Hér verður vitnað í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum og nágrenni. Hún var upphaflega skráð af Gísla á sjöunda áratugnum eftir Ástvaldi Þorkelssyni frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónssyni frá Hlíð, Magnúsi Guðjónssyni frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfssyni frá Eyðikoti. Einnig studdist hann við gömul landamerkjabréf.
Þorbjarnarstaðir og nágrenni – örnefni og minjar.
3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt þremur öldruðum mönnum, Gísla Guðjónssyni, Gústaf Brynjólfssyni og Jósef Guðjónssyni. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980. Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.
Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.
Hér fer á eftir lýsing Gísla með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.
„Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.
Þorbjarnastaðarétt.
Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.
Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við. Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið, sem Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti og enn stendur. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti. Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.
Þorbjarnarstaðir – Lambúsgerði.
Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.)
Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.
Péturskot árið 2000.
Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólmana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörnunum. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörinni sér enn djúpar skorir eftir bátskilina. Gísli Sigurðsson segir, að það muni vera þessi staður, sem í bréfi frá 1849 nefnist Brynjólfsskarð og var nyrzta mark landamerkja milli Þorbjarnarstaða og Straums. En þetta kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekkert við og þykir það óskiljanlegt, því að ekkert skarð er á þessum slóðum.
Péturshróf.
Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið. Segir Gísli, að það hafi legið af hólmunum um Litla-Stróka, sem hann nefnir svo, og þaðan upp á Stróka eða Stóra-Stróka að Litla-Lambhaga, sem í fyrstu nefndist Nýjakot. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans kannast ekki við nafnið Litli-Stróki og telja hæpið, að Stróki hafi verið kallaður Stóri-Stróki. – Þetta eru tangar, sem ganga í sjó fram, og standa smáklappir upp úr.
Lambhagaeyrarbyrgi.
Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess. Fram milli Stróka lá Ósinn eða Nýjakotsósinn, sem eiginlega var lækur. Mest bar á honum við útfall, og var þar í allmikið vatn.
Gísli segir, að í túninu hafi verið þessir matjurtagarðar: Geiragarður, Stórigarður og Hraungarður. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans muna ekki eftir kálgörðum í túninu, en garðar voru utan túns og m.a. einn við fjárhúsin við upphaf Ólafsgötu.
Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að þar hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni. Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið. Austan við bæinn var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.
Sjávargatan lá frá bæ norður á Stróka í Litla-Lambhagavör, sem einnig var nefnd Litla-Lambhagalending. Þar hjá var Litla-Lambhagahróf.
Litla-Lambhagavör.
Lambhagavík lá frá Stróka austur á Eyri. En Lambhagamenn nefndu svo Straumsvíkina sín megin. Um suðurhluta túnsins liggur nú vegur inn til álversins og einnig Reykjanesbrautin. Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.
Gerði og Gerðistjörn.
Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Lambhagatjarnarós rann fram úr Stóra-Lambhagatjörn til sjávar milli Stróka og (Stóra-)Lambhagagranda. Vestast á grandanum var klettur, er nefndist Laufahjalli. Austan við hann var Þorbjarnarstaðavör og Gerðisvör. Þar má enn sjá móta fyrir hleðslu af bátshrófi eða skipahrófinu.
Litli-Lambhagi – útihús.
Austar nokkuð var hraundrangur, nokkuð sprunginn að ofan, en gras á honum. Gísli Guðjónsson segir, að hann hafi alltaf verið nefndur Leikarahóll. (Í eldri skránni stendur Leikhóll). Krakkar hafa getað leikið sér þar, en einnig kann nafnið að stafa af því, að lömbin hafi leikið sér þar. Af vesturodda grandans lá garður um þvera Lambhagatjörn. Upp í Aukatún lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-Lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús. Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.
Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.
Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu. Austan bæjarins lá skerjagarður fram í víkina. Hann nefndist Kelatangi, en ekki er vitað, af hvaða Kela hann dregur nafn. Þar fyrir sunnan var Lambhagavör og upp af henni Lambhagahróf. Lambhagatúnið lá um grandann og Lambhagahólma, en milli þeirra voru Lambhagatjarnir. Í þeirri, sem næst var bænum, var brunnurinn, grafinn niður í leirinn, og frá honum Brunnstéttin, helluflórað upp til bæjar. Hér úti í tjörninni var lítið, upphlaðið byrgi, Tjarnarbyrgið.
Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.
Stóra-Lambhagastígur lá um hólmana eða austur fyrir þá upp að Brunanum og norðan undir honum og vestur með og var þar nefndur Hallinn. Ef gest bar að garði, sem fór þessa. leið, var vanalega sagt, að gesturinn væri á Hallanum. Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.
Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.
Lambhagi um 1970.
Um Brunann lá einhlaðinn grjótgarður vestur á Hraunhornið, Brunagarðurinn. Uppi á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri. Þarna er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur upp frá túninu í hlið á austurtúngarðinum. Frá hliðinu lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.
Lambhagi – stífla v/fiskeldis.
Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Beinavíkurhlið, sem nefnt er í skrá Gísla, er óþekkt.
Fjárslóðin vestari liggur um Lambhagaeyrarkletta, og er stígur þessi heldur ógreiður. Miðja vegu í klettunum var Litlaeyri, vík. Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að upp af henni inni í hrauninu hafi verið Klettstjarnir, með fersku vatni. Þessu mótmælir Gísli Guðjónsson og segir, að þar hafi aðeins verið ein tjörn, sem hét Eyrartjörn. Þó kann að vera, að einhverjar smátjarnir hafi komið upp þarna um hásjávað.
Lambhagi fyrir 1960.
Víkin var einnig kölluð Litla-Sandvík. Nokkru utar var svo komið á Lambhagaeyri. Lá hún í sveig og var nokkuð stórgrýtt. Hingað rak mikið af sölvum, sem fé sótti mjög í. Gísli Sigurðsson segir, að eyrin hafi líka verið kölluð Stóra-Sandvík, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekkert við. Eyrin lá út að Lambhagaeyrarnefi, sem lá fyrir mynni Straumsvíkur. Lambhagaeyrartangar var nefið kallað ásamt Lambhagaeyrarrifi, sem lá beint á sjó út. Háasker var drangur út frá eyrinni, en milli hans og eyrar var Músarsund. Eyrin var allbreið, og hallaði inn af henni. Þar var Lambhagaeyrarflöt og í henni matjurtagarður. Niður frá flötinni var Lambhagaeyrartjörn. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þó var þarna ferskt vatn. Vestan við tjörnina var Lambhagaeyrarskjól og þar við Lambahageyrarbyrgi. Sunnan við tjörnina eru Skotbyrgin, Skotbyrgið eystra og Skotbyrgið vestra. Hér upp af ganga geilar og bugður og nefnast Katlar. Af eyrinni liggur fjárslóðin eystri inn eftir Eyrarklettum.
Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.
Út af þeim var klettur, nefndur Einbúi. Slóðin lá allt inn í Þórðarvík, en þar voru mörk milli Þorbjarnarstaða og Hvaleyrar. Hér kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti, fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg.) Hér út frá Þórðarvík er Þórðarvíkurþari. Gísli Sigurðsson segir, að Hraunavík heiti hér fram undan austan frá Hvaleyrarhöfða vestur að Óttarsstaðatöngum en heimildarmenn sr. Bjarna þekkja hvorki nöfnin Hraunavík né Óttarsstaðatanga. Þó gætu þessir tangar verið nefndir Óttarsstaðatangar frá öðrum bæjum en Óttarsstöðum.
Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin millum Þorbjarnarstaða og Gerðis ekki verið skráð (einungis sögð „óljós“).
Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.
Alfaraleiðin – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.
Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Þorbjarnarstaðaker.
Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.
Gerðisstígur (Hellnastígur) um Selhraun.
Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur
Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur.
En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta. bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.
Rauðamelsrétt (Vorrétt).
Skammt suður þaðan í Brúnabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.
Hrauntunguskjól.
Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.
Brundtorfuhellir.
Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.“ En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.
Kolbeinshæðarskjól.
Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun. Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur.
Gjásel. Í örnefnaslýsingunni er því lýst sem Fornasel.
Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina.
Hafurbjarnarholt – varða.
Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.
Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið.
Gránuskúti í Gjáseli.
Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan. Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum. Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd.
Tobbuklettavarða eystri.
Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi. En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða, stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.
Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.
Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð. Athugasemd: Sr. Bjarni kannast ekki við Fremri-Flár. Á þessum stað virðist lýsingin ekki í fullu samræmi við lýsingu Straums, en enginn núlifandi maður treystir sér til að leiðrétta þetta misræmi.“ – Örnefnastofnun, 11. nóv. 1980; Sigríður Jóhannsdóttir [sign.]
Heimild:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum með athugasemdum.
Alfaraleiðin- varða.