Í Fornleifaskráningum í Grindavík, 1., 2. og 3. áfangi, á vegum Fornleifastofnunar Íslands 2002 sem og í svæðisskráningu um Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað 2001, er m.a. fjallað um einstakar vörður. Hér verður fjallað um þær vörður, bæði þær er enn standa og einnig þær horfnu, sem ekki eru við þjóðleiðir, s.s. sundvörður, leiðarvörður, vörður af miðum o.s.frv. Þá verður einnig fjallað um samskonar vörður, sem ekki hefur verið getið í fornleifaskráningum í byggðalaginu. Hafa ber í huga að land Grindavíkur er umfangsmikið; nær frá Seljabót í austri að Valahnúkamöl í vestri.
Vörður á Þórkötlustaða- og Hópsnesi (Látravarða (Gjáarvarða) og Sigga)
Gjáarvarða ofan Gjárinnar á Nesinu.
„Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða, og norður af þeim hólum heita Katlar.“, segir í örnefnaskrá AG.
Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, um 300 m sunnan við þar sem stórt skipsflak er í fjöru. Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þótköltustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var. Grasi- og mosagróið hraunlendi. Enn sést móta fyrir vörðunni en grjóthrúga er á hraunhryggnum þar sem hún stóð.“
Meint „Látravarða“ er í raun „Gjáarvarða“, sem stendur enn, gróin og álút, ofan við Vatnsgjána í Hópsnesi.
Heiðarvarða ofan Hóps
Heiðarvarða.
„Svæðið fyrir ofan veginn er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur…Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki.“, segir í örnefnaskrá AG. Heiðarvarðan er 1100-1200 m norðnorðvestan við bæ og um 900-1000 m austan við þjóðveginn frá Grindavík. Hún er nálega beint austan við mastur sem stendur austan við þjóðveginn. Varðan er 850 m norðan við elliheimilið í Grindavík. Mosa- og grasivaxið hraunlendi. Varðan er á gróinni hraunhæð og sést víða að. Hún er sjálf 2,0-2,5 m á hæð en 3-4 m í þvermál. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni, sérstaklega úr suðurhlið hennar.“ (FERLIRsfélagar löguðu vörðuna ásamt nokkrum Grindvíkingum árið 2010.)
Varða – sjómerki
Efri-Sundvarðan á Leiti – ofan Þórkötlustaða. Vitinn á Þórkötlustaðanesi fjær.
„Sjómerki „3 m austan við girðingu í apalhrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 2×2 m (A-V) og 2,2 m hátt. Vel hlaðið. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Járngerðarstaðahverfi inn á Járngerðarstaðasund.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er um 200 m norðnorðvestan við og 70-80 m neðan sunnan við girðingu sem girðir af neðri hluta heiðarinnar. Varðan er í grónu hraunlendi. Hún er rúmir 2 m á hæð (2,2) og 2 m í þvermál.“
Um er að ræða efri sundvörðuna á Leiti. Þarna er hún ranglega skráð sem „sjómerki fyrir Járngerðarstaðahverfi inn í Járngerðarsund„.
Stekkjarvarða
Varðan Sigga, austan Síkis.
„Þar fyrir utan [Hópsvör] er Stekkjarvarða og síðan Hellir …“ segir í Sögu Grindavíkur I. Um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes austast er hleðsla á hól. Hóllinn sem varðan stóð á er fast sunnan við vegarslóðann. Hún er alveg hrunin og en vel sést hvar varðan hefur staðið. Grjóthrúgan er á klettahrygg, í grónu hraunlendi. Hrúgan er um 1,5 m í þvermál en 0,2 m á hæð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.“
Hér er um ranga skráningu að ræða því þetta er sama varðan og „Sigga“. Stekkjarfjaran er mun vestar, nálægt Síkinu. Sunnan þess var Hópsvörin, enda má enn sjá minjar verbúðarinnar ofan við varnargarðinn, sem þar er nú. Norðan (austan) Síkisins eru stekkurinn, fiskhús og fiskþurrkgarðar áður en byrjað var að salta fisk í Grindavík.
Varða neðan Hóps – innsiglingavarða
Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).
Innsiglingavarða er neðst í túni að Hópi, um 20m suðvestan við bæjartóftirnar og fast norðan við Bakkalág. Sunnan við neðri innsiglingavörðuna er malbikuð gata og fjara en norðar sléttuð tún. Varðan er nýlega hlaðin og steypt, Hún er 4-5 m í þvermál en 4 m á hæð.
Varða neðan Hóps (Neðri-Hópsvarða)
„Vegur liggur frá Bakkalág til norðurs austan við Hópstún, 5-10 m vestan við slóðann er efri innsiglingarvarðan í túninu. Hún er um 50 m sunnan við Austurveg. Hún stendur á grónum hraunhrygg. Varðan er nýleg, hlaðin og steypt. Hún er 5 m í þvermál en 3-4 m á hæð.“
Neðri-Hópsvarða var hlaðin sem innsiglingarvarða eftir að Hópið hafði verið grafið út árið 1939. Hún var síðan endurgerð árið 1955 og á hana sett ljósmerki. Varðan stenst á við Efri-Hópsvörðuna.
Varða ofan Hóps (Efri-Hópsvarða)
Hóp – efri innsiglingarvarðan.
„Upp við girðingu umhverfis tún. Efst á hraunhól. Í hrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 3,2x 4m (A – V) og 2,5m hátt. Vel hlaðið. Ofan á sjómerkinu er fúinn tréstaur. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Þórkötlustaðahverfi inn á Þórkötlustaðasund.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er 10 m ofan við sléttuð tún, norðaustan við hesthúsahverfi. Ofan við tún er 10 m breitt hraunsvæði, þar ofan (norðan) við er girðing og er varðan fast ofan við hana. Varðan er um 1 km frá bæ. Varðan er í grónu hrauni. Varðan er 2,5m á hæð og er fúinn staur upp úr henni miðri. Hún er 3-4 m í þvermál.“
Svíravarða neðan Járngerðarstaða
Svartiklettur – sundmerki (Svíravarða).
„Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri…Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.“, segir í örnefnaskrá AG. Svíravarða var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjógarður gengur til austurs. Hún var um 750 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús.“
Vissulega er „Svíravarða“ horfin, líkt og sundvarðan neðst í Staðarsundi, en Svartiklettur stendur enn, þótt hann megi muna fífil sinn fegurri.
Vörður í Þórkötlustaðanesi
Þórkötlustaðanes – sundvörður.
„Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu en ósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars sem er syðsta húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við lendinguna í Vörinni 024 norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkampinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestar. Hleðsluhæð varðanna er um 2 m og eru þær mest um 1,5 m í þvermál. Umför grjóts eru um 15.“
Nesvörðurnar eru heillegar og standa ofan við gömlu vörina, steypta bryggjuna.
Vörðunes/Vörðunestangi neðan Húsatófta
Húsatóptir – neðri sundvarðan ofan Vatnslóns.
Í örnefnaskrá segir: „Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur…Vestan Stekkjartúnskamps eru klettabásar, nefndir Sölvabásar… Vestan Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 kílómetra, er stór hlaðin varða.“, segir í örnefnaskrá. „Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður.“ Varðan er um 800 m austur af bæjarhól, fast norðan þjóðvegar í norðaustur frá húsum fiskeldisins. Varðan er í uppgrónu hrauni.
Í örnefnaskrá segir: „Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi…Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Hleðslur standa. Vörðurnar voru áður tvær en aðeins önnur þeirra er enn til staðar. Sú sem er horfin var suðvestar, þar sem hús fiskeldisins standa nú.“
Framangrein er ekki alveg rétt því báðar vörðurnar standa enn – báðar heillegar. Önnur er ofan vegar og hin á hraunhól vestan Vatnslóns.
Nónvörður vestan Húsatófta
Nónvarða ofan Húsatófta.
„Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum.“, segir í örnefnaskrá. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn, fast vestan við golfvöllinn og um 250 m vestur af bæjarhól. Fremri varðan sést greinilega af þjóðvegi. Í sendnu, uppblásnu hrauni.“
„Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að árhrínsorðum, enda standa Nónvörður að nokkru enn.“, segir í örnefnaskrá.
Vörðurnar, sem enn standa, eru tvær og er sú fremri syðst á hraunbungunni en hin um 50 m norðar. Báðar eru hlaðnar úr hraungrýti og eru um 1,2 m á hæð. Þær eru heillegar.
Hvyrflavörður milli Húsatófta og Staðar.
Hvyrflar – sundvarðan (landamerki).
Í örnefnaskrá segir: „Í eystri öxl [Þórðarfells] á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.“ Vörðurnar voru á Hvyrflum sem er hæðardrag á mörkum Staðar og Húsatópta. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna og um 500 m norðaustur af bæjarstæði. Á stórgrýttum sjávarkampi.
„Þá koma Hvyrflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta …“ GE.
Frá Valahnúk. „Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum Húsatófta og Hafnar“, segir í örnefnaskrá Húsatópta.
Í sóknarlýsingu 1840 segir: „…skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman, skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til opnar liggja lendingarnar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa.“ SSGK, 131. Varðan stendur á steyptum grunni og er um 1,5 m há. Umför eru um tólf. Steypt hefur verið í hleðsluna en varðan er nýlega endurgerð. Eldri varða stóð á nákvæmlega sama stað en sjórinn tók hana.“
Síðastnefnda varðan var endurhlaðin fyrir allnokkru ofan og vestan við bryggjuna. Hún var einnig landamerkjavarða milli Húsatófta og staðar. Brimið tók svo þá vörðu eftir áramótin 2022. Leifar gömlu Hvyrflavörðunnar, þeirrar neðri er í grasbrúninni neðst á Hvyrflum. Varða er einnig á hraunbrúninni ofan Hvyrfla, en varða, sem stóð á hól ofan fiskverkunarhúss er horfin.
Eiríksvarða á Arnarfelli í Krýsuvík.
Eiríksvarða á Arnarfelli.
„Vestan við Krýsuvíkurhraun niðri undir sjó er fornhraun, sem nefnt er Litlahraun, en í Krýsuvíkurhrauni er Skyggnisþúfa, vestur af Seljabótarnefi. Vestur frá Litlahrauni tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. … Vestarlega í mýrinni er stakt fell nokkuð hátt, sem heitri Arnarfell. Vestur af því gengur svo Arnarfellstagl, og framan í því er túnið … Á fellinu er varða, sem heitir Eiríksvarða“, segir í örnefnaskrá.
Arnarfell er stakt fell um 600 m austur af Krýsuvík, eina fellið þar austan við þjóðveginn. Umhverfis fellið er þýfður mói eða mýri. Fellið er gróið upp í miðjar hlíðar en klettótt efst. Varða er vestarlega á fellinu, ofan við bæjartóftir Arnarfells. Hún er að mestu hrunin.“
Eiríksvarða er eignuð Eiríki galdrapresti á Vogsósum, en sagan segir að hann hafi látið hlaða vörðuna eftir að hafa stefnt Tyrkjum, sem komu upp Ræningjastíg við Heiðnaberg, hvern gegn öðrum með þeim orðum að á meðan varðan stæði myndi Krýsvíkingum óhætt fyrir ágangi heiðingjanna. Sagan er svo sama og skráð hefur verið um Gíslavörðu í Staðarhverfi.
Núpshlíðarhorn – varða.
Núpshlíðarhorn – landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur
„Síðan ber landeigendum ekki saman um landamerki. Eigendur Hrauns segja þau vörðu í Núphlíð og síðan norður í Sogaselsdal. Eigandi Ísólfsskála segir þau úr öxl Borgarfjalls og í Selsvallafjall og þaðan í Sogaselsdal.“, segir í örnefnaskrá LJ. Varða er á Núpshlíðinni norðan við gamla veginn yfir hana. Best að ganga vestur frá Djúpavatnsvegi (Vigdísarvallavegi) þar sem hann sveigir til norðurs austan við sunnanverða Núpshlíð. Varðan er vestan undir háhorninu í hlíðinni og sést í sjónauka frá þjóðveginum. Núpshlíðin er þarna hálf- eða ógróin og grýtt. Varðan stendur, um 1 m á hæð. Umför um tíu, en vörðunni hefur verið haldið við. Hún er um 0,5 m á breidd.“
Varðan á Núpshlíðarhorni var notuð sem mið, en hún er einnig landamerkjavarða Ísólfsskála og Krýsuvíkur.
Gíslavarða
Gíslavarða.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.”
Á sautjándu öld kom ræningjaskip til Grindavíkur. Þá bjó prestur á Stað er Gísli hét og var hann talin fjölkunnugur. Bæjarbúar fengu hann til að hrekja ræningjana á burt. Hlóð hann svo vörðu til minja um atburðinn og lét svo um mælt að á meðan nokkur steinn væri óhrunin í vörðunni skyldu ræningjar ekki granda Grindavík.“ (Rauðskinna hin nýrri. 3 bindi. Rits. Jón Thorarensen. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1971), I, 44. Skrásetjari Jón Thorarensen).
Hefur framangreint orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á hraunhól (Gíslavarða) skammt vestar, í Staðarlandi.
Vörður, sem ekki er getið um í fornleifskráningum:
-Gróin varða í hrauninu ofan Austurvegar. Varðan var efra sundmerkið frá Buðlungavör. Neðri varðan, sem stóð ofan kampsins vestan og neðan bæjarins er horfin vegna ágangs sjávar. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni.“, segir í örnefnaskrá AG. „Sundvarða við Buðlungu átti að bera í Fjós og Lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru þessi nöfn dregin [þ.e.a.s. nöfn boðanna].
Sundvarða ofan Þórkötlustaða.
-Varða ofan hesthúsanna á Leiti. Þar eru tvær sundvörður, en einungis annarrar þeirra er gefið í fornleifaskráningum.
-Varða ofan Hrauns. Hún er skráð sem dys, en var efri innsiglingavarðan í Hraunsvörina. Neðri varðan var ofan við kampinn ofan vararinnar, en er nú hörfin vegna sjóvarna. Þriðja varðan er á túninu ofan Hrauns, skammt ofan og vestan við þann stað, sem gamli bærinn og kirkjan stóðu.
–Gíslavarða (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
–Neðri sundvarðan austan Húsatófta (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
–Fiskivörður á Staðarbergi. Ekki er um eiginlegar vörður að ræða heldur hraunstrýtur á berginu þar sem það ber hæst.
Vörðurnar Brandur og Bergur.
–Sundavarða austan Barnaóss í Hópi. Varðan er horfin undir framkvæmdir.
–Stamphólsvarða. Varðan stóð á Stamphól austan Hóps, en hóllinn er nú horfinn undir veg.
–Títublaðavarða. Varðan er við Skipsstíg ofan Járngerðastaða. Hún var fyrrum efri sundvarðan inn í Fornuvör. Tómas Þorvaldsson sagði frá því að sú sögn hafi fylgt fólkinu á Járngerðarstöðum að Títublaðavörðunni ætti ávallt að viðhalda.
–Brandur og Bergur við Ísólfsskála. Brandur, bóndi á Skála, og vinnumaður hans, Bergur (faðir Guðbergs Bergssonar) hlóðu þessar vörður sér til dægrastyttingar er þeir voru við fjárgæslu við bragga Skálabónda undir Núsphlíðarhorni. (Brandur hrundi í jarðskjálftunum 2020.)
–Varða á Krýsuvíkurbjargi. Varðan var hlaðin skammt vestan Vestari Bergsenda sem mið frá veiðistað undir bjarginu. Þessi hluti bjargsins nefnist Krýsuvíkurbjarg, en vestan Eystri-Lækjar, sem rennur fram af því, nefnist það Krýsuvíkurberg.
Selalda – varða.
–Varða á Selöldu. Varðan var mið neðan við bergið (Heiðnabergs).
–Þrjár vörður á Strýthól. Um var að ræða vörður sem mið; þegar þær féllu saman í eina. Strýthólarnir eru tveir vestarlega í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, en miðað var við þann eystri.
Varða neðst í Ögmundarhrauni – nú hrunin.
–Varða neðst í Ögmundarhrauni. Varðan var há og vel hlaðinn uppi á hraunkanti, en er nú fallin. Hún var notuð sem mið.
–Varða ofan Selatanga. Varðan var leiðarvarða í innsiglinguna neðan við Selatanga með stefnu í vörðuna á Núpshlíðarhorni.
Brúnavörður.
–Brúnavörður. Vörðurnar eru tvær, áberandi, á afrúnuðum hraunhól neðalega í Ögmundarhrauni, millum Óbrennishólma og Húshólma. Þær voru notaðar sem mið.
–Sundvarða í Sundvörðuhrauni. Sundvarðan í austanverðu Sundvörðuhrauni (sem er eitt Eldvarpahraunanna, sem myndaðist í Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240) er áberandi kennileiti; klettastandur. Hann var mikið notaður sem mið.
Örnefnalýsingar:
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvyrflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvyrflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar.
Hvyrflar.
Á Hvyrflum eru tvær vörður, Hvyrflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.
Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvyrflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning. Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.
Staðarsund
Þórðarfell.
„Næsta fell, fjallmyndað, fyrir vestan Þorbjörn kallast Þórðarfell. Í eystri öxl þess á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.“ – Safnað af Andrési Markússyni 1926.
Í bókinni “Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I” frá árinu 1890 eftir séra Odd. V. Gíslason er m.a. sagt frá kyndilmessubæn, sjómannabæn, drukknun og leiðum og lendingum á helstu hafnir á sunnanverðu landinu, s.s. við Grindavík; (Þorkötlustaðasund, Járngerðarstaðasund og Staðarsund). Lýsing séra Odds er í raun endurskrif á sóknarlýsingu séra Geirs Backmanns frá því á fyrri hluta 19. aldrar og verður því ekki reynt að eyða tíma lesenda með þeirri endurtekningu.
Þórkötlustaðir (varða í túninu)
Þórkötlustaðir – varða.
Í „Sóknarlýsingu Geirs Backmanns fyrir Grindavík 1835-1855“ má lesa eftirfarandi um vörðu í túninu neðan við Þórkötlustaðarbæinn gamla: „Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. „
Í „Sögu Grindavíkur, frá landnámi til 1880“ fjallar Jón Þ. Þór m.a. um „Fiskimið Grindvíkinga„:
Jón Þ. Þór.
„Orðið fiskimið hefur tvenns konar merkingu í íslensku máli. Annars vegar merkir það fiskislóðina, sátrið, þar sem menn setja yfir fiski, en hins vegar þau mið á landi eða sjó, sem menn notuðu til að finna þá staði, sem þeir hugðust fiska á.
Sjómenn veittu því snemma athygli, að ekki var sama, hvar færi væri rennt. Á sumum stöðum gaf fiskur sig betur en á öðrum, og meiri líkur voru á ákveðnum fiskitegundum á einni slóð en annarri. Þessa staði þekktu menn með því að taka mið af kennileitum í landi, fjöllum, holtum, hólum, hömrum, hæðum, bæjum o.frv. Lína hugsaðist dregin gegnum tvö kennileiti, sem bera átti saman. Með þessum hætti gátu sjómenn staðsett sig í hafinu, og þar sem línur tveggja miða á landi skárust á sjó, voru fiskimið. Aðferðin var ævagömul, og elstu ritaða lýsingu á henni er að finna í Guðmundar sögu byskups (skáletrað) sem Arngrímur ábóti á Þingeyrum ritaði um 1350.“
Miklu yngri er lýsing Skúla Magnússonar landfógeta, en hann lýsti fiskimiðum þannig í verðlaunaritgerð sinni, Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu, árið 1785:
Grindavíkurfjöll; Hagafell lengst til vinstri og Geitahlíð lengst til hægri.
„Sjómenn sækja jafan út á þau svæði, sem þeir vita af reynslunni, að fiskur hefst við á; kallast þau fiskileiti. Þessum svæðum á sjónum er skipt nánara í sundur, og eru þau nefnd mið, vegna þess að þegar tvö nes eða fjöll uppi á landinu eru í sömu stefnu frá austri til vesturs, og tvö önnur ber einnig saman í stefnu frá norðri til suðurs, eru þeir á réttu miði eða þeim stað, sem þeir leituðu að. gefa þeir miðunum nöfn.“
Hraun – landslag.
Þekking á miðum var þannig reynsluvísindi, og liggur í augum uppi, að fiskimið voru önnur á djúpslóð en á grunnslóð. Á grunnslóðinni miðuðu menn gjarnan við kennileiti í byggð, eða nærri ströndinni, en á djúpmiðum há fjöll og fjallatinda, sem gátu verið langt inni í landi og urðu ekki sýnileg, fyrr en menn voru komnir djúpt. Er þá auðsætt, að dimmviðri gat gert mönnum erfitt fyrir, og varð þá oft að taka mið af öðrum þáttum, enda veittu sjómenn einnig nána athygli sjólagi og botnlagi.
Magnús Hafliðason.
Þannig varð smám saman til mikill fjöldi miða umhverfis allt land, og má geta þess, að í fiskimiðasafni dr. Lúðvíks kristjánssonar er telin 2.197 árabátamið víðsvegar um landið, þar af 440 á Suðurnesjum og í Faxaflóa. Tæpur fjórðungur þessara miða, um eitt hundrað, er í Grindavík, og skrái Lúðvík þau eftir Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum.
Í bókinni Frá Suðurnesjum eru prentaðar fiskimiðaskrár, sem Friðrik K. Magnússon skráði eftir frásögn bræðranna Gísla og Magnúsar Hafliðasona á Hrauni og Jóns Jónssonar formanns í Sjólist. Allir voru þeir gjörkunnugir miðum Grindvíkinga á árabátaöld. Í skránni, sem höfð var eftir Hraunsbræðrum, voru talin alls 43 mið, 18 djúpmið og 25 grunnmið, og í frásögn Jóns í Sjólist var ekið 19 miða, og virðast þau öll vera grunnmið.
Alegnt var, að menn gerðu sér kennileiti til að miða, og voru þau einkum vörður, sem hlaðnar voru í þessu skyni. Margar slíkar vörður voru í Grindavík, og mun Sigguvarða hafa verið einn þekktust. Var miðað við hana af öllum grunnmiðum, eða af samtals 26 stöðum. Á hraunbrúninni var Stamphólsvarða og framan á henni tréspjald eða þil, svo hún sæist betur af sjó. Látravörðu var getið, svo og Svíravörðu og Fiskivarða á Staðarbergi.
Þorbjarnarfell.
Loks er þess að geta, að algengt var að kennileiti bæru annað nafn á sjó en á landi. Þannig var Þorbjarnarfell stundum kallað Setufell á sjó, og Svínfell á Reykjanesi var ávallt nefnt Sýrfell (skáletrað) á sjó. Þá hét Sílfell á Reykjanesi Djúpafjall á sjó. Ekki er ljóst, hvernig stóð á nafnbreytingunni á Þorbjarnarfelli, sem Sýrfell var svo nefnt, vegna þess að samkvæmt þjóðtrúnni mátti ekki nefna svín á sjó; þá gat svínhvalur komið og gert mönnum lífið leitt.
Hraunsvör.
Nútíma tækni og breytingar, sem orðið hafa á landslagi á síðustu árum og áratugum, valda því, að nú eru mörg hinna gömlu fiskimiða Grindvíkinga horfin og gleymd. Nöfn þeirra, sem varðsveist hafa, bera hins vegar vitni ævargamalli merkmenningu, reynsluvísindum, sem nýttust mönnum vel í aldanna rás.“
Framangreindar vörður bera framangreindu glögg vitni.
Í „Sýslu- og sóknarlýsingum Bókmenntafélagsins 1839-1855“ eru m.a skrif séra Geirs Backmanns um Grindavík. Í lýsingu Geirs á merkjum og miðum Grindvíkinga á fyrri hluta 19. aldar má lesa eftirfarandi:
Geir Backmann.
„Um Staðarsund segir: Merkin, þá sundið liggur, eru; Eldeyjar fastar við Staðarmalir og stór varða, Sundvarða nefnd, í hátt norður að sjá við loft; hún á að liggja í eystri rótum Þórðarfells. Þegar þessi merki liggja, skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman; skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til að opnar liggja lendingar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa. Eigi skyldi maður kærulaus um sundmerkin þau fyrri, því á stjórnborða eru tveir boðar, hver út af öðrum, sem hafa verður auga á, ef nokkurt brim er. Heitir hinn grynnri Arfadalur, en hinn dýpri Sundboði. Standa þeir aldrei upp úr, því þeir eru þaragrynningar. þegar Sundboðinn fellur, þá segja menn albrima og leiðina ófæra.
Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.
Staðarsund er haldið þrautagott í útsynningi og allri vestanátt, eins og líka Járngerðarstaðasund í landnyrðingi og öllum austanáttum. Haldi maður framhjá Staðarsundi og vilji taka land að Járngerðarstöðum eða Hópi, þá ætti ekki að stýra svo nærri landi, að hætta væri af búin, því ekki er það neins staðar boðar né grynningar, fyrri en að sundinu er komið, og það þá aðeins, ef mikið brim er. Sundið liggur inn með Þorkötlustaðanesi að vestanverðu og byrjar, þegar tvær vörður, eður réttara varða og hóll framarlega á nesinu og sjást við loft, bera saman; eiga þá undir eins tvær vörður á landi í landnorðri að vera í beinni stefnu; er önnur þeirra upp í hrauni langt frá sjó, Heiðarvarða nefnd, hin við sjó fyrir innan og austan sundið, Sundvarða.
Grindavík – uppdráttur 1772.
Allar eru vörður þessar auðsénar, því þeim er dyggilega við haldið. Á þær síðstnefndu vörður skal nú halda og stýra inn sundið, þar til enn þá aðrar tvær vörður að vestanverðu eða á bakborða liggja saman; skal þá sleppa Heiðarvörðunni og Sundvörðunni og halda á þessar, ef lenda skal á Járngerðarstöðum, en ella róa miðslóð áfram, þar til sést í vörðuna á Hópi til hægri handar. Vörðurnar, sem seinast vóru nefndar, heita, sú nær sjó Svíravarða, hin, sem lengra er uppi á landi, Stamphólsvarða. – Aðgætandi er enn, þegar þessar vörður skilja, að á bakborða, rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum, eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð; hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau lífið látið. Skal stýra sem næst þeim að mögulega verður, svo löðrið af boðanum, sem af þeim fellur, reri á árarblöðin; segja menn þá, að rétt sé haldið með þeim í brimi, þó ekki megi nær fara.
Heiðarvarða.
Þess vegna skal Járngerðarsund svo framarlega taka, að boði liggur á stjórnborða skammt frá nesinu, Hellirsboði, af hverjum hætta er vís, ef innar er lagt á sundið en þá allar r fyrstnefndu vörður liggja, nefnilega þær tvær í nesinu og Sundvörðurnar. Hætta er líka innst í sundinu, þá Svíra- og Stamphólsvörður bera saman, þar hér eru þrengsli mikil; þá eru á stjórnborða með nesinu grynningar af manntapaflúð og á bakborða boði, Sundboði eður aðrar grynningar, sem er afleiðing af svonefndum Vallarhúsaboða, er þó liggur langt vestar með landi og ei nærri þessari leið; ríður því á góðri stjórn og ötulum róðri, þar boðinn ber af sér á flúðina, en aldrei skyldi þó sleppa Sundvörðunum, þeim í heiðinni og austan til við sundið, fyrri en hinar tvær á bakborða liggja. Enginn haldi nú skipi svo nærri landi fyrir framan Þorkötlustaðanes, að þar fái skaða. Þó eru þau merki, er stýra skal fyrir það í brimi, að Selalda (þ.e. hóll upp á Krýsuvíkurbergi) skal bera yfir djúpa klauf í bergið, milli þess og Selatanga, eða, sem glöggara er, Sílfell á Reykjanes laust við Hafsteina, sem eru fyrir vestan Járngerðarstaði, þar til Þorkötlustaðasund liggur, sem er inn með Þorkötlustaðanesi að austanverðu. Þegar á það skal leggja, eru merkin; Lyngfell (það er hátt strýtufell fyrir austan Festarfjall) skal bera í eður milli tveggja hóla á Borgarfelli (undir þessu felli liggur Sandakravegurinn og er þá nýbyrjaður); er þetta merki þá að sjá í landnorður.
Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.), Borgarfell fjær, Langihryggur í Fagradalsfjalli, Slaga og Skála-Mælifell.
Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. Fyrir framan lendinguna í nesinu er sker, Vararsker, með því skal halda að norðanverðu, en varast má að því frásláttinn og róa karlmannlega. Á snúningnum eru tveir boðar að vestanverðu eða bakborða, Lambhúsi og Fjósi. Skal löðrið af þeim renna á árarblöðin, og segja menn þá rétt haldið leiðinni í nesið, hvar annars er engi góð landtaka, en verður þó ei annars staðar lent hættulaust, ef nokkuð er í sjó, að austanverðu við oft nefnt Þorkötlustaðanes.
Hér mun eg hafa verið óþarflega margorður, enda má bæði þetta og annað gjarnast styrra.“
Skúli Magnússon skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2016 um „Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík“:
Skúli Magnússon.
„Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur. Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund. Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.
Sundvarða austan Húsatófta, Þórðarfell t.h. og Sundhnúkavarðan t.v.
Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210. Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.
Staðarhverfi.
En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum. Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.
Staðarvör – flóruð.
Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.“
Um þessar mundir hafa nokkrar af áberandi innsiglingvörðum hrunuð að hluta, s.s. Efri- og Neðri-Hópsvörðuna sem og efri sundvörðuna á Leyti. Ekki er langt um liðið að FERLIRsfélagar og nokkrir áhugasamir Grindvíkingar lagfærðu Heiðarvörðuna eftir hrun. Mikilvægt er að viðhalda þessum menningarverðmætum, áþreifanlegum táknum horfinna atvinnuhátta.
Fleiri fróðir hafa skrifað um mið og örnefni í Grindavík í gegnum tíðina. Eftir standa menningarminjarnar, sem vart er hægt að hunsa. Þær ber að varðveita til framtíðar, komandi kynslóðum til fróðleiks um fortíðina; grundvöll nútíðarinnar…
ÓSÁ tók saman 2022
Heimildir:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 1., 2. og 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2002.
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað – Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingar.
-Oddur V. Gíslason, Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I – Frá Jökulsá á Sólheimasandi til Reykjaness – Reykjavík 1890.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1587015/ – Aldur sundmerkja við Staðarsund í grindavík – Skúli Magnússon.
-Saga Grindavíkur, frá landnámi til 1880 – Jón Þ. Þór, Grindavíkurbær 1994,Fiskimið Grindvíkinga, bls. 186-189.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla – sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélags 1839-1855, sögufélagið 2007, Grindavík 1840-1841 – séra Geir Backman, bls. 41-43.
Sundhnúkur.