Hjátrú og kynlegir kvistir – Elva Brá Jensdóttir
Í Fréttarbréfi Ættfræðingsfélagsins fjallar Elva Brá Jensdóttir m.a, um „Hjátrú og kynlegi kvisti við Úlfljótsvatn„;
Hjátrú og kynlegir kvistir
„Frásagnir Kolbeins Guðmundssonar bónda á Úlfljótsvatni og barnabarn hans, Katrínar og Guðmundar Símon Dalaskáld, Samúel Súðadallur, Guðmundur kiði og fleiri litríkir karakterar koma við sögu þegar Kolbeinn Guðmundsson og börnin hans Katrín og Guðmundur rifja upp minningar sínar frá Úlfljótsvatni upp úr aldamótunum 1900.
Á Stofnun Árna Magnússonar (SÁM) eru varðveittar upptökur af frásögnum Kolbeins Guðmundssonar (1873-1967) og barna hans, Katrínar (1897-1982) og Guðmundar (1899-1987), en Kolbeinn var bóndi á Úlfljótsvatni kringum aldamótin 1900. Hallfreður Örn Eiríksson safnaði sögnunum á 7. og 8. áratugnum en þær gerast flestar á heimaslóðum þeirra,
Úlfljótsvatni, eða nágrenni.
Þurfti að flýta sér
Þegar Guðmundur og Katrín voru börn tíðkaðist enn að förumenn eða flakkarar færu á milli bæja og segðu sögur eða færu með kvæði í skiptum fyrir mat og gistingu, ef væru þeir óvinnufærir. Sumir hverjir voru eftirminnilegir og skrautlegir en aðra var ekkert varið
í að hýsa. Guðmundur segir til dæmis frá Jóhannesi Jónssyni, sem þótti sérkennilegur að mörgu leyti, en eitt sinn þegar hann hafði gist á Nesjavöllum þurfti hann skyndilega að flýta sér í burtu. Kom svo í ljós að hann hafði gengið örna sinna í rúmið og búið svo kyrfilega um það.
Ögn þrifalegri var Samúel súðadallur, hressilegur karl, en hann stundaði sníkjuferðir í sveitinni, safnaði smjöri, ull og hverju sem var, og bað svo bændurna að flytja það heim til sín. Honum var þó ekki gefið um kjöt að gjöf, sagðist heldur vilja kindur og geta rekið þær heim svo það þyrfti ekki að flytja kjötið öðruvísi.
Hann þótti svo skemmtilegur að enginn amaðist við honum.
Kraftaskáldið
Sá sem var þó í mestum metum, af þeim sem þáðu gistingu á Úlfljótsvatni, var Símon Dalaskáld en hann gat snarað fram vísu um heimilisfólkið á staðnum og vakti mikla lukku. Hann var sagður kraftaskáld en þau eru sögð hafa ýtt undir þann orðróm sjálf, því almennt þótti vissara að halda þeim góðum svo ekki yrði til nein níðvísa um heimilisfólkið.
Margar frásagnir fjalla um álagabletti. Víða var blettur eða þúfa sem ekki mátti hreyfa við og má þar nefna toppinn á Hrútey, Litla-Hólma og Arnarhólma en Kolbeinn sagði slíka bletti hafa fyrirfundist á hverjum bæ. En álögin voru ekki einungis á þúfunum.
Katrín segir að áður fyrr hafi verið mun meiri silungur í vatninu, en tvær húsmæður rifust um veiðina, og önnur þeirra lagði það á að hluti silungsins í vatninu yrði að mýflugu. Skýringin á mýflugnamergðinni mun þá vera sú að hún sé silungur í álögum.
Áhrínsorð
Álögin gátu líka beinst að fólki. Guðmundur segir frá gamalli, bæklaðri konu sem hann hitti, en hún varð fyrir áhrínsorðum þegar hún var ársgömul. Móðir hennar reifst við vinnukonuna með miklu offorsi og óskaði vinnukonunni alls ills – að hún yrði að aumingja.
Meðan á þessu stóð hélt húsmóðirin á dóttur sinni í fanginu. Þegar hún svo setur litlu telpuna á gólfið er hún orðin máttlaus öðrum megin. Vinnukonan hafði þá beint áhrínsorðunum að barninu.
Afi Guðmundar var níu ára á þessum tíma en Guðmundur sagði hann hafa munað vel eftir þessum atburði. Konan, sem varð varanlega fötluð, kenndi móður sinni alfarið um hvernig komið væri fyrir sér. Guðmundur segir konuna þó hafa getað gert ýmislegt, þrátt fyrir fötlun sína, en hún gætti eldsins, eldaði jafnvel mat og baslaði við að prjóna.
Guðmundur kíði
Flökkumennirnir sem komu að Úlfljótsvatni sögðu alls kyns sögur, en vinsælastar voru drauga- og huldusögur sem kemur ekki á óvart, sérstaklega þegar litið er til þess að margir óútskýranlegir atburðir gerðust á bænum. Ber þá helst að nefna draugaganginn sem kenndur hefur verið við Guðmund kiða, sem var fjármaður á Úlfljótsvatni fyrstu búskaparár Kolbeins og Geirlaugar. Hann skilaði sér ekki heim með féð eitt kvöldið og um nóttina dreymdi Geirlaugu að hún væri komin í beitarhúsin til hans og spyr hvort hann ætli ekki að koma heim en Guðmundur kiði svarar: Nei, ég ætla ekki að koma heim, því að ég rak féð niður að vatninu og út á vatnið og það fór töluvert af því í vatnið og ég ætla ekki að koma heim þess vegna.
Geirlaug segir þá að honum sé óhætt að koma heim fyrir því, fyrst hann hafi ekki farið í vatnið sjálfur þá sé allt í lagi en Guðmundur kiði svarar þá : „Nei, ég ætla að vera hérna fyrst um sinn.“
Draumur Geirlaugar var ekki lengri en Guðmundur kiði fannst þegar róið var eftir vatninu. Hann hafði farið ofan um ís og drukknað ásamt þrjátíu kindum en þegar hann fannst hélt hann um hornið á einni kindinni, sem hann hefur ætlað að bjarga. Marg oft hefur orðið vart við hann, sérstaklega við fjárhúsin og vatnið en þar á hann að halda til og alltaf sést þessi eina kind með honum.
Naglar í kross
Í viðtölunum við fjölskylduna frá Úlfljótsvatni er yfirleitt talað um að fólk hafi orðið vart við eitthvað en aldrei er sagt berum orðum að draugatrú hafi verið ríkjandi í sveitinni. Engin hræðsla virðist hafa verið við það sem ekki var hægt að útskýra og myrkfælni þekktist ekki hjá heimamönnum. Draugafrásagnir eru ofarlega á lista. Þó var þeim tekið af æðruleysi á þessum tíma eins og Guðmundur orðar það sjálfur: „Jaaa, það var nú ekki beint draugatrú [ … ] en það var nú samt [ … ] það var nú vart við svona hitt og þetta, það var til dæmis hjá okkur á Úlfljótsvatni sko, að það var eins og þetta væri bara umgengist bara eins og heimilisfólkið.“
Guðmundur segir frá því þegar bóndinn frá Hagavík ásótti hann. Bóndi þessi hafði sagt að hann færi ekki sjálfráður frá jörðinni og ef hann færi, riði hann ekki klofvega. Þegar hann lést var hann jarðsettur á Úlfljótsvatni. Eitthvað hefur hann verið ósáttur við að þurfa að yfirgefa þennan heim því Guðmundur sá hann liggja hjá sér í rúminu og fékk ekki svefnfrið fyrir honum og kvartaði undan þessu á morgnana. Að lokum fór Kolbeinn, faðir hans, út að leiði karlsins, talaði yfir honum og rak nagla í kross, í hornin og miðjuna. Eftir það varð Guðmundur ekki var við hann.
Boli að láni
Nátengdar draugasögunum eru sögur af huldufólki. Guðmundur segir söguna af því þegar kýrnar á Bíldsfelli voru reknar norður með Sogi en boli á öðru ári var hafður með þeim. Um kvöldið fannst bolinn hvergi og getgátur voru uppi um að hann hann hefði farið í Sogið.
Ári seinna, þegar kýrnar voru sóttar á sömu slóðir, var bolinn með þeim, en mun stærri en hann hefði átt að vera eftir þennan tíma. Fólkið þóttist vita að boli hefði verið hjá huldufólki sem hafi þurft á honum að halda.
Segja má að viðhorf fjölskyldunnar frá Úlfljótsvatni gagnvart draugum og huldufólki einkennist einna helst af virðingu fyrir því sem ekki er vitað hvað er. Það er látið liggja á milli hluta hvort einhver óútskýranlegur atburður sé draugur eða ekki, en yfirleitt er sagt að „einhver hafi orðið var við eitthvað“ sem má svo túlka á hvaða veg sem er.
Greinin er unnin upp úr lokaritgerð höfundar til BA-gráðu við Háskóla Íslands.“
Heimild:
-Fréttarbréf Ættfræðingsfélagsins; Hjátrú og kynlegir kvistir, Elva Brá Jensdóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 10-11.