Snorri

Hópur vaskra manna frá FERLIR og HERFÍ fór í hellinn Snorra, en hann fannst nýlega í Hvannahrauni. Tekinn var með 6 metra langur stigi, ljós og annar nauðsynlegur hellaskoðunarbúnaður, þ.á.m. hellamælingatæki er myndar og mælir slík fyrirbæri. Þoka var á fjöllum, en með aðstoð GPS-tækis fannst jarðfallið.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Skriðið var niður í kjallara þess, stiginn dreginn niður á eftir og hann reistur upp við vegginn þar niðri. Klifrað var upp í rásina efst á veggnum, en einungis einn maður hafði farið þar upp áður með aðstoð stigans. Rásin liggur inn í meginrásina stóru, sem komið er að í jarðfallinu, og á bak við hraunið er lokar henni til norðurs. Þetta var heilleg rás á köflum og margt að sjá.
Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja. Það sem gerir Snorra mjög sérstakan er kjallarinn, sem liggur neðan við meginrásin, en frá kjallaranum þurfti þennan 8 m stiga til að komast upp í göng sem liggja upp í aðalrásina. Það dylst engum sem komið hefur í kjallarann og horft upp þá nær tíu metra sem þarf til að komast upp í meginrásina að þar hefur verið mjög tignarlegur hraunfoss þegar hraun flæddi um rásina.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins. Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hann lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.
Rétt er að geta þess, svona til upprifjunar, að FERLIR hafði mikið leita að opinu á Snorra. Nafni hans, Snorri Þórarinsson á Vogsósum, hafði bent á mikið jarðfall þarna í hrauninu, en þegar farið var að leita eftir lýsingu hans, rann allt hraunið saman í eitt.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Mjög erfitt er að leita hraunið, enda hver hæðin upp af annarri. Það var ekki fyrr en hraunið var gengið fram og til baka að skyndilega var staðið á brún þessa stóra jarðfalls. Þegar rásirnar niðri í jarðfallinu voru skoðaðar kom í ljós að þær lokuðust til beggja enda. Geysistór hraunrás er í jarðfallinu, fallega formuð. Þegar farið var að rýna í grjótið á botni jarðfallsins virtist myrkur undir. Eftir að nokkrir stórir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós kjallari undir meginrásinni. Kjallarinn reyndist hraunhvelfing í stærra lagi. Upp undir veggnum kom hraunfoss út úr honum og þar virtist vera gat. Eftir að aðstæður höfðu verið kannaðar síðar með aðstoð stiga, kom framangrein rás í ljós. Hún er ein hin fallegasta, en jafnframt ein sú óaðgengilegasta í hraunhelli hér á landi.
Frábært veður.

Snorri

Inngangur Snorra.

Maístjarnan er einn dýrmætasti hraunhellir landsins. Hann er í Hrútagjárhrauni. Hvort sem litið er til staðsetningar og þeirra náttúru(jarðmyndana)-fyrirbæra er hann geymir er nauðsynlegt að varðveita hann til langar framtíðar. Þegar 

Maistjarnan-21FERLIR heimsótti hellinn fyrir skömmu þakti snjór jörð og frost beit í kinn. Inni var hins vegar bæði hlýtt og hljótt. Ljóst var að umferð um hellinn að undanförnu hafði leitt af sér brotna dropsteina og fallin hraunstrá. Hvorutveggja verður erfitt að bæta eftir tæplega 6000 ára friðveislu.
Eftir stutta dvöl í kyrrðinni mátti heyra eftirfarandi, líkt og hvísl, ef mjög gaumgæfilega var lagt við eyru. Það var endurtekið aftur og aftur: 

Ó, hve létt er þitt skóhljóð.
Það er vetrarhret úti,
napur vindur sem hvín.
En ég veit aðra stjörnu
aðra stjörnu sem skín.
Það eru erfiðir tímar,
það er hrunaþref.
Maistjarnan-22Í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól.
Það er maísólin mín,
Fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Textinn var ekki nákvæmlega eins og í ljóði Halldórs Laxness um “Maístjarnan“. Sá texti hefur reyndar bæði verið fluttur af ýmsum í mismunandi útfærðum útgáfum og vitað er að Halldór sótti jafnan efni og hugmyndir í verk sín til annarra. Þannig telja jafnvel sumir að ljóðið og/eða lagið eigi uppruna að leita til verka Friedricks Hendels.
Sammerkt er þó með “Maístjörnunum” tveimur, ljóðinu og hellinum, að hvorutveggja vekur hrifningu þess er nýtur á hverjum tíma.

 

Maístjarnan

Maístjarnan – op.

Þórkötlustaðir

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2006 er m.a. frásögn Benónýs Benediktssonar, fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur, um “Sjóferð úr Þórkötlustaðanesi í nóvember 1938”. Þar segir m.a.: “Haustið 1936 höfðu bræðurnir á Þórkötlustöðum, þeir Benedikt og Guðmundur, látið byggja fyrir sig bát. Báturinn var smíðaður í Staðarhverfi af Kristjáni frá Reynistað. Hann var skírður Svanur og bar einkennistafina GK428.

Benóný Benediktsson

Ógæftir höfðu verið miklar þetta haust. Ég vaknaði stundum á nóttunni þegar Guðmundur var að ganga stigann á Þórkötlustöðum. Þá var hann að líta á veðurútlit. Svo var það nótt eina undir lok nóvembermánaðar að Guðmundur ákvað að róa og það þrátt fyrir að veðurútlit væri tvísýnt. Hann kallaði saman mannskapinn með því að ganga á milli húsa og banka á glugga, bankað var á móti til að gefa til kynna að viðkomandi væri vaknaður.
Fundinn var til biti til að hafa með á sjóinn og að því loknu hófst skipsgangan sem var kortersgangur frá Þórkötlustöðum í Þórkötlustaðanes. Gangan gat verið torfær í svarta myrkri því það var bara fjósluktin til að lýsa sér með. Þegar komið var í Nesið fór Guðmundur í ískofann og rétti mönnum bjóðin.
Ískofinn var hlaðinn úr torfi og grjóti og reft yfir með timbri og járni og torf látið á þakið. Að innan var búinn til kassi sem var klæddur að utan með timbri en með sléttu járni að innan og timburlok yfir. Haft var ca, 15-320 sm millibil milli trés og járns. Reynt var að fá snjó í kofana í fyrstu snjóum á haustin og var oft mikið kapphlaup að vera fyrstur til að ná sér í bíl því bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Til að fá frost í kassann var blandað saman salti og snjó og var það sett í rýmið sem myndaðist milli trés og járns. Þetta þurfti að endurtaka með 2-3 daga bili svo að frost héldist í kælinum.

Þórkötlustaðir

Þegar bjóðin höfðu verið handlöguð upp úr ískofunum var þeim lyft upp á herðar á mönnum og þau borin niður á bryggju. Næsta verk var að setja niður bátinn, sem var í nausti. Oft var þetta erfitt verk. Þegar báturinn var kominn niður í vör þurfti að sæta lagi til að ýta á flot og þurftu þá menn að vera fljótir að koma sér um borð. Því næst var frið að bryggjunni og bjóðin tekin um borð.
Ekki var róið langt enda veðurútlit ekki gott og því var línan lögð um hálftíma siglingu frá Þórkötlustaðanesi. Heldur hafði vindur aukist á lagningunni og var orðið allhvasst þegar búið var að leggja línuna og var því ekki látið liggja lengi. Byrjað var að draga þó að enn væri svarta myrkur.

Bryggjan

Þegar heimsiglingin hófst var komið suðaustan rok og aðgæsluveður og var því siglt til lands á hægustu ferð [vél var í bátnum]. Í þessum bátum voru yfirleitt fornvélar og þurfti að passa vel að ekki kæmist raki að þeim.
Heimsiglingin gekk vel og var Svanurinn kominn að landi um hádegisbil. Afli í þessum róðri var aðeins nokkrir fiskar enda var mjög stutt lega á línunni.
Þegar að landi var komið þurfti fyrst að fara að bryggjunni til að losa fisk og bjóð. Oft var mikil lá við bryggjuna og þurfti þá að hafa mann til að halda í afturhaldið svo hægt væri að slaka á því þegar að álög komu. Þegar löndun var lokið þurfti að fara út á lónið og taka lag í vörina. Ekki voru þ
á fastir hlunnar og vélspilið kom síðar til sögunnar.”
Benóný er fæddur 1928. Hann var því tíu ára þegar umrædd sjóferð átti sér stað. Er frásögnin ágætt dæmi um minni og frásagnalist Þórkötlustaðabúa, sem of oft hefur verið vanmetin í gegnum tíðina.

Heimild:
-Benóný Benediktsson – Sjómannadagsblað Grindavíkur – 50 ára afmælisrit –  2006.

Bátar í nausti

Þorsteinshellir

Norðurhellrar hafa líklega tilheyrt Garðakirkjulandi því við Egilsbúð, sem byggð var út úr konungsjörðinni Hliði, segir: “Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.” Jarðirnar Brekka og Breiðabólstaður eru einnig sagðar hafa selstöður við Norðurhellra.

Norðurhellrar

Norðurhellrar eru nyst í Selgjá. Í gjánni, sem nefnd af Norðurhellragjá, eru leifar af selstöðum 11 bæja í Garðahreppi. Norðurgjárhellrir er í beinu framhaldi af hrauntröðinni, sem myndar gjána. Fyrir munna hans eru hleðslur.
Stærsti hellirinn er svonefndur Þorsteinshellir skammt suðvestar. Við munna hans eru miklar hleðslur, hlaðinn gangur er greinist í tvennt. Annar hluti hellisins hefur væntanlega verið fyrir sauði og hinn, sá stærri, fyrir kindur. Sumir vilja tengja nafnið við Þorstein Þorsteinsson, sem bjó um tíma í Kaldárseli á síðari hluta 19. aldar.
Tveir aðrir hellar eru skammt frá, báðir með hleðslum fyrir. Hvort þessi skjól hafi verið notuð í tengslum við seljabúskapinn eða í annan tíma er ekki vitað. Þau eru öll í landi Urriðakots, en kotið mun hafa haft í seli í eða við Norðurhellragjá. Í Selgjánni eru tvö önnur skjól með hleðslum fyrir.

Heimildir m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. s. 195.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Íslandskort

Eftirfarandi fróðleikur um tiltekin atvik í sögu Íslands birtist í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar árið 1904:
“Fyrst fundið Ísland af Írum á 8. öld. Af Norðmönnum 860.
vikingaskip-221Fyrst varanleg bygð hefst 874.
Fyrsta Kötlugos, er sögur fara af, 894.
Fyrstu lög og alþing sett 930.
Fyrsti lögsögumaður, Hrafn Hængsson; kosinn af lögréttu 930.
Fyrstur trúboði, Friðrik biskup, saxneskur, 981.
Fyrsta kirkja er í ritum talin bygð um 984, að Ási í Hjaltadal, en það mun sanni nær, að Örlygur gamli hafi reist kirkju að Esjubergi nálægt 100 árum áður.
Fyrstur íslenskur biskup, Ísleifur Gissursson, 1054.
Fyrstur fastur skóli á Hólum 1552.
Fyrstur íslenzkur rithöfundur, kunnur, og faðir íslenskrar sagnritunar, Ari Þorgilsson, prestur, f 1067, d. 1148.
Fyrsta Heklugos, er sögur fara af 1104.
Fyrsta klaustur, reist á Þingeyri 1133.
Fyrsta nunnuklaustur í Kirkjubæ í Vestur-Skaftafellssýslu 1186.
hvalreki-221Fyrstur konungur yfir Íslandi, Hákon Hákonarson (kon. Norðmanna 1217-) 1262—63.
Svarti dauði geysaði 1402.
Seinni plágan 1495.
Fyrsta prentsmiðja á Breiðabólsstað í Vesturhópi um 1530.
Fyrstur prentari Jón Matthíasson, sænskur prestur.
Fyrstur lúterskur biskup, Gissur Einarsson, 1539.
Fyrst prentað nýjatestamentið, þýtt af Oddi lögmanni Gottskálkssyni, 1540.
Fyrstur fastur latínuskóli í Skálholti 1552.
Fyrsta ísl. sálmabók, sem til er, prentuð 1555.
Fyrst prentuð biblían, þýdd af Guðbrandi biskupi 1584.
Spítali stofnaður fyrir holdsveikt fólk 1652.
Fyrsta galdrabrenna 1625 (hin síðasta 1690).
Prentsmiðjan flutt frá Hólum að Skálholti 1695, og að Hólum aftur 1703.

Víkingar

Víkingar á nýrri strönd.

Stórabóla geysaði 17o7.
Fyrsta Jónsbók (Vídalíns) kemur út 1718.
Fyrst drukkið brennivín á Íslandi á 17. öld.
Fyrst fluttur fjárkláði til Íslands 1760.
Fyrst drukkið kaffi 1772.
Fyrsta lyfjabúð í Nesi við Seltjörn 1772.
Fyrstu póstgöngur hefjast 1776.
Hið ísl. lærdómslistafélag stofnað í Kaupmannahöfn 1779.
Ákveðið að flytja biskupsstólinn og skólann frá Skálholti til Reykjavíkur 1785.
Verslunareinokunin konunglega afnumin 1787.
Stofnað bókasafn og lestrarfélag á Suðurlandi (í Reykjavík) 1790.
Stofnað “Hið norðlenzka bóklestrarfélag” 1791.

Víkingar

Víkingaskip í legu.

Seinasta löggjafarþing haldið á Þingvöllum við Öxará 1798.
Prentsmiðjan á Hólum flutt að Leirárgörðum 1799.
Landsyfirréttur settur á laggirnar í Rvík 1800.
Fyrsta organ, sett í Leirárkirkju, 1800.
Landið gert að einu biskupsumdæmi 1801.
Hólaskóli fluttur tll Reykjavíkur 1801.
Haldinn fyrsti yfirréttur í Reykjavík 1801.
Latínuskólinn fluttur frá Reykjavík til Bessastaða 1805.
Hið íslenska biblíufélag stofnað 1816.
Hið íslenska bókmentafélag stofnað 1816.
Fyrsti vísir til fréttablaða, Klausturpósturinn, kemur út 1818 (Minnisverð tíðindi ekki talin; þau komu út 1796—1808).
Prentsmiðjan flutt frá Leirárg. í Viðey 1819.
Hið norræna fornfræðafélag stofnað í Kaupmannahöfn 1825.
Búnaðarfélag Suðuramtsins stofnað 1835.
Fyrsti árgangur Fjölnis birtist 1835.

Landnám

Við upphaf landnáms.

Fyrst gefin út Ný félagsrit 1841, rit Jóns Sigurðssonar.
Prentsmiðjan flutt frá Viðey til R.víkur 1844.
Fyrsta alþingi í Reykjavík 1845.
Latínuskólinn fluttur til Reykjavíkur frá Bessastöðum 1846.
Prestaskólinn settur í Reykjavík 1847.
Fyrsti stjórnmálafundur haldinn á Þingvöllum við Öxará 1848.
Fyrsta blað Þjóðólfs prentað 1848.
Hrossasala til útlanda byrjar um 1850.
Prentsmiðja sett á stofn á Akureyri 1852.
Verslunin gefin laus öllum þjóðum 1854.
Fyrsta gufuskip (enskt) kom til Akureyrar 1857.

Landnám

Landnám.

Fyrsta póst-gufuskip kom til Reykjavíkur 1858.
Spítali settur á stofn í Reykjavík 1863.
Forngripasafnið sett á stofn í Reykjavík 1863.
Barnaskóli í Reykjavík stofnaður 1863.
Þjóðvinafélagið stofnað 1870.
Fyrst fluttir inn skotskir ljáir 1871.”

-Heimild:
Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar, 10. árg. 1904, 1. tbl. bls. 3-6.

Landnám

Landnám.

Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Stafnes

Ætlunin var að ganga um bæjarkjarnana sunnan Fuglavíkur og norðan Básenda.
BirtanÝmiss örnefni á svæðinu gefa til kynna sögulega atburði fyrr á öldum, þjóðsagnakennd tákn og miklar mannvistarleifar. T.a.m. má enn sjá búsetu- og atvinnuminjar í Másbúðarhólma.
Haft var og í huga að enn eru ófundnar tvær gamlar selstöður frá Hvalsnesi, sem getið er um í Jarðabókinni 1703. Ekki er ólíklegt að þær leynist í landinu líkt og Sandgerðisselið og Bæjarskersselin hafa gert allt fram til skamms tíma.
Sigurður Eiríksson í Norðurkoti leiddi gönguna. Maðurinn sá þekkir svæðið eigi síður en sína eigin fingur.
Gangan hófst sunnan Melabergs. Eftirfarandi lýsingar eru byggðar á frásögn Magnúsar Þórarinssonar: “
Þegar gengið er með strandlengjunni frá Melabergi að Stafnesi er Markavik á ystu mörkum í norðri, sunnan við Kaðalhamra; byrjar þar Melabergsland. Almenningur heitir allstórt stykki, þar er lágur grjótkampur ofan við sjávarmálið, lágt klettabelti fyrir neðan, uppblástur ofan við kampinn á mjórri ræmu, en grasfletir þar fyrir ofan. Sunnan við Almenning tekur við alllangur og breiður sandur. Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind.

Melaberg

Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér. Sunnan við Lindarsand eru háar klappir fyrst, en svo grasbakkar ofan við sjávarmál; eru bakkar þessir mjög sundur skornir af uppblæstri, enda jarðvegur sendinn og laus. Nokkur garðbrot voru hér og hvar um bakkana, líklega hlaðin fyrir löngu, skepnum til skjóls, enda heita þeir Skjólgarðsbakkar. Fyrir neðan bakkana er fjörufláki allmikill, sem heitir Skjólgarðsfjara. Sunnan við Skjólgarðsfjöru og Skjólgarðsbakka er Melabergsá.

Nesjar

Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali. Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið. Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðráttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Másbúðarhólmi

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefndarmenn að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan, en hinn slapp eftir að hafa skotið einn norðanmannana á flótta.
Fyrir sunnan Skjólgarðsbakka er nokkuð langur og breiður bás inn í landið; heitir það Melabergsá. Hún er þó ætíð þurr nema í hlákum á vetrum. Þá rann þar fram dálítill lækur af mórauðu leysingarvatni ofan úr heiðinni; gat lækurinn orðið farartálmi í svip, en sjatnaði fljótt. Suður frá Melabergsá að Nesjatúngarði eru grasflatir; heitir það Fit; hefir þar verið kúahagi Nesjamanna. Standa þar oft tjarnir á vetrum. Sunnan við ána framarlega stendur Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni. Er tangi þessi enn samfastur við land, en sjór og vindur eyðir grassverðinum frá báðum hliðum, og innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti í sjó á flóði.

Hvalsnes

Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik. Fyrir neðan og norðvestan réttina eru allháar klappir, heita þær Réttarklappir. Sunnan við Réttarklappir gengur út mjög langt rif, enda heitir það Langarif. Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu.

Í Hvalsnesi

Utan við Réttarklappir, norðan við Svartaklett, en innan við Illasker, er bás inn í fjöruna eða djúpt lón, varið fyrir brimi og öllum áttum, nema norðan; ekki hefi ég heyrt nafn á lóni þessu, en mönnum hefir dottið í hug, að þar mætti hafa lítinn vélbát, að minnsta kosti að sumri til, ef tryggilega væri umbúið að legufærum.
Langarif greinist í tvennt að utanverðu. Norðurálman fékk nafnið Castorsrif, eftir að kútter Castor strandaði þar 19. marz 1903. Stór og hár kúlumyndaður haus er fremst á rifi þessu; ber hann nafnið Castorshaus, enda strandaði skipið rétt innan við hausinn.
Fremst á syðri álmunni eru Lögréttastórar og háar klappir, sem aldrei fellur yfir, sléttar á yfirborð, en þverhníptar utan allt í kring, fallegar og áberandi tilsýndar. Þær heita Sundklettur. Sunnan við Langarif, alla leið frá Sundkletti upp að norðvestur horninu á Nesjatúni, liggur svo nefndur Langós; hann er grunnur og þornar alveg um stórstraumsfjöru. Hann var þó stundum notaður fyrir smábáta um vor og sumar, en uppsátur haft við Garðsendann, eins og það var kallað, en það var neðri endinn á túngarðinum norðan við Nesjatúnið. Sunnan við uppsátrið var allhá klöpp og út af henni lágar fjöruflysjar. Er nú komið að Másbúðarhólma.
Þó of lítið sé ég kunnugur sögu Másbúða, sýnist mér þó, að það hafi verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt, og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um Virkishúslanga tíð, stendur á gamla Másbúðalandi. —
Í manntalinu 1703 eru 11 manns á Másbúðum, en Nesjarnar og Melaberg ekki á skrá, enda allt í eyði. Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. En landbrot hefir orðið ákaflegt þarna. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80—100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið þar víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara. Við skulum láta jarðabókina frá 1703 lýsa því, hvernig þá var umhorfs á þessum slóðum, og taka aðeins það er máli skiptir í þessu efni.
„Maasbuder.
… heimræði árið um kring og lending góð og ganga skip ábúanda, þá honum hentar Þar gengur og eitt kongsskip, áttæringur og geta þessi skip naumlega viðhaldizt fyrir vofveiflegum og sífelldum sjávar yfirgangi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
Hvalsnesvörin… Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjávar ágangi og hefir Sjórinn fyrir innan sjötíu ár brotið sig í gegn um túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo að nú stendur bærinn á umflotinni eyju og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo að nú er þar eigi fært yfir með stórstraumsflóði nema með brú, sem hún brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta síns heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peningsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæring Svo að heima við bæinn ekkert vatn er vetur né sumar nema fjöruvatn alleina, sem marg oft á vetur ekki næst fyrir Sjávarísum
… Hagar öngvir vetur né sumar nema fjaran og það, sem ábúandinn leigir af eftirskrifaðri eyðijörð …
Gömlu Nesiar…
SólskuggiGömul hjáleiga frá Másbúðum, langar stundir í eyði lögð, og þykist ábúandinn ekki fyrir utan sinn skaða mega hana aftur upp byggja vegna grasleysis.
Norður Nesiar…
Forn eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Eigandi Kirkjan á Hvalnesi, og er jörðin aldeilis yfirfallin með sandi og stórgrýti og aldeilis óbyggjandi. Þar er hvorki vatn né lending að gagni.
Melaberg…
Eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Jarðardýrleika vita menn ekki Eigandi Kongl. Majestat, og er þessi eyðijörð leigð til Másbúða, item hafa Landamenn þar torfristu fyrir utan nokkra sérdeilis afgift og svo hagabeit í sama landhaga . . .
. . . Þessi jörð [Melaberg] er aldeilis yfirfallin af sandi og grjóti, svo þar er ekkert eftir nema lítil grasnautn, sem Másbúða- og Landamenn brúka, svo sem fyrr er getið. Item brunnur góður [það hefir verið Lindin], en lending eingin. Þar með mega þeir á Löndum og Másbúðum ómögulega missa þessarar beitar; annars mundu báðar þær jarðir varla eða ekki byggjast.
Fram koma þeir, sem þykjast heyrt hafa af gömlum mönnum, að þetta Melaberg hafi til forna bóndaeign verið, og hafi Kongl. Majestat keypt jörðina at Guðmundi nokkrum; skuli svo jörðin lögð hafa verið til Landa og Másbúða ábúanda brúkunar og til þess einkanlega keypt af fyrri eigendum …“

Nýibær

Þarna hefir eyðileggingin verið í algleymingi, bæði af sjávarágangi og uppblæstri. Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutazt frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma. En Norður-Nesjar og Melaberg í eyði og talið óbyggilegt af sandi og grjóti. En þetta hefir að mestu snúizt við og mætti um það segja hið fornkveðna: „Sitt er að jörðu hverri, samt er á öllum búið.“
Melaberg „hefir legið í auðn yfir hundrað ár“ segir jarðabók frá 1703. Það hefir þá fallið í eyði um eða fyrir 1600. Er þá ekki fjarri sanni, að það hafi legið í eyði að minnsta kosti um 250 ár, því að það er fyrst 1838 að það finnst í sóknalýsingu Hvelsnessóknar, en þá búa þar Ólafur Ólafsson og Guðrún Hermannsdóttir kona hans. Ýmsir bjuggu á Melabergi á 19. öld, en stundum var það í eyði þá. Það var talin kotjörð og ábúendur jafnan fátækir. Hefir svo verið fram að síðustu áratugum, þar til dugnaðarmenn þar búandi, fyrst Kort Elisson að nokkru og þó enn fremur Hjörtur Helgason, hafa með nútíma tækni gjört það að stórbýli, sem ber nú 10—12 nautgripi.
SjóhúsNorður-Nesjar, sem var eign Hvalsneskirkju, hafa aldrei byggzt aftur, en þó má enn sjá minnjar þeirra í hrauninu (uppblæstrinum) lítinn spöl suður og austur frá Melabergsá.
Það var sögn eldri manna fyrir 1900, að Nesjar hefðu áður staðið á túnbungu þeirri, sem nú er norðan undir, sem næst miðjum, markagarði þeim, er enn stendur og skilur Landa- og Nesjatún vestanverð. Skilst mér, að þar hafi staðið eyðibýlið „Gömlu-Nesjar“, sem var hjáleiga frá Másbúðum. Jarðabók frá 1703 segir ekki, að Gömlu-Nesjar séu „aldeilis yfirfallnar af sandi og grjóti“ eins og hún orðar það um Norður-Nesjar og Melaberg, heldur hitt, að ábúandi Másbúða vilji ekki byggja hjáleiguna vegna grasnytjanna, sem hann telji sig ekki mega missa. En hjáleigunni hefir efalaust fylgt túnskák úr Másbúðatorfunni, sem mun hafa verið allt núverandi Nesjaland með túni út að Hólma og efalaust á flesjunum norður að Langós og suður að Landa mörkum.
BrúÁrið 1758 eru Nesjar komnar í ábúð, og getur hafa verið fyrr, en bækur vantar frá því tímabili. Þar búa þá Þórður og Geirlaug Birtingsdóttir (bætt við síðar í bókina). Verður ekki meira um þau sagt, því föðurnafn bónda vantar og aldur. Sama ár búa á Másbúðum Erlendur Jónsson og Guðlaug Þóroddsdóttir með 10 manns í heimili, á ýmsum aldri. 1762 er Erlendur þessi og Guðlaug komin að Nesjum og hafa líklega flutzt þangað 1759, því þá hverfa Másbúðir úr sóknalýsingu Hvalsnesprestakalls og er aldrei getið síðar fyrr en 1849, að þar eru Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir, fyrstu búendur á Másbúðum eftir 90 ára auðn. Það er auðsætt, að þegar sjórinn hafði afhólmað býlið, var forn gifta Másbúða um garð gengin. Margir voru búendur á Másbúðarhólma síðari hluta 19. aldar, allir í tómthúsi; flestir bjuggu stutt þar og stundum var Hólminn í eyði.
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson f. í Kvíavöllum í Kirkjubólshverfi 24. ágúst 1847. Foreldrar hans voru Jón Oddsson og Guðrún Skíðadóttir, Loftssonar, hjón, búandi þar. Bústýra Jóns á Hólmanum, eins og hann var þá oftast nefndur af nágrönnum, var Guðrún Níelsdóttir f. 8. júlí 1843 í Hólmahjáleigu í Landeyjum, en var uppalin á Arnarhóli. Foreldrar hennar voru Níels Þórarinsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Guðrún var ekkja Eyjólfs Eyjólfssonar í Norðurkoti á Miðnesi, er hún fór að búa með Jóni. Þau bjuggu á Hólmanum frá 1884 til 1895 en byggðu þá nýbýlið Akra í suðausturhorni á Landatúni, enda hét sá túnpartur Akrar, sem þau byggðu á.
LeturEinn son áttu þau Jón og Guðrún, er Guðjón heitir, hann er fæddur í Höfnum suður, en ólst upp á Hólmanum. Hann er nú (1955) 73 ára að aldri (f. 10. 3. 1882) búsettur í Reykjavík, elzti starfandi sjómaður þessa lands og var af því tilefni heiðraður nýliðinn sjómannadag. Guðjón einn er enn á lífi af öllum þeim fjölda manna, sem átt hafa heimili á Másbúðum.
Másbúðarhólmi er einn samfelldur klettur, að mestu þverhníptur utan, nema nyrðri hluti austurhliðar, þar er malarhalli. Lengd Hólmans frá norðri til suðurs mun vera 80—100 faðmar, en breidd 30—40 faðmar. Bærinn stóð á miðjum Hólmanum, þar sem hann er hæstur, en að öðru leyti ekki hærri yfir sjávarmál á stórstraumsflóði en svo, að í óvenju-háflæðum með foráttu brimi og útsunnan fárviðri gengu sogin yfir allan Hólmann og fossuðu niður að innanverðu, en sjórokið buldi á þekju baðstofunnar, svo að full ástæða var til að óttast að allt riði niður þá og þegar, enda var þá flúið á land undir næstu nótt. Þó hefir flóð aldrei alveg grandað bænum, svo vitað sé.
MásbúðarvörVarla verða nú séðar minnjar eftir forna útgerð á Másbúðum. Þó er vik eitt inn í klappirnar, nefnt Gamla-Vör eða Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar — 16 hundruð og eitthvað —. Guðjón, sá er áður var nefndur, segist eitt sinn, rétt eftir 1890, hafa tekið sér fyrir hendur að róta upp í gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæ-inn, og fann þar heilmikið af brotnum krítpípum, en þær voru talsvert notaðar af reykingamönnum fyrrum, þær voru sélegar og ódýrar, en brothættar mjög. Einnig fann hann þar gamalt signet, en man ekki stafina; svo fór það í glatkistuna.
Nesjabóndinn, Guðmundur Lafransson, fékk nokkrar heysátur af Hólmanum frá því hann kom þangað 1882, en það fór árlega minnkandi, því sjórinn brenndi holur í grunnan grassvörðinn á klöppinni, og um aldamót var hætt að nytja Hólmann.
Svo er að skilja á jarðabók 1703, að þar hafi eigi annað vatn verið en fjöruvatn. Brunnhola var þó til á síðustu árum byggðar þar, en vatnið varla nothæft vegna seltu; fjöruvatn rann þá enn með lágsjávuðu undan klöppunum, en reyndist eigi heldur gott. Varð því oftast að sækja vatn heim í Nesjabrunn.
Í HvalsnesfjöruÞað var sögn gamalla manna, er mundu þá tíma, að Sigurður. B. Sívertsen, merkisprestur á Útskálum, hafi um og eftir miðbik 19. aldar, gert út áttæring á Másbúðum fyrri part vetrarvertíðar, en tók skipið heim er netjavertíð byrjaði í Garðsjó. Hér var til systur að sækja um uppsátrið, en madama Helga Brynjólfsdóttir átti séra Jón Steingrímsson, sem fluttist að Nesjum, er hann hætti prestskap í Hruna (d. 1851). Madama Helga bjó í Nesjum fram yfir 1880, að hún fór til Þórunnar systur sinnar í Kirkjuvogi og dó þar 1882.
Fram um 1890 voru tveir smáir grashólmar eftir milli lands og Hólma, en eyddust þá óðfluga og voru algjörlega horfnir fyrir aldamót. Tvennar, fremur smáar klappir stóðu þá upp úr á venjulegu flóði og milli þeirra lá gangbrúin í þrennu lagi, hin fyrsta frá landi út í næstu klöpp, önnur milli klappanna, og hin þriðja út í Hólmann og var sú lengst. Ekki var brúin í beinni línu, því klappirnar stóðust ekki á, og lengdi það vöðulinn, en hægara var um stefnuna, þegar klappirnar voru upp úr. Gangbrýrnar voru endurbættar á hverri vertíðarbyrjun. Þær voru allþykkar, en máttu ekki vera háar, þá braut brimið þær niður og ruglaði hleðslunni, því straumþungur sogadráttur er í brimi milli lands og Hólma. Þetta var skipgönguleið Nesjamanna, meðan uppsátur var á Másbúðarhólma, svo ill sem hún var, einkum í stórstrauma; þá var skipgangan á flóði kvölds og morgna. Þegar illt var fyrir dýptar sakir, vóðu stundum tveir saman, studdu hvor annan og fundu þá betur fótum sínum festu á þessum óslétta grjóthrygg undir djúpu vatni, en hyldýpi báðum megin.

Útihús

Aldrei mun þó hafa orðið slys af þessu, og má nærri furðulegt heita, að enginn skyldi ganga út af í illviðri og dimmum, svo óþægilegt sem þetta var. Bátar voru að vísu í Hólmanum og annars oftast við hólinn í túninu fyrir ofan kampinn, en til þeirra var aðeins gripið, þegar sogadráttur var, því þá var með öllu óvætt, einkum á yzta partinum.
Másbúðarsund er Keilir um Másbúðarvörðu, og ber þau mið í sem næst miðjan Sundklett, sem er þá undirmið, ef Keilir er dulinn. Norðan við Másbúðarsund eru Skjálfandar ; þeir eru á grynningahryggnum, stórir og miklir boðar, en hjaðna snögglega þegar dýpkar, niður í Álinn. Sunnan við Másbúðarsund er Flagan, stór boði, sem byrjar djúpt að falla, en er ekki uppi jafn snemma og Skjálfandar. Meðan brim er ekki stórkostlegt hjaðnar hún niður nokkuð frá landi, en í foráttu veður hún alla leið í land, upp á Landafjöruna.
HvalsnesFlest skip, sem voru í Hvalsnespollum eða Stafnesdjúpi og áttu heima norðar en í Hvalsneshverfi, fóru inn Másbúðarsund og svo norður Álinn, Virkisvörðu um Moshús. Þau, sem áttu lendingu fyrir norðan Eyri, fóru Eyrarsundin, oftast Músasund.
Nesjaskipið, sem hafði uppsátur á Másbúðarhólma, fór Másbúðarsund. Er það kom inn úr sundinu, sveigði það suður á við, þar til Nesjabærinn eins og sat á Hólmataglinu (suðurendinn); var það miðið á ósnum, milli tveggja hnöttóttra skerja, sem kölluð voru Suður- og Norðuróssker. Rétt utan við ósinn er þarahvirfill, sem brýtur á, ef brim er að ráði; verður að fara fyrir norðan hann og róa inn undir honum á ósmiðin. Einnig er á ósnum sjálfum skakkstreymi eitthvert, og verður að halda sig sem næst suðurskerinu. Kunnugustu menn hafa komizt í kröggur við norðurskerið, svo mjög sækir þangað, ef ekki eru vakandi gætur á hafðar.
Allstór pollur er fyrir innan ósskerin, djúpur og hreinn, varinn smáskerjum allt í kring. Ætíð flýtur upp í vör, og gott er þar á land að leggja, hreinar klappir og möl. En lá var þar talsverð um flóðið, ef brim var. Það kom fyrir, ef þó var talinn fær sjór, að skipið var sett inn af Hólmanum og róið út sunnan við taglið, því nóg var dýpi um flóðið. Sömu aðferð varð einnig að hafa, þegar að var komið, ef lá var til baga.
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Það var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.

Nesjabændur höfðu útgerð sína á Másbúðarhólma til 1903, en þá þótti eigi lengur unnt að hafa þar útgerð, vegna óþægindanna við skipgönguna um flóð. Var þá gjört uppsátur í Réttarvikinu, sem áður er nefnt. Í staðinn fyrir að áður var vikið suður af sundinu, þegar lent var á Hólmanum, var nú vikið af Másbúðarsundi norður á Alinn og róið upp fyrir norðan Sundklett, Castorshaus, Illasker og Svartaklett að Réttarklöppum og fiskinum þar kastað á land. Nokkur sjávarhús voru byggð þar. En þetta stóð ekki nema fáein ár; um eða eftir 1920 lagðist útgerð í Nesjum niður fyrir fullt og allt.
SjóbúðRúm 50 ár eru síðan lauk útgerð á Másbúðarhólma. Hefir brimið glingrað við gangbrautirnar síðan, án nokkurs viðnáms af mannanna hendi, enda svo eyddar orðnar, að aðeins má sjá, hvar þær hafa verið. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt. Kampurinn fyrir ofan er að hlaðast upp og færast upp á túnið og hefir þegar hvolft sér nokkra faðma inn yfir háan túnbakkann, sem allur var grasi gróinn um aldamót. — En Másbúðarhólmi er harður í haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.”
Magnús Þórarinsson segir í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi“, frá Hvalsnesströndinni: “Í mjóu fjörunni utan við Busthúsalón er dálítið sker ílangt, mætti eiginlega kallast rif. Það snýr til austurs og vesturs eða að og frá landi. Það er nokkuð hærra en fjaran í kring, fer varla í kaf á smástraumsflóði og þess vegna þanglaust ofan. Er malarhryggur efst, rásir eru báðum megin, og er þarna mikil flæðihætta. Sker þetta heitir Barnhólmi. Tökum eftir nafninu, ílangt sker í fremstu fjöru heitir hvorki rif eða sker, heldur Hólmi. Þarna hefir auðvitað verið grashólmi, þó enginn viti nú, hvenær hann eyddist að fullu. Barnhólmi er ekki heldur ýkjalangt fyrir utan Busthúsahólmann stóra, sem nú er að eyðast. Nafnið bendir líka til einhvers í sambandi við barn, enda talið að barn hafi farizt þar, en enginn mun vita það með vissu. Hitt er víst, að um miðjan Barnhólma eru fjörumerki milli Busthúsa og Hvalsness.
Við suðvesturhorn Nýlendutúns (sem er sunnan við Busthúsatún) byrjar Hvalsnestangi, það er dálítið landsvæði sjávarmegin við byggðina. Skiptast þar á tjarnir og þýfðir móar. Þar er kúabeit, einnig hesta og sauðfjár að nokkru. Brattur malarkampur er umhverfis allan tangann, bæði norðan og vestan. Gengur kampurinn í sljótt horn, er skagar til norðvesturs. Norðan undir kampinum er lág þangfjara allt norður að Barnhólma, en vestan við kamphornið eru Skollaklettar, hár strýtumyndaður stór klettabálkur, rétt um flæðarmál. Skollaklettar eru ljótir, draugslegir og óhugnanlegir. Þegar lagt er saman svipur og nafn klettanna, koma forynjur í undirvitundina. Sunnan við þá er Skollaklettavik, en norðvestan við þá eru Strandklappir. Það er langur og allhár fjörubálkur, þverhníptur fremst. Suðvestan í Strandklöppum er Strandklappavik, er ætíð hvítur sandur í viki þessu.
Ærhólmar

Framan við strandklappir er hnöttótt sker, hátt, bert og einstakt; heitir það Æðarflös. Róa má opnum bát milli Klappar og Flasar í brimlausu. Rif eða lágur grandi liggur frá Strandklapparviki út að Æðarflös; heitir það Sölvarif. Flúðir eru margar kringum Æðarflös, vaxnar þönglum og þaraskógi; heita þær Strandklappaflúðir. Norðaustan við Strandklappir er bogadregin vík utan við fjöruna; heitir það Strandklapparvík. Sunnan við Skollaklettavik er Moshúsafjara, suðvestan í Hvalsnestanga. Sunnan til í fjörunni er nokkuð breið vík, sem heitir Fúla, en hár og brattur kampur er fyrir ofan. Fram af Fúlu er sker, oftast umflotið. Það heitir Bleikálusker. Sunnan við Fúlu eru í flæðarmáli svo nefndar Fúluklappir. Sunnan við klappir þessar er gömul lending, sem kölluð er Stokkavör. Enginn veit, frá hvaða tíma hún er, en hefir verið mikið notuð. Það sýna hin greinilegu kjölför, sem enn eru glögg í klöppum þar. Á síðari árum var þó stundum fiski kastað af í Stokkavör, því þar var hægari uppburður en í bratta kampinum í réttu vörinni. Einnig mun stórskipin hafa verið sett í hróf að vertíðarlokum upp úr Stokkavör; það var hægari setning þar. Fast sunnan við Stokkavör eru háar og miklar klappir, sem heita Stóru-Klappir. Fram af klöppunum er fjörutangi, sem tilheyrir Smiðshúsum, en sunnan við Stóru-Klappir er lending Hvalsnesinga. Sunnan við lendinguna er einnig Smiðshúsafjara á smáparti. Suður frá gamla Gerðakoti liggur hár og mikill stór malarkampur á dálitlum spotta. Fyrir ofan kampinn er nokkuð stór ílöng tjörn, heitir hún Hrossatjörn.

Hólakotsbót

Fyrir neðan kampinn er Gerðakotsfjara. Sunnan við hana er Nýjabæjarfjara. Fram af henni sunnan til er Hásteinn, það virðist vera einn stór klettur fremst á löngu rifi, sem heitir Hásteinsrif. Er rif þetta fjörumerki milli Nýjabæjar og Nýlendu. Hásteinn er góðan spöl fyrir utan allar aðrar fjörur á þessu svæði og svo hár, að á hann sést með hálfföllnum sjó. Allt í kring um hann eru þarahvirflar, sem mjög brýtur á í brimi. Sunnan við Nýjabæjarfjöru er Markaklöpp í flæðarmáli, og sker er þar fram af Nýjabæjarfjöru, sem heitir Miðsker. Sunnan við Markaklöpp eru Litlu-Skollaklettar, utan við flæðarmál, svartir og þanglausir. Lítið eitt sunnar er gamalt byrgi á bakkanum, kallað Nýlendustekkur; þar fram af átti Nýlenda reka og þangfjörur. Vík nokkur er þar fyrir sunnan, kölluð Ásuvík. Fékk hún nafnið, er kútter Ása strandaði þar 9. október 1919. Er þá komið að Ærhólmum, sem eru þrír grasi grónir höfðar í röð frá norðri til suðurs. Heita þeir Nyrzti-, Mið- og Syðsti Ærhólmi; er hinn síðast nefndi laus við land, en hinir samgrónir bakkanum. Illasker er fram af Ærhólmum, mjög hættulegt flæðisker.
Sunnan við Stafnesskerið er Mjósund. Frá Gerðakotskampi, sem er fyrir neðan Hrossatjörn, alla leið að Stafneshverfi, eru grasbakkar ofan við sjávarmálið. Þó hefir sjórinn borið nokkuð af grjóti upp á bakkana. Frá bökkunum upp að hrauninu (uppblæstrinum) er allbreið valllendisræma, smáþýfð á pörtum. Heitir það Móar.
Hár hóll, strýtumyndaður, er í Smiðshúsatúni, aðeins til vinstri handar, þegar gengin er sjávargatan frá Hvalsnesi niður að naustum þar. Heitir hann Virkishóll. Á hólnum er allmikil grjótvarða, kölluð Virkisvarða. Í vörðuna er festur staur og efst á honum er myndarlegur þríhyrningur af tré. Annað merki af sömu gerð er á kampinum norðan við naustin. Þetta eru sundmerkin á Hvalsnessundi. Norðan við sundið er stór boði, sem heitir Bleikála, hann fellur til austurs, heldur frá sundinu og gengur upp á Moshúsafjöruna (Bleikálusker). Sunnan við sundið er brimsvaði mikill á sífelldum þarahvirflum kringum Hástein, sem áður var nefndur, og er þessi brimsvaði samfelldur um alla Hólakotsbót (Bótarboðar. En sá boði, sem næst gengur sundinu, heitir Þyrill.
Sundið var oftast tekið á miðinu Valahnjúkar, þó stundum utar, og því haldið eftir áður greindum merkjum, þar til Heiðarvörðu (fyrir ofan Hólakot, nú horfið) ber í vörðubrot á nyrzta Ærhólma. Er þá haldið á bæinn Gerðakot (nú horfið) og því haldið, þar til kirkjuna ber í syðsta sjávarhúsið fyrir ofan vörina. Er sú stefna beint á lendinguna. Þessi leið virðist vera hrein; þó er eitt að varast. Suður úr fjörutanganum, sem gengur fram af Stóru-Klöppum, er grynnsli, en austan við þetta grynnsli og aðeins lengra úti í lóninu er flúð, sem kemur upp úr um stórstraumsfjöru, hún heitir Vatnasker. Varast verður að fara nokkuð norður af merkjum vegna þessara grynninga, ef lágsjávað er.
GrundTvær eru lendingar þarna og voru báðar notaðar á vetrarvertíð. Í Hvalsnesvör lentu skipin frá Busthúsum, Nýlendu, Moshúsum, Nýjabæ og Hvalsnesi. Vörin hefir einhvern tíma verið rudd inn í stórgrýtisurð, sunnan og innan við Stóru-Klappir. Mjög er þar bratt upp að setja, og var oftast bundið fram af skipunum, þegar þau stóðu neðan í kampinum, því þau gátu vegna brattans runnið sjálf til sjávar við minnstu hreyfingu. Væri von veðurbreytinga, voru þau sett upp á flórinn við sjávarhúsin.
Í svonefndu Gerðakotsviki lentu skipin frá Gerðakoti (og Landlyst, þegar útgerð var þar). Vik þetta er nokkrum föðmum sunnar en aðalvörin og beint upp af lóninu, sem er fyrir framan lendingarnar. Þar var lent í malarkampi, og skipin sett þar upp, en færð í skjól við sjávarhúsin, ef hætta vofði yfir af  háflæði.”
SigurðurSigurður gekk um og nefndi einstakar tóftir með nafni, s.s. Garðhús, Tjörn, Hlið, Smiðshús, Moshús, Nýjabæ og Gerðakot. Sunnar eru tóftir Móabæjanna.”
Um Stafnes segir Magnús í lýsingum sínum: “S
yðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: “Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í StafnesStafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
StafnesVíkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
StafnesvörSpöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót.
Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“, og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik, sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
StafnesvitiMá nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson.  Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús (44a), sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi.

Stafnes

Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi. Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin. Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –

Sjóbúð

Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin. Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur.

Stafnes

Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
StafnesströndEins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann.

Varða

Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum. Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
RefagildraHvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.

Þá var upplandið skoðað m.t.t. hugsanlegra selja. Við þá skoðun fannst fallega hlaðin refagildra.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Melaberg, Nesjar, Hvalsnes og Stafnes
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 131-133.

Stafnessól

 

Lækjarskóli

Braggar og herminjar
U.þ.b. 12.000 braggar voru byggðir af Bretum og Bandaríkjamönnum á stríðsárunum og um 1000 hús úr timbri og steinsteypu fyrir eldhús og böð.

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga.

Átta mánuðum eftir að herir Hitlers gerðu innrás í Pólland 1939 urðu Íslendingar varir stríðsins með beinum hætt. 10 maí 1940 fylltist landið Breskum hermönnum og hófu að koma sér fyrir í einföldu húsnæði sem við þekkjum sem bragga. Hafnarfjörður fór ekki varhluta af þessari innreið hermannanna frekar en önnur bæjarfélög landsins og voru þessir braggar niðursettir hér og hvar í bænum þó höfundi því miður sé ekki kunnugt hvar né heldur hafi undir höndum haldgóðar heimildir um staðsetningu bragganna í bænum. Sem gaman væri. Það í sjálfu sér breytir ekki staðreyndinni að í bænum voru herbraggar svipaðrar gerðar og annarstaðar þekktist. Breska og bandaríska herliðið reisti alls um 12.000 bragga af öllum stærðum og gerðum í landinu auk um 1.000 smærri bygginga úr timbri og steini sem einkum þjónuðu sem eldhús og böð.

Urriðaholt

Langeyri – herminjar.

Þó vissulega megi víða sjá ummerki veru Breskra og síðar Bandarískra hermanna á Íslandi er flest samt horfið og mönnum hulið. Bestu vaðveitu braggaminjarnar á Íslandi eru í Hvalfirði í eigu Hvals hf sem hann lengi hefur notað fyrir starfsfólk sitt á hvalvertíðum.
Til að mynda var því alltaf haldið fram að á lóðinni bak við húsið Kóngsgerði, Hellisgata 15, áður Kirkjuvegur 19, hafi verið herbraggi, eða braggar, sem hermenn bjuggu í á stríðsárunum á Íslandi þó engin ummerki væru um þá í tíð höfundar á þessum stað.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Á svokölluðum Einarsreit við Strandgötu voru nokkrir svona herbraggar. Einnig var við Vesturkot á Hvaleyri niðurgrafið manngengt byrgi sem hægt var að komast niður í á einum stað. Byrgið vísaði til vesturs og gátu hermennirnir sem þar voru fylgst náið með skipa- og bátaumferð og byrgið reist í þeim tilgangi. Byrgi þetta varð síðar eitt af leiksvæðum hvaleyskra krakka sem bjuggu þar á sjötta áratugnum. Og þá vitaskuld umbreyst í árvökula hermenn og herkonur sem létu ekkert markvert fara framhjá sér sem á sjónum í kring gerðist og flaut. Byrgið vísaði til vesturs og var ágætlega staðsett til að fylgjast með báta- og skipaferðum. Hvort byrgi þetta sé enn þarna veit höfundur ekki en dregur stórlega í efa að svo sé. Herbröggunum var ” dritað niður ” hvar sem slíku var við komið og að minnsta kosti í Reykjavík risu sérstök braggahverfi þó ekki hafi höfundur heyrt á þau minnst um Hafnarfjörð.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Flóttamannavegur ofan við Hafnarfjörð er ein herframkvæmdin og kostuð af hernámsliðinu til að koma því undan innrás Þjóverja, ef af yrði, sem menn auðvitað vissu ekki hvort gerðist. Við veglagninguna vann líklega fólk frá Hafnarfirði. Flóttamannavegur er enn ekin og nú búið að leggja bundnu slitlagi og bæta hér og þar. Frá fyrstu tíð hefur vegurinn verið talsvert notaður. Flóttamannavegur er einn minnisvarði merkilegs tímabils í merkilegri sögu Hafnarfjarðar.

Kolakynding

Kol

Kolakynding.

Reikna má með að allir sem eitthvað þekkja til Hafnarfjarðar hafi heyrt getið Gúttós Suðurgötu 7. 17 desember 1886, er hús Góðtemplara í Hafnarfirði var vígt, var haft eftir, líklega hafnfirðingi, að byggingin gæti rúmað alla hafnfirðinga í einu. Salur hússins tók 300 manns og yfirlýsing manneskjunnar ekki út í bláinn. Íbúatala Hafnfirðinga árið 1886 er 400 manneskjur. Gúttó er vegleg bygging og ekkert undarlegt þó vakið hafi umtal. Ekki svo að skilja að önnur hús hafi ekki líka verið vegleg en talsvert minni og sum smá með mörgum manneskjum í. Þess skal þó getið að hús hafnfirðinga voru í engu öðruvísi húsum annarra landsmanna á þessum tíma.
Gúttó var til að byrja með klætt viðarborðum á hliðum og asfaltsteinpappa á þaki sem síðar var skipt út fyrir bárujárnsplötur á bæði þak og hliðar. Gúttó er fyrsta hús Góðtemplara sem félagið reisti undir starfsemi sína í landinu.

Jóhannes Reykdal

Í heimildum um húsið segir að einn ofn hafi verið til upphitunar og staðsettur í salnum. Vísað er á kolaofns og ekki annað að sjá að en að hafi verið eina upphitun þessa mikla húss. Jóhannesi Reykdal reisti árið 1904 rafstöð eftir að hafa virkjað lækinn í Hafnarfirði. 12 desember sama ár lagði Jóhannes við annan mann rafstreng inn í 15 hús sem eftirleiðis nutu góðs af raflýsingu frá rafstöðinni á Hörðuvöllum. (Var þessi rafstöð Reykdals kannski staðsett neðan við brúnna við Austurgötu? Minnir að hafa heyrt það, án þess að fullyrða neitt um.)  Tvö þessara fimmtán húsa sem nutu rafljósanna var Gúttó og Barnaskólinn, ekki Lækjarskóli, ásamt fjórum götuljósum. Þeim fyrstu í Hafnarfirði.
Á þessum tíma er hitun húsnæðis fengin með kolum og þurfti að tendra eld í sérstakri kolamaskínu. Einkennismerki kolatímabilsins voru allir þessir skorsteinar á þökum húsa spúandi upp kolsvörtum kolareyk. Seinna komu skorsteinarnir sér vel er sjónvarpsvæðingin hélt innreið inn í bæinn með öllum sínum sjónvarpsgreiðum sem allar þurftu trausta festingu. Þá hafði kolaupphitun sumpart vikið fyrir olíukyndingu sem höfundur veit ekki hvenær hófst en veit þó að árið 1970 eru enn allmörg hús í bænum kynnt upp með þessum kolum, ef marka má frétt sem greinir frá að eftir að “Kol og Salt” lagði upp laupanna, skyndilega að því er virðist, hafi visst ófremdarástand skapast. Þá nefnilega hættu Hafnfirðingar, þeir sem enn notuðu kol, að fá þau send heim til sín og þurftu eftirleiðis sjálfir að sækja sér til Reykjavíkur. Og sumir bíllausir. Eina sem bíllaus gat gert, oft gamalt fólk, var að kaupa akstur sendibíls og láta sækja fyrir sig kolin. Í fréttinni kemur fram að líklega sé hitunarkostnaður íbúðarhúsa orðin sá dýrasti sem í boði sé ef kynnt er með kolum.
Þó ekki muni höfundur hvenær Hellisgata 15, Kóngsgerði, heimili höfundar frá 1959-1976, fékk sína olíukyndingu mann hann samt vel eftir kolakyndingunni í kjallaranum þar, fullum kolapokum, kolamokstri og hreinsun kynditækis sem fylltist sóti og þurfti að losa til að stíflast ekki. Og væntanlega muna margir hafnfirðingar eftir Inga blessuðum sótara sem öðru hvoru kleif stiga upp á þök hafnfirskra húsa og renndi kústi niður strompa og sást aldrei öðruvísi en sótsvartur frá hvirfli til ylja?

Lækjarskóli

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Bygging Lækjarskóla var talin fullkomnasta barnaskólabygging í öllu landinu. Hafði smíði hússins þá kostað 200,921 krónu og 49 aura og samanstóð af þrem kennslustofum og rúmgóðum göngum. Strax í upphafi var gert ráð fyrir stækkun hússins og ráðist í hana 1945 og 1946 og henni lokið haustið 1947 á 20 ára afmæli skólans. Með viðbyggingunni bættust fimm nýjar kennslustofur við. 1959 var byggt við fimmleikahús skólans. Við sjáum að Hafnfirðingar hafa á ýmsum stöðum fyrstir riðið á vaðið og ekki bara um útgerð togara heldur á ýmsum öðrum sviðum líka.

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Frá upphafi hafði Lækjarskóli einvörðungu verið barnaskóli en frá árinu 197o voru einnig 1. og 2. bekkir unglingadeildar þar, og var fyrsta unglingaprófið tekið 1971.

Þorgeir Ibsen

Þorgeir Ibsen.

Í frétt um atburð þennan í október 1977 kemur fram að formaður fræðsluráðs Hafnafjarðar hafi afhent Þorgeiri Ibsen skólastjóra leyfi sem heimilaði viðbótarstækkun við skólann og að skóflustunga hafi verið tekin ” Vegna brýnnar þarfar, ” eins og sagt var, sem höfundur minnist ekki að hafi orðið af og veltir því fyrir sér hvort hætt hafi verið við framkvæmdina og hvar sú viðbygging þá sé? Þekkir reyndar ekki hvenær ákvörðun var tekin af bæjaryfirvöldum um byggingu nýja Lækjarskóla. En markmiðið með viðbótinni á sínum tíma var að færa 9. bekk sem á þessum tíma var í Flensborg niður í Lækjarskóla. Og fylgdi með í fréttinni: “Verður Lækjarskóli þá fullkominn grunnskóli.”

Þorgeir Íbsen sem lengi var skólastjóri í þessum skóla og nemendur eiga margar góðar minningar um rakti sögu skólans á þessum merku tímamótum.
En allt hefur sinn tíma og er gamli Lækjarskóli í dag ekki notaður sem barnaskóli heldur fræðasetur og annað skólahús, með sama nafni, risið við Hörðuvelli. Ennþá er “Sá gamli” eins útlítandi eins og við flest munum hann og rennur lækurinn fyrir framan með sínum öndum líkt áður gerðist. Líka er ánægjulegt til þess að vita að starfsemi sé í húsinu. Allavega öðru hvoru, eftir því sem höfundur best veit.

Sundhöll Hafnarfjarðar vígð 1943

Sundlaug

Sundlaug Hafnarfjarðar fyrrum – Hallsteinn Hinriksson kennir sund í fjörunni neðan núverandi Sundhallar Hafnarfjarðar.

Hið mikla mannvirki Sundlaug Hafnarfjarðar var vígð 1943. Laugin var útilaug sem sjór var notaður í sem áður hafði verið hitaður upp í þar til gerðum upphitunarbúnaði. Athöfnin fór fram við hátíðlega athöfn og fjölmenni sem kom saman í hrauninu bak við húsið. Stundin hefur áreiðanlega vakið verðskuldaða athygli í þessum fyrrum stórtæka útgerðarbæ Hafnarfirði sem um margt reið á vaðið í framkvæmdum.
Lengi hefur heitt vatn runnið úr iðrum jarðar. Um 13 laugar er vitað að voru til og að minnsta kosti ein enn við lýði. Snorralaug í Reykholti og sú fyrsta sem getið er um.
Að vísu urðu hafnfirðingar ekki fyrstir til að reisa alvöru sundlaug fyrir sitt fólk. Reykvíkingar voru nokkrum árum á undan með Sundhöll Reykjavíkur. (Fyrsta steypta sundlaugin reis í Laugardal ” við Reykjavík “, eins og stendur í heimildum, 1908.) Sundhöll Reykjavíkur er vígð 23 mars 1937 og kostaði 650 þúsund krónur.

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar.

Sex árum síðar, 1943, er í Hafnarfirði vígð 25 metra útilaug sem upphitaður sjór er notaður í sem mikill og fullkominn tækjabúnaður inn í húsinu sjálfu sá um að velgja og gera laugargestum sundsprett sinn þægilegri. Sundlaug þessi var fyrsta sundlaugin sem reis í Hafnarfirði og stendur enn á sama stað, Krosseyrarmölum. Verkið gerist á miðjum stríðsárunum með alla þá óvissu í lofti sem þeim fylgdi. Byggingin, held ég, tafðist vegna stríðsins en samt haldið áfram þó hægar gengi uns verkslokin blöstu við 1943, eins og áður segir. Þetta fær sagt okkur allmikið um hug manna sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi byggingarinnar að hún þyrfti að tilheyra bæjarfélaginu og nýtast því Undir sundkennslu, að dæmi sé tekið. Margt bendir til að menn hafnfirskir hafi horft töluvert fram á veginn með sumt og verið tilbúnir fyrir margt á sviði framkvæmda.
Hafnarfjörður1953 var sundlaug Hafnarfjarðar umbylt og stórlega endurbætt er byggt var yfir hana.
Hvenær menn hættu að notast við sjó veit höfundur ekki en veit þó að í áratugi var notast við heitt vatn sem í fyrstu var, eins og sjórinn, hitað upp í tönkum og veitt þaðan út í laugina.
Hvort vatnstankarnir voru kyntir upp með kolum, olíu eða rafmagni veit höfundur ekki heldur um en getur sér þess til að jafnvel öll þessi efni hafi þjónað tilgangi á undan hitaveitunni sem lögð var í húsið eftir 1970, er það ekki rétt?, og önnur hús í bænum sem leysti olíukyndinguna og olíubílanna af hólmi sem og leystu kolinn af og er saga út af fyrir sig sem gaman væri að skoða.
Og hver mann ekki eftir skiltinu í sturtuklefa Sundhallar Hafnarfjarðar sem minnti laugargesti á að fara sparlega með heita vatnið og sápa sig með skrúfað fyrir krananna?

Togarinn Maí árið 1960

Maí

Togarinn Maí GK 346, fánum prýddur á Hafnarfirði. Lítill vélbátur [dráttarbátur] við hlið hans. Suður-kaupstaðurinn í baksýn.

18 maí 1960. Togarinn Maí GK 346 kemur í fyrsta sinn inn til Hafnarfjarðar. Sjá má mikinn mannfjölda taka á móti skipinu.
Engum blöðum er um það að fletta að mikil breyting hafi átt sér stað um alla umræðu þegar menn voru betur tengdir uppruna sínum og vart til sá maður íslenskur sem ekki vissi hvaðan peningurinn kom að var beintengdur sjónum, sókn báta og togara og mikilvægi sjómannastéttarinnar í landinu. Og auðvitað líka útgerðar og útgerðarmannanna.
Þetta má vel sjá með því að glugga í gömul blöð og lesa skrif blaðamanna sem þá voru við störf á dagblöðunum hve þeir voru vel með á nótunum og fjölluðu um þessu mál með greinilegum áhuga á verkefninu.
Og af hverju skrifa þeir eins og þeir skrifa. Svarið er augljóst. Þeir vildu það sjálfir og þjóðinni fýsta að heyra um málið og fá fréttir af skipum, aflabrögðum, gangi veiðanna, sölum togaranna á erlendri grund á haustin, sem var svona tími siglinganna, og ýmsu því sem tengdist sjó- og sjósókn.

Maí

Togarinn Maí.

Engan þarf í skjóli svona upplýsinga að undra móttökurnar sem sjá má af komu nýsköpunartogaranna og svo stóru 1000 tonna síðutogaranna Þýskbyggðu er þeir fánum prýddir sigldu til sinna heimahafna 1960.
Sjálfur var höfundur, þá sex ára gamall, viðstaddur komu togarans Maí GK 346 ásamt foreldrum sínum og mann vel eftir því er reisulegt skipið sigldi milli gamla hafnagarðsins og þess nýja og tók stefnuna á bryggjuna sem kölluð var ” Gamla bryggja ” í bænum og lagðist þar. Á bryggjunni var grúi manna, kvenna og barna að vart rúmaðist þar fleira fólk.
Hvort allir viðstaddir fóru í siglinguna sem boðið var upp á út á flóann veit höfundur ekki en mann vel eftir talsvert stórum hópi fólks um borð.
Viðbrögð hafnfirðinga við komu togarans er ágætt merki til okkar um þennan áhuga bæjarbúa og hve menn almennt voru vel með á nótunum í þann tíð.
Í dag er þetta ekki svona. Án þess að lagt sé neitt mat á það hvort sé gott eða slæmt. Aðeins bent á staðreyndina um að hugsunin sé orðin önnur.
Skoðum tvær umfjallanir úr gömlu dagblaði tengd komu togarans Maí GK 346.
“Alþýðublaðið 13 maí 1960: Maí GK gekk 16, 2 m. í reynsluferð.
“Maí, nýi togarinn Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og jafnframt stærsti togarinn, sem byggður hefur verið fyrir íslendinga, kemur væntanlega til heimahafnar næstkomandi miðvikudag.

Maí

B/V MAÍ GK 346, stálskip, 982 brt., smíðað í Bremerhaven í Þýskalandi 1960, eigandi Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, Hafnarfirði. Seldur til Noregs. Strikaður út af skipaskrá 16.5. 1977. (Skrá yfir íslenzkt skip 1965, bls. 28-29, sama rit 1978, bls. 253).

Í gærmorgun barst Bæjarútgerðinni skeyti frá Bremerhaven, sem í segir meðal annars: Reynsluferð lauk kl. 18 í dag (miðvikudag). Allt í óaðfinnanlegu lagi. Ganghraði í reynsluferð 16,2 mílur.”
Kristinn Gunnarsson forstjóri er nú í Bremerhaven og mun taka formlega við Maí í dag.
Togarinn leggur af stað til Hafnarfjarðar á morgun, laugardag.
Alþýðublaðið 18 maí 1960. – Maí kemur í dag.
Í dag kemur stærsti togari Íslendinga til landsins. Það er togarinn Maí, sem smíðaður hefur verið í vestur Þýskalandi fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Togarinn Maí er 1000 lestir að stærð. Nafnið er það sama og á fyrsta togara Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar,sem hét Maí, og sem var fyrsti togarinn sem gerður var út frá Íslandi, sem ekki var í einstaklingseigu.”
Maí mun leggjast upp að bryggju í dag klukkan 6 síðdegis.”

Skipasmíðastöðin Bátalón

Bátalón

Bátalón neðst t.v..

1961. Skipasmíðastöðin Bátalón stóð við Hvaleyralón og var vinnuveitandi allmargra hafnfirðinga á meðan þar var enn starfsemi.
Bátalón sem lengi var starfrækt í Hafnarfirði og fjölmargir menn störfuðu hjá, skipasmiðir, tæknimenn, verkamenn og fleiri. Bátalón var sem kunnugt er staðsett við merkilegt Lónið við Hvaleyri sem fyllist sjó á flóði en þurrkast alveg upp á fjöru. Og gerir víst ennþá.
Áratugum saman voru bátar smíðaðir í Bátalón og voru sumir bátanna frá stöðinni þekktir um landið. Margir muna eftir 12 tonna Bátalónsbátunum sem gerðir voru út frá mörgum íslenskum höfnum og þóttu ágætis sjóbátar, muni höfundur þetta rétt.
Bátalón

Bátar við Bátalón.

Sé myndin betur skoðuð kemur hluti Herjólfsgötu í ljós handan fjarðarins og sést að þessi gata er bara nokkur hús í beinni línu fast meðfram götunni og hraunið upp af henni “hreint” af húsum, öðrum en kofabyggingum sem dritað var niður í þetta hraun hirst og her og geymdi fjölda kartöflugarða í eigu bæjarbúa. Svæðið upp af húsunum á myndinni er í dag að mestu komið undi hús sem fólk býr í og biki sem götur eru þaktar með.
Bæjarmyndin hélst óbreitt má segja áratugum saman og þekkja hana allir Hafnfirðingar sem komnir eru yfir miðjan aldur. Flestir af þeim muna hana alltént eins og hún blasir hér við. Sannleikurinn er að fátt breyttist í bænum okkar og má segja að hver þúfa og hver hóll hafi haldist kyrr á sínum stað. Já, mann fram af manni, liggur mér við að segja.
1961 voru íbúar Hafnarfjarðar innan við 10, 000 manneskjur og langt frá tölunni sem gildir í dag, sem er um 28,000 manns. Bærinn hefur stækkað talsvert frá árinu 1961.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

1961 voru nú ekki margar götur lagðar biki eða steinsteypu heldur voru þær að stærstum hluta þaktar möl með sínum aur og pollum sem bifreiðar skvettu úr er þar óku um þessar götur í rigningartíð og gerðu skófatnað íbúa skítuga og, stundum að minnsta kosti, úr hófi fram sem teygði sig uppeftir buxnaskálmunum Efnalaug Hafnarfjarðar máski til gleði sem við það fékk flíkinni meira til að hreinsa og örlítið meira af aur í kassann. ” Safnast þegar saman kemur ” – segir enda spakmælið.
Margt hefur breyst í bænum okkar fagra sem hlær svo glaðlega í logni sumarkvöldanna. Í honum heyrist ekki lengur vélarskellir fiskibáta að koma og eða fara sem suma af þeim mátti þekkja af vélarhljóðinu einu saman. Allt svona er bara minningin ein og Bátlón hætt starfsemi og fjölda annarra burðarstoða bæjarins einnig og annarskonar atvinnustarfsemi tekin við í stækkandi bæjarfélagi.
Gaman að sjá þessar gömlu myndir og skoða breytingarnar sem orðnar eru. Ljósmyndin segir okkur stöðuna á hverjum tíma og er oft ágætis heimild um margt sem var. Sagan er skemmtilegt umhugsunarefni. Víst er um það. Sett hér inn til gamans og vonandi líka smá fróðleiks.

Rafha í Hafnarfirði

Rafha

Rafha.

Rafhaeldavélarnar þóttu miklir kostagripir og voru líklega til á flestum íslenskum heimilum á sinni tíð.
Alltaf hafa verið til menn sem sjá möguleika. Fljótlega eftir virkjun Sogsins í Grímsnesi fóru menn, kannski hafnfirðingar, að hugleiða hvort ekki væri rétt að nýta orkuna sem þarna var og framleiða íslensk raftæki.
Hér er kominn grunnur að því sem síðar varð og hafnfirðingar þekkja sem Rafha og varð að veruleika árið 1936 með stofnun hlutafélagsins Raftækjaverksmiðjan h/f í Hafnarfirði en nafnið stytt í Rafha og það notað í vörumerki. Stofnendur voru 22 talsins, auk ríkissjóðs.

Rafha

Rafha.

Um lóð var sótt og reis 702, 5 fermetra bygging á Lækjargötu 22 – 30, á bökkum Hamarskotslækjar í Hafnarfirði og mest á einni hæð. Lokið var við byggingu Rafha- hússins 1937. 20 verkamenn unnu hjá fyrirtækinu, auk nokkurra sérfróðra manna. Vélar voru keyptar í Noregi.
Um mánaðarmótin ágúst september 1937 lauk smíði fyrstu íslensku eldavélarinnar með framleiðslunúmerið 1. Það sem eftir lifði árs 1937 voru framleiddar hjá Rafha aðeins 187 eldavélar. Menn vildu fara varlega.
Árin á eftir voru Rafha erfið og gekk firmanu illa að útvega sér hráefni til framleiðslunnar.

Rafha

Rafha-eldavélar.

Með hernámi Danmerkur og Noregs í apríl 1940, var ljóst að leita þyrfti nýrra leiða til að útvega hráefni og halda starfseminni gangandi. Þá var hönnuð ný eldavél með amerískum rafbúnaði og samsetningarhlutum og svokölluðum gorma- eða spíralhellum, sem sumir muna eftir. Eftir stríðið vænkast aftur hagur Rafha með söluaukningu sem gerir húsnæðið fljótt of lítið.
1945 var það stækkað verulega og tækifærið notað til að endurnýja vélakost. Tíu árum eftir gangsetningu (1946) hefur Rafha framleitt 22,730 rafmagnstæki af 30 tegundum og er komið með 46 manns í vinnu.
1952 og aftur 1957 er húnsæðið enn stækkað og fer í yfir 5000 fermetra. 1952 hóf Rafha að framleiða ryksugur og í samstarfi við Vélsmiðjuna Héðinn þvottavélina Mjöll.
Uppúr 1960 fór að halla undan rekstrinum. Útflutningur hjá Rafha gekk ekki sem skildi 1986, á 50 ára afmælinu, var tímamótum fagnað með opnun glæsilegrar verslunar í húsakynnum fyrirtækisins við Lækinn í Hafnarfirði.
1990 var ákveðið að hætta rekstri þessarar merkilegu verksmiðju og selja reksturinn. Síðan 1996 hefur Rafha rekið 1000 fermetra verslun við Suðurlandsbraut 16 í Reykjavík. Líklegt er að Rafha hafi átt drjúgan þátt í að eldavélavæða íslensk eldhús.

Hluti fréttar í Morgunblaðinu 17. júní 1965
“STJÓRN H.f. Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði, RAFHA, ákvað hinn 8. mars 1964 á 75 ára afmæli Bjarna Snæbjörnssonar læknis, er verið hefur í stjórn verksmiðjunnar frá upphafi, að minnast þess með 25 þúsund kr. gjöf, er hann ráðstafaði á einhvern þann hátt, er hann kynni að óska. Nokkru síðar tilkynnti Bjarni stjórninni, að hann hefði ákveðið að stofna sjóð af gjöf þessari og skyldi hann heita Afmælisgjafasjóður Hafnfirðinga.
Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Prestur þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði; lögreglustjóri og bæjarstjóri Hafnarfjarðar séu fastir stjórnarmenn. Þeir skipta með sér verkum og kjósa síðan tvo meðstjórnendur, karl og konu, til tveggja ára í senn úr hópi þeirra Hafnfirðinga, sem fengið hafa skeyti.”

Heimild:
-http://www.sporisandi.is/old_hafnarf/old_hafnarfjordur/hafnarfjordur_i_den.pdf

Rafha

Myndin er tekin á Tjarnarbraut yfir lækinn að Lækjargötu, Öldugötu og Hamarinn. Lágreista húsið bak við trén er hluti af Rafha, fyrir miðri mynd er lágreist timburbygging svokölluð “bæjarbyggingin” áföst steinhúsi, Gömlu Gróf. Lengst til vinstri er svo Mjólkurstöðin. Allar þessar byggingar eru horfnar.

Reykjanes

Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen frá Kotvogi, útg. 1982, skrifar hann m.a. um Innes og Suðurnes. Lýsingin er stutt, en fróðleg.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefnakort.

“Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi:
INNNES frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.
SUÐURNES frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.
Hluti af Suðurnesjum heitir Rosmhvalanes. Það er sá hluti Reykjanesskagans, sem liggur fyrir norðvestan línu þá sem hugsast dregin frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu nú eyðilögð austast á Keflavíkurflugvelli og úr Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort Björns Gunnlaugssonar 1944.

Þannig eru því öll byggðahverfin frá Leiru og allt suður að Stafnesi á Rosmhvalanesi.”
Í þessari lýsingu Jóns, sem ritaði mikið um landshætti, líf fólks og atvinnuhætti á Suðurnesjum, er tekinn af allur vafi hvar skiptingin var, en hún skipti miklu máli í daglegu tali fyrrum er menn voru greindir í Innnesjamenn og Útnesjamenn. Einnig var það almenn málvenja að fara á Innnesin eða á Útnesin. Þá var betra að vita hvar mörkin voru. Og það er ekki síður mikilvægt fyrir nútímanninn að þekkja skilin er hann á annað borð þarf að lesa í heimildum um hugtök þau er hér er um fjallað. Samkvæmt lýsingu Jóns nær Suðurnes frá Hvaleyrarholti í norðri að Selatöngum í suðri, eða m.ö.o. eftir endilöngum (G)Núpshlíðarhálsinum.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1989.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Draughóll

Sæmundur Einarsson (1765-1826) var ættaður af Suðurlandi. Hann vígðist 1790 og gegndi preststörfum á Kjalarnesþingum. Stóradal og Ásum, en 1812 fékk hann Útskála, sem hann  hélt til æviloka.

Garður

Letursteinn.

Í Fornleifaskýrslu 18. júlí 1817, nr. 4, lýsir hann Útskálum. Nefnir hann til sögunnar Másleiði við Hvalsnes, Flankaleiði, Kistugerði og leturstein þar hjá.  Auk þess nefnir hann rúnastein norðanhalt við landamerkin milli Kirkjubóls og Útskála þar sem standa tilteknir stafir. Auk þess ferhyrndan stein við túngarðshliðið á Stóra-Hólmi.

FERLIR leitaði lengi að og skoðaði framangreinda rúnasteina. Steinninn á mörkum Kirkjubóls og Útskála var löngum álitinn tengjast eftirmálum af drápi Jóns Arasonar árið 1550. Var talið að þarna hafi einhverjir aðfararmanna hans verið drepnir og síðan komið fyrir. Tveir hólar eru á Garðskaga, Draughóll og Skagahóll. Er steinninn utan í þeim fyrrnefnda og með þeirri áletrun er Sæmundur lýsir 1817. Nokkurn tíma tók að finna staðinn. Mörkin liggja þarna skammt vestar um gamlan hlaðinn garð. M er klappað á stein í fjörunni þar sem garðurinn endar. Letursteini þessum, líkt og 80 öðrum letursteinum á Reykjanesskaganum, hefur lítill sómi verið sýndur þrátt fyrir væntanlega merkilega sögu – hver svo sem hún er.

Heimild:
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823, fyrri hluti, Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. SÁM 1983, bls. 235.

Garður

Garður.