Fuglavíkurvegur

Ætlunin var að ganga með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti III (Bjarghús) um gömlu Fuglavíkurleiðina milli Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu þar sem leiðirnar mætast við Einstæðingshól á Miðnesheiðinni.
Á FuglavíkurleiðSigurður er að öllum líkindum sá eini núlifandi, sem þekkir þessa gömlu þjóðleið. Hún hefur víða blásið upp í heiðinni, en ummerki má þó enn sjá eftir hana nánast samfellt ef vel er að gáð, s.s. vörðu- og götubrot. Efsta hlutanum, næst Einstæðingshól á Einstæðingsmel, hefur þó verið raskað vegna andvaraleysis hlutaðeigandi. Tilgangur ferðarinnar var að staðsetja götuna og kortleggja.
Ef vel gengi var og ætlunin að huga einnig að gömlu götunni að Bæjarskerjum (Býjaskeri), en hún hefur ekki verið farin lengi.
Með í för voru, auk FERLIRsfélaga, Páll í Norðurkoti, tengdasonur Sigurðar, og Guðmundur, félagi hans, en báðir eru þeir áhugasamir um örnefni og gamlar minjar í Fuglavíkurhverfi og víðar.
Þess má geta að Sigurður hafði áður leitað að og fundið Fuglavíkurleiðina, merkt hana og varðveitt. SigurðurSíðar hafi snuðra hlaupið á þráðinn og hann ákveðið að fjarlægja merkingar á götunni. Við það hvarf hún auðvitað með það sama. Nú var ætlunin, sem fyrr sagði, að endurheimta hana.
Sigurður, sem er að verða kominn á níræðisaldur (f: 08.09.1929), gekk röskum skrefum að upphafsreit, staðnæmdist, benti í austnorðaustur upp heiðina og sagði: “Í þessa átt drengir. Gatan virðist ógreinileg í fyrstu, en hún lá hér frá Norðurkoti og upp eftir.” Síðan hélt hann af stað með aðra á eftir sér. Á hægri hönd var hlaðin lítil tóft með dyr mót suðri; “hænsnahús frá Hólum og síðar frá Norðurkoti,” sagði Sigurður. Ofar varð gatan greinilegri og var tiltöluleg auðvelt að fylgja henni upp að Háamel. Ofan hans kom hún í ljós á nýjan leik. Efri-varða sást þá í norðri. Varðan var notuð sem fiskimið og sem sundvarða. Ekki er vitað um Neðri-vörðu. Vörðubrot voru við götuna sem og á nálægum hólskollum.

Fuglavíkurvegur

Gatan beygði með norðanverðri “Sléttunni”, líklega svo koma mætti við í Folaldatjörn (Folaldavötnum), hinu ágætasta vatnsstæði í heiðinni. Folaldatjörn hefur einnig verið nefnd Folaldapollur, en sá mun vera nokkru sunnar í heiðinni. Nafnið kom til eftir að folald drapst í tjörninni.
Fátt er um kennilýsingar í Miðnesheiðinni. Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a.: “Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu.
Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum. Upp af Norðurkoti ofan við veg er lægð, sem heitir Gil. Í því norðanverðu er býlið Bjarghús.” Við það var reist nýbýlið Norðurkot III þar sem Sigurður Eiríksson býr nú.
EinstæðingshóllÍ örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er einnig fjallað svolítiðum kennileiti í heiðinni, s.s.: “
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka.
FjárborgNorðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru Í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. Skammt ofar varð að sprengja þar úr. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.”
Þegar komið var upp á Einstæðingshól komu í ljós leifar af fyrrum myndarlegri ferlingslagaðri vörðu. Hana hyggjast Sigurður og Guðmundur endurgera þegar færi gefst. Væri það vel til fundið að viðhalda henni og þá um leið hinum fyrri gatnamótum Fuglavíkurvegar og Sandgerðisgötu (-vegar).
Í BæjarskersseliÞá var haldið niður að Vegamótahól. Við hann liggur Sandgerðisvegurinn. Þar eru og gatnamót Bæjarskersgötu (-vegar). Henni var fylgt niður að “Sandgerðisskógum”. Norðan þeirra eru Álaborgarréttir syðri. Austan réttanna eru kofatóftir, en enn austar má vel sjá leifar af hringlaga fjárborg. Gatan liggur niður með klettarana; Álaborg. Suðvestan undir hennar er stór klettur, sæbarinn; Stekkurinn, að sögn Sigurðar. Sagnir eru um að álfar gisti seininn.
Þegar skoðað var í kringum Álaborgina kom í ljós seltættur, sennilega Bæjarskerssel. Kofatóftir eru vestanundir aflöngu klapparholti, í skjóli fyrir austanáttinni. Vestar er hringlaga tóft. Sunnan hennar er stekkur undir Álaborgarnefinu.
Vatnsstæði er undir klettum ofan og til hliðar við Stekkurinnstekkinn. Líklegt má telja að selið hafi verið nýtt af bændum í Bæjarskershverfinu, en lagst af nokkru áður en svæðið var nýtt til yfirsetu. Auðvelt hefur verið um vik því stekkstæðið er tiltölulega nálægt bæjum.
Þegar Bæjarskersgatan (selstígurinn) var genginn áleiðis til bæjar kom í ljós önnur gata skammt norðar með sömu legu. Sú leið er vörðuð. Ætlunin er að skoða hana við tækifæri, sem og kirkjugötuna millum Bæjarskershverfis og Hvalsness, en hún sést enn mjög greinilega.
Grjóthlaðin Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveg, og er enn notuð, var byggð í kringum 1930.
Að lokinni göngu var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð að Norðurkoti þar sem ekki færri en níu kökusortum og laufabrauði var rennt niður með ljúffengu kakói.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Folaldatjörn

Draugatjörn

Gestur Guðfinnsson skrifarði grein umm sæluhús í Alþýðublaðið árið 1967:
“Sæluhús er fallegt orð. Samkvæmt skilgreiningu orðabókar Menningarsjóðs er merking þess “hús til að gista í í óbyggðum, á Öræfum”.
Sú tegund gistihúsa átti þó fram á okkar daga lítið skylt við hin rúmgóðu og þægilegu hótel nútímans með fjölmennu þjónustuliði, útvarpi, sjónvarpi, síma og baði, Draugatjorn-21dýrlegum aðbúnaði í mat og drykk ásamt notalegri hvíld í þeim mjúka og ilhlýja sængurdúni, sem upphaflega taldist til forréttinda æðarfugls á Íslandi. Þetta voru oftast litlir og lágreistir moldarkofar, naumast manngengir, Þægindalausir með öllu, kannski í hæsta lagi grjótbálkur til að fleygja sér á, matur enginn. Samt var þessum vistarverum valið eitt af fegurstu orðum tungunnar til einkenningar: sæluhús. Bak við það heiti felst mikil saga. Skilgreining orðabóka á hugtakinu nær skammt, sem vonlegt er, þótt hún sé rétt það sem hún nær.
Ljóst er, að landsmenn hafa snemma komið upp slíkum kofum á heiðum og fjallvegum til afnota fyrir ferðamenn og gangnamenn, enda vegalengdir víða miklar á öræfum og tóku ferðir einatt langan tíma, stundum mörg dægur, hvort heldur menn voru gangandi eða ríðandi. Var þá ekki í annað hús að venda en sæluhúskofann og skildi þar oft og einatt í milli feigs og ófeigs, hvort það tókst eða tókst ekki að ná honum. Mátti hver prísa sig sælan, sem undir þak komst, þótt lélegt væri, því það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti í hamslausu hríðarveðri á fjöllum. En það kom líka fyrir, að þeir sem náðu þangað við illan leik, geispuðu golunni í kofanum, kaldir og matarlausir og aðframkomnir af þreytu. Var þess þá oftast ekki langt að bíða að bera færi á reimleikum í sæluthúsinu, enda munu þau sæluhús fá, þar sem hreint var með öllu. Hitt var miklu algengara, að fleiri eða færri afturgöngur eða draugar væru þar viðloðandi, gerðu sér dælt við ferðamenn í vöku og svefni, berðu kofann utan eða riðu húsum næturlangt, þótt nú sé víðast úr þeim allur mergur.
Til er aragrúi sagna og munnmæla um gistingu manna í sæluhúsum og gangnakofum og reimleika á slíkum stöðum.. Skulu hér rifjaðar upp nokkrar slíkar sögur, þeim til fróðleiks, sem ekki hafa átt þess kost að lifa slíka atburði og þekkja lítið til drauga og afturgangna sjálfir.
Norðvestur af Bolavöllum á Kolviðarhóli er Húsmúli. Framan við hann stóð sælukofi allt fram um miðja nítjándu öld við svokallaða Draugatjörn. Kofi þessi var tvær og hálf alin á breidd og þrjár álnir á lengd og í honum grjótbálkur, þakinn torfi, sem á gátu legið þrír menn. Tvær hurðir voru fyrir dyrum og gengu báðar inn í húsið. Sveinn Pálsson, læknir, getur þess í ferðabók sinni, að margir ferðamenn hafi látizt í þessum kofa, ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt

Í Sögu Kolviðarhóls er að finna frásögn af gistingu í Húsmúlakofanum. Hún er á þessa leið: „Gömul sögn úr Ölvesi hermir, að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. — Að nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun til að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug vera og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúð hurðina og maðurinn hafði haldið vera draug. — Þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það hafði alvarlega verið brýnt fyrir ferðamönnum ..að loka aldrei húsinu að sér um nætur”.
Þessi saga mun raunar vera til í ýmsum tilbrigðum víða um land og heldur hver sögumaður fast við sína útgáfu og telur hana réttasta, leggur jafnvel fram óyggjandi sannanir fyrir máli sínu, ef því er að skipta. Í Hellukofanum gamla á Hellisheiði, sem enn stendur, bar líka eitthvað á reimleikum. T.d. segir frá því í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, að einu sinni lágu þar menn. Þeir heyrðu skarkala mikinn uppi á húsinu alla nóttina og hugðu, að draugur hefði valdið honum, enda þóttust þeir sjá einhverja ófreskju í dyrunum við og við. Þá var gamla sæluhúsið á Kolviðarhóli alræmt draugabæli og eru margar sögur til af reimleik um þar. Ein þeirra er skrásett af Þorsteini Erlingssyni og er á þessa leið:
Einu sinni voru fimm Fljótshlíðingar á leið suður í ver. Það voru þeir Ísleifur Sigurðsson frá Barkarstöðum, Sigurður Ólafsson, vinnumaður þaðan, Halldór Jónsson frá Eyvindarmúla og svo sinn maðurinn frá hvorum bænum Árkvörn og Háamúla. Þeir félagar gengu suður Hellisheiði og lágu um nótt í sæluhúsinu á Kolviðarhóli. — Þeir kveiktu ljós og fóru að sofa, eftir að hafa matazt, nema Halldór. Hann gat ekki sofnað og lá vakandi um hríð. Allt í einu heyrði hann eitthvað gnauð fyrir utan kofann, en því næst heyrði hann, að einhver klifraði upp á kofaþakið og tók að lemja þekjuna — beggja megin á víxl. Halldóri þótti þetta kynlegt, og tók hann það til bragðs að vekja Sigurð. Þeir fóru út og leituðu í kringum kofann, en urðu einskis vísari, fóru því inn aftur, en jafnskjótt og þeir voru komnir inn, var hurðinni hrundið upp og lamið á þilið; lagði þá vindsúg inn um kofann, og slokknaði ljósið. Þeir Halldór og Sigurður kveiktu þegar aftur; fóru svo út, tóku jötu og skorðuðu hana fyrir dyrnar að innan. Eftir það voru dyrnar í skorðum, en þeir heyrðu högg og ókyrrð úti fyrir lengi nætur.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 31. ágúst 1967, bls. 7 og 11.

Sandskeið

Vatna-sæluhúsið við Sandskeið.

Hafnir

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á
háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri” (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir” hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar”, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.” Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um Grindavík:
“Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, “sem tréð með grind stendur í” (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.”

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að “Snorrabúð” sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Kúagerði 1912

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 segir m.a. um Kúagerði:
“Í Kúagerði, fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bær verið fyrir löngu. Sér þar til rústa innan til við kuagerdi-221sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefir sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið, að þetta stendur í engu sambandi við rúst kots þess, sem fyrir nokkrum áratugum var bygt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessara rústa.”
Í Búnaðarriti árið 1910 segir m.a. um sama stað: “Í Vatnsleysustrandarhreppi: Kúagerði (eyðibýli hjá Hvassahrauni, sjá Árb. Fornlfs. 1903, 35. bls.). Akurgerði (sjá nr. 15), Landakot, Breiðagerði, Hlöðunes, Traðarkot (hjáleiga frá Brunnastöðum), Garðhús (hjáleiga frá Stóruvogum), Garðhús (hjál. frá Ytri Njarðvík (Johnsens Jarðat. 458. bls.).
Og í Eimreiðinni árið 1928 segir m.a.: “Þorshausar voru þá aldrei neitt eftirsótt vara. Þeir voru aðeins fluttir heim og étnir á þeim heimilum, sem ekki höfðu ráð á að eignast annað fiskæti eða áttu þá af hlutum sínum, því sjálfsagt var að hirða alt, sem hægt var að hirða, hverju nafni sem nefndist. Eftirsóknin eftir þorskhausum byrjaði fyrst eftir það, að annað harðæti fór að verða ófáanlegt, þegar allur fiskur var saltaður.
Það kom fyrir, að fátækir menn neyddust til að takast á hendur þessar löngu ferðir, með aðeins eina eða tvær drógar í taumi, til þess — eins og þeir komust að orði — »að vita hvort Guð uppvekti ekki einhvern til að víkja að sér einum vanga«. Urðu margir vel við tilmælum þeirra, svo sem Ketill í Kotvogi, sem skipaði eitt sinn sonum sínum eða vinnumönnum að láta nægilegar klyfjar — og það ekki eintómar hausaskræður — upp á þrjár drógar, er einn þessara manna var með, svo hann þyrfti ekki að ganga fyrir kné fleiri manna. Var þó maðurinn Katli öldungis ókunnur.
kuagerdi-222Þegar nóg skreið var fengin upp á lestina, annaðhvort með kaupum eða hluta-afla, eða hvorutveggja, byrjaði hin þreytandi og erfiða vinna, er þessum ferðalögum fylgdi. Á meðan menn dvöldu á Suðurnesjum, urðu þeir að flýta sér mest mátti verða, vegna gras- og vatnsleysis fyrir hrossin; fylgdi því ávalt allmiklar vökur, umsvif og áreynsla, en hagnýtara sýni og vandvirkni þurfti til þess, að »búa vel upp á«, svo að klyfjarnar færu vel á hestunum og ekkert eða sem allra minst skemdist á hinum langa og vonda vegi. Lagt var  klyfjar þannig, að af harðfiski allskonar fóru um 60—70 í baggann, en af haustfiski fóru um 600 á hestinn, voru þá klyfjarnar vafðar netariðli og kistubundnar, en af meðalþorskhausum fóru 120 í klyfið eða 240 á hestinn. Einstöku útróðramaður reif hausa sína áður en hann fór úr verinu, þannig að öll bein voru tekin úr hausnum, en allur fiskurinn hélt sér í heilu lagi, það hét að sekkrífa. Þurfti til þess sérstaka kunnáttu og var fremur seinlegt verk, en af þannig rifnum hausum fóru 800 í sekk, sem var hæfilegur baggi. Aldrei varð þó þessi aðferð almenn, hausarnir þóttu ódrýgri til skömtunar, enda vantaði öll tálknin.
Þegar nú alt var tilbúið, var lagt af stað heimleiðis. Nú var áríðandi að láta fara vel á, meðan klyfjar og reiðingar voru að jafna sig. Að því bjó síðan alla heimferðina. Ferðamaðurinn varð að sjá um, að ekki hallaðist á, að reiðingurinn væri hvorki of framarlega eða of aftarlega á hestinum, og að hvorki væri gvúfið eða keikt. Væri vanrækt að bera að, ef eitthvað af þessu átti sér stað, þá var hesturinn viss að meiðast. Flestir, sem komu af Suðurnesjum, áðu fyrst í Kúagerði, því þar var oftast vatn og ofurlítið gras. Þannig áningar hétu reiðingsáfangar, af því að flestum þótti eKKi taka því að spretta af fyrir svo stutta stund, en það var óhygni, oftast sprottin af þreytu eða leti ferðamannsins. Hestarnir þurftu að velta sér, en annað hvort gátu það ekki eða gerðu það með þeim afleiðingum, að reiðingarnir aflögðust og vildu síðan meiða.
Allra versti kaflinn til yfirferðar þar syðra í þá daga var Hraunin, einkum í vætutíð. Gatan var afarþröng og krókótt, full af þröskuldum og lónum. Lestir urðu að gæta mestu varfærni að mætast þar. Á Hraunsholtsmýri eða í Fossvogi legið svo lengi, að hrossin gætu vel fylt sig og hvílst. Og ferðamenn vildu helst liggja jafnlengi og ferðast var, margir gættu þess ekki, af of mikilli löngun til að vera sem fljótastir í ferðum. Þegar komið var í tjaldstað í votviðn, það ærið verk að bera saman klyfjarnar af langri lest og ganga svo frá þeim með skinnvörðum meljunum, að ekkert eða sem allra minst blotnaði til muna. Það hét að fansa. Væri nú einhver hestur meiddur eða vottaði fyrir því, var nauðsynlegt að reyna að lækna það sem fyrst.”

Heimild:

-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 35.
-Búnaðarrit, 24. árg. 1910, 1. tbl., bls. 96.
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti. bls. 31.

Kúagerði

Kúagerði 1912.

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar “Borgarminjar”, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem “réttin” hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á “sprungusvæðinu” sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að “Græna trefillinum” svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: “Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …”
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: “Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.”
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. “Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000”. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið “Sumarhús” og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: “Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. “Sumarhús það er heimurinn” sagði Bjartur í Sumarhúsum.” Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: “Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.”
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið “Sumarhús” er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: “Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.” Þá segir að “selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.”
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

Hólmsheiði

Hólmsheiði.

Fagridalur

Gengið var um Breiðdal frá Vatnsskarði?, með Háuhnúkum, framhjá Breiðdalshnúk og ætluðu Markrakagili, upp að Ing-vari, til suðurs niður í Leirdal og síðan áfram um Fagradal.

Helgafell

Helgafell.

“Fönn, fönn, fönn – íslensk fönn”, kvað við í hlíðum og dölum. Nánari kynni hlíða og dala gerast varla nánari á forvordögum. Nýársdagur var runninn upp, stillilogn, bjart yfir og litadrjúgur himinn sveipaði roða um fjöll. Það marraði taktfast í snjónum undan skósólunum – “Fönn, fönn, fönn, ekta íslensk fönn”
Í Breiðdal hefur Landnám Ingólfs verið að reyna að græða upp, m.a. utan í Breiðdalshnúk. Hnúkurinn er í suðvestanverðum dalnum, fallegur móbergsstandur. Norðan og austan við hann tekur við breiður dalur, sem einhvern tímann hefur verið ríkur af gróðri. Nú hefur þar að mestu fokið upp og leirflög standa eftir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns – eins og eðlilegast væri miðað við hina fyrrum Dalaleið. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum. Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver hins vegar séð sig knúinn til þess að spyrna við honum þaðan.
MarkrakagilGilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt 
Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Marrkagil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).
Breiðdalur hefur áður fyrr verið gróinn “milli botns og hlíða”. Stórar grastorfur eru enn í dalnum og sjá má gróðurbörð í hlíðum hans. Slóði liggur í gegnum dalinn, yfir í Slysadal, sem áður hét Leirdalur nyrðri. Á ásnum milli dalanna er stór og mikill “útstigningur”, sem 

Örsmáa

FERLIR hefur áður nefnt Ing-var til heiðurs fyrrum ástsælum bæjarstjóra þeirra Hafnfirðinga.  Útstigningurinn, eða höfðinn, sem hefur mannshöfðusmynd, hefur líkt og stigið út úr sunnanverðum Undirhlíðum eins og hann hafi orðið leiður á undirstöðunni og ákveðið að leggja af stað á brott frá þeim upp á sitt einsdæmi – einhverra erinda. Þannig sker hann sig úr, en hlíðarnar eru þær sömu. Sama mætti segja um Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Sú síðarnefnda stendur enn sem hlíðin, litlaus og lítt áhugaverð. Hið eina áhugaverða á staðum er höfðinn – Ing-var – í takt við tímann.

Breiðdalur

Strýtur í Breiðdal.

Útsýni frá Ingvari yfir Slysadali, Leirdalshöfða og að Helgafelli, Þríhnúkum, Tvíbollum, Undirhlíðum, Kerlingarskarði, Fagradalsmúla, Fagradal, Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi.
Gengið var til suðurs yfir að Leirdal syðri, um frosna tjörn og freðna móa. Fagurt útsýni var inn Fagradal. Vel sást hvar hraunstraumurinn hafði komið niður hlíðarnar í honum suðvestanverðum. Um hann lá leiðin til Krýsuvíkur um Hvammahraun.
Gegnt Fagradal eru nokkrar forskallaðar strýtur. Hvaða hlutverki þær hafi átt að þjóna þarna væri fróðlegt að fá upplýsingar um. Í Fagradal er gróinn hóll, sem grunur er um að kunni að leynast tóft neðan undir? Meira síðar…
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fagridalur

Í Fagradal.