Leiran

Eftirfarandi frásögn um „Leiruna“ eftir Guðmund A. Finnbogason birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984:
leiran-332„Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lifsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni.
leiran-333Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hóimi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-Leiran, kot, hjáleiga frá Gufuskálum. Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur.
Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni leiran-334fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum. Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi. Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis. Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess. Þó að æði eldingar og ramskæðir smádjöflar ég mun hræðast ekki þar úti á svæði Leirunnar.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
leiran-336Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust. Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
leiran-337Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. leiran-338
Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl. Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu. Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 22. desember 1984, bls. 33.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Sandgerði

19. Garður – Sandgerði

Staðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin NáttúrustofanÍ Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.
Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Eldri borgarar
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn
Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög
Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella
Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.
Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes
Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.Â

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg
Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi
Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker
Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból
Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir
Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Skipsstígur

Fræðingar fetuðu sig hægt og rólega að Gíslhelli, brögðuðu á jarðveginum, lyktuðu af berginu og mátu sólstöðuna. Þegjandi skoðuðu þeir hellinn og nágrenni, mældu, skráðu hjá sér, litu hver á annan, kinkuðu kolli og röltu síðan sólbakaða bakaleiðina í hægðum sínum. Skyldi hellirinn hafa geta hýst a.m.k. 160 menn samtímis? Hvernig geta útilegumenn hafa hafst við svo nálægt götu að ekki vitnaðist? Gæti miðhlutinn hafa verið reftur, en þakið fallið niður? Hvað segir undirlægt hrossataðið um notkun? Niðurstöðu er að vænta fljótlega.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Ýmsar tillögur og getgátur hafa komið fram um Gíslhelli. Hér eru nokkrar þeirra:
a. Gæti hugsanlega hafa tengst einhverjum atburði svæðisins. Til er t.a.m. sögn af ræningjum í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
b. Gæti hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli (hellirinn athvarf smala og Lágirnar nátthagi).
c. Gæti hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
d. Gæti hafa verið hluti af búðum vegavinnumanna er byggðu Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918. Hlóðu mikið á mörgum stöðum. Voru m.a. í Innra-Njarðvíkurseli um tíma.
e. Gæti hafa verið skjól fyrir Tyrkjunum 1627.
f. Gæti hafa verið skjól eða tímabundinn felustaður, t.d. útilegumanna, er herjuðu á vegfarendur um tíma, líkt og við Selsvelli.
g. Gæti hafa verið samkomustaður þeirra er tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu 1532 (söfnuðust saman við Þórðarfell).
h. Gæti hafa verið athvarf refaskyttna.
i. Gæti hafa verið áningarstaður á milli Grindavíkur og Njarðvíkur (vantar þá auðkennið).
j. Gæti hafa verið til fleiri en einna nota í gegnum tíðina.

Fleiri ágætar hugmyndir hafa komið fram. Eitt er þó víst og skiptir mestu; staðurinn er fallegur og allar minjar skipta jafn miklu máli – án tillits til aldurs eða notagildis – hver svo sem niðurstaðan kemur til með að verða.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Ögmundarhraun

Nýlega fannst lítið op á stórum helli í Hrútagjárdyngjuhrauni, undir nýlegra hrauni frá 1151 (sem nú er þekkt sem Ögmundarhrauns-, Afstapa- og Kapelluhraunsmyndunin).
GöngusvæðiðÆtlunin var að fara niður í hyldýpið og skoða undirlendið með aðstoð kaðals og stiga. Líklega var þarna um að ræða stað, sem enginn maður á jarðkringlunni hefur nokkru sinni áður stigið niður fæti. Á leiðinni var staldrað við og forsagan m.a. rifjuð upp að hluta.
Norður-Atlantshaf er talið hafa opnast fyrir um 65-75 milljónum árum síðan og myndaðist þá Mið-Atlantshafshryggurinn. Talið er að rekið um hann sé að meðaltali 1cm á ári í sitthvora átt (þ.e. 2 cm í heildina). Reykjanesskaginn er framhald af Mið-Atlantshafshryggnum samanber myndina hér að ofan. Hryggurinn og gosbeltið marka skilin á milli Norður-Ameríkuplötunnar og Evrasíuplötunnar. Fjögur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga. Þau eru kennd við Reykjanes, Krísuvík, Brennnisteinsfjöll og Hengil. Á myndinni má sjá að þau eru með stefnuna NA-SV og markar sú stefna allt landslag á Reykjanesskaganum. Hraunin í kringum Hafnarfjörð eru ýmist komin frá Krýsuvíkurkerfinu eða Brennisteinsfjallakerfinu.
Opið og nágrenniEitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
SSprungan neðanverð til norðursprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands.
Í Hjöllum í Heiðmörk eru mörg misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Hjallamisgengið er um 5 kílómetra langt og hæst er það um 65 metra hátt. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Annað mikilvægt misgengi er Helgadalsmisgengið sem klýfur Búrfell og sér til þess að Kaldá kemur upp á yfirborðið. Lóðrétt misgengi hefur orðið um margar þeirra þannig að norðvestur barmur sprungunnar rís hærra en suðvestur barmurinn, og þannig er það með sprunguna sem fer í gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur vel fram í Helgadal við suðurrætur Búrfells. Það nær langt í báðar áttir frá gígnum og sumum stöðum klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg.
Um var að ræða forkönnunarleiðangur niður um hið nýfundna op í Hrútagjárdyngjuhrauni. Reyndar er það hraun undir nýrra hrauni, sem runnið hefur á sögulegum tíma, en vegna lítillar athygli, sem nýja hraunið hefur fengið hefur það aldrei hlotið nafn. Það er þó sammæðra bæði Ögmundarhrauni, Afstapahrauni (yngra) og Nýjahrauni (Kapelluhrauni) og engu ófegurra ásýndum en þau. Vel færi að nefna hraunhluta þennan Sléttuhraun því um hann liggur m.a. greiðfærasti hluti Hrauntungustígsins, auk ónafngreinds stígs (og ekki minna farinn fyrrum) niður með vestanverðum syðsta hluta Hrútagjár. Sá greiðfæri stígur, er liggur af Dalaleiðinni, sameinast Hrauntungustígnum við norðanverðan Hrúthólma.
Þegar komið var að opinu eftir u.þ.b. 22 mínútur á göngu í sléttu mosahrauninu var reipið tekið fram og það notað til að komast af öryggi inn og niður um opið. Þar var grannur stallur, sem hægt var að staðnæmast á og berja dýrðina augum. Um var að ræða stóra hraunsprungu, sem ofanverð gígaröðin hafði fyllt að ofan með nýrra hrauni. Sprungan gat bæði verið eldri og yngri en nýja hraunmyndunin. Einmitt þess vegna varð staðurinn einstaklega áhugaverður – jarðfræðilega séð. Af stallinum voru 3-4 lóðréttir metrar niður á sprungugólfið. Hún endaði annars vegar þarna að sunnanverðu, en hélt hins vegar áfram inn undir hraunið til norðurs.

Köldunámur

Köldunámur.

Stiginn, sem tekinn hafði verið með til málamynda og átti að duga til að komast alveg niður á botn, reyndist of stuttur.
Sennilega er þetta áhugavert jarðfræðifyrirbæri og því ástæðulaust að láta það óskoðað. Ljóst er að fyrirbærið er sprunga, eða hluti sprungu. Hún liggur áfram til norðurs, undir nýrri klepragíg (í ca. 6 metra fjarlægð). Hvað þar gæti verið hefur enn ekki verið kannað. Til að fara að engu óðslega eða tefla í tvísýnu var ákveðið að láta staðar numið að sinni.

Köldunámur

Köldunámur.

Umhverfið er stórbrotið, a.m.k. í tvennum skilningi, en þriðji skilningurinn og sá auðsýnilegasti, er hins vegar þversögn. Ofan við opið er misgengi, eitt hið fallegasta á Reykjanesskaganum sem og á öllum landflekamótum Evrasíu og Ameríku, auk þess sem hraungambrinn er óvíða fegurri og litumskiptanlegri í þurrka- (grár) og vætutíð (grænn) en einmitt þarna. Í þversögninni felst sú ófegurð, sem hjól torfærutækjanna hefur markað nýlega í annars ósnertan hraungambrann – þvert á milli Hrauntungustígs og þess ónafngreinda er liggur með Hrútagjánni að Hrúthólma. Hvar er allt það sýnilega eftirlit lögreglu, sem svo margþvælt hefur verið um að undanförnu. Getur verið að áherslan hafi bara verið lögð á föruna en fjöllin orðið afskipt?
Þegar til baka var komið varð ekki hjá komist að bjóða jarðfræðingi Íslands nr.1, Kristjáni Sæmundssyni, í lokaleiðangurinn (Ellefuhundruðogfimmtíu II). Í framhaldi af ferðinni var honum send eftirfarandi tölvupósboð: „Vorum að ferli í hrauninu vestan Hrútagjár fyrir skömmu. Fundum jarðfall og niðriundir sprungu í Hrútagjárhrauni, undir nýrra hrauni, sem komið hefur úr gígaröð ofan hennar. Sprungan liggur undir einn gíginn. Hún hefur ekki verið könnuð því til þess þarf bæði reipi og stiga. Ætlunin er að fara þangað, með reipi og stiga, síðdegis í næstu viku. Gaman væri ef þú gætir slegist með í för. Um er að ræða um 20 mín. göngu að opinu um slétt mosahraun.“
Næst þegar farið verður á staðinn verður bæði reipið og hæfilega langur stigi með í för. Þá verður að öllum líkindum hægt að fullkanna fyrirbærið (sjá Ellefuhundruðogfimmtíu II).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og
2 mínútur.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/listi.htm.htm

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

 

Vogar

Hinn árlegi Fjölskyldudagur í Sveitarfélaginu Vogar var haldinn 14. ágúst (2010).

Vogar

Vogar – bæjarhátíð 2010.

Ungir jafnt sem aldnir fengu að skoða innviði TF-Lífar, þyrlu Landhelgisgæslulnnar, á þessari árlegu Fjölskylduhátíð sem haldin var í bæjarfélaginu þrettánda árið í röð. Hátíðinni lauk með flugeldasýningu um kvöldið.
Að sögn Tinnu Hallgrímsdóttur, skipuleggjanda hátíðarinnar, var þyrlan við æfingar og var í leiðinni flogið yfir bæinn við mikinn fögnuð. Henni hafi svo verið lent á stóru túni og gestum leyft að skoða. Fjölskylduhátíðin á Vogum er með veglegra móti í ár enda haldið upp á 125 ára afmæli sveitarfélagsins.

Heimild:
-mbl.is

Vogar

Vogar.

 

Árnahellir

Árnahellir er einn af hellagersemum landsins. Varla þar að taka fram að hellirinn er á Reykjanesskaganum. Hér er birt umfjöllun um hellinn á mbl.is árið 2002 er hann var friðlýstur.
Arnahellir-2„Árnahellir í Leitahrauni skammt norðvestan Þorlákshafnar friðlýstur – Neðanjarðar-frumskógur hraunstráa og dropsteina.
Sigurður Sveinn Jónsson, formaður Hellarannsóknar-félags Íslands, undirritar samstarfssamning við Náttúruvernd ríkisins sagði við munna Árnahellis í gær að samkvæmt samningum við hlutaðeigandi taki félagið að sér ráðgjöf, eftirlit og umsjón með friðlýstum hellum og hellum á friðlýstum svæðum.
Undraheimur hraunstráa og dropsteina opnaðist fyrir umhverfisráðherra sem og sveitarstjórnarmönnum er skriðu niður þröng göng ofan í jörðina og heimsóttu Árnahelli, einn af merkari hraunhellum jarðarinnar, í gær. Hellirinn, sem er mjög viðkvæmur, var friðlýstur í af þessu tilefni til að komandi kynslóðir geti einnig notið hans.
ÁRNAHELLIR er einstakur hraunhellir í Leitahrauni norðvestan Þorlákshafnar, er kenndur við Árna Björn Stefánsson hellaáhugamann sem fann hann árið 1985. Árnahellir mun vera með merkilegri hraunhellum vegna ósnortinna hraunmyndana sem í honum finnast. Hellirinn er yfir 150 metra langur og liggur á um 20 metra dýpi. Breidd hans er um og yfir 10 metrar en frekar lágt er til lofts.
Arnahellir-3Úr hellisloftinu hanga hraunstrá og þarf að gæta þess þegar hellirinn er heimsóttur að rekast ekki í þau því þau eru stökk og mjög viðkvæm. Hraunstráin eru um 5-10 mm í þvermál, sum hol að innan og önnur með gifsútfellingum. Lengstu stráin munu vera um 60 cm löng. Á gólfi Árnahellis eru dropsteinar og eru þeir stærstu yfir einn metri á hæð og um 7 cm í þvermál. Dropsteinarnir standa í hópum eða breiðum á hellisgólfinu.
Sigurður Sveinn Jónsson, formaður Hellarannsóknar-félags Íslands, segir að hraunstráin og dropsteinarnir myndist þegar hraunið er næstum því storknað. Vökvi í kvikunni, sem hvarfast ekki mjög greiðlega við þær steindir sem til verða í berginu við storknun, kreistist út í holrými og sprungur og drjúpi niður úr loftinu. Það sem falli til jarðar hlaðist upp og myndi dropsteina. Þetta gerist á tiltölulega stuttum tíma.
Ekki er hugmyndin að gera hellinn að ferðamannastað. Sigurður segir að það sé ekki hugmyndin að gera Árnahelli að ferðamannastað, en sæki menn um leyfi til að fara niður í hellinn og séu tilbúnir að greiða þann kostnað sem af því hlýst verði orðið við því. Samkvæmt samningnum ber að nota það fé, sem Hellarannsóknarfélagið fær vegna þessa, til verndunar hraunhella á svæðinu. Hann segir að lengi hafi verið í umræðunni að gera einhvern einn ákveðinn helli aðgengilegri fyrir almenning og lýsa upp. Nefnir hann Arnarker, Raufarhólshelli og hella í Bláfjöllum sem dæmi um hella sem koma til greina. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu hellisins en Hellarannsóknar-félag Íslands hefur beitt sér fyrir verndun hans síðustu ár. Árnahellir er annar hellir landsins sem er friðlýstur með sérstakri friðlýsingu en Jörundur í Lambahrauni var friðlýstur árið 1985. Auk þeirra eru nokkrir hellar á friðlýstum svæðum sem njóta verndunar.

Arnahellir-4

Við hellisop Árnahellis var við sama tækifæri undirritaður samningur milli Náttúruverndar ríkisins og Hellarannsóknar-félags Íslands um ráðgjöf, eftirlit og umsjón með friðlýstum hraunhellum og hraunhellum á friðlýstum svæðum. Sagði umhverfisráðherra mjög ánægjulegt að þessu samstarfi hefði verið komið á fót. Umsjón með Árnahelli hefur því verið falin Hellarannsóknarfélagi Íslands fyrir hönd Náttúruverndar ríkisins.
Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, sagðist ánægður með að loksins skuli gengið frá samkomulagi við Hellarannsóknarfélagið. Hann vonaðist eftir liðsinni hellaáhugamanna við að gera gersemar í hellum á Snæfellsnesi aðgengilegri á næstu árum, sagðist gera sér vonir um að nýr heimur myndi opnast þar á næstu árum.
Arnahellir-6Allir þekktir hraunhellar hafa skaðast vegna ágangs. Árni, sem hellirinn er nefndur eftir, sagði við friðlýsinguna í gær, að hann hefði ákveðið eftir þennan merka fund árið 1985 að hafa lágt um tilvist hellisins og vinna að friðlýsingu á rólegum nótum. Allir þekktir hraunhellar landsins hefðu skaðast verulega vegna ágangs og viðkvæmar hraunmyndanir hefðu jafnvel verið fjarlægðar kerfisbundið. Sagði hann að smám saman hefði kvisast út hvar hellinn væri að finna og upp úr 1990 hefðu hraunstráin farið að láta á sjá, þó aðeins á þeirri leið sem mest var gengin. Þegar hraunstrá hefðu fundist á leiðinni upp úr hellinum hefði verið ljóst að þetta væri komið úr böndunum og lokaði Hellarannsóknarfélagið hellinum með járnhliði árið 1995, með samþykki landeiganda.
TilArnahellir-5 að komast innst í hellinn, þar sem hinar einstöku jarðmyndanir eru, þarf að skríða niður um stutt en þröng göng. Fyrir það op hefur verið lokað með járnplötu sem er læst. Með friðlýsingunni eru heimsóknir í hellinn og framkvæmdir á svæðinu sem raskað geta hellinum takmarkaðar, nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins eða umsjónaraðila hellisins. Auk þess gildir auglýsing um friðlýsingu dropsteina um hellinn, sem og aðra hella landsins, samkvæmt henni er óheimilt að brjóta eða skemma á annan hátt dropsteinsmyndanir.
Mennirnir eru dægurflugur á mælikvarða jarðsögunnar. Árni B. Stefánsson minnti við friðlýsinguna á að mennirnir væru dægurflugur á mælikvarða jarðsögunnar. Jarðmyndirnar hefðu varðveist í tæp 5 þúsund ár, 160 kynslóðir manna, þrátt fyrir jarðskjálfta og hræringar. „Við erum sjálf um það bil 56. liður frá Óðni, svo myndanirnar eru þrisvar sinnum eldri en æsir. Megi hellir þessi varðveitast um ókomin ár og verða okkur og komandi kynslóðum til sóma,“ sagði Árni.
Við þetta má bæta að félagar HERFÍ hafa undanfarið reynt að leita leiðar inn úr Árnahelli í von um að rásin liggi áfram upp Leitarhraunið og sameinist hinni mikilfenglegu hraunrás Búra.

Heimild:
-mbl.is – föstudaginn 26. júlí, 2002.

Árnahellir

Árnahellir – greinin.

Vegghleðsla

Hlaðna steinveggi má sjá víða um land, ekki síst á Reykjanesskaganum.
Í flestum tilvikum eru þeir leifar frá gamla útvegs- og bændasamfélaginu. Tilgangur þeirra og notkun var af margvíslegum toga, Leiðarilíkt og handverkið sjálft. Grjótið var og misjafnt og tóku vegglagið mið af því. Stundum var langt að sækja grjót og var það þá dregið á staðinn á sleðum yfir vetrarmánuðina.
Á undangengnum áratugum hafa fáir nýir steinveggir verið hlaðnir en því fleirri verið endurhlaðnir. Enn eru til handverksmenn, sem hafa atvinnu af vegghleðslum og bera veggirnir góðu verkviti fagurt vitni.
Það er ekki flókið að hlaða vegg ef aðeins grunnurinn er nógu vel gerður. Á Íslandi og víða í Evrópu hefur steinhleðsla verið notuð til að afmarka jarðir og vegi. Nú á tímum þegar allt er mælt í peningum þá er óheyrilega dýrt að hlaða steinvegg og þrátt fyrir betri tæknibúnað þá er handavinnan óhjákvæmileg og bæði seinleg og erfið. Útkoman getur samt lifað í nokkrar kynslóðir og stendur eftir sem tákn um verkvit og fegurð ef vel tekst til.

Gamla lagið sem tíðkast hefur gegnum aldirnar. Neðsta steinalag látið standa u.þ.b. 10-15 sm. undir yfirborði jarðvegs. Stærstu steinarnir neðst og fyllt á milli steinalaga með mold og torfi. Mold /torf rækilega þjappað. Í dag ef jafnan skipt um jarðveg undir hleðslum (sett frostfrítt efni) og í fyllingu veggjar er notast við frostfrítt efni. Þannig ættu veggir að standa um ókomna tíð ef rétt er staðið að hleðslu.

Til forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. SteinveggurHleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér. Bæði hafa rofaöflin séð um niðurbrot þeirra sem og maðurinn. Frostverkun, jarðskjálftar og vatns- og vindrof hafa leikið hleðslurnar grátt í gegnum aldirnar, en auk þess hafa margar hleðslur verið fjarlægðar vegna framkvæmda. T.d. var bæði grjót í vörðum og görðum endurnýtt í bryggjur á árdögum þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Þá hurfu mörg áberandi og vönduð mannvirki sem sérhverju sveitarfélagi hefði verið mikill sómi af í dag.

Þegar hlaða á nýjan vegg þarf fyrst að huga að grjótinu. Að því fengnu þarf að huga að undirlaginu. Ef veggurinn á að standa af sér roföflin þarf undirlagið að vera frostfrítt. Þá þarf að móta veggstæðið; ákveða lagið, breidd og hæð. Ákjósanlegt er að hafa neðsta lagið breiðast og láta vegginn halla inn upp á við, a.m.k. annars vegar. Stærsta og þyngsta grjótið er notað neðst í staðbundna undirstöðu.
Ef grjótið hentar vel má auðveldlega leggja steinana hvern ofan á annan með góðri bindingu. Mikilvægt er að láta stærra grjótið skarast, bæði langsum og þversum.

Með mótuðu skapalóni og snærum má auðveldlega halda hleðslulaginu þannig að veggurinn verði bæði beinn og álitlegur ásjónar. Vel hlaðinn steinveggur getur verið mikið augnayndi.

Heimildir m.a.:
-http://simnet.is/stokkarogsteinar/
-www.guardian.co.uk/money/series/disappearing-actsSteinveggur

Hvaleyrarvatn

Frá Hafnarfirði er tilvalið að leggja upp í ýmsar göngu ferðir, stuttar eða langar. Eg skrifaði fyrir nokkrum árum um sumar af þeim gönguslóðum, og verð því stuttorður um þær hér.

Hvaleyrarvatn-stekkur

Hvaleyrarvatn – stekkur.

Af Krýsuvíkurveginum og Kaldárselsveginum er örstutt að fara að Hvaleyrarvatni. Mörgum finnst ljótt og auðnarlegt þarna við vatnið, en litli dalurinn við Hvaleyrarvatn vinnur við viðkynningu. Hann er stúdía í gráum og daufgrænum litum, en ekki veit ég til, að neinn listmálari hafi tekið sér mótív þaðan, og þeir sem vilja helzt smeðjurómantískar ídyllur, ættu heldur ekki að gera það. Við Hvaleyrarvatn er einhver ísmeygileg þjóðsagnastemning í anda Werenskiolds og Kittelsens.
Og til eru líka þjóðsögur, sém tengdar eru vatninu. Þar á að vera nykur. Einu sinni var hafi í seli frá Hvaleyri í Seldal, en svo nefnist kvosin suðaustur frá vatninu. Stúlka ein gætti búfjár þarna. Eitt sinn, þegar að var komið, var stúlkan horfin, en brjóstin af henni fundust í Seldal. — Var talið að nykurinn hefði étið stúlkuna, en af einhverjum ástæðum ekki viljað brjóstin. Þessa sögu sagði mér dr. Bjarni Aðalbjarnarson, sem var alinn upp á Hvaleyri.“

Hvaleyrarvatn-233

Hvaleyrarvatn.

Heimild:
-Mánudagsblaðið, 13. árg. 1960, 22. tbl. bls. 2.

Eldborg

Gengið var um Eldborg, Drottningu og Stóra-Kóngsfell vestan Bláfjalla. Eyrað er fjær og væntanlega hluti af eldri gígaröð vestan í hálsunum.
Eldborg hangir utan í smáfjallinu Drottningu sem er svo aftur við hliðina á Stóra-Kóngsfelli. Eldborg er það fyrsta sem Göngusvæðiðgrípur augað, en hún mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraunið hefur runnið út um og myndað glæsilega hrauntröð út frá henni. Rétt er að gefa sér tíma til að skoða þetta fyrirbæri, en ekki er svo ýkja langt síðan eldar brunnu þarna, eða svona ca. 1000 ár. Hraun það sem vall þarna út hefur runnið alla leið niður í Heiðmörk og myndar efsta lagið í s.k. Hólmshraunum. Þegar gengið er um hraunin umhverfis Drottningu og Stóra-Kóngsfell svo og litið yfir afurðir Þríhnúka má telja ljóst að þau hafi öll runnið á svipuðum, ef ekki sama, tíma. Þríhnúkar, gígarnir suðvestan Stóra-Kóngsfells og Eldborg eru augljóslega á sömu sprungureininni og því að öllum líkindum gosið á sama tíma. Út frá gígunum undir hlíðum Stóra-Kóngsfells, er og smáþvergígaröð yfir í vesturöxl fjallsins. Miklar og langar hrauntraðir liggja út frá öllum  gígunum svo og margar aðrar grennri – og ekki síst tilkomuminni. Ein meginhrauntröðin liggur frá gígunum undir Stóra-Kóngsfelli til norðurs niður í Heiðmörk, alla leið að Hólshrauni, og önnur til austurs að miklu kvikuhólfi milli fellanna.
DrottningÁfram skal svo haldið upp með Stóra-Kóngsfelli að sunnanverðu og halda svo vestur frá því og í átt að Þríhnúkum. Þó er rétt að veita því athygli að uppi við Stóra-Kóngsfell vestanvert og skammt þar fyrir vestan eru gígar sem þónokkuð hraun hefur runnið úr, Kóngsfellshraun og Rjúpnadyngjuhraun. Þarna gaus skömmu á eftir Eldborg.
Þríhnúkar, eru eins og nafnið gefur til kynna, þrír hnúkar sem allir eiga það sameiginlegt að vera gígkeilur og eru um 1000 ára gamlir. Sá austasti geymir eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði í nágrenni höfuðstaðarins, og jafnframt eitthvað það hrikalegasta. Óhætt er að segja að hægt sé að fá í hnén, bara við það eitt að standa við svart gímaldsop í toppi hnjúksins, vitandi það að það eru um 121 metrar niður á fast og það í frjálsu falli í 150.000 rúmmetra rými. Með öðrum orðum, það er rétt að fara ekki of nálægt.
Eldborg vestur af Bláfjöllum er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Friðlýst 1971. Um friðlýsinguna segir í Stjórnartíðindum B, nr. 121/1974:

 

Varða á Drottningu

„Auglýsing um náttúruvætti í Eldborg í Bláfjöllum:
Samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið fyrir sitt leyti að lýsa Eldborg í Bláfjöllum náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi: Að austan ræður (1) Bláfjallavegur eins og hann er nú. Að sunnan (2) hugsuð lína skemmst 200 m frá rótum Eldborgar frá vegi að suðurenda. Drottningar, (3) með hábrún hennar að norðurenda hennar og (4) þaðan til austurs að vegi, 200 m frá rótum hið næsta.
Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Óheimilt er að ganga um hlíðar og barma gígsins utan merktra gönguslóða. Enn fremur er hvers konar akstur utan vega á hinu friðlýsta svæði bannaður.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðaða svæði í umhverfi eldstöðvarinnar.
Gígur suðvestan við Kóngsfell3. Jarðrask allt og mannvirkjagerð á hinu friðaða svæði er háð leyfi [Umhverfisstofnunar]
4. Ekki má fara með hesta um svæðið utan vegar og stranglega er bannað að beita þeim innan þess.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Felld eru úr gildi eldri ákvæði um friðun svæðisins.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 17/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.
Magnús T. Ólafsson.“

 

Gígur suðvestan við Kóngsfell

Þegar vegur var lagður að skíðalöndunum við Bláfjöll fyrir nokkrum árum [1982] opnaðist nýr og ókunnur heimur fyrir flestum. Til þess tíma höfðu fáir lagt leið sína um þær slóðir en vegurinn breytti öllum aðstæðum í einni svipan. Það sem áður var torsótt almenningi varð nú aðgengilegt. Má þar m.a. nefna hellana i hrauninu, gönguferðir á hæstu kolla Bláfjalla og vestur á Heiðina há svo eitthvað sé nefnt. Um þessar mundir er unnið að gerð vegar frá Krýsuvíkurveginum áleiðis að Bláfjöllum og þegar þeirri vegargerð er lokið opnast fjölbreytt og skemmtileg ökuleið um nýtt svæði, sem er fáum kunn, en mjög forvitnileg. Að vestan hefur vegurinn verið þegar lagður að Lönguhlíð, en eftir er að gera ca. 12-15 km langan kafla svo endar nái saman. En sá hluti leiðarinnar er mjög áhugaverður, einkum frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kannað þetta svæði manna mest og birt niðurstöður sínar bæði í ræðu og riti. Til hans er því sóttur mestur sá fróðleikur um hraun og eldgos sem getið verður um hér á eftir.
Skömmu áður en við komum áleiðis upp að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp a gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp að vestanverðu. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur.

Hrauntröð vestan Stóra-Kóngsfells

Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971 sbr. framangreint.
Eftir að hafa skoðað Eldborgina er stefnan tekin Drottningu. Uppgangan var auðveld sem framhald að aðkomunni að suðaustanverðu. Þegar upp var komið blasti við hið ágætasta útsýni yfir Eldborgina í austri og á háan „ektamakann“ í vestri. Gengið var niður af fellinu að vestanverðu og stefnan tekin yfir og upp hraunið á barmi hrauntraðar að Stóra-Skógfelli.
Stóra-Kóngsfell bar við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning. Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 602 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Fjallið er auðvelt uppgöngu og sjálfsagt að glíma við það en ekki er síður skemmtilegt að að ganga með því að vestan. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga.
GengiðAð þessu sinni var gengið á fellið að norðvestan. Uppgangan var auðveld og án vandræða. Þegar upp var komið blasti við hið mikla útsýni til allra átta; yfir að höfðuborgarsvæðinu, upp á Þríhnúkum, niður á hrauntraðir og yfir að Strompum, auk þess sem Rauðuhnúkar og og Vífilsfellið sáust baða sig í kvöldsólinni í norðaustri.
Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Þegar gengið var í kringum vörðuna á fellinu má segja að gengið hafi verið um fjögur sveitarfélög á innan við 10 sekúndum. Þetta var þó skammvinn skmmtun því í raun og veru eru landamerkin alls ekki þarna heldur á Litla-Kóngsfelli sbr. eftirfarandi landamerkjalýsingu fyrir Ölvus og Selvog: ,,Að vestanverðu; Úr steyptum stöpul á Borgarhólum, þaðan beina línu í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul á Vífilsfelli. Úr stöpli á Vífilsfelli eftir hæstu tindum Bláfjalla í Bláfjallahorn, þaðan í Kóngsfell (Litla-Kóngsfell).
,,Að sunnanverðu; Úr Kóngsfelli (Litla-Kóngsfelli) beina línu í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli, þaðan beina stefnu afur í Fálkakletta. (Ofangreind lína styðst við hrd. 1996:2848.)

Varða á Stóra-Kóngsfelli - Þríhnúkar fjærVestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Hraunið úr þessum gígum þekur svæðið milli Kóngsfells og Drottningar og telur Jón það ljóst, að þarna hafi gosið á sögulegum tíma, eða eftir að norrænir menn settust að hér á landi. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar.
Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir Jón Jónsson að þeir séu meðal “sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu allir ganga, sem eiga þarna leið um, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður. Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt eftir því sem best er vitað, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum og kannað hann lauslega. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð.

Útsýni

Þegar hér er komið sögu geta menn valið um tvennt: að ganga sömu leið tilbaka að bílnum eða halda áfram, fram hjá Stóra-Bolla, niður Grindaskörðin og vestur að Lönguhlíð, að vegarendanum og láta sækja sig þangað. Ekki skiptir máli hvor kosturinn er valinn. Það sem fyrir augun hefur borið í þessari ferð ætti flestum að vera nægilegt umhugsunarefni eftir daginn. Fjölda margir gígar, stórir og smáir, hafa verið skoðaðir, og hvarvetna blasir við eldbrunnið, gróðursnautt land. Þetta tvennt er talandi tákn um þau reginöfl sem liggja dulin í undirdjúpunum og minnir okkur um leið á nálægð þeirra. En þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum eða Stóra-Bolla. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið. HÉR má sjá myndband af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Mbl. 7. ágúst 1982.

Göngusvæðið úr vestri

Skipsstígur

Haft var samband við Varnarmálastofnun og leitað eftir heimild til að fá að skoða svæðið innan afgirtrar loftskeytastöðvarinnar undir Lágafelli ofan (norðan) Grindavíkur með það fyrir augum að leita og skoða Skipsstíg, hluta hinnar fornu þjóðleiðar milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Vegna starfseminnar hefur svæðið ekki verið aðgengilegt síðustu áratugina. Bent var á Kögun [nú Advania], sem rekur loftskeytastöðina. Þar var leyfi góðfúslega veitt til könnunarleiðangurs um svæðið.

Títublaðavarða

Loftskeytastöðin var eign og undir stjórn bandaríska flotans, en eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Skipsstígur innan girðingarKögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.
Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana.  Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum. Strangar umgengisreglur gilda því þarna.
Þegar götur voru raktar innan girðingarinnar var byrjað að sunnanverðu, við Títublaðavörðuna. VarðaÞar sést gatan glögglega. Varða er við hana áður en gatan fer inn á raskað svæði (mastur). Gatan sést við strýtulagaðan hraunhól suðvestast í Eldvörpum, en svo heita gígaþyrping á suðausturhorni svæðisins. Vestan hennar liggur svo til bein gata áleiðis upp heiðina, samhliða gömlu hlykkjóttu götunni. Þarna er um að ræða hestvagnagatan, sem sést svo glögglega vestan í Lágafellinu, áfram um Lágar og upp í Blettahraunið, þar sem hætt hefur verið við endurbæturnar á gamla Skipsstígnum.

Skipsstígur

Varða er við götuna suðvestan húsa loftskeytastöðvarinnar. Þá hverfur gatan vegna fyrrum framkvæmda, en kemur síðan í ljós að nýju skammt norðar. Þar er varða á grónum strýtumynduðum hraunhól, Helghól. Sú trú var manna fyrrum að þar væri álfakirkja. Helghólslág eða Helghólslautir, grasi grónar, eru umhverfis hólinn. Frá honum liggur gatan upp með aflöngum berangurslegum hraunhól að austanverðu og beygir síðan til vinstri upp gróninga áleiðis að vörðu innst á honum (handan girðingarinnar). Hestvagnagatan liggur að sömu vörðu, en vestan í aflanga hraunhólnum (í beina línu). Þarna eru og gatnamót því önnur gata liggur frá vörðunni til suðausturs. Gatan sést skammt austar, hverfur síðan vegna framkvæmda (mastur), en kemur síðan aftur í ljós þar sem hún her yfir óraskað hæðardrag. Þar er varða. Frá henni liðast gatan niður hæðardragið að handan, hverfur í rask, en kemur síðan aftur í ljós á órsökuðu svæði (móa) austast á svæðinu. Þar eru tvö vörðubrot með stuttu millibili. Þarna fer gatan síðan undir girðinguna og er allgreinileg þar sem hún liðast áleiðis upp á hraunhaft á leið hennar í Kúadal (við innkomuna á þjóðveginum til Grindavíkur).
Sjá má legu gatnanna innan loftskeytastöðvarinnar á loftmyndinni hér að neðan.
Starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar er þökkuð jákvæð viðbrögð og góða aðstoð við verkefnið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Götur innan loftskeytastöðvarinnar ofan Grindavík