Bieringstangi

Árni Óla skrifaði bókina “Strönd og Vogar” 1961. Í bókinni fjallar Árni m.a. um “Bieringstanga” og nágrenni hans á Vatnsleysuströnd:

“Hann [Bieringstangi] er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, og mun þar hafa verið útræði afar lengi. Vörin þar var hin stærsta á Ströndinni og hlaðnir kampar beggja vegna við hana fram í sjó. Var norðurkampurinn meiri og mátti lenda við hann bátum til uppskipunar.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Sumarið 1844 giftust þau Þórunn Hallgrímsdóttir, systir Egils í Minni-Vogum, og Andrés Gottfred Pétursson, og voru gefin saman af séra Sveinbimi Hallgrímssyni, er þá var aðstoðarprestur að Kálfatjörn. Segir hann í kirkjubókinni um brúðguðmann, að hann sé „fisktökumaður á Tangabúðum hjá Brunnastöðum”.
Þá hafa verið komin þar salthús og fisktökuhús. Seinna fékk þessi útgerðarstöð nafnið Bieringstangi og var kennd við Móritz W. Biering, er seinast var kaupmaður í Reykjavík og drukknaði á skipi sínu undan Mýrum í nóvember 1857. Hann var fyrst verzlunarstjóri Flensborgarverzlunar í Keflavík 1837—1842. Er því líklegast, að sú verzlun hafi látið reisa salthúsin tvö, sem á Tanganum voru. Þau voru smíðuð úr 1 3/4 þml. borðum með síum milli samskeyta, og var það gamalt byggingarlag. Á loftum þeirra voru verbúðir. Nú var það málvenja að kenna verzlanir við verzlunarstjórana, og hefir Flensborgarverzlunin í Keflavík sennilega verið kölluð „Bieringsverzlun”, meðan hann stýrði henni, og þá eðlilegt að búðirnar drægi nafn af honum.

Bieringstangi

Bieringstangi – áletrun á sjávarklöpp.

Annars var þessi verzlun lögð niður 1842, og varð Biering þá forstjóri Flensborgarverzlunar í Reykjavík og keypti hana 1850. Mun hann þá enn hafa rekið útgerðarstöðina á Tanganum, og má því vera, að hann hafi ekki verið kallaður Bieringstangi fyrr en Biering eignaðist verzlunina. Umhverfis þessa stöð risu svo upp tómthúsmannabýlin Vorhús, Hausthús, Töðugerði og Grund. Þarna var gert út fram um seinustu aldamót. Seinasti útgerðarmaður á þessum stað var Magnús Torfason, kallaður „dent“, ættaður frá Naustakoti. Hann svaf sjálfur uppi á lofti í annarri búðinni, en sjómenn hans á lofti hinnar búðarinnar. Magnús var snyrtimenni mikið og kunnur framreiðslumaður í veizlum í Reykjavík. Hann reri aldrei sjálfur. Seinasti formaður hans var Hallgrímur, sonur Andrésar Gottfreds Péturssonar. Þarna var og önnur útgerðarstöð, sem nefnd var Klapparholt. Var vör hennar skammt fyrir vestan Tangavörina. Þar gengu jafnan 4-5 skip. Þar gerði Þórður Guðmundsson á Hálsi út og hafði umsjón með salthúsi, er þar var.
Ég lét nú í ljós, að mig langaði til þess að skoða Bieringstanga. Þeir bræður, Árni hreppstjóri og Egill kennari, kváðu velkomið að fylgja mér þangað.
Bieringstangi
Við gengum svo fyrst niður að vörinni, sem Egill gamli Hallgrímsson, afi þeirra, hafði látið ryðja, og hlaðið öfluga grjótgarða beggja vegna langt út í sjó til að skýla henni. Þarna í vörinni höfðu þeir haft uppsátur báta sinna feðgarnir, hann og Klemens, og síðar þeir Klemens og Hallgrímur mágur hans. Fyrir ofan á sjávarkambinum áttu þeir sína sjóbúðina hvor og var nokkurt bil á milli þeirra. En þar höfðu þeir gert öflugan skjólvegg, svo að milli búðanna mynduðust skjólkvíar, sem voru ágætt athafnasvæði. Á sjávarkambinum höfðu þeir gert fiskreita, og þar var einnig lifrarbræðsluhús. Nú er þetta allt horfið, nema vörin og grunnar húsanna.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Við höldum svo inn með sjónum, fram hjá Grænuborg og inn á Bieringstanga. Er það alllöng leið, enda er þá komið inn í Brunnastaðahverfi. Landslag er þama breytilegt, hraunhólar og klappir með grónum dældum á milli og mýrarsundum sums staðar. Að vestanverðu á tanganum hefir stöðin verið. Sér þar enn steyptan botn úr salthúsi og móta fyrir grunni annars húss, og sums staðar eru leifar af grjótbyrgjum, þar sem fiskur var saltaður. Byrgi þessi voru ekki stór, hlaðin tóft úr tómu grjóti allhá, og síðan flatreft yfir. Niðri á sjávarkambinum voru fiskreitarnir, en þeirra sér nú ekki stað, nema hvað grjótið er þar, og hefir sjórinn brotið það upp og hlaðið því allavega.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt frá stöðinni eru rústir býlanna Vorhúsa, Hvamms, Hausthúsa og Klapparholts, og umhverfis þau ræktaðir túnblettir. Þarna var byggð nokkuð fram á þessa öld, en nú er allt komið í eyði. Einhver einkennileg kennd grípur mann, þegar reikað er um þennan grýtta sjávartanga, þar sem einu sinni var fjörugt athafnalíf, en nú ekki annað en vesalar rústir. Þessi staður er eitt af talandi táknum breyttra atvinnuhátta og að nú er komin ný öld.
Við fórum aðra leið til baka, gengum upp á gamla veginn, sem var þjóðbraut frá landnámstíð og fram til 1912, þegar akvegurinn kom í stað hennar. Frost og regn, snjór og leysingar hafa farið ómjúkum höndum um gamla veginn, svo að varla sést móta fyrir honum. Og þó eru enn uppi menn, sem muna það, þegar stórar skreiðarlestir þræddu þennan veg dag eftir dag. Svo skammt er milli gamla tímans og nýja tímans, — og gamli vegurinn hvarf með gamla tímanum.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Fleiri útróðrastöðvar voru þarna, svo sem Kristjánstangi. Þar var saltgeymsla, en ekki fisktaka. Í Eyrarkoti, sem var niðri við sjóinn fram af Vogum, voru einnig viðleguskip. Í Minni-Vogum hóf Geir Zoega farsælan útgerðarferil sinn.
Mælt er, að bændum þar syðra hafi þótt orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér um 1876, er svo margir „útlendingar“ höfðust þar við á vertíðinni. Segir sagan, að bændur á Strönd, Vogum og Njarðvíkum hafi þá tekið sig saman um að leigja ekki uppsátur og upp úr því hefði svo Reykvíkingar og Seltirningar flutt sig suður í Leiru og Garð. Þessu ber vel saman við skrárnar um spítalafiskinn, því að þá fækkar aðkomubátum þarna óðfluga. Árið 1879 eru þar ekki taldir nema 10 „útlendingar“ og árið 1880 eru þeir aðeins sex.”

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Hólmabúðir og Bieringstangi, 1961, bls. 168-173.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.