Jóladagsferð – perlumóðuský

Markasteinn

Gengið var suður með vestanverðri Setbergshlíð, um Gráhelluhraun, Þverhlíð, Seljahlíð og Svínholt. Dagurinn var jóladagur.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Mannfólkið kúrði enn í híbýlum sínum, en Setbergslækurinn rann rólega sína leið og lék sér við klakaströnglið við bakkana. Mýsnar höfðu verið á kreiki um nóttina.
Birtan yfir Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi var einstök, gulrauður morgunroðinn í sinni fegurstu mynd. Í austri trjónaði ílangt perlumóðuský er skipti litum í takt við morgunroðann; rauðleitt í fyrstu, en blánaði smám saman. Það tók á sig óskýra olíulitina, en hvítnaði loks og varð gegnsætt uns það samlagaðist himninum. Svo virtist sem skýið hafi viljað birtast þarna á áberandi stað í tilefni jólanna og gefa sem flestum kost á að berja sig augum, en líklegt er að fáir hafi notið augnakonfektisins á austurhimninum þennan fagra jóladagsmorgun.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Perlumóðuký sjást gjarnan að vetri til á norðurhveli jarðar einkum á milli sólseturs og sólarupprásar. Þau eru olílituð og draga nafn sitt af þeim litabrigðum perluskeljarinnar. Skýn eru mjög sjaldgæf á þessum stað jarðarinnar, en þekkjast þó við norðurhvel jarðar, sem fyrr sagði. Þau myndast er sérstök veðurskilyrði, en eru ekki úrkomuský. Perlumóðuský verða til ofan við háský í um 25 km hæð og eru lýsandi næturský í um 80 km hæð. Þessar skýjagerðir, sem eru mjög sjaldgæfar, tengjast ekki veðri. Þennan jóladagsmorgun voru kjöraðstæður til þessa á höfðuborgarsvæðinu, heiður himinn og veðurstillur.

Perlumóðurský

Perlumúðurský.

Beygt var með Þverhlíðinni og stefnan tekin á Markaklett, landamerkjahornstein Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að bóndinn á Urriðakoti hafi fyrrum heyrt rokkhljóð inni í steininum og dregið þá ályktun að í honum kynni að búa huldufólk. Þá hafa aðrir menn, sem það hafa og eru þekktir af því að skýra jafnan rétt frá, fyrir satt að þegar einhver reynir að nálgast steininn þverr honum allur máttur. FERLIR hafði áður sannreynt þetta í tvígang.
Enn ein saga segir að huldufólk geri jafnan vorhreingerninguna hjá sér á jólanótt. Þá hefst nýtt ár hjá huldufólkinu og því vilji það fagna með alsherjartiltekt. Álfarnir gera sér hins vegar glaðan dag á nýársnótt, en engir sértakir kærleikar eru með hudlufólki og álfum, ekki frekan en með mönnum og kálfum.

Markasteinn

Markasteinn.

Gengið var hljóðlega í átt að Markasteini. Létt marr greindist í snjónum, en andvarinn var á móti. Þegar komið var upp að hæðinni er skildi að klettinn og sjónhendinguna virtist einhver hreyfing við steininn. Það var enn morgunrökkvað svo erfitt var að greina hvað þetta var svo vel færi. Svo virtist sem vera kæmi út úr klettinum, staðnæmdist, beygði sig niður, greip eitthvað með sér og hvarf síðan inn í steininn aftur. Eftir stutta stund kom hún, eða einhver önnur, út aftur og greip eitthvað með sér og hvarf á braut.
Reynt var að læðast nær, en við það virtist koma styggð að hreyfingunum. Þær létu ekki sjá sig aftur. Utan við steininn sáust fótspor án sóla. Kjarrið bærðist í golunni. Fornfálegur stólfótur lá við klettinn. Hann var látinn liggja þar sem hann var.
Frábært veður. Lygnt og bjart (miðað við árstíma).

Markasteinn

Markasteinn.