Kerlingarskarð

„Reykjavík hefir þá sérstöðu fram yfir margar aðrar höfuðborgir heims, að í hæsta nágrenni eru stór óbyggð svæði, sem eru tilvalin leikvangur þeirra, sem unna útiveru og gönguferðum. T.d. er svæðið frá Sandskeiði og suður að Keflavíkursvæðinu, svo óbyggt, að ekki er um að ræða einu sinni sumarbústaði. Að vísu er svæðið víða gróðurlítið, en sums staðar er líka mjög gróðurmikið, jafnvel kjarr. Sérkennileg fjöll og eldstöðvar frá fyrri tíð eru þarna margar, og er landið svo ósnortið, að glögglega má gera sér grein fyrir, hvernig þessar hroðalegu hamfarir eldsumbrotanna hafa farið fram.

Jón Kristinn

Jón Kristinn.

Óskandi er, að þessi stóru svæði fái að verða ósnortin af mannavöldum, svo að við útivistardýrkendur fáum að njóta lengi enn.
Ein af ákjósanlegri gönguleiðum á þessum slóðum er leiðin úr Kaldárseli og suður til Selvogs, eftir gamalli hestagötu, sem er rudd og óslitin frá Setbergshlíðinni fyrir ofan Hafnarfjörð og alla leið suður úr, til Selvogs. Leið þessi er vörðuð svo að segja alla leiðina, og standa flestar þeirra enn, þó að vafalaust séu mörg ár síðan þær voru hlaðnar.
Fyrir nokkru lögðum við þrír göngufélagar land undir fót og fórum þessa leið frá Kaldárseli, en þangað létum við aka okkur. Ferðafélagarnir voru, auk mín, þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem safnað hefir örnefnum á þessum slóðum, svo að báðir þekktu þessir menn svo að segja hvert fótmál.
Vegarslóðinn frá Hafnarfirði liggur í gegnum Helgadal, og gengum við þangað frá Kaldárseli, og síðan með Valahnúkum, en þar er hellir einn, sem Farfuglar hafa gert að bústað sínum með því að innrétta hellinn og setja í hann trégólf að nokkru. Fyrir nokkrum árum var þarna mannaferð um hverja helgi, en nú hefir þessi annars ágæti útilegubústaður verið vanræktur að nokkru. Farfuglar kalla þetta „hreiður“ sitt Valaból og er hin gamla Selvogsgata rétt við hellinn.
Frá Valahnúkum liggur leiðin nokkurn veginn beint yfir hraunið og í áttina að Grindaskörðum Við gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um, því að leiðin þarna suður um er skemmtileg, margir hellar og skútar, sumir mjög forvitnilegir. Og sumir eiga jafnvel sína sögu í fórum Björns og Gísla. Ekki er vitað, hvenær ferðir hófust þessa leið, en vafalaust er langt síðan, því að útræð; var snemma frá Selvogi og Herdísarvík. en kaupskip komu oft í Hafnarfjörð. Ennfremur var þessi leið farin til að sækja brennistein í námurnar í Brennisteinsfjöllum en á árunum 1860—1890 var unninn brennisteinn á þessum slóðum til útflutnings. Var brennisteininum mokað í poka, en síðan tóku ýmsir hestaeigendur að sér að reiða brennisteininn til Hafnarfjarðar fyrir eina krónu hestburðinn. Í Hafnarfirði var brennisteininum skipað um borð í kaupskip til útflutnings. En nú er umferðin minni þarna um slóðir, og segir Gísli okkur, en hann er oft þarna á ferðinni, að það teljist til tíðinda, ef að fólk sjáist á ferð um þessar slóðir. Til sanninda um, hversu fjölfarin leið hefir verið þarna áður fyrr, má sjá, að hestarnir hafa markað með hófunum djúpar hvilftir í harðar klappirnar.
Á meðan við erum á gangi yfir hraunið finnst okkur hann gerast rigningarlegur í lofti. Það þótti góður og gegn siður, áður fyrr, að heita á helga menn og kirkjur sér til fulltingis, ef á lá, og finnst okkur það vel við eiga, eins og á stendur að gera áheit, ef veður haldist bjart og rigningarlaust á ferð okkar suður yfir fjöllin. Ekki kemur okkur saman um á hverja sé bezt að heita, en við ákveðum að heita tuttugu og fimm krónum hver. Gísli telur Strandakirkju öruggasta, en ég hafði áður heitið á heilagan Þorlák með góðum árangri undir svipuðum kringumstæðum. Taldi Gísli þá, að ekki lægi á að ákveða til hverra áheitið skyldi renna, en það tók Björn af, því að það gæti kostað átök á himnum, ef við ákvæðum ekki sjálfir fyrirfram, hverjir skyldu fá krónurnar. Varð það að samkomulagi, að við Björn skyldum heita á heilagan Þorlák, en Gísli skyldi senda sínar tuttugu og fimm krónur til Strandakirkju, ef við fengjum sólskin.
Vegarslóðinn upp í Kerlingarskarðið er í ótal krákustígum vegna brattans. örnefni eru þarna mörg, enda blasa hnúkarnir og skörðin vel við frá Stór-Reykjavík. Flestar eru hæðirnar gamlar dyngjur og eldfjöll, sem gosið hafa fyrr á öldum, sum jafnvel fyrir ísöld. Örnefni eins og Bollarnir, þeir eru einir sex, Kerlingarskarð, Draugahlíð, og mörg fleiri heyrast af vörum Björns og Gísla, þegar við göngum suður í gegnum skarðið.
grindarskord-322En hnúkarnir blasa einnig við langt utan af sjó, og sjómennirnir þekktu þá ekki alltaf til sömu örnefna og þeir, sem á landi ferðuðust. Höfðu þeir sinn hátt á í nafngiftum og til útskýringar góðum fiskimiðum. Sem dæmi má nefna, að utan úr Faxaflóa þóttust þeir sjá Þykkvalæri og Þunnalæri, en á milli þeirra var auðvitað Klofið. Þetta voru hnúkarnir í Grindaskörðum, en hins vegar var einn Valahnúka öðrum meiri, frá þeim að sjá, enda er hann mörgum kílómetrum nær sjó. Var sá kallaður Drellir á sjómannamáli. Þegar Drellir bar neðan til í Þykkvalærið, töldu sjómenn sig vera á öruggri fiskibleyðu út í Faxaflóa, í rennunnii á milli hrauna, eins og það var kallað. Þarna voru fengsæl togaramið, og fengu margir glöggir fiskimenn á togaratímanum góða afladaga á þessum slóðum, fyrr á árum. En tímarnir breytast og örnefnin á þessum slóðum hætta að hafa þá þýðingu í daglegu starfi manna, sem þau höfðu.
Ofanvert í Grindaskörðum [Kerlingaskarði] skiptist vegurinn, en slóðinn suður í Brennisteinsfjöllin liggur til vesturs, en leiðin til Selvogs áfram í suður. Við höldum áfram til suðurs.
Þrátt fyrir áheitin hafði Björn verið svo hygginn að hafa með sér feikimikla regnhlíf af enskri gerð, forláta grip, sem spannaði faðm eða meira í þvermál. Við Gísli efuðumst um, að slíkir gripir heyrðu ferðaútbúnaði til, en Björn taldi einmitt slíkan grip skara fram úr öðrum að notagildi, og það sannaði hann, þegar viö settumst til að borða nesti okkar, en þá spennti hann út regnhlífina góðu og snæddi í skjóli. En Björn hefir aldrei verið talinn feta troðnar slóðir í ferðamennsku.
Við félagarnir fórum okkur heldur hægt, þurftum margt að athuga á leiðinni, og margt að ræða, enda var okkur fæst mannlegt óviðkomandi. Þeir Gísli og Björn vitnuðu gjarnan til fyrri tíma og fornra heimilda, en þá varð ég að hafa mig allan við því að þar stóð ég svo langt að baki, hvað allan fróðleik snertir. En á söguslóðum eru sagnfróðir menn í essinu sínu, svo að þessu sinni skipaði ég sæti hins forvitna hlustanda.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli í Kóngsfelli.

Við gengum á Kóngsfell [Litla-Kóngsfell], sem er þarna á miðri heiði. Það er gamall reglulaga gígur, sem hefur merkilegu hlutverki að gegna að vera landamerki á milli Krýsuvíkur, Herdísarvíkur og á milli sýslnanna, Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan var gott útsýni yfir heiðina, en ekki er Kóngsfell svo tígulegt, að það veiti manni útsýn til höfuðborgarinnar, enda sést Kóngsfellið ekki frá Reykjavík. Á þessum slóðum er margt furðulegra steina, sem gaman er að skoða, en gjallið úr gígnum hefir tekið á sig hinar furðulegustu myndir. Ég vildi að ég hefði getað borið með mér helmingi meira en ég gerði.
Viö félagarnir komum víða við í umræðunum okkar í millum. Við ræðum um steina, jurtir og sagnfræði, en allt þetta freistar ferðalangsins. Einhvern tíma hefi ég lesið og ég sé nú, að í því er fólgin mikill sannleikur, að þegar maður ferðaðist til staðar í fyrsta sinn, að þá geri maður það einungis til að viðra sig og til að hafa komið á staðinn, en í annað sinn geri maður það til að glöggva sig enn betur á náttúrunni og fegurð hennar, en í þriðja sinn og fjórða fer maður að kafa dýpra og byrjar að forvitnast um sögu staðarins. Ef maður er í góðum félagsskap getur maður því gert sér það til erindis að ferðast um sömu staði aftur og aftur til aukinnar ánægju, vegna þess að maður sér ekki sama staðinn alltaf í sama ljósi. Þegar maður hefir kannað einn stað frá hinu náttúrufegurðar- eða frá jarðfræðilegu sjónarmiði, fer forvitnin að leiða mann inn á hin sögulegu sjónarmið, sem jafnvel eru óendanleg, því að ímyndunin getur leitt mann þangað, sem staðreyndirnar geta ekki. Þess vegna er líka gaman að sögunni.

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti.

Sunnan Kóngsfells tekur við sérkennilegt landslag, gróðurmelar og brunnið hraun á víxl. Við komum að Dauðsmannsskúta, en þar áttu að hafa orðið úti menn í vetrarferð, og kann Gísli að segja fornar sögur um þá harmaatburði.
Nú tekur að halla á móti suðri, gróðurinn tekur að aukast, jarðvegurinn að verða meiri, og götuskorningurinn tekur að verða jafnvel dýpri, því að hestarnir ganga niður á fast jarðlag með tímanum.
Áheitin virðast hafa komið að fullkomnu gagni því að gott skyggni hélzt. Brátt kemur Selvogsviti í ljós, og suður á Selvogsbanka sjáum við óljóst togbátana vera að draga björg í bú, hvort sem þeir nú eru innan eða utan hinnar svokölluðu landhelgi.
Uppi á heiðinni hafði maður vart heyrt fuglakvak, enda gjörsamlega gróðurlaust, en eftir því sem sunnar dregur, heyrir maður fjölbreytilegar til fuglanna, og við heiðarbrún er samfelldur fuglaniður, enda horfir þarna á móti suðri og nýtur vel sólar. Við fylgjum hestagötunni alveg að þjóðveginum, enda bíður þar bíllinn, sem átti að flytja okkur heim aftur. Við höfum staðizt áætlun, því að við höfðum reiknað með sjö tíma hægri ferð og það reynist standa heima. Bíllinn reyndist ekki hafa þurft að bíða lengi.
Kaffisopi ferðalok er alltaf kærkominn, áður en við höldum í bæinn aftur, en elskuleg eiginkona beið með sopann í bílnum, enda átti hún í vændum miklu frískari eiginmann en þann, sem hún skildi við í Kaldárseli fyrir sjö tímum. – Jón Kristinn.

Heimild:
-Vísir, 18. júlí 1967, bls. 9-10.

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð framundan.

Stefánshöfði

Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina „Skrímsli í Kleifarvatni.“ Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.

Kleifarvatn

Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.“
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
KleifarvatnKleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
KleifarvatnMaður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Brattakinn 29

Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: „Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.

Otto Whatne

Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.

Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.“

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); „Bæir i bænum„.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Þar segir m.a. um „bæ Ottós“ að Bröttukinn 29:
„Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.“

Í „Húsakönnun“ fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:

Kinnar

Kinnar í byggingu.

„Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.

Formáli

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.

Söguleg samantekt

Kinnar

Kinnahverfið í byggingu.

Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.

Kinnar

Kinnahverfi.

Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.

Uppbygging hverfisins

Brattakinn 27

Flutningshús – Brattakinn 27.

Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.

Otti Wathne

Tóbakspungur Ottós.

Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.“

Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)

Ottó Wathne

Ottó Wathne Björnsson.

Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: „Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…“ – Stella frænka.

Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:

Ottó Wathne

Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.

„Ottó Wathne Björnsson ­ Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.“ – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.

Ottó Wathne
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
„Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,“ gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.

Vitjað nafns
Ottó WathneBlaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?“
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.

Heimsókn að Bröttukinn 29

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi „nútímalegi“ húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
„Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref“….

Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up

Brattakinn 29

Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.

Viti

Eftirfarandi um varir og bryggjugerð birtist „Úr skýrslu erindreka innanlands“ í Ægi 1918.
Gardur-221„Engan mun undra, sem kynnir sér staðháttu fiskimanna sunnanlands, þótt raddir heyrist um endurbætur á leiðum og lendingum og jafnvel um nauðsyn hafna. Að skaganum leggja hinar feikiþungu Atlanshafsöldur langt sunnan úr höfum og kemur með ómælanlegu afli að ströndinni, rótandi öllu fjöruborði sem ekki er bjargfast, gerir hún öllu fjöruborði sömu skil frá Vesturhorni með allri suðurströndinni vestur að Garðskaga og að meðtöldum Akranesskaga.
Mörg af þessum fiskiverum eru fremur fámenn mestan hluta ársins, þótt á vertíðinni talsverður útvegur sé rekinn þaðan, anna því oft ekki þessir fáu heimilisföstu menn að halda við lendingunum, sem allvíða eru ekki annað en geilar í kletta, sem smásteinum hefir verið rutt úr, til að koma upp og ofan skipum sínum, þegar gott er sjólag. Fyr á tímum þótti sjálfsagt að vör væri undan hverjum bæ, en aukinn útvegur stærri skipa og meiri vöruflutningar hafa breytt þessu þannig, að nú þykir og er nauðsynlegt að eiga að minsta kosti eina góða lendingu í hverju fiskiveri, sem hægt sé í öllu bærilegu veðri að afgreiða skip til að á öllum tíma árs að geta veitt móttöku skipum þeim, er vörur flytja og lent með afla sinn.

Gardur-222

Ein hin fyrsta lending á Suðurnesjum, sem lagfærð var í þessu augnamiði var »Varós« um 1885; lagði landssjóður þar nokkurt fé fram til þessa, en af svo skornum skamti, að hætta varð við hálfgert verk, og svo ilt eftirlit með viðhaldi Verksins, að nú sjást naumast nein vegsummerki eftir, þó má geta þess að sundvörðurnar standa enn, með ómyndar ljóstýrum sem kveikja á, ef búist er við að róðrarbátar séu á sjó.
Þá kemur næst, eftir því sem mér er sunnugt. Bátabryggja í Steinsvör á Akranesi, var það mjög góð lendingabót meðan stundaður var sjór að eins á opnum bátum, en eftir að vélabátaútvegur kom þar, er þessi bryggja algerlega ófullnægjandi og hættuleg vélbátum: er því lífsnauðsyn fyrir þetta kauptún, að koma sér upp bryggju í Lambhússundi hið allra fyrsta og væri óskandi að hreppsnefnd kauptúnsins væri skipuð svo hygnum mönnum, að þeir tækju þetta mál að sér og fylgdu því fram með dugnaði, kauptúninu til tekna, sóma og þæginda.

Gardur-223

Þrátt fyrir það, þótt Varós á sínum tíma hafi verið álitinn bezta lending í Garði, er nú á seinni árum búið að endurbæta Gerðavör svo mikið, að deildin áleit heppilegra að gera lendingarbót þar, heldur en í Varós, og verð eg að telja það alveg rétt athugað. Hve mikil nauðsyn sé á þessu fyrirtæki sýnir bezt vörumagn það, sem flyzt að og frá Gerðum, þrátt fyrir hina mjög óþægilegu lendingu, sem þeir eiga við að búa nú. Vona eg að hreppsnefnd þessa hrepps lánist að koma þessu verki í framkvæmd hið fyrsta, og efast eg ekki um greiðan gang málsins hvar sem leitað er stuðnings, þar sem Garðurinn er og hefir verið aflasælasta fiskiver Suðurkjálkans.
Gardur-224Um bryggjugerð Keflavíkur vil eg geta þess, að þetta mál hefir lengi verið á dagskrá í hreppnum og áður gerðar áætlanir að bryggju á þessum stað, en sökum þess hversu útvegurinn hefir breyzt siðan, frá árabátum í vélbáta, var nauðsynlegt bæði að velja annað bryggjustæði og sömuleidis að hafa bryggjuna í öðru sniði fyrir þennan útveg. Hafa útvegsbændur átt mjög erfitt með að koma afla sínum á land síðustu ár, sökum ónauðsynlegrar meinbægni viðkomandi lóðareiganda, eftir því sem skýrt hefir verið frá, og því aðalnauðsyn fyrir sjómenn yfirleitt, að hreppurinn eignist bryggju til almennra afnota.
Enn er mönnum í fersku minni norðanrokið 24. marz 1916, þegar skiptaparnir miklu urðu í
Grindavík, þó það sérstaka lán ætti sér þá það, að mannbjörg yrði, hrein tilviljun, að þessi eini kútter skyldi hitta skipin. Eða gera menn sér í hugarlund liðan þessara manna? Fyrst af öllum mætti að leitast við að ná landi, þar til sár og magnleysi þjáir svo mennina, að enga viðleitni er hægt lengur að sýna, og með kvíða búfst við að hver báran sem að ber, geri enda á þessu striti; uppgefinn, kaldur, sár og soltinn situr sjómaðurínn þannig og sér hverju framvindur. Eða hvað sögðu þeir af líðan sinni skipverjarnir af vélbátunum sem lágu úti þessa nótt og næstu nætur á eftir, og er þar þó ólíku saman að jafna, þar sem þeir náðu landvari og gátu skriðið undir þiljur og ilað sér.“

Og þá birtist eftrifarandi um vita í Sandgerði í sama tölublaði Ægis.
„Í 6. tbl. Ægis þ. á. er greinarstúfur með þessari yfirskrift undirrituð af tveim Akurnesingum og þar Sandgerdisviti-21sem ekki er að sumu leyti farið með rétt mál í fyrsta kafla greinarinnar, »Ljósin i Sandgerði«, þá vildi eg biðja yður herra ritstjóri að ljá þessum línum rúm í heiðruðu blaði yðar.
Í áminstum greinarkafla er þess meðal annars getið, að hinn 24. apríl hafi 3 vélbátar róið frá Sandgerði og eftir vanalega dvöl á miðum, hafi bátarnir farið að leita lands, og er nær dróg og dimma tók, hefðu formenn þeirra orðið þess varir, að ekki hefði verið kveikt á leiðarljósunum. Enn fremur að landsmenn sem tilheyrðu bátunum, hefðu farið til vitavarðar og beðið hann að kveikja, en hann hefði tjáð þeim, að samkvæmt auglýsingu stjórnarráðsins, hefði hann ekki átt að kveikja frá 1. apríl.
Hvað sem nú þessari stjórnarráðsauglýsingu viðvíkur, um að kveikja ekki frá 1. apríl, þá vildi eg skýra frá því, að eftir henni var alls ekki neitt farið, þegar þannig stóð á og vitaverði eða öðrum var kunnugt um, að bátar væru úti fyrir og þyrftu að leita hafnar i Sandgerði, þegar dagsljósið fór að hylja innsiglingarmerkin. Er það því allsendis tilhæfulaust, að vitavörður hafi nokkurntíma skorast undan því að kveikja þegar þess hefir gerst þörf.
Frá því að mótorbátaútgerð hófst í Sandgerði, hafa þar verið notuð rauð innsiglingaljós. Alt fram að síðastliðinni vetrarvertíð eða 1. jan. þ. á., voru það luktir sem dregnar voru upp í leiðarmerkin, með öðrum orðum sundtrén, og má eg viðstöðulaust fullyrða, að alla tíð, á hverjum tíma ársins, þegar kunnugt var um að bátar þyrftu að leita hafnar og ekki var sundabjart, voru þessi rauðu ljós viðhöfð og það alla tíð án nokkurs endurgjalds.
Sandgerdi-221Á næstliðnu ári lét eg reisa 2 vita, þá er ræðir um í fyrnefndri grein, með miklu fullkomnara ljósi en hér að framan er um getið, gerði eg það til tryggingar því að leiðin inn á Sandgerðisvík yrði auðfarnari í myrkri. Sýna vitar þessir rautt fast ljós og komu til notkunar 1. janúar síðastl. og þar eð vitar þessir kostuðu mikið fé, var ákvarðað kr. 2,50 fyrir hlut af bátum þeim, sem að staðaldri notuðu þá sem leiðarvísi, og rætti það kallast undravert, hafl nokkur með ógeði goldið þessa smávægilegu upphæð fyrir jafnmikið lífsskilyrði og þeir eru.
Greinarhöfundar telja sérstaklega fjóra galla á þessum vitum (ljóskerum).
1. Að þau eru mikið of fjærri sjó.
2. Að þau eru of lág og þar af leiðandi ófær leiðarvísi að degi til, sem þau eiga þó jafnframt að vera.
3. Að þau hyljast strax ef um þoku eða úrkomu er að ræða.
4. Að frágangur vitanna er svo slæmur að ljósin mæta bæði súg og hristing ef storm gerir og þar af leiðandi geta þau ekki logað með sínu fulla ljósmagni.
Það mun nú svo með þessa vita eins og flest annað, að eitthvað megi að þeim finna, enda eru aðfinslur oftast á reiðum höndum, sumpart réttar og sumpart rangar, en hvað þessa upptöldu sandgerdi-222galla snertir, þá skal eg sem minst um þá ræða, þar mér er ekki svo kunnugt um þá, því leið mín liggur sjaldan eftir þessari sundleið, en eg vil samt benda á, að hinn síðasti er á engum rökum bygður, það er engu síður hægt að dæma um það af landi en af sjó, hvernig ljósin loga, og að öðru leyti álít eg ekki gott fyrir þá menn að dæma um frágang á húsi, sem þeir aldrei hafa stígið fæti sínum í.
Í sambandi við þetta vildi eg minnast á það að vetrarvertíðina 1916 kom það fyrir einn dag í bezta veðri, er nokkrir bátar voru á sjó, að snögglega brimaði svo að leiðin varð alófær, varð þá að kvöldinu nokkur ágreiningur á milli manna sem í landi voru um það, hvernig haga skyldi ljósum til að benda bátunum frá sundleiðinni. Nokkrir komu með þa uppástungu að draga upp ljós, aðrir að draga þau í mið tré og enn aðrir að sýna ekkert ljós, í augnamiði þess að þá væri leiðin algerlega lokuð, og varð það niðurstaðan, enda kom það i ljós, að engum kom til hugar að leita að sundinu þegar engin leiðarmerki sáust, og lögðu þvi bátar þessir inn fyrir Garðskaga og lágu í Garðsjónum í sléttsævi yfir nóttina, komu síðan að morgni er briminu var slegið niður.

Sandgerðisviti-3

Hið sama tilfelli kom fyrir síðastliðna vetrarvertið. Reis þá enn ágreinigur með tilhögun ljósanna, og varð aftur niðurstaðan sú, að sýna ekkert ljós, og varð það einnig til þess, að þeir bátar sem úti fyrir voru leituðu ekki til lands. Út af þessari óvissu með það hvernig gefa skyldi bendingar, þegar sundleiðin væri ófær og myrkur væri skollið yfir, voru allir formenn í Sandgerði boðaðir á fund, til þess að koma sér saman um eitthvað ákveðið. Á fundinum mættu flestallir formenn og útgerðarmenn og var eftirfarandi tillaga samþykt í einu hljóði: »Fundurinn samþykkir að alt af sé kveikt á vitunum, en þegar brim er svo mikið að sundið er álitið ófært, þá séu rauðu rúðurnar teknar frá, þannig að vitarnir sýni hvítt ljós, en á sama tíma sé stranglega bannað að hafa Carbidljós á bryggjum eða öðrum þeim stöðum sem vilt getur fyrir vitaljósunum«. Að svo búnu voru kosnir 3 kunnugir og vissir menn til þess að úrskurða hve nær ekki skyldi nota rauðu rúðurnar. Þessi breyting með ljósin var síðan tilkynt umsjónarmanni landsvitanna til birtingar.“
Framangreint er undritað „Reykjavík, í október 1917 – Loftur Loftsson. Þess má geta að nefndur Sandgerðisviti var byggður 1908 og hækkaður síðan verulega árið 1944.

Heimild:
Ægir, 11. árg., 2. tbl. 1918, bls. 24-29.

Sandgerði

Sandgerðisviti.

 

Kirkjusandur

Samkvæmt sumum heimildum náði Kirkjusandur frá Laugarnesi að Fúlalæk en aðrar heimildir segja að hann hafi náð allt vestur að Rauðarárvík.

Kirkjusandur

Kirkjusandur.

Fúlilækur var þar sem Kringlumýrarbrautin er nú og er hann með öllu horfinn eins og reyndar sandfjaran sem Kirkjusandur dregur nafn sitt af en hún er komin undir uppfyllinguna sem Sæbrautin er er á. Kirkja var í Laugarnesi allt frá árinu 1170 og til loka 18. aldar og ef til vill er sandurinn kenndur við hana en hann gæti líka dregið nafn af kirkjunni í Vík. Sú kirkja stóð þar sem nú er Fógetagarðurinn við Aðalstræti og var hún undanfari Dómkirkjunnar. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir að Jónskirkja í Vík eigi allan  reka á Kirkjusandi.
Útræði hefur líklega verið frá fornu fari frá Kirkjusandi og á tuttugustu öldinni voru þar fiskverkunarhús. Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Seinna voru Júpiter og Mars með frystihús þar en Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti húseignir þeirra og tók við rekstrinum eftir gosið í Heimaey. Á Kirkjusandi eru einnig bækistöðvar strætisvagna höfuðborgarsvæðisins og Sambands íslenska samvinnufélaga var þar með mikil umsvif þar eftir miðja síðustu öld. Þar voru aðalskrifstofur SÍS í byggingu þar sem nú eru aðalstöðvar Glitnis og þar var einnig byggt stórhýsi sem átti að verða sláturshús og kjötvinnsla en hýsir nú myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Á meðfylgjandi mynd má m.a. sjá holdsveikraspítalann á Laugarnesi (lengst til vinstri) og Laugarnesbæinn, fjærst.

Heimild:
-Hverfablaðið Laugardalur 2007.

Hús á Kirkjusandi og í Laugarnesi á fyrri hluta síðustu aldar

Selatangar

Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
Magnús Hafliðason„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.

Nesið

Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilaBryggjanð útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
Hraun í Grindavík„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
CapÉg fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á HrauniðJárngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.

Aldan

Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Móðhola

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. „Utan við MóðholaHvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.“
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af „mikilli rás“ út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að „hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.“ FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Móðhola

 

Járnminningarmörk

Erindi þetta var flutt á sagnakvöldi í Kirkjuvogskirkju í Höfnum þann 14. desember ´06. Fyrirlesarinn var Sigrún Jónsdóttir Franklín.

Járnminnismerki
Í kaflanum Járnöld gengur í garð kemur fram „að listgrein sú sem tekur til minningarmarka um látna menn er nærri Járnminningarmörkjafngömul manninum.“ Steinhöggsverk og marmarahögg voru aðallega í minningarmörkunum. En rétt fyrir miðja 19. öld á iðnbyltingin sér stað í Vestur-Evrópu, „öld eims og eisu.“ Gufuaflið, vélin og fjöldaframleiðslan hélt innreið sína og handverkið féll í skuggann. „Allt handgert þótti gamaldags, en verksmiðjuframleiðsla fín.“ Í kjölfarið breyttist járnsteyputækni og hægt var að fjöldaframleiða járnminnismerki á leiði, s.s járnkrossa, sökkla, járngerði „stakitt“ og „monument“. Hægt var að steypa allskonar flúr, gotnesk munstur o.fl. munstur en þó með mismunandi áletrunum sem við átti á hvert leiði fyrir sig. Járnminnismerkin var hægt að panta eftir príslistum og keyptu Íslendingar aðallega frá verksmiðjum í Danmörku.

Í kaflanum „Svona dauðinn sviptir öllu af foldu sem er áletrun á járnsökkli kemur fram að dönsku mótagerðarmennirnir þekktu annað hvort ekki íslensku stafina eða gátu ekki lesið miðana frá pöntunaraðilum því það koma oft fyrir villur í áletrunum á minningarmörkunum sem þeir sendu til Íslands. Jafnframt kemur fram að þeir sem minna áttu „urðu sem oftast að láta sér nægja græna torfu, nema því aðeins að einstakt trygglyndi færi með fátæktinni.“ Járnminningarmörk voru því nær eingöngu á leiði efnaðra manna.
JárnminningarmörkÍ framhaldi af umfjöllun Bautasteins um Hólavallakirkjugarð (Suðurgötugarðinn) í 1. tölublaði var þjóðminjavörður svo vinsamlegur að svara nokkrum spurningum blaðsins. Í upphafi var hann inntur álits um hvers eðlis og hvers virði minnismerkin í Suðurgötugarði og íslenskum kirkjugörðum væru almennt séð.
Í kirkjugarðinum við Suðurgötu getur að líta flestallar gerðir minnismerkja sem á annað borð sjást í íslenskum kirkjugörðum.

Pottjárni hætt við broti
Járnminnismerkin eru ekki síður merkileg. Járnkrossar og steypt járngrindverk um leiði eru allvíða í elsta hluta garðsins. Þetta er dæmigert fyrir 19. öldina. Víða hafa þessi minnismerki þó skemmzt, og ekki síst hefur það gerst víða í görðum úti um land. Sum minnismerkin í gamla garðinum eru í bágbornu standi, hafa tærst af ryði og brotnað, er brotunum sums staðar tjaslað saman, en sums staðar eru garðar óvarðir fyrir skepnum og hafa hross allvíða brotið þessi minnismerki.
Nefna má hér að víða erlendis er nú orðið fátt um slík minnismerki og halda menn þar dauðahaldi í þau sem til eru. Á styrjaldarárunum voru þau víða miskunnarlaust brotin niður og höfð til hergagnasteypu.
Listrænir hlutir frá fyrri öldum eru óvíða til eldri og líklega hvergi í jafn ríkum mæli og í kirkjugörðum okkar. Og raunar er kirkjugarðurinn við Suðurgötu, Hólavallagarður, „stærsta og elsta minjasafn“ Reykjavíkur, eins og Björn Th. Björnsson listfræðingur bendir á í bókinni „Minningarmörk í Hólavallagarði“.

Stærsta minningasafnið
Í kaflanum Vökumaður kemur fram að menn trúðu hér á landi, að sá sem væri fyrstur grafinn í nýjum garði, yrði „vökumaður“ garðsins. „Átti hann ekki að rotna og vaka yfir þeim sem síðar kæmu“. Í kaflanum er vitnað í Þjóðsögur Jóns Árnasonar að menn höfðu nokkurn beyg af því „að láta grafa sig og sína nánustu nálægt gröf vökumanns, s.s. á Görðum á Álftanesi“. Þar er enginn grafinn nálægt gröf vökumanns.
JárnminningarmörkÞegar átti að vígja Hólavallakirkjugarð, sem er gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu, þá voru góð ráð dýr. Því enginn vildi leggjast eða láta leggja sína nánustu í fyrstu gröf garðsins. Ráðamenn vildu að það yrði einhver sérstakur, því það átti að vígja kirkjugarðinn með viðhöfn í leiðinni. Vökukona garðsins varð Guðrún Oddsdóttir, frú Sveinbjörnsson, dómstjórafrú og var garðurinn vígður 11. nóvember 1838, með mikilli viðhöfn.
Á leiði hennar í dag er stærsti járnkrossinn í öllum garðinum. Hann er með nýgotneskum armsprotum (sjá mynd). Á undirstöðu krossins, er mynd af lampa með logandi eldi.
„Í táknfræði sameinar lampinn bæði Vöku og Nótt“. Merkingin á því mjög vel við minningarmark vökumanns garðsins. Samskonar tákn er líka aftan á.

Í kaflanum Monument yfir biskup Steingrím kemur fram að Jón Sigurðsson, sem hafði verið skrifari hjá Steingrími biskup er beðinn um að láta hanna veglegt monument á leiði biskups. Jón var þá við nám í Kaupmannahöfn og því hæg heimatökin. Minnismerkið er bogadreginn laupur (sjá mynd 2; ath. það vantar krossinn sem á að vera ofan á, líklegast er hann í viðgerð.)
Framan á minnismerkinu eru fimm tákn:
Bagall, sem er tákn fyrir biskup.
Heiðurssveigur með flögurborðum, „sem er tákn fyrir virðingarstöðu og lífsheiður hins látna.“
„Rós, sem er notuð í táknrænni merkingu á legmörkum, merkir hún vammleysi eða hreinleika af synd.“
Kross, tákn kristinnar og
Stjarna „í slíku sambandi oftast til orða Krists:“ „Ég er …..stjarna skínandi, morgunstjarna“, úr Opinberun Jóhannesar, 22.16.

JárnminningarmörkAftan á minnismerkinu er plata með nafni eiginkonu biskups og heiðurskrans og stór stjarna.
Járngerðið eða „stakittið“, umkring er klassískt skreyti. Þar sést grískur Alexanders-bekkur, rósin og liljan.

Fram kemur hjá starfsmanni kirkjugarðsins að járnminningarmörkin eru úr potti eða steypujárni. En þau eru líka til úr smíðajárni. En munurinn er að pottjárnið, ryðgar ekki eða flagnar ekki og er yfirleitt skrautlegra. Það getur þó brotnað. Smíðajárnið er yfirleitt flatt, getur bognað og hægt að snúa upp á það. Það þykir ekki eins fínt og pottjárnið.

Hér á landi er aðallega einn maður sem vinnur við að gera við slík járnminnismerki. Hann heitir Kristján Guðmundsson, og fyrirtæki hans heitir vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Vélsmiðjan sjálf sem slík er safn. Þar er vélum og verkfærum haldið því sem næst óbreyttu frá upphafi. Kristján hefur unnið listilega að verndun og viðhaldi járnminnismarka (sjá mynd af minningarmarki í Hólavallakirkjugarði).
En slík vinna krefst mikillar nákvæmni og kunnáttu sem því miður örfáir kunna. Fram kom hjá Kristjáni að á seinni hluta nítjándu aldar hefðu verið um 200 „steybirí“ í Danmörku en nú væru um 15-20 slík. Hér á landi væri vélsmiðja hans líklegast eina smiðjan sem hefði aðstöðu til að vinna slík verk.

Sagan úr Dýrafirði
kirkjuvogskirkjugardurHandverkið felst í því að:
Fyrst er útbúið mót úr tré, munstrið er skorið í tréð, mjög djúpt, eða módelið þrykkt í formsand og síðan tekið úr.
Járnið er brætt í deiglu ( þ.e. í potti ) og hitað upp í 1400°C , bræðslumarkið er 1200°C . Í vélsmiðjunni tekur það um 3 tíma að bræða 150 kg af járni.
En það eru misjafnar aðferðir við það. Í olíuofni eða rafmagnsofni, þá tekur það um 1 tíma. Hér áður voru notaðir koksofnar (koks er kol).
Járninu er síðan hellt í formið. Járnið verður að kólna rólega. Venjulega er það tekið úr forminu daginn eftir.
Minningarmarkið er galvaniserað með sink grunni. Hér áður var notað einhvers konar olíu bygg til þess.
Ef um kross er að ræða á sökkli þarf að setja smíðajárnsteina og steypa niður og skrúfa síðan krossinn við teinana.
Steypt er undir sökkulinn. Undirstaðan undir „stakittið“ á sumum grafreitum er þó stundum úr potti, en ekki steypt.
Á landsbyggðinni eru nokkur járnminnismörk í kirkjugörðunum. En í kirkjugarðinum við Suðurgötu er eitt stærsta og elsta minjasafn járnminningarmarka, þó víðar væri leitað.

Minningarmörk í Kirkjuvogsgarði
JárnminningarmörkSigurður S. Sívertsen sonur Sigurðar B Sívertsen sem gegndi prestsembætti a Útskálum í hálfa öld frá 1831-1887 merkur fyrir Suðurnesjaannála sína. Sonur hans var vígður til Kirkjuvogskirkju 25 ára gamall árið 1843 sem aðstoðarprestur föður sins en hann lést stuttu síðar.
Vilhjálmur Chr. Hákonarson reisti þá kirkju sem við erum í. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri.
Gunnar Halldórsson var óðalsbóndi í Kirkjuvogi var fæddur 1824- 1876.. Hann var heiðursmaður líkt og hinir.
Ketill Ketilsson lét reisa kirkju á Hvalsnesi og hún var vígð 1887 os stendur enn.

Hvað verður um minningarmörkin?
Lítið er til af járnminningarmörkum erlendis, því að á stríðstímum voru minningarmörkin rifin upp og járnið var brætt og notað í stríðstól. En við hér „á hjara veraldar“ höfum varðveitt furðu mikið af slíkum járnminnismörkum. Eitthvað var þó um að járngerðin væru fjarlægð og fleygt úr kirkjugörðum til þess að auðveldara væri að hirða um leiðin. En það er liðin tíð. Í dag er reynt að varðveita slík minningarmörk.
JárnminningarmörkSumarið 2000 var samningur gerður um skráningu minningarmarka eldri en 100 ára. Til er kirkjugarðasjóður, sem er sameiginlegur sjóður allra kirkjugarða landsins, úthlutað er úr þeim sjóði til að borga viðhald á slíkum gömlum minningarmörkum.

Járnminnismerki illa farin
Reidar Tinnesand, norskur sérfræðingur í lagfæringum og viðgerðum á minnismerkjum úr smíðajárni dvaldi hér í tíu daga í október ´96 á vegum Skipulagsnefndar kirkjugarða til þess að kanna ástand minningarmarka í Suðurgötugarðinum og gera tillögur um úrbætur.
Í greinargerð Reidars Tinnestad um garðinn fullyrðir hann að þessi kirkjugarður sé einn sá merkasti er hann hafi augum litið og leggur áherslu á að allt verði gert til að varðveita þá miklu menningarsögu sem garðurinn býr yfir.
Það hefur mikið menningargildi að varðveita gamalt handverk. Framan af tækniöld setti handverk víðast mjög niður. Það þótti jafnvel vart frambærilegt, enda var hin vélgerða fjöldaframleiðsla ódýr. Þegar stöðluð fjöldaframleiðsla kom til sögu tóku menn henni tveim höndum. Jafnvel þótti stöðluð framleiðsla eftirsótt, þar sem allir hlutir voru nákvæmlega eins.

Hverfi minnismerkin hverfur hluti sögunnar
„Mikilvægt er að varðveita kirkjugarða fyrir komandi kynslóðir. Þýðingarmikið fyrir sögu Íslands og menningu. Minningarmörkin segja sína sögu um þróun bæjarins og fólkið sem þar lifði og bjó fyrrum. Margir legsteinar hljóta að hafa kostað stórfé þegar þeir voru settir upp og sýna hvernig fyrri kynslóðir mátu minningu látinna. Hverfi minnismerkin, hverfur einnig hluti sögunnar.“

Skriflegar heimildir:
-Úr völdum köflum úr bókinni: Minningarmörk í Hólavallagarði eftir Björn Th. Björnsson – Mál og menning – Reykjavík – 1988.
– Aase Faye – Danske Stobejernskors -Jan Faye – NNF – Kaupmannahöfn 1988.

-Munnlegar heimildir:
-Halldór Kristinn Pedersen, kirkjugarðsvörður við Suðurgötu.
-Gunnar Bollason, sagnfræðingur hjá fornleifavernd ríkisins.
-Kristján Guðmundsson, vélsmiður á Þingeyri.
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/brynast.html.
-www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast1/hnignun.html – 6k
-Bautasteinn, Útgefandi: Kirkjugarðasamband Íslands 1. tbl, 1. árg. 1996.
Járnminningarmörk.

Dalurinn

Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir að „suðvestur af eða í Grísanesi [við Ástjörn] er smáhellir sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum heitir Grófarhellir (AG)“. Þess hellis er jafnframt getið í örnefnaskrá sem Hellrardalshellisskjóls (fjárskjóls), en dalurinn mun hafa heitið Hellrardalur þótt hann gangi nú jafnan undir heitinu Dalurinn.“

Hellirinn

Hellir í Dalnum.

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er átti landið sem svonefnt Grísanesskjól var, segir“ skjólið er í háum hraunhól í hrauninu norður af Grísanesi (GS).“
Reyndar voru báðar lýsingarnar réttar – a.m.k. að hluta. Grísanesskjól var suðvestan við Grísanes og í hraunhól, en hins vegar er annað skjól í hrauninu norðan við Grísanes. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvort skjólið hafi verið svonefnt Grísanesskjól. Hið fyrrnefnda er horfið, en hið síðarnefnda er enn á sínum stað, þrátt fyrir aðþrengingu frá nærliggjandi byggð.
Skjólið í hrauninu suðvestur af Grísanesi er nú komið undir byggð og horfið. Þegar komið var að því úr suðvestri, eftir gömlu götunni frá Hvaleyri upp að Hvaleyrarvatni og Stórhöfða, virtist þar vera hár hraunhóll eða hraunbakki, sem fara þurfti upp á til að komast í skjólið. Undir það síðasta hafði rýmið að mestu verið fyllt af alls kyns drasli. Síðan komu stórvirkar vinnuvélar og skjólið hvarf endanlega. Norðar, utan í suðvestanverðu Grísanesinu, er hlaðið fjárhús, sem væntanlega hefur tekið við hlutverki skjólsins á sínum tíma.
Vestan frá Grísanesi er hlaðið gerði utan í hraunbrúninni. Norðaustar eru þrjár tóftir, sem væntanlega hefur verið ástæðan fyrir tilurð gerðisins.
HellirinnNorðan gerðisins, ekki langt frá austurjarði hraunsins, sem lokar Ástjörn af, eru grasgróningar á afmörkuðu svæði, greinilega eftir fjárhald. Í jaðri gróninganna er skjólgott jarðfall, sem auðvelt er að komast niður í. Jarðfallið er gróið í botninn, enda hefur þar verið ágætt skjól fyrir fé. Í jarðfallinu norðanverðu hefur áður verið hlaðinn gangur fyrir framan sæmilega rúmgóðan munna. Hleðslurnar eru nú fallnar að mestu, en þó má enn sjá þær í vesturveggnum. Ekki er [nú á þessari stundu] vitað nákvæmlega hvert nafnið var á þessu skjóli. Í örnefnalýsingu fyrir Ás er getið um Hellirinn á þessum stað, „að mestu falinn saman“. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið hafðir sauðir því rýmið gefur slíkt til kynna.
Um Grófarhelli (fjárskjól) er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.
Í kringum Ás sem og í Hvaleyrarlandi, sem náði upp undir Kaldárssel, má enn líta ýmiss mannvirki frá fyrri tíð. Þau eru nú hluti af búskaparsögu bæjanna, sem og svæðisins í heild. Það er slæmt að ekki skuli allar þessar minjar enn hafa verið skráðar og því eðlilega ekki í vitund þeirra, sem eiga að taka ákvörðun um varðveislu þeirra – en virðast gera það samt sem áður. Verra er að þeir hinir sömu vita í rauninni mjög takmarkað um hvað fer forgörðum þegar verið er að taka ákvarðanir um framkvæmdir á þessu svæði.
Frábært veður.

Skófir

Snorrastaðatjarnir

Gengið var að Nýjaseli eftir að hafa skoðað Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga. Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Austan við borgina eru tvær tóftir og ein norðan hennar. Þær munu hafa verið fyrrum fjárhús.

Nýjasel

Nýjasel.

Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkasel. Þetta eru 5 tóftir undir gjárveggnum. Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku norðan utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Pétursborg

Pétursborg.

Gengið var til vesturs sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.
Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána.
Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegnt skátaskálanum (sem nú er horfinn).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.