Lágafell

Í marsmánuði árið 1944 nauðlenti B-24H Liberator flugvél frá ameríska flughernum á Lágafellsheiði ofan við Járngerðarstaði í Grindavík. Mannbjörg varð, en vélin varð ónýt á eftir. Hermenn sáu síðan um að hluta hana í sundur og færa bútana upp á Keflavíkurflugvöll, líkt og gert var við B-17 flugvél, sem nauðlenti þarna nokkur vestar í Eldvarpahrauni skammt norðan Sundvörðuhrauns tæplega ári áður.

Lágafell

Flakið í Lágafelli.

Skammt þarna vestan við slysstaðinn reistu Bandaríkjamenn síðar loftnetsstöð, sem þeir reka enn. Afgirt svæði þeirrar stöðvar er, því miður, þvert á Skipsstíginn ofan við Títublaðavörðu, skammt ofan Járngerðarstaða.
Myndin hér til hliðar er frá vettvangi óhappsins við Grindavík og sýnir B-24H Liberatorvélina. Húsin í baksýn eru í Grindavík, ef vel er að gáð.
Erling Einarsson, innfæddur og af góðum Grindavíkurættum, bæði vestlægum og austlægum, skoðaði myndina og sá strax aðvettvangurinn væri á „svæði sem kallað var uppi í Leynum Eyjabyggðin er þarna núna, norð-austur af Silfru. Hægt er að sjá hús á myndinni sem ber í þennan með kaskeitið, það er Krosshús, næst því til vinstri er Hvoll, þá háreyst hús er nefnist Hamraborg (læknishúsið), það ber reyndar saman við Borgargarð og Kirkjuna, þar neðan undir er langt hús sem var hænsnabú þá Eystri Krosshúsum, Þorvaldsstaðir (prestssetrið), Baldurshagi, Sólheimar, Hellur, Holt, Pálshús, Brimnes, Efri-Baldurshagi, Ásgarður, Blómsturvellir, Þrúðvangur og reyndar sést slysavarnaskúrinn og Múli sem ber í hólinn.“
Það var varla hægt að fá nákvæmari staðarákvörðun. En þótt hægt sé að rekja flestar staðsetningar flugslysa og -óhappa til ummerkja á vettvangi, verður það ekki hægt í þessu tilviki. Brak og aðrar leifar hafa þurft að víkja fyrir nýrri byggð – á Lágafellsheiði.
Einhverjir hinna öldruðu Grindvíkinga hefði á þeirra ungdómsárum ekki órað fyrir að heiðin myndi nokkur sinni byggjast, hvað þá jafnvel upp að Kúadal, en staðreyndin er nú samt orðin önnur – einungis tæpum mannsaldri síðar.
Bandaríski herinn reisti einnig loftnetsstöð ofan við Hraunssand, undir Húsafjalli/Fiskidalsfjalli, en ummerki eftir hana eru nú að mestu horfin – einungis steypt ankeri mastursfestinganna sjást þar enn í malargryfjum Hraunsmanna.
Sá algengi misskilningur hefur jafnan verið landlægur á Suðurnesjum að brak úr flugvél Andrews, yfirmanns Evrópuherafla Bandaríkjamanna, sé að finna í Þorbjarnarfelli, skammt frá Lágafelli. Hugsanlega gæti fyrrnefnd nauðlending hafa skapað þann misskilning. Brak úr flugvél þeirri er hann var í, ásamt fleirum, má sjá í Kastinu vestan undir Fagradalsfjalli. Einn maður slapp lifandi úr því flugslysi.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Erling Einarsson.
-Friðþór Eydal.

Lágafell

Lágafell – loftmynd.

Vogar

Í bókinni „Strönd og Vogar“ fjallar  Árni Óla m.a. um „Karlshól“ í Vogum. Hóllinn er nú horfinn þrátt fyrir að hafa verið talinn álagablettur fyrrum:

Vogar

Karlshóll – loftmynd 1999 t.v..

„Karlshóll heitir í túninu á Norðurkoti í Vogum. Þetta er hraunhóll, en mjög gróinn og er talið, að þar muni vera bústaður huldufólks. Þau álög hvíla á hólnum, að hann má ekki slá, og hafa menn forðazt það. Ekki er vitað hvað við liggur, ef hóllinn er sleginn. En komið hefir það fyrir, hvað eftir annað, ef slegið var hærra í hólinn en vant var, að einhver ótjálga kom í kýrnar í Norðurkoti eða þá að þeim hlekktist eitthvað á.
Hefir það skeð í minnum þeirra manna, er enn em á lífi. En mörg ár em nú síðan svo hátt hefir verið slegið í hólinn, að það hafi getað valdið óhappi.“

Í Dagblaðinu-Vísi árið 2006 er fjallað um „Álfavandræði í Vogum“:

Vogar

Vogar – heimili eldri borgara 2020.

„Sveitarstjórn Voga á Vatnsleysuströnd leitaði nýlega til Erlu Stefánsdóttur álfasérfræðings og bað hana að koma og leysa vandamál í tengslum við byggingu fyrir eldri borgara. Á byggingarreit við Vogagerði, þar sem Búmenn ætla að reisa svokallað Stórheimili fyrir eldri borgara, stendur álfhóll. Sveitarstjórninni var umhugað um að styggja ekki álfana vegna framkvæmdanna við byggingu hússins og því var Erla fengin til að ræða við álfana og bjarga málinu.

Erla Stefánsdóttir

Erla Stefánsdóttir.

„Það er ekkert merkilegt við þetta,“ segir Erla. „Ég er oft fengin til að leysa svipuð vandamál víða um land.“ Að sögn Erlu fór hún einfaldlega með þuluna gömlu úr þjóðsögunum: „Fari þeir sem fara vilja og veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu…“ Auk þess að biðja bæn.
Aðspurð um hvort hún hafi séð álfa á þessum umrædda bletti segir Erla svo vera og að þeir séu í raun lítt frábrugðnir fólki. Og klæðnaður þeirra hefur einnig fylgt tíðarandanum, margir þeirra hafi skipt vaðmálsbuxum út fyrir gallabuxur svo dæmi sé tekið.
Á vefsíðu sveitárfélagsins er greint frá þessu máli og undanfara þess en nokkrir íbúar sveitarfélagsins lýstu yfir áhyggjum sínum vegna röskunar á þessum forna álagabletti sem varðveittur hefur verið í margar kynslóðir. „Allt fram til dagsins í dag hafa verið til óskrifaðar reglur um það að háreisti barna og hvers konar rask sé ekki viðhaft á hólnum. Til eru sögur sem segja frá samskiptum íbúa hólsins við aðra Vogabúa, aðallega þó um hrakfarir þeirra síðarnefndu eftir að hafa átt við hólinn. Fleiri álagabletti er að finna í sveitarfélaginu Vogum og er Karlshóll sem stendur við Hafnargötu gott dæmi um farsælt sambýli álfa og manna,“ segir meðal annars á vefsíðunni.
Róbert RagnarssonÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar í vor var ákveðið að kalla á Erlu til að ræða við íbúa hólsins um þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum. Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, kom Erla og ræddi við íbúana. „Álfarnir fullvissuðu Erlu um að þeir væru sáttir við það að á þessum stað yrði reist Stórheimili þar sem eldri borgarar í Sveitarfélaginu Vogum geta átt notalegt heimili með glæsilegu útsýni yfir Faxaflóann. Hólsins verður eflaust saknað en álfarnir hafa nú fundið sér annan samastað, en vildu ekki gefa hann upp.“ Segir á vefsíðunni.
Róbert Ragnarsson sveitarstjóri í Vogum segir að Erla hafi verið kölluð til sem sérfræðingur og að hún hafi fengið greitt í samræmi við það.
„Þetta var þó ekki há upphæð,“ segir Róbert. „Raunar ein hagstæðasta ráðgjöf sem við höfum keypt.““

Heimildir:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961, bls. 268.
-Dagblaðið-Vísir, 106. tbl. 30.06.2006, Álfavandræði í Vogum, bls. 70.

Vogar

Vogar – loftmynd frá 1954 sett yfir loftmynd frá 2020.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var um Gamla-Kirkjuvog.
Þar, norðan Ósa, má enn sjá bæjarhólinn forna. Á honum mótar fyrir hleðslum. Skammt sunnar eru grónar og sandorpnar hleðslur á tveimur lægri hólum. Vestar sést Svæðiðgreinilega bogadreginn jarðlægur garður og nokkru austar manngerður hóll (dys?), virki eða eftirlitsstaður. Er hann jafnframt ein áhugaverðasta fornleifin á svæðinu. Enn austar eru tóftir við suðaustanverðan Djúpavog (hóll, brunnur og gerði). Enn austar, handan Djúpavogs, eru leifar a.m.k. tveggja selja.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 um „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“. Þar segir hann m.a. um Gamla-Kirkjuvog og Gamla-Kotvog, sem áttu að hafa verið norðan Ósa en ekki sunnan eins og síðar varð.
„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar.
KaupstaðagatanEr löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn.
Gamli-Kirkjuvogur - 2Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.
Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«.
Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Gamli-Kirkjuvogur - 3Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi. Hér virðist »Djúpivogur « vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla.
Gamli-Kirkjuvogur - 4Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.
— Hannes hét maður, Erlendsson, er var á Stafnesi hjá Guðna sýslumanni Sigurðssyni og fluttist með honum að Kirkjuvogi 1752. Um Hannes er þess getið í riti séra Sigurðar, að hann hafði oft farið i Geirfuglasker á tólfæringi. Þá var skerið sem kýrfóðurvöllur að stærð, og alþakið fugli. Nú er skerið alveg í kafi. Efni þess var móberg, og hefir sjórinn smámsaman máð það burtu.
Gamli-Kirkjuvogur - 5Á dögum Guðna sýslumanns fékkst sáta af heyi þar sem nú heitir Kirkjusker fyrir framan Kotvog. Það er nú þangi vaxið. Þetta sagði séra Sigurði Gróa Hafliðadóttir, merk kona í Kirkjuvogi, en henni hafði sagt Ragnhildur Jónsdóttur, er var ráðskona Guðna sýslumanns á síðustu árum hans. Hún komst á níræðisaldur og var einkarfróð kona. Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland. Nú í seinni tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.“

Gamli-Kirkjuvogur - 6

Í Morgunblaðinu 2001 er frétt undir fyrirsögninni „Sækja um styrk til fornleifarannsókna í gamla Kirkjuvogi“. BYGGÐASAFN Suðurnesja og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar hafa sótt um styrk úr Kristnihátíðarsjóði til að láta gera fornleifarannsóknir á gamla Kirkjuvogi í Höfnum í Reykjanesbæ. Áætlað er að rannsóknirnar hefjist á miðju næsta ári og taki tvö ár.
Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Í skýrslu um fornleifaskráningu á Miðnesheiði sem Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur vann fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, en eyðibýlið er inni á varnarsvæðinu, kemur fram að jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á
sextándu öld. Kirkjuvogur var fluttur suður fyrir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.
Gamli-KotvogurTil aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur gamli Kirkjuvogur en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur. Í skýrslu Ragnheiðar kemur fram að afar áhugavert væri að ráðast í fornleifarannsókn í gamla Kirkjuvogi. Bæjarhóllinn sé óspilltur af nútíma-framkvæmdum. Hóllinn er rúmir 23 metrar á lengd, 10 á breidd og tveggja metra hár þar sem hann er hæstur. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Bæjarhólnum stafar hætta af landbroti eins og fleiri minjum í gamla Kirkjuvogi. Skammt vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti. Norðan við hólinn eru ógreinilegar leifar túngarðs úr grjóti.
Gamli-Kotvogur - 2Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarð í Kirkjugarði í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð. Lengra frá er sel, Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðar rústir og nokkrar sagnir til um það. Einnig eru heimildir um blóðvöll sem nefnist Beinhóll og fleiri minjar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Suðurnesja, segir að fornleifaskráning Ragnheiðar Traustadóttur staðfesti mikilvægi fornleifarannsóknar í gamla Kirkjuvogi. Hún segir að ef fjármagn fáist verði ráðinn fornleifafræðingur eða stofnun í tvö ár til að annast rannsóknina.
GeirfuglinnHún segir að áhugi sé á að nýta rannsóknina einnig í þágu bæjarfélagsins og íbúa þess. Þannig hafi komið upp hugmyndir um að bjóða nemendum skólanna að fylgjast með rannsókninni, með því að koma í heimsóknir og fá útskýringar sérfræðinga. Einnig mætti hugsanlega nýta rannsóknina við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu sem unnið hefur verið að á Suðurnesjum.“
Hér að framan er greinilega verið að lýsa rústunum við Djúpavog sem Brynjúlfur segir að kunni að hafa verið gamli Kotvogur eða bærinn Djúpivogur.

Geiri

Í Morgunblaðinu 2002 er frétt um uppgröft í Höfnum, „Skáli og útihús frá landnámsöld fundin í Kirkjuvogi í Höfnum – Hugsanlegt að þar sé bær Herjólfs Bárðarsonar fóstbróður Ingólfs“. Þar segir: „FUNDNAR eru minjar sem taldar eru vera frá landnámsöld, skammt frá Kirkjuvogskirkju í Höfnum, að öllum líkindum skáli og útihús. Forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar telur ekki fráleitt að fundinn sé bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stjórnar skráningu fornminja í Reykjanesbæ. Þegar farið var að skoða loftmyndir af Höfnum taldi hann sig strax sjá móta fyrir landnámsskála. Í fyrradag var grafin hola ofan í miðjan skálann og þar fengust vísbendingar um að kenning Bjarna væri rétt þótt frekari rannsóknir eigi eftir að fara fram. Komið var niður á heillegt gólf frá landnámsöld og hleðslu sem talið er að geti verið úr langeldinum. Þarna fannst brot úr brýni og af járnhring, viðarkol og soðsteinar.

Hafnir

Landnámsskáli í Vogi í Höfnum.

Bjarni telur allar líkur á að þarna hafi verið skáli og útihús á landnámsöld. Hann sér móta fyrir 5 öðrum tóttum á svæðinu og garði.
Jón Borgarsson, sem lengi hefur búið skammt frá þessum stað, sagði að nú áttuðu menn sig á því hvað þeir hefðu verið vitlausir að vera ekki búnir að sjá þetta út fyrir löngu. Allt Reykjanesið tilheyrir landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, rifjar það upp að Ingólfur hafi gefið vini sínum og fóstbróður, Herjólfi Bárðarsyni, landið milli Vogs og Reykjaness. Hann hafi búið í Vogi sem menn hafi til þessa helst talið að væri gamli Kirkjuvogur, sem er norðan Ósabotna.
Hafnir - skiltiFornleifafundurinn geti bent til þess að Herjólfur hafi byggt bæ sinn þar sem nú eru Hafnir en hann verið fluttur yfir Ósbotna 100 árum síðar. Fyrir liggi að bærinn hafi á 16. öld verið fluttur til baka en Kirkjuvogsbærinn stóð eftir það skammt frá kirkjunni og þá um leið gömlu tóttunum. Sigrún Ásta segir að þetta sé mikilvægur fornleifafundur. Mikilvægt sé að hefja viðamikla rannsókn á staðnum og víðar því Reykjanesið hafi lítið verið rannsakað. Tóttirnar eru inni í miðju byggðahverfinu í Höfnum og þær gætu nýst við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.“ (Sjá meira HÉR.)

Geirfugladrangur

Um Geirfuglasker (Geirfugladrang) var nýlega fjallað í Fréttablaðinu: „Á þessum degi árið 1972 kom í ljós að Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hafði hrunið eða sokkið í sæ. Dranginn er grunnlínupunktur landhelginnar, vestasti viðmiðunarpunktur og var áður um 10 metra hár. Í dag kemur hann aðeins upp úr sjó á fjöru.
Fréttir af því að Geirfugladrangur hefði horfið bárust seinnipart dagsins en það var mótorbáturinn Venus frá Hafnarfirði sem tilkynnti landhelgisgæslunni um hvarfið. Báturinn hafði verið á veiðum þar nærri, sem dranginn hafði staðið og var hvergi sjáanlegur þegar skipsverjar fóru að svipast um eftir honum. Varðskip á staðnum voru send til að kanna málið. Nokkrar umræður sköpuðust um það hvort reglugerðin um hina þá fyrirhuguðu fimmtíu mílna landhelgislínu yrði að endurskoða og gildandi landhelgi. 

Leifar

Nokkrum dögum eftir hvarfið gaf forstjóri Landhelgisgæslunnar út þá yfirlýsingu að atvikið hefði engin áhrif á landhelgina. Ekki var ljóst hvort hafið hafði sorfið drangann niður eða hvort jarðsig hafði orðið. Í kjölfarið lýstu margir því yfir að merkja þyrfti drangann vel þar sem hann væri orðinn eitt helsta blindsker landsins.“

Þegar gengið var eftir Kaupstaðaleiðinni frá Þórshöfn að Djúpavogi mátti glögglega sjá að hún hafði verið unnin á köflum, en látið hefur nægja að kasta annars staðar úr götunni. Leiðin endar annarsvegar við austanverða Þórshöfn þar sem líklegt er að verslunarhúsin hafi staðið forðum og hins vegar ofan og vestan Djúpavogs.
Leifar-2Frá Gamla-Kirkjuvogi er, auk Kaupstaðaleiðarinnar, önnur gata nær sjónum. Liggur hún yfir að tóftunum fyrrnefndu suðvestan Djúpavogs. Þegar svæðið neðan við Gamla-Kirkjuvog var skoðað af gaumgæfni kom í ljós hringlaga hleðsla við götu er legið hefur austan við suðaustasta rústahólinn. Þar gæti hafa verið brunnur fyrrum.
Varða ofan Gamla-KirkjuvogsÞegar skoðað var allnokkuð upp í heiðina ofan við Gamla-Kirkjuvog kom svolítið sérkennilegt í ljós; fornar hleðslur á klettastöllum, sem víða má sjá þar uppi. Dátar á 20. öld hafa gert sér hreiður víðsvegar í heiðinni, en þessar mannvistarleifar eru miklu mun eldri. A.m.k.fjórar hleðslur eru á þremur stöðum og er ein þeirra gróin að mestu. Þær virðast hafa verið ca. 250×120 cm. Einungis sést neðsta steinröðin, sú er mótað hefur mannvirkið á hverjum stað. Líklegt er að það hafi verið gert úr torfi, en það fokið frá líkt og heiðin öll. Erfitt er að geta sér til um hlutverk þessara leifa. Gömul varða er við tvö þeirra. Þau gætu hafa verið smalaskjól þótt heiðin beri ekki með sér að hafa fóstrað fé.
Brunnur?Stafsnessel, sem er þarna skammt frá, bendir þó til annars. Þau gætu líka hafa verið einhvers konar geymslustaðir eða jafnvel grafir þar sem urðað hefur verið yfir viðkomandi. Þá er ekki ólíklegt að um hafi verið að ræða gerði er ungir yrðlingar hafa verið geymdir í til að laða að fullorðna refi svo auðveldara hafi verið að ná þeim, a.m.k. benda leifar af ævagömlum refagildrum í nágrenninu til þess að svo geti hafa verið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 41-42.
-Morgunblaðið 5. okt. 2001, bls. 22.
-Morgunblaðið 1. des. 2002, baksíða.
-Fréttablaðið 22. mars. 2010,  bls. 18.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.

Sundhnúkar

Gengið var frá Svartsengisfelli, öðru nafni Sýlingarfelli, þvert yfir Sundhnúkahraun með stefnu á hæsta gíg Sundhnúkagígaraðarinnar sunnan Stóra-Skógfells.

Stóra-Skógfell

Stóra-Skógfell.

Sundhnúkahraunið, sem er um 2400 ára, kom upp á sprungurein líkt og svo mörg hraunin á nútíma á Reykjanesskaganum. Gígaröðin nær frá Hagafelli upp að Kálffelli og er um 10 km löng. Besta yfirsýnin yfir gígana er uppi á Stóra-Skógfelli austanverðu. Þaðan sést vel hvernig röðin liggur í svo til beina stefnu og sneiðir við austurhornið á Skógfellinu. Einmitt þess vegna er staðsetning á myndarlegum rauðleitum gjallgíg, eða gjallhrygg öllu heldur, austan fellsins og þar með utan við hina beinu gígaröð, nokkurt spurningarmerki. Margir hafa talið hann með Sundhnúkagígaröðinni, en nú var ætlunin að skoða hann nánar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Sundhnúkahraunið er blandhraun, bæði hellu- og apalhraun. Hellurhraunið hefur runnið þunnfljótandi í upphafi gossins, en síðan hefur apalhraunið fengið að njóta sín þegar á leið. Fallegar hrauntraðir eru vestan gígaraðarinnar, en hraunið er í rauninni hvergi erfitt yfirferðar.
Þegar komið var upp í gíginn, sem stefnan hafði verið tekið á, komu í ljós fallegar hraunæðar vestan við hann, og op við efri enda þeirra. Það var ekki nægilega stórt til að komast inn (þarna þarf járnkarl), en þegar myndarvélinni var stungið inn um gatið og myndað sást inn í sæmilega rás. Skammt austar er gígurinn. Í vesturjaðri hans er gat, en erfitt var að sjá hvort það tengdist því neðra.

Ofan og austan við gígaröðina, eru slétt helluhraun með ýfingum á milli. Rauðhóll blasir þarna við í norðaustri og sker sig út úr mosabreiðulandslaginu.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Þykk mosaþemba gerð af hraungambra er umhverfis hólinn (gíginn), en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hraunum Reykjanesskagans. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.
Austan við Stóra-Skógfell eru helluhraunaléttur með lágum hraunhryggjum á milli. Þegar staðið er þar með Skógfellið að vestanverðu, Fagradalsfjall að austanverðu (gegnt Kastinu), Vatnsheiðina að sunnanverðu og Þráinsskjöld að norðanverðu má segja að sjá megi nær allar tegundir eldsupprunamöguleika á Skaganum; dyngjur á bak og fyrir, ísaldatilurðir til beggja handa og nútímann svo til við nefið.

Sundhnúkahraun

Ein af gersemum Sundhnúkahrauns.

Hinn rauðleiti gjallgígur framundan er hér nefndur Rauðhóll, bæði vegna litarins og auk þess mun þetta vera heiti á flestum líkum á Skagagnum. Ekki er vitað til að eitt nafn umfram annað hafi verið fest á hann. Í rauninni virðist hann ekki vera gígur, einungis bogadregin hæð, en þegar betur er að gáð sést vel hvernig helluhraun úr Sundhnúkagígaröðinni hefu runnið í kringum gíginn og inn í hann að austanverðu. Rauðhóll er greinilega eldri gígur en hinir vestan hans. Betur er gróið í síðum hans en annars staðar í hrauninu – beiti- og krækilyng, geldingahnappur, einir og fleiri tegundir má sjá í skjóli hans. Þegar staðið er upp á honum sést í nokkra litla toppa, mun lægri, með sömu stefnu og hann til norðausturs.

Sundhnúkahraun

Eldri gígar í Sundhnúkahrauni.

Þarna eru líklega leifar af enn eldri gígaröð en Sundhnúkagígaröðin er, en hraun úr henni hefur runnið yfir eldra hraunið og hulið það að langmestu leyti. Eftir standa Rauðhóll og nokkrir smærri bræður hans. Líklega eru Sandhólarnir (Sandhóll vestan Faradalsfjalls og Innri-Sandhóll, skammt austan Stóra-Skógfells) leifar af enn einni gígaröðinni á þessu svæði.

Gengið var til baka yfir Sundhnúkagígaröðina og stefnan tekin þvert á hrauntröðina vestan hennar. Tröðin er ein af mörgum slíkum á þessu svæði.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Allnokkuð er um litlar hraunbólur (hraunhvel) og yfirborðsrásir, einkum næst gígaröðinni, en enga raunverulega hella var að sjá þarna, enda að mestu um apalhraun að ræða.

Hraunin ofan við Grindavík eru flest tiltölulega greiðfær, ekki síst í frosti, eins og nú var. Þá er mosinn frosinn og líkur gervigrasi að ganga á. Skógfellavegurinn liggur þarna milli Grindavíkur og Voga, austan Sundhnúkagígaraðarinnar og Skógfellanna, og því auðvelt að rata. Fjölbreytileikinn er mikill því ávallt birtist eitthvað nýtt er gleður augað. Hraunkarlinn í Sundhnúkahrauni virðist t.a.m. vera merkilegur með sér og alls ekki ólíkur þekktri teiknimyndapersónu. Vegalengdir er þolanlegar og um margar leiðir að velja. Þarna er því um kjörið heilsubótar- og þjálfurnarumhverfi að ræða – fyrir íbúa heilsubæjarins og gesti þeirra.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Selvogur

Gefið hefur verið út minja- og örnefnakort fyrir Selvog í Sveitarfélaginu Ölfus. Undirbúningur og gerð kortsins hefur staðið yfir um langt skeið, en í góðu samstarfi við „gömlu mennina“ og aðra kunnuga hefur tekist að ljúka verkinu.

Selvogur

Fulltrúi FERLIRs ræðir við Þórarinn Snorrason á Vogsósum.

Til hafa verið örnefnalýsingar fyrir Selvog, en þær eru mjög misvísandi. Þegar Kristófer Bjarnason frá Þorkelssgerði lést á síðasta ári [2010], en hann hafði farið með FERLIR nokkrum sinnum um svæðið, var ákveðið að fá þá tvo menn, Þórarinn Snorrason á Vogsósum og Þórð Sveinsson frá Bjargi, er enn voru á lífi og þekktu gleggst til staðhátta á svæðinu til að koma saman heildstæðum uppdrætti. Og með stuðningi sveitarfélagsins og þolinmæði prentarans tókst að fullkomna verkið, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á kortinu má auk þess sjá ljósmyndir af gömlu bæjunum.

Selvogur

Frá Selvogi.

Kort þetta þjónar a.m.k. tvennu; í fyrsta lagi að stuðla að varðveislugildi örnefnanna og staðsetningu minja frá fyrri tíð og í öðru lagi að minnka líkur á að verðmæti fari forgörðum vegna þekkingarleysis. Þá gefur uppdrátturinn ágæta yfirsýn yfir þróun byggðar í Selvogi. Sjá má hvar gömlu bæjunum hafði verið raðað ofan við ströndina. Verbúðir og fjárborgir voru við sjóinn og á milli lágu götur; kirkjugata og brunngata. Ofar má enn sjá leifar af hjáleigunum.
Ætlunin er að fá sóknarnefnd Strandarkirkju í samvinnu við Biskupsstofu til að setja kortið upp við bílastæðið nálægt kirkjunni til glöggvunar og upplýsinga fyrir hina fjölmörgu ferðamenn, sem sækja Selvog heim árlega.

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

 

Arnarfell

Fornritin eru almennt talin til hinna mestu gersema. En hvað um minjarnar á vettvangi?
Á Reykjanesi býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en Handritjafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi ómetanlegra minja, bæði náttúruminja og menningarminja. Flestar lýsa menningarminjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, sem og búskapar- og atvinnuháttum liðinna alda. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesi, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka.
Minjasagan lýsir m.a. einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni. Um þetta og ótalmargt annað er fjallað á vefsíðu þessari.
HúshólmiGönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesi. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1100 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.
Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesið leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum.
FERLIRTil gamans má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um eitt hundrað og áttatíu sel á svæðinu frá Suðurlandsvegi að Reykjanestá, auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 350 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, hlaðnar refagildrur sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.
Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta ummerkin um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og vanda til allra ákvarðana um nýtingu þess til langrar framtíðar.
Fólk er hvatt til að kynna sér efni vefsíðu FERLIRs – www.ferlir.is – með von um aukna vitund á verðmæti Reykjanesskagans, hvort sem um er að ræða náttúruleg eða söguleg, svo og minnkandi líkur á eyðileggingu þeirra.

Framangreint erindi var haldið á Ferðamálaráðstefnu Ferðamálasamtaka Suðurnesja á Hótel Sögu þriðjudaginn 27. mars. 2007.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

 

Selvogur - örnefna- og minjakort

Gefið hefur verið út minja- og örnefnakort fyrir Selvog í Sveitarfélaginu Ölfus.

Selv-1

Þórarinn Snorrason á Vogsósum fer yfir uppdráttinn.

Undirbúningur og gerð kortsins hefur staðið yfir um langt skeið, en í góðu samstarfi við „gömlu mennina“ og aðra kunnuga hefur tekist að ljúka verkinu.
Til hafa verið örnefnalýsingar fyrir Selvog, en þær eru mjög misvísandi. Þegar Kristófer Bjarnason frá Þorkelssgerði lést á síðasta ári [2010], en hann hafði farið með FERLIR nokkrum sinnum um svæðið, var ákveðið að fá þá tvo menn, Þórarinn Snorrason á Vogsósum og Þórð Sveinsson frá Bjargi, er enn voru á lífi og þekktu gleggst til staðhátta á svæðinu til að koma saman heildstæðum uppdrætti. Og með stuðningi sveitarfélagsins og þolinmæði prentarans tókst að fullkomna verkið, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á kortinu má auk þess sjá ljósmyndir af gömlu bæjunum.
Kort þetta þjónar a.m.k. tvennu; í fyrsta lagi að stuðla að varðveislugildi örnefnanna og staðsetningu minja frá fyrri tíð og í öðru lagi að minnka líkur selv-2á að verðmæti fari forgörðum vegna þekkingarleysis. Þá gefur uppdrátturinn ágæta yfirsýn yfir þróun byggðar í Selvogi. Sjá má hvar gömlu bæjunum hafði verið raðað ofan við ströndina. Verbúðir og fjárborgir voru við sjóinn og á milli lágu götur; kirkjugata og brunngata. Ofar má enn sjá leyfar af hjáleigunum.
Ætlunin er að fá sóknarnefnd Strandarkirkju í samvinnu við Biskupsstofu til að setja kortið upp við bílastæðið nálægt kirkjunni til glöggvunar og upplýsinga fyrir hina fjölmörgu ferðamenn, sem sækja Selvog heim árlega.

Selvogur

Fulltrúi FERLIRs fer yfir uppdráttinn með Þórði Sveinssyni.

Í „Skýrslu um landshagi á Íslandi 1861„, kaflanum „Brauðamat á Íslandi“, er getið um selstöðu frá Görðum á Álftanesi: „Garðar á Alptanesi – Brauð þetta hefir ekki verið metið, en frá sóknarprestinum hefir komið uppteiknun yfir allmargar af tekjugreinunum, og verður henni hér fylgt, þó í mörgu hljóti að vera ábótavant.
Kaldarsel-223Tekjur – 1. Tekjur af jörðum, sem prestakallinu fylgja og sem eru: a) Prestssetrið Garðar. Dýrl. óviss. Kúgildi heima. Jörðin tjáist að fóðra 8 kýr; henni telst til gildis: aflavon af sjó meiri part ársins; sauðganga góð á vetrum í fjöru, »ef mátulega margt er haft«. Sumarhagar litlir, og örðugleiki á mótaki. »Kirkjan á land fyrir ofan Setbergs, Áss, Ófriðarstaða- og Hvaleyrarlönd, sem getur verið góð selstaða«; en það tjáist að öðru leyti svo fjarlægt, að illt sé að nota, sem og að verja skógarló þá sem þar er.“
Hér er væntanlega átt selstöðu í Kaldárseli og/eða í Helgadal.

Heimild:
Skýrslur um landshagi á Íslandi, 2. árg. 1861, 2. bindi, bls. 626-627.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Hafnarfjörður

Dvergasteinar eru margir á landinu. Má t.d. nefna Dvergastein við norðanverðan Seyðisfjörð. Niðri í fjöru þar við fjörðinn, neðan bæjar, er stór steinn, sem líkist húsi í lögun. Sagan segir, að þessi steinn og kirkja hafi staðið hlið við hlið sunnan fjarðar. Þegar kirkjan var flutt norður yfir, kom steinninn siglandi á eftir henni yfir fjörðinn. Annar Dvergasteinn er í Álftafirði fyrir Vestan. Og í Hafnarfirði eru a.m.k. tveir nafngreindir Dvergasteinar með sögu.

Dvergasteinn undir Hamrinum
Dvergasteinn-12„Á austanverðri grasflötinni milli Hafnarfjarðarkirkju og safnaðarheimilisins Strandbergs er steinn sem kallast Dvergasteinn. Þegar kirkjan var byggð árið 1914 fékk hann að standa óhaggaður. Stein þennan vill enginn hreyfa, því verði honum haggað munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta þess óhengt. Stendur Dvergasteinn í skjóli kirkjunnar rétt neðan Hamarsins og lætur lítið yfir sér. Við þennan stein stóð húsið Dvergasteinn þar sem Emil Jónsson fyrrum bæjarstjóri og ráðherra fæddist og ólst upp.“
Dvergasteinninn er nú í öruggi skjóli kirkjunnar, en fyrir vikið er hann fáum kunnugur. Gera mætti þar bragarbót á, t.d. með merkingu (húsamynd) og setbekk til að setjast á í skjóli húsanna með útisýni til austurs þar sem húsið Dvergarsteinn stóð.

Dvergasteinn/Markaklettur við Merkurgötu
Dvergasteinn-13„Við Merkurgötu í Hafnarfirði þrengist vegurinn mjög við klett sem skagar út í götuna og uppúr klettinum stendur járnkarl pikkfastur. Munnmælasaga hermir að í kringum 1920 hafi staðið til að brjóta niður klettinn vegna húsbyggingar en að það hafi ekki gengið og að ástæðan væri sú að í klettinum byggi dvergur sem vildi ekki flytja.“
Dvergasteinninn við Merkurgötu er dæmigerður kletta er setja svip sinn á Hafnarfjörð (eða m.ö.o. sem bærinn tekur svip af innan gömlu byggðarinnar). Álfhóll er skammt sunnar. Honum tengjast álfasögur (sjá síðar).

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

 

Borgarkot

Borgarkot eru tóftir býlis austan Bakka og Litlabæjar, skammt austan Kálfatjarnar. Talið er að Borgarkot hafi tilheyrt Viðeyjarklaustri um tíma, eins og svo margar jarðir aðrar á norðanverðum Reykjanesskaganum. Þá mun Krýsuvík um sinn hafa haft þar stórgripi í skiptum fyrir afnot af landi innar á skaganum.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

Að þessu sinni var ætlunin að fylgja svonefndri stórgripagirðingu til austurs eftir móunum frá hlöðnum görðum ofan við Litlabæ. Girðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar.
Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða borðuð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá einhverjum, sem kann skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu.
HÉR má sjá viðbótarfróðleik um girðinguna.

Borgarkot

Borgarkot – steingirðing.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans. Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Fjaran er margbrotin og í henni margt að sjá. Á kafla er t.a.m. um fallega skeljaföru að ræða.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ofan við Borgarkot má sjá hlaðnar refagildrur, vatnsstæði og hlaðin gerði. Minkurinn hefur víða komið sér vel fyrir. T.a.m. mátti að þessu sinni sjá hann leggjast á sund frá fjöruborðinu áleiðis út í sker skammt utar þar sem fugl sat og átti sér einkis ills von. Sundhraði minksins var órtúlegur. Slóðir hans í grasinu voru augljósar sem og holur hans.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.