Garður

Í “Fornleifaskráningu í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna)“, frá árinu 2008 má fræðast um eftirfarandi varðandi landamerkjaletursteina í landi Vara og Rafnskelsstaða í Garði:

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“Er þar jarðfastur steinn LM. Svo norður með höfðanum í stein merktan LM við norðurenda höfðans. Er þá Brekkuland búið,” segir í örnefnalýsingu. Landamerkjasteinn milli Brekku og Vara er utan í Brekkuhöfða norðaustanverðum, um 60 m norðan við landamerkjastein.
Stór og aflangur, jarðfastur klettur. Leifar af landamerkjagarði liggja utan í höfðanum, óljósar þó.
Áletrunin LM er fremst eða austast á steininum, ofan á honum. Stafirnir eru mjög svipaðir og á steini, hvorutveggja hástafir, einfaldir að gerð og um 10 cm háir.

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“…sjónhending upp á þjóðveginn. Þá norður með þjóðveginum, þar til kemur að stórum steini merktum við þjóðveginn,” segir í örnefnalýsingu.
Steinninn er um 390 m suðsuðvestur af Vörum, á suðvesturhornmörkum jarðarinnar. Um 20 m sunnan við steininn er íbúðasvæði í byggingu.
Steinninn hefur naumlega sloppið við íbúðaframkvæmdir, um 20 m sunnar. Steinninn er við vesturenda garðs.
Steinninn er jarðfastur, um 0,6 m á hæð. Letrunin er höggvin í norðurhlið hans, og er um 0,1 x 0,15 m að stærð. Á honum stendur LM með hástöfum.
L-ið hefur króka á endunum.

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“Er þar jarðfastur steinn LM. Svo norður með höfðanum í stein merktan LM við norðurenda höfðans. Er þá Brekkuland búið,” segir í örnefnalýsingu. Syðri landamerkjasteinninn í Brekkuhöfða er í horni landamerkjagarðs, um 110 m vestur af bæjarhól.
Á þessum stað eru nokkrir jarðfastir klettar í þyrpingu utan í höfðanum.
Áletrinin er ofan á flatasta steininum sem er nokkuð mosavaxinn en virðist hafa verið kroppað ofan af honum. Áletrunin er LM og stafirnir einfaldir að gerð, um 10 cm háir. Grunnt er rist.

Áletrun – landamerki

Garður

Rafnkelsstaðir – landamerki (ML).

Merkjasteinn er inn í Grænugróf, neðst í grófinni, á bakkanum við fjöruna. Hann er um 670 m suðaustur af Rafnkelsstöðum og markaði land jarðarinnar til austurs.
Steinninn er á grýttum hluta neðst í grænni grófinni. Áletrun á steininum er afar greinileg, en hann er merktur ML í stað LM sem er á öðrum merkjasteinum í Garðinum.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna), Reykjavík 2008.

Garður

Garður – landamerki ofan Vara.

Húshólmastígur

Gengið frá frá hálsinum ofan við Latfjall, norðvestur yfir Tófubruna. Sést móta fyrir gamla veginum (Hlínarveginum) skammt sunnar. Ofar eru fallegir, litskrúðgir klepra- og gjallgígar. Þeir eru hluti gígaraðar, sem liggur autan með austanverðum Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Ögmundarhraun mun hafa komið úr gígaröðinni, sem nær alllangt til norðurs. Eftir stutta áframhaldandi göngu var komið að háum misgengisveggjum Stóra Hamradals undir hálsinum. Undir veggnum, sunnarlega, er gömul hlaðin rétt. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði að hún hafi jafnan verið notuð við rúningar.
Ögmundarhraun er neðan við Latfjall. Hraunið er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.

Eldey

Eldey.

Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám.

Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík. Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”.

Húshólmi

Kirkjulág.

Í hólmanum er á einum stað nefnd Kirkjulág og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Talið er að Ögmundarhraun sé komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson frá Skála við Ögmundardys.

Þekkt er sagan af Ögmundi, viðskipti hans við bónda og gatnagerð um hraunið. Dys hans má sjá við austurjarðar þess.

Efni m.a. af:
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Saurbær

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju.
KjalarnesAndríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim. Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal. Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.
Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar.

Lauganýpa

Í Lauganýpu.

Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.

Framundan er verkefni, þ.e. að fara og skoða framangreindan helli með skírskotun til sögunnar.

Heimild fengin af http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esja

Esja.

Bessastaðir

Gengið var um Bessastaðanes með viðkomu í kjallara Bessastaða og á Breiðabólstað vestan Bessastaðatjarnar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ

Þegar farin er heimreiðin að Bessastöðum liggur leiðin framhjá Lambhúsum. Bærinn er horfinn en nálægt veginum og þar var m.a. stjörnuskoðunarstöð seint á 18. öld.
Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum urðu Bessastaðir fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar. Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Reykjavík,
gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.

Sem fyrr segir komust Bessastaðir í eigu íslenska ríkisins 1941 þegar maður að nafni Sigurður gaf ríkinu staðinn til bústaðar fyrir ríkisstjóra. Og frá því að Ísland varð lýðveldi 1944 hefur þetta verið bústaður forseta landsins. Árið 1805 var æðsta menntastofnun sem þá var í landinu “Lærði skólinn” fluttur hingað og starfaði hér í 40 ár. Forsetabústaðurinn er með elstu húsum á Íslandi reistur á árunum 1761-1766. Síðan hefur húsinu verið breytt og byggt við það, en er nú einungis notað sem móttökustaður. Forsetinn býr í nýju hús skammt norðar.

Reykjavík

Bessastaðir – gamla kirkjan.

Kirkjan er byggð utan um eldri kirkju sem þar var. Í kirkjunni eru steindir gluggar sem settir voru í hana 1956, og sýna þeir atriði guðspjallasögunni og kristnisögu Íslands.
Sögu byggðar á Álftanesi má rekja allt aftur til fyrstu Íslandsbyggðar og tilheyrði nesið landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, nam land á því svæði sem hét Álftaneshreppur.

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Álftaneshreppur varð snemma til því byggð óx hratt á fyrstu öldunum eftir landnám. Sennilega hafa mörk Álftaneshrepps verið hin sömu frá upphafi hans fram til 1878 þegar hreppnum var skipt eftir kirkjusóknum í tvö sveitarfélög: Bessastaðahrepp og Garðahrepp.
FERLIR er þekktur fyrir áhuga á sögu og minjum svæðisins svo sjálfsagt þótti að verða við þeirri ósk hans að fá að líta í kjallara Bessastaðastofu. Þar eru minjar frá uppgrefti á svæðinu er stofan gekk í endurnýjun lífdaga á síðasta áratug 20. aldar. Mikið mun hafa gengið á, bæði við og í kringum uppgröft þann. Afurðirnar má t.a.m. sjá í kjallaranum, s.s. minjahluta eldri bæjarstæða, einstaka hluti, muni og sögulegar skýringar.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gengið var áleiðis norður að Bessastaðanesi. Á móts við útihúsin á Bessastöðum er tangi út í Bessastaðatjörn sem heitir Prentsmiðjutangi. Þar var prentsmiðja Skúla Thoroddsens alþingismanns og ritstjóra Þjóðviljans. Hann bjó á Bessastöðum frá 1901-1908. Skammt norðar er gamall brunnur frá Bessastöðum.
Dr. Kristján Eldjárn gerði fornleifakönnun á Bessastaðanesi og gaf hana út (Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981). Í henni eru tíundaðar helstu minjar, sem þar er að finna, s.s. brot af hlöðnum garði ofan við Músarvík, skotbyrgi, tóft, sennilega varðskýli á Rananum yst á Nesinu gegnt Eskinesi (norðan við hana er brunnstæði), tvær fjárborgir eða sauðabyrgi ofan Sauðatanga nyrst og síðan Skansinn norðvestan á því. Ferðin var notuð til að rissa upp minjarnar á svæðinu (sjá meðfylgjandi uppdrátt).

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í júní 1627 rændu Tyrkir Grindavík. Tíðindin spurðust fljótt til Bessastaða og lét höfuðsmaðurinn Holger Rosenkranz hlaða virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna, en svo kallast víkin sem skerst inn í nesið Skerjafjarðarmegin.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum. 1667 var innheimtur af landsmönnum skattur til að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár og voru Suðurnesjamenn fengnir til þess. Ekki var skansinum haldið við eftir þetta og greri yfir hann að mestu.
Þegar komið er að stíflunni eru rústir á hægri hönd, þær eru af Skansinum, virkinu og bænum þar sem Óli skans bjó. Konan hans hét reyndar Fía en ekki Vala. Þau bjuggu þar í smábýli, sem fór í eyði um aldamótin 1900. Á hægri hönd (þegar gengið er eftir stíflunni) er Seilan, víkin þar sem skip alsírskra sjóræningja strandaði fullt af herteknum Íslendingum árið 1627. Einstreymisloki á stíflunni milli Bessastaðatjarnar og sjávar, sem gerð var 1953. Lokinn heldur vatninu í tjörninni stöðugt í svipaðri hæð.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Breiðabólsstaðir eru byggðir úr höggnu grjóti undir lok 19. aldar. Sumir segja að það hafi verið afgangsgrjót úr Alþingishúsinu, líkt og einn veggur fjárhússins á Minna-Knarrarnesi. Lítil tjörn, Breiðabólsstaðatjörn er rétt við Breiðabólsstaði. Nálægt Jörva er gamall varðturn frá stríðsárunum, uppistandandi menjar um stóran herskálakamp, Brighton-kamp, sem teygði loftnet sín um flest tún þar í kring.

Heimildir:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990
-Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981.

Upplýsingar um Bessastaði eru m.a. af http://alftanes.is

Á Álftanesi

Í Besstaðanesfjöru.

Reykjanesbraut

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi”, Reykjavík 2020, er m.a. fjallað um minjar á jörðunum Lónakoti, Óttarsstöðum, Straumi, Þorbjarnarstöðum, Péturskoti, Stóra-Lambhaga og Litla-Lambhaga, auk Hvaleyrar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum skráningarinnar.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Óttarstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 160.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó að hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu.
Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.
Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár.
lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Péturskot

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75×75 m að stærð.
Péturskot kemur fyrst fram í manntali 1880 og kemur fram í manntölum til 1910 en er ekki getið í manntali 1920. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur þar sem gamli bærinn stóð en þar sést þó mikið hleðslugrjót úr hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Rétt austan við bæjarstæðið var útihús merkt inn á túnakort frá 1919. Á þessum stað er grjóthlaðin L-laga hleðsla. Lagning Reykjanesbrautar árið 1965 umturnaði heimatúni Péturskots og er norðurhluti þess kominn undir veginn.
Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð (VNV-ASA).

Péturskot

Péturskot.

Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Það er Tóftir Péturskots, horft til norðurs. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið. Tóftin var betur varðveitt þegar Þjóðminjasafn Íslands skráði Péturskot um 1990.

Péturskot

Pétursspor.

Á túnakort frá 1919 er merkt útihús um 10 m austan við Péturskotsbæ. Þar sem útihúsið var má greina L-laga hleðslu. Hún er um 3,5 m á kant en 0,7 m há. Í hleðslunni eru 7 umför af stæðilegu hraungrýti. Hleðslan er í litlu innskoti í mosagrónum kletti sem er í austurhluta túnsins. Þéttur mosi er á efsta umfari hleðslunnar.

Péturskot

Péturshróf.

Pétursspor var stígur milli kotsins og Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Brýr liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60×40 m að stærð.
Péturshróf var naust neðan Péturskots. „Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða, og Stóra-Lambhaga, og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn.

Péturskot

Péturskot – könnunarskurðir er gefa áttu til kynna aldur kotsins.

Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina,” segir örnefnaskrá. Péturshróf er um 380 m NNV við bæ og rúmum 50 m norðan við Reykjanesbraut. Péturshróf er í Straumsvík, rétt sunnan við mosagróinn klettadranga.
Péturshróf er einföld tóft, 7,5×3,5 m að stærð og snýr hún norður-suður. Veggir eru grjóthlaðnir og nokkuð hlykkjóttir. Í hleðslum sjást mest 2-4 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, veglegastir að sunnan. Byrgið er breiðast til austurs en mjókkar aðeins eftir því sem vestar er farið. Byrgið er opið til austurs, að sjó.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Þorbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki.

Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra-Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,” segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9×5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak. Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – eldhús.

Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – bæjarhóllinn.

Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Bæjarhólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir
skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – Steinbogi.

Steinbogi var garður upp í Aukatún; „Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi,“ segir í örnefnaskrá.
Steinbogi eða hlaðin brú liggur yfir litla tjörn í Aukatúni, um 110 m sunnan við Litla-Lambhaga. Hleðslan liggur yfir tjörn eða deiglendi í grónu hrauni.
Hleðslan er um 5 m löng en 2 m breið. Hún snýr NNA-SSV. Hleðslan rís 0,4 m hærra en umhverfið og er grjóthlaðin en mikið gróin. Ekki sést í umför í hleðslunni þótt víða standi stæðilegt grjót upp úr gróðrinum.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 168.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok allt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.” DI IV, 751–752..

Hvaleyri

Hvaleyri.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
HafnarfjörðurLýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða

Stóravarða 2023.

Stóravarða var landamerki Hvaleyrar og Lambhaga; „Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem
alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,” segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin  millum Þorbjarnarstaða og Gerðis (rauð) ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Niðurstaða fornleifaskráningarinnar í heild var; “Innan svæðisins voru skráðari 56 fornleifar á 43 minjastöðum. Allir staðirnir teljast til fornleifa og njóta verndar sem slíkir en minjagildi þeirra er misjafnt. Í skýrslunni var gerð tilraun til að leggja mat á gildi hvers minjastaðar og voru niðurstöðurnar þær að þrír minjastaðir hefðu mjög mikið gildi, átta mikið gildi, 15 staðir töldust hafa nokkurt minjagildi og 17 lítið. Rétt er að ítreka að algengara er að margar fornleifar/minjaeiningar falli undir þá staði sem flokkaðir voru með mikið eða mjög mikið minjagildi heldur en þá sem töldust hafa lítið minjagildi sem oftast eru stakar fornleifar fremur en þyrpingar.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um þrjú minjasvæði vegna mikils gildi sem stakar minjar eða minjaheildir. Þó að mögulegt sé að komast hjá raski á nokkrum fjölda minja innan úttektarsvæðins er ljóst að mörgum minjum verði raskað að hluta eða öllu leyti að óbreyttu. Niðurstaðan er því að áhrif framkvæmda við breikkun Reykjanesbrautar á svæði frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi muni hafa neikvæð áhrif á fornminjar”.

Ljóst er að fórna þarf nokkrum fornleifum sögunnar millum framangreindra bæja við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá ofanverðu Lónakoti að ofanverðu Hvaleyri. Samt ert leitt til þess að vita hversu skráningaraðilar hafa haldið illa á málum með því að horfa framhjá augljósum fyrirliggjandi heimildum er kynnu að hafa gert verk þeirra miklu mun markvissara, ekki síst til lengri framtíðar litið.”

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar framangreind skráning er skoðuð er ljóst að skráningaraðilinn hefur hvorutveggja haft takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og ekki reynt að afla sér augljóslegra fyrirliggjandi gagna er koma gætu að gagni. Þá er leitt til þess að vita að starfsfók Minjastofnunnar skuli ekki hafa dug í sér til að gera viðhlýtandi athugasemdir við augsýnilega endurteknar vanskapaðar fornleifaskráningar, sem til þess berast.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.

Reykjanesbraut

Fyrirhugað vegastæði tvöföldunar Reykjanesbrautar ofan Straums.

 

Óttarsstaðaborgin

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar” frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi fróðleik um Hvaleyri, Straum, Jónsbúð, Þýskubúð, Óttarsstaði og Þorbjarnarstaði sem og Alfaraleiðina.
FornleifaskráningÁ forsíðu skýrslunnar er mynd; sögð vera af “vörðu (2367-195) og Sjónarhólsvarða (2367-196) er í bakgrunni”. Vörður þessar eru svonefndar “Ingveldar”, líkt og segir í örnefnalýsingum Ara Gíslasonar: “Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær heita Ingveldar (43), og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar (44). Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir.” og Gísla Sigurðssonar: “Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur (120) og stóðu á Ingveldarhæð (121). Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar (122). Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð (123) og á henni Jakobsvarða (124).”
Athygli forsvarsmanna Byggðasafns Hafnarfjarðar hefur verið vakin á framangreindu.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

Hvaleyri er elsta bújörðin í Hafnarfirði og elsta heimildin um jörðina er í Hausbók Landnámu, en Hrafna-Flóki Vilgerðarson á að hafa fundið þar rekinn hval á eyrinni og nefndi þá jörðina Hvaleyri.
Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395 og var leigan til klaustursins 4hndr.
Árið 1448 er getið til um kirkju á Hvaleyri en svo er lítið fjallað um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.

Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942 – braggabyggð.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Vesturkot

Vesturkot, gamla klúbbhús Keilismanna, var brennt í árslok 1992.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungs-jarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar er getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar segir: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter diske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Næsta heimild um Straum er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin sé í konungseign og að ábúandi sé Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel, en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi, og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsagerði er þá eyðihjáleiga á jörðinni, sem hafði verið í eyði eins lengi og menn muna, og var ekki talið líklegt að þar yrði búið aftur, vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það komi niður á hans eigin túni.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 er jörðin í bændaeign, dýrleikinn 12 ½, landskuldin 0.75, kúgildi tvö, einn ábúandi og er hann eigandi jarðarinnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar eru landamerki fyrir jörðina Straum: Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól frá Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krísuvíkurlandi.

Tobbuklettar

Vestari Tobbuklettar.

Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað i Straumi 31. Maí 1890).
Það er ekki mikið af sjáanlegum minjum sjáanlegar við bæjarstæði Straums, en það hefur orðið fyrir raski af seinni tíma framkvæmdum.
Þó er tún- og varnargarðurinn enn sjáanlegur við núverandi húsin á Straumi og hluti bæjarhólsins, en hann hefur verið rofinn af vegi og bílastæðum. Tæplega 200m sunnan við bæjarstæðið á Straumi er að finna Straumsrétt og fjárhús.
Norðan við Straum er að finna tvær þurrabúðir, Þýskubúð og Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskabúð

Tóft við Þýskubúð.

Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dregur nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld. Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993 og þar segir: „Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum.

Þýskabúð

Þýskabúð 2022.

Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr (m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.] Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn) [Þýskubúð]. Þjóðverjar versluðu [þarna] á 14. og 15. öld.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn.
Túngarðurinn er frekar illa farinn, en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.

Jónsbúð

Jónsbúð

Jónsbúð – túnakort 1919.

Jónsbúð er tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar, en þær hafa nánast alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og voru markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreingar, en rannsóknin leiddi í ljó að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu, en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Á túnakorti frá 1919 segir að kálgarðar séu 180m2 og að tún Jónsbúðar séu holótt og slétt, þau séu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og séu 0,2 teigar.
Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en vert er að minnast á að ekki er alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 er minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums, og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa flust til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Forðum gengin spor“ er tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði og segir þar: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Í skýrslu sinni veltir Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin sé greinilega ekki kennd við hann. Hann segir einnig að líklegt sé að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann segir einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt, en bæjarrústirnar eru vel greinanlegar og matjurtagarðurinn áfastur þeim.
Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús, sbr. viðtalið við Jón Magnússon. Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum, en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

Óttarsstaðir er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það voru þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Í örnefnaskrá segir að á Óttarsstöðum var tvíbýli. Þau voru nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á bæjarhól nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn sem byggður var 1890 stendur enn.
Austurbærinn var rifinn fyrir aldamótin 1899-1900, en árið 1885 var byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu en hluti gömlu bæjartóftanna notað fyrir fjós og hlöðu.

Óttarsstaðir

Áttarsstaðir vestri.

Elstu heimildir um Óttarsstaði er Kaupbréf frá 9. september 1447, en þar segir að Einar Þorleifsson hafi keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki jarðarinnar sé óviss og að jörðin sé í eigu konungs. Þar voru kvaðir um mannslán um vertíð, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Þar var hægt að fóðra fimm kýr ef túnið var gott, en ekki ef það hafði verið í órækt og úr sér vaxið eins og það var á þeim tíma sem Jarðabókin var gerð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lendingin var í meðallagi og nýtt af ábúenda allt árið í kring. Jörðin átti selstöð í almenningi, en þar voru hagar góðir, en lítið um vatn í þurrka á sumrin.
Töluvert af skráðum minjum falla inná landsvæði Óttarsstaða, en fáar tengjast eiginlegum búskap.
Fjölmargar vörður eru innan landsvæðisins, bæði kenni- og eyktamörk, einnig eru þar stekkir, leiðir og fjárskýli.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir eru ein af jörðunum sem teljast til hinna svokölluðu Hraunjarða, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elstu heimildir sem til eru um Þorbjarnarstaði er frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs, en þá er jörðin í eyði, og í fógetareikningum frá 1547-48, þá er jörðin komin aftur í byggð og þar segir : „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. summa iije tals.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir að jarðardýrleikinn sé óviss og jörðin í eigu konungs.
Jörðin var þá með selstöð sem nefnist Gjásel, en þar voru hagar góðir en vatn slæmt. Einnig segir að túnrista og stunga var í lakara lagi og ekki nægileg, en fjörugrastekja sé góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði hafi verið árið í kring og lending góð, en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Byggð hefur verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920, en samkvæmt manntölum bjuggu mest þar 19 manns árið 1703, en minnst bjuggu þar 3 manns 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn bjó þar samkvæmt manntölum.
Árið 1869 flyst Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881 og er segir Valgarður L. Jónson frá störfum Ólafs við umbætur á jörðinni í Íslendingaþáttum Tímans. Ólafur mun hafa grætt upp túnblettina og hlaðið varnargarð umhverfis túnið. Hann mun hafa mulið hraunið með sleggju og breitt mold yfir og fengið þannig hið fínasta tún í kringum bæinn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru túnin á Þorbjarnarstöðum slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2, en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Ætla má að þær tóftir og garðlög sem sjáanleg eru á Þorbjarnarstöðum í dag séu komin frá honum Ólafi, en búast má við að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar sem tengjast Þorbjarnarstöðum tengjast flestar búskapi á Þorbjarnarstöðum, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kring um bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktamörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Tveir grunnar til viðbótar eru fast sunnan við Reykjanesbrautina.
Norðan við bæjarstæði og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina er að finna þurrabúðina Péturskot.

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raski vegna lagninu Reykjanesbrautarinnar. Um Péturskot segir í Örnefnaskrá „[…] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni“.

Alfaraleið

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Alfaraleiðin var áður skráð af Katrínu Gunnarsdóttur árið 2011 og er meginhluti sögulega yfirlitsins unninn úr þeirri skýrslu.
Alfaraleiðin er elsta kunna samgöngueiðin milli Suðurnesja og Innesja Reykjanesskagans. Um hana fóru allir skreiðar- og vöruflutningar.
Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða um aldir, eða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar.
Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld.

Alfaraleið

Varða við Alfaraleið.

Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum.
Alfaraleiðin liggur áfram í suðvestur yfir hæðir og hóla, ofan í sprungum og yfir slétt svæði í hrauninu. Leiðin var einungis skráð að sveitarfélagsmörkum Hafnarfjarðar og Voga, en hún heldur áfram mun lengra inn í hraunið.
Tuttugu og tvær vörður eru enn við leiðina, þrátt fyrir að þær hafi verið mun fleiri á meðan leiðin var í notkun.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar 2020.

Ingvaldar

Brá á Ingveldum 2010.

Stúlknavarða
Á Njarðvíkurheiði er varða. Undir vörðunni eru klappaðir stafirnir AGH og að því er virðist ártalið 1773. Í Faxa árið 1955 segir svo um þessa vörðu:
“Steinninn í heiðinni”.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

Kjartan Sæmundsson, Ásgarði í Njarðvíkum, hefir sent blaðinu nokkrar línur varðandi stein, sem er þar í heiðinni rétt fyrir ofan. Segir hann að á stein þennan séu grafnir stafirnir AGH 1773. – Sýnilega hafi verið grafið eitthvað meira á steininn en sé nú máð og illlæsilegt. Hann segir að steinn þessi sé kallaður Stúlkusteinn og fylgi honum sú saga, að þar hafi orðið úti ung stúlka, kaupmannsdóttir úr Keflavík, sem dag nokkurn í góðu veðri hafi farið á rjúpnaveiðar með föðrur sínum.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Síðar um daginn hafi gert suðvestan fárviðri með snjókomu. Hafi stúlkan þá orðið viðskila við förður sinn og síðar fundist þarna undir steininum látin. Telur Kjartan líklegt, að þetta sé eina stúlkan, sem orðið hafi úti í snjóbyl frá Keflavík. Vill Kjartan að minningu þessarar stúlku sé viðhaldið með því að skýra letrið á steininum og í því sambandi óskar hann þess, að ef einhver kann gleggri skil á sögunni um Stúlkustein, t.d. hvað stúlkan hafi heitið og hversu gömul hún hafi verið, þegar hún varð úti, þá sé hann látinn vita, eða því sé komið á framfæri í Faxa. Einnig býðst hann til að sýna steininn, hverjum sem þess óska”.

Áletrunin, einkum bókstafirnir, sést enn vel á steininum, sem varðan stendur á. Þá sést varðan og vel frá Reykjanesbrautinni (sunnan vegarins). Þarna skammt frá til suðausturs er hlaðin tóft ofan við klapparhæð, ekki langt fyrir ofan rústir frá hernum, sem þarna standa enn.

Úr tímaritinu Faxa, 17. júní 1955, bls. 67 (Í flæðamálinu) – SG endurritaði 2002.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Klifhæð
Norðan við gamla þjóðveginn (Suðurlandsveg), svo til efst á Klifhæð, er sæmilega stór steinn. Á hann er klappað formfagurlega ártalið 1887 og eru stafirnir rauðlitaðir. Áletrunin er að öllum líkindum frá þeim tíma er vegurinn var fyrst lagður í þetta vegstæði, en gamla leiðin upp úr Lækjarbotnum er ekki allfjarri. Suðurlandsvegur lá einnig upp úr Lækjarbotnum áður en hann var færður í núverandi vegarstæði nokkru norðar, og yfir Klifhæð.
Þann 1. mars árið 1895, 47. árg., 10. tbl. er ritað um þetta vegstæði Suðurlandsvegar.

“Vanhugsuð vegarlagning”.
SuðurlandsvegurUm það hvar vegurinn liggur frá Árbæ upp að Hólmi, skal ekki farið mörgum orðum, því að líkindum verður honum aldrei breytt á þeirri leið og virðist þess heldur ekki þörf, jafnvel þó hann hefði þar átt að hafa aðra stefnu frá byrjun, sem sé, fyrir norðan Rauðavatn, en um það er nú ekki mikið að fást. En úr því kemur upp fyrir Hólm; fer að verða skoðunarmál, hvort hann hefur verið lagður á sem bestum stað, eða ekki. Skal hér því stuttlega lýsa landslagi á því svæði og hvernig ár og rásir falla, sem bæði hafa valdið honum stórskemmdum og munu eins hér eftir, jafnvel þó varið hafi verið töluverðu fé honum til viðhalds, sem hefur verið brýn þörf, ætti hann að vera fær.

Suðurlandsvegur

Letur á klöpp við brúarstæði Hólmsár.

Eins og kunnugt er, liggur vegurinn yfir Hólmsá, skammt fyrir austan Hólm. Hefur þar orðið að brúa hana tvisvar með ærnum kostnaði og óvíst að enn dugi. Þaðan upp að Lækjarbotnum, er sléttlent – Hólmarnir, – sem áin flæðir yfir í leysingum og hefur vegurinn þar umrótast fleirum sinnum og sjálfsagt verður honum þar aldrei óhætt. Á þeirri leið eru tvær brýr, er báðar hafa flotið burt með stöplum, en sú þriðja er nú nýgerð. Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin – svo er Fóelluvötnum skipt – enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin upp frá Reykjavík til austurs (blá brotalína).

Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært. Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og “þrándur í götu” fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.

Svínahraun

Vegurinn um Svínahraun.

Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá Hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.

Svínahraun

Varða við veginn um Svínahraun.

Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Eins og áður hefur verið drepið á í blöðunum, er það nyrðri leiðin, sem af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn.

Lyklafell

Lyklafell.

Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur ofan Hveragerðis.

Væri nú ekki ráðlegt, að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega síðastl. sumar á pörtum, þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyr eða síðar dæmdur ófær.”

Lögberg

Grafreitur á Lögbergi.

Á árunum 1904–1910 flutti Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum býli sitt frá Gömlubotnum við Selfjall að þjóðveginum undir Fossvallaklifi, sem nú er oft kallað Lögbergsbrekka. Þarna hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Hægt er m.a. að sjá minjar þessa búskapar á hólnum sunnan vegarins neðan brekkunnar.

Tröllabörn

Eitt Tröllabarna.

Enn neðar er merkilegt náttúrufyrirbæri, “Tröllabörnin í Lækjarbotnum”. Þetta eru sérkennileg hraundrýli (hornító) sem hafa verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Þau voru friðlýst árið 1983. Þegar gosgufurnar koma úr útstreymisopum brenna þær við hátt hitastig þegar þær sameinast súrefni loftsins. Þá hlaðast upp litlar en brattar strýtur úr kleprum sem gosgufurnar rífa með sér. Strýtur sem þessar, eða hraundríli, eru einkum algengar á hraundyngjum.
Svipuð jarðfræðifyrirbæri, þó ekki eins í útliti, má sjá í Hnúkunum og á Strokkamelum í Hvassahrauni (Hvassahraunsgígar). Þar eru nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Hraundrýlið í Hnúkunum er hæst þessara drýla og ekki síst.Fróðleikur um vegagerðina:
www.vegagerdin.is

Fróðleikur um hraundrýli:
http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi/nr/1139

Lakheiði

Sæluhústóft ofan við Lakheiði.

Konungsvegurinn

Í fornleifaskráningu Kristins Magnússonar frá árinu 2008 er m.a. fjallað um Eiríksbrú; vegagerð um Hellisheiði fyrir 1880:

Kambar

Núverandi vegur um Kamba.

“Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.

Hellisheiðarvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis.

Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.”

Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkrum stöðum á heiðinni og í Kömbum. Kafli vegarins sem varðveittur er á háheiðinni.

Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Hveragerði

Eiríksvegur ofan Hveragerðis – lagður um 1880.

Enn eru varðveittir kaflar af þessum vegi. Einna heillegasti kaflinn er neðan við Kambana í landi Hveragerðis. Verndargildi vegarins felst ekki hvað minnst í því að hann er sennilega með fyrstu vegum á Íslandi sem byggður er samkvæmt forskrift en í reglugerð sem gefin var út um veginn var sagt að hann skyldi vera 10 feta breiður, upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Þannig er hann einmitt gerður á þeim stöðum þar sem enn má sjá leifar hans.

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn.

Eiríksvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis 2009.

Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].”

“Frá stóru vörðunni á Efra-Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum Gíghól…

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leiðin.

Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum…

Eiríksvegur

Hestakjól við Eiríksveg á sunnanverði Hellisheiði.

Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.”
“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, [b. 1877-78], lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.

Kambar

Kambar – vegir og leiðir frá mismunandi tímum.

Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur…

Svínahraun

Vagnvegurinn um Svínahraun.

Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagður á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.”

Eftirfarandi ábending kom við deiliskipulag Hveragerðisbæjar vegna skipulags byggðar í Kambalandi:
“Það eru ekki allir sem vita að Hveragerði hefur verið í þjóðleið frá því að land byggðist, þó að þéttbýli hér sé ekki eldra en 90 ára.

Svínahraun

Forna gatan um Svínahraun.

Vestast í sveitarfélaginu, undir Kömbunum, er að finna leifar af þremur kynslóðum af þjóðvegum. Með þeim þjóðvegi sem nú liggur um Kamba er því að finna á litlu svæði fjórar kynslóðir af þjóðvegum allt frá landnámi. Mér finnst mikilvægt að við höldum þessum minjum til haga og skipuleggjum byggðina í Kambalandi þannig að sýnishorn þessara þjóðvega fái að njóta sín og vera hluti af skipulaginu. Samkvæmt núverandi skipulagi er aðeins gert ráð fyrir að mjög lítill hluti þessara minja verði varðveittar.

Kambar

Mynd; skipulag – “Hér fyrir neðan er mynd af skipulagi Kambalands þar sem ég er búinn að merkja inn þessar mannvistarleifar, nr. 1-3 og svo eru ljósmyndir af minjunum, sem sjást kannski ekki mjög vel í dag þar sem mosinn hefur náð yfirhöndinni víða.”

Meðfylgjandi voru eftirfarandi fróðleikur með vísan til merkinga á uppdrættinum:
Nr. 1: Gamla þjóðleiðin frá landnámi til um 1880. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má. Gamla þjóðleiðin liggur niður í Ljóðalaut. Á brotalínunni á skipulagsteikningunni má sjá m.a. hvar þjóðleiðin liggur, m.a. við lóðir næst Ljóðalaut og aðrar lóðir sem munu skera þjóðleiðina í sundur.

Nr. 2: Um 1880 var lagður vegur yfir Svínahraun og Hellisheiði og niður Kamba. Vegavinnustjóri var Eiríkur Ásmundsson í Grjóta og hefur vegurinn verið kenndur við hann, ýmist nefndur Eiríksvegur eða Eiríksbrú.

Kambar

Eiríksvegur frá því um 1880 ofan Hveragerðis.

Vegurinn var steinlagður og einkenni hans var að hann var lagður þráðbeinn yfir hæðir og lautir. Í Kömbunum gat vegurinn því orðið nokkuð brattur. Vegna þessa og að sjaldan var borið í hann var vegurinn sjaldan notaður. Nýr Kambavegur var svo lagður árin 1895-1896. Enn sést móta fyrir Eiríksvegi fyrir ofan byggðina í Hveragerði þó að mosi hylji nú þennan gamla veg. Á brotalínu á skipulagsteikningunni má sjá hvar Eiríksvegur liggur efst uppi við Kambaveg. En Eiríksvegur liggur í raun nánast alveg að byggðinni við Borgarhraun/Kjarrheiði en skipulagið gerir ráð fyrir að hann hverfi alveg undir lóðir og götur.

Kambar

Vegurinn um Kamba 1906.

Nr. 3. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði og niður Kamba árin 1895-1896 og var sá vegur í notkun allt til ársins 1972 þegar núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun. Gamli Kambavegurinn er nú vinsæl gönguleið. Gert er ráð fyrir því í skipulagi Kambalands að vegurinn verði ein af stofnbrautum hverfisins og má þannig segja að hann haldi sínu hlutverki.

Við athugun kom í ljós að engar opinberar fornleifaskráningar hafa verið gerðar um framangreinda vegi og leiðir um Kambana fyrrum.

Kambar

Forna þjóðleiðin frá landnámi til um 1880 um Kamba ofan Hveragerðis.

Á vefsíðu um söguferðir í Hveragerði segir um Eiríksveg:
“Um 1880 var lagður vegur yfir Svínahraun og Hellisheiði og niður Kamba. Vegavinnustjóri var Eiríkur Ásmundsson í Grjóta og hefur vegurinn verið kenndur við hann, ýmist nefndur Eiríksvegur eða Eiríksbrú. Vegurinn var steinlagður og einkenni hans var að hann var lagður þráðbeinn yfir hæðir og lautir. Í Kömbunum gat vegurinn því orðið nokkuð brattur. Vegna þessa og að sjaldan var borið í hann var vegurinn sjaldan notaður. Nýr Kambavegur var svo lagður árin 1895-1896. Enn sést móta fyrir Eiríksvegi fyrir ofan byggðina í Hveragerði þó að mosi hylji nú þennan gamla veg.”

Eiríksvegur

Eiríksvegur ofan Vatnsleysu á Vatnsleysutrönd.

Annar Eiríksvegur er ofan Vatnsleysustrandar: “Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.”

Heimildir m.a.:
-Hengill og umhverfi, fornleifaskráning, Kristinn Magnússon – 2008.
-https://krumminn.is/kambaland-og-thjodvegir-fra-landnami/
-https://www.facebook.com/508916472581521/posts/1510638752409283/

Kambar

Gamli Kambavegurinn sem var lagður um 1895-1896.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um “Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða” í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

“Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
“Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert “Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert “Shine” Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið”.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews“Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 “Fljúgandi virki” en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews var hækkaður í tign árið 1941 og var falin yfirstjórn bandarískra herja við Karibahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu “Hot Stuff” og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar”.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

“Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann “Meeks Field” í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú”.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var “Andrews Theater” á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.