Rauðhólssel

Gengið var frá Höskuldarvallavegi, til suðurs með gígum og yfir að Rauðhól, að Rauðhólsseli. Að því búnu var gengið um norðanverðan Þráinsskjól að Þórustaðastíg og skoðuð ummerki í heiðinni norðan Keilis.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur.

Eins og svo víða á Reykjanesskaganum hafa sammsýnir menn dundað við að krafla utan af fallegum hraungígum og eldvörpum. Þannig hefur smám saman verið grafið utan af fallegum mosavöxnum hraunhól stutt sunnan við veginn upp að Höskuldarvöllum. Stígur liggur með austanverðum hólnum, áleiðis yfir að Rauðhól. Norðvestan við hólinn, undir hraunbakka Þráinsskjaldarhrauns, eru tóftir Rauðhólssels. Minni-Vatnsleysa hafði selstöðu undir Oddafelli, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Stóra-Vatnsleysa hafði hins vegar í seli undir Rauðhól þar sem heitir Rauðhólssel. Þar voru hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – Rauðhóll.

Gengið var upp með Rauðhól, ofan hraunskila, en nýrra hraun hefur runnið að því eldra að austanverðu. Stíg var fylgt áleiðis að Keili, en þegar komið var á Þórustaðastíg var honum fylgt áleiðis niður heiðina.
Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keili og Keilisbörn og færði Litla Keili næstum í kaf. Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum. Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Gengið var vestur fyrir Keili og skoðuð gömul gata, sem þar liggur á ská upp heiðina. Gatan liggur austur með sunnanverðu fjallinu, en þegar komið er vestar niður í heiðina virðist gatan hverfa í gróðureyðinguna.
Skammt norðar var Kolhóll sem og Stóri-Kolhóll. Gengið var að honum og síðan beygt var frá honum til norðurs og gengið yfir hraunið að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Valahnúkur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason er m.a. sagt frá gamla Reykjanesvitanum: „Ein af helstu framfaramálum þessara umbrotaára fyrir aldamótin [1900], voru vita og hafnamál. Alla tíð hafði Íslandsströnd verið dimm og vitalaus, enda hafði einlægt verið reynt að haga millilandasiglingum svo, að þær lentu í langdegi og björtum nóttum.
Reykjanesvitinn 1878En vitanlega bar skip oft að landi í skammdegi og myrkri. Fiskimenn á vetrarvertíðum áttu oft harða sókn gegn hættum myrkursins. Þegar siglingar aukast og  skipaferðir með ströndum fram, vex vitanlega þörfin á því að fá ljósmerki og vita. Danska stjórnin tók fyrst þunglega óskum Íslendinga um vita. Undireins og Íslendingar fá sjálfir stjórn fjármála sinna, fara þeir að hugsa um vitabyggingar. Halldór Kr. Friðriksson og Snorri Pálsson hreifa málinu á Alþingi 1874 og Grímur Thomsen ljet þessi mál einnig til sín taka. Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi, bygður af Rothe, og var fyrst kveikt á honum 1. des. 1878. Vitinn kostaði tæpar 3 þús. krónur, en ljóstækin voru gefin frá Danmörku.
Arnbjörn Ólafsson var fyrsti vitaðvörðurinn og hafði hann kynt sjer vitavörslu í Danmörku. Vitavarðarlaunin voru 900 kr. á ári, en voru brátt hækkuð upp í 1200 kr. Síðan var Jón Gunnlaugsson lengi vitavörður (1884-1902). Nýr viti var reistur á Reykjanesi 1907-08. Reykjanesviti var lengi eini viti landsins. Upp úr 1880 er farið að veita 500 til 1000 kr. á ári til þess að koma upp ljósvörðum, en ekki var framkvæmdin meiri en svo, að þessar fjárveitingar voru ekki einægt notaðar. Árið 1884 var reist ljósvarða á Garðskaga. Einstakir útgerðarmenn beittu sjer fyrir framkvæmdum eða reistu vita á sinn kostnað eins og Otto Wathne á Dalatanga. Árið 1897 voru reistir vitar á Garðskaga, í Gróttu og í skuggahverfinu í Reykjavík. Jón Helgason var lengi vitaðvörður á Garðskaga, og síðan Ísak Sigurðsson, en Þorvarður Einarsson í Gróttu.“

Heimild:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 476-470.

Reykjanesviti í byrjun aldar

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að „um[Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … „Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.“ Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Kögunarhóll

Gengið var frá Kögunarhól og austur með sunnanverðu Ingólfsfjalli að Fellstúni við suðausturhorn þess. Sú örnefnaskýring hefur snemma komist á kreik að nafnið Kögunarhóll sé afbökun úr Knörrhóll og að í honum sé skip Ingólfs heygt.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í Landnámu segir frá því að þriðja vetur sinn á Íslandi hafði Ingólfur Arnarson vetursetu undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá. Næsta vor fundu þrælar hans, þeir Vífill og Karli, öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði og settist Ingólfur þar að og nefndi bæ sinn Reykjavík. Þrællinn Karli mælti þá: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Strauk hann síðan frá Ingófi og sneri tilbaka í Ölfusið ásamt ambátt. Ingólfur fann þræl sinn aftur en ekki fylgir sögunni hvort hann fékk að vera í friði eða var neyddur til að flytja á „útnesið“. Ölfusið hefur æ síðan heillað “afkomendur” þrælsins.

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Í Laxdælu segir að Auður djúpúðga hafi brotið skip sitt við Ölfusárósa en annars fer engum öðrum sögum af héraðinu á landnámsöld. Líklegt er þó að það hafi byggst snemma vegna landkosta þess. Land til beitar hefur verið gott við Ölfusárósa og á fjalli, selveiði í ósnum og fiskur í sjó og vötnum. Auk þess voru ágætar lendingar í ósnum, Þorlákshöfn og Selvogi sem hefur ekki haft lítið gildi á hafnlausri suðurströndinni.
Á göngunni frá Kögunarhól, skipshaug Ingólfs, með Ingólfsfjalli, gafst góður tími til að rifja upp söguna sem og áætlunum tengdum járnbrautarlagningu frá Reykjavík austur í Árnessýslu eða til Hafnar við Eyrarbakka. Járnbrautin átti að koma niður austan við Fellstúnið á leið sinni niður að Eyrabakka.

Kögunarhóll

Kögunarhóll.

Hr. Þorvaldur Krabbe mannvirkjafræðingur skoðaði leiðina austur í Árnessýslu með járnbrautarlagningu í huga. Vandlega rannsókn og mælingar gerði hann ekki á svo skömmum tíma, „heldur aðeins kynnti sér lauslega og til bráðabirgða, hvernig til hagar um fjallleiðina austur og byggðina næstu.“
Fundið var að báðum þessum leiðum, „hve mikið af þeim er um óbyggðir, um fjöll og firnindi.“ Talið var að jafnan „eigi að hyllast til að láta járnbrautir liggja, um byggð, ef auðið er, eða þá byggilegt land, þótt óbyggt sé.“

Í Þjóðólfi, 41. tbl. árið 1906 er fjallað um járnbrautarlagningu austur í Árnessýslu og um stöðu þeirra mála. Þar segir að Þorvaldi Krabbe hafi litist best á leiðina upp Mosfellsdal nálægt Gullbringum og þaðan austur yfir þvera Mosfellsheiði fyrir norðan Borgarhóla og um Jórukleif ofan í Grafning nálægt Jórutindi, til Hagavíkur, þaðan nálægt bænum Króki og suður dalverpið þar bak við Bíldsfell, milli þess og Hlíðar, og svo þaðan nálægt Torfastöðum, suður að Ingólfsfjalli og meðfram því um Alviðru hjá Sogsbrúnni og niður að Ölfusá, annaðhvort móts við Laugardælur eða Selfoss.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sérstaka járnbrautarbrú kvað hann eflaust mundi þurfa að byggja yfir Ölfusá, en það væri aukaatriði, sem ekki snerti lagning brautarinnar í sjálfu sér.

Í Ísafold, 66. tbl. árið 1906, er fjallað um Suðurlandsveg í tilefni af umræðu um járnbrautarlagningu frá Reykjavík til Árnessýslu. Þar segir að “nú, þegar hugmyndin um járnbraut hér á landi hefir hlotið þann þroska, að landsstjórnin er búin að láta verkfræðing skoða járnbrautarstæði frá Reykjavík til Árnessýslu, þá virðist ástæða til að fara að ræða málið frá ýmsum hliðum.
Flutningsþörfin hefir aukist mjög mikið á síðustu árum hér sunnanlands, svo þörfin hefir nú loks knúð bændur nokkuð almennt til að nota vagna (kerrur) á flutningabrautunum, og auk þess æðivíða yfir vegleysur, færar og ófærar.

Blákollur

Blákollur undir Ingólfsfjalli.

Vagnarnir létta mikið flutninginn og auka vörumagnið sem flutt verður, en þeir fullnægja ekki þörfinni nema fá ár, þótt allir noti þá og ýmsir eigi 2, 3 eða 4 vagna. Smávagnarnir eru of mannfrekir í fólksfæðinni, og ferhjólaðir vagnar verða ekki notaðir á vegleysunum, eru líka of dýrir fyrir bændur almennt. Mörg heimili þurfa nú að flytja frá verslunarstöðunum því nær eins mörg vagnhlöss og marga þurfti hestburði fyrir 20 árum, og flutningsþörfin mun enn aukast, að líkindum örara en áður.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Varla er von á góðri afkomu meðan dugandi karlmenn og einyrkjar verða að vera í ferðalögum mestallt vorið, auk haustferða, vetrarferða og ferðanna, sem bændur neyðast til að fara á miðjum slætti, dögum saman.
Efnaðir menn í Reykjavík og þeir, sem lifa eins og auðmenn, gera æ stærri kröfur til fæðisins, vilja hafa nýtt og gott kindakjöt árið um kring, nýja mjólk, nýtt smjör, nýtt skyr o. s. frv.

Hellisheiði

Almannagjá 1913.

Bændur hefðu mestan hag af því, ef þeir gætu ávalt fullnægt þörf kaupendanna á óskum þeirra. Nú er þetta ókleift, því næstu sveitir hafa hálfu minna af slíku en þörfin krefur. Og þó dregið sé strik yfir alla erfiðleikana og kostnaðinn við flutningana úr fjarlægum sveitum, þá er bændum ekki unnt að taka sláttinn til ferðalaga meir en nú er gert, og oft verða fjallvegir ófærir á vetrum.
Hvað mundi nú járnbraut greiða fyrir bændum hér austan fjalls og íbúum Reykjavíkur? Bætt gæti hún úr samgönguleysinu um sláttinn og mikið létt undir flutninga vor og haust; en hætt er við að hún kæmi að litlum notum, eða jafnvel alls engum á vetrum – þegar ófært er með kerrurnar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.olfus.is/template1.asp?mode=sub&id=555
-http://www.vegag.is/vefur2.nsf/pages/ve_saga_bladaefni_1906allt3.html
-Ísafold, 13. september 1906, 33.árg., 39. tbl.

Kögunarhóll

Við Kögunarhól.

Þingvellir
Í seinni tíð hefur æ meir verið rætt um mögulega aðkomu fornleifafræðinga að kynningum og leiðsögn um minjastaði, hvort sem um er að ræða óraskaða eða staði sem er verið að rannsaka. Vaxandi áhugi er á meðal fornleifafræðinga að skoða hvort og hvernig er hægt að tengja saman starf þeirra og áhuga almennings á því. Þeir virðast hafa áhuga á að nýta sér hugmyndir og reynslu annarra í þeim efnum.
Við upphaf nútíma ferðamennsku á 17. og 18. öld voru fornleifar eitt af því sem fyrstu ferðamenn til Íslands bjuggust við að sjá. Óskýr greinarmunur var hins vegar á fornleifum og sögustöðum fram á 20. öld. Náttúran er og hefur ávalt verið í fyrsta sæti. Þó voru Þingvellir, vegna sögulegs samhengis, og Snorralaug, eiginlega hin eina sýnilega þekkta fornleif hér á landi, sjálfsagðir viðkomustaðir. Gullfoss og Geysir hafa og haft aðdráttarafl.
Áhyggjur af kaupum ferðamanna á íslenskum forngripum leiddu (ásamt öðru) til stofnunar Forngripasafnsins 1863. Ríkir Bretar komu hingað til lands til laxveiða og áhugi útlendinga á íslenskum forngripum fór vaxandi. “Eptir að Íslendínga sögur verða meir og meir þekktar í útlöndum, geta menn búizt við á hverri stund að menn búi til drama, hvar í Þíngvöllur er “leikflöturinn”. Það var a.m.k. skoðun og réttlæting Sigurðar málara fyrir að framkvæma rannsóknir á Þingvöllum. Hann dró m.a. upp hugmyndir sína um hvernig þinghaldið hafi gengið fyrir sig og aukin áhugi á fornsögunum þrýsti á aðgerðir. Áhugi útlendinga á íslenskri menningu leiddi og til þess að Íslendingar fóru að telja hana einhvers virði sjálfir.
Rannsóknir ferðamanna (fyrir ferðamenn) fóru smám saman að sjá dagsins ljós. Ferðabækur með almennum lýsingum (sérílagi Snorralaug) voru samdar og “Fyrsti vísindatúristinn”, Angus Smith, sem hingað kom til laxveiða í Elliðaánum, gerði rannsókn í Þingnesi 1872. Hann teiknaði m.a. upp svæðið og skrifaði um hvað það sem fyrir augu bar.
Collingwood kom hingað til lands í fylgd Jóns Stefánssonar, “Íslendingsins í London”. Þeir skoðuðu sögustaði, Collingwood dró upp og málaði marga þeirra. Afurðin kom út í bók hans “Pilgrimage to the Saga-Steads of Iceland (1899)”, sem í dag þykir meistaraverk þótt ekki hafi alltaf verið farið rétt með staðreyndir, s.s. meint leiði Kjartans Ólafssonar.
Á 20. öldinni dró úr fornleifarannsóknum, einkum eftir aldamótin 1900. Fjöldi erlendra ferðamanna jókst smátt og smátt. Íslensk ferðaþjónusta þróaðist fyrst og fremst í kringum kynningu á íslenskri náttúru, en nánast engar sýnilegar fornleifar voru aðgengilegar, auk þess sem lítið var að sjá á sögustöðum. Framan af öldinni takmarkaðist opinberar aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu við Þingvöll (merkingar á búðum) og Þjóðminjasafnið gaf út “Leiðarvísi 1914”. Guide á ensku var fyrst gefinn út 1960. Fyrstu leiðbeiningarnar miðaðu fyrst og fremst að innlendum ferðamönnum? Áhersla var þó lögð á verndun minja og staða fremur en kynningu. Friðlýsingar voru aðalatriðið og hugmyndafræði verndunar allsráðandi. Sýnilegar minjar hér á landi voru bæði óskýrar og flestum óskiljanlegar – og er það jafnvel fyrir flestum enn þann dag í dag. Liltar sem engar merkingar hafa verið settar upp á sögustöðum og þar hefur yfirleytt ekkert verið að sjá, ekki einu sinni sjoppa.
Þjóðfélagsbreytingar urðu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Batnandi samgöngur innanlands og Íslendingar fóru í auknum mæli að ferðast um eigið land. Ferðafélög urðu algengari, “Árbók FÍ” kom fyrst út 1928 og síðan rit eins og “Landið þitt Ísland” (1966-68). Byggðasöfn voru stofnuð í flestum héruðum. Er bæjartóft á Stöng varð aðdráttarafl eftir uppgröft 1939 var hlífðarþak sett yfir strax um haustið, leiðarvísir var gefinn út 1947 (English summary) og þakið síðan endurnýjað 1957. Þjóðminjasafnið eignaðist gamla torfbæi og torfkirkjur, gerði hvorutvegggja upp og opnaði fyrir almenningi, s.s. Laufás, Glaumbæ, Burstafell, Gröf, Saurbæ og Núpsstað. Leiðarvísar um Hólakirkju var gefinn út 1950, Grafarkirkju 1954 og um bænhús á Núpsstað 1961 (English summary).
Pópúlarísering fornleifafræðinnar fór fram við nýja sýningu Þjóðminjasafnsins, sem opnuð var 1952-54, ritstörf og sjónvarpsþættir Kristjáns Eldjárns vöktu athygli og vaxandi áhugi almennings varð á verndun, einkum gamalla húsa. Fornleifauppgreftir á 8. áratugnum vöktu og eftirtekt, en lítil sem engin tenging var við ferðaþjónustu. Stigvaxandi fagmennska sérstakra leiðsögumanna varð almennt í kynningu náttúrustaða, s.s. við Geysi, Mývatn og á miðhálendinu. Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli 1967 og áhersla varð á verndun Laxár og Mývatns. Þar varð minjaskráning Helga Hallgrímssonar frumkvæðisverk í fornleifaskráningu og Þjóðgarður var stofnaður í Jökulsárgljúfrum 1973. Vaxandi útgáfa myndabóka varð á erlendum málum um íslenska náttúru, en eina minjaritið í þeim flokki var bók Björns Þorsteinssonar um Þingvelli (1961, mikið breytt endurútg. 1986). Stangarbærinn var endurgerður við Búrfell 1977 á grundvelli rannsókna Harðar Ágústssonar. Landsvirkjun kostaði og hefur ekið húsið. Rústir í Herjólfsdal voru gerðar sýnilegar ferðamönnum að uppgrefti loknum, en eru nú orðnar hluti af golfvelli þeirra Vestmannaeyinga. Uppgrafnar rústir fyrir 1990 voru almennt ekki gerðar aðgengilegar ferðamönnum eða öðrum en fornleifafræðingum.
Nýjar áherslu urðu eftir 1990. Rústakjallari var gerður í framhaldi af uppgreti og endurgerð Bessastaðastofuá Bessastöðum, þó með takmarkað aðgengi. Vaxandi umræða og meðvitund meðal fornleifafræðinga og safnamanna varð um gildi þess og nauðsyn að kynna minjastaði, en ekki var sýnilegt fjarmagn til þess og lítið frumkvæði og áhugi var meðal ferðaþjónustuaðila, a.m.k. til að byrja með.
Sem dæmi um hugmyndir og aðgerðir síðustu 15 ára má nefna að rústir voru jafnan gerðar sýnilegar að rannsókn lokinni, s.s. Hofstaðir í Garðabæ og Neðri Ás og tilgátuhús voru reist, t.d. Eiríksstaðir og kirkja í Vestmannaeyjum. Sýningar voru í Reykholti, Aðalstræti, Hofstöðum í Garðabæ og kynning á uppgrefti urðu algengir, m.a. með leiðsögumönnum (Gásir, Skriðuklaustur og Aðalstræti). Merking og kynning ógrafinna minja urðu regla og skilti voru sett upp við gönguleiðir og á leiðum hestamanna. Niðurstöður fornleifarannsókna hafa orðið aðgengilegar á veraldarvefnum og kynntar á almennum sýningum. Fastasýning hefur verið sett upp í Þjóðminjasafni og sögusýning í Perlunni, auk landafundasýningar í Þjóðmenningarhúsi. Vaxandi áhersla er og á kynningu (á meðan og á eftir) við hönnun fornleifarannsókna.
Viðhorf stjórnvalda hefur verið að mótast í gegnum “Menningartengda ferðaþjónusta” (tíu ára gamalt lykilhugtak) og þau hafa opinberað vaxandi viðurkenningi á gildi og nauðsyn minjanýtinga. Skýrsla samgönguráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu kom út 2001 þar sem lögð er áhersla á tungumálið og bókmenntir, en minjarnar sjálfar urðu þar afskiptar. Þó er fornleifafræði talin hafa þýðingarmikið (en ómótað) hlutverk í þágu ferðaþjónustunnar hér á landi. Lagt er til að horft verði til tilgátuhúsa og nauðsyn rannsókna þar sem forgangsröðun staða er í fyrirrúmi.
Mörg álitamál eru um þátttöku fornleifafræðinga í tengslum við ferðaþjónustuna. Ættu fornleifafræðingar t.d. yfirhöfuð að skipta sér af ferðaþjónustu? Margir myndu svara því neitandi, m.a. vegna þess að þeir eru ekki sérfræðingar í því – fornleifafræðingar eru ekki skemmtikraftar – aðrir eru betur til þess fallnir, þeir hafa nóg með sína peninga að gera í rannsóknir, þeir bera ábyrgð gagnvart vísindasjóðum sem styrkja rannsóknir og mega ekki sólunda fé og þeir verða að varðveita fræðilegan hreinleika greinarinnar. Aðrir eru jákvæðir og telja að fornleifafræðingum beri siðferðileg skylda til að veita almenningi (þ.m.t. ferðamönnum) aðgang að rannsóknum sínum og rannsóknaniðurstöðum, rannsóknafé komi (eftir ýmsum leiðum) úr vasa almennings, vísindi séu skemmtileg og vísindamenn þar með skemmtikraftar, það gæti haft jákvæð áhrif á rannsóknarstarf – skerpir sýn á hvað er áhugavert og mikilvægt – og gæti verið grundvöllur áframhaldandi og aukins stuðnings við fornleifarannsóknir. Þar þurfi ekki síst að koma til beinn stuðningur ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustan og fornleifarannsóknir hafa ólíkar þarfir. Ferðaþjónusta vill t.a.m. svör við spurningum sem ferðamenn hafa (Ingólfur og Leifur heppni), hún vill skýrar línur og einfaldanir – engar vífilengjur eða varnagla, geta sýnt skiljanlegar fornleifar og telur að endurgerðir séu betri en óskiljanlegar rústir. Þá séu leikarar betri en tafsandi prófessorar. Fornleifafræðingar vilja helst ekki segja neitt sem þeir geta ekki staðið við og þeir vilja ekki fjalla um fyrirbæri sem ekki eru fornleifafræðileg (Ingólfur og Leifur heppni). Þeir geta og vilja miðla flóknum hugmyndum og sýna fornleifar eins og þær eru (brotakenndar og óskiljanlegar).
Hægt væri að fara bil beggja. Millileiðir eru til þar sem bæði krefjandi og skemmtilegt væri að finna aðferðir til að miðla raunverulegum rannóknarniðurstöðum sem samt nýtast ferðaþjónustu. Þar þarf gæði að vera grundvallarhugtak. Gæði rannsókna og miðlunar geta þó vel farið saman og hluti gæðanna gæti falist í því hvernig rannsóknin nýtist til kynningar og fyrir ferðaþjónustu. Gæði myndi aukast meðal ferðamanna og þekking þeirra á menningu og sögu aukast. Ferðamaður sem ekkert veit getur sætt sig við og haft gaman af lélegri/ósannri kynningu, en vel upplýstum ferðamanni er misboðið með lélegri/ósannri kynningu. Gæði ferðaþjónustu hlýtur að felast í metnaði Íslendinga til að bjóða upp á vandaða afþreyingu fyrir ferðamenn. Þá verður ábyrgð ferðaþjónustu í menntun þjóðarinnar/erlendra ferðamanna að teljast einhver. Ferðalag er menntun og því hlýtur fræðlsan að vera praktísk álitamál. Mest nauðsyn að mennta ferðamenn áður en þeir koma á staðinn? Margvísleg form miðlunar eru fyrir hendi, s.s. heimasíður sérstaklega ætlaðar ferðamönnum, almennar heimasíður, fræðirit fyrir almenning. kennsla í grunn- og framhaldsskólum, námsefni, námsferðir og sýningar. Kannski að framangreint geti orðið aðalvettvangur einhverra fornleifafræðinga í framtíðinni?
Praktísk álitamál lúta einnig að uppgrefti. Meta þarf hvernig aðgangur að uppgrefti eigi að vera á meðan á honum stendur. Ferðamenn eiga að geta horft á uppgröftin, geta etv lesið á skilti, og ferðamenn eiga að geta fengið leiðsögn og aðra þjónustu (salerni, bílastæði, póstkort, pulsa og kók) á vettvangi. Ganga þarf þannig frá uppgraftarstað að gestir geti séð hvað þar var – og að hægt verði að nýta staðinn í ferðaþjónustu. Tyrfa þarf yfir svo útlínur sjáist. Leysa þarf vandamál við aðgengi, koma í veg fyrir troðning og skemmdir á fornleifum og eða truflun á rannsókn svo eitthvað sé nefnt. Þá þarf að gera ráð fyrir kostnaði er af kann að hljótast svo undirbúa megi og veita góða þjónustu.
Ljóst er að fornleifafræðingar eða sérstakir leiðsögumenn munu í framtíðinni koma að kynningum og leiðbeiningum til áhugasamra ferðamanna starfa sinna vegna. Þeir búa yfir mikilli þekkingu á viðfangsefninu og gat nýtt sér það, bæði til að efla þekkingu annarra á störfum þeirra og ekki síður til að fá viðbrögð fólks á þeim. Hvorutveggja gæti orðið greininni til framdráttar.
Það hefur jafnan verið haft á orði að ef heimamenn hafa ekki áhuga á sögu sinni og minjum geta þeir varla ætlast til að aðrir hafi það.

Byggt á yfirliti Orra Vésteinssonar við kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgi“.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Vífilsstaðasel

Eftirfarandi er úr erindi ÓSÁ um sel og selstöður á Vatnsleysustrandareheiði, sem flutt var á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju 19. janúar 2006:

Gjásel Ætlunin er að reyna að gefa svolitla innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina á innan við 20 mínútum. Stikklað verður á stóru.
Byggðin á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Bændur stærri og landmeiri bæja höfðu fé sitt í seli yfir sumarið. Selin voru í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem almennt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist fyrst og fremst um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu. Erfiðara var að ganga að fiskinum vísum.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 168 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin tímabundar nytjaútstöðvar útvegsbændanna með ströndinni.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og selsbúskap hér á landi og nær ekkert á þessu svæði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirleitt var ekki skrifað um það sem þótti bæði eðlilegt og sjálfsagt í daglegu lífi fólks. Þannig var t.d. ekki skrifað um það hvernig hin fornu handrit, hin dýrmæta arfleið, voru gerð eða hvað þurfti að gera til að koma texta á bókfell. Eftir standa ósögð orðin og lýsingarnar – líkt og selstóftirnar í heiðinni. Á sama hátt skiptu afurðir seljanna meiru en hvernig þær urðu til. Við vitum líka hverjar afurðinar voru og ef seljabúskapurinn stæði okkur ekki svo nálægt í tíma og raun ber vitni væri harla fátt vitað um hvernig hann hafi verið í framkvæmd. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust í gegnum aldir.
Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Fé yfirleitt haft í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo.
Selja er stundum getið í örnefnalýsingum, s.s. þessi af Hvassahraunsseli: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo árið 1703: ”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni á þessum tíma. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
Oft bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík og Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg og Selsvallasel af Selsvöllum, eða öfugt, þ.e. örnefnin er tilkomin vegna seljanna.
Í örnefnaslýsing segir og um Flekkuvíkursel: „Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur”.
Auk þess sem flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum má sjá nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, á gömlum kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Stekkur í Brunnastaðaseli – Á Reykjanesskaganum var selið og önnur mannvirki í seli oftast í skjóli fyrir austanáttinni, rigningaráttinni, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót vestri.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og sennilega fleiri selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandar-bæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Það virðist vera ríkjandi viðhorf meðal fólks að “minjar hér á landi séu bæði óskýrar og óskiljanlegar. En er það svo í raun?
Í ljóðinu fylgd eftir Guðmund Böðvarsson er getið um sel; “En frammi á fjöllum háum – fjarri sævi bláum – sefur gamalt sel”. Þessar línur geta vel átt við selin á Vatnleysustrandarheiðinni.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað um Innnesin og Útnesin. Ekki fóru allir Almenningsleiðina.
Sigurlín Sigtryggsdóttir lýsir í handritinu “Upp til selja” lífi smala í seli í Eyjafirði:
“Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Vantaði á fékk smalinn að eta skömmina.
Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Smalastarfið var erfitt, en samt minnast þeir margir hverjir starfans með lotningu og telja það jafnvel ánægjulegustu reynslu lífs síns.
“Áhugi fólks á minjum kviknar fyrst eftir að grafið hefur verið í þær”. “Rannsóknir virkja staði” sagði kennari minn í fornleifafræði við Háskólann okkur í tíma í gær. Þetta er að sumu leyti rétt, eins og dæmin sanna.
Sagt hefur verið að til þess að áhugi annarra á menningu svæðis vakni þurfi áhugi heimamanna á henni að vera fyrir hendi.
Þegar staðið er í tóftum fornra selja og horft á húsin, stekkinn, kvína, vatnsbólið, nátthagann og gömlu göturnar má vel sjá selsráðskonuna mjólka ærnar og vinna mjólkina, smalann færa féð frá og að seli kvölds og morgna, bóndann koma með viðurværi og færa nytjarnar til bæjar, heyra hávært jarmið við fráfærurnar og ímynda sér kyrrðina í heiðinni á fögrum og björtum sumarkvöldum.
Sagt hefur verið um hin fornu handrit: “Þessar minjar á að umgangast með tilhlýðilegri virðingu og hátíðlegu fasi, helst í sparifötunum”. Hvers vegna ekki minjarnar líka?
Í og við hvert sel má sjá selsstíg, selsvörðu, þrískipt hús (eldhús-íverustað og búr, stekk, kví, skjól, vatnsstæði/brunn, nátthaga, fjárskjól og mikinn gróanda.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. Klukkustundar langur, stundum styttri, stundum lengri. Stundum markaður í klöppina.
Ágætt dæmi m draugagang í seli er Rauðhólssel. Í lýsingu þess segir að fyrir hafi komið að horfið hafi verið fyrr úr selinu en ætlað var vegna draugagangs, en líklegt er þó að vatnsskortur aðallástæðan.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. „Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem og víðasthvar annars staðar. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, en nú koma stærri skip. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“ Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Síðast mun hafa verið haft í seli á Skaganum árið 1914. Í dag má sjá móta fyrir 43 selstöðum í 26 seljum í heiðinni. Sum þeirra eru mun eldri en frá 1703.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki um hið liðna – fortíðina – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Kannski verður einhvern tímann grafið í selstóftir í Strandarheiðinni og áhugi fólks vakinn á tilvist og hlutverki þeirra í fyrrum búskaparháttum svæðisins – fornleifin virkjuð, eins og kennarinn sagði. Hver veit?

[Erindið byggðist upp á myndasýningu].

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Kaldársel

Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri Grindaskarðavegurinn, sem nefndur er - Jón Bergssonáður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.

Kaldá

Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: „Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land“, 1945, bls. 33-34.

Kaldá