Hamarskot

Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 eftir Ásgeir Guðmundsson er m.a. fjallað um bújarðir í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar:

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

“Helsta bújörð í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Hvaleyri. Lítið er vitað um hana fram til ársins 1703 annað en það, að hún var í eigu Viðeyjarklausturs fram að siðaskiptum, en þá sló konungur eign sinni á hana eins og annað í klaustursgóss. Í kaþólskum sið var kirkja á Hvaleyri, sem var annexía frá Garðakirkju á Álftanesi. Þessi kirkja var lögð niður árið 1765. Rækilegar upplýsingar um Hvaleyri er að fá í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar kemur fram, að jörðin var ekki mikil bújörð, en höfuðkostur hennar var góð lega til fiskviða, enda var útræði frá Hvaleyri allan ársins hring. Þó var útvegur Hvaleyrarbónda heldur lítilfjörlegur árið 1703. Á fyrri hluta 18. aldar varð túnið á Hvaleyri fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og ágangs fugls og maðks. þegar Þorsteinn Jónsson varð ábúandi á Hvaleyri árið 1770, hófst hann handa um umbætur á jörðinni, og tók hún miklum stakkaskiptum. Frá árinu 1772 eru til tvær myndir af bæ Þorsteins á Hvaleyri, sem menn í leiðangri Sir Joseph Banks teiknuðu. Árið 1870 keypti séra Bjarni Sívertsen Hvaleyri af konungi, en að Bjarna látnum var jörðin seld, og gekk hún kaupum og sölum næstu áratugina. Árið 1870 keypti séra Þórarinn Böðvarsson heimajörðina á Hvaleyri, og nokkrum árum síðar gaf hann og kona hans jörðina ásamt tilheyrandi húsum, svo og Flensborgarlóðina, til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Heimajörðin á Hvaleyri var síðan í eigu Flensborgarskólans og síðar Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar og konu hans, uns Hafnarfjarðarbær keypti hana árið 1956 með leyfi menntamálaráðuneytisins. Nú er golfvöllur á Hvaleyri.
Þorsteinn Egilsson kaupmaður eignaðist smám saman alla Hvaleyrartorfuna, að undanskilinni heimajörðinni. Hinn 12. desember 1912 seldu erfingjar Þorsteins Hafnarfjarðarbæ torfuna.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Önnur helsta bújörðin í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Jófríðarstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið 1541, og var hún þá eign Skálholtsdómkirkju, en árið 1563 eignaðist konungur Jófríðarstaði og nokkrar aðrar jarðeignir í Gullbringusýslu. Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi og reisti þar skipasmíðastöð. Að Bjarna látnum gekk jörðin kaupum og sölum, uns kaþólska trúboðið (Campagnie de Marie) eignaðist hana alla árið 1922.
Þriðja bújörðin í landi Hafnarfjarðar var Hamarskot, sem dró nafn sitt af Hamrinum. Nafnið bendir til þess, að hér hefur ekki verið um stórbúli að ræða. Hamarskot er fyrst getið árið 1579, og var það þá í eigu Garðakirku. Síðar eignaðist landssjóður jörðina, en árið 1913 keypti Hafnarfjarðabær hana, að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarstúnbletti. Hafnarfjarðarbær keypti þessi tvö tún árið 1930, og hefur allt Hamarskotslandið því verið í eigu bæjarins frá þeim tíma.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Fjórða bújörðin í Hafnarfirði var Akurgerði norðanmegin fjarðarins. Búskap lauk þar á seinni hluta 17. alfar. Fram til 1677 var akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi, en þá hafði Hans Nansen yngri makaskipti á Akurgerði og hálfum Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Um leið var verslunarstaðurinn, sem hafði verið á Háagranda á Hvaleyrarhöfða, fluttur í Aksurgerðisland. Einungis var um þurrabúðir að ræða í Akurgerði eftir 1677.
Af því, sem hefur verið rakið hér að framan, er ljóst að fram til 1677 voru fjórar bújarðir í Hafnarfirði, en þegar Akurgerði var tekið undir verslunarstað, voru þrjár eftir. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar, að byggðin fór að aukast í firðinum og allmörg smámýli risu í lægðinni sunnan við fjarðarbotninn. Þessi smábýli voru upphaflega þurrabúðir, sem voru reistar í hinu forna Jófríðarstaðarlandi, þ.e. þeim hluta þess, sem firmað Jensen & Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og hlaut seinna nafnið Hamar. Hafnarfjarðarbær eignaðist Hamarsland árið 1915. Af nýbýlum í Hamarslandi er Óseyri elst.”

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 25-26.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Eggert Kristmundsson

Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum.

“Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.

Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.

Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?
Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Efri-Brunnastaðir

Hvert fóruð þið með sláturfé?

Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.
Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.
Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Stakkavík

Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.

Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.

Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Hlín JohnsonÉg hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.

En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.

Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.

Hvað bjó hún þarna lengi?
Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.

Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.

Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.

Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Efri-BrunnastaðirNei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.

Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.

Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.

Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.

Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?
Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.

Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.

En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.

Efri-Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir (h.m.) – flugmynd.

Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.

Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.

Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Eggert KristmundssonJá, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.

Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.

Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.” -M.F.

Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Hansabærinn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarjörð:

“Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipunarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Upplýsingaskiltið við smábátabryggjuna.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Hafnarfjörður

Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar.
Hafnarfjarðarhöfn
Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið “Die Islandfahrerbrüderschaft”.

Hansaskip

Skip Hansakaupmanna.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.”

Lübeck

Lübeck fyrrum.

Í heimildum segir jafnframt um Hansaverslunina:
“Þjóðverjar höfðu á 13. öld náð undir sig mikilli verzlun við Norðurlönd, en er Íslendingar voru gengnir Norðmönnum á hönd, eftir 1264, vildu Norðmenn gæta hagsmuna sinna í verzlunarviðskiptum við Ísland, og var þá Björgvin aðalverzlunarstaður Islendinga um langt skeið. Þjóðverjum var þá bannað að sigla „ultra Bergas versus partes boreales“, og urðu menn í fyrstu að gæta þessa. En Englendingar ráku allmikla verzlun á Íslandi frá upphafi 15. aldar, án þess að fá leyfi til þess hjá Norðmönnum. Þeir voru illa þokkaðir hjá Íslendingum, og þegar þýzku Hansakaupmennimir tóku að verzla við Ísland á seinni hluta 15. aldar, fór ekki hjá því, að margs konar árekstrar yrðu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Það voru einkum Hansaborgirnar Hamborg og Bremen, en að nokkru einnig Lübeck, Danzig, Bostock, Wismar og Stralsund og jafnvel Lüneburg, er þessa verzlun ráku. Þjóðverjar voru vel séðir á Íslandi, og var jafnvel litið á þá sem verndara Íslendinga gagnvart Bretum, er frömdu ýmis ódæðisverk. Þeir drápu t. d. hirðstjórann Björn Þorleifsson 1467 á Snæfellsnesi. Eftirmaður hans einn var Þjóðverjinn Diederik Pining, er Piningsdómur er við kenndur, en hann er frá l.júlí 1490 um réttindi erlendra kaupmanna á Íslandi. Það er sagt, að Pining hafi siglt til Norður-Ameríku 20 árum á undan Kolumbusi. Pining gaf út tilskipun m. a. um, að ríkið skyldi annast fátækrahjálp. Er þessu mjög vel lýst í riti Hans Friedrich Bluncks „Auf grosser Fahrt“. Um árekstra Breta og Þjóðverja á íslandi ber einkum að geta um atburð þann, er varð á höfninni í Grindavík sumarið 1532.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Kortið frá 1903 er lagt yfir loftmynd frá 1978 svo sjá megi afstöðuna á Háagranda og Fornubúðum.

Þar lá brezkt skip, „Peter Gibson“ frá London, og veiddu skipverjar bæði fisk og seldu varning sinn. Þá komu þangað nokkrir kaupmenn frá Hamborg og Bremen og heimtuðu að kaupa sama fiskinn, er Englendingar höfðu lagt til hliðar fyrir sjálfa sig. Englendingar neituðu um viðskiptin, en þá komu þangað Hansakaupmenn með 280 manns á 8 skipum frá Hamborg og Bremen. Þeir réðust á enska skipið um nóttina og drápu 15 manns af áhöfninni. Enskar og þýzkar heimildir eru ekki sammála um ástæðuna fyrir þessum fjandskap, en hann leiddi til stjórnmáladeilna milli Breta og Dana, auk þess sem danska stjórnin gat ekki unað því, að landsstjóri hennar hafði verið veginn 1467, án þess að hefndir kæmu fyrir. Verzlun Hansakaupmanna á Íslandi jókst og náði hámarki sinu í upphafi 16. aldar. Konungur Dana reyndi nú að losna smám saman við verzlun annarra þjóða, og þetta leiddi til, að einokunarverzlunin komst á 1602, er stóð til 1787, og á þessu tímabili hrakaði Íslendingum mjög í öllum efnum. Hansakaupmenn ráku allmikla verzlun fram að einokunartímabilinu. Það er sagt, að þeir hafi reist þýzka kirkju í Hafnarfirði. Gætti ýmissa áhrifa þeirra, einkum hafa mörg orð úr þýzku verzlunarmáli komizt inn í íslenzku á þessu tímabili.” -Skírnir 1. jan. 1960, Alexander Jóhannesson, menningasamband Þjóðverja og Íslendinga, bls. 49-50.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903. Hvaleyrargrandi austanverður, þ.á.m. Háigrandi og Fornubúðir, er kominn undir uppfyllingu.

Setberg

Á upplýsingaskilti við rústir gamla Setbergsbæjarins í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

“Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins, sem hér eru, hafa verið friðlýstar.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Setbergsannáll var ritaður af Gísla Þorkelssyni sem fæddist á Setbergi 1676 og bjó þar megnið af ævi sinni. Segja má að þessi annáll sé sérstakt bókmenntaverk því að þar er töfraskilningur ráðandi og reglulega sagt frá fyrirbærum á borð við sæskrímsli, náttúruvættir og himnasýnir eins um staðreyndir hafi verið að ræða. Þar er meðal annars sagt frá ljóni sem rak á land árið 1230 með hafís og tókst að valda miklum skaða en slík sjón eru annars lítið þekkt. Annað dæmi er frá árinu 1206, þar segir: “Rak suður með garði skrímsli með 8 fótum í einu norðanverðri; var grátt sem selur með heststrjónu eður haus, en rófu upp úr bakinu; hvart nóttina eftir. Þetta skeði um veturnætur.”

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að telið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Íslandskort

Forn Íslandskort með skrímslum og öðrum forynjum.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð árið 1703 voru allar jarðir í Álftaneshreppi ýmist í eigu konungs eða Garðakirkju með þeirri einni undantekningu að jörðin Setberg var í eigu Þóru Þorsteinsdóttur. Álftaneshreppur náði á þeim tíma allt frá Kópavogslæk og suður að Hvassahrauni. Þá voru heimilismenn sex og á bænum voru fimm kýr, 23 ær, fjórir suaðir veturgamlir og fjórir hestar og selstöð átti jörðin þar sem heitir Ketshellir eða Kershellir. Í sömu lýsingu kemur fram að “silungsveiði hefur hjer til forna verið í Hamarskotslæk, kynni og enn að vera ef ekki spillti þeir með þvernetjum sem fyrir neðan búa”, Setberg átti ekki land að sjó en fram kemur í heimildum að jörðin hafi haft búðaaðstöðu og skipsuppsátur í landi Garða þar sem heitir Skipaklettur og greitt leigu fyrir. Skipaklettur var þar sem Norðurbakkinn er í dag við Hafnarfjarðarhöfn en hann var brotinn niður þegar fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar var byggt um miða 20. öld.”

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnaskrá fyrir Setberg segir m.a.:
“Samkvæmt máldaga fyrir jörðinni Setbergi í Garðahreppi, dagsettum 6. júní 1523, eru landamerki jarðarinnar Setbergs sem hér segir: Úr miðjum Kethelli og í stein þann, er stendur í fremsta Tjarnholti; úr honum og í Flóðhálsinn; úr Flóðhálsinum og í Álftatanga, úr honum og í hellu, er stendur í Lambhaga. Þaðan í neðstu jarðbrú, svo eftir því sem lækurinn afsker í túngarðsendann; þaðan í Silungahellu, svo þaðan í þúfuna, sem suður á holtinu stendur, úr henni og í syðri Lækjarbotna, úr þeim og í Gráhellu, úr henni og í miðjan Kethelli. [Nmgr.: Landamerkjaskrá er samkvæmt landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. J. H.]

Setberg

Setberg – loftmynd.

Setberg, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri. Túngarðar eða Setbergstúngarðar lágu að því að sunnan, austan og norðan. Suðurtúngarður lá neðan frá læk, sem síðar getur, upp á holtið að fjárhúsi, er þar er. Austurgarður er ofan túns allt út að austurtúngarðshliði og þaðan nokkuð lengra, en þá tekur norðurtúngarður við, og nær hann allt niður að læk. Gamligarður, þar sem túnið er hæst ofan bæjar. Markar enn fyrir þessu garðlagi. Setbergsbrunnur lá í lægð niður frá austurbæjarhorni. Þaðan lá svo brunngatan niður að brunninum. Túnið hér var kallað Niðurtún eða Suðurtún, allt upp undir fjárhúsið. Þar var utan garðs Stöðullinn, og innan garðs var Stöðulgerði. Milli Gamlagarðs og túngarðs voru nefndar Útfæringar allt út að hliði. Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari. Í Norðurtúni var Setbergskot eða Norðurkot og kringum það Norðurkotstún.”  –Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Setberg.

Setberg

Setberg 1984. Gamla Setbergsbæinn má sjá efst í hægra horninu – á þeim stað, sem hann var.

Brunnstígur

Á upplýsingaskilti við gatnamót Brunnstígs og Vesturgötu í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Brunnstígur

Brunnurinn (svartur depill).

“Á fyrrihluta 20 aldar fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar mjög hratt. Samhliða fólksfjölguninni jókst útgerð til mikilla muna og varð þá snemma knýjandi þörf á að koma upp hafskipabryggju í bænum.

Bryggjusmíðin sjálf hófst í mái 1912 og varð hún gerð samkvæmt uppdrætti Th. Krabbe, landsverkfræðings, en bryggjusmiður var Björn Jónsson frá Bíldudal. Laugardaginn 28. desember sama ár lagðist fyrsta skipið að bryggjunni en það var gufuskipið Sterling. Með tilkommu bryggjunnar varð til eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu, þar á meðal vatnssölu til skipanna. Vatnsveita bæjarins var hins vegar ekki í stakk búin að óbreyttu til að veita þessa þjónustu og var því brugðið á það ráð að koma upp geymi til vatnsmiðlunar fyrir bryggjuna. Vatnsgeymirinn eða brunnurinn var reistur hér; honum var valinn staður í hraunbolla við nýja götu sem bar nafnið Vesturbrú en síðar var Brunnstígurinn lagður og er hann nefndur eftir brunninum. Vatn safnaðist í brunninn á næturbar þegar notkun bæjarbúa var í lágmarki en á daginn var því veitt úr honum og niður í vatnsveitukerfi bryggjunnar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fyrsta hafskipabryggjan.

Samkvæmt lýsingu í útboði vegna byggingar vatnsgeymisins var hann 3,2 metrar á dýpt, 9,2 metra víður að innan máli og rúmaði 200 smálestir vatns. Veggirnir voru 50 cm þykkir og inni í geyminum voru fjórar súlur sem héldu þakinu uppi. Eftir að geymirinn var steyptur var jarðvegur setuur upp að honum en þó stóðu alltaf um 40 cm upp úr jörðinni. Geymirinn var niðurgrafinn að stærstum hluta líkt og brunnur og skýrir útlitið því nafngiftina. Guðni Guðmundsson, steinsmiður, sá um að steypa geyminn en Sigurður Thoroddsen, verkfræðingur, teiknaði hann.

Brunnurinn gegndi þessu miðlunarhlutverki fram yfir 1950 en vatn rann þó enn í hann næsta áratuginn. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að ná sér í vatn í brunninn þegar bera fór á vatnsskorti upp úr 1960. Eftir það var brunnurinn meðal annars nýttur sem grænmetisgeymsla.”

Brunnstígur

Brunnstígur – brunnurinn var t.v. á myndinni.

Austurgata

Á upplýsingaskilti við gatnamót Austurgötu og Linnetsstígs í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Austurgata

Austurgata.

“Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1908 var ekkert skipulag á byggðinni og fáaer eiginlegar götur í bænum, einungis slóðar og troðningar. Þremur árum síðar var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum bæjarins nöfn og tölusetja húsin. Varð úr að nefndarmenn gáfu flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð “hverfi” og hús númeruð innan þeirra. Á því svæði sem Austurgatan stendur í dag var svokallað Austurhverfi á þeim tíma. Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918. Á svæði þar sem Austurgatan stendur í dag standa við götuna 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf. Húsin við Austurgötuna mynda einstaklega heildstæða götumynd byggðar frá upphafi 20. aldar og þó að gatan hafi byggst upp að mestu leyti á þessum árum erugerð og stíll húsanna mjög fjölbreytt.
Austurgata

Segja má að Austurgatan sé dæmigerð fyrir gamla Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og mannlífið mynda áhugaverða heild. Við götuna standa, eða hafa staðið, hús með merkilega sögu auk tveggja álfakletta.
Nyrst við götuna stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.
Litlu sunnar er komið að húsi Ólafs borgara sem áður stóð neðar í lóðinni en hefur nú verið flutt upp að götu. Húsið var byggt árið 1872 sem verslunar- og íbúðarhús.
Gegnt því húsi stendur gamla símstöðin, sem byggð var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríksisins, árið 1922. Þar var rekin símstöð allt til ársins 1962.

Austurgata

Austurgata 26.

Fríkirkjan stendur á kletti yfir götunni en hún er elsta kirkjan í Hafnarfirði, byggð árið 1913. Kirkja þessi er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún var t.d. síðasta tvílyfta timburkirkjan sem byggð var á Íslandi, sú fyrsta sem var raflýst, frá henni lágu á sínum tíma hæstu tröppur landsins og fyrstu útvarpsmessunni hér á landi var útvarpað frá henni árið 1926.
Húsið númer 26 við Austurgötuna er byggt af Hjálpræðishernum sem sjómanna- og gistiheimili. Þar rak bærinn um tíma tvær sjúkrastofur en árið 1927 var allt húsið tekið á leigu undir berklahæli. Árið 1935 hófts rekstur elliheimilis og almenningsmötuneytis í húsinu en Hafnarfjörður varð annað sveitarfélagið á landinu, á eftir Ísafirði, til að reka elliheimili.
Emil Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri og ráðherra, lét byggja eftir eigin teikningu húsið nr. 37 við götuna en það er talið dæmigert fyrir teikningar hans í nýbarrokkstíl með gaflsneiddu þaki. Auk þess að vera íbúðarhús hefur þar verið ýmist starfsemi í gegnum árin, s.s. húsgagnabólstrun, hárgreiðslustofa og sparisjóður.
Við suðurenda götunnar er brúin yfir Hamarskotslæk en hún er í raun stíflan sem Jóhannes Reykdal reisti þegar hann stóð að stofnun fyrstu almenningsrafveitu landsins árið 1904. Þá notaði hann fallorku lækjarins til að knýja níu kílóvatta rafal. Rafveitan var tengd í sextán hús og fjóra ljósastaura í bænum.”

Minnisvarði um Örn Arnarson reistur í Hafnarfirði

Austurgata

Minnisvarði um Örn Arnarson.

Í Tímanum 1973 má lesa eftirfarandi um fyrirhugaðan minnisvarða um Örn Arnarsson í Hafnarfirði. Gísli Sigurðsson, minjavörður Byggðasafnsins, segir frá:

“Á sumri komanda verður sett upp i Hafnarfirði minnismerki um skáldið Örn Arnarson. Hann var búsettur i Hafnarfirði um árabil og er öðrum fremur talinn skáld íslenzkrar sjómannastéttar. Minnismerkið verður sett upp við Reykjavíkurveg, en uppistaða þess er gamalt og stórt ankeri.

Austurgata 1

Austurgata 1 – Hótel Hafnarfjörður.

Í það verður fest viðeigandi keðja og verður þessu komið fyrir á stalli, þar sem einnig verður plata með nafni skáldsins. Að öðru leyti er ekki enn búið að ákveða endanlega hvernig minnismerkið verður.
Ekki er vitað úr hvaða skipi ankerið er, en það er gamalt og miklu stærra en svo, að það geti verið úr skútu. Gripurinn hefur verið gerður upp og sett á hann ryðvarnarefni og nýr tréstokkur smiðaður, en hinn upprunalegi er fyrir löngu fúnaður, en járnböndin eru til.
Magnús Stefánsson, en það var skírnarnafn skáldsins var fæddur á Langanesi, og stundaði sjósókn framan af ævi, en vegna heilsubrests varð hann að hætta sjómennsku og eftir það vann hann átakaminni störf i landi. En hann gleymdi ekki sínu fyrra starfi og sízt gömlum starfsfélögum, sjómönnunum, eins og kvæði hans bera með sér. Sjómennirnir gleyma heldur ekki skáldi sínu og á Sjómannadaginn eru kvæði hans sungin. Má t.d. nefna kvæðið „Íslands Hrafnistumenn.” – Tíminn, 20.11.1973,  Minnisvarði um Örn Arnarson, bls. 1.
Minnisvarðinn var afhjúpaður á horni Reykjavíkurvegar og Austurgötu árið 1974 – á fæðingarstað skáldsins.

Fríkirkjan

Fríkirkjan

Fríkirkjan.

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður 20. apríl, 1913 en formlegur afmælisdagur er jafnan miðaður við sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða mánaðardag hann ber. Það er vegna þess að þann dag árið 1913, sem þá bar upp á 24. apríl, var fyrsta guðsþjónustan haldin í Góðtemplarahúsinu. Kirkjan var síðan vígð þann 14. desember sama ár og hafði þá tekið aðeins rúma þrjá mánuði að byggja hana.
Þegar söfnuðurinn varð 30 ára var birt ítarleg umfjöllun um hann í Lesbók Morgunblaðisns. Umfjöllun blaðsins var birt sunnudaginn 18. apríl 1943. Hér grípum við niður í grein Finnboga J. Arndal í fyrrgreindri Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann skrifar m.a. um tilurð safnaðarins og kirkjuna:

„Söfnuðurinn var stofnaður 20. apríl 1913. Stofnfundurinn var haldinn þann dag í Barnaskólanum í Hafnarfirði. Var boðað til hans af nokkrum Hafnfirðingum, sem áhuga höfðu fyrir því að kirkja yrði reist í Hafnarfirði. Það mál hafði að vísu verið rætt og athugað um allmörg ár af sóknarmönnum Garðasóknar, en af ýmsum ástæðum, en þó sérstaklega vegna fjárhagslegra vandkvæða, átt erfitt uppdráttar fram að þeim tíma.

Fríkirkjan

Fríkirkjan og nágrenni.

Samkvæmt lögum safnaðarins skyldi nafn hans vera: Hinn evangelisk- lútherski fríkirkjusöfnuður í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum.
Bæjarstjórn samþykti 15. júlí 1913, að leigja söfnuðinum lóð þessa, en tæpu ári síðar samþykti bæjarstjórnin, að söfnuðurinn skyldi framvegis halda lóð þessari afgjaldalaust. Á safnaðarfundi 26. júlí s.á. var samþykt að ráðast í að byggja kirkjuna. Skyldi hún vera úr timbri, járnvarin. Var þá engin kirkja til í Hafnarfirði, eins og fyr er að vikið.
Seint í ágústmánuði var svo kirkjusmíðin hafin. Hafði verið tekið tilboði frá s.f. Dvergur í Hafnarfirði um smíðina og var þar lofað að gera sjálfa kirkjuna og bekki í hana og leggja til efni, hvorttveggja fyrir kr. 7900.00, en undanskilin var múrsmíð, málning, leiðslur og hitunartæki. Aðalumsjón með kirkjusmíðinni hafði trjesmíðameistarinn Guðmundur Einarsson, Davíð Kristjánsson trjesmíðameistari gerði teikningu af kirkjunni.
Kirkjusmíðinni miðaði vel áfram og var henni lokið að öllu snemma í desembermánuði sama ár.

Fríkirkjan

Í Fríkirkjunni.

Árið 1931 fór fram gagngerð viðgerð á kirkjunni. Var kórinn þá stækkaður að mun og turninn hækkaður og honum breytt verulega. Þess utan var kirkjan máluð utan og innan. Teikningar af hinum nýja kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trjesmíðameistari, en smíðið framkvæmdi Haukur Jónsson trjesmíðameistari í Hafnarfirði og fjelagar hans. Málningu alla framkvæmdi Kristinn J. Magnússon, málarameistari í Hafnarfirði.
Eftir þessa miklu aðgerð og breytingar var kirkjan sem ný orðin. Einn af safnaðarmönnum, Jóhannes J. Reykdal versmiðjueigandi á Setbergi, gaf alt timbur sem fór í stækkun kórsins og Kvenfjelag safnaðarins kostaði málningu á kirkjunni að innan að öðru en kórnum. Um sama leyti gaf það fjelag kolaofn í kirkjuna, stóran og fullkominn, er mun hafa kostað um kr. 1.100.00.
Undir kórgólfi er kjallari, sem notaður er sem líkhús og til geymslu. Kirkjan rúmar í sæti um 350 manns.
Um leið og kirkjan var reist var lögð í hana rafmagnsleiðsla enda þótt að litlar líkur væru fyrir því, að raforka væri þá fáanleg til lýsingar kirkjunni, því um þær mundir gat rafmagnsstöð Hafnarfjarðar ekki fullnægt þörfum bæjarbúa.
Kirkjan var síðast endurbætt árið 1998.” -Samantekt JGR / síðast breytt 11. júní 2010.

Austurgata

Austurgatan – málverk; Jón Gunnarsson.

Einarsreitur

Á upplýsingaskilti við Einarsreit í Hraununum í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Eunarsreitur

Á Einarsreit.

“Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum en þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina. framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarharunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir mennn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Einarsreitur

Upplýsingaskilti við Einarsreit.

Saltfiskverkun var mikil í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar en saltfiskur var verkaður frá því í janúar og fram í september ár hvert. Eftir að fiski, sem veiddur var í salt, var landað var honum staflað í stórar stæður sem kallaðar voru staflar. Þegar honum hafði verið umstaflað þrisvar sinnum með nokkurra daga millibili var hann tilbúinn til frekari vinnslu.

Fiskverkun

Saltfiskverkun við útgerðarhús.

Næsta skref var hið svokallaða “fiskvask”. Fyrst var fiskurinn vaskaður í trébölum upp úr sjó niðri í fjöru en síðar var vaskað innanhúss upp úr stórum trékörum sem stóðu í röðum í sérstökum vöskunarhúsum. Þar var fiskurinn skrúbbaður með handbursta en að því loknu var hann settur í rimlakassa þar sem hann var látinn standa í nokkra daga. Þá var hann fluttur á fiskreit þar sem honum var staflað í svokallaða stakka sem staðsettir voru á víð og dreif um reitinn og breitt yfir hann. Þegar viðraði til breiðslu var fiskurinn borinn á handbörum úr stakknum og honum raðað á reitina þannig að hnakki var látinn snúa á móti sporði og með roðið niður. Fiski úr hverjum stakki var haldið frá öðrum og bilin á milli voru kölluð stakkskil og voru þau notuð sem göngustígar. þetrra var gert vegna þess að fiskur í stökkunum gat verið á misjöfnum verkunarstigum. Aldrei var fiskur á sama stakknum breiddur tvo daga í röð, því að það hafði í för með sér að yfirborð fisksins þornaði of hratt og vökvi lokaðist þá inni í honum. Misjafnt vat hve oft þurfti að breiða fiskinn en það fór eftir stærð hans. Algengast var að fiskur væri breiddur tvisvar eða þrisvar og höfðu menn ýmsar aðferðir við að athuga hvort hann hefði fengið næga þurrkun en það var yfirleitt á ábyrgð verkstjórans. Að þurrkun lokinni var farið með fiskinn í geymsluhús þar sem honum var pakkað til útflutnings.”

Einarsreitur

Einarsreitur.

Búrfellshraun

Á upplýsingaskilti við Bala (Garðabæjarmmegin) í Hafnarfjarðarhrauni má lesa eftirfarandi um Búrfellshraun:

“Við stöndum á jaðri Búrfellshrauns sem stur sterkan svip á ásýnd Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Hér nefnist hraunið Klettar en norðan á nesinu nefnist sama hraun Gálgahraun þar sem það nær í sjó fram. Héðan eru 9 km í beinni loftlínu í gíginn Búrfell þar sem hraunið á upptök sín.

Náttúrulegt vinasamband
BúrfellshraunMeð þessu skilti innsigla Hafnarfjörður og Garðbær yfir náttúrulegu vinasambandi.
Markmið friðlýsingar er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hrauumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri.
Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og þar er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Það er ósk bæjamma að þessi staður, Bali, sé táknrænn fyrir sambandið og að almenningur geti komið hér og notið náttúru og friðsældar.

Aldur
Búrfellshraun rann frá Búrfelli í sjó fram fyrir um 8000 árum yfir gömul hraun og berggrunn svæðisins. Búrfell er stakur gígur á miklu sprungu- og misgengissvæði sem teygir sig frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Búrfellsgígurinn er það eldvarp sem næst er höfuðborgarsvæðinu, af þeirri gerð sem nefnist eldborg.

Hrauntraðir

Búrfellshraun

Á þessu korti má sjá hversu víðfeðmt Búrfellshraunið er eða um 16 ferkílómetrar. Einng sést hvernig það hefur greinst í tvær meginkvíslar sem svo hafa sameinast og runnið í sjó fram, bæði í Skerjafjörð og Hafnarfjörð.

Búrfellsgjá

Skýringar með korti hér að ofan.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð þegar hrauná rann úr gígnum í lengri tíma og myndaði hraunfarvegi. Þekktastar eru Búrfellsgjá og Selgjá, en Búrfellsgjá á sér fáa sína líka. kringlóttagjá er all sérstæð og hefur orðið til í lokahrinu gossins. Hraunelfan rann meðfram Vífilsstaðahlíð og þar myndaðist Selgjá í tröð og rásum undir storknuðu yfirborðinu. Neðan við Selgjá undir Vífilsstaðahlíð rann hraunáin bæði á yfirborðinu og í rásum undir storknuðu yfirborðinu.

Hellar

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir – fjárhellir.

Í Búrfellshrauni eru fjölmargir skútar og hraunhellar, þeir þekktustu Maríuhellar. Flestir hellarnir við Vífilsstaðahlíð eru svokallaðir hraunrásarhellar, sem mynduðust þegar kvikan barst ekki lengur til hraunrásarinnar, en rennsli úr henni hélt áfram þar sem landhalli var nægur. Þannig tæmdist hraunrásin og hellar mynduðust. Iðulega hefur þakið á hraunrásinni veriðs vo þunnt að víða hefur það fallið niður í hrauntröðina. Því er erfitt að segja hvar einn hellir endar og annar byrjar.

Jökulmenjar
Jökulruðningur sem ísaldarjökullinn skildi eftir þegar hann hopaði fyrir um tíu þúsund árum hylur víða holt og hæðir. Af jökulrákuðum klöppum má sjá síðasta skrið jökulsins á svæðinu. ummerki hæstu sjávarstöðu í lok ísaldar eru í um 40 metra hæð yfir sjó hér í næsta nágrenni. Sjór hefur því náð í skarðið á milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í lok ísaldar.

Sprungur og misgengi

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Við Selgjá má víða sjá sprungur og misgengi sem hafa verið virk eftir að Búrfellshraun rann. Þar skera Hjallamisgengið og nokkur minni misgengi hraunið þvert og hefur land sigið austan þeirra um u.þ.b. 12 m síðan hraunið rann. Vatnsgjá er sprunga sem opin er niður í grunnvatnsborð, svo í botni hennar er ágætt neysluvatn.

Hin mörgu heiti Búrfellshrauns

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en hefur fjölmörg sérnöfn svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Athyglisverðir staðir
Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá með Gjáarrétt og Vatnsgjá, hrauntröðin Selgjá þar sem fundist hafa 11 seljasamsæður, Maríuhellar sem eru fyrrum fjárhellar, hrauntanginn út í Urriðavatn og Gálgahraun með Gálgakletti og Fógetagötu.”

Við Maríuhella er jafnframt upplýsingaskilti um Búrfellshraun og hellana. Þar stendur:

Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Maríuhellar er samheiti á þremur hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellar en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögum. Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um “fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar”. Ef til vill er talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhella við hana.

Draugahellir
Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Urriðakotshellir

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m á lengt. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfall. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist hafa verið hús þar og ef til vill kví.

Vífilsstaðahellir
Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur noðrvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið en þar hefur orðið mikið hrun.

Jónshellar

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Einn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Fleiri hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Þeir sem eru mektir á kortinu eru Ketshellir (22 m), Kershellir (34m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43m), Sauðahellir nyrðri (32m), Skátahellir syðri (237m), Skátahellir nyrðri (127 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjárhellir eystri (11 m) og Sauðahellir (12).

Fyrir utan kortið (hér að ofan) má m.a. finna Hundraðmetrahellir (Fosshelli) (102m ), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshelli (65m), Hraunsholtshelli (23 m) og Vatnshelli (23 m).”

Búrfellshraun

Búrfellshraun – loftmynd (FERLIR).

Hleinar

Á upplýsingaskilti við Hleina má lesa eftirfarandi:

Hleinar

Friðlýsingarsvæðið á Hleinum.

“Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri, svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.

Fólkvangurinn er í Hafnarfjarðarhrauni sem rann fyrir um 8.000 árum úr Búrfellsgíg sem er norðan Valhnúka og helgafells. Hraunið er útbreitt í Hafnarfirði og Garðbæ og kallast mörgum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, garðahraun og Gálgahraun. Einu nafni kallast það Búrfellshraun. Fólkvangurinn er 32.3 hektarar að stærð og er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúrverndaráætlun 2004-2008.

Hleinar

Brúsastaðir og Fagrihvammur á Hleinum.

Í auglýsingu fyrir stofnun fólkvangsins á Hleinum kemur m.a. fram að almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í fólkvanginum án fylgdar og tryggar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimil í fólkvanginum. (Akstur utan vega er bannaður samkvæmt náttúrverndarlögum.)

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf í fólkvanginum. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í fólkvanginum. Veiðar á dýrum sem valda tjóri eru heimilar í fólkvanginum en þó aðeins í samræmi við lög 64/1994. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjum á hinu friðlýsta svæði.

Langeyrarmalir

Fiskútbreiðsla á Langeyrarmölum.

Upp úr aldamótunum 1900 var fyrsta fiskgeymsluhúsið reist á Langeyrarmölum og var það útgerðar- og kaupmaðurinn August Flygenring sem stóð fyrir því. Á mölunum var fiskvinnsla Augusts og var þar verkaður fiskur sem veiddur hafði verið á skútum hans. Allur fiskur var þá þveginn úti, framan í hámalarkambinum. Þvottakerin voru sundursagaðar stórar ámur og stóð ein stúlka við hvert ker. Þvegið var úr sjó, sem ýmist var borinn í vatnsfötum eða tunnum sem bornar voru á handbörum. Allur fiskur var talinn að eða frá stúlkunum, þar sem fiskurinn var þveginn í ákvæðisvinnu. Á langeyrarmölum var aðalfiskbreiðslusvæðið malarkamburinn meðfram sjónum, breitt var á sjávarmölina frá Sjónarhóli bæjarmegin og út á Rauðsnef, og áfram úr á litlu Langeyrarmalir út undir Brúsastaði að vestanverðu, ef með þyrfti. Auk þessa rak August mikla lifrabræðslu á mölunum og sjást minjar um hana enn við Herfjólfsgötu.

Langeyri

Örnefni við Hleina.

Lengi vel var ekki vegasamband á milli Langeyrar og Hafnarfjarðar og engin bryggja var á mölunum. Bátar og skip sem komu með fisk eða annan varning til löndunar lágu þá skammt frá landi og var fiskurinn fluttur í land á sérstökum löndunarbátum sem voru bæði breiðir og grunnristir. Í fjörunni var komið upp færanlegum bryggjum sem voru geymdar uppi á malarkambinum þegar þær voru ekki í notkun. Bryggjurnar voru þannig útbúnar að undir þeim voru járnslegnir staurar til að auðveldara væri að renna þeim í mölinni en sex til átta menn þurfti til að ýta þeim niður fjöruna og fram ís jó. Neðri endi bryggjunnar var hærri til að bryggjugólfið væri lárétt í hallanum í fjörunni. Ef löndun tók langan tíma þurfti oft að færa bryggjurnar til eftir sjávarföllum þar sem þær flutu ekki heldur hvíldu á botninum.”

Hleinar

Upplýsingaskilti á Hleinum.

Hvaleyrarlón

Á upplýsingaskilti við Hvaleyrarlón má lesa eftirfarandi:

Hvaleyrarlón

Friðlýsingarsvæðið við Hvaleyri og Hvaleyrarlón.

“Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur árið 2009. Markmið friðlýsingarinnar var að vernda lífríki leirunnar í lóninu og fjörunnar fyrir Hvaleyrarhöfðann. Leirur hafa átt í vök að verjast á Suðvesturlandi en þær eru afar mikilvæg fæðulind fugla, ekki síst á fartímum og vetrum. Vaðfuglar af ýmsum tegundum koma í stórum hópum á Hvaleyrarlón. Leiru eru auðugar af sjávarhryggleysingjum, t.d. liðormum, lindýrum og krabbadýrum, sem eru undirstaða fuglalífsins.
Einnig var friðlýsingunni ætlað að tryggja fólki áhugavert útivistarsvæði til að fræðast um lífríkið og til fuglaskoðunar. Aðgengi að fólkvanginum er gott og fyrir grunnskóla og leikskóla í nágrenninu er svæðið tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi veriðe ftirsótt til útivistar og talið ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið um kring. Stundum hefur mátt sjá þar sjaldséða fugla eins og gráhegra.
Í auglýsingu um stofnun fólksvangs Hvaleyrarlóns og Hvaleyrarhöfða kemur m.a. fram að almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er lausaganga hunda óheimil.
Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. sjóþotna (jet-ski), er óheimild í friðlandinu. Þó er eigendum bátaskýla við Hvaleyrarlón heimilt að sigla að skýlunum, en þeim ber að tryggja að ekki hljótist af mengun vegna spilliefna.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Í Hauksbók Landnámu þar sem segir frá heimferð Hrafna-Flóka og samferðamanna hans frá íslandi er stuttur texti um Hafnarfjörð og Hvaleyrarlónið. Eftir að þeir höfðu dvalið hér á landi í eitt ár lögðu þeir af stað heim til Noregs en þegar komið var út fyrir Reykajnes lentu þeir í óveðri. “Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Talið er að Herjólfshöfn sé Hvaleyrarlónið en þar var höfnin sem Hafnarfjörður dregur nafn sitt af. Þá var lónið mun stærra og myndaði öruggt skjól fyrir skip sem þar lágu.

Hvaleyrarlón

Upplýsingaskilti við Hvaleyrarlón.

Upp úr 1400 var Hafnarfjörður orðinn ein helsta höfn landsins enda frá náttúrnnar hendi mjög góð. Þá gekk mikill grandi eins og hafnargarður norðaustur úr Hvaleyrinni, Hvaleyrargrandi, sem endaði í Háagranda eða Grandhöfða nokkuð frá landi. Á þeim granda reis fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum. Fornubúðir, og réðu þar ríkjum m.a.a Hansakaupmenn sem létu reisa þar fyrstu lútnersku kirkjuna hér á landi. Plágan síðari, mjög mannskæð farsótt sem gekk á íslandi á árunum 1494-95, barst til landsins með ensku kaupskipi sem lá á Hvaleyrarlóni. Í heimildum er því lýst að plágan hafi komið úr bláu klæði “og þegar hún kom upp fyrst úr klæðinu, hafi hún verið sem fugl að sjá, og úr því sem reykur upp í loftið”. Almennt er talið að þetta hafi verið lungnapest, sú sama og svartidauði, sem gengið hafi um landið í upphafi aldarinnar.

Árið 1677 var kaupstaðurinn fluttur af grandanum yfir á jörðina Akurgerði, einkum vegna þess að sökum sjávargangs var farið að bera töluvert á landbroti þar. Í lýsingu frá lokum 18. aldar kemur fram að Hafnarfjörður hafi verið aðalhöfn landsins og “sú lanbezta allt árið um kring og meira að segja mörg að vetrarlagi án verulegs tilkostnaðar”.”

Fornubúðir

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón, Hvaleyrargrandi og Háigrandi (Fornubúðir) árið 1902.

Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir í ritið Sögu árið 1961. Þar segir hann m.a.:
“Fornubúðir hét hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903. Háigrandi og Fornubúðir voru á móts við Flensborg. Hvaleyrargrandi (og þar með fyrrgreind örnefni) er að mestu kominn undir uppfyllingu.

Í þann tíma, sem verzlunarstaðurinn var á Hvaleyrargranda, hefur Háigrandi verið eins konar höfði eða hólmi.
Á þessum hólma eða höfða, Háagranda, hefur auðveldlega mátt koma fyrir húsum, tóttum sem tjaldað var yfir.
Vel mátti fleyta allstórum skipum og leggja þeim við háan, þverhníptan bakkann og binda þau. Ferming og afferming var því óvenju hagstæð. Af landi varð Háigrandi ekki sóttur nema frá einni hlið og þar auðvelt að verjast óvinum.” – Saga 01.01.1961, Gísli Sigurðsson – Fonubúðir, bls. 291-298.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.