Herkampar og örnefni
Eftirfarandi fróðleik um kampa (herskálasvæði) og örnefni þeim tengdum á árunum 1940-1945 má lesa á vef Árnastofnunar:
„Árið 1940 var upphaf eins merkasta tímabils í sögu Íslands, en 10. maí það ár var landið hernumið af Bretum. Styrjöld hafði hafist í Evrópu með innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939 og stríðsyfirlýsingum Breta og Frakka gegn Þjóðverjum. Í lok apríl 1940 höfðu Þjóðverjar lagt undir sig Danmörku og Noreg og sóttu fram á öllum vesturvígstöðvunum, var aðeins tímaspursmál hvenær Frakkland, Belgía og Holland féllu. Stríðið um Atlantshafið var þá hafið og töldu Bretar sér stafa ógn af staðsetningu Íslands ef það lenti í óvinahöndum. En Winston S. Churchill hafði vitnað í eftirfarandi sem haft var eftir Karli Haushofer: „Hver sá sem ræður Íslandi beinir byssu að Englandi, Ameríku og Kanada.“ Þessi ummæli töldu Bretar m.a. réttlæta hernám Íslands.
Hernámið
Þegar breskur her, landgöngusveitir flotans eða Royal Marines, gekk hér á land 10. maí 1940 var lítið um varnir. Hluti af landhernum fylgdi svo í kjölfarið viku síðar eða 17. maí, yfirstjórn hersins undir stjórn Henrys O. Curtis hershöfðingja kom 26. maí og síðan hver deildin af annarri næstu vikurnar á eftir. Breski herinn lagði strax undir sig það húsnæði sem hann taldi sig þurfa á að halda til að hýsa sína menn og starfsemi, þar má nefna ÍR húsið við Landakot, KR húsið sem stóð þar sem ráðhús Reykjavíkur er í dag, Austurbæjarbarnaskólann, Miðbæjarbarnaskólann, Menntaskólann í Reykjavík sem var gerður að aðalstöðvum hersins, Hafnarhúsið og Hótel Borg o.fl.
Þar sem nægjanlegt húsnæði fyrir þann fjölda hermanna sem settist að í og við Reykjavík var ekki fyrir hendi reisti herinn í fyrstu tjaldbúðir. Síðan var hafist handa við að reisa hermannaskála eða svokallaða bragga, og á skömmum tíma risu upp braggahverfi víðsvegar í Reykjavík og nágrenni.
Hermennirnir fluttu jafnóðum úr því húsnæði sem þeir höfðu lagt undir sig við hernámið í braggahverfin. Í framhaldi af því var farið að gefa hverfunum nöfn. Má geta þess að aðalstöðvar hersins, sem höfðu verið í Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu, voru fluttar í hverfi inn við Elliðaár er hlaut nafnið Camp Alabaster. Alabaster var dulnefni sem Bretar notuðu yfir áætlun og framkvæmd á hertöku Íslands og var liðið sem sent var til landsins kallað Alabaster Force.
Kamparnir eða braggahverfin í Reykjavík urðu um 80 talsins en hverfanöfnin um 100 þar sem skipt var um nöfn á sumum kömpum og það oftar en einu sinni, í einstaka tilfellum. Hér verður aðeins drepið á nokkur þessara nafna og getið uppruna þeirra; auk þess verður aðeins getið um ensk og bandarísk götu- og staðarheiti í og við Reykjavík frá sama tímabili, þ.e. 1940-1945. (Sjá kort.)
Breskir kampar
Flestir bresku hermannanna komu frá Norður-Englandi, t.d. Yorkshire, og kölluðu þeir sína kampa yfirleitt eftir bæjarnöfnum í heimahéruðum sínum eða þá stöku stað víðsvegar um Bretland. Má hér til dæmis nefna að á Skólavörðuholti, þar sem Hallgrímskirkja stendur nú, var braggahverfi sem kallað var Camp Skipton. (Sjá mynd.) Kampurinn var nefndur eftir bæ í Norður- Yorkshire sem er nokkuð miðsvæðis í Yorkshire. Í augum Breta er bærinn The Gateway to the Dales eða Hliðið að dölunum. Áður fyrr fóru bændur í Yorkshiredölum með sláturfé og nautgripi um Skipton. Þangað komu sérstakar lestir eftir búpeningnum og fluttu til slöktunar. Camp Skipton er líklega einn fyrsti kampurinn ef ekki sá fyrsti sem Bretar reistu í Reykjavík. Skólavörðuholt var eiginlega miðpunktur Reykjavíkur á þessum tíma og áður hafði aðalleiðin út úr bænum legið um holtið svo það er sennilega engin tilviljun að þessi kampur hlaut nafnið Skipton.
Nokkur önnur braggahverfi reist af Bretum báru nöfn sem rekja má til Yorkshire eins og hér má sjá:
Camp Bingley, var vestan við Smyrilsveg á horni Smyrilsvegar og Hjarðarhaga.
Camp Bradford, var austan við Langholtsveg á horni Holtavegar og þar sem nú er Efstasund. Holtavegur lá á þeim tíma yfir á Suðurlandsbraut og kölluðu þeir hann Bradford Road.
Camp Harrogate, var vestan við Sundlaugaveg og afmarkaðist af Sundlaugavegi, Gullteig og Hraunteig.
Camp Keighley, var á Valhúsahæð en hæðina kölluðu Bretar Keighley Hill. Til gamans má geta þess að skammt sunnan við Keighley bjuggu þær frægu Bronté-systur, rithöfundarnir Emily Jane, Charlotte og Anne.
Camp Ripon var í Sogamýri við Tunguveg, hér er einnig um heiti á smábæ í Norður-Yorkshire að ræða.
Selby Camp, var í Sogamýri sunnan við Sogaveg og austan Réttarholtsvegar.
Camp Tadcaster, var þar sem nú er eystri göngubrúin yfir Miklubraut norðan við Rauðagerði. Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervörnum landsins voru aðalstöðvar þeirra fluttar í Tadcaster. Fljótlega breyttu þeir nafninu í Camp Pershing. Síðar fluttu þeir í fyrrum aðalstöðvar breska hersins í Camp Alabaster inn við Ártúnsbrekku og breyttu því nafni í Camp Pershing en Camp Pershing, áður Camp Tadcaster, í Camp Curtis til heiðurs breska yfirhershöfðingjanum Henry O. Curtis sem var að fara af landi brott.
Kaninn kemur
Árið 1941 var gerður sérstakur samningur milli Íslendinga, Breta og Bandaríkjamanna um að Bandaríkjamenn tækju við vörnum landsins á meðan ríkjandi ástand varði. Þetta var gert til að losa um breska hermenn, sem hér voru, og þörf var á vegna hernaðarátaka, m.a. í Norður-Afríku og Asíu. Bandarískir landgönguliðar flotans, United States Marines, voru fyrstu bandarísku hermennirnir sem stigu hér á land, 7. júlí 1941. Breski herinn rýmdi bragga og braggahverfi fyrir landgönguliðana svo þeir þurftu ekki að byrja á því að hírast í tjöldum eða leggja undir sig íþrótta- eða skólahús. Í kjölfar landgönguliðanna kom svo landherinn, U.S. Army. Brátt fóru Bretarnir að hverfa á brott og halda heim á leið, en Bandaríkjamönnum fór fjölgandi. Í lok desember 1942 voru um það bil 38.000 bandarískir hermenn á Íslandi, sem höfðu aðsetur í um 300 kömpum víðsvegar um landið. Bandaríkjamennirnir ýmist fluttu inn í bresku kampana eða byggðu nýja. Í mörgum tilfellum breyttu þeir nöfnum bresku kampanna og gáfu nýju hverfunum nöfn.
Bandarískir kampar
Það var nokkur munur á nafngiftum Breta og Bandaríkjamanna á kömpunum. Bretar eins og áður hefur komið fram leituðu til heimahéraða sinna, bæði eftir bæjar- og staðarnöfnum. Nafngiftir Bandaríkjamanna virðast allar tengdar hernaðarsögu þeirra og voru þau breytileg eftir því hver átti í hlut, landgönguliðið, flotinn, landherinn eða flugher landhersins.
Landgöngulið flotans, U.S.M.C., nefndi sína kampa eftir frægum stöðum þar sem þeir höfðu háð orrustur og má hér nefna:
Tripoli Camp. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins sameinuðu þeir tvo breska kampa vestur á Melum, þá Camp Camberley og Crownhill Camp, í einn og kölluðu hann Tripoli Camp. Camp Camberley var kallaður eftir bæ í Surrey á Suður-Englandi, sem er á milli Ascot og Farnbourough, en Crownhill er hinsvegar nafn á strandvirki við hafnarborgina Plymouth á Suður- Englandi. Árin 1801-1805 áttu Bandaríkjamenn í stríði við sjóræningja frá borginni Tripoli í Líbíu í Norður-Afríku.
Camp Montezuma var uppi við Úlfarsfell þar sem Skyggnir er nú. Árin 1842-1847 áttu Bandaríkjamenn í stríði við Mexikó. Landgöngusveitir flotans tóku undir lok þess stríðs Þjóðarhöllina í Mexikóborg en hún mun standa á sama stað og höll Montezuma síðasta konungs Azteka, sem var drepinn 1520.
Bæði þessi nöfn koma fyrir í fyrsta erindi lofsöngs bandarísku landgönguliðanna:
The Marines Hymn:
From the halls of Montezuma
To the shores of Tripoli,
We fight our country’s battles
On the land as on the sea.
First to fight for right and freedom
And to keep our honor clean;
We are proud to claim the title of
United States Marines
Til gamans má geta þess að þegar landgönguliðarnir komu hér fyrstir bandarískra hermanna 7. júlí 1941 bættu þeir inn í lofsönginn þessu erindi:
Again in nineteen forty one
We sailed a northern course
And found beneath the Midnight Sun
The Viking and the Norse
This old Icelandic nation
We’ll defend by every means
And uphold the reputation
of The United States Marines
Camp Corregidor var vestan við Brautarholt á Kjalarnesi. Kampurinn var kenndur við síðasta vígi Bandaríkjamanna, sem féll í hendur Japana, á Filippseyjum í seinni heimsstyrjöldinni er var á eynni Corregidor í mynni Manilaflóa.
Camp Tientsin var vestan við Úlfarsfell við Leirtjörn, sem landgönguliðarnir kölluðu Tientsin Lake. Tientsin þýðir bókstaflega „Hið himneska vað“ en það er nafn á hafnarborg í Kína sem stendur við Hai Ho fljót og er um 56 kílómetra inni í landi frá Bo Hai flóa. Þessi staður kom mjög við sögu í hinu svokallaða Boxarastríði árið 1900 þegar fjölþjóðlegur her lenti þar og marseraði til Peking (Beijing) til að leysa sendiráð vestrænna ríkja úr umsátri sem stóð í 55 daga. Fjölmennasti herinn var úr landgönguliði bandaríska flotans eins og svo oft áður.
Kampar flotans voru víða en hér er aðeins getið um tvo þeirra:
Camp Bunker Hill. Í þessum kampi voru aðalstöðvar flugdeildar bandaríska sjóhersins og strandvarna eða „coastal artillery“. Kampurinn var sunnan við Bústaðaveg, nánast þar sem brúin yfir Kringlumýrarbraut er nú. Bunker Hill er algengt í bandarískri hernaðarsögu og hefur fylgt bandaríska hernum nánast hvar sem hann hefur haft herstöðvar eða átt í hernaðarátökum. Nafnið kemur frá samnefndum stað við Boston í Massachusetts, þar sem frelsisher Bandaríkjanna háði sína fyrstu stórorrustu gegn breska hernum 17. júní 1775.
Herkampur var í Urriðaholti, nefndur Camp Russel.
Tveir kampar voru í Garðaholti, Camp Gardar og Camp Tilloi. Þá var loftskeytastöð á Álftanesi; Camp Jörfi. Kampabyggðin í Hafnarfirði þjónaði m.a. varðstöðu á Ásfjalli og nálægum svæðum. Hvaleyrarkampur annaðist varnir við innsiglinguna í Hafnarfjörð.
Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana Camp Gardar og Camp Tilloi, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir: “Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.
Camp Knox var við Kaplaskjól, milli Reynimels, Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu, nánast á svæði Sundlaugar Vesturbæjar. Þar var aðsetur bandaríska sjóhersins á Íslandi. Þetta er einn þekktasti kampurinn í sögu Reykjavíkur. Hann var nefndur eftir Frank Knox, sem var flotamálaráðherra 1940–1944 eða í seinni stjórn Franklín D. Roosvelts forseta. Hann barðist á Kúbu í liði Theodor Roosvelts í spánsk-ameríska stríðinu 1898 og síðar í Frakklandi, í fyrri heimsstyrjöldinni.
Í Camp Knox var öllum sjóliðum bandaríska flotans, sem höfðu orðið skipreika og bjargað, komið fyrir til aðhlynningar. Skipreika menn úr kaupskipaflotanum voru hinsvegar hýstir í Camp Caledonia, er var betur þekktur sem Múlakampur. Hann var vestan við Suðurlandsbraut, á móts við Múla, en nú má miða við Laugardalshöllina þar sem Múli er horfinn.
Landherinn kenndi marga af sínum kömpum í og við Reykjavík við fræga hershöfðingja úr sinni sögu:
Camp Pershing, sem fjallað er um hér að framan, var kenndur við John J. Pershing, sem var yfirhershöfðingi bandaríska hersins í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni.
Camp Sheridan var rétt norðan við Bráðræði, milli Seilugranda og Frostaskjóls.
Sheridan er nafn á einum frægasta hershöfðingja norðanmanna í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum 1861-1865. Er honum jafnað við hershöfðingjana Grant og Sherman.
Camp MacArthur var í Mosfellssveit og var kenndur við Douglas MacArthur einn frægasta hershöfðingja Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Flugdeild landhersins, „U.S. Army Airforce“, nefndi nokkra af sínum kömpum og flugvöllum eftir flugmönnum, sem látist höfðu af slysförum.
Meeks Camp var við Meeks Field, sem seinna hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.
Kampurinn og flugvöllurinn var kallaður eftir fyrsta bandaríska herflugmanninum sem fórst á Íslandi, George Meeks. Það gerðist fyrir hádegi 19. ágúst 1941. George Meeks var að koma á orrustuflugvél sinni inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, frá norðri. Hermaður mun hafa hjólað út á flugbrautina og flugmaðurinn þá fengið merki um að taka upp aftur. Hann var í lágflugi. Í stað þess að halda áfram í beinni stefnu eftir brautinni þá beygði hann til vinstri með þeim afleiðingum að hann flaug á loftnetsvírstreng, sem var strengdur á milli tveggja mastra. Annað mastrið brotnaði og hluti af öðrum væng vélarinnar. Vírdræsa vafðist um skrúfu vélarinnar og hún steyptist stjórnlaus í Skerjafjörðinn við Nauthólsvík. Flugmaðurinn mun hafa látist samstundis.
Eitt undarlegasta nafn á braggahverfi, sem hér var, var Camp Kwitcherbelliakin (Quit-Your-Belly-Aching), sem mun þýða „hættu þessu nöldri“. Þessi kampur tilheyrði flugdeild bandaríska sjóhersins og var staðsettur við Nauthólsvík. Yfirmaður flugdeildarinnar, Dan Gallery kapteinn, var um margt sérstakur maður en nafngift kampsins er hans. Hann varð frægur fyrir stjórn á töku þýsks kafbáts, U-505, 4. júní 1944, en þá var hann kapteinn á flugmóðurskipinu USS Guadalcanal. U-505 er nú sýningargripur í Chicago. Dan Gallery varð síðar aðmíráll. Eftir heimsstyjöldina skrifaði hann nokkrar greinar í Saturday Evening Post um reynslu sína á stríðsárunum, m.a. um dvöl sína á Íslandi. Það er ekki hægt að segja að hann hafi skrifað neitt jákvætt um landið eða dvölina hér.
Íslensk kampanöfn
Bretar og Bandaríkjamenn gáfu nokkrum kömpum íslensk nöfn eða höfðuðu til íslenskra staðhátta. Verður nokkurra þeirra getið hér:
Camp Leynimýri var á svæðinu við Bústaðaveg þar sem Veðurstofa Íslands er.
Camp Fossvogur var þar sem Nesti í Fossvogi er nú.
Camp Ártún var við bæinn Ártún í Elliðaárdal.
Camp Hálogaland var kenndur við samnefndan bæ og var á svæðinu sem markast af Suðurlandsbraut, Skeiðarvogi og Gnoðarvogi.
Camp Langholt var austan við Langholtsveg rétt við Skeiðarvog.
Herskóla Camp var þar sem hús Landssímans er við Suðurlandsbraut. Margir kölluðu þennan kamp „Herskálakamp“ það mun hafa komið til af því hve orðin herskóli og herskáli eru lík í framburði. Þarna ráku Bretar herskóla sem mun hafa verið sá fyrsti í seinni heimsstyrjöldinni, sem kenndi vetrarhernað.
Laugarnes Camp var á samnefndu svæði norðaustan við Kirkjusand.
Camp Defensor var við samnefnt hús við Borgartún; Balbo Camp nefndur eftir Balbo, ítalska flugkappanum, en kampurinn var uppi á hæð norðan við Vatnagarða og austan við Kleppsveg (Sæbraut).
Camp Ingolfs var við Ingólfsstræti þar sem Hallveigarstaðir eru nú; Camp National Theatre, þetta var kampur við Þjóðleikhúsið.
Stadium Camp var við gamla íþróttavöllinn á Melunum eða Melavöllinn þar sem Þjóðarbókhlaðan er.
Camp Tower Hill var vestan við Sjómannaskólann og fékk nafnið af vatnstankinum sem þar er.
Eftirtaldir þrír kampar voru allir á Kjalarnesi og voru við þá staði, sem þeir eru kenndir við:
Camp Arnholt (Arnarholt).
Camp Brautarholt.
Camp Saurbær, sá kampur var upp við þjóðveginn en ekki niður við kirkjustaðinn.
„Örnefni“
Bretar og Bandaríkjamenn áttu oft í mesta basli við að bera fram íslensk staðarnöfn og gripu þá til þeirra ráða að nefna staði enskum eða bandarískum nöfnum eftir því sem hentaði. Það virðist samt svo að Bretar hafi verið duglegri við þetta, að minnsta kosti í Reykjavík. Verður hér getið örfárra staða, sem hlutu þessi örlög.
Álftanes:
Bless Bay (Bessastaðatjörn); Deilit (Deild); Spidnholt (Sviðholt); Bottle Neck Bay (Skógtjörn) og Lamb Bay (Lambhúsatjörn).
Arnarnes og austan við það:
Puffin Bay (Arnarnesvogur); Puffin Point (Arnarnestá), þetta getur aðeins þýtt það að þarna hafi verið eitthvað um lunda; Gala Hill (Hnoðraholt) og Hawick Hill (Selhryggur). Hawick er bær i Skotlandi rétt norðan við landamæri Englands og Skotlands. Nafnið kemur trúlega þaðan.
Kópavogur:
Hilton Road, lá frá Hafnarfjarðarvegi næst Kópavogslæk eða þar sem Fífuhvammur er nú. Hilton Flats, Smárinn eða flatirnar þar sem íþróttasvæði Kópavogs er nú.
Reykjavík:
Baldurshagi Hill, þ.e. Breiðholtshvarf, en Baldurshagi Hill var kallað svo eftir Camp Baldurshagi, sem var þar sem nú er skeiðvöllurinn austan við Elliðaár.
Consul Point. Klettarnir sem voru fyrir norðan Höfða en á þessum tíma hafði ræðismaður Breta aðsetur í Höfða.
Howitzer Hill eða Fallbyssuhæð. Bretar kölluðu Öskjuhlíðina Howitzer Hill en þar höfðu þeir komið fyrir fjölda fallbyssna auk vélbyssna til varnar flugvellinum. Það má enn sjá skotbyrgi eða vélbyssuhreiður á Howitzer Hill frá þessum tíma.
Park Lane Road. Njarðargata frá Hringbraut suður að þar sem nú er Skerplugata. Það er nokkuð augljóst að nafnið kemur frá Hljómskálagarðinum.
Tower Hill Road. Þessi gata lá frá vatnsgeyminum við Sjómannaskólann, til austurs yfir þar sem nú er Álftamýrin og allt austur að Elliðaám. Gatan var betur þekkt meðal Íslendinga sem Sogavegur.
Wellington Road eða Kringlumýrarvegur. Nafnið kemur frá herdeildinni Duke of Wellingtons Regiment, sem hér var. Vegurinn lá rétt frá mótum Laugavegar og Suðurlandsbrautar eða rétt vestan við þar sem Kringlumýrarbrautin var síðar lögð og suður að að Bústaðavegi.
Lokaorð
Hér hefur verið stiklað á stóru um sérstakt efni og í rauninni merkilegan þátt í sögu hernáms og hersetu Íslands 1940-1945. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn. Það sem hér hefur verið skráð er hreint ekki tæmandi og margt er enn hulið. Smátt og smátt bætast þó við nýjar upplýsingar, sem fylla í skörðin, og vonandi kemur að því áður en mjög langt um líður að nokkuð heildstæð mynd skapist um þetta efni.
Sjá nánar Eggert Þór Bernharðsson: Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970. JPV Forlag. Reykjavík 2000.“
Heimild:
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/kampanofn-og-ornefni-tengd-hersetu-islandi-1940-1945