Leiti

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um „Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun„. Hér er greinin birt að hluta:

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.

Fyrstu rannsóknir
Leitarhraun
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.

Leið hraunsins rakin

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.

Tröllabörn

Tröllabörn – gervigígar.

Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.

Hómsborg

Hólmsborg í Hólmshrauni II.

Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Rauðhólar
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar.

Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.

Aldur hraunsins

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar og Elliðavatn fjær.

Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Gullkollur

Þegar líður á júnímánuð skartar Reykjanesskaginn beggja vegna gulleitu blómaskrúði. Þetta er sérstaklega áberandi í Kollafirði og austan Grindavíkur, ekki síst undir Slögu. Gullkollur er þarna mjög algeng jurt en talið er að hann hafi verið fluttur hingað inn sem fóðurjurt og komið fyrst í Selvog. Þar er jurtin nefnd kattarkló af einhverjum ástæðum.

Gullkollur-1

Gullkollurinn er af ertublómaættinni og þar með frændi gullregnsins, lúpínunnar og fleiri merkisplanta.
Gullkollur er af ertublómaætt og vex á tveim aðskildum svæðum á landinu. Annað svæðið nær um Reykjanesskagann beggja megin og norður á Kjalarnes, en hitt svæðið er við Loðmundarfjörð og Borgarfjörð fyrir austan.  Hann hefur fjöðruð blöð og er endasmáblaðið langstærst. Gullkollur hefur aðeins verið skráður á láglendi, hæst um 180 m í Stakkahlíð í Loðmundarfirði.
Blóm gullkollsins eru mörg saman í loðnum kolli sem er með aflöngum, grænum reifablöðum neðst. Gullkollur-3Krónublöðin eru gul í endann, 12-15 mm á lengd. Bikarinn er nokkru styttri, samblaða, kafloðinn, hvítleitur en fjólublár eða rauðbrúnn í endann, fimmtenntur. Fræflarnir eru 10, samgrónir í pípu utan um frævuna neðan til. Ein löng fræva. Stofnstæðu blöðin eru stakfjöðruð, stilkuð. Endasmáblaðið er langstærst, öfugegglaga; hin smáblöðin lensulaga eða striklaga, vantar stundum alveg. Stöngulblöðin eru stilklaus, smáblöðin jafnari að stærð.
Úbreiðsla gullkolls bendir til þess, að hann sé ekki mjög gamall í landinu.  Hann virðist hafa numið land einkum á tveim svæðum, á Reykjanesskaga og nyrzt á Austfjörðum við Loðmundarfjörð, Njarðvík og fleiri víkum þar á milli. Á báðum þessum svæðum hefur hann náð töluverðri útbreiðslu meðfram ströndinni, einkum þó á Reykjanesskaganum, sem fyrr sagði.

Heimildir m.a.:
-floraislands.is/anthyvul.htmlGullkollur-4

Húsatóftir

Í Fornleifaskráningum í Grindavík, 1., 2. og 3. áfangi, á vegum Fornleifastofnunar Íslands 2002 sem og í svæðisskráningu um Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað 2001, er m.a. fjallað um einstakar vörður. Hér verður fjallað um þær vörður, bæði þær er enn standa og einnig þær horfnu, sem ekki eru við þjóðleiðir, s.s. sundvörður, leiðarvörður, vörður af miðum o.s.frv. Þá verður einnig fjallað um samskonar vörður, sem ekki hefur verið getið í fornleifaskráningum í byggðalaginu. Hafa ber í huga að land Grindavíkur er umfangsmikið; nær frá Seljabót í austri að Valahnúkamöl í vestri.

Vörður á Þórkötlustaða- og Hópsnesi (Látravarða (Gjáarvarða) og Sigga)

Gjáarvarða

Gjáarvarða ofan Gjárinnar á Nesinu.

„Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða, og norður af þeim hólum heita Katlar.“, segir í örnefnaskrá AG.
Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, um 300 m sunnan við þar sem stórt skipsflak er í fjöru. Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þótköltustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var. Grasi- og mosagróið hraunlendi. Enn sést móta fyrir vörðunni en grjóthrúga er á hraunhryggnum þar sem hún stóð.“
Meint „Látravarða“ er í raun „Gjáarvarða“, sem stendur enn, gróin og álút, ofan við Vatnsgjána í Hópsnesi.

Heiðarvarða ofan Hóps

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

„Svæðið fyrir ofan veginn er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur…Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki.“, segir í örnefnaskrá AG. Heiðarvarðan er 1100-1200 m norðnorðvestan við bæ og um 900-1000 m austan við þjóðveginn frá Grindavík. Hún er nálega beint austan við mastur sem stendur austan við þjóðveginn. Varðan er 850 m norðan við elliheimilið í Grindavík. Mosa- og grasivaxið hraunlendi. Varðan er á gróinni hraunhæð og sést víða að. Hún er sjálf 2,0-2,5 m á hæð en 3-4 m í þvermál. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni, sérstaklega úr suðurhlið hennar.“ (FERLIRsfélagar löguðu vörðuna ásamt nokkrum Grindvíkingum árið  2010.)

Varða –  sjómerki

Grindavík

Efri-Sundvarðan á Leiti – ofan Þórkötlustaða. Vitinn á Þórkötlustaðanesi fjær.

„Sjómerki „3 m austan við girðingu í apalhrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 2×2 m (A-V) og 2,2 m hátt. Vel hlaðið. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Járngerðarstaðahverfi inn á Járngerðarstaðasund.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er um 200 m norðnorðvestan við og 70-80 m neðan sunnan við girðingu sem girðir af neðri hluta heiðarinnar. Varðan er í grónu hraunlendi. Hún er rúmir 2 m á hæð (2,2) og 2 m í þvermál.“
Um er að ræða efri sundvörðuna á Leiti. Þarna er hún ranglega skráð sem „sjómerki fyrir Járngerðarstaðahverfi inn í Járngerðarsund„.

Stekkjarvarða

Grindavík

Varðan Sigga, austan Síkis.

„Þar fyrir utan [Hópsvör] er Stekkjarvarða og síðan Hellir …“ segir í Sögu Grindavíkur I. Um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes austast er hleðsla á hól. Hóllinn sem varðan stóð á er fast sunnan við vegarslóðann. Hún er alveg hrunin og en vel sést hvar varðan hefur staðið. Grjóthrúgan er á klettahrygg, í grónu hraunlendi. Hrúgan er um 1,5 m í þvermál en 0,2 m á hæð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.“
Hér er um ranga skráningu að ræða því þetta er sama varðan og „Sigga“. Stekkjarfjaran er mun vestar, nálægt Síkinu. Sunnan þess var Hópsvörin, enda má enn sjá minjar verbúðarinnar ofan við varnargarðinn, sem þar er nú. Norðan (austan) Síkisins eru stekkurinn, fiskhús og fiskþurrkgarðar áður en byrjað var að salta fisk í Grindavík.

Varða neðan Hóps – innsiglingavarða

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Innsiglingavarða er neðst í túni að Hópi, um 20m suðvestan við bæjartóftirnar og fast norðan við Bakkalág. Sunnan við neðri innsiglingavörðuna er malbikuð gata og fjara en norðar sléttuð tún. Varðan er nýlega hlaðin og steypt, Hún er 4-5 m í þvermál en 4 m á hæð.

Varða neðan Hóps (Neðri-Hópsvarða)
„Vegur liggur frá Bakkalág til norðurs austan við Hópstún, 5-10 m vestan við slóðann er efri innsiglingarvarðan í túninu. Hún er um 50 m sunnan við Austurveg. Hún stendur á grónum hraunhrygg. Varðan er nýleg, hlaðin og steypt. Hún er 5 m í þvermál en 3-4 m á hæð.“
Neðri-Hópsvarða var hlaðin sem innsiglingarvarða eftir að Hópið hafði verið grafið út árið 1939. Hún var síðan endurgerð árið 1955 og á hana sett ljósmerki. Varðan stenst á við Efri-Hópsvörðuna.

Varða ofan Hóps  (Efri-Hópsvarða)

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

„Upp við girðingu umhverfis tún. Efst á hraunhól. Í hrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 3,2x 4m (A – V) og 2,5m hátt. Vel hlaðið. Ofan á sjómerkinu er fúinn tréstaur. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Þórkötlustaðahverfi inn á Þórkötlustaðasund.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er 10 m ofan við sléttuð tún, norðaustan við hesthúsahverfi. Ofan við tún er 10 m breitt hraunsvæði, þar ofan (norðan) við er girðing og er varðan fast ofan við hana. Varðan er um 1 km frá bæ. Varðan er í grónu hrauni. Varðan er 2,5m á hæð og er fúinn staur upp úr henni miðri. Hún er 3-4 m í þvermál.“

Svíravarða neðan Járngerðarstaða

Svartiklettur

Svartiklettur – sundmerki (Svíravarða).

„Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri…Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.“, segir í örnefnaskrá AG. Svíravarða var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjógarður gengur til austurs. Hún var um 750 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús.“
Vissulega er „Svíravarða“ horfin, líkt og sundvarðan neðst í Staðarsundi, en Svartiklettur stendur enn, þótt hann megi muna fífil sinn fegurri.

Vörður í Þórkötlustaðanesi

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

„Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu en ósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars sem er syðsta húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við lendinguna í Vörinni 024 norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkampinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestar. Hleðsluhæð varðanna er um 2 m og eru þær mest um 1,5 m í þvermál. Umför grjóts eru um 15.“
Nesvörðurnar eru heillegar og standa ofan við gömlu vörina, steypta bryggjuna.

Vörðunes/Vörðunestangi neðan Húsatófta

Húsatóptir

Húsatóptir – neðri sundvarðan ofan Vatnslóns.

Í örnefnaskrá segir: „Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur…Vestan Stekkjartúnskamps eru klettabásar, nefndir Sölvabásar… Vestan Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 kílómetra, er stór hlaðin varða.“, segir í örnefnaskrá. „Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður.“ Varðan er um 800 m austur af bæjarhól, fast norðan þjóðvegar í norðaustur frá húsum fiskeldisins. Varðan er í uppgrónu hrauni.
Í örnefnaskrá segir: „Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi…Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Hleðslur standa. Vörðurnar voru áður tvær en aðeins önnur þeirra er enn til staðar. Sú sem er horfin var suðvestar, þar sem hús fiskeldisins standa nú.“
Framangrein er ekki alveg rétt því báðar vörðurnar standa enn – báðar heillegar. Önnur er ofan vegar og hin á hraunhól vestan Vatnslóns.

Nónvörður vestan Húsatófta

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

„Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum.“, segir í örnefnaskrá. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn, fast vestan við golfvöllinn og um 250 m vestur af bæjarhól. Fremri varðan sést greinilega af þjóðvegi. Í sendnu, uppblásnu hrauni.“
„Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að árhrínsorðum, enda standa Nónvörður að nokkru enn.“, segir í örnefnaskrá.
Vörðurnar, sem enn standa, eru tvær og er sú fremri syðst á hraunbungunni en hin um 50 m norðar. Báðar eru hlaðnar úr hraungrýti og eru um 1,2 m á hæð. Þær eru heillegar.

Hvyrflavörður  milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar – sundvarðan (landamerki).

Í örnefnaskrá segir: „Í eystri öxl [Þórðarfells] á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.“ Vörðurnar voru á Hvyrflum sem er hæðardrag á mörkum Staðar og Húsatópta. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna og um 500 m norðaustur af bæjarstæði. Á stórgrýttum sjávarkampi.
„Þá koma Hvyrflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta …“ GE.
Frá Valahnúk. „Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum Húsatófta og Hafnar“, segir í örnefnaskrá Húsatópta.
Í sóknarlýsingu 1840 segir: „…skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman, skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til opnar liggja lendingarnar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa.“ SSGK, 131. Varðan stendur á steyptum grunni og er um 1,5 m há. Umför eru um tólf. Steypt hefur verið í hleðsluna en varðan er nýlega endurgerð. Eldri varða stóð á nákvæmlega sama stað en sjórinn tók hana.“
Síðastnefnda varðan var endurhlaðin fyrir allnokkru ofan og vestan við bryggjuna. Hún var einnig landamerkjavarða milli Húsatófta og staðar. Brimið tók svo þá vörðu eftir áramótin 2022. Leifar gömlu Hvyrflavörðunnar, þeirrar neðri er í grasbrúninni neðst á Hvyrflum. Varða er einnig á hraunbrúninni ofan Hvyrfla, en varða, sem stóð á hól ofan fiskverkunarhúss er horfin.

Eiríksvarða á Arnarfelli í Krýsuvík.

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

„Vestan við Krýsuvíkurhraun niðri undir sjó er fornhraun, sem nefnt er Litlahraun, en í Krýsuvíkurhrauni er Skyggnisþúfa, vestur af Seljabótarnefi. Vestur frá Litlahrauni tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. … Vestarlega í mýrinni er stakt fell nokkuð hátt, sem heitri Arnarfell. Vestur af því gengur svo Arnarfellstagl, og framan í því er túnið … Á fellinu er varða, sem heitir Eiríksvarða“, segir í örnefnaskrá.
Arnarfell er stakt fell um 600 m austur af Krýsuvík, eina fellið þar austan við þjóðveginn. Umhverfis fellið er þýfður mói eða mýri. Fellið er gróið upp í miðjar hlíðar en klettótt efst. Varða er vestarlega á fellinu, ofan við bæjartóftir Arnarfells. Hún er að mestu hrunin.“
Eiríksvarða er eignuð Eiríki galdrapresti á Vogsósum, en sagan segir að hann hafi látið hlaða vörðuna eftir að hafa stefnt Tyrkjum, sem komu upp Ræningjastíg við Heiðnaberg, hvern gegn öðrum með þeim orðum að á meðan varðan stæði myndi Krýsvíkingum óhætt fyrir ágangi heiðingjanna. Sagan er svo sama og skráð hefur verið um Gíslavörðu í Staðarhverfi.

Núpshlíðarhorn

Núpshlíðarhorn – varða.

Núpshlíðarhorn – landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur
„Síðan ber landeigendum ekki saman um landamerki. Eigendur Hrauns segja þau vörðu í Núphlíð og síðan norður í Sogaselsdal. Eigandi Ísólfsskála segir þau úr öxl Borgarfjalls og í Selsvallafjall og þaðan í Sogaselsdal.“, segir í örnefnaskrá LJ. Varða er á Núpshlíðinni norðan við gamla veginn yfir hana. Best að ganga vestur frá Djúpavatnsvegi (Vigdísarvallavegi) þar sem hann sveigir til norðurs austan við sunnanverða Núpshlíð. Varðan er vestan undir háhorninu í hlíðinni og sést í sjónauka frá þjóðveginum. Núpshlíðin er þarna hálf- eða ógróin og grýtt. Varðan stendur, um 1 m á hæð. Umför um tíu, en vörðunni hefur verið haldið við. Hún er um 0,5 m á breidd.“
Varðan á Núpshlíðarhorni var notuð sem mið, en hún er einnig landamerkjavarða Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Gíslavarða

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.”
Á sautjándu öld kom ræningjaskip til Grindavíkur. Þá bjó prestur á Stað er Gísli hét og var hann talin fjölkunnugur. Bæjarbúar fengu hann til að hrekja ræningjana á burt. Hlóð hann svo vörðu til minja um atburðinn og lét svo um mælt að á meðan nokkur steinn væri óhrunin í vörðunni skyldu ræningjar ekki granda Grindavík.“ (Rauðskinna hin nýrri. 3 bindi. Rits. Jón Thorarensen. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1971), I, 44. Skrásetjari Jón Thorarensen).
Hefur framangreint orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á hraunhól (Gíslavarða) skammt vestar, í Staðarlandi.

Vörður, sem ekki er getið um í fornleifskráningum:
-Gróin varða í hrauninu ofan Austurvegar. Varðan var efra sundmerkið frá Buðlungavör. Neðri varðan, sem stóð ofan kampsins vestan og neðan bæjarins er horfin vegna ágangs sjávar. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni.“, segir í örnefnaskrá AG. „Sundvarða við Buðlungu átti að bera í Fjós og Lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru þessi nöfn dregin [þ.e.a.s. nöfn boðanna].

Þórkötlustaðir

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

-Varða ofan hesthúsanna á Leiti. Þar eru tvær sundvörður, en einungis annarrar þeirra er gefið í fornleifaskráningum.
-Varða ofan Hrauns. Hún er skráð sem dys, en var efri innsiglingavarðan í Hraunsvörina. Neðri varðan var ofan við kampinn ofan vararinnar, en er nú hörfin vegna sjóvarna. Þriðja varðan er á túninu ofan Hrauns, skammt ofan og vestan við þann stað, sem gamli bærinn og kirkjan stóðu.
Gíslavarða (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Neðri sundvarðan austan Húsatófta (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Fiskivörður á Staðarbergi. Ekki er um eiginlegar vörður að ræða heldur hraunstrýtur á berginu þar sem það ber hæst.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Sundavarða austan Barnaóss í Hópi. Varðan er horfin undir framkvæmdir.
Stamphólsvarða. Varðan stóð á Stamphól austan Hóps, en hóllinn er nú horfinn undir veg.
Títublaðavarða. Varðan er við Skipsstíg ofan Járngerðastaða. Hún var fyrrum efri sundvarðan inn í Fornuvör. Tómas Þorvaldsson sagði frá því að sú sögn hafi fylgt fólkinu á Járngerðarstöðum að Títublaðavörðunni ætti ávallt að viðhalda.
Brandur og Bergur við Ísólfsskála. Brandur, bóndi á Skála, og vinnumaður hans, Bergur (faðir Guðbergs Bergssonar) hlóðu þessar vörður sér til dægrastyttingar er þeir voru við fjárgæslu við bragga Skálabónda undir Núsphlíðarhorni. (Brandur hrundi í jarðskjálftunum 2020.)
Varða á Krýsuvíkurbjargi. Varðan var hlaðin skammt vestan Vestari Bergsenda sem mið frá veiðistað undir bjarginu. Þessi hluti bjargsins nefnist Krýsuvíkurbjarg, en vestan Eystri-Lækjar, sem rennur fram af því, nefnist það Krýsuvíkurberg.

Selalda

Selalda – varða.

Varða á Selöldu. Varðan var mið neðan við bergið (Heiðnabergs).
Þrjár vörður á Strýthól. Um var að ræða vörður sem mið; þegar þær féllu saman í eina. Strýthólarnir eru tveir vestarlega í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, en miðað var við þann eystri.

Ögmundarhraun

Varða neðst í Ögmundarhrauni – nú hrunin.

Varða neðst í Ögmundarhrauni. Varðan var há og vel hlaðinn uppi á hraunkanti, en er nú fallin. Hún var notuð sem mið.
Varða ofan Selatanga. Varðan var leiðarvarða í innsiglinguna neðan við Selatanga með stefnu í vörðuna á Núpshlíðarhorni.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Brúnavörður. Vörðurnar eru tvær, áberandi, á afrúnuðum hraunhól neðalega í Ögmundarhrauni, millum Óbrennishólma og Húshólma. Þær voru notaðar sem mið.
Sundvarða í Sundvörðuhrauni. Sundvarðan í austanverðu Sundvörðuhrauni (sem er eitt Eldvarpahraunanna, sem myndaðist í Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240) er áberandi kennileiti; klettastandur. Hann var mikið notaður sem mið.

Örnefnalýsingar:
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvyrflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvyrflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar.

Á Hvyrflum eru tvær vörður, Hvyrflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.

Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvyrflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning. Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.

Staðarsund

Þórðarfell

Þórðarfell.

„Næsta fell, fjallmyndað, fyrir vestan Þorbjörn kallast Þórðarfell. Í eystri öxl þess á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.“ – Safnað af Andrési Markússyni 1926.

Í bókinni “Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I” frá árinu 1890 eftir séra Odd. V. Gíslason er m.a. sagt frá kyndilmessubæn, sjómannabæn, drukknun og leiðum og lendingum á helstu hafnir á sunnanverðu landinu, s.s. við Grindavík; (Þorkötlustaðasund, Járngerðarstaðasund og Staðarsund). Lýsing séra Odds er í raun endurskrif á sóknarlýsingu séra Geirs Backmanns frá því á fyrri hluta 19. aldrar og verður því ekki reynt að eyða tíma lesenda með þeirri endurtekningu.

Þórkötlustaðir (varða í túninu)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Í „Sóknarlýsingu Geirs Backmanns fyrir Grindavík 1835-1855“ má lesa eftirfarandi um vörðu í túninu neðan við Þórkötlustaðarbæinn gamla: „Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. „

Í „Sögu Grindavíkur, frá landnámi til 1880“ fjallar Jón Þ. Þór m.a. um „Fiskimið Grindvíkinga„:

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Orðið fiskimið hefur tvenns konar merkingu í íslensku máli. Annars vegar merkir það fiskislóðina, sátrið, þar sem menn setja yfir fiski, en hins vegar þau mið á landi eða sjó, sem menn notuðu til að finna þá staði, sem þeir hugðust fiska á.
Sjómenn veittu því snemma athygli, að ekki var sama, hvar færi væri rennt. Á sumum stöðum gaf fiskur sig betur en á öðrum, og meiri líkur voru á ákveðnum fiskitegundum á einni slóð en annarri. Þessa staði þekktu menn með því að taka mið af kennileitum í landi, fjöllum, holtum, hólum, hömrum, hæðum, bæjum o.frv. Lína hugsaðist dregin gegnum tvö kennileiti, sem bera átti saman. Með þessum hætti gátu sjómenn staðsett sig í hafinu, og þar sem línur tveggja miða á landi skárust á sjó, voru fiskimið. Aðferðin var ævagömul, og elstu ritaða lýsingu á henni er að finna í Guðmundar sögu byskups (skáletrað) sem Arngrímur ábóti á Þingeyrum ritaði um 1350.“
Miklu yngri er lýsing Skúla Magnússonar landfógeta, en hann lýsti fiskimiðum þannig í verðlaunaritgerð sinni, Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu, árið 1785:

Grindavík

Grindavíkurfjöll; Hagafell lengst til vinstri og Geitahlíð lengst til hægri.

„Sjómenn sækja jafan út á þau svæði, sem þeir vita af reynslunni, að fiskur hefst við á; kallast þau fiskileiti. Þessum svæðum á sjónum er skipt nánara í sundur, og eru þau nefnd mið, vegna þess að þegar tvö nes eða fjöll uppi á landinu eru í sömu stefnu frá austri til vesturs, og tvö önnur ber einnig saman í stefnu frá norðri til suðurs, eru þeir á réttu miði eða þeim stað, sem þeir leituðu að. gefa þeir miðunum nöfn.“

Hraun

Hraun – landslag.

Þekking á miðum var þannig reynsluvísindi, og liggur í augum uppi, að fiskimið voru önnur á djúpslóð en á grunnslóð. Á grunnslóðinni miðuðu menn gjarnan við kennileiti í byggð, eða nærri ströndinni, en á djúpmiðum há fjöll og fjallatinda, sem gátu verið langt inni í landi og urðu ekki sýnileg, fyrr en menn voru komnir djúpt. Er þá auðsætt, að dimmviðri gat gert mönnum erfitt fyrir, og varð þá oft að taka mið af öðrum þáttum, enda veittu sjómenn einnig nána athygli sjólagi og botnlagi.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason.

Þannig varð smám saman til mikill fjöldi miða umhverfis allt land, og má geta þess, að í fiskimiðasafni dr. Lúðvíks kristjánssonar er telin 2.197 árabátamið víðsvegar um landið, þar af 440 á Suðurnesjum og í Faxaflóa. Tæpur fjórðungur þessara miða, um eitt hundrað, er í Grindavík, og skrái Lúðvík þau eftir Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum.
Í bókinni Frá Suðurnesjum eru prentaðar fiskimiðaskrár, sem Friðrik K. Magnússon skráði eftir frásögn bræðranna Gísla og Magnúsar Hafliðasona á Hrauni og Jóns Jónssonar formanns í Sjólist. Allir voru þeir gjörkunnugir miðum Grindvíkinga á árabátaöld. Í skránni, sem höfð var eftir Hraunsbræðrum, voru talin alls 43 mið, 18 djúpmið og 25 grunnmið, og í frásögn Jóns í Sjólist var ekið 19 miða, og virðast þau öll vera grunnmið.
Alegnt var, að menn gerðu sér kennileiti til að miða, og voru þau einkum vörður, sem hlaðnar voru í þessu skyni. Margar slíkar vörður voru í Grindavík, og mun Sigguvarða hafa verið einn þekktust. Var miðað við hana af öllum grunnmiðum, eða af samtals 26 stöðum. Á hraunbrúninni var Stamphólsvarða og framan á henni tréspjald eða þil, svo hún sæist betur af sjó. Látravörðu var getið, svo og Svíravörðu og Fiskivarða á Staðarbergi.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Loks er þess að geta, að algengt var að kennileiti bæru annað nafn á sjó en á landi. Þannig var Þorbjarnarfell stundum kallað Setufell á sjó, og Svínfell á Reykjanesi var ávallt nefnt Sýrfell (skáletrað) á sjó. Þá hét Sílfell á Reykjanesi Djúpafjall á sjó. Ekki er ljóst, hvernig stóð á nafnbreytingunni á Þorbjarnarfelli, sem Sýrfell var svo nefnt, vegna þess að samkvæmt þjóðtrúnni mátti ekki nefna svín á sjó; þá gat svínhvalur komið og gert mönnum lífið leitt.

Hraun

Hraunsvör.

Nútíma tækni og breytingar, sem orðið hafa á landslagi á síðustu árum og áratugum, valda því, að nú eru mörg hinna gömlu fiskimiða Grindvíkinga horfin og gleymd. Nöfn þeirra, sem varðsveist hafa, bera hins vegar vitni ævargamalli merkmenningu, reynsluvísindum, sem nýttust mönnum vel í aldanna rás.“
Framangreindar vörður bera framangreindu glögg vitni.

Í „Sýslu- og sóknarlýsingum Bókmenntafélagsins 1839-1855“ eru m.a skrif séra Geirs Backmanns um Grindavík. Í lýsingu Geirs á merkjum og miðum Grindvíkinga á fyrri hluta 19. aldar má lesa eftirfarandi:

Geir Backmann

Geir Backmann.

„Um Staðarsund segir: Merkin, þá sundið liggur, eru; Eldeyjar fastar við Staðarmalir og stór varða, Sundvarða nefnd, í hátt norður að sjá við loft; hún á að liggja í eystri rótum Þórðarfells. Þegar þessi merki liggja, skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman; skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til að opnar liggja lendingar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa. Eigi skyldi maður kærulaus um sundmerkin þau fyrri, því á stjórnborða eru tveir boðar, hver út af öðrum, sem hafa verður auga á, ef nokkurt brim er. Heitir hinn grynnri Arfadalur, en hinn dýpri Sundboði. Standa þeir aldrei upp úr, því þeir eru þaragrynningar. þegar Sundboðinn fellur, þá segja menn albrima og leiðina ófæra.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Staðarsund er haldið þrautagott í útsynningi og allri vestanátt, eins og líka Járngerðarstaðasund í landnyrðingi og öllum austanáttum. Haldi maður framhjá Staðarsundi og vilji taka land að Járngerðarstöðum eða Hópi, þá ætti ekki að stýra svo nærri landi, að hætta væri af búin, því ekki er það neins staðar boðar né grynningar, fyrri en að sundinu er komið, og það þá aðeins, ef mikið brim er. Sundið liggur inn með Þorkötlustaðanesi að vestanverðu og byrjar, þegar tvær vörður, eður réttara varða og hóll framarlega á nesinu og sjást við loft, bera saman; eiga þá undir eins tvær vörður á landi í landnorðri að vera í beinni stefnu; er önnur þeirra upp í hrauni langt frá sjó, Heiðarvarða nefnd, hin við sjó fyrir innan og austan sundið, Sundvarða.

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1772.

Allar eru vörður þessar auðsénar, því þeim er dyggilega við haldið. Á þær síðstnefndu vörður skal nú halda og stýra inn sundið, þar til enn þá aðrar tvær vörður að vestanverðu eða á bakborða liggja saman; skal þá sleppa Heiðarvörðunni og Sundvörðunni og halda á þessar, ef lenda skal á Járngerðarstöðum, en ella róa miðslóð áfram, þar til sést í vörðuna á Hópi til hægri handar. Vörðurnar, sem seinast vóru nefndar, heita, sú nær sjó Svíravarða, hin, sem lengra er uppi á landi, Stamphólsvarða. – Aðgætandi er enn, þegar þessar vörður skilja, að á bakborða, rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum, eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð; hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau lífið látið. Skal stýra sem næst þeim að mögulega verður, svo löðrið af boðanum, sem af þeim fellur, reri á árarblöðin; segja menn þá, að rétt sé haldið með þeim í brimi, þó ekki megi nær fara.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Þess vegna skal Járngerðarsund svo framarlega taka, að boði liggur á stjórnborða skammt frá nesinu, Hellirsboði, af hverjum hætta er vís, ef innar er lagt á sundið en þá allar r fyrstnefndu vörður liggja, nefnilega þær tvær í nesinu og Sundvörðurnar. Hætta er líka innst í sundinu, þá Svíra- og Stamphólsvörður bera saman, þar hér eru þrengsli mikil; þá eru á stjórnborða með nesinu grynningar af manntapaflúð og á bakborða boði, Sundboði eður aðrar grynningar, sem er afleiðing af svonefndum Vallarhúsaboða, er þó liggur langt vestar með landi og ei nærri þessari leið; ríður því á góðri stjórn og ötulum róðri, þar boðinn ber af sér á flúðina, en aldrei skyldi þó sleppa Sundvörðunum, þeim í heiðinni og austan til við sundið, fyrri en hinar tvær á bakborða liggja. Enginn haldi nú skipi svo nærri landi fyrir framan Þorkötlustaðanes, að þar fái skaða. Þó eru þau merki, er stýra skal fyrir það í brimi, að Selalda (þ.e. hóll upp á Krýsuvíkurbergi) skal bera yfir djúpa klauf í bergið, milli þess og Selatanga, eða, sem glöggara er, Sílfell á Reykjanes laust við Hafsteina, sem eru fyrir vestan Járngerðarstaði, þar til Þorkötlustaðasund liggur, sem er inn með Þorkötlustaðanesi að austanverðu. Þegar á það skal leggja, eru merkin; Lyngfell (það er hátt strýtufell fyrir austan Festarfjall) skal bera í eður milli tveggja hóla á Borgarfelli (undir þessu felli liggur Sandakravegurinn og er þá nýbyrjaður); er þetta merki þá að sjá í landnorður.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.), Borgarfell fjær, Langihryggur í Fagradalsfjalli, Slaga og Skála-Mælifell.

Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. Fyrir framan lendinguna í nesinu er sker, Vararsker, með því skal halda að norðanverðu, en varast má að því frásláttinn og róa karlmannlega. Á snúningnum eru tveir boðar að vestanverðu eða bakborða, Lambhúsi og Fjósi. Skal löðrið af þeim renna á árarblöðin, og segja menn þá rétt haldið leiðinni í nesið, hvar annars er engi góð landtaka, en verður þó ei annars staðar lent hættulaust, ef nokkuð er í sjó, að austanverðu við oft nefnt Þorkötlustaðanes.
Hér mun eg hafa verið óþarflega margorður, enda má bæði þetta og annað gjarnast styrra.“

Skúli Magnússon skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2016 um „Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík“:

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

„Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur. Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund. Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Sundvarða austan Húsatófta, Þórðarfell t.h. og Sundhnúkavarðan t.v.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210. Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum. Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.“

Um þessar mundir hafa nokkrar af áberandi innsiglingvörðum hrunuð að hluta, s.s. Efri- og Neðri-Hópsvörðuna sem og efri sundvörðuna á Leyti. Ekki er langt um liðið að FERLIRsfélagar og nokkrir áhugasamir Grindvíkingar lagfærðu Heiðarvörðuna eftir hrun.  Mikilvægt er að viðhalda þessum menningarverðmætum, áþreifanlegum táknum horfinna atvinnuhátta.

Fleiri fróðir hafa skrifað um mið og örnefni í Grindavík í gegnum tíðina. Eftir standa menningarminjarnar, sem vart er hægt að hunsa. Þær ber að varðveita til framtíðar, komandi kynslóðum til fróðleiks um fortíðina; grundvöll nútíðarinnar…

ÓSÁ tók saman 2022

Heimildir:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 1., 2. og 3.  áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2002.
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað – Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingar.
-Oddur V. Gíslason, Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I – Frá Jökulsá á Sólheimasandi til Reykjaness – Reykjavík 1890.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1587015/ – Aldur sundmerkja við Staðarsund í grindavík – Skúli Magnússon.
-Saga Grindavíkur, frá landnámi til 1880 – Jón Þ. Þór, Grindavíkurbær 1994,Fiskimið Grindvíkinga, bls. 186-189.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla – sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélags 1839-1855, sögufélagið 2007, Grindavík 1840-1841 – séra Geir Backman, bls. 41-43.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Hóp

Ofan við Hóp í Grindavík er heilleg og falleg hlaðin refagildra, sú 59. í röðinni, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesskaganum (sjá meira um refagildrur HÉR).
RefagildranSvo er að sjá, að notkun slíkra veiðitækja, hafi verið mun algengari hér áður fyrr en áætlað hefur verið. Mjög lítið hefur verið skrifað um gildrurnar, sennilega aðallega af tveimur ástæðum; notkun og staðsetning þeirra var á fárra vitorði og því lítið um þær talað. Veiðiaðferðin hefur líklega ekki heldur þótt í frásögu færandi því refurinn, sem létt ginnast, svalt venjulega í hel þar sem hann var fastur í þröngri rásinni eftir að fallhellan hafði lokað hann inni.
Lítið sem ekkert er getið um hlaðnar refagildrur í örnefnalýsingum, en nokkur örnefni þeim tengdum er þó þar að finna, s.s. Gildruholt.

Refagildran

Þegar svæðið ofan við Hóp var skoðað mátti glögglega sjá að þar væri að finna  „minjasafn“ mannvistarleifa eftir refaveiðar; hlaðin byrgi og hlaðin skjól fyrir refaskyttur, merkingar á grenjum og svo áðurnefnd refagildra, sem líklega er elsta mannvirkið á svæðinu. Talið er að fyrirmynda að gerð gildranna megi leita til landnáms-manna. Minjarnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og ætti að reyna að varðveita það sem líkt.
Refagildran, sem um ræðir, er með op til suðurs og norðurs. Fallhellur eru við bæði opin. Í þessari gildru má enn sjá uppbyggingu slíkra mannvirkja, auk þess sem staðsetningin gefur vel til kynna að lágfóta fór ekki með brúnum heldur „lægðirnar smjó“, eins og segir í kvæðinu.
„Svæðið fyrir ofan veginn ofan við Hóp er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur. Hún er ofan við utasta húsið.
ByrgiÞar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki. Þar ofar uppi á brekkunum er holt, sem heitir Bláberjaholt. Skammt þar ofar er gamall eldgígur, sem heitir Melhóll. Þangað er sóttur ofaníburður. Vestur af Melhól er lægð, sem Grindavíkurvegurinn liggur yfir.“
Þegar svæðið var skoðað nánar kom í ljós enn ein refagildran, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda. Þessi stendur upp á lágum hól. Í hana er ágætt útsýni frá Þórkötlustaðabæjunum. Enn má sjá grunninn í hleðslunni, en að öðru leyti hefur gildrunni verið spillt. Gróið er að mestu yfir hana, en vel má sjá hleðslurnar, sem fyrr segir.
Sjá ennmeira um refagildur HÉR.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hóp

Hóp

Refagildra ofan við Hóp.

 

Grindavík

Gengið var á Þorbjörn (Þorbjarnarfell) ofan við Grindavík. Að vísu liggur vegur upp á fellið, sem er hæst 243 m.y.s., en að þessu sinni var ákveðið að ganga upp á það að norðanverðu, upp frá Baðsvöllum.

thjorbjorn-901

„Þar er Selskógur, eitt af útivistarsvæðum Grindvíkinga. Þar fara fram skemmtanir á vegum bæjarfélagsins auk þess sem skógurinn nýtist til gönguferða. Hann er hluti af stærra útivistarsvæði ofan þéttbýlis sem kallast Þorbjörn – Arnarsetur. Frá Selskógi er ekki langt í Bláa lónið en þangað geta íbúar Grindavíkur einnig sótt útivist.““Selskógur í Þorbirni hefur verið ræktaður upp þó skógrækt ríkisins hafi mælt eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðar á Suðurnesjum. Þrjú skógræktarsvæði hafa talist hæf til skógræktar og er Selskógur eitt þeirra. Skógræktarfélag Grindavíkur sér um Selskóg og hefur unnið að ræktun þess myndarlega skógar sem nú er fyrir hendi. Félagið gerðist aðili að Skógræktarfélagi Suðurnesja til þess að tryggja plöntur á vægu verði frá Skógrækt ríkisins. Nú eru hin myndarlegustu grenitré í nokkrum aðskyldum lundum og svo þéttur að þegar hefur myndast skógarbotn í þeim.“
Framangreint kemur fram í greinargerð með selskogur-221aðalskipulagi Grindavíkur fram til ársins 2020.Að sögn Kristán Bjarnasonar, skógræktarmanns, er Selskógur ekki ræktaður á flatlendi, nema þá að mjög litlu leyti, þannig að það virðist vera mótsögn í textanum. Þá er það að Skógrækt ríkisins mæli eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðir. Síðan að „aðeins þrjú svæði á Suðurnesjum henti til skógræktar“ hefur ekki verið fjallað um fyrr af hálfu Skógræktarinnar.Í Jarðabókinni 1703 segir að „selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þeirrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.“ Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. „Þar austan við heitir Stekkjarhóll,“ segir í örnefnaskrá.

Stekkholl-221

Rústirnar eru undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar. Trjám var plantað í eina megintóftina.Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft. Norðar eru mannvistarleifar í lágum hraunhól.Þegar FERLIR var þarna á ferð höfðu einhverjir verið við mælingar og m.a. skilið hluta af mælitækjunum eftir. Grafnir höfðu verið stuttir skurðir á fimm stöðum og leiðunum stungið þar niður áður en tyrft var yfir að nýju.
Líklega er verið að kanna leiðni jarðvegs auk annars, utan í selleifunum að thjofagja-221vestanverðu. Án efa fara þessar framkvæmdir fram með fullu samþykki Fornleifaverndar ríkisins og annarra yfirvalda, en svo þarf að vera því þær eru vel innan hinna 20 metra friðunarmarka fornleifanna. Eflaust væri þetta í góðu lagi ef um væri að ræða fornleifagröft eða aldursgreiningu seljanna, en svo virðist því miður ekki vera.Þegar gengið var upp á Þorbjarnarfell var gömlum slóða fylgt upp á norðurbrúnina. Hér munu vera för eftir beltatæki er fyrst var ekið upp á Þorbjörn á stríðsárunum til undirbúnings bækistöðva þar í gígskálinni og uppsetningu loftskeytabúnaðar. Síðan var vegurinn ruddur niður með austurhliðinni. Enn má sjá leifar bragganna tíu, sem þarna stóðu í einföldum boga meðfram gígbotninum. Einnig má sjá leifar eftir 2 bragga á sunnanverðu fellinu sem og fótstykki undan möstrum. Kampur þessi hét Camp Vail, eftir Raymond T. Vail. Möstrin efst á Þorbirni tilheyra Símanum annars vegar og Flugþjónustunni hins vegar. Stóra mastrið, ca, 40 m hátt, er frá Flugþjónustunni og hin frá Símanum. Nýjasta mastrið [2009] þjónar gsm-sambandi Símans. Auk þess er þarna endurvarp frá Útvarpinu.Þegar komið var upp á norðurbrúnina og efri hluti fellsins barinn augum mátti vel sjá hvernig fellið hafði fallið niður í miðjunni þannig að austur- og vesturveggirnir standa eftir og ofar. Um er að ræða sigdæld (misgengi) í gegnum fellið. Ástæðan er sú að Þorbjarnarfell varð til á tveimur gostímabilum. Hluti þess myndaðist á fyrra ísaldarskeiði.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli – ÓSÁ.

Þegar aftururðu jarðhræringar á síðasta ísaldarskeiði urðu þessar miklu umbreytingar í fellinu. Ekki kom afgerandi gosefni upp í seinna skiptið því bólstraberg frá fyrra gosinu eru ráðandi hvert sem litið er. Sést það sérstaklega vel í þverskorningum Þjófagjár.Gengið var vestur með suðvesturhlíðum fellsins. Háir klettadrangar marka brúnina á kafla. Frá þeim er hið ágætasta útsýni yfir hraunin (Illahraun og Eldvarpahraun (Bræðrahraun og Blettahraun)), yfir að Eldvörpum, Sandfelli og Þórðarfelli og allt að Eldey í vestri.Frá sunnanverðum Þorbirni er hið fegursta útsýni yfir óumdeilanlega fallegasta byggðalag suðurstrandar Reykjanesskagans, Grindavík – og þótt víðar væri leitað, t.a.m. á norðanverðum skaganum.Á vef Örnefnastofnunar Íslands segir um þetta efnisatriði: „Þó að þess séu dæmi, að nöfnin sem gætu verið mannanöfn séu til í samsetningum með orðunum fell eða fjall, t.d. Þorbjarnarfell, er ekki hægt að segja, að öll þessi nöfn séu þannig til komin, að þau séu styttingar, eins og Finnur Jónsson gerir ráð fyrir.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Upprunalega nafnið gæti allt eins verið Þorbjörn og orðinu felli bætt við sem merkingarauka (epexegese) til nánari skýringar.Algengt hefur verið á Norðurlöndum að gefa fjöllum nöfn eftir persónutáknunum, þar sem mönnum hefur fundist vera líking með þeim. Þetta hefur líka tíðkast hér. Nægir þar að nefna fjallanöfn, þar sem orðin karl og kerling koma fyrir, t.d. Karl úti fyrir Reykjanesi og Kerling í Eyjafirði. Nöfn með maður, strákur og sveinn vísa til hins sama. Þegar fjalli er valið nafnið Surtur, er verið að vísa til jötuns, og er þá líklegt að fjallið sé svart, af því að allir þekkja þá merkingu orðsins. Þegar það er athugað, að nöfnin Karl og Sveinn geta verið hrein mannanöfn, og að ýmis fjallanöfn geta líka verið mannanöfn, en einnig haft aðra merkingu, er það e.t.v. orðinn álitlegur hópur fjalla, sem ber mannanöfn. Þegar þetta er orðinn útbreiddur nafnsiður, og ýmis fjöll bera einnig nöfn dýra, þá verður ekki fráleitt að nota hvers konar mannanöfn um fjöll, án þess að útlit þeirra þurfi að ráða þar nokkru um.

thjorbjorn-904

Þá verður það tilviljun hvaða nafn er gefið fjalli, eins og það getur verið tilviljun hvaða nafn maður hlýtur. Útlit ræður því ekki hvort maður heitir Njáll eða Þorfinnur. Útlit fjalls getur tæpast ráðið því, að það fái nafnið Gunnhildur, Hálfdan, Jörundur, Njáll eða Ölver. Að líkindum urðu þessi nöfn til hér sem fjallanöfn í upphafi byggðar, m.a. vegna þess að menn vildu heiðra landnámsmennina með því að kenna fjöll eða tinda við þá.“Til mun vera önnur skráð söguskýring á örnefninu „Þorbjörn“. Leit hefur verið gerð að henni, en hún hefur ekki borið árangur -enn sem komið er. Gamlir Grindvíkingar vísuðu jafnan á „Þorbjörn karlinn“ þegar ekið var eftir Grindavíkurveginum áleiðis til Grindavíkur um Gíghæð. Þá blasir við andlit bergrisans utan í vestanverðu fellinu, líkt og hann hefði lagt sig þar um stund og notað vesturöxl fellsins sem svæfil.

thorbjorn-905

Aðrir hafa viljað tengja nafnið við Hafur-Björn, son Molda-Gnúps hins fyrsta landnámsmanns í Grindavík (um 930), en sú tenging virðist langsótt. Fornafnið „Þor“ er Þórsskírskotun, þess allra heiðnasta. Nafnið virðist því vera frá fyrstu tíð landnáms hér á landi því kristni varð eigi lögtekin hér fyrr en árið eitt þúsund. Heitið „Björn“ gæti hins vegar, aldursins vegna, verið komið frá nefndum Birni er bæði Landnáma og þjóðsögur JÁ kveða á um. Hann hefur þá mögulega geta verið nefndur, á rauntíma, eftir herraguði ásanna (Þórs-Björn), sem með kristninni hefði getað breyst í „Þorbjörn“. Þjóðsagan hefur síðan lifað af hvorutveggja og hann þá nefndur „Hafur-Björn“ – slíkt er bæjarmerki Grindarvíkur nú grundvallast á.  Stefnan var tekin upp í Þjófagjá. Þjófagjá er „stór sprunga er klýfur topp Þorbjarnarfells. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum. Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá og engar mannvistarleifar hafa fundist þar,“ segir í Sögu Grindavíkur. Klettasprungan er með grasi grónum botni. Hún er um 10 m breið, en allt að 80 m djúp. Skúti er í sprungunni vestarlega. Einstigi er upp Þjófagjá og leiðin greið, ef rétt er að farið. Fýll lá með ungum í gjárveggjunum.Í heild er þjóðsagan svona: „Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá.

badsvallasel-201

Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. 

thorbjorn-906

Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“Ef vel er að gáð, í ljósi aðstæðna fyrri alda, er ekki algerlega með öllu útilokað að hópur manna er sameiginlegra hagsmuna hafa átt að gæta hefði safnast saman um stund á Þorbjarnarfelli. Hafa ver í huga að fellið væri fyrir þá slíka landfræðilega vel í „sveit sett“. Auk þess gæti nafngiftin hafa gefið þeim hinum sömu ákveðna „inspirisjón“ þess tíma hungurs, volæðis og vonleysis. Þegar upp úr gjánni var komið var stefnan tekin niður í braggabúðirnar fyrrnefndu, eða leifarnar af þeim. Þegar meðfylgjandi ljósmynd af braggabyggðinni var borin saman við minjarnar nú mátti vel sjá hvaða braggi var hvar. Jónsmessuhátið Grindvíkinga mun vera, í seinni tíð, haldin hátíðleg á Þorbirni – og er það vel við hæfi, enda mun siðurinn vera frá heiðni kominn (þótt hann hafi í seinni tíð verið eignaður Jóni (Jóhannesi) skírara upp kristinn sið (eins og svo margt annað)).Til baka var gengið niður gróningina að norðanverðu, niður á Baðsvelli.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-GRINDAVÍK greinargerð og umhverfisskýrsla drög 22. mars 2010
-Grindavíkurbær GRINDAVÍK aðalskipulag 2000 – 2020
-Kristján Bjarnason

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – örnefni og gönguleiðir (ÓSÁ).

Suðurstrandarvegur

Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður kl. 14:00 þann 21. júní s.l. að viðstöddum Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og fleiri gestum með hefðbundinni borðaklippingu. Athöfnin fór fram á veginum rétt austan við vegamótin við Krýsuvíkurveg.
Sudurstrandarvegur-502Undirbúningur að lagningu núverandi Suðurstrandarvegar hófst hjá Vegagerðinni á árinu 1996, þegar vegamálastjóri skipaði hönnunarhóp sem skildi hafa umsjón með hönnun vegarins. Vegurinn er 57 km langur frá Grindavík í vestri að Þorlákshöfn í austri (reyndar er hann jafnlangur hvora leiðina sem farin er). Liggur hann um þrjú sveitarfélög; Grindavík, Hafnarfjarðarbæ og sveitarfélagið Ölfus.
Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er rétt tæpir 3 milljarðar kr. uppreiknað til verðlags í dag.
Sudurstrandarvegur-503Markmið framkvæmdarinnar var að byggja upp varanlega og örugga vegatengingu milli Suðurlands og Suðurnesja til hagsbóta og öryggis fyrir atvinnulíf og íbúa á svæðunum. Auk þess að auka umferðaröryggi með vegi sem uppfyllir nútíma veghönnunarreglur og leggja bundið slitlag á veginn. Með framkvæmdinni hefur aðgengi ferðafólks verið stórbætt að svæði með stórbrotna náttúrufegurð og mikið útivistargildi. Auk þess gefur nýr Suðurstrandarvegur fyrirtækjum í ferðaþjónustu möguleika á að bjóða upp á áhugaverða tengingu og hringferðir frá Keflavíkurflugvelli að mikið sóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi.
Til gamans er rétt að rifja upp tímaskeið fyrri vega á millum þessara staða nú þegar hinn nýi asfaltlagði vegur hefur verið lagður og gerður akfær (árið 2012).
Sudurstrandarvegur-505Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.
Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.
Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár.
Suðurstrandarvegur

Vígsla Suðurstrandarvegar.

 

Oddafellssel
Gengið var að Oddafellsseli. Stefnan var tekin til vesturs með norðanverðu Oddafellinu, að seljarústunum í austurjaðri Höskuldarvallahrauns. Keilir, 379 m hátt móbergsfjall, setti svip á landslagið í norðvestri. Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Keilir er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er mikið af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar. Nýlegur stígur liggur yfir hraunið, norðan Höskuldarvallastígs, áleiðis að Keili áður en komið er að meginseljarústunum, sem eru á tveimur stöðum undir Oddafellinu.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Austan við Oddafellið eru Höskuldarvellir. Það eru stórir grasvellir milli fellsins og Trölladyngju, u.þ.b. hálfur kílómetri að breidd, en á lengdina eru þeir rúmlega kílómetri, milli Sogalækjar og nyrsta hluta Sóleyjarkrika.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell, sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina. Líklega er hann að rugla saman öðru fjalli mun norðaustar, en sunnan við bæði fjöllin eru til frásagnir af útilegumönnum, sem þar áttu að hafa haldið til. Héldu þeir sig í helli sunnan Selsvalla og síðar í helli í Hrútargjárdyngjuhrauni sunnan við Fjallið eina, sem þar er. Í dag má enn sjá minjar eftir veru þeirra í hellunum, sem eru þó meira í ætt við skúta, eins og við þekkjum þá. Oddafellið er lágt (210 m), en um 3ja km langt. Í austurhlíðum Oddadells nokkuð sunnarlega er jarðhiti.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Tóftir Oddafelssels eru í vestanverðu fellinu, á tveimur stöðum. Selið var frá Minni-Vatnsleysu. Höskuldarvallastígurinn kemur út úr hrauninu sunnan við hústóftirnar, en sunnan hans eru stekkur og rétt. Fjárskjól er undir hraunröndinni milli mannvirkjanna. Hleðsla er í skútanum og má enn finna fjárlyktina (sumir segja anganina) í honum.
Stígurinn í gegnum hraunið er þar sem hraunhaftið er hvað þynnst. Hann liggur síðan norður með Oddafellinu. Skammt norðar liggur hann yfir tvær tóftir. Vestan þeirra er hlaðinn stekkur og aðhald.
Ekki er gott að segja hvar vatnsbólið er, en þó má telja líklegt að vatn hafi verið sótt í Sogaselslækinn, sem runnið hefur í gegnum Höskuldarvelli, en vellirnir eru einmitt að mestu mótaðir eftir framburð hans úr Sogunum og hlíðunum umhverfis.

Oddafellssel

Oddafellssel – uppdráttur ferlir.is.

Margir ganga á Keili. Flestir ganga þá suður Höskuldarvallastíg, yfir nyrðri tóftir Oddafellssel og beygja síðan til vesturs eftir stíg yfir Höskuldarvallahraun. Fæstir finna fyrir eða veita selstóftunum athygli á göngu sinni með Oddafellinu.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags.

Örfáir ganga svo langt suður með fellinu að þeir sjái hleðslurnar syðst í selinu, hvað þá gamla selsstíginn í gegnum hraunið. Samt er auðveldast að ganga yfir það eftir honum.
Öllum er hollt að staldra við hjá tóftunum, hugsa aftur til þess tíma þegar einhverjir forfeður þeirra og -mæður þurftu að hafa fyrir því að ala önn fyrir fénu um sumarið svo féð gæti alið önn fyrir þeim um veturinn. Ef hlutirnir hefðu ekki gengið þannig fyrir sig er aldrei að vita hvort eða hverjir afkomendurnir kynnu að hafa orðið.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í sumum seljanna ofan við Ströndina var selstaðan skemmri vegna vatnsskorts. Má í því sambandi nefna næsta sel norðan við Oddafellssel; Rauðhólssel frá Stóru-Vatnsleysu. Þar gat verið erfitt að nálgast vatn í þurrkatíð og því sjálfhætt. Stundum var ástæðan þó tilgreind önnur en vatnsskortur, s.s. draugagangur. Draugagangurinn var skiljanlegri afsökun en vatnsskorturinn í þá daga og ástæðulaust að efast þegar hann var annars vegar.
Gangan tók 33 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Blóðberg

Blóðberg (fræðiheiti: Thymus praecox) er lítil sígræn fjölær þófaplanta, af sömu ættkvísl og timian, sem vex í þurru mólendi, holtum og sandi um alla Evrópu. Blóðberg er nýtt sem sígræn þekja í garða og í matargerð sem kryddjurt.
Blodberg-3Á Íslandi er blóðberg (ssp. arcticus) mjög algengt um allt land og finnst bæði á láglendi og í fjöllum allt upp í þúsund metra hæð.
Blóðberg er lágvaxinn smárunni með litlum bleikbláum blómum. Blóðberg er mest áberandi í júní og júlí þegar plantan er í blóma og má þá stundum sjá blóðbergsbreiður. Plantan hefur öldum saman verið notuð bæði til heilsubóta og sem krydd. Blóðbergste er til dæmis sagt vera gott við flensu, kvefi og ýmsum meltingarsjúkdómum. Það er gott krydd, til dæmis á grillað lambakjöt og minnir bragðið á tímían sem kallast einnig garðablóðberg á íslensku og er af náskyldri plöntu.
Blodberg-2Björn Halldórsson, prestur í Sauðlauksdal sem var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi, segir um blóðbergið: „Þessi urt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari urt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar upp þembing þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mati. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur í þessu vín vættur og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt. Seyði af þessari urt, sem te drukkið, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofdrukkið höfðu vín að kvöldi. Sé þessari urt stráð á gólf, eða reykt með henni í húsum, ellegar hún seydd í vatni og sama vatni dreift um húsið, flýja þaðan flær.“
Blóðbergið er mest notað gegn flensu og kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að losa um slím. Blóðberg er einnig talið einstaklega gott við flestum meltingarvandamálum s.s maga- og garnabólgu. Blóðberg linar krampa í meltingarfærum og er þá oft notað með öðrum jurtum. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.

Heimildir m.a.:
-heilsubot.is/page/blodberg

Gullkollur

Gullkollur og blóðberg.

-Wikipedia.org

Selvogsgata

Lagt var af stað eftir Selvogsgötu (Suðurfararvegi) til norðurs frá Útvogsskála[vörðu] vestan við Strandarhæð. Varðan er vandlega hlaðin, ferköntuð, enda ætlað að verða ferðafólki áreiðandi leiðarmerki á ferð um þessa gömlu þjóðleið.

Selvogsgatan neðanverð

Ætlunin var að fylgja götunni upp Selvosgheiði, um Strandardal, Hlíðardal, Litla-Leirdal og allt upp að Hvalsskarði í Hvalhnúk. Þaðan var ætlunin að ganga til vesturs með sunnanverðum Austurásum og yfir að Vesturásum þar sem eru gatnamót Stakkavíkurvegar og Hlíðarvegar skammt austar. Af þeim tvennum átti að þessu sinni setja meginstefnuna á fyrrnefnda stíginn, niður í Selsskarð og eftir Selsstíg áleiðis niður að Stakkavík. Til eru greinargóðar lýsingar á stígum þessum og verður helstu kennileita á þeim getið hér á eftir – eftir því sem fætur um þær leiðir liggja. Og auðvitað, líkt og venjulega, urðu nokkrar óvænta, og áður óþekktar, uppgötvanir á leiðinni.
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Gerði neðan StrandarmannahliðsHestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Selvogsgata ofan HlíðardalsLestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.
Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Varða við Selvogsgötu við Litla-LeirdalKökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni og með góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við.

Varða við Stakkavíkurveg millum Ása

Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað.

StakkavíkurvegurTilgangur vörðubyggingarinnar hefur vafalaust verið að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. [Bunan sæla var reyndar þurr í þetta sinnið.]
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum Varða við Stakkavíkurveghér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafa verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll Stakkavíkurvegurdalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.“
Áður hafði FERLIR gengið Selvogsgötu frá Bláfjallavegi um Grindarskörð til suðurs, upp fyrir Hvalsskarð sem og götuna upp að Hvalskarði í tvígang. Í fyrstnefndu ferðinni var „Selvogsgötunni Vestari“ (Stakkavíkurstígnum) fylgt upp að gatnamótum hans og Selvogsgötu Eystri sunnan undan Kerlingarskarði (sjá HÉR). Lóu- og þúfutittlingshreiður voru nokkur skoðuð á leiðinni. Þegar komið var upp undir Hvalskarð var Vestri Hvalhnúk fylgt til vesturs, yfir á Stakkavíkurveg við austanverða Vesturása. Þar liggur gatan ofan frá gróningum neðan við slétt helluhraun (Selvogsgatan Vestari) og niður með austanverðum ásunum. Á skammleiðinni við hornið eru tvær vörður með stuttu millibili. Þaðan fylgir gatan undirhlíðum Vesturása, þ.e. misgengi sunnan þeirra. Suðvestar eru klettaborgir. Liggur gatan millum þeirra og niður með einni þeirra í sneiðing að norðanverðu. Varða er neðar og önnur nokkru sunnar.
Eftir það liðast hún niður á við í gróningum undir Stakkavíkurvegurhlíðum, fyrst í Dýjabrekum, og allt fram á brún Stakkavíkurfjalls, þar sem Selstígur liggur niður heim að bæ. Á nokkurm stöðum er búið að raska götunni vegna girðingarvinnu (beitarhólfið). Er það í rauninni leitt því sumstaðar hefði með svolítilli hugsun einungis þurft að færa girðinguna um nokkra metra til að hlífa götunni svo hún hefði verið óröskuð alla leiðina. Sjálfsagt er þetta all gjört með fullri heimild Fornleifarverndar ríksins.
Þegar komið var niður á Selsskarðsstígsbrúnina var kjörið að rifja upp örnefnalýsingar, bæði af Stakkavíkurveginum og Hlíðarveginum:  „Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið yfir að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakksvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“ Þá segir ennfremur í annarri örnefnalýsingu: „Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu. Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðar-brekkur.“
Í lýsingu af Stakkavíkurveginum áðurgengna segir í upptalningu örnefnanna: „Stakkavíkurvegur; 1. Stakkavík: Heim við tún byrjaði vegurinn og lá upp. 2. Stakkavíkurhraun:  Í austur neðanvert við Fjárborgina. 3. Flötin: Úr hrauninu lá vegurinn um flöt ofan við Botnavik. 4. Lyngskjöld: Sem er hraunbrekka ofan og austan Flata. 5. Selskarðsstígur: Heitir vegurinn eiginlega heiman frá bæ þá leið sem þegar er lýst upp í 6. Selskarð: Sem er í Stakkavíkurfjallsbrún. 7. Stakkavíkurfjall: Er þá komið upp á Stakkavíkurfjall, eða Fjallið.

Þúfutittlingsegg við Stakkavíkurveg

8. Stakkavíkursel: Spölkorn ofan brína [?] er þetta sel. 9. Leirdalur: Er þar nokkru ofar. 10. Helgadalur: Dalur þessi eða hvammur er þar enn ofar. 11. Langhólar: Þeir eru þar enn ofar og liggja í Hlíðarveg. 12. Brekkurnar: Þær eru nokkrar með sérnöfnum. 13. Dýjabrekkur 3: Þær eru allt upp undir Ása. 14. Dýjabrekkuhóll: Hann er á hægri hönd við Veginn. 15. Ásarnir: Taka svo við og liggja á beggja megin vegar. 16. Svörtu-Ásar: Liggja á vinstri hönd. 17 .Vesturásar: Þar norðar og á vinstri hönd. 18. Austurásar: Beint á mót á hægri hönd. 19. Hvalhnúkur vestari: Hann hefur blasað við alla leiðina. 20. Hvalhnúkatagl: Um það liggur vegurinn og beygir til hægri. 21. Skarðshraun: Inn og austur eftir hrauni þessu, sem mun vera kennt við Grindaskörð. 22. Skarðahraunsvörður: Allur er vegurinn varðaður þessum vörðum. 23. Tvívörður: Upp í þessar vörður sem standa með nokkurra metra millibili. Þar um liggur svo 24. Suðurferðaleið: Sem áður er lýst. 25. Vetrarvegur: Vegur þessi var farinn á vetrum. Þótti hann öruggari en Suðurferðaleiðin.“
Áður en haldið var niður um Selskarð var enn og aftur rifjuð upp sú gata er gangið hafði verið yfir milli Selvogsgötu og Stakkavíkurvegar, þ.e. Hlíðarvegurinn. Í örnefnalýsingu fyrir veginn segir (og er þá miðað við að hann sé genginn heiman frá Hlíð og upp á milli Vesturása og Austurása áleiðis til Hafnarfjarðar: „Hlíðarvegur; l. Hlíðartún: Heiman frá bæ lá vegurinn um túnið. 2. Skjólabrekka: Um brekkur þessa. 3. Hlíðarskarðsstíg: Sem hefst neðst í 4. Hlíðarskarði. Sem eiginlega er gil og er þar bratt upp. 5. Hlíðarfjall: Ofan brúna er Fjallið, Hlíðarfjall. 6. Teigarnir: Uppi á Fjallinu voru teigar þessir. 7. Ytri-Teigar: Voru neðar. Þangað var farið til slægna. 8. Innri-Teigar: Ofar voru þeir á Fjallinu. 9. Langhólar: Þeir teygðu sig austur fyrir veginn.

Við neðanvert Stakkavíkursel

10. Dýjabrekkur: Um þær lá vegurinn. 11. Ásarnir:  Milli Ásanna sameinuðust Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur. 12. Vetrarvegur: Var vegurinn kallaður. 13. Sjávarvörður: Voru vörðurnar kallaðar, þar sem steinn í vörðunni sneri við suðri.“
Ljóst er af framangreindri vinnu að hin forna Selvogsgata er enn glögg millum Útvogsskála við Strandarheiði og Lækjarbotna í Hafnarfirði. Stakkavíkurvegur er að mestu glöggur frá Selskarði upp að Tvívörðum sunnan Kerlingarskarðs og Hlíðarvegur (Vetrarvegur) sést glögglega (enda vel varðaður) frá Tvívörðum að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Sennilega hefur Stakkavíkurvegur verið greiðfærasta lestargatan fyrrum af þessum þremur leiðum að dæma (a.m.k. er hún nú ein sú áhugaverðasta).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 21.3 km.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Konráð Bjarnason, 1993, leiðarlýsing á kaupstaðaleið Selvogsbúa – Selvogsgötunni.
-Örnefnalýsingar fyrir Stakkavík.

Í Selskarði

Fáni
Fáninn er tákn lands og þjóðar. Íslenski fáninn minnir okkur á himinblámann, snæviþakta jökla og eldinn í iðrum jarðar.
Íslenski fáninn hefur þó ekki alltaf litið út eins og hann gerir í dag.

Þegar Jörundur hundadagakonungur tók hér völd árið 1809, gaf hann tilskipun um, að Ísland skyldi hafa sérstakan fána. Segir í augslýsingu Jörundar, að íslenski fáninn skuli vera blár með þremur þorskfiskum í efsta horni.

Fáni

Fáni Jörundar.

Hinn 12. júlí 1809 var slíkur fáni dreginn að húni á Petræusarvöruhúsi í Hafnarstræti í Reykjavík. Fáni þessi leið þó undir lok með Jörundi. Eigi að síður verður þessi fáni að teljast fyrsta hugmyndin um þjóðfána fyrir Ísland.
Ekki er ljóst, hvers vegna Jörundur valdi þjóðfánanum bláan lit. Það kann þó að hafa ráðið miklu hér um, að blátt hafi verið talinn þjóðarlitur Íslendinga og á þessum tíma var merki Íslands þorskur með konungskórónu á strjúpanum á rauðum skildi, og hafði svo verið lengi.

Fáni

Fáni – fálkafáni.

Um 1870 vakti Sigurður Guðmundsson málari athygli á því, að þjóðin ætti fremur að hafa íslenska fálkann heldur en þorskinn í merki sínu. Máli hans var vel tekið. Stúdentar og skólapiltar urðu fljótir til að taka fálkann upp í merki sitt.
Sumarið 1873 var blár fáni með hvítum fálka í fyrsta skipti dreginn að húni á Þingvöllum. Þjóðhátíðarsumarið 1874 voru haldnar samkomur víða um land og var þá víðast flaggað með fálkamerkinu.
Á þessum árum skapast talsvert almennur áhugi fyrir því, að íslenska þjóðin eignist sitt sérstaka tákn eða merki. Þjóðin var óánægð með þorskmerkið og vildi leggja það niður og taka upp fálkamerkið. Kom þetta skýrt í ljós þegar Alþingishúsið var reist árið 1881, en þá var þorskmerkið sett framan á það.

Fáni

Fáni – hvítbláinn.

Árið 1897 skrifaði Einar Benediktsson grein í blaðið Dagskrá, sem hann nefndi „Íslenski fáninn.“ Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum feldi.
Þessi grein hafði mjög mikil áhrif og náði fánagerð þessi þegar almennum vinsældum. Sumarið 1897 var þessi fáni í fyrsta skipti hafður á lofti á þjóðminningunni í Reykjavík.

Fáni

Fáni – fáninn 1918-1944 var með mun skærari litum en nú þekkist.

Ekki voru þó allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Töldu þeir að örðugt gæti reynst að greina þessa fána í sundur á sjó úti.

19. júní 1915, fyrir nákvæmlega 90 árum síðan, var ákveðið að fáninn skuli vera „heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.“ Og þannig er hann enn þann dag í dag.

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/ggg/fani.htm

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli að gefnu tilefni.