1. Bláberjahryggur
Bláberjahryggur er misgengisprunga sem liggur um Bleiksteinsháls milli Kaldárselsvegar og Hamraness. Norðvestur barmurinn er hærri og misgengið er mest um 3-4 metrar. Jarðskorpan hefur rifnað í sundur áður en Búrfellshraun rann og sést misgengið greinilega norðaustan Gráhelluhrauns þar sem það markar skilin milli Flóðahjalla og Setbergshlíðar.
2. Norður Gjár
Nyrstu hlutar Gjánna eru skammt suður af Sléttuhlíð þar sem hraunið skiptist í jarðföll, hella og lágreista hraunstalla. Barrtjrám og öðrum skógarplöntum hefur verið plantað í Norður-Gjárhraun þ.m.t. í nyrstu hraunrásina en um hana lá áður fyrr greiðfær leið milli Kaldársels og Sléttuhlíðarhorns.
3. Gjárnar
Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009
4. Misgengi
Sunnan við Fremstahöfða í Höfðalandi er lítilsháttar misgengisbrún sem myndaðist fyrir löngu í skjálftahrinu og stendur vestari hlutinn hærra í landinu. Misgengið virðist vera frekar stutt vegna þess að hraun hefur runnið að mestu yfir það. Hægt er að greina framhald misgengisins í austanverðri Setbergshlíð.
5. Kornstangarhraun
Stórhöfðahraun var fyrrum nefnt Kornstangarhraun. Nafnið gefur til kynna að melgresi hafi vaxið umhverfis Stórhöfða í eina tíð. Fátt var fallegra þegar líða tók að hausti en bylgjandi kornstöng sem þótti góð til fóðurs fyrir stórgripi. Þetta er tiltölulega slétt helluhraun en skammt undan er ógreiðfærara brunahraun
6. Hraunamörk
Mörk Kaldárhrauns og Óbrinnishólabruna. Gosið hefur tvisvar í Óbrinnishólum en seinna gosið, sem varð um 190 f. Kr., myndaði úfið apalhraun. Kaldárhraun er friðað en það varð til við gos Tvíbollagíg á 10. öld. Þriðja hraunið kom úr Gvendarselsgígum á seinni hluta 12. aldar. Þarna sést ágætlega hversu ólík hellu- og apalhraun eru.
7. Hrafnagjá
Smyrlabúðarhraun fær nafn sitt af grágrýtisklettinum Smyrlabúð en hraunflákinn er hluti af Búrfellshrauni sem spannar alls 18 km2. Smyrlabúðahraun er greinilega tengt Svínahrauni en virðist vera algjörlega úr samhengi við Búrfellsgíg vegna misgengisins sem Búrfellsgjá og Lambagjá tilheyra. Hrafnagjá nefnist hraunsprungan í suðausturhluta Smyrlabúðarhrauns.
8. Hjallamisgengi
Hjallar er um 5 km langur misgengisstallur sem nær frá suðausturhluta Vífilsstaðahlíðar langleiðina norðaustur að Elliðavatni. Norðurbrúnin er allbrött og allt að 60 m þar sem hún er hæst. Grágrýtisklettar mynda efri brún en neðan þeirra eru grýttar brekkur og neðan þeirra ber mest á dalverpinu Hjallaflötum.
9. Húsfellsbruni
Elsti Húsfellsbruni, sem liggur rúmlega hálfhring umhverfis Húsfell, er víðáttumikið og úfið apalhraun sem varð til á 10. öld. Bruninn er mosavaxinn og skiptist í mikilúðlega hraundranga, slétta fleti og niðurföll. Hraunið er misgreiðfært og á köflum allt að því hættulegt yfirferðar.
10. Kringlóttagjá
Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði og líkist Gjánum enda varð hún til í sömu goshrynu. Barmarnir eru 5-10 metra háir og mynda óreglulega skál sem er um 200-300 metrar að ummáli með klettadranga á stangli. Glóandi kvikan rann neðanjarðar frá hrauntjörninni áður en botninn storknaði og myndaði skálina.
11. Valahnúkar
Valahnúkar urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld líkt og Helgafell, Húsfell og Víghóll sem eru í næsta nágrenni. Austarlega á móbergshryggnum standa þrjár strýtur sem líkjast steinrunnum tröllum eða jafnvel ránfuglum. Talið er að nafnið Valahnúkar sé beinlínis tengt lögun þessara kynjamynda.
12. Gvendarselsgígar
Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
13. Gullkistugjá
Löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður í Skúlatúnshraun. Sprungan liggur í NA/SV líkt og flestar gjár og sprungur á Reykjanesskaga. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá.
14. Skúlatún
Skúlatún er grasi gróinn hæðarhryggur sem stóð hátt í landinu þegar þunnfljótandi helluhraun rann umhverfis hann. Aldur Skúlatúnshrauns hefur ekki verið nákvæmlega greindur, en líklegast þykir að það sé um 1.100 ára en það gæti verið allt að 4.000 ára gamalt. Skúlatún stendur eins eyja í miðri hraunbreiðunni.
15. Undirhlíðagígar
Undirhlíðagígar kallast röð af smágígum sem mynduðust á gossprungu sem talið er að hafi opnast á tímabilinu 1151-1180 þegar Krýsuvíkureldar loguðu á Reykjanesi. Mikill hraunmassi, sem kallast Bruninn og er líka þekktur undir nöfnunum Nýjahraun og Kapellhraun, varð til í þessum eldsumbrotum.
16. Hrauntröð Háabruna
Megineldgígarnir sem Nýjahraun rann frá um miðja 12. öld voru sitthvoru megin við Krýsuvíkurveginn skammt frá Vatnsskarði. Gígunum hefur verið eytt að mestu með efnistöku, en hrauntröðin sem stærstur hluti Nýjahrauns rann eftir er ágætlega varðveitt. Það er áhugavert að skoða hana í samanburði við Búrfellsgjá.
17. Fremsti-Höfði
Fremsti-Höfði er lítill móbergsklettur með vörðu sem er gamalt landamerki milli Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga. Kletturinn sker sig úr nánasta umhverfi þar sem hann stendur því sem næst á gossprungunni milli Fjallsins eina og gígs sem var nefndur Hraunhóll. Sá gígur er að mestu horfinn vegna mikillar efnistöku.
18. Gjárop í hraunbrún
Margar djúpar og gjár og misgengissprungur er að finna í Hrútagjárdyngjuhrauni. Þar á meðal er sprungurein sem er spölkorn norðvestan við Fjallið eina en meðfram henni lá áður ein af mörgum leiðum um Almenninginn. Gjáin virkar eins og hellisop inn í Hrútagjárdyngjuhraunið séð frá Krýsuvíkurveginum.
19. Sauðabrekkugígar
Sauðabrekkugígar eru skammt frá Sauðabrekkugjá, en svo nefnist stórbrotin misgengissprunga með áberandi hamraveggjum sem eru hærri að vestanverðu. Gígarnir urðu til við gos allnokkru eftir að Hrútagjárdyngjuhraunið rann. Hrauntungustígurinn liggur því sem næst yfir miðja gígaröðina.
20. Klofaklettur
Margsprungnir klettar finnast víða í Almenningi sem bera nöfn eins og Klofi, Krossstapi, Klungur og Skorás. Norðan við miðbik Sauðabrekkugíga og Búðarvatnsstæðis er slíkur klettur og varða skammt undan. Sunnar er Búðagjá, sem er ævafornt nafn á vestasta hluta Sauðabrekkugjár.
21. Snjódalaás
Snjódalaás er klapparás í um 1 km fjarlægð suður af Hvassahraunsseli, en þar eru mikil og djúp jarðföll með nokkru kjarri og nefnist svæðið einu nafnið Snjódalir. Allt um kring eru víðáttumikil mosahraun og getur reynst erfitt að finna dalina ef komið er að þeim að ofanverðu.
22. Urðarás
Urðarás varð væntanlega til þegar neðanjarðar hraunrás stíflaðist og braut sér leið upp á yfirborðið vegna ógnarþrýstings. Þegar rásin tæmdist féll þakið niður í rásina og myndaði brothring með grjóturð. Oft eru stórir hellar tengdir slíkum jarðfræðifyrirbærum en á þessum slóðum hafa einungis fundist smáhellar.
23. Löngubrekkugjá
Löngubrekkugjá nefnist sprungubeltið suðaustarlega í Smalaskálahæð, sem er innar og nánast þvert á Alfaraleiðinna milli Suðurnesja og Innnesja. Sprunga nær götunni er þekkt sem Hrafnagjá enda má finna þar yfirgefna hrafnslaupa á klettasyllum. Skammt frá gjánni er Óttarsstaðafjárborg, sem var oftast kölluð Kristrúnarfjárborg.
24. Rauðamelstjörn
Rauðmalarhólar myndast þegar hraun renna út í stöðuvötn eða mýrlendi. Allir rauðhólar í nágrenni byggðarinnar eru horfnir því mölin var notuð í húsbyggingar og vegagerð. Á þessum stað voru Stóri- og Litli-Rauðamelur, en sá fyrrnefndi hvarf vegna námuvinnslu og eftir stendur djúpt ker með grunnvatni sem myndar tjörn.
25. Katlar
Katlar nefnast jarðföll eða gjótur sem eru í suðurjaðri Draughólshrauns, rétt norðan við Jónshöfða og Straumsselshöfða. Straumsselsgatan liggur þétt við Katlana þar sem hún liggur sniðhalt í áttina að Straumsselhöfða. Gróðursælt er í Kötlum og stingur umhverfið nokkuð í stúf við mosavaxið Draughólshraunið.
26. Hellan við Efrihella
Hellan var fyrrum kölluð Gráhella og er áberandi klettur í vesturbrún Kapelluhrauns. Skammt vestan drangsins eru Efrihellar í sléttu helluhrauni sem fræðimenn kalla Selhraun 3, en heimamenn nefndu Gráhelluhraun.
27. Dulatjarnir
Dulatjarnir við Dulakletta eru spölkorn vestan við Réttarkletta. Þar eru merkilegar ferskvatnstjarnir og gætir flóðs og fjöru í þeim sem er einkenni tjarna sömu gerðar í Hraunum. Grastó á einum klettinum nefndist Dula og var sérstakt fiskimið sem sjómenn treystu á er þeir voru á veiðum á Lónakotsdjúpi.
(Ratleikur Hafnarfjarðar 2011).