Ginið

Farið var í Ginið. Um er að ræða um 15 metra djúpt op í hrauninu suðaustan við Sauðabrekkur og Sauðabrekkugjá. Ofan við brekkurnar að norðanverðu er falleg gígaröð með klepragígum. Mikil litadýrð er í þeim. Í einum þeirra er skjól þar sem gólfið hefur verið flórað og hella sett fyrir gluggaop. Skammt norðanfrá skjólinu eru hleðslur eftir refaveiðimenn.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ginið er í tvískiptu hrauni. Annars vegar er um að ræða nokkuð gróið hraun og hins vegar slétt helluhraun. Ljóst er að þarna hefur áður verið mikil gjá í eldra hrauni, en nýrra hraun, tiltölulega afmarkað, sennilega úr Sauðabrekkugígum, hefur runnið til suðausturs og m.a. fyllt gjána að huta. Þetta hefur verið efsti hluti gjárinnar þannig að hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta hennar nema að litlu leyti. Fallegar klepramyndanir eru í veggjunum. En ekki var vitað um það sem neðar var. Sennilega hefur maður aldrei stigið fæti þar niður á botn eða kannað hvað dýpið kynni að geyma.
Ákveðið var, a.m.k. fyrst um sinn, að segja ekkert um hvar það er að finna svo hér verður einungis sagt frá hluta þess. Ætlunin er að fara þangað aftur fljótlega.

Ginið

Ginið.

Hraunið hér er slétt helluhraun, sem fyrr segir, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við og öskraði á okkur „komið niður“. Um er að ræða um 15 metra dýpi. Lofthræddir ættu ekki að standa á barminum. Ekki verður komist niður nema síga þangað á böndum. Efitt gæti reynst að komast upp aftur. Gengið var tryggilega frá öllum festum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós jökull á botninum. Stórbrotið er að horfa niður í Ginið, en ennþá mikilfenglegra er að horfa upp úr því. Við austurendann er hægt að komast inn í sprunguna. Í henni má sjá hvernig hraunið hefur runnið niður í hana og fyllt upp í holrúm. Hér er því um merkilegt jarfræðifyrirbæri að ræða. Hægt væri að komast áfram inn eftir sprungunni, en það var látið ógert að þessu sinni.
Erfitt er að finna Ginið fyrr en staðið er á barminum. Varhugavert væri að vera þarna í snjóalögum, því sá sem færi þarna niður óviljugur kæmi aldrei upp aftur.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 11. mín, en sigið tók drjúgan tíma (enda enginn að flýta sér).

Ginið

Ginið.

Gamli Kirkjuvogur

Í botni Ósabotna liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. Vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur.

Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fékkst þó góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft.

Ósar

Ósar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi. Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.

Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll (dys?).

Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi. Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Frábært veður.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Óttarsstaðir

Eftirfarandi frásögn eftir Gísla Sigurðsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978. Myndirnar eru ekki síður áhugaverðar.
Hraunin-401„Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó“. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó“ þurfti ekki að skýra það nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komið er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Staumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina. Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni. 

Hraunin-402

Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni við Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu.
Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaöur undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.
Hraunin-403Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór
í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, að nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur meö ströndinni, nefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn með þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann. Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast að koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstöðum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkis
efni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu.

Hraunin-407

Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu. Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annaö gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og hefði verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit.

Hraunin-410

Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík. Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Vestan við Óttarsstaði þrýtur graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar.
Ekki voru Hraunin-408skilyrði til lendingar við Lónakot og því ekkert útræði þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.“
Við þetta má bæta að bátasmiðurinn Guðmundur var sonur Sigurðar Kristins Sigurðssonar síðasta bóndans á Óttarstöðum eystri og konu hans Guðrúnar Bergsteinsdóttir. Guðmundur hélt lengst allra tryggð við Hraunin. Hann smíðaði hér báta sem þóttu eftirsóknarverðir og hleypti þeim af stokkunum í Óttarstaðavör. Þegar Guðmundur lést 1985 var íbúðarhúsið jafnað við jörðu eftir að kveikt hafði verið í því.
Eyðikotið varð um tíma sumarhús. Sjá má letursteina við bæjardyrnar með áletrununum BS-1865 (vinstra megin) og BS-1896 (hægra megin). Þær gerði Bergsteinn Sveinsson þau árin þegar hann gerði bæinn upp.

Nefna má að bóndinn í Eyðikoti, Guðmundur Bergsveinsson, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna í Hraunin-411Kapelluhrauni (Brunanum) og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot. Sjá má einn slíkan (brotinn) í hleðslunni við dyrnar.

Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var ein þeirra.
Eyðikot er nú þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u.þ.b. 40 árum, en kotið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla. Letursteinar Bergsveins Sveinssonar hafa verið varðveittir í hleðslunum beggja vegna við innganginn.

Heimild:
-Suður í Hraunum – Gísli Sigurðsson, Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, bls. 8-9.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Breiðagerðisskóli

Í Mbl árið 1984 birtist svonefnd umfjöllun um álfhól við Breiðagerðisskóla í Reykjavík:
Breiðagerðisskóli„Árið 1956 var hafin bygging barnaskóla við Breiðagerði og fékk nafnið Breiðagerðisskóli. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu húsið. Á þeirri lóð, sem húsinu var valinn staður, var hóll, sem margir kölluðu Alkhól, en það nafn var af sumum talin afbökun úr Álfhól. Hins vegar bendir margt til þess að hóllinn hafi heitið Borgarhóll og var oft miðstöð fyrir vetrarleiki barna frá Bústöðum og síðar. Allt í kringum hólinn voru grösug tún, en ekki var hóllinn sleginn þar sem talið var að hann væri bústaður álfa. Sagt var að ljós sæjust þar stöku sinnum.
Það var því ýmissa manna mál að við hólnum mætti ekki hrófla, þetta væri álagahóll. En hver sem trú ráðamanna var um byggingu skólans var húsið þannig teiknað að ekki var í fyrstu við hólnum hreyft. Var skólinn byggður og var allt kyrrt um sinn.
En þegar kom að því, að leggja þurfti heimkeyrslu að dyrum á norðvesturhorni skólans, þurfti aðeins að skerða jaðar hólsins og var það talið fljótunnið verk. En það fór á aðra leið.
Starfsmönnum leikvalla var falið að vinna verkið og hafði Bjarnhéðinn Hallgrímsson, sem hafði og hefur umsjón með framkvæmdum á leikvöllum borgarinnar, umsjón með verkinu.
ÁlfhóllinnHann segir svo frá:
Kristínus Arndal var þá einn af flokkstjórum vallanna. Hann taldi þetta létt og fljótunnið verk en reyndin varð hins vegar önnur. Varla var verkið hafið og Kristínus að stíga sín fyrstu skref inn á vinnusvæðið er hann missteig sig illa og brákaðist á fæti og gekk haltur lengi eftir það en hélt þó áfram stjórn verksins. Var nú fengin vinnuvél til að grafa út úr hólnum, en þegar hún tók fyrstu fylli úr hólnum kvað við brestur og hafði eitthvað brostið í lyftubúnaði tækisins. Varð að fara með tækið til viðgerðar og tafðist verkið í einn dag. Þegar verkið gat hafist á ný reyndist tækið ekki betur en svo, að skiptibúnaður þess bilaði það alvarlega að verkfærðið var úr sögunni um langa hríð. Var þá fengin til verksins öflug og spánný vélgrafa af stærstu gerð sem þá hafði komið til landsins. Hún virtist ætla að fara létt með verkið, en fljótlega brast eitthvað í nýja tækinu og þótti þá mörgum furðu gegna og kunnu engar skýringar á.
Var eftir það ógerlegt að fá verkfæri til að vinna verkið. Var þar látið við sitja og jafnað undir malbik með handverkfærum. Síðan var ákveðið að taka ekki meira úr hólnum og hann jafnaður í það horf sem hann er í dag og hefur ekki borið þar á fleiri furðum eða óhöppum síðan.“

Heimild:
Mbl, lesbók, laugardaginn 7. júlí 1984 – Sigurður Þór Salvarsson.

Breiðagerðisskóli

ísólfs

Gengið var um Selatanga.

Selatangar

Selatangar – fisbyrgi (nú horfið).

Fyrst var haldið til veturs yfir í Katlahraunið. Á leiðinni var nyrsta refagildran skoðuð. Hún líkist vörðubroti, en ef nánar er að gáð má sjá fallhelluna og opið á gildrunni. Hún er ein af fjórum, sem enn má sjá heillegar á Töngunum.
Gengið var eftir Vestari Lestareiðinni í gegnum Borgir (Ketil) yfir að Smíðahelli. Í honum skýldu vermenn á Selatöngum sér í landlegum og dunduðu við að smíða nytjahluti, s.s. ausur, spón og hrífur úr rekavið, sem þeir drógu að sér undan reka Kálfatjarnarkirkju.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Komið var í eldhúshellinn og gengið þaðan yfir að syðstu refagildrunni utan við gerðið. Á leiðinni var komið við í skúta, sem notaður var sem tímabundinn bústaður fyrr á öldum. Efsta refagildran er svo til alveg heil. Lítið vantar annað en að hengja upp fallhelluna og egna fyrir skolla.
Haldið var austur að hesthúsinu og vestasta sjóbúðin síðan skoðuð. Í henni er, auk vistarvera, eldhús og hlóðir. Sjávarmegin við þær er vestasta

fiskibyrgið af þremur. Stendur það mjög heillegt á hæð, en neðan þess er klettur með krossmarki á. Neðan hans eru tveir klettar, alveg niður við fjöruborð. Sá austasti og minnsti, er Dágon, landamerkjasteinn Krýsuvíkur og Ísólfsskála.
Þaðan var haldið um byrgin og búðirnar, hverja á fætur annarri, og staðnæmst við skiptivöllinn, uns komið var að Smiðjunni.

Selatangar

Selatangar – Jón Guðmundsson frá Skála með í för.

Sunnan hennar eru austustu búðirnar á Selatöngum. Í þeim eru einnig eldhús og hlóðir.
Utan í Selalágum, austan tanganna eru fjórir skútar. Hlaðið er fyrir þrjá þeirra. Sá þriðji frá sjó var notaður sem vistarverur. Einnig eru hleðslur fyrir neðan þann fjórða.
Í bakaleiðinni var gengið um byrgin ofan á töngunum og þau skoðuð, uns komið var að Brunninum, en hann var forsenda þess að hægt var að gera út frá Selatöngum. Ofan hans eru tjarnir og gætir sjávarfalla bæði í þeim og brunninum.

Brunnurinn var mannhæða djúpur, að sögn Jóns Guðmundssonar frá Skála, en var fylltur upp er rolla fannst dauð ofan í honum anno 1930. Ekki var vart við Tanga-Tómas á Töngunum að þessu sinni.

Selatangar

Brunnurinn.

Selatangar eru ágætt dæmi um útver. Margar minjanna eru enn heilar, en líklegt má telja að flestar þeirra séu yngri en frá því um 1800. Þó eru sagnir um útver á Selatöngum allt frá því á 12. öld. Krýsuvík og Ísólfsskáli skiptu með sér verinu, en auk þess hafa verið þar uppkomubátar með hlutaskiptum. Verstaða við ströndina kvað á um sérstaka tímabundna menningu, sem vert er að gefa gaum. Hún lítur ekki síst að sagnaskemmtuninni, hefðinni í matarkosti, tignarskipan og fyrirkomulagi róðra og verkunnar.
Á SelatöngumÆgir hefur brotið mikið af ströndinni á umliðnum öldum og árum. Þannig er skiptivöllurinn nú horfinn með öllu, en var vel sýnilegur einungis fyrir nokkrum árum síðan. Líklegt má telja að allar elstu mannvistarleifarnar á Selatöngum séu löngu horfnar og að einungis þær yngstu standi þar nú.
Selatangar eru eitt af merkilegri útverum, sem enn má sjá merki og minjar um, með ströndum Íslands.
Veður var frábært – þægilegur andvari. Gangan tók 2 klst og 2 mín

Selatangar

Á Selatöngum.

Urriðaholt

Að loknum erli dagsins eða í helgarfríum er fátt heilsusamlegra en leita um stund frá umhverfi vanans og hreyfa sig svolítið í fræðandi umhverfi. Í næsta nágrenni höfuðstaðarins eru margir staðir, sem bjóða upp á slíkt. Einn þeirra er Vífilsstaðahlíðin, en svo nefnist hæðin fyrir austan Vífilsstaði og nær allt austur að Búrfellsgjá.
GunnhildurStefnan er tekin á myndarlega grjótvörðu, sem hlaðin hefur verið vestast á hlíðarbrúninni. Brekkan þangað upp hlíðina frá suðvestanverðu Vífilsstaðavatni er auðveld. Hún er vaxin smávöxnu kjarri, en núorðið liggur greinilegur og margfarinn göngustígur upp að henni. Frá vörðunni er víðsýnt. Þaðan gefur að líta víða sýn yfir kaupstaðina fjóra og Álftanesið, með Bessastaði í forgrunni. Beint á móti, handan við Hraunholtslækinn, sem kemur úr Vífilsstaðavatni, eru Vífilsstaðir, heilsuhæli sjúklinga, sem upphaflega var byggt sem sjúkrahús fyrir berklaveikt fólk, meðan sá sjúkdómur var landlægur hér. Vífilsstaðir voru landnámsjörð, því sagan segir að þar hafi fyrsti bóndinn verið Vífill, þræll Ingólfs Arnarsonar. Vífill fann öndvegissúlur hans reknar á land og fyrir þessa dyggu þjónustu gaf Ingólfur honum frelsi og þessa bújörð.

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðakotsholti

En varðan sjálf er athyglinnar verð. Hún hefur áður verið vel hlaðin en nú hefur fólk lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys. Varðan ber nafnið Gunnhildur. Þessi nafngift er á reiki. Sumir segja, að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju, sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum, en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill, en á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni er enn sjást leifar af. En hvernig sem þetta nafn er til komið, þá mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á hælinu, því sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildur var einnig nefnd Matthildur, er hét áður Grímssetur (Grímsseta). Þeir sem nefndu hana Matthildi studdust við vísuna:

Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Um 250 metrum sunnan við Vífilsstaðavatn er bergrista, sem nú er friðuð.
Skammt frá vörðunni er, sem fyrr sagði, steypt skotbyrgi frá stríðsárunum. Letursteinn við UrriðakotAlþýðuskýringin að nafnið væri afbökun úr ensku (Gun Hill) stenst reyndar ekki því nafnið var þekkt áður en landið var hernumið (1940). Þegar skuggsýnt er  orðið á einum dimmasta degi ársins (12. desember) er ekki svo auðvelt að taka myndir svo skarplegar geta þótt, sbr. sú hér að ofanverðu.
Austan við Vífilsstaðahlíð eru Hjallar, sem eru misgengisbrúnir og norðvestan við þá er hæðin Arnarbæli og Vatnsendaborg. Norðan til á hálsinum er grunn lægð. Þar safnast vatn í vorleysingum og í rigningatíð. Myndast þá tvær tjarnir sem kallast Grunnuvötn. Þurrlendi er á milli þeirra og þar hafa starfsmenn rafveitu gert veg. Af Arnarbælinu sést vel yfir Elliðavatnið, byggðina umhverfis það og austurhlíð Rjúpnahæðarinnar fær ekki dulist. Frá Arnarbæli er stuttur spölur að Vatnsendaborginni, en hún er merkilegt minnismerki um forna búskaparhætti. Áður fyrr urðu menn oft að tefla djarft þegar um stærð bústofnsins var að ræða. Ef ekki var til nægilegt vetrarfóður, settu menn á “guð og gaddinn” sem kallað var. Þá var sauðfénu haldið til beitar eins lengi vetrar og tíð leyfði. Í stað þess að koma því inn í hús til skjóls í slæmum veðrum hlóðu menn oft hringlaga, þaklaus byrgi með háum veggjum.

Heimaréttin að Urriðakoti

Þar var beitarféð geymt meðan óveður geisaði. Í slíkum tilgangi var þessi borg hlaðin, en það mun hafa verið gert snemma á 20.öld. Nú eru komin skörð í veggina á nokkrum stöðum, en meginhluti þeirra stendur enn og gefur glögga mynd af þessu mannvirki, sem er hluti af búskaparsögu landsins. Innan veggja er gott skjól. Gólfið er grasi gróið og slétt. Því er tilvalið að tylla sér þar niður, og halda smá “veislu undir grjótvegg”, svo vitnað sé í þekktan bókartitil.
Að sunnanverðu í Vífilsstaðahlíð hefur verið plantað miklum skógi, sem hefur dafnað vel. Skógræktarmenn hafa unnið við gróðurrækt í hlíðinni og er árangurinn þegar farinn að setja áberandi svip á umhverfið – sumir segja reyndar til hins verra.
Á næstu hæð að suðvestan standa nú yfir miklar framkvæmdir. Nýtt íbúðarhverfi er að rísa þar á jökulleirbornu Urriðaholti (Urriðakotsholti). Á því var kampur á stríðsárunum; Camp Russel. Þótt nú sé búið að umróta holtinu má enn sjá leifar hans á því norðaustanverðu. Á uppdrætti, sem gerður var af kampinum má sjá götur, byggingar og önnur mannvirki. Í dag standa t.d. eftir steyptur arinn og steyptur vatnsgeymir.

Garðar við Urriðakot

Vatnið var sótt í brunn undir hlíðinni sunnanverðri. Úr honum var vatninu dælt stöðugt um leiðslu upp í geyminn. Á uppdrættinum er geymirinn merktur sem og annað, sem þarna var.
Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti). Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir. Áður en hlíðinni var róta upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna) heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er enn letursteinn með áletruninni JTh 1846. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi. Væntanlega er ekki langs að bíða að hann hverfi eins og annað undir jarðraskið, sem er um þessar mundir [2007]. Annars er skondið að lesa lýsingu og rökfærslur framkvæmdaraðila og bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir byggðinni á þessum stað; „umhverfisvæn byggð í beinum tengslum við náttúruna!“ (Sjá meira HÉR). Í þeim orðum hefur bæði gleymst möguleikinn á  varðveislu á a.m.k. hluta bæjarminjanna, þ.e. tengslin við söguna sem og sú vitund að ekki er langt að bíða að önnur byggð muni rísa allt um kring. Þá mun fátt segjast af 
öllum fyrrum fullyrðingum um „vistvæna byggð í sátt við umhverfið“.

Heimild m.a.:
-Mbl. dags. óviss sennil. 1979.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jarðabókin 1703, bls. 223.
-Sævar Jóhannsson.
Camp Russel á Urriðakotsholti á stríðsárunum

Refur

„Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita.
Refaspor-221Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekker bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur.
Árið 1949 samþykkir Alþingi lög um eyðingu refa og minka (nr. 56), og á þessum lögum eru gerðar breytingar 1955 (samþ. á Alþingi 10. marz ’55). í þessum síðustu breytingum er hin illræmda lagagrein: „Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal hægri væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“.
Hinn 10. marz síðastliðinn [1955] voru samþykkt á Alþingi Íslendinga Lög um breytingu á lögum nr. 56 frá 1949 um eyðingu refa og minka. Í 3. grein laganna stendur: „Í stað 1. málsl. 10. gr. laganna komi: Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“. Lög þessi hafa verið samþykkt án þess að leitað hafi verið álits nokkurra þeirra, sem einkum láta sig varðar. Dýravernd í þessu landi og hafa vökulan áhuga og ábyrgðartilfinningu fyrir því, að dýraríki landsins sé ekki sneytt um fram það, sem orðið er.
Eins og menn geta séð af lagagreininni, sem hér er prentuð, er lögboðið að eitra í afréttum og heimalöndum. Nú er vitað mál, að hundar naga hvers konar hræ.
refur-221Í júní 1957 gengu í gildi ný lög um eyðingu refa og minka. Þar var ákveðið, að ríkissjóður skyldi borga framvegis tvo-þriðju hluta kostnaðar. Töldu allir það vel ráðið. Áður voru það hrepparnir, sem kostuðu refaeyðingu að mestu einir.
Í þessum lögum var aftur á móti annað, sem menn deildu um og ávallt síðan. Það var ákvæði 11. gr. um „að skylt væri að eitra fyrir refi og minka“. Þetta valdboð Kom í meira lagi illa við þá, sem höfðu — af áratuga reynslu — verið vitni að því, að bitdýrum fjölgaði stórlega á þeim svæðum, sem eitrað hafði verið að staðaldri fyrir refi, með stryknineitri. Og nú fengu þeir líka sitthvað að heyra.
19. marz 1964, var samþykkt á Alþingi að breyta ákvæði 11. gr. fyrrn. laga á þessa lund: „Fresta skal að framkvæma ákvæði 11. gr. laganna um eitrun fyrir refi og minka næstu fimm ár. Jafnframt er bannað að eitra fyrir þessi dýr á sama tímabili. Það er með öðrum orðum bannað að eitra fyrir refi til 19. marz 1969.
Ástæðan fyrir þessari lagabreyt ingu var fyrst og fremst sú, að náttúruunnendur, sem fylgdust vel með arnarstofninum íslenzka, sönnuðu, svo ekki varð um deilt, að eitruð hræ, sem fyrst og fremst voru ætluð refum, voru á góðri leið með að gjöreyða arnarstofninum. Með því að hætta að bera út eitruð dauðyfli, næstu fimm árin, var gerð mjög virðingarverð tilraun til að bjarga arnarstofninum.
refur-223Tillaga var lögð fram um breytingu á lögum nr. 52, 5. júní 1957, um eyðingu refa og minka.
11. grein laganna falli niður, en í stað komi: „Stjórnum sveitar- og bæjarfélaga er heimilt að eitra fyrir refi og minka, ef nauðsyn ber til, samkvæmt fyrirmælum veiðistjóra og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Óheimilt er að eitra í hræ eða dauðyfli á víðavangi. Hið eitraða agn skal vel falið í gjótum eða holum, þannig að ekki sjáist úr lofti eða þótt gengið sé nærri eiturstaðnum.
Grenjaskyttum er heimilt að eitra fyrir yrðlinga í grenjum, þó skal eigi gripið til þess ráðs, fyrr en önnur ráð hafa brugðizt.
Oddvitum og bæjarstjórum skal látið eitur í té gegn skriflegri umsókn samþykktri af veiðistjóra. Lyfjaverzlun ríkisins annist sölu (dreifingu) eitursins, samkvæmt fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrigðismálaráðuneytisins.“ 7. grein reglugerðar um eyðingu refa og minka breytist í samræmi við ofanritað.
Greinargerð: Hinn 12. marz 1964 voru samþykkt á Alþingi lög um að fresta eitrun fyrir refi og minka næstu fimm árin. Eiturbannið fellur því úr gildi hinn 12. marz n. k. Í lögum og reglugerð um þessi mál, er sveitar- og bæjarstjómum gert skylt að eitra fyrir refi og minka.
Þessum lagaákvæðum er mjög hæpið og óvarlegt að framfylgja, og væri því æskilegra, að um eiturheimild væri að ræða, en ekki lögboðna skyldu.
Að fenginni 5 ára reynslu, sem eiturbannið hefur staðið, mælir margt á móti því að framlengja eiturbannið eða afnema með öllu eituraðgerðir fyrir refi og minka.“

Heimild m.a.:
-Landvernd, nr. 7 (1980) – Villt spendýr, bls. 70-73: Saga refaveiða, Páll Hersteinsson.

Stapi

Eftirfarandi er úr viðtali er birtist í tímaritinu Faxa nr. 7, 43. árg., bls. 84-85, við Karl Guðjónsson þar sem hann lýsir aðstæðum undir Stapanum á fyrri hluta 20. aldar. Karl var 88 ára þegar viðtalið var tekið, en hann var einn af þeim mönnum, sem höfðu upplifað tímanna tvenna þegar verkmenningin var bundin þeim tækjakosti, sem óháður var vélvæðingu og orkubúnaði nútíðar. Einnig hinar mestu tækniframfarir, sem orðið hafa hér á landi.

Karl Guðjónsson

Karl Guðjónsson.

Karl var nefndur ýmsum nöfnum um ævina, s.s. Kalli á Brekku, Kalli mótoristi, Kalli á stöðinni, Kalli sýningarmaður, Kalli rafvirki og Kalli útvarpsvirki.

„Ég er fæddur í Reykjavík árið 1895, þann 14. okt., þ.e.a.s. eftir kirkjubókunum, en það fer nú ekki alveg saman við það sem móðir mín og amma sögðu. Þær sögðu mig fæddan 1896, nú en bókstafurinn blífur sjálfsagt.“ Karl hét fullu nafni Karl Sigurður. Foreldrar hans voru María Bjarnadóttir og Guðjón Pétursson og var einkabarn móður sinnar, en „ég var ekki nema sex mánaða þegar ég var fluttur frá Reykjavik og hér suður í Voga til föðurömmu og afa, sem ólu mig upp. Þau hétu Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir. Var hún ljósmóðir í Vatnsleysstrandarhreppi í um 50 ár.
Þegar ég kom til þeirra bjuggu þau í Vogunum, en fluttu skömmu síðar í Stapabúð. Þegar ég var fjögurra ára fluttum við svo að Brekku, austari bænum, sem þá var þarna undir Stapanum, því þá andaðist Guðmundur, bróðir afa, sem hafði haft jörðina áður. Bæði býlin lágu undir Stóru-Voga, en Stóru-Vogar átti mikið af torfunni í Vogunum og þurfti að greiða þangað eftirgjald.

Brekka

Brekka undir Stapanum.

Ábúð í Vogum lagðist niður um 1940. Þá bjuggu þar Magnús og Guðríður föðursystir mín. Þau hjónin voru orðin heilsulítil og fluttu í Vogana.
Þá rifu þau húsið á Brekku og fluttu efniviðinn inn eftir, því þó húsið væri að minnsta kosti orðið 100 ára gamalt voru viðirnir í því þannig að þeir voru nothæfir, eins og þetta gamla timbur var, það gat enst alveg ótrúlega lengi. Annars voru veggir Brekkuhússins hlaðnir úr grjóti, en port og ris úr timbri. Niðri var forstofa og eldhús, en svefnhús uppi. Loftinu var skipt í sundur, fremra loftið og innra loftið sem kallað var. Á loftinu voru lengst af fimm rúm, lítið borð undir gaflglugganum og einn stóll.

Stapabúð

Stapabúð.

Maður ólst upp við þessi venjulegu störf, sem gerðust á bæjum þá. Þar var t.d. heyskapurinn og skepnuhirðingin. Við höfðum mest 70 ær og vanalega var ein kýr og stundum kálfur. Féð gekk ákaflega mikið úti. Það var svo merkilegt að það voru oft hagar á Stapanum þó þeir væru ekki annars staðar, en það var vegna þess hvað hann stóð hátt og fauk af honum frekar en annars staðar þegar snjóaði og fjörubeit var góð.
Ef eitthvað var að veðri var féð alltaf hýst á hverri nóttu og gerði það sitt, þannig að það var miklu hressara á morgana þegar það hljóð í fjöruna til að ná í einhver snöp. Svo reyndi maður að koma fénu upp á Stapann eftir hádegi til að ná í einhver jórturefni í vömbina eins og sagt var.

Stapinn

Stapabúð.

Afi gerði út fjögurra manna far á hverri vetrarvertíð. Veiðarnar gengu nú misjafnlega, því fiskurinn þurfti að ganga undir Stapann til að hægt væri að ná í hann, því það var ekki hægt að fara í langróðra á þessum litlu fleytum. Nú, ég held að ég hafi ekki beint verið talinn til mikilla starfa á þessum árum, því ég var alltaf með hugann við eitthvað annað en ég átti að gera. – Ég fékk orð fyrir það að vera latur, en sannleikurinn var sá, að ég var alltaf að hugsa um eitthvað annað og það þótti nú ekki passa í þá daga að vera í einhverju grúski, sem ekkert gagn var talið af.
En svo vildi til að það komu á þessum árum vélbátar í Vogana og þeim var alltaf lagt í vetrarlægi uppi í sandinn í vikinu fyrir innan Hólmann, sem var alveg við bæinn Brekku, sem ég átti heima í.“ Grúsk Karls í bátunum, vélunum alveg sérstaklega, varð til þess að afla honum sérþekkingar á því sviði.

Stapinn

Horft niður á Stapabúð í Urðarskarði.

„Bærinn Brekka var syðsti bærinn í Vatnsleysustrandarhreppi, eftir að hætt var að búa í Stapabúð. Var hann alveg suður undir Stapanum, austast þar sem hann byrjar. Þar eru mörg kennileiti, t.d. skörð á milli strandbergs og er það fyrst þegar maður kemur innan að, að maður kemur að skarði, sem kallast Reiðskarð. Þar fóru menn sem voru á hestum. Næsta skarð heitir Kvennagönguskarð og þar var graslendi alveg uppá bjargbrúnina, svo kom Brekka og þar fyrir utan Brekkuskarð og þar fyrir utan kom svo Urðarskarð kallað, því það var svo grýtt. Þar var hægt að ganga upp á Stapann líka og síðast var Rauðistígur, sem kom upp úr Kerlingarbúðum, sem kallaðar voru. Það var gamall útræðisstaður, sem var fyrir vestan Stapabúðina. Þegar ég var drengur fann ég þar stein sem í var höggvið ártalið 1780 og sýnir það, að þá hefur verið byggð þarna.

Vogar

Vogar um 1950.

Ég hóf skólagöngu mína 10 ára og lauk henni á 13. árinu, og gekk ég í barnaskálann á Brunnastöðum. Yfirleitt hljóp maður megnið af leiðinni og minnir mig að ég hafi þurft að leggja af stað að heiman um níu leytið. Urðum við samferða öll börnin úr Vogunum. Þannig að fyrst kom ég að Bræðraparti, svo að Suðurkoti og Nýjabæ, síðan Stóru-Vogum, Hábæ, Austurkoti og Minni-Vogum. Alls staðar þarna voru skólabörn og við gengum, eða öllu heldur hlupum alltaf saman báðar leiðir þessi hópur“.
Þá segir Karl frá ferð sinni norður í Hrísey, vertíð í Dýrafirði og sveitamennsku austur í sveitum.

Heimildir:
-Tímaritið Faxi nr. 7, 43. árg., bls. 84-85 – viðtal við Karl Guðjónsson (Æviminningar).

Stapinn

Brekka.

Arnarseturshraun

FERLIR fór í sína árlegu jólagönguferð s.l. laugardag, 11. desember. Eins og kunnugt er hefur hópurinn verið duglegur að leita uppi fornar minjar á Reykjanesskagagnum og staði, sem flestum eru gleymdir. Þessi ferð var engin undantekning, nema nú var ætlunin að finna þann stað, sem jólasveinarnir halda sig jafan á milli jólahátíða.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Hvar búa jólasveinarnir? Sagnir hafa verið um að þeir, móðir og faðir ásamt jólakettinum, búi í einhverju fjallinu á milli hátíða?
Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hvar lá fiskur undir steini? Þægilegir undirheimar, milt svæði, láglendi, auðvelt með aðdrætti, hreindýramosi og traustsins verðir nágrannar? Rifjað var upp Stóra heimaslátrunarmálið!!! Einungis einn staður gat komið til greina. En svæðið var stórt. En undirheimar þess voru þó á takmarkaðir.
Lagt var af stað inn í norðanvert Skógfellahraun og gegnið áleiðis að Litla-Skógfelli. Fetaður var stígur í gegnum hraunið upp að fellinu. Á því er lítil varða.
Gamla þjóðleiðin um Skógfellaveg liggur sunnan við fellið frá Vogum og áfram áleiðis til G

Jól

Jólasveinn.

rindavíkur. Hún er mikið klöppuð í hraunhelluna. Gæti það m.a. hafa verið eftir hreindýr jólasveinanna til langs tíma?
Gatan var rakin framhjá gatnamótum Sandakravegar og síðan beygt til hægri að Stóra-Skógfelli. Framundan var Arnarseturshraunið, sem er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum um 1226. Líklegt er að jólasveinarnir hafi flust á milli svæða, en þetta svæði er enn volgt – undir niðri – og því kjörlendi þeirra, sem vilja dyljast svo til allt árið.
Ef jólasveinarnir væru þarna einhvers staðar væri best að koma þeim á óvart með því að koma úr þeirri átt, sem síst væri von mannaferða á þessum tíma. Gengið var hljóðlega inn á hraunkantinn og áleiðis að mikill hrauntröð austan við eldgígana. Þegar stutt var eftir í tröðina sást hvar rauð húfa stóð upp úr skjannahvítum snjónum. Þegar þátttakendur nálguðust reis skyndilega upp jólasveinn undir húfunni og virtist hann hálf ringlaður og undrandi. Hann, sem er vanur að finna fók, átti greinilega ekki átt von á að fólk finndi hann.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hikandi gekk hann á móti FERLIRsfélögum, staðnæmdist í hæfilegri fjarlægð og kastaði kveðju á liðið. Það var ekki síður undrandi þótt búast megi nú við hverju sem er í FERLIRsferðum, eins og dæmin sanna.
Eftir svolitla stund hvarf feimnin af honum og hann bauðst til að fylgja FERLIR í hellinn, en einungis inn í anddyrið því annars yrði Grýla alveg brjáluð, eins og hann orðaði það. Auk þess væru hinir bræður hans enn sofandi, en sjálfur ætti hann að leggja af stað til byggða um kvöldið. Þau vildu ekki fá of marga gesti því þá væri hætta á að ekki yrði ráðið við strauminn og því enginn friður lengur.
Í ljós kom m.a., í annars dimmum hellinum, að jólakötturinn var ekki köttur,

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

heldur hundur. Það er greinilega ekki allt satt sem sagt er.
Stekkjastaur, en það sagðist jólasveinnin heita, bauð upp á góðgæti að hætti jólasveina, sagði sögu, flutti gamanmál og vildi síðan heyra fólkið syngja jólasöngva. Þegar sungið var “Jólasveinar ganga um gólf” þurfti hann að leiðrétta texta mannanna, sem notaður var, því auðvitað er farið upp á hól en engin kanna sett upp á stól. Af hólnum var litið til manna, eins og hann sagðist sjálfur oftast gera.
Þegar sveinki var spurður af því hvers vegna sungið væri: „Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum…“, svaraði hann því til að auðvitað væri með þetta eins og annað; hreppstjórinn í Grindavík hafi fyrir nokkrum mílárum handtekið fjóra ræningja, sem haldið höfðu til í gjá uppi á Þorbirni og hengt þá í Gálgaklettum þarna rétt hjá. Einhver fjölmiðill hafi síðar talið þá vera „jólasveina“ og sett þá vitleysu á prent fyrir langalöngu, en hún enn ekki fengist leiðrétt. Þess vegna vissi fólk ekki betur og tryði vitleysunni, eins og svo oft vill verða. „En ekki láta þetta rugla ykkur“, sagði hann, „við erum níu og reyndar fjórum betur. Og auðvitað komum við af fjöllum á leið okkar um og yfir þau með gjafirnar. Hjá því verður ekki komist, a.m.k. ekki hérna á Íslandi.“
„En áttu ekki að vera í íslenskri lopapeysu eða rollukápu?“, spurði snáðinn í hópnum.
„Ekki á jólunum. Þá klæðumst við sparifötunum, þessum hérna“, svaraði jólasveinninn og togaði með annarri hendinni í rauðu treyjuna. „Allshvunndags erum við nú bara í lopanum og skinninu“, lambið mitt. Það hefur reynst okkur best hér á þessum slóðum.“

Arnarseturshellir

Í Arnarseturshelli.

„En segið mér eitt“, bætti jólasveinninn við og lækkaði róminn. „Hafið þið heyrt nokkurn tala um rýrnunina á skreiðinni í trönunum hérna rétt hjá?“ Hann benti í suður. Allir komu af fjöllum. Ekkert svar.
„Nú, það er svo. Þá þarf ekki fleiri orð um það – ekki meira um það“, sagði sveinki og leit flóttalega í kringum sig.
Fljótlega þurfti Stekkjastaur að hverfa til skyldustarfa, greip með sér langan lista og stóran hvítan poka, snaraði honum á bak sér, kvaddi þátttakendur og hvarf út í miðhúmið.
Einn úr hópnum, sem virtist nú fyrst vera að átta sig, leit á hina og spurði með undrunarsvip: „Hver var þetta, hver lék jólasveininn?“.
Hinir litu á hann, brostu síðan og svörðuðu einum rómi. „Þetta var sjálfur jólasveinninn, ekta jólasveinn, sástu það ekki, maður“.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Einhverjir eltu jólasveininn út úr hellinum til að sjá hvers konar farartæki hann notaði, en allt kom fyrir ekki. Hann var horfinn með það sama. Jólasveinar virðast öðlast einhvern yfirnáttúrlegan mátt þegar að þeirra tíma kemur. FERLIR virðist því hafa verið á réttum stað á réttum tíma, rétt áður en máttur Stekkjastaurs varð virkur – ef ekki ofvirkur.

Auðvitað eiga Grindvíkingar jólasveinana, eins og svo margt annað á Reykjanesskaganum. Þeir eiga líka flest hraunin og svo til öll fjöllin og ef Hafnfirðingar hefðu ekki beitt brögðum til að ná til sín Krýsuvík á sínum tíma, ættu þeir nær allt, sem merkilegt getur þótt á skaganum – eða það segja Grindvíkingar a.m.k. Var ekki alþingismaðurinn kra(f)tlegi sem flutti tillögu um að afhenda Hafnfirðingum Krýsuvík jafnframt bæjarfulltrúi Hafnfirðinga? Hvað gátu hinir hógværu og kurteisu Grindvíkingar gert í þeirri pólitísku refskák á þeim tíma? „Pólitíkin er rúin allri kurteisi“ – eða það viðurkennir Gunnar Birgisson a.m.k. núna.

Kjöthvarfið

„Kjöthvarfið mikla“- myndin er úr eftirlitsmyndavél.

Áður en Stekkjastaur kvaddi var hann beðinn um góðar gjafir þátttakendum og öðrum til handa, einkum þó gnægð kærleika, hamingju, góðar heilsu og nægan tíma, ef hann gæti eða mætti miðla einhverju af því sem hann ætti af slíku. Veraldlegar gjafir voru afþakkaðar (þótt góðir gönguskór komi sér nú alltaf vel).

Til fróðleiks má upplýsa hér að Stóra heimaslátrunarmálið snérist um haldlagningu á miklu magni af heimaslátruðu kindakjöti hjá Grindavíkurbændum. Því var síðan stolið úr fórum yfirvalda og virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Íbúarnir þögðu allir sem einn. Utanaðkomandi sögðu þó að eigendurnir hefðu einungis fært það tímabundið á milli frystigáma og læst á eftir því til að tryggja betur geymslu þess, en aðrir vildu halda því fram að „einhverjir jólasveinar“ hefðu tekið það ófrjálsri hendi. En engin trúði hinum síðarnefndu að sjálfsögðu. Að einu má þó ganga sem vísu; það er löngu búið að eta öll sönnunargögnin.
Frábært veður – stilla og logn. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.

Útskálar

„Fornleifastofnun Íslands ses hefur síðustu vikur staðið fyrir björgunnaruppgreftri að beiðni Menningarseturs að Útskálum ehf á bæjarhólnum á Útskálum í Garði á Reykjanesi. Uppgröfturinn flest í rannsókn á um 25 m2 svæði við gamla íbúðarhúsið að Útskálum sem áætlað er að gera upp.

Útskálar

Kambur úr uppgreftri við Útskála.

Grafið hefur verið niður á 2,5 m dýpi og þegar hafa 3 mannvirki komið í ljós. Tvö þeirra eru frá seinni öldum (nákvæm tímasetning hefur ekki enn fengist), hellustétt og torbyggt hús með uppistandandi timburþili. Á síðustu dögum hefur komið í ljós torfbyggt hús með vel varðveittu timbri, hugsanlega úr þaki, sem gjóskulög tímasetja fyrir seinni hluta 12. aldar. Uppgreftri á þessu mannvirki stendur enn yfir, en allt bendir til þess að líklegast sé ekki um íveruhús að ræða, heldur einhversskonar útihús.

Ekki hefur fundist mikið af gripum við uppgröftinn, en á þriðjudaginn var fannst vel varðveittur kambur í hruni úr elsta mannvirkinu. Þessi gripur er einstakur á Íslandi af því best er vitað, en svipaðir kambar hafa fundist í Noregi í lögum frá 13. öld, en þessi er örugglega eldri en það. Kamburinn er einstaklega vel varðveittur, nánast allar tennur eru heilar og er fallega skreyttur með depilhringamunstri. Kamburinn er nú í forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands.“

Uppgröftur þessi staðfestir enn og aftur mikilvægi lítt rannsakaðra fornminja á Reykjanesskaganum.

Sjá meira undir http://www.instarch.is/

Garður

Útskálar – fornleifar.