Grindavík

Eftirfarandi er lýsing Geirs Barchmans, sóknarprests á Stað í Grindavík, á landamerkjum Grindavíkur. Hafa ber í huga að þegar þetta er skrifað hafði Geir verið u.þ.b. eitt ár í Grindavík og virðist ekki vel kunnugur öllum staðháttum.
Valahnukur„Fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn í Grindavík og Krýsuvíkursókn. Staðarsókn sem nefnd var Grindavíkursókn, náði frá Valahnúk að vestan og austur að Selatöngum. Valahnúkur er landfastur klettur sem skilur að land og reka Grindavíkur og Hafna. Að austan, á Selatöngum, voru landamerki Grindavíkur- og Krýsuvíkursóknar miðuð við klett í fjörunni, sem Dágon nefnist. Skildi hann að land og reka Grindavíkur og Krýsuvíkur. Í norðri eiga Grindvíkingar hreppamörk með Njarðvíkingum, Vogamönnum og Strandarmönnum.“
Í sóknarlýsingum Geirs Bachmann frá 1835-1882 segir auk þess: „Skammt frá Valahnúk í landnorður er aðrísanda fell, Vatnsfell kallað og enn lengra í sömu átt, litla bæjarleið (sem er 3/4 úr mílu), liggur nokkuð hærra og ummálsmeira eins lagað fell, Sílfell, og eru landamerkin sjónhending milli þessarra þriggja punkta.
Af Sílfelli sést lengra Skogtil norðurs dalverpi, kallað Haugsvörðugjá, er hún bæði löng og breið, þó eigi sé fjarska djúp, með lágum klettum á sumum stöðum, en aftur upplíðanda sandflesjum á öðrum. Teygist hún með afleiðingum sínum fullkomna hálfa aðra mílu til landnorðurs, milli Sílfells og Súlna, og aðskilur land hreppanna og sóknanna, þ.e. Hafna og Grindavíkur. Súlur er bratt, einstakt fell, í kollinum aðskilið sem tvö fell færu, að austnorðanverðu með sléttri, lágri og stuttri hæð eður hálsi áfast við Stapafell, og eru Súlur, sem enn aðskilja nefndra hreppa land, eins og Stapafell, Njarðvíkurland og Grindavíkur. Stapafell er ekki eins hátt og Súlur, en ummálsmeira, og að ofanverðu í það dæld að endilöngu, svo lítur til austurs frá Stapafelli yfir hraun og ógöngur, sjónhending á lágt og lítið, einstakt fell, Litla-Skógfell, sem stendur í hrauni þessu. Aftur eru mörkin enn í austur í annað enn lægra fell eður stóra hæð, kallað Kálffell, og þaðan enn þá í austur beina stefnu í nyrðri rætur Fagradalshagafells.

Kongs

Er vegalengdin frá Stapafelli til síðst nefnds fells ef beint yrði farið, á að giska hér um þrjár mílur. Fagradalshagafell er að vísu ekki hátt fell, en getur þó vegna ummáls og hæðar talist sem eitt af fjöllum þeim, er liggur fyrir sunnan Keili, og afleiðinga af Lönguhlíðarfjöllunum fyrir ofan Hafnarfjörð, og þaðan sést í suðurátt. Að norðanverðu við nefnd markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarövíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svonefndi Almenningur.
Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir Dagoófæruhraun á Selatanga. Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að giska 2 mílur, ef beint yrði farið.“
Í austri eiga Grindvíkingar land á móts við Krýsvíkinga. Grindavíkurhreppur átti landamörk með Strandahreppi í austri og voru þau við sjó í Seljubótarnefi en voru dregin þaðan í svonefndan Sýslustein sem stendur við þjóðveginn í Selvog. Við Sýslustein beygði landamarkalínan aðeins til austurs og þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell og þaðan til fjalla sem nú heita Bláfjöll.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum sem flest eru í landi Grindvíkur. Þau eru frekar lág en setja mikin svip á umhverfið. Þau eru öll talin vera gosmyndanir og eru frá því seint á síðustu öld.
Ströndin meðfram Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.“

Heimild:
-Geir Bachmann, sóknarlýsingar 1835-1882.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Urriðakot

Í Þjóðviljanum árið 1967 mátti lesa eftirfarandi um bruna Urriðakotsbæjarins:
„Slökkviðliðinu í Hafnarfirði var tilkynnt að eldur væri laus í Urriðakoti um klukkan tvö í gær. Urriðakot er eyðibýli fyrir ofan Setberg við Urriðavatn. Voru húsin orðin hálfónýt en notuð sem gripahús. Brunnu húsin til grunna og slökktu slökkviliðsmennimir í rústunum.“
Urridakot-221Í Morgunblaðið þennan sama dag var skrifað: „Í
 gær kom upp eldur í húsum á jörðinni Setberg, sem er rétt ofan við Hafnarfjörð. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var eldurinn töluvert mikill, en þó tókst fljótlega að ráða að niðurlögum hans. Ekki hefur verið búið í húsum þessum lengi og eru þau í niðurníðslu. Reyk sást leggja þaðan sl. þriðjudag og (fór þá fólk til að slökkva eldinn, en slökkvilið Hafnarfjarðar var ekki kvatt út. Er talið líklegast að neistar hafi enn leynst 5 húsunum þegar fólkið fór og eldurinn svo blossað upp að nýju. Líklegast hefur einhver verið á ferðinni þarna með eld og kveikt í, viljandi eða óviljandi.“
Í Morgunblaðinu árið 1988 mátti lesa eftirfarandi eftir Guðmund Björnsson um síðustu ábúendurna í Urriðakoti:
„Móðursystir mín, frú Vilborg Guðmundsdóttir, andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 22. þ.m. 94 ára að aldri. Vilborg fæddist í Urriðakoti í Garðahreppi 24. apríl 1894 dóttir hjónanna Guðmundar Jónssonar og Sigurbjargar Jónsdóttur. Var hún þriðja barn þeirra hjóna af tíu, sem upp komust. Guðmundur hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum.
Urridakot-222Faðir Jóns Þorvarðssonar, föðurafa Vilborgar, var Þorvarður Jónsson bóndi á Vötnum í Ölfusi, en kona hans var Guðbjörg Eyjólfsdóttir bónda og hreppstjóra á Kröggólfsstöðum. Þorvarður var sonur Jóns Sigurðssonar á Bíldsfelli í Grafningi, sem var fæddur 1746 í Nýjabæ í Ölfusi. Föðuramma Vilborgar var Jórunn Magnúsdóttir frá Litlalandi í Ölfusi, Magnússonar, Beinteinssonar bónda í Þorlákshöfn, en móðir Jórunnar var Herdís Þorgeirsdóttir bónda á Litlalandi.
Móðurforeldrar Vilborgar voru Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi í Garðahreppi, sem er næsti bær við Urriðakot, og kona hans, Vilborg Jónsdóttir, sem ættuð var frá Einholti í Biskupstungum. Jón á Setbergi var sonur Guðmundar Eiríkssonar, sem nefndur var „hinn ríki eða sauðglöggi“ og löngum hefur verið kenndur við Haukadal í Biskupstungum en bjó síðast í Miðdal í Mosfellssveit. Kona hans var Guðbjörg Jónsdóttir frá Ósabakka af Hörgsholtsætt. Jón á Setbergi átti 18 börn og er hann ættfaðir Setbergsættarinnar og er margt kjarnafólk komið af þeirri ætt eins og af Bíldfellsættinni.“

Heimildir:
-Þjóðviljinn 8. júní 1967, bls. 12
-Morgunblaðið 30. okt. 1988, bls. 63.

Urriðakot

Urriðakot 2005.

Garðar

Grein þessi um „Átthagafræði Garðahrepps“ birtist í tímaritinu Harðjaxl árið 1924:
„Hr. ritstjóri!
Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mór í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. þessvegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
lonakot-221Syðsti bær hreppsins er Lónakot. Þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður. Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skamt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot. Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Straumur-221Nú kemur engin bygð fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri héfir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst. Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum. Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út f yrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn. Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli í Stóra Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns. . .
Stekkur-221Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skamt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við. Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum. Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn f yrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað.
En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu. Skamt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum. Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast Gardar-221í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.
Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. par bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið. Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Ísak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður.
Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin Hausastadir-221hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls. Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Guði Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn. Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausastaði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið. – Gamall Garðhreppingur.“

Heimild:
-Harðjaxl, 1. árg. 1924, 16. tbl. bls. 3.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Búrfellsgjá

Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann.

Tóftir við Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. Ýmis merki megi sjá þar enn þann dag í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð”.

Smyrlabúð

Minjar við Smyrlabúð.

Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að nefndir garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir á milli þess og grágrýtisholta. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann geta heitið Garðaflatir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum. Telja verður þó líklegra að nefndar flatir hafi verið þar sem þær eru nú merktar á landakort.

Fornar tóttir finnast á Garðaflötum.

Rústir við Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast“.

Garðaflatir

Garður við Garðaflatir.

Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af einn mjög stór og garður, langur. Fundurinn gefur framangreindri sögu byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina rústirnar.
Ósennilega er örnefnið „Garðaflatir“ tengt bæjarnafninu Görðum á Álftanesi. Líklegra er að þær hafi tekið nafn sitt af hinum miklu nálægu görðum er umlykja svæðið.
Frábært veður.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Keilir

Keilir er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið, sem er strýtulaga, sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.

Keilir

Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er því að mestu úr móbergi, 379 m.y.s. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýnið ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar í tengslum við Fagradalsfjall og Festisfjall, sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum

Keilir

Keilir.

hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Frá því sjósókn hófst á norðanverðum Reykjanesskaga hefur Keilir verið notaður til að marka mið sjómanna. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Fjallið er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda vekur það jafnan athygli fyrir fegurð sína og einstæða staðsetningu. Göngutími á fjallið er um 2-3 klst ef lagt er afs tað frá norðanverðu Oddafelli eða frá Rauðhól skammt norðvestar. Hækkunin er um 250 metrar.
Til að komast að keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar eru mislæg gatnmót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum.
Gott er að ganga á fjallið þó bratt sé en vissara er að fara varlega. Auðfarið er upp því myndast hefur greinilegur

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind. Uppi á fjallinu gestabók í sérhönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann.
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll líkt og Keilir (ef um gos á kringlóttu gosopi eða stuttri sprungu er að ræða). Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á.

Keilir

Keilir.

Heimildir m.a.:
– http://www.landvernd.is/arfjalla2002/fjall_14.html

Keilir

Rjúpa

Gengið var um Heykrika, Svartakrika, Grenikrika, Miðkrika, Vatnsendakrika, Réttarkrika, Kolhólskrika, Einihlíð/ar, Löngubrekkur og Tungu niður á Garðaflatir. Á leiðinni var ætlunin að gefa gaum mannvistarleifum, sem Heykrikiku leynast á svæðinu. Réttarkriki tekur t.d. nafn af búsetuminjum og á Garðaflötum mótar enn fyrir húsum, sem þjóðsaga segir að hafi verið hinir fornu Garðar. Hinn ægilegi Húsfellsbruni liggur um göngusvæðið ofanvert. Elsti- og miðhluti þess rann um árið 950.
Í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins segir m.a. um upphafssvæðið: „
Riðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs. [Væri vel við hæfi að nefna stað þennan Réttarkrika.]
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. VarðaHeimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu.“
Þjóðsagan segir eftirfarandi um Garðaflatir: „
Sagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.“

Vatnsból Kópavogsbúa

Einnig segir sagan að „maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðsta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“
Sú tillgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki þess ma sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“
Eflaust hefur áður fyrr verið heyjað í fyrrnefndum krikum. Réttarkriki er nú innan við vatnsverndarsvæði Tóft í HeiðmörkKópavogs í Heiðmörk. Há og ókleif girðing umlykur svæðið á þrjá vegu. Að austanverðu er gamla Heiðmerkurgirðingin, fallin að hluta, enda til einskis nýt nú orðið. Haldið var inn á vatnsverndarsvæðið um Heiðmerkurgirðinguna og hraunkantur Húsfellsbruna gaumgæfður. Svæðinu við hraunkantinn hefur verið talsvert raskað, svo mikið að líklegt verður að telja að umræddri rétt hafi verið eytt. Hafi einhver vitneskju um annað væru upplýsingar um slíkt vel þegnar.
Í Umhverfisskýrslu Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðrar vatnstöku í Vatnsendakrika er ekkert um fornleifaleit, sem verður að teljast til vankanta. Í l
ögum um náttúruvernd segir og að „Eldhraun falla undir sérstaka vernd skv. 37. gr. laga um náttúruvernd og ber að forðast að raska þeim“. Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Eldhraun frá nútíma njóta því sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. „Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Það er talið hafa óveruleg áhrif að leggja vatnsvernd yfir svæði sem njóta einnig verndar skv. lögum um náttúruvernd.“ Samt sem áður virðist sem lögin hafi verið hunsuð að hluta.

Vatnsverndarsvæði

Til frekari upplýsinga má geta þess að Vatnsendakrikar eru um 3 km sunnan við Elliðavatn, „við jaðar hrauns sem kallað hefur verið Húsfellsbruni og er talið hafa runnið skömmu eftir landnám eða í kringum árið 950. Umhverfi Vatnsendakrika einkennist af mosagrónum hraunum frá nútíma. Fyrirhuguð vatnstaka er við hraunjaðar sem er nokkuð sléttur en er úfnari er austar og norðar dregur. Víða um kring má finna lautir og hraunbolla með trjágróðri og blómlendi. Í Heiðmörk er fjölskrúðugt dýralíf. Þar lifa refir, minkar og hagamýs og þar er kjörlendi fyrir margskonar fuglalíf.
Gengið var um gróninga Einihlíða og ofan Löngubrekkna, framhjá Hnífhól og niður á nefndar Garðaflatir. Leið þessi er bæði greið og tiltölulega slétt. Á Hnífhól er markavarða á línunni upp í Kolhól (170 m.y.s.).
Á Garðaflötum mótar vel fyrir grónum tóftum. Hús er suðvestast á svæðinu, en norðan þess mótar fyrir gerði, eins og sjá má á myndinni hér neðst.

Hnífhóll

Neðar er hin tilkomumikla Búrfellsgjá. Búrfell og Búrfellsgjá eru þarna í einungis örskotsfæri frá höfuðborgarsvæðinu; við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar. Þetta er ein af mörgum perlum í Heiðmörk, einu vinsælasta útivistarsvæði landsins. Þegar gengið er um svæðið norðan Búrfellsgjáar er Búrfellið jafnan mest áberandi kennileitið. Fellið er í raun eldgígur í um 7 km fjarlægð suðaustur af Hafnarfirði og Garðabæ. Fellið er nánast hringlaga og hæsti gígbarmurinn er í um 179 m.y.s. en dýptin á sjálfum gígnum er 58 m miðað við hæsta barm, en 26 m þar sem hann er lægstur. Ummál gígsins er 140 m þar sem hann er breiðastur. Búrfell og nærliggjandi hraunsvæði eru á misgengisbroti sem hefur sigið talsvert eftir gos. Þegar horft er af gígbrún Búrfells blasir Helgadals sigdældinni við í vestri en Hjallamisgengið í norðri.

Markavarða

Búrfellshraun varð til í einu flæðigosi fyrir um 7200 árum, samkvæmt aldursgreiningu á mó sem fannst undir hrauninu við Bala í Garðahverfi. Stórbrotið apalhraunið hefur myndað mikið landflæmi þegar það rann fram í tveimur megin hraunstraumum eftir dalkvosum og fyllti voga og víkur. Vestari hraunrásin nefnist Lambagjá en nyrðri rásin Búrfellsgjá. Líklega hefur vestasti hlutinn horfið undir yngri hraun og mikið landbrot hefur átt sér stað við strandlengjuna á sjö öldum. Erfitt er að reikna nákvæmlega út hvert heildarflatarmál hraunsins hefur verið en núverandi flatarmál Búrfellshrauns er um 18 ferkílómetrar. Það myndar stóran hluta þess landsvæðis sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á.

Búrfellsdalir

Nafnið Búrfellshraun er tiltölulega nýtt og nær yfir heildarfláka þess hrauns sem kom frá gígnum. Áður en jarðfræðingar fóru að kanna svæðið skiptist hraunið í marga mismunandi hluta sem báru margbreytileg nöfn. Suður, vestur og norður af gígnum eru t.d. Kringljóttagjá, Helgadalshraun, Smyrlabúðarhraun, Gjárhraunin og Sléttuhlíðarhraun. Nær Hafnarfirði eru Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjahraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Hafnarfjarðarhraun, sem nefnist Balahraun norðvestast. Garðabæjarmegin eru Garðaflatir, Búrfellsgjá og Selgjá. Næst eru Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Flatahraun, Hraunholtshraun, Engidalshraun, Klettahraun (Klettar) og Gálgahraun.
Búrfellsgjá er rómuð fyrir fegurð og þar er vinsælt útivistarsvæði. Gjáin sjálf er 3,5 km löng og þrengst rétt neðan við gíginn þar sem hún er ekki Gjáarrétt - Selvogsdilkurnema 20-30 m breið. Gjáin breikkar eftir því sem fjær Búrfelli dregur og er um 300 m breið þar sem Gjáarrétt og Réttargerðið eru. Framhald Búrfellsgjár er Selgjá sem stendur miklu hærra í landinu vegna misgengisins sem liggur þvert á hrauntröðina. Víða slúta gjárveggirnir bogadregnir inn yfir gjána og mynda skúta. Hlaðið hefur verið fyrir flesta skútana sem voru nýttir sem fjárskjól þegar vetrarbeit var enn stunduð í upplandinu. Stærsti skútinn er í Réttargerðinu og þar skammt frá er fallega hlaðin fjárrétt á sléttum traðarbotninum sem nefnist Gjárétt, en líka nefnd Gjáarrétt og var fjallskilarétt Álftaneshrepps hins forna. Vatnsgjá er þar skammt undan í missgengissprungu. Allar mannvistarminjar s.s. réttin, gerðið og hleðslur við skúta eru friðlýstar.
Þegar komið var niður að réttinni var m.a. kíkt á dilk Grindvíkinga og Selvogsbúa, austast í henni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Jónatan Garðason.

Garðafaltir

Setberg

Eftirfarandi grein um Jón á Setbergi birtist í Litla-Bergþóri árið 1996:
„Einhvern tíman fyrir löngu síðan ákvað ég með sjálfum mér að skrifa þátt um langafa minn, Jón á Setbergi,áður en ég „setti upp tærnar“. Enda er allt hæpið með handskriftina eftir að maður er kominn í þær stellingar. Hann hóf hér vist sína tæpum hundrað árum áður en ég fæddist, þó hefi ég afhonum glöggar sagnir frá fyrstu hendi því móðir mín Helga Eiríksdóttir húsfreyja á Stekk í Garðahreppi sem fædd var 1. október 1879 að Kjarnholtum í Biskupstungum var sonardóttir hans. Hún ólst upp að verulegu leyti hjá þessum afa sínum. Þegar ég var á barns- og unglingsaldri sagði hún mér margt af búskaparháttum á Setbergi og ýmsu fleira varðandi þennan afa sinn. Eg mun vera sá eini af hinum fjölmörgu núlifandi afkomendum Jóns á Setbergi sem hefi af honum glöggar sagnir frá fyrstu hendi, það getur því ekki talist nein ofrausn þó ég komi því nú í verk að skrá eitthvað sem ég veit með vissu um þennan forföður minn.
Skollagróf 14. mars 1996 – Jón Sigurðsson.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Jón Guðmundsson var fæddur 24. desember 1824 á Fossi í Hrunamanna-hreppi. Ég tel þó víst að þarna skakki einum degi, því hann taldi sinn fæðingardag vera Þorláksmessu en ekki aðfangadag jóla.“Hann var samtíða sínum foreldrum óslitið fram yfir sinn tvítugsaldur því er ósennilegt að þarna hafi orðið dagabrengl innan fjölskyldunnar, hitt er mun sennilegra að talan 24. hafi slæðst inn í kirkjubók í stað 23. Faðir Jóns var Guðmundur Eiríksson hinn sauðglöggi, sem jafnan var kenndur við Haukadal í Biskupstungum og móðir hans var Guðbjörg Jónsdóttir frá Ósabakka á Skeiðum. Hún var af hinni þekktu Hörgsholtsætt. Jón sótti til föður síns sauðgleggni og mikla fjármennskuhæfileika, þó hann yrði aldrei þjóðsagnapersóna á sviði fjárgleggninnar á borð við föður sinn. Hann stóð þó tvímælalaust langnæst föður sínum á sviði sauðgleggni og fjármennsku af öllum börnum Guðmundar Eiríkssonar.
Hann var víst ekki hár í loftinu þegar hann fór að fylgja föður sínum um Fosshagana í smalamennskum og annarri fjárgæslu. Á sínum efri árum ræddi hann oft um fjárstúss sitt í Fosshögum enda var hann á 12. aldursári þegar foreldrar hans fluttu þaðan. Á næstu sex árum lenda foreldrar hans í sífelldum búferlaflutningum, búa ekki á færri en fjórum jörðum á þessu sex ára tímabili. Þar til á vordögum 1842 að þau setjast að í Haukadal þá er Jón sonur þeirra á 18. ári. Næstu fimm árin er hann enn með foreldrum sínum í Haukadal.
Fyrri kona Jóns var Guðrún Egilsdóttir frá Tortu. Faðir hennar var Egill Þórðarson bóndi þar og móðir hennar kona Egils var Guðlaug Gísladóttir frá Kjarnholtum. Þannig er ég að tveim þáttum ættaður frá Kjarnholtum, þar sem Guðlaug móðir Guðrúnar langömmu minnar var þaðan og á aðra grein Kristín móðurmóðir mín sem var dóttir Guðmundar Diðrikssonar bónda þar.
Vorið 1847 fara Jón og Guðrún að búa á Tortu. Þeim fæðist drengur vorið áður, þá eru þau bæði á vist í Haukadal hjá foreldrum Jóns. Þegar þessi fumburður þeirra fæddist er Guðrún 30 ára en Jón langafi minn 22ja ára, því hún var röskum átta árum eldri en hann. Eftir 11 ára sambúð missir hann þessa fyrri konu sína. Torta var örreytiskot í túnjaðrinum í Haukadal. Þarna bjó þó Jón langafi minn í 14 ár við sæmilegan efnahag þrátt fyrir íþyngjandi ómegð.
Fyrri hluta þessa tímabils bjó hann í skjóli foreldra sinna og efalaust öll árin við aukinn aðgang að landsnytjum heimajarðarinnar, með öðrum hætti var afkoman á Tortu óhugsandi. Þeir feðgar Guðmundur Eiríksson og Jón sonur hans, sem jafnan var nefndur Jón á Setbergi eftir að hann settist þar að, voru báðir viðkynningar góðir og léttir í máli. Aldrei hafði langafi minn viljað láta tala illa um Tortu sem bújörð þó í raun væri hún bæði lítil og léleg. Hann sagði að Tortu nafnið væri ekki annað en afkáralegt auknefni því jörðin hefði heitið „Laufviðarstaðir á Beinárbökkum“. Þetta sagði hann að sjálfsögðu í gríni, en ég trúi að í bakgrunni hafi legið sú minning að þarna komst hann vel af og átti á margan hátt góða daga, m.a. vegna þess að hann hafði greiðan aðgang að Haukadalslandinu langt umfram það sem landsnytjar hjáleigunnar afmörkuðu.
Seinni kona Jóns var Vilborg Jónsdóttir frá Einholti í Biskupstungum. Hún var fædd árið 1832. Þeirra fyrsta barn fæddist í Einholti 6. maí 1859. Fljótlega fer hún að búa á Tortu með langafa mínum, en á vordögum 1861 flytja þau að Helludal, búa þar í tvö ár. Þar næst eitt ár í Bryggju sem er fardagaárið 1863-4.
Þá tekur langafi minn sig upp úr Biskupstungum með allt sitt, bæði fólk og fénað og sest að á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Þessi jörð fylgdi þá Garðahreppi. Þarna fær hann í leiguábúð hálflenduna en á hinum hlutanum voru 5 kot, sem ég ætla að þá hafi verið öll í ábúð. Hann tekst á hendur þessa búferlaflutninga að nokkru leyti fyrir áeggjan föður síns, sem þá var orðinn gamall og blindur, en milli þeirra feðga var góð og varanleg vinátta.
Ekki kunni hann allskostar við þá fjárgæslu sem Hvaleyrarjörðin útheimti því þar var talsverð flæðihætta frá sjó. Engar sögur fóru af því að þessir annmarkar jarðarinnar hafi höggvið skorbilda í bústofn hans, enda var hann víst aldrei orðaður við slóðaskap og slælega fjármennsku í sínum búskap.
Á Hvaleyri búa þau í þrjú ár 1864 – 7. Í fardögum 1867 losnar í ábúð Setberg, sem einnig var í Garðahreppi. þangað flytja þau um vorið. Fljótlega festi hann kaup á jörðinni og þar bjuggu þau þar til þau urðu ellimóð og hætta búskap og luku sínum lífdögum í Hafnarfirði. Segja má að jafnskjótt og þessi hjón voru sest að á Setbergi voru þau kennd við þennan bæ og svo er raunar enn þegar þeirra er minnst. Eftir því sem ég best veit komst þessi langafi minn alltaf heldur vel af alla sína búskapartíð. Hann átti efnaða foreldra, og faðir hans stólaði strax mikið á hann í fárbúskapnum, því mætti ætla að hann hafi strax á unglingsaldir átt í séreign fleira af kindum en almennt gerðist. Slíkt var í þá daga líklegasta leiðin til efnahagslegs sjálfstæðis.
Þau þrjú ár sem Jón bjó á Hvaleyri urðu honum áfallalaus í búskap, og þar fjölgaði hann fénu nokkuð, enda mun hann hafa gengið nokkuð á sauðastofn sinn þá hann tók sig upp austur í Biskupstungum. Fargaði þá öllum rosknum sauðum úr stofninum, e.t.v. mest af því að hann hefir álitið að þeir yrðu óeirnir í ókenndum högum. Þegar hann er sestur að á Setbergi fer hann ört að fjölga fénu, og varð fljótlega fjárríkastur allra Innnesjabænda. Þó hann alla sína tíð kæmist heldur vel af, þá efnaðist hann bæði fljótt og vel eftir að hann gerðist bóndi á Setbergi. Gamla Setbergstúnið þótti á þess tíma mælikvarða allstórt og vel grasgefið. Engjablettir voru einnig í landinu þó í litlum mæli væri.
Fjárland á Setbergi var mjög gott, skjólsælt og kjarngott til beitar. Jón á Setbergi var víst ekki mjög kirkjurækinn en komst þó vel af við prestinn í Görðum, enda var þessi langafi minn maður viðræðugóður og vinsæll.
Eins og áður er komið fram fjölgaði fé hans ört eftir að hann settist að á Setbergi. Þá tók að þrengjast þar í högum. Garðakirkja átti bæði slæju og beitilönd fjarri kirkjustaðnum, sem að hluta til mun hafa, fyrr á tíð, verið sellönd frá Gröðum. Þessi lönd leigði Jón um árabil af Garðapresti bæði til beitar og slægna.
Að jafnaði voru á Setbergi fjórar kýr í fjósi auk geldneyta. í geldgripa hópnum sem ekki var stór voru uxar og þar á bæ nefndir „básgeldingar“ til aðgreiningar frá öðrum geldingum, en langafi minn var langa ævi þekktur sem gildur sauðabóndi. Básgeldingarnir voru að jafnaði leiddir á blóðvöll 3ja vetra gamlir, og það gerðist síðsumars áður en venjuleg sláturtíð hófst. Þarna var gott búsílag til matfanga og húðin til skógerðar.
Þó Setbergshagar séu að mestu óbrunnið land þurftu þeir að smala sínu marga fé vítt um hraunlendi, sem er býsna skæðafrekt. Frá því kýr voru leystar út á vordögum var einhver liðléttingur látinn gæta nautgripanna í haga þar til heima heyskap var lokið. Mest vegna þess að verja þurfti slægjubletti á útjörðinni, en þar syðra voru grasnytjar til slægna mjög takmarkaðar. Hrossaeign á Setbergi var mjög takmörkuð, enda hrossa- gönguland af mjög skornum skammti. Vegna hrossfæðar varð sá sem „fór á milli“ með heybandslestina að ganga, þó var heimreiðsla drjúlöng af Garðaflötum og þar um kring af leigulandinu, þó enn lengra úr Elliðavatnsengi, en þar fékk Jón á Setbergi oft léðar slægjur. Kaupstaðaaðdrættir voru aftur á móti kátlega auðveldir, því leiðin frá Setbergi í Hafnarfjörð var aðeins til jafns við eina bæjarleið.
Langafi minn átti að jafnaði 1 – 2 reiðhesta. Ég veit með vissu að þeir voru vikaliprir og vel tamdir, og þykir mér gott til þess að hugsa að þessi forfaðir minn þurfti ekki að ferðast á stampgengu. Móðir mín mundi vel síðasta reiðhest afa síns, rauðstjörnóttan, lipran og viðbragðsfljótan.
Setbergsmenn smöluðu að jafnaði allt gangandi, enda mikið af hraunlendi því sem þeir þurftu að smala á engan hátt hollt hestafótum. Hér á eftir vil ég greina frá ýmsu öðru varðandi búskaparhætti Jóns á Setbergi og þá fyrst og fremst því sem sneri að fjárbúskap hans. Eins og áður er fram komið var hann mjög nákvæmur og snjall fjármaður. Hafa verður í huga að á þeim tímum var ullin og tólgin aðal verðmætin sem sauðfjárbú skilaði, þá voru ekki enn runnir upp þeir tímar að innlegg dilka væri undirstaða afkomunnar. Fastastæða í fjárbúskap fyrri tíma var því sauðaeign. Þá var mikils um vert að ullarlag þeirra væri gott. Svo til öll hrútlömb voru gelt í vorsmölun nema eitt og eitt sem líkleg þóttu sem hrútsefni. Þau hrútlömb sem ekki komu að í vorsmölun voru gelt að haustinu. Langafi minn setti á svo til alla lambgeldinga, aðeins einn og einn lenti á blóðvelli og þá sem einhver vanmeta skepna. En hann hafði verið vandlátur á val lífgimbra. Þær áttu að vera með breiðan spjaldhrygg og vel holdfylltar á bak, helst með breiða og framskotna bringu, ullargóðar, m.a. ullaríylltar innanlæris, því nárabert fé stóð sig mun verr á beit í vetrarhörkum.
Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar. Gemlingum var að sjálfsögðu beitt, enda var innlokun ekki holl upphafsvist fyrir verðandi útigöngufé.
Jón á Setbergi hafði engin handahófs vinnubrögð þegar kom að því á haustnóttum að „sauma fyrir“, allar þær „bróderingar“ þurftu að vera afstaðnar fyrir Marteinsmessu sem er 11. nóvember. Fyrst er að telja lambgimbramar sem að sjálfsögðu voru allar fyrir seymdar. Svo saumaði hann fyrir flestar sínar ær sem voru á 2. vetri, aðeins öríáar þær vænstu og þroskamestu höfðu hrút á þeim aldri. Þannig báru flestar hans ær ekki fyrr en 3ja vetra. Með þessum hætti famaðist stofninum miklu betur, og af þessum ungu ám fékk hann mikla og verðmæta ull. Þar að auki sauðarreyfin þykk og þelgóð. Hann saumaði einnig fyrir rosknar ær sem þá skiluðu þyngri föllum og meiri mörtil tólgarinnleggs við frálag á komandi hausti.
Þótt fyrirseymur finnist ekki lengur fjárhjörðum vil ég koma nánar að þessu handbragði, sem fyrst og fremst lýsti smekkvísi Jóns og foreldra hans gagnvart ýmsu er að fjármennsku laut.“Þegar ég var að alast upp syðra í Stekk, sem var í sama hreppi og Setberg varfyrirseymsla enn mjög algeng varðandi lífgimbrar og einnig með rosknar ær, sem farga átti haustið eftir.
Mér er enn í fersku minni hve það var til stórra lýta þegar saumað var fyrir af meiri háttar smekkleysi, en víða vildi það við brenna. Oft stagað út á hnútur og læri „leppar“ óhönduglega sniðnir. Auk þess óvandlega saumað, þá vildi við brenna að ær og gimbrar „lembuðust með leppnum“ eins og sagt var, þar með var ætlunarverkið allt úr skorðum.
Jón á Setbergi lagði svo mikið upp úr því að þetta verk væri unnið af traustleika og smekkvísi að lengi vel vann hann þetta verk sjálfur, og allt til sinna búskaparloka taldi hann tryggara að fylgjast með þessu verki úr nálægð.
Móðir mín var víst fljótlega fim með nálina enda treysti hann henni strax á barnsaldri við þennan „saumaskap“. Hún kenndi mér þessi handtök meðan ég enn var ungur. Þess vegna þykist ég enn kunna þessi löngu aflögðu vinnubrögð.
Langafi minn hafði lært handtökin af móður sinni, en alltaf hafði faðir hans fylgst með verkinu. Sennilega til að fullvissa sig um að traustleika og smekkvísi væri örugglega gætt. Eins og fram kemur áður þá vandaði Jón mjög val á lífgimbrum og eins þeim hrútum sem blanda átti í stofninn en þeim var aldrei sleppt í ær fyrr en þeir voru á öðrum vetri.
Á þessum tímum var ullin verðmæt, þess vegna dugði ekki að horfa framhjá ullargæðunum, enda gerði langafi minn það ekki. Ég veit það af eigin reynslu að talsvert má greina það á feldi unglamba hvort reifi verða illhæruskotin. Hann setti aldrei á gimbrar sem hann taldi að bæru með sér þennan galla og þær ær veturgamlar sem skiluðu illhærum í sínu fyrsta reifi fóru undantekningarlaust á blóðvöllinn, eins var um hrútana. Það leiddi af sjálfu sér að þeir blönduðust ekki ærstofninum. Með þessum hætti ræktaðist fljótlega upp stofn með þeim ullareiginleikum sem að var stefnt. Þelið var megin verðmæti ullarinnar, togið varð þó að vera sterkt og ekki of stutt á algeru útivistarfé.
Jón á Setbergi lét ekki sitt marga útigangsfé þvælast um einhvers staðar eftirlitslaust. Þar kom þrennt til, fyrst og fremst vildi þessi nákvæmi fjármaður fylgjast vel með hjörðinni, í öðru lagi var þess full þörf að hafa stjórn á því hvar og hvernig svo stór hjörð gekk að beitinni, og í þriðja lagi varð að fylgja hjörðinni vegna affalla sem bráðapestin olli. Einmitt vegna „pestarinnar“ varð strax snemma hausts að fylgja fénu öllum stundum daglangt.
Bráðapestin var alltaf skæðust á haustin og aldrei eins mögnuð og í hæglætisveðri þegar hrímfall var mikið og viðvarandi, en hrímið fylgdi mest hægri haustkælu sem kunnugt er. Þessum stóra fjárhópi fylgdu alltaf tveir karlmenn allt frá haustnóttum og framundir vor. Þannig var auðvelt að stjórna því hvar féð gekk að jörð hverju sinni, og með þessu móti einu var hægt að „skera af“ þær kindur sem tóku „pestina“. Bráðapestin var skæðust í yngsta og vænsta fénu. Þessa vegna olli hún mjög miklum skaða. Við þennan vágest hafði verið óbúandi án þess að gæta fjárins svona nákvæmlega. Með þessari daglegu gæslu var unnt að lóga þeim kindum sem dauðvona urðu, þannig spilltist átan af þeim ekki verulega, nema feitin rann við suðu mun meira en þegar fargað var heilbrigðu fé.
Ég trúi að langafa mínum hefði búnast talsvert verr ef nýtingin á þessu fé hefði ekki verið í svo góðu lagi sem hún var, því á Setbergi var þungt heimili vegna mikillar ómegðar. Strax og farið var að gæta fjárins á haustin var það „bælt“ sem kallað var, við tvo hella suðvestur af svonefndri Setbergshlíð. Þarna átti féð náttból allan gæslutímann enda var hraunið vel gróið á alldrjúgri spildu.
Fyrrgreind náttból var drjúglangt frá bænum. Þær kindur sem farga þurfti voru þannig meðhöndlaðar að fyrst var þeim látið blæða, síðan var hleypt innan úr þeim frá þind og aftur úr. Síðan urðu fjármennimir að axla þessar fárakindur og bera heim að kveldi. Með fyrstu skímu að morgni þurftu þeir svo að fara til fjárins, því ekki dugði að það væri farið að dreifa sér þegar komið var að náttbólinu. Auk þess vildu þeir helst koma að hópnum áður en féð stóð upp, því hver ein kind sem teygði sig um leið og hún stóð upp úr bæli sínu varð ekki „pestinni“ að bráð næstu 30 klst. Þetta máttu þeir gerst vita sem stóðu yfir fé að staðaldri.
Ég hefi oft hugsað til þess hve það hefir komið sér vel hve skjólsælt var víða í þessum högum. Þess hafa fjárgæslumenn og hjörðin notið ríkulega í hreti og hreggviðrum.
Víða var í Setbergshögum eski og sauðamergur ásamt valllendis- og víðigróðri. Auk þessa var fénu beitt vítt um hraunfláka sem voru utan heimalands, á því svæði eru víða beitilyngsbreiður.
Eftir því sem ég þekki frá uppvexti mínum í sambandi við vetrarbeit þá er fátt sem jafnast á við beitilyngið. Það er tvennt sem skapar manni sátt við hraunlendið. Í fyrsta lagi lynggróðurinn og þá alveg sérstaklega beitilyngið og í öðru lagi skútar og önnur skjól, sem hraunflákarnir búa sauðkindinni.
Eins og áður er komið fram í máli þessu var Jón á Setbergi líkt og faðir hans Guðmundur Eiríksson vel að sér um allt sem laut að sauðfjárbúskap. Hann var einnig líkur föður sínum í því hve hann var fótfrár og slyngur smali, að mínu viti verður enginn virkilega slunginn smali nema sá sem skynjar hin væntanlegu viðbrögð sauðkindarinnar undir hinum breytilegustu kringumstæðum.
Sínu létta og giktarlausa smalaspori hélt hann fram á gamalsaldur rétt eins og faðir hans, þess vegna entist hann lengi vel að standa yfir fé sínu, sem alltaf var gert haust og vetur. Tveir synir hans af fyrra hjónabandi voru mest með honum í þessar fjárgæslu, þeir Guðjón og Egill.
Eins og áður var getið fylgdu tveir menn hjörðinni frá haustnóttum til vordægra. Þessir fjárglöggu menn þekktu að sjálfsögðu hverja einustu kind og hverjum einstakling var gefið nafn þó hópurinn væri stór. Það er sama um búfé og umhverfið að nöfnin dýpka sambandið á alla lund. Nafnlaus kind, hæð eða slakki er fjær manni í vitundinni en það sem heiti hefur.
Jón á Setbergi var réttabóndi í Gjárarrétt öll þau ár sem hann bjó á þeirri jörð. Hann þótti ölkær nokkuð og veitull á vín en gætti þess hófst að fjármannsheiðri hans var jafnan borgið þó Bakkus væri með í för.
Móðir mín sagði að afi sinn hafi aldrei verið illur né þrasgjarn við vín en stundum smástríðinn. Langafi minn hafði verið dagfarsprúður og þægilegur húsbóndi, enda mjög hjúasæll. Glaðvær og skemmtilegur á heimili og einnig í viðkynningu út á burt. Ekki kann ég neitt að segja frá dagfari Guðrúnar langömmu minnar, sem varfyrri kona Jóns, en Vilborg á Setbergi, sem var seinni kona hans þótti harðlynd nokkuð og átti það til að vera dálítið snefsin í svörum. Hún var mikill forkur til allra verka. Hjálpsöm og greiðvikin við þá sem minna máttu sín. Sýndi stundum mikla höfðingslund og átti það til að vera stórgjöful. Þegar leið á búskaparferil Jóns fór að búa á Setbergi í félagi við hann Guðjón sonur hans. Þeir feðgar höfðu átt vel skap saman, enda báðir lundþjálir og samvaldir í fjármenskunni og öðrum bústörfum. Þeir áttu hvor sinn fénað bæði kindur og annan búsmala. Féð var allt í einni hjörð, og í þessum félagsbúskap var féð í sömu haust- og vetrargæslu og áður hafði verið meðan Jón bar einn ábyrgð á búrekstrinum. Jón á Setbergi var talinn maður vel vitiborinn, einnig verklaginn og afkastadrjúgur. Svo var einnig um marga hans nánustu afkomendur.
Þegar til margra einstaklinga er litið í ætt þessari finnst mér allgreinilegt að konur hafi verið körlum fremri bæði að dugnaði og verklagni.
Enginn má taka það svo að ég álíti t.d. að synir Jóns hafi verið einhverjir amlóðar, enda mun það fjarri veruleikanum. Hitt er margvitað að erfðir greinast á ýmsa lund. Mér kemur þess vegna í hug að þetta hafi greinst svona sérstætt frá foreldrum Jóns á Setbergi. Faðir hans Guðmundur Eiríksson var einstakur fjármaður, m.a. svo fjárglöggur að sá eiginleiki verður nærri að teljast til eindæma, og vissulega hefur þetta erfst frá honum í allríkum mæli.
Þó Guðmundur þessi væri verkfús og fljótur til þá þótti hann hvorki bráðlaginn né burðarmikill. En Guðbjörg Jónsdóttir móðir Jóns þótti bæði mikilvirk, fjölhæf og mjög lagvirk. Einnig var Guðbjörg talin stálgreind en bóndi hennar bara í meðallagi á því sviði. Af því ég hefi mjög glöggar sagnir af þessum langafa mínum trúi ég að hann hafi í ríkum mæli erft bestu eiginleika frá báðum sínum foreldrum.

Í lokin ætla ég að skrá börn þau sem Jón eignaðist, þau voru ekki færri en 19 og 17 þeirra náðu fullorðinsaldri. Með fyrri konu sinni Guðrúnu Egilsdóttur átti hann 9 börn, sem hún ól á 11 árum.
1. Egill f. 21. júní 1846 í Haukadal, hann dó 14. nóv. sama ár.
2. Guðlaug f. 20. okt. 1847, á Tortu í Biskupstungum hún dó á Setbergi 1869, þá 22ja ára gömul. Ógift og barnlaus.
3. Guðbjörg, eldri, f. 13, febrúar á Tortu 1849. Hennar maður var Sveinn Einarsson frá Miðfelli. Bjuggu fyrst í Syðra-Langholti svo í Ásum í Gnúpverjahreppi. Þau áttu 6 börn.
4. Guðrúnf. á Tortu 8. apríl 1850. Hennar maður var Árni Árnason verkam. Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
5. Guðbjörg, yngri, f. á Tortu 3. ágúst 1851. Hennar maður var Magnús Halldórsson frá Auðnum á Vatnsleysuströnd. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 dætur.
6. Guðjón f. á Tortu 29. nóv. 1852. Dó 1913. Hans kona var Stefanía Gísladóttir frá St. Lambhaga í Hraunum. Bjuggu fyrst á Setbergi svo í Suðurkoti í Krýsuvík, síðast í Gerði í Hraunum. Þau áttu 2 syni. (Hraunbæir var syðsta byggð í Garðahreppi).
7. Eiríkur f. á Tortu 5. águst 1854. Dó 1918. Hans kona var Kristín Guðmundsdóttir, frá Kjarnholtum. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Biskupstungum og alltaf við mjög lítil efni. Þau áttu 7 börn. Eiríkur og Kristín voru móðurforeldrar mínir.
8. Egill f. á Tortu 13. des. 1855. Hans kona Guðrún Ólafsdóttir frá Elliðakoti. Þau bjuggu í Krýsuvík. Þau voru barnlaus.
9. Ingveldur f. á Tortu 22. okt. 1857. Hún dó ungbarn. Með seinni konu sinni Vilborgu Jónsdóttur átti hann 10 börn, sem hún ól á 14 árum.
10. Guðrún f. í Einholti, maí 1859. Hennar maður var Sigurjón Jónsson frá Hraunprýði í Hafnarfirði. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 börn.
11. Sigríður f. á Tortu 20. maí 1860. Hennar maður var Helgi Sigurðsson verkamaður í Hafnarfirði. Þau áttu 7 börn.
12. Kristín f. á Tortu 12. maí 1861. Hennar maður Hans Linnet kaupmaður í Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
13. Ingveldur f. í Helludal 22. okt. 1862. Hennar maður Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Bjuggu fyrst í Litla-Lambhaga og seinna á Þorbjarnarstöðum, sem eru Hraunbæir. Þau áttu 12 börn.
14. Vilborg f. á Bryggju 2. des. 1863. DÓ21. apr. 1941. Hennar maður var Jón Guðmann Sigurðsson frá Haukadal. Þau bjuggu fyrst í Haukadal síðan á Tortu en lengst á Laug og við þann bæ var Vilborg jafnan kennd. Þau áttu 14 börn.
15. Sigurbjörg f. á Hvaleyri 26. febr. 1865. Hennar maður var Guðmundur Jónsson frá Urriðakoti, sem er næsti bær við Setberg. í Urriðakoti bjuggu þau langa búskapartíð. Þau áttu 12 börn.
16. Elín f. á Hvaleyri 26. júní 1866. Hennar maður var Þorvarður Ólafsson frá Vötnum í Ölfusi. Þau bjuggu á Jófríðarstöðum. Þau áttu 10 börn.
17. Guðmundur f. á Setbergil. ágúst 1868. Hans kona var Guðrún Guðmundsdóttir frá Hlíð í Garðahreppi. Þau bjuggu fyrst á Setbergi fá ár, fluttust svo að Hlíð og þaðan til Hafnarfjarðar. Þau áttu 3 börn.
18. Jón f. á Setbergi 12. júlí 1870. Dó giftur og barnlaus 1926. Hafði ungur numið trésmíðar úti í Noregi. Dó frá miklum efnum en engum afkomendum.
19. Rannveig f. á Setbergi 8. júní 1873. Hennar maður var Kristinn Kristjánsson frá Hlíðarnesi á Álftarnesi. Þau áttu 4 börn.

Ekki er ofmælt að segja að Jón á Setbergi hafi verið sæmilega kynsæll. Af þeim 17 börnum hans sem upp komust áttu 14 þeirra afkomendur og barnabörn hans voru 89 talsins.
Einhvern tíman nálægt aldamótum brugðu þau búi Jón og Vilborg og flytjast þá til Hafnarfjarðar.
Langafi minn lifði fram á árið 1909 og hefir þá verið á 85. aldursári. Vilborg deyr árið 1917 og hefur líka verið á 85. aldursári því hún var átta árum yngri en hann.
Hér lýkur að segja frá langafa mínum Jóni á Setbergi. Hinum léttstíga smala og lundprúða dreng.“

Heimild:
Litli-Bergþór, 17. árg. 1996, 3. tbl. bls. 18-22.

Brekka

„Við höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamann, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. [Hún var staðsett  vestan undir klapparhól þar sem nú er fiskeldisstöðin. Grjótið úr henni var flutt í einhverjar fyllingar í Vogunum, líklega höfnina 1955-60. (SGG)].

Brekka

Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. [‘’Suðurnesjavegurinn’’ er  elsti Keflavíkurvegurinn (bíl-) sem lá þarna neðan við núverandi veginn suður á Stapa og sést en að hluta, byggður  1911-12.  Sá  lá svo upp Essið eins og alltaf var sagt. T.d. : ‘’Bíllinn er að koma niður Essið’’ (SGG)]. Við höldum gamla veginn, lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu. [Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs.] Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komizt nema klöngrast hátt í skriðum. Nú er fjara og leiðin greið.
Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru Stapinngegnt Vogabæjunum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflasut verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830-40, að hin svonefnda „anlegg“ rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „grósserinn“.
Mjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu [Langaskeri]. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En Hólmurhvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað. Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.

Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er það grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verði eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending uan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 bata.

 

Prjámi

Seinasti „útlendingurinn“, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leizt ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hé rnærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti. Aðvísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoëga og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, gftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
það er á þessu tímabili, að Knudyzon byrjar „anleggið“ þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, en ekki hafa dvalizt þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.
StapabúðÁrið 1850 kemur í Hólmabúðir Jón Snorrason dbrm. á Sölvahól í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verzlunarþjónn, en síðar verzlunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna í eitt ár.
Árið 1860 koma þau þangað Jón Jonsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðfjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum.
Næsti forstjóri Hólambúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gendi hnn því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti störðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót [1900].
StapabúðÁ undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyzt þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár  og hafði húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þana til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.
ÁrtalssteinnKippkorn utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Þar reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur. Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu það aðeins árið. En síaðn flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farð var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820-1840.

 

Kerlingabúð

Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúð og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.
[Um Kerlingabúðir segir sagan: „Kerlingabúðir heita gamlar verbúðatóftir undir Vogastapa, við endann á Rauðastíg. Þar voru einhvern tíma einhverjir aðkomusjómenn. Sagt er, að drengur hafi komið til þeirra og beiðzt gistingar, og var hún föl. En til drengsins spurðist aldrei síðan. Var það almannrómur, að sjómennirnir hafi drepið hann og haft líkamann til beitu.
Ekki er kunnugt, hvers vegna þarna kallast Kerlingabúðir, en sagan segir, að sjómenn þessir hafi einu sinni haft hlutakonu eða fanggæzlu, og farið með hana eins og drenginn – (B.H.).
StapabúðÖnnur saga segir: „Kerlingarbúðir heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar (heimild: örnefnaskrá).]
Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru. Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breytzt með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðri lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þár var þar ekki lengur griðastaður og þá varð að gera höfn og hafnagerð.

Heimild:
-Árni Óla, Strönd og Vogar, 1961.

Hólmabúð

Herdísarvíkurhraunshellir
Stefnan var tekin suður og niður Herdísarvíkurhraun frá Sængurkonuhelli. Með í för var rúmlega 8 metra langur stigi sem og Björn Hróarsson, hellafræðingur, sá Íslendingur, sem ásamt félögum sínum, hafa hvað oftast fyrstir manna, skoðað hina ýmsustu staði undir yfirborði skagans.
HerdísarvíkurhraunshellirÆtlunin var að komast niður í Herdísarvíkurhraunshelli, sem SG kom auga á fyrir skömmu. Um er að ræða tiltölulega lítið op á sléttri hraunhellu skammt ofan við ströndina, en niðri virtist ókannað gímald. Hvað þar kynni að vera vissi enginn því ekki er vitað um nokkurn mann, hvorki lifandi né dauðann, sem þangað hefur komið. Þó er ljóst, að ef sá hinn sami hefur komist niður, hefur hann örugglega ekki komist lifandi sömu leið til baka. Og þótt landssvæðið sé ekki langt frá þéttbýlinu á Suð-Vesturlandi er þarna um algerlega ókannaðan stað að ræða á jarðkringlunni. Hér var því um frumkvöðlaför að ræða og líklega yrðu þeir, sem „innvolsið“ litu augum, þeir fyrstu sem það gerðu. Það eru ekki margir ókannaðir staðir á Íslandi, en þó er vitað um nokkra, sem þarf að berja augum, suma reyndar með svolítilli fyrirhöfn.
Hellirinn er, sem fyrr segir, skammt ofan við Herdísarvíkurbjargið, svo aldrei var að vita hversu langt sjórinn gæti hafai náð að honum.
Opið er í rauninni vandfundið. Vörðubrot er þó norðan við það, líklega til að vara við hættunni, sem það gæti haft í för með sér. Í snjó eða lágrenningi gæti sá, sem væri þarna á ferð, auðveldlega horfið niður um gatið, án þess að nokkur yrði þess var – og allra síst hann sjálfur.
Þegar farið er niður í „gímald“ sem þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir tilgangum, huga vel að öllum aðstæðum sem og öllum búnaði. Gera þarf ráð fyrir því að komast upp aftur að könnun lokinni. Lántakanda stigans var best treystandi til þessa því á honum hvíldi sú kvöð að koma honum samviskusamlega til skila.
HerdísarvíkurhraunshellirStiginn var útbúinn til niðurhals. Að því búnu fetuðu leiðangursmenn sig niður á við, þrep af þrepi. Snjóskafl var í botninum. Ýmsar tegundir mosa þöktu berg og steina. Í rauninni gæti þetta vel verið ævintýraheimur gróðurfræðinga því þarna voru ýmsar skuggsælar plöntur. Fallegur burkni óx t.d. undir opinu. Hreiður voru á syllum. Undir bergveggjunum féllu dropar í grunnar tjarnir. En hvorki var að sjá ummerki túpu eða hraunrása. Svo virtist sem þarna væri um að ræða tæmda kvikuþró undir storknaðri hraunhellu. Grjótið, sem fallið hafi niður úr þakinu gæti hafa lokað fæðurásinni, en ekki var að sjá glerjung eða merki um mikinn hita á veggjum.
Þótt Herdísarvíkurhraunshellir hafi ekki opnast inn í hraunrásir er hvelfingin merkileg út af fyrir sig. Og hún er ekki síst merkilegt fyrir það að hafa nú verið könnuð, 1132 árum eftir að fyrstu norrænu mennirnir fetuðu sig þarna með ströndinni í leit að öndvegissúlum þess fyrsta landnámsmanns, sem skv. seinni tíma ritum, er sagður hafa tekið sér fasta bólfestu ekki alllangt frá. Líklegt má þó telja að þá hafi ströndin verið mun utar en nú er og „gatið“ því ekki verið í alfaraleið, hvorki þá né síðar. Og ólíklegt er að nokkur maður fari þarna niður næstu árin eða áratugina – jafnvel næstu 1132 árin.
„Landkönnun“ voru fyrrum álitið bæði þarft og mikilvægt framlag til „sameignamyndunar“ þjóðar. Flest fólk vildi vita sem mest og best um umhverfi sitt. En það var fyrrum… Í dag eru gildin önnur.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Flatahraun

Gengið var frá Hraunsholtstúni upp á Gjárréttarstíg með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum var fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun, framhjá Miðaftanshól og yfir Reykjanesbraut, en stígurinn er undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól, á Moldargötur og eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun að Kolanefi og þaðan stíg upp í Selgjá.

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Á Flatahrauni eru hlaðnir garðar og sjá má móta fyrir öðrum minjum. Réttin er hlaðin utan í hraunhól og við hana er tóft. Sunnar liggur Hraunsholtsselsstígur upp í Hraunsholtssel sunnan undir Hádegishól og Hraunsholtsstígur um Álftanesstíg og Kirkjusstíg að Görðum. Norðvestar í hraunkantinum sést móta fyrir tóft í gróinni kvos. Hraunsholtshellir er í norðanverðum hraunkantinum skammt vestan við þar sem stígurinn liggur upp á hraunið.
Flatahraun og önnur hraun, sem nefnd verða hér á eftir, eru í rauninni öll komin frá Búrfellsgígnum; Búrfellshraun – 7270 ára gamalt -, en hafa verið nefnd ýmsum nöfnum á leið þeirra að endamörkum, s.s. Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun og Gálgahraun að austanverðu og Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun að vestanverðu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Ofan við Miðaftanshól er járnbrautargatan yfir Garðahraunið, eða sá hluti, sem eftir er af henni. Járnbrautin átti að ganga milli Hafnarfjarðar og Vífilsstaða, en gatan er vera átti undir teinana er það sem eftir er af þeirri framkvæmd. Um er að ræða tiltölulega slétta götu og miklar hleðslur á köflum. Fallegasti hluti hennar lá ofan við fiskreitina ofan við Hafnarfjörð, en byggt hefur verið á öllu því svæði. Eftir er u.þ.b. 100 metra kafli í Garðahrauni þar sem, að því er virðist, hafi verið hætt við framkvæmdina við norðurbrún hraunsins.

Jónshellar

Jónshellar.

Austan brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt.

Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001.

Maríuhellar

Maríuhellar.