Herdísarvík

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:
herdisarvik-930„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

herdisarvik 931

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Stapagata
kristjanstangi-221

Minjar á Kristjánstanga.

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 er m.a. fjallað um „Mannvirki og minjar vestan Voga„:
Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), „anleggs-húsum“ Knudtzons gróssera reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Ánlegg“ nefndust salt- og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátai, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.
Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk.
Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld.
Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma.
Kerlingabúðir voru nokkru utar.
Um Reiðskarð lágu forun reiðgöturnar upp Stapann.
Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku.
Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Strákar heita þrjár vörður, gömul mið nær Njarðvíkum.
Kópa er vík við bergshalann, ytri enda Stapans hjá Stapakoti í Innri-Njarðvík. Fiskimiðin eyðilögð.— Hernám Englendinga. Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.

Stapabúð

Stapabúð.

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.
Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.
Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargren

Eldborgargreni.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Í Kálffelli.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.

Ostagerð

Í Búnaðarritinu árið 1915 er m.a. fjallað um ostagerð til forna:
„Sögur feðra vorra bera ljóslega með sér, að mikið hafi verið um ostagerð í fornöld, enda leiðir það af sjálfu sér, þar sem kvikfjárrækt var þá margfalt meiri hér á landi en nú. Víða er getið um sel og selstöður í fornsögunum, og í seljunum var gert smjör, skyr og ostur úr mjólkinni. í „Gullöld Íslendinga“ (J. J.) segir:
ostur-1„Ostar voru hversdags fæða í fornöld, og voru þeir gerðir í sérstökum mótum (ostakista), misjöfnum að stærð“. Engum blandast hugur um, að forfeður vorir höfðu mikla ostagerð, en hitt vita menn eigi, hvernig osturinn var gerður. Hinn norski gerlfræðingur dr. 0. J. Olsen Sop hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn og Íslendingar hafi einungis gert einskonar súrost í fornöld. Hann telur líklegt, að mjólkinni hafi verið safnað í stór keröld; þar hafi hún súrnað, og við súrinn eða gerðina hafi mjólkin skilist þannig, að draflinn settist á botn kersins, smjörið eða rjóminn flaut ofan á, og drykkurinn var á millum laga.

Ostur

Ostageymsla.

Nú vitum vér, að ostarnir voru gerðir í mótum, og er því líklegt, að rjóminn hafl verið veiddur ofan af drykknum, draflinn því næst verið veiddur upp úr honum og látinn í mót. Af fornsögum vorum verður því miður ekki séð, hvernig ostar voru gerðir til forna, en allar líkur eru til þess, að vér höfum tekið ostagerðina í arf af Norðmönnum, og þess vegna hafi ostar hér á landi verið gerðir líkt og í Noregi. Í Noregi eru enn gerðir hinir svonefndu gamalostar; það eru einskonar súrostar, og dr. Sop álítur, að þessir ostar hafi verið gerðir til forna bæði hér og í Noregi. Ennfremur telur hann líklegt, að vér höfum týnt niður þessari ostagerð skömmu eftir að vér komumst undir Dani; og ekki er ósennilegt, að súrostagerðin hafi einmitt dáið út á því tímabili. Ferðasaga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ber það með sér, að ostagerð hér á landi hafi að mestu leyti verið fallin í gleymsku og þá um miðja átjándu öld. Þó er þess getið í ferðasögunni, að einstöku búkonur á Austurlandi geri allgóða osta, sem ekki eru seigir og harðir, eins og íslenzkir ostar séu venjulega.
skyr-1Ég vil geta þess, að margar núlifandi gamlar konur vita, hvernig súrostur var gerður ; auðvitað segja flestar þeirra, að þær hafi tekið sagnirnar að erfðum. En sagnirnar benda til, að þessi íslenzka súrostagerð sé náskild gamalostagerðinni í Noregi. Íslenzkur súrostur var alment gerður þannig: Samfenginni mjólk eða undanrennu var safnað í kerald og látin súrna; svo var mjólkin hituð, en þá skildist draflinn og mysan. Draflinn var látinn í ostamót, sem fóðrað var innan með líndúk. Þegar búið var að þjappa draflanum í mótið, var bundið lok á það, og mótið með öllu saman seytt í mysu nokkrar klukkustundir. Að svo búnu var osturinn tekinn úr mótinu og látinn þorna á hjalllofti í nokkur dægur, og loks látinn brjóta sig í búrinu. Á haustin voru ostarnir stöku sinnum fluttir upp til fjalla og látnir liggja vetrarlangt í fönn. Ostarnir voru þá hafðir í skjóðum, og þær í vatnsheldum ílátum. Í íslenzkum fornbréfum og öðrum ritum sést, að ostar voru fyr og siðar látnir upp í opinber gjöld, og má af því ráða, að ætíð hafl verið nokkuð um ostagerð hér á landi.

Ostur

Tilbúnir ostar.

Menn þykjast vita með vissu, að lyfjaostagerð á Norðurlöndum sé mikið yngri en súrostageiðin. Það lítið sem vér Íslendingar kunnum í lyfjaostagerð er líklegt að vér höfum lært af Dönum; en hve langt er síðan að byrjað var að gera lyfjaosta hér á landi, er erfitt að segja um. Árið 1780 kom út bæklingur um smjörgerð og osta, eftir Ólavíus sekretera. í þessum bækling er aðallega getið um lyfjaostagerð, og það má þar skilja á mörgu, að höfundi hafi verið kunnugt um, að íslenzkar konur kynnu nokkuð til með hana. Þremur eða fjórum árum síðar ritar Björn Halldórsson prófastur „Arnbjörgu“. Hann minnist þar mjög lítið á ostagerð, en vísar til bæklings Ólavíusar sekretera, og telur illa ráðið, hve íslenzkar húsfreyjur hafi hagnýtt sér lítið þennan ostagerðarritling. Mér vitanlega er þetta alt og sumt, sem ritað hefir verið um ostagerð á íslenzka tungu alt fram að síðustu aldamótum.“
Í Tímariti kaupfjelaga og samvinnufélaga árið 1912 segir m.a. um súrost: „
Og á borðum bæði ríkra og fátækra er ætíð súr rjómi eða súr mjólk, til þess að bæta aðra rjetti. Þar að auki er sjerkennilegur súrostur, hjá fátæklingum úr áfum, hjá hinum ríkari úr samfenginni mjólk eða rjóma. Þessi súrostur er alveg hið sama og skyrið hjá forfeðrum okkar og nú hjá Íslendingum. Hann er borðaður í öllum máltíðum sjerstakur eða blandaður í aðra rjetti.“

Heimild:
-Búnaðarrit, 29. árg. 1915, 2. tbl., bls. 81-83.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 6. árg. 1912, 2. tbl., bls. 101.

Ostagerð

Ostagerð.

Þorramatur

Samkvæmt Sögu daganna eftir Árna Björnsson er mánaðarheitið „Þorr“ ævagamalt, kunnugt allar götur frá 12. öld. Þorri er oft persónugerður í sögum frá miðöldum og birtist þá ýmist sem harður og grimmur eða umhyggjusamur tilsjónarmaður bænda sem vill hafa gætur á heyjaforða þeirra.
BrennivínBetra hefur þótt að taka vel á móti Þorra og veita honum vel í mat og drykk, jafnvel skemmta með sögum, söng og tafli og skyldu konur við hann stjana. Annars var næsta víst að Þorri mundi hefna sín grimmilega.
Máski húsbændur hafi verkað sem einhvers konar fulltrúar Þorra ef hann sást ekki sjálfur því víst er að fyrsti dagur þorrahefur verið tileinkaður húsbændum og hvort tveggja til að þeim hafi verið veitt sérstaklega í mat eða að þeir hafi þá átt að gera venju fremur vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó tiltölulega ungt, elsta dæmi á prenti um þetta heiti er úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Og hin svonefndu þorrablót í nútíðarmerkingu eru enn yngri; þau eiga rót að rekja til matar- og drykkjuveislna mennta- og embættismanna á síðari hluta 19. aldar. Þorrablótin voru því í upphafi þéttbýlisfyrirbæri en bárust brátt út í sveitirnar.

Þorramatur á fati

Svið.

Um miðja 20. öld hófu ýmis átthagasamtök að endurverkja þorrablótin og í hönd fór sannkölluð gullöld Þorrans sem enn stendur. Í raun væri meiri ástæða til að halda önnur tímamót hátíðlegri, en segja má með sanni að Þorrinn njóti Brennivínsins öðru fremur. Landsmenn hafa gjarnan, því miður, í seinni tíð, laðast að vitleysunni, einkum þessum görótta, en áhrifaríka, drykk. Fátæklingarnir krækju sjálfa sig sjálfviljuga á öngulinn fyrir slíkan kroppayl, minni bændur þóttu menn með mönnum á slíkum mannamótum, stærri bændur litu af kjánskap á það sem vott um yfirburði að geta haldið slíkar samkundur og höfðingjar nýttu sér þær sjálfum sér til framdráttar. Flestir létu til leiðast og tóku þátt í fánýtingunni.

Þorri

Hvalspik.

Þorri er eitt af gömlu íslensku mánaðarheitunum. Þorrinn er fjórði mánuður vetrar og hefst á bóndadegi á föstudegi í 13. viku vetrar, sem getur verið á bilinu 19. – 26. janúar. Þorranum lýkur á þorraþræl sem er laugardagurinn fyrir konudag og tekur þá góa við.
Í íslenskri Orðsifjabók segir að orðið þorri (miðsvetrarmánuður) sé oftast tengt sögninni að þverra en einnig að það sé hugsanlega skylt lýsingarorðinu þurr. Orðið á sér samsvörun í öðrum norrænum tungum, svo sem færeysku, torri, og nýnorsku torre.

Þorri

Baggar.

Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um vetrarmánuðinn þorra er frá seinni hluta 17. aldar. Eins og fyrr segir er þorri fjórði mánuður vetrar og hefst í janúar og er langt fram í febrúar er góa byrjar. Veður eru oft válynd á þessum tíma og hafa þessir mánuðir reynst mörgum erfiðir einkum fyrr á öldum er farið var að ganga á matarforðann og kuldar voru miklir. Máltækið að þreyja þorrann og góuna, er merkir að þola tímabundna erfiðleika, tengist einmitt því að lifa af þessa vetrarmánuði en er einmánuður tók við af góu var stutt í sumarmánuðina. Kristján Jónsson lýsir þorranum, og þeirri tíð er menn máttu þola í þeim mánuði, vel í ljóði sínu Þorraþræll (Nú er frost á Fróni).

Þorri

Laufabrauð.

Forníslenskt tímatal var reiknað í vikum og misserum. Sumarmánuðurnir eru: harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður. Vetrarmánuðurnir eru: gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður, sbr. Mörsugur/Jólmánuður/Hrútmánuður (22. desember-20. janúar), Þorri (21. janúar-19. febrúar), Góa (20. febrúar-20. mars), Einmánuður (21. mars- 19. apríl), Harpa/Gaukmánuður/Sáðtíð (20. apríl-19. maí), Skerpla/Eggtíð/Stekktíð (20. maí-18. júní), Sólmánuður/Selmánuður (19. júní-22. júlí), Miðsumar/Heyannir (23. júlí-21. ágúst), Tvímánuður (22. ágúst-20. september), Haustmánuður/Kornskurðarmánuður (21. september-20. október), Gormánuður (21. október-19. nóvember) og Ýlir/Frermánuður (20. nóvember-19. desember).

Þorri

Hákarl.

Þorrinn er fjórði mánuður vetrar, veturinn er þá hálfnaður. Hann hefst í þrettándu viku vetrar með bóndadegi. Sagan segir að á bóndadegi hafi húsbóndinn átt að bjóða þorra velkominn eða fagna þorra með því að fara fyrstur á fætur allra manna þennan dag. Síðan átti bóndinn að fara út í skyrtunni einni saman, vera bæði berlæraður og berfættur, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti. Hoppa svo í kringum allan bæinn og bjóða þorra velkominn.
Áður fyrr var lífsbaráttan á Íslandi miklu harðari en hún er í dag. Húsin voru köld og matur af skornum skammti. Þorrinn gat reynst mönnum erfiður sérstaklega ef hey voru lítil því þá var hætta á að fóður dygði ekki fyrir dýrin út veturinn en skepnurnar voru undirstaðan fyrir öllu lífi fólksins.

Þorri

Harðfiskur.

Kristján Jónsson (1842–1869) orti hið þekkta kvæði Þorraþrællinn 1866. Næstum allir Íslendingar kunna ljóðið Nú er frost á Fróni og hafa oft sungið það. Kristján samdi líka stökuna sem margir þekkja og hefst á Yfir kaldan eyðisand.

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.

Þorraþrællinn 1866 er mjög myndrænt kvæði. Ef til vill er svolítið erfitt að skilja það. Hver er t.d. þessi Kári í jötunmóð eða hvítleit hringaskorðan? Gaman er að kynnast kvæðinu dálítið betur og átta sig á lýsingum Kristjáns. Sem betur fer svífur þorri loks á braut og brátt styttist í vorið.

Þorri

Blóðmör og lifrapylsa.

Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð.
Kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil.
Hlær við hríðarbyl
hamragil.

Mararbára blá
brotnar þung og há
unnar steinum á
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn.
Harmar hlutinn sinn
hásetinn.

Þorri

Flatkaka með hangiketi.

Horfir á heyjaforðann
hryggur búandinn:
„Minnkar stabbinn minn,
magnast harðindin. –
Nú er hann enn á norðan,
næðir kuldaél
yfir móa og mel,
myrkt sem hel.“
Bóndans býli á
björtum þeytir snjá.
Hjúin döpur hjá
honum sitja þá.
Hvítleit hringaskorðan
huggar manninn trautt:
Brátt er búrið autt,
búið snautt.

Þorri

Svið.

Þögull Þorri heyrir
þetta harmakvein,
en gefur grið ei nein,
glíkur hörðum stein,
engri skepnu eirir,
alla fjær og nær
kuldaklónum slær
og kalt við hlær:
„Bóndi minn, þitt bú
betur stunda þú.
Hugarhrelling sú,
er hart þér þjakar nú,
þá mun hverfa, en fleiri
höpp þér falla í skaut.
Senn er sigruð þraut,
ég svíf á braut.“

Þorri

Súrmatur.

Og hvað er svo þorramatur? Áður en ísskápurinn kom til sögunnar urðu forfeður okkar að geyma mat á annan hátt en í kæli. Nú á dögum köllum við mat sem verkaður er með gömlum matvinnsluaðferðum þorramat því við neytum hans einkum á þorranum. Það eru samt ekki nema um 50 ár síðan að við hófum þorramatinn til vegs og virðingar á ný. Þorramaturinn hefur verið súrsaður, reyktur, kæstur eða þurrkaður. Hér eru nokkur dæmi um vinsælan þorramat.

Þorri

Þorramatur.

Hákarlinn er fyrst kasaður eða kæstur. Þegar matur er kæstur þá er hann látinn gerjast og byrja að rotna. Með þessu fæst fram sterkt bragð sem sumt fólk er sólgið í. Skatan sem margir borða á Þorláksmessu er kæst og henni fylgir sterk lykt. Nú á tímum er hákarlinum staflað í plastkör þar sem hann gerjast. Hákarlinn er síðan hengdur upp í hjall og látið lofta um hann. 

Flestir hafa prófað að borða svið. Hausar kindanna eru sviðnir þ.e. allt hár er brennt af þeim. Þeir eru síðan þvegnir og soðnir. Sviðasultan er gerð á þann hátt að soðið kjötið er skafið af beinunum, sett í form og pressað. Hlaup er sett í formið og síðan er þetta látið kólna.

Þorramatur

Þorramatur.

Hrútspungar eru í raun rangnefni því í dag snæða menn einungis eistun. Í gamla daga voru þau hins vegar geymd í pungunum sem höfðu verið rakaðir, sviðnir eða skafnir. Oft var einhverju feitmeti troðið ofan í punginn því eistun eru fitusnauð. Síðan var saumað fyrir og pungarnir soðnir, sett á þá farg, súrsaðir og skornir í sneiðar. Mynstrið er hringlaga og voru þeir oft kallaðir gleraugnapylsur.

Þorri

Þorrabakki.

Bringur kindanna eru nú til dags hlutaðar í tvennt, soðnar og settar í mysu.
Í hefðbundnum lundaböggum er lundunum innan úr hryggjum kindanna vafið inn í hreinsaða ristla og þindin saumuð utan um. Þetta var soðið, farg sett á og sett í súr. Í dag eru síðurnar af kindinni notaðar í baggana og þeir því feitari fyrir vikið.
Allir þekkja hangikjöt. Hangikjötið er borðað allt árið um kring en þó einkum á jólunum. Hangikjötið er verkað á þann hátt að fyrst er útbúinn saltpækill sem kjötið er látið liggja í. Að því loknu er kjötið reykt í reykhúsi. Það er hengt upp og reykur af hrossataði, birki og ýmsu öðru er látið leika um kjötið.

Þorri

Þorrabakki.

Lifrarpylsa er að mestu búin til úr kindalifur og rúgmjöli. Söxuðum mör skepnunnar er blandað út í. Þessi grautur er svo settur í keppi, sem sniðnir hafa verið úr vömb kindarinnar, og soðinn. Lifrarpylsa er oftast nú á dögum snædd soðin en stundum er hún sett í súr eins og hún var geymd í gamla daga.
Bóðmörinn er gerður úr kindablóði og mjöli og mör settur út í eins og nafnið bendir til. Grauturinn er svo settur í keppi eins og lifrarpylsan saumað fyrir og hann svo soðinn. Í gamla daga var blóðmörinn settur í súr til geymslu en þannig er hann enn í dag algengur í þorramat. Hann er líka snæddur nýr eða steiktur á pönnu.
...þurkaður...Kviðvöðvar kindarinnar eru soðnir í stutta stund og síðan settir undir farg og pressaðir. Því næst er vöðvunum komið fyrir í grisju og þeir hengdir upp og reyktir í reykhúsi.
Ein elsta geymsluaðferð sem þekkist er þurrkun matvæla og hafa Íslendingar notað hana mikið,
sérstaklega þegar skortur var á salti og eldiviði. Hver kannast ekki við harðfisk sem er þurrkaður fiskur, oftast ýsa og steinbítur?
Þegar matur er kæstur þá er hann látinn gerjast og byrja að rotna. Með þessu fæst fram sterkt bragð sem sumt fólk er sólgið í. Skatan sem margir borða á Þorláksmessu er kæst og henni fylgir sterk lykt.

Þorri

Þorradiskur.

Ýmis matvæli má geyma langtímum saman með því að leggja þau í súr. Mysa sem féll til við skyrgerð á sumrin var farin að gerjast á haustin og var þá kölluð sýra sem fólk drakk eða notaði sem súr. Þegar sýran gengur inn í matinn drepur hún sýkla sem þar eru auk þess að mýkja hann. Nú á dögum er matur lagður í súr fyrir þorrann, því í þorramat þykir ómissandi að hafa súrt slátur, hrútspunga o.fl.
Reyking er vinnsluaðferð sem notuð er til að bragðbæta matvæli og auka geymsluþol þeirra.
Áður fyrr var notaður mór og sauðatað auk birkis, víðis, einis, lyngs og trjáspóna við reykinguna. Hangikjötið sem mörgum finnst ómissandi um jólin er dæmi um reyktan mat.
...eða reykturSalt eykur geymsluþol og dregur fram bragð matarins. Með söltun er vökvinn dreginn úr hráefninu að nokkru leyti og eftir standa bragðefnin. Þegar saltið gengur inn í matinn drepur það sýkla sem þar eru. Þær tvær aðferðir sem notaðar eru heita pækilsöltun og þurrsöltun. Við pækilsöltun er maturinn lagður í saltpækil sem er látinn fljóta yfir matinn. Síðan er maturinn geymdur í ákveðinn tíma. Við þurrsöltun er maturinn hulinn salti og látinn liggja í ákveðinn tíma.
Mest hefur þó í seinni tíð verið saltað af kinda- og lambakjöti og hefur það alltaf verið borðað soðið, á síðari árum oftast með baunasúpu eða annarri súpu, eða þá kartöflum og öðru grænmeti. Kartöflurnar eru gjarnan í uppstúf eða stappaðar og af grænmeti eru gulrófur og gulrætur algengastar.

Þorri

Þorradiskur.

Sumstaðar var borðaður grjónagrautur með saltkjöti. Neysla á saltkjöti hefur minnkað töluvert á síðari árum og margir borða það vart nema einu sinni á ári, þ.e. á sprengidaginn.
Það var ekki fyrr en á átjándu öld sem Íslendingar fóru fyrst að salta fisk og þá í litlum mæli og eingöngu til útflutnings. Saltfiskur var framan af alls ekki hafður til matar innan lands. Á Íslandi þekktu menn til skamms tíma varla annað en soðinn saltfisk með kartöflum og e.t.v. gulrófum og þá oftast með hamsatólg eða floti út á. Yfirleitt er um þorsk að ræða, þótt ýmsar aðrar fisktegundir séu seldar saltaðar, þá er fiskurinn flattur og sólþurrkaður eða húsþurrkaður.

Heimildir m.a.:
-http://www.namsgagnastofnun.is
-Fréttablaðið 21. jan. 05.
-Íslensk orðabók. 3ja útg. 2002.
-Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. 1989.
-Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Þorramatur

Þorramatur.

Garðar

„Í Fornleifaskráninu fyrir Garðahverfi er m.a. getið tveggja dómhringja; á Hausastöðum og við Garða.
Hausastadir-226Um dómhringinn á Hausastöðum segir: „Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: „Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.“ Skv. Örnefnaskrá 1764 var á Hausastöðum „þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.“ Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816 (G.R.G: 104 o.þ.tilv.r.).
Skv. Sóknarlýsingu 1842 skiptist Hausastaðaþingsókn í Garðakirkjusókn og Bessastaðasókn. Í Garðakirkjusókn voru 32 býli og sátu á þeim 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn.“
Um dómhringinn við Garða segir: „Í lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofsstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.“ (Bls. 218). Hinn gamli þingstaður Álftnesinga var þó í dómhring (190-6) á Hausastöðum áður en hann var fluttur að Görðum eftir konungstilskipun 23. feb. 1816.“
Við skoðun á vettvangi kom í ljós….

Heimildaskrá:
-Árni Helgason: „Lýsing Garðaprestakalls 1842“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Rvk. 1937-9. Bls. 197-220.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A160 / Garðaland B153, Bæjatal A500 / B485.
– Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
Markús Magnússon: „Garðar á Álftanesi“. Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Rvk. 1983. Bls. 241-51.

Garðaholt

Garðaholt – fornleifar.

Hausastaðaskóli

„Í Fornleifaskráningu Garðahverfis má sjá eftirfarandi upplýsingar um Hausastaðaskóla á Álftanesi (Garðahreppi): „Skv. Örnefnaskrá 1964 (A163/B156) og Örnefnalýsingu 1976 (bls. 10) stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði (190-4) í austanverðu Hausastaðatúni.
Hausastadir-223Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunar-maðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari (bls. 357).
Hausastadir-224Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var „að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.“ Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: „Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]“. (A.Ó.B: 117 o.þ.tilv.r.). Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla. Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins. – (G.R.G: 12).“

Heimildir:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. 1996.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A163 / Garðaland B156.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Herdísarvík

Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
herdisarvik-332„Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: „Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.  Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
herdisarvikursel - heimasel 1En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.“
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: „
Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö
brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur herdisarvikursel - heimasel 2á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann
hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“
Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: „hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans“. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú þrjúhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: „… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.
Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.