refagildru.
Örnefnalýsingin er óljós og næstum vonlaust að átta sig á því hvar Skothúsflatir og Gildurás hafa verið út frá henni einni saman. Ásinn sem kemur einna helst til greina sem Gildurás er ekki utan í fjallinu heldur stakur ás úti í mýrinni um 200-300 m austur af fjalli. Lítill ás með klettanibbum og melur í framhaldi af honum til austurs og norðausturs.
Á ásnum eru greinilegar hleðsluleifar og er grjótið mjög skófum vaxið. Hrúgaldið líkist grunni, er um 1 m í þvermál og 0,3 m hátt og lítur ekki út fyrir að það hafi verið mikið hærra. Hleðslan er ólík vörðubroti að því leyti að grjótið í hleðslunni er ákaflega misstórt. Þannig eru mjög stórir steinar í austurjaðrinum en annars meðalstórt grjót. Þó er erfitt að slá því föstu að hér hafi verið hlaðið undir gildru, enda sjást engar leifar af stokki eða öðrum umbúnaði sem sést stundum við refagildrur.

Blönduholt

Blönduholt

12 hdr 1705. Jarðarinnar er ekki getið í heimilum fyrr en 1616. Jarðabréf, 18. Blönduholtskot eyðihjáleiga í byggð frá um 1665 til um 1700.
1917: Tún allt sléttað 3 teigar, garðar 1280m2. “Þegar Jón Stefánsson, faðir minn, kom að Blöndholti 1891 (að mig minnir), var allt túnið karga stórþýft, utan ein stór flöt, rúm hálf dagslátta, sem búið var að slétta, hún var kölluð Stóraflöt [hún var í hallanum norðaustan við bæinn]. Hann sléttaði túnið allt með handverkfærum. Þegar það var búið, ræsti hann mýrarstykki neðan við túnið [mýrin var kölluð Veitan, hún var á milli túnsins og Stöðuls], og hafði lokið að slétta það líka, áður en vinnuvélar komu til sögunnar. Hann flutti frá Blöndholti 1935, þá orðinn gamall og mjög lúinn. Verst held ég grjótið hafi farið með hann, sem kom úr þúfunum. Það setti hann allt í garða utan við túnið. Seinni árin, sem hann var við sléttun, þoldi hann ekki að rista ofan af, en var mikið við að stinga (pæla) og þekja.”
“Bærinn í Blöndholti stendur utan í móaholti eða kargaþýfi, sem ekki hafði nafn svo að Bjarni vissi til. Engar skýringar kann hann á nafni bæjarins, en segir að sumir hafi viljað bera það fram “Blundholt”, en menn eru þó engu nær um merkinguna”, segir í örnefnaskrá.
Nýbýlið Fell var byggt út úr jörðinni árið 1960 og stendur um 530 m norðvestur af Blönduholti. Tvíbýli er í Blönduholti en þar er ekki lengur hefðbundinn búskapur. Bærinn stóð suðvestan í holti sem er nokkuð hátt, á því er nú sléttað tún. Umhverfis holtið er mýrlent, en víðast er búið að ræsa mýrarnar fram og rækta tún.
Ekki er eiginlegur bæjarhóll í Blönduholti en mikið rask hefur orðið á bæjarstæðinu. Steypt fjárhús eru nú þar sem bærinn var áður og litlu norðar er steypt íbúðarhús sem er nokkuð gamalt, með kjallara. Byggt hefur verið við það hús og standa framkvæmdir enn yfir. Grafið hefur verið frá húsinu sunnan- og austanmegin. Einnig hefur verið grafið frá suðurhlið fjárhúsa og eru þau sjálf niðurgrafin. Heimreiðin að bænum liggur nú úr suðvestri að bænum.

Þúfa

Þúfa

20 hdr 1705 “Sýslumaður lætur Þúfu aðeins vera 14, en Þúfukot 6 h, að dýrleika, og efnir A.M. það með hér greindum leigumála.” JJnm, 99. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja hrossabeit í landi jarðarinnar (DI III 70-71, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79). Þúfukot – hjáleiga í byggð 1705. Síðar byggt Litlaþúfa, eða Lindarbrekka.
1917: Tún 3 teigar að mestu slétt, garðar 1040m2.
Bærinn í Þúfu stóð þar sem enn er gamalt íbúðarhús um 150 m norðvestur af nýrra íbúðarhúsi. Hár og áberandi hóll, eini hóllinn í túninu. Á honum stendur húsið sem er steinsteypt og gæti verið frá um 1930. Enginn kjallari er undir því. Stakstætt útihús er suðvestan við húsið og braggalaga skemma vestar, í vesturjaðri hólsins. Stór og ávalur hóll, allt að 40-50 m í þvermál. Hann hlýtur að vera náttúrulegur að mestu, en ekki er hægt að meta að hve miklu leyti hann er upphlaðinn. Hóllinn er allt að 5 m hár og frekar bratt niður af honum, sérstaklega til norðurs. Engar mannvistarleifar eru sjáanlegar á hólnum en þó eins og leifar af hleðslu eða grjótstétt við norðausturhorn hússins.

Getið er um sel í landi Þúfu
“Enn hærra upp undir gljúfrunum er Sel. Ofar heitir Hlíðarhorn. Það er melhryggur, sem skerst þvert frá Skorárgljúfrum til norðurs í hnúk, sem heitir Miðaftanskista og var eyktamark frá

Bæ,” segir í örnefnaskrá. “Sel: Engar tóftir eru þar sjáanlegar. Þarna er grasbrekka og skjólgott,” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Eftir því sem næst verður komist hefur Sel verið um 1,4 km suður af bæ. Er þá komið áleiðis upp í Skorárgljúfur. Mishæðótt og sundurskorin brekka í halla mót austri. Talsvert þýfi og grænka þó nokkur.
Engar heillegar tóftir sjást á þessu svæði en þó er ekki útilokað að það leynist í þýfinu. Staðurinn virðist óhentugur, beit lítil nema á afmörkuðu svæði og lítið hægt að sjá upp eða niður með ánni. Hugsanlega hefur Sel verið heldur neðar með ánni en allt svæðið var skoðað býsna vel með tilliti til fornleifa og hvergi fundust tóftir.

Þúfukot

Þúfukot

Hjáleiga Þúfu 1847 “Sýslumaður lætur Þúfu aðeins vera 14, en Þúfukot 6 h, að dýrleika, og efnir A.M. það með hér greindum leigumála. 1802 segir, að á Þúfukoti hafi verið sú kvöð til forna, að hafa 12 hesta til beitar frá Reynivalla kirkju.”
1917: Tún 2,4 teigar rúmlega hálft sléttað, garðar 700m2.
“Niður af Þúfukotsbæ taka við Skriðusporðar með læknum, en þar er uppgróin skriða, sem hlaupið hefur úr bæjargilinu. Það var trú að ekki mætti færa bæinn austur fyrir lækinn og boðaði ólán. Þeir feðgar, faðir minn og bróðir, brutu það bann, og lifðu skammt eftir það og gekk þá jörðin úr ættinni.” Þúfukot stóð hátt í 300 m vestur af Þúfu, vestan við bæjarlæk.
Þar sem bærinn stór er nú mikið raskað svæði, austan við það rennur lækur, þá kemur lítið hús og handan þess er núverandi íbúðarhús.
Á gamla bæjarstæðinu stóð til að byggja reiðskemmu og hefur jarðvegi verið rutt framan úr hól á svæði sem er allt að 50×20 m stórt og snýr frá norðvestri til suðausturs. Suðaustast í sárinu sjást steypuleifar sem skv. Pétri Jónssyni hljóta að hafa tilheyrt síðasta byggingarskeiði eldri bæjar. Rutt hefur verið allt niður á klöpp og sárið í hólnum er allt að tveggja metra djúpt. Það kemur á óvart að þar sjást í fljótu bragði engar mannvistarleifar, sem er furðulegt, og Pétur segist ekki hafa rekist á ösku eða neitt slíkt, einungis eitthvað eins og svarta drullu norðan við
steypuleifarnar sem hann taldi ef til vill hafa verið fjósflór/-haug. Ofan við sárið er hóllinn býsna grænn og kúptur, allt að 30 m í þvermál þótt ekki séu brúnirnar skýrar. Ekki er ólíklegt að bæjarstæðið hafi verið þar, fremst í hólrana sem gengur út úr fjallinu til norðurs. Hann er sléttaður af fyrri ábúanda. Austan við bæjarstæðið, við lækinn, hefur verið rutt út fyrir húsi og skín í ber jarðlög umhverfis. Vottar þó ekki fyrir mannvistarleifum þar heldur. Auk þessa rasks hefur vegur nú verið lagður til VNV fast neðan við grunn reiðskemmunnar sem aldrei varð, í átt að tveimur nýjum einbýlishúsum sem standa vestan Þúfukots.

Eyri (Hvalfjarðareyri)

Eyri

40 hdr. 1705. 30 hdr. 1847. Hálfkirkja var á jörðinni. Landnámsjörð Svartkels, sem fyrst bjó að Kiðafelli en flutti síðar að Eyri. 1198 er jarðarinnar getið í Sturlungu þar sem rætt er um Ketil Eyjólfsson og Ljót son hans er þar bjuggu. Sturlunga I, 235. Elsta heimild um kirkju á Eyri er í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200. (DI XII, 9) Næst er kirkjunnar getið í máldaga Saurbæjarkirkju um 1220: “[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc vr myrdal. ef þar bua landeigendr. þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. en ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra.
ef þav giora skiptingar tiund;” (DI I, 402) 1315: “Þa er Arni biskup vigdi kirkiu a Eyri gerdi hann þa skipan a ad Eyrar kirkia skal taka tyvnd oc lýsitolla af ollum heima monnvm þar: enn jngialldur leggur til kirkiu j saurbæ xij ær” (DI II, 404). Enn er kirkjunnar getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1315: “[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef Þar bua landeigenndur. skulu Þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. enn ef leiglenndijngar bua Þar eda hiabudamenn Þa skal j saurbæ gialldast tijunnd Þeirra oc hiona Þeirra. ef Þau giora skiptijnngar tijunnd;” (DI III, 32) Síðan er kirkjunnar getið í máldaga sem hefur verið tekinn saman einhverntíma á árunum 1491-1518: “Kirkian a Eyri aa .iiij. kugilldi. … Jtem þridung veidar j lagxfossi j lagsaa.” (DI VII, 54) 1569: Biskup selur jörðina fyrir Kirkjuferju í Árnessýslu. Hvor jörð 30 hdr en 10 hdr í heimalandi er kirkjueign. (DI XV, 312-314)
“Uppkot var þar sem Eyrarbærinn stendur nú, en Útkot þar sem Eyrarkot er í dag.”
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 eru 4 býli á jörðinni, eitt með upprunalega nafninu, annað nefnt Þorkelskot eftir ábúandanum og síðan Efrakot (8 hdr) og Neðrakot (5 hdr) sem hvorugt er talin hjáleiga. Síðan er þar ein hjáleiga, Blómsturvellir í ábúð 1705. JÁM III, 393-394 Hjáleigur 1847 Eyrar-Uppkot og Eyrar Útkot. Heimajörðin var lögð undir Eyrar-Uppkot. HJ:
1705: “Hætt er fyrir snjóflóðum og skriðum bæði túnum, högum, engjum og húsum og hefur nýlega þar á skaði orðið bæði túni og engi. JÁM III, 395. 1917: Tún 2 teigar að mestu sléttað, garðar 350m2. Uppkotið virðist sameinað heimajörðunni 1917.
“Uppkot var þar sem Eyrarbærinn stendur nú, en Útkot þar sem Eyrarkot er í dag,” segir í örnefnalýsingu. Nú standa engin hús á gamla bæjarstæði Eyrar og hafa sennilega ekki gert síðan snemma á 20. öld.
Bæjarhóllinn er rúma 100 m austur af núverandi Eyrarkoti en um 150 m NNV af bænum sem nú kallast Eyri en var áður Uppkot. Hann er inni á afgirtu svæði sem markast af núverandi þjóðvegi að norðan, gamla þjóðvegi að sunnan og læk að vestanverðu. Á túnakorti sem teiknað var árið 1917 virðast enn uppistandandi hús á þessum stað og kálgarður við þau að sunnanverðu. Lag húsanna á túnakorti bendir fremur til að þau kunni að hafa verið fjárhús með hlöðu fyrir aftan en mannabústaður en um það er þó ekki vitað. Í bókinni Kjósarmenn sem kom út árið 1961 stendur: “Á rústum hins forna Eyrarbæjar standa nú fjárhús eða tóftir.”
Grösugt svæði, sléttað og iðagrænt en austar, innan sömu girðingar, er mun þýfðara, grýtt og smáklettar. Bæjarhóllinn er stór og myndarlegur, einkum ef horft er á hann norðan frá, af núverandi þjóðvegi. Hann er ávalur og sker sig úr brekkunni, er fremur sléttur að ofanverðu en brattur til norðurs. Hóllinn hefur verið sléttaður en þó sennilega ekki mikið verið tekið ofan af honum því þar sjást, ef vel er að gáð, mjög óljós veggjarbrot norðvestast á háhólnum sem stefna NV-SA, líkt og húsin sem voru uppstandandi 1917.

Heimild er um kirkju á Eyri
EYRI (K) c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9
[um 1220]: [í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc vr myrdal. ef þar bua landeigendr. þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. en ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. ef þav giora skiptingar tiund; Máld DI I 402 [Saurbæjar].
[1315]: Eyre Þa er Arni biskup vigdi kirkiu a Eyri gerdi hann þa skipan a ad Eyrar kirkia skal taka tyvnd oc lýsitolla af ollum heima monnvm þar: enn jngialldur leggur til kirkiu j saurbæ xij ær; Máld DI II 404 [gæti vel verið Árni mildi, Þá öld yngra].
[1315]: [til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef Þar bua landeigenndur. skulu Þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. enn ef leiglenndijngar bua Þar eda hiabudamenn Þa skal j saurbæ gialldast tijunnd Þeirra oc hiona Þeirra. ef Þau giora skiptijnngar tijunnd; Máld DI III 32 [Saurbæjar – ekki er ljóst hvort sérákvæðin um tíundina eiga við um Eyri, líklega ekki] [1491-1518]: Eyrar maldagi j Kios.
Kirkian a Eyri aa .iiij. kugilldi. Jtem ein gaumul messuklædi sterk. Jtem iij smakluckur. Jtem þridung veidar j lagxfossi j lagsaa. Máld DI VII, 54 [AM 238 4to, bl. 124 (Bessastaðabók)].
17.5.1765: Bænhús á Eyri lagt niður; (PP, 113) [konungsbréf].
1705 segir í Jarðabók Árna og Páls: “Hjer er hálfkirkja, og embættaði þá fólk er til sacramentis hjer heima og af næstum bæjum hjer fyrir innan, sem enn lengra eiga að sækja til Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi, og þjónar presturinn Sr. Páll Sveinsson þessari hálfkirkju ásamt Saurbæjar og Brautarholts kirkjum.” “Kirkjugarður er neðan Eyrarhóls. Nú er búið að slétta hann. Áður mun hafa verið bænahús á Eyri og grafreitur við það,” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Flest bendir til að kirkjugarðurinn hafi verið á hól sem er við rætur norðurhluta bæjarhóls 001 og stendur 5-8 m lægra en hann. Grasi gróið svæði, nokkuð mishæðótt en þúfur hafa verið sléttaðar út að mestu.
Engar hleðsluleifar eða merki um leiði sjást á hólnum en hann er nokkuð reglulegur, ávalur og með jafnar brúnir sem bendir til að hann sé að hluta uppsafnaðar mannvistarleifar. Hóllinn er alls 25-30 m í þvermál.
Það lækkar skarpt niður af honum til norðurs og austurs um 1,5-2 m en hæðin heldur sér til vesturs, að bæjarlæknum sem þar rennur í slakka. Ekki er vitað til að bein hafi komið upp við túnasléttun á 20. öld.

Útskálahamar

Útskálahamar

16 hdr 1705.
1917: Tún 4,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 580m2.
Bærinn á Útskálahamri stóð norðvestan undir Eyrarfjalli (Kiðafelli). Bærinn stóð í austanverðu túninu samkvæmt túnakorti frá 1917 og lágu bæjarhúsin hvert upp af öðru meðfram Bæjarlæknum. Tvö útihús voru milli bæjar og lækjar sem skráð eru með bæjarhólnum. Kálgarðar voru vestan og sunnan við bæinn.
Bæjarhóllinn stendur miðja vegu milli brekkuróta í austri og lítils hamrabeltis í vestri. Nyrst á því, þar sem það er hæst, er Hulduhóll.
“[Finnbogi [kom 1901]) byggði […] baðstofu með kjallara undir fyrir eldhús og geymslu með torf- og grjótveggjum, en með skúr með járnþaki við hlið baðstofu. […] Vorið 1938 tekur við jörðinni Þorkell Ólafsson frá Fossá og hefir búið þar síðan [skrifað 1953]. […] hann hefir nú byggt steinsteypt íbúðarhús á jörðinni.”
Skammt norðan við bæjarhólinn rennur Bæjarlækur. Bæjarhóllinn er kominn í tún að mestu leyti en vestan við hann standa steinsteypt hús sem líklega hafa verið byggð um miðja síðustu öld.
Steinsteyptu húsin samanstanda af íbúðarhúsi, stórri skemmu eða útihúsi sem búið er að rífa að hluta, súrheysgryfju (að líkindum) og framan við og undir skemmunni er kjallari. Framan við skemmuna og ofan á hluta kjallarans hefur líklega einnig verið bygging sem búið er að rífa.
Íbúðarhúsið er lítillega niðurgrafið og er enn undir þaki. Miklu hefur verið rutt af steypu og öðru byggingar- og jarðvegsefni norður fyrir húsin að Bæjarlæknum.
Eiginlegur bæjarhóll virðist vera þar sem vestasti hluti bæjarins var miðað við afstöðu til annarra húsa á túnakorti. Hóllinn er um 20 x 18 m, snýr N-S.
Hæstur er hóllinn vestast og nyrst, um 1,3 m, en ef til vill hefur verið grafið í hólinn í tengslum við byggingu steinsteypta hússins sem stendur um 8 m neðan við hann. Lægstur er hóllinn til suðausturs. Fast austan við hann er lítil dæld, um 2,5 x 3 m, snýr N-S.
Ekki er að sjá neinar húsaleifar utan hólsins að öðru leyti. landið hallar lítillega til austurs. Uppi á hólnum, sunnan við miðjan hólinn eru leifar af húsgrunni og skorsteini. Getur hér verið um hús Finnboga að ræða og að þetta sé þá ef til vill kjallarinn. Grunnurinn er steinhlaðinn og niður grafinn að austan- og sunnanverðu. Skorsteinn er í norðausturhlutanum. Grunnurinn er um 3 x 3,5 m, snýr N-S. Dýpstur er hann í suðausturhorni, um 0,3 m. 3 umför grjóthleðslu sjást. Inngangur virðist hafa verið á vesturvegg en þó er það óskýrt.

Kiðafell

Kiðafell

16 hdr 1705. Býlið Ós í landi jarðarinnar, byggt um 1856. Landnámsjörð Svartkels sem settist þar að fyrst en flutti síðar að Eyri.
1917: Tún 4,9 teigar, að mestu sléttað (á síðustu 15 árum), garðar 700m2.
Bærinn á Kiðafelli er á miðju túnakorti frá 1917. Bærinn hefur staðið á hlaðinu hjá Kiðafelli I. Til er nákvæmt túnakort frá 1943 með örnefnum og skýringum og á því má sjá nákvæma staðsetningu bæjarins. Samkvæmt því korti hefur bærinn staðið fast norðan við traðarendann, um 20-30 m norðvestur af núverandi íbúðarhúsi á Kiðafelli I sem byggt var 1958. Íbúðarhúsið sem sýnt er á kortinu frá 1943 stendur enn og er austast á hlaðinu.
Beitarhólf er þar sem gamli bærinn stóð og austan og sunnan við þann stað standa önnur hús hærra. Þar sem gamli bærinn stóð er lausagrjót efst í hólfinu. Á staðnum er greinilegur hóll en sennilegt að hann sé að mestu náttúrulegur og bærinn hafi einfaldlega verið reistur á hæsta hólnum í túninu. Öllu hefur verið mikið raskað af seinni tíma byggingum og ekki sjást leifar eldri húsa á yfirborði. Kjallari er undir íbúðarhúsi frá 1958 sem stendur sunnarlega á bæjarhól. Reyndar sést hleðsla á hlaðinu vestan við gamla íbúðarhúsið, um 9 x 1,5 m, en hún stendur ekki upp úr jörðinni og getur verið gömul stétt. Austan við gamla íbúðarhúsið hefur verið mokað frá húsinu sem virðist hafa farið í uppfyllingu en í sniði má sjá örlitlar leifar af kolum og brenndum beinum. Bæjarhóllinn gæti verið um 50 m í þvermál. Óljóst hvar mörkin eru milli þess sem hefur hlaðist upp og þess sem er náttúrulegt. Tvö lítil hús á túnakorti sem eru fast sunnan og austan við bæinn eru skráð með honum.

Getið er um sel í Seljadal
“Fossá ræður merkjum móti Útskálahamri, frá því hún kemur upp í Stardölum, og rennur um Fossárgljúfur til sjávar. Rétt fyrir neðan Stardali rennur hún um smádal, sem heitir Seljadalur,” segir í örnefnaskrá.
Seljadalur er þröngur og stuttur dalur og þar er nokkur uppblástur og grónar jarðvegsskriður. Seljadalur var allur genginn og hluti Stardala en ekki fundust leifar af seli. Líklegur staður fyrir selið er um 2 km norðaustan við bæ 001. Hann er neðan við lítinn foss í ánni þar sem hún liggur í sveig til vesturs áður en hún rennur til suðurs í Fossárgljúfri. Ofan og sunnan við sveiginn á ánni er gróin eyri neðst í brekku. Á miðri eyrinni hefur hlaðist upp jarðvegur sem vatn hefur borið úr hlíðinni og er skarð í gegnum þann hól sem vatnið hefur myndað. Á hólnum vex sef og fífa en annarsstaðar er grasi- og lyngivaxið, sérlega næst árbakkanum. Áin hefur runnið víða hér um bakkana og mótað þá. Austast á þessari eyri er líklegast að tóftir hafi verið þó að ekki sé hægt að sjá það vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á landslagi.

Bær

Bær

16 hdr 1508/1705. 1508 er jarðarinnar getið í sölubréfi er jörði er seld fyrir 8 hundruð í lausafé, á liggur jörðin í Saurbæjarkirkjusókn. DI VIII, 207. 1847 er hjáleigunnar Litlabæjar getið.
1705: “Úthey eru mjög ljett, so að valla eru fóðurgæf þaug bestur. Hætt er fyrir foruðum, torfgröfum og holpytta lækjum.” JÁM III, 399. 1917: Tún 3,8 teigar, allt sléttað, garðar 1600m2.
Bæjarstæðið og túnið á Bæ standa nokkuð hátt á hæðóttum hrygg milli Skorár og Bæjarlækjar. Bærinn stóð á miðju túninu á hól sem er að einhverju leyti náttúrulegur en hann er ekki sá hæsti á svæðinu.
Til vesturs hækkar landið og hólarnir en þeir lækka að sama skapi til austurs. Á túnakorti frá 1917 liggur vegur um hlaðið á Bæ. Malarvegur um sveitina liggur líklega enn á sömu eða svipuðum slóðum, í dæld neðan við bæjarstæðið.
Bæjarhóllinn virðist vera náttúrulegur að miklu leyti. Ekki sést til rústa á hólnum en grafið hefur í hann fyrir rotþró og steinsteypt hús stendur sunnan eða suðvestan við staðinn þar sem gamli bærinn hefur staðið. Ekki er hægt að sjá að kjallari sé undir því húsi. Afar grasgefið er á þessum stað en malarplan er við steypt hús. Ekki er ólíklegt að hóllinn hafi raskast við vegagerð og lagningu heimreiðar. Ekki er lengur hefðbundinn búskapur á Bæ eða föst búseta. Hóllinn er um 30 x 20 m og liggur N-S.

Meðalfell
Meðalfell
60 hdr. 1705. Bændaeign. 60 hdr. 1847. Landnámsjörð Valþjófs Örlygssonar.
Kirkju í Meðalfelli er fyrst getið um 1200 í kirknaskrá Páls biskups. (DI XII, 10) Næst er kirkjunnar getið í máldaga frá um 1367: “xlvii. A medalfelle j kios er kirkia vijgd med gude mariu drottningu.”( DI III, 21°9).
Máldagi kirkjunnar hefur varðveist í Vilchinsbók frá 1397: a xxc j heimalandi. leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. so gropttur.” (DI IV, 115-116) 1473: Jörðin nefnd í bréfi. DI V, 728. 1512: Jörðin nefnd í bréfi. DI VIII, 410. 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV, 633-634) Meðalfellskot GK-337 hjáleiga 1705, einnig eyðihjáleiga nefnt Dæliskot. Hjarðarholt nýbýli frá 1905.
1705: “Hætt er túnunum mjög fyrir fjallskriðum og verður oftast árlega þar af skaði, sem með stórerfiði þarf að umbæta.” JÁM III, 408. “… liggur þar við undir hálsendanum að sunnanverðu, þar er stórt tún, engi á Laxárdalsbökkum, landslítið heima, en því meira á Meðalfellsdal, hvar haghús er brúkað.”
1917: Heimatún og austurtún 11,1 teigar, garðar heima 950m2. Allt slétt. “Meðalfell á engjar í Laxárdalnum með fram ánni að sunnan, á alllöngum kafla.”
“Bærinn stendur í nokkuð brattri hlíð undir Meðalfelli og við norðvesturhorn Meðalfellsvatns,” segir í örnefnaskrá. Gamli bærinn í Meðalfelli var á svipuðum stað og íbúðarhúsið stendur nú en þó um 10-20 m suðvestan við íbúðarhúsið. Greinilegur bæjarhóll er á þessum stað og hefur honum ekki verið hróflað að ráði, aðeins sléttað úr bæjartóftunum. Íbúðarhúsið sem nú stendur á Meðalfelli er á bæjarhólnum.
Bæjarhóllinn er 65 X 40 m (austur-vestur) og allt að 3 m á hæð. Framan við bæinn er fánastöng og hún stendur á hellu sem var í eldri bænum á hólnum. Á hlaðinu er einnig hestasteinn sem stóð áður við tröðina 016 en stendur nú vestan megin við húsið. Við hann voru hestarnir bundnir og á honum er járnlykkja. Enginn kjallari er undir íbúðarhúsinu og engin útihús standa á sjálfum bæjarhólnum.

Heimildir eru um kirkju á Meðalfelli
“MEÐALFELL Í KJÓS (K) -Maríu, heilögum krossi, Jóni postula, Ólafi, Þorláki, Maríu Magdalenu (REYNIVALLAANNEXÍA) c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10.
[1367]: xlvii. A medalfelle j kios er kirkia vijgd med gude mariu drottningu. þetta ber alltt saman vid Vilchinsbok. vtann Vilchinsbok er fyllre; Hítardalsbók DI III 21°9.
1397: a xxc j heimalandi. leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. [+mannshlut í Laxá] Þar skal vera heimilisprestur og messa hvern helgann dag og j ollumm ix lestra holldum. Hvern dag vmm Langafostv oc Jolafostv oc ij daga j viku Þess j millumm. Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. so gropttur. kirk[iu] messa krossmessv a haustid portio Ecclesiæ vmm xiiij ar ixc. fiell þar nidur af cc; Máld DI IV 115-116
1575: Máld DI XV 633-634.
[1600]: Kyrkiukugillde j kios. … Á medalfelli vj. kyrckiu kugilldi … JS 143 4to, bl. 374.
12.8.1808: Meðalfellskirkja lögð niður; (PP, 114) [konungsbréf].
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Kirkjustaður og er annecteruð með Reynivalla sókn.” Merki kirkju og kirkjugarðs sjást ennþá 20-30 m suðaustan við íbúðarhúsið á Meðalfelli. “Suðaustan við bæinn er Kirkjugarðurinn. Fyrir austan hann er Kirkjugarðsflötin, austur að skurðinum og niður að vegi, sem liggur þar austur túnið,” segir í örnefnaskrá Í jaðri bæjarhóls.
Garðurinn og kirkjutóftin snúa VNV-ASA. Kirkjugarðurinn er 25 X 18 m að stærð, ferhyrndur. Garðurinn er hlaðinn úr torfi. Að sunnan er hleðslan þó nærri orðin ógreinileg. Inn í garðinum sér móta fyrir kirkjutóft eða grunni. Hún er 8 X 5-6 m að stærð og þar má sjá móta fyrir grjóthleðslu. Kirkjan hefur verið í norðurhorni kirkjugarðsins og er opið sem er á vesturvegg garðsins miðjum skakkt á kirkjuna. Í garðinum eru 1-2 leiði greinileg og eitt í kirkjutóftinni. Ekki hefur verið gróðursett tré í garðinn. Garðurinn er girtur af honum til varnar. Fast sunnan við garð er óljós vegslóði. Vegir lágu heim að bænum og kirkjunni bæði úr suðvestri og suðri.
Slóðinn úr suðri lág til norðurs að bæjarhólnum en beygði svo með honum til suðausturs meðfram garði.

Hjarðarholt
Hjarðarholt
“Hjarðarholt er býli upp frá Dælisá,” segir í örnefnaskrá. Býlið Hjarðarholt var stofnað 1905 af Guðmundi Erlendssyni.
Á túnakorti frá 1917 sést að túnið sléttað telst 0,7 teigar, garðar 250m2. Þar er þá bæjarhóll og tvö útihús. Vestan við bæjarstæðið er túngarður, norðan við er sumarhús sem heitir Hjarðarholt, og sunnan og austan við er tún.
Túnið var sléttað á sínum tíma en er núna komið í órækt. Þar voru kvígur þegar þetta var skráð. Engar mannvistarleifar sjást á staðnum fyrir utan nokkra stóra steina í röð sem snúa austur -vestur nálægt gilbarminum, um 70 m suðvestan við vestasta sumarbústaðinn. Meðal þeirra er einn steypuklumpur og lítur út eins og grjótinu hafi verið rutt saman af stórvirkri vél. Túngarðurinn 037 breiðir mikið úr sér vestan við bæjarstæðið. Gísli Ellertsson telur að síðast hafi staðið torfbær í Hjarðarholti. Staðurinn var skráður á vettvangi sumarið 2007. Síðar kom eftirfarandi í ljós: Þegar túnakort frá 1917 er borið saman við loftmynd virðist sem bæjarstæðið hafi verið allt að 130 m suðvestar en upphaflega var áætlað. Þar hefur orðið geysimikið rask, gerð gryfja með ruðningum í kringum.

Getið er um Meðalfellssel

Meðalfellssel

Meðalfellssel.

“1705: “Selstaða er í heimalandi og er þar mótak nóg til eldingar.” “Sunnan við Holtin og Sundin er allstór mýri, sem heitir Selmýri. Framan við hana er Selið á valllendisbala, sem þar er. Selið er næstum beint niður undan upptökum Drápskriðulækjarins,” segir í örnefnaskrá. “Meðalfellssel.
Jón Magnússon og kona hans Guðríður Ásmundsdóttir byggðu að stofni upp í Meðalfellssseli og bjuggu þar frá 1859-68.” (HP Kjósarmenn, 320). Meðalfellssel er í Eilífsdal, um 300 m vestur af girðingarenda sem markar suðurenda sumarbústaðahverfis. Þetta er rúma 4 km suður af bænum á Meðalfelli.
Rústirnar eru efst eða syðst á mjóum rana sem gengur til norðurs út úr hæð eða holti þar sem land tekur að hækka í dalnum. Flatneskjulegt mýrlendi er neðan við holtið en mýralækir renna í það beggja megin við þústina. Mógrafir virðast vera í holtinu beggja megin við og raunar einnig fast upp við rústirnar að austanverðu. Selrústirnar eru ekki mjög greinilegar og skera sig lítið úr umhverfinu, þýfðar og bitnar af hrossum. Þær virðast ná yfir svæði sem er alls um 15 x 10 m stórt frá suðvestri til norðausturs. Í tóftinni sjást tvö hólf, ámóta stór,
sem bæði snúa með op í VNV. Hvort hólf um sig er um 5 x 2 m stórt að innanmáli frá NVSA og sést grjót í veggjum þess syðra en sunnan þess verður tóftin ólöguleg og þústarleg. Veggir eru fremur jarðlægir og skera sig ekki mikið úr umhverfinu. Ekki eru aðrar rústir greinilegar en þó má geta þess að um 70-80 m norðan við rústina er áberandi kúptur hóll sem ekki eru afgerandi rústamerki á en gæti þó verið upphlaðnar mannvistarleifar að einhverju leyti. Þetta er á miðjum rananum sem er tekinn að mjókka mjög til norðvesturs.

Meðalfellskot
Hjáleiga Meðalfells (GK-336) í byggð 1705. Kominn í eyði 1917, þá er bæjarstæðið sléttað 1840: “Hefir land nokkuð heima, og á Meðalfellsdal haghús, en engið á Laxárbökkum; sæmileg heyskaparjörð.”
1917: Tún kotsins 4,6 teigar, garðar 1020m2.
Bæjarstæði Meðalfellskots var sléttað 1917 skv. túnakorti. Sennilega hefur síðasti ábúandi þar verið Þórður Edilonsson sem getið er í ritinu Kjósarmenn. Hann bjó í kotinu frá 1900-1904 en fluttist þá til Hafnarfjarðar.
Samkvæmt túnakorti frá 1917 stóð bærinn um 380 m austar en Meðalfell. Hann stóð þar sem nú er vel sléttað tún ofan við þjóðveginn meðfram Meðalfellsvatni á milli tveggja skurða.
Vel sléttað gróið tún. Fjallið Meðalfell er noraðn megin við það en Meðalfellsvatnið er sunnan megin við það. Engar leifar af bæjarstæðinu sjást. Samkvæmt Gísla Ellertssyni stóð bærinn þar sem nú er smá ógróinn malarblettur í túninu. Þar kemur stundum upp grjót. Ekki vottar fyrir teljandi hólmyndun á þessum stað. Fyrir framan eða sunnan íbúðarhús var kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1917 en hann er líka horfinn. Þess má geta hér að sennilega hafa öll útihús í austanverðu túninu, verið nytjuð frá Meðalfelli þegar túnakortið var teiknað árið 1917, enda Meðalfellskot þá komið í eyði fyrir nokkuð löngu.

Eyjar

Eyjar

40 hdr. 1705. Bændaeign. 40 hdr. 1847.Hálfkirkja var á jörðunni. Kirkjunnar á Eyjum er fyrst getið í máldaga fram því um 1180: ” Mariu kirkia i Eyivm a .x. hundraþ j lande oc scog j Svinadal.” (DI I 267) Í máldaga kirkjunnar frá um 1367 segir: “xlviij. Mariukirkia j eyium a xc j lande og skog j Suijnadal.” (DI III, 21°9) í Vilcinsmáldaga er textinn svipaður: 1397: “a xc j landi oc skog j Svijnadal.”( DI IV, 116).
Hjálegur 1705 Eyjahóll og Hvassanes (í eyði frá því snemma á 18. öld) báðar í byggð, Gróukot hjáleiga í eyði frá um 164°5 og önnur nafnlaus eyðihjáleiga einnig í eyði frá um 164°5. Eyjahóll (GK-339 )hjáleiga 1847, í sömu ábúð og Eyjar frá 1888. Á túnakorti er einig nefnt Hólahúsatún sem virðist vera í byggð 1917.
1705: “Engjum spilla skriður úr fjalli, en túnunum bæði og engjunum vatnságángur af á, sem nærri rennur með aur og grjóti og landbroti. Hætt er kvikfjenaði fyrir foruðum. Búfjárhögum spilla skriður.” JÁM III, 405. 1840: “… á þýfði láglendi, hefir stórt tún, engi víðslægt en heimaland minna, útbeitarlítið á vetrum; jörðin á Eyjadal.”
Tvíbýli 1917: Tún alls 10,79 teigar, garðar 2000m2. Skv. túnakorti frá 1917 stóðu Eyjabæirnir tveir á svipuðum stað og íbúðarhúsin nú og ekki er annað vitað en það séu gömul bæjarstæði að öðru leyti en því að Eyjar I stóðu áður dálítið austar en nú er. Í þessari skráningu er lögð áhersla á Eyjar II sem eru austar á bæjarstæðinu. Bæirnir standa á náttúrulegum hæðarrana sem liggur frá austri til vesturs og eru Eyjar I á vesturenda hans. Hæð þessi sem og aðrar í kring urðu áður fyrr stundum umflotnar vatni í flóðum og skýrir það líkast til bæjarnafnið, þ.e. Eyjar. Nú er fjöldi húsa á bæjarstæðinu, bæði íbúðarhús og útihús.
Ekki er gott að staðhæfa að hve miklu leyti hóllinn undir húsunum er náttúrulegur og erfitt að meta stærð hans. Þó má ætla að hið eiginlega bæjarstæði sé um 100 x 50 m frá austri til vesturs. Það virðist votta fyrir upphleðslu vestan við íbúðarhúsið á Eyjum II en þar var kálgarður 1917 ef marka má túnakort. Hóllinn rís einmitt hæst á þessum stað, þar sem girðing liggur þvert yfir hann mitt á milli Eyja I og II. Ekki eru djúpir kjallarar undir íbúðarhúsunum og því ekki víst að mannvistarleifum hafi mikið verið raskað þegar þau voru byggð. Á heildina litið hefur þó mikið umrót verið á bæjarhólnum á 20. öld því þar er fjöldi útihúsa og skemma auk íbúðarhúsa.
Engin tóftamerki eða hleðslur sjást á yfirborði. Árið 2008 var eftirfarandi bætt við skráninguna um vesturhluta bæjarhóls: Gamli bærinn á Eyjum I stóð 30-40 m vestar, á sama hól. Hann var aflagður 1917, enda hafði steinhús verið reist framan við hann 1906. Rústin af gamla bænum mun þó hafa verið til nokkuð lengi eftir það en nú sjást engin ummerki um hann. Þó vottar fyrir hól í garðinum austan við núverandi íbúðarhús en hann er hluti af bæjarhól.

Heimildir eru um hálfkirkju
“EYJAR Í KJÓS (K) – Maríu (REYNIVALLAÞING) – HÁLFKIRKJA
[1180]: Mariu kirkia i Eyivm a .x. hundraþ j lande oc scog j Svinadal. buning sinn allan i tiolldom oc alltara klæþom. krosom oc kloccom oc kertisticom. oc þat er at skylldo þarf til guþs þionostu at hafa. þa er messo scal syngia. fyrir þat vtan er prestr hefir meþ ser. þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom. scildr til paska dagr oc kyndil messa. kavpa hundraþe alna. Heima tivnd oc lysa of vetrinn of nætr þa er svngit er oc fyrir allar log hatiþer. [Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan. oc kaupa slico kaupe sem biskup vill*; Máld DI I 267 (frá [ yngri viðbót?).
[1367]: xlviij. Mariukirkia j eyium a xc j lande og skog j Suijnadal. les Vilchinsbok; Hítardalsbók DI III 21°9 1397: a xc j landi oc skog j Svijnadal. Þar skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm.
paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti. tekzt heimatiund lysa vmm vetrinn vmm nætur þa er sungid er oc firir allar hatijder; Máld DI IV 116.
{1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 63, 65} Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Hjer segja menn að til forna hafi hálfkirkja verið, en enginn minnist, að það hús hafi uppi verið nje tíðir fluttar og við öngvan þykjast menn talað hafa, sem það mundi.” “Í fjallinu móti Fjárhúshólnum eru Votuhjallaklettar og Votahjalli þar uppi. Þar utar Kirkjuhjallagil og Kirkjuhjalli. Þar uppi er dálítið graslendi,” segir í örnefnaskrá.
Ekki er vitað hvar kirkjan stóð en líklega hefur það verið, líkt og víðast hvar, á bæjarstæðinu. Ekki er vitað til að bein hafi komið upp þegar jarðrask hefur verið þar í kring. Eina örnefnið sem gæti verið vísbending um staðsetningu kirkjunnar er Kirkjuhalli ofarlega í Meðalfelli, norðaustan við bæjarstæðið. Giska má á að kirkjan hafi verið í stefnu beint suður af honum eða e.t.v. borið í hjallann frá bæ séð. Af því að dæma hefur hún staðið austan við Eyjar II en þar eru nú m.a. hænsnahús og skemma.

Getið er um sel við Selhóla

Eyjar

Eyjasel – uppdráttur.

“1705 segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.” “Svo er Seltindur framanvert við Hrútadal og Selmýrar þar fyrir neðan og Sel, við Hrútadalsá þar sem hún rennur í Sandsá,” segir í örnefnaskrá. MG: “Sel hefur verið í miðjum dalnum vestanmegin árinnar, sem eptir honum rennur. Við selið gengur upp afdalur dálítill á snið suðvestur í vesturhlíð dalsins, og kalla menn dalkorn það Hrútadal, en Seltindur heitir milli dalanna.” Þá er talað um Selhóla í örnefnaskrá: “Selhólar eru niður við ána heimanvert við Stóruskálarlæk.” Selið frá Eyjum er innarlega í Eyjadal, en það er dalur sem gengur til suðurs inn í fjalllendið fyrir innan bæinn Sand, milli Möðruvallaháls að austan og Sandsfjalls að vestan. Selið er nánar tiltekið í vestnaverðum Eyjadal, austan við mynni Hrútadals, sem gengur vestan úr fjöllunum, og gegnt þeim stað þar sem Stóruskálarlækur rennur í Sandsá, en það er áin sem rennur eftir Eyjadal. Selið er 4,4 km suður frá Eyjabænum í beinni loftlínu. Þess ber að geta að Selhólar eru 300-400 m norðaustur af seltóftunum, austan við Sandsána, en bera þó nafn sitt áreiðanlega af þessu seli. Þó var skimað eftir rústum nær hólunum en fundust ekki. Rústirnar eru á grasgefinni tungu sem markast af Hrútadalsá að norðan en minni læk að sunnanverðu. Bæði áin og lækurinn
renna í Sandsá.
Seltóftirnar eru geysifallegar og tilkomumiklar, áreiðanlega misgamlar. Alls eru þær fimm talsins og ná yfir svæði sem er rúmlega 60 x 30 m stórt. Mest áberandi er rústahóll, svo stór að hann líkist helst bæjarhól.
Hann er syðst á svæðinu vestanverðu, alls um 20 x 10 m stór frá norðri til suðurs. Syðst í honum er tvískipt hólf með miklu grjóti í og gæti hafa verið byggt lengur á þeim hluta rústahólsins því að norðurhlutinn rís lægra og er ógreinilegri. Op er á suðurhlutanum austast að norðanverðu og liggja bæði hólfin í þessum hluta rústarinnar austur-vestur, eru um 5 x 2 m stór að innanmáli. Innangengt er á milli þeirra austast og er umtalsvert meira grjót í syðra hólfinu. Óljósari hluti rústahólsins er norðar og þar vottar óljóst fyrir þremur hólfum en þau gætu tilheyrt misgömlum byggingarstigum. Rústahóllinn er hæstur að norðanverðu, allt að 1,5 m, gróskumikill og algróinn.

Flekkudalur (enn neðri)

Flekkudalur

Til 1802 voru Flekkudalir taldir en jörð. Jörðin nefnd Flekkudalur neðri og Grjóteyri í heimildum en jörðin heitir nú Grjóteyri.
1705: “Hætt er fyrir skriðum og snjóflóðum bæði húsum og túni. Á brýtur engjar og tún og ber grjót yfir til stórmeina. Hætt er fyrir foruðum og dýjum.” JÁM III, 403. 1840: “… ekki stór heyjajörð, lík hinni hvað landkosti snertir ..” SSGK, 257. 1917: Tún 5,6 teigar garðar 580m2.
Jarðabók Johnsen 1847: Grjoteyri nefnd í sumum heimildum þá 15 hdr á meðan að Flekkudalur sé 25 hdr.
“Upptún þar sem bærinn stendur nú. Niðurtún þar sem bærinn stóð frá um 1840 til 1930, er undirritaður flutti hann upp að fjallinu,” segir í örnefnaskrá. “Í Grjóteyrarlandi, vestan Flekkudalsár veit ég um þessi nöfn: Tutlutættur þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá eitt býli, mun það nafn frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fekk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Þegar undirritaður fluttist að Grjóteyri 1905 gekk Grjóteyrartúnið vestan ár undir nafninu Tutlutún, móarnir neðan þess Flekkudalsmóar,” segir í örnefnaskrá Grjóteyrar og Flekkudals. Samkvæmt túnakorti frá 1917 stóð bærinn þá neðan við veginn sem liggur nú að Grjóteyri, um 300 m norðan við íbúðarhús sem þar stendur nú. Þetta er austan við Flekkudalsá og og veg sem liggur niður að sumarbústöðum sem eru niður við Meðalfelsvatnið. Túnið er vel sléttað. Kristján Finnsson sléttaði úr því á sínum tíma en þó hafði verið sléttað úr því áður. Engar rústir sjást á staðnum en greina má leifar af óljósum bæjarhól. Kristján Finnsson telur að bærinn hafi staðið á þessum stað. Hann var notaður til 1924 er hann var fluttur upp að fjallinu vegna ágangs Flekkudalsár.

Sandur

Sandur

10 hdr 1705. 1687 er jörðin seld og er á 10 hdr. Jarðabréf, 20. Bærinn var færður fyrir 1705 vegna skriðu og vatnsfalla. Austurkot nefnt í örnefnaskrá.
1705: “Tún eru nær engin , því öll hin fornu eru eyðilögð af skriðum og vatni og varð fyrir þeim háska bærinn af honum fornu tóftum að færa. Landþröng er mikil. Á hin sama brýtur árlega og fordjarfar engið, túnið og það lítið, sem verið er að rækta. Ekki má óhætt kalla bænum þar sem nú er hann fyrir skriðum og snjóflóðum. Sandfjúk spillir túni og engjum.” JÁM III, 404. 1840: “Túnið er ekki mikið, engi nokkurt, land til sumarbeitar nóg, en lítið um vetrartíma.”
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Tún eru nær engin, því öll hin fornu eru eyðilögð af skriðum og vatni og varð fyrir þeim háska bærinn af honum fornu tóftum að færa. Landþröng er mikil. Á hin sama brýtur árlega og fordjarfar engið, túnið og það lítið, sem verið er að rækta. Ekki má óhætt kalla bænum þar sem nú er hann fyrir skriðum og snjóflóðum. Sandfjúk spillir túni og engjum.” “Gamli bærinn var norður við á, en áin tók hann. Þá var hann fluttur heim á fjárhússtæði,” segir í örnefnaskrá. Hér er skráð yngra bæjarstæði á Sandi en það eldra. Það er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn hefur staðið hér um bil á sama stað og núverandi íbúðarhús, nyrst í miðju túni. Húsið stendur fremst á brekkubrún.
Lækur rennur í smágili fast vestan við. Húsið, sem er reisulegt og steinsteypt, stendur í sléttri kvos framan í hól og má vera að það hafi verið grafið úr honum þegar það var reist. Engin hólmyndun er þó undir húsinu. Á hinn bóginn er grösug sóleyjabunga sunna eða aftan við húsið. Ekki er hægt að kalla hana áberandi hól en ræktin er mikil í smábungu sem er um 50 x 30 m stór frá norðri til suðurs. Ekki er lengur búskapur á Sandi en jörðin er í eigu fólks í Reykjavík.
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Tún eru nær engin , því öll hin fornu eru eyðilögð af skriðum og vatni og varð fyrir þeim háska bærinn af honum fornu tóftum að færa. Landþröng er mikil. Á hin sama brýtur árlega og fordjarfar engið, túnið og það lítið, sem verið er að rækta. Ekki má óhætt kalla bænum þar sem nú er hann fyrir skriðum og snjóflóðum. Sandfjúk spillir túni og engjum.” “Gamli bærinn var norður við á, en áin tók hann. Þá var hann fluttur heim á fjárhússtæði,” segir í örnefnaskrá. Magnús Sæmundsson frá Eyjum hefur heyrt að bærinn hafi staðið á túni sem er norðan við Sandsá, um 360 m norðan við yngra bæjarstæði.
Sléttað tún sem virðist enn slegið. Engin ummerki sjást um bæjarhól eða rústir. Að sögn Magnúsar var Sandsáin mjög óstýrilát á árum áður og flæddi stjórnlaust yfir tún og engjar þegar mikið var í henni en nú hefur farvegurinn verið dýpkaður og lagaður til. Sennilega hefur eldri farvegur verið austar en nú er og þá austan við umrætt tún, enda myndi Sandsáin vera eðlilegustu landamerkin milli Sands og Eyja en þau liggja nú austan við hana. Þar eru leifar af gömlum farvegi sem menn reyndu einmitt að veita ánni í með stíflugerð á 19. öld.

Möðruvellir

Möðruvellir

40 hdr 1702, tveir bæir. 1198 jarðarinnar getið í Sturlungu. Sturlunga saga I, 235 Jarðarinnar er einnig getið í Hauksbók og Þórðarbók Landnámu.
Tvö eyðibýli nefnd 1705, Svínadalskot byggð á selstöðu en komin í eyði og nýtt sem sel og Grámói sem fátt virðist vitað um. JÁM III, 415. Nefnd í örnefnaskrá Múlakot og nafnlausar rústir af býli, báðar tóftir virðast vera í Svínadal og gæti önnur því verið af Svínadalskoti. Svínadalur er grösugur og fagur dalur. Vestari hlutinn tilheyrir Möðruvöllum en eystri hlutinn Írafelli.
1705: “Skriða spillir túninu merkilega … Engjar eru snögglendar mjög, og fordjarfast af skriðum árlega meir og meir og þurfa ábúendur engi annarstaðar til að fá. Vetrarríki er mikið. Hætt er fyrir snjóflóðum bæði túni og húsum.” JÁM III, 415. “Þar er land mikið á Svínadal og dalverpi Trönudals. En engi örðugt mjög, sem þó er undirlagt oft grasspjöllum af leita- og lestamönnum á sumrin.”
1917: Tún 8,7 teigar á báðum býlum, garðar 2200m2 á báðum býlum. “Túnin sléttuð að mestu og nokkuð slétt af náttúru. Fjárbælið er nú um stund í órækt (ófjárhæft) og því ekki talið hér með túninu. En blettur hjá því, núplægður, í góðri rækt.”
Bærinn á Möðruvöllum stendur austan undir Möðruvallahálsi. Frá árinu 1914 hefur verið tvíbýli á jörðinni. Ekki er búið á Möðruvöllum II og búið er að byggja nýtt íbúðarhús á Möðruvöllum I nálægt vesturmörkum jarðarinnar. Nýbýlið Brekkukot var byggt fyrir fáum árum litlu norðaustan við gamla bæjarstæðið. Bæjarhóllinn er fast suðvestan við malarveginn sem liggur um sveitina. Sunnan og suðvestan við bæjarhólinn eru steinsteypt útihús. Neðan vegar til norðausturs, beint niður af bæjarhólnum er steypt íbúðarhús og áföst skemma sem tilheyrir Möðruvöllum II. Á túnakorti eru bæjarhúsin í röð frá norðvestri til suðausturs og kálgarðar eru umhverfis bæinn. Vestan við bæinn, áfast kálgarði, er lítið hús sem skráð er með bæjarhólnum, sem og lítið marghólfa mannvirki fáum metrum þar norðaustan við.
Bæjarhóllinn er í aflíðandi brekku niður að á. Hann er grasi gróinn og nokkuð er um illgresi ofarlega á honum, njóla, túnfífli og sóleyjum. Lækir renna úr fjallshlíðum með norðaustur- og suðvesturjöðrum gamla túnsins.
Hóllinn sem bærinn stóð á samkvæmt túnakorti frá 1917 er um 60 x 20 m stór og snýr SA-NV. Hann er ekki ýkja hár en hæstur er hann um 1,2 m til suðausturs, niður undan haughúsi fjóssins sem byggt hefur verið í jaðri hólsins og inn í hann að hluta. Vegaslóði er af malarvegi að steyptum útihúsum í norðurjaðri bæjarhólsins. Hlaða sem stendur aftan við þessi útihús og eru beint upp af bæjarhólnum er grafin niður og inn í brekkuna. Ekki eru merki um hús eða önnur mannvirki á sjálfum hólnum.

Getið er um sel í Svínadal

Möðruvellir

Möðruvallasel í Svínadal.

Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Selstöðu á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góðir og miklir.” Þar segir einnig: “Suinadals Kot, hjáleiga bygð fyrst í manna minni í selhögum jarðarinnar, og eyðilögð aftur fyrir 10 árum. […] Eyðilagðist fyrir vetrarríki. Kann ei aftur að byggjast að bagalausu, síðan selstaðan á Trönudal er fordjörfuð […].”
Býli þetta er skráð sérstaklega þar sem ekki er víst að það hafi staðið á sama stað og selið. Seltóftir eru um 600 m suðvestur af seli í landi Írafells sem er hinum megin við Svínadalsá, og um 3,5 km suðaustan við bæ. Seltóftir eru í breiðum lækjarfarvegi, sem greinilega er löngu uppþornaður, milli fjalls og ár, undir norðanverðu holti, gróðurlausu. Umhverfis tóftir er grösugt og gróið og norðan við þær skiptast á sléttar flatir og smáþýfi.

Einnig er getið um sel í Trönudal

Möðruvellir

Möðruvallasel í Trönudal.

Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Selstöðu á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góður og miklir.” “Framan við Pokagil eru Rauðshjallar, og framan þeirra er nafnlaust gil. Hryggur þar innar heitir Dyngja. Í henni er gróður, en ekki sjást þar selrústir. Þar neðst við Dyngju við ána eru Selflatir, og handan þeirra austar eru Marteinsvellir. Framan við Dyngju er Trönudalsbotn,” segir í örnefnaskrá. Selið er i nnarlega í Trönudal austanverðum. Það er um 2,9 km frá bæ 001. Sunnan og ofan við selið eru klettar sem úr fjarlægð minna á kýr eða kind með lömb á gangi. Selið er neðst í grösugri og brattri brekku nærri árgilinu sem er vestan við það.
Austan við selið er lækjardrag og rofabörð. Framan við selrústir til norðer uppspretta, lítill pollur og dýjamosi. Stærð rústasvæðis er um 25 x 25 m. Á rústasvæðinu eru alls 4 tóftir og garðlag eða veggjaleifar í norðvesturjaðri svæðisins.

Írafell

Írafell

20 hdr 1705, 1/2 konungseign. Bændaeign (áður konungseign). 20 hdr. 1847. Tvíbýli á jörðinni. Bænhús var á jörðunni. 1705 er nefnd eyðihjáleigan Fornaskjól. Ónafngreind eyðihjáleiga nefnd í örnefnaskrá. Svínadalur er grösugur og fagur dalur. Vestari hlutinn tilheyrir Möðruvöllum en eystri hlutinn Írafelli.
1705: “Snjóflóð og skriður granda högum og engi, þó meir á kóngsins parti.”
“Heyskaparjörð allgóð og á mikið og gott land bæði til fjalls og láglendis um hæðir og mýrarsund …”
1917: Tún 5 teigar, garðar 1500m2. “Túnið mest alt sléttað á síðustu 20 árum, heldur sérvel.”
Gamli bærinn á Írafelli, sá sem merktur er in á túnakort frá 1917, var um 200 m suðaustan við steinsteypt íbúðarhús sem nú stendur en 130 m suðaustan við sumarbústað. Ekki er lengur föst búseta á jörðinni en síðustu ábúendur stunda þar frístundabúskap. Í brekku sem hallar til vesturs að læk. Bæjarstæðið, ásamt fjölda útihúsa, hafa verið í einfaldri röð á syllu í brekkunni. Ekki er bæjarhóll á þessum stað. Enn sjást leifar nokkurra gamalla en steinhlaðinna grunna. Einnig eru þúfnabelti (útflattar mannvistarleifar) á milli. Neðan við allar mannvistarleifarnar er vegslóði sem liggur, eins og leifarnar norður-suður. Neðan við sylluna tekur við fremur brött brekka en í henni eru kálgarðar. Ofan við eru sléttuð tún þar sem nokkrar hæðir eru og þar voru útihús samkvæmt túnakorti frá 1917. Ekki er óhugsandi að bærinn hafi áður verið í túninu en það er að sumu leyti vænlegri staðsetning fyrir bæ.

Heimildir eru um selstöðu

Írafell

Írafellssel.

Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi á Svínadal.” “Í Svínadal eru þessi örnefni: Harðivöllur heimastur að Rauðhúfugili (djúpt jarðfallsgil). Þá Selflatir og Selgil. (Þar var haft í seli áður fyrr),” segir í örnefnaskrá. Selið er um 1,9 km suðvestan við bæ 001 og um 600 m norðaustur af öðru seli í landi Möðruvalla, hinum megin árinnar. Selið er ofarlega á smáþýfðri, grösugri og mosavaxinni tungu milli tveggja gilja sem hallar mót vestri. Svínadalur er víður og mjög grasgefinn en gróðurlausir melar eru sumsstaðar við árbakkann og gróðurlítið er í skriðum úr sumum gljúfrum.
Þrjár tóftir eru í selinu á svæði sem er alls um 48 x 16 m stórt og snýr A-V. Neðst á svæðinu og vestast er grænn og grösugur, stórþýfður hóll, um 20 x 15 m að stærð og snýr norður-suður.

Írafellsmóri þjóðsaga draugur
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá Írafellsmóra, uppvakningi sem sendur var á hjónin Kort Þorvarðarson og Ingibjörgu (án föðurnafns) sem bjuggu á Möðruvöllum í Kjós og átti að fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins. Magnús, sonur þeirra Korts og Ingibjargar, bjó á Írafelli og fylgdi mórinn honum þangað og dregur nafn sitt af þeim bæ.

Neðri-Háls

Neðir-Háls

Pr. lénsjörð. 30 hdr. 1847. 30 hdr. 1705, jörðin gefin presti sem þjónar Seltjarnarnesi. Bænhús er talið hafa verð á jörðinni. 1468: Jörðin er nefnd í vitnisburðarbréfi. DI V, 516.
1705 er Ullarhóll eyðihjáleiga og einnig er greint frá meintu býli sem nefnt er Arnakot en ekki þótti ljóst hvort þar var býli eða ekki.
1917: Tún 8 teigar, garðar 1450m2.
1840: “… jörðin hefir þó grasgefið tún, víðslægt engi og notagott beitiland vetur sem sumar.”
Á Neðra-Hálsi standa nú þrjú íbúðarhús. Miðjuhúsið er elst, byggt skömmu eftir aldamótin 1900. Gamli bærinn var í námunda við þetta íbúðarhús. Gamli bærinn hefur e.t.v. staðið aðeins sunnar eða í suðurjaðri hússins. Vart er hægt að tala um eiginlegan bæjarhól, norður- og vesturbrúnir hólsins eru a.m.k. ekki greinilegar. Hins vegar má sjá móta fyrir suðurog austurbrún og af þeim má giska á að bæjarhóllinn nái yfir svæði sem er 40-50 X 30 m.
Við framkvæmdir í garði sunnan við hús og við viðbyggingu austan þess komu ábúendur niður á öskulög og steinhleðslur. Viðbót við skráningu 2007: Á staðnum sést vel kúptur hóll, um 50 x 30 m stór, einkum ef staðið er sunnan við húsið sem liggur frá austri til vesturs. Sunnan og austan við húsið er ræktarlegur garður með mikilli trjárækt, einnig er kartöflugarður skammt austan við húsið. Kristján Oddsson ítrekar að hann hafi komið niður á ösku við gróðursetningu í garðinum. Kjallari er undir íbúðarhúsinu, töluvert niðurgrafinn. Malarplan og vegur er beint ofan eða norðan við húsið.

Heimild er um bænhús
1705: “Sumir ætla og þykjast eyrt hafa, að hjer hafi til fonra bænhús verið. Eru þó ó óvissu hjer um.” Ekkert er vitað um staðsetningu bænhúss á Neðra-Hálsi. Líklega hefur það þó verið í námunda við gamla bæinn.

Hvammur

Hvammur

Hvammur – túnakor 1917.

60 hdr. 1570, 1712. Bændaeign. “Hvamm-Þórir nam land á millum Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref inn gamla um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalur er við kenndr; sú kvíga hafði horfit Þóri fyrir longu, en sú kvíga fannsk í Brynjudal, þar er Refr átti land, ok fjórir tigir nauta með henni, þeirra er oll voru frá henni komin ok höfðu gengit sjálfala úti; því kenndi hvor tveggja sér nautin. En Þórir fell fyrir Ref með átta manna, þá er þeir borðusk hjá hólnum þeim, er síðan eru kallaðir Þórishólar.” Landnámabók, ÍF I, 56-59.
Hvamms er einnig getið í Harðar sögu – ÍF XIII, 65, 86-70 og 79. Í Sturlungasögu er getið Jörundar hins mikla úr Hvammi en hann var með Þorleifi í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og má ráða af samhengi að hann hafi verið fyrirliði manna úr Kjós og Hvalfirði. Eftir bardagann var rænt í Saurbæ og Hvammi og bendir það til að búið í Hvammi hafi þá verið með hinum stærri í héraðinu. – Sturlunga saga I, 405 og 407. Elsta heimild um kirkju í Hvammi er í Hítardalsbók frá 1367 – DI III, 21°8. 1397 átti kirkjan Hvammsey auk sex kúgilda – DI IV, 118 sbr. 1497 – DI VII, 375. Kirkjan var hinsvegar vígð 1502 og er vígslumáldagi hennar frá því ári varðveittur. Þar kemur fram að kirkjan hefur eignast skógartungu í Skorradal. Í tilefni af vígslunni var leyfi gefið til að vígja saman hjón, skíra börn og leiða konur í kirkju eftir barnsburð. Þá vígði Stefán biskup sérstaklega líkneski Lúkasar guðspjallamanns og verndardýrlings kirkjunnar og gaf hverjum þeim 40 daga aflát sem bæri líkneskið í skrúðgöngum, sem voru hluti af helgihaldi í kaþólskum sið, eða gerði kirkjunni nokkuð gagn – DI VII, 609-610.
Í máldaga frá 1570 er þess getið að jörðin var 60 hdr að dýrleika – DI XV, 632. Á seinni hluta 16. aldar bjó í Hvammi Hannes Ólafsson lögréttumaður (kemur við skjöl á árabilinu 1565-1590) og eftir hann sonur hans Jón, sem var líka lögréttumaður og hreppstjóri í Kjósarhreppi og stóð í margskyns málastappi á alþingi á árunum 1619-1662. Sonur Jóns hét Ólafur og mun hafa búið í Hvammi eftir föður sinn en um 1700 höfðu börn Ólafs erft hann og jörðina og voru þá 5 systkin eigendur að Hvammi, en Hvammsvík var orðin sérstök eign sem gengið hafði úr ættinni fyrir miðja öldina þegar Ólafur Hannesson, bróðir Jóns lögréttumanns, seldi 12 hundraða erfðahlut sinn Brynjólfi biskupi í Skálholti – JÁM III, 431, 433. JÁM XIII, 70-71, 74-76, 85. Eitt systkinanna, Eyjólfur Ólafsson, sem var húsmaður á Akranesi lýsti því með bréfi hinn 13. mars 1709 að hann ætti fimmtung í Hvammi sem væri alls 60 hundraða jörð. Eyjólfur segir að hann fái nú jarðarhluta sinn varla byggðan „nema til hýsingar fátækra sveitarómaga og tíundargjalds þeim, sem búa á hinum hluta jarðarinnar. Eyjólfur getur um hálfkirkjuna og segir að Hvammsey, sem liggi undir kirkjuna, hafði áður verið slægjuland en að nú spretti lítið gras á henni “eða nær að segja ekkert”. Hann getur þess einnig að skógarítakið, sem kirkjunni er eignað, sé í Skógartungu í Vatnshornskógi í Skorradal – JÁM XIII, 70-71. Í JÁM er dýrleiki allrar jarðarinnar sagður vera 60 hundruð, en af þeim er hjáleigan Hvammsvík metin á 12 hundruð. Þá var tvíbýli í Hvammi en bóndinn í Hvammsvík leigði auk þess 4 hundruð af Hvammi og hafði þannig alls 16 hundruð af jörðinni undir bú sitt. Þessi skipting milli jarðanna hélst óbreytt fram á 19. öld en í skýrslu sýslumanns frá 1840 er Hvammur þó aðeins talinn vera 40 hundruð og Hvammsvík þeim mun meira eða 20 hundruð – JJ, 101. 1705 eru nefndir Naglastaðir, sem þá voru tóftir langt innan landamerkja, og tómthúsið Ásmundarstaðir, sem hafði verið í eyði í meira en tuttugu ár. Ekkert er vitað um byggð á Naglastöðum og eru tóftir þeirra ekki þekktar en Ásmundarstaðir hafa verið innantúns og mögulega orðið til um svipað leyti og Hvammsvík. 1847 bjuggu þrír leiguliðar í Hvammi auk eins í Hvammsvík. Eftir 1780 átti Páll Jónsson, hospitalshaldari í Gufunesi með meiru, meirihluta jarðarinnar að því er virðist um alllangt skeið en ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurntíma búið þar – Alþ. Í. XVI, 397, 399-400, 524, 530; XVII, 140. Kirkjan í Hvammi var tekin af með konungsbréfi 17. maí árið 1765 – Sveinn Nielsson: Prestatal og prófasta, 114. Skógurinn sem kirkjan átti í Skorradal mun þá hafa lagst undir jörðina en í jarðabók frá 1804 er getið um hann.
1840: “… þar er þýft og tyrjótt tún, arðlítið , mýrarengi víðslægt og landrými allgott og vetrarhagabeit.”
Bæjarhóllinn í Hvammi er sunnan undir Hvammshólum á tanga sem gengur út í Hvalfjörð. Íbúðarhús byggt 1932 stendur á bæjarhólnum og bygging þess hefur vafalaust raskað eldri byggingaleifum. Bæjarhólinn virðist þó óskemmdur á bak við húsið og til hliðar við það, en fyrir framan það hefur hann verið sléttaður undir bílastæði. Í norðvesturjaðri bæjarhólsins sjást merki rústa, sem gætu verið leifar Hvammskirkju. Annarra mannvirkjaleifa sér ekki stað á yfirborði. Lítið er vitað um gamla torfbæinn í Hvammi en sumarið 1909 tók Sigurgeir Þórðarson býlin Hvammsvík og austurbæinn í Hvammi á leigu. Hann reif þá austurbæinn en byggði upp í Hvammsvík. Í október1997 var grafið fyrir vatnslögn í bæjarhólinn. Við þær framkvæmdir komu í ljós mannvistarleifar allt frá landnámi. Í desember 2000 var grafið fyrir húsgrunni skammt frá bæjarhólnum og stóð Sólveig Heiðberg fornleifafræðingur yfir því verki en engar fornleifar komu í ljós.

Heimild er um útkirkju
Ekki er nákvæmlega vitað um staðsetningu Hvammskirkju, en staðkunnugir telja að hún hafi staðið skammt vestan við bæinn. 20-30 m norðvestan við þar sem steypt íbúðarhús stendur nú sést í mannvirkjaleifar. Þær eru fast ofan við vegarslóða sem liggur frá bæjarhlaðinu út að Mjóaósi. Þær eru undir karlateigi 1 á golfvellinum og gætu verið leifar kirkjunnar. Jarðefni í teiginn hefur verið bætt ofan á, en ekki hefur verið hróflað við rústinni.
Þar sem rústin er hallar landinu nokkuð. Á þessu svæði hafa verið þó nokkrar framkvæmdir á síðustu árum. Máldagar kirkjunnar eru þessir: [1367]: xlv. Lucaskirkia j Huamme j kios a huamsey og sex kugillde les Vilchinsbok þui þad er eins; Hítardalsbók DI III 21°9.
1397: CXXX. Hvammur. Lucaskirkia j Hvammi i Kios aa Hvamsey oc vj kugilldi. smelltan kross. Mariuskriptt forn. Lucasskriptt. paxspialld. alltarisklædi glitad oc forn dvkur einn. kluckur ij litlar hangandi. Jtem bialla kolflaus og a ij boror. Jtem onnur kolflaus minne. glodarkier. ein kiertistika med kopar. var alltarisklædid oc dvkurinn med metinn firir halfa mork þad sem adur er skrifad. Máld DI IV 118 1497: Anno domini M°. cd xcvij.
Kirkia hins heilaga luce ewangeliste j huammi I kios a huammsey. iij. kyr og iij. asaudar kugilldi og vc at auk I fridum peningum. DI VII, 375 1.9.1502: Mäldage Hvamskyrkiu i Kios.
Vær Stefan med gudz näd biskup i skalhollti giorum godum onnum kunnigt med þessu voru opnu brefi. at i heidur vid Gud fodr og son og helgananda. sanctum Dei genetricem Mariam og hin heilaga Lucam evangelistam hofum vier vigt kirkiuna i Hvamme i Kiös med þeim maldaga at hún ä vj kugilldi og Hvamsey med ollum gognum og giædum. þar med skogartungu i Skorradal er liggr næst Reynevalla skögi upp fra. so og hofum vier leifi til gefit at þar se saman vigd gion og born skird og konur i kirkiu leiddar þeirra manna sem þar eru heimilisfaster. þar skulu og takast heima tiunder og lysetollar bónda og husfreyju og allra þeirra manna sem þau hallda á sinn kost. þar skal syngia annan hvern sunnudag þa at prestar fiolgaz og mogulig kennimanna skipun verdur at forfallalavsu og giallda presti xij aura j kaupit. hofum vier skipat at kirkiudagurin þar skal vera halldinn uppa sancte Lucas dag en syngia af honum næsta daginn epter. hier med hofum vier vigt þar likneski sancte Luce evangeliste og gefum hverium xl daga aflät skriptborina synda þa er þat er borit i processionem. edur i gagndogum. og þeim goda hluti giora kirkiunne og i hvert sinn sem þeir fremia sina godgiorninga vid greinda kirkiu. Og til meiri sanninda hier um festum vier vort innsigli fyrir þetta bref er skrifat var a Reynevollum i Kios in festum sancte Eggidij abbatis anno domini M. v hundrud og ij är. Vmáld DI VII, 609-10 [Afskr í vísitatiubók Borgarfj. próf.dæmis 1705-30 eftir staðf. transscr. frá 31.3.1670 af gömlu pergamentsbréfi með hangandi innsiglum; Lbs 107 4to, 401-402].
1575: CLIV. Huammur. Hälffkirkian i Huamme i Kios. ä v kijr. og eitt äsaudar kugillde. Jtem i kirkiunne. eirn gamall alltarisbuningur. ij kluckur vænar… vatzklucku litla. glödarkier. ij bækur gamlar. Jtem eirn kaleik. gardurinn Lxc. Lausagötz xxxc. Máld DI XV 632.
1705: “Hjer er hálfkirkja og embættið framið, þá heimafólk er til sacramentis, þjónar sóknarpresturinn að Reynivöllum Sr. Torfi Halldórsson þessari kirkju.” “Hólmi liggur fyrir landi, sem kirkjunni er eignaður, kallaður Hvammsey. Þar hefur til forna verið eggvarp gott af æðarfugli og öndum, en er nú eyðilagt af lunda.” “Skógarítak eigna menn kirjunni í Skorradal í Vatnshornslandi millum Reynivallasógs og Háafellsskógs, en þetta ítak er ekki mótmælisslaust af Oddi Eiríkssyni að Fitjum í Skoradal og hefur lengi ekki brúkast.”
17.5.1765: Bænhús í Hvammi lagt niður; (PP, 114) [konungsbréf].

Naglastaðir – heimild um býli/sel

Hvammsvík

Hvammur – Naglastaðir.

„Naglastader ætla sumir að hafi verið bygt ból í Hvammslandi, og hafa það til marks, að þar hafa fundist kol og eirbrot í jörðu, og líka sjást þar tóftarleifar. Ekki vita menn til þess annað. Tvö ár ein hefur þar selstaða verið brúkuð frá Hvammi, en átölulaust Hvamms eign er þetta land um aldur og æfi, og enn þá lángt þaðan til landamerkja mót öðrum jörðum. Örvænt er að hjer kunni bygð aftur að setjast án þess að jörðin sjálf, Hvammur, yrði þar með merkilega fordjörfuð. Þar með er túnstæðið mestan part í hrjósta og mosa komið” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1705. Ekki er vitað hvar Naglastaðir voru en af lýsingunni að dæma hafa þeir verið allfjarri bænum í Hvammi en þó ekki í jöðrum jarðarinnar. Af þekktum minjum koma helst til greina gerðið og Bessastekkur og verður seinni staðurinn að teljast sennilegri enda mun þar hafa verið sel.

Bessastekkur tóft stekkur/sel

„Spóamýri er suðvestur af Óshólum, en Haugamýri er næst henni … Utar en Spóamýri er Bessastekkur” segir í örnefnalýsingu. Tóft Bessastekkjar er utar en Haugsmýri, um 500 norðan við þjóðveginn og um 80 austan við læk sem rennur um Háumýri og Selholt. Að norðan og vestan er Selveita, sem er stórþýfð mýri. Að norðaustan er klettaholt. Aðaltóftin er á litlum rústahól í brekku ofan við mýrina. Grjót hefur verið í veggjum stekkjarins sem hefur aðeins verið eitt hólf, 3,5×3,5 m að innanmáli. Sunnan við tóftina er greinilegur garður sem liggur frá austri til vesturs í sveig og má rekja hann töluvert áleiðis vesturfyrir tóftina. Í kring er stórþýfi og má óglöggt greina garðlag sem liggur beint niður brekkuna, vestan við tóftina. Þessar rústir eru meiri um sig en venjulegt er með stekki og verður að teljast sennilegt að undir stekkjartóftinni séu leifar sels þess sem Selveita er kennd við. Það gæti einnig verið sami staður og Naglastaðir sem voru fornt eyðibýli er jarðabók var gerð 1705.

Hvammsvík

Hvammsvík

Hvammsvík – örnefni.

Var hjáleiga frá Hvammi, sjálfstætt býli 1847.
Hjáleiga frá Hvammi. Talið er að Jón Marteinsson muni fyrstur hafa byggt í Hvammsvík, en hann eignaðist jörðina í makaskiptum við Brynjólf biskup fyrir Eystra-Miðfell á Hvalfjarðarströnd um 1660. Þessi jarðarhluti mun vera þannig til kominn að 12 hundruð úr Hvammi voru erfðahluti Ólafs Hannessonar, bróður Jóns lögréttumanns í Hvammi, sem hann fékk eftir föður sinn 1609. Ólafur seldi síðan Brynjólfi biskupi hlutann og það mun hafa verið þá eða í tíð Jóns Marteinssonar sem Hvammsvík varð að sérstöku býli. Í jarðabók Árna og Páls frá 1705 kemur fram að sr. Oddur Árnason á Kálfatjörn hafði átt jörðina til 1702 en þá hafði eignast hana Markús Brandsson á Vatnsleysu. Þáverandi ábúandi í Hvammsvík leigði einnig hluta af Hvammi og hefur Hvammsvík því ekki verið að neinu leyti minna bú en Hvammur þar sem var tvíbýli og jafnan síðan. 31.7.1749 selur Þórdís Halldórsdóttir Kort Jónssyni lögréttumanni Hvammsvík fyrir 12 hundruð með 2 ½ kúgildi – Alþ.Í. XIII, 472. Ári síðar eða 15.7.1750 er lýst fyrir hönd Herdísar Hallvarðsdóttur brigð í 12 hundrð í jörðinni Hvammi, kölluð Hvammsvík, og framboðnir peningar til innlausnar hennar – Alþ.Í. XIII, 475. 24.5.1792 gefur Solveig Kortsdóttir syni sínum sr. Oddi Þorvarðssyni hjáleigu í Hvammi í Kjós, Hvammsvík nefndri, 12 hundruð að dýrleika með 1 kúgildi, henni til uppiheldis fyrir lífstíð – Alþ.Í. XVI, 95. 3.1.1795 selur sr. Oddur Þorvarðsson Guðmundi Þórðarsyni jörðina Hvammsvík, 12 hundruð að dýrleika með 1 kúgildi – Alþ.Í. XVI, 235. Hvammsvík var jafnan talin 12 hundruð af dýrleika Hvamms, en 1840 telur sýslumaður hana 20 hundruð.
Þó Hvammsvík væri aldrei svo vitað sé eign sömu aðila og áttu Hvamm eftir 1609 fyrr en á 20. öld þá voru formleg landaskipti aldrei gerð milli jarðanna og var beitilandi óskipt á milli þeirra. Ábúendur á jörðinni urðu að flytja af henni á árunum 1943-45 á meðan hersetulið var á staðnum.
1712: Yfir tún hjáleigunnar fauk skel og sjávarsandur og engi hennar þóttu nær eyðilögð af skriðum.
„Bærinn í Hvammsvík stendur nú á Gvendarhól neðst í túni” segir í örnefnalýsingu. Núverandi íbúðarhús stendur um 50 m austar en gamli bærinn var samkvæmt túnakorti frá 1917. Framkvæmdir hafa raskað bæjarhólnum og hefur hluta hans verið ýtt til. Langmest spjöll hafa verið gerð norðvestantil á hólnum. Hvergi sjást mannvistarleifar á yfirborði. Vestan og norðan við núverandi íbúðarhús er hlað en suðaustan er hinsvegar klettahóll, en þar fyrir sunnan eru slétt tún. Sumarið 1909 tók Sigurgeir Þórðarson býlin Hvammsvík og austurbæinn í Hvammi á leigu, reif báða bæina og byggði einn vandaðan bæ í Hvammsvík og hefur það verið síðasti torfbærinn þar.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Þorláksstaðir, Blönduholt, Þúfa, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, EyrarÚtkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvellir, Írafell, Bær, Meðalfell, Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahóll, Flekkudalur neðri, Sandur, Neðri-Háls, Hvammur og Hvammsvík. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008.

Hvammsvík

Hvammsvík – flugmynd.

Ártún.

Í fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártúns á Kjalarnesi segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

“Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum. Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda. Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám. Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda. Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús. Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni “Síðasti bærinn í dalnum”.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“ Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.
Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.”

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Álfsnes

Í fornleifaskráningu fyrir Álfsnes frá árinu 2018 segir m.a.:

Sundakot

Saga Sundakots er nokkuð sérstök, þar sem í túnfætinum hefur verið verslunarstaður á miðöldum nefndur Þerneyjarsund. Á þjóðveldisöld voru helstu útflutningsvörur Íslendinga ullarvörur.

Álfsnes

Álfsnes – fornleifar.

Helstu kauphafnirnar, „hin sjálfgerðu skipalægi frá náttúrunnar hendi, hafa verið í grennd við aðallandbúnaðar- héruðin.“ Til eru heimildir um siglingu hafskipa í Elliðaár og Leiruvog á þjóðveldistímanum en líklega hefur Hvítá í Borgarfirði verið helsti verslunarstaðurinn á svæðinu fram til 1340 en þá fer að bera á breytingum.
Á fyrri hluta 14. aldar varð mikil breyting á viðskiptum við Ísland en þá hófst útflutningur á skreið sem átti eftir að vera meginútflutningsvara Íslendinga fram á 19. öld.
Þá urðu nýjar hafnir fyrir valinu, hafnir „sem lágu vel við sjósókn, á sunnan- og vestanverðu landinu.“ Þorleifur Óskarsson telur að langmest af fiski hafi verið flutt út frá Vestmannaeyjum, Faxaflóa, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.
Helstu kauphafnir í grennd við Seltirninga voru við Þerneyjarsund, í Hafnarfirði og Hvalfirði.
Elsta heimild um höfn við Þerneyjarsund er Kjalnesinga saga en þar segir: „Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“23 Saga þessi er talin vera rituð á 14. öld og þykir nokkur ævintýrablær á henni. Þrátt fyrir það er ekki óvarlegt að ætla að höfundur hafi þekkt til þess að skip tækju höfn við Þerneyjarsund enda styðja aðrar heimildir það. Til dæmis er nokkrum sinnum minnst á Þerneyjarsund í annálum. Sagt er frá því að árið 1391 hafi Þorsteinn Snorrason verið vígður til ábóta að Helgafelli af Miceli biskupi. Kom Þorsteinn út í Þerneyjarsundi á „Hösnabúsunni“. Árið 1411 komst Björn bóndi Einarsson út í Þerneyjarsund heilu og höldnu.
Árið 1419 lét Jón biskup í haf og kom að Íslandi í Þerneyjarsundi heill á húfi.

Álfsnes

Sundakot – loftmynd.

Til eru skjöl frá byrjun 15. aldar sem sýna fram á tengsl Þerneyjar við siglingar og verslun á þessum tíma. Þann 3. júlí 1409 var Oddur Þórðarson lögmaður kallaður til af hirðstjóra á Alþingi til að úrskurða um flutning á konungsgóssi til Noregs með kaupskipum frá Íslandi. Ekki hefur verið kallað á þennan úrskurð að tilefnislausu því stuttu seinna, eða 7. júlí 1409, er Oddur lögmaður mættur út í Þerney til að úrskurða um flutning á konungsgóssi frá Íslandi með kaupskipi sem konungur átti hlut í en var leigt öðrum.
Þerneyjarsundi bregður aftur fyrir í úrskurði Stefáns biskups í Skálholti, dagsettum 11. desember 1492. Stefán úrskurðar um þrjá landseta sem ekki höfðu staðið í skilum við hann um það hrossalán sem þeim bar að veita staðnum í Skálholti samkvæmt leigumála þeirra.
Stefán úrskurðar landsetana skylduga til að fara eftir leigumálum og hafa til reiðu lestfæran kapal undir þriggja vætta klyfjar í Grindavík, á Romshvalanes, til Þerneyjarsunds eða á hvern þann stað „sem stadarens naudsyniar standa til.“
Frá 18. öld eru til tvær lýsingar á Þerneyjarsundi, lýsingar P. de Löwenörn og Skúla Magnússonar, þar sem aðallega er verið að draga fram kosti sundsins sem mögulegrar hafnar fremur en að verið sé að lýsa þáverandi stöðu.
En hvenær lauk tímabili kauphafnar við Þerneyjarsund og hvers vegna? Helgi Þorláksson telur að skipakomur og kaupstefnur hafi verið töluverðar við Þerney um 1400 og fram á 15. öld.
Siglingatækninni hafi svo fleygt fram á 15. öld og um 1500 komust menn næstum því á þá vík er þeir kusu.
Björn Þorsteinsson vildi meina að verslunarstaðirnir Þerneyjarsund og Hvalfjörður eða Búðasandur á Hálsnesi hafi líklega lagst af snemma á 15. öld.
Kristján Eldjárn taldi aftur á móti að til væru ritaðar heimildir um notkun Þerneyjarsunds sem hafnar og kaupstefnustaðar á tímabilinu 1300 til 1500. Það gæti verið vel í takt við þá skoðun Þorleifs Óskarssonar að verslunin hafi í byrjun 16. aldar færst nær Víkinni (Reykjavík) sem líklega má rekja til innbyrðis baráttu Þjóðverja um viðskipti við Íslendinga en „elsta dæmið um verslun í Hólminum við Reykjavík sé frá árinu 1521.“
Álfsnes
Kristján Eldjárn taldi miklar líkur benda til þess að lendingarstaðurinn og búðirnar hafi verið á þúfnasvæði við hvamm einn þar sem Sundakot stóð. Á 8. áratugnum voru uppi hugmyndir um að friðlýsa svæðið og má sjá á grein Kristjáns að hann telur að svæðið, bæði búðasvæði og Sundakot, sé þegar friðlýst en það hefur verið á misskilningi byggt.
Svæðið hefur sigið mikið og sjást búðirnar ekki lengur.
Sundakot (hét Niðurkot í Jarðatali Johnsens) var önnur hjáleiga Þerneyjar á fastalandi og reiknaðist jarðardýrleikinn í heimajörðinni. Svo var enn í Jarðatali Johnsens. Landskuld hennar var sextíu álnir og greiddist með fiski til heimabónda, leigukúgildi eitt og greiddist í smjöri. Kvaðir voru mannslán árið um kring utan sláttar en þó einn dagsláttur. Kvikfénaður var tvær leigu kýr og einn kálfur, eitt hross og eitt veturgamalt trippi. Heimilismenn voru sex. Torfristu, stungu og eldiviðartak sóttu menn á fastaland með heimabónda. Hjáleigan hafði engin sjávarhlunnindi. Tekið er fram að Sundakot hafi verið í byggð lengur en menn reki minni til.
Undir Sundakot eru skráðir 19 minjastaðir, þar ber helst að nefna bæjahólinn, minjar innan hringlaga túngarðs auk búðarrústa sem ekki eru greinanlegar lengur á yfirborði, sjórinn gengur þar á land og minjastaðurinn er í hættu vegna ágangs sjávar.
Engar fornleifar á áætluðu framkvæmdarsvæði eru skráðar undir Sundakot, furða má sig á að engin steinhlaðin skreiðarbyrgi skuli finnast Sundakotsmegin við Fornugrafir, því ætla mætti að byrgjunum væri valinn staður sem næst höfninni á Þerneyjarsundi. Skýring kann að vera að heppilegri steinastærð er að finna á holtinu að norðanverðu.

Glóra

Álfsnes

Glóra- loftmynd.

Hjáleiga Álfsness var nefnd Urðarkot eða Glóra (nefnd svo í Jarðabók Johnsens). Ekki er ljóst hvenær byggð hófst þar. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Hjáleigan var þá ýmist nefnd Glóra eða Urðarkot og á lausu blaði í Jarðabókinni einnig nefnt Hallsneshjáleiga.
Landskuld greiddist til heimabænda í landaurum ef ekki var til fiskur.
Leigukúgildi var eitt og greiddist í smjöri eða fóðri til heimabónda. Vatnsból var á heimajörðinni.

Álfsnes

Dýrleika jarðarinnar er hvorki getið í Jarðabók né Jarðatali. Á Glóru var búið til ársins 1896. Þá fór bærinn í eyði og ekki var búið í honum þegar túnakort er gert árið 1916, bæjarhúsin voru þá tóftir. Síðast var búið í Glóru frá 1928 til 1935. Þá bjó þar Benedikt Kristjánsson frá Álfsnesi sem rak þar kúabú ásamt því að halda nokkur hross og kindur.
Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru helst rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Sjávarútvegsminjar sem tilheyra landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru rústir eftir fiskbyrgi sem eru allar innan úttektarsvæðisins. Fiskbyrgin voru notuð til að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Einnig eru nokkrar yngri minjar í landi Glóru eftir hersetuna.

Minjastaðurinn við Þerneyjarsund
„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er“. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra
Álfsnes

ornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi. Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.
Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Þerney

Þerney – loftmynd.

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.
Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Sjá meira um ferð FERLIRs um Álfsnes HÉR.

Heimildir:
-http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/ahugavert-efni/minjar-manadarins/
-Skýrsla um “fornleifaskráningu á Álfsnesi”, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Margrét Björk Magnúsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2018.

Álfsnes

Eyjarnar norðan Reykjavíkur.

Brúsastaðir

Í skráningarskýrslu um “Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar” árið 1998 segir m.a.:

“Skráningin afmarkast af Flókagötu og Hjallabraut, Skjólvangi að norðan, bæjarmótum við Garðabæ að vestan og sjó að sunnan.

Fornleifar í Hafnarfirði milli Skerseyrar og Langeyrar

Langeyri

Langeyri og nágrenni.

Svæði það sem hér er birt skýrsla um er í útjaðri Hafnarfjarðarkaupstaðar, á mörkum landbúnaðarhverfisins í kringum Garða og kaupstaðarins sem breiddist út frá botni fjarðarins frá því seint á 17. öld. Stærsti hluti svæðisins er úfið en þó víða gróið hraun og eru mannvistarleifar fyrst og fremst meðfram sjónum. Landið tilheyrði upphaflega Görðum en ekki er vitað um búsetu á því fyrr en undir lok 17. aldar að býli var reist á Skerseyri. 1703 er auk þess getið um einar sjö þurrabúðir á svæðinu sem virðast hafa verið í óstöðugri byggð og virðist sem þær hafi alla verið byggðar eftir 1650 (JÁM X, 178). Vitað er að1670 voru allar þurrabúðir norðan við Hafnarfjarðarkaupstað í eyði (SS Saga Hafnarfjarðar, 192). Vera má að útræði frá þessum stað með tilheyrandi kotbúskap hafi ekki hafist að marki fyrr en kaupstaðurinn var fluttur frá Hvaleyri inn í fjörðinn eftir 1667. Frá þeim tíma virðist þó sennilegt að búskapur hafi verið af og til á stöðum eins og Brúsastöðum, Eyrarhrauni og Langeyri. Þessi bæjarstæði gætu því verið allfornar þurrabúðir þó ekki hafi ritheimildir varðveist um það. Þurrabúð hafði verið á Langeyri um langt skeið er verslunarhús voru reist þar 1776. Föst verslun mun þó ekki hafa verið rekin þar eftir 1793 en á 19. öld risu kotbýli á svæðinu auk Skerseyrar og Langeyrar: Gönguhóll, Eyrarhraun og Brúsastaðir. Hvalstöð virðist hafa verið reist á Rauðsnefí um 1860 en starfaði ekki lengi. Um aldamótin 1900 voru risin fiskverkunarhús á Fiskakletti og í kjölfarið byggðist upp fiskverkunarðastaða á Langeyrarmölum og allmargir fískreitir voru gerði í hrauninu ofanvið á fyrstu árum 20. aldar. Þetta svæði hefur þó lengstaf verið á jaðri bæjarins og fyrir utan Langeyrarmalir hafa helstu umsvif þar á 20. öld tengst búskap í smáum stíl, en langt fram eftir þessari öld áttu margir bæjarbúar nokkrar kindur í kofum í útjöðrum bæjarins. Íbúðabyggð hefur ekki orðið á skráningarsvæðinu nema á hrauninu norðaustantil (við Sævang) en þar hefur verið lítið um eldri mannvirkjaleifar.

Skerseyri

Skerseyri – túnakort 1903. Hér má bæði sjá sjávargötuna upp með Bala og gamla Garðaveginn (kirkjugötuna frá Hafnarfirði).

Engu að síður hefur verið töluvert rask á svæðinu, tengt ýmisskonar framkvæmdum síðustu áratugi og er sáralítið eftir af fornum mannvirkjum þar. Einkenni fyrir svæði eru gtjóthleðslur frá ýmsum tímum, sem finna má mjög víða, og er oft ógerlegt að segja hvort þær eru fornar eða aðeins nokkurra ára gamlar.
Upplýsingar um minjastaði eru fengnar úr rituðum heimildum, einkum gömlum kortum, örnefnaskrám og skjölum prentuðum í Sögu Hafnarfjarðar.

Garðar

Garðar

Garðar og nágrenni.

Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk: “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …” (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 101).
Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum. ..” Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 102-104).
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.” JÁM IT, 181.

Skerseyri

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

1703 segir um Skerseyri: “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul” og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 — JÁM X,178-179. 2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842.
Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar. “Skerseyrartún: Næsta býli við Litlu|-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.” segir í örnefnalýsingu.

Langeyri

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Hjáleiga frá Görðum. Garðakirkjueign. “Langeyri var fyrrum þurrabúð, en á síðara hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar var rekin þar verslun …” SS: Saga Hafnarfjarðar, 408. Í jaraðbókum 1760 og 1802 er getið um smábýlin Langeyri, Bala og Skerseyri en 1842 er í skýrslu sóknarprests aðeins getið um Langeyri. Það er hinsvegar ekki nefnt í skýrslu sýslumanns frá sama tíma – JJ, 92. Langeyri hefur verið í hvað stöðugastri byggð af býlum á þessu svæði frá 18. öld og fram á þá 20. 1802 voru þar 2 ábúendur sem báðir hlutu fátækrastyrk úr konungssjóð — SS Saga Hafnarfjarðar, 248. 1816 var aðeins ein fjölskylda á Langeyri en 1845 var þar aftur komið tvíbýli. “Langeyri var stundum nefnd Skóbót, en það gæti verið afbökun eða stytting úr nafninu Skómakarahús, sem rekur lestina t.d. í bæjatali í Hafnarfirði |frá um 1805, en þar kemur Skómakarahús á eftir Gönguhóli.” – MS: Bær í byrjun aldar, 114.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Í manntali frá 1845 er Skóbót þó talin næst á eftir Langeyri (sunnan við) þannig að ekki virðist það geta staðist að um sama býli hafi verið að ræða. Eftir aldamótin 1900 óx athafnasvæði í kringum Fiskaklett í átt að Langeyri og lét Ágúst Flygenring reisa fiskverkunarstöð á Langeyrarmölum árið 1902. Hún var keypt af hlutafélaginu Höfrungi 1920 og stækkuð og þá voru einnig gerðir þar fiskreitir – SS Saga Hafnarfjarðar, 515. Seinna átti Lýsi og Mjöl þessi hús. Þessi mannvirki eru horfin nú en þau hafa skemmt eldri mannvirki að meira eða minna leyti.

Langeyri

Langeyri um 1970.

Býlið var innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar frá því að kaupstaðurinn var stofnaður 1907 en bærinn keypti landið af Garðastað með heimild Alþingis, lögum nr. 13, 22.10.1912.
Á bæjarstæðinu stendur steinhús merkt “Langeyri 1904″ og er það númer 30 við Herjólfsgötu. Húsið stendur í lægð í hrauninu. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja. Umhverfis húsið er grasi gróin garður. Framan við húsið hefur garðurinn verið niðurgrafin að hluta til, og þar hefur verið plantað trjám.

Litla Langeyri/Brúsastaðir (býli)

Brúsastaðir

Brúsastaðir.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeyrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar.
“Litla-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. Litlu-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið.

7 þurrabúðir

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem tekin var saman fyrir Garðahrepp árið 1703 er sagt að eftiralin tómthús standi út með Hafnarfirði í Garðastaðarlandi: “Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar tómthúsmönnum fyrir x álna leigu og mannslán.

Brúsastaðir

Brúsastaðir um 1975.

Í sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthúsmaðurinn soðningarkaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskirfið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallanda fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst.” JÁM X, 178
Ekki er vitað hvar þessar þurrabúðir hafa verið að öðru leyti en því að þær hafa verið milli kaupstaðarlóðarinnar (þ.e. norðan við Fiskaklett) og Skerseyrar sem næst er talin af hjáleigum Garða. Langeyrarbúð hlýtur að hafa verið nálægt Langeyri eða jafnvel á því bæjarstæði því býlisins er ekki getið í jarðabókinni. Líklegt er að einhverjar hinna hafi verið á bæjarstæðum sem seinna eru þekkt undir öðrum nöfnum, s.s. Gönguhóll, Flatir og Brúsastaðir en ekkert verður þó um það fullyrt.

Verslunarhús

Langeyri

Langeyri (lengst til vinstri) um 1950.

Á árabilinu 1774-1787 var tekin hér við land konungleg þilskipaútgerð, m.a. í því augnamiði að kenna Íslendingum fiskveiðar. Bækistöðvar þessarar útgerðar voru í Hafnarfirði og þar “var fiskurinn verkaður, og þar voru reist geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki. Bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi sýslumanni Runólfssyni með bréfi, dagsettu $. júní 1776, að út sjá hentuga staði til þessara húsbygginga og tjáði honum í því sambandi, að hin konunglega tollstofa hefði tilkynnt sér, að vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði þyrfti að reisa þar tvö ný hús, annað á Hvaleyri til vetrarbústaðar stýrimönnum og hásetum á jöktunum, en hitt á Langeyri handa eftirlegumönnum. Óskaði stiftamtmaður eftir því, að sýslumaður veldi hentugar lóðir undir þessi hús …

Langeyri

Langeyri um 1920.

Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást … verzlunarhúsið á Langeyri … aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins.
Þetta hús er merkt sem verslunarhús á uppdrætti af Hafnarfirði frá um 1778. Það var reist á kostnað konungs en selt ásamt öðrum eignum hans í Hafnarfirði á uppboði 31.7.1792 og keyti það Dyrkjær skipstjóri fyrir 17 rd. og 4 sk. (SS Saga Hafnarfjarðar, 249) en hann hafði áður verið leigjandi í húsinu. Þann 28.5.1793 skipaði danska rentukammerið Jochum Brinck Lund að hætta verslun á Langeyri frá næsta hausti og 8.6.1793 var Kyhn kaupmanni, sem rekið hafði lausaverslun og fiskverkunarstöð á Langeyri bannað að halda þeirri starfsemi áfram (SS Saga Hafnarfjarðar, 252). Þessar aðgerðir voru til stuðnings fastakaupmanni í Hafnarfirði og virðist ekki hafa verið verslað á Langeyri eftir þette. Þó leyfði stiftamtmaður O.P. Möller kaupmanni í reykjavík að reka útibú á Langeyri sumarið 1832. Rentukammerið hafnaði þessu hins vegar og varð Möller að hætta verslun sinni 1833 (SS Saga Hafnarfjarðar, 244).
Ekki er vitað nákvæmlega hvar þetta hús stóð nema að það mun hafa staðið í grennd við þurrabúðina Langeyri. Ekki er að sjá neinar húsaleifar á því svæði enda hefur þar verið ýmiskonar rask undanliðnar tvær aldir. Fiskverkunin hefur verið á sama svæði skammt frá fjörunni.

Langeyrarbyrgi (fiskbyrgi)

Langeyri

Garðar og hús í hrauninu vestan Langeyrar.

“Fyrrum voru allmikil fiskibyrgi á hraunhólum þarna.” segir í örnefnalýsingu.
Tvö fiskbyrgi sjást enn. Þau eru í halla í N hrauninu. Ofar er lítil tóft (3x2m) með tveim rekaviðar-drumbum þvert yfir tóftina og netaleifum. Neðan við hana er stærri og ógreinilegri tóft (1 1×1 lm), skipt í hólf. Allt hlaðið úr hraungrýti, neðri tóftin að miklu leyti grasigróin.

Langeyrarbrunnur (brunnur)
“Var neðst í túninu. Aðeins vatn á fjöru”, segir í örnefnalýsingu.
Brunnur þessi er nú horfinn. Hann hefur annaðhvort lent undir Herjólfsgötu eða er horfinn fyrir raski neðan við hana.

Langeyrarstígur (leið)

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

“Langeyrarstígur lá úr Langeyrartúni, austur og upp hraunið eftir lægð í því upp á bala vestan við Víðastaði á Garðaveginn. Verslunarvegur er verslun var á Langeyri”, segir í örnefnalýsingu.
Þessi gata sést enn að hluta frá enda Drangagötu og til austurs. Þar tvískiptist hún, liggur annarsvegar til norðurs og endar þar við enda Klettagötu, og hinsvegar til norðurs og endar þar aftan við Herjólfsgötu 18. Gatan liggur yfir hraunið og er að hluta til upphlaðinn vegur. Ef það er rétt að gata þessi séð frá þeim tíma er verslað var á Langeyri þá er hún frá 18. öld.

Draugaklif (örnefni)

Langeyri

Eyrarhraunsgata ofan Langeyrar.

“Vestur af Melunum er Gatklettur. Nú hruninn að mestu, var allhár áður fyrr, og vestan við hann er bás, sem nefndur er Bás. Þetta er djúpt malarvik, Þar aðeins vestar var einstigi með sjónum, sem var nokkuð tæpt, og var það nefnt Draugaklif.” segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar eftir Ara Gíslason en í örnefnaskrá fyrir Álftaneshrepp segir að Gatklettur hafi verið fallinn saman 1929 og hafi verið fram frá Sundhöllinni vestanverðri”.
Dregaklif. Sigurgeir Gíslason segir að þetta nafn muni hafa verið réttara. Þarna strandaði skip og kjölurinn – dregarinn – lá þarna lengi eftir í fjörunni.”
Einstigið er horfið enda liggur Herjólfsgata tæpt með sjónum á þessum stað og hlaðinn kantur sjávarmegin við hana. Ekki er vitað við hvaða draugagang klifið var kennt.

Gönguhóll (bústaður)

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll).

Gönguhóll eða Sönghóll var klapparrani kallaður sem gekk fram í sjó framan við Langeyrarbæ. “Bær stóð þarna vestan undir, lóðin kölluð svo” segir í örnefnalýsingu. Þar er einnig bætt við að Lifrarbræðslustöð hafi verið sett á bæjarrústunum 1903 en byggð mun hafa lagst af í Gönguhóli skömmu fyrir 1902. Þá var einnig bryggja byggð niður frá þessum stað og stóð neðsti hluti hennar enn 1964. Litlar heimildir eru um byggð við Gönguhól en býlið er nefnt í bæjatali úr Hafnarfirði frá 1805 milli Fiskakletts og Skómakarahúss, sem mun vera sama og Langeyri.

Langeyri

Lifrabræðslan við Hvaleyri, byggð af August Flyrening um 1910.

Ekki er óhugsandi að Gönguhóll sé sama býli og Hraunbrekka sem getið er um í sóknarlýsingu frá 1842, sem næsta býlis austan við Langeyri – SSGK, 206. Gönguhóls er ekki getið í manntölum frá 19. öld en í manntali frá 1845 er Skóbót með tveimur fjögurra manna fjölskyldum talin næst á eftir Langeyri og má vera að um sama býli sé að ræða.
Gönguhóll var nálægt því sem nú er Herjólfsgata 24. Allar minjar eru horfnar á þessum stað. Þarna standa nú hús á öllum lóðum og sker Drangapata það svæði þar sem líklegt er að túnið hafi verið.

Flatir/Eyrarhraun (býli)

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

Í sóknarlýsingu frá 1842 er getið um býlið Flatir milli Langeyrar og Litlu-Langeyrar. “Flatirnar: Sléttar flatir innan við Malarkambinn fyrir Mölunum miðjum. Þarna var býli, þurrabúð, hér óx brenninetla. Eyrarhraunstún: Svo voru Flatirnar kallaðar eftir nafnbreytinguna á þessari þurrabúð. Eyrarhraunstúngarður: Garður er lá innan við Malarkampinn og var á hlið og stétt heim að Flötunum og Mýrarhrauni.

Langeyri

Eyrarhraunstúngarður.

Flata eða Eyrarhrauns er ekki getið í manntölum 1801, 1816 eða 1845.
Nú stendur steinhúsið Eyrarhraun, sem að hluta til er grafið inn í hólinn, á hæð í hrauninu, um 200m frá sjó, SOm norðaustur af Eyrartjörn. Þar er einnig grunnur úr bragga. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja.

Tjarnarbryggja (bryggja)

Langeyri

Leifar lifrabræðslunnar vestan Gönguhóls.

“Tjarnarbryggjan: Bryggja að Steinboga yfir Eyrarhraunstjörn.” segir í örnefnalýsingu.
Vestan við Eyrartjörn eru leifar af sementsstöpli með járna- og grjóthrúgu „sem gætu verið leifar Tjarnarbryggju.
Fiskreitir; Dísureitur og Ingveldarreitur, voru ofan Eyrarhraunstjarnar. Þeir eru nú horfnir.

Vegur

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

Vegur sem að hluta til er hlaðinn upp sitthvoru megin með hraungrýti, með smásteinum og mold á milli, er sunnan við Sævang 33 og liggur yfir hraunið að Eyrarhrauni.

Tóft
Um 11O m norðan við Eyrahraunstjörn og Tjarnarbryggju er tóft í lægð í hrauninu. Hún er hlaðin úr torfi, hálfkúlulaga. Dyr snúa í austur og er tréhurð í þeim.

Litlu-Langeyrarbrunnur (brunnur)
Í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. … Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.” segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið.
Tvö hús standa í bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Draugur (Stifnishólar)

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar (t.v.).

“Fram af Brúsastöðum (012), fram í sjó, eru háir hraundrangar, sem heita Stifnishólar. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800″.
Stifnishólar eru rétt sunnan við Brúsastaði.

Skerseyrarvör (lending)

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.” — “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð (1964).”
Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Hvíluhóll (áfangastaður)
“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.”
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Landamerkjavarða

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgðir á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn með vörðunni horfinn.

Markvarða (landamerkjavarða)
“Stóð ofanvert við Árnagerði.” “Svo var svæðið nefnt frá Garðaveginum allt upp að Hellisgerði. Árni Hildibrandsson ræktaði það um 1866.”
Mikill hluti af þessu svæði er byggt upp. Ekkert sést og því ekki hægt að staðsetja nákvæmlega, en líklegast er að varðan hafi staðið á svæðinu frá Sævangi 18 að
enda Klettagötu.

Tóft
Tóft er við sjávarmál um 50m suður af Brúsastöðum. Hún er byggð utan í klappir alveg við sjóinn. Hlaðin úr grjóti og að hluta styrkt með sementi.

Hvalstöð

Langeyri

Kofatóft ofan Langeyrar.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys”, segir í örnefnalýsingu.
Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A.m.k 7 litlar (3×5 m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

Hammershús (bæjarstæði)
“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.”
Enginn húsgrunnur er þó þar.

Litla-Langeyrarvör/Brúsastaðavör (lending)
“L-Langeyrarvör. … vestan við Stifnishóla“, segir í örnefnalýsingu.

Allans-reitur (fiskreitur)

Allians

Allans-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

“Langstærsti fiskreiturinn, sem Hellyer bræður létu gera eftir að þeir keyptu Svendborg 1924 og hófu útgerð frá Hafnarfirði varAllans-reiturinn, sem svo var nefndur, en hann var kenndur við Allen majór, framkvæmdastjóra Hellyers-bræðra í Hafnarfirði. Allans-reiturinn var þar, sem nú er Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Hafnarfirði.”
Um 100 m austur af suð-austur horni Hrafnistu eru leifar af fiskreit (60 m langur, liggur norður-suður) og hefur nyðri hluti hans lent undir aðkeyrslu að Hrafnistu.
Reiturinn liggur ofan á lágum hraunhólum, en sunnan við hann og um 2 m neðar ganga tveir garðar (eða leifar af görðum) til suðurs og er grunn dokk á milli ca. 50×20 m.

Heimild:
-Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar, Fornleifaskráning í Hafnarfirði ll – Hildur Gestsdóttir og Sædís Gunnarsdóttir; Fornleifastofnun Íslands 1998.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjNurDJrNnrAhVB66QKHSSeDVwQFjARegQICBAB&url=https%3A%2F%2Ffornleif.is%2Fwp-content%2Fuploads%2F2018%2F01%2FFS063-98131-Skerseyri-og-Langeyri.pdf&usg=AOvVaw3vonlzqTOr5qFbmLymG6pw

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við Seltún í Krýsuvík má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.
Á reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali. Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn. Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa. Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.
Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.
Eggert Ólafsson náttúrfræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á ‘islandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru borðaðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.
Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga. Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.
Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.
Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum. Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.
Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálai [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.]

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Hafnarfjörður

Ásgeir Guðmundsson fjallar um “Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar” í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, en mörk bæjarfélagsins hafa vaxið ört frá því að það fékk kaupstaðaréttindi 1. júní 1908:

“Í 1. grein laga um bæjarstjórn í Hafnarfirði 22. nóv. 1907 voru takmörk kaupstaðarins ákveðin þannig:

Hafnarfjörður

“Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunholtstúns, Þaðan beina stefnu yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.”

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Mikið skorti á, að Hafnarfjarðarbær ætti árið 1908 það land, sem var innan bæjarmarkanna.
Í árslok 1908 var að frumkvæði Jóns Hermannssonar þáverandi bæjarstjóra rætt um það á bæjarstjórnarfundi utan dagskrár, hvort eða að hve miklu leyti kaupstaðurinn ætti að gera ráðstafanir í þá átt að eignast eitthvað af því landi, sem hann var byggður á og að honum lá. Síðla árs 1910 stóð Hafnarfjarðarbæ til boða að kaupa allar fasteignir Brydeverslunar í bænum ásamt fleira á 37.500 kr., þ.e. Akurgerðislóð ásamt öllum húsum og mannvirkjum, sem voru á lóðinni. M.a. var um að ræða fyrsta fiskþurrkunarreitinn, sem gerður var í hrauninu fyrir norðan Hafnarfjörð. Verslunarhús og önnur mannvirki á Akurgerðislóð voru ekki lengi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, því að bæjarstjórn seldi Magnúsi Th. S. Blöndahl kaupmanni þau árið 1911.
Hafnarfjörður
Ári seinna gaf prófasturinn á Görðum, Jens Pálsson, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi, sem bærinn stóð á og Garðar áttu, og einnig nokkurt beitiland fyrir samtals 52.000 kr. Við það voru landamörkin miðuð við “beina línu úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins, þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hrtaunjaðrinum, úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark, miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við Urriðakotsland; þá Setbergsland, allt til Lækjarbotna; og loks Selvogsmanna- eða Grindarskarðsvegur.”
Innifalið í þessum kaupum var Hamarskot, en undanskilið var Hamarkotstún innan girðingar og Undirhamarstúnblettur.
Hafnarfjörður
Í desember 1912 keypti Hafnarfjarðarbær hálfa jörðina Hvaleyri, þ.e. Hjörtskot, Halldórskot, Sveinskot, Tjarnarkot, Vesturkot og Egilsonsgerði. Kaupverðið var 7.000 kr.

Árið 1915 keypu bærin Hamarsland á kr. 10.500 kr. Undanskyldar voru nokkrar lóðir, s.s. lóð Íshúss Hafnarfjarðar. Hamar var upphaflega í landi Jófríðarstaða, og þar eða eigendur Jófríðarstaða töldu sig eiga tilkall til ítaka í Hamarslandi, mótaks og skipsuppsátur, ákvað bæjarstjórn árið 1919 að greiða þeim í eitt skipti fyrir öll 600 kr. gegn því, að þeir slepptu öllu tilkalli til þessara ítaka.
Eins og áður hefur komið fram, voru Hamarskots- og Umdirhamarstún undanskilin, þegar aðrar eignir Garðakirkju í Hafnarfirði voru seldar bæjarfélaginu 1912. Þá var gert ráð fyrir að presturinn hefði þar grasnytjar, ef hann flyttist til Hafnarfjarðar. Í desember 1927 var byrjað að sverma fyrir landinu og árið 1930 keypti bærinn það fyrir 12.000 kr. Sú kvöð hvíldi á Hamarkotstúni, að einungis mátti reisa þar byggingar til almenningsþarfa, en að öðru leyti átti túnið að vera skemmtistaður handa Hafnfirðingum, og var það notað til þeirra hluta um skeið. Undirhamarstún mátti kaupstaðurinn ekki selja, heldur aðeins leigja það út til byggingarlóða.
Hafnarfjörður
Árið 1924 reis ágreiningur milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Jóhannesar J. Reykdals um landamerki Hafnarfjarðar og Setbergs. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 1925, og féll hann Jóhannesi Reykdal í vil.
Árið 1932 keypti Hafnarsjóður Hafnarfjarðar jörðina Óseyri ásamt húsum af Böðvari Böðvarssyni bakara fyrir 39.000 kr. Óseyri var elsta nýbýlið í hinu forna Jófríðarstaðalandi.
Sumarið 1935 keypti Hafnarfjarðarbær af kaþólska trúboðinu (Compagnie de marie) hluta úr landi Jófríðarstaða.
Að loknum landakaupum þeim, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, átti Hafnarfjarðarbær mestan hluta þess lands, sem hann náði yfir. Að undanskildum hluta af landi Jófríðarstaða, sem bar í eigu Campagnie de Marie, og heimajörðinni á Hvaleyri, sem var í eigu Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar, voru aðeins tvær lóðir inni í sjálfum kaupstaðnum í einkaeign. Önnur var lóðin Vesturgata 2, þar sem Hótel Björninn stóð, og var hún í eigu erfingja Augusts Flygenrings, en hin var lóð Íshúss Hafnarfjarðar.
Árið 1936 fékk ríkið f.h. Hafnarfjarðarbæjar heimild til að taka eignarnámi lönd til að stækka lögsagnarumdæmið. Tilgangurinn var að bæta úr þeim mikla skorti á ræktunarlandi, sem var í Hafnarfirði um þessar mundir. Samkvæmt því var ríkinu heimilt að taka eignarnámi afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Áss í Garðahreppi, þann hluta af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í hafnarfirði, sem ekki var þegar eign Hafnarfjarðarbæjar, afnotarétt þess landssvæðis, sem takmarkaðist þannig: Að austan af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi, að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar að vesturhorni Engildals, þaðan með fram Álftanesveginu að aðalveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Undanskilið var þó land nýbýlisins Langholts og land milli Arnarnes- og Hraunsholtslækja, sem þegar hafði verið skipt á milli bænda í Garðahreppi, og jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.
Árið 1941 var gengið endanlega frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ, og var afsal fyrir þessum jörðum gefið út 20. febr. 1941.
Hafnarfjörður

Árið 1947 gafst Hafnarfjarðarbæ kostur á að kaupa landsvæði úr landi Straums, sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni og Skógræktar ríkisins. Ári síðar samþykkti bæjarstjórn að kaupa eftirfarandi landsvæði; landsvæði úr Straumslandi, sem var austan krýsuvíkurvegar, þ.e. á vinstri hönd, þegar farið er til Krýsuvíkur, þar með taldir vikurhólarnir neðan vatnskarðs, sem vafi lék á, hvort tilheyrðu Hafnarfirði eða Straumi, landsvæðið frá mörkum Hafnarfjarðar (Hvaleyrar), sem lá milli Keflavíkurvegar og sjávarins, þ.e. á hæghri hönd þegar farið var til Keflavíkur. Þetta svæði var norðvestanendinn á Kapelluhrauni, Ofaníburðarhóll, sem var u.þ.b. 2 km. suður frá Straumi. Ofangreind landsvæði fengust keypt fyrir 50.000 kr., að viðbættum helmingi af sjóði eim, sem myndast hafði vegna sölu á vikri úr Vatnsskarði að upphæð 18.000 kr. Auk þess var landsvæði sunnan Keflavíkurvegar og vestan Krýsuvíkurvegar um 2 km á hvern veg, sem Skógrækt ríkisins seldi Hafnarfjarðarbæ gegn því, að bærinn reisti á sinn kostnað girðingu á mörkum landsvæðisins, sem yrði um leið varnargirðing fyrir land það, sem Skógræktin hafði eignast úr Straumslandi. Kostnaður við kaup á landsvæði Skógræktarinnar nam um 30.000 kr.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Haustið 1955 hafði Hafnarfjarðarbær makaskipti á landsvæðum við Skógrækt ríkisins, og voru þau fólgin í því, að Hafnarfjarðarbær lét af hendi hluta af undirhlíðum frá skógræktargirðingu, sem þar var, suður að vikurhólunum við Vatnsskarð. Bærinn fékk á móti frá Skógræktinni landsvæði úr Straumslandi milli krýsuvíkruvegar og Óttarsstaða og fylgdu því ofaníburðarhólar þeir, sem voru á svæðinu, ásamt öðrum landgæðum.
Hafnarfjörður
Árið 1956 tók Hafnarfjarðarbær eignarnámi eign Gjafasjóðs Þórarins Böðvarssonar á Hvaleyri, auk Flensborgartúns, og greiddi fyrir það 1.380.000 kr.
Sumarið 1956 féllst hreppsnefnd Garðahrepps á að verða við beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um innlimun landspildu úr landi Setbergs í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Landsvæði þetta var í Kinnunum vestan Hamarkotslækjar og norðan við nýja Suðurnesjaveginn.
Árið 1959 var með lögum frá Alþingi ákveðin ný umdæmismörk fyrir Hafnarfjörð, enda hafði bærinn þá þegar þanist úr fyrir núverandi mörk.
Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps, sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða svokallaðar hraunjarðir. Nánara tiltekið var þetta landsvæði vestan Krýsuvíkurvegar, og náði það suður að Vatnsleysustrandarhreppi. Á móti féll Hafnarfjarðarbær frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi dags. 14. nóv. 1940, með þeirri undantekningu, að leigusamningar við einstaklinga, sem átu stoð í greindum samningi Hafnarfjarðarbæjar við jarðeignadeildina, skyldu áfram vera í gildi.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Vorið 1964 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um sölu jarðarinnar Áss í Hafnarfirði (hún var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959), sem bærinn nýtti sér í framhaldinu. Sama ár voru lögð fram lög á Alþingi um útfærð umdæmismörk Hafnarfjarðar. Í framhaldi nýtti Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteigum vestan krýsuvíkurvegar, þ.e. Lónakot, Óttarsstaði, þar með talið gamla býlið Óttarsstaði II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I, Glaumbæ, Straum og Straumsbúið, Jónsbúð, Þýskubúð, sumarbústaði, Litla-Lambhaga, Stóra-Lambhaga og einstakar aðrar landspildur.

Setberg

Setbergsbærinn – tilgáta.

Enn voru gerðar breytingar á lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar vorið 1971. Við féll hluti af landi Dysja undir Hafnarfjörð, en þá var fyrirhugaða að byggja í Norðurbænum.
Í nóvember 1977 gerðu Hafnarfjarðarbær og Garðbær með sér samning um breytingu á lögsagnarumdæmum sveitarfélaganna. Samkomulagið var í aðalatriðum fólgið í því, að spilda úr landi Þórsbergs og setbergs, ðalallega landið ofan Reykjanesbrautar frá FH-svæðinu suður á móts við Flóttamannaveg, var lögð undir lögsagnarumbæmi Hafnarfjarðar, en Garðabær fékk á móti land Hafnarfjarðar ofan við Reykjanesbraut. Breytingarnar tóku gildi árið 1978.
Nú á Hafnarfjarðarbær mestallt landið innan kaupstaðamarkanna. helstu landspildurnar, sem bærinn á ekki, eru hluti Jófríðarstaðalands, hluti Straumslands, Óttarsstaði og Lonakot. Þá eru nokkrar byggingarlóðir í einkaeign. Lönd jarðanna Þórsbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnaumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.”

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 101-122.

Hafnarfjörður

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 2020.