Húshólmi

Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Latfjall fjær.

Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.

Fengið af:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=292

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Gíslavarða

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.

Rauðskinna I 44

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Reykkjanes
Eftirfarandi frétt birtist á MBL.is fimmtudaginn 22. júlí 2004:
„Fjöldi smáskjálfta á Reykjanesi“.
Reykjanes

Jarðfræði Reykjaness.

Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli klukkan 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli klukkan 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli klukkan 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu, að sögn Veðurstofunnar. Í morgun á milli klukkan 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur.“Við þetta má bæta að Fagradalsfjall er á einni af misgengisreinunum er ganga í gegnum Reykjanesskagann. Hver rein er virk í um 300 ár, en virknin liggur síðan niðri þess á milli.

Stampar

Stampagígaröðin.

Langar gígaraðir hafa myndast á reinunum, s.s. Stamparnir (4 gos), Eldvörpin, Sundhnúkarnir, Eldborgirnar, Vesturásagígaröðin, Brennisteinsfjöllin o.fl. Reinarnar eru að gliðna (um 1 cm að jafnaði á ári) og má t.d. sjá þess glögg merki í heiðinni ofan við Voga og einnig á Þingvöllum. Jörðin lyftist og hnígur. Gjárnar og misgengin bera þess einnig augljós merki. Misgengin má t.d. sjá þvert í gegnum Þorbjarnarfellið og á Hábjalla í Vogum, í sunnanverðu Helgafelli og víðar. Undirbergið (jarðskorpan) flýtur stöðugt niður í möttulinn á flekaskilum og verður að kviku, sem leitar á ný upp á yfirborðið. Möttulstrókur undir Vatnajökli heldur t.a.m. Íslandi á floti og viðheldur því. Þetta er lögmál jarðarinnar og gerist allt saman á lengri tíma en lifandi maður fær skynjað. Upphafið að sköpun alheimsins, eins og við þekkjum hann, er talið hafa átt sér stað með Miklahvelli fyrir 17 milljörðum ára. Síðan hefur þróunin haldið áfram og svo mun verða meðan tíminn verður til.

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Nyrst í Fagradalsfjalli er fallegur þverskorinn gígur. Víða í því eru ummerki eftir eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar. Stóri Hrútur og Kistufell er ágæt dæmi um umbrotin. Fjallið sjálft er geysilegur massi, sem mikla krafta þarf til að færa til. En þegar það gerist verða óneitanlega nokkur læti er vekja athygli, a.m.k. þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til að stíga ölduna. Umhverfis Fagradalsfjall eru fallegir eldgígar, s.s. Sundhnúkarnir og Vatnsheiðin, sem er gömul dyngja. Grindavík stendur t.d. á hrauni, sem kom upp úr þessum gígum fyrir nokkur þúsund árum. Þannig hefur mannfólkið hagnýtt sér þær hagstæðu aðstæður er sjóútrunnið hraunið hefur skapað með ströndum svæðisins. Fegurð þess er einstök (þá eru ekki talin með svæði, sem maðurinn hefur aflagað, t.d. með efnistöku); fallegir hraungígar, langar hrauntraðir, hellar og rásir, skjól fyrir gróður, dýr og menn, fjöll og dalir.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Þrátt fyrir að einstaka hraun sé umfangsmikið, s.s. Skógfellshraun og Arnarseturshraun, að ekki sé talað um Sandfellshæðina (sem reyndar er dyngja) þá hafa flest gosin á svæðinu gefið af sér lítil og nett hraun – og fagra gíga.
Jarðskjálftar á svæðinu geta gefið þrennt til kynna; 1. bólgan hjaðnar og ekkert sérstakt gerist, 2. gliðnun verður með tilheyrandi lokaskjálfta eða 3. hraun rennur úr jörðu.
Hæfilegar áhyggjur af hugsanlegu gosi eru sjálfsagðar, en ólíklegt er að það raski byggð miðað við legu hæða á þessu svæði (færi þó eftir hvar það kæmi upp).

Fagridalur

Í Fagradal.

Hraungos í eða í námunda við Fagradalsfjall myndi stefna til sjávar austan Grindavíkur (eða í versta falli áleiðis niður í Voga). Meiri áhyggjur þyrfti að hafa af því að birgðir verslana bæjarins myndu þrjóta þegar túrhestarnir kæmu í bæinn í löngum röðum með það fyrir augum að reyna að komast sem næst hraunstraumnum. Þá þurfa yfirvöld að vera snör í snúningum og setja upp alkunn varúðarskilti á völdum stöðum – „Ekki snetra“.
Rétt er að minna á að öll gos á Reykjanesi síðustu aldirnar hafa orðið úti fyrir ströndum þess.
FERLIR er búinn að skrá og mynda allar minjar nálægt Fagradalsfjalli svo til verða heimildir um það sem var – ef svo illa færi.
Frábært veður.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Nú er umhverfið þar breytt.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: „Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.“

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.“ Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

„En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: „Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.“

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: „Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn „Neðri-Fitjar“ hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998„, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.“ Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í „Fornleifaskráning í Grindavík, 2004“ segir um minjar á Fitjum: „Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.“ segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.“

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: „[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.“ Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.“ Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. „Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.“

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“, en vestan hans heitir bjargið „Krýsuvíkurberg“.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita „Skiptifoss“ eða „“Skiftifoss“.

Stóra-Eldborg

Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.

Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.

Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.

Breiðivegur

Breiðivegur (Breiðgötur).

Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.

Keflavík

Keflavík.

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“

Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir  og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.

Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

Húshólmi

FERLIR fór páskaferðina í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – skilti við austurenda Húshólmastígs.

Gengið var niður eftir slóða með austurjarðri Ögmundarhrauns fá bifreiðastæðinu neðan við Suðurstrandarveg. Algengast er að fólk, sem ætlar í „göngu“ ætli sér að ganga frá A til B, þ.e. frá upphafsstað og til baka. Hafa ber í huga að þessa á millum er fjölmargt áhugavert að gaumgæfa.
Rétt við stæðið er hringlaga gróið gerði utan í hraunkantinum, líklega rúningsrétt. Gata liggur upp vestanverða Krýsuvíkurheiði að fjárborginni á Borgarhólum. Hún er skammt sunnan gömlu Krýsuvíkurgötunnar milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Vestanverð Krýsuvíkurheiðin er nú víða orðin gróðurlítil á milli fjalla og fjöru. Heyra mátti lóu af og til.

Húshólmi

Húshólmastígur frá Bergsendum vestari.

Haldið var áfram í átt til sjávar, framhjá vegvísi við Húshólmastíg, niður á Bergsenda vestari. Þar sést greinilegur stígur í gróningum um nýja hraunið (Ögmundarhraun (Húshólmabruni) frá 1151) vestan við gamla bergið. Nýtt hraunið hafði runnið fram af eldra bergi. Það sést greinilega á allnokkrum kafla skammt vestar. Hægt er að ganga áfram, hvort sem er neðan við það eða ofan. Vestar hækkar nýja hraunið, en ágætur stígur liggur upp og yfir það. Vestast og efst á brúninni er varða. Frá henni er ágætt útsýni til allra átta, hvort sem er um að ræða austur að Krýsuvíkurbergi eða til vesturs yfir að Hólmasundi (Miðrekum). Neðar eru Svörtuloft (Selhella) þar sem hafið hamast stöðugt á endimörkum nýja hraunsins. Ofar í hrauninu er hóll. Hann lætur ekki mikið yfir sér, en ef nánar er að gáð er á honum hlaðin varða; mið frá sjó. Mið sem þessi eru algeng með ströndinni.

Húshólmi

Sjávarstígurinn – gamla bergið framundan.

Þarna er ágætt að staldra við og virða fyrir sér önefnin með ströndinni, að teknu tillitil lýsinga Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Vestasta hornið á Krýsvíkurbergi heitir Bergsendi, sem fyrr sagði. Vestan við Bergsenda eru Bergsendarekar undir gamla landfasta berginu, sem áður sagði, og Miðrekar ofan Hólmasunds. Ofan Sundsins er Húshólmi og Óbrennishólmi vestar. Á Húshólma sjást leifar af mannvirkjum, sem ætlunin var að skoða. Þar vottar vel fyrir garðlögum, sem eru leifar af túngörðum.

Ef við værum stödd á suðurbrún nýja hraunsins (vestast á sjónaröndinni frá vörðunni) vestan Húshólma, segir Gísli: „Ef haldið er niður með austurbrún Ögmundarhrauns, er komið nær miðju þar sem tvær vörður standa á brúninni (Brúnavörður).
Milli þessara varða liggur ruddur stígur þvert yfir hraunið. Kallast Húshólmastígur efri. Á vesturbrún hraunsins hefur verið hlaðið fyrir stíginn.

Húshólmi

Gamla bergið neðan Húshólmaburna.

Hér er komið í Húshólma einhvern merkasta stað á Suðurnesjum. Húshólmi er allstórt svæði og gróinn að mestu. Húshólmabruni nefnist hraunið austan hans eða Húshólmahraun neðst liggur Húshólmastígurinn neðri yfir það. Við jaðar þann sem er vestan við Húshólma eru miklir fornir garðar, Húshólmagarðar, sem ættu að sína að hér hafi miklir vallargarðar verið.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Með vesturjaðrinum liggur stígur og er þá komið að rúst, sem sumir nefna Kirkjurúst þar í kring er Kirkjuflöt, sem aðrir nefna Kirkjulág. Nokkru neðar á að hafa verið brunnur, Húshólmabrunnur og þar Brunnlág. Frá Kirkjuflöt liggur ógreinilegur slóði upp í hraunið. Liggur hann að Húshólmarústunum. Hérna er um fjórar rústir að ræða. Tvær neðst og snúa frá suð-austri til norð-vestur og sú þriðja þvert á þær. Þar í var grafið og komið niður á viðarkolahrúgu. Taldist því að hér hafi verið smiðja.

Nokkru ofar er svo stærsta rústin og í henni holur, sem álítast að séu eftir stoðir, sem brunnið hafa þegar hraunið rann inn í hús þessi. Hraunhella er í gólfi allra húsanna. Af sumum mönnum er þarna talað um Gömlu Krýsuvík. Frá Kirkjuflöt liggur götuslóði vestur og upp á hraunið. Hefur verið flóraður með hellum og átti að liggja til Selatanga. Stígur þessi varð aldrei fullger (þ.e. stígurinn að Brúnavörður).“

Þá er stokkið í lýsingunni til austurs, að endimörkum Krýsuvíkurlands: „Strandlengjan fyrir Krýsuvíkurlandi er alllöng. Margt er þar örnefna.

Húshólmi

Tóftir í Kirkjulág vestan Húshólma.

Seljabót er austast. Þar eru jarða- hreppa- og sýslumörk. Vestar tekur svo við Krýsuvíkurbjarg. Það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að [Eystri]Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg (þ.e. útsýnið frá vörðunni til austurs). Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Húshólmi

Horft til austurs að Krýsuvíkurbergi.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og fossinn Mígandi.

Húshólmi

Varða, mið, á hraunhól í Húshólmsbruna.

Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík [og heiðin þar ofar Hælsvíkurheiði]. Hér tekur við Húshólmabruni og Húshólmakampar hér framaf. (Hafa ber í huga að örnefnin hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars. Nýting landsins virðist jafnan hafa skipt þar sköpum.)

Húshólmi

Hólmasund – fyrrum lending Krýsuvíkurbænda.

Þegar kemur fyrir Húshólma eru kamparnir tveir. Hinn eldri er síðan fyrir að hraunið rann, en sá fremri er kominn eftir að hraunið rann. Vestan við Hæl eru Hvalbásar og þar fyrir vestan Húshólmalending [Hólmasund], þar lentu Krýsvíkingar í lágdeifu og köstuðu fiski á land til eldis fólki sínu heima í Krýsuvíkurhverfi.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasundsstígur fremst.

Mávaflár eru hér vestur af og þá koma Þjófabásar, Þjófabás eystri, Þjófabásanef og Þjófabás vestri. Þá taka við Miðrekar, Miðrekar eystri og Miðrekar vestri [neðan við Óbrennishólma]. Hraunið upp af Miðrekum öllum nefnist Títuprjónahraun. Vestarlega við Miðreka er Selhella og hrauninu upp af er Grendalur og Grenið. Rétt áður en komið er að Selatanga verða fyrir út í sjónum Látrin, Selalátrin, Látrin eystri og Látrin vestri. Þá eru Selatangar.“

Húshólmi

Vatnsstæði og gerði neðst í Húshólma.

Ari Gíslason segir um svæðið frá Hælsvík (austan Bergsenda vestari) að Selatöngum: „Nú skulum við færa okkur um set og taka fyrir vestari hluta Krýsuvíkurlands. Síðast vorum við staddir niðri við sjó hjá Hælsvík. Vestan hennar er steinn fram í sjó, sem heitir Þyrsklingasteinn. Þar tekur við mjó hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft. Eftir að þeim sleppir, taka við Miðrekarnir, sem fyrr var getið. Austarlega í Ögmundarhrauni eru tveir básar í hraunbrúninni við sjóinn, og heita þeir Rauðibás og Bolabás. Ekki eru þeir stórir og fjaran í þeim ekki meir en fáeinir metrar. Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Selatangar.“

Húshólmi

Verbúðartóft syðst í Húshólma.

Þar sem staðið er við vörðuna efst á suðurbrún Ögmundarhrauns (Húshólmabruna) má í góðu veðri sjá til Skriðu í austri og að Selatöngum í vestri. Mávaflár, Þjófabásar og Miðrekarnir í Títuprjónahrauni, allt að þeim vestari, eru torfærir. Þegar horft er yfir Húshólma sést vel hvar hraunið hefur runnið niður með Skála-Mælifelli að vestan og austur fyrir Krýsuvíkur-Mælifell að austan.

Gísli segir: „Ögmundarhraun verður að teljast mikið hraun. Það á upptök sín í sprungu, sem jarðfræðingar nefna Ögmundarsprungu. Hún er þrískift. Austursprunga Miðsprunga og Vestursprunga.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Austursprungunni við Vigdísarvelli.

Austursprungan á upptök sín inn á dal rétt vestan Vigdísarvalla og eru þar nokkrir gígar. Í einum þeirra er Fjárhellir, er þar hlaðið fyrir munnann og dyr á en garði frá munnanum inn eftir hellinum. Hraun úr þessari sprungu hefur runnið fram milli Mælifells og Urðarfells og sunnanundir Latsfjalli sem einnig nefnist Lasafjall. Gegnum hraun þetta, milli fyrrnefndra fjalla, lá Ögmundarstígur.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Úr miðsprungunni hefur einnig runnið allmikið hraun. Hefur það runnið bæði sunnan og norðan Urðarfells. Þar eru örnefni eins og Almenningur og var þar í eina tíð nokkur skógarló. Þar nokkru vestar eru Tóubrunar. Úr Vestursprungunni hefur runnið mikið hraun. Allt hefur það runnið norðan Latsfjalls. Núpshlíðarsprunga mætti sprunga þessi heita, því hún liggur fram um syðsta hluta Núpshlíðar fram á Skalla. Í hrauni þessu er Sængurkonuhellir eða Víkurhellir. Þar á kona að hafa alið barn á ferð milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Suður af Latsfjalli eru Latsfjallstögl og þar fram af Latur móbergshnúkur lítill með grastorfu Latstorfu. Hraunið hefur runnið hér með miklum gassa, það sést af hrauntröðum og rásum þeim sem liggja frá gígunum. Hraunið hér í slakkanum og gígarnir nefnast Katlahraun og Katlar. Neðan við Núpshlíð við hraunið liggur Núpshlíðarstígur fjárgata. Nú liggur eftir hrauni þessu akvegurinn frá Krýsuvík til Grindavíkur.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Frá Latstöglum liggur stígur, Óbrynnishólmastígur niður hraunið niður Óbrynnishólma allstórt svæði sem hraun hefur runnið kringum, en ekki þakið. Hér gefur að líta landslag það, sem verið hefur áður en hraunið rann. Móar og hvammar eða lægðir og hæðir og grýtt holt. Austast og efst í hólma þessum er Óbrynnishólmarúst. Litlu neðar er Fjárborgin litla og Fjárborgin stóra. Þær eru 6×7 metr. og 20×20 að stærð. Héðan liggur svo Óbrynnishólmastígur niður á Ögmundarhraun.“ Í Óbrynnihólma eru leifar topphlaðins húss og hlaðnir garðar, sem nýja hraunið hefur staðnæmst við. „Fjárborgin stóra“ hefur að öllum líkindum verið hlaðið virki. Það er efst á hól. Frá honum hefur verið ústýni yfir svo til allan hafflötinn til suðurs. Gróinn garður er og í Óbrynnishólma er gefur til kynna að öll ströndin ofan Gömlu Krýsuvíkur, víkurinnar sem nýja hraunið fyllti, hafi fyrrum verið í samfelldri byggð.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gengið var niður af hraunbrúninni. Þar er hlaðinn veggur, skjól refaskyttu. Sjá má slóðir eftir refi í grasinu með hraunbrúninni. Austan við Hólmasundsstíginn eru vatnsból og hlaðið lítið gerði. Skil gömlu strandarinnar og þeirrar nýju eru þarna augljós. Í hólmanum, beint ofan við stíginn, er rúst sjóbúðar. Hún var síðast notuð árið 1913 af Krýsuvíkurbændum, en þeir reru um tíma við erfið skilyrði frá Hólmasundi. Skammt ofar og vestar sést hvar gamall hlaðinn (nú gróinn) túngarður liggur undir nýju hraunbrúnina. Garðurinn liggur í boga upp hólmann til norðurs og norðvesturs þar sem hann fer undir hraunið efra. Innan þessa garðs er annar hlaðinn garður sem og þvergarður. Sunnan þvergarðsins er sporöskjulaga stórt gróið gerði; mjög líklega forn grafreitur. Enn ofar, úti í hrauninu vestan hólmans eru fyrrnefndar Kirkjulágar og skálatóftir, sem hraunið hefur runnið að, en ekki náð að kaffæra.

Húshólmi

Húshólmi – hlaðinn garður við Húshólmastíg.

Ofar í Húshólma er forn fjárborg, sennilega frá tímaskeiði minjanna. Enn ofar er hlaðin, mosagróin refagildra, einnig stekkur utan í grónum hraunkanti sem og minjar selshúsa. Greni er þar skammt vestar sem og skeifulaga hlaðið byrgi refaskyttu. Hringlaga byrgi (smalaskjól) er og á hraunbrúninni norðvestan stekksins.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Þar sem gengið er upp úr hólmanum að austanverðu (Húshólmastígur) er hlaðinn þvergarður, sennilega frá þeim tíma er Húshólmi hefur um skeið verið notaður fyrir selstöðu, allnokkru eftir að nýja hraunið hafði kólnað. Húshólmastígur ber þess merki að allnokkur umferð hafi verið um hann um alllangan tíma, enda greiðfær með afbrigðum.

Gangan tók 1. klst og 36 mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að „skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“ Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Herdísarvík

Gengið var um Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Eftir að hafa skoðað tóftir gamla bæjarins suðvestan við nýjasta og núverandi hús þar var kíkt á útihúsin vestan þess. Á milli þeirra er hlaðin brú eða stígur í Herdísarvíkurtjörnina og austanvert við hana er hlaðið skeifulaga gerði. Þetta svæði var, að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum, sem kunnugur er í Selvogi, fyrrum á þurru, en eftir að sjórinn opnaði leið inn í tjörnina hafa landshættir breyst. Eiðið er lokaði Herdísarvíkurtjörninni var miklu mun utar, en eftir að sjórinn braut sér leið inn í hana breyttust aðstæður verulega. Silungurinn, sem Hlín Johnsen hafi áður veitt í net í Hestavíkinni, hvarf m.a með öllu.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Í brúnni og við hana má sjá brotna myllusteina, steinsökkur, letursteina (ankeri og kross) og fleiri mannanna verk. Einar Benediktsson og Hlín Johnsen eru sennilega eftirminnilegustu ábúendurnir í Herdísarvík og reyndar þeir síðustu, en Þórarinn og Ólafur, sem áður voru, eru ekki síður eftirminnilegir. Sá fyrrnefndi var fjármargur og þurfti drjúgt lið aðstoðarmanna. Einn þeirra var Sigurður Þorláksson, sem á efri árum ritaði ógleymanlegar endurminningar frá árum sínum í Herdísarvík og Stakkavík. Ólafur Þorvaldsson ritaði hjartnæmar lýsingar af ferðum sínum um svæðið og kunni skil á staðháttum og örnefndum manna best. Í bókum hans Harðsporum og Eins og fífan fíkur má sjá slíkar lýsingar frá Herdísarvík og nágrenni.

Herdísarvík

Herdísarvíkur – brú og gerði.

Sagt er að Hlín hafi flúið með Einar í nálægan skúta eitt sinn þegar óveður gekk yfir og færði gamla bæinn, sem þau þá bjuggu í, í kaf. Enn má sjá leifar gamla bæjarins sem og reykofns Hlínar og bruggaðstöðu í Herdísarvík. Eggert Kristmundsson frá Stakkavík, nú Brunnastöðum (sjá ferð og viðtal við hann undir Fróðleikur), minnist með mikilli ánægju á hið reykta ærkjöt Hlínar, en það var hvergi betra “vegna þess hve reykurinn kom kaldur inn í reykhúsið”.
Garðarnir í kringum Herdísarvík heita hver sínum nöfnum. Þar er og hver staður með sína merkingu.

Herdísarvík

Hlínargarður.

Gengið var austur með austur með Langagarði, yfir að sjóbúðunum og í Gerðið. Nefndur Sigurður segir skemmtilega frá því í endurminningum sínum þá er beðist var endurreisnar sjóbúðanna, að Hlín hafi sett þau skilyrði fyrir búðaruppgerðinni að einungis einn tengiliður yrði með henni og vermönnum. Hún vildi ekki ágang þann sem af margmenninu gat hlotist. Þó segir hann að samskipti Hlínar og vermanna hafi alla tíð verið hin ágætustu og arðbærustu fyrir báða aðila.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var um Gerðið og m.a. skoðaður Hlínargarður og fjárhústóftirnar af Langsum og Þversum, en svo nefndust fjárhúsin stóru í Gerðinu. Hafa ber í huga að Gerðið er ræktað upp með slori, sem sett var á hraunið er þannig greri smám saman upp. Norðan þess og norðaustan eru ómældir kílómetrar af þurrkgörðum og litum þurrkbyrgjum. Því miður hefur þjóðvegurinn verið lagður í gegnum garðana, en ætlunin er að nýi vegurinn, svonefndur Suðurstrandarvegur, muni liggja ofan þeirra. Að sögn Þorkels Kristmunssonar (sjá viðtal við hann undir Fróðleikur) frá Stakkavík munu fjárhúsin hafa verið hlaðin upp úr fjárborgunum er minnst er á í örnefnaslýsingum.

Herdísarvík

Í Breiðabás.

Þá var gengið yfir í Breiðabás. Á leiðinni þangað var komið við í fjárhelli, sem þar er í hrauninu. Leifar Herdísarvíkurgerðis, þ.e. kotbýlis frá Herdísarvík er þarna austan við Gerðið. Breiðabás var og fjárhellir, þar sem Herdísarvíkurféð var vistað. Op hellisins var þá mót sjónum, en nú hefur sjávarkamburinn fyllt upp í opið og hulið það. Sagnir eru um menn, sem fóru inn í hellinn, villtust, en komust út aftur eftir illan leik. Einar Benediktsson segir hellinn ná frá Breiðabás upp í mitt Mosaskarð, sem er um og yfir kílómeter á lengd. FERLIR hefur lagt nokkuð á sig til að finna op Breiðabáshellis, en ekki orðið ágengt fram að þessu. Ætlunin er m.a. að reyna að virkja stórtækar vinnuvélar Suðurstandarvegarins væntanlega til að “grafast fyrir um opið”, en flytja þarf sjávarkambinn svolítið til á kafla beint upp af “klofningskletti”.

Herdísarvík

Fiskigarðar.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.:
“Allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir [Herdísarvíkursel] í Seljabót” voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.
Sagt er frá því að Olafr Gronlendinga byscop kom i Herdisar vik 1262. Árið 1544 á Skálholtsstaður uppgefinn teinæring í Herdísarvík. Kirkjan í Krýsuvík var lögð niður en umboðsmenn Skálholtskirkju skyldu byggja Herdísarvík sbr. bréf frá 1563 þar sem Gísli bp gefur Þórði Jónsyni umboð til að byggja stósljarðir í Grindavík Krýsuvík og Herdísarvík “bæde halftt skip Reka og anna utann hann skilie þar til iiij leigukugillde og landgilldi sem honum þyker moguligtt. Árið1563 ritar Gísli Jónsson biskup um líferni fólks í verstöðvum, þ.á.m. í Herdísarvík. Árið 1677 býr Jón í [Nesi] í Herdísarvík. Í plani til jarðabókarinnar frá 1702 tekur ÁM dæmi af Herdísarvík sem stað við sjávarsíðuna þar sem sé óvenjumikil frjósemi sauðfjár, þar allar ær eður flestar eiga tvö lömb”.

Herdísarvík
„Herdísarvíkurbær stóð vestarlega í Herdísarvíkurtúni undir Skyggni, sem var klöpp, aflöng, og sneri suðaustur-norðvestur. Neðst bæjarhúsanna var stofan og bæjardyrnar undir einu og sama þaki. Bak við stofuna var búrið, en fram af bæjardyrunum var eldhúsið. Þar framan við á vinstri hönd voru göngin og þrjú þrep upp að ganga í baðstofuna, sem var fimm stafgólf, en hlutuð í þrennt. Miðhlutinn, sem var eitt stafgólf, frambaðstofan, er var á hægri hönd, er inn var komið, og aðalbaðstofan á vinstri hönd. Baðstofurnar voru hver fyrir sig tveggja stafgólfa, langar og rúngóðar. Bak við eða norðan við eldhúsið var fjósið fyrir tvær kýr.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúð.

„Stígurinn lá norður milli bæjarhúsanna og smiðjunnar að útihúsunum, sem stóðu spölkorn norðan bæjarins. Þar voru þessi hús: Fjós og hesthúskofi, Lambhúsið stóra, Lambhúsið litla, sem líka var notað sem hlaða, og síðan kom hrútakofi, sem seinna var stækkaður, og þar var sjóbúð, sem kölluð var Krísuvíkursjóbúð.“

„Þar norður af [Krísuvíkursjóbúð] er svo Herdísarvíkurhúsið, en þar bjó síðast Einar skáld Benediktsson, og var húsið allt eins kallað Einarshús, eða þá kennt við seinni konu hans og nefnt Hlínarhús…“
„Rétt innan við [túngarðsendann vestari] var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur…“

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

„Rétt innan við [túngarðsendann vestari] var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur eða Brúarhóll, en milli hólma og lands var Rásin og yfir hana brúin.“
„Varghólsbrunnur er nefndur í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns, og þá hefur þar verið Varghóll og var í Tjörninni.“
„Þá kom vik fram af bænum, og var þar heimavörin, þá kom Öskuhóll, og var þangað borin askan.“
„Þá kom Hjallhóllinn, öðru nafni Smiðjuhóllinn, og Tungan þar fyrir innan með lágu garðlagi.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Hér fyrir austan [Austurtúngarðshliðið] taka við Gerðin, sem voru tvö, Vestragerði og Eystragerði. Einnig var talað um Vestragerðistún og Eystragerðistún. Herdísarvíkurgerðin var líka nafn á þessu svæði. Gerðin voru umgirt miklum grjótgarði, sem kallaður var Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.“

Herdísarvík

Þversum – fjárhús.

„Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð.“

„Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi.“
„Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin.“
„Búðirnar gömlu voru rétt við [Gerðis]stíginn, en þar eru nú rústir einar.“
„Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri.“

Herdísarvík

Langsum – fjárhús.

„Túngarðar lágu um túnið, vesturtúngarður að vestan, norður túngarður ofan bæjarins og austurtúngarður að austan. Skarðið var á vesturtúngarði. Bæjarhlið ofan Bæjarins. Fjárhúshlið rétt ofan við útihúsin, og svo var hlið ofan Einarshúss, sem ég kalla Jöfurshlið. Þar um gekk skjáldjöfurinn, er hann tók sér hressingargöngur um nágrennið.“
„Norðurgarðurinn var kallaður Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.“
„Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð.“

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

„Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi.“
„Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin.“
„Búðirnar gömlu voru rétt við [Gerðis]stíginn, en þar eru nú rústir einar.“
„Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóðbúðir.

„Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn… Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.“
„Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn… Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Herdísarvíkursjóbúðir stóðu saman sunnan í hrygg, lábörðum, norðan Dalsins. Þær voru nefndar ýmsum nöfnum eftir formönnum, sem þær byggðu ár hvert. Aðeins ein nú með þaki, en hinar vel stæðilegar. Bjarnabúð, Guðmundarbúð, kenns við Guðmund Jónsson í Nýjabæ í krísuvík. Halldórsbúð, kennd við Halldór í Klöpp í Selvogi og var einnig nefns Dórabúð. Guðmundarbúð var einnig kölluð Gamlabúð og þá Stórbúð. Þá var Símonarbúð og Hjálmholtsbú og Krísuvíkurbúð önnur en sú,sem stóð heima við útihúsin.“

Herdísarvík

Herdísrvík – Yngri bærinn.

„Gerðisgarður skipti Gerðunum í tvennt, og þar á var Gerðisgarðshlið.“
„Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður…“
„Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður og hitt lengra í burtu, Langsum, lá austur-vestur.“
„Austan í Bótinni er klöpp, og við hana var Herdísarvíkurvör, og er rauf milli klapparinnar og malarinnar. Herdísarvíkurlending er Vörin einnig kölluð.“

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Austan í Bótinni er klöpp, og við hana var Herdísarvíkurvör, og er rauf milli klapparinnar og malarinnar. Herdísarvíkurlending er Vörin einnig kölluð. Þar ofar var Herdíasrvíkurnaust, sem nú er horfið.“
„Uppi á Kampinum stóðu í eina tíð mörg fiskabyrgi, og hjá þeim var Sundtréð.“
„Þar austur af byrjunum tekur svo við Gerðiskampurinn, en eftir honum endilöngum hefur garður mikill verið halaðinn; fyrir því verki stoð frú Hlín Johnson, og því nefni ég garðinn eftir henni, Hlínargarð, og nær hann austur um Langagarðsenda.“

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

„Ofanvert við Breiðabáskamp er fjárhellir í gjótu í hrauninu, kallast aðeins Hellir.“
„Á brunanum, sem liggur þarna upp frá sjónum upp undir fjallið, hafa miklir fiskgarðar verið hlaðnir. Munu þeir vera nokkrir kílómetrar á lengd.“
„Upp frá Bæjarhlaðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.“
„Upp frá Bæjarhlaðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.“
„En úr Skarðinu lá Brunnastígur…“
„Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtargarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgargarðar.“
„Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtargarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgargarðar.“

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

„Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“
„Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“
„Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.“
„Austur með Selvegi er Selhóll…“

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

„Austur af Klifhæð er lítill hellis-skúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn:“
„Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því.“

Þjóðsagan um Herdísi, er bjó í Herdísarvík, og Krýsu, er bjó í Krýsuvík er flestum kunn. Í henni segir að „Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn.

Gengið var til austurs að Mölvíkurtjörn. Um er að ræða fallega ferskvatnstjörn. Tóftir, Mölvíkurbúð, eru austan hennar, líklega útræði því lending er sæmileg þar undan ströndinni, eða þær tengist rekavinnslu, sem þarna er allnokkur. Hlaðið byrgi er á hraunbakka ofan tjarnarinnar. Varða er á hól austan tóftarinnar er vísar veginn áleiðis að Stakkavík. Sunnar og austar liggur gömul gata í gegnum úfið apalhraunið. Eftir stuttan spöl er komið niður á slétt apalhraun. Þar liggur “Helluvörðustígurinn” tvískiptur til austurs. Eldri stígurinn virðist liggja nær sjónu og sá yngri ofar. Stígurinn er djúpklappaður í bergið eftir hófa, klaufir og fæturliðinna alda.. Áhrifaríkt er að fylgja stígnum yfir að Helluvörðunum. Þegar komið er að Víðisandi liggur gata til norðausturs, að Stakkavíkurbænum. Um hann segir m.a. í örnefnaskrám:

Stakkavík

Stakkavík 1928.

“[Sandur berst vestan af Víðasandi, austur yfir ósinn] Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.”
Árið 1840: “Hlíðar, Stakkavíkur og Herdísarvíkur hagar mæta stórum áföllum af grjótkasti og skriðum úr fjallinu, því þeir allir bæri eiga þar land, en hafa þó flatlendishaga ásamt.”
„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn.“
“[Sandur berst vestan af Víðasandi, austur yfir ósinn] Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.”
„Stakkavíkurtúngarður er lágur grjótgarður ofan við túnið.“

Stakkavík

Stakkavíkurrétt.

„Dalurinn er hvammur vestan til við húsið. Vörin liggur undan Dalnum. Bryggjan liggur þar fram í vatnið.“
„Tættur standa á hrauninu ofan Dalsins, og eru þar lambhús, hesthús og Heimaréttin.“
„Á vinstri hönd við [Stakkavíkur]götuna eru klettar tveir, kallaðir Gálgaklettar.“
„Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakkvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“
„Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvíkurkampi. Austast í henni voru klappir, og var þar kallað Varir eða Mölvíkurvarir.“
„Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum er útræði var úr Mölvíkurvörum; þar er og Mölvíkurfiskabyrgi.“
„Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.“ „Veit ekki um tilurð nafnsins, en mér og öðrum hefur fundizt draugalegt í gjánni.“

Stakkavík

Stakkavík – álfakirkjan.

„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.“
„Innar, það er norðar [en Flathólmi], er svo tangi, sem kallast Vaðið, en milli Vaðs og Flatatanga er vik inn og heitir Vaðvik; þar hefur stígur eða gata legið upp.“
„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun. Svo segja Selvosingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.““

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

„Á þessu vatnsviki (?), sem nú er Gamlatúnið eru þrír hólmar, Hólmarnir. Fyrst er Hólminn syðsti, sem einnig kallast Bæjarhólmi, því þar stóð Stakkavíkurbærinn gamli í eina tíð.“
“Austan við tangann, sem húsið stendur á, var lítið vik og þar í Gamlavörin. Ofanvert við hana var smábyrgir, kallað Naustið. Þar hafði bátur verið geymdur.“
„Stöðulnef var gegnt tanganum, og þar mátti sjá stíg er lá niður í vatnið, Gamlastíg.“
„Úti í vatninu mátti sjá móta fyrir garðlagi, sem kallast Vatnsgarður, ef til vill verið túngarður Gamlatúns eða varnargarður fyrir ágangi vatnsins.“
„Austur af Stöðulnefi var svo Réttarnes og þar á Gamlaréttin, og sést þar móta fyrir veggjum.“
„Þegar kom upp á Háahraun, var þar fyrst fyrir neðan þjóðveginn Fjárborgin og litlu austar Álfakirkja, hóll mikill og sérkennilegur…“

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

„Álfakirkja. hefi ekki heyrt neinar sagnir um hana frá gamalli tíð. En þá er við bræður vorum ungir strákar, þá var það, að Gísli bróðir minn tók sig til og smíðaði kross úr tré og reisti hann á Álfakirkjunni. Nóttina á eftir dreymdi Gísla, að hann væri staddur úti. Sá hann þá stóran hóp af fólki. Bar þar mest á einum manni, sem hafði höfuð og herðar yfir hitt fólkið. Kemur hann til Gísla og segjir við hann, [að] ef hann eigi framar við kirkjuna, þá verið hann drepinn. Krossinn var því fjarlægður. Síðan hefur Gísli ekki orðið var við neitt, hvorki í vöku né svefni, í sambandi við Álfakirkjuna.“
„Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi.“

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

„Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið.“
„Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagastígur upp á fjallið.“
„Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.“
„Austar en [Nátthagastígur] er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðar norður fjallið.“

Skoðaðar voru minjarnar í Stakkavík og á Réttarnesi. Stakkavík fór í eyði 1943. Síðasti ábúnandinn þar var Kristmundur Þorláksson. Loks var gengið að Selsstíg þar sem hann liggur áleiðis upp á Stakkavíkurselsstíg ofan brúnar skammt ofan fjárhústóftanna (sjá aðra FERLIRslýsingu af Stakkavíkurseli). Neðan hans, í Höfðanum, er fyrrnefnd Álfakirkja.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild:
Örnefnalýsing fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir

Þjóðsagan er fengin af
http://www.snerpa.is/net/thjod/krysa.htm

Ómar

Unnið að uppdrætti Herdísarvíkur eftir að heim var komið.

Hlíðarvatn

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – Gísli Sigurðsson.

Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur – drykkjarsteinn.

Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.

Selvogsgata

Selvogsgata – Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.“
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.