Ingólfsfjall

“Hann reisti fyrstur manna byggð hér á landi að staðaldri; sagt er að Ingólfsfjall í Ölfusi dragi nafn af honum.

Ölfus

Inghóll.

Á því fjalli er sagt að hann sé heygður; eru þar til að sjá af öðrum fjöllum hólar tveir og heitir annar Ingólfshaugur, en í hinum er sagt að hundur hans liggi; sá hóllinn er allur lægri og minni fyrirferðar. Þenna legstað er sagt að Ingólfur hafi kosið sér svo að hann gæti því betur séð þaðan yfir hið fyrsta landnám sitt.
Einu sinni er sagt að Ölfusmenn og Grafningsmenn hafi tekið sig saman um að grafa í Ingólfshaug; komu þeir þá ofan á kistu eina mikla; þeir grófu niður með henni á alla vegu og komu böndum undir hana. Síðan hófu þeir hana á loft og þegar hún var komin á hálfa leið sagði einn þeirra:
“Nú tekst ef guð vill.”

Hóllinn

Inghóll.

Eftir það hófu þeir kistuna enn hærra upp þangað til hún var komin hálf upp á grafarbakkann og þeir voru farnir að hafa hendur á henni, þá sagði annar:
“Nú tekst hvort guð vill eða ekki.”
En í því hann sleppti orðinu slapp kistan úr höndum þeim niður í hauginn og þyrlaðist allt það sem þeir höfðu mokað upp úr gryfjunni ofan í hana aftur á augabragði. Við það hættu þeir að grafa í Ingólfshaug; ekki hafa heldur verið gjörðar fleiri tilraunir til þess síðan.
Önnur sögn er það sem og gengur í Árnessýslu að konu eina þungaða í Ölfusi dreymdi eina nótt að maður kæmi til hennar í svefni og bæði hana að lofa sér að vera. Hún spurði hann að nafni; hann sagðist heita Ingólfur og vera fyrsti landnámsmaður á Íslandi. Ekki er þess getið að þeim færi fleira á milli í það sinn.

Inghóll

Inghóll.

Eftir þetta kom sami maður oft til konunnar meðan hún gekk með þunga sinn og beiddi hana að lofa sér að vera og þess með að hún skyldi láta heita eftir sér son þann sem hún gengi með.
“Skaltu,” segir hann, “ala hann þangað til hann er tólf vetra á sauðaketi einu og nýmjólk, bæði kinda, kúa og einkum kapla; ef þú bregður ekki út af þessu mun ég gefa syni þínum með nafni fé það allt sem er í kistu minni. Skal hann leita hennar uppi hjá haug mínum þegar hann er tólf vetra og mun hann geta lokið henni upp ef ekki er brugðið út af í neinu með uppeldi hans þangað til.”
Konan hét þessu og kom þá Ingólfur ekki til hennar framar.

Hundur

Dys hundsins.

Eftir það ól hún sveinbarn Og lét kalla Ingólf eftir landnámsmanninum sem vitjað hafði nafns til hennar. Ól hún svo upp svein þenna sem næst hún gat komist fyrirsögn draummannsins þangað til hann var 12 vetra; var hann þá bæði mikill og efnilegur eftir aldri.
Hann gekk síðan upp á Ingólfsfjall að leita fjárins. Þegar hann kom að Ingólfshaugi sá hann stóra kistu standa þar og lykil í skránni. Hann fór til og ætlaði að ljúka henni upp, en gat ekki snúið lyklinum nema til hálfs; sneri hann þá heim aftur í það sinn.
HóllinnÞegar hann hafði náð meiri þroska fór hann aftur upp á Ingólfsfjall og að hauginum. En þá var kistan horfin og hefur aldrei orðið vart við hana síðan. En þótt Ingólfur yngri bæri ekki gæfu til að fá féð með nafni er sagt að hann hafi verið í mörgu lánsmaður.”

Stefnan var tekin á þennan hæsta punkt, þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn sé heygður sem fjallið heitir eftir. Þar í nánd voru alls kyns ummerki eftir viðkomu mannfólks. Eftir stutta hvíld utan í Inghóli (sem mun raunar vera grágrýtisgígtappi en ekki haugur Ingólfs) var haldið áfram í vesturátt.

Fell

Fjall undir Ingólfsfjalli.

Líklegast er að hundurinn liggi í lítilli dys sem ég fann rétt austan og norðan við Inghól og hefur þá ekki verið meiri um sig en venjulegur hundur.

Landnáma segir frá þriðju vetursetu Ingólfs að Fjallstúni við sunnanvert fjallið, er hann var á vesturleið í leit að öndvegissúlunum. Þar stóð síðar stórbýlið Fjall, sem fór í eyði á 18. öld. Minjar fyrri byggðar þar eru friðlýstar (sjá meira HÉR).
Hinn 29. mai 2008 voru upptök Suðurlandsskjálfa að stærðinni 6,3 á richter kvarða undir Ingólfsfjalli.

-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi um Hrútagjá og Hrútagjárdyngju, kíkt í Kokið, farið um mikla hrauntröð út úr henni að norðanverðu, um hellasvæði norðvestan hennar og síðan norður með austanverðum Almenningum með viðkomu í Gininu og fjárskjóli með fyrirhleðslum og fallega hlaðinni fjárborg við Brunntorfur.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Dyngjan sjálf, fallega löguð, er nokkuð vestar og frá henni liggja myndarlegar hrauntraðir. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Samsetning hraunsins samkv. rannsóknum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, að meðaltali er Plagioklas um 48,4% og Pyroxen um 32,7%. Ólivín er 11,4% og málmur um 7,3%.
Á leiðinni í gegnum dyngjuna, skammt suðvestan hennar var komið að djúpum sprungum, greinilega gasuppstreymi út frá gígnum. Var þeim gefið nafnið Kokið. Föngulegur hópur hellaáhugamanna var með í för og var tilefni ferðarinnar m.a. að skoða niður í þessar “gjár”. Hér er um að ræða 15-20 m djúpa “sprungu” í hrauninu. Ekki er ólíkt því að horfa niður í kok á einhverri furðuskepnu og horfa þarna niður í sprunguna. Búið var að skoða hluta hennar áður með takmörkuðum búnaði, en nú var ætlunin að láta fagmennina líta á fyrirbærið.

Húshellir

Við Húshelli.

Sprungan er þröng og því best að skilja bjórvömbina eftir heima. Þrír hellamanna nudduðu sér niður og telst Kokið því fullkannað. Svo virðist sem bráðið hraun hafi runnið í sprungunni, því nokkuð er um hraunfossa, rennslistauma og 8-10cm hraunskán sem þekur allt yfirborð sprungunar. Hraunskánin myndast jafnt á lofti sem veggjum. Sprungan hefur framhald bæði að ofan og neðan, en vegna ofvaxtar hellamannanna varð ekkert úr frekari landvinningum.
Húshellir er í hraunbrekkunni norðan dyngjunnar. Hleðsla í hellinum hefur verið ráðgáta. Hins vegar kann að vera skýring á henni. Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum, sennilega á 17. öld.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í heimildinni segir að útilegumennirnir hafi haldið til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjað á Vatnsleysuströnd. M.a. hafi þeir stolið frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir hafi flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er”, hafi þeir áreitt og rænt ferðalanga. Yfirvaldið hafi safnað liði, handtekið þá og fært til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Stórhöfðastígur liggur þarna niður með. Hann sést vel vestan við Hrútargjárdyngju og áfram niður með henni norðvestanverðri, niður með Fjallinu eina og síðan áfram yfir hraunið austan við Sauðabrekkur, niður í Brunntorfur nálægt Bláfjallavegamótum og áfram yfir hraunið að horni Stórhöfða. Stígurinn sést þarna vel á kafla, en mosi og lyng hefur þakið hann að mestu í grónu hrauninu vestan við Fjallið eina.
Önnur skýring á hleðslunum getur verið sú að þar hafi menn á leið um gömlu þjóðleiðina viljað getað leitað skjóls undan verðum. Einnig að menn hafi haldið þar til við refaveiðar, en þarna ekki langt frá er hestshræ (beinin). Bein eru í hellinum og væri fróðlegt að reyna að finna út af hvaða skepnu þau hafi verið.

Húshellir

Í Húshelli.

Þetta er einn möguleikinn á tilvist hleðslanna í Húshelli, en taka þarf honum með þeim fyrirvara að annað kunni einnig að koma þarna til greina. T.d. vantar þarna eldstæði eða önnur merki um að menn hafi haldið til þarna um einhvern tíma.
Önnur saga segir að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir þá er stunduðu hreindýraveiðar á Reykjanesinu (síðasta dýrið drepið á Hellisheiði 1901 eða 1904) eða annan veiðiskap. T.d. er hlaðin refagildra í Hrútagjáryngjunni. En þetta eru bara vangaveltur – gaman að velta þessu fyrir sér.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er í alfaraleið og er nokkur hundruð metra langur. Eftir að hafa gengið á sléttu helluhrauninu, hoppað yfir sprungur og sokkið í mosa, var komið að Gininu. Það fannst nokkur áður er FERLIRsfélagar voru að koma þarammani niður frá gígaröð norðan við Sauðabrekkur. Blasti opið skyndilega við þeim í annars sléttu hrauninu. Ginið er magnaður hellir og er án efa mest “töff” hellafundur síðan Eldhraunshellarnir fundurst að mati hellaramanna. Ginið er um 10-15m djúpt, trektlaga og snjór er í botni þess. Á yfirborði er ekki að sjá greinileg ummerki um gjall eða klepra, og því stendur þetta gat út í auðninni eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Því miður vannst ekki tími til að skoða Ginið að fullu, en til að það sé hægt þarf að hafa klifurbúnað og góðan tíma. (Sjá aðar FERLIRslýsingu þar sem Ginið var sigrað).

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd nefnist Almenningur. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Norðan í honum er hlaðið fjárskjól í skútum. Norðvestan þeirra er Þorbjarnarstaðaborgin við Brunntorfur. Hún var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900, en stendur enn nokkuð heilleg rúmlega aldargömul. Sennilega hefur fjárskjólið einnig tilheyrt Þorbjarnastaðafólkinu og sennilega verið ástæðan fyrir gerð borgarinnar. Svo virðist sem hún hafi átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en heimilsfaðirinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræði Hafnarfjarðar – flensborg.is
-speleo.is

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hlíð

Hlíð stendur við Hlíðarvatn í Selvogi. Hún mun vera landnámsbær. Þórir haustmyrkur er sagður hafa sest þar að fyrstur manna. Mikið af minjum er við vatnið, en upphaflega mun bærinn hafa verið í Hjallhólma, sem nú er varla svipur hjá sjón eftir að hækkaði í vatninu. Nú vottar einungis fyrir minjum utan í hólmanum.

Hlíð

Tóftir við Hlíð.

Gengið var um tóftirnar norðaustan vatnsins, um Hjallhólma, Arnarþúfu og yfir á Réttartanga. Þar skammt sunnar eru Borgirnar þrjár, fjárborgir frá Vogsósum. Gömlu götunni frá Vogsósum áleiðis að Selvogsgötu (Suðurfararvegi) var fylgt til austurs, framhjá Vogsósaseli og upp í Katlabrekkur. Þar var Hlíðarselið og Hlíðarborgin skoðuð áður en haldið var vestur Hlíðargötu, framhjá Borginni undir Borgarskörðum, fjárhústóftum skammt vestar og endað í rústunum ofan við Hlíð (ofan þjóðvegarins).

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Gísli Sigurðsson ritaði m.a. um Hlíð. Hann taldi þar hafa verið stórbýli fyrrum. Hafi hún um aldaraðir verið eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hafi verið í eyði um 90 ára skeið. “Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhólnum, lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.

Tlíð

Tóft við Hlíð.

Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi. Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Hlíðarmöl er þar innar, vestan túnsins, sem einnig var aðeins nefnd Mölin. Uppspretta er nálægt miðri Mölinni, heitir Buna.
Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Innarlega á Mölinni er tjörn, kölluð Hvolpatjörn eða Kettlingatjörn, og rennur úr henni vatn um Tjarnarlæmið.

Stakkavíkurselsstígur

Útsýni úr Selskarði yfir Hlíðarvatn og Stakkavík.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forar-vik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. Rakarsker er nýnefni á skeri einu eða hólma fram af vikunum. Nethóll er tangi með hundaþúfu á og er hann einnig nefndur Jónstangi, en fram af honum drekkti sér maður, er Jón hét.

Borgarskörð

Fjárborg undir Borgarskörðum.

Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. (Þórarinn Snorrason á Vogsósum sagði selið hafa verið frá Vogsósum, enda í landi jarðarinnar). Marknes var þar utar eða um 400 metra frá Selvogsréttum. Úr nesi þessu lá landamerkjalínan milli Hlíðar og Vogsósa. Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stór-grýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri.
Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.

Hlíðarkot

Hlíðarkot.

Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu. Kirkjugata lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogsósum og áfram suður að Strandarkirkju.”

Vogsósasel

Vogsósastekkur (heimasel).

Í Selbrekkum eru tóftir Vogsósasels. Götunni var fylgt upp Katlabrekkurnar þangað til komið var að Hlíðarseli. Fjárborg er við selið, en norðan þess er Hlíðarborgin undir háum klapparhól. Hlaðin tóft er í borginni. Enn ofar, undir Svörtubjörgum er Strandarsel (Staðarsel). Skammt frá borginni er fjárborgin undir Borgarskörðum. Hún stendur, gróinn, á hól og sést því vel úr nokkurri fjarlægð. Vestan hennar eru tóftir fjárhúsa eða sauðakofa. Við þau liggur Hlíðargatan niður að Hlíð. Á leiðinni var komið við í Ána, stórum skúta í Katlahrauni. Hlaðið hefur verið umhverfis opið, en auk þess er hleðsla sunnan við þá hleðslu.
Tækifærið var notað og minjasvæðið við Hlíðarvatn rissað upp.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Stakkavík

Hlíðarvatn – Stakkavík – örnefni.

Auðnasel

Gengið var upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, svona til að skoða nánar niðurlendið með hliðsjón af mögulegri götu frá bænum upp að Auðnaseli í Strandarheiði. Farið var að halla af degi.

Í Fornaselskvöldvetrarsólinni

Til að gera tveggja klukkustunda sögu stutta er skilmerkilegast að geta þess að þegar, ofan bæjar, var komið inn á götuna. Hún er greinileg í móanum þar sem hún liðast upp upplandið. Gatan var rakin í rólegheitum upp með Auðnaborg og síðan áfram með aflíðandi ílöngum hraunhólum efra. Vörður voru við götuna á a.m.k. þremur stöðum á leiðinni, svipaðar þeim og sjá má á götunni ofan Auðnasels áleiðis upp að Keili. Þegar komið var upp fyrir Reykjanesbrautina tók gatan stefnu á Fornasel, beygði af vestan þess og stefndi á vörðu nokkru ofar. Frá henni sást heim að Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hér var látið staðar numið að þessu sinni og vent af.

Auðnasel

Auðnasel.

Upp að Auðnaseli, frá þeim stað er frá var horfið, er um 15 mínútna ganga. Í eldri FERLIRslýsingu af heimsókn í Fornael og síðan Auðnasel segir m.a.: “Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.
BreiðagerðisselsstígurAuðnasel sést vel frá línuveginum í suðsuðaustri. Þangað er um 15 mín. rölt. Selstígurinn sést einungis glögglega á stuttum kafla, en þarna hefur orðið talsverð jarðvegseyðing á síðustu áratugum. Vestan við selið er varða. Sunnan undir henni er bæði lítil tótt og önnur stærri. Utan í hæðinni austan við þær er stærsta tóttin. Norðan við hana, í lægð, er greinilegur brunnur. Hlaðinn stekkur er skammt norðar og annar uppi á hæðinni austan við selið. Norðan hennar er kví undir bakka. Í kvínni er fallegur mjaltastúlkusteinn. Í austri ber háa vörðu við himinn, líklega landamerkjavarða því hún virðist ekki í samhengi við aðrar vörðuraðir á svæðinu, hvorki upp frá selinu né af þeirri götu áleiðis niður í Flekkuvíkurselið (Þórustaðastíginn). Í norðaustri sjást hluti tótta Fornuselja í Sýrholti utan í því. Skammt norðan þeirra er önnur tótt í sléttum grasbala ofan slakka og skammt þar norðan við er hlaðinn stekkur í sprungu.”
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Sýlingafell

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó.

Svartengisfjall

Sólstafir ofan Svartsengisfjalls.

Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).

Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar.

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni.

Vatnshæð

Vatnsstæði í Vatnsheiði.

Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.

Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka “svitaholu” má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir.

Svartengi

Svartsengi.

Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
“Með Alberti fer maðr með reynslu”, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.