Reykjanes

Magnús og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skrifuðu ítarlegan kafla um Reykjanesskagann og eldvirkni þar í ritið Náttúruvá á Íslandi ; „Eldgos og jarðskjálftar„:

Í kaflanum fjalla þeir um eldstöðvakerfin frá Hengilskerfinu í norðaustri og suður og vestur um að Brennisteinsfjallakerfinu, Krýsuvíkurkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu, Svartsengiskerfinu og Reykjaneskerfinu.

Eldgosahrinur með hléum

„Síðast byrjaði goshrina þarna austast og færðist í vestur,“ sagði Magnús um elda á Reykjanesi á 13. öld. Vísbendingar eru um að gosskeiðið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800 . Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum.

Stampar

Gígar Stampahrauns á Reykjanesi.

Goshrinur hafa komið
Magnús benti á að þetta hefði átt við um síðustu elda en ekki væri vitað nákvæmlega um ferli í fyrri hrinum, t.d. fyrir 2-3 þúsund árum. Hann sagði erfitt að segja fyrir um það nú hvernig atburðarásin með landrisi og jarðskjálftum við Þorbjörn myndi enda.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Miðað við sögu Reykjanesskaga og síðustu goshrinur þar mætti segja að það gæti verið að koma tími á viðvarandi jarðelda á svæðinu. „Þetta er eiginlega alveg ný reynsla, má segja. Þetta sést fyrst og fremst vegna þessara nákvæmu mæla sem komnir eru,“ sagði Magnús. Hann sagði að svipuð atburðarás og er nú gæti vel hafa orðið fyrir einhverjum áratugum eða árhundruðum án þess að hennar hafi orðið vart. Jarðhræringarnar og landrisið nú er á svæði sem tilheyrir Svartsengiskerfinu. Engin merki eru um að eldvirkni þar hafi náð út í sjó, eins og sums staðar annars staðar á Reykjanesskaganum. Ekki er útilokað að það geti þó gerst, að sögn Magnúsar. Svartsengiskerfið er um sjö km breitt og allt að 30 km langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 km. Kæmu upp jarðeldar gæti hraunkvika mögulega farið eftir sprungum og komið upp fjarri sjálfri gosstöð inni. Sprungur ná langt í norðaustur frá Svartsengi. „Gosvirknin er bundin við suðurpartinn. Það gildir líka um Reykjaneskerfið og Krýsuvík,“ sagði Magnús.

Síðasta eldgosahrina á 13. öld

Nokkur hraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu frá 1211 til 1240. Vestast er Eldvarpahraun. Þar fyrir austan er Illahraun. Orkuverið í Svartsengi stendur á því og Bláa lónið er við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast af þessum þremur hraunum. Talið er að það hafi runnið síðast af þeim. Arnarseturshraun og Illahraun runnu bæði inn á Eldvarpahraunið.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Grindavíkurvegurinn liggur að hluta í gegnum Arnarseturshraunið. Rannsóknir sýna að eldar á Reykjanesskaga geta staðið í nokkra áratugi eða lengur, með hléum. Þeir eru nokkuð svipaðir og Kröflueldar voru. Magnús sagði að eldarnir í Krýsuvík þegar Ögmundarhraun rann virtust hafa staðið í 2-3 áratugi. Svipuð atburðarás hefði orðið í Brennisteinsfjöllum á 10. öld þegar gaus á þó nokkrum stöðum þar. Samkvæmt mælingum er landrisið á Svartsengissvæðinu vestan við fjallið Þorbjörn og ekki mjög langt frá Eldvarpagossprungunni. Magnús sagði ómögulegt að fullyrða um framhaldið. Líklegast væri að þetta hjaðnaði en tæki sig síðan mögulega upp aftur í framtíðinni.

Virðist vera fremur lítil kvika

Áætlað er að Arnarseturshraun sé um 0,3 rúmkílómetrar að rúmmáli. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands 26. janúar var áætlað samkvæmt grófu mati að rúmmál kvikusöfnunarinnar hefði verið um ein milljón rúmmetra eða 0,001 rúmkílómetri. Það er 1/300 af rúmmáli Arnarseturshrauns. Ef þessi kvika nær til yfirborðs og ekki verður meira aðstreymi kviku verður um lítið gos að ræða, að sögn Magnúsar. Hann sagði talið að kvikan væri á um þriggja til fjögurra km dýpi.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum.

Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.


Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæslan hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi.
Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður.
Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu.

Heimildir:
-http://isor.is/frettir/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga
-http://isor.is/frettir/nedansjavarhraun-vid-grindavik-sogulegt

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Búrfellsgjá

Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um „Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð„:

Skilgreining og nafngift.
Búrfellshraun
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:

„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.

Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Búrfell - Kringlóttagjá

Búrfell og Kringlóttagjá

Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.

Búrfell

Kringlóttagjá

Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.

Búrfell

Búrfell.

Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.

Garðaflatir

Garðaflatir. Garður milli Búrfellsgjár og Vatnsholts.

Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.

Búfellsgjá

Búrfellsgjá.

Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur Gk.

Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.

Búrfellsgjá

Hellisskúti í Búrfellsgjá.

Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.

Maríhellar

Í Maríuhellum.

Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.

Búrfellsgjá

Í Gerðinu.

Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.

Búrfellsgjá

Gerðið.

Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.

Kaldá

Kaldá.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.

Búrfellsgjá

Búrfell

Búrfellsgjá.

Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga“ þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.

Búrfell

Búrfell.

Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.


Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.

Búrfellsgjá

Búrfell og Búrfellsgjá.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.

Lambagjá

Lambagjá.

Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin“ tæmdist að meira eða minna leyti.

Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni“, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði.

Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.

Búrfell

Búrfell.

En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.

Búrfell

Kringlóttagjá.

Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Búrfell

Árni Hjartarson skrifaði um „Búrfellshraun og Maríuhella“ í Náttúrufræðinginn árið 2009:

Búrfellshraun og Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli; það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum (1. mynd). Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Um þetta og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Stekkjarhraun, Selhraun, Kaldárselshaun, Hafnarfjarðarhraun, Balahraun, Garðahraun og Gálgahraun.“

Búrfell

Búrfellsgígur.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun, lét gera á því aldursgreiningar og ritaði um það – sjá  HÉR.

Flest sem síðar hefur verið skrifað um hraunið grundvallast á rannsóknum hans, m.a. þessi grein.

Stærð hraunsins og aldur Mikil misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanesi. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota.

Maríuhellar

Maríuhellar (Urriðakotsfjárhellir).

Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Selhraun

Selhraun vestan Kapelluhrauns.

Nýverið benti Haukur Jóhannesson greinarhöfundi á að Búrfellshraun sæist hugsanlega á yfirborði á dálitlum bletti í svokölluðu Selhrauni sunnan við Straumsvík. Á jarðfræðikorti hefur þetta hraun verið nefnt Selhraun 1 og uppruni þess talinn óljós en tekið er fram að um dyngjuhraun sé að ræða. Ekkert í landslaginu mælir gegn því að Búrfellshraun gæti hafa runnið þarna yfir en bæði útlit, berggerð og dílasamsetning, sem og aldursafstaða hraunsins til annarra hrauna, benda til þess að þetta sé Búrfellshraunið.

II. Lambagjárlota.

Lambagjá

Lambagjá.

Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota.
BúrfellshraunÞegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa og hrauntraðir og hellar í hraunum þurfa oftast nokkurn tíma til að myndast. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þetta var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Í borholunni við skolphreinsistöðina hjá álverinu í Straumsvík sést að sjávarborð var a.m.k. 8 m neðar en nú og Guðmundur Kjartansson nefnir að aðstæður í Hafnarfirði sýni að sjór gæti hafa staðið um 10 m neðar en í dag þegar hraunið rann.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 24 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson álítur meðalþykkt þess vera um 20 m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undir og ofan á því og birti um það grein í Náttúrufræðingnum. Þegar aldursgreiningarnar eru umreiknaðar yfir í raunaldur fæst að fjörumórinn undir hrauninu er um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú. Athugunum á hrauninu, sem fyrr hefur verið greint frá, ber saman við þetta.

Hrauntraðir.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð, við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá, svo sem fyrr er nefnt. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20–30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim er einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er meira en 20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta. Hraunhellum má skipta í nokkra flokka eftir því hvernig þeir mynduðust; hraunrásarhella, gíghella, hraunbólur, sprunguhella o.fl.
Í Búrfellshrauni eru nær allir þeir hellar sem ná máli hraunrásarhellar. Skútarnir í hrauninu eru ýmist í hraunrásum, undir hraunbólum eða myndaðir á annan hátt. Hraunrásarhellar eru orðnir til við rennsli hrauns í hraunrás undir storknuðu yfirborði. Þegar kvika berst ekki lengur til hraunrásarinnar getur hún tæmt sig ef landhalli er nægilegur og þá myndast hellir. Oft er þakið svo þunnt að það hrynur ofan í hraunrásina og því stundum erfitt að segja til um hvar einn hellir endar og annar hefst.

Skátahellir

Búrfellshraun – Skátahellir.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Í hinni miklu hellabók Björns Hróarssonar eru nafngreindir 13 hellar og skútar í hrauninu, en þó munu þeir vera fleiri.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns (Urriðakots) og Vífilsstaða rétt við veginn upp í Heiðmörk.
Björn Hróarsson lýsir stuttlega þremur hellum á þessum slóðum, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósefshelli.

Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella. Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. september 1834 og birt er í riti Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni og leiðir í landi Garðabæjar: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar, fram í vörðuna sín megin á Norðurhellragjárbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni, þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni, úr henni í Álptatanga, þaðan í hellu sem er í miðjum Hrauntanganum, kölluð Sílingarhella, úr henni í uppmjóan háan klett með klofavörðu upp á sín megin Stórakróks og í gamlar fjárréttargrjótgirðingar í Moldarhrauni, og upp í áðurnefnda Urriðakotsfjárhellra.“

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Þessi lýsing var þinglesin 1890 en þá gerði umboðsmaður Garðakirkju eftirfarandi athugasemd um leið og hann skrifaði undir skjalið: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju, að öðru leyti en því að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilsstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það sem Vífilsstaðir eiga sjerstaklega“. Af þessu skjali má ljóst vera að Maríuhellanafnið er gamalt og að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.

Engar sagnir fylgja þessari nafngift en Maríuvellir (Maríuflöt) eru illi hrauns og hlíðar þarna skammt frá, þar sem bílastæði eru nú. Mörg dæmi eru um það að Maríuörnefni tengist kirkjum sem helgaðar voru guðsmóðurinni. Í Múlafjalli í Kjós er t.d. hellir sem nefnist Maríuhellir og á Reynivöllum er Maríukirkja. Í máldaga frá 1397 segir að kirkjan eigi: „… sauðahöfn í Múlafjalli og skjól í Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“

Maríuhellar

Maríuhellar.

Þetta þýðir að bóndinn í Múla átti að telja kindurnar við Maríuhelli eftir hvert hríðarveður, vafalaust til gæta þess að enga vantaði. Reynivallakirkja átti einnig sölvafjöru þar sem heitir Maríusker og rétt til kolagerðar á Maríuhjalla í Ingunnarstaðaskógi í Brynjudal. Þarna virðast ótvíræð tengsl kirkju og örnefnis. Vífilsstaðir voru lengi í eigu Garðakirkju en hún er helguð Pétri postula svo ekki er nafnið þaðan runnið. Garðakirkja eignaðist jörðina 1558 en þar áður hafði hún lengi tilheyrt Viðeyjarklaustri. Kirkjan og klaustrið í Viðey voru helguð Maríu mey og því er líklegast að nafn hellanna sé frá þeim tíma er þeir voru eign og hlunnindi klaustursins. Ekki er vitað hvenær Vífilsstaðir féllu undir Viðey en klaustrið þar var stofnað um 1225 og starfaði til siðaskipta.
Maríuhellanafnið gæti því verið frá 13. öld. Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás svo í augum sumra hellarannsóknamanna er hér um einn þrískiptan helli að ræða sem alls er 150–160 m langur ef mælt er eftir meginlínu.
Þarna er hægt að ganga ofan í allmikið niðurfall um 15 vel hlaðin hraunhelluþrep. Þar niðri eru tveir víðir hellismunnar hvor gegnt öðrum. Niðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots (Urriðavatns) og Vífilsstaða. Urriðakotshellir gengur suður frá niðurfallinu. Hann er víðastur yst en dregst saman og lækkar innar. Auðvelt er að komast 22 m inn en þá taka við þröng göng sem ekki verður skriðið í. Gat er á hellisþaki. Þarna átti Urriðakot fjárból. Vífilsstaðahellir gengur til norðvesturs frá niðurfallinu. Aðeins 22 m eru á milli hellanna. Hann er 22 m langur undir þaki, fallega hvelfdur og 3–4 m á hæð. Hann er mun rúmbetri en Urriðakotshellirinn þótt lengdin sé sú sama. Þröngur munni er þar við hellisendann sem frá niðurfallinu snýr og því hægt að ganga í gegnum hellinn. Talsvert tað var þar á gólfinu fram eftir 20. öld en það var að lokum allt stungið út og notað að Vífilsstöðum.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðafjárhellir.

Úti fyrir munnanum þrönga er annað niðurfall þar sem hellisþakið hefur hrunið. Það er grunnt en 22 m langt. Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellis. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr föllnu þakinu. Fyrst er farið 3,5 m niður en síðan má smeygja sér milli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hrunið, á 5–6 m dýpi í hrauninu. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli, en rúmgóð og hvelfd hellisgöng þar inn af. Hellirinn er í heild 65–70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Víð hvelfing með kúpulaga þaki gengur út frá honum til hægri. Allmikið hrun hefur orðið þar úr loftinu svo hrúgur af stórgrýti eru á gólfi. Annars staðar er lítið um hrun. Hellirinn gengur inn undir þjóðveginn upp í Heiðmörk þannig að vel heyrist í bílum sem aka yfir hann. Nafn hellisins er tilgreint í örnefnaskrá Guðlaugs R. Guðmundssonar, en engin saga fylgir því. Eitthvað er þó órökrétt við það að draugar haldi til í Maríuhellunum.

Jósefshellir (?) er 70 m austan við Maríuhella skammt frá göngustíg um hraunið. Þar er allmikið niðurfall en norður úr því gengur lágur hvelfdur hellir, 22 m á lengd en um 12 m víður yst. Mold er á gólfi og ljóst að þar hefur sauðfé haft afdrep þótt óvíst sé hvort um gamlan fjárhelli sé að ræða. Í hellabók sinni frá 19908 segir Björn Hróarsson að skammt frá Maríuhellum sé lítill hellir sem nefndur sé Jósefshellir og oftast talinn með Maríuhellum. Í hellabókinni frá 2009 nefnir Björn þennan helli, Vífilsstaðahelli en þar er Jósefshellir horfinn úr hellatali.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Örnefnaflækja.
Af ofanrituðu sést að óvissa er um nöfn hellanna. Hér er að mestu fylgt lýsingu Guðlaugs R. Guðmundssonar10 en einnig var farið á vettvang með Svani Pálssyni, sem er fæddur í Urriðakoti 1937 og þekkir öllum betur örnefni á þessum slóðum. Guðlaugi og Svani ber saman um nafngiftir hellanna þriggja en hvorugur þeirra kannast við Jósefshelli. Samkvæmt lýsingu Björns Hróarssonar frá 2009 og hnitum sem hann gefur upp, slær hann saman Vífilsstaða- og Urriðakotshellum og nefnir einu nafni Urriðakotshelli.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Um Draugahelli er hann sammála Svani og Guðlaugi en hellinn sem hann nefnir Jósefshelli í bók sinni og kallar hann Vífilsstaðahelli í stóru hellabókinni frá 2006, sem fyrr er greint. Enn annar skilningur kemur fram í örnefnaskrá Vífilsstaða frá 1991; þar er Vífilsstaðahellir nefndur Maríuhellir en Urriðakotshellir kallaður Jósefshellir. Þessari örnefnaskrá ber ekki saman við eldri skrár og virðist hér komið dæmi um nýlega örnefnaþróun því engar heimildir finnast um Jósefshelli fyrr en 1990.
Upphaflega virðist Maríuhellanafnið hafa átt við fjárhellana tvo sem kenndir eru við Vífilsstaði og Urriðakot. Seinna bætist Draugahellir í hópinn enda í raun hluti af sömu hellasamstæðu. Örnefnið er líklega ungt og sést ekki á prenti fyrr en undir lok 20. aldar. Að lokum kemur fjórði hellirinn til sögunnar, kenndur við Jósef, enda réttlætismál að eigna honum helli nálægt hellum eiginkonu sinnar.

Niðurstöður.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – Þorsteinshellir.

Helstu niðurstöður þessarar greinar eru þær að Búrfellshraun við Hafnarfjörð sé stærra en áður hefur verið talið og eru færð rök fyrir því. Hraunflóð virðist hafa fallið til Straumsvíkur en nú er sú hrauntunga að mestu hulin yngri hraunum. Rannsóknir benda þó til að Selhraun 1 sunnan Straumsvíkur sé hluti Búrfellshrauns. Saga Búrfellsgossins er rakin og henni skipt upp í fjóra þætti. Birt er nýtt kort af Maríuhellum og reynt er að greiða úr örnefnaflækju sem þeim tengist. Hér er um einn þrískiptan hraunrásarhelli að ræða og stakan helli, Jósefshelli, þar skammt frá. Nafnið Maríuhellar virðist hafa fest við þá þegar þeir voru eign Maríukirkjunnar og klaustursins í Viðey. Örnefnið er því gamalt og gæti verið frá 13. öld.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 3.-4. hefti (01.03.2009), Árni Hjartarsson, bls.  93-100.
https://timarit.is/page/6468192?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/búrfellsgjá

Maríhellar

Maríuhellar.

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.“ Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: „Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól„.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

Eldgos

Í Tímanum 1995 fjallar Ari Trausti Guðmundsson um „Eldgos á Reykjanesskaga“ í fjórum liðum. Hafa ber í huga að skrif Ara Trausta eru árfjórðungstug áður en raunin varð á eldgosinu í Geldingadölum Fagradalsfjalls árið 2021:

I.

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.

„Stundum kviknar umræða um jarðskjálfta og eldgos nálægt byggð og oftast fjarar hún jafn skjótt út. Um daginn vakti Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur upp slíka umræðu með því að minna á að skjálftar á stærðarbilinu 6-7 geta orðið á Reykjanesskaga og ennfremur að þar geta orðið eldgos skammt frá bæjum eða frá Reykjavík.

II.
Árin 1929, 1933 og 1968 urðu jarðskjálftar á Reykjanesskaga á bilinu 6,0-6,3 á Richterskvarða. Á 10., 12. og 13. öld gengu eldgosahrinur yfir á skaganum, síðast gaus þar á 14. öld. Hrinurnar urðu í þremur af fjórum eldstöðvakerfum skagans; allar röð fremur lítilla sprungugosa. Reyndar féll töluverð gjóska úr sumum þeirra, vegna þess að þau urðu í sjó undan Reykjanesi, og hraun náðu allvíða, vegna þess aö eldsprungur opnuðust í skástígum og löngum reinum. Það rann m.a. til sjávar milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og við Straumsvík. Núverandi byggð er sumsstaðar nærri eldstöðvum eða innan kerfanna, t.d. Grindavík, en annars staðar kynni hraun að ná inn í eða að byggð, t.d. í Hafnarfirði, Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjavík. Víða eru mannvirki í hættu, svo sem skíðamannvirki, vegir, stök hús, raflínur og vatnslagnir utan byggðanna.

III.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ragnar minnti réttilega á þessi atriði og það hafa aðrir jarðvísindamenn oft gert, þ.á m. höfundur pistilsins; og stundum fengið bágt fyrir. Enginn, hvorki sérfræðingarnir né almenningur, má sýna of mikla viðkvæmni í þessu efni; hún skemmir fyrir réttum viðbrögðum.

Grindavík

Þrjú eldgos ofan Grindavíkur á árunum 2023 0g 2024.

„Auðvitað er hættan ekki ekki mjög mikil, en hún er raunveruleg og eykst með hverjum áratug sem líður frá síðasta stóra skjálfta eða síðustu goshrinu (sbr. 500-600 árin). Svo ber að gæta að því að sprungugos, sem framleiða 100-300 milljónir rúmmetra af gosefnum, valda seint miklu tjóni (vegna stærðar skagans) nema ef sprungur opnast mjög nálægt byggð. Því er vart svo farið á þessum slóðum, nema ef vera skyldi næst Grindavík.
Gos af umræddri stærð á Bláfjallasvæðinu ylli væntanlega litlu sem engu tjóni í þéttbýli skagans; fyrst og fremst á mannvirkjum á 20-50 ferkílómetra svæði hið næsta gosstöðvunum, ef svo bæri undir.“
Skjálfti í Bláfjöllum nærri 7,0 að stærð gæti hins vegar valdið nokkru tjóni á mannvirkjum og lögnum á miklu stærra svæði.

IV.

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum 2021.

Ummæli Ragnars er í raun enn ein óbein beiðnin um að gerð verði vönduð úttekt á vá vegna eldgosa og jarðhræringa á öllum Reykjanesskaga. Samhliða þarf að útbúa upplýsingar um viðbrögð almennings og treysta þau viðbrögð og viðbúnað sem Almannavarnir hafa þegar undirbúið á landsvæðinu.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Skjálftahrinurnar á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu geta boðað meiri virkni, en þó ekki endilega. Gliðnun lands er samt óhjákvæmileg þar sem og innan hinna sprungukerfanna þriggja, og kvika er í nægu magni undir skaganum. Við megum ekki álykta annað og vera óviðbúin hristingi eða eldsumbrotum á hálendi skagans. Nú þarf að setja saman lag- og samhentan starfshóp.“

Faxi

Faxi – forsíða 2020.

Í Faxa 2020 skrifar Dagný Maggýjar um að „Reykjanesið skelfur – Lifandi tilraunastöð jarðfræðinnar„:
„Reykjanesið minnti hressilega á sig á liðnu ári með töluverðum jarðhræringum svo mönnum þótti nóg um. Það má því segja að Reykjanesið sé lifandi tilraunastofa jarðfræðinnar enda skaginn einstakur á heimsvísu og viðurkenndur UNESCO Global Geopark.

Sérstaða Reykjaness felst í flekaskilunum á Mið-Atlantshafshryggnum sem ganga í gegnum Reykjanesskagann endilangan. Á flekaskilunum eiga sér stað bæði jarðskjálftar og eldgos sem er afleiðing kvikuhreyfinga þegar Norður-Ameríku- og Evrasíuflekinn færast í sundur, að jafnaði um tvo sentimetra á ári. Það eru þessir flekar sem eru grunnurinn að vinsælum áfangastað ferðamanna á Reykjanesi er kallast Brú milli heimsálfa en þar er hægt að ganga á milli Ameríku og Evrópu, svona hugmyndafræðilega séð.

Reykjanes

Reykjanes – flekaskilin!? Stóra-Sandvík fjær.

Sýnileiki flekaskilanna gerir Reykjanes einstakt á heimsvísu og varð það til þess að það hlaut inngöngu í alþjóðlegt netjarðvanga, Global Geoparks Network og European Geoparks Network en samtökin eru studd af UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization). Reykjanes Geopark er annar jarðvanga á Íslandi og er hann samstarfsvettvangur sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins til verðmætasköpunar.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Í janúar hófst skjálftahrina á Reykjanesi sem ekki sér fyrir endann á og gefur til kynna mikla spennulosun á Reykjaneshryggnum. Hún er sú öflugasta sem mælst hefur á Reykjanesi frá því að stafrænar mælingar hófust árið 1991 og hefur hún mælst frá Eldey og að Krýsuvík. Velta menn því fyrir sér hvort kominn sé tími á eldgos á Reykjanesi en sagan virðist styðja það. Stóra spurningin er hins vegar hvenær?

Land fer að rísa

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – misgengi.

Upptökin voru við bæjarfjall Grindvíkinga, Þorbjörn, um 2 km austur af Svartsengisvirkjun en þar mældust margir skjálftar yfir þrá að stærð og land fór að rísa sem þótti gefa tilefni til þess að fylgjast sérstaklega náið með framvindu á svæðinu.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Vegna nálægðar við Grindavík, Svartsengi og Bláa lónið olli það þó nokkrum áhyggjum og var boðað til borgarafundar vegna málsins og óvissustig almannavarna virkjað. Íbúar í Grindavík voru að vonum nokkuð skelkaðir en ef til eldgoss kæmi gæti þurft að flytja allt að fimm þúsund manns á brott, það er íbúa Grindavíkur og starfsmenn Svartsengisvirkjunar og Bláa lónsins, að ógleymdum ferðamönnum á svæðinu. Það lýsti vel ástandinu að margir íbúar voru með ferðatösku í skottinu sem dugði fjölskyldunni nokkra daga fjarri heimilinu ef til eldgoss kæmi og fólk þyrfti að flýja í skyndi. Landrisið mældist á flekaskilum og innan eldstöðvakerfis Svartsengis sem er ýmist talið sjálfstætt eldstöðvakerfi eða talið vera hluti stærra kerfis sem kennt er við Reykjanes. Að mati sérfræðinga gat það mögulega stafað af kvikuinnskoti sem svo framkallaði umtalsverða jarðskjálftavirkni á svæðinu norðan við Grindavík.

Orkuöryggi Suðurnesja í uppnámi

Svartsengi

Svartsengi.

Ljóst varð að tryggja þurfti orkuöryggi Suðurnesja ef Svartsengisvirkjun yrði óstarfhæf um lengri eða skemmri tíma og reisa þyrfti viðeigandi mannvirki til að verja byggðina í Grindavík fyrir hraunstraumi. Var mælst til þess að grípa ætti til slíkra ráðstafana fyrr en síðar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn vestanvert.

Spennulosunin á Reykjanesi færði sig úr stað um sumarið en þann 19. júlí reið stór skjálfti yfir að stærðinni 5 og voru upptök hans sex kílómetra vestan við Kleifarvatn. Í kjölfar hans fylgdu mörg hundruð eftirskjálftar, þar af að minnsta kosti tveir yfir 4 stig en upptök þeirra voru vestar á Reykjanesi. Ekki urðu slys á fólki og eignatjón var smávægilegt.
Suðurnesjamenn eru vanir jarðskjálftum á Reykjanesi enda eru þeir alltíðir og má rekja það til þess að jarðfræði skagans er sérstök að mörgu leyti. Þar eru engar hefðbundnar megineldstöðvar heldur liggur brotabelti eftir skaganum endilöngum með mikilli skjálftavirkni sem markar skil milli jarðskorpuflekanna. Sú skjálftavirkni kemur í hrinum með nokkurra áratuga millibili en sumstaðar, eins og nærri Krýsuvík og á Reykjanesi, er jarðskjálftavirkni nánast viðvarandi.

Er Reykjanesið komið á tíma?

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

Þótt að tímabil jarðskjálfta hafi áður gengið yfir Reykjanes hafa eldstöðvarnar látið lítið á sér kræla undanfarnar aldir, en hugsanlega er að verða breyting þar á.
Rannsóknir benda til þess að á síðustu árþúsundum hafi skipst á eldgosaskeið sem standa með hléum í fáeinar aldir en síðan komi um 700–800 ára hlé. Síðustu eldgos á Reykjanesskaga urðu fyrir um 800 árum og má því ætla að Reykjanesið sé komið á tíma. Talið er að eldgosaskeiðin hefjist austarlega á skaganum og færist síðar til vesturs og miðað við gossöguna síðustu árþúsundin mætti því álykta að líkur færu vaxandi á upphafi nýs eldgosaskeiðs á næstu áratugum eða öld. Slíkar ályktanir byggja þó ekki á langri reynslu og telja sérfræðingar varhugavert að taka of mikið mark á þeim þótt þær gefi vísbendingar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Á Reykjanesskaga eru nokkur eldstöðvakerfi sem raðast eftir skaganum endilöngum. Vestast er Reykjaneskerfið, þá Svartsengi, síðan Fagradalsfjall, þá Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og yfir skaganum gnæfir svo Hengillinn sem er stórt og öflugt eldfjall. Eldgos á Reykjanesskaga geta orðið á sprungusveimumsem teygja sig frá suðvestri til norðausturs og þar getur gosið hvar sem er. Yngstu hraunin hafa runnið á sögulegum tíma, eftir landnám, og sum þeirra ná niður í byggð, til dæmis í Grindavík og Vallahverfi í Hafnarfirði.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stóri skjálftinn í júlí þótti boða tíðindi um fleiri stóra skjálfta í framhaldi. Sú spá rættist þann 20. október þegar einn stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi reið yfir en hann var 5 stig að stærð og fannst víða. Að þessu sinni voru upptök hans austan við Kleifarvatn sem þótti boða tíðindi því þar segir skjálftasagan okkur að skjálftar geti orðið öflugri en þeir sem eru vestan við Kleifarvatn.
Þar hafa stórir skjálftar átt upptök sín eins og skjálftinn í Brennisteinsfjöllum árið 1968 sem var af stærðinni 6 og enn stærri skjálfti reið yfir 1929 sem var 6,5 að stærð og olli þó nokkrum skemmdum í höfuðborginni.

Reykjanesskagi

Kleifarvatn.

Ekkert orsakasamband virðist vera á milli jarðskjálftanna stóru í júlí og október og goshættu í fjallinu Þorbirni við Grindavík að mati sérfræðinga. Þykja harðir jarðskjálftar í nágrenni Krýsuvíkur engin sérstök vísbending um yfirvofandi eldgos heldur eru þeir taldir vera hluti af sífelldri og langvarandi virkni á svæðinu. Slíkir skjálftar koma á nokkurra áratuga fresti og tengjast hreyfingum jarðskorpuflekanna.

Illahraun

Gígur í Illahrauni ofan Svartsengis.

Síðast gaus á Reykjanesi á 13. öld en þá urðu nokkur eldgos með hléum á tímabilinu 1210-1240 og voru kölluð Reykjaneseldar. Hins vegar eru litlar líkur taldar á sprengigosi á Reykjanesi þótt þau séu algengust á Íslandi en þó er Krýsuvík undanskilin en þar er jarðskorpan þynnri en víðast annars staðar á landinu.

Þorvaldur Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Mikilvægt að meta hættuna sem getur fylgt gosi. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, hefur sagt að eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga en hann hefur rannsakað náttúruvá á svæðinu undanfarin ár ásamt samstarfsfólki sínu í Háskóla Íslands. Þorvaldur segir mikilvægt að meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi svo hægt sé að bregðast við því viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.

Mosahraun

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Í því skyni hefur eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands unnið að reiknilíkani fyrir jarðvá á Reykjanesi. Þar eru jarðfræðileg gögn notuð til að vinna áhættumat fyrir ákveðin svæði og reynt að meta hvar á svæðinu sé líklegast að gjósi.

Eldgos

Svartsengi austanvert.

Þannig er hægt að vinna áætlun um viðbrögð fari að gjósa og eins er hægt að hafa upplýsingarnar til hliðsjónar þegar unnið er skipulagt fyrir byggð í kring. Unnin hafa verið hermilíkön sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraunið muni flæða, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að gera viðbragðsáætlun í samræmi við upplýsingarnar. Flugsamgöngur niðri og mengað drykkjarvatn En hvernig skyldum við vera undirbúin undir eldgos ef af verður? Hraunflæði, öskufall og brennisteinsmengun gæti valdið skaða og óþægindum og þá myndu flugsamgöngur að öllum líkindum liggja niðri enda eru stærstu flugvellir landsins, Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöllur innan áhættusvæðisins. Þá getur eldgos haft áhrif á grunnvatnsgeyma og mengað drykkjarvatn.

Grindavík

Eldgos ofan Grindavíkur 8. febrúar 2024.

Eldgos á Reykjanesi er því efni í æsispennandi hamfaramynd, með Bruce Willis í aðalhlutverki.
En hvað það verður, veit nú enginn eins og segir í kvæðinu og engin leið að spá fyrir um eldgos. Að mati sérfræðinga má vera að styttist í næstu goslotu en aðdragandinn gæti þess vegna verið tugir eða hundruð ára, sem er kannski ekki langur tími í jarðfræðiárum.
En það er óhætt að segja að Reykjanesið hafi minnt allverulega á sig á liðnu ári og haldið okkur á tánum, eins og vera ber. Ég vona bara að það haldi í sér áður en Faxi kemur út svo þessi grein verði ekki hjákátleg.“ – Dagný Maggýjar.

Heimildir v/grein Dagnýjar:
-Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga – jardvis.hi.is – Páll Einarsson, prófessor í jarðfræði.
-RÚV 20.10.2020, Enn líkur á jarðskjálfta allt að 6,5 að stærð.
-RÚV 27.1.2020. Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.
-Vefur Háskóla Íslands. Kortleggur jarðvá á Reykjanesi.
-Viljinn 27. Janúar 2020. Reykjanesið er eldbrunnið frá fjöru til fjalla. Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur.
-RÚV 21.10.2020. Meiri virkni eftir því sem austar dregur. Þorvaldur þorvaldsson eldfjallafræðingur.
-Vísir 5. október 2018. Reykjanesið komið á tíma og búast má við eldgosi hvenær sem er. Magnús Tumi Guðmundsson.
-DV 27.1.2020. Eldgos ekki það líklegasta í stöðunni.
-DV 20.10.2020. Magnús Tumi róar þjóðina – það er ekki að fara að gjósa.
-Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga. Samantekt frá Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi ÍSOR, birt árið 2010, teikningar uppfærðar í janúar 2020.

Heimildir um framangreindar greinar:
-Tíminn, 124. tbl. 07.07.1995, Eldgos á Reykjanesskaga, Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfærðingur, bls. 6.
-Faxi, 1. tbl. 2020. Reykjanesið skelfur – Lifandi tilraunastöð jarðfræðinnar, Dagný Maggýjar, bls. 30-33.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Reykjanes

Stefán Einarsson krifaði um „Áttatáknanir í íslensku nú á dögum“ í Skírni árið 1952:

Reykjanesskagi - gömlu þóðleiðirnar

Reykjanesskagi – gömlu þjóðleiðirnar; ÓSÁ.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Bjarni Sæmundsson hefur af venjulegri nákvæmni lýst áttunum í sinni sveit, „Suðurkjálkanum“, í Árbók F.l. 1936, 22—53, og skal eg tilfæra það, sem hann segir um þetta.
„Eina leiðin af Inn-nesjum og úr Hafnarfirði til þeirra byggða Suðurkjálkans, sem liggja að Faxaflóa, er, ásamt byggðunum sjálfum, í daglegu tali nefnd „suður með sjó“ (t. d. fer maður suður með sjó, til þess að finna mann, sem býr einhvers staðar „Suður með sjó“), en um hinar byggðirnar er sagt „suður í“. Hinsvegar fara menn úr öllum sveitum kjálkans (að Krýsuvík meðtaldri) „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík og til Inn-nesja yfirleitt, og margt er þarnaa suður um skagann, eins og víðar, skrítið í stefnutáknun manna, þegar farið er í aðrar sveitir, og erfitt fyrir ókunnuga að átta sig á því….“ (bls. 27).

„Úr Grindavík liggja gamlir vegir „út“ eða „suður“ í Hafnir, „suður“ eða „niður“ í Njarðvíkur (Skipstíg), „suður“ eða „út“ í Leiru og Garð og „út“ á Nes, „niður“ eða „inn“ í Voga (Skógfellavegur), „inn“ á Vatnsleysuströnd o. s. frv., en úr öllum þessum byggðum er farið „upp“ í Grindavík. Úr „Víkinni“ er farið „inn“ í eða „upp“ í Fjall, Móhálsa, og „upp“ að Krýsuvík og austur í Herdísarvík, Selvog („Vog“) o. s. frv. Eru þessar áttatáknanir æði torskildar fyrir ókunnuga, sumar hverjar, eins og t. d. suður í Njarðvikur, sem er nærri í norður úr Grindavík. En það er viða margt skrítið í þessu tilliti“ (bls. 42).

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Þótt áttatáknanir þessar séu ærið torskildar fyrir „ókunnuga“, þá skýrist málið fljótt, ef litið er á kort af Reykjanesi.

Tvennt verða menn líka að hafa í huga, það fyrst, að á veginum milli Garðs og Hafnarfjarðar eftir norðurströnd Reykjaness eru andstæðurnar suður:inn, og það annað, að milli norður- og suðurstrandar Reykjaness eru andstæðurnar niður:upp (= N:S). Grindvíkingurinn gengur þannig fyrst niður, þar til hann kemur á veginn, sem liggur suður og inn með norðurströndinni. Þurfi hann þá að ganga suður til þess að komast í áfangastað, er kallað, að þeir staðir liggi suður frá Grindavík. Þurfi hann aftur á móti að ganga inn með ströndinni, liggja þeir staðir allir inn frá Grindavík.“

Heimild:
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1952), Stefán Einarsson, Áttatáknanir í íslensku nú á dögum, bls. 11-12.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni og áttarhugtök.

Reykjavíkurvegir

FERLIR hefur löngum hugað að fornum þjóðleiðum. Þegar fulltrúi félagsskaparins stundaði nám við Háskóla Íslands í fornleifarfræði, menningarmiðlun, félagsfræði og öðrum greinum, fékk hann fjölmörg verkefni til úrvinnslu.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Hann ákvað þegar að búa þau, jafnframt að skila þeim skv. kröfum kennara, að búa þau undir birtingu til almennra nota, í stað þess að þeim væri stungið niður í skúffur, engum til gagns.
Þannig hafa allmörg verkefni námsins skilað sér til opinberunnar, bæði til almennings sem og annarra nemenda með áhuga á sama efni.

Hér má sjá a.m.k. tvö verkefni af fjölmörgum er annars hefðu hafnað í nefndum skúffum: https://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Grindavikurvegir_saga_og_minjar/$file/Grindav%C3%ADkurvegir%20saga%20og%20minjar.pdf og https://www.vegagerdin.is/Vefur2.nsf/Files/Reykjavikurvegir_fra_upphafi_til_nutima/$file/Reykjavikurvegir%20fr%C3%A1%20upphafi%20til%20n%C3%BAt%C3%ADma%20.pdf
Mikilvægt er að koma vel undirbúnum og tímafrekum verkefnum háskólanema til skila, enda eiga þau flest hver erindi til almennings…

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir fyrrum.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalurinn er eitt stærsta græna svæðið innan þéttbýliskjarna Reykjavíkur. Hann er jafnframt eitt vinsælasta svæðið til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar af ýmsu tagi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur

Dalurinn einkennist af fjölbreyttu umhverfi, landslagi og gróðurfari en þungamiðjan eru Elliðaárnar sem dalurinn er kenndur við.

Í skýrslu, „Sjálfbær Elliðaárdalur – Stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016„, segir m.a. um Elliðaárdalinn:

Landafræði

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Elliðaárdalur er með stærri útivistarsvæðum í borginni. Dalurinn dregur nafn sitt af Elliðaánum sem falla um 6 km leið frá upptökum í Elliðavatni að ósum í Elliðaárvogi og eru helsta kennileyti svæðisins. Elliðaárdalur markast nokkurn veginn við undirlendið kringum farveg Elliðaánna og neðstu hluta hallans í holtunum í kringum, Ártúnsholt og Breiðholt. Dalurinn er sjaldan meira en 1,5 km að breidd. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi frá 1994 markast svæðið af landamörkum Reykjavíkur og Kópavogs við Elliðastíflu en að öðru leyti að miklu leyti af stórum umferðaræðum og aðliggjandi byggð.
Í greinargerð með deiliskipulaginu frá 1994 er Elliðaársvæðinu skipt í sex landslagsheildir – þar af eru fjögur svæði sem klárlega falla innan Elliðaárdals. Það eru Ártúnssvæðið fyrir neðan Höfðabakkabrúna (sem skiptist frekar í fjögur skipulagssvæði – Rafstöðvarsvæðið, Árbæjarsafn, Löngugrófarsvæðið norðan Stekkjarbakka og Árhólmasvæðið), Árbæjarsvæðið milli Höfðabakkabrúar og Vatnsveitubrúar, Víðivellir og Víðidalur austan Elliðaánna syðst í dalnum og Grænagróf vestan Elliðaánna til móts við Víðidalinn (Elliðaárdalur: Skipulag og greinargerð, 1994). Töluverð hæðaraukning verður þegar ferðast er um dalinn milli enda eða um 105 m hækkun frá Elliðavogi til Breiðholtshvarfs. Mótar það mjög landslagið en einnig veðurfar og lífríki.

Jarðfræði
ElliðaárdalurJarðfræði Elliðaárdals er margbreytileg. Í dalnum og næsta nágrenni má finna jarðlög sem spanna seinni hluta ísaldar og hlýskeið nútíma. Um tveggja milljón ára gamalt berg finnst í Ártúnshöfða en hið yngra Reykjavíkurgrágrýti er áberandi eins og annars staðar í borgarlandinu og má finna jökulrákaðar klappir, einkum í nágrenni Árbæjar. Menjar hárrar sjávarstöðu við ísaldarlok má finna í dalnum, einkum í stórum malarhjöllum í vesturhluta dalsins þar sem eru leirsteinslög með skeljum, einnig malarlög sem gefa til kynna árframburð. Stórmerkileg sjávarsetlög finnast við Háubakka í Elliðavog í næsta nágrenni dalsins og þar hafa fundist sjávarsteingervingar (Árni Hjartarson o.fl., 1998).
ElliðaárdalurYngri jarðmyndanir setja mikinn svip á dalinn, sér í lagi hið 5200 ára gamla Leita- eða Elliðavogshraun sem þekur dalbotninn og nær það eftir dalnum endilöngum. Hraunið rann úr gígnum Leiti austan Bláfjalla og mynduðust Rauðhólar í þeim eldsumbrotum. Ýmsar fallegar hraunmyndanir einkenna Leitahraunið og eru hvað mest áberandi í og við árfarveg Elliðaánna t.d. við Kerlingarflúðir neðan Árbæjarstíflu. Mólög hafa fundist undir Leitahrauninu í Árhólmanum. Jarðhiti er í Elliðaárdal, einkum í Löngugróf norðan Neðra-Breiðholts. Þar hefur heitt vatn verið dælt upp úr borholum (Árni Hjartarson o.fl., 1998).
Í Elliðaánum eru nokkrir fallegir fossar t.d. Selfoss neðan Höfðabakkabrúarinnar, Skáfossar og Ullarfoss í eystri kvíslinni og Kermóafoss, Arnarfoss og Skötufoss í þeirri vestari . Við síðastnefnda fossinn má finna skemmtilega skessukatla (Elliðaárdalur: Skipulag og greinargerð, 1994).

Gróðurfar og dýralíf
Gróðurfar í Elliðaárdal er mjög fjölbreytt en ber sterk merki umsvifa mannsins, einkum landbúnaðar og skógræktar en einnig áhrifa stíflunnar og nálægðar við íbúabyggð. Tegundafjölbreytni er mikil og áberandi að þar finnast bæði innlendar tegundir og aðfluttar, bæði gróðursettar plöntur og sjálfssánir slæðingar.

Elliðaárdalur

Helstu gróðurlendi í dalnum eru mýrar, mólendi, vallendi, blómlendi og skóglendi. Mýrar eru ekki víðfeðmar, einkum í Hvarfsmýri og í blettum meðfram Elliðaám. Mólendi með lyngi og víði er áberandi einkum ofarlega í dalnum en hefur þó dregist saman vegna aukins trjávaxtar. Ræktaðir trjálundir eru mjög áberandi og tré víða orðin stór og skógur þéttur. Mest hefur verið plantað af birki, reyni, öspum og barrtrjám, einkum greni. Elstu gróðursettu trén eru neðan stíflu í Árhólmanum og í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsbrekku, en það eru stór sitkagreni sem eru rúmlega 80 ára gömul (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Blandaður skógur er einnig orðinn umfangsmikill í Breiðholtshvarfi og Grænugróf. Sjálfsáið birki og víðitegundir eru áberandi víða í dalnum t.d. ofan stíflu Árbæjarmegin.

Elliðaárdalur

Vel hefur verið fylgst með fjölbreytni og tegundasamsetningu flórunnar í Elliðaárdal. Í flórulista frá 2004 fundust 320 plöntutegundir villtar í dalnum og var um helmingur þeirra slæðingar úr nálægum görðum eða gróðursettar plöntur (Jóhann Pálsson, 2004).
Dýralíf í dalnum er umtalsvert en hefur mótast gegnum tíðina af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í dalnum t.d. með skógrækt, stíflun Elliðaánna, uppfyllingum í Elliðavogi, aukinni byggð o.s.frv. Bæði árnar og skógurinn laða að sér fugla en fuglalíf er mikið í Elliðaárdalnum. Um 30 tegundir fugla eru reglulegir varpfuglar á svæðinu. Þar má nefna álft, grágæs og ýmsar andategundir, vaðfugla eins og hrossagauk, jaðrakan, lóuþræl og stelk. Mikilvægustu varpsvæðin fyrir vatna- og votlendisfugla við lónið ofan Árbæjarstíflu, í Blásteinshólma og almennt meðfram ánum í dalnum.
ElliðaárdalurVaðfuglar eins og heiðlóa og spói hafa verpt í mólendi en þeim hefur fækkað (Kristbjörn Egilsson o.fl. 1999). Spörfuglum í skóg- og kjarrlendi fer nokkuð fjölgandi með auknum þéttleika gróðurs og nýjar varptegundir bæst við á undanförnum árum eins og svartþröstur, glókollur og krossnefur. Minkur finnst reglulega í dalnum og veldur fuglalífi skráveifu, einkum vatnafuglum. Þá er mikið um hálfvilltar kanínur í dalnum neðan stíflu, sérstaklega á sumrin.
Mikilvægasta vistkerfið í Elliðaárdalnum eru tvímælalaust Elliðaárnar en vatnasvið þeirra eru með stærri og mikilvægari ferskvatnssvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar er auðugt lífríki. Í Elliðaánum sjálfum er lax ríkjandi meðal fiska og er gnógt af honum enda eru árnar framleiðsluríkar vegna reks lífrænna efna úr Elliðavatni. Uppeldisstöðva laxaseiða eru í ánum og ganga þau til sjávar eftir 2-3 ár. Unglaxinn heldur sig í sjónum í 1-3 ár og snýr svo aftur upp í árnar þegar hann er orðinn kynþroska. Fyrstu göngurnar koma í maí og svo út sumarið (Árni Hjartarson, 1998).
ElliðaárdalurTeljari í ánum fylgist vel með fjölda göngulaxa sem og gönguseiða og rannsóknir á stofnstærð og ástandi laxa eru í stöðugum gangi. Smádýrafána Elliðaánna er uppistaða fæðu fyrir laxinn, og hefur hún verið rannsökuð vandlega. Þar eru rykmýs- og bitmýslirfur mikilvægastar og eru ríkjandi meðal botndýralífs í ánum (Finnur Ingimarsson o.fl., 2015). Elliðaár eru viðkvæmar fyrir mengun og hefur því sérstaklega verið gripið til ráðstafana við að koma í veg fyrir að mengað vatn berist í árnar með ofanvatni m.a. með því að útbúa settjarnir en þrjár slíkar eru í dalnum ofanverðum. Einnig fylgist Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vandlega með mögulegri skólpmengun og brugðist er við ef upp koma tilfelli t.d. á röngum tengingum.

Saga og minjar – Búskapur og landbúnaður
ElliðaárdalurElliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum. Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar.

Artún

Ártún.

Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju. Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Letursteinn

Letursteinn í Elliðaárdal.

Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.

Raforkuframleiðsla

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti.

Ljósafosslína

Rafstöðin við Elliðaár var reist 1921. Hún var undanfari Ljósafossvirkjunar.

Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík. Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Skógrækt
Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Malarnám
Malarnám var stundað á nokkrum stöðum í dalnum og sjást þess vel merki enda olli það umtalsverðu jarðraski. Nokkuð stórar námur voru austan við Blesugróf og í Ártúnsholti. Einnig var numið grjót ofarlega í Víðidalnum þar sem Reiðhöllin stendur nú.

Heimild:
-https://reykjavik.is/frettir/sjalfbaer-ellidaardalur-utivistarsvaedi-i-hjarta-reykjavikur

Elliðaárdalur

Kermóafoss.

Ásfjall

Eftirfarandi skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Verndun fornminja – Ásvarða“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948 um Ásvörðu ofan Hafnarfjarðar segir:

Ásvarða

Ásvarða – Hafnarfjörður.

„Skammt suður frá Hafnarfirði er hæð nokkur eða fell, sem Ásfjall heitir. Fjall þetta má að vísu telja til hinna smærri fjalla, þó tekur það yfir nærliggjandi holt og hæðir þar í grend. Þótt fjall þetta láti lítið yfir sjer, hefur það þó nokkra þýðingu, og var oftar umtalað en allar aðrar hæðir um þessar slóðir.

Asfjall

Ásfjall.

Börn og fullorðnir töluðu um Ásfjall sem mesta berjaland í grennd Hafnarfjarðar, á sumrum, en sjómenn kringum sunnan verðan Faxaflóa, sem mið meira og minna allt árið. Á norður hæð f jallsins var ævaforn grjótvarða. Fram undir síðustu aldamót var hún ekki hærri en 4—5 álnir. Árið 1897 eða ’98 sjer heimafólk að Ási, sem stendur undir fjallinu, hvar maður er kominn að vörðunni, og hefst þar nokkuð að, með fyrirgangi miklum. Móðir mín, sem þá var orðin ekkja, en bjó enn að Ási, vildi vita hvað hinn aðkomni maður hygðist fyrir. Móðir mín, sem vissi hvaða þýðingu varðan hafði á þessum Stað, vildi koma í veg fyrir að hún yrði rifin niður, eða færð úr stað, ef það væri meining þessa aðkomumanns.
Saga Ásvörðu, eins og umrædd varða var allt af kölluð, er aldagömul saga, sennileg jafngömul sögu áraskipanna við Faxaflóa, eftir að skipin stækkuðu svo að mönnum óx svo fískur um hrygg, að þeir gátu gert skip sín svo úr vör, að viðlit var að fara á þeim til hinna djúpu fiskimiða. Þegar nú annað tveggja fisk þraut á grunnmiðum, eða hann kom ekki á þau þetta eða hitt árið og sjómenn fóru að leita út á djúpið, hafa þeir komist fljótt að því, að ekki var sama hvar eftir fiski var leitað. —
Þegar svo kom þar sem nægur fiskur var undir, var áríðandi að tína ekki þeim bletti aftur. Fóru menn þá að miða staðinn, og var það gert með því að horfa til lans taka einskonar lengdar- og breiddar-mæling, gert að eins með athugulum augum, því að annað sem til má nota var þá ekki fyrir hendi. Voru þá venjuleg fjöll og önnur kennileiti á landi notuð sem mið. Allt af urðu miðin að vera fjögur, tvö og tvö, sem báru saman í hvorri átt, samsvarandi lengdar og breiddar línunni.
Ásvarða
Venjulega voru há fjöll eða hlutar þeirra, sem hátt báru, höfð að yfirmiði, en aftur önnur, sem oft voru nær sjó og lægra, lágu, að undirmiði. Kölluðu svo menn þessa staði, sem þannig var búið að miða sig niður á, á sjónum, mið eða slóðir. Þannig varð Ásvörðuslóð til, mjög fisksælt mið á Suður-Sviði f Faxaflóa. Var Ásvarða undirmið en Valahnjúkur venjulega yfirmið. Á þetta fisksæla mið hafa margar kynslóðir sótt, og fært þaðan þjóðarbúinu mikla björg. Þessi góðu, gömlu fiskimið urðu því vinsæl, og umræður um þau oft fljettaðar inn í samtöl fólks þess er við sjóinn bjó. Nú mun tími gömlu fiskimiðanna að mestu liðinn, því ekki mun standa eins glöggt nú, hvar línu eða botnvörpu sje í sjóinn kastað frá borði, samanborið við það, þegar að eins um handfæri var að ræða á opnum skipum.

Ásvarða

Ásvarða.

Vík jeg nú aftur að manni þeim, sem kominn var að Ásvörðu 1897 eða ’98. Móður mín bað vinnumann fara og vita hvað hann \æri þar að aðhafast, og fór jeg með sem forvitinn krakki. Þegar að vörðunni kom, er þar fyrir stór og þrekinn maður, gengur hann móti okkur með miklu málæði og handapati, skildist okkur strax að hjer var kominn danskur maður.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Mikið vildi maðurinn við okkur tala, en heldur gekk það samtal báglega, því hvorttveggja var, að við vorum ekki sterkir í dönskunni og jeg held hann þó enn linari í íslenskunni. Þó skildist manninum, sem með mjer var, að sá danski meinti að stækka þyrfti vörðuna, og helst vegna innsiglingar til Hafnarfjarðar. Meðan mennirnir voru að berjast við að gera sig skiljanlega hvor fyrir öðrum og bar þar stórum meira á orðaforða þess danska, fór jeg að forvitnast um húfu og jakka, eða flík þá sem var þeim danska í jakka stað. Þar eð heitt var í veðri hafði hann úr þeirri flík farið og lagt á stein allnærri, sá jeg þá að á húfunni stóð með gylltum bókstöfum „Heimdal“. Við hjeldum nú heim við svo búið og sá danski litlu seinna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Nokkrum dögum síðar kemur stór hópur manna enn að vörðunni og voru þar komnir all-margir skipverja, bæði yfir- og undirmenn af danska eftirlitsskipinu Heimdalli, sem á þeim árum

var nokkuð hjer við land og var þá oft tíður gestur á Hafnarfírði. Menn þessir taka til og bera grjót að hinni gömlu vörðu og er hún á skömmum tíma orðin bæði há og gild. — Þessar tiltektir ljetu menn sjer vel líka, varðan sást bara betur utan af Sviði eftir en áður. Svo líða yfir fjörutíu ár, sem þessi varða stendur, öllum að meinlausu, en mörgum til gagns. — Varðan hefur máske lokið sínu dagsverki, sem ekki skipti dögum eða árum, heldur öldum. Þó er ekki lokið fyrir það skotið, að sjómenn leiti enn fisks á Ásvörðuslóð — en varðan gamla er horfin. Hún var afmáð sem kennileiti á fyrsta eða öðru hernámsári hjer, en þar sem hún var áður, er nú byrgisrúst, engum til gagns eða leiðbeiningar, en brún fjallsins til óprýði. —

Ásfjall

Á Ásfjalli.

Varðan var afmáð sem leiðarvísir, af útlendum höndum, sennilega í allt öðrum tilgangi, en þegar aðrar útlendar hendur stækkuðu hana — eða þá í algjöru tilgangsleysi. Heyrt hefi jeg það, að eldri sjómenn sakni vörðunnar, og telji sig einum fornvin fátækari við hvarf hennar, og þar hafi fallið, eða verið fellt gamalt minnismerki um oft harða cg frækilega baráttu þeirra manna, sem sóttu sjó á opnum áraskipum langt á haf út. Nú spyr jeg: Eru til lög, sem ætlað er að vernda þetta, eða önnur slík fornvirki og ef svo er, hverjum ber að sjá um framkvæmd þeirra laga?

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Kringum árið 1930 skrifaði þáverandi vitamálastjóri, Th. Krabbe, Guðmundi Jónssyni, bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík og bað hann sjá um endurbyggingu á vörðu á Æsubúðum á Geitahlíð, gegn fullu gjaldi. Varða þessi var farin að falla af, bæði fyrir tímans tönn og jarðskjálftar flýtt þar fyrir. Þarna var ekki að ræða um innsiglingar- eða sundmerki — en við hana var oft miðað af sjó, sem gott fiskimið. Krabbe taldi að hún mætti þess vegna ekki falla í rúst. Á Ásvarða ekki sama rjett?

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 13.06.1948, Verndun fornminja, Ásvarða, Ólafur Þorvaldsson, bls. 296-297.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur.

Ef svo er, vona jeg að vitamálastjóri sjái sjer fært að fá mann eða menn til að reisa Ásvörðu úr“ rúst, og um leið afmá tóft þá eða rúst, sem nú umlykur sæti hennar; hið forna, enda mundi grjót það sem í rústinni er, að mestu ganga upp í vörðuna.

Ásfjall

Ásfjall.

Gömlu fiskimiðin kringum landið eru að týnast, verði ekki bráðlega undið að því að bjarga því sem enn er hægt að bjarga, og virðist mjer að endurbygging Ásvörðu væri liður í þeirri viðleitni, og sjálfsögðu skyldu að reyna að vernda frá glötun nöfn á þessum fornu kennileitum, og þau sjálf þar sem þau eru á þeim stað, sem hægt er að koma því við, og þar með lengt lífið í fornum fiskimiðum, svo sem hjer um ræðir: Ásvörðuslóð.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Einhverjum finnst ef til vill, að hjer  hafi of mörgum orðum verið farið um gamla grjótvörðu. Jeg mundi ekki hafa tekið þetta efni til meðferðar, ef jeg teldi ekki að hér stæði sjérstaklega á, t.d. vörðu sem einhver hefði hrófað upp einhvers staðar í algjöru meiningarleysi. En Ásvörðu eða öðrum fornum merkjum hvar sem eru, sem minna á atvinnuhætti horfinna kynslóða, sem við eigum flest að þakka, höfum við ekki efni á að glata.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 21. tölublað (13.06.1948) – Verndun fornminja – ÁSVARÐA -eftir  Ólaf Þorvaldsson, bls. 297-298.

Ásfjall

Varðan á Ásfjalli.

Grindavíkurvegur

Hrauntunga úr sprungurein eldgoss ofan Sundhnúks er hófst að morgni dags 8. febrúar 2024 tók að renna til vesturs sunnan Stóra-Skógfells í átt að gatnamótum Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar að Bláa lóninu og Svartsengisvirkjun.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir við Norðurljósaveg.

Hraði þunnfljótandi rennslisins var um 500-1000 m á klst. Um kl. 10.30 náði það að gatnamótunum, rann yfir Grindavíkurveg og til vesturs eftir Norðurljósavegi þar sem hægði á því í rýmilegri hraunkvos sem þar er á milli Illahrauns og Arnarseturshrauns.
Við gatnamótin var eitt af skjólum vegavinnumanna er lögðu fyrsta vagnveginn frá Stapanum (Suðurnesjavegi) til Grindavíkur á árunum 1914-1918. Skammt sunnan við gatnamótin voru tvö önnur byrgi, sem nú er komin undir hraun. Uppi á hrauninu skammt sunnan kvosinnar er hlaðið hringlaga skjól símamanna er lögðu jarðstreng til Grindavíkur á svipuðum tíma.
Sjá meira um Grindavíkurveginn HÉR, HÉR og HÉR.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól símamanna.