Eftirfarandi frásögn um „Leiruna“ eftir Guðmund A. Finnbogason birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984:
„Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lifsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni.
Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hóimi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-Leiran, kot, hjáleiga frá Gufuskálum. Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur.
Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum. Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi. Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis. Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess. Þó að æði eldingar og ramskæðir smádjöflar ég mun hræðast ekki þar úti á svæði Leirunnar.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust. Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ.
Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl. Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu. Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 22. desember 1984, bls. 33.