Krossstapi

„Fyrir ofan Skorás taka við slétt mosa- og hraunsvæði allt upp að Krossstöpum. Krossstapar eru tveir sérkennilegir og klofnir klettastapar, hvor upp af öðrum með stuttu millibili. Um neðri og stærri stapann endilangan liggur í bókstaflegri Mid-krossstapi-221merkingu gömul sauðfjárveikivarnagirðing.
Samkvæmt heimildum eiga Krossstaparnir að vera þrír, Neðsti-Krossstapi, Mið-Krossstapi og Hraun-Krossstapi en erfitt er að henda reiður á hver ber hvaða nafn. Mið-Krossstapi er sagður hornmark jarðanna Lónakots, Hvassahrauns og Óttarsstaða í landamerkjabréfum en í raun er enginn Mið-Krossstapi sjáanlegur því staparnir eru aðeins tveir að því er virðist. Rétt sunnan við þann neðri er þó smá klettahóll en ólíklega er hann talinn með stöpunum. Í örnefnalýsingu er sagt frá þremur í eftirfarandi röð ofan frá: Hraunkrossstapi, Miðkrossstapi og loks Krossstapi eða Neðstikrossstapi. Upplýsingarnar eru ekki eldri en frá árinu 1980 og einkennilegt að einn stapinn skuli hreinlega týnast á þessum stutta tíma! Örnefnið er sérkennilegt og ekki gott að segja af hverju það er dregið nema þá helst því að staparnir eru krosssprungnir. Einhverjir telja að týndi Krossstapinn sé fyrir ofan þann „efri“ en aðrir telja hann neðan við þann „neðri“.

Efsti-Krossstapi-221Frá Krossstapa þeim sem gamla girðingin liggur um sjáum við vörðuna á Selásnum við Hvassahraunssel í vestri og er líklega tæpur kílómetri að henni. Rétt neðan við stapann eru fjögur tófugreni sem kölluð eru Krossstapagrenin. Fjárgirðingin liggur austan við efri Krossstapann en á honum er varða sem virðist vera nýleg. Markalínan liggur líklega á svipuðum slóðum og girðingin þannig að við höldum okkur í námunda við hana. Tæpan kílómeter fyrir ofan stapann er Sléttuhraunsgreni en það er líklega á landamerkjalínunni. Suður af efri stapanum er mjög stórt jarðfall sem snýr í suðurnorður. Jarðfallið er umlukið björgum en ofan í því er töluverður gróður. Ein heimild segir kerið heita Urðarás og er það örnefni lýsandi fyrir staðinn. Vestan í jarðfallinu er Urðarásgreni og reyndar fleiri greni á næsta leiti.
Urdaras-221Ofan og sunnan við Krossstapana göngum við um kjarri vaxnar hæðir sem heita Skógarnef (et.) og þar eru Skógarnefsskúti og Skógarnefsgren. Grenið er neðan við brekkurnar um kílómetra norðvestur af Búðarvatnsstæði sem við skoðum hér rétt á eftir. Skógarnefsskúti hefur ekki fundist óyggjandi að því að best er vitað en þar var fjárskjól. Um Skógarnef liggur Rauðamelsstígur úr Hraunum sem fyrr er nefndur.
Austan Skógarnefs er mikil hæð sem talin er til Hafnarfjarðar og heitir hún Sauðabrekkur. Á landamörkunum fyrir ofan Skógarnefið er Sauðabrekkugreni og Klofningsklettur en hans er getið í gömlum merkjabréfum.“
Við framangreint má bæta að vissulega eru Krossstaparnir þrír og allir vel greinilegir, þó efri bræðurnir tveir standi Ottarsstadir-Lonakot-landamerkihærra í landinu en sá neðsti. Nánast jafnlangt er á milli Mið- og Efsta-Krossstapa og Mið- og Neðsta Krosstapa. Neðan við hann eru Krossstapagrenin merkt. Skógarnefsskútinn er á mörkum Óttarsstaða og Hvassahrauns, ofar en landamerki Lónakots liggja með Óttarsstaðalandi, sbr. landamerkjavörðuna skammt austan Lónakotssels.
Þá segir ennfremur í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun: „Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.“
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdótir, 2007, bls. 119-120.

Krossstapi

Krossstapi.

Arngrímshellir

Á Reykjanesskaganum eru þekktir um 600 hellar og skjól. Líklega er rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notað undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verk.

Húshellir

Í Húshelli.

Hellarannsóknarfélaginu er kunnugt um alla kunna hella og skjól á svæðinu. Einnig hvað í þeim er að finna. Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu Þjóðminjalöganna, þar sem segir að „til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.“
Skv. framangreindu mætti skipta hellum, skútum og skjólum á Reykjanesskaganum í tvo flokka, þ.e. a) án fornleifa og b) með fornleifum sbr. framangreint. Síðarnefnda flokkunum væri síðan hægt að skipta í tvo undirflokka; I) hella með titeknum mannvistarleifum, s.s. hleðslum, áletrunum, bælum o.fl. og II) þjóðsagnakennda hella.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Undir síðarnefnda aðalflokkinn teljast u.þ.b. 100 fjárskjól á Reykjanesskaganum. Mörg þeirra hafa verið í notkun fram yfir aldamótin 1900. Má þar nefna Strandarhelli, Bjargarhelli, Gaphelli, Eimuból og Strandarselsból á Strandarheiði, Fjallsendahelli, Stekkshellir og Litlalandshelli í Ölfusi, Breiðabáshelli og Seljabótarhelli í Herdísarvíkurhrauni, Arngrímshelli (Gvendarhelli) og Krýsuvíkurhelli í Klofningum, fjárskjól í Bæjarfelli, Arnarfelli, við Vigdísarvelli og Ísólfsskála sem og í Katlahrauni, Fjárhella í Kálffelli, við Hvassahraun, Lónakot, Óttarsstaði, Straum og Þorbjarnarstaði í Hraunum, fjárskjól ofan við Ás og í Kaldárseli, Selgjá og Búrfellsgjá og þannig mætti lengi telja.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Undir fyrrnefnda undirflokkinn teljast t.d. hellar eins og Gíslhellir við Rauðamel, Gullbringuhellir, Húshellir, Skjólið í Strandarheiði, Oddshellir í Kálffelli, Útilegumannahellar og Brauðhellir í Eldvörpum, Hestshellir og Dátahellir í Arnarseturshrauni, Sæluhúsið undir Lat, Loftsskúti og Brugghellir ofan við Hvassahraun, Helluhellir og Smalahellir við Kleifarvatn og t.d. Áni undir Hlíðarfjalli. Annars er letur og áletranir í mjög fáum hellum á Reykjanesskaganum (borgar sig ekki að upplýsa hvar).
Einn stærsti og fallegasti manngerði niðurgangurinn í helli á svæðinu er í Skjólinu í Strandarheiði og í Þorsteinshelli norðan við Selgjá. Óvíst er í hvaða tilgangi Skjólið var notað, en við það er bæði stekkur, tóft og fjárskjól. Gólfið innanvert er slétt og á því miðju er eitt einasta bein – sem segir svo sem ekkert. Þorsteinshellir er hins vegar augljóst tvískipt fjárskjól.
Undir seinni undirflokkinn teljast t.d. Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni, Draugshellir í Ölfusi, Draugahellir í Valahnúk, Dauðsmannskúti í Kóngsfelli, Litlihellir við Selfjall, Rauðshellir við Helgafell og Strandarhellir, Dúnknahellir við Hraunssand og Smíðahellir við Selatanga og Sængurkonuhellir í Illahrauni.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ljóst er að mannvistarleifar í hellum á Reykjanesskaganum hljóta að tengjast bæði fjárbúskap og ferðum manna á milli byggðalaga. Auk þess tengjast þeir athöfnum manna, s.s. veiðum, hvort sem um var að ræða rúpna-, refa- eða hreindýraveiðum. Minjar alls þessa má sjá í hellunum. Hellarnir og skjólin eru þess vegna tilvalin rannsóknarefni fyrir áhugasama fornleifa- og/eða þjóðfræðinga á höfðuborgarsvæðinu, sem ekki vilja fara of langt til efnisöflunar.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Minna má á að ekki er langt síðan að FERLIRsfélagar fundu niðurgang í Bjargarhelli. Um slíkan „gang“ er getið í gömlum þjóðsögum og er þá jafnan átt við Strandarhelli, sem er þar skammt frá. Ekki er ólíklegt að ætla að einhverjir hafi ruglað hellunum saman, enda hvorutveggja fjárskjól. Annars væri fróðlegt fyrir einhvern fræðinginn að taka fyrir „nafnafrávikskenninguna“ í tíma og rúmi. Eflaust gæti ýmisleg nýmæli komið út úr því. Margt óþarflegra hefur verið gert í fræðunum í gegnum tíðina. Með rannsókninni væri hægt að sameina hugmyndir og kenningar í ýmsum fræðigreinum.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Sog

Eftirfarandi frásögn Ágústar Björnsdóttur, „Á rölti um Reykjanesfjöll„, birtis í Morgunblaðinu 1971:
Fagridalur-551„Jafnan hef ég átt heima þar sem vel sést til Reykjanesfjall-garðsins, og framan af fannst mér Keilir vera þar eina fjallið sem umtalsvert væri og nokkuð kvæði að. Smám saman breyttist þó þetta viðhorf og brátt gerði ég mér grein fyrir því, að þessi fjarlægu bláu fjöll voru ekki ein órofa heild þar sem Keilir réð lögum og lofum, held ur voru þarna margir fjallgarðar, sem hétu hver sínu nafni og báru auk þess einhver séreinkenni, sem hægt var að glöggva sig á. Lítum til dæmis á Lönguhlíð, sem sannarlega ber nafn með rentu. Hún er hæst austur við Grindaskarðahnjúka og nokkuð mishæðótt þar, en lækkar avo jafnt og þétt unz hún endar í langri aflíðandi brekku vestur við norðurendann á Kleifarvatni og er það engin smáræðis spölur. Fjallið er að mestu Slétt að ofan, en hlíðarnar eru einlægar skriður, snarbrattar víðast hvar. Brúnirnar eru jafnar, en þó eiga að heita þar nokkur dalverpi eða skörð t.d. Fagridalur þar sem hraun hefur fossað niður hlíðina, en austar er Kerlingarskarð.

grindaskord-661

Þar sem Lönguhlíð sleppir heitir Vatnsskarð og eins og nafnið gefur til kynna er þar allbreitt skarð í fjallgarðinn. Vestan við Vatnsskarðið breytir heldur betur um svip, því að í mótsetningu við reglubundnar línur Lönguhlíðar taka nú við tveir fjallgarðar með þvílíkri mergð tinda og skarða að tæplega verður tölu á komið. Eystri fjallgarðurinn er Sveifluháls — einming nefndur Austurháls — mjög er hann lágur næst Vatnsskarðinu en hækkar þegar vestar dregur. Kleifarvatn er austanundir Sveifluhálsi og liggur bílvegurinn meðfram vatninu um hlíðar hans. Sveifluháls er, hvaðan sem á hann er litið, framúrskar andi skörðóttur og til að sjá mætti einna helzt líkja honum við illa tennt sagarblað. Vestur af Sveitfluhálsi tekur við Núpshlíðarháls eða Vesturháls, er hann hæstur nyrzt þar sem er fjallaklasinn Trölladyngja. Austan og norðan við Dyngjuna er lágt fjall með oddhvassa tinda og heita þar Mávahlíðar. Þar eru gosstöðvar firna miklar. Röðin mun nú komin að Keili, sem er þekktasta og auðkennilegasta fjallið á Reykjanesskaganum og þarf ekki frekari kynningar við. í Ferðabók fullyrðir Þorvaldur Thoroddsen að Keilir hafi aldrei gosið, þótt útlitið gæti bent til þess. Í fjallsrótunum norðanverðum eru tveir litlir hólar, nefndir Keilisbörn, þar fyrir vestan tekur við Fagradalsfjall, sem er lágkúrulegt en tekur yfir allstórt svæði.

keilir-661

Eru nú upptalin helztu fjöll á utanverðum Reykjanesfjall-garðinum, en milli hans og sjávar er eitt samfellt hraunhaf sem víðast hvar er illt og erfitt yfirferðar. Götur og troðningar liggja þó víðs vegar um þessi hraunflæmi og hafa vafalaust verið fjölfarnar leiðir fyrr meir þótt nú sé æði fáförult um þær slóðir. Reykjanesfjöll eru ekki há í loftinu, hæstu tindar innan við 400 m yfir sjó. Engu að síður finnst mér ævinlega að þau búi yfir sérstæðum þokka og marga stund hef ég unað mér við að gefa þessum góðkunningjum mínum gætur, á öllum árstímum og ýmsum tímum sólarhringsins. Fjölbreytnin er furðu mikil, ekki hvað sízt þegar þessi snotru fjöll fá sól og sæ og heila flokka af skýjum í lið með sér og efna til stórkostlegra skraut sýninga þar syðra.
Oft gerist það í skammdeginu kaldársel-661að sólin hellir yfir þau eldrauðu geislaflóði og kyndir svo bál undlir skýjaklökkunum unz allt sindrar eina og glóði í afli. Og þegar svo ber undir er það ómaksins vert að hægja ögn á sér í kapphlaupinu við tímann og njóta um stund þeirrar litsköpunar sem móðir náttúra sýnir af örlæti, endurgjaldslaust.
Á árunum milli 1930 og 1940 var algengt að göngufólk legði leið sína suður á Reykjanesfjall garð þótt allmiklum erfiðleikum væri bundið að komast þangað því enginn var þá Krýsuvíkurvegurinn. Í þá tíð var Kaldársel nokkurs konar umferðarmiðstöð, sem all flestar gönguferðir um þessar sióðir voru miðaðar við og síðan valdar greiðfærustu leiðir milli hrauns og hliða eftir því sem við varð komið. Á þessum tíma var gönguferð að Kleifarvatni allmikið fyrirtæki, að ekki sé minnzt á Krýsuvík, Herdísarvík eða Selvog.
afstapahraun-661Mun nú lítillega verða sagt frá ferð sem farin var á þessar slóðir síðsumars 1963, vorum við fjögur sem til hennar efndum og yngstur í hópnum var drengur, þá nýlega orðinn 10 ára gamall.
Snemma morguns á sunnudegi nálægt miðjum ágústmánuði tók um við okkur far með Keflavíkurbíl og fórum úr hornum þar sem heitir Kúagerði, er það undir vesturbrún Afstapahrauns þar sem það gengur í sjó fram skammt frá Vatnsleysu. Kúagerði var fyrr meir vinsæll áningarstaður enda ríkulega búinn þeim kostum, sem slíkur staður þarf að hafa: stór grasivaxin laut, og í botni hennar lítil tjörn með ósöltu vatni, en því líkar vinjar eru ekki á hverju strái í hraunviðáttum Reykjanesskagans. Eftir því sem ég bezt veit er staður þessi ekki lengur til í þeirri mynd sem áður var, — hefur að mestu fallið inn í stórframkvæmdir í vega gerð síðustu ára og er þá ekki að sökum að spyrja. Að ferðamannasið stöldruðum við stundarkorn i Kúagerði og supum kaffi sem við höfðum meðferðis. Þegar bíllinn, sem dró á eftir sér rykslóða, var úr augsýn, fórum við að tygja okkur til ferðar, sem til að byrja með var heitið suður á Keili.

Trolladyngja-551

Frá þeim stað, sem við nú vorum stödd á, er vegalengd þangað talin vera 8 km þ.e.a.s. loftlína, en ef með eru taldar allar mishæðir bæði upp á við og ofan í móti, hygg ég ekki fjarri lagi að bæta við hana 2—3 km.
Loks erum við tilbúin í gönguna og finnist mér þá mál til komið að minnast ögn á veðrið, — en það var svo gott sem frekast varð á kosið, hægur norðanandvari, loft alheiðskírt og bjart mjög til fjalla. Afstapahraun, sem fyrr var á minnzt, er nú á vinstri höhd, úfið og grett og að mestu sneytt öðrum gróðri en mosa, enda telst það með yngri hraunum á Reykjanesskaga. Nokkru öðru máli gegnir um Strandarheiðina, gamla hraunið, sem leið okkar lá um, því þar má víða þræða sig eftir grasteygingum og snöggum móum og hafa sæmilega mjúkt undir fæti.
Við fórum okkur mjög rólega og nutum í ríkum mæli alls þess er fyrir augu bar. Ilmur úr jörð og kvak í mófugli gerði sitt til þess að auka gildi líðandi stundar. Þegar leið að hásvarafátt degi fórum við að svipast um eftir þægilegri laut þar sem við gætum matazt og varð fljótgert. Og sem við sátum þar í sólskininu og virtum fyrir okkur umhverfið.

Hoskuldarvellir-661

Héldum við nú af stað aftur. Fjöllin að baki hraunhafsins virtust nú ekki langt undan: Langahlíð, Sveifluháls, Trölladyngja, Keilir og Fagradalsfjall teygðu sig blá og hrein upp í heiðríkjuna iðandi í tíbrá miðdegissólarinnar. Heldur mæddumst við á göngunni sakir hitans, en vonum fyrr bar okkur við hvíldum okkur vel og lengi áður en við lögðum á brattann. Drengurinn átti erfitt með að halda kyrru fyrir, hann hljóp við fót upp brekkuna án þess að mæðast hót og varð lang fyrstur upp á toppinn. Við hin reyndum eftir megni að fylgja honum eftir og tókst það með blástrum miklum, stunum og andköfum. Útsýnið var vítt og tilkomumikið. Hið næsta ómælishraunhaf til allra átta og upp úr þvi smærri og stærri fjallstindar á víð og dreif. Við endamörk hraunhafsins í suður og vesturátt tók við blár hafflötur svo langt sem séð varð. Þá mátti greina Eldey, gegnum hitamóðu, í suðri.
Yfir Faxaflóa bar Snæfellsjökul og fjallgarðinn allan, en lengst til austurs sáust Kálfstindar, en sem kunnugt er rísa þeir upp af Laugardalsvöllum. Drengurinm var ekkert sérlega uppnæmur fyrir útsýninu, en hafði þeim mun meiri áhuga á að ráða fram úr nokkrum mannanöfnum og ártölum, sem einhverjir höfðu gert sér til dundurs að raða saman úr smáum steinvölum. Við það að leiða augum hálfhrunda vörðu á tindinum skaut upp í huganum aldarfjórðungs gamalli minningu. Hópur af ungu og glaðværu fólki var þá einn sumardag statt á þessum sama tindi og hafði einum úr hópnum hugkvæmzt að hafa meðferðis bók ætlaða ferðafólki að rita nöfn sín í.
Vel var um bókina og skriffæri búið í vatnsheldu hylki og stungið í þessa vörðu, sem þá var bæði stór og Sog-662stæðileg. En nú var hún hrúgald eitt og hylkið með bókinni, sem varðveita átti nöfn okkar og annarra ferðamanna um aldur og ævi, farið veg allrar veraldar. Uppi á Keili var vel hlýtt og blæjalogn, höfðum við þar langa viðstöðu og hvíldum okkur rækilega undir næsta áfanga. Um nónbil fórum við að feta okkur niður fjallshlíðarnar og tókum síðan stefnu austur á Trölladyngju, er það drjúgur spölur og að mestu um mosavaxin hraun að fara. Dyngjurnar eru tvær: Trölladyngja með oddmjóan tind, en Grænadyngja kollótt og eilítið hærri. Norður af Dyngjunni er víðáttumikið graslendi, Höskuldarvellir, eru þeir afgirtir en grasnytjar tilheyra Stóru-Vatnsleysu. Bílfært er á Höskuldarvelli, en þar sem um einkaveg er að ræða, mun vera óheimilt að aka hann nema leyfi Vatnsleysubænda komi til.

selsvellir-662

Suður af Dyngjunum er svo áðurnefndur Núpshlíðarháls, en hluti af honum heitir Selsvallafjall og er þar að sögn mikill og fagur grasgróður. Vestanundir Selsvallafjalli eru Selsvellir og telja margir að þar sé einn fegursti bletturinn á utanverðum Reykjanesskaganum.
Þarna eru gamlar útilegumannaslóðir. Segir sagan að skömmu eftir aldamótin 1700 hafi þrír útilegumenn hafzt þar við. Forsprakkinn hét Jón og var úr Eystrihrepp, með honum var unglingspiltur að nafni Gísli. Sá þriðji var úr Landeyjum og hét einnig Jón. Um hríð höfðust þeir við í skúta nærri Selsvöllum og víðar þar í grennd, og viðhöfðu tilburði í þá átt að ræna vegfarendur og einnig stálu þeir sauðfé til matar sér.
Byggðamenn urðu fljótt varir við vigdisarvellir-662útilegumennina, enda var aðsetur þeirra í nánd við fjölfarinn veg. Ekki leið á löngu þar til þeim var komið í hendur yfirvalda og enduðu tveir hinir eldri líf sitt í gálganum. Sunnan við Dyngjurnar eru djúp gil og heita þar Sog. Uppi undir brúninni er stór leirhver. Allmiklu sunnar var býlið Vigdísarvellir, en er fyrir löngu komið í eyði. Á þessum slóðum eru einhverjar mestu gosstöðvar á Reykjanesskaga og segir Þorvaldur Thoroddsen svo í Ferðabók: „Sogin skiptast í tvö aðaldrög, eru gilin 125—150 metra djúp. Hefur þar áður verið mikill jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sums staðar eru aðrir litir, hvitir, gulir og bláir. —

djupavatn-91

Elztu gos, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rétt við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum, stórum gígum að varla verður tölu á komið. Einn hinn stærsti er við Sogalækinn. — Hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans er stór grasi vaximn völlur. Í annálum er getið um fimm gos í Trölladyngjum.“
Við sátum lengi í grabrekkunni í Sogunum og nutum veðurblíðunnar. Þaðan tókum við stefnu á allháan hnjúk ekki ýkja langt undan, en af þeim sjónarhóli blasti við furðusýn. Fyrir neðan okkur kúrði Djúpavatn, lygnt og slétt inni á milli hárra, mosavaxinna hnjúka, en landið umhverfis var bókstaflega þakið gígum, stórum og smáum, sem allir voru vaxnir þykkum gráhvítum mosa. Okkur fannst þetta minna talsvert á myndir sem við höfðum séð af yfirborði tunglsins. Við norðausturenda Djúpavatns eru Lækjarvellir, grasi grónir. Ein hverjar tilraunir munu hafa verið gerðar með fiskirækt í Djúpavatni, en u m árangur er mér ekki kunnugt. Þarna ríkti sannarlegá andblær óbyggða þótt Stór-Reykjavik, með sitt ólgandi lif, mætti heita í sjónmáli og ein mesta umferðaræð landsins á næsta leiti.
Middegishnukur-771Nú var degi tekið að halla og enn áttum við langan veg fyrir höndum þar sem var leiðin með fram endilöngum Sveifluhálsi, á bílveginn skammt frá Vatnsskarði. Enga bííferð áttum við vísa og gat því alveg eins farið svo að við yrðum að ganga alla leið tilHafnarfiarðar. Þó kviðum við engu, því að í kvöldkyrrðinni var gangan eftir sæmilega greiðfærum götuslóðum milli hrauns og hlíða engan veginn leið þótt löng væri.
Tindarnir á Sveifluhálsinum heita ýmsum nöfnum. Þar er Arnarnípa, Hattur og Hetta, Miðdegishnjúkur, Stapatindur og sjálfsagt margir fleiri, sem ég kann ekki að nefna, og voru þeir nokkuð skuggalegir eftir að birtu fór að bregða. Síðsumarnóttin sé hægt og rólega vestur á bóginn í mildum bláma, dögg féll á jörð og fuglakvak hljóðnaði.
Síðasta spölinn áttum við fullt í fangi með að sjá fótum okkar forráð í hrauninu þar sem dimmar gjótur gátu leynzt við hvert fótmál. Allt fór þó vel og á ellefta tímanum komum við loks á bílveginn, hvíldum okkur um stund en héldum síðan göngunni áfram. Áttum við þess varla von að vera svo heppin að góðhjartaður vegfarandi tæki þessa göngulúnu vesalinga upp á arma sína og kæmi þeim til síns heima. En sú varð þó raunin á, þvi eftir skamma stund sáum við bílljós og var þar stór bíll á ferð. Er ekki að orðlengja það að bifreiðin stanzaði og var okkur boðið far með góðum og guðhræddum K.F.U.K. konum, finnskum að þjóðerni, sem voru hér í kynnisför. Þáðum við boðið með þökkum og lauk þar með eftirminnilegri ferð á kristilegan máta.“

Heimild:
-Morgunblaðið 9. júlí 1971, Ágústa Björnsdóttir; Á rölti um Reykjanesfjöll, bls. 10 og 18.

Ganga

Gengið um Sveifluháls.

Krókur

„Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð (185-42) og er girt kringum tún býlisins.
Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og krokur-222enn ofar er gamli skólinn [185-32].“ (Bls. 3). Skv. Örnefnaskrá 1964 var Krókur „hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt“ (B65-6). Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt upp við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðaholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).“

Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu (185-26) og garði (185-29). Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi (bls. 23) en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar („1300-74“), timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4 (bls. 81). Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30.
krokur-321Í Manntali árið 1801 er Krókur kallaður „húsmannspláss“ en þar bjuggu þá tvær jarðnæðislausar útgerðarfjölskyldur: hjónin Árni Einarsson og Ólöf Torfadóttir ásamt Unu Ögmundsdóttur, frændkonu mannsins, og hjónin Þórður Jónsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir ásamt Steinunni Jónsdóttur, fátæku barni (bls. 355). Þegar Manntal var tekið 1816 voru þau fyrrnefndu flutt en þau síðarnefndu bjuggu enn á jörðinni. Þórður hafði fengið titilinn „kirkjuforsöngvari“, Steinunn var orðin vinnukona á heimilinu og í fjölskylduna hafði bæst dóttirin Guðríður og fóstursynirnir Jón og Jakob. (Bls. 409). 29 árum síðar voru þau öll farin og hjónin Þorvarður Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir flutt úr grasbýli sínu á Hausastöðum í Krók en honum fylgdi einnig grasnyt. Hjá þeim voru Þorvarður 23 ára sonur og Ólöf 12 ára fósturdóttir. (Bls. 392). Býlið er ekki nefnt í Jarðatali 1847 en hins vegar í Jarðabók 1861 (bls. 38). Það var í eigu Garðakirkju fram um miðja 20. öld. Árið 1934 fluttust hjónin Vilmundur Gíslason og Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir í Krók og bjó hún þar til 1986, þá orðin 87 ára gömul. Síðan stóð bærinn mannlaus en 1990 gáfu afkomendur þessara síðustu ábúenda húsið ásamt innbúi til Garðabæjar og stendur nú yfir viðgerð. 
krokur-4Árið 1861 var jörðin talin 5 ný hundruð en 1932 var hún metin á 17 hundruð kr. Kúgildi voru tvö, úr 1500 m² matjurtagarði fengust 12 tunnur og af 1 ha túni 36 hestburðir af töðu. 1942-4 hafði matsverð jarðarinnar hækkað í 29 hundruð kr., auk kúgildanna voru 8 sauðir og eitt hross, garðurinn gaf af sér 15 tunnur og túnið 58 töðuhestburði. Hlunnindi voru hrognkelsaveiði, útræði, mótak og ýmislegt fleira en í Örnefnalýsingu segir frá Birni bónda í Króki sem var þar fram um 1917: „einn þeirra, sem sótti þang til eldiviðar í Lambhúsatjörn, og mun hafa verið sá síðasti, sem það gerði. Taldi hann þangið úr Lambhúsatjörn betri eldivið en þangið úr fjörunni í Garðahverfinu. Bar hann allt heim á sjálfum sér, því hest átti hann ekki.“

Heimildir:
-Garðahverfi. Fornleifaskráningu 2003. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands, bls 40-41 – Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir.
-Ari Gíslason: Örnefnalýsing Garðahverfis. 1958.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931, öðlast gildi 1. apríl 1932.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 3, 6. jan. 1938. 1942-1944.
-„Smábýlið Krókur í Garðaholti verður endurbætt í varðveisluskyni. Fágæt innsýn í líf um og fyrir miðja öld.“ Morgunblaðið 9. maí 2000. Bls. 14.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A69-70 / Garðaland B65-6, Bæjatal A477 / B462.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir: „1300-74“. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976-7.
-Ný Jarðabók fyrir Ísland, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.
-Manntal á Íslandi 1816 V. hefti. Rvk. 1973.
-Manntal á Íslandi 1845 suðuramt. Rvk. 1982.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Garðar, Krókur, Nýibær frá 1918.

Krókur

Krókur.

Þingvellir

Fjölmargar fornar leiðir liggja um Þingvöllu – allt frá fyrstu tíð til þessa dags. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880-1881 er m.a. fjallað um hinar fornu götur að og frá Þingvöllum fyrir þá tíð:

thingvellir-oxararfoss

„Eitt af því, sem þarf að gjöra grein fyrir, svo vel sem unnt er, er það, hverja vegi fornmenn hafi riðið á þing og af þingi, bæði þeir, er kómu norðan og vestan, austan og sunnan. Eg hefi talað hér að framan um veg þann, er norðan og vestanmenn munu hafa riðið; enn sunnanmenn eða þeir, sem kómu úr Kjalarnesþingi, hafa varla getað farið niðr Kárastaðastíg, sem nú er aðalvegrinn; sá vegr var ekki gjörðr vel fær fyrr enn hér um bil 1831; þá var sprengt úr klettunum og vegrinn lagðr, svo að nú má fara með klyfjahross, sem kunnugt er; áðr varð þar að eins farið með lausa hesta. Ef söðull var t. d. á hestinum, varð að halda sveifinni, að hún eigi rækist í klett, er stóð fram úr berginu, enn sá klettr var sprengdr í burtu, og svo var víðar. Sama er að segja um Langastíg, sem liggr norðr og upp af Völlunum efri upp úr Almannagjá; hann var gjörðr ári síðar.
Enn í fyrri daga var annar vegr á Þingvöll fyrir Sunnanmenn; lá hann frá Skálabrekku og austr yfir hraunið að Almannagjá niðr við vatnið; mótar þar víða fyrir fornum götum eða troðningum; er þá farið yfir Öxarárfarveginn gamla. Niðr við vatnið er Almannagjá orðin lítil, eða klofnar þar í smágjár og sprungur; þar hefir legið vegr yfir, og heitir Ferðamannaklif enn í dag. Þar virðist víða vera eins og mannaverk úr grjóti yfir gjárnar. Síðan lá vegrinn upp með berghallanum upp með vatninu og upp í þingið, sem nú er kallað, fyrir vestan ána, þar sem búðatóttirnar eru mestar. Þessi vegr var kallaðr Hallvegr; þá var vað á Öxará leirunum eða söndunum við vatnið fyrir framan túnið á Þingvelli, og svo lá vegrinn austr eftir nálægt Vatnskotsveginum, sem nú er kallaðr, og svo til Vellankötlu, og síðan austr til Gjábakka. Það er að segja: þá lá vegrinn ekki yfir Gjábakkastíg sem nú, því að hann var fyrst gjörðr 1832 eða 1833, heldr sunnar fyrir utan, þar sem Hrafnagjá endar eða er orðin nær að engu; síðan lá vegurinn austr á Hrafnabjargaháls. Þessi Hallvegr lagðist af í jarðskjálftanum 1789 eða einkannlega vaðið á Öxará fram við vatnið; þar sprakk í sundr og kómu álar, sem eigi var fært yfir, enda fóru þá af að mestu hólmarnir fram undan Þingvallartúni, sem hafði áðr verið engi töluvert. Þegar vaðið lagðist af á ánni, vóru gjörðar traðirnar gegnum Þingvallartún og austr úr, því að annars staðar varð þá eigi vel farið. Þetta sögðu mér gamlir menn í Þingvallarsveit eftir sínu foreldri, sem lifði í jarðskjálftanum.
Eprestastigur-221nn þá einn vegr liggr frá Armannsfelli eða af Hofmannafleti austr yfir hraunið undir Hrafnabjörg og hjá Raftahlíð, sem kölluð er, og þaðan austr á Hrafnabjargaháls. Þessi vegr var kallaðr Prestavegr eða Byskupavegr, það er auðsjáanlega þessi vegr, sem talað er um við þingreið Þorgils Oddasonar: „Ok hugsa nökkut fyrir sér ráðit ok þykkir eigi ólíklegt at þeir Hafliði myndi þar fyrir sitja ok gæta svo hvárrar tveggju leiðarinnar, er önnur liggr fram undir Ármannsfell ok hjá Sleðaási: en önnur liggr. leiðin austr yfir hraun undir Hrafnabjörg, ok undir Reyðarmúla til Gjábakka, ok svo austan um hraunit til búða“. Eigi mun þetta eiga að skiljast þannig, að Presta- eða Byskupavegrinn hafi verið hin vanalega leið, er Norðlendingar fóru á þing, því að hún var miklu lengri, enn hana mátti þó koma á þing, ef hin var varin.
Nafnið Bláskógaheiði er nú týnt þannig, að það er eigi viðhaft í daglegu máli, enn það er víst, að Bláskógaheiði hét yfír höfuð í fornöld allar heiðar og aðalvegir, er liggja fyrir norðan og vestan Bláskóga (Þingvallarsveit); er það og eðlilegt, að fjallvegrinn í heild sinni hafi dregið nafn af Bláskógum.
Einn er aðalvegrinn, þegar farið er norðr eða vestr af Þingvelli; liggr hann upp hjá Ármannsfelli, sem kunnugt er, og upp Klyftir og hjá Sandvatni og yfir Tröllaháls. Norðrvegrinn liggr upp á Kaldadal. Fyrir ofan Brunna, sem eru efstu grös á þeim vegi, eða þar sem menn á, er af Kaldadal er komið, þar skiftist vegrinn, og er það kallað að fara fyrir Ok, er þá komið ofan í Reykholtsdal (Reykjadal nyrðra) eða Hálsasveit.“
Síðan framangreint var skrifað af kostgæfni í Árbókina á fyrrgreindum tíma, þótt ekki sé langur tími um liðinn, hefur mikið vatn áa runnið til sjávar. Um framhaldið má lesa á næstunni í „Reykjavíkurleiðir“. Ritið mun birtast á vefsíðu Vegagerðarinnar, líkt og „Grindavíkurleiðir„. 

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. árg. 1880-1881, bls. 32-42.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Hóp

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (fyrri hluti). Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt of flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Árið 1840 er „jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegheitum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.“ Í Landnámi Ingólfs segir að „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“

Hóp

Hóp – túnakort.

Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talið hafa heitið Hof. Bær Molda-Gnúps í Álftaveri austan mun hafa heitið Hof. „Sagt er að bærinn hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum,“ segir í örnefnaskrá.
Landið er sneið af Þorkötlustaðanesinu og spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn sitt af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga. Ós var á hópinu, austast, stundum nefndur Barnaós því þar munu börn hafa drukknað.
Inn á túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Það var um 140 m suðsuðaustan við Hópskot. Húsið hefur verið í námunda við þar sem nú er fiskvinnsluhús við Bakkalág. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og bærinn því kominn undir veginn.

Grindavík

Grindavík – Hópið.

Gamli Hópsbærinn stóð að hluta þar sem fjárhúsbyggingin stendur nú. Hann hefur þó náð lengra til norðurs þar sem nú eru tún. Tröð lá niður túnið á Hópi. Enn sjást merki um tröðina vestan í bæjarhólnum og má greina hvar hún beygir meðfram honum til austurs. Sléttuð tún eru umhverfis. Tröðin er greinileg á 16 m kafla vestan í bæjarhólnum og beygir meðfram honum sunnaverðum. Á þessu svæði hefur tröðin mótast af bæjarhólnum, en hlaðið hefur verið upp með henni að austan.
„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft“, segir í örnefnaskránni. Goðatóftin er friðlýst frá 25.10.1930. Brynjúlfur Jónsson segir 1903 að „bærinn Hóp hafi upphaflega heitið Hof og að þar hafi verið goðahof“. Þar hafi verið „goðahús“ í heiðni og þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota á hvern hátt sem hentar. „Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skamms tíma verið geymsluskemma, en nú er það haft fyrir fjós,“ segir Brynjúlfur. Tóftin er einföld og snýr austur-vestur. Op er syðst á vesturhlið.

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Engar vísbendingar eru um staðsetningu bænhússins, en það hefur þó líklega verið í námunda við bæjarstæðið.
Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum. Frá 1880 og fram yfir aldamótin er þriðja býlið á Hópi nefnt Litla-Hóp í manntölum, og á kortum er sýnt Hópskot suðaustan við bæinn.
Melber er merkt inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamal bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún.

Hópssel

Hópssel.

Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá asuturhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Tóft er 10 m norðan við vegarslóðann sem liggur suður Hópsnes. Þar mun hafa verið ískofi, líkt og í Þórkötlustaðanesi. Önnur tóft er fast norðan við Bakkalág með sama brúkunargildi skv. upplýsingum Tómasar Þorvaldssonar.

Ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða og norður af þeim hólum heita Katlar. Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, sem stóð á fjörukambinum, en er nú horfin. Hún var endurhlaðin a.m.k. í tvígang, en Ægir tók Siggu jafnan til sín á ný.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þórkötlustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Hún er 5-10 m vestan við vegarslóða, sem liggur suður Hópsnesið. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Skiparéttin er um 10 m suðaustan við bílastæði við smábátahöfnina.

Hóp

Minjar í Hópstúni.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. „Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,“ segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir hálft Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör, sem er þarna fyrir utan.
Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Mikið er um hleðslur í hrauninu á þessum stað, sumar hverjar greinileg hólf en aðrar ógreinilegar. Hugsanlega hafa þetta verið herslugarðar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Túngarðsleifar sjást 50-60 m ofan við eystri bæ Hóps. Hægt er að greina hvar túngarðurinn hefur legið í vestur frá þessari girðingu, en þar hefur verið sléttað yfir hann. Garðurinn liggur í grasigrónu og sléttuðu túni. Hægt er þó að sjá hvar garðurinn hefur legið til vesturs frá girðingunni austan við Hópstún. Frá girðingunni er um 30 m kafli þar sem einungis er merkjanlegur hryggur þar sem garðurinn var. Þá verður garðurinn greinilegri og sést hann þaðan á um 36 m kafla til vesturs þar til rof er í hann og honum hefur alveg verið rutt á 22 m kafla. Hann birtist aftur þar vestan við á 40 m kafla áður en hann verður enn aftur ógreinilegur og úr honum sléttað. Þó sést hann óglöggt í 35 m til viðbótar sem hæð í túninu uns hann hverfur alveg. Hornsteinn í norðvesturhorni garðsins er enn merkjanlegur í sléttu túninu miklu vestar, en þær garðleifar sem enn sjást á yfirborði.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við garðinn í túninu er brekka, sem heitir Kinn, og rétt við hana er laut, sem heitir Kvíalág. Þar voru kvíar þegar fært var frá. Kvíarnar voru þar sem Hópsvegur liggur niður brekku vestan við túnin á Hópi, milli hans og túnanna.
„Hópsvör er austan við bæinn að Hópi. Austan við vörina heita Vöðlar. Þá er Stekkjarfjara og svo básar, sem heita Heimribás og Syðribás,“ segir í örnefnaskrá. Þar ofan við er Stekkjarbakki og Síkin, feskvatnstjarnir. Hópsbændur reru frá Hópsvör á fyrri tíð. Enn má sjá móta fyrir vörinni utan varnargarðsins á lágsjávuðu. Þar sem garðurinn er nú voru sjóbúðirnar frá Hópi.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarvarða er um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes. Hún stendur þar á hól fast sunnan við vegarslóðann. Varðan er alveg hrunin, en sést grjóthrúga þar sem hún stóð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.
Markasteinn var í fjörunni um 60 m vestan við Hópsvita. Á hann voru klappaðir stafirnir LM til merkis um landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Hann virðist nú vera horfinn.
Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Ummerki eftir þvottastaðinn eru nú horfin vegna framkvæmda, en Vatnatangi er beint suður af innsiglingarvörðunni, stundum nefnd Svíravarða, en sú varða mun hafa verið nokkru vestar við Hópið, í Járngerðarstaðalandi. Efri innsiglingavarðan er efst í túninu á Hópi. „Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur á Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,“ segir í Sögu Grindavíkur.

Hóp

Hóp.

Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Draugur var klettur í túninu á Hópi. Hann er nú horfinn þar sem eru sléttuð tún. Draugar eru víða til, en þeir voru nefndir svo vegna rökkuropinberunarinnar.
Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin liggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Leifar gerðis eru sunnan við Austurveg. Gerðið er fast vestan við óskýrðan vegarslóða sem liggur frá Austurvegi að olíutönkum. Það er á gróðurlitlu hraunlendi, formlega lagað.
Í efralandinu er Heiðarvarðan í Hópsheiði, en svo nefnist svæðið ofan þjóðvegarins að Þórkötlustaðahverfi. Varðan var innsiglingamerki. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni einkum úr suðurhlið hennar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Gjáhóll er austan við Stamphólsgjá. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Leifar þess eru að mestu horfnar.
Gálgaklettar eru norðan í Hagafelli. Þar er klettabelti með þessu nafni. Þar segir sagan, að þjófarnir í Þjófagjá hafi verið hengdir. Vestan í Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri og er gamalt fiskimið (Melhóll í Grágeira). Þar vestan í fellinu er svonefndur Selháls, sem þjóðvegurinn liggur yfir. Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Hann er sunnan við Dagmálaholtið. Dagmálaholt mun vera kennt við eyktarmark frá selinu á Baðsvöllum, en það var frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni. Einnig er Selháls kenndur við það sel, sem er fast austan við veginn norðan við hálsinn. Þær tættur virðast yngri en Baðsvallaselin. Tóftin er í aflíðandi hæð. Seltóftin er þrískipt. Hún er tæp 12 m á lengd, en 4,5 m á breidd. Op eru á suðurveggjum allra hólfanna, en ekki er greinilegt op á milli þeirra. Tóftin er gróin að utan, en grjóthleðslur sjást að innan.

Skógfellavegur

Skógfellavegur og Sandakravegur.

Skógfellaleið er forn leið milli Grindavíkur og Voga. Við hana eru vörður, sumar fallnar, aðrar endurhlaðnar í seinni tíð. Fast norðan við Austurveg, þar nálega til móts við þar sem Mánagata kemur á veginn er nýlegt minnismerki þar sem Skógfellsleið lá. Leið þessi lá frá merkinu og til norðvesturs út á hraunið. Afleggjarinn lá á hina eiginlegu Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur og liggur frá Þórkötlustöðum, austur fyrir Stóra Skógfell og í Voga eins og nöfnin gefa til kynna. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur hafi numið land þar sem nú er Hóp og nefnt bæ sinn Hof. Eldgos efra á 12. og 13. öld raskaði byggð í Grindavík sem og á nálægum svæðum, t.d. í Krýsuvík. Eftir það byrjar flækja búsetu í Grindavík, sem enn á eftir að greiða úr.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Fornleifaskráning FÍ 2002.
-Örnefnalýsing.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Menningar- og sögutengd gönguhátíð í Grindavík  um verslunarmannahelgina 2008.

Dagskrá:

Föstudagur 1. ágúst:
SandakravegurMæting kl. 20:00 við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. Gengið verður með leiðsögn um Járngerðarstaðahverfi, gamla bæjarhlutann í Grindavík í 1-2 tíma. Fróðleikur í Flagghúsinu í lok göngu.
Gangan er í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins.

Laugardagur 2. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við Ísólfsskála, sem er í um 6 km austur af Grindavík, á Krýsuvíkurleið. Gengið verður með leiðsögn um Selatanga þar sem sjá má minjar um verbúðir og sjósókn fyrri tíða. Síðan verður gengið eftir rekastíg um Katlahraunið sem er líkt og „Dimmuborgir“ með sínum kyngimögnuðu hraunmyndunum. Gangan endar við Ísólfsskála og tekur um 2-3 tíma. Gott er að vera í góðum skóm. Aðstaða er til að grilla á Ísólfsskála í lok göngu. Gangan er í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins.

Sunnudagur 3. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við Saltfisksetrið. Ekið með rútu að Móklettum á Krýsuvíkurleið. Gengið verður með leiðsögn um gömlu þjóðleiðirnar, Sandakraveg og Skógfellaveg og endað við Saltfisksetrið í  Grindavík. Svæðið býður upp á  stórbrotna náttúru, jarðfræði og sögu. Gangan tekur um 5-6 tíma. Gott er að hafa með sér nesti og vera í góðum skóm.
Í lok göngu verður boðið upp á heilgrillað lamb á teini í Saltfisksetrinu. Verð kr. 1.200.
Gangan er í boði Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Mánudagur 4. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við bílastæði Bláa lónsins – Gengið með leiðsögn um hluta af gömlum þjóðleiðum, Skipsstíg og  Árnastíg að Húsatóftum. Gangan tekur um  3-4 tíma. Svæðið bíður upp á  stórbrotna náttúru, jarðfræði og sögu. Gott er að hafa með sér nesti og vera í góðum skóm. Rútuferð til baka.
Gangan er í boði Bláa Lónsins sem auk þess býður upp á aðgangseyri, 2 fyrir 1 í Lónið í lok göngu.

Ekkert þátttökugjald er í gönguferðir en rútugjald er kr. 500, frítt fyrir börn 12 ára og yngri sem og FERLIRsfélaga. Allir á eigin ábyrgð í ferðum. Kjörið tækifæri til að fræðast, nærast og hreyfa sig í hinu margbrotna umhverfi Grindavíkur.

Gönguhátíðin er liður í viðburða- og menningardagskrá Grindavíkur 2008.

Jángerðarstaðir

Setbergssel

Um Oddsmýrardal lá gömul leið frá Setbergi, bæði upp í Setbergssel undir Þverhlíð, að beitarhúsum er stóðu á Setbergshlíð, fjárhúsi í Húsatúni og eldri beitarhúsum undir Gráhellu í Gráhelluhrauni.
Önnur varðaLíklegt má og telja að þar hafi þeir einnig farið er áttu leið um gömlu Selvogsgötuna. Sú gata liggur beint við er komið er að sunnan. Þá hefur verið farið um Klifið svonefnda neðan og á milli Sandahlíðar og Flóðahjalla annars vegar og Svínholts hins vegar. Gatan er áberandi um Klifið og mjög eðlilegur hluti af Selvogsgötunni. Þeir, sem fóru þá leiðina, hafa þá farið um Oddsmýrardal, aflíðandi upp Skarðið er skilur Setbergsholt frá Svínholti, á ská niður holtið og áfram inn á syðri Setbergsstíginn til Hafnarfjarðar.
Uppi á Sandahlíð eru fornar grónar markavörður í línu við Markastein og háa myndarlega vörðu í Smyrlabúðarhrauni. Skv. kortum eru suðurmörk LitbrigðiSetbergs sýnd sunnan í Setbergsholti, Svínholti og Setbergshlíð svo ekki geta þær passað við þau mörk. Þær gætu því gefið til kynna norðurmörk Setbergslands, þ.e. við mörk Urriðakots.
Í örnefnalýsingu fyrir Setberg segir m.a. um þetta svæði: „En landamerkjalínan milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunsbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Seljahlíð [norðan Sandahlíðar] og þaðan í Flóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir  Háanef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi. Austan og ofan við Húsatún er Þverhlíð, en yfir hana liggur Kúadalastígur upp á Kúadalahæð og þar niður af eru Kúadalir. Þá er hér norðvestur af Sandahlíð; norðan í henni klapparhóll, nefndur Virkið.“
Gamla gatanOddsmýrardalur er nú að gróa upp eftir eyðingu undanfarinna ára. Búið er að planta mikið af trjám í dalnum og þar blómstrar beitilyngið fyrst í júlí. Þó má enn sjá hina gömlu götu liggja á ská í aflíðandi hlíðinni að sunnanverðu, niður í dalinn og eftir honum að Klifinu. Þegar á það er komið blasir Gráhellan við og minjarnar undir henni. Líklegt má telja að gatan hafi og verið leiðin þangað, en undir hellunni höfðu Setbergsbændur beitarhús, líklega áður en beitarhúsin á Setbergshlíðinni voru hlaðin skömmu eftir aldarmótin 1900.
Um Oddsmýrardal liggur bílslóði. Vestast liggur hann ofan í gömlu götuna.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Vörðubrot

Hóp

Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?

Loftmynd af Hópi

Í Landnámu (IV.hluti) segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.“
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: „Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Goðatóftin fremst - og gamli bæjarhóllinnAustur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.

Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.

Hópið

Flekkuleiði

Eftirfarandi umfjöllun Árna Óla um „Rúnasteininn í Flekkuvík“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959:
„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll, eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
flekka-22Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fekk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra. Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja megin víkurinn svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyjdi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka hvort hér gæti verið um fornt kuml að ræða. Mönnum kom ekki saman um hvernig lesa átti úr úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið Flekka, en yfir því voru skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri.
sumir að lesa ætti „hér hýsi aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónas að fýsilegt að fá úr því skorið hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið „hvílir“, þá átti svo að vera. En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Eg hét þeim að láta Flekku kyrra, ef eg fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn“. Lét Páll þá til leiðast og samþykkti að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 alna langt og lxk flekka-21al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri (sjá mynd). Öll grasi 
gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla . . . Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16% þuml, breidd 12 þuml, þykkt 4—5 þuml. Hann er því sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella . . Af því hingað og þangað var að sjá steinsnyddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í Ijós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. 

flekka-32

Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna“. Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafizt þess fyrirfram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn, eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýu, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílír“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þarna væri Flekka heygð. Flekkuleiði eins og það er nú í sumar kom eg að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar.
Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sezt í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað ; eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skírðir.
flekka-41Eg reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók eg af þeim meðfylgjandi mynd. Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja að Kaaland sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa heldur J,, eins og kemur líka fram á Ijósmyndinni. Þessi rún er nokkurn veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sést yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína. Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir stryki út úr aðalleggnum, en fráleitt held eg að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar. Þess má geta hér að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skírði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað söguna um að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið.
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn. Hér eru bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir eru báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi. Litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir gizka á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti“) sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, Flikki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en bó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
flekka-45Hér skal ekkert fullyrt um hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undan skilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér að til hafi verið í forneskju einhver vættur sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). Flekkuleiði ætti að varðveita Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helzt ekki glatast. Það segir sína sögu um það hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu sem hét FJekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík dragi nafn af fjölkunnugri konu er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna. sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helzti bjargræðisvegurinn.

Flekka-47

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farizt þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar.
Ákvæði hennar Flekkusteinn-198haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða að menn fari að trúa því að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún valið sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggur rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“

(Heimildir:
-O. Rygh: Norske gaardsnavne, Norsk alkunnabok (Fonna forlag).
-Jónas Hallgrímsson: Rit III, 1 og 2.
-Anders Bseksted: Islands Runeindíkriíter (Bibl Arna Magnaeana II) Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. september, 1959, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 393-396.
Flekkuvík