Almenningur III

Almenningur

Ofan við Garða-Hraunabæina vestan Hafnarfjarðar er svonefndur Almenningur. En hvað er „Almenningur“?

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Tilefnið að skrifum þessum er að Hafnarfjarðarbær hefur skipað starfshóp bæjarfulltrúa um gerð reiðleiða um Almenning. Þarna fer Hafnarfjarðarbær villu vega, líkt og svo oft áður, þegar kemur að minjum og minjasvæðum. Fæstir fulltrúar bæjarins hafa stigið þarna niður fæti. Hafnarfjarðarbær hefur nánast aldrei leitað leiðsagnar þeirra er gerst þekkja ofanvert bæjarlandið. Á svæðinu má finna fjölmarga forna stíga og leiðir, sem fyrrum voru notaðir af bæði fótgangandi og ríðandi.

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar Jónatan Garðarsson um „Útivistarperluna í Hraunum“ og getur um „Almenninga„.

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Almenningar, sunnan við bæina og selin í Hraunum, voru skrýddir trjágróðri í eina tíð. Þar hefur allt verið kjarri vaxið fram eftir öldum en hrístekja til eldiviðar, ásamt sauðfjárbeit, hefur eytt skóglendinu. Þetta landsvæði mætti varðveita og hlúa frekar að þeim gróðri sem þar vex.
Einhvern tíma hefur hann verið gróskumikill og getur vel orðið það aftur. Í landi Hvassahrauns eru t.d. örnefnin Skógarhóll og Skógarnef, sem gefa til kynna mikinn kjarrgróður fyrrum, og í Undirhlíðum má finna kennileitið Stóriskógahvammur sem vísar til að þar hafi stórviður einhvern tíma vaxið.
Í Jarðabókinni 1703 má lesa um ástand gróðurs í Gullbringu- og Kjósarsýslu á þeim tíma. Látum þær lýsingar verða okkur til umhugsunar. Þar segir að í Álftaneshreppi hafi verið 27 konungsjarðir og áttu bændur að skila 48 hríshestum heim til Bessastaða og stundum meira. Flestum var vísað á skóg í Almenningum. Allar jarðirnar og hjáleigur þeirra höfðu rétt til kolagerðar í Almenningum. Um skóg er getið á nokkrum jörðum.“

Lónakot:

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkarjörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpening um vetur.“

Óttarsstaðir:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenning betalingslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða.“

Straumur:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenningum, líka er stundum hrís gefið nautpeningi.“

Þorbjarnarstaðir:

Fornasel

Fornasel – selstaða frá Þorbjarnarstöðum.

„Skóg hefir jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenningar eru kölluð.“

Í Tímariti lögfræðinga 1998 skrifar prófessor Þorgeir Örlygsson um Almenninga undir fyrirsögninni „Hver á kvótann?

Þorgeir örlygsson

Þorgeir Örlygsson, prófessor.

„Menn hefur greint á um það, hvar almenningar eru hér á landi og hvernig eignarrétti að þeim er háttað, en í sjálfu sér er ekki ágreiningur um, að þeir geti verið til, enda gerir löggjöf ótvírætt ráð fyrir tilvist þeirra og hefur lengi gert. Eru menn og almennt sammála um, að almenningar séu landsvæði, sem enginn getur talið til einstaklingsbundins eignarréttar yfir, þótt ekki sé útilokað, að menn kunni að eiga þar ákveðin og afmörkuð réttindi.
Í síðari tíma löggjöf og fræðiviðhorfum hefur helst verið við það miðað, að almenningar séu tiltekin svæði á þurrlendi og á hafsvæðum úti fyrir ströndum landsins og auk þess sérstakur hluti stöðuvatna, þ.e. svæði utan netlaga. Hafa þessi svæði verið nefnd almenningar frá fornu fari.
Almenningar hafa samkvæmt þessu bæði verið til inni á óbyggðum og út við hafið, þ.e. almenningar hið efra og hið ytra. Í bæði Grágás og Jónsbók var að finna ákvæði um almenninga.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins í Almenningum.

Við lögtöku Jónsbókar 1281 varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þau orð 52. kaptítula Landsleigubálks: Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bœði hið efra og hið ytra. Í norskum rétti voru svipuð ákvæði um almenninga. Þar sagði t.d. í NL 3-12-1: Saa skal Alminding være, saasom den haver vœret af gammel Tid, baade det 0verste og det yderste.
Því er mismunandi háttað í löggjöf, hvaða heimildir eru fyrir hendi varðandi nýtingu almenninga og hverjir eiga þær heimildir. I gildandi ákvæðum íslenskra laga, sem varða meðferð tiltekinna réttinda í almenningum, er yfirleitt út frá því gengið, að landsmenn allir njóti þeirra réttinda, þótt frá því kunni að vera ákveðnar undantekningar í einstökum og afmörkuðum tilvikum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hafalmenningur er það svæði sjávar við strendur landsins, sem tekur við utan netlaga, en netlög eru sjávarbelti, sem nær 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landareignar. Um hafalmenninga er það að segja, að frá upphafi íslandsbyggðar og allt fram yfir miðja þessa öld hefur sú meginregla verið viðurkennd, að hafið utan netlaga væri almenningur, þar sem öllum væri heimil veiði. Reglan kemur fram í Grágás, Landabrigðaþætti Konungsbókar: Menn eigu allir að veiða fyrir utan netlög að ósekju og í Landabrigðisþætti Staðarhólsbókar: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlag að ósekju ef vilja. Í Jónsbók er reglan í 61. kapítula Landsleigubálks, rekabálki, 2. kap.: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög at ósekju. Er ákvæði þetta enn tekið upp í íslenska lagasafnið, nú síðast í útgáfuna 1995.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Um réttarstöðu íslenska rfkisins gagnvart landsvæðum, sem enginn getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir, hvort heldur sem eru afréttareignir eða almenningar, er það að segja, að sú stefna hefur verið mótuð af dómstólum, að íslenska ríkið sé ekki eigandi þessara landsvæða, nema það færi fram eignarheimildir fyrir eignatilkalli sínu. Er framangreint annars vegar staðfest í Landmannaafréttardóminum síðari, sbr. H 1981 1584 og í Mývatnsbotnsmálinu, sbr. H1981182. Samkvæmt þessum dómum nýtur ríkið engrar sérstöðu umfram aðra, sem gera tilkall til einstaklingseignarréttar yfir tilteknum hlutum eða verðmætum. Ríkið verður eins og hver annar að færa fram skilríki eða heimildir fyrir eignatilkalli sínu.“

Í Sögu 2008 reynir Sveinbjörn Rafnsson að skilgreina „Almenninga“ í grein sinni um „Hvað er Landnámabók?„.

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Almenningar og afréttir í Jónsbók. Lengja má í þessum þræði og skoða ákvæði Jónsbókar: „Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bæði hið efra og hið ytra.“ Íslendingar héldu sínum íslensku lögum í samræmi við sáttmála við Noregskonunga á síðari hluta 13. aldar og konungur hafði því ekki rétt til almenninga á Íslandi eins og í Noregi.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti í Almenningum.

Landsfjórðungarnir voru ekki lagðir niður með tilkomu nýrrar lög bókar á 13. öld; þeir haldast m.a. sem dómssögur og umsýslusvæði um landeignir í Jónsbók.
Það er einnig ljóst að fjórðungsmönnum hefur verið í lófa lagið sem eigendum almenninga að skipta þeim á milli sín, þar sem þess var talin þörf, í svokallaða afrétti. Í Grágás og Jónsbók er afréttur skilgreindur svo: „Það er afréttur er tveir menn eiga saman eða fleiri, hversu mikið land sem hver þeirra á í.“

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Samkvæmt Grágás og Jónsbók hefur því almenningur verið í sameign allra fjórðungsmanna, þ.e. landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs, en afréttur verið í sameign tiltekinna landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs. Þetta skýrir til fullnustu stöðu og legu afrétta í Sunnlendingafjórðungi. Bæði í Grágás og Jónsbók eru almenningar og afréttir gjarna spyrtir saman enda er um að ræða land sem verið hefur í sameign margra manna og fylgt ákveðnum jörðum innan fjórðungs. Í ákvæðum Grágásar um að telja fé í afrétt eru eigendur afréttar kallaðir landeigendur.

Tobburétt

Landvættur í Almenningum í Hraunum.

Það er í fullu samræmi við ákvæði Grágásar um að hver maður eigi gróður á sínu landi. Það sýnir líka að mönnum hefur verið heimilt að ráðstafa eign sinni og greina hana í það sem ofan á landi er og landið sjálft, sbr. skógarítök, skógartóft, beitarítök, reka o.s.frv., enda mörg forn dæmi varðveitt um slíkt í frásögnum og skjölum.

Sveinshellir

Sveinshellir – fjárskjól.

Slíkur ítakaréttur hefur ekki falið í sér eign á landi heldur afnotaeign og hafa menn hér á landi hugsað líkt í lögum og búrekstri og menn gerðu í nágrannalöndunum á miðöldum, um dominium directum, beina eign, og dominium utile, afnotaeign, enda samfélagsgerðin ekki ósvipuð. Deiluefni gat komið upp um það hvar væru mörk bújarðar annars vegar og afréttar eða almennings hins vegar. Um þetta er fjallað í 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar.

Almenningur

Í Almenningum í Hraunum.

Menn áttu að reyna að lögfesta sinn málstað, en ef ágreiningur varð skyldi málið koma til dóms. Þarna er eign á afrétti jafngild eign á bújörð. Samkvæmt 54. kap. Landsleigubálks Jónsbókar gat maður er næstur bjó afrétti gert eigendum afréttar stefnu til garðlags á mörkum bújarðarinnar og afréttarins. Svo segir um það: „Þeir skulu gera garð að jarðarmagni, svo sem hver þeirra á afrétt til, svo að þeir geri hálfan, en sá hálfan er garðlags beiddi, og svo haldi hvorir síðan.“

Álfakirkja

Álfakirkja (fjárskjól) í Hraunum.

Hér kemur það glöggt fram að afréttur er full eign engu síður en bújörðin sem næst er afréttinum.
Óbyggðanefnd telur að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Þessi kennisetning (doktrin) hefur ýmsa annmarka og kemur ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Hún er varla rökheld við nánari skoðun, eins og komið hefur fram í máli greinarhöfundar hér á undan þótt því sé alls ekki stefnt gegn henni sérstaklega.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Hér hefur meðal annars komið fram að höfundar Landnámu og Grágásarlaga hafa alls ekki talið allt land á Íslandi numið í öndverðu. Hið ónumda land er almenningar samkvæmt Grágás. Almenningar voru að fornu eign fjórðungsmanna samkvæmt Grágás og mun það líklega vera ein af ástæðum þess að Landnáma er fjórðungaskipt. Almenningar voru eign allra fjórðungsmanna, afréttir voru eign tiltekinna fjórðungsmanna, tveggja eða fleiri, samkvæmt Grágás og svo skal áfram vera samkvæmt Jónsbók. Eðlilegast er að líta svo á samkvæmt þessum sögulegu heimildum, Landnámu, Grágás og Jónsbók, að allt landið sé talið í eign landsmanna, hvergi sé einskismannsland á Íslandi eða land án landsdrottins. Almenningar og afréttir voru taldir eignarlönd í lögum og lögbókum þótt ónumin væru.
Að þýða „landnám“ eins og það birtist í Landnámu og fornum ritum háðum henni beint sem rómarréttarlega „occupatio“ að klassískum hætti virðist vera tímaskekkja (anakrónismi). Það væri rangtúlkun á Landnámu og raunar einnig íslensku miðaldasamfélagi.“

Í Búnaðarriti 1973 er greinargerð um svonefnda „Almenninga„.

Almenningur

Fjárskjól í Almenningi í Hraunum.

„Íslendingar eru um það einir þjóða í Evrópu, að þeir eiga skráðar heimildir um landnám, og þær heimildir eru skráðar eftir að landnámi lauk. Frásagnir af því máttu auðveldlega hafa geymzt rétt í minni manna. Landnámsmenn námu ýmist mjög stór landsvæði, er þeir síðar úthlutuðu öðrum að miklu leyti, eða minni svæði, er þeir nýttu sjálfir.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Svo er að sjá, að ekkert land hafi verið látið ónumið eða óhelgað. Þess er getið á tveim stöðum í Landnámabók, að spildur voru ónumdar á milli landnámsjarða, en þær voru báðar bráðlega helgaðar og lagðar til hofa. Heiðar og fjöll hafa ekki verið undanskilin. Ingólfur Arnarson nemur alla spilduna milli sjávar að sunnan og vestan og Brynjudalsár og Öxarár að norðan og Ölfusár að austan, jafnt gróið land sem fjöll og firnindi.
Fjalllendi virðast sem sagt hafa verið látin fylgja þeim jörðum, sem næst þeim lágu, og svo er mjög víða enn, þótt víða hafi þau nú verið seld sem afréttarlönd. Sumir vilja telja, að öðru máli kunni að gegna um miðhálendi Íslands vegna þess, að þar eru stór svæði lítt gróin. Þessi kenning er mjög hæpin.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Gróður hefur víða minnkað stórum frá því, er var, og eru til margar sannanir um það (t.d. á Kili, landið sunnan Sprengisands og miklu víðar). Þetta land var þá nytjað, og einatt þurfti þar smölunar við. Efalaust hafa menn mjög snemma bundizt samtökum um nýtingu lands og smölun, og framkvæmt þær eftir fyrirmælum goða og síðar hreppstjórnarmanna.
Það er fullvíst, að sveitarfélög og upprekstrarfélög hafa ávallt talið, að afréttarlönd, er þau hafa nytjað frá fornu fari, hafi verið og séu óskoruð eign þeirra (nema þar, sem einstaka jarðir eða kirkjur áttu ítök, sem oftast voru veiðiítök), þótt ekki séu kaup- eða afsalsbréf til nú. Í fornum ritum eða skjölum finnst hvergi, hvar sem leitað er, nokkur heimild um það, að ríkið eða þjóðarheildin hafi átt afrétt eða heiðalönd.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Mönnum var auðvitað heimil ferð um afrétt eins og annað land, og beit og jafnvel veiði, á meðan á ferð stóð. Hreppar, eftir að þeir voru myndaðir, sem trúlega hefur gerzt skömmu eftir, að landnámi lauk, og upprekstrarfélög geta hafa eignazt afréttarlönd löngu áður en farið var að færa gerninga í letur eða á skrá, og engin áslæða var fyrir menn til bréfagerða um það síðar, því að enginn vefengdi rétt þeirra, og ekki þurftu þeir að svara sjálfum sér.
Nær alltaf er vitað, að notaréttur sveitar- eða upprekstrarfélaga er ævagamall. En því fer víðs fjarri, að það afsanni eignarrétt á landi, þótt ekki séu nú til aðrar heimildir frá fyrri tímum en um beitarnot af afréttinum.

Eignarrétti lands var oftast ekki unnt að viðhalda með öðrum hætti en þeim, að eigendur nytjuðu það á þann hátt, sem möguleikar voru til. Sum þessara nota voru að mestu bundin við árstíðir, eins og til dæmis not afréttarlands. Þar var naumast um önnur not að ræða en beit og grasatekju og sums staðar veiði, sem oft var þó einungis nýtt á sumardag sakir fjarlægðar frá byggð.

Almenningur

Vörðukort af Almenningi í Hraunum.

Nýir atvinnuhættir og gerbreytt tækni veldur því, að nú er unnt að nýta land á margan hátt, sem áður var ógerlegt. Má um það nefna að sjálfsögðu fjölda dæma, t. d. virkjun vatna og notkun sands og malarnáma. Þessi þróun getur ekki valdið því, að ríkið eignist gœði lands og jarðar jafnótt og möguleiki skapast til að nota þau. Fáir eða engir halda því heldur fram, þegar um land í einkaeigu er að ræða, en hví skyldi gegna öðru máli um land sveitarfélaga?

Óttarsstaðasel

Í Óttarsstaðaseli í Hraunum. Liður í Ratleik Hafnarfjarðar.

Löggjöf vor gerir ráð fyrir því á nokkrum stöðum, að til séu almenningar. Nefndar athugasemdir, er fylgja frumvarpi til námulaga, virðast gera ráð fyrir, að þeir séu eign þjóðarheildarinnar. Öll rök hníga að því, að sú kenning sé alröng, og ríkið (eða konungur fyrr á tímum) hafi aldrei átt almenninga.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Almenningar, sem oftar en hitt hafa verið við sjó og tengdir við hlunnindi, hafa ef til vill stöku sinnum verið eign fjórðungsmanna (sbr. Grágás), en oftast eign eða afnotaland fárra jarða eða eins hrepps. Þannig er enn um Almenning í Biskupstungum, að hann er eign Haukadalsjarða. Almenningur í Þjórsárdal var skógarítak nokkurra hreppa og Skálholtsstóls.
Almenningur suður frá Öxnadalsheiði var afréttur jarða í Öxnadal með ítaksrétti einnar jarðar þar, og þannig má telja fjölda dæma. Mörg þau svæði, er bera heiti af almenningi, eru og hafa verið um óratíma eign einstakra jarða. Efalaust hafa almenningar þessir verið hluti af landi jarða, en verið dæmdir af mönnum fyrir sakferli. Finnast frásagnir um slíka refsidóma bæði í Íslendingabók og Landnámu og Sturlungu. Þess munu og finnast dæmi, að í hallæri hafi mönnum verið tildæmdur almenningur (hlunnindaalmenningur) til að geta bjargað sér frá því að lenda á vergangi, en, eins og fyrr er sagt, örlar hvergi á því í fornum lögum eða skrám, að ríkið (þjóðarheildin) eigi almenning.
Vill Búnaðarþing því sterklega vara við þeirri ásælni, sem orðið hefur vart bæði með flutningi frumvarpa á Alþingi í ýmsum myndum og með málarekstri gegn sveitarfélögum, að ríkið eigi almenninga og drjúgan hluta afréttarlanda.“

Sjá meira um Almenning í Hraunum HÉR.

Heimildir:
-Tímarit lögfræðinga, 1. tbl. 01.02.1998, Þorgeir Örlygsson, prófessor, Hver á kvótann?, bls. 35-36.
-Saga, 2. tbl. 2008, Sveinbjörn Rafnsson, Hvað er Landnámabók?, bls. 189-196.
-Búnaðarrit, 1. tbl. 01.01.1973, bls. 193-194.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, Jónatan Garðarsson, Útivistarperlan í Hraunum, bls. 168-169.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.