Reykjanes (1926) – V.St.; „Einhver einkennilegasti staður í nágrenni Reykjavíkur“
Eftirfarandi grein, „Einhver einkennilegasti staður í nágrenni Reykjavíkur“, eftir V. St. birtist í Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926. Efnið gæti að mörgu leyti átt við í dag, 97 árum síðar.
“Fæstir Reykvíkingar þekkja hið eiginlega Reykjanes, þó undarlegt megi virðast. Er óhætt að fullyrða, að margir hafa dvalið hjér langvistum í höfuðstaðnum, án þes að vita, hvar á Reykjanesskaga hið einkennilega Reykjanes er; en það er skagatotan syðst og vestast á Reykjanesskaga, þar sem er vitinn mikli, þar sem Vigfús Grænlandsfari var vitavörður um langt skeið. En hann hrökklaðist þaðan í fyrra og er sagt að hann, eða einkum fjölskylda hans, hafi verið búin að fá nóg af þarvistinni, jarðskjálftunum og erfiðleikunum á Reykjanesinu.
Á Reykjanesi er einhver einkennilegasta og stórfenglegasta náttúra, sem þekkist hér í nágrenni. Þar er land allt hrauni þakið, gígar margir og gróður lítill eða enginn. Þar eru þverhnýptir fuglaklettar í sjó fram. – Í sjávarhamrana eru hellrar miklir og merkilegir. Á felli einu bröttu stendur vitinn, hár og reisulegur, en úr umhverfinu rýkur, þegar kyrrt er veður, eins og það væri alelda.
Þar er litli Geysir. Hann gýs hátt með mikilli gufu, og hinn heljarmikli leirhver, Gunna, sem hefir verið spök um hríð, er er nú að rífa sig. Og þar eru jarðskjálftar svo tíðir, að heimafólk á vitavarðabústanum tekur eigi til þess, þó húsgögn leiki þar á reiðiskjálfi, og rúður skrölti í gluggum.
Frá Reykjanesi er rösk tveggja tíma ferð til byggða, hvort heldur er frið austur á bóginn til Grindavíkur, eða norður til Hafna.
Sjaldan er gestkvæmt á Reykjanesi, enda eigi að vænta að vetri til; en á sumrin væri það ætlandi, að margir Reykvíkingar kysu heldur að skussast með bifreið suður til Grindavíkur eða Hafnir og ganga síðan um hin einkennilegu hraun, 2-3 tíma ferð út á Reykjanes, heldur en gleypa hjér göturykið í Reykjavík um helgar og góna á náungann. Þeir, sem eru allra fótlatastir, geta fengið sér hesta, þar sem akveg þrýtur. En að því er lítill flýtisauki, því akvegurinn er ljelegur.
Margur farkostur hefir strandað á suðurströnd Reykjaness, og margur sjógarpur látið líf sitt í þeim ægilega brimgarði, þar sem öldur úthafsins skella á sundurtættum hraunhömrunum.
Í vetur sem leið druknuðu margir vaskir drengir í lendingunni í Grindavík. Það var á björtum sólskinsdegi; og gátu menn notið góðviðris og sleikt sólskinið hjér inni í Reykjavík, þó svona væri þar.
Skammt frá Járngerðarstaðahverfinu liggur nú togarinn Ása, fáar skipslengdir frá fjöruborði, Er búist við, að hún náist út, með stórstraum. Það er að segja, eftir því sem björgunarmenn segja. En Grindvíkingar voru lengi vel vantrúaðir á, að hægt væri að ná skipi á flot, sem hefði haft þar jafn náin kynni af ströndinni, eins og Ása.
Á rekafjöru frá Grindavík vestur að Reykjanesi, verður fyrir augum manns margskonar hrygðarsjón. En í því umhverfi, sem þar er, blandast hrygðin lotningu fyrir stórfenglegum náttúruöflunum.
Fyrir ströndinni er víða hár sjávarkampur, þar sem eigi hamrar ganga í sjó fram. En þeim, sem aldir eru upp við norðlenska firði, þykir hjer vera allmjög á annan veg, en þar er títt. Þar eru sjávarkambar úr smágrjóti og möl, svo greiðfærir, að hægt er að ríða þá í fleng, á hvötum, fótvissum hesti. En hjer er kamburinn margra metra hár úr stórgrýti, sem hestar geta vart fótað sig á, hvað þá heldur meira.
Slíkur er aflsmunur brimsins, er hefir verið að verki hjer og norður þar, enda er reynsla fyrir því, að sunnlenska brimið rótar björgum til, sem eru tugir tonna að þyngd.
Í túnfætinum á Staðarhverfi, skammt vestan við Járngerðarstaði, er skrokkur af enskum togara. Spölkorn þaðan, vestan, fórst færeyska skútan í hitteðfyrra, þar sem allir skipverjar týndust og ekki fannst örmul af, nema þóftubútur með nafni skútunnar og annað smábrak.
Svona mætti víst lengi telja. Meðfram allri ströndinni liggur mikið vogrek, og mest er það unninn viður, og á því sennilega hver spýta sína sögu, í sambandi við slys og tjón. Þar er á hverju strái allskonar skran; beyglaðar, ryðgaðar jártnplötur, dunkar, tunnur, skipskörfuræflar, og á löngu svæði er nú meðfram götuslóðinni við ströndina sáld af slöskutöppum. Einkennileg tilbreyting í viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem lýsir sjer í öllu brakinu. Ósjálfrátt rennir maður huganum til íslensks sjávarútvegar, til þess, hve lífskjör og lífsbarátta er hörð, þar sem hver fjölskyldumaður á lífsuppeldi sitt og sinna að sækja yfir brimgarð sem þenna.
Skömmu áður en komið er út að Reykjanesvita, er farið fram hjá gígbungu einni, Háleyjarbungu. Er gígur þessi, (að sögn Þ.Th.), um 440 fet að þvermáli, og tæp 150 fet á dýpt.
Þegar þangað kemur, blasa við reykir hverasvæðisins. Er vegurinn sæmilega greiðfær, sem eftri er, og er maður brátt kominn inn á hverasvæðið.
Til vinstri handar við götuna er Litli-Geysir. Hann gýs ört, og fer vatnsstrókurinn stundum 3 til 4 metra í loft upp. Hann gýs sjávarvatni, og er þó um 100 et yfir sjávarmál. Rjett við hann er leirhver einn mikill. Í honum vellur gráleit eðja og gýs upp úr skálinni, en sljákkar á milli, og er skálin eða gjótan þá þurr og allt með kyrrum kjörum stundarkorn, uns nýtt gos byrjar.
Spölkorn norðar er hin nafntogaða Gunna, einhver mesti og “helvítasti” leirhver á landinu, í orðsins upprunalegu merkingu, enda valdi hinn fjölkunnugi Eiríkur á Vogsósum Gunnu sem hentugast sáluhlið handa þeim, sem hann útbjó greiðan gang niður til þess neðsta.
Gunna er eigi ein samfelld hveraskál, heldur er það mikill leirpyttaklasi, sem ber þetta nafn. Er jörðin þar öll sundursoðin og logandi.
Sögusögn er um það, að um þessar slóðir sje einhvers staðar hin víðfræga jarðskjálftagjá Páls Torfasonar; en á því veit jeg eigi deili. En gjár eru þar svo margar, og jarðskjálftar sennilega óvíða tíðari í heiminum, svo mjög er eðlilegt, að velja slíkum merkisgrip þar samastað.
Gamli Reykjanesviti stóð á hinum svonefnda Valahnúki. Er það móbergshóll, eða öllu heldur leifar af hól, því ekki er nema endinn eftir, sem eigi á langt eftir ólifað á jarðfræðivísu, því sjávarbrimið er langt komið að eyða honum.
Uppi á ströndinni, skammt frá sjávarhamrabrúninni, var vitinn reistur, áttstrendur turn úr hraungrýti, segir Þ. Th., og loftsvalir yfir, en þar upp af voru ljóskerin, er Danir gáfu, og kostuðu 12 þús. kr.
En sífellt hrundi úr berginu, því um sjávarborð er bergið lint. Eru þar því hellar miklir og merkilegir, í bergið. Jarðgöng hafa þannig myndast gegnum einn hluta Valahnúks. Er afar einkennilegt um fjörum að standa niðri í stórgrýtinu framan við bergið, með hafrótið hvítfyssandi á aðra hönd, og gínandi hellisskúta á hina.
Mávar verpa í berginu, og eru gæfir um þessar mundir.
Það þótti eigi tryggt að hafa vitann lengur á Valahnúki. – Bergið gat hrunið í sjó fram við einhvern jarðskjálftarkippinn; – Því var ráðist í það að byggja annan vita a Vatnsfelli. Er það hóll álíka að gerð og Valahnúkur, nema hvað han er heill, því hann stendur inni í landi. Heill er e.t.v. of mikið sagt, því þarna er helst allt sprungið, – þó hann sje hinn rammbyggilegasta smíði. Hann er 30 metra hár. Uppi undir ljóskeri er vitavarðarherbergi. Þar verður að vera vörður alla stund meðan ljós er á vitanum. Má get nærri, aðþað er eigi viðkunnalegt staða þegar jarðskjálfatr eru mjög tíðit og regnskúrir, að kúldrast þarna uppi í 30 metra háum turninum, þegar turninn dinglar eins og “reyr af vindi skekinn.”
Eins og nærri má geta, er hið ágætasta útsýni úr vitanum inn yfir Reykjanesskaga og langt á haf út.
Undir Vatnsfelli er vitavarðabústaðurinn. Þar er nú Ólafur Sveinsson vitavörður. Hann var ekki heima er við komum þangað fjórir umdaginn, Þjóðverjar tveir, málarinn Webepohl, Lubinski blaðamaður, Ragnar Ásgeirsson garðyrkjumaður og jeg.
Mikið höfðu útlendingarnir undrast öll náttúrufyrirbrigði, er fyrir augu vor bar; hefir Lubinski nýverið farið um Sahara, Túnis, Algier, Spán, Frakkland og víðar.
Aldrei kvaðst hann hafa komið á jafn undraverðan stað og þenna. En eitt var undrunarefni hans enn, og það var að finna þarna úti í auðninni, aðra eins framleiðslu við kaffiborðið og hjá konu vitavarðarins, og jafn skýran og frjálsmannlegan pilt og son vitavarðar, 13 ára gamlan, er fylgdi okkur um nágrennið.
Svona eru ekki unglingarnir í borgunum okkar á Þýskalandi, sagði hann, enda fá þeir annað uppeldi en hjer fæst í þessu mikilúðlega umhverfi.
Er við vorum að standa upp frá kaffiborðinu, heyrðust allt í einu drunur miklar svo undir tók, og á vetvangi ljek allt á reiðiskjáli. Útlendingarnir skimuðu og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en við Ragnar þóttumst heimavanir og sögðum rjett sisona, að þetta væri ekki annað en jarðskjálfti, rjett eins og við hefðum pantað hann sem síðasta númer á skemmtiskránni.
Til allrar hamingju voru þeir ekki búnir að heyra um gjána hans Páls, annars hefðu þeir haldið, að nú hefði einhver dengt í hann grjóti þeim til skemmtunar.”
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926 – eftir V.St.