Reykjanesskagi – landfræðilegir staðhættir

Hvaleyrarvatn

Í ritgerð Daníels Páls Jónassonar; Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða“, hjá Háskóla íslands 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um um jarðfræði Reykjanesskagans:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi (Jón Jónsson, 1983, 127).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli (Ármann Höskuldsson, Hey., Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007). Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn (Kristján Sæmundsson, 2010a) en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið (Weir o.fl., 2001). Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs (Kristján Sæmundsson, 2010a). Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar (Peate o.fl., 2009).

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – gosskeið.

Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára (Peate o.fl., 2009) en stór hluti yfirborðs Reykjaness þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum (Elsa G. Vilmundardóttir, 1997).

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi (Páll Imsland, 1998). Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi (e. Dry Rock Equivalent, DRE) (Þorvaldur Þórðarson & Ármann Höskuldsson, 2008). Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).“

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Á vefsíðunni ferlir.is segir auk þess um aðstæður á svæðinu: „Þar sem hraun þekur mest af yfirborði á sunnanverðum Reykjanesskagans er lítið um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt.
Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki í hraununum. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.

Reykjanesskagi 1944.

Reykjanesskagi 1844.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni. Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda dágott skjól víða á Reykjanesinu. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu. Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði (undir þráinskyldi) sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum og þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.“
Um gróður á Reykjanesskaganum segir jafnframt: „Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis. Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Vötn, ár og lækir eru víðast hvar, hvort sem litið er á norðanverðan Skagann; Hvalvatn, Meðalfellsvatn, Fossá, Laxá,  Bleikdaslá, Bugðu, Köldukvís, Leirvogsá o.s.frv., eða á honum sunnanverðum; Ölfusá, Elliðaár, Rauðará, Rauðavatn, Elliðavatn, Urriðavatn, Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Kaldá, Djúpavatn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Eystri-Lækur, vestri-Lækur, Seltjörn o.s.frv.
Seljabúkapurinn hefur ekki síst stuðlað að viðhaldi og útbreiðslu plantna sem og nýgróðurs. Þegar leitað er leifa fyrrum seljabúskapsins á Reykjanesskaganum má a.m.k. ganga út frá tvennu sem vísu; grasi í móa í skjóli við hól, hæð, misgengi eða gjá, fyrir austanáttinni (rigningaráttinni), og á, læk, vatni eða vatnsbóli. Báðir staðirnir bjóða því jafnan, auk minjanna, upp á fölskrúðuga flóru allt umhverfis.“

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða; Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2012.
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum-2/
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.