Í skýrslu um „Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík“ frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:
Staðhættir
Fiskgarðar í Slokahrauni.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Landnám og byggðaþróun
Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.
Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Líklega hefur Molda-Gnúpur búið á þessum slóðum.
Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.
Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.
Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.
Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.
Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.
Básendar – uppdráttur ÓSÁ.
Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.
Saga Grindavíkur
Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík.
Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.
Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Grindavík – Norðurvör.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni unnið í samráði við Sigurð Gíslason – ÓSÁ.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.
Fiskveiðar og útgerð
Grindavík – tíæringur.
Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Vélbátur.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.
Landbúnaður
Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.
Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.
Járngerðarstaðahverfi
Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.
Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“
Járngerðarstaðir 1890.
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.
Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu.
Járngerðarstaðir – gamli bærinn.
Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.
Skipulagsmál í Grindavík
Grindavík – uppdráttur 1946.
Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.
Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.
Grindavík.