Ferlir

Nokkrar mistækar gönguleiðabækur hafa verið gefnar út um möguleika Reykjanesskagans, s.s. „Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga“ eftir Reynir Ingibjartsson, „Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur“ eftir Einar Skúlason, og „Gönguleiðir á Reykjanesi“  eftir Jónas Guðmundsson. Síðastnefnda bókin byggir titil sinn reyndar á hugtakaruglingi því Reykjanesskaginn er svo miklu umfangsmeiri en Reykjanesið yst á skaganum.

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson.

Í auglýsingu um bókina „Gönguleiðir á Reykjanesi“ segir m.a.: „Gönguleiðir á Reykjanesi hefur að geyma lifandi leiðarlýsingar tæplega 30 áfangastaða á Reykjanesskaga, fjársjóðskistu útivistarfólks. Sumar leiðirnar eru á fjöll, aðrar um hraun og dali og margar eru hringleiðir. Allar eru lýsingarnar innblásnar af þeim miklu jarðumbrotum sem hafa einkennt svæðið alla tíð. Margar leiðirnar henta fyrir fjallahjól, aðrar fyrir utanvegahlaup og enn aðrar til að kynna yngstu kynslóðina fyrir töfrum fjallaferða og eru þær merktar sérstaklega.

Jónas Guðmundsson er leiðsögumaður, landvörður og ferðamálafræðingur sem varið hefur ótal stundum á fjöllum. Reykjanes skipar sérstakan sess í huga hans og þangað leitar hann aftur og aftur til að njóta, upplifa og endurhlaða rafhlöður líkamans og sálartetursins.

Gönguleiðir á ReykjanesiÞessi bók hentar öllum þeim sem ætla að leggja land undir fót. Hverri leið fylgir leiðarlýsing, kort og GPS-hnit, fjöldi ljósmynda og upplýsingar um staðhætti og aðstæður. Auk þess er settur fram sögulegur og landfræðilegur fróðleikur um þær leiðir sem gengnar eru hverju sinni. Í bókinni er einnig hagnýtur kafli um undirbúning og fjölda góðra ráða sem varða fjallgöngur og útivist.“

Í inngangi bókarinnar segir m.a.: “ Sem fyrr er bók þessi aldrei eins manns verk því allnokkrir lögðu hönd á plóginn og að góðum íslenskum sið er rétt að þakka þeim… Otti Rafn Sigmarsson í Grindavík varpaði ljósi á nokkra þætti og hið sama gerði Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur með meiru, og nokkrar heimildir voru sóttar í vefsíðuna ferlir.is sem er hafsjór af fróðleik. Allir þessir og þeir sem ekki er hér minnst á fá þakkir fyrir sitt.“ Nefndur Jóns bað hvorki svo lítið sem um leyfi né heimild til að nota efni af vefsíðunni í bók sína.

Allar framangreindar bækur eiga a.m.k. eitt sameiginlegt; þ.e. að hafa sótt a.m.k. hluta fróðleiksins á vefsíðuna www.ferlir.is, sem er reyndar ágætt því markmið hennar er er fyrst og fremst að miðla fróðleik um svæðið til áhugasamra. Á þeirri síðu er reyndar að finna endurgjaldslaust alla eiginlega leiðsögn um dásemdir Reykjanesskagans á einum stað frá upphafi til nútíma – langt umfram allar útgefnar göngubækur og villulýsingarnar, sem þar er að finna.

Hellugatan

Hellugatan í Selvogi.

Keilir

Gengið var á Keili (379 m.y.s.). Venjan er að ganga að fjallinu frá norðanverðu Oddafelli, en að þessu sinni var gengið að því frá Rauðhól, rúmlega miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Oddafells. Stíg var fylgt upp eftir frá Rauðhólsselinu. Þegar komið var upp á hraunbrúnina (varða) áleiðis að fjallinu sást Keilisvarðan við Þórustaðastíginn vel í vestri.
Keilir er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið, sem er strýtulaga, sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.

Upphafsstaður flestra - við Oddafell

Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Það er því að mestu úr móbergi. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýni ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Frá því sjósókn hófst á norðanverðum Reykjanesskaga hefur Keilir verið notaður til að marka mið sjómanna. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Fjallið er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda vekur það jafnan athygli fyrir fegurð sína og Keilir - uppgönguleiðin framundaneinstæða staðsetningu. Göngutími á fjallið er um 2-3 klst ef lagt er afs tað frá norðanverðu Oddafelli eða frá Rauðhól skammt norðvestar. Hækkunin er um 250 metrar.
Til að komast að Keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar eru mislæg gatnmót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum með rólegum akstri um Afstapahraun (yngra) upp að Höskuldarvöllum, þaðan sem venjulega er gengið á fajllið frá norðurenda Oddafells.
Gott er að ganga á fjallið þótt bratt sé á köflum, en vissara er að fara varlega því laust getur verið í rásinni. Auðfarið er þó upp því myndast hefur greinilegur göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind. Þegar gengið er upp er Hrafnafell á hægri hönd og gengur út úr Keili til norðurs. Handan þess eru keilisbörn (142 m.y.s.). Uppi á fjallinu gestabók í sérhönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann. Til stendur að setja upp útsýnisskífu á Keili (skrifað í júni 2008), auk örnefnaloftmyndar við norðanvert Oddafellið.
Gestabókastandur á KeiliMóbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll líkt og Keilir (ef um gos á kringlóttu gosopi eða stuttri sprungu er að ræða). Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Fallegir bólstrar eru í hlíðum Keilis – ef vel er að gáð (enda engin ástæða til að flýta sér).

Útsýni til suðvesturs - Litli-Keilir t.h. - Litli-Hrútur, Kistufell og Stóri-Hrútur framundan fjær

Þegar litið er af Keili yfir „landakortið“ neðanvert til vesturs og suðurs má m.a. sjá Þráinsskjöld með Litla-Keili, Fagradals-Hagafell og Fagradals-Vatnsfell, Litla-Hrút, Kistufell og Stóra-Hrút. En það er líkt með þessi fjöll, mishá og -stór, að fólki hefur ekki alltaf verið sammála um nöfnin, þ.e. hvers er hvurs. Ástæðan hefur jafnan verið af „landamerkjatoga“ fremur en nákvæmum heimilda- og vettvangsrannsóknum. Litli-Keilir (300 m.y.s.) og Litli-Hrútur (310 m.y.s.) hafa af sumum verið nefndir Keilisbræður. Það er svo sem ekkert vitlausara en hvað annað. Verra er að þeim hefur þeim verið ruglað saman og þá nefndir Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur, en sá síðastnefndi er mun sunnar. Litli-Hrútur (Litlihrútur) er fast norðan við Kistufell. Litli-Keilir (Litlikeilir) er milli hans og Keilis, en spölkorn vestar á Þráinsskjaldarbrúninni.
Gengið var niður að austanverðu, mun auðveldari niðurför en í „hálkustigunum“ að norðanverðu.
Þegar komið var niður var hægt að velja um nokkrar leiðir; Þórustaðastíg inn á norðanverða Selsvelli, götuna yfir að Oddafelli eða til baka að Rauðhól. Auk þess stíg yfir úfið hraun austan við Driffell. Allt eru þetta áhugaverðar leiðir því hver og ein leiðir vegfarendur að ákveðnum, en ólíkum, dásemdum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.landvernd.is/arfjalla2002/fjall_14.html

Litli-Keilir og Keilir

Grindavík

Á vefsíðunni www.grindavik.is var þann 23. júlí 2009 fjallað um „Nýtt bæjarhlið á Grindavíkurvegi“, sem auðvitað átti að vera umfjöllun um nýtt „borgarhlið“ ef horft er til lengri framtíðar.
BorgarhliðiðÞar sagði m.a.: „Þeir sem hafa átt leið um Grindavíkurveginn að undanförnu hafa tekið eftir nýju bæjarhliði Grindavíkurbæjar sitt hvoru megin við veginn, nálægt Seltjörn, sem er mikil bæjarprýði og var tekið í noktun fyrir Sjóarann síkáta þetta árið. Ekki fer á milli mála að þeir sem aka í gegnum bæjarhliðið átta sig á því að þeir eru komnir til Grindavíkur og jafnframt hversu stórt land heyrir undir bæjarfélagið.
Nýja bæjarhliðið er hannað af Ingu Rut Gylfadóttur landslagsarkitekt hjá Forma en hún rekur fyrirtækið ásamt Björk Guðmundsdóttur.
Inga Rut segir að hugmyndin á bak við vörðurnar hafi verið að halda í og spila með náttúrunni á svæðinu:
,,Umhverfið er auðvitað einstakt Borgarhliðiðmeð þetta úfna hraun. Hugmyndin byggir á gömlu vörðunum sem víða sjást í náttúrunni og eru vegvísar eða kennileiti. Það má segja að þær hafi verið ýktar upp og stækkaðar,“ segir Inga Rut.
Efnisvalið er náttúrugrjót frá nánasta umhverfinu og hugmyndin af mótspili í efnisnotkun á móti náttúrugrjótinu er ryðgað stál. Hugmynd er í raun tekin úr Hópsnesinu þar sem er að finna gömul skipsflök. Að sögn Ingu Rutar er framtíðarplanið að vörðurnar verði upplýstar.“
Í framhaldi af þessu sendi FERLIR Ingu Rut eftirfarandi tölvupóst: „
Var að skoða www.grindavik.is í gegnum www.ferlir.is þar sem fjallað er um nýja “bæjarhliðið” sem réttara er nú að kalla “borgarhlið” með skýrskotun til framtíðarinnar… Vefsíðan hafði áður birt mynd af verkinu – http://ferlir.is/?id=8426 – en hún bar ekki með sér hver höfundurinn er.
BorgarhliðiðFERLIR fjallar gjarnan um fornar minjar, en einnig áhugaverð nútímaverk, sem verða munu minjar. Spurningin er hvort þú átt eitthvað meira kjöt á beinin varðandi tilurð, vangaveltur og hugsýn v/nýja hliðið, sem áhugavert væri að fjalla um á vefsíðunni? Já, og til hamingju með bæði hugmyndina og verkið!“
Ekkert svar barst frá Ingu Rut.
Borgarhliðið

Heimild m.a.:
-grindavik.is
-Erna Rut Gylfadóttir.

Grindavík

Nú hafa sögu- og minjaskiltin í Grindavík verið lagfærð. Skiltin eru orðin sjö talsins; í Þórkötlustaðahverfi, á Þórkötlustaðanesi, við Hóp, í Járngerðarstaðahverfi, á Gerðarvöllum, í Staðarhverfi og við Hraun.
SkiltiFyrsta sögu- og minjaskiltið var sett upp í Járngerðar-staðahverfi fyrir þremur árum. Kortið á því, og næstu skiltum þar á eftir, var prentað á hlífðarlausan pappír og sett undir plasthlíf. Þegar raki komst að pappírnum vildi hann smám saman bæði bólgna og upplitast. Núverandi kort eru varin álfilmu svo þau ættu að verja sig betur og endast þar af leiðandi lengur. Nýju kortin eru auk þess skýrari en þau gömlu.
Í kjölfar afhjúpunar skiltisins við Hraun var farið í þá vinnu að gefa út veglegan bækling með öllum kortunum, textum og fjölda ljósmynda af sögu- og minjastöðum í Grindavík. Vonast er til að Ferðamálafélag Grindavíkur komi að því verki líkt og það gerði svo myndarlega við útgáfu bæklinga um Selatanga og Húshólma.
SkiltiLíklegt má telja að kortabæklingurinn verði vinsæll, bæði meðal heimafólks og ekki síður gesta þess. Í raun má segja að hér verði um einstakt verk að ræða því ekkert annað sveitarfélag á landinu getur státað að því að hafa látið teikna upp og staðsetja allar sýnilegar (og jafnvel horfnar) minjar og örnefni í bænum og gera gögnin aðgengileg fyrir áhugafólk um efnið. Kennarar og nemendur í skólum bæjarins munu og geta notað gögnin til að fræðast betur um bæinn sinn, sögu hans og þróun allt frá upphafi byggðar.
Kortin er allnákvæm. Upplýsingar- og staðsetningar eru unnar í nánu samráði við aldna Grindvíkina er gerst þekkja til staðháttu. Sem dæmi má nefna að í fornleifaskráningu fyrir Staðarhverfi er getið um 8 býli í hverfinu, en á kortinu er getið um 28 slík, enda má sjá leifar þeirra enn ef grannt er skoðað. Nú við endurnýjun skiltanna hefur 29 bærinn (sem verið hefur nafnlaus á kortinu) skilað sér. Hann mun hafa heitið „Ölfus“.
Skilti

Húshólmi

FERLIR hefur átt ágætt samstarf við Landgræðslu ríkisins um uppgræðslu í Húshólma. Eins og mörgum er kunnugt hafði orðið mikil jarðvegseyðing í hólmanum, sem nú hefur tekist að stöðva. Landhelgisgæslan flaug með fræ og áburð inn á svæðið á síðastliðnu ári (2005) og markmiðið var fara eina umferð um hólmann á því ári og síðan að ljúka dreifingunni nú í sumar (2006).
Húshólmi

Nú var ætlunin að fara lokaferð í Húshólma og klára það sem eftir er. Mæting var undir Mælifelli þar sem haldið var um slóða niður að Húshólmastíg. Allar hjálpendur voru velkomnar.
Þegar afrakstur liðins árs var skoðaður kom í ljós annars vegar mjög góður árangur og hins vegar árangursleysi. Fyrri áburðar- og frædreifingin hafði heppnast vonum framar. Gott gras hafði myndast í rofsvæðum og myndað gott skjól fyrir annan gróður, auk þess sem það bindur raka í jarðveginum. Mófuglar, s.s. lóa og músarrindill, höfðu verpt í nýorðnu skjólinu. Geldingarhnappur, holurt, blóðberg og lambagras, og jafnvel einir, döfnuðu af áburðargjöfinni sem aldrei fyrr. Þarna mun grasið innan skamms tíma mynda sinu, sem aðrar „heimjurtir“ munu nýta sér og svæðið mun smám saman gróa upp. Að ca. fjórum árum liðnum væri ágætt að gefa því svolítinn áburð yfir allt og þá mun heimagróðurinn ná yfirhöndinni.
Seinni áburðar- og frædreifingin hafði hins vegar misheppnast að mestu. Sjá mátti einstaka grasstúfa upp úr, en þeir væru varla tilefni frekari útbreiðslu. Ástæðan mun líklega vera sú að ofanvert svæðið var of seint sáð. Fræin hafa ekki náð að festa sig nægilega vel í sessi og frostlyftingin því átt auðvelt með að rífa þau upp og eyða.

Húshólmi

Orkunni var beint að efra svæðinu að þessu sinni. Áburði var dreift yfir gróið svæðið, auk þess sem fræjum var sáð í gloppur. Ætlunin er að fara aðra ferð í Húshólma innan skamms og þá dreifa fræjum og áburði aftur yfir neðra svæðið.
Engin ástæða er til að óttast að frædreifingin geti haft áhrif á fornar minjar í Húshólma, enda eru þær að mestu leyti vestan og utan við hólmann sjálfan.
Tíminn þessa kvöldstund, að dreifingu lokinni, var notaður til að skoða minjasvæðið í og við Húshólma. Þegar hin heillega skálatóft næst nyrst ofan við Kirkjulág var gaumgæfð kom í ljós ferköntuð vegghleðsla. Þessi hleðsla hefur væntanlega gert það að verkum að hraunið, sem rann 1151, náði ekki skálanum. Það hefur hins vegar náð að eyða nyrsta skálanum, en veggur þessi hefur haldið hlífiskyldi yfir þeirri neðri. Holtagrjótið sést vel í hleðslunni.
Þegar Kirkjuflötin var skoðuð þetta lengsta kvöld (lengsti dagur reyndar) ársins sást gerðið innan garðs mjög vel í kvöldsólinni. Hlaðinn garður, nær jarðlægur, liggur sunnan þess, þvert á bogadreginn langgarð, þó innan megingarðsins, sem er skammt austar og norðar. Hvað þetta gerði hefur haft að geyma er enn hulin ráðgáta. Gerðið hefur að mestu verið gert úr torfi.

Stoðhola

Gat hafði myndast í jörðina nyrst í Húshólma. Eftir að nokkrir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós grunn hraunrás. Hún er í hrauni, sem runnið hefur áður en hraunið 1151 rann. Umhverfis má víða sjá slík göt, niður í grunnar og stuttar rásir.
Í kvöldsólinni mátti sjá tóft norðvestan við hlaðinn stekk nyrst í hólmanum. Ekki er óraunhæft að ætla að þarna kunni að leynast forn seltóft.
Frábært veður; lyngt, hlýtt og bjart í frábæru umhverfi með fuglasöng á báðar hendur. Villtur ameríkani, með myndavél framan á bumbunni, birtist skyndilega í hólmanum undir það síðasta. Í fyrstu var talið það þarna væri álfur á ferð, en þegar hann tjáði sig á útlensku hvarf sú birtingarmynd skyndilega. Maðurinn, greinilega einn af hinum síðustu varnarliðsmönnum af Vellinum, Levisgallabuxnaklæddur og í Nikestrigaskóm, gaut sitthvoru auganu samtímis til austurs og vesturs og spurði án þess að hugsa hvort „puffins“ væri þarna einhvers staðar nálægur. Honum var bæði bent til suðurs og til vinstri. Maðurinn var ánægður með svarið og hvarf að því búnu niður í Hólmasundið. But what a heck – in this time of the year. Og það einn af þeim, sem var að hverfa hvort sem er.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

 

/https://ferlir.is/husholmi-sagan/

Hvaleyri

Gísli Sigurðsson, blaðamaður, skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2006 undir fyrirsögninni „Íhugunarefni á Hvaleyri„. Fjallaði hann þar m.a. um þær breytingar sem voru að verða á þessu af enu af elstu kennileitum Íslands.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Hvaleyri skagar fram í flóann sunnan við Hafnarfjörð. Hvorttveggja er að þessi tangi er fyrir margt merkilegur, og svo hitt að hann er á útmörkum höfuðborgarsvæðisins; þangað er stutt að fara fyrir þá sem þar búa. Hvaleyri er sögulega merkileg vegna þess að hennar er getið í Landnámu, jafnvel áður en greint er frá landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík. Þá hafði þar viðkomu Hrafna-Flóki Vilgerðarson, „víkingur mikill“ segir í Landnámu, og hafði hann áður haft vetursetu í Borgarfirði og þar áður í Vatnsfirði, þar sem hann fékk nóg af klakanum; skírði hann Ísland og sigldi til baka. Segir svo af komu þeirra félaga til Hafnarfjarðar: „Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri.“ Ekki er nefnt hvort þeir dvöldu þar lengur eða skemur áður en þeir sigldu áfram út til Noregs. Sú arfsögn lifði að þeir hefðu höggvið rúnir á klappir, sem enn sjást, og eru friðlýstar vestarlega á eyrinni. Hafði Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, heyrt af þeim og sá ástæðu til þess að koma við á Hvaleyri í rannsóknarleiðangri og teikna þær upp. Niðurstaða Jónasar var sú að þar væru skráð nöfn einhverra skipverja Hrafna-Flóka. Þessar fornu rúnir sjást enn, en þeim hefur verið spillt; meðal annars með því að síðari tíma menn hafa krotað upphafsstafi sína ofan í þær.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókavarða (minnismerki) fremst.

Gamlir Hafnfirðingar telja að þar hafi hermenn verið að verki, en Bretar reistu kamp á Hvaleyrinni og þar eru nokkrar herminjar sem enn sjást. Á klapparásnum þar sem rúnasteinarnir eru sjást á tveim stöðum, ef að er gáð, niðurgrafin vaktmannaskýli, að hluta steinsteypt og yfir þeim grófrifflað þak með braggalagi. Á norðvesturströndinni hafa fram til þessa verið leifar af byssustæði og á grýttu svæði sunnan á eyrinni má sjá tæplega hnédjúpa skotgröf. Þarna skyldi tekið á móti þýzka innrásarhernum, ef hann birtist, en þetta varnarmannvirki er eiginlega átakanlega aumlegt og hefði naumast orðið Bretunum mikið skjól. Annað sem heyrir undir herminjar er steinsteypt birgðaskemma; eina húsið á norðanverðri eyrinni.

Hvaleyri

Hvaleyri – herminjar.

Jarðfræðilega er Hvaleyri merkileg vegna þess að hún er syðsti hluti af geysistórum hraunstraumi, sem upp kom í Borgarhólum á Mosfellsheiði fyrir um 200 þúsund árum. Hraunið myndaði þá undirstöðu sem Reykjavík stendur á, en sú kvísl hraunsins sem lengst náði frá eldstöðinni rann í sjó fram sunnan við Hafnarfjörð og þá varð Hvaleyri til. Upphaflega gæti hún hafa náð langt út á flóa, þegar þess er gætt hversu mjög hefur kvarnast af henni í tíð núlifandi manna. Ugglaust hefur drjúg sneið horfið fyrir um 9 þúsund árum á skammvinnu jökulskeiði, sem hefur skilið eftir sig ummerki á klöppunum fyrrnefndu, þar sem djúpar rispur í veturátt vitna um mikið jökulfarg.
Sem dæmi um niðurbrotið má nefna að gamall Hafnfirðingur mundi eftir fjárhúsum um það bil 100 metrum norðan við ströndina eins og hún er nú. Neðantil er þetta hraunlag gljúpt eins og jafnan verður þegar hraun rennur út í sjó. Þar grefur brimaldan sig inn í undirstöðuna og síðan hrynur efri hlutinn. Sárt er að horfa á þetta án þess að nokuð sé að gert; til að mynda féll steinbogi fyrir fáeinum árum, sem stóð fram úr vesturenda Hvaleyrar.
Hvaleyri
Umræður um varanlega aðgerð til að koma í veg fyrir frekara niðurbrot hafa lengi staðið yfir. Hluta strandarinnar að norðanverðu var bjargað með stórgrýti og sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að byggja upp slíkan kraga umhverfis tangann og þá jafnvel að á honum yrði vegur. En ljóst er að einhverjar björgunaraðgerðir mega ekki dragast úr hömlu.
Frameftir öldum voru mörg smákot á Hvaleyri; síðast stóðu þar eftir Hvaleyrarbærinn, Vesturkot, Hjörtskot og Sveinskot.

Hvaleyri

Hvaleyri – minjar.

Því miður eru fá ummerki eftir um búskapinn; þó vitna hlaðnir grjótgarðar um útmörk ræktunarlandsins og við 17. flötina á golfvellinum stendur enn hrútakofi eða eitthvert álíka fjárhús. Um 1966 fengu áhugamenn um golf augastað á landinu sem allt var ræktað og grasgefið; stofnuðu þar Golfklúbbinn Keili 1967 og hófust handa um golfvallarhönnun. Það er þessum brautryðjendum að þakka að Hvaleyrin er enn græn yfir að líta á sumardögum og bæjarprýði, en það stóð oft tæpt þegar sveitarstjórnarmenn og athafnamenn létu sig dreyma um vöruskemmur og annað álíka fagurt á svæðinu.
Hvaleyri
Á Hvaleyri hefur golfvöllur Keilis tekið ýmsum breytingum í áranna rás og nú er hann að hluta í hrauninu fyrir sunnan. Sem golfvallarland hefur Hvaleyri þann ókost að mishæðir skortir, en á móti kemur að þar festir sárasjaldan snjó til langframa og Keilisfélagar geta leikið allan veturinn þegar tíðarfar er eins og verið hefur að undanförnu. Þegar íþróttablaðamenn fjalla um golf nefna þeir æði oft Hvaleyrarholtsvöll. Það er rangt. Hvaleyrarholt heitir hæðin austan við golfvöllinn þar sem byggðin er. En völlurinn er einungis á Hvaleyri. Þeim sem ekki elta kúluna hvítu, en hafa hug á að ganga um Hvaleyri, skal bent á að bílastæði er við golfskálann.

Hvaleyri

Hvaleyri 2022.

Bezt er, og jafnframt áhugaverðast, að ganga meðfram ströndinni. Það gera margir og það þarf hvorki að vera hættulegt eða trufla leik golfara. En séu þeir að leik verður að hafa auga með þeim á ákveðnum stöðum og ef til vill verður þá að hinkra við, rétt til að draga andann og njóta útsýnis á meðan þeir slá, og ágætt er að spyrja þá hvar öruggast sé að fara. Sé það gert geta allir notið þess að rölta um með augun opin, finna angan úr fjöru, hlusta á klið fuglalífsins og íhuga herminjar og fornar rúnir.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 29.11.2006, Íhugunarefni á Hvaleyri – Gísli Sigurðsson, bls. 20F.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Fjallgrensvarða

Gengið var upp í Almenning frá Brunatorfum í gegnum Gjásel og Hafurbjarnarholt með viðkomu í Stórholtsgreni þar sem Skotbyrgið var m.a. barið augum, við Steininn, Fjallsgrensvörðu og Fjallsgrensskotbyrgin norðvestan Sauðabrekkna.
Gamla thufaÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a. af þessu svæði: „Úr Jónshöfða liggur landamerkjalínan um Katlana og höfðann og um svokallaðar Stórhæðir, og þaðan liggur línan í Hafurbjarnarholt. Þar uppi er svo Hafurbjarnarholts-varðan. Síðan liggur línan í Steininn, stóran og mikið sprunginn.
Suður í garði frá [Straums]Selinu liggur Straumshellnastígur suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels, og þaðan liggur stígurinn í Straumshellana syðri. Hér eru allgóð fjárskjól, og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar. Suðvestur og upp er allmikil hæð, sem ekki ber sérstakt nafn, en þar er þúfa mikil, sem nefnist Gamlaþúfa. Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.
StorholtAustur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
SteinhússkjólAuðvelt var að ganga að Skotbyrginu við Stórholtsgrenið. Í rauninu eru grenin þar efra tvö; beggja vegna byrgisins. Þau eru bæði merkt með steinum. Ekki var að sjá að rebbi hafi dvalið þar að undanförnu.
Reynt var að staðsetja framangreind Steinhússkjól og Fjárskjólið við Fjárskjólsklett, en hvorutveggja var fjandanum erfiðara. Bæði er landið allt kjarri vaxið og auk þess eru klettar og klapparhæðir hvert sem litið er. Fyrst var reynt að finna Fjárskjólið, en við lestur lýsingarinnar gæti munað einum greinarskilum. Ef svo er ættu skjólin að vera nokkuð nálægt hvoru öðru.
Straumsselsfjarhellar sydriÖrnefnið „Steinhús“ er venjulega tilkomið vegna þess að þar er húslíki í kletti eða hæð. Hér að framan á það að vera „klapparhóll mikill og áberandi“. Hafa ber í huga að skrásetjari var að koma neðan frá upp í Almenning. Þaðan má sjá a.m.k. tvo áberandi og mikla klapparhóla í Bringum. Skammt austan við þann efri er skúti; hið ágætasta skjól. Grasi gróið jarðfall er framan við hann og virðist sem þar hafi verið grafið lítið vatnsstæði og lægðin notuð sem nátthagi. Það ætti ekki að vera svo óraunverulegt því frá skjólinu má sjá Gerðið við Straumsselsfjárhella syðri.
Gengið var að Gerðinu og umhverfis það að vestanverðu. Hafa ber í huga að í lýsingunni er norður útnorður, þ.e. beint út á sjó, og aðrar áttir í Hafurbjarharholtsvardahenni taka mið af því. Ekki dugar að nota núgildandi höfuðáttirnar þarna í algleymi hraunanna.
Enn og aftur var reynt að staðsetja Fjárskjólið. Það var líka eftir bókinni; hvergi sjáanlegt þrátt fyrir að knévaðið hafi verið yfir kjarr og klapparhóla í hvívetna. Grænt gras og þéttvaxið var víðast hvar í lægðum ofan við Stórholt og því verður að telja líklegt að Fjárskjólið kunni að leynast þar. Allmargar vörður og vörðubrot mátti sjá á hraunhólum, en við eftirgrennslan reyndist þar hvergi leynast fjárskjól. Á mörgum stöðum voru að vísu hraunskegg, en hvergi var mannvistarleifar að sjá er gætu gefið vísbendingu um tilefnið. Að fenginni reynslu á Fjárskjólið við Fjárskjólsklett eftir að finnast, en þá að allt öðru tilefni í allt annarri FERLIRsferð.
Frábært veður á jónsmessunni. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Hafurbjarnaholt

Varða á Hafurbjarnaholti.

 

Selvogur

Uppi á fjörukambinum skammt austan við Selvogsvita má enn sjá leifar hluta trébáts, sem þar fórst á sínum tíma. „Báturinn hét Vörður RE 295,  er hann rak á land með bilaða vél austan við Selvogsvita, 9. mars 1956, með fullfermi af loðnu. Með bátnum fórst öll áhöfnin samtals 5 manns.
Vordur-21Bátur þessi var kantsettur tvísöfnungur smíðaður af Þórði Jónssyni frá Bergi í Vestmannaeyjum árið 1913 og átti hann bátinn sjálfur og réri á honum fyrstu árin. Báturinn var eini báturinn sem Þórður smíðaði.  Umb. 1937.
Bátur þessi er sagður hafa verið með fullfermi af loðnu sem er nokkuð framúrstefnuleg, en nokkrum árum áður eða 1954, var hann gerður út á humarveiðar frá Grindavík og var skipstjóri þá Jón Eiríksson og lagði hann hjá frystihúsinu í Höfnum.
Nöfn: Enok VE 164, Enok II VE 164, Ingólfur Arnarson VE 187, Ingólfur Arnarson GK 187, Stuðlafoss SU 550, Vörður SU 550 og Vörður RE 295.“

Heimild:
-emilpall.123.is/blog/yearmonth/2010/04/18/

Vordur-22

Selatangar

„Tilefni þessara lína er grein Gunnars Benediktssonar í Morgunblaðinu 7.6. sl. þar sem hann fjallar vel og ítarlega um Hettuveg á Sveifluhálsi (gamla þjóðleið).
Selatangar-511Fyrir útivistarfólk og þá sem áhuga hafa á grónum götum eru svona greinagóðar lýsingar mikill fengur og ómetanlegur.
Á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur er gömul verstöð, Selatangar. Um nokkurt skeið hef ég velt því fyrir mér hvaða leiða austanmenn (t.d. frá Skálholti) fóru á Selatanga. Efalaust hafa einhverjir „sögu- og náttúruflækingar“ rambað á þessa götu fyrir löngu en ég fann hana fyrir stuttu og varð montin af. Þeir sem hafa komið í Húshólma (Gömlu-Krýsuvík) sem er neðan og suðvestan Krýsuvíkur ganga um djúpa hraungötu frá austri til þessa að kqmast í hólmann sem umlukinn er Ögmundarhrauni.
Við fyrstu vangaveltur um verleiðina að austan á Selatanga kom mér í hug að menn hlytu að Selatangar-512hafa farið í gegn um Húshólmann og svo áfram vesturúr. Eitt vorið þvældist ég um allt hraunið milli þessara tveggja staða og fann ekki smugu fyrir hests- né mannsfót (mátti þakka fyrir að halda mínum heilum).
Um daginn brölti ég svo upp á Núphlíðina (suðurenda Núphlíðarhálsins – Vesturhálsins) og góndi stíft niður yfir hraunið. Beint niður af Núphlíðinni er hraunkantur (skil tveggja hrauna). Eystra hraunið er grófara en það vestara. Ég sá götuslóða um allt og einnig niður með umræddum kanti, vísast bara rollugötur, og þó… Þarna fann ég loks gömlu austangötuna á Selatanga. Hún liggur frá Núphlíðinni, þar sem fólkvangsvarðan stendur, og niður með hraunkantinum. Víða er hún grópuð í klappirnar eftir hestahófa.
selatangar-506Þegar komið er niðurundir tangana sveigir hún til vesturs og endar á sandslettu í viki austan undir bílastæðinu. Gangan tekur 15-20 mín. Vestanleiðin á Selatanga er augljós, en hún liggur frá Ísólfsskála um hraunið og beint í verið.
Frá Núphlíðinni til austurs liggur svo þjóðleiðin fast með hlíðinni, þ.e. milli hrauns og hlíðar, og yfir hraunið þar sem styst er að Latstöglum. Þar er vegprestur sem segir: Óbrennishólmar – Latur. Gatan fylgir svo töglunum að norðvestan, liggur næst yfir hálsinn við Latafjall og rennur þar spottakorn saman við úverandi bílveg. Austan við Latafjall er hún svo auðrakin um Ögmundarhraun eftirvörðum og ofan við núverandi veg.“

-SESSELJA GUÐMUNDSDÓTTIR,
áhugamaður um grónar götur,
Mosfellsbæ.

Heimild:
-Morgunblaðið, Selatangar – „Týnda leiðin“, Sesselja Guðmundsdóttir, 13. júlí 1998, bls. 47.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Arnarfell
Gengið var upp bröttustu hlið Arnarfells – svona í æfingarskyni.

Arnarfell

Arnarfell í Krýsuvík.

Arnarfell í Krýsuvík er 198 m yfir sjó (um 100 metra hátt). Bæjarfell, næsta fell að vestan er svolítið hærra, eða 218 m.y.s.
Arnarfellin eru nokkur á landinu öllu. Frægasta Arnarfellið, hingað til a.m.k., er sennilega það, sem stendur við Þingvallarvatn.
Fellið er eitt þeirra er ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell. Vitað er um a.m.k. sjö önnur örnefni á Reykjanesskaganum er borið hafa Arnarnafnið, s.s. Arnarnýpa og Arnarvatn á Sveifluhálsi, Arnarsetrið ofan við Grindavík, Arnarklettur við Snorrastaðatjarnir, Arnarhreiður í Ögmundarhrauni, Arnarklettur í Vatnsleysuvík og Arnstapi í Arnstapahrauni (Afstapahrauni).

Arnarfell

Arnarfell.

Arnarfell er með lögulegri fjöllum eða fellum á skaganum. Eystri nýpan á fellinu, grasi gróin, er fornt arnarhreiður. Vestari nýpan hýsir Eiríksvörðu. Sunnan undir fellinu eru tóftir gamla Arnarfellsbæjarins þar sem m.a. Beinteinn Stefánsson bjó ásamt fjölskyldu sinni. Beinteinn var hagleikssmiður og smíðaði m.a. núverandi Krýsuvíkurkirkju árið 1857, þótt hún hafi nokkrum sinnum verið endurbyggð síðan. Fræg er og sagan af viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á Selatöngum. Beinteinn slapp frá honum við illan leik og þurfti að fara fótgangandi berfættur yfir hraunið á leið sinni heim að Arnarfelli. Þar lá hann rúmfastur nokkra dagana á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – brunnur.

Auk tófta bæjarins má sjá móta fyrir vörslugarði Krýsuvíkurlandsins austan og sunnan við túngarðinn og nær hann til vesturs upp í hlíðar Bæjarfalls, skammt sunnan við fjárhelli, sem þar er. Hlaðin brú er yfir Vestari-Læk og skammt suðvestar er heilleg Arnarfellsréttin. Vörður liggja frá bænum niður á Trygghólana og þaðan niður að Heiðnabergi, framhjá tóftum hins gamla Krýsuvíkusels og bæjarins Eyri, sem stóð þar á fyrrverandi árbakka Eystri-Lækjar, sem nú hefur breytt um farveg. Tóftir sjö bæja eru á Krýsuvíkurtorfunni auk sjö annarra utan hennar, ásamt tilheyrandi mannvirkjum og minjum.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Suðaustan við bæinn er Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Bleiksmýrin er austan fellsins, en hún var ræst út um miðja 20. öld. Á vatnið sækja allflestir sjófuglarnir í Krýsuvíkurbjargi og má oft sá flokka fugla fljúga fram og til baka milli bergsins og vatnsins. Vatnið er einnig áningarstaður fargesta, s.s. helsingja, á leið til Grænlands og Kanada. Tóftir eru vestan við vatnið, en við það eru grasi grónir balar. Að vatninu liggja gamlar þjóðleiðir yfir Krýsuvíkurheiði, enda var vatnið mikilvægur áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við Suðurströnd Reykjanessins og sveitanna fyrir austan. Gömul varða er t.d. við eina götuna norðvestan við vatnið, skammt undan fellinu. Hlaðið byrgi, sennilega eftir refaskyttu, er rétt suðvestan við vörðuna.

Arnarfell

Flaggað á Arnarfellsvörðu.

Mikið er af mófugli á heiðinni undan Arnarfelli, auk þess sem hrafninn verpir í norðanverðu fellinu.
Í suðurhlíðum fellsins eru tóftir útihúsanna frá bænum. Sú efsta er ekki langt frá vestari toppi fellsins. Á honum trjónir Eiríksvarða. Hún var hlaðin eftir að séra Eiríkur frá Vogsósum, prestur í Krýsuvík, mætti Tyrkjum þeim, er komið höfðu upp Ræningarstíg í Heiðnabergi um miðjan júnímánuð 1627, vegið að tveimur stúlkum í Krýsuvíkurseli ofan við bergið og haldið síðan hiklaust áfram á eftir smala, sem varð var við þá, áleiðis að bæjunum undir Krýsuvíkurfellunum. Eiríkur mælti svo um að Tyrkirnir skyldu vega hvorn annan og gerðu þeir það. Þeir voru síðan dysjaðir í Ræningjadys undir Ræningjahól, sunnan við kirkjuna. Sagan segir að séra Eiríki hafi haft á orði að ef ekki hefði verið sunnudagur og hann ekki í prestsklæðum hefði hann og mælt svo fyrir að Tyrkirnir ætu hvorn annan lifandi.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Í kirkjugarðinum við Krýsuvíkurkirkju er m.a. grafinn hinn ástsæli málari og lögreglumaður Sveinn Björnsson. Hann var einn þeirra manna í seinni tíð er kunni að meta Krýsuvíkursvæðið að verðleikum, enda birtist það oftlega í myndum hans.
Norðan við Arnarfell er hlaðinn stekkur og nafnfrægur skúti upp í norðausturhlíðum þess. Nú er ætlunin að taka Hollywoodkvikmynd við Arnarfell. Líkja á eftir stríðsátökum á eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafi. Grafa á sprengigíga allt að 16 m í þvermál með tilheyrandi raski. Svíða á eina hlið fjallsins svo það virðist rjúkandi rúst á eftir.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað til þess að heilstæð fornleifaskráning hafi farið fram í Krýsuvík. Skráning, sem fram fór árið 1998, verður að teljast ófullnægjandi. Samt virðist Fornleifavernd ríkisins þess umkominn að geta gefið örugga umsögn án tillits til hugsanlegrar minjaeyðingar á svæðinu. Umhverfisstofnun virðist geta gefið heimild til gróðureyðingar og umhverfisröskunar við Arnarfell þrátt fyrir að stofnunina virðist skorta lagaákvæði því til stuðnings. Landgræðsla ríkisins virðist geta af léttúð talið sig geta lagfært hugsanlegar gróðurskemmdir og landsspjöll á a.m.k. 5 árum. Leitað hefur verið að skynsamlegum rökum í umræddum umsögnum, en þær enn ekki fundist.
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar fær greiðslu fyrir afnot af svæðinu og umhverfisspjöllin, skv. upplýsingum frá starfsmanni bæjarins. Spurningin er; hvaða áhrif mun það hafa á skynsamlega ákvörðunartöku bæjarfulltrúa?

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Krýsuvík, sem heilstæð eining; umhverfi, náttúra, menning, saga og veðurfar, er í rauninni einstök náttúruperla. Það vita a.m.k. þeir, sem því hafa kynnst. Kyrrsetufólkið, með fullri virðingu fyrir því, kemur aldrei til með að geta kynnst neinu í líkingu við það. Samt virðist það vera fólkið, sem ráðskast á með framtíð þessa dýrmæta svæðis.
Stefán Stefánsson, leiðsögumaður, mælti svo fyrir um að ösku hans skyldi dreift yfir Kleifarvatn að honum látnum. Sú ákvörðun var tekin vegna hrifningar hans á Krýsuvíkursvæðinu. Öskunni var dreift af Ytri-Höfða, sem síðan þá hefur hafnan verið nefndur „Stefánshöfði“.
Gangan tók 12 mín. Frábært veður.

Stefánshöfði

Ytri-Stapi; Stefánshöfði.