Árbæjarsafn

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um tiltekna „steinhellu“ við kirkjuna í Árbæjarsafni:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhella.

„Við kirkjuna í Árbæjarsafni er leturhella. Hún fannst á Túngötu 4 og var þar yfir þró. Gæti mögulega hafa verið við landnámsbæinn fyrrum. Síðan var hún flutt í Árbæjarsafn og hefur legið þar óbætt hjá garði.
Getið þið frætt mig meira um helluna þá arna, t.d. hvað stendur á henni og hvaðan hún er upprunnin?“

Fyrirspurn var send Árbæjarsafninu.  Anna Lísa Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur svaraði bæði fljótt og vel:
„Þetta er ekki leturhella svo ég viti. Hún fannst upphaflega við Tjarngötu 4. Í Sapur.is er m.a. getið um steinhelluna“; „Steinhella við kirkjugarðsvegginn, sunnan við kirkjuna á Árbæjarsafni. Þegar grafinn var grunnur fyrir húsinu Tjarnagötu 4, Steindórsprent árið 1944, var við uppgröftinn komið niður á fornleifar, þar á meðal þessa stóru hellu. Hellan lá yfir þró eða ræsi, hellan var fjarlægð og flutt að húsi Steindórs, Suðurgötu 8 B. Síðan árið 1966 á Árbæjarsafn. Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, rannsakað helluna, og taldi að líkindum væri um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Bjarni F. Einarsson telur helluna ekki vera gangahellu.“

Steinhellan
Í Tímanum 1963 er fyrirsögn yfir frétt um „Helluna, sem kom af tilviljun í leitirnar eftir 19 ár„:
„Nýlega komst upp um tilvist fornaldarhellu, sem legið hefur að húsabaki að Suðurgötu 86 í ein nítján ár. Bílstjóri nokkur, sem keyrt hafði helluna að Suðurgötunni fyrir nítján árum, minntist á hana nýlegia af tilviljun við Helga Hjörvar, og varð það til þess að farið var að rannska, hvernig á henni stæði.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar sem sýnir Reykjavík um aldamótin 1800. Örin bendir á torfbæi sem voru þar sem nú er Tjarnargata 4-6. Þarna stóðu á þessum tíma bæirnir Brúnsbær, Teitsbær auk þess stóð Zuggersbær á sömu slóðum, rétt austan við Brúnsbæ. Óljóst er hvenær fyrst var búið á þeim stað sem Brúnsbær stóð en getið er um bæinn sem hluta af Reykjavíkurbæjunum 1759, en bærinn var rifinn 1834. Teitsbær var reistur árið 1797 og stóð til 1850. Zuggerbær var upphaflega smiðja Innréttinganna, en var síðar búið í. Var þar sem nú er Kirkjustræti 4. Um 1845 stóð til að byggja upp bæinn en yfirvöld bönnuðu það, vildu ekki torfbæi í hjarta bæjarins. Eftir það var bygging torfbæja í miðbænum bönnuð en torfbæir risu áfram umhverfis bæinn. Timburhús reis á sama stað og Zuggerbær var árið 1847 og stóð til 1897 þegar nýtt hús var byggt þar í stað.

Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, sem rannsakað hefur helluna, sagði blaðinu í dag, að hér væri að líkindum um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Þá fengu náttúrufræðingar að fylgjast með greftrinum og kanna þær fornminjar, sem upp komu. Matthías Þórðarson, sem þá var þjóðminjavörður, skrifaði um þann fund, og taldi hann sterkar líkur á, að þetta væru leifar frá því í fornöld. Ýmsir hafa jafnvel haldið því fram, að þarna væri um bæ Ingólfs Arnarsonar að ræða Nú fyrir nokkrum dögum vildi svo til, að Ólafur Einarsson, bílstjóri, sagði Helga Hjörvar frá því, að hann hefði keyrt stóra hellu úr grunninum að húsi Steindórs við Suðurgötu þetta sama ár.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós, að hellan hafði fundizt innan um aðrar fornar byggingarleifar mjög djúpt sunnarlega í grunninum, skammt frá eldstó, sem þar var. Ólafur hafði ekið henni heim á Lóð Steindórs fyrir hann og kom ið henni fyrir á bak við hús, þar sem húh hefur legið síðan, án þess að vitað væri um hana Hellan er mjög stór, 1,77 m á lengd og talsvert breið, vel flöt, með grastó á röndinni. Sagðist Þorkell búast við, að hellan mundi hafna í Þjóðminjasafninu, og hún yrði rannsökuð nánar. en ekki bjóst hann við, að rannsóknin mundi leiða frekara í ljós en þegar hefur komið fram.“

Í Morgunblaðiðinu  11. febr. 1964 er grein með fyrirsögninni „Hlóðahella eða gangnahella“ eftir Helgi Hjörvar:

Er fundin dyrahellan úr fyrsta vetrarskála Ingólfs í Reykjavík?

Tjarnargata 4
„Helgi Hjörvar flutti erindi í útvarpið s.l. sunnudag um það sem hann kallar „Hlóðahella Hallveigar“, í erindinu faerði hann eftirtektarverð rök að þvi, að þessi stóra hella, sem menn héldu að væri týnd, en kom í leitirnar s.l. sumar, mundi vera gangahella, innan þröskulds, úr ævafornum skála, sem allt bendi til að hafi verið fyrsti vetrarskáli Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík.

Tjarnargata

Hluti af korti Lottins frá 1836, því sama og á myndinni fyrir ofan. Þarna má sjá Teitsbæ og Suðurbæ. Athygli vekur að önnur hús á myndinni eru númeruð, ekki hefur þótt þörf á að skrá torfbæina þar sem alþýðan bjó.

Það er kunnugt af fyrri skrifum Helga um þetta mál, að afstaða hellunnar og dýpt hennar í jörðu er áður kunn, því að rétt við helluna fundust fornar hlóðir eða „seyðir“, en mælingamaður ákvarðaði legu hlóðanna; botn þeirra 2,30 metra undir Tjarnargötu á þéttri og hreinni sjávarmöl. Stóra hellan mun hafa verið svo sem þverhönd hærra.
Helgi Hjörvar hefur kannað vandlega þær heimildir, sem um þetta er að hafa, þar með einkum merkilegan vitnisburð verkstjórans við kjallaragröftinn fyrir Steindórsprenti, Jóns Jónssonar á Meistaravöllum.
Helgi hafði skrifað um það í Morgunblaðinu 1961 með mikilli hneykslan, að slíkum fornmenjum sem hellan er og einkum hlóðin hefði verið tortímt í óðagoti. Nú bar svo til í júní s.l. vor, að Ólafur Einarsson, gamalkunnur Reykvíkingur og bílstjóri, veik sér að Helga á Hverfisgötunni og sagði við hann, að það hefði dregizt fyrir sér að tala við hann um „helluna hans Ingólfs“. „Hún var ekki brotin“, sagði hann, „og það var ég sem ók henni burt er grunnurinn var grafinn fyrir Steindór. Ég ók henni fyrir Steindór upp úr grunninum og upp á lóðina bak við húsið hans í Suðurgötu 8A. Ég held að hún sé þar enn.“
Og svo reyndist.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar af Suðurgötu árið 1839, málað 60 árum síðar. Sjá má torfbæina Teitsbæ og Suðurbæ. Óvíst er hvenær Suðurbær, eða Suðurbæir, voru reistir en getið er um bæinn í manntali árið 1845 og þá tvíbýlt. Þóttu örgustu óþrifabæli og voru rifnir 1868. Ólafur Jónsson sem fyrstur var settur í gapastokk í Reykjavík 1804 bjó þar, einnig Guðmundur bæjarböðull og fleira skrautlegt fólk.

„Stóra hellan var þar og er þar enn, óbrotin,“ sagði Helgi er blaðið ræddi við hann í gær.
„Það hefur verið mikið tekið eftir erindi minu í gær, það leynir sér ekki. En ég var búinn að skrifa um þetta og segja meira en að hálfu leyti frá þessu í útvarpi, en það er eins og enginn hafi lesið þetta eða heyrt það, allra sízt viljað skilja það fyrr en nú. Vera má, að einhverjir vakni nú, sem vildu mega sofa.
Kjarni þessa máls er nú svo einfaldur sem verða má. Alþingi er enn háð í túni Þorsteins Ingólfssonar, sem stofnaði þetta þing og grundvallaði þjóðfélag á Íslandi fyrir meira en 1030 árum; þinghúsið sjálft stendur rúma húslengd frá bæjartóftum Ingólfs og Þorsteins. En nú hefur verið sagt harla berum orðum á Alþingi sjálfu, að tveir þingmenn (fleiri gáfu sig ekki fram) muni mælast til þess við elskulega þingbræður sína, að þeir vildu nú hagræða þessu fornfálega Alþingi upp á kviktré og lyfta hræi þess út í forarmýri, burt af þessu gróna og gamla túni. Efni málsins er það eitt, hversu margir af útvöldum fulltrúum íslenzkrar þjóðar vilji nú lostugir lána eiðsvarnar hendur sínar undir svo skörnuga og blóðuga börukjálka.“

Í Þjóðviljanum 2. júlí 1966 er grein um „Hlóðastein og hestastein úr Lækjargötu„:

Tjarnargata 4
„Árbæjarsafnið hefur nú verið opnað almenningi og veitingar hafnar í Dillonshúsi og er þetta tíunda sumarið sem safnið er opið. Safnið var opnað 21. júní og nú um helgina verður fyrsta glímusýningin en ætlunin er að sýna um helgar glímu og þjóðdansa á palli utanhúss þegar veður leyfir, eins og verið hefur undanfarin sumur.“

Í Vikunni 1944, segir um „Fundnar fornleifar í Reykjavík“ í frásögn Matthíasar Þórðasonar:

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

„Það varð sögulegra en flesta Reykvíkinga mun hafa grunað, þegar Steindór Gunnarsson prentsmiðjueigandi lét fara að grafa í grunninn undir og hjá gamla husinu Tjarnargötu nr. 4 í Reykjavík fyrir nýju stórhýsi, sem hann ætlar að fara að reisa þar fyrir prentsmiju sína. Staðurinn var að sönnu merkisstaður, og húsið, sem nú var rifið, var orðið um 110 ára gamalt. Þar hafði Stefán Gunnlögsson búið 1834—37, þegar hann var sýslumaður, þar dó Einar snikkari Helgason fyrir réttum 100 árum, og hafði þá átt húsið og búið í því í 3 ár; þar ólzt Helgi, sonur hans, upp, sem varð hér síðar barnaskólastjóri og þjóðkunnur maður, og bjó móðir hans, madama Margrét, í húsinu til dauðadags, 1856. Þá var það kallað Helgesenshús.

Tjarnargata

Kort Lottins frá 1836 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Teitsbæ og Suðurbær stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 6 og 8 sem er í dag bílastæði. Þarna er nýlega búið að rífa torfbæinn Brúnsbæ og byggja timburhús á sama stað sem stóð næstu 110 árin. Húsið er merkt sýslumannshús en Stefán Gunnlaugsson sýslumaður bjó þar frá 1834—1837.

Er þetta eftir frásögn Jóns byskups Helgasonar í riti hans um Reykjavík 14 vetra. Enn síðar bjuggu í þessu húsi ýmsir aðrir merkir menn og konur, skamman tíma hver. Þótti húsið lengi snotur bústaður, enda var þá vel um það gengið jafnan. Hér eru nú ekki við höndina húsvitjanabækur prestanna, nema frá tímabilinu 1868—89, um 20 ár. Á árunum 1869—76 bjó þar frú Anna Tærgesen, ekkja P. R. Tærgesens kaupmanns, með börnum þeirra, og 1877—78 frk. Christiane Thomsen, er lengi hafði verið hjá þeim. Árin 1879—80 bjó þar Edv. Siemsen, fyrrv. kaupmaður, og næsta ár ekkja hans, frú Sigríður Siemsen, cn 1882 tengdasonur hennar, Sveinn kaupmaður Guðmundsson frá Búðum, með fjölskyldu sinni. Árið 1884 bió frú Ragnheiður Christjánsson, – ekkja Kristjáns amtmanns, í þessu húsi, og 1886 séra Stcfán Thorarensen, en 1887 —88 frú Kristíana Jónassen, ekkja Jónasar E. Jónassens verzlunarstióra. Og árið 1889 bjó þar ekkjan Solveig Guðlaugsdóttir, og voru hjá henni móðir hennar, háöldruð, og fósturdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, þá 13 ára.
En staðurinn átti sér langa sögu áður en þetta litla timburhús var reist, því að á þessum sama stað hafði þegar skömmu eftir miðja 18. öld verið reist eitt af húsum iðnaðarstofnananna, sem Skúli landfógeti Magnússon gekkst fyrir, að komið yrði á fót hér, og jörðin Reykjavík hafði verið gefin í ársbyrjun 1752. Það hús var reist handa beyki stofnananna, var hlaðið úr torfi, og grjóti, svo sem flest hús þeirra, dálítill torfbær, og var þar bústaður og vinnustofa beykisins. Þegar hús stofnananna voru seld, keypti dönsk kona, madama Christine Bruun, ekkja Sigvardts Bruuns fangavarðar, bæinn, árið 1791. Nokkru eftir aldamótin varð hann aftur aðsetursstaður beykis; bjó þar, þá sænskur beykir, er hét Peter Malmquist, og kona hans sem var hér ljósmóðir. Þegar Jörgen Jörgensen kom hingað í fyrra skiptið, í ársbyrjun 1809, sem túlkur James Savignacs verzlunarstjóra, fengu þeir inni hjá Malmquist, og átti Jörgen Jörgensen þar heima, unz hann fór utan aftur í marz sama ár. Kom Malmquist mikið við stjórnarbylting Jörgensens, er hann stóð fyrir, þegar hann kom hingað aftur um sumarið, svo sem kunnugt er af sögu hans. Malmquist fór utan 1812 og kom ekki aftur, en Brúnsbær mun hafa staðið um 20 ár eftir það, og þó varla án mikilla endurbóta, eða jafnvel endurbygginga að einhverju leyti.

— Við grunngröftinn nú kom fram mikið að hleðslusteinum, sem sennilega eru úr honum, grjóti ofan úr holtum og neðan úr fjöru, en ekki sýndu neinar veggjaleifar eða annað, að verið hefði á síðari tímum neitt hús nákvæmlega á þessum sama stað, sem Brúnsbær mun hafa staðið á, en í vesturhorninu í grunninum komu fram allmiklar grjóthleðslur 1—2 m. í jörðu.
Hleðslugrjótið, sem ætla má, að verið hafi úr Brúnsbæ, var að sönnu einnig um 1—l l/2 m. í jörðu nú, en það kom í ljós við gröftinn, að þykkt lag af mold, ösku o. fl. hafði hlaðizt ofan á óhreifða jörð á öllu svæðinu, ofaná lag það af fremur smágerðri sjávarmöl, er grafið var niður á og nokkuð niður í. Mun það malarleg vera um allan miðbæinn, milli hafnarinnar og Tjarnarinnar.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – hestasteinn fremst.

Nokkrir fremur gamlir gripir fundust við uppgröftinn ofarlega í jörðu, sennilega frá síðustu öld, brot af eldtöng, fiskhnífur, sjálfskeiðungur og brot af 2 glerstaupum. Miklu neðar, um l-l/2—2 m. í jörðu, fundust eldri munir úr steini, vaðsteinn, draglóð af skellihurð, að því er virðist, kola, telgd til úr smágerðu móbergi eða sandsteini og lítil hein með gröfnu hnappmóti á öðrum enda, en ekki eydd af brýnslu.
Nokkru neðar fannst bollsteinn norðarlega í grunninum; hafði bollinn verið gerður fyrir ljósmeti, en að öðru leyti var steinninn alveg óunninn af mannahöndum. Annar bollasteinn fannst á nær sama stað, en allmiklu neðar í jörðu; hann er lábarin, þykk hella, um 30 cm. að þverm., með víðri og grunnri skál annars vegar, og munu báðir þessir bollasteinar hafa verið lýsisteinar, eins konar ljósáhöld (lampar).

Tjarnargata

Kort Ohlsen og Anaumus frá 1801 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Brúnsbær og Teitsbær sem stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 4 og 6.

Enn dýpra, alveg niður við malarlagið, og suðaustarlega í grunninum miðjum, fannst lítill, flatkúlumyndaður lýsisteinn með gróp kringum bollann og járnblað af páli eða grefi með fornri gerð, sams konar og 2 önnur, sem fundizt hafa áður hér á landi, annað við rannsóknina á Bólstað, bæjarrústum Arnkels goða. Ámóta neðarlega fannst vaðsteinn, hnöttóttur og nokkuð ílangur. Nálægt suðurhorninu í grunninum var allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu, og virðist þar hafa verið hlaðinn veggur, nær því niðri við malarlagið. Þar fundust, mismunandi djúpt í jörðu, nokkrir munir úr steini, 3 vaðsteinar, brýni, fornlegur lýsisteinn, sem er mjög lítill og flatkúlumyndaður, og snældusnúður úr steini, allstór, um 9 cm. að þverm., og neðst kom í ljós eldstó, grafin ofan í malarlagið. Hefir hún sennilega verið gerð af því að þar hefir þá verið hús, sem eldstæði hefir verið í, líklega seyðir með fornri gerð. Hafa samskonar eldstór og þessi fundizt í fornum bæjarrústum hér áður, bæði í Þjórsárdal og víðar. Munu þær hafa verið, gerðar og notaðar til að fela í þeim eld, einkum að næturlagi.  Bæjarverkfræðingurinn, Bolli Thoroddsen, lét mæla, hve djúpt í jörðu þessi eldstó var, og reyndist hún, botn hennar, að vera 111 cm. neðar en t. a. m. Austurstræti milli gangstétta, en það er í sömu hæð og yfirborðsjávar í höfninni um stórstraumsflóð. Bendir þetta á, að mikið landsig hafi orðið hér síðan þessi eldstó var gerð, en hún virðist munu vera frá landnámstíð eða söguöld vorri. Enda er fleira hér á Seltjarnarnesi og umhverfis það, sem einnig bendir á allmikið landsig hér um slóðir, svo sem sýnt hefir verið fram á áður.
Norðan við stóna varð vart við gólfskán og nokkrar flatar hellur, er að líkindum hafa verið gólfhellur.
1 vesturbarminum varð fyrir mjög stór hella neðst. Er hún var tekin upp, kom í ljós undir henni allmikil þró eða gryfja, sem gerð hafði verið þar ofan í malarlagið. Varð vart við skolpræsi í mölinni að þrónni, og virtist það hafa verið út frá húsinu, sem eldstóin hefir verið í.
Í norðurhorninu var malarlagið djúpt í jörðu, um 2% m. frá yfirborði, svæðinu, sem þar var milli húsa. Hafði jarðvegur hækkað þar mest af sorpi og ösku. Um 4m. ofan við malarlagið var þar á allmiklu svæði um 1/4 m. þykkt, mjög dökkleitt, fornt sorplag. Var mikið í því af matbeinum og slíku; fundust þar kjálkar af gelti með miklum vígtönnum og yfirleitt eldra svip en er á þeirri tegund svína, sem er nú hér og í nálægum löndum. Hafa slíkar vígtennur úr göltum fundizt hér áður, m. a. undir Hánni á Heimaey í Vestmannaeyjum. Nokkur bein úr geirfugli fundust einnig í þessu sorplagi, enda hefir geirfugl vafalaust verið veiddur mjög til matar fyrr á tímum, er hann var hér að líkindum víða, en hann varð, að því er menn vita bezt og alkunnugt er, aldauður fyrir 100 árum. — Sorplag þetta er svo djúpt í jörðu, niðri við óhreifða jörð, að því er virðist; að ætla má, að það stafi frá fornöld. Hinn gamli Reykjavíkurbær stóð 30—40 m. norðar, vestan við Aðalstræti. Er ekki ólíklegt, að um nokkurn tíma hafi sorpi frá bænum verið fleygt á þessar slóðir.“

Í Þjóðviljanum 1966 segir og; Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhellan.

„Hlóðarsteinninn mikli, sem fannst 1944 í bæjarstæðinu við Tjarnargötu, kominn til safnsins.
Úr því minnzt er á hlóðarsteininn má vel vekja athygli á öðrum merkilegum steinum, sem safnið hefur eignazt: hestasteininum frá smiðju Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu, landamerkjasteininum úr Skildinganeshólum áklappaður 1839, mylnusteinn úr myllunni í Bakarabrekku og apótekarasteinn frá 1747 úr Örfirisey.“

Ein spurningin er, þrátt fyrir allt framangreint; hefur verið hugað að mögulegu letri á hellunni þeirri arna?“
Önnur spurningin er, hvers vegna er slíkur forngripur í Árbæjarsafni látinn liggja jarðlægur, án nokkurra vísbendinga gestkomendum til handa?

Heimildir:
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1755833
-Tíminn 19.07.1963 – Tjarnargata 4, bls. 15.
-Morgunblaðið 11. febr. 1964, Hlóðahella eða gangnahella, Helgi Hjörvar, bls. 9.
-Þjóðviljinn 2. júlí 1966, Hlóðasteinn og hestasteinn úr Lækjargötu, bls. 7.
-Þjóðviljinn, 144. tbl. 02.07.1966, Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ, bls. 6.
-Vikan nr. 23-24, 1944, Fundnar fornleifar í Reykjavík, Matthías Þórðason, bls. 22 og 28.

Árbæjarsafn

Á Árbæjarsafni.

Stakkavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Grindaskarðaveg – Selvogsleiðir„:

Stakkavíkurvegur

Stakkavíkurvegur út frá Grindarskarðavegi t.v.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík.

Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð.

Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 100-102.

Grindaskarðavegur

Stakkavík í og við Hlíðarvatn.

Apótekarasteinn

Sunnan við húsið Þingholtsstræti 9 á safnlóð Árbæjarsafns er grágrýtissteinn ættaður úr Örfirisey, kallaður „Apótekarasteinn„.
ApótekarasteinnSteinninn lá við sjávarmálið og var á góðri leið með að eyðileggjast þegar hann var fluttur á safnið árið 1963. Steinninn dregur nafn sitt af apótekarakeri sem er dregið utan um ártal, en vafalaust tengist hann verslunarstaðnum í Örfirisey á 18. öld. Þekkt var að danskir verslunarstjórar hjuggu nöfn í steinana á eyjunni.
Lýsing: Steinninn er 1,6 x 1,5 m að stærð og á hann er rist einföld mynd af keri, 60 x 63 cm og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Letrið er orðið mjög óljóst.
Sem fyrr segir eru fjölmörg fangamörk og ártöl klöppuð í klappirnar í Örfirisey, á bak við olíugeymana, sem þar eru.

Apótekarsteinn

Apótekarasteinninn í Árbæjarsafni.

Þórkötlustaðarétt

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2017 fjallar Ómar Smári m.a. um „Réttir í Grindavík„:

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923). Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu, að mati staðfæddra).

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (árið 2007) og er þá allt meðtalið.

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Frægt er útvarpsviðtalið við nefndan Dagbjart; „stórbóndann í Grindavík“:
Spyrjandi: „Hvað áttu margt fjár, Dagbjartur?“
Dagbjartur: „Ég á einar fimm..“.
Spyrjandi greip fram í: „Fimmhundruð. Það þykir nú allnokkuð“.
Dagbjartur sagði ekki orð. Hið rétta var að Dagbjartur átti þá einungis fimm ær þá stundina.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.
Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðarétt

Dagbjartur Einarsson í Þórkötlustaðarrétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en yngsta gosið ofan við Grindavík rann árið 1226. Það náði þó ekki niður að Þórkötlustöðum. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.“ – Ómar Smári.

Viðbót;
Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

„Sigurður Guðjón Gíslason fæddist á Hrauni 5. maí 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 30. júní 2010.

Foreldrar voru Gísli Hafliðason útvegsbóndi, f. á Hrauni 11. maí 1891, d. 21. mars 1956 og Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. á Einlandi 15. nóvember 1891, d. 9. maí 1967. Bróðir Sigurðar var Þorvaldur, f. 3. febrúar 1919, d. 11. maí 1984.

Sigurður kvæntist 18. október 1960 Hrefnu Ragnarsdóttur, f. í Reykjavík 10. maí 1931, dóttur hjónanna Jóns Ragnars Jónassonar, skipasmiðs og Jóhönnu Eiríksdóttur, húsfreyju. Þau eru bæði látin.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Sigurður og Hrefna eignuðust þrjú börn. Þau eru: Gísli Grétar, f. 13. desember 1955, sonur hans er Sigurður Guðjón, f. 21. apríl 1982. Unnusta Gísla er Margrét Hinriksdóttir. Hörður, f. 5. febrúar 1967, kvæntur Valgerði Valmundsdóttir, börn þeirra eru Hrefna, f. 14. ágúst 1990 og Hafliði, f. 28. september 2000. Margrét, f. 16. október 1968, synir hennar eru Axel Örn, f. 15. febrúar 1993 og Vignir Þór, f. 1. júní 1996. Fóstursonur var Ragnar Jóhann Alfreðsson, f. 16. nóvember 1953, d. 11. júní 1987, sonur hans er Þorvaldur, f. 17. maí 1981. Barnabarnabörn eru tvö.

Sigurður starfaði lengst af sem sjómaður, útgerðarmaður og bóndi í Grindavík.“

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni; unnið í samráði við Sigurð Gíslason…

Er minnugur orða Sigurðar stuttu fyrir andlátið; „Ómar, ef þú hefðir ekki skráð örnefnin og sögulegar minjarnar á Hrauni hefði ég tekið það nánast allt með mér í gröfina“…

FERLIRsfélagar þakka Sigurði samfylgdina – og virða minningu hans.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017, Réttir í Grindavík, Ómar Smári Ármannsson, bls. 67-69.
-Morgunblaðið 9. júlí 2010, minningargrein, Sigurður Guðjón Gíslason.

Þórkötlustaðarétt

Í Þórkötlustaðarétt.

Bakkárholt

Í Andvara árið 1936 er birt „Lýsing Ölveshrepps 1703“ eftir Hálfdán Jónsson undir heitinu „Descriptio Ölveshrepps anno 1703„:
„Aultvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Álfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppaþing haldast.“

Ölfus

Ölfus.

Í „Fornleifaskráningu vegna skipulags í Ölfusi“ frá 2009, er getið um Bakkárkot. Einnig er getið um minjar tengdar þingstaðnum, s.s Gálgaklett, Þinglaut og Hestarétt:
„Bakkárholt eða Bakkarholt eins og það var stundum ritað, var eitt af höfuðbólunum í Ölfusi. Jörðin er landstór og árið 1840 var þar sagður reisulegur bær.

Bakkárholt

Bakkárholt.

Bakkárholt var lengi þingstaður þriggja hreppa; Ölfuss-, Selvogs- og Grímsneshrepps. Segja Sunnlenskar byggðir að þing hafi þar verið haldið til ársins 1885, en samkvæmt örnefnaskrá var þingstaður þar til ársins 1881 en þá var skólahús byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaðurinn fluttur þangað. Þing er ekki nefnt á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem jörðinni er lýst árið 1708. Jörðin var við alfaraveg sem lá frá Kotferju ferjustað, en farið var framhjá Kirkjuferju, Bakkarholti, Gljúfraholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá. En eins og segir í Örnefnaskrá: ,,Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og ,,brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.“ Á jörðinni eru nokkrar minjar sem minna á þingið.

Bakkárholt

Bakkárholt – hestarétt.

Um nafn jarðarinnar segir í örnefnaskrá: ,,Nafnið er mjög eðlilegt ,,náttúrunafn“. Áin fellur þar á milli gróinna bakka og hefur að líkindum heitið Bakká. Holtið, sem bærinn stendur á, er við hana kennt, en áin síðar kennd við holtið, Bakkárholtsá.
Hestarétt: Sér enn fyrir hleðslum milli Norðurtúns og Aukatúns. Þar hafa þinggestir og þingmenn geymt geymt hestana sína eða rekið inn til að beizla þá.
Gálgaklettar: Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, er hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni. [Síðasta aftakan í Bakkárholti fór fram uppúr 1700].
Þinglaut: Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengri austur-vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. ,,Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar.“

Bakkárholt

Bakkárholt – Gálgaklettar.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi; Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um þingstaðinn í Bakkárholti:
Þinglaut – tóft – þingstaður; 63°57.741N 21°08.403V. Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ 001 og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.

Bakkárholt

Bakkárholt – Þinglaut (Þingstaður).

Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.“

Bakkárholt
Í örnefnalýsingu Ögmundar Jóhannsonar fyrir Bakkárholt segir m.a.:
„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppa þing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H. J. 1703). Þar má enn sjá Þinglaut, Hestarétt og Gálgaklett. Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.
Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.“

Bakkárholt

Bakkárholt – rétt.

Í framangreindri „Lýsingu Ölveshrepps frá 1703“ segir auk þess um Ölfus:
„Annar hreppsins endi er áfastur við Selvog og sundurgreinist á austanverðri Selvogsheiði og allt á sjávarbergið, þar Þrívörður heita, er að skiljast Þorlákshafnar og Ness í Selvogi lönd.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorlákvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórián vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítill fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Vestan Varmár liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis.

Búasteinn

Búasteinn.

Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sittnafn öðlazi af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesinnbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita.

Draugatjörn

Sæluhúsið undir Húsmúla.

Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita.

Engidalur

Engidalur – kort.

Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega.

Hengill

Í Hengli.

Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í einn saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vatnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – AMC-kort.

Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.“

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703, Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.
-https://timarit.is/page/4319796?iabr=on#page/n59/mode/2up/search/hengill
-Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi, Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Edda Linn Rise, október 2009.
https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1682.pdf
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-https://www.researchgate.net/profile/Ragnheidur-Gylfadottir/publication/329254548_Adalskraning_fornleifa_i_Olfusi_II/links/5bff1576a6fdcc1b8d49f55e/Adalskraning-fornleifa-i-Oelfusi-II.pdf

Hengill

Í Hengli.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni „Úttekt á Stað„:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún„. Sjá „Lífið hefur dauðann deytt„.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum“, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki „löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.

Staður

Staður fyrrum.

Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.

Staður

Staður 1925.

Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson“.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, „rautt og hvítt“, h.m.

Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið „með hvannvíta veggi“ – byggt um 1930.

Ingjaldur

Í Lesbók Morgunblaðsins 1927 fjallar Árni Óla um Nilson skipstjóra á Anlaby – „Úr sögu landhelgisvarnanna„:

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

„Það var rjett fyrir aldamótin, að yfirgangur erlenrka botnvörpuskipa byrjaði hjer við land fyrir alvöru. Landhelgisgæsluna hafði þá danska skipið „Heimdallur“ og gekk hann vel fram þann tíma ársins, sem hann var hjer við land. En á haustin og fyrri hluta vetrar var landið varnarlaust, að kalla mátti, fyrir ásælni og yfirgangi útlendinga. Óðu þeir þá uppi hjer eins og stigamenn og voru ósvífnari en dæmi eru til nú á dögum.
Árið 1899 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Þá var það um haustið, dagana 4.- 9. október, að enskt botnvörpuskip var stöðugt að veiðum inni á Dýrafirði og var oft að toga alveg uppi í landsteinum. Dýrfirðingum þótti þetta illur vágestur. Tóku þeir því saman ráð sín og gerðu sendimann, Guðjón Friðriksson að nafni, á fund sýslumanns til þess að kæra skip þetta.
Kom Guðjón til Ísafjarðar hinn 9. október og bar mál þetta upp fyrir sýslumanni. Brá hann þegar við og fór um nóttina með sendimanni yfir til Dýrafjarðar, og komu þeir þar að morgni. Var þá skipið að veiðum fram undan Haukadal, og örskamt undan Landi.
Hannes Hafstein fjekk sjer nú bát og fór við 6. mann út að skipinu. Var veður kalt og hráslagalegt. Mennirnir, sem með honum voru hjetu: Jóhannes Guðmundsson, Bessastöðum, Guðmundur Jónsson á Bakka, Jón Þórðarson, Jón Gunnarsson og Guðjón Friðriksson, sá er áður er nefndur.
Á botnvörpuskipinu var einn Íslendingur, Valdemar Rögnvaldsson að nafni, búsettur í Keflavík. Var það mál manna, að hann hefði þekkt sýslumann áður en báturinu náði skipinu, enda þótt sýslumaður væri í yfirhöfn utan yfir einkennisbúningi sínum. Segir sagan, að hann hafi varað skipverja við því, að hætta væri á ferðum, því að þeir bjuggust til varnar með bareflum þá er báturinn nálgaðist.

Ingjaldur

Ingjaldur – landhelgisbátur.

Sýslumaður ávarpaði nú skipstjóra og vildi fá að komast upp á skipið, en hinn svaraði aðeins ónotum og skömmum. Reyndu bátverjar þá að ná í kaðal, sem hjekk útbyrðis, en tókst það ekki, og seig báturinn þannig aftur með skipinu, sem var á hægri ferð. Þegar báturinn kom aftur undir skut náðu bátverjar í vörpuvírinn og drógust svo með skipinu um stund. En er skipverjar sáu það, þutu þeir aftur í skut með ópum og óhljóðum og báru sig vígamannlega. Hannes Hafstein sýndi þá einkennisbúning sinn og krafist þess af skipstjóra, að hann ljeti sig ná uppgöngu á skipið. En skipverjar svöruðu með því, að skjóta þungri og stórri ár á bátverja, en til allrar hamingju hittu þeir engan þeirra, því að hverjum þeim, sem árin hæfði, hefði verið stórmeiðsl eða bani búinn. Síðan slökuðu skipverjar alt í einu á vörpuvírnum. Lenti þá vírinn á bátnum svo að hann stakst á stefnið og sökk.
Skipverjar skeyttu þessu engu, en fóru að draga inn vörpuna. — Máttu þeir þó sjá, að allir þeir, sem á bátnum höfðu verið, voru í bráðum lífsháska. Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í háfinn og hjeldu sjer þar. En hinir fjórir skoluðust nokkuð í burtu.

Dýrafjörður

Dýrafjörður – minnismerki um atburðinn á Dýrafirði 1899.

Voru þeir allir ósyndir nema sýslumaður, sem var syndur eins og selur og hið mesta karlmenni. Reyndi hann eftir föngum að bjarga þeim fjelögum Jóhannesi, Guðmundi og Jóni Þórðarsyni og draga þá að bátnum. Lá þá við sjálft að það mundi verða til þess að hann drukknaði þar, því að í fátinu, sem á hinum drukknandi mönnum var, drógu þeir sýslumann hvað eftir annað í kaf, og mun hann ekki hafa komist í aðra þrekraun meiri.
Skipverjar horfðu á þá fjelaga berjast við dauðann rjett utan við borðstokkinn, en það ljetu þeir ekki á sig fá. — En í landi sáu menn aðfarirnar og var skotið fram tveimur bátum til þess að reyna að bjarga þeim fjelögum. Þá er bátar þessir voru komnir miðja vega milli lands og skips, var svo að sjá, sem skipverjar iðruðust framferðis síns, því að þeir gerðu sig líklega til þess að skjóta út björgunarbáti. En þó hættu þeir við það aftur og fleygðu út kaðli og bjarghjring til hinna druknandi manna- Þá voru sokknir þeir 3, sem ekki náðu í bátinn. Þeim Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í bjarghringinn, en Hannes Hafstein náði í kaðalinn og brá honum utan um sig. Mátti ekki tæpara standa, því að um leið og hann hafði bundið sig þannig, leið yfir hann. Var hann örmagna af sjávarkulda og áreynslu og vissi ekki af sjer fyr en nokkru síðar. Höfðu skipverjar þá dregið hann og hina 2 upp á þilfar. Lágu þeir þar milli heims og heljar þangað til bátarnir komu frá landi. Með þeim fluttust þeir í land og voru bornir heim til Matthíasar Ólafssonar í Haukadal.
Þegar er skipið hafði losnað við menn þá, er björguðust, ljet það í haf og höfðu menn ekki meira af því í það sinn. Bjuggust margir við, að ekki yrði hægt að hafa hendur í hári sökudólganna, því að þeir höfðu málað yfir suma stafi í nafni og númeri skipsins. Gátu þeir sýslumaður eigi lesið annað en þetta: OYALI H 42.
Á þessum árum var hjer enginn ritsími nje talsími og bárust því fregnir seint og illa yfir landið. En hjer stóð svo á, að skip kom frá Vestfjörðum hingað til Reykjavíkur fáum dögum seinna og flutti fregnir af þessum atburði- — Hinn 26. október sigldi Tryggvi Gunnarsson bankastjóri hjeðan með „Laura“ til Kaupmannahafnar og hafði frjett um atburð þennan rjett áður en hann fór. „Laura“ kom til Kaupmannahafnar 8. nóv. og þann sama dag varð Tryggva gengið þar inn á veitingahús. Þar voru dagblöðin til sýnis og í þeim sá Tryggvi smáfrjett um það, að enskur botnvörpungur, „Royalist“ að nafni, hefði verið tekinn að ólöglegum veiðum hjá Jótlandsskaga og fluttur til Frederikshavn.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Sagan um viðureign Hannesar Hafstein við botnvörpunginn á Dýrafirði, var Tryggva enn í fersku minni, þar sem hann hafði heyrt fréttina rjett áður en hann steig á skipsfjöl í Reykjavík. — Kemur honum þá undir eins til hugar: Þetta skyldi þó aldrei vera sama skipið? „OYALI“ hjet það — og mun þá eigi hafi vantað R fyrir framan og ST fyrir aftan — að málað hafi verið yfir þá stafi?
Tryggvi ljet ekki við það sitja að draga þetta tvennt saman í huga sínum. Hann símaði þegar til Ólafs Halldórssonar, sem þá var á íslensku skrifstofunni í Kaupmannahöfn, og sagði honum frá grun sínum. – Ólafur var heldur eigi sá maður, að hann hleypti þessu frá sjer, hversu ótrúleg, sem honum hefir sagan virst. — Hann sneri sjer þegar til hinna dönsku stjórnarvalda. Þá var svo komið, að Nilsson skipstjóri á „Royalist“ hafði gengið inn á sátt í Frederikshavn fyrir landhelgisbrot og var í þann veginn að fara þaðan. Stóð aðeins á því, að hann hafði eigi fengið skipsskjölin afhent. Var hann nú kyrrsettur að nýju og kom þá upp úr kafinu, að þetta var sama skipið sem valdið hafði manndrápunum á Dýrafirði 10. október þá um haustið. Voru nú þrír af skipverjunum, Nilsson skipstjóri (sænskur), Holnigrén stýrimaður og Rugaard matsveinn settir í varðhald og mál höfðað gegn þeim.
Vegir forlaganna eru órannsakanlegir. Eftir hermdarverkið á Dýrafirði lætur skipið í haf og bjóst víst enginn við því, að hægt mundi að hafa hendur í hári sökudólganna. En það er alveg eins og forsjónin hafi ætlast til þess að málið kæmist upp. Nilsson fer utan, en getur eigi stilt sig um að fara í landhelgi Danmerkur. Þar er hann tekinn. Tryggvi Gunnarsson siglir um sama leyti, en frjettir áður á skotspónum um Dýrafjarðarslysið. Af tilviljun rekst hann á frjettina um landhelgisbrotið hjá Jótlandi, og dettur það þegar í hug — sem fæstum mundi þó hafa hugkvæmst — að hjer sje sama skipið og var á Dýrafirði. Ef honum hefði eigi dottið það í hug og ef þeir Ólafur Halldórsson hefði eigi báðir brugðið eins fljótt við og þeir gerðu, mundi Nilsson hafa sloppið frá Frederikshavn. Er það undarleg atvikakeðja, sem verður þess valdandi, að sökudólgunum er náð.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Skal nú fljótt yfir sögu farið í bili. Hinn 27. mars 1900 voru þeir fjelagar þrír dæmdir í undirrjetti, Nilsson í 18 mánaða betrunarhússvinnu, 3000 kr. sekt til landsjóðs Íslands og 200 kr. sekt til ríkissjóðs Dana fyrir landhelgisbrot hjá Jótlandi um haustið. Stýrimaður var dæmdur í 3×5 daga upp á vatn og brauð, og matsveinn í 4×5 daga upp á vatn og brauð.
Svo fór málið til hæstarjettar í Danmörku. Var Nilsson þá dæmdur í tveggja ára betrunarhússvinnu; 3000 kr. skyldi hann greiða landsjóði Íslands, og ríkissjóði Dana 200 kr. Auk þess skyldi hann greiða Hannesi Hafstein 750 kr. í skaðabætur og ekkjum 2 þeirra manna, er druknuðu, annari 3600 krónur, en hinni 1100 kr. Dómur hinna var staðfestur í hæstarjetti, en Nilsson var dæmdur til þess að flytjast af landi brott eftir úttöku hegningar, vegna þess að hann var útlendingur; Svíi.
Vitum vjer nú eigi hvernig fór með hegningu Nilssons, en hitt er víst, að hann er kominn til Englands öndverðan vetur 1901 og fær þar nýtt skip til forráða. — Hjet það „Anlaby“. Sigldi hann því skipi þegar til veiða hjá Íslandsströndum.
Um miðjan jan. 1902 sáust tveir botnvörpungar undan Grindavík og voru þar að veiðum, sjálfsagt í landhelgi. Um kvöldið gerði afspyrnurok á landsunnan og dimmviðri. Æsti þá mjög sjó þar syðra, eins og vant er, þótt í hægara veðri sje. Hættu skipin þá veiðum samtímis og hjeldu til hafs.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Af afdrifum þeirra er það að segja, að eftir nokkra daga kom annað skipið til Keflavíkur og hafði þá sögu að segja, að skömmu eftir að skipin ljetu út frá Grindavík, hefði þau orðið viðskila, og hefði þeir seinast sjeð það til hins skipsins, „Anlaby“ að það stefndi frá landi og stóð einn maður í stýrishúsi. Síðan hefir það skip ekki sjest.
Daginn eftir að skipin þessi tvö ljetu í haf frá Grindavík, fór maður þaðan niður til sjávar til þess að gá að kindum. Var þá komið fram undir hádegi og komið gott veður. En er hann kom niður fyrir sjávarkambinn milli Húsatófta og Járngerðarstaða, rekst hann þar á sjórekinn mann í fjörunni. Virtist honum sem líf mundi leynast með manni þessum og að hann mundi nýkominn á land. — Var hann með belg á baki, kominn upp úr fjörumáli og lá þar hjá honum annað stígvjelið í fjörunni, og varð eigi annað sjeð, en maðurinn hefði sjálfur dregið það af sjer.

Jónsbásar

Jónsbásar – Brunnar fjær.

Maður sá, er líkið fann gerði þegar aðvart. Hreppstjórinn, Einar Jónsson á Húsatóftum skarst í leikinn. Var hinn sjórekni maður þegar fluttur til kirkju. Þangað kom maddama Helga Ketilsdóttir, systir Ólafs bónda á Kalmanstjörn, og gerði á honum tvær lífgunartilraunir. — En þær reyndust báðar árangurslausar og veitti þá maddama Helga líkinu nábjargirnar.
Þegar eftir að fyrsta líkið fannst var gangskör ger að því að leita í fjörunum og komast eftir því hvar skipið mundi vera og hvort enginn hefði komist af því lífs á land. Sú leit reyndist svo, að af skipinu fannst rekið borðstokkur, stefni og „hekk“. Nokkuru síðar fannst eitthvað rekið af kolum, en aldrei fannst neitt af innanstokksmunum skipsins nje áhöldum.
En úti í lóni, sem er rjett fram af svonefndum Brunnum fundust lík 10 manna. Voru þau slædd þar upp. Sex líkin voru allsnakin að öðru leyti en því, að eitt þeirra var með mittisól.
Talið er, að skipið muni hafa farist aðfaranótt 14. jan. sjá það, að þessir menn höfðu druknað í svefni, eða skipið farist meðan þeir lágu í hvílum sínum. En lík skipstjórans fannst ekki og hefir ekki fundist. Þá gekk sú saga, að lík hans hefði rekið og verið höfuðlaust- Var það af ýmsum tekið sem tákn þess, að forsjónin hefði viljað refsa honum fyrir framferðið á Dýrafirði. Menn eru gjarnir á að trúa slíku og því fjekk þessi saga svo byr undir vængi að hún barst um land alt. En það vitum vjer sannast um þetta að segja, að ástæðan til þess, að þessi saga kom upp, mun vera sú, að ellefta líkið sem náðist, var mjög skaddað á höfði, svo mjög, að vart mundi þekkjanlegt þeim, er manninn þekktu í lifanda lífi. En eigi var það skipstjóri.

Staður

Staður fyrrum.

Að undirlagi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu rannsakaði hreppstjóri nákvæmlega, hvort eigi væri nein merki á líkunum, ef vinir eða vandamenn gæti merkt af hver maðurirm væri.
Sýslumaður mun einnig hafa lagt svo fyrir, að sæist engin merki (tatoveringar) á einhverju líki, þá skyldi aðgæta hvort eigi mætti ráða það af öðru hver maðurinn væri, t.d. hvort ekkert væri í vasa líksins er benti á það, eða þó ekki væri annað en hringur á hönd með stöfum.
Nú vildi svo til, að af þessum ellefu líkum voru 10 með merki á handlegg eða hönd, en ellefta líkið ekki. En á hönd þess var einbugur. Vegna þess að höndin var sollin, varð honum ekki náð ,af, nema því aðeins að hann væri sagaður sundur. Var til þess fenginn maður frá Stað, Sigurður Hjeronýmusson að nafni. Fundust þá innan í hringnum stafir. Skrifaði hreppstjóri þá hjá sjer, en ætlaði jafnframt að senda hringinn til skipafjelagsins er skipið átti, svo að hann kæmist til ástvina mannsins.
Nú voru smíðaðar kistur að öllum þessum líkum og þau kistulögð. Þá var það annaðhvort nóttina á eftir, eða næstu nótt, að mann, sem býr í Bergskoti, og Bjarni Ólafsson hjet, dreymir það, að maður kemur á gluggann hjá honum. Bjarni þekkir eigi þennan mann og hefir aldrei sjeð hann fyr. Þessi maður talar til Bjarna og biður hann að sjá svo um, að hann fái aftur það, sem tekið hafi verið af sjer.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Um morguninn segir Bjarni þennan draum sinn, og þótti hann undarlegur. Var þá gestkomandi hjá honum Sigurður Hjeronýmusson, sá, er fyrr getur. Þegar hann heyrði drauminn, brá honum í brún og hugsaði með sjer eitthvað á þessa leið: „Það skyldi þó aldrei hafa verið maðurinn, sem jeg sagaði hringinn af, og nú hefir vitjað Bjarna í draumi, og er að kalla eftir hringnum?“ Þetta var þó þeim mun ólíklegra sem Bjarni hafði eigi hugmynd um hringinn. Samt sem áður fer Sigurður heim til hreppstjórans; en hvað þeim fór á milli, eða hvort sýslumanns naut líka að, vitum vjer ekki. En hitt er víst, að afráðið var það, að senda hringinn eigi af landi brott, heldur skyldi hann leggjast í kistuna hjá því líki, sem hann var af tekinn. En nú stóðu þar 11 kistur, og allar eins. Var því vandi að finna manninn, sem hringinn átti. Þá voru fengnir til þess trúverðugir menn að brjóta upp kisturnar og skila hringnum. Ekki hittu þeir á rjettu kistuna fyrst, sem ekki var von, en í þriðju kistunni lá sá rjetti. Var nú hringurinn lagður í kistuna hjá honum, kistunum öllum lokað, og síðan hefir eigi orðið vart við þennan mann.
Mennirnir þessir eru grafnir í Grindavík, allir í sömu gröf. Sú gröf sjest enn þá í Grindavík — framandi og nafnlausra sjómannagröf — en enn veit hvert mannsbarn þar syðra hvar hennar er að leita.

Staðarhverfi

Horft yfir kirkjugarðinn í Staðarhverfi.

Nú er stutt eftir af þessari sögu, en þó verður að bæta nokkru við. Það var nokkuru eftir jarðarförina, að stúlku á Stað, Margrjeti Salomonsdóttur að nafni, dreymir það, að hún er þar í rúmi sínu inni í baðstofu. Þykir henni þá maður koma upp í stigagættina. Hann ávarpar hana og segist vera kominn til þess að þakka fyrir sig og fjelaga sína. „En eitt þykir mjer verst,“ bætir hann við, „að eigi skyldi jafn mikið haft við okkur alla.“
Jeg sel það ekki dýrara en jeg keypti, að stúlkunni fannst þetta vera sá maður frá „Anlaby“, er fyrstur fannst. Var nú margt rætt um drauni þennan og fanst mönnum ólíklegt, að hann ætti við nein rök að styðjast, ef svo væri að hún ætti að eiga við sjóreknu mennina af „Anlaby“, því að enginn vissi betur en að líkum þeirra allra hefði verið gert jafn hátt undir höfði og sami sómi sýndur. En þó varð það síðar nokkuð, er menn hugsuðu sig betur um, að annað varð uppi á teningnum.
Jafnóðum sem líkin fundust, voru þau borin í kirkju. Báru ýmist 4 eða 6 menn hvert lík og um leið og þau voru borin inn úr kirkjudyrum, var klukkum hringt og sunginn sálmurinn: „Jurtagarður er herrans hjer.“ En af einhverri vangá, er eigi varð kunnugt um fyr en síðar, höfðu burðarmenn eins líksins borið það svo í kirkju að yfir því var hvorki klukkum hringt nje sálmur sunginn.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1927, Nilson Skipstjóri – Úr sögu landhelgisvarnanna, Árni Óla, bls. 17-20.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; “ Í Staðarkirkjugarði“ eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.“

Jónsbásar

Jónsbás.

„Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn„.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, „eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni“ undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.“
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.“
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi“ í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: „Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar“:
„Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby“ var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.

Staður

Staður 1925.

Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby“ og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby“ hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.“

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan „Suðurlandsskjálfta árið 2020“ sem og „Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi„:

Sprunga

Sprunga á Reykjanesi.

„Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

„Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi“, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.

Grindavík

Sprunga í íþróttahúsinu í Grindavík 2023.

Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.

Sprungur

Hraunsprunga Við Kaldársel.

Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli „-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt „sundurskorið“ og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð “ um svæðið næst höfuðborginni“. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.

Sprunga

Hraunsprunga á Reykjanesskaga.

Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins. Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
„Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum“. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: „Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum“.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.

Reykjavík

Reykjavík og Seltjanarnes.

Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: „Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum“.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
„Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur.

Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð“.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
„Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.

Jarðskjálfti

Suðurlandsskjálftinn árið 2000.

Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.“

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

„Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.“

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Þorbjarnarstaðir

Í Fjarðarpóstinum 1989 er fjallað um „Þorbjarnarstaði í Hraunum“ og spurninguna um hvort þeir skyldu friðaðir:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur.

„Skipulagsnefnd hefur rætt um friðunarmál í nágrenni Hafnarfjarðar. Að sögn Jóhannesar Kjarval skipulagsstjóra hefur hann lagt til, að Þorbjarnarstaðir og næsta nágrenni verði sett á fornleifaskrá.
Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, kannaði og skráði rústirnar að Þorbjarnarstöðum á árunum 1976 til 1980. Hann lagði til að réttast væri að friðlýsa þær minjar í einu lagi, eða áskilja sér rétt til að hafa hönd í bagga, ef eitthvað ætti að gera þar. Kristján sagði að þarna væri heilleg mynd, upplögð til að nota í eins konar sýnikennslu. Þó ekki sé langt síðan þarna var búið eru minjarnar ekki síður dæmigerðar fyrir byggðina hér um slóðir.
Þorbjarnarstaða er getið í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1548.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Um býlið hefur Kristján Eldjárn skrifað: „Þorbjarnarstaðir, nú í landi Hafnarfjarðar. Rétt fyrir ofan Straum eru rústir eyðibæjarins Þorbjarnarstaða, sem fór í eyði. Þetta hefur verið dæmigert Hraunbýli, tún ræktað á hraununum, allt með holum skvompum og túngarður umhverfis, allur hlaðinn úr hraungrjóti. Hann stendur að miklu leyti enn, en utan um hann er svo einfaldur og lágur garður úr steinum, sem teknir hafa verið úr gamla garðinum og haft sem undirlag undir gaddavírsgirðingu. Þetta er merkilegt að sjá. Á eina hlið er ágætlega hlaðin og skrítin rétt.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bæjarrústir eru snyrtilegar og grónar, en svolítill kofi stendur enn uppi. Heim að bænum er ágætar traðir, þótt þær standi ekki í fullri hæð nú. Eitthvað kann að vera af rústum útihúsa á túninu, en a.m.k. eitt fjárhús hefur verið sambyggt bænum; það er með jötum eins og öll gömul fjárhús hér á Reykjanesi.“

Ekki er að sjá í gögnunum að framangreindum vilja hafi verið fylgt eftir skv. orðanna hljóðan.

Sögulegar heimildir um Þorbjarnarstaði

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls VídalínsIII, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignumViðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.Hjáleiga 1703: Lambhagi (sjá GK-167).
Landkostir 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglegamikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einiberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavonnæsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundumað gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið í næstu þrjú ár. Inntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi í næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III,166.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Þess má geta að Ísal sóttist eftir því á áratugi síðustu aldar við Hafnarfjarðabæ að fá að kaupa jörðina Þorbjarnarstaði. Þá stóð fyrir dyrum möguleg stækkun álversins til suðurs og þar með tilheyrandi færslu Reykjanesbrautarinnar. Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, lagði tilboðið fram á bæjarstjórnarfundi, án nokkurs fyrirvara.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnnarstaðir – flugmynd.

Þegar fulltrúi FERLIRs, sem þá var jafnframt fulltrúi Alþýðuflokksins, óskaði eftir nánari skilgreiningu á mörkum þess, sem um ræddi, varð fátt um svör. Hann óskaði þá eftir að málinu yrði frestað til næsta fundar. Það var samþykkt.
Á þeim næsta fundi lagi Magnús fram uppdrátt að mörkum þess lands, sem bærinn ætlaði að selja. Fulltrúi FERLIRs lagði þá til að bærinn myndi, ef sölunni yrði, halda eftir heimatúni Þorbjarnarstaða innan garða, enda væru innan þeirra ómetanlegar mannvistarleifar til framtíðar litið. Auk þess lagði hann til að Byggðasafni Hafnarfjarðar yrði falin forsjá svæðisins með í huga mögulega endurbyggingu þessa síðasta torfbæjar innan núverandi lögsagnarumdæmis. Bæjarstjórnin féllst á tillöguna. Af framangreindri ástæðu á Hafnarfjarðarbær í dag Þorbjarnarstaði í Hraunum – innan túngarða. Eignin er þó ekki talin til bæjarins í gildandi aðalskipulagi, einhverra hluta vegna!?

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – heimastekkurinn (síðar rétt).

Í umsögn Umhverfisstofnunar við aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þann 11. ágúst 2020 segir m.a.:
„Umhverfisstofnun bendir á að hraunin, sem tillagan nær til, kallast Hrútargjárdyngja og Kapelluhraun falla undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61, gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrfyrirbæra sem undir greinina falla, ema brýna nauðsyn ber til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi…
Umhverfisstofnun bendir á að innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá og nefnist Straumsvík og er númer 12 sem aðrar náttúrminjar. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt: „Fjörur, strendr svo og tjarnir með fersku og ísöltu vatni við innanverða Straumsvík, frá urtartjörn vestan Straums suður fyrir Þorbjarnarstaði að athafnasvæði Ísal.“ Náttúruverndargildi svæðisins eru tjarnir með einstæði, lífsskilyrðum og allmiklu fuglalífi.“

Engan sérstakan fróðleik er að finna á vef Umhverfisstofnunar um Þorbjarnarstaði og nágrenni sbr. framangreinda friðlýsingu á fornleifaskrá. Byggðasafn Hafnarfjarðar virðist ekki, hingað til a.m.k., hafa sýnt tilþrif í þá átt…

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 27. tbl. 21.09.1989, Þorbjarnarstaðir friðaðir, bls. 3.
-Fornleifaskráning vegna tvöfuldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.
-https://www.researchgate.net/publication/347489182_Fornleifaskraning_vegna_tvofoldunar_Reykjanesbrautar_41_fra_Hvassahrauni_ad_Krysuvikurvegi_II
-https://fornleif.is/wp-content/uploads/2020/10/FS803-20151_Fornleifaskr%C3%A1ning-vegna-tv%C3%B6f%C3%B6ldunar-Reykjanesbrautar-41-fr%C3%A1-Hvassahrauni-a%C3%B0-Kr%C3%BDsuv%C3%ADkurvegi.pdf

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.