Hólmur

Vegna mikillar aldursbreiddar í hópnum var ákveðið að nota vel hið frábæra veður og fara skemmtilegan hring og skoða það sem fyrir augu bæri.

Hólmur

Hólmur – eldhús.

Í stað þess að fylgja FERLIR-323 upp á Þráinsskjöld var ákveðið að halda að Hólmi við Suðurlandsveg og líta á Hólmshelli í bæjartúninu. Norðan hans er forn stekkur og austan opsins er gömlu bæjartóttirnar á Hólmi hinum forna. Sjást þær vel sem og hlaðnir garðar beggja vegna hans. Þá sést gamli túngarðurinn sunnan túnsins enn mjög vel. Vestan við hellisopið er fallega hlaðið hús, sem enn stendur svo til heilt. Þetta er fyrrum eldhúsið á Hólmi, síðar notað sem reykkofi (Valur).
Kíkt var ofan í Raufarhólshelli í Þrengslunum og síðan haldið að Herdísarvík. Byrjað var á því að leita að norðurenda Breiðabásshellis. Op fannst upp í Mosaskarði. Um er að ræða djúpa og að öllum líkindum mjög greiðfæra hraunrás. Ætlunin er að fara þangað fljótlega með góð ljós og kanna hellinn.

Hólmur

Hólmur – kirkjugarður.

Þá var leitað að fjárborgunum tveimur, sem sagt er frá í gömlum heimildum, niður við Herdísarvík. Þær fundust báðar svo og gamla réttin. Skoðaðir voru garðarnir, Austurgarður, Miðgarður og Vesturgarður áður en haldið var að Krýsuvíkurhrauni. Þar var skoðað hlaðið byrgi og aðhald skammt fyrir innan það. Þegar komið var á móts við Lambafell var rally í gangi á veginum svo ákveðið var að ganga upp á Sveifluháls og skoða merkilega gatakletta, sem þar eru á tilteknum stað. Litbrigðin í fjöllunum og klettunum á þessu svæði eru ólýsanleg við bestu birtuskilyrði.
Frábært veður.

Sveifluháls

Örnefni á Sveifluhálsi – ÓSÁ.

Kaldársel

Farið var í fylgd Jóns Bergs um Álftanesið, Kaldársel, Vatnsleysuströnd og Grindavík. Jón er hafsjór fróðleiks, hvort sem um er að ræða jarðfræði, verkfræði, sögu, náttúru, landamerki eða annað.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata – Jón Bergs.

Skoðaður var Skjónasteinninn á Hliði og forn steinbrú yfir Skógtjörnina, frá Görðum að Bessastöðum. Jón sýndi fram á nytsemi blaðfífilsins, en hann, ásamt njólanum, var fluttir inn af Dönum til neyslu á sínum tíma við takmarkaðan áhuga landans. Hvorutveggja er tiltölulega auðvelt að matreiða með góðu móti.
Staðnæmst var við staðinn þar sem Hraunréttin var í Gráhelluhrauni (nú horfin) og við brunninn þar sem vatnið úr gömlu vatnsleiðslunni frá Kaldárbotnum rann niður í hraunið austast í Sléttuhlíð, og áfram niður í Lækjarbotna.
Gengið var um Kaldársel, skoðaður gamli selsstaðurinn, landamerkin og gengin gamla þjóðleiðin að staðnum. Hún er klöppuð ofan í bergið á kafla, skammt austan Nátthaga.
Jón lýsti vegagerð og akstri um Vatnsleysuströndina sem og eftir gamla Grindavíkurveginum. Staðnæmst var í byrgjunum við veginn á Gíghæð. Eitt byrgi til viðbótar fannst í þessari ferð.
Farið var í gegnum Grindavík og því lýst sem fyrir augu bar.
Fróðleikur úr ferðinni verður nýttur í aðrar leiðarlýsingar – eftir því sem við á.

Gíghæð

Gamli Grindavíkurvegurinn um Gíghæð vestan Arnarseturs – uppdráttur ÓSÁ.

Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Stapaþúfa

Gengið var að Ólafsgjá þar sem Ólafur Þorleifsson frá Hlöðuneshverfi féll niður í þann 21. desember árið 1900 og fannst ekki fyrr en um 30 árum síðar (sjá nánar Frásagnir). Við gjána er myndarleg varða. Nefnd gjá er spölkorn ofan við Stóru-Aragjá, um 2.5 km austan núverandi Reykjanesbrautar. Neðar er Litla-Aragjá. Skammt vestan hennar eru gatnamót, annars vegar götu upp í heiðina frá Vogum og hins vegar stígs upp í Brunnastaðasel. Auðveldast er að finna Ólafsgjá með því að taka er mið af stærstu vörðunni á barmi Hrafnagjár og halda í beina stefnu á Kastið í Fagradalsfjalli. Um miðja vegu birtist Ólafsvarðan á gjárbarminum og vísar leiðina á staðinn.

Ólafsvarða við Ólafsgjá

Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Frá Ólafsvörðu var haldið að Stapaþúfu og greni skoðuð í Stóru-Aragjá beint neðan þúfunnar. Haldið var til norðurs í Gjásel, 7 keðjuhúsa sel, eitt hið fallegasta á Reykjanesi. Það hvílir undir gjárveggnum. Vestan við það eru tveir hlaðnir stekkir. Tekin var krókur til suðausturs að hinu gamla Hlöðunesseli, en það kúrir í brekku ofan við mikið landrof. Gengið var til suðurs frá því að Brunnastaðaseli. Í því eru tóttir stórra húsa á þremur stöðum. Fallega hlaðin kví er í gjánni aftan við selið. Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll. Á honum er varða.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Lagt var upp frá henni á Þráinsskjöld og ekki staðnæmst fyrr en í grasivöxnum aðalgígnum. Um er að ræða fallega lægð efst á hraunbungunni. Ekki er auðvelt að finna hann, en staðkunnugur heimamaður úr Vogunum var með í för og gerði það leitina auðveldari. Þráinsskjöldur er geysistór hraundyngja, sennilega um 16 þúsund ára gömul, og frá henni hefur komið geysilegt hraunflæmi. Frá miðju hans er langt til allra átta. Frá gígnum blasir Keilir við í norðaustri, Litli-Keilir, Trölladyngja, Núpshlíðarháls. Litli-Hrútur, Hraunsels-Vatnsfell – Stóri-Hrútur, Fagradalsfjall, Mælifell og loks Fagradals-Vatnsfell í norðvestri. Í fjarska sést Snæfellsjökull vel. Aðrar megindyngjur á Reykjanesi eru Sandfellshæðin og Hrútargjádyngja.

Breiðagerðisslakki

Brak á Slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Þegar haldið var niður dyngjuna var gengið yfir greinilega götu er virtist liggja áfram vestan við Keili. Líklega sameinast hún götunni yfir hraunið norðan Driffells er síðan kemur inn á Selsvallastíginn norðan vallanna. Skoðuð voru greni vestast í Eldborgum, auk þriggja refabyrgja, sem þar hafa verið hlaðin. Þá var haldið í Knarrarnessel, en í því eru tóttir þriggja selja. Knarrarnessel er frábrugðið öðrum seljum á Reykjanesi að því leiti að það er ekki í skjóli við gjá eða hæð heldur stendur það á hól. Við það eru bæði hlaðnar kvíar og stekkir. Loks var flak þýskrar njósnaflugvélar skoðað í Breiðagerðisslakka, en hún var skotin niður af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Áhafnameðlimurinn var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn handtóku í stríðinu (sjá meira undir Fróðleikur og Lýsingar).
Gangan tók 5 klst og 3 mín. Veður var stórfínt, sól og gola.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Skálafell

Eftirfarandi viðtal var tekið við einn FERLIRsfélaga og birtist í hinu virta dagblaði Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum:

Hvað er FERLIR?

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIR er FErðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Í hópnum eru auk starfsmanna deildarinnar fleira fólk, s.s. úr sektardeild embættisins, almennu deild, útlendingaeftirliti og fleiri deildum, allt eftir áhuga hvers og eins sem og á hollri og nauðsynlegri hreyfingu og vilja til að skoða áhugaverða staði eða minjar, sem virðast leynast víða. Þá hafa allir aðrir, áhugasamir, jafnan verið boðnir velkomnir í hópinn. Morgunblaðið ræddi á dögunum við einn forkólfa FERLIRs, Ómar smára Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í Reykjavík.

Hvar og hvað hafðið þið verið að skoða að undanförnu?

Almannavegur

Gengið um Almannaveg.

“Við höfum einbeitt okkur að Reykjanesinu. Ætlum okkur að klára það áður en við snúum okkur að öðrum svæðum. Á þessu svæði átti norrænt elsti hluti norræns landsnáms sér stað. Það eru elstu minjarnar – ef vel er að gáð. Það er svo til öll atvinnusaga landans – í landinu. Minjar eru svo til við hvert fótmál. Það eina sem þarft til er að fara út og skoða. Stundum þarf að leggja svolítið á sig og að leita, en það er allt þarna við fætur fólks, sem hefur áhuga. Þarna eru t.d. gömlu tóttir bæjanna, sem fólkið, er lagði drög að nútíðinni, húkti í öld fram af öld. Þarna eru sjóbúðirnar, naustin, varirnar, siglingamerkin, sundvörðurnar, brunnarnir, selin, selstígarnir, vatnsstæðin, stekkirnir, kvíarnar, fjárhellarnir, vatnsstæðin og vörðurnar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Jafnvel réttirnar, útilegumannahellarnir, aftökustaðirnir, dómhringirnir og lögrétturnar eða hvaðanaæva er tengdist lifnaði eða lifnaðarháttum fólks liðins tíma. Það er allt þarna úti – ef einhver hefur áhuga.
Refabyrgin, refagildurnar eða grenin – bara nefndu það. Eða hinir fjölmörgu hellar og skútar, sem tengjast einstökum sögum, s.s. Arngrímshellir, og Sængukonuhelli.
Eða drykkjasteinarnir, eða letursteinarnir eða…. Að ekki sé minnst á náttúruna sjálfa og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Bara nefndu það. Það er engin afsökun til að skoða þetta ekki. Lítið sem ekkert af þessu hefur verið haldið að fólki”.

Hvað er verið að skoða?

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

“Allt, sem kann að vera áhugavert frá liðinni tíð. Leitað er í bókum, ritum, sögnum, lýsingum, minningarbrotum og örnefnaskrám og höfð viðtöl við eldra fólk, sem kann frá einhverju merkilegu að segja. Svo virðist sem þjóðsögurnar, sem gerast reyndar hlutfallslega fáar á Reykjanesi, eigi sér svo til allar tilvísun í staði eða staðhætti. Þannig má sannanlega sjá merki þeirra á Selatöngum, í Ögmundarhrauni, í Draughelli í Valahnjúk, í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og í Bálkahelli í Krýsuvíkurhrauni, í Kerlingadal austan við Eldborg eða á Vörðufelli ofan við Selvog.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Á þessu landsvæði m.a. sjá ein elstu mannvirki landsins, s.s. Skagagarðinn mikla, Fornagarð Í Selvogi, skálann og tóttirnar í Húshólma og Óbrennishólma, minjarnar fyrir ofan Stórubót í Grindavík, kapelluna í Kapellulág við Hraun, dysjarnar við Hraun og víðar, grafirnar við Hafurbjarnastaði eða á Draughól við Garðskaga og svona mætti lengi telja. Þá eru ekki upptaldir letursteinar, sem víða má sjá og hafa skýrskoutun til gamalla heimilda, s.s. letursteinninn við Prestsvörðuna er sr. Sigurður Sívertssen lét höggva í eftir að hafa lifað að harðviðri, rúnasteininn í Kistugerði, áletranir í Másbúðarhóla, leturstein neðan við Kálfatjörn frá 1674, skósteininn í brúnni vestan kirkjunnar, vörðuáletranir, s.s. í Stúlknavörðunni (1777) ofan við Stapann, letur- og ártalssteinana á Vatnselysuströnd, t.d. við Knarrarnes og svona mætti lengi telja.

Þá er ekki talað um allar þær fornu leiðir, sem farnar voru og enn má merkja ef ve er að gáð”.

Hafið þið skráð eitthvað af þessu?

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

“Við höfum fram að þessu notað upplýsingarnar sem ákveðið tilefni til útivsitar. Stundum höfðum við þurft að fara nokkrum sinnum á sama stað til að finna það sem lýst var. Stundum finnum við annað en það sem lýst var og merkilegt kann að þykja. En við höfum fram að þessu ekki skráð það sérstaklega. Teljum það hlutverk annarra, einkum þeirra sem fram að þessu hafa einungis fengið tækifæri til að skrá og varðveita minjar, sem sögulegar kunna að teljast. Annars er það okkar mat að minjar eigi að varðveitast á staðnum Þær á ekki að færa í eitthvert miðlægt munsteri – víðs fjarri – jafnvel þótt fjöldinn kunni að vera þar. Enginn hefur gott að því – síst sagan eða munirnir. Þeir halda einungis gildi sínu á þeim stað er sagan skóp þeim tilvist – eða öfugt. Aðalatriðið fyrir okkur er hreyfingin. Allt annað bætir um betur. Við þolum hins vegar enga linkennd. Annað hvort er fólk tilbúið til að takast á við það sem bíður þess eða ekki. Ekki er hlustað á kvartanir. Ef einhver gefst upp er leitað að því sem kann að nýtast öðrum til framtíðar, t.d. göngustafnum”.

Hversu margir hafa ílengst frá upphafi og ekki gefist upp?
“A.m.k. tveir”.

Er ætlunin að halda áfram?

Ferlir

Ferlir á ferð um Húshólma.

“Já, svo lengi sem eitthvað er eftir óskoðað. Við höfum þegar farið 317 ferðir á Reykjanesið, en sýnt er að við höfum einungis skoðað það að hluta. Við eigum eftir að skoða selin norðan og austan Búfells og sandana ofan Selvogs svo eitthvað sé nefnt. Og margir hellar eru enn óskoðaðir. Þetta svæði er geysilega víðfeðmt og hefur upp á ótrúlega margt og mikið að bjóða. Jarðfræði landsins er t.d hvergi eins opin og áberandi og þar. Lesa má svo til alla landsmótunina frá vitsmunalegu upphafi á svæðinu og mörg hraunanna hafa runnið eftir að norrænt landnám hófst. Líklega þarf hver og einn að þekkja a.m.k. svolítið til um fortíðina til að geta skilið betur framtíðina. Nútíðin, þ.e. dagurinn í dag, var framtíðin í gær, en verður fortíðin á morgun. Með því má sjá hversu fortíðin getur verið, ekki bara okkur, heldur og öðrum, sem á eftir koma, dýrmæt. Sá veldur, sem á heldur. Þeir sem ekkert gera, vanrækja framtíðina. Viljum við það”.

Hvað er framundan?

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

“Meiri hreyfing – í fallegu mhverfi innan um minjar forfeðra og –mæðra og sögu þeirra, sögu liðins tíma – okkar tíma í fortíð, nútíð og framtíð”.

Ljóst má vera að framangreint er einungis svör við framkomnum spurningum, en ef spurt hefði verið nánar um eigindlega möguleika fyrirliggjandi upplýsinga, hugsanlega greiningu eða túlkun þeirra, aðferðir eða aðferðafræðileg hugtök, mögulegra kenninga eða væntanlegar niðurstöður hefðu svörin án efa orðið önnur. Þannig mótast svörin jafnan af spurningunum.

Túlkun niðurstaðna út frá fyrirliggjandi upplýsingum er jafnan talin gild – þá og þegar hún er lögð fram – en hún er líka fljót að breytast þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem jafnvægi aukist með fjarlægðum – því lengra sem líður frá túlkun gagna því líklegra er að hún nálgist áreiðanleikann fyrrum.

Arngrímshellir (gvendarhellir)

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Finsstaðir

Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.

Finnsstaðir

Finnsstaðir.

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Mosaskarð

Gengið var frá Herdísarvík að Mosaskarði og síðan gamla Herdísarvíkurleiðin efri (Hlíðarleiðin) með Herdísarvíkufjallinu yfir að Lyngskyldi. Haldið var frá Herdísarvík með vesturjarði Stakkavíkurhrauns að Mosaskarði og síðan beygt inn á gömlu Hlíðarleiðina með fjallinu til vesturs. Háir hamrar voru á hægri hönd og sléttgróið mosahraunið á þá vinstri. Á leiðinni voru skoðaðir 4 drykkjarsteinar og fjárskjól uppi í hlíðinni.

Drykkjarsteinninn

Drykkjarsteinn við Herdísarvík.

Fyrsti drykkjarsteinninn, og sá stærsti, er hægra megin við leiðina, í lægð svo til beint fyrir ofan Herdísarvík. Tekur skálinn á annað hundrað lítra af vatni. Við hann hefur hefur verið hlaðinn stallur svo auðveldara væri fyrir ferðalanga að nálgast vatnið. Skammt þar vestar, vinstra megin er annar drykkjarsteinn, minni. Hallar annar steinn sér utan í hann. Skálin er nokkuð djúp. Miðja vegu, þó nær Grasbrekkunum, er fjárskjólið upp í hlíðinni, sést það vel þar sem grasbrekka er undir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn við Grænuflöt.

Skammt austan við Brekkurnar, hægra megin við leiðina, er drykkjarsteinn, svipaður þeim síðasta og þar skammt vestar, einnig hægra megin við leiðina, er annar stærri. Ofan í hann er klofi og er þar vatn í. Suðvestan við steininn er skrokkur af nýdauðri rollu. Vestar er Fálkageiraskarð það er Einar Ben. ætlaði að fara um á leið sinni í „sollinn í Reykjavík“ er hann var stöðvaður þar af nafna sínum að kröfu Hlínar. Skammt vestan við Brekkurnar er Lyngskjöldur. Mótar þar vel fyrir gömlu þjóðleiðinni.
Eftir þetta var einn FERLIRsfélaga að grúska í gömlum sögnum og fann þá sögu um drykkjarsteininn austan við Lyngskjöld. Sagði þar m.a. að sá, sem drykki úr steininum, skyldi gæta þess að tæma aldrei skálina, en skilja eftir vatn fyrir næsta förumann, annars kynni illa að fara.

Herdísarvík

Drykkjarsteinn í Herdísarvík.

Hafnarfjörður

Eftirfarandi um Hafnarfjörð er úr „Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983„, eftir Ásgeir Guðmundsson.

Hamarinn

Hamarinn.

„Allir eru velkomnir til Hafnarfjarðar, í landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, fyrsta norræna landnámsmannsins hér á landi. Í dag nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjaðar yfir þéttbýlið við fjörðinn og 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krísuvík og vestur fyrir Straumsvík. Saga bæjarins er samofin sögu verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð.

Hér settist Bjarni Síverstsen, sem við köllum faðir bæjarins, að og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á leið sinni aftur til Noregs: Þá rak bát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið. Þar fundu þeir dauðan hval og gott skipalægi. Síðari saga segir frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði árið 1492 á einni ferða sinna yfir Atlantshafið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1772.

Í landi Hafnfjarðar eru margar náttúruperlur, hér má sjá margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunið, hitann, vötnin og tjarnirnar auk margs konar fugla- og plöntulíf og sumt fágætt.
Við sem búum í Hafnarfirði erum stolt af bænum okkar hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjarins, íþrótta- og útivistarbæjarins eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins. Íbúar bæjarins eru á 18 þúsund. Ljóst er að Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenni bæjarins eru fjölbreytt útivistarsvæði með gönguleiðum, hellum, seljum, fjárborgum, fjöllum, hlíðum og dölum – sem sagt; eitthvað fyrir alla“.

Heimildir:
Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.

Óbrinnishólar

Gengið var um Óbrinnishólaker, sem er mosavaxin hrauntjörn, að Óbrinnishólahelli. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Syðri Óbrinnishóllinn er nú óðum að hverfa vegna. Greinilegt er að gígbarmurinn hefur verið all tilkomumikill, ef marka má það litla, sem eftir er af honum að sunnanverðu. Nú er verið að dunda við að rífa niður það litla sem eftir er af honum. Þarna leynast ýmsar forvitnilegar hraunmyndanir, sem auðvelt er að láta ímyndunaraflið skapa; tröll, álfa, huldufólk eða annað sem hugurinn kýs.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – „milli mjórra dranga“.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.
Gengið var yfir slétt helluhraunið á Bruna (Óbrinnisbruna) og yfir moldarþakta tjörnina, sem jafnan er þarna, en er nú alveg þurr og það í byrjun sumars. Stígur er þarna norður hraunið í átt að Stórhöfða, en hann hefur verið skemmdur á kafla vegna malar- og hrauntöku.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Haldið var yfir hrauntröðsbrúna vestan Krýsuvíkurvegar og niður í Brunntorfur. Skoðað var fjárskjól Þorbjarnarfólksins efst í torfunum og síðan gengið niður með grónum hraunkanti að Þorbjarnarstaðarfjárborginni. Borgin er mjög falleg og heilleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar. Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal (Álfsstöðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan.
Gangan tók 1 og ½ klst. Frábært veður.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárskjólshraunshellir

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..

Krýsuvík

Krýsuvík – Augun.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.

Arngrímshellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) í Krýsuvíkurhrauni

Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.

Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – tóft.

Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.