Eldborg

“Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vestur hluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.
Vordufellsborgi-221Út úr miðhálendinu íslenzka gengur svo langur fjallarani í suðvestur og út á Reykjanes. Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttu miklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.

Herbert

Á ofanverðum áttunda tug tólftu aldar dvaldist í hinu fræga cisterciensaklaustri í Clairvaux (Clara vallis) í Frakklandi kapellán,
sem Herbert hét eða Herbertus. Herbert þessi hafði áður verið ábóti í Mores í héraðinu Longres og varð síðar erkibiskup í Torres á Sardíníu.
Á meðan Herbert dvaldist í Clairvaux-klaustri, samdi hann rit mikið, sem heitir Liber miraculorum eða Bók undranna. Þetta ritverk hefur varðveitzt í þremur handritum, en þó ekki í heild nema í einu þeirra, sem er pergament-handrit frá klaustrinu Aldersbech í Passau og varðveitt í ríkisbókhlöðunni í Munchen (Cod. lat. Monac. 2607 4to). Þetta handrit er frá því snemma á 13. öld.
Í ritinu Chronicon Clarevallense, frá þriðja tug 13. aldar, er sagt, að Herbert hafi ritað bók sína árið 1178. En í ritgerð, sem birtist í sænska tímaritinu Scandia 1931, hefur prófessor Lauritz Weibull í Lundi sýnt fram á, að bókin hafi ekki verið rituð öll á því ári, heldur á árunum 1178—1180.
Meðfylgjandi myndir eru smækkaðar myndir af textasíðunum 107v og 108r í Múnchen-handritinu.

Í íslenzkum annálum og öðrum fornum heimildum er all oft getið elda, er uppi hafa verið á Reykjanesi og hrauna er runnið hafa, en þó má gera ráð fyrir því að ekki sé allra slíkra viðburða getið í þeim heimildum, er nú eru til, því að ekkert af þeim er ritað á Suðurnesjum eða í grend við þau, heldur á fjarlægari stöðum, og má geta nærri, að heimildaritararnir hafi ekki haft mjög nákvæmar fréttir af því, sem gerðist á Reykjanesi suður, enda var skaginn þá mjög afskektur og illur yfirferðar og talinn hinn mesti útkjálki, þó að hann liggi nú í þjóðbraut. Heimildirnar eru með öðrum orðum mjög svo ónákvæmar, og algengt er, að þeim beri ekki saman í frásögnum af eldsumbrotunum og gætir oft mjög miklu bæði um ártöl og annað, t. d. hafa margir annálarithöfundar ruglað saman Trölladyngjum hér syðra við samnefnd fjöll á Austurlandi.
Bæði Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson, sem ferðuðust mikið um landið mestallt og ritað hafa stórmerkar og yfirgripsmiklar lýsingar á landi og þjóð, minnast á það, hversu heimildirnar um gos og hraunrennsli á Reykjanesi séu rýrar að vöxtum og ónákvæmar, og Sveinn kennir því um að íbúar skagans hafi verið of menntunar litlir og lítt gefnir fyrir bókleg fræði og ritstörf, til þess að sjónarvottar að þeim umbrotum, sem orðið hafa, hafi fært nákvæmar frásagnir af þeim í letur.
Margra ára nábýli við danska valdsmanninn á Be
ssastöðum og hörð lífskjör við óblíðar höfuðskepnur hafi þjakað svo íbúa skagans, og fengið, þeim annað að hugsa um en að færa í letur lýsingar á atburðum, sem gerðust samtíma þeim.
Draugahlidargigur-221Mig langar nú til þess að tína saman þau helztu af þeim lauslegu frásagnar brotum, sem til eru af eldgosum á Reykjanesi og á hafsbotni fyrir utan skagann, og mun ég telja þau upp í réttri tímaröð, eftir því sem unnt er.

Árið 1000 er fyrst getið um eldgos á Íslandi, sem hægt er að árfæra með fullri vissu, og er þess getið í Kristnisögu. Þetta skeður sama árið og kristni er lögleidd hér á landi og voru menn einmitt á þingi, er fréttin barst til eyrna þeirra um, að hraunflóð streymdi niður í Ölfus og stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn þóttust strax sjá, að hér væri um hefnd reiðra guða að ræða, og kváðu það eigi undur, þó að goðin reiddust slíkum tölum sem um trúskiptin voru við höfð.
Eldborg-221Þá var það, að Snorri goði sagði hin frægu og rökvísu orð: „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á ? ” en það hraun brann löngu áður en nokkur maður steig fæti sínum á íslenzka grund, svo að enginn hefur þá getað orðið til þess að móðga goðin.
Það var áður fyrr almennt ætlun manna að þetta hraun, sem hér getur hafi verið Þurrárhraun, sem runnið hefur úr mikilli gígaröð á há Hellisheiði við svokallað Hellisskarð. Hitt er þó miklu líklegra, að hér sé um annað hraun að ræða, er Eldborgarhraun heitir og runnið hefur úr nokkrum eldgígum austan við Meitla (Stóra og Litla Meitil) og einu nafni heita Eldborg. Þetta hraun er mjög lítið gróið og fellur niður í Ölfus miklu nær Hjalla heldur en Þurrárhraun. Meitlar eru nokkru austar en Bláfjöll.

Trolladyngja-221Árið 1151 er eldur uppi í Trölladyngju. Samfara gosi þessu urðu miklir jarðskjálftar á Reykjanesi og varð af þeim nokkurt tjón bæði á mönnum og húsum. Trölladyngja er í norður endanum á allmiklum fjallarana, sem Vesturháls heitir eða Núphlíðarháls (hálsinn endar að sunnan í fjalli þvi, er Núphlíð heitir og er oft nefndur eftir því). Háls þessi liggur frá norðaustri til suðvesturs og er 13—14 km. langur. Hann liggur samhliða en nokkru (ca. 4 km.) vestar en Austurháls eða öðru nafni Sveifluháls. Kleifarvatn liggur svo alveg austan undir þeim hálsi.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Norðaustur af Trölladyngju eru Mávahlíðar, þar eru margir sundurtættir smá gígir, og hafa þaðan runnið hraunkvíslir saman við Afstapahraun, en það hefur átt aðalupptök sín í Trölladyngju og þeim fjölda gíga, sem eru umhverfis hana í fjallarananum. Afstapahraun hefur runnið allt til sjávar á milli Vatnsleysu og Hraunbæja og fyrir vestan svokallaða Almenninga eða vestast í þeim. En Almenningar eru einu nafni nefnd ákaflega víðlend hraunbreyða og gömul, sem nær allt frá Hvaleyri suður á Vatnsleysuströnd. Austur hluti þessarar hraunbreiðu hefur runnið úr mörgum gígaröðum í svonefndum Undirhlíðum, sem liggja norðaustur frá Mávahlíðum en í áframhaldi af Sveifluhálsi. Frá gígum við Helgafell og miðgígunum við Undirhlíðar hefur Kapelluhraun runnið ofan á gömlu hraununum og til sjávar rétt austan við Straum. Hraunið hefur sennilega runnið á Söguöldinni og er í annálum alltaf kallað „nýja hraun”. Það ber nafn af því, hversu úfið það er.

Afstapahraun-221

Árið 1188 er enn eldur uppí í Trölladyngju.
Árið 1211 (aðrir segja 1210) urðu mikil eldsumbrot í sjó fyrir Reykjanesi. Þá risu Eldeyjar hinar nýju úr hafi, en hinar hurfu, er alla ævi höfðu staðið (ísl. annálar). Miklir landskjálftar fylgdu og margt manna lét lífið, 18 manns að sögn Guðmundarsögu.
Árið 1219 er enn eldur fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar miklir.
Árin 1223—1227 voru alltaf öðru hvoru umbrot fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar.
Samfara þeim var og mikil óáran árin 1226 og 1227, myrkt var um miðjan dag svo sem nótt væri af sandfoki og ösku.
Sumarið 1226 var t. d. kallað rotsumar hið mikla og veturinn, sem var fellivetur mikill, sandvetur.
Árið 1231 er ennþá eldur uppi fyrir utan Reykjanes og var mikill grasbrestur um sumarið, sem kallað var sandsumar.
Árið 1238 er enn gos fyrir Reykjanesi, án þess þó að frekari sagni r séu til um það.
Árið 1240 er enn eldgos fyrir Reykjanesi og er þess getið, að sól hafi orðið rauð. Landskjálftar urðu og svo miklir á Suðurnesjum, að sex bæir hrundu þar til grunna. Ekki er Arnarseturshraun-221þó getið um, að manntjón hafi orðið.
Árið 1285 er getið um, að land hafi fundizt vestur af Íslandi, og Skálholtsannáll segir, að þá hafi Duneyjar fundizt. Hins vegar er landfundur þessi ekki settur í samband við eldgos eða eldsumbrot svo að getið sé.
Eldsumbrota á 13. öldinni og um aldamótin 1300 á hafsbotni fyrir utan Reykjanes er oft getið erlendis, og það eru talin stór undur, að sjórinn skuli brenna.
Árið 1340. Gísli biskup Oddsson segir í annálum sinum frá eldgosi í Trölladyngju þetta ár og segir, að hraun hafi runnið í sjó fram í Selvogi. Þetta mun þó næsta ómögulegi, vegna þess að þar á milli eru tveir fjallgarðar, svo að hraun hefur ekki getað runnið frá Trölladyngju og niður í Selvog. Hins vegar má geta þess, að mjög nýleg hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjöllum, Kistufelli og nálægum eldgígum og einmitt niður í Selvog. Svo að líklega hefur eldurinn verið uppi einhverstaðar á þeim eystri slóðum, en það ruglazt til hjá Gísla, enda er þessa goss í Trölladyngju hvergi getið annars staðar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Þetta sama ár halda menn og, að Ögmundarhraun hafi runnið [rann reyndar 1151], en það kom úr þrem gígaröðum við suðaustur hornið á Núphlíðarhálsi og rann niður í sunnanverða dældina, sem er á milli Austur- og Vestur-hálsanna (Núphlíðar- og Sveifluhálsa) og rann svo allt til sjávar austan frá Krýsuvíkurbjargi og vestur að Ísólfsskála. Hraunflóð þetta hefur vafalaust farið að nokkru yfir byggð, og sér enn allmikilla bæjarrústar austast í hrauninu í svokölluðum Húshólma, og segir Eggert Ólafsson, að þar hafi verið kirkjustaður, er Hólmsstaður hafi heitið og sjái ennþá minjar kirkjugarðsins. Hraunið er ákaflega úfið og ógreitt yfirferðar, og sagt er, að nafn þess sé þannig til komið, að maður að nafni Ögmundur hafi verið fenginn til þess að ryðja slóð yfir hraunið og skyldi hann svo taka vegatoll af hverjum vegfarenda, sem um hraunið færi.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Til tollgæslunnar reisti hann sér svo hreysi við austur enda ruðningsins. En ferðamenn hafa ekki kunnað þessari kvöð, ef þeir þurftu að leggja leið sína um hraunið, því svo mikið er víst, að eitt sinn, þegar að er komið finnst Ögmundur myrtur við kofa sinn. Hann var svo dysjaður í hraunbrúninni eystri og sér þar enn dysina. En nafn vegagerðarmannsins hélzt svo við hraunið.
Vestan hraunsins og norðan rís Núpahlíð upp í þverhnýptu hamrabelti. Jarðsig hefur eflaust orðið, þegar hraunið rann, og jörðin klofnað um eldsprunguna, því að uppi á hamrabeltisbrúninni sér hálfa eldgígana. Í annáli Gísla biskups segir enn sama ár: „Einnig Reykjaneshöfði eyddist í eldi meira en að hálfu, sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, — eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá.
Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar”.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Slíka voða viðburði segja aðrir orðið hafa árin 1389—1390 og eru frá þeim tíma uppi munnmæli um, að Reykjanes hafi eyðst að hálfu. Slíkar sagnir, frá hvoru árinu sem er, munu þó ekki á rökum reistar, af því að í Fornskjalasami Íslands er gamalt skjal frá 1270, sem sýnir, að þá hafi landslag á nestánni verið það sama sem í dag og sömu örnefni.
Árið 1360. Eldsuppkoma enn í Trölladyngju, og Flateyjarannáll getur þess, að margir bæir hafi eyðst austur í Mýrdal vegna öskufalls, vikurinn hafi borizt upp á Mýrar og eldana séð af Snæfellsnesi. Sennilega hafa þó verið eldar uppi samtímis í Austurjöklunum, af því að ólíklegt er, að vikurfall úr Trölladyngju hafi eytt bæi í Mýrdal, sérstaklega sem þess er ekki getið frá nærsveitunum, að gosið hafi verið sérlega stórfenglegt.
Nupshlidarhals-221Árið 1389—90 er enn greint frá eldgosi í Trölladyngju og í frásögn af því gætir sömu firrunnar nú hjá Jóni Espólín, þar sem hann segir frá því, að hraun hafi runnið þaðan suður í sjó og austur í Selvog. Líklegra er að þau hraun, sem hann getur um, að runnið hafi suður til hafs, hafi komið úr gígaröðum syðst á Núphlíðarhálsi og fyrir vestan hálsinn, og séu nýjustu hraunin, sem runnið hafa í grennd við Ísólfsskála.
Árið 1422 er eldur uppi útsuður frá Reykjanesi. Lögmannsannáll segir frá því gosi þannig: „ … kom upp eldur í hafi í útsuður undan Reykjanesi, skaut þar landi upp, sem sjá má síðan, þeir er þar fara nærri síðan”.
Árið 1510. Gos í Trölladyngju, ekki er frekar skýrt frá gosi þessu.
Árið 1583 var eldur uppi fyrir Reykjanesi, og Gísli biskup Oddsson getur þess, að kaupmenn frá Bremen hafi séð eldana brenna í hafdjúpinu og þótt stór undur.

Eldey

Eldey.

Árið 1783. Snemma í maí mánuði þetta ár sjá sæfarendur reykjarmökk mikinn stíga upp úr hafinu um 7 mílur út af Reykjanestá, og ösku og vikurfallið var svo mikið, að skip á þeim slóðum, á um það bil 20—30 mílna svæði, áttu illt með, að komast í gegn um vikurhrannirnar. Hafði myndast þarna allhá klettaeyja og sögðu sumir, að hún hefði verið full míla að ummáli, en aðrir voru ekki eins stórtækir og töldu ummál hennar einungis verið hafa þriðjungur úr mílu. Sjávardýpi umhverfis eyna hafði og breytzt all-verulega, og boði, sem braut mjög á, hafði myndazt l1/3 mílu í norðaustur frá eyjunni.
Með konungsúrskurði frá 26. júní s. á. sló Danakonungur og stjórn eign sinni á þessa nýju eyju, sem var nefnd Konungsey. En þetta nýja land eða eyja virðist ekki hafa kunnað hinni konunglegu náð og virðing sem skyldi og hvarf aftur í djúpin blá til uppruna síns. En það er ætlun manna, að Eldeyjarboði svonefndur sé leifar þessarar horfnu eyju, eða, að hann hafi að minnsta kosti orðið til við eldsumbrotin þetta ár.
Stampahraun-221Þetta sama ár, en litlu síðar eða 8. júní, hefjast hinir ægilegu Skaftáreldar, sem stóðu svo nær til áramóta. Móðuharðindin, einhver þau ægilegustu harðindi og vesöld, sem yfir landið hafa gengið, fylgdu svo í kjölfar þessara elda.
Árið 1830 er enn eldur fyrir Reykjanesi með all-miklu vikurgosi. Það var hinn 6. eða 7. mars (aðrir segja 13. mars), að eldsins varð fyrst vart skammt fyrir sunnan og vestan Eldeyjarboða, og stóð fram í maímánuð.
Árið 1879 er gos fyrir Reykjanesi. Dagana 30. og 31. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi eða á mjög svipuðum slóðum og eldsins varð vart árið 1830. 

geirfugl-221

Næsta hálfan mánuð, eða fram um miðjan júní, var svo kolsvört þokubræla yfir hafinu, vestur af Reykjanesi, en þokulaust allsstaðar fyrir innan. Rétt áður en þokunni létti varð svo allmikið öskufall á landi og sá þess vel merki á grasi, en eldsins urðu menn ekki varir nema áður nefnda tvo daga; vikur sást heldur enginn og engir jarðskjálftar fundust svo að getið sá, svo að vart hefur gos þetta verið mjög mikið, og þess er aðeins getið ýtarlegar en annarra gosa, þó að meiri munu hafa verið, vegna þess hversu skammt er síðan það var.
Árið 1884 í júlí mánuði þóttust ýmsir hafa orðið varir við eldgos úti fyrir Reykjanesi, en engar nákvæmar né áreiðanlegar fréttir urðu af því og er mjög vafasamt hvort rétt sé hermt. Sumir þóttust jafnvel hafa séð nýja eyju rísa úr djúpinu þann 26. júlí fyrir norðvestan Eldey í um það bil þriggja mílna fjarlægð.
Ég hefi nú drepið lauslega á eldsumbrot þau, er sögur og annálar greina frá að verið hafi á Reykjanesskaganum og fyrir vestan hann á hafsbotni, og talið þau upp í réttri tímaröð.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Það er hins vegar víst, að mörg hraun á Reykjanesskaganum hafa brunnið síðan á landnámstíð, þó að gosanna sé hvergi getið og menn viti því ekki með neinni vissu hvaðan þau hafa runnið, enda mergð gíganna svo gífurleg, að eðlilegt er, að annálahöfundar og aðrir heimildarritarar hafi ruglað þeim saman, er þeir gátu um gos og hraunrennsli í sambandi við þau. En alla leið suður og vestur endilangan skagann má segja, að sé samfelld röð eldgíga stórra og smárra, og það er ekki laust við, að ennþá sé hiti í sumum þeirra, t. d. sumum upp af Grindavík.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Allar eldstöðvarnar á skaganum liggja í nokkurn veginn beinni línu frá norðaustri til suðvesturs, og sömu stefnu hefur eldstöðvahryggurinn, sem liggur neðan sjávar frá ystu nöf skagans. Þetta er og sama megin eldstöðva línan, sem liggur um þvert landið, og eyjan Jan Mayen, sem er eldbrunnin, liggur á mjög svipaðri línu, langt norður í hafi. Þá er skaginn einnig mjög sundur skorinn af gjám og sprungum sem hafa flestar sömu stefnu og gígaraðirnar og eru á svipuðum slóðum. Það er alls ekki óhugsandi, að einhver hinna mörgu gíga á Reykjanesi taki upp á þeim ósköpum að fara að gjósa, áður en langt um líður.
Kaldarsel-221Ég vil í þessu sambandi minnast nokkrum orðum á jarðskjálfta, sem hafa gengið yfir Reykjanesskagann og hafa haft sögulegar afleiðingar i för með sér; sumra hefi ég þegar getið, eða þeirra, sem hafa staðið í sambandi við eldgos á þessum slóðum. Ég minnist á jarðskjálftana hér í þessu sambandi, vegna þess að þeir standa einmitt svo oft í nánum tengslum við eldgos, enda þótt slíkt sé ekki endilega nauðsynlegt; og jarðskjálftar þurfa engan veginn að orsakast af eldgosum beinlínis. Verstu og hættulegustu landskjálftarnir hafa venjulega komið sem þjófur á nóttu og ekki sýnilegt, að þeir hafi staðið í neinu sambandi við eldgos. Hins vegar fylgist að, að eldgosasvæði eru einnig mjög oft meiri landskjálftasvæði en önnur.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Jarðfræðirannsóknir hafa sýnt, að jarðskjálftakippir eru nátengdir brestum og sprungum í jarðskorpunni, en á eldgosasvæði eru einmitt miklu meir af sprungum og gjám en annars staðar, en eins og áður getur þá er Reykjanesskaginn ákaflega sprunginn og sundur skorinn; jarðskjálftar eru líka mjög tíðir á skaganum einkum sunnan til á honum, sér í lagi eru smákippir tíðir.
Á fyrri öldum hafa menn mjög fáar frásagnir af jarðskjálftum á skaganum, líklega vegna þess hveru linir og meinlausir þeir hafa oftast verið, og mönnum ekki þótt í frásögur færandi nema þeir yrðu mönnum eða skepnum að bana, leggðu bæi í rústir eða röskuðu til jörðinni.
Herdisarvik 1900-221Árið 1663 er eiginlega fyrst getið jarðskjálfta á Reykjanesi svo að nokkru nemi. Að sögn séra Þorkels Arngrímssonar Vídalín í Görðum eyddi þá marga bæi um skagann allan. Kleifarvatn minnkaði stórlega; vatnið sogaðist svo í gjár neðanjarðar, að nú varð fær vegur fram með því undir klettunum, en áður hafði vatnið náð 300 fet upp í hamarinn. Þá er þess getið í riti nokkru, sem gefið var út í Frankfurt 1715, að jarðskjálfti hafi orðið á Íslandi 1653, og sagt, að borgin „Keplavvick” hafi þá beðið mikið tjón. Ef nokkur fótur er fyrir þessu, gæti hér verið um sama jarðskjálftann að ræða, en ártalið skolast til.
Árið 1724 ganga enn landskjálftar yfir Reykjanesskagann aðallega að sunnan og austan. Bærinn í Herdísarvík hrundi, og ráðsmaður Skálholtsstóls, Arngrímur Bjarnason að nafni, dó undir Krýsuvíkurbjargi við sölvatekju af grjótflugi úr bjarginu.
Árið 1754 er enn getið landskjálfta, og í Krýsuvík kom upp nýr hver 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.
Badstofa-221Árið 1879 urðu allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar. Harðastir voru þeir um hverasvæðið við Krýsuvík; bær féll á Vigdísarvöllum og fólk flúði úr bæjum í Nýjabæ við Krýsuvík.
Árið 1887, morguninn hinn 28. október urðu allmiklir jarðskjálftar víða um Suðurland, en voru lang harðastir utarlega á Reykjanesskaga, og í Höfnum fundust um daginn 40 kippir og voru sumir mjög harðir. Valahnúkur, sem Reykjanesvitinn stóð þá á, klofanaði og mynduðust þar þrjár eða fleiri sprungur allmiklar, og var ein þeirra aðeins um 3 álnir frá sjálfum vitanum; síðar þetta ár (í desember) féll 7 faðma langt og 3 faðma breitt stykki framan úr hnúknum. Á ljósabúnaði vitant urðu allmikil spjöll og vitavörður varð að slökkva öll ljós í honum. Upp úr þessu var vitinn svo fluttur af hnúknum vegna þess að menn voru alls ekki lengur óhultir með hann á þeim stað. Þá sprungu og veggir í steinolíuhúsi vitans og bær vitavarðarins skekktist einnig og skemmdist. Leirhverinn Gunna, sem er skammt austan við bæinn á Reykjanesi á svo kölluðum Hvervöllum, breyttist einnig talsvert.
reykjanesviti 1884Árið 1889, um haustið, 13. október, urðu harðar jarðskjálftahreyfingar víða kringum Faxaflóa. Skip í hafi fyrir Reykjanesi urðu greinilega vör þessara jarðhræringa. Mestir urðu jarðskjálftar þessir á Krýsuvíkursvæðinu, en minni þegar lengra kom fram á skagann og enginn spjöll urðu á vitanum né umhverfis hann. Hús hrundi á Hvassahrauni og steinhús á Sjónarhól klofnaði og ýms smávægilegri spjöll urðu á húsum á Vatnsleysu-ströndinni. Á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík hrundu allmörg peningshús algjörlega.
Árið 1896, hið ægilega jarðskjálftaár, þegar allt Suðurlandsundirlendið lék á reiðiskjálfi síðari hluta sumars, urðu menn á Reykjanesskaganum aðeins lítillega varir við jarðskjálfta.
Árið 1899 urðu enn jarðhræringar við Faxaflóa sunnanverðan og lang harðastir suður með sjó á Reykjanesskaganum. Aðfaranótt 27. febrúar fundust t. d. 12 kippir, sumir mjög harðir, í Keflavík milli kl. 1 og 2,15. Í Höfnum hrundi kotbær einn, Magnúsarbær í Kirkjuvogi, til grunna, en hann var heldur lélega byggður. Jarðskjálftar þessir urðu þó lang mestir úti á Reykjanestánni sjálfri í grend við vitann, og ekki varð kveikt á honum á meðan jarðskjálftinn stóð yfir. Þá þorði fólkið ekki að hafast við í bænum um nóttina, vegna þess að grjótflug var nokkturt úr fellinu, sem bærinn stendur undir. Hús höfðu og skekkst og sprungið, og tröppurnar við vitadyrnar höfðu sprungið frá, ljóskeilan oltið á hliðina og glasið brotið.

Reykjanes

Reykjanes – misgengi.

Þá hafði 200 faðma löng sprunga komið í jörðina við Gunnuhver og stefndi hún frá landnorðri til útsuðurs, eða eins og allar aðrar eldsprungur á Reykjanesskaganum.
Ég hefi nú drepið mjög lauslega á helztu eldsumbrotin og jarðskjálftana, sem orðið hafa á Reykjanesskaganum frá því að land okkar byggðist fyrir um það bil tíu og hálfri öld síðan og sem getið er í fornum heimildum bæði annálum og sögum. Ég hefi tínt þessi brot saman úr ýmsum áttum, en hefi þó aðallega stuðst við hin gagnmerku rit Þorvaldar Thoroddsen: Lýsing Íslands, Jarðskjálftar á Suðurlandi og Landskjálftar á Íslandi auk Íslenzkra Annála. Einnig hefi ég haft hliðsjón af og tekið atburði eftir þeim ritum, sem nú skulu talin: Íslenzk Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti; Ferðabók þeirra félaganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ritaða af þeim fyrrnefnda; Ferðabók Sveins Pálssonar og Rit um jarðelda á Íslandi, sem Markús Loftsson, bóndi á Hjörleifshöfða, hefur safnað til og ritað.

Husholmi-grafreiturÉg vil taka það fram, að ég hefi einungið tekið þessi brot saman og látið frá mér fara með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að þeir, sem á Reykjanesskaganum búa og greinarkorn þetta lesa, myndu ef til vill frekar minnast og halda til haga sögnum, sem þeir hafa heyrt frá atburðum þeim, sem hér greinir frá, eða öðrum, sem eru þess verðir, að sagnir og lýsingar af þeim séu geymdar en ekki gleymdar og sem myndu verða kærkomnar upplýsingar og heimildir fyrir þann eða þá, sem síðar eiga eftir að fást við að rita tilkomna lýsingu þessa eldbrunna skaga og sögu þeirra manna, sem hann hafa byggt, allt frá því að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn, sló eign sinni á hann gjörvallan og til vorra tíma.”

Heimild:
-Faxi, 8. árg. 1948, 3. tbl., bls. 10.
-Faxi, 8. árg. 1948, 4. tbl., bls. 6-7.
-Faxi, 8. árg. 1948, 5. tbl., bls. 3-4.

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum 2021. – Árni Sæberg.

Hraunakort

Söguleg hraun á höfuðborgarsvæðinu
“Byrjað verður á hraununum á vatnasviði Vallahverfisins. Aldur hvers hrauns er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.

Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Nútímahraun

Nútímahraun.

Kapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók (Sigmundur Einarsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir & Haukur Jóhannesson, 1991). Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2. Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3 (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi (Páll Imsland, 1998).
Krýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík. Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða. Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni (Jón Jónsson, 1983; Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfi)

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun). Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma. Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng (Jón Jónsson, 1983). Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) um 300 metrum frá sjó.

Bollar

Tvíbollar.

Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998) um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Lýsingar á öðrum nútíma Lýsingar á öðrum nútímahraunum á höfuðborgarsvæðinu. Aldur hraunanna er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.

Óbrinnishólabruni ( 2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 2100 árum (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi. (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann (Jón Jónsson, 1974).
Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti (Jón Jónsson, 1974). Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Óbrinnishólar; Jón Jónsson.

Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla.

Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli (Jón Jónsson, 1974). Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða (Sigurður Steinþórsson, 2012).

Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)

Skúlatúnshraun

Skúlatúnshraun.

Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn (Árni Hjartarson, 2010; Landmælingar Íslands, 2011; Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nær Skúlatúnshraunið því yfir stærra svæði nærri byggð en Tvíbollahraunið.
Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).

Litluborgir

Gervigígur í Skúlatúnshrauni.

Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Jón Jónsson, 1971).

Búrfellshraun ( 8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Búrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
Búrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur (Ingibjörg Kaldal, 2001). Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs (Sigurður Steinþórsson, 2012). Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Leitahraun (5.3165.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)

Leitarhraun

Leitarhraun.

Leitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010; Jón Jónsson, 1971). Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri (Kristján Sæmundsson, o.fl., 2010).
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar (Jón Jónsson, 1971).

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn (Jón Jónsson, 1971).”

Heimild:
-Daníel Páll Jónasson, 2012 -Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu: Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða – lokaritgerð í HÍ.
-http://hdl.handle.net/1946/11887

Nútímahraun

Nútímahraun.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifar grein í Náttúrufræðinginn 1983 um”Hálfrar aldar þögn um merka athugun. Þar segir hann m.a.:

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsfer undir Festisfjalli.

“Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.
Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki.
Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde” í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halv0en’ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadoekker”. í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar berggang undir Lyngfelli.

Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur framhaldi þess. — (3) Yfir Brennisteinsfjöll og Grindaskörð. — (4)  Frá Selvogsheiði norðaustur yfir Hengil og áfram norðaustur um gjárnar á Þingvöllum. Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t. d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960). Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ. á. m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971a og b) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi; sveimar.

Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978). Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system” sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979a) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði íslands (1979b).
Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano” og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar bergganga í Hraunsfjöru.

Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm”. Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971a og b). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano” en sprungusveimurinn „rift zone”. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone” hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm). Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981). Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi”. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur” (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.”

Heimild:
-Náttúrfræðngurinn, Kristján Sæmundsson, “Hálfrar aldar þögn um merka athugun”, 52. árg. 1-4 tbl, 01.05.1983, bls, 102 -103.

Kristján Sæmundsson

Í Hraunsfjöru.

Reykjanesskaginn

Eftirfarandi grein um “Eldgos á Reykjanesi á sögulegum tíma” er eftir Jón Jónsson, jarðfræðing, og birtist í Náttúrfræðingum árið 1983.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi.
Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” að Hjalla. Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar.
NýmyndunÞannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.
GjóskusniðVafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér. Þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan
aldur.

Nyrðri-Eldborg

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið.

Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Söguleg hraun á Reykjanesskaga
Svínahraun — Kristnitökuhraunið
MelhóllSýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun
RjúpnadyngjaÍ nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun
Stóra-KóngsfellVestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið.

Breið

Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkur- og Hlíðarfjall – sjá má hrauntauma ofan frá Brennisteinsfjöllum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978).

Draugahlíðar

Gráfeldur á Draugahlíðum.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun
TvíbollahraunVið Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun
GvendaselsgígarNorðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Annar straumur hefur fallið vestur um skarðið milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun
KapelluhraunEins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun
ÖgmundarhraunEkki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km.
Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (Jón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar. Sjá ennfremur töflu I hér á eftir.

 

Afstapahraun
AfstapahraunÁður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich
nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins. Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun
ArnarseturshraunHraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt
því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Litla-Skógfell

Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma. Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litlaskógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.

Eldborg við Trölladyngju
EldborgÞess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll
TraðarfjöllEftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

UMRÆÐA
Eldborg 3Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a. m. k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma. Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Af Leitahrauni eru til 4 ákvarðanir, af Óbrinnishólum 4, Reykjafellshrauni 3 og af Ögmundarhrauni 5. í töflu I er gefið meðaltal.

Hraunmyndun

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa. Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum”). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3 – 4 cm þykkt eða meir. Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14 ákvörðuninni verulega eldra.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra. Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, 54. árg, 1-4 tbl, 01.05.1983, bls. 127 – 138.Aldur

Jónsmessa

Jónsmessan er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara enda eru Jón og Jóhannes tvö afbrigði sama nafns í íslensku. Í gömlum ritum er Jóhannes skírari oft nefndur Jón eða Jóan skírari eða baptisti. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar. Samkvæmt Nýja testamentinu fæddist Jóhannes um það bil sex mánuðum á undan Jesú. Jónsmessuhátíðir voru bæði að sumri og að vetri.

Dögg

Dögg.

Að Jesús sé fæddur í svartasta skammdeginu þegar sólarganginn tekur að lengja, er auðvitað þrungið merkingu og táknar þá von sem Jesús færir mannkyninu samkvæmt kristinni guðfræði. Því passaði það fullkomlega að fæðing Jóhannesar skyldi tímasett þegar sólargangur væri sem lengstur.
Þegar júlíanska tímatalinu var komið á í Rómaveldi á 1. öld f. Kr., héldu Rómverjar upp á 24. júní sem lengsta dag ársins. Það tímatal lá til grundvallar ákvörðun Rómarkirkjunnar nokkrum öldum síðar að messudag Jóhannesar skírara bæri upp á þann dag. Menn gerðu sér þá ekki grein fyrir því að sumarsólhvörf höfðu færst fram um þrjá daga miðað við stjarnfræðilegar sólstöður. Jónsmessu ber því ekki upp á lengsta dag ársins fremur en jólin á stysta dag ársins.

Óskasteinn

Óskasteinn úr Esjunni.

Ýmis þjóðtrú tengist Jónsmessu. Alþekkt er trúin á að döggin sem fellur á Jónsmessunótt ætti að vera svo heilnæm að menn læknuðust af kláða og átján öðrum óhreinindum í holdi við aðvelta sér allsberir upp úr dögginni. Á Jónsmessunótt átti einna helst að vera unnt að finna svokallaða náttúrusteina, t.d. óskasteina, lífsteina og hulinhjálmsstein.
Árni Björnsson fjallar ítarlega um sögu Jónsmessunar, hér á landi sem erlendis, í bók sinni Saga daganna. Fróðleiksfúsum er bent á að kynna sér skrif Árna en hér verður stiklað á stóru í umfjöllun hans.

Sólstafir

Sólin hækkar á lofti.

Jónsmessan er 24. júní. Hún leysti af hólmi forna sólhvarfahátíð í Róm, og virðist einnig á Norðurlöndum hafa komið í stað slíkrar veislu. Suður í Evrópu var Jónsmessan talin miðsumarsnótt og var mikil alþýðuhátíð með brennum, dansi og svokölluðum nornamessum. Hérlendis var hátíðahald mun minna en í grannlöndunum.
Kann að hafa ráðið nokkru að á þjóðveldisöld lenti dagurinn á miðjum alþingistímanum. Á fyrra hluta 20. aldar byrjuðu nokkur félög að halda útihátíð á Jónsmessu en nánd við þjóðhátíðardaginn 17. júní hefur dregið úr slíku tilstandi eftir 1944. Jónsmessunótt, aðfaranótt 24. júní, er þó ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins, og fylgir ýmis þjóðtrú, meðal annars að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Þessa nótt á einnig að vera gott að leita töfragrasa og náttúrusteina, og Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga ef menn velta sér í henni allsberir. Jónsmessa var ekki numin úr tölu helgidaga fyrr en 1770.

Hestar

Hestar á Jónsmessu.

Jónsmessunóttin, aðfaranótt 24. júní, er ein þeirra fjögurra nátta í íslenskri þjóðtrú sem taldar eru hvað magnaðastar og þá geta alls kyns dularfullir hlutir gerst. Hinar næturnar eru allar í skammdeginu: Jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Sagt er að á Jónsmessunótt fljóti upp ýmiss konar náttúrusteinar sem geta komið að góðu gagni. Þá má einnig finna ýmis nýtileg grös.
Samkvæmt íslenskri þjóðtrú er heilsusamlegt að velta sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt.
Það er algengur hugsunarháttur í þjóðtrú að sé farið út fyrir það sem myndar einhverja heild skapist hættuástand; alls kyns öfl, bæði góð og ill, leysist úr læðingi eða hlutir öðlist sérstaka eiginleika. Þetta á til dæmis við þegar einu ferli lýkur og annað tekur við. Þegar einum degi lýkur og annar hefst, klukkan tólf á miðnætti, fara hin myrku öfl á stjá; hið sama gerist þegar árinu lýkur, á nýársnótt og þegar sólin nær hápunkti á hringferli sínum á Jónsmessunni.

Jónsmessa

Á Jónsmessu.

Eitt af því sem magnast upp og öðlast sérstakan lækningamátt á Jónsmessunóttinni er döggin. Þess vegna er það gömul trú að mjög heilnæmt sé að velta sér nakinn upp úr dögginni þessa nótt. Geri menn það batna þeim allir sjúkdómar og þeim verður ekki misdægurt næsta árið á eftir.
Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu. Í Evrópu er hún miðsumarshátíð, samanber leikrit Shakespeares, A Midsummer Night’s Dream sem á íslensku nefnist Draumur á Jónsmessunótt. Þar tíðkuðust svallveislur miklar, brennur og dansleikir sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum.

Sólstafir

Myrkrið að víkja fyrir dagsbirtunni.

Skiljanlega leist mörgum kirkjumanninum illa á slíka hegðun á helgum degi. Marteinn Lúter sveiflaðist til dæmis milli þeirrar skoðunar að gleði alþýðunnar ætti rétt á sér og að hegðun hennar líktist mest hjáguðadýrkun. Þrátt fyrir viðleitni kirkjunnar manna er enn haldið upp á Jónsmessu með brennum, dansi og drykkju, en hátíðarhaldið hefur vissulega orðið hóflegra í löndum Evrópu eftir því sem aldirnar liðu.
Náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafa komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess á Íslandi og annars staðar. Jónsmessan er ekki um miðsumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sumarið er ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Á þjóðveldisöld hófst Alþingi dagana kringum 24. júní og því ekki tími fyrir almenn hátíðahöld kringum landið. Síðar seinkaði setningu Alþingis, líklega vegna kólnandi veðurfars sem tafði fyrir öllum vorverkum og kom enn frekar í veg fyrir að menn gætu gert sér glaðan dag á Jónsmessu.

Jónsmessa

Jónsmessubrenna – fagnað hækkandi sól og lengingu dagsins.

Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi.
Bjartar nætur hafa líka átt sinn þátt í því að máttur góðra sem illra vætta hefur þótt í lágmarki kringum Jónsmessu og því lítil ástæða til að þóknast þeim með dýrkun hverskonar sem einkenndist af svalli í Evrópu. Jónsmessunótt þykir þó enn með mögnuðustu nóttum ársins en þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga – sú venja gæti átt sér vísindalega stoð því efnasamsetning jurta er auðvitað breytileg eftir árstíma.

Jónsmessa

Hækkandi sól.

Nú á dögum ættu aðstæður að vera hátíðahöldum á Jónsmessu meira í vil en fyrr á tímum. Hlýrra veðurfar gerir það að verkum að vorverkum bænda er gjarnan lokið fyrir Jónsmessu og heyskapartíð ekki enn hafin. Það sem helst hefur staðið gleðskap á Jónsmessu fyrir þrifum er hve nálæg hún er þjóðhátíðardeginum 17. júní. En á móti kemur að sífellt fleiri kynnast Jónsmessuhátíðum erlendis, og betri efnahagur og styttri vinnutími eykur eftirspurn eftir skemmtunum þannig að krafan um gleðskap á Jónsmessu kann að styrkjast á næstu árum og áratugum.”

Jónsmessa

Jónsmessuhátíð á Þorbirni.

Ein af þeim vinsælu Jónsmessugöngum, sem fest hafa sig í sessi undanfarin ár, er för upp á Þorbjarnarfell ofan við Grindavík. Þátttataka hefur jafnan verið mjög góð.
Tilkoma nafnsins Þorbjörn hefur jafnan verið á reiki. Ein tilgátan er sú að fellið hafi fyrrum heitið Forn-Björn eftir Hafur-Birni þeim er þjóðsagan lýsir og skjaldarmerki Grindvíkinga síðar byggist á.

Heimildir:
-Árni Björnsson, Saga daganna, Mál og menning, Reykjavík 1993.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5382.

Selur

Selur.

Reykjaneshryggur

Í Náttúrufræðingnum 1965 birtist grein eftir Sigurð Þórarinsson með yfirskriftinni “Neðarsjávargos við Ísland“. Hér er útdráttur úr greininni er fjallar um neðansjávarkos við Reykjanes:
“Virkustu eldstöðvar neðansjávar undan Íslandsströndum eru í beinu framhaldi af vestra Karlinneldstöðvabeltinu, á svonefndum Reykjaneshrygg, sem gengur suðvestur af nesinu langt til hafs, og elzta heimild um neðansjávargos við Ísland — ef undanskildar eru óljósar írskar helgisagnir, sem hugsanlega gætu átt við gos á íslandi, eða við landið — varðar vafalítið gos á þessu svæði. Þessi heimild er Bók undranna, Liber Miruculorum, eftir Herbert nokkurn, sem var kapellán í Cisterciensaklaustrinu í Clairvaux á Frakklandi og ritaði þessa bók á árunum 1178—80, en hún er varðveitt í pergamentshandriti í ríkisbókhlöðunni í Miinchen (cod. lat. Monach. 2607 4to). Þessi bók hefur að innihalda Íslandslýsingu og benda sterkar líkur til þess, að heimildarmaður Herberts um Ísland hafi verið norrænn merkismaður, Eskell erkibiskup í Lundi, sem flutti til klaustursins í Clairvaux þegar hann lét af erkibiskupsembætti 1171 og dvaldi þar til dauðadags, 25. ágúst 1181. Var vinfengi með honum og Herbert kapelláni. En Eskell erkibiskup hafði góð sambönd við íslenzka kennimenn. M. a. vígði hann Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152.

Herbert

Á ofanverðum áttunda tug tólftu aldar dvaldist í hinu fræga cisterciensaklaustri í Clairvaux (Clara vallis) í Frakklandi kapellán, sem Herbert hét eða Herbertus. Herbert þessi hafði áður verið ábóti í Mores í héraðinu Longres og varð síðar erkibiskup í Torres á Sardíníu.
Á meðan Herbert dvaldist í Clairvaux-klaustri, samdi hann rit mikið, sem heitir Liber miraculorum eða Bók undranna. Þetta ritverk hefur varðveitzt í þremur handritum, en þó ekki í heild nema í einu þeirra, sem er pergament-handrit frá klaustrinu Aldersbech í Passau og varðveitt í ríkisbókhlöðunni í Munchen (Cod. lat. Monac. 2607 4to). Þetta handrit er frá því snemma á 13. öld.
Í ritinu Chronicon Clarevallense, frá þriðja tug 13. aldar, er sagt, að Herbert hafi ritað bók sína árið 1178. En í ritgerð, sem birtist í sænska tímaritinu Scandia 1931, hefur prófessor Lauritz Weibull í Lundi sýnt fram á, að bókin hafi ekki verið rituð öll á því ári, heldur á árunum 1178—1180.
Meðfylgjandi myndir eru smækkaðar myndir af textasíðunum 107v og 108r í Múnchen-handritinu.

Hér á árunum útvegaði ég frá München ljósmyndir af Íslandslýsingu Herberts og er hún prentuð í heild í Náttúrufræðingnum 1952, í þýðingu Jakobs Benediktssonar. Þar er m. a. að finna elztu lýsingu á Heklu og Heklugosi, sem varðveitzt hefur, og svo virðist einnig, sem Herbert hafi haft spurnir af Kötluhlaupi. En í þessari Íslandslýsingu stendur einnig eftirlarandi, sem ekki getur átt við annað en neðansjávargos og þá hlýtur það að vera gos, sem orðið hefur fyrir 1178; ,,Það ber og að muna, að vitað er, að þessi eilífi eldur er ekki aðeins undir rótum fjallsins, eins og áður er að vikið, heldur einnig undir mararbotni, því að oft sést eldur gjósa ákaflega upp úr hafsdjúpi hátt yfir sjávarbylgjur, og brenna fiska og allt kvikt í sjónum, svo og kveikir hann í og tortímir skipum og skipstjórum, nema þeir forði sér hið bráðasta á flótta.”

Reykjanes 7

Í Noregskróníku á latínu, Breve chronicon Norvegiæ (Munch 1850), skrifaðri um 1230, getur höfundur þess, að á vorum dögum hafi það gerzt, að hafið hafi á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin hafi opnazt og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum (ignivomes vapores) og myndað stórt fjall upp úr sjónum. Má vera, að hér sé átt við gos það, sem íslenzkir annálar telja að orðið hafi 1211 undan Reykjanesi, en það er elzta neðansjávargos, sem íslenzkar heimildir geta um. Um þetta gos hafa fornu annálarnir eftirfarandi að segja: Konungsannáll: Landskjálfti fyrir sunnan land. XIII menn létust. Eldur kom upp úr sjó. Sörli Kolsson fann Eldeyar (Isl, Ann. bls. 123). Skálholtsannáll er ítarlegri „Vætu sumar. Landskjálfti fyrir sunnan land. í þeim landskjálfta létust XIIII menn. Eldur kom upp úr sjó fyrir Reykjanesi. Sörli Kolsson fann Eldeyjar (Ibid. bls. 182). Og enn bætir Oddaverjaannáll um vitneskju vora: „Sörli íann Kldeyjar hinar nýju, en hinar hurfu er alla ævi höfðu staðið” (Ibid., bls. 478). Aðrir annálar geta aðeins landskjálftans og manntjónsins, sem er hið mesta sem vitað er um af völdum landskjálfta á’íslandi (Ibid., bls. 23, 62, 255, 325).

Landnám

Landnám Ingólfs – hluti af Íslandskorti 1550.

Þótt hinum fornu annálum beri saman um ártalið er þess að minnast, að þeir eru færðir í letur alllöngu eftir atburði þessa og væri ártalinu ekki fyllilega að treysta, ei: ekki kæmi til enn ein heimild, sem telja má næstum samtímaheimild, er getur neðansjávargoss þetta ár. Þessi heimild er Páls saga biskups, sem skráð mun skömmu eftir andlát hans, sem varð 29. nóv. 1211.
Höfundur vitnar til Ara fróða um það hversu jörðin drúpti eftir fráfall Gizurar biskups, en síðan er það rakið, „liversu margur viðbjóður hefir farið fyrir fráfalli þessa hins dýrlega höfðingja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin og skýin grétu, svo að mikill hlutur spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn á sér, þá er náliga var komið að hinum efstu lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann og fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yíir sýndust náliga allar höfuðskepnur nokkuð hryggðarmark á sér sýna frá hans fráfalli” (Bisk. I, bls. 145). Loks er landskjálftans 1211 getið í Guðmundar sögu hinni elztu og sagt að „urðu XVIII menn undir húsum” (Bisk. I, bls. 503).
JarðskjálftarÞað sem draga má saman af þessum fáorðu heimildum er þetta. Árið 1211, líkast til síðla árs, verður eldgos undan Reykjanesi. Á gossvæðinu verða mikil umbrot, eyjar sökkva þar í sæ en aðrar rísa úr sæ og má mjög líklegt telja, að þar hafi átt upptök sín sá mikli jarðskjálfti og mannskaði er 14 eða 18 manns láta lífið undir hrynjandi húsum. Þær eyjar er myndast, eru nefndar Eldeyjar, og er nafnið út af fyrir sig næg sönnun þess að eldsumbrot hafi orðið á þessum slóðum.
Athyglisvert er, að Oddaverjaannáll segir Eldeyjar hafa verið þarna fyrir, er alla ævi hafi staðið, og bendir það til eldsumbrota á þessum slóðum löngu fyrir 1211.
ÍslandFrásögn Herberts kapelláns sannar, sem fyrr getur, að gosið hefur undan íslandsströndum, og þá líklegast undan Reykjanesi, iyrir 1178, en sé Oddaverjaannál að treysta, og hann virðist oft næsta traust heimild, bendir þetta til allmiklu eldri eldsumbrota, en ekki verður úr því skorið, hvort Eldeyjar hinar fornu hafi hlotið nafn af eldsumbrotum í nálægð þeirra, eða hvort það var vegna þess að menn vissu þær hafa risið úr sæ í eldsumbrotum. Ummæli Oddaverjaannáls ,,er alla ævi höfðu staðið” benda til hins fyrrnefnda. Orðið eldey tel ég samt rétt að nota sem vísindaheiti um eyjar, sem myndast við eldgos í sjó.

Arnarsetur

Arnarseturshraun rann um 1260.

Aftur geta annálar eldsuppkomu fyrir Reykjanesi 1226 (Isl. Ann. bls. 24, 64, 127, 186, 255, 326). Konungsannáll nefnir „myrkur um miðjan dag”. Oddaverjaannáll nefnir „Sandfallvetur” 1226 (bls. 479) en Resens annáll, Lögmálsannáll og Gottskálksannáll nefna veturinn 1227 „Sandvetur” (Ibid. bls. 24, 256, 326) og Guðmundar saga elzta segir „Sandvetur liinn mikli og fjárfellir 1227″ (Bisk. I, bls. 548), og liggur því næst að álykta, að það hafi verið veturinn 1226/27, sem þetta mikla sandfall varð, þá væntanlega af völdum áður nefnds neðansjávargoss, því annars goss er ekki getið þetta ár. Gossins er einnig getið í Guðmundar sögu elztu (Bisk. I, bls. 546) og í sömu sögu er sagt um sumarið 1231: „Þetta var kallað sandssumar því að eldur var uppi fyrir Reykjanesi og var grasleysi mikið” (Ibid., bls. 553—54). Ekki er þessa goss getið í annálum.
Fjórir annálar geta elds fyrir Reykjanesi 1238 (Isl. Ann., bls. 65, 130, 188, 327) og Resens annáll nefnir „eldsuppkomu í Reykjanesi” (Ibid. bls. 25), Konungsannáll getur einnig elds fyrir Reykjanesi 1240 og mikilla landsskjálfta fyrir sunnan land sama ár og rauðrar sólar (Ibid. bls. 131). Oddaverjaannáll segir hið sama að því viðbættu, að sólin hafi verið „rauð sem blóð” (Ibid. bls. 481) og rauðrar sólar þetta ár er einnig getið í Skálholtsannál (Ibid. bls. 188). Hugsanlegt er að þetta gos 1240 sé raunverulega það sama og aðrir annálar telja 1238, þótt Konungsannáll nefni bæði.

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1212.

Með þessu gosi lýkur tímabili mikilla eldsumbrota undan Reykjanesi, sem varað hafði að minnsta kosti frá 8. tug 12. aldar og líklegast allmiklu lengur. Líklegast er það eitthvað af þessum gosum, sem liggur að baki frásagnar enskrar króníku, Chronicon de Lancerot, sem fjallar um tímabilið 1201—1346. Þar er sagt um Vilhjálm nokkurn frá Orkneyjum, að hann hafi um 1275 sagt frá ýmsu af Íslandi, m. a. því, að einhvers staðar á því sama landi hafi sjórinn brunnið á mílu svæði og eftir skilið svart gjall og soralegt. Einnig mun til þessa eldsumbrota tímabils, líklega gossins 1211, að rekja eftirfarandi orð í íslandslýsingu Arngríms ábóta: „Það fylgir þessum fádæmum, að í sjálfu hafinu viku sjávar suður undan landinu, hefur upp komið af eldsganginum stórt fjall, en annað sökk niður í staðinn, það er upp kom í fyrstu með sömu grein.” (Bisk. II, bls. 5).
Í annálsbroti sínu, Annalium in Islandia Farrago, skrirar Gísli Oddsson um árið 1340:
Stampar„Var skaginn Reykjanes meir en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Driftarsteinn). Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir.” Ekki geta eldri annálar neins goss á Reykjanesi á þessum árum en hins vegar um gos í Trölladyngjum innar á skaganu í kringum 1300 og vel má vera, að einnig hafi gosið undan Reykjanesi á þessum árum, en allsendis ósannað er það. Næst er eldsumbrota getið undan Reykjanesi 1422, i Lögmannsannál, sem teljast má samtímaheimild um atburðinn. Þar segir: „kom upp eldur í hafi í útsuður undan Reykjanesi. Skaut þar landi upp, sem sjá má síðan þeir, er þar fara um síðan” (Isl. Ann., bls. 293). Ekki er ástæða til að efa þessa frásögn.

Eldey

Eldey.

Árið 1597 hefur Gísli biskup Oddsson það eftir séra Gísla Guðbrandssyni (presti að Hvammi í Hvammssveit 1584—1620), að Brimarkaupmenn hafi lyrir 15 árum séð eld brenna í hafsdjúpi við Reykjanesskaga, eigi langt frá eyjum þeim, sem af eldi hafa hlotið nafnið Eldeyjar eða Gígeyjar (Ann. Farrago, Islandica X, bls. C). Samkvæmt þessu ætti að hafa orðið neðansjávargos þarna 1583.
Nafnið Gígeyjar kemur ekki fyrir í neinu öðru riti, svo mér sé kunnugt, en það er að finna dálítið afhakað (Geie eiar, Geye eyar) á liinu merkilega íslandskorti Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem kom út í fyrsta sinn í viðhót við kortabók Abrahams Orkeliusar í Additamentum IV Theatri Orbis Terrarum 1590 og í Atlas Mercators 1595 (Nörlund, Isl. Kortlægning, Pl. 23, 24). Á þessum kortum er Eldey sýnd og Geirfuglasker suðvestur af henni, en Gígeyjar sunnan suðaustan Eldeyjar. Hvort sem Gígeyjar hafa raunverulega verið samheiti (sýnóným) Eldeyja eða nafn á sérstökum eyjum, er nafnið sjálft sönnun fyrir því, að í eina tíð hafi verið undan Reykjanesi eyjar með gíglögun, sem nú eru horfnar.
Nú líða 200 ár, þar til næst verður elds vart undan Reykjanesi, svo að í frásögur sé fært.

Eftirfarandi er promemoria Jörgens Mindelhergs, skipstjóra á húkkertunni Boesand, dagsett 8. júlí 1783. „Viðvíkjandi þeirri brennandi eyju, sem liggur 8l/£ mílu réttvísandi suðvestur frá syðsta Geírfuglaskerinu við ísland, höfum vér skráð eftirfarandi frá og með kl. 3 að morgni 1. maí: Kl. 3 um morguninn sáum vér reyk stíga upp úr hafinu og hugðum vera land en ígrunduðum þetta og niðurstaðan varð sú að þetta væri sérstakt Guðs undur og að náttúrlegur sjór gat brunnið. Við hrepptum síðan þoku og andbyr til 3 maí og slöguðum á þessum slóðum. Stundum sáum vér reykinn og stundum ekki. Kl. 5 að morgni 3. maí fengum vér hyr og tókum stefnu á jökulinn.

Eldey

Eldey.

Kl. 7 birti í lofti og sást þá eyland sem þennan hræðilega reykjarmökk lagði upp af. Sigldum upp að því til þess að sjá lögun þess og þegar vér vorum í hálfrar mílu fjarlægð urðum vér frá að hverfa vegna ótta um að skipverjar myndu lalla í ómegin sakir hins hræðilega brennisteinsreyks. Sérhver skipverja er reiðubúinn að vottfesta með eiði það sem hér fer á eftir. Eyjan er á að gizka 1/9 mílu og sú púðurgröf, sem þar brennur, er suðvestan á henni og leggur þar sannarlega og örugglega feiknar reyk upp úr grjótinu. Myndast þar af svo mikið af vikri, að það þekur sjóinn um 1/8 mílu. Réttvísandi
í NNA frá eynni er blindsker, um mílu frá eynni. Þar eru miklir brotsjóar og mjög hættulegir sjófarendum, vegna þess að skerið rís ekki upp fyrir sjávarmál. Eyjan lítur þannig út.
Eftirmáli: „Eldurinn er í gjá suðvestan í eynni, og að það sé, er ég og mínir menn reiðubúnir að sverja, ef þess gerist þörf.” Undir undirskrift er enn bætt við: „Mér flaug virkilega í hug, þegar ég sá þennan ferlega reyk, að kominn væri dómsdagur.”
Jörgen Mindelberg og skipverjar hans urðu fyrstir manna, svo vitað sé, til að líta þá margumskrifuðu eyju, sem vorið 1783 upp hlóðst undan Reykjanesi, nánar tiltekið þar, sem nú heitir Eldeyjarboði, um 62 km suðvestur af Reykjanesi.
EldeyNæst á vettvang var skipið Den hvide Svane, skipstjóri Hans Pedersen Manöe. Eftirfarandi er útdráttur úr skipsdagbók lians 10. og 11. maí 1783: „Laugardaginn 10. maí kl. 8 um kvöldið vorum við á að gizka 63° 10′ n. hr. og 354° 16′ 1. (niiðað við Ferro). Þá sáum við Ísland í kompásstelnu NA til A, í á að gizka 8—9 mílna fjarlægð, en þar eð loft var mistrað og liðið á kvöld vissum við ekki gjörla hvar við vorum, gizkuðum þó á að við værum milli Eyrarhakka og Bátsenda. Við sigldum áfram sem áður til að komast í sjónfæri við Geirfuglasker, og stefndum í N til V, og sáum nokkuð af brenndu grjóti á sjónum. Kl. 10 um kvöldið sáum við feiknlegan reyk og bruna í NV og höfðum þá sjón fyrir augum til morguns hins 11. kl. 3, þegar við sáum yzta Fuglaskerið, sem nefnist hið blinda og var þá í SV til V l/ý V á kompásinn, á að gizka 3 mílur frá oss og þaðan sýndist þessi reykur og éldur koma.

Reykjaneshryggur

Um miðjan september 2013 lauk mánaðarlöngum rannsóknarleiðangri á Reykjaneshrygg með rannsóknarskipinu Marcus G. Langseth.Í leiðangrinum var syðsti hluti Reykjaneshryggjar kortlagður með fjölgeislamælitækni í fyrsta sinn.Reykjaneshryggur er lengsti samfelldi rekhryggur jarðar.
Það er því heimsviðburður að í lok leiðangurs er hryggurinn að fullu kortlagður.

Samtímis tókum við stefnu á hið yzta af þeim allháu Fuglaskerjum í NA til A á kompásinn, 814 mílu frá oss og tókum þaðan stefnu N til A eftir jöklinum og var þá mikið af áðurnefndu grjóti í háfinu framundan okkur og sigldum við í gegnum það 12 til 13 mílur norðan Fuglaskerja. Svo þykkt var þetta lag á sjónum að úr ferðskipsins dró svo að munaði l/4 niílii á hverri vakt. Lá þetta á hafinu á 20 til 25 mílna breiðu svæði.”
Hinn 22. maí 1783 gefur Peder Pedersen, skipstjóri á liúkkertunni Torsken, sem liggur í Hafnarfjarðarhöfn, skýrslu um sína reisu til landsins. Þar segir: „Þegar ég kom til landsins fann ég land í hafinu úti. Þar var eldur uppi á þrem stöðum og er þetta land jafnstórt og eitt af stærstu Fuglaskerjunum. Þetta land var ekki þama áður. 2 mílur suðvestur af landi þessu reyndi ég að lóða og fann 42 faðma dýpi og brunagrjót í botni, sem leit út eins og ,,Ravn-kull”, og hafið var þakið vikri, sem land þetta spúði úr sér. Ég sigldi kringum um það í  1/2 mílu fjarlægð til að skoða það. Þetta land hggur V-S á kompás eða SV réttvísandi frá yzta Fuglaskerinu á að gizka í 7—8 mílna fjarlægð.”

Karlinn

Karlinn á Reykjanesi – afurð Nýeyjar?

Uppgötvun þessarar nýju eyjar vakti mikla athygli þeirra háu herra, sem réðu málum Íslands úti í Kaupinhafn. 26. júní 1783 er gefin út konungsúrskurður (stjórnarskipun) til Rentukammersins, svo hljóðandi: „Þar eð eyja hefur óvænt orðið til í landskjálftum og eldsumbrotum í hafinu út af Reykjanesi, nokkrar mílur undan suðurströnd landsins, og ástæða er til að óttast, að þegar eldur sá slokknar, sem enn logar, muni útlendingar geta sezt að á eynni til óbætanlegs tjóns íslenzkum fiskveiðum, ber voru kammeri að gefa stiftamtmanninum á Islandi eindregna skipun þess efnis, að þegar er mögulegt verður að nálgast þetta nýja land skuli hann fara með einu af skipum Íslandsverzlunarinnar og slá hátíðlega eign vorri á það, og ekki aðeins draga þar upp danska fánann heldur reisa þar þann stein með ártali og fangamarki voru, sem héðan verður sendur. Einnig skal hann semja skjal um landnám þetta í tveim samhljóða eintökum og skal annað geymast á Íslandi, hitt sendast hingað. Eynni skal gefið nafnið Nýey. Allt þetta verður að gjöra, enda þótt svo kunni að fara að eyjan hverfi svo sem hún til kom. Vort kammer, sem þetta er falið, verður að semja um allt viðvíkjandi skipi því, sém notað yrði, við stjórn Íslandsverzlunarinnar. Thodal stiftamtmanni var skrifað bréf 28. júní og honum uppálagt að framkvæma skipunina og skipa kaupmanninum í Hafnarfirði að vera til aðstoðar og láta póstskip taka með stein þann, sem reisa skuli í eynni og tilbúinn muni eftir nokkra daga. Er steinninn sagður þriggja álna hár, breidd hans neðst y4 álnar, en hálf alin efst, og þykkt sem því samsvari. Virðist steinninn hafa verið höggvinn, því varðveittur er reikningur frá steinihöggvaranum til Finanskollegium, að upphæð 17 ríkisdalir og 4 mörk. En aldrei komst sá stóri steinn út í Nýey.
Í plaggi frá Rentukammerinu 81. ianúar 1784 er þess getið, að Thodal stiftamtmaður hafi tilkynnt, að sakir þess, hve áliðið var árs og vegna stöðugrar þokn, hafi hann ekki getað slegið eign á eyna í konungsnafni samkvæmt tilskipun frá 3. júlí 1783, sér í lagi þar sem samkvæmt frásögn skipstjóra þess, er eyna fann, yrði landtaka að ske í bátum. Hafi hann því að ráði skipstjórans frestað framkvæmdum til næsta vors. Þó hafði stiftamtmaðurinn samið um það við téðan skipstjóra, að á heimleið sinni skyldi hann reyna að komast þar á land, og eftirskilja þar trékefli með fangamarki hans hátignar, eða þá mynt, en stiftamtmanni höfðu síðar borizt þær fregnir, að engir af skipstjórum verzlunarinnar hafi séð eyna, líklega vegna þess að stöðugar þokur hafi fælt þá frá að nálgast hana.
Í tilefni af þessu er gefinn út nýr konungsúrskurður 9. febrúar 1784 þar sem: 1) vorum stiftamtmanni Thodal er falið á ný að gera á vori komanda allt sem í hans valdi stendur til að framkvæma skipunina frá 26. júní og resolútíórina frá 3. júlí s.l. ár viðvíkjandi „Okkupation” Nýeyjar. 2) Stjórn Íslandsverzlunarinnar er falið að skipa versluninni í Hafnarfirði á Íslandi að láta skip það, sem í næsta mánuði á að flytja Levetzow kammerherra og stúdent Magnús Stephensen frá Íslandi, koma það nærri Nýey að sá síðarnefndi geti framkvæmt þær athuganir, sem honum samkvæmt tilskipan var falið að gera í þessu sambandi.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga.

Í lok bókar sinnar um Skaftárelda víkur Magnús Stephensen að þessu. Það sem hann skrifar þar um eyna og legu hennar mun byggt á frásögnum áðurnefndra skipstjóra, einkum Mindelbergs, en hann segir skipstjóra ekki sammála um stærð hennar, segi sumir hana mílu ummáls, en aðrir 1/2 úr mílu eða litlu meir. Hann bætir því við, að á þessu ári, þ. e. 1784, hafi engir sæfarar séð eyna og ,,þó að þau skip sem ég og herra kammerherra Levetzow fórum með út og utan hafi haft eindregin fyrirmæli um að finna eyna, ef mögulegt væri, höfum við ekki komið auga á hana, enda þótt við á útleið sigldum langa stund Iram og tilbaka um það svæði, þar sem eyjan átti að vera.” Magnús Stephensen skrifar að lokum: „Ef mér leyfist að draga af þessu nokkra ályktun, hlýtur hún að verða sú: að Nýey liafi sokkið með sama hætti og hún reis úr sjó fyrir ári.” Hann segir legu eyjarinnar eftir „nöiagtig Giskning” hafa verið „umtrent paa (53° 20′ nordre Bredde og 354° 20′ Længde” og mun hér miðað við eyna Ferro.
SprungudalurSumarið 1786 kom hinn dugmikli forstjóri dönskn sjómælinganna, P. de Lövenörn til Íslands. Meðan hann dvaldist í Hólmsins höfn sendi hann lautinant Grove út með jagt til að leita Nýeyjar, en hann fann ekkert nema þann hoða, sem nú er nefndur Eldeyjarboði og taldi hann leifar Nýeyjar (Löwenöm 1788). Þar með er upptalið það, sem vitað er um þá ey Nýey og örlög hennar. Hvenær hún hvarf undir sjávarborð er óvíst, en líklegt má telja, að það hafi ekki verið þoku einni um að kenna, að skip fundu ekki eyna haustið 1783, heldur hafi hún þá þegar verið horfin að mestu eða öllu. Einfaldasta skýringin á því að sjónarvottum bar ekki saman um stærð eyjarinnar er sú, að stærð hennar hafi verið breytileg eða að ruglað hafi verið saman kvartmílum og landmílum.
Í eldfjallasögu sinni tekur Þorvaldur Thoroddsen upp tölur þær, sem Magnús Stephensen nefnir, að ummál eyjarinnar hafi verið míla að sögn sumra, en aðeins þriðjungur úr mílu að sögn annarra. Þorvaldur telur, að hér sé um danskar mílur, þ. e. 7 1/2 kmmílur að ræða, en ég fæ ekki betur séð en að þetta muni eiga að vera kvartmílur eða sjómílur.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga.

Að minnsta kosti er víst, að þegar Hans Pedersen skipstjóri á Hvíta Svaninum segist hafa siglt 12—13 mílur gegnum vikurbreiður, eftir að Irann var kominn norður fyrir Geirfuglasker, á hann ekki við landmílur. Sé um kvartmílur að ræða hefur eyjan sarakvæmt upplýsingum Peder Pedersens verið um 900 m löng, en ummál samkvæmt upplýsingum Magnúsar Stephensens nærri tveir km. Má ætla, að eyjan hafi orðið svipaðrar stærðar og Surtsey var orðin eftir 10 daga gos eða svo, en það er trúa mín, að hefði Surtur hætt þá, væri nú ekki mikið eftir af eynni hans.
Snemma í marzmánuði 1830 varð vart við neðansjávargos alllangt suðvestur af Reykjanesi. Samkvæmt skýrslu um þetta gos sem varðveitt er í danska sjókortaarkívinu, hófst það 13. marz og var gosmökkurinn geysimikill undir lok mánaðarins og sást frá Reykjavík. Mikið myndaðist af gjalli og vikri. Sumir þóttust sjá eld. Þannig hélt gosið áfram eina tvo mánuði, en þess varð og vart af og til næsta vetur. Engiendingurinn Wolley, sem ferðaðist um Reykjanes 1858 til þess að athuga afdrif geirfuglsins, segir gosið hafa byrjað 6. eða 7. marz og varað með nokkrum hléum í heilt ár. En þetta gos varð afdrifaríkt fyrir þann hinn vængjavana fugl, geirfuginn, því talið er að í gosinu og jarðhræringum, sem því fylgdu, hafi eina þáverandi varpstöð hans, Geirfuglasker, fordjarfast.
MyndunAð tilhlutan Kriegers stiftamtmanns fór Björn Gunnlaugsson út á Reykjanes til að staðsetja gosmökkinn og dvaldi þar frá 29. apríl til 11. maí, en sá mökkinn aldrei vegna dimraviðris. Hann reyndi þó að staðsetja mökkinn samkvæmt upplýsingum um stefnuna á lrann frá ýmsum bæjum, svo sem Útskálum og Stafnesi. En áður en hann fór út á nes hafði hann einnig reynt að staðsetja mökkinn með þríhyrninga mælingum heiman frá sér í Sviðholti, en hann skrifar í skýrslu sinni, sem varðveitt er í handriti, að hann hafi notast við alltof stutta grunnlínu, því að hann hafi ekki mátt ganga langt burt frá skólanum, þar eð kennsla var ekki hætt. Samvizkusamur kennari, Björn Gunnlaugsson. Samkvæmt mælingum Björns frá Sviðholti var lega eldstöðvanna 63° 29′ 54″ n. br. og 25° 57′ 16″ v 1. (miðað við París). Virðist gosið því hafa verið nærri Eldeyjarboða, þó líklega nokkru austar, um 55 km undan landi.
Aftur verða eldsumbrot út af Reykjanesi 1879. í Heilbrigðistíðindum Jóns Hjaltalíns (Nr. 6, 1879, bls. 48) birtist eftirfarandi bréf ritað 12. júlí það ár. Höfundur þess er B. Guðmundsson. „Eldsuppkoma fyrir Reykjanesi, þann 30. maí, nálægt Geirfuglaskerjum, sáu menn vel frá Höfnum, og eins daginn eftir, þann 31., á að gizka þaðan 12 viknr sjáfar, en skemmstu leið frá yzta tanga á Reykjanesi 8 vikur. Með júnímánuði komu vestan-útnyrðingsbræluvindar með svarta þoku, samfleytt í 13—14 daga, svo að ekki var ratfært á sjó né landi nema á vissum vegum, en þokulaust alstaðar fyrir innan, í Keliavík, Njarðvíkum og Garði, og eins í Grindavík, sem menn héldu að stæði al’ eldinum. Rétt áður en upp birti, kom öskufall, sem vel sá á grasi; gjörði þá þéttar skúrir og birti upp með sífelldum þurrki síðan. Sást þá verða vart við eldinn aðeins og svo ekki oftar mánuðinn út.
Í Grindavík og einkanlega í Höfnunum hefur verið einstakt fiskileysi frá lokum og til lesta, að menn muna ekki slíkt, eins á Miðnesi, en góður afli strax fyrir innan Skaga og einkanlega inn á Sviði allt árið; svo það lítur út fyrir að fiskurinn hafi flúið undan eldinum. Ekki hefur verið getið um, að menn hafi orðið varir við vikur, og ekki heldur jarðskjálfta, við þessa eldsuppkomu, og heldur engin vissa fyrir, live nærri Geirfuglaskerjum eldurinn var að brenna.” Þannig hljóða þau orð og annað vitum við eiginlega ekki um þessi eldsumbrot. Sé það rétt, að fiskurinn hafi fælzt þau, hvað hann ekki hefur gert við Surtsey, er ástæðan líkegast sú, að þarna reis ekki eyja úr sjó og megnið af hitaútstreymi og útstreymi lofttegunda í sambandi við gosið hefur farið í sjóinn, en ekki upp í loftið. Þess má geta, að um sama leyti og þessi eldsumbrot voru undan Reykjanesi urðu snarpir jarðskjálftar í Krýsuvík og baðstofa féll á Vigdísarvöllum.

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Bæjarfell er framan við nýja Reykjanesvitann á Vatnsfelli.

Fimm árum síðar, hinn 1. ágúst 1884, skrifar vitavörðurinn á Reykjanesi, Jón Gunnlaugsson, skipstjóri, Ísafold eftirfarandi: „Hinn 26. f. m. (júlí) gekk jeg hjer upp á svo kallað Bæjarfell með kíkir og var að skoða sjóinn mjer til skemmtunar, og sýndist mjer jeg sjá skip norðvestur af Eldey (Mels;ekken), en sýndist það furðu stórt, dró jeg sundur kíkir minn, og sá fljótt, að þetta er eyja, stærri en Eldey, á að giska hjerumbil 3 mílur norðvestur af Eldey. Hefi jeg skoðað hana á hverjum degi og er hún alltaf með sömu ummerkjum og þegar jeg sá hana fyrst. Þetta hafa einnig séð kunnugir menn í Höfnum hjá mér í kíkir” (Ísafold XX. 33, 13. ágúst 1884, bls. 129).
í 13. blaði Fjallkonunnar 1884, dags. 20. ágúst (20. árg., bls. 52) er þessarar fregnar getið í léttum tón. Stingur greinarhöfundur, líklega ritstiórinn, Valdimar Ásmundsson, upp á því, að frægustu vísindamenn höfuðborgarinnar verði sendir til eyjarinnar og „Til þess að vera foringi fararinnar ætlum vjer hinn sprenglærða landafræðing herra Halldór K. Friðriksson sjálfkjörinn, og geti hann jafnframt og hann rannsakaði allt eðli eyjarinnar athugað, hvort ekki myndi tiltækilegt að rækta eyjuna með góðum áburði, að minnsta kosti svo, að nægileg beit yrði fyrir nokkrar rollur…
Vesturháls…Til fararinnar viljum vjer því næst kjósa herra Gest Pálsson til þess að kynna sjer skriðkvikindi þau, er vera kynnu í eyjunni, og vonum vér, að honum verði sýnt um þann starfa.” En svo sleppt sé gamni Fjallkonunnar. Hvað skal segja um þessa eyju. 1879 sjá menn gos en enga ey; fimm árum síðar sjá menn nýja ey en ekkert er vitað með vissn um gos. Raunar segir í Fjallkonugreininni: „Víst hafa nú í sumar verið eldsumbrot þar” (Fjallkonan 13. blað 1884. 20. árg., bls. 52), og setur greinarhöfundur jarðskjálfta sem vart hafi orðið snemma í ágúst, í samband við uppkomu eyjarinnar. En ummæli hans um eldsumbrot geta verið byggð eingöngu á ofangreindu bréfi vitavarðarins.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Dönsk herskip, sem fóru á vettvang um sumarið, urðu hvorki vör við eyju né eldgos. Þrátt fyrir frásögn vitavarðarins verður vart talið sannað, að eldgos hafi orðið undan Reykjanesi 1884 og að þar hafi myndast eyja stærri en Eldey virðist með ólíkindum. Rétt í því að ég var að ganga frá þessari grein til prentunar fræddi Gestur Guðfinnsson, góðkunnur Ferðafélagsfrömuður og ljóðskáld, mig á því, að hann hefði eigi alls fyrir löngu talað við sjómann, sem hefði fyrir mörgum árum orðið var við neðansjávargos undan Reykjanesi. Fyrir milligöngu Gests hafði ég uppá þessum manni, Jafet Sigurðssyni, sjómanni, sem búsettur er í Hafnarfirði en dvelst sem stendur á Vífilsstaðahæli. Jafet tjáði mér, að fyrri hluta júnímánaðar 1926 hefði hann, þá unglingur, verið í róðri ásamt þremur
öðrum, á mótorbátnum Braga frá Njarðvík. Voru þeir með línu skammt norðaustur af Eldey. Veður var stillt, svo að sjór var nær spegilsléttur. Þá sáu þeir koma eins og stórar bólur á sjóinn nærri bátnum. Þessi ólga í sjónum ágerðist mjög og sjórinn „fór að toppa allmikið”, svo fóru að fljóta þarna upp allmargir dauðir fiskar, bæði þorskur og þyrsklingur, og töldu þeir því að heitt myndi undir. Þeir horfðu á þetta nokkrar klukkustundir og var þetta farið að minnka er þeir héldu frá staðnum, en þeim þótti þó ekki ráðlegt að halda sér lengur þarna nærri. Þeir höfðu verið á þessum slóðum nokkra undangengna daga en ekki orðið varir við neitt óvenjulegt, en næstu daga fóru þeir til róðra á aðrar slóðir. Þeir sögðu frá þessu fyrirbæri, er þeir komu í land, en flestir voru vantrúaðir á frásögn þeirra. Ekki vissi Jafet til þess að aðrir bátar hefðu þá verið á þessu svæði. Ekki virðist mér vafi leika á að þarna hafi verið um að ræða einhver smávegis eldsumbrot á sjávarbotni. Slík eldsumbrot hafa vafalítið iðulega getað átt sér stað á umliðnum öldum án þess að nokkur yrði við þau var.
Eru þá upptalin þau eldsumbrot undan Reykjanesi, sem öruggt er eða líklegt að orðið hafi síðan land byggðist samkvæmt skráðum heimildum. Fullyrða má, að þar hafi gosið a. m. k. 10 sinnum og að 3 sinnum a. m. k. hafi eyjar risið þar úr sæ, ein eða fleiri, en engin þeirra er lengur ofan sævar.”

Magnús Á. Sigurðsson sitar grein um Yngra Stampagosið á Reykjanesi í Náttúrufræðinginn 1995. Þar segir hann m.a. um ritaðar heimildir um gos á Skagagnum: “Í rituðum heimildum kemur fram að gos í sjó hafí verið tíð undan Reykjanesi á öndverðri 13. öld, á tímabilinu 1211-1240 e.Kr. Nefnd eru sex gos frá þessum tíma, þ.e. árin 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240, sem bendir til goshrinu við Reykjanes (sbr. annálasamantekt Sigurðar Þórarinssonar 1965). Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar (Haukur Jóhannesson 1989, 1990).

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Við gjóskulagarannsóknir á Reykjanesskaga fundust fjögur gjóskulög sem tengja má Reykjaneseldum, þ.e. gjóskulögin R-7-R-10 (Magnús Á. Sigurgeirsson 1992a,b). Ekki er hægt að fullyrða neitt um gosár Yngri-Stampagígaraðarinnar, en í ljósi þess að Yngra-Stampagosið er fyrsti merkjanlegi atburðurinn í Reykjaneseldum er ekki útilokað að fyrsta ártalið sem tilgreint er í heimildum, árið 1211, eigi þar við.
Í heimildum er hvergi sagt berum orðum að hraun hafi runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að þvi í frásögnum við árið 1210/11 (Storm 1888). Í Oddaverjaannál er sagt: „Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.” Af þessari klausu má skilja að gefið sé í skyn að eldur hafi verið uppi á Reykjanesi og þá væntanlega með hraunrennsli. Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi.
Það bendir ótvírætt til goss í sjó.

Surtsey

Surtsey.

Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli” (Biskupasögur I 1858). Þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn er vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu i lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafí af þeim sökum sýnst rauð. Sem dæmi um þetta mætti nefna hina kunnu Skaftárelda 1783-1784 og móðuna sem þeim fylgdi. Í Eldsögu Sveins Pálssonar frá 1784 kemur m.a. fram að sól hafi á stundum verið rauð sem blóð og að óvenjulegt bláleitt mistur hafi legið í lofti (Sveinn Pálsson 1984). Þó að Yngra-Stampagosið standist ekki samjöfnuð við Skaftárelda er ekki útilokað að nokkurt mistur eða móða hafi verið í lofti við gosstöðvarnar sem orsakað gat rauðan blæ á himintungl (sólu).”

Nýey

Eldgos.

Sveinn Jakobsson segir m.a. í grein sinni í Náttúrufræðingnum 1974 um eldgos við Eldeyjarboða: “Eldgos, og einnig jarðskjálftar, hafa verið tíð á Reykjaneshrygg (Þ. Thoroddsen 1925, Sig. Þórarinsson 1965). Vitað er með vissu um tíu gos á þessu svæði, og a. m. k. þrisvar hafa myndazt eyjar, sem síðan hafa skolazt burt aftur, eða 1211, 1422 og 1783. Staðarákvörðun þessara gosa er oftast mjög óviss, þó er hægt að segja nokkuð nákvæmlega til um, hvar þær eldstöðvar eru, sem gosið hafa síðustu tvær aldir, þ. e. árin 1783, 1830, 1879, 1884 og 1926.
Nýey, eða svo hét eyjan, sem myndaðist árið 1783, er af flestum talin hafa verið þar, sem nú er Eldeyjarboði eða þar í nánd (sbr. Þorv. Thoroddsen 1925).
Yngri-StamparFrekari könnun á heimildum leiðir í ljós, að það getur varla verið rétt. Séu bornar saman fjarlægðarmælingar hinna þriggja dönsku skipstjóra, sem hafa greint frá gosinu, þá er ekki um annan stað að ræða en neðansjávarhrygg þann, sem er um 30 km SV af Eldeyjarboða. Þessi sjávarhryggur er um 10 km á lengd og 2—3 km á breidd; minnsta dýpi er 41 m. Hér er gert ráð fyrir, að fjarlægðareining skipstjóranna, 1 míla, sé gömul sjómíla eða 7,4 km, en að sögn Gunnars Bergsteinssonar, forstöðumanns Sjómælinga Íslands, er nær öruggt, að danskir sjómenn hafa á þessum tímum notazt við hana. Standast þá flestar mælingar skipstjóranna, t. d. segir Mindelberg, skipstjóri á Boesand (sjá ítarlegar tilvitnanir hjá Sigurði Þórarinssyni, 1965), að Nýey sé 8 1/2 mílu réttvísandi suðvestur af syðsta Geirfuglaskerinu (Geirfugladrangi).

Reykjanes

Reykjanes.

Einnig segir hann, að blindsker, sem ekki rísi upp fyrir sjávarmál, sé 13/8 mílu NNA af eynni, en þar er einmitt um hrygg að ræða, þar sem dýpi er minnst 22 m, og brýtur oft á slíkum blindskerjum. Magnús Stephensen (1785) taldi Nýey hafa verið nálægt 63° 20′ n.br. og 354° 20′ v.l. (miðað við Hierro, Kan.). Eftir ofangreindri niðurstöðu hefur eyjan verið u. þ. b. á 63° 17′ n.br. og 24° 11′ v.l., er þá breiddargráðan svo til rétt hjá Magnúsi, en lengdargráðan fjarri lagi. Mindelberg skipstjóri taldi Nýey hafa verið um 800 m í breidd. Ef þetta er rétt, þá hefur Nýey verið mjög svipuð á stærð og Jólnir, sem myndaðist 1966 í Surtseyjareldum. Örlög þessara tveggja eyja urðu hin sömu, Jólni skolaði sjórinn burt, áður en níu mánuðir voru liðnir frá myndun eyjunnar, og að öllum líkindum hefur Nýey náð svipuðum aldri. Dýpi er nú um 20 m þar sem Jólnir var, en 41 m þar sem Nýey kom upp.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Björn Gunnlaugsson (1830) staðsetti gosið, sem varð árið 1830 á Reykjaneshrygg. Aðstæður voru ekki góðar til mælinga, en samkvæmt mælingu Björns var gosmökkurinn á 63° 29′ 54″ n.br. og 25° 57′ 16″ v.l. Hér er miðað við París, miðað við Greenwich er lengdargráðan 23° 37′ 02″ v.l. Sé sjókortið hins vegar skoðað getur ekki hafa gosið á þessum stað nýlega, botninn er marflatur og engar mishæðir að sjá. Líklegast er, að staðarákvörðun Björns sé o£ austlæg, og gosið hafi á hryggnum, sem er aðeins um 4 km í VNV þaðan. Kemur þetta heim og saman við þær upplýsingar Þorvaldar Thoroddsen (1925), að eldstöðvarnar séu um 4 km frá Eldeyjarboða.
Eldstöðvarnar frá 1879 voru aldrei staðsettar nákvæmlega, en sagt, að þær væru nálægt Geirfuglaskerjum (Heilbrigðistíðindi Jóns Hjaltalíns 1879). Fjarlægð var talin um 12 vikur sjávar frá Höfnum, en 8 vikur skemmstu leið frá yzta tanga Reykjaness. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, segir, að 1 vika sjávar hafi verið breytileg mælieining frá einum tíma til annars, en á 19. öld hafi hún sennilega gilt það sama og ein míla, eða 7,4 km. Eftir þessu að dæma ættu gosstöðvarnar frá 1879 að hafa verið um 60 km frá yzta tanga Reykjaness, eða nálægt Eldeyjarboða. Þetta stangast illa á við hina fullyrðinguna, að gosið hafi verið nálægt Geirfuglaskerjum, og eins stenzt heldur ekki, að 4 vikur (30 km) séu á milli Hafna og Reykjaness, miðað við stefnu á Geirfuglasker. Sé hins vegar gert ráð fyrir, að ein vika sé hér um 4 km (4 vikur sé sama og u. þ. b. 15 km, sem er fjarlægðin á milli Hafna og Reykjaness), þá er fjarlægðin frá yzta tanga Reykjaness að gosstöðvunum um 30 km, sem er skammt SV af Geirfuglaskeri.
ReykjaneshryggurFrásagnir af gosi á Reykjaneshrygg árið 1884 stangast allmikið á (Ísafold 1884). Vitavörðurinn á Reykjanesi og ýmsir aðrir mætir menn töldu sig hafa uppgötvað nýja eyju, að sjá norðvestan við Eldey. Þetta var í lok júlí. Áhafnir tveggja skipa, er komu á vettvang í ágúst, urðu einskis vísari. Ýmsir menn í landi sáu samt enn eyjuna og töldu hana vera nálægt Geirfuglaskerjum. Ýmislegt við þessar frásagnir er með ólíkindum, t. d. sást aldrei neitt gos. Samt verður varla gengið á móti vitnisburði margra manna. Gert er ráð fyrir gosstöðvum þessum við Geirfuglasker og þær merktar þannig, þótt raunar sé mjög í óvissu, hvar þær eru.
Loks er að geta frásagnar um lítið gos, sem varð í júní 1926 (Sigurður Þórarinsson 1965), skammt NA af Eldey. Nokkrir sjómenn urðu sjónarvottar að þessu, og virðist nær öruggt, að þarna hafi orðið smágos.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 35. árg. 2. tbl., 01.09.1965, “Neðarsjávargos við Ísland”, Sigurður Þórarinsson, bls. 53 – 68.
-Náttúrufræðingurinn, Magnús Á. Sigurðsson, Yngra Stampagosið á Reykjanesi, 64. árg. 3 tbl. 01.01.1995, bls. 211 – 230.
-Náttúrufræðingurinn, Sveinn Jakobsson, Eldgos við Eldeyjarboða, 44. árg. 1 tbl, 01.10.1974, bls. 22-31.
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 1952, Herbert múnkur og Heklufell, Sigurður Þórarinsson, bls. 49-61.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Smyrkabúðahraun

Gengið var um Setbergssel austur með norðurjaðri Smyrlabúðarhrauns að Markasteini.
Eftir að hafa Tverhlidarvardaskoðað þann merkisstein var gengið upp á Syðra-Tjarnholt og síðan til baka að Setbergsselshelli (Setbergshelli/-Selhelli).

Í örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Setberg segir m.a. um þetta svæði: “Úr Gráhellu liggur [marka]línan í Setbergssel. Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu, þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Kethellir, Kershellir og Kjöthellir.
Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Ketshellirinn liggur örlítið hærra. Hér er líka að finna seljarústir og selgerði, og meira er hér um rústir.
Ketshellir er jarðfall, átta metrar að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum Selshellirer afhellir, nefnist hann síðan um 1910 Hvatshellir. En landamerkjalínan milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrla-búðarhraunsbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnholtinu syðsta.”

Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir þennan hluta Setbergslands segir: “Suðaustan Kúadals er aflöng hæð frá norðaustri til suðvesturs, Þverhlíð. Á suðvesturenda Þverhlíðar er svokallað Háanef. Austur af Þverhlíð er Syðsta-Tjarnholt, öðru nafni Fremsta-Tjarnholt, en syðst á því er stór klettur með grasþúfu uppi á. Það er Markasteinn og er á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands. Í Markasteini átti að búa huldufólk og taldi amma mín, Sigurbjörg Jónsdóttir, sig einu sinni hafa heyrt þar strokkhljóð, þegar hún var unglingur. Suðvesturhlíð Sandahlíðar, Kúadalshæðar og Þverhlíðar heitir einu nafni Setbergshlið. Hraunið þar suðvestur af heitir Gráhelluhraun og dregur nafn af stórum kletti í hrauninu, Gráhellu, sem reyndar er alls ekki hellulaga. Milli hraunsins, Lækjarbotnahrauns og Gráhelluhrauns, og hlíðanna, Svínholts og Setbergshlíðar, liggur Selvogsgata. Hún liggur frá Hafnarfirði, Selvogsgötu, austur í Selvog.
MarkasteinnSuður af Þverhlíð er talsverður halli á hrauninu og liggur Selvogsgatan yfir það þar. Í þessari hraunbrekku eru tveir hellar. Hægt er að ganga í gegnum nyrðri (neðri) hell-inn og er hleðsla inni í honum. Sunnan við hellinn er varða, hlaðin úr hraungrýti og þétt með steypu. Umhverfis þann helli er meiri gróður en annars staðar í nágrenninu. Líklegast þykir mér, að þetta sé sá hellir, sem kallaður var Selhellir, og hann heiti einnig Kethellir. Gróðurfar gæti bent til þess, að þar hafi verið sel, en það mun hafa verið við Selhelli. Einnig benda girðingaleifar og það, hve vönduð varðan við neðri hellinn er, til þess, að hann sé talinn vera á landamörkum, en Kethellir á einmitt að vera á mörkum. Syðri hellirinn er í kvos eða keri og veit opið móti austri. Á vesturbarmi kersins yfir hellinum er stór og stæðileg varða. Sá hellir tel ég, að sé Kershellir, því að hann er í eins konar keri. Rétt er að geta þess, að mönnum ber ekki saman um hvernig þessi þrjú hellanöfn tengjast þessum tveimur hellum.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólssteinn á mörkum Urriðakots.

Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir Urriðakotsland segir um þetta svæði: “Suðsuðvestur af neðri enda Selgjár er holt vestan við Urriðakotshraun. Nefnist það Syðsta-Tjarnholt. Syðst á holtinu er stór klettur með grasþúfu uppi á. Hann nefnist Markasteinn og er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs.”
Næsta viðfangsefni verður að rekja framangreindan Kúadalastíg.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Setberg.
-Örnefnalýsing Svans Pálssonar fyrir Setberg.
-Örnefnalýsing Svans Pálssonar fyrir Urriðakot.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur 18. des. 2023.

Eldgos hófst við Sundhnúk í Sundhnúkaröðinni ofan Grindavíkur klukkan 22:17 þann 18. desember 2023.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Undanfari gossins var stutt skjálftahrina við Sundhnjúkagíga sem hófst skyndilega um kvöldið, klukkan 21:00. Almannavarnir lýstu þegar yfir neyðarástandi. Grindavíkursvæðið hafði verið rýmt.
Á öðrum tímanum var áætluð lengd sprungunnar um 4 km. Hún liggur nokkurn veginn á gamalli sprungu eldra hrauns skammt austan Sundhnúkagígaraðarinnar. Suðurendi hennar var í u.þ.b. 3 km ofan Grindavíkur.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, og nú gýs á, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.
Ljóst er að draga muni hratt úr virkni á svo langri sprungu sem raunin er og virknin færast að mestu um miðbik hennar millum Sýlingafells og Stóra-Skógfells. Líklegt er að gosið verði lítið og skammvinnt.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfella- og Sandakravegur lágu um svæðið millum Grindavíkur og Voga annars vegar og Ísólfsskála hins vegar, sjá m.a. HÉR. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Reukjanesskaginn

Reykjaneskagi – vörðukort.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa áhugaefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá auk þess myndir af fyrsta degi eldgossins HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Urriðahraun

Gengið var um Kúadali innan við Urriðakotsdali með það að markmiði að reyna að rekja tvær gamlar götur inn á Urriðakotshraunið, þ.e. svonefndan Grásteinsstíg og Kúadalsstíg, og leita staðfestingar á svonefndri “Réttin gamla” og “Stekkjatúnsstekk”.
Urridakotshraun-2Örnefnin eru tilgreind í heimildum við og í nágrenni við stígana, s.s. Grásteinn, Einbúi og Sprunguhóll, auk þess sem nokkurra minja frá búskapnum á Urriðakotsbænum er getið á svæðinu, t.a.m. fyrrnefna rétt, stekk, fjárhús, skotbyrgi, fjárskjól o.fl.
Að þessu sinni var höfð til hliðsjónar fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar fyrir Urriðaholt (nærtækt Urriðakotslandið) frá árinu 2005. Í hluta skráningarinnar er fjallað um svæðið milli Vífilsstaðahlíðar og Tjarnarholts (-holta), þ.e. vestanvert Urriðakotshrauns.
Í nefndri skráningu segir m.a. um heimildir varðandi framangreint og niðurstöður vettvangsleitar: “
Um Grásteinsstíg í Urriðakotslandi segir m.a. í örnefnaskrá frá 1964: “Grásteinsstígur “liggur út á hraunið frá Hraunhorninu hjá Grásteini”, steini “á hrauninu út frá Hraunhorninu”.
Urridakotshraun-4Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. […] Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum, gráum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu.” Stígurinn lá að Kolanefsflöt [þar sem Sauðahellirinn nyrði er].
Skv. örnefnaskrá 1964 var “Réttin gamla” í hraunbrúninni “í hvammi neðan til við Kúadali” og “nokkru neðar er svo gamall stekkur, frá stekktíðinni.”
Skv. ódagsettri örnefnalýsingu lá Grásteinsstígur “þvert yfir hraunið frá Hraunhorni sem var nokkru sunnar með hraunbrúninni, en sunnan við það var svo Hraunshornflöt. Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið […]”. Ekki er minnst á stekkinn í örnefnalýsingu 1988, aðeins túnið og réttina sem við hann eru kennd.
Í örnefnaskrá 1964 er Stekkatúnið sagt vera “gróinn hvammur kringum stekkinn”, “Stekkatúnsrétt var þarna, en er nú horfin með öllu. Þarna hafa nú verið byggðir sumarbústaðir þrátt fyrir vatnsleysi.” Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða 

Urridakotshraun-5

Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.” Í örnefnalýsingu 1988 segir svo: “Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er Stekkjartún. Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus […]”. Skv. örnefnaskránni 1964 virðist sú rétt hins vegar hafa verið kölluð “Réttin gamla”.
Í örnefnaskrá 1964 er auk Stekkatúnsréttar nefnd Réttin gamla sem var “í hvammi neðan við Kúadali […] í hraunbrúninni. Innst í réttinni er lítill skúti”. Í ódagsettri örnefnalýsingu er hins vegar talið að um sömu rétt sé að ræða en eftir að Stekkatún hefur verið nefnt segir: “Þarna var líka
Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.” Loks segir Svanur Pálsson í örnefnalýsingu 1988: “Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns. 

Urridakotshraun-6

Nánari lýsing: Nafnið Réttin gamla virðist gefa hugmynd um að hún sé eldri en Stekkatúnsrétt. Um aldur hinnar síðarnefndu er ekki getið en hin fyrrnefnda var ekki byggð fyrr en eftir 1906, fæðingarár heimildarmannsins, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Af staðsetningunni “í hraunbrúninni” að dæma er Réttin gamla þó líklega sú sem Guðbjörg mundi eftir “við hraunið” og taldi nafnlausa.
Þegar Stekkjartúnsrétt og “önnur rétt nafnlaus” hafa verið nefndar segir í örnefnalýsingu 1988: “Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af Einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsarústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun.”

Urridakotshraun-7

Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: “Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir.” Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en “hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.” Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.”
Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: “Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir. “Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en “hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.” Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.”

Urridakotshraun-10

Skv. örnefnaskrá 1964 eru Kúadalir hvammar “niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna” en út úr stærsta hvamminum liggur” Kúadalastígur “upp á hraunið út á Flatahraunið yfir í Vífilstaðahlíð”. Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norðaustur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið. Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, Sprunguhóll. Vestur af Byrginu er grýttur hóll, Grjóthóll.”
Í örnefnaskrá 1964 er nefndur Syðridalatroðningur: “Troðningur eða stígur, er lá upp holtið frá dal rétt við Grjóthól suður á Syðri dalinn.” Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “[…] milli Tjarnholta og Þverhlíðar er Dalurinn syðri eða eins og hann er stundum kallaður Urriðakotsdalur syðri og líka var hann nefndur Efri-Flatir. Hér um lá troðningur og niður um holtið, nefndist Syðridalatroðningur, hann lá framhjá svonefndum Grjóthól um Grjóthólsflöt niður undan honum, en hér var kallað holtið “Milli dala” og þá lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir,

Urridakotshraun-8

Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjáarréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls, sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar.”
Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina syðri: “Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett.”. Eða: “Nokkru vestan við Skotbyrgið, er stór klettur vestan undir honum er rúst gamals fjárhúss.”. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.” Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: “Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.

Urridakotshraun-9

Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina nyrðri: “Nokkru norðar en gamla rústin”, þ.e. Fjárhústóftin syðri, “er fjárhústóft og standa veggirnir enn.” Eða: “Nokkru vestar er fjárhústóft yngri og standa enn veggirnir. Guðmundur bóndi Jónsson [í Urriðakoti] byggði fjárhúsið. […] Fjárhúsið er eftir sauðahús.” Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.” Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: “Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.
Skv. örnefnaskrá 1964 var Skotbyrgið “gamalt skotbyrgi af grjóti vestan til við” Kúadalsstíg eða “rétt vestan til við Kúadali”. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.”

Urridakotshraun-3

En í örnefnalýsingu 1988: “Vestur af Litla-Tjarnarholti er stór steinn og er annar steinn uppi á honum. Var það kallað Byrgi.”
Af framangreindu má ætla að “Gamlarétt” hafi ekki fundist við vettvangsleit, en gæti verið sama og nefnt er “Stekkjatúnsstekkur”. Hér kemur uppgötvun þessarar ferðar; leifar af bæði “Gömlurétt” og “Stekknum” er að finna á báðum tilgreindum stöðum. Þá er auðvelt að rekja bæði “Grásteinsstíg” og “Kúadalsstíg” yfir hraunhöftin. Grónar vörður gefa báða stígana til kynna. Austan hraunhaftanna sjást göturnar mjög vel, enn þann dag í dag. Og “Gamlarétt” virðist svo augljós.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar 2005 – Urriðaholt.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðah. /Garðahr.: Hafnarf. og Hraunum, bls. 139-40.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, 2001: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Leiðarendi

Leiðarendi er sá hellir á Reykjanesskaganum, sem einna styst er að frá þjóðvegi – og jafnframt einn sá margbreytilegasti á svæðinu, enda hefur umferð um hann síðustu misserin verið mikil – og fer vaxandi. Hellirinn er, líkt og aðrir hrauhellar á Íslandi, í einni af hinum fjölmörgu hraunbreiðum landsins er geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellunum er að finna einstakar jarðmyndanir, – dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Leiðarendi - opAllt þetta hefur Leiðarendi í Stórabollahrauni enn upp á að bjóða, nú 16 árum eftir að hann var fyrst kannaður. Hellirinn er 750 m langur, greiðfær og aðgengilegur, aðeins 36 km frá Grindavík og að honum er einungis 150 m. gangur, í mosagrónu hrauni, út frá við Bláfjallavegi.
Snjór þakti jörð, svo rækilega að hann hafði slétttað sérhverja misfellu í hrauninu. Það tók því nokkra stund að moka sig niður og inn eftir hellisloftinu innan við meginopið. Að því búnu varð eftirleikurinn auðveldur. Hátt í eitt hundrað þátttakendur skriðu inn eftir snjórásinni og niður í hellinn.
Stórabollahraunið er u.þ.b. 2000 ára gamall og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Ástæða er enn og aftur til að brýna sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema ljósmyndir. Yfir hrauninu er m.a. Tvíbollahraun, sem rann um 950 e.Kr. Auðvelt er að sjá skilin því síðarnefnda hraunið er apalhraun á þessu svæði, en Stórabollahraun rann lengstum sem helluhraun, líkt og Hellnahraunin eldra og yngra, sem einnig áttu för um þessar slóðir á mismunandi tímum. Stórbollahraunið hefur runnið í Leiðarenda á tveimur stöðum. Hellnahraun yngra umlykur m.a. Skúlatún, þýfkenndan grasigróin hól í miðju hrauninu. Það kemur eins og

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).
Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjörn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum. (Sjá meira undir  Fróðleikur). (Reyndir hraunamenn geta nú orðið lesið aldursmörkin, þ.e. út frá því hvaða hraun rann á á undan hinu – með ákveðin viðmið að leiðarljósi).
og áfram inn undir þaki hellisrásarinnar...Í stórvirki Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings, “Íslenskir hellar”, bls. 209, er m.a. fjallað um Leiðarenda. Þar segir t.a.m.: ” Stóri-Bolli er austastur bollanna við Grindasköðr og þeirra stærstur eins og nafnið bendir til. Stóri-Bolli er um 150 metrar í þvermál og opinn til noðurs en gígbarmarnir til beggja hliða eru um 50 metra háir. Hraunið hefur fallið til norðurs og þekur svæðið norður að Undirhlíðum og Helgafelli en er mjög hulið yngri hraunum. Erfitt er að áætla stærð hraunsins þar sem svo mikill hluti þess er hulinn yngri hraunum en það gæti þó verið allt að 20 ferkílómetrar að flatarmáli.”
Um Leiðarenda segir meistari Björn: “Leiðarendi er um 900 metra langur hellir og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring (eins og merkilegur uppdráttur í bókinni sýnir). Hellirinn kvíslast og hefur þak vestari rásarinnar brotnað niður. Nokkru neðan niðurfallsins sameinast kvíslarnar á ný og þaðan liggja mikil og falleg göng til norðurs. Það er mjög sérstakt að fara í hellaferð innúr niðurfalli og koma svo út klukustundum síðar hinum megin niðurfallsins. Hreint ævintýri fyrir þá sem eru að gera slíkt í fyrsta skipti.
Leidarendi-222Hellisgöngin eru víðast hvar lítt hrunin og hellirininn auðveldur yfirferðar þótt auðvitað þurfi aðeins að bogra á einstaka stað og klungrast á öðrum. Sérstaklega lækkar verulega til lofts nyrst í hellinum. Töluvert er um skraut, dropsteina, hraunstrá og storkuborð auk þess sem hraunið tekur á sig hinar ýmsu myndir. Á einum stað má til dæmis sjá fyrirbæri í lofti hellisins sem hellamenn kalla  “Ljósakrónuna” og svo mætti áfram telja. Þá er beinagrind af sauðkind innarlega í hellinum og má með ólíkindum telja hve langt kindin sú hefur ráfað inn dimman hellinn. Var hún e.tv. að forðast eitthvað?
Hellismunninn er skammt frá hraunjarðri Tvíbollahrauns sem raunar hefur runnið inn í Leiðarenda á tveimur stöðum syðst og vestast í hellinum enda liggur hann þar undir Tvíbollahraun. Tvíbollahraun rann á fyrstu árunum eftir landnám. Ef til vill kom kindin sú sem bar beinin í Leiðarenda til landsins með víkingaskipi. Og ef til vill gleymdi hún sér og lokaðist inni þegar Tvíbollahraun rann. 

Nafngiftin - kindin í botni Leiðarenda

Þegar svo ógnarheitur hraunkanturinn nálgaðist hljóp kindin ef til vill inn í kaldan hellinn til að forðast lætin og hitann og þar bar hún beinin. Atburðarrás þessi verður raunar að teljast harla ólíkleg en verður þó ekki afsönnuð fyrr en beinin verða aldursgreind. Fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar. Leiðarendi var kortlagður í desember 1992 og júlí 1993″.
Innst í syðsta hluta Leiðarenda er stór “hrauntjörn”. Þar lækkar hellirinn, en  hækka um leið því hrauntjörnin hefur brætt sig niður í undirstöðu(grann)bergið uns hluti hennar fann sér áframhald, sem varla verður rekjanlegt nema með mikilli fyrirhöfn. Það mætti þó vel reyna þegar betri tími gefst til.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Eitt af sérkennum Leiðarenda eru þunnar hraunflögur á kafla. Þær hafa fallið af veggjum og úr lofti. Þær gefa til kynna mismunandi hraunstrauma í gegnum rásina, hverja á fætur annarri. Má líkja þeim við endurteknar samfarir fullorðinnar hraunrásar við nýja strauma.
Ljósakrónan fyrrnefnda er í tengirás Leiðarenda við efri hellisrásina, sem flestir ættu að forðast. Komið hefur fyrir að þeir, sem þangað hafa fetað sporið og síðan haldið í gegnum hrun er rásin leiddi þá í gegnum, hafi ekki fundið leiðina til baka. Eftir hræðsluköst og formælingar hefur svolítil vonardagsskíma birst þeim úr annarri átt og þeir þá getað skriðið sér til lífs að jarðfallinu fyrrnefnda. Hins vegar má segja með sanni að einn heillegasti og fallegasti hluti Leiðarenda er í þessari rás, líkt og sjá má í bók Björns; “Íslenskir Hellar” (fæst í öllum betri bókabúðum og er sérhverjum hellaáhugamanni og öðrum leitandi bráðnauðsynleg leiðsögn).
Ljósakrónan í LeiðarendaVið frásögnina af sauðkindinni, sem Björn lýsir og varð tilefni nafngiftarinnar, má bæta að öllum líkindum hefur sú arma mær verið að leita skjóls vegna einhvers, t.d. snjóa eða náttúruhamfara. Hafa ber í huga að mörg dýr geta gengið fram og til baka um niðmyrkra ranghala án ljóss. Það hefur hellaleitar-hundurinn Brá t.a.m. sannað margsinnis. Það hefur því verið eitthvað annað en eðlilegheitin, sem varð sauðkindinni að aldurtila, s.s. eiturgufur hraunkvikunnar er lagðist yfir hraunrásina umrætt sinn. Ef svo hefur verið má ætla að hér á landi hafi verið urmull sauðfjár – og það fyrir aðkomu norrænna landnámsmanna hingað í kringum 874 +/-02.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Einhverjir hafa þá verið hér fyrir (sem flestum er reyndar orðið ljóst – nema kannski starfsfólki Þjóðminjasafnsins.) Ef til vill munu órækar minjar Skúlatúns og minjar í Húshólma /Óbrinnishólma í Ögmundarhrauni  hjálpa til að varpa ljósi á þá birtingarmynd?!
Taka verður undir með ákveðna og meðvitaða rödd Björns þar sem hann segir að; “fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar.”
Þótt Leiðarendi sé bæði aðgengilegur og áhugaverður þarf að gæta vel að því að skemma ekkert er getur haft þar varanlegt gildi fyrir komandi kynslóðir.
Frábært veður (að og frá hellinum). Ferðin tók 3 klst og 3 mín.
Leidarendi-223