Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við „Seltún í Krýsuvík“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.

Grindavík

Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.

Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.

Sogin

Sogin – hátitasvæði.

Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.

Seltún

Seltún – borhola.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.

Austurengjar

Krýsuvík – Austurengjalækur.

Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.

Soppmosar

Soppmosar.

Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.

Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.

Augun

Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.

Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.

Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.

Krýsuvík

Krýsuvík – skólinn.

Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

-ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Hafnarfjörður

Ásgeir Guðmundsson fjallar um „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, en mörk bæjarfélagsins hafa vaxið ört frá því að það fékk kaupstaðaréttindi 1. júní 1908:

„Í 1. grein laga um bæjarstjórn í Hafnarfirði 22. nóv. 1907 voru takmörk kaupstaðarins ákveðin þannig:

Hafnarfjörður

„Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunholtstúns, Þaðan beina stefnu yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Mikið skorti á, að Hafnarfjarðarbær ætti árið 1908 það land, sem var innan bæjarmarkanna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Í árslok 1908 var að frumkvæði Jóns Hermannssonar þáverandi bæjarstjóra rætt um það á bæjarstjórnarfundi utan dagskrár, hvort eða að hve miklu leyti kaupstaðurinn ætti að gera ráðstafanir í þá átt að eignast eitthvað af því landi, sem hann var byggður á og að honum lá. Síðla árs 1910 stóð Hafnarfjarðarbæ til boða að kaupa allar fasteignir Brydeverslunar í bænum ásamt fleira á 37.500 kr., þ.e. Akurgerðislóð ásamt öllum húsum og mannvirkjum, sem voru á lóðinni. M.a. var um að ræða fyrsta fiskþurrkunarreitinn, sem gerður var í hrauninu fyrir norðan Hafnarfjörð. Verslunarhús og önnur mannvirki á Akurgerðislóð voru ekki lengi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, því að bæjarstjórn seldi Magnúsi Th. S. Blöndahl kaupmanni þau árið 1911.
Hafnarfjörður
Ári seinna gaf prófasturinn á Görðum, Jens Pálsson, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi, sem bærinn stóð á og Garðar áttu, og einnig nokkurt beitiland fyrir samtals 52.000 kr. Við það voru landamörkin miðuð við „beina línu úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins, þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum, úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark, miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við Urriðakotsland; þá Setbergsland, allt til Lækjarbotna; og loks Selvogsmanna- eða Grindarskarðsvegur.“
Innifalið í þessum kaupum var Hamarskot, en undanskilið var Hamarkotstún innan girðingar og Undirhamarstúnblettur.
Hafnarfjörður
Í desember 1912 keypti Hafnarfjarðarbær hálfa jörðina Hvaleyri, þ.e. Hjörtskot, Halldórskot, Sveinskot, Tjarnarkot, Vesturkot og Egilsonsgerði. Kaupverðið var 7.000 kr.

Hafnarfjörður

Merki á „landamerkjastöpli“ millum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1977.

Árið 1915 keypu bærin Hamarsland á kr. 10.500 kr. Undanskyldar voru nokkrar lóðir, s.s. lóð Íshúss Hafnarfjarðar. Hamar var upphaflega í landi Jófríðarstaða, og þar eða eigendur Jófríðarstaða töldu sig eiga tilkall til ítaka í Hamarslandi, mótaks og skipsuppsátur, ákvað bæjarstjórn árið 1919 að greiða þeim í eitt skipti fyrir öll 600 kr. gegn því, að þeir slepptu öllu tilkalli til þessara ítaka.
Eins og áður hefur komið fram, voru Hamarskots- og Umdirhamarstún undanskilin, þegar aðrar eignir Garðakirkju í Hafnarfirði voru seldar bæjarfélaginu 1912. Þá var gert ráð fyrir að presturinn hefði þar grasnytjar, ef hann flyttist til Hafnarfjarðar. Í desember 1927 var byrjað að sverma fyrir landinu og árið 1930 keypti bærinn það fyrir 12.000 kr. Sú kvöð hvíldi á Hamarkotstúni, að einungis mátti reisa þar byggingar til almenningsþarfa, en að öðru leyti átti túnið að vera skemmtistaður handa Hafnfirðingum, og var það notað til þeirra hluta um skeið. Undirhamarstún mátti kaupstaðurinn ekki selja, heldur aðeins leigja það út til byggingarlóða.
Hafnarfjörður
Árið 1924 reis ágreiningur milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Jóhannesar J. Reykdals um landamerki Hafnarfjarðar og Setbergs. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 1925, og féll hann Jóhannesi Reykdal í vil.
Árið 1932 keypti Hafnarsjóður Hafnarfjarðar jörðina Óseyri ásamt húsum af Böðvari Böðvarssyni bakara fyrir 39.000 kr. Óseyri var elsta nýbýlið í hinu forna Jófríðarstaðalandi.
Sumarið 1935 keypti Hafnarfjarðarbær af kaþólska trúboðinu (Compagnie de marie) hluta úr landi Jófríðarstaða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Óseyri árið 1900.

Að loknum landakaupum þeim, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, átti Hafnarfjarðarbær mestan hluta þess lands, sem hann náði yfir. Að undanskildum hluta af landi Jófríðarstaða, sem bar í eigu Campagnie de Marie, og heimajörðinni á Hvaleyri, sem var í eigu Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar, voru aðeins tvær lóðir inni í sjálfum kaupstaðnum í einkaeign. Önnur var lóðin Vesturgata 2, þar sem Hótel Björninn stóð, og var hún í eigu erfingja Augusts Flygenrings, en hin var lóð Íshúss Hafnarfjarðar.
Árið 1936 fékk ríkið f.h. Hafnarfjarðarbæjar heimild til að taka eignarnámi lönd til að stækka lögsagnarumdæmið. Tilgangurinn var að bæta úr þeim mikla skorti á ræktunarlandi, sem var í Hafnarfirði um þessar mundir.

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Samkvæmt því var ríkinu heimilt að taka eignarnámi afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Áss í Garðahreppi, þann hluta af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í Hafnarfirði, sem ekki var þegar eign Hafnarfjarðarbæjar, afnotarétt þess landssvæðis, sem takmarkaðist þannig: Að austan af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi, að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar að vesturhorni Engildals, þaðan með fram Álftanesveginu að aðalveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Undanskilið var þó land nýbýlisins Langholts og land milli Arnarnes- og Hraunsholtslækja, sem þegar hafði verið skipt á milli bænda í Garðahreppi, og jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.
Árið 1941 var gengið endanlega frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ, og var afsal fyrir þessum jörðum gefið út 20. febr. 1941.
Hafnarfjörður

Árið 1947 gafst Hafnarfjarðarbæ kostur á að kaupa landsvæði úr landi Straums, sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni og Skógræktar ríkisins.

Hafnarfjörður

Merki á landamerkjastöplin á Norðingaholti.

Ári síðar samþykkti bæjarstjórn að kaupa eftirfarandi landsvæði; landsvæði úr Straumslandi, sem var austan Krýsuvíkurvegar, þ.e. á vinstri hönd, þegar farið er til Krýsuvíkur, þar með taldir vikurhólarnir neðan Vatnskarðs, sem vafi lék á, hvort tilheyrðu Hafnarfirði eða Straumi, landsvæðið frá mörkum Hafnarfjarðar (Hvaleyrar), sem lá milli Keflavíkurvegar og sjávarins, þ.e. á hægri hönd þegar farið var til Keflavíkur. Þetta svæði var norðvestanendinn á Kapelluhrauni, Ofaníburðarhóll, sem var u.þ.b. 2 km. suður frá Straumi. Ofangreind landsvæði fengust keypt fyrir 50.000 kr., að viðbættum helmingi af sjóði þeim, sem myndast hafði vegna sölu á vikri úr Vatnsskarði að upphæð 18.000 kr. Auk þess var landsvæði sunnan Keflavíkurvegar og vestan Krýsuvíkurvegar um 2 km á hvern veg, sem Skógrækt ríkisins seldi Hafnarfjarðarbæ gegn því, að bærinn reisti á sinn kostnað girðingu á mörkum landsvæðisins, sem yrði um leið varnargirðing fyrir land það, sem Skógræktin hafði eignast úr Straumslandi. Kostnaður við kaup á landsvæði Skógræktarinnar nam um 30.000 kr.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Haustið 1955 hafði Hafnarfjarðarbær makaskipti á landsvæðum við Skógrækt ríkisins, og voru þau fólgin í því, að Hafnarfjarðarbær lét af hendi hluta af undirhlíðum frá skógræktargirðingu, sem þar var, suður að vikurhólunum við Vatnsskarð. Bærinn fékk á móti frá Skógræktinni landsvæði úr Straumslandi milli krýsuvíkruvegar og Óttarsstaða og fylgdu því ofaníburðarhólar þeir, sem voru á svæðinu, ásamt öðrum landgæðum.
Hafnarfjörður
Árið 1956 tók Hafnarfjarðarbær eignarnámi eign Gjafasjóðs Þórarins Böðvarssonar á Hvaleyri, auk Flensborgartúns, og greiddi fyrir það 1.380.000 kr.
Sumarið 1956 féllst hreppsnefnd Garðahrepps á að verða við beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um innlimun landspildu úr landi Setbergs í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Landsvæði þetta var í Kinnunum vestan Hamarkotslækjar og norðan við nýja Suðurnesjaveginn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum.

Árið 1959 var með lögum frá Alþingi ákveðin ný umdæmismörk fyrir Hafnarfjörð, enda hafði bærinn þá þegar þanist úr fyrir núverandi mörk.
Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps, sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða svokallaðar hraunjarðir. Nánara tiltekið var þetta landsvæði vestan Krýsuvíkurvegar, og náði það suður að Vatnsleysustrandarhreppi. Á móti féll Hafnarfjarðarbær frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi dags. 14. nóv. 1940, með þeirri undantekningu, að leigusamningar við einstaklinga, sem áttu stoð í greindum samningi Hafnarfjarðarbæjar við jarðeignadeildina, skyldu áfram vera í gildi.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Vorið 1964 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um sölu jarðarinnar Áss í Hafnarfirði (hún var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959), sem bærinn nýtti sér í framhaldinu. Sama ár voru lögð fram lög á Alþingi um útfærð umdæmismörk Hafnarfjarðar. Í framhaldi nýtti Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteigum vestan Krýsuvíkurvegar, þ.e. Lónakot, Óttarsstaði, þar með talið gamla býlið Óttarsstaði II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I, Glaumbæ, Straum og Straumsbúið, Jónsbúð, Þýskubúð, sumarbústaði, Litla-Lambhaga, Stóra-Lambhaga og einstakar aðrar landspildur.

Setberg

Setbergsbærinn – tilgáta.

Enn voru gerðar breytingar á lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar vorið 1971. Við féll hluti af landi Dysja undir Hafnarfjörð, en þá var fyrirhugað að byggja í Norðurbænum.

Hafnarfjörður

Landamerkjastöpull í Fjárhúsholti.

Í nóvember 1977 gerðu Hafnarfjarðarbær og Garðbær með sér samning um breytingu á lögsagnarumdæmum sveitarfélaganna. Samkomulagið var í aðalatriðum fólgið í því, að spilda úr landi Þórsbergs og Setbergs, aðlallega landið ofan Reykjanesbrautar frá FH-svæðinu suður á móts við Flóttamannaveg, var lögð undir lögsagnarumbæmi Hafnarfjarðar, en Garðabær fékk á móti land Hafnarfjarðar ofan við Reykjanesbraut. Breytingarnar tóku gildi árið 1978.
Nú á Hafnarfjarðarbær mestallt landið innan kaupstaðamarkanna. Helstu landspildurnar, sem bærinn á ekki, eru hluti Jófríðarstaðalands, hluti Straumslands, Óttarsstaði og Lónakot. Þá eru nokkrar byggingarlóðir í einkaeign. Lönd jarðanna Þórsbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnaumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 101-122.

Hafnarfjörður

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 2020.

Hamarskot

Í „Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983″ eftir Ásgeir Guðmundsson er m.a. fjallað um bújarðir í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar:

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

„Helsta bújörð í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Hvaleyri. Lítið er vitað um hana fram til ársins 1703 annað en það, að hún var í eigu Viðeyjarklausturs fram að siðaskiptum, en þá sló konungur eign sinni á hana eins og annað í klaustursgóss. Í kaþólskum sið var kirkja á Hvaleyri, sem var annexía frá Garðakirkju á Álftanesi. Þessi kirkja var lögð niður árið 1765.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Rækilegar upplýsingar um Hvaleyri er að fá í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar kemur fram, að jörðin var ekki mikil bújörð, en höfuðkostur hennar var góð lega til fiskviða, enda var útræði frá Hvaleyri allan ársins hring. Þó var útvegur Hvaleyrarbónda heldur lítilfjörlegur árið 1703. Á fyrri hluta 18. aldar varð túnið á Hvaleyri fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og ágangs fugls og maðks. þegar Þorsteinn Jónsson varð ábúandi á Hvaleyri árið 1770, hófst hann handa um umbætur á jörðinni, og tók hún miklum stakkaskiptum. Frá árinu 1772 eru til tvær myndir af bæ Þorsteins á Hvaleyri, sem menn í leiðangri Sir Joseph Banks teiknuðu. Árið 1870 keypti séra Bjarni Sívertsen Hvaleyri af konungi, en að Bjarna látnum var jörðin seld, og gekk hún kaupum og sölum næstu áratugina.
FlensborgarskóliÁrið 1870 keypti séra Þórarinn Böðvarsson heimajörðina á Hvaleyri, og nokkrum árum síðar gaf hann og kona hans jörðina ásamt tilheyrandi húsum, svo og Flensborgarlóðina, til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Heimajörðin á Hvaleyri var síðan í eigu Flensborgarskólans og síðar Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar og konu hans, uns Hafnarfjarðarbær keypti hana árið 1956 með leyfi menntamálaráðuneytisins. Nú er golfvöllur á Hvaleyri.
Þorsteinn Egilsson kaupmaður eignaðist smám saman alla Hvaleyrartorfuna, að undanskilinni heimajörðinni. Hinn 12. desember 1912 seldu erfingjar Þorsteins Hafnarfjarðarbæ torfuna.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Önnur helsta bújörðin í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Jófríðarstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið 1541, og var hún þá eign Skálholtsdómkirkju, en árið 1563 eignaðist konungur Jófríðarstaði og nokkrar aðrar jarðeignir í Gullbringusýslu.
JófríðastaðirÁrið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi og reisti þar skipasmíðastöð. Að Bjarna látnum gekk jörðin kaupum og sölum, uns kaþólska trúboðið (Campagnie de Marie) eignaðist hana alla árið 1922.
Þriðja bújörðin í landi Hafnarfjarðar var Hamarskot, sem dró nafn sitt af Hamrinum. Nafnið bendir til þess, að hér hefur ekki verið um stórbúli að ræða. Hamarskot er fyrst getið árið 1579, og var það þá í eigu Garðakirku. Síðar eignaðist landssjóður jörðina, en árið 1913 keypti Hafnarfjarðabær hana, að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarstúnbletti. Hafnarfjarðarbær keypti þessi tvö tún árið 1930, og hefur allt Hamarskotslandið því verið í eigu bæjarins frá þeim tíma.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Fjórða bújörðin í Hafnarfirði var Akurgerði norðanmegin fjarðarins. Búskap lauk þar á seinni hluta 17. alfar. Fram til 1677 var akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi, en þá hafði Hans Nansen yngri makaskipti á Akurgerði og hálfum Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Um leið var verslunarstaðurinn, sem hafði verið á Háagranda á Hvaleyrarhöfða, fluttur í Aksurgerðisland. Einungis var um þurrabúðir að ræða í Akurgerði eftir 1677.
Hafnarfjörður 1772Af því, sem hefur verið rakið hér að framan, er ljóst að fram til 1677 voru fjórar bújarðir í Hafnarfirði, en þegar Akurgerði var tekið undir verslunarstað, voru þrjár eftir. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar, að byggðin fór að aukast í firðinum og allmörg smámýli risu í lægðinni sunnan við fjarðarbotninn. Þessi smábýli voru upphaflega þurrabúðir, sem voru reistar í hinu forna Jófríðarstaðarlandi, þ.e. þeim hluta þess, sem firmað Jensen & Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og hlaut seinna nafnið Hamar. Hafnarfjarðarbær eignaðist Hamarsland árið 1915. Af nýbýlum í Hamarslandi er Óseyri elst.“

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 25-26.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Höfði

Höfði á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir.

hofdi-2

Höfði 1919.

Húsið var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin. Það var hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. Í viðhafnarstofu er nafn Brillouins ritað gullnu letri yfir dyrum ásamt byggingarári hússins, 1909.
Mikill virðuleikablær ríkti yfir Höfða fyrstu áratugina. Eftir Brillouin hafði Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, aðsetur hér ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar, læknis. Heimasætan, Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.

hofdi-1

Höfði 1923.

Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands.
Hingað komu meðal annarra í heimsókn á stríðsárunum Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.

Höfði

Höfði – upplýsingaskilti.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.
HöfðiFrægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991. Erlendir þjóðhöfðingjar sem sækja Ísland heim koma flestir í Höfða.
„Þetta er nú sennilega það hús í Reykjavík sem er frægast allra húsa,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Höfði

Höfði.

 

 

Eggert Kristmundsson

Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum.

„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.

Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.

Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?

Stakkavík

Stakkavík – loftmynd.

Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Efri-Brunnastaðir

Hvert fóruð þið með sláturfé?

Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.

Stakkavík

Stakkavík – Stakkavíkurborg.

Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Stakkavík

Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.

Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.

Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Hlín JohnsonÉg hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.

En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.

Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.

Hvað bjó hún þarna lengi?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.

Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.

Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.

Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Efri-BrunnastaðirNei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.

Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.

Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.

Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.

Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.

Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.

En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.

Efri-Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir (h.m.) – flugmynd.

Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.

Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.

Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Eggert KristmundssonJá, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.

Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.

Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.“ -M.F.

Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ártún.

Í „Fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártún á Kjalarnesi“ segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

„Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum.

Blikdalur

Blikdalur.

Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda.

Saurbær

Saurbær.

Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám.

Ártún

Ártún – örnefni.

Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda.

Ártún

Ártún 1983.

Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús.

Ártún

Ártún – tóftir 2020.

Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni „Síðasti bærinn í dalnum“.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“

Ártún

Ártún – úr kvikmyndinni „Milli fjalls og fjöru“ við bæinn.

Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.

Ártún

Ártún – bærinn var jafnaður við jörðu 1992 (MWL).

Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.“

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Reykjavík

„Svo segja heimildir, að vorið 874 hafi fyrsta skip svo vitað sé siglt inn á Reykjavík.
Þarna var Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi á ferð með fjölskyldu sína, húsdýr og húsbúnað. grofin-22Sagan segir, að áður hafi þrælar Ingólfs, þeir Vífill og Karli, fundið öndvegissúlur hans reknar á þessum slóðum. Ingólfur hefur svo valið vik eitt inn af víkinni, sem síðar var nefnt Grófin, sem besta lendingarstaðinn vegna aðstæðna eða nálægðar við ákjósanlegt bæjarstæði. Þar hafa þau Hallveig og Ingólfur svo gengið á land ásamt föruneyti sínu, kannað betur staðinn, gengið suður með klapparholtinu (Grjótaþorpi) upp af vikinu, komið þar að allstórri tjörn (Tjörnin) og valið sér bæjarstæði skammt frá norðurenda hennar. Bærinn fékk síðar nafnið Vík (Tjarnarg. 4, Suðurgata 3—5, Aðalstræti 14—16—18) í Reykjavík. Við leiðina sem Ingólfur fór úr vikinu (Aðalstræti í dag) stóð Ingólfsnaust (versl. Geysir) fram á 18. öld og Ingólfsbrunnur, Aðalstræti 9 fram á 20. öld.

Reykjavík

Reykjavík – merki í gangstétt við gatnamót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu.

Fyrstur ættmenna sinna í Noregi og annarra norrænna manna settist Ingólfur að á Íslandi. Trúlega hefur hann flutt búslóð sína á land í Grófinni vestur af Vesturgötu 2 (Álafossbúðin) í dag. Það má því með sanni segja að íslenskt þjóðfélag hefji feril sinn í Grófinni. En hafa skal það sem sannara reynist. Setlög Tjarnarinnar bíða eftir því að þau verði rannsökuð og saga mannvistar í gömlu Reykjavík verði lesin úr þeim betur og betur eftir því sem vísindunum fleygir fram.“
Miðja Reykjavíkur er við húsið Vesturgötu 2, sem var byggt árið 1863. Það hefur verið kallað Bryggjuhúsið og hýst margvíslega starfsemi í tímans rás. Út frá miðju Reykjavíkur eru öll götunúmer miðuð. Sá endi gatna sem er nær Bryggjuhúsinu er upphafið og þá eru oddatölurnar vinstra megin við götuna og sléttar til hægri. Þannig hefur þetta verið í 161 ár – og verður væntanlega ekki breytt í bráð.

Heimild:
-Morgunblaðið – Það gerðist í Grófinni, 23. nóv. 1984, bls. 19.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Brunnstígur

Á upplýsingaskilti við gatnamót Brunnstígs og Vesturgötu í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Brunnstígur

Brunnurinn (svartur depill).

„Á fyrrihluta 20 aldar fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar mjög hratt. Samhliða fólksfjölguninni jókst útgerð til mikilla muna og varð þá snemma knýjandi þörf á að koma upp hafskipabryggju í bænum.

Bryggjusmíðin sjálf hófst í mái 1912 og varð hún gerð samkvæmt uppdrætti Th. Krabbe, landsverkfræðings, en bryggjusmiður var Björn Jónsson frá Bíldudal. Laugardaginn 28. desember sama ár lagðist fyrsta skipið að bryggjunni en það var gufuskipið Sterling. Með tilkommu bryggjunnar varð til eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu, þar á meðal vatnssölu til skipanna. Vatnsveita bæjarins var hins vegar ekki í stakk búin að óbreyttu til að veita þessa þjónustu og var því brugðið á það ráð að koma upp geymi til vatnsmiðlunar fyrir bryggjuna. Vatnsgeymirinn eða brunnurinn var reistur hér; honum var valinn staður í hraunbolla við nýja götu sem bar nafnið Vesturbrú en síðar var Brunnstígurinn lagður og er hann nefndur eftir brunninum. Vatn safnaðist í brunninn á næturbar þegar notkun bæjarbúa var í lágmarki en á daginn var því veitt úr honum og niður í vatnsveitukerfi bryggjunnar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fyrsta hafskipabryggjan.

Samkvæmt lýsingu í útboði vegna byggingar vatnsgeymisins var hann 3,2 metrar á dýpt, 9,2 metra víður að innan máli og rúmaði 200 smálestir vatns. Veggirnir voru 50 cm þykkir og inni í geyminum voru fjórar súlur sem héldu þakinu uppi. Eftir að geymirinn var steyptur var jarðvegur setuur upp að honum en þó stóðu alltaf um 40 cm upp úr jörðinni. Geymirinn var niðurgrafinn að stærstum hluta líkt og brunnur og skýrir útlitið því nafngiftina. Guðni Guðmundsson, steinsmiður, sá um að steypa geyminn en Sigurður Thoroddsen, verkfræðingur, teiknaði hann.

Brunnurinn gegndi þessu miðlunarhlutverki fram yfir 1950 en vatn rann þó enn í hann næsta áratuginn. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að ná sér í vatn í brunninn þegar bera fór á vatnsskorti upp úr 1960. Eftir það var brunnurinn meðal annars nýttur sem grænmetisgeymsla.“

Brunnstígur

Brunnstígur – brunnurinn var t.v. á myndinni.

Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að „drepa til hennar hendi sinni“ en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.”

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju.

Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Þessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi.
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansEkki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá „inni í borginni“ vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; „… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda“.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu.
LaugarnesspítaliLaugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: „Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum“.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnesstofa 1836

Austurgata

Á upplýsingaskilti við gatnamót Austurgötu og Linnetsstígs í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Austurgata

Austurgata.

„Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1908 var ekkert skipulag á byggðinni og fáaer eiginlegar götur í bænum, einungis slóðar og troðningar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Þremur árum síðar var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum bæjarins nöfn og tölusetja húsin. Varð úr að nefndarmenn gáfu flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra. Á því svæði sem Austurgatan stendur í dag var svokallað Austurhverfi á þeim tíma. Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918. Á svæði þar sem Austurgatan stendur í dag standa við götuna 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf. Húsin við Austurgötuna mynda einstaklega heildstæða götumynd byggðar frá upphafi 20. aldar og þó að gatan hafi byggst upp að mestu leyti á þessum árum erugerð og stíll húsanna mjög fjölbreytt.
Austurgata

Segja má að Austurgatan sé dæmigerð fyrir gamla Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og mannlífið mynda áhugaverða heild. Við götuna standa, eða hafa staðið, hús með merkilega sögu auk tveggja álfakletta.

Hafnarfjörður

Austurgata – minnismerki um Örn Arnarsson: Þóðviljinn 9. ágúst 1974.

Nyrst við götuna stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.
Litlu sunnar er komið að húsi Ólafs borgara sem áður stóð neðar í lóðinni en hefur nú verið flutt upp að götu. Húsið var byggt árið 1872 sem verslunar- og íbúðarhús.
Gegnt því húsi stendur gamla símstöðin, sem byggð var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríksisins, árið 1922. Þar var rekin símstöð allt til ársins 1962.

Fríkirkjan stendur á kletti yfir götunni en hún er elsta kirkjan í Hafnarfirði, byggð árið 1913. Kirkja þessi er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún var t.d. síðasta tvílyfta timburkirkjan sem byggð var á Íslandi, sú fyrsta sem var raflýst, frá henni lágu á sínum tíma hæstu tröppur landsins og fyrstu útvarpsmessunni hér á landi var útvarpað frá henni árið 1926.
Húsið númer 26 við Austurgötuna er byggt af Hjálpræðishernum sem sjómanna- og gistiheimili. Þar rak bærinn um tíma tvær sjúkrastofur en árið 1927 var allt húsið tekið á leigu undir berklahæli. Árið 1935 hófts rekstur elliheimilis og almenningsmötuneytis í húsinu en Hafnarfjörður varð annað sveitarfélagið á landinu, á eftir Ísafirði, til að reka elliheimili.

Austurgata

Austurgata 26.

Emil Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri og ráðherra, lét byggja eftir eigin teikningu húsið nr. 37 við götuna en það er talið dæmigert fyrir teikningar hans í nýbarrokkstíl með gaflsneiddu þaki. Auk þess að vera íbúðarhús hefur þar verið ýmist starfsemi í gegnum árin, s.s. húsgagnabólstrun, hárgreiðslustofa og sparisjóður.
Við suðurenda götunnar er brúin yfir Hamarskotslæk en hún er í raun stíflan sem Jóhannes Reykdal reisti þegar hann stóð að stofnun fyrstu almenningsrafveitu landsins árið 1904. Þá notaði hann fallorku lækjarins til að knýja níu kílóvatta rafal. Rafveitan var tengd í sextán hús og fjóra ljósastaura í bænum.“

Minnisvarði um Örn Arnarson reistur í Hafnarfirði

Austurgata

Minnisvarði um Örn Arnarson.

Í Tímanum 1973 má lesa eftirfarandi um fyrirhugaðan minnisvarða um Örn Arnarsson í Hafnarfirði. Gísli Sigurðsson, minjavörður Byggðasafnsins, segir frá:

„Á sumri komanda verður sett upp i Hafnarfirði minnismerki um skáldið Örn Arnarson. Hann var búsettur i Hafnarfirði um árabil og er öðrum fremur talinn skáld íslenzkrar sjómannastéttar. Minnismerkið verður sett upp við Reykjavíkurveg, en uppistaða þess er gamalt og stórt ankeri.

Austurgata 1

Austurgata 1 – Hótel Hafnarfjörður.

Í það verður fest viðeigandi keðja og verður þessu komið fyrir á stalli, þar sem einnig verður plata með nafni skáldsins. Að öðru leyti er ekki enn búið að ákveða endanlega hvernig minnismerkið verður.
Ekki er vitað úr hvaða skipi ankerið er, en það er gamalt og miklu stærra en svo, að það geti verið úr skútu. Gripurinn hefur verið gerður upp og sett á hann ryðvarnarefni og nýr tréstokkur smiðaður, en hinn upprunalegi er fyrir löngu fúnaður, en járnböndin eru til.
Magnús Stefánsson, en það var skírnarnafn skáldsins var fæddur á Langanesi, og stundaði sjósókn framan af ævi, en vegna heilsubrests varð hann að hætta sjómennsku og eftir það vann hann átakaminni störf i landi. En hann gleymdi ekki sínu fyrra starfi og sízt gömlum starfsfélögum, sjómönnunum, eins og kvæði hans bera með sér. Sjómennirnir gleyma heldur ekki skáldi sínu og á Sjómannadaginn eru kvæði hans sungin. Má t.d. nefna kvæðið „Íslands Hrafnistumenn.“ – Tíminn, 20.11.1973,  Minnisvarði um Örn Arnarson, bls. 1.
Minnisvarðinn var afhjúpaður á horni Reykjavíkurvegar og Austurgötu árið 1974 – á fæðingarstað skáldsins.

Fríkirkjan

Fríkirkjan

Fríkirkjan.

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður 20. apríl, 1913 en formlegur afmælisdagur er jafnan miðaður við sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða mánaðardag hann ber. Það er vegna þess að þann dag árið 1913, sem þá bar upp á 24. apríl, var fyrsta guðsþjónustan haldin í Góðtemplarahúsinu.

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði í smíðum. Kirkjan var vígð þann 14. desember 1913 af séra Ólafi Ólafssyni presti safnaðarins og hafði hún þá verið reist á aðeins 3-4 mánuðum af nýstofnuðum söfnuðinum. Síðan hefur fjórum sinnum verið byggt við kirkjuna og síðast var henni breytt að innan við gagngerar endurbætur árið 1998.

Kirkjan var síðan vígð þann 14. desember sama ár og hafði þá tekið aðeins rúma þrjá mánuði að byggja hana.
Þegar söfnuðurinn varð 30 ára var birt ítarleg umfjöllun um hann í Lesbók Morgunblaðisns. Umfjöllun blaðsins var birt sunnudaginn 18. apríl 1943. Hér grípum við niður í grein Finnboga J. Arndal í fyrrgreindri Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann skrifar m.a. um tilurð safnaðarins og kirkjuna:

„Söfnuðurinn var stofnaður 20. apríl 1913. Stofnfundurinn var haldinn þann dag í Barnaskólanum í Hafnarfirði. Var boðað til hans af nokkrum Hafnfirðingum, sem áhuga höfðu fyrir því að kirkja yrði reist í Hafnarfirði. Það mál hafði að vísu verið rætt og athugað um allmörg ár af sóknarmönnum Garðasóknar, en af ýmsum ástæðum, en þó sérstaklega vegna fjárhagslegra vandkvæða, átt erfitt uppdráttar fram að þeim tíma.

Samkvæmt lögum safnaðarins skyldi nafn hans vera: Hinn evangelisk- lútherski fríkirkjusöfnuður í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum.
Bæjarstjórn samþykti 15. júlí 1913, að leigja söfnuðinum lóð þessa, en tæpu ári síðar samþykti bæjarstjórnin, að söfnuðurinn skyldi framvegis halda lóð þessari afgjaldalaust.

Fríkirkjan

Fríkirkjan og nágrenni.

Á safnaðarfundi 26. júlí s.á. var samþykt að ráðast í að byggja kirkjuna. Skyldi hún vera úr timbri, járnvarin. Var þá engin kirkja til í Hafnarfirði, eins og fyr er að vikið.
Seint í ágústmánuði var svo kirkjusmíðin hafin. Hafði verið tekið tilboði frá s.f. Dvergur í Hafnarfirði um smíðina og var þar lofað að gera sjálfa kirkjuna og bekki í hana og leggja til efni, hvorttveggja fyrir kr. 7900.00, en undanskilin var múrsmíð, málning, leiðslur og hitunartæki. Aðalumsjón með kirkjusmíðinni hafði trjesmíðameistarinn Guðmundur Einarsson, Davíð Kristjánsson trjesmíðameistari gerði teikningu af kirkjunni.
Kirkjusmíðinni miðaði vel áfram og var henni lokið að öllu snemma í desembermánuði sama ár.

Fríkirkjan

Í Fríkirkjunni.

Árið 1931 fór fram gagngerð viðgerð á kirkjunni. Var kórinn þá stækkaður að mun og turninn hækkaður og honum breytt verulega. Þess utan var kirkjan máluð utan og innan. Teikningar af hinum nýja kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trjesmíðameistari, en smíðið framkvæmdi Haukur Jónsson trjesmíðameistari í Hafnarfirði og fjelagar hans. Málningu alla framkvæmdi Kristinn J. Magnússon, málarameistari í Hafnarfirði.

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði.

Eftir þessa miklu aðgerð og breytingar var kirkjan sem ný orðin. Einn af safnaðarmönnum, Jóhannes J. Reykdal versmiðjueigandi á Setbergi, gaf alt timbur sem fór í stækkun kórsins og Kvenfjelag safnaðarins kostaði málningu á kirkjunni að innan að öðru en kórnum. Um sama leyti gaf það fjelag kolaofn í kirkjuna, stóran og fullkominn, er mun hafa kostað um kr. 1.100.00.
Undir kórgólfi er kjallari, sem notaður er sem líkhús og til geymslu. Kirkjan rúmar í sæti um 350 manns.
Um leið og kirkjan var reist var lögð í hana rafmagnsleiðsla enda þótt að litlar líkur væru fyrir því, að raforka væri þá fáanleg til lýsingar kirkjunni, því um þær mundir gat rafmagnsstöð Hafnarfjarðar ekki fullnægt þörfum bæjarbúa.
Kirkjan var síðast endurbætt árið 1998.“ -Samantekt JGR / síðast breytt 11. júní 2010.

Austurgata

Austurgatan – málverk; Jón Gunnarsson.