Alfaraleið

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.
Alfaraleiðin í HvassahraunslandiGangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.
Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.

Skeifubrot í Alfaraleiðinni

Þá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginFramundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.
AlfaraleiðinÍ ljós hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

“Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.”

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
GvendarbrunnurAlfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Varða við Alfaraleiðina

Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í Alfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).” Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.”

Alfaraleið

Varða við Alfaraleiðina á golfvellinum.

Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin (gul lína).

Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: “Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).”

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; “Svona var lífið fyrir einum mannsaldri”. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: “Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi “og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – “Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…” 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, “Útræði á Selatöngum”, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): “Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar “Harðsporum” segir: “Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk”.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.”

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um “Þjóðminjar” í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um “Verbúðarrústir á Selatöngum”: “Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. “Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.”
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. “Kletturinn” er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/

 

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR fjallar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um jarðfræði Reykjanesskagans (upphaflega frá 2010 og uppfært (MÁS) 2021):

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti ÍSOR af Reykjanesskaganum í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

“Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

Á kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

Á Reykjanesskaga kemur sniðgengisþátturinn fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga hefur staðið yfir síðustu aldirnar en vísbendingar eru um að því sé að ljúka.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi  og hestu hnikþættir landsins.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Eldvirkni og gliðnunartímabil

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi.

Rannsóknir sýna að eldvirkni- og gliðnunartímabil (gosskeið) verða á 6-8 alda fresti á Reykjanesskaga. Gosvirknin einkennist af eldum sem geta staðið í nokkra áratugi, með hléum. Eldstöðvakerfin hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Hvert eldstöðvakerfi verður virkt á 900-1100 ára fresti. Um 950 ár eru frá síðasta gosi í Brennisteinsfjallakerfinu en 780-830 ár í vestari kerfunum. Rannsóknir benda til að síðasta gosskeið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu gaus á vestustu kerfum skagans, Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, á 13. öld. Þeim eldum lauk um árið 1240. Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldvirkni og gliðnunartímabil.

Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Tvö síðustu gosskeiðin eru vel þekkt og það þriðja fyrir um 3000 árum að nokkru leyti. Vísbendingar eru um fleiri gosskeið þar á undan en aldursgreiningar eru of fáar enn sem komið er til að tímasetja þau af nákvæmni.”

Kristján Sæmundsson fjallar einnig um jarðfræði Reykjanesskagans á Vísindavef Háskóla Íslands:
“Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu. Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum.

Reykjanesskagi

Gliðnunarbelti millum Lönguhlíðar og Geitahlíðar – sigdæld.

Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur.

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu. Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga í Krýsuvík.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.
Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin má sjá á meðfylgjandi mynd. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort nútímahrauna.

Af “eldvirknismyndinni” hér að ofan má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin. Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.

Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.”

Sjá einnig Jarðfræði Reykjanesskaga I, meira HÉR og HÉR.

Heimildir:
-https://isor.is/jardhiti/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699

Reykjanesskagi

Reykjanesskgai – jarðfræðikort ÍSOR.

Brautarholt

Gengið var með ströndum hins eiginlega Kjalarness utan við Brautarholt. Ætlunin var m.a. að skoða Presthúsatanga, Nesvíkina, Kjalarnesið, Borgarvíkina, Músarnesið og Brautarholtsborgina, auk þess Björnsstekk og borgina á Borginni. Hér er um að ræða svæði, sem jafnan er utan alfaraleiðar, en hefur upp á ótrúlega margt að bjóða.

Brautarholtskirkja

Brautarholtskirkja.

Gangan hófst við Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, en telja má hana afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlykur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar. Kirkjan, sem þarna er nú, var reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson til þjónustu í kirkjunni (1867-73). Hér má m.a. lesa um ferðir hans upp í Blikdal, selstöður Brautarholtsmanna fyrrum. Nýlega var kirkjan endurbyggð frá grunni og virðist kirkjunni hafa verið vel við haldið.
Til eru ágætar örnefnalýsingar frá Brautarholti og svæðinu öllu, sem Örnefnastofnun Íslands hefur haft forgöngu um að gera. Í einni þeirra segir m.a. um gömlu bæina: “
Litlu býlin og húsmanns býlin, sem ég tel upp eru nú horfin úr Jarðabókum. Borg, Skemma, Ketilstaðir, Kjalarnes, Hjallasandur, Lambhús, Flatbjörn, Langabúr austara, Langabúr vestara, Mýrarholt, Arnarholt er eign Reykjavíkurborgar ásamt Brekku og smábýlum eða húsm. býlum, Sigurðarhús, Hryggur, Berg, Nauðverja, Presthús, sem er eign lögfr. í Reykjavík.

Borgin

Borgarskarð upp af gamla Borgarbænum og Brautarholtsborg. Norðan undir henni var hið stóra býli, Borg, fyrr á tímum. 18 hurðir voru á hjörum í Borg.
Norður frá Borginni eru Kinnarhólar. Svo er mýri þar vestur af eða suðvestur af Kinnarhólum. Hún heitir Gullkistumýri. Vík þar vestur af heitir Gullkistuvík. Í kletti sunnan við Gullkistuvík er sagt, að sé falin gullkista, og heitir þar Gullkistuhöfði.” Í annarri lýsingu segir: “Gullkista er drangur í sundi, sem liggur inn í Gullkistuvík.”
Þá; “Upp og austur af Gullkistuvík er holt, sem heitir Móholt; þar var breiddur mór. Það er upp af Nesvíkinni nyrzt, Vestast er þar smáhæð. Þar er vík, sem nefnd er Pálsbúð. Sunnan við Gullkistumýri er Nesvík. Syðst í mýrinni eru smáhólar, og þar suður af er Vestri-Nesbær og Eystri-Nesbær. Hreppstjórabúð heitir milli þeirra. Þá eru Borgarhólar, sem eru austur af Borginni. Tangar eru undan Eystri-Nesbæ. Milli Gullkistu og Nesvíkur er svæði. Þar undir strandaði Laxfoss, 10. jan. 1944.

Laxfoss á strandsstað

Í Mbl 11. janúar 1944 segir frá sjóslysinu undir fyrirsögninni “Laxfoss strandar nálægt Effersey – Mannbjörg með naumindum eftir langan tíma – um 100 manns voru með skipinu”. Í fréttinni segir að Laxfoss hafi strandað kl. 7 1/2. farþegar um 100 manns náðust í land um og eftir miðnætti. Mikill sjór kom ískipið strax eftir strandið. Óvíst væri um björgun þess. veður var mjög dimmt, hríð og hvassviðri mikið.
Dráttarbáturinn Magni var sendur á strandsstaðinn. Magni kom aftur og sögðu skipverjar ógerlegt, eins og þá stóð, að komast nálægt skipinu. Björgunarsveit frá slysavarnarfélaginu fór út í Effersey til að freista að koma björgunarlínu þaðan út í skipið. Það reyndist ómögulegt vegna veðurs. Ein lína lenti þó yfir skipið, en festist svo ofarlega í afturmastrinu, að henni varð ekki náð.
Borgarvík og Músarnes og Anriðarey fjærNokkrir menn komust í land í skipsbátnum vestan við Grandagarð. Þeir sögðu að strax hefði komið mikill leki að skipinu, en farþegar væru rólegir. Tókst að koma línu í skipið og síðan ferja fólkið til lands, smám saman, með aðstoð Magna og amrísk innrásarpramma. Tókst að bjarga öllum, 91 manni (78 farþegar og 13 skipverjar), sem um borð höfðu verið. Skipið hafði verið í strandsiglinum. Farþegarnir voru flestir Norðlendingar, þar á meðal 6 þingmenn og stjórn Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði.
Varðskipið Ægir reyndi að ná Laxfossi af skerinu skv. frétt Mbl daginn eftir. Þann 13. janúar segir svo frá því að “hæpið verði að ná Laxfossi út – botninn mikið brotinn”. Skipið hvarf síðan í sjóinn nokkru seinna.
Skammt vestan við Presthús er kjölur af bát, táknrænn fyrir svæðið. Augljóslega er þarna um að ræða leifar björgunarbáts. Það skyldi þó ekki hafa verið einn af björgunarbátunum frá Laxfossi?
BjörnsstekkurÞá er Músasund vel gert af guðs og góðra vætta hendi, er sjómenn, er leið eiga inn í Hvalfjörð í beitufjöru hafa hárviss leiðarmörk, 2 hlaðnar vörður vel gerðar (af snild) af bændum í Brautarholti, er þeir settu upp hræður til að verja æðarvarpið fyrir fuglavargi og jafnvel sportveiðiþjófum úr öllum stéttum mannfélagsins.
Í Andrisey er Andríðarhóll, sem fregnir herma, að Andriður gamli í Brautarholti væri í heygður, er hann var
veginn eftir hofsbrunann að Hofi. Síðan segir, að byrjað hafi verið að grafa í hólinn, en þá hafi öll bæjarhús í Brautarholti verið í ljósum loga. Merki sjást til þess, að grafið hafi verið í hólinn.
Hér á eftir þarf að koma fyrir lengri texta þótt ekki væri fyrir annað en að koma að myndum af nokkrum þeim minjum, sem sáust á leiðinni, s.s. Björnsstekk, öðrum stekk skammt vestar, tóft ofan við Messing og fjárborg á Borginni sjálfri.
Stekkur vestan NesvíkurÞegar gengið var framhjá Prestinum undan Presthúsatanga var m.a. rifjuð upp hluti af sögu nýlegs sakamáls er segir frá fullyrðingu manns, sem myrti konu og sagðist hafa kastað líki hennar þarna í sjóinn. Það fannst hins vegar þremur dögum síðar í Smalaskálahæð sunnan við Hafnarfjörð.
Nesvíkin er formfögur vík. Eignin tilheyrir fjölskyldu Jóns heitins Ólafssonar á Brautarholti. Þarna er hin ágætasta aðstaða með enn ágætara útsýni.
Uppi á Borginni (Brautarholtsborg) eru leifar af hringlaga fjárborg, sem standurinn ber að öllum llíkindum nafn sitt af. Lítið sést eftir af borginni, en þó greinir enn í neðstu hleðslurnar, auk þess sem borgin hefur gróið upp að innanverðu. Suðvestan undir borginni er fjárskjól. Sunnan þess er hár, myndarlegur, klettadrangur, sem án efa hefur haft nafn, enda hinir ákjósanlegustu huldufólksheimar.
Tóft ofan MessingsOfan Nesvíkina austanverða sést móta fyrir tóftum. Þar gæti hafa verið garður eða mannvirki tengd uppsátri. Ofan við miðja víkina, sunnan undir grónum hól, er Björnsstekkur. Hleðslurnar standa enn og vel má sjá lögun hans. Skammt vestar, einnig rétt ofan við víkina, er annar stekkur, heldur minni, en heillegur.
Vestar er Bryggjunes og Gullkistuvíkin. Gullkistan er greinileg úti í miðri víkinni. Hann er sérkennilegur að því leitinu að neðri hluti hans er bólstraberg, líkt og fjaran umhverfis, en hatturinn á henni er stuðlaberg.

Kjalarnes

Kjalarnes.

Skammt vestar er hið eiginlega Kjalarnes, ofan Messings. Þar er hin ákjósanlegasta lending með góðu vari. Greinilega er stutt á miðin því bátar voru á veiðum þarna skammt frá landi. Tóft er ofan víkurinnar, ferningslaga, en nánast fyllt af sandi. Grjót er í tóftinni. Sennilega eru þarna um að ræða leifar af sjóbúð. Ofar er hólaþyrping Kinnarinnar. Á þeim má sjá leifar eftir hernámsárin. Ofan af Kinnarhólum er fagurt útsýni yfir Borgarvíkina, Músarnesið og Andriðarey.
Strandssvæðið á Kjalarnesi er eitt hið fegursta, aðgengilegasta og fjölbreytilegasta slíkra á Reykjanesskaganum – og engin ástæða til að halda því lengur leyndu fyrir áhugasömu útivistarfólki.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar ÖÍ.

Gullkistuvík

Fagridalur

Á landakorti LÍ frá árinu 1977 sést dregin gata er fylgir Skógfellavegi frá Grindavík að Stóra-Skógfelli. Í stað þess að halda áfram að Litla-Skógfelli og síðan áleiðis í Voga, eins og þekkt er, er gatan dregin til norðausturs frá Stóra-Skógfellshorni og upp að Nauthólaflötum í Fagradal og áfram í Dalssel (sjá meira um Dalssel). Þessi gata er merkt sem “vörðuð leið”. Annað hvort er um misskilning að ræða eða þarna hafi fyrrum legið gata frá Skógfellavegi og upp í Dalssel, selstígur Þórkötlunga á meðan þeir nýttu Dalsselið.
Leiðbeiningum fylgtÍ von um að enn gætu vörðubrot sést þarna er gæfu leiðina til kynna var haldið inn á svæðið frá 
Arnarsetri, austur með norðanverðu Stóra-Skógfelli og áfram inn á Skógfellahraunið. Þar var stefnan tekin til norðausturs, áleiðis að Fagradal.
Þrátt fyrir erfið gönguskilyrði í byrjun (snjór þakti jörð) lék veðrið við þátttakendur – logn og blíða í fjallasal. Snjóhlífar og -þrúgur auðvelduðu sumum gönguna til muna.
Í Arnarsetri hefur verið gerð bragarbót. Í stað mikils magns efnis, sem tekið var á sínum tíma við endurbætur á Grindavíkurveginum, hefur nú verið ekið þangað efni af framkvæmdarsvæði Bláa lónsins, bæði með það fyrir augum að nota svæðið sem efnistipp og um leið að endurheimta fyrri ásýnd þess. Ef haldið verður skipulega áfram með verkið má vænta þess að gígsvæðið sjálft hafi nánast fengið fyrri mynd eftir u.þ.b. tvær aldir. Hafa ber í huga að verðmæti Arnarseturssvæðisins á eftir að margfaldast á næstu áratugum og hundruðum.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Eftir að hafa fetað snævi þakið hraunssvæðið varlega, yfir hugsanlegar sprungur og gjár, þurfti að komast upp með Stóra-Skógfelli, sem hafði dregið að sér fannfergið. Við vörðu á norðausturhorni fellsins, við Skógfellastíginn, var áð og lagt á ráðin.
Meint gata af Skógfellavegi suðaustan við Stóra-Skógfell með stefnu í Fagradal gat auðveldlega legið þar inn í “dal” þann er Sandakravegurinn liggur um millum Sandhóls og Skógfellavegs. Dalur þessi er mosavaxin hraunslétta (helluhraun), sem runnið hefur eftir að Skógfellahraunið rann. Það hraun hefur fyllt upp í sprungur, misfellur og jafnvel inn í eldri gíga á svæðinu. Dalurinn heitir Mosdalur. Ofan hans er fyrrnefndur Fagirdalur. H
raunið hefur það verið nefnt Dalaraun og þaðekki af ástæðulausu. Í  ljósi þessa er enn áhugaverðara að skoða ummerki hinna fornu gatna yfir hraunið – því víða eru þær djúpt markaðar í hraunhelluna. Það eitt gefur til kynna hina miklu umferð um þær á u.þ.b. 600 ára tímabili, eða allt til 1910 er ferðir fólks um þær voru að leggjast af.
Á áningarstaðnum var tilvalið að rifað upp ferðalýsingu um Skógfellastíginn er birtist í Lesbók Mbl árið 2000: “Þ
essi grein um Skógfellaveg birtist í Lesbók Mbl í septembermánuði árið 2000: “Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svi sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar. Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Stóra-SkógfellNokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur.
Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til þess að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfararleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Hér er greint frá Útivistargöngu um hluta þessarar leiðar s.l. sunnudag 3. september… frá Vogum. Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum. Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og hæsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var um síðar.

Varða á leiðinni

Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að komast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg, sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuðu eftir slysið. Við litum á gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæist til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.

Gígur við leiðina

Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið áfram, enda auðvelt og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógefll er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellana er þétt röð varða.
Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfell, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn, utan eins þátttakaanda sem raunar gekk á öll fell sem urðu á vegi okkar og dásamaði hann mjög útsýnið.
SléttlendiðÞegar suður fyrir Stóra-Skógfell kom blasti við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. Á þessums lóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi göngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls. Rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga. Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því er kærkominn endapunktur á goðri gönguferð.”

Sandhóll-innri

Þá var stefnan tekinn upp í “dalinn” og honum fylgt til norðausturs. Varða sást á hraunnibbu áður en komið var inn á Sandakraveginn. Í rauninni var ekkert eðlilegra en framhalda göngunni eftir sléttu helluhrauninu áleiðis í Fagradal. Til að gera langa göngusögu stutta má segja að þessi leið er svo greiðfær að hægt væri að aka eftir henni á óbreyttum jeppa. Úfið hraun birtist framundan, en vestan þess lá slétt hraunlæna inn að Aurum vestan Nauthólaflata. Frá hraunjaðrinum var leiðin greið inn í Fagradal og að Dalsseli.

Sandakravegur

Sandakravegur – varða.

Á stöku stað var að sjá hellu ofan á hellu, en verksummerkin gætu þess vegna hafa verið eftir refaskyttur, er sóttu inn í hraunið. Ekki var að sjá að þeim hafi tekist að útrýma skolla á svæðinu því fótspor eftir hann sáust víða á leiðinni, ekki síst við Stóra-Skógfell. Augljóst má vera að víða leynast greni á þessu svæði, enda lágrennanlegar hraunrásir margar.
Þótt ekki hafi verið hægt að sjá augljóslega varðaða leið frá Stóra-Skógfelli áleiðis í Fagradal verður að telja víst að hún hefur verið farin, enda bæði stysta og greiðfærasta leiðin milli Járngerðarstaða og Dalssels. Til stendur að fara inn á svæðið þegar snjóa leysir og gaumgæfa það betur með hliðsjón af framangreindu.
Eitt stendur þó upp úr – umhverfið og útsýnið er stórbrotið.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild m.a.:
-Kort frá Landmælingum Íslands 1977.
-Lesbók Mbl 16. sept. 2000 – Kristján M. Baldursson.

Fagradalsfjall frá Skógfellastíg

Sandgerðisvegur

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.
Gatan gatansést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs. Vestan Sandgerðisgötunnar liggur gatan síðan áfram framhjá Einstæðingsvörðu þar sem voru gatnamót Fuglavíkurvegar og áfram upp að Gotuvörðu, sem fyrr segir. Gotuvarðan er endurhlaðin, en skammt norðan og austan hennar eru tvær fallnar vörður. Sunnan Gotuvörðu fer gamla gatan enn á ný undir Sandgerðisveginn. Þar liðast hún niður móana áleiðis að Keflavíkurborginni ofan Grófarinnar og niður með Brennivínshól. Á leiðinni fer gatan undir Garðveginn og síðasti sýnilegi hluti hennar er skammt vestan hólsins.
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Digravarða Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er því með yngstu kaupstöðum landsins.
Um staðhætti við Sandgerði má lesa á vefsíðu Sandgerðisbæjar: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri.
Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Sandgerðisgatan liggur um beitarhólfið. Á þá leið vantar sárgrætilega tvær “prílur” – inn og út úr beitarhólfinu.
Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða og ekki síst á sjálfri heiðinni.
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn.
Varða Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis. [Gamli Sandgerðisbærinn mun hins vegar hafa staðið niður við sjó, en þegar hann var fluttur upp að tjörninni var hann jafnan nefndur Efra-Sandgerði].
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.
Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.”
Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, í ritinu “Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð”, sem Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123, segir m.a.: “Sundpolli var Keilir um Digruvörðu. [Digravarða er eitt helsta auðkenni Sandgerðisbæjar og á eftir að koma við sögu á leiðinni].
Sjósókn var mikil frá Sandgerði á tíma opnu skipanna. Enn er viðbrugðið sjósókn Sveinbjörns Þórðarsonar og sona hans, Jóns og Einars. Fleiri hefi ég í huga, en hvar á staðar að nema, ef byrjað er? Fór saman dugnaður þessara manna og góð aðstaða, því þarna var bezta sundið og góð lending. Mest var lent í Stokkavörinni, þar var bezt og hreinlegast á land að leggja; voru skipin sett þar upp í kampinn, svo mörg sem komust, en oft lágu líka skip Sandgerðinga á mjúkri þarasænginni í Fúlu. Hún var oft ill umferðar, sem áður segir, og því fremur dróst úr hömlu að setja skipin, enda kom það fyrir oftar en eitt sinn, er flóð hækkaði mjög að óvörum, sem oft kemur fyrir á Miðnesi, að skipin tók út.
Varða Um aldamótin síðustu rak fjögur skip út úr Fúlu á morgunflóði einu eftir austanrok. Einhver hafði orð á því við Guðrúnu húsfreyju, hvert tjón þetta væri. „Það er ekkert með skaðann,“ sagði hún „en skömmin.“ 1880 tók út frá Sandgerði sexmannafar með öllum veiðarfærum. Það skip átti Þórarinn Andrésson á Flankastöðum, segir Suðurnesjaannáll.
Þannig var umhorfs í Sandgerðisnaustum fyrir og fram yfir aldamót, að allir bændur í hverfinu, sem gerðu út skip, áttu timburskúr, en sjómennirnir kofa eða byrgi. Var þetta stór þyrping húsa af ýmsu tagi. Skipin, sem í notkun voru, stóðu í röð neðan við húsin. Önnur, sem ekki voru notuð í svipinn, stóðu eða hvolfdu fyrir ofan skúrana. Dekkbátarnir stóðu að vetrarlagi, tveir eða þrír, hlið við hlið uppi á bakkanum fyrir ofan Fúlu. Allt bar þetta vitni dugmiklum athafnamönnum á þeirra tíma vísu. Eigi veit ég, hvenær verzlunarskipin (skonnorturnar) byrjuðu að leggjast á Sandgerðisvík, en frá 1880 og fram yfir aldamót komu skip kaupmanna í Keflavík þangað á hverju sumri, fyrst með salt til næstu vertíðar, svo með vörur til viðskiptamanna og loks að sækja fiskinn, er hann var þurr orðinn. Voru oft tvö eða þrjú skip á víkinni í einu. Þar komu líka á hverju sumri „spekulantar“, eins og þeir voru þá nefndir. Var lestin útbúin sem verzlunarbúð. Sóttu kvenfólk og krakkar mjög að skipum þessum, því þar var gnægð álnavöru og leikfanga. Gjaldeyrir þessa fólks var oftast örfáir fiskar, er hlotnazt höfðu að gjöf, helzt á sumardaginn fyrsta, eða ullarhár. Og krakkar áttu stundum hagalagða, sem dugðu fyrir bolta eða blístru.
Ekki lágu verzlunarskipin suður á Álnum, heldur fyrir norðan sund, innan við Þorvald. Þau lágu Gatanætíð kirkjuna framan við Skarfakletta, og röðin frá suðri til norðurs, ef fleiri voru en eitt. Þau komu ekki nema í góðviðri og fóru strax, ef brimvottur sást eða hvassviðri, af hvaða átt sem var, og skipstjórum leið illa ef skörp var útræna.
Í örnefnaskrá frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni er Ari Gíslason skráði, segir m.a. um Býjasker (Bæjarsker): “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthóla, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.
Varða Í viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni “Frá Suðurnesjum”, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði: “Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka. Norðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. [Grímsvörðurvoru allnokkru ofan Draugaskarða].
Skammt ofar varð að sprengja þar úr [er nýi þjóðvegurinn (malbikaði) var lagður. Þá voru vörðurnar teknar, en hóllinn er með marki SE og G frænda hans]. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.
Á Vegamótahól “Vafi hefur verið á hvar Einstæðingur er, hvort hann er hér eða í Leirunni. Einstæðingsmelur er þó vestan við Sandgerðisgötuna þar sem Fuglavíkurgatan kemur inn á hana.” Þar sést Einstæðingur og varðan á honum, litlum grónum hól í melnum. Guðmundur, sem var með í för, hefur þegar gert ráðstafnir til að hlaða upp vörðuna og áletraður steinninn í hana bíður tilbúinn í Norðurkoti.
Ef haldið er á ný niður eftir Sandgerðisgötu (-vegi) og örnefnin rakin upp eftir sem leð lá, verður fyrst fyrir Oddnýjarhóll norðan við veginn, skammt suður frá merkjum. Á hólnum, sem er við innkeyrsluna í Sandgerði, er nú listaverkið “Álög”. Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.
Næst ofar er Árnakötluhóll. Hærra og norðaustur af honum er Neðri-Dauðsmannsvarða. Henni hefur ekki verið haldið við, og þar var letur á hellu rétt hjá. Hefur það ekki fundizt nú um sinn. Hefur það líklega verið leiði meiri háttar manns. Þetta er beint upp af Stekknum fyrrnefnda. Upp af Neðri-Dauðsmannsvörðu er Sjónarhóll. Hann er á merkjum móti Sandgerði. Suður af Sjónarhól er Vegamótahóll. Þar á milli eru smáholt nafnlaus. Upp af Vegamótahól í Draugaskörðum er nefndur Dynhóll. Austur af honum eru Samföstuhólar. Þá ber við himin og eru með smáþúfum á. Græn þúfa er á Breiðhól syðri, sem er fyrir norðan Digruvörðu, úr Breiðhól til Gotuvörðu, þaðan í Háaleitisþúfu.
Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur merkt nokkra af þessum hólum eftir lýsingum eldri manna er þekktu vel til fyrrum.
Digravarða rís há og mikil i norðri. Hún var sundvarða í Hamarssundið, [um Sundbolla í Keili].
Við Neðri-Dauðsmannsvörðu Þegar staðið er við Vegamótahól má sjá niður að Býjaskerum (Bæjarskerum). Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.
Á Bæjarskerum á eftirfarandi þjóðsaga að hafa gerst: “Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. “Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir,” sagði hún.
En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.
Í Draugaskörðum Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu “ónáttúrlegu”. Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út.
Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu. Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: “Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því.”

Á Sandgerðisgötu

Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við.
Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.”
Ofan við Býjarsker er Arnarbæli og skammt ofar Álaborg, rétt auk tófta. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að “Holt eitt með klettum og grasi vaxið á milli klettanna er upp í heiðinni milli Býjaskerja og Sandgerðis rétt fyrir ofan (sunnan) túngarðinn, er Arnarbæli heitir. Annar klettur er þar fyrir neðan Sandgerði sem brúkaður hefur verið fyrir hróf á sumarinn, er heitir Hamar. Þaðan þóttust menn sjá álfafólk vera að setja skip sín og upp í Arnarbæli nóttina fyrir Bátsendaflóðið – þann 4. janúar 1798 [á reyndar að vera 1799] – sem mörgum sveitum olli hins mesta tjóns og töpunar.”
Gotuvarða Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um “loftanda” á Miðnesheiði, sbr.: “Vor eitt um 1820 í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nejsamenn. Var þetta kallaður loftandi. Sögur svipaðar þessari gengu manna á meðal og voru alltaf kallaðar loftanda verkan.”
Jón Jónsson frá Bæjarskerjum sagði að “við Vegamótahól koma saman vegirnir frá Bæjarskerjum og Sandgerði, svo var einn vegur frá Vegamótahól til Keflavíkur.”
Í leiðinni var litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta er rétt ofan við Sandgerði. Á hellu við hana á, skv. örnefnalýsingu [gömlum sögnum], að vera áletrun.
Enn hefur hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þó má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Kominn er tími til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem í og henni liggur. Efri-Dauðsmannsvörðan er skammt frá götunni ofan við Draugaskörð og enn önnur í heiðinni ofan við Berghús. Ekki hafa fundist áletranir við þær. Dauðsmannsvarðan, sem er á efsta Draughólnum við Draugagil, var hlaðin upp fyrir skemmstu.
Efri-Dauðsmannsvarða Við Rockvilleroad voru fyrrum mannvirki í radarstöðinni kynnt til sögunnar sem og tilgangur hennar.
Einstæðingsvarða er á mel [fyrrum malargryfjum] skammt neðan Gotuvörðu, sem er nú áberandi kennileiti sunnan við götuna. Einstæðingsmelur er þar og á honum Einstæðingshóll – varðan er nú sokkin í grashólinn. Sigurður og Guðmundur hafa mikinn áhuga á að endurreisa vörðuna, enda munu, sem fyrr segir, gatnamót Fuglavíkurgötu og Sandgerðisgötu hafa verið þarna nálægt hólnum. Sigurður þekkir Fuglavíkurleiðina mjög vel, en hún er nú víða horfin, bæði vegna jarðvegseyðingar, framkvæmda sem og gróins gróanda. Hún sést þó enn á köflum.
Þarna á melnum voru námur og öll verksummerki eftir þann hluta Fuglavíkurleiðarinnar, nema hóllinn, hafa verið þurrkuð út.
Þegar komið var upp að Gotuvörðu var áð, enda komið sólksinsdreif. Hvers vegna nafnið er til komið er óþekkt. Þarna gæti t.a.m. gotufata hafa fallið af hesti, sbr. Méltunnuklif austan Grindavíkur (þar sem méltunna féll af hesti og klifið hlaut nafn af). Sumir hafa talið að þarna gæti hafa átt að standa “Götuvarða”, en þeir sem gleggst þekkja til segja það hafi ekki verið. Sigurður og Guðmundur frændi hans endurhlóðu vörðuna fyrir skemmstu. Í henni er steinn með nafni vörðunnar.
Tugir manna (hundruðir samtals til lengri tíma) urðu úti á skömmum tíma á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. bæði fyrir að bíða og fyrir afneitun.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Merking Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Keflavíkurborg sést framundan þegar gatan er fetuð áleiðis niður að Grófinni. Leifar af borginni sjást enn, en líklegt má telja að grjót úr henni hafi veri tekið í nýrri mannvirki líkt og var með vörður og önnur hlaðin steinmannvikri fram að þeim tíma. Brennivínshóll er við ofan við Grófina, norðan götunar, skammt frá Keflavíkurborg. Þar var til siðs að taka tappa úr flösku á leið yfir heiðina (hóllinn er merktur af SE). Reynslan sýndi að það þótti miður heppilegt því margir áttu erfitt með að rata réttar leiðir eftir það.
Ljóst er að Sandgerðisgatan sést um langan veg á fyrrgreindum 8 km kafla milli bæjarins og Grófarinnar. Hún er reyndar horfin þar sem nýjasti vegurinn hefur verið lagður ofan á hana sem og þar sem malargryfjum hefur verið komið fyrir á leiðinni. Annars sést hún vel í móum Miðnesheiðar, fjölmörg vörðubrot eru við hana (vinstra megin á leið frá Sandgerði) og ýmsar mannvistarleifar tengdum sögum og atburðum á leiðinni má enn berja augum.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123.
-Saga Sandgerðis.
-Örnefni frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni um Býjasker (Bæjarsker). Ari Gíslason skráði.
-Viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni “Frá Suðurnesjum”, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði.
-Sigurður Eiríksson – Norðurkoti.
-Sandgerdi.is
-Sigfús III 142.
-Jón Árnason IV 27 og III 10.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur

Fagridalur

Gengið var inn á Dalaleið, hina gömlu þjóðleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, í Fagradal, gatan rakin upp hlíðina og upp á og yfir næstum óendanlega Vatnshlíðina. Götunni var síðan fylgt þvert yfir Hvammahaunið auk þess skoðaður var hugsanlegur stígur vestar í hrauninu. Þar liggur kindagata/fjárgata um þykkt mosahraunið. Loks var gengið til baka með ofanverðri Vatnshlíðinni og niður Vatnshlíðarhorn þar sem gamla gatan austan við Sveifluháls var skoðuð og henni fylgt spölkorn í átt að Breiðdal. Við hana eru tóftir tveggja “smáhýsa”, sem ekki er gott að segja hvaða tilgangi hafi þjónað.

Gata upp úr Fagradal

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um Nesið. Flestar leiðirnar tengdu byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík.
Dalaleiðin lá upp frá Kaldárseli um Kúastíg, sem enn er áberandi suðaustan sumarbúða KFUMogK, suður með Undirhlíðum, upp Kýrskarð, upp fyrir norðurhorn Gvendarselshæða, suður með þeim austanverðum og um Slysadali, Leirdal (áður hétu dalirnir báðir Leirdalir), framhjá vatnsstæðinu syðst undir Lönguhlíðum með stefnu inn Fagradal. Ef vel er að gáð má sjá mjög grónar tóftir norðvestan Leirdals og norðaustan Fagradals.
Hraunkarl Erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þær hafa gegnt nema að undangenginni nákvæmri rannsókn. Í fjarlægð lítur svæðið út eins og bæjarhóll undir brattri hlíðinni.
Þeir, sem farið hafa þessa svonefndu Dalaleið um Fagradag hafa eflaust farið inn dalinn að norðanverðu. Þar er hann vel gróinn í vöngum, einkum á kjálkum. Dalurinn er aflíðandi og því auðveldur uppgöngu. Hrauntunga liggur ofan í dalinn, kominn alla leið úr Kistufellsgígunum. Fjárgata ligur með hraunkantinum að sunnanverðu. Uppi í dalsendanum sést gatan mjög vel þar sem hún liggur skáhallt upp hraunhlíðina til suðurs. Þegar gatan er gengin er ljóst að ekki hefur hún nú verið fjölfarin hestagata. Líklegt þykir að gatan hafi mest verið sótt af fé og tiltölulega fáu fólki, enda er hún miklu mun lengri en Undirhlíðavegurinn frá Kaldárseli með vestanverðum Undirhlíðum og Sveifluhálsi, upp á Ketilsstíg.
Uppi á brún greinist leiðin, annars vegar til suðurs og hins vegar til suðvesturs um veðurbarða og grýtta “hásléttuna”. Vörður eru ofan brúnar að norðvestanverðu. Ein þeirra, sem næst er, er landmælingavarða. Sú, sem nær er brúninni hefur líklega, líkt og aðrar vestar með henni, verið hlaðnar af fólki, sem afrekað hefur göngu þangað upp, fundist mikið til koma og viljað skilja eftir “minningu” um afrekið. Fólk ætti frekar að skilja eftir miða eða jafnvel geymsluþolinn mat fyrir aðra, sem á eftir koma. Vörður voru leiðarmerki hér fyrrum og höfðu því ákveðinn tilgang. Með nýjum vörðum brenglast sú mynd, sem upphaflega var máluð á þjóðleiðum sem þessari.
Gata Til að spara tíma var stefnan tekin beint, ofan gilja á frosnum mosanum (sem var eins og teppi undir fótum), á suðurbrún hásléttunnar þar sem útsýnið var stórbrotið yfir Hvammahraunið og Krýsuvíkurfjöllin. Á leiðinni lét hraunkarl á sér kræla. Reyndar kom mjög á óvart að hann reyndist vera hraunkona. Dalaleiðin sást þaðan þar sem hún lá um mjósta hraunhaftið í Hvammahrauni, yfir í óbrennishólman, sem þar er. Hún var rakin í gegnum hraunið. Innkoman er breið og leiðin skiptist stuttu síðar í tvennt, en kemur saman að nýju við endann hinum megin. Báðar eru þær ógreiðfærar og líklega verið 98,8% notuð af fé og því fáu fólki – og þá nánast eingöngu að sumarlagi.
Ólíklegt er að farið hafi verið með hesta þarna yfir hraunið. Óbrennishólminn er að mestu úr sandi, en þómá sjá móberg og brotaberg á stangli. Hann er sennilegast hluti af gömlu gosi, líklega frá þarsíðasta ísaldarskeiði, á sömu sprungurein og fæddi Gullbringu og sandfjöllin sunnan hennar (vestan Kálfadala).
Að sunnanverðu var vatn í grónum bolla og hægt var að fylgja götunni áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Þar greinist hún í tvennt; annars vegar til vinstri upp sandbrúnir austan “hólsins” og hins vegar niður með honum að norðanverðu.
Miðvert Hvammahraunið var skoðað svolítið betur vegna hagstæðra aðstæðna (mosinn var frosinn). Fjárgata sást liggja yfir hraunið nokkru vestan leiðarinnar og eflaust er fleiri slíkar að finna víðsvegar um hraunið. Lílklegt þykir að fleiri götur leynist þarna yfir hraunið og þá vestar. Það verður skoðað betur síðar.
Gengið var að vestanverðri hraunbrúninni í norðanverðum Hvömmum. Sjá mátti hvar hraunið hafði runnið niður hlíðarnar. Þunnfljótandi hraun var austar í hlíðinum og undir úfnu apalhrauninu í dölunum, en grófara hraun vestar. Hið þunnfljótandi hraun hefur líklega komið úr Kistufellsgígunum, en grófara hraunið úr eldborginnii víðfeðmnu norðvestan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Sjá mátti þessa lagskiptingu sumsstaðar ofan Vatnshlíðar.
Fagridalur Götu var fylgt upp með hraunbrúninni og á hásléttuna. Gatan var greinileg drjúgan spöl eða þangað til komið var niður í ílanga hvylft í hlíðina. Hún var vel gróin bæði efra og neðra (nær Kelifarvatni). Fjárgata lá í henni milli hinna grónu svæða. Þá sást gatan vel þar sem hún lá upp hlíðina að norðanverðu. Henni var fylgt áfram norður yfir hásléttuna, en ekki leið á löngu að hún hvarf sjónum þar sem rann saman gata og vindsorfið grjót.
Framundan og ofanvert (hægra megin) var varða, vandlega hlaðin hringlaga, en nýleg. Ofan hennar (austar) var varða á klapparhól, sem skoðuð hafði verið á suðurleiðinni. Í norðri sást til vörðu, sem og tveggja ofan brúnar norðvestar. Engin gata fylgdi með vörðunum svo spurning er í hvaða tilgangi þær hafi verið hlaðnar. Allar virtust þær tiltölulega nýlegar. Ein varðan gaf þó augljóslega til kynna hellisop í grunnri rás.
Þunnfljótandi helluhraun (það eldra sennilega frá Kistufellsgígunum) hafði runnið þarna niður eftir og síðan fram af brún Vatnshlíðar á mjög afmörkuðu svæði. Neðan frá er það hinn tilkomumesti hraunfoss á að líta.
Rjúpa sást á stangli, en einungis ein í hóp. Ofan við Vatnshlíðarhornið er nýlega hlaðin varða og önnur nær brúninni, við uppgönguna (eða niðurgönguna eins og í þessu tilviki). Landmælingavarðan ofan Fagradalsgötunnar sást í norðaustri.
Farið var fetið niður Vatnshlíðarhornið, skref fyrir skref, enda eins gott að fara varlega. Frosið var undir og yfirborðið laust í sér. Feykivindur úr norðri bætti um betur. Ekki þurfti mikið til að komast á skrið í miklum brattanum. Allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Tóft Niðri var skoðaður grunnur, sem talinn er hafa verið af gamla veitingahúsinu norðan við Kleifarvatn. Það var í rekstri áður en vegurinn var lagður undir Helluna á fimmta áratug 20. aldar. Gamla þjóðleiðin sést enn ofan (norðan við grunninn), en húsið hefur kúrt undir fyrrum Vatnsskarði, í skjóli fyrir norðanáttinni. Vatnsskarð það sem nú er nefnt hefur áður að öllum líkindum heitir Markrakagil. Það færðist að einhverjum ástæðum nokkru norðar með Undirhlíðum. Ástæðurnar eru taldar hafa verið landamerkjalegs eðlis.
Ofan við grunninn eru a.m.k. fimm litlar tóftir af einhverju, sem ekki er vitað hvað var. Fróðlegt væri að fá einhvern sérfræðinginn til að skoða aðstæður. Ekki er þó raunhæft að ætla að tóftir þessar hafi tengst veitingarekstrinum og þá verið geymslur. Þjóðleiðin gamla var þá aflögð og kominn akvegur nokkru austar með hlíðunum, á þeim stað sem hann er nú.
Þegar gengið var yfir “hásléttuna” og götur þar skoðaðar, var stungið upp á því að nefna “Dalaleiðina” miklu fremur “Dalaleiðirnar” því við nákæma skoðun virtust þær mun fleiri en ein. Auk þess mun seint koma fram staðreyndir um hvar hún hafi í rauninni legið, ef hún hefur þá yfirleitt legið á einhverjum einum tilteknum stað.
Eftir að hafa elt fjárgötur í svo langan tíma var einungis eitt framundan – ofnbakaðar kótilettur.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Hraunssandur

Gengið var frá Ísólfsskála og fyrir endann á Bjalla, klifið niður Lambastapa og haldið út með ströndinni undir Skálabergi, gengið eftir Skálasandi og Festarfjalli yfir á Hraunssand.

Festisfjall

Undirbúningurinn.

Aðeins er vitað um eina konu, eiginkonu Brands á Skála, sem gengið hefur þessa leið þurrum fótum og þótti mikið afrek. Dæmi er um að vaskir piltar hafi synt út fyrir Lambastapa er þeir voru að stytta sér leið að Skála. Það voru þeir Guðbergur Bergsson og Hinrik bróðir hans. Eftir þessa ferð bættist enn eitt Skálabarnið við; Erling Einarsson og eiginkona hans.

Svæðið er einstakt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, fuglalíf í bergi og hellum (teistan) er mikið og umhverfið stórbrotið. Berggangar sjást á nokkrum stöðum sem og bólstrabergs og móbergsmyndanir. Í daglegu tali var þetta svæði nefnt “Undir Festi”. Hrun er af og til úr fellinu svo hjálmar eru þarna þarfaþing.

Festisfjall

Festarfjall – undirbúningurinn.

Þjóðsaga er til um Festarfjall, en í henni segir að “austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.”
Undir Festarfjalli eru nokkrir skútar og sjávarhellar. Einn þeirra er sýnum stærstur. Inni í honum verpir teista og má sjá hana þar í flokkum þegar vel stendur á.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Lyngfelli.

Á Hraunsandi var fyrrum unninn sandur og möl, enda má enn sjá leifar malarnámsins ofan við bergið. Fyrirtækið hét Ægissandur og töldu margir það daga nafn sitt af sandströndinni fyrir neðan.
Dunknahellir er undir berginu. Hellirinn hverfur af og til vegna sandburðar, en stutt er síðan hann opnaðist aftur. Nú er komið myndarlegt loftgat í hellinn.
Á kafla er stógrýtt undir bjarginu, en sandur á milli bergganga og -nefja, sem sjórinn leikur við, jafnvel í lágsjávuðu. Það getur því þurft lag til að komast yfir þá og jafnframt þarf að gæta þess vel að lokast ekki inni í básum á milli þeirra. Á leiðinni þurfti að klifra yfir tvær nípur er skaga út úr berginu; Eystri- og Vestarinípu. Að sögn Sigga á Hrauni eru landamerki Hrauns og Ísólfsskála um Eystrinípu. Oft væri ófært neðan við þær, allt eftir því hvernig stæði á sandinum.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Festarfjalli.

“Í kringum 1890 fannst þarna á Hraunssandinum rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna.

Lambastapi

Lambastapi.

Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.

Festisfjall

Festisfjall – berggangar.

Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti.

Festarfjall

Lyngfell – forn setlög.

Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”
Þessi leið, sem farin var, er ekki fyrir ókunnuga. Hún getur verið mjög varasöm, bæði vegna hruns úr berginu og ekki síður vegna óvæntra uppátækja Ægis. Hann á það til að rísa snögglega og óvænt upp og fyrir þá sem ekki þekkja kauða gæti það kostað ýmsar skrokkskjóður eða þaðan af verra.
Eftir gönguna var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; “Á túninu austan við bæinn er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er”. Einn göngumanna er jafnframt einn af eigendum Klappar svo þarna bar vel í veiði – Þórkatla gamla hvílir þá eftir allt saman í hól þar í túninu. En skráning þessi var þó tekin með fyrirvara, sjá FERLIR-826.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðsteinn Einarsson – “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar”.
-www.reykjanesbaer.is/bokasafn

Hraunssandur

Klifrað niður á Hraunssand.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er forn vörslugarður er náði milli Hlíðarvatns við Vogsósa og austur fyrir Nes, austasta bæinn í Selvogi, eða Sæluvogi, eins og hann áður var nefndur. Garðurinn mun ekki alltaf hafa heitið “Fornigarður”. Áður nefndist hann Strandargarður eða Langigarður, en nú á tímum er hann nefndur Fornigarður vegna þess að hann telst með elstu mannvirkjum hér á landi. Reyndar er um tvískiptan garð að ræða; annars vegar Langagarð og hins vegar Fornagarð.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Heimildir um Fornagarð eru t.d. eftirfarandi:
1821: “Máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er vrk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

1840: “Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.”

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

1902: “Aðalgarður lá fyrir ofan alla bæi í Selvogi, frá Hlíðarvatni fyrir ofan Vogsósa í landsuður að Stórhól, og aftur í austur frá Stórhól austur fyrir Nes. Sést hann enn glögt víðast hvar. Fyrir austan Nes sér þó ekki garð austar en nú er túngarðurinn … Án efa hefir aðalgarðurinn legið fyrir austan Snjólfshús. En hann hefir líklegast verið færður þangað sem hann er nú, eftir að þau voru komin í eyði, og þá bygður aftur úr sama grjótinu, en sandur hulið það, sem eftir kann að hafa orðið.”

Fornigarður

Fornigarður – ÓSÁ.

“Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina [í Selvogi]; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er að hliðin hefðu verið læst og grind í.”

Hægt er að ganga eftir garðinum frá Hlíðarvatni yfir að Nesi. Skammt ofan við túnið á Vogsósum eru tóftir og fjárborg (ekki vitað hvað er – ekki skráð). Ofan við Strönd kemur garðurinn saman við annan engu minni. Á loftmynd sést lögun hans vel. Austaqn Strandarkirkju beygir garðurinn til austurs, yfir veginn að kirkjunni og liðast síðan um Selvoginn austur fyrir nes, sem fyrr sagði.
Sjá lýsingu á hinum u.þ.b. 7 km langa garði í annarri FERLIRslýsingu er Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum fylgdi þátttakendum úr hlaði við vesturenda garðsins – sjá HÉR.

Heimildir:
FF, 228; SSÁ, 226-27; Brynjúlfur Jónsson 1903, 51-52; Ö-Þorkelsgerði, 1.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Ingólfsfjall

Gengið var til suðurs með austanverðu Stórahálsfjalli frá bænum Stórahálsi norðan Ingólfsfjalls. Leifar bæjarins Litlahálsar er skammt sunnar, undir Miðmundargili í Ingólfsfjalli. Svonefnt Ferðamannagil eru gróningar millum Bjarnafells (sunnan Stórahálsfells) og Ingólfsfells. Á landakortum er það staðsett norðaustan við SognselIngólfsfell, sem verður að teljast rangstaða. Ofan gilsins er Grafningsháls. Augljóslega hefur þessi leið verið mikið farin á hestum fyrrum.
Áður en haldið var á hálsinn var stefnan tekin upp Kagagil neðan við Kaga. Stapinn sá mun vera á landamerkjum. Þegar upp úr gilinu var komið var ætlunin að halda spölkorn áfram til suðurs og taka síðan stefnuna á Inghól. Slóða var fylgt áleiðis upp hlíðina. Sennilega er þetta bæði stysta og greiðfærasta leiðin á Ingólfsfell er halda skal á Inghól. Norðvestar er Leirdalshnúkar og Leirdalir neðar (ofan við Miðmundargil) líkt og síðar átti eftir að koma í ljós.
Í stað þess að halda þá og þarna áfram upp Kagagil var stefnan af einstökum áhuga tekin til vesturs inn á örnefnavænt svæði þar sem aðalleikendur voru Selfjall, Selás, Selá og Seldalur (sjá meira HÉR). Eftir að hafa tengt þessa leið við þá fyrri var stefnan tekin að nýju á Inghól.
IngólfsfjallIngólfsfjall er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Gengið var á Ingólfsfell þar sem ætlunin var að berja Inghól, grágrýtishæð, ætlaðan haug Ingólfs Arnarsonar, hins fyrsta landnámsmanns á Íslandi, augum. Sagan segir, að hóllinn opnist eina nótt sumar hvert og þá sé hægt að komast að dýrgripunum, sem voru grafnir með honum. Í bakaleiðinni var ætlunin að koma við í Fjallstúni, þar sem Ingólfur átti að hafa haft sína fyrstu vetursetu hér á landi, á vesturleið hans í leit að framtíðarsamastað.
Ingólfsfjall er 551 m. hátt y.s. Fjallið er hömrum girt á þrjá vegu og mjög hlíðabratt. Haldið var upp fjallið við það suðvestanvert. Þegar sjávarstaða var hæst í ísaldarlok hefur fjallið verið sæbrattur höfði sem brimið braut niður og skapaði þá hinar bröttu hlíðar. Það er tengt Grafningsfjöllum með Grafningshálsi. Ingólfsfjall er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli, einkum að neðan og í kolli. Það hefur orðið til um miðja ísöld. Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli, Silfurberg, er það úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Þar suður af er Kögunarhóll og liggur þjóðvegurinn á milli. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Gengið var upp á Ingólfsfjall á því sunnanverðu, austan við Þórustaðanámurnar. Þar er stígur upp gil, tiltölulega auðveldur uppgöngu. Hálfa klukkustund tekur að ganga upp á brún. Þar eru tvær vörður með stuttu millibili. En áður en komið er að neðri vörðunni sést gróinn bali. Neðst í honum er skeifulaga hleðsla. Þegar upp var komið blasti við víðátta fjallsins. Gengið var norður með vestanverðum ás. Þegar upp á öxlina framundan var komið blasti Inghóll við. Frá brúninni og upp á hólinn er tæplega klukkustunda auðveldur gangur. Alls tekur gangan fram og til baka um 3 klst. Í bakaleiðinni þarf að gæta þess að elta ekki hlíðina alveg niður að námuskarðinu, en fara til vinstrri skömmu áður en þangað er komið. Þar vantar tilfinnanlega vörðu fyrir ókunnuga, svona til að spara svolítinn tíma á bakaleiðinni.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Þegar komið var áleiðis að Inghól birtist þar sviplaus “maðr” skyndilega í þokunni. Kvaðst hann aðspurður hvorki vita af minjum á fjallinu né áttir. Hvarf hann sjónum jafn skyndilega og hann birtist. Ekki markaði fyrir sporum hans í moldinni. Í þokunni var sem einhver öfl legðu sig fram um að sveipa hólinn skyndlegri skýjarhulu og þannig viðhalda þeirri dulúð, sem um hann hefur skapast um aldir. Ekki var myndatöku viðkomið í þokunni (en þó reynt, sbr. meðfylgjandi mynd), en áfram var haldið og hóllinn þreifaður, án þess að hann sæist allur. Á honum er varða, tiltölulega nýhlaðin.

Í þessari lýsingu verða m.a. raktar að nokkru þær heimildir um þennan meinta haug, en þær sýna hversu mikill gaumur honum hefur verið gefinn í gegnum tíðina. Í Fornleifaskráningu fyrir Alviðru segir m.a. um Inghól á Ingólfsfjalli:

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – gerði.

“Í mörkum á milli Hvamms og Alviðru er hóll sem Inghóll heitir, hár hóll, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hanns. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hjann upp nema að litlu leyti.
1641-42: Kveðið ex tempore yfir haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfir haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfir leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir. Texinn er úr kvæði eftir Stefán Ólafsson (1885).

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – varða ofarlega í Brennigili.

1703: Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.
1821: Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfialli; og er þess hærsti toppur.
1840: Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór u

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – varða efst í Brennigili.

mmáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.
1873: Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
1898: Í lýsingu Kolbeins bónda Guðmundssonar í
Hlíð í Grafningi, kemur fram eftirfarandi lýsing á 

InghóllInghól: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum.  Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðan í honum stórgrýti nokkuð. Að eins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfis hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.”
FjallFram kemur að varða væri á hólnum og væri hún mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni. Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt.
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi, allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi verið um annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.” Fram kemur að þjóðsaga sé um Inghól.

Hellir

Stóri-Hellir.

Í þjóðsögunni af Ingólfi Arnarssyni og Inghól segir að “hann reisti fyrstur manna byggð hér á landi að staðaldri; sagt er að Ingólfsfjall í Ölfusi dragi nafn af honum. Á því fjalli er sagt að hann sé heygður; eru þar til að sjá af öðrum fjöllum hólar tveir og heitir annar Ingólfshaugur, en í hinum er sagt að hundur hans liggi; sá hóllinn er allur lægri og minni fyrirferðar. Þenna legstað er sagt að Ingólfur hafi kosið sér svo að hann gæti því betur séð þaðan yfir hið fyrsta landnám sitt.” Þjóðsöguna í heild er hægt að lesa undir Fróðleikur í Skrár (Inghóll – Ingólfur Arnarsson – þjóðsaga).
Undir Ingólfsfjalli sunnanverðu er Fjallstún. Tóftirnar eru rétt ofan við þjóðveginn áleiðis upp í Grímsnes. Í þeim er lítið máð skilti þar sem fram kemur að um friðlýstar fornminjar sé að ræða. Í Landnámabók segir að þar hafi Ingólfur Arnarson haft vetursetu hinn þriðja vetur sinn hér á landi, á leið sinni til Reykjav
íkur. Síðar reis þar stórbýli sem hét Fjall og fór í eyði á 18. öld. Enn sjást leifar fornra mannvirkja á staðnum, sem nú eru friðlýstar.

Í fornleifaskráningu fyrir jörðina Fjall í Ölfusi segir m.a.:

Stóri-Hellir

Stóri-Hellir / Einholtshellir.

“Þuríður Grímkelsdóttir “fæddist upp með þeim manni, er Sigurður múli hét; hann bjó undir Felli. Árið 1524 selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni hálft Fjall. Bærinn hefir staðið fram á átjándu öld. Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún.
Af JÁM (jarðabókinni) sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu, er jarðabókin var samin. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphaflega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, en Branddalur undir. Branddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. … Hefir hjer verið gott til heyafla og tún eigi alllítið meðan bungan var í friði fyrir skriðum. Líklegra er, að þær hafi valdið eyðileggingunni smátt og smátt heldur en allt í einu; en auðvitað er, að loksins hefir eitt skriðuhlaup riðið baggamuninn.”
HellirFjallstóftir eru gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, grasflöt skammt fyrir ofan veginn. Ein tóft sést enn þá greinilega fyrir neðan veginn, en áður sá glöggt fyrir fimm húsatóftum hverjum við aðra, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir þó nokkru. Bærinn hefir snúið framhlíðinni mót suðri.
Fjall var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927. Í heimild frá 1706 “segja menn að kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.” Árið 1897 er “sögn um, að bænahús hafi verið í Fjalli.”

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Þjóðsaga er um Sængurkonuhelli ofan við Fell. Í henni segir að “Saumakonuhellir sé hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, sem er þarna skammt frá, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma inn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli.”
Loks var haldið að jörðinni Helli (Einholti), þriðju jörðinni þarna er byggðist úr landi Fjalls, suðaustan við Fjall (handan Grímsnesvegar). Þar við bæinn er Stóri-Hellir, eða Einholtshellir eins og hann er jafnan nefndur. Þetta er fjárhellir austan í Túnhólum, skammt frá bæjarstæðinu. Hann tekur nær 100 fjár, og mætti stækka hann. Þar var mikið af leggjum í holu. Eini íbúi Stóra-Hellis er svipur manns með bláan trefil. Matthías Þórðarson friðlýsti þennan helli 5.5.1927: “Hellir fremst í túninu, skamt austur frá bænum, austan í grasivöxnum blágrýtishól,” segir í lýsingu hans.

Stóri-Hellir

Stóri-Hellir – skilti.

Barnahellisskúti er lítill hellisskúti næstur bænum; seinna var gert fénaðarhús fyrir framan skútann. Þar er lítil hola langt inn í bergið, og hafði verið raðað í hana mörgum stórgripsvölum.
Gjósta er bil á milli tveggja hamra rétt fyrir austan Barnahellisskútann. Þar var fjárrétt.
Litli hellir er lítið norðar en sá stóri. Hann tók 14 lömb, en er nú (1931) mörgum týndur.
Rétt er að geta þess til upprifjunar að Selfoss er landnámsjörð Þóris hersis Ásasonar. Sjá meira um Inghól og Ingólfsfjall
HÉR.
Frábært veður. Gangan tók a.m.k. 6 klst og 6 mín.

Heimild m.a.:
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar
-http://www.snerpa.is/net/thjod/ingo.htm
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_fjall.htm
.Ingólfshaugur