Reykjavík - Grasagarðut

Á vefsíðu Grasagarðsins í Laugardal segir m.a.:

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal.

“Grasagarðurinn í Laugardal var stofnaður 1961 þegar Reykjavíkurborg fékk að gjöf 200 íslenskar plöntur frá þeim hjónum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Plöntunum var komið fyrir við Ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal.
Sigurður Albert Jónsson var fyrsti forstöðumaður garðsins frá 1961 allt til 1999 og byggði garðinn upp frá grunni. Hann hóf einnig strax skráningu og merkingu plantna, fræskipti við útlönd og ýmsar ræktunartilraunir.”
Bærinn Laugatunga féll garðinum í skaut árið 1970.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal – kort.

Garðurinn hefur stækkað í áföngum, hægt og rólega frá upphafi fram til 1990, þegar trjásafnið opnaði, og aftur 2011 þegar garðurinn stækkaði um 2,4 ha og er nú um 5,5 ha.
Lystihús var flutt í garðinn árið 1980 og gróðurhúsið reis nokkrum árum síðar en þar er kaffihúsið Café Flóra til húsa.”Upplýsingarnar stemma ekki við aðrar heimildir.
Jafnframt segir: “Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Hann stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn – skilti.

Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.”
Í garðinum sumarið 2023 hafa verið sett upp nokkur áhugaverð fræðsluskilti, án þess, að því er virðist, að nokkur tilraun hafi verið gerð til að vekja sérstaka athygli á þeim merkilegheitum.
FERLIR fór á vettvang og birtir hér með myndir af skiltunum og meðfylgjandi fróðleik:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Setberg

Myndin hér að neðan er af Setbergsbænum við Hafnarfjörð árið 1772. Þar bjó þá Guðmundur Runólfsson, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Setbergsbærinn

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Þegar konungur bauð kálgarðagerð í landinu, var svo mælt fyrir, að sýslumenn skyldu ganga á undan öðrum með góðu eftirdæmi. Guðmundur Runólfsson gerði það, en svo dýrseldir þóttu honum kaupmenn, er hann var látinn borga spesíudal fyrir níu kvint af kálfræi, að hann kærði það fyrir rentukammerinu. Eftir það lækkaði verðið, og sýslumaður lét bændum í té fræ án endurgjalds. Komust þá upp 84 kálgarðar í Kjalarnesþingi. En nú hefur sýslumaður þá sögu að segja, að flestir hafi hætt við kálgarðana “eftir að okkar góðu verndarar við verslunina þótti það við hæfi að hræða fólkið frá slíku handafla með því að færa okkur fræ, sem ekki dugar, er ég hef mátt kaupa af þeim í tvö ár. Af því hefur ekki sprottið upp úr jörðinni ein einasta planta, sproti eða blað nokkurs staðar, hvorki í Gullbringu-, Kjósar- né Borgarfjarðarsýslu. – Þess konar fræ kom í Hólminn í tvö ár í röð, og annað árið jafngott í Hafnarfjörð”, segir sýslumaður í greinargerð um frækaup sín.

-Öldin okkar 1771

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Hreindýr

Eftirfarandi frásögn um hreindýrin er úr Öldinni okkar 1771.
Hreindýr“Dýr, sem Íslendingar hafa ekki fyrr augum litið, komu hingað með Vestmannaeyjaskipi í sumar. Voru það þrettán eða fjórtán hreindýr af Finnmörku, sem send voru Thodal stiftamtmanni, og er til þess ætlast, að hann gangi úr skugga um, hvort þau geti þrifist hérlendis. Mosi sá, sem hreindýr fíkjast mest eftir, var fluttur í pokum til fóðurs handa þeim á sjónum.
Það hefur áður komið til orða að reyna hér hreindýrarækt. Níels Fuhrmann vakti máls á því fyrir hálfri öld, og fyrir tuttugu árum var það ákveðið í konungsgarði fyrir tilmæli Hans sýslumanns Wíum og fleiri fyrirmanna austan lands að flytja hingað hreindýr. Það fórst þó fyrir í það skiptið.

Kúluhattshellir

Hreindýrabein í Kúluhattshelli.

Kaupmaður í Eyjum, Hans Klog, veitti hreindýrunum viðtöku, þegar þau komu til landsins í sumar, og gerði sér vonir um, að þau gætu lifað þar. En hann sá brátt, að þeim hrakaði frekar en þau brögguðust, og þess vegna tók hann það ráð að manna bát og láta flytja sjö þeirra til lands. Fygldi þeim maður, er átti að reka þau til Bessastaða og leita úrskurðar stiftamtmanns um það, hversu með þau skyldi farið. Hugðist kaupmaður með þessu firra sig ámæli.
Báturinn tók land við Landeyjasand, en hreindýrin voru þá orðin svo máttfarin, að sendimaðurinn kom þeim fyrir í vörslu bónda það við sjávarsíðuna, á meðan hann færi sjálfur til Bessastaða og sækti fyrirmæli stiftamtmanns.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Stiftamtmaðurinn hafði ætlast til að hreindýrunum yrði sleppt á fjöll í grennd við Þingvallasveit og falin umsjá presta, er heima eiga í næstu sveitum. Þótti honum því miður, að þau skyldu ekki flutt til Þorlákshafnar.
Úr því sem komið var, fól hann Þorsteini Magnússyni, sýslumanni Rangæinga, að hlutast til um, að þeim yrði vikið til fjalla þar eystra, því ekki þótti viðlits að reka þær vestur yfir stórárnar.”
Síðar, eða árið 1777, voru nokkur hreindýr sett í land á Hvaleyri við Hafnarfjörð (30 dýr) og gengu þau um Reykjanesskagann og Hengil. Dýrin runnu til fjalla og tímguðust vel. Hreindýrin voru hins vegar eftirsótt til matar og endaði með því að síðasta hreindýrið var skotið á Skaganum í byrjun 20. aldar. Enn má sjá hreindýrabein í hellum á Reykjanesi, s.s. svonefndum “Kúluhattshellum” í Heiðinni há, í hraununum ofan við Helgafell og í Húshelli við Hrútargjárdyngju ofan við Hafnarfjörð.

-Öldin okkar 1771.

Hreindýr

Hreindýr.

Straumur

Húsið í Straumi var reist árið 1927, fyrir Björn Bjarnason barnaskólakennara og síðar skólastjóra Barnaskólans í Hafnarfirði, eftir teikningu Guðmundar Einarssonar trésmíðameistara og framkvæmdarstjóra í Dverg.

Straumur

Straumur – ljósmyndina tók Sigríður Erlendsdóttur um 1930.

Ber húsið keim af hönnun Guðmundar en álíka kvistur er á húsi hans, Hverfisgötu 3 sem hann teiknaði árið 1925. Björn Bjarnason hafði eignast Straum árið 1918 og stóðu þá þar eldri byggingar sem urðu eldi að bráð snemma árs 1927.
Í virðingagjörð sem gerð var árið 1928 er íbúðarhúsinu lýst þannig: „Íbúðarhús úr steinsteypu, byggt 1927. Vandað vel. Tvær íbúðarhæðir, steypt gólf og loft, hátt ris með geymslu og þurrklofti. Tvídyrað. Snoturt útlits.

Hverfisgata 3

Hverfisgata 3.

Skýli heilt með járnþaki við aðrar útidyrnar 3 x 2 ½ m. Stærð 8,6 x 8m. meðalhæð um 6,5m. Á neðri hæð eru 3 stofur, eldhús, búr og gangur (forstofa) á efri hæð: 4 herbergi og gangur. Geymsla á 3. lofti.

Útveggir steyptir: að innan lagðir pappa, korklagi og svo veggjapappi á sléttri súð. Milliloft steinsteypt. Dúkar (linoleum) á gólfum. 1 steinsteyptur reykháfur. 3 ofnar, 2 þeirra ósettir niður, 1 eldavél (glerhúðuð)“. Enginn kjallari en steypt breið stétt á 3 hliðar við íbúðarhúsið, sem stendur á klöpp. Virt á 16.700 kr.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason – Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930.

Útihúsin: „1. Heyhlaða (við húsgafl) tekur um 600h. Steyptir veggir, járnþak, tvíreist. 2. Fjós við, fyrir 13 gripi, steyptir veggir, járn og burðaþak, steypt gólf og áburðargryfjur, vatni dælt að hverjum grip (og í húsið). 3.Fjárhús, tekur 200 að 2 görðum. Steyptir veggir og gólf með baðþró og brunni (300 fjár baðað á kl.st.) járnþak, rimlar á gólfi. „ í virðingu frá 1927 þá af húsinu nýbyggðu eru steypt baðáhöld í fjárhúsinu og fjósið með 14 básum.
Bjarni Bjarnason var kennari og skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Til að drýgja tekjurnar vann hann við heyskap á sumrin þar sem færi gafst en árið 1918 keypti hann Straum og rak þar búskap í rúman tug ára en aldrei bjó hann í húsinu heldur hafði hann þar ráðsmann og leigði út herbergi. Straumur var fyrirmyndar bú, er haft eftir bónda úr Borgarfirði sem kvaðst „aldrei hafa séð 14 kýr í einu fjósi jafn glæsilegar“.

Straumur

Straumur 1935.

Dyrafjöll

Í “Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu II” frá árinu 1997 er m.a. fjallað um Dyrnar í Dyradal og Sporhelluna ofan Sporhelludala norðan Henglafjalla. Um Dyrnar segir:

Dyradalur

Dyradalur.

“Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn, segir í örnefnalýsingu. Dyradalur er í landi Nesja en Dyrnar sjálfar, sem eru austanmegin í dalnum, munu vera í Nesjavallalandi. Þær eru skammt norðan við Nesjavallaveginn sem liggur um brekkuna ofan við þær og um þær liggur merkt gönguleið.
Dyrnar eru 15-20 m háar og aðeins um 2 m breiðar þar sem þær eru þrengstar vegna hruns, en víðast um 5-6 m. Austan við skarðið hefur hrunið mikið í það. Vestan við Dyrnar sjást reiðgötur sem beygja til suðurs með austurhlíð Dyradals og virðast stefna upp í fjallshlíðina hinumegin í dalnum, talsvert sunnar en vikið sem Nesjavallavegurinn liggur um.”

Dyr

Dyrnar í Dyradal.

Um Sporhelluna segir:
“Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Α segir í örnefnalýsingum. Sporhellan er fleiri en ein, en dýpstar og lengstar eru rásirnar fyrir botni Sporhelludals, en þar norðan og vestan við eru líka rásir á nokkrum stöðum.

Sporhellan

Sporhellan – Vatnsstæðið fjær.

Vegurinn hlykkjast um dalshlíðar og skorninga, ýmist um grasmóa eða berar móbergsklappir og á þeim hafa rásirnar myndast. Sporhellan er á leið sem er framhald leiða til austurs. Víðast er aðeins ein rás en á nokkrum stöðum hafa þær kvíslast. Alls eru rásirnar 175 m langar, á 5 stöðum á um 500 m bili. Að vestan eru kaflarnir 112 m, 34 m, 8 m, 19 m og 2 m austast. Rásirnar eru víðast 20-30 cm breiðar í botninn og 10-40 cm djúpar.”

Í “Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi” er einnig fjallað um Dyraveg og Sporhelluna:

Sporhella

Sporhellan – Skeggjadalur fjær.

“Suður úr Foldadölum eru smáskörð og lyngmóar vestan við svokallaða Skriðu, sem er upp af miðdalnum. Þá er komið á Dyraveg, sem er þar suður úr og inn í Dyradal, sem er allur í Nesjalandi. Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn.” segir í örnefnalýsingu. “Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur.” “Við vesturendann á Háhrygg liggur Dyravegur. […] Dyravegur lá í gegnum [Litluvelli].” Dyravegur er merkt gönguleið eftir dalnum og upp að dyrunum í Nesjavallalandi. Dyrnar sjálfar eru í Nesjavallalandi. Frá dyrunum er 4,5 km í Botnadal og 3,6 km. að Nesjavöllum.”

Sporhella

Sporhellan.

Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.

Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir.

Sporhellan

Sporhellan.

Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.

Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.
Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.

Sporhellan

Sporhellan.

Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.
Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”

Skeggjadalur

Skeggjadalur.

Í Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli eftir Guðmund Jóhannsson segir: “Þar suðvestur af [Hellu] er Dyradalshnjúkur og Dyradalur. Austast í honum eru Dyrnar, milli tveggja hamraveggja. Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Upp af þeim er Skeggjadalur og Skeggi. Suðaustur af Skeggjadal er Kýrdalshryggur, hár melhryggur með móbergi að vestan.

Dyradalur

Dyradalur.

Þar suður upp við Hengilinn er Kýrdalur. Þar var áður heyjað. Þar norður af heita Hryggir. Austur á þeim er Miðaftanshnúkur, eyktamark frá gamla bænum á Nesjavöllum.
Norðaustan í Hryggjum eru Rauðuflög. Þar lá lestavegur um þau til Dyradals.
Norður af Rauðuflögum er Svínahlíð. Þar upp af Háhryggur. Vestur af honum eru Sporhelludalir (norður af Sporhellu), grasgrónir dalbotnarnir.”

Henglafjöll

Dyrakambur.

Í skrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti; “Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann“, segir: “Hengillinn er stórt og hátt fjall. Hæsti hnúkur hans er nefndur í daglegu tali Vörðu-skeggi. Vestan í Henglin[um] er Marardalur, er hann neðan undir Vörðuskeggja. Vestan dalsins er fellið Þjófahlaup. Norðvestur frá Marardal eru Grashólar. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður frá honum kemur (svo) Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur. Hjá Dyravegi er Dyradalshnúkur. Norðan við hann eru Folaldadalir. Vestan við Folaldadali er Sköflungur. Í vesturenda hans er Eggin.”

Heimildir:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu II: Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Árbæjarsafn (Fornleifastofnun Íslands 1997).
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, 2018.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjar.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli – Nesjavellir eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann; skráð hefur Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Kirkjuvogur

Haldið var að Stekkjarkoti í Njarðvíkum.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Stekkjarkot var byggt 1855. Jón og Rósa bjuggu þar í u.þ.b. hálfa öld. Eignuðst þau þrjár dætur. Kotið var tómthús og grasbýli og dæmigert fyrir slík býli á 19. öld, en jafnframt var róið til fiskjar eins og títt var um útvegsbændur við ströndina. Síðast var búið í kotinu til 1924, en þá fór það í eyði. Jón var frá Vatnsleysuströnd, en er hann hugðist kvænast Rósu var hann gerður arflaus eftir föður sinn. Hann valdi ástina. Mikil umferð ferðamanna var um Stekkjarkot, en þar stöldruðu þeir við áður en þeir héldu yfir Fitjarnar, sandleirurnar, sem áður gátu verið mikill farartálmi á leiðinni um Njarðvíkur. Brunnur er norðan við túngarðinn í Stekkjarkoti og gömul tóft suðaustan við það. Kotið var endurbyggt fyrir nokkrum árum og er nú safn.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Fitjakot var norðvestar, en það fór í eyði vegna ágangs ferðamanna, en hestar þeirra hreinlega átu upp túnin og þar með fólkið út á gaddinn.

Á vefsíðu Reykjanesbæjar segir um Stekkjarkot: “Hvernig skyldu menn hafa búið hér áður fyrr, fyrir daga bárujárnshúsa og áður en íslenska steinsteypuöldin gekk yfir.

Stekkjarkot er endurgerð á hefðbundinni þurrabúð eins og þær voru kallaðar og voru algengiar hér í eina tíð.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Þeir sem bjuggu í þurrabúð máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.”

Stekkjarkot

Stekkjarkot – útihús.

Á Safnavef Reykjanesbæjar segir: “Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992.
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.

Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi.”

Þá var haldið í Hafnir, Kirkjuvog og Kotvog.
Hafnir sunnan Ósabotna, var mikill útgerðarstaður hér áður fyrr. Kirkjan í Höfnum, Kirkjuvogskirkja, var byggð 1861. Það var Vilhjálmur Kr. Hákonarson, sem lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Sagt er að hún hafi kostað 300 kýrverð. Hún er timburkirkja og var upphaflega bikuð að utan með hvítum gluggum. Handan við kirkjuna hefur verið grafinn upp skáli, sem talinn er geta hafa verið frá landnámstíð.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Löngu síðar var hún svo múrhúðuð að utan og ljósmáluð. Á árunum 1970-72 var kirkjan endurreist frá grunni og færð til upprunalegs horfs undir umsjón þjóðminjasafns Við Reykjanesveginn í Höfnum er akkeri mikið landmeginn vegarins við björgunarstöðina. Akkerið er af skipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í Ósabotna 1870.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði og á vindfána kirkjuturnsins. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur á Stað í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Kotvogur

Kotvogur.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón.

Kotvogur

Kotvogur.

Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið , uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins.

Hafnir

Sandgræðslugirðing ofan Hafna.

Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu
Gríðarlega stórt tréskip, hlaðið timbri, á land nálægt þar sem heitir Hvalsnes á milli Þórshafnar (verslunarhöfn á 19. öld) og Hestakletts nokkru norðan Ósa og gegnt þorpinu. Skipið, sem hét Jamestown og var frá Maine í Bandaríkjunum, rak að landi mannlaust og var auðséð að það hafði verið lengi á reki. Þetta gerðist að morgni hvítasunnudags þann 26. júní 1881. Skipið, sem var þrímastrað og þriggja þilfara, var sagt tröllaukið að stærð.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við fyrrum Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni.

Heimildir m.a.:
-leo.is
-https://visitreykjanesbaer.is/upplifun/stekkjarkot/
-https://sofn.reykjanesbaer.is/byggdasafn/vidburdir/Stekkjarkot-2

Stekkjarkot

Stekkjarkot.