Reykjanesskagi

Hér á eftir eru nokkur helstu atriði varðandi gróðurfar á Reykjanesskaga.

1. Sérkenni gróðurfars:

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.

Á miklum hluta láglendisins eru eldhraun. Eldhraunin eru hriplek. Vindasöm sumur – umhleypingasamir vetur.
Gamburmosinn er einkennisplanta Reykjanesskagans því gamburmosi er einkennisgróðurlendið. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar smám saman jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Mosaþemba útbreiddasta gróðurlendið. Skiptist í fernt: mosaþemba í einföldustu mynd, mosaþemba með lyngi, mosaþemba með lyngi og kjarri og mosaþemba með grasi. Mólendi austast á svæðinu. Graslendi á köflum. Kjarrlendi í Almenningum. Votlendi við Kleifarvatn. Ógróið land (meirihluti Reykjanesskagans er gróinn þótt gróðurþekjan geti oft verið lítil). Ógróið á melum, skriðum, úfnum hraunum, efri brúnum fjalla og á uppblásnu landi.
Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari og fer það saman við bergmyndun hans: Móbergssvæði, grágrýtissvæði og Miðnesheiðina.

2. Helstu orsakir gróðureyðingar:

Rofabarð

Rofabarð á Krýsuvíkurheiði.

Ofnýtt af mönnum og af skepnubeit. Ástæður einnig sandfok, kuldi, vatns- og vindrof, frost, gos og jökull. Mest er jarðvegseyðingin í mólendi og grasbrekkum. Um Reykjanesfóksvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins. Jarðvegur er rýr og að mestu myndaður úr gosefnum og því fokjarn. Veðrátta jafnan óhagstæð og umhleypingasöm veður.

3. Landgræðsla og skógrækt:

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

1938 var sáð í sandinn í Stóru-Sandvík, uppsprettu sandfoksins á vestanverðum skaganum. Girðingar voru settar upp. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur stuðlað mjög að landgræðslumálum. Grindavíkurgirðingin (landgræðslugirðing) varð til þess að stemma stigum við ágangi búfjár handan hennar. Gróður tók fljótlega við sér. Uppgræðsla innan landgræðslugirðingarinnar á Reykjanesi var algerlega uppblásið. Nú endurgrætt. Ýmis áhugamannafélög og fyrirtæki hafabeitt sér í landgræslu, einnig einstaklingar. Flugvél landgræðslunnar hefur verið notuð af og til frá 1975. Skógræktarfélag Suðurnesja frá 1950 (Sólbrekkur) og Skógræktarfélag Grindavíkur (Selskógur). Auk þess Háibjalli og Álaborg.

4. Friðlýstir staðir:

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldey og Stóra-Eldborg – Reykjanesfólkvangur.
Náttúrminjaskrá: Reykjanesið sjálft, Ósar, Sandgerði og Garður, Vatnsleysuströndin, Seltjörnin og Snorrastaðatjarnir, Sundhnúkar, Staðarhverfi, Þórkötlustaðahverfi, Katlahraun, Keilissvæðið að austanverðu.
Svæðið er auðugt af menningarminjum, fágætum jarðfræðifyrirbrigðum og merkilegt með hliðsjón af gróðurfari.

5. Sérkenni dýralífs:

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Refur og minkur – mýs og rottur, hreindýr, selir, fuglar í fjörum, vötnum, skerjum, móum og björgum. Fimm meginkjörlendi; hraun, heiðar, tjarnir, klettar og fjörur.

6. Jarðmyndanir:
Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem m.a. Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

7. Jarðsyrpur:

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið þar klappir og mótað landið áður en hann hopaði.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls, Vesturháls, Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfellahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Hellnahraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít). Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna Heiðina há og Strandarheiði. Þetta voru mikil gos er skiluðu miklu hraunmagni. Grágrýtishraunin (þóeilít), auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Húshellir

Við Húshelli við Hrútagjárdyngju.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en einnig helluhraun (Arnarseturshraun).

Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má einnig sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir, auk dropasteina og hraunstrá í hellum.

Fyrir áhugasamt fólk um gróður, dýralíf og jarðfræði er Reykjanesskaginn kjörinn nærtækur vettvangur.

Afstapahraun

Hraunbátur í Afstapahrauni.

 

Húshólmi

Gengið var niður með austanverðu Ögmundarhrauni. Talið er að hraunið hafi runnið 1150. Nokkurn veginn miðja vegu að Húshólmastíg er nokkuð stórt bogadregið gerði utan í hraunkantinum. Óvíst er hversu gamalt þetta er, en líklega hefur það verið notað sem hestagerði.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var 1.1 km inn eftir Húshólmastíg. Stígurinn er bæði breiður og vel ruddur. Komið er niður í rana á norðaustanverðum hólmanum. Þegar gengið er niður má sjá h beggja meginn stígsins, líklega til að varna fé uppgöngu. Þegar gengið er niður ranann er komið að hleðslum yfir stíginn og skammt þar frá er stekkur hægra megin við hraunkantinn, nokkuð stór. Vestan við stekkinn má sjá nokkrar tóttir. Þær gætu hafa verið sel frá Krýsuvík, en lega þeirra er í samræmi við legu flestra annarra selja á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við tóttirnar má víða sjá vatnsbolla. Handan við hraunhornið hægra megin er skotbyrgi refaskyttu, andspænis greni í nokkurra metra fjarlægð til austurs. Steinn er ofan við opið. Enn innar, upp í krika að norðanverðu, má sjá móta fyrir mjög gömlu garði – í boga út frá gróinni hrauntotu.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Hóll í suðri er gömul fjárborg. Haldið er framhjá henni, niður með hraunkantinum og er þá komið að gömlu garði er liggur upp í hólmann, undan hrauninu. Sjá má slitrur af honum ofar í hólmanum, í beinu framhaldi, ef vel er að gáð. Spölkorn neðar liggur annar stór garður neðanfrá hólmanum og hverfur undir hraunið. Sjá má framhald garðsins fyrir innan hraunkantinn. Sunnan garðsendans liggur stígur til vesturs inn í hraunið. Honum er fylgt spölkorn uns komið er að vörðu. Þar neðan við eru tóttir gamla Krýsuvíkurbæjarins, vel greinilegar. Vestan við þær sjást aðrar tóttir og norðan þeirra er forn bátlaga skáli, sem hraunið hefur runnið upp að allt um kring. Ef farið er ofan í skálina og flötum steinum lyft má sjá hvar miðsperrurnar, sem héldu uppi loftinu, voru. Ganga þarf frá öllu aftur eins og það var.

Husholmi-24

Skálatóft í Húshólma.

Umhverfis má sjá fleiri göt í hrauninu eftir að það rann að öðrum húsum, flestum líklega topphlöðnum, sem bendir til þess að tóttirnar séu mjög gamlar. Sýnatökur í hólmanum staðfesta reyndar að svo sé, eða allt frá um og fyrir 870. Stígur liggur áfram til vesturs að Óbrennishólma. Þar eru a.m.k. tvær fjárborgir, önnur mjög stór, og hlaðinn garður, sem hraunið hefur runnið að og stöðvast. Þá er þar einni langur garður langleiðina upp hólmann, sem enn sést móta fyrir. Óbrennishólma verður líst annars staðar.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Fylgt er stíg til norðurs, að gömlu Krýsuvíkurkirkju. Vestan við hana er greinilegur garður. Liggur hann í boga að kirkjutóttinni og virðist hafa umlukið hana. Innan garðsins virðast vera tóttir af skála. Vestan hans liggur stígur til suðvesturs inn í hraunið, í áttina að brúnavörðum. Þessi stígur var ruddur af sonum Krýsuvíkur-Gvendar, og er mjög fallegur á köflum. Hann nær þó ekki alla leiðina yfir hraunbrúnina, heldur endar skammt norðaustan við hæð þá, sem vörðurnar eru á. Þá er reyndar skammt eftir ofan af hraunbrúninni yfir á sléttan stíg er liggur upp með hraunkantinum að Óbrennishólma og áfram að og fyrir Lat.

Húshólmi

Húshólmi – stígur að Brúnavörðum.

Genginn var kirkjustígurinn aftan við kirkjuna inn í hólmann. Þá var komið í Kirkjulágina, sem mun vera forn grafreitur, sem á eftir að kanna nánar, eins og reyndar svo til allar tóttirnar í Húshólma. Sunnan Kirkjuláginnar liggur enn einn garðurinn undan hraunkantinum að vestanverðum og upp að garðinum, sem lýst var áðan. Sá garður liggur áfram niður hólmann og hverfur undir hraunkantinn syðst í honum.
Syðst í hólmanum er tótt. Hún er hluti sjóbúðar, sem síðast var notuð 1913. Rekagatan, Hólmastígur, liggur niður að sjónum neðan hennar.
Annar stígur liggur suðaustan í Húshólma, svo til alveg niður við ströndina. Hann var genginn til baka. Þá var gengið ofan við Seltanga og komið við á grónu svæði ofan þeirra. Þar sést móta fyrir garði eða görðum undan hrauninu.
Húshólmi

Í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Búðarvatnsstæði

Gengið var til suðurs með Fjallgjá og síðan beygt til vesturs við vörðu á hól með stefnu að Sauðabrekkum. Litið var á skjólið í Brekkunum. Áður er farið á brú yfir gjá og er þá komi niður í nokkurs konar dal á milli hraunhóla. Þaðan var gangan auðveld til vesturs, upp á hraunhól, grasivöxnum að austanverðu. Áfram var haldið, framhjá hraunhól og með stefnu á Markhelluhól.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Gangan þangað tók rúmlega klukkustund. Á þá hlið hólsins, sem snýr mót norðri, eru klappaðir stafir bæjanna Krýsvíkur, Hvassahrauns og Óttarstaða. Norðnorðvestur af Markhelluhól er Búðarvatnsstæðið undir hraunkanti. Ekkert vatn var í vatnsstæðinu að þessu sinni, en það verður að teljast fremur óvejulegt því yfirleitt var hægt að ganga að því vísu að fá vatn þar á langri leið. Lengra í norðri er Gamlaþúfa og á henni er varða. Gengið vað að þúfunni, en hvergi annars staðar eiga eða vera stærri krækiber, en einmitt þarna utan í hólnum. Það reyndist einnig vera að þessu sinni.

Sauðabrekkufjárskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Gengið var að gígagröð norðan við Sauðabrekkur. Á leiðinni fór rebbi á harðahlaupum þvert fyrir göngufólkið og stefndi í norður -og leit ekki aftur. Litið var betur á gígana, sem eru hinir fallegustu. Austan við gígana eru nokkuð slétt hraun. Í því miðju er gat, ca. 7 metrar að ummáli og um 12-15 metra djúpt. Snjór var í botninum. Þetta virðist vera gamall gígur eða að hraun hafi þarna spýst upp um hraunrás. Hún virðist vera lokuð upp á við, til suðurs, en op virðist vera neðast í henni til norðurs. Þetta verður skoðað nánar í samstarfi við Hellarannsóknarfélagið. U.þ.b. hálftíma gangur er að opinu að Krýsuvíkurveginum.
Gangan tók 4 klst 51 mín. Frábært veður – sól og lygna.

Markhella

Áletrun á Markhellu.

Sængurkonuhellir

Farið var með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins. Í för voru fjórir áhugasamir Ítalir, samtals 14 manns. Byrjað var að skoða holuna í Brunntorfum. Hún er um sex metra djúp. Innundir henni er skúti. Í honum var talsvert af drasli, s.s. nokkrir plastpokar og krossviðsferðataska.

Sængurkonuhelir

Sængurkonuhellir.

Þaðan var haldið í Tvíbollahraun. Neðan undir hlíðinni, vestan Kristjánsdala, rakst FERLIR fyrir skömmu á holu í hrauninu. Stigi var látinn síga niður, en dýpið var um 7-8 metrar. Kom í ljós að þarna var um op á fallegri hraunrás að ræða. Lá hún upp á við spölkorn til suðurs, en neðri hraunrásin var á tveimur hæðum. Var skriðið eftir rásunum, en þær enduðu eftir nokkra tugi metra.
Þá var haldið í “Sængurkonuhelli” á Klifshæð í Herdísarvíkurhrauni. Þar er jarðfall. Vestan í því er skúti, sem vel gæti verið svonefndur Sængurkonuhellir, sem lýst er í gamalli sögu. Þar á kona á leið á milli bæja að hafa alið barn.

Sængurkonuhellir

Hraunstrá í Sængurkonuhelli.

Í einni örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS I) segir m.a.: “Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krýsuvíkurhrauns eða Krýsuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.”

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir í Klifinu við Herdísarvíkurgötuna gömlu.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS-II) segir einnig: “Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Þegar FERLIR var þarna á ferð nokkur áður, leitaði á Klifshæðinni og fann fyrst nefndan skúta lá ryðbrunnið emelerað vaskafat í honum – tákn um mannvistir. Kanturinn á nýrra hrauni er skammt ofan við jarðfallið, sem hellirinn er í.
Sunnan í jarðfallinu eru tvö op. Fyrir eystra opinu er steinn, en þegar inn fyrir hann kemur má sjá göng undir hraunið. Eftir m 30 metra þrengist hellirinn, en innan þrengingarinnar greinist hann í þrennt. Þar fyrir innan eru falleg hraunkerti og hraunstrá. Hæg er að fara inn í þessar rásir um gat á milli skútans og austasta opsins, en þþá þarf að skíða yfir lítið jarðfall. Framan við jarðfallið eru mannvistarleifar; m.a. hleðslur á tveimur stöðum.
Hinn þjóðsagnakenndi Sængurkonuhellir, sem nefndur er í örnefnalýsingum er í Klifinu skammt sunnar, eins og áður sagði.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Loks var haldið í Mosaskarð. Þar í skarðinu er op uppi á hraunhól. Um 4 metrar eru niður í hraunrás í hólnum. Rásin liggur nokkra metra upp á við, en þegar haldið var niður á við var komið að, því er virtist, sendinni holu í gólfinu. Þegar mokað var upp úr holunni með sléttri nálægri hraunhellu, var hægð að stinga sér ofan í hana – og þá opnaðist gat áfram – að því er virtist. Eftir að hafa skriðið niður í holuna og upp úr henni aftur að handan var komið inn í mannhæða hraunrás, rislaga með tiltölulega sléttum brúnleitum veggjum. Ekkert hrun var í rásinni og gólfið heilt. Það hallaði undan og rásin beygði aflíðandi uns komið var að þeim stað þar sem gólf og loft komu saman. Þetta er með eftirminnilegri hellum, sem farið hefur verið í, bæði fallegur og þurr.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

Á næstunni er ætlunin að fara með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins í Krýsuvíkurhelli, en í honum eru einnig hleðslur á nokkrum stöðum, auk þess sem alveg er eftir að skoða efri huta hans. Hann er skammt fyrir ofan Krýsuvíkurbergs austan Bergsenda.
Þá er ætlunin að fara í Leiðarenda í Tvíbollahrauni, auk þess sem stefnt er að ferð fljótlega í Hrútardyngjuhellana, s.s. Maístjörnuna, Hýðið, Húshelli, Þumal, Aðventuna, Langhelli, Neyðarútgöngudyrahelli, Steinbogahelli og fleiri hella á svæðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli – fyrsta sinni.

Kaldársel

Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Kaldársel

Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.

Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

 

Kaldársel

Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum.  Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.

 

Vorréttin

Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.

Vorrétt

Vorréttin.

Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðaskjól.

Kristjánsdalir

Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.

Grindaskarðavegur

Selvogsgatan um Grindarskörð.

Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsötu.

Markhella

Gengið var að Gvendarbrunni við Alfaraleiðina.
Norðan brunnsins er hlaðið fyrir skúta og myndað Klofakletturfjárskjól. Austar í hraunhólnum, sem skútinn er í, er hornstaur girðingar. Girðingin hefur legið í beina stefnu til suðurs og upp í hraunið, framhjá Gvendarbrunni. Hlaðið hefur verið undir girðinguna og sést hleðslan alla leið að endastaur upp í hrauninu í um tveggja klukkustunda fjarlægð. Þar hefur girðingin beygt til austurs þar sem sú lína endar í hornstaur við Krýsuvíkurveg skammt ofan við vegamót Bláfjallavegar, við landamörk Áss.

Markhella

Að sögn liggja mörk Straums frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá henni í Klofaklett í suður. Á Klofaklett á að vera klappað “ÓTTA”, “STR” og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól. Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan á línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða í örnefnalýsingum.
Markhella-2Við skoðun á Markasteini (Markhellu) var áletrunin eftirfarandi: KRV – ÓTTAR – HVASSA. Ef tekið er mið af því hversu áletrunin er annars greinilegt á mjúkri nánast lóðréttri hraunhellunni má telja líklegt að hún hafi verið gerð af einhverri óþekktri ástæðu einhvern tímann á 20. öldinni. Markhellan er mjög ólíklega landamerki, enda hafa þau jafnan verið miðuð við Markhelluhól við Búðarvatnsstæðið, sem er tæplega kílómetra norðvestar.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Gengið var niður með Gömlu-þúfu, sem einnig er getið sem landamerki þarna í stað Markhellu, og að hornstaurnum. Frá hornstaurnum var gengið til norðurs að Straumsseli og komið við í Efri-Straumsselshellum. Á leið frá þeim að Neðri-Straumsselshellum fannst enn ein hleðsla að opi fjárhellis. Allnokkur hleðsla er fyrir opin og hefur loft á gangi þess fallið niður og því sést það nú. Norðar er op Neðri-Straumsselhella og önnur hleðsla í sama helli skammt austar.
Straumsselið var skoðað gaumgæfilega, enda veður með ágætum. Þá var gerður uppdráttur af selinu og nágrenni. Þegar gengið var norðan við selið hljóp grábrúnn refur undan göngufólki, staðnæmdist skammt frá og virti það fyrir sér. Honum leist ekki betur en svo á hópinn að hann ákvað að láta sig hverfa.
Á leiðinni til baka var komið við í rétt, sennilega fráfærurétt, í hrauninu fyrir ofan Selshraun. Þar eru miklar hleðslur og svo er að sjá að þar hafi einnig verið reft yfir byrgi. Greinilegt er að fé hefur verið haldið þarna í hraunkantinum, því vel er gróið þarna í kring.
Gangan tók 6 klst og 2 mín. Frábært veður.

Markhella

Við Markhellu.

 

Kastið

Jeppa- og ferðalagaskóli Artic Trucks stefndi að Fagradalsfjalli. Ferðin var framhald kynningar FERLIRs á flugvélaflökum á Reykjanesskaganum í skólanum s.l. vetur.
Kastið - slysið var þar sem fólkið er efst á myndinniLagt var af stað á sérútbúnum jeppum. Þátttakendur voru þeir sem tóku þátt í umræddri kynningu, auk þess sem áhugasömum FERLIRsþátttakendum (húfuhöfum) var að sjálfsögðu boðið að slást með í för. Farið var að Kastinu þar sem skoðaðar voru leifar af flugvél þeirri er Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu fórst með 4. maí 1943. Þá voru skoðaðar leifar flaks í Langhól frá því 24. apríl 1941 og loks flugvélaflak í Langahrygg frá 2. nóv. 1941. Í þessum flugslysum fórust 28 menn, en 11 komust lífs af.
Eins og oft vill vera með nýja vegi þá gleymast þarfir annarra en ökumanna, sem um veginn eiga að fara. Aldrei er gert ráð fyrir útskotum svo fólk gefi stöðvað og lagt bílum sínum, t.d. ef það langar til að skoða nálæga áhugaverða staði. Þá er sjaldan gert ráð fyrir að fólk þurfi að aka spölkorn út fyrir veginn, s.s. inn á gamla slóða. Þannig er málum háttað við nýja Suðurstrandarveginn austan Grindavíkur.

Fagradalsfjall

Ferðalangar á leið umhverfis Fagradalsfjall.

Ekið var eftir slóða yfir Borgarhraun með stefnu á Einbúa, beygt með Kastinu og stöðvað í Fremstadal, en úr honum var þægilegast að ganga upp að fyrsta flakinu.
Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Bráðið ál á slysstað
Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.
Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í KastinuÍ febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.
Í Fremstadal er nokkurt brak, sem vindur og vatn hafa hrakið ofan af Kastinu.
Þá var haldið áfram inn Miðdal, framhjá Sandhól-Innri, eftir Innstadal og yfir Nauthóla og inn Fagradal þar sem staðnæmst var um stund í Dalsseli áður en haldið var á brattann norðvestan og milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Þar er slóðinn hvað óljósastur enda þvær vorvatnið þar klappirnar berar.
Leifar djúpsprengju við LanghólNæsti áfangastaður var norðaustan í Langhól. Leifar af flugvélinni eru af breskum Sunderland flugbát. Svolítið er enn á vettvangi slyssins um 1/5 neðan við efstu brún hlíðarinnar, sem hún skall á, en meira er í gili skammt austar og neðar. Þar eru leifar af djúpsprengum, auk ýmissa hluta úr vélinni.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:
“Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 “KG-G” úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.”
Hreyfill við LangahryggHaldið var áfram eftir slóðanum framhjá Mógili og út með Kistufelli. Haldið var yfir háls milli þess og Litla Hrúts og af honum niður bratta hlíð með stefnu á Stóra Hrút. Þegar komið var suður fyrir Einihlíðar var stefnan tekin að þriðja flugvélaflakinu, í Langahrygg.
Brakið er í grýttri hlíð mót austri. Smæstu hlutirnir eru enn á vettvnagi, en þeir stærri hafa runnið niður hlíðina og staðnæmst þar í gili.
Friðþór Eydal segir að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni “M Samtöl I” (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna.
Skóleifar við LangahryggTalsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni, sem fyrr sagði. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gilinu, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
“Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið “74-P-8” hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur örðum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Slysstaðurinn í LangahryggÞar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir “74-P-3” og “74-P-9” lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – minjar á slysstað.

Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.”
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977. Hún var hryllileg, enda fátt stórra hluta heillegir.
Frábært veður. Ferðin tók 8 klst og 8 mín.

Langihryggur

Brak flugvélar í Langahrygg.