Ásfjall

Gunnar Ólafsson og Guðríður Þorvarðardóttir skrifuðu grein um „Ástjörn“ í Náttúrufræðinginn árið 1998:

Ástjörn

Friðland við Ástjörn.

„Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli og er u.þ.b. 4,71 ha að stærð. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum en mýrlendið við tjörnina er samtals 8,46 ha að stærð. Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.
Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi og í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. Vegna þessarar sérstöðu var Ástjörn og svæðið umhverfis hana friðlýst í samræmi við náttúruverndarlög árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar hefur umsjón með friðlandinu og annast stjórn og eftirlit með fólkvanginum. (Stjórnartíðindi B, nr. 189/1978 og nr. 658/1996.)

Tilurð Ástjarnar

Ástjörn

Við Ástjörn.

Ástjörn á tilveru sína að þakka hrauni sem hefur lokað fyrir eðlilegt afrennsli vatns úr dalkvosinni sem tjörnin er í. Ástjörn er því uppistöðutjörn sem er lokuð af hraunstíflu. Hið sama á við um Hvaleyrarvatn sem er í dalkvos milli Vatnshlíðar og Selhöfða sunnan við Ásfjall. Vötn og tjarnir af slíkri gerð einkennast af því að þau eru oft vogskorin og tiltölulega næringarrík og ber Ástjörn af hvað dýralíf og gróður snertir. Hraunið sem myndar stífluna liggur að tjörninni vestanverðri. Áður en hraunið rann hefur sennilega verið mýri þar sem Ástjörn er nú og afrennsli til sjávar verið vestan við Hvaleyrarholt. Í dag er ekkert yfirborðsrennsli úr tjörninni en áður en framkvæmdir við íþróttasvæði Hauka hófust árið 1990 féll stundum læna úr tjörninni milli hraunsins og Hvaleyrarholts, en náði þó jafnan skammt (Freysteinn Sigurðsson 1976).

Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar Ástjörn er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.
Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2
000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum lfkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson 1991).

Út frá þessu má ætla að Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum, er Eldra-Hellnahraun rann, en kringum árið 950, þegar Yngra-Hellnahraun myndaðist, rann hrauntota fyrir norðvesturenda tjarnarinnar og tjörnin fékk á sig núverandi mynd.

Gróður í og við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Við Ástjörn eru ýmsar gerðir gróðurlenda: votlendi, lyngmóarog bersvæðisgróður auk gróðurs í hraunsprungum. Fjölbreytilegur gróður vex í tjörninni og næsta nágrenni hennar.
Í suðausturenda tjarnarinnar vex tjarnastör á allstóru svæði. Í þessum fláka verpir flórgoðinn en hann byggir sér flothreiður, einn íslenskra fugla, og notar m.a. störina til þess.
Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa í tjörninni og má nefna tjarnarlauk, sem vex á botni hennar, álftalauk sem vex að jafnaði á kafi í vatni og sennilega einnig vatnalauk. Blautasti hluti mýrlendisins er prýddur hófsóleyarbrúskum á vorin en síðsumars skartar engjarósin þar dökkrauðu.
Burknar eru algengir í hrauninu við Ástjörn, t.d. og stóriburkni, fjöllaufungur og þríhyrnuburkni en gróður í hraungjótum líkist annars mjög þeim gróðri sem finnst í skógarbotnum.
Í móunum vestan við Ástjörn vex blátoppa, sem er af grasaætt og vex víða á holtum á höfuðborgarsvæðinu og suður fyrir Hafnarfjörð en er afar fágæt annars staðar á landinu. Einnig má þar finna gullkoll og í graslendinu við Stekk má síðsumars sjá stórar breiður af maríuvendi.
Í lýsingu Garðaprestakalls frá árinu 1842 er sagt að innan um hraunin og í fjallshlíðum í sókninni hafi vaxið hrís, víðir, einir og lyng. Hrísið óx meðal annars sunnan í Ásfjalli. Hrísið, sem að öllum líkindum hefur verið fjalldrapi, var notað sem skepnufóður og til eldiviðar og var þegar árið 1842 talað um að eyðing þess væri vandamál (Árni Helgason 1938).

Fuglalíf við Ástjörn

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Við Ástjörn má finna kjörlendi allmargra fuglategunda. Nokkrar tegundir verpa þar að staðaldri en Ástjörn er einnig viðkomustaður ýmissa tegunda á leið til og frá landinu, enda er fæðuframboð í tjörninni mikið. Fuglar eru sérhæfðir í búsvæðavali og ákveðnar tegundir eru bundnar við vissar gerðir búsvæða. Almennt má segja að ein meginforsendan fyrir fjölbreyttri varpfuglafánu á tilteknu svæði sé margbreytileiki í gerð búsvæða.
Þótt friðlandið sé lokað allri almennri umferð yfir varptímann (1. maí – 15. júlí) er fuglaskoðun með sjónauka möguleg frá jaðarsvæði friðlandsins. Þó svo að fuglaskoðarar séu utan friðlandsmarka verður ætíð að gæta þess að trufla ekki fuglalífið. Á Ástjörn og í næsta nágrenni hennar má sjá fjölmargar fuglategundir.
Nokkrir mjög sjaldgæfir fuglar hafa einnig sést við Ástjörn og má þar til nefna trjámáf, sem er amerísk tegund og líkist hettumáfi en er minni og spengilegri, svo og dvergmáf og kolþernu(Arnþór Garðarsson 1979).

Flórgoðinn

Flórgoði

Flórgoði með unga á Ástjörn.

Flórgoðinn er minni en minnstu endur og í varpbúningi með einkennandi gullna eyrnaskúfa á dökku höfðinu. Í góðum sjónauka má sjá rauðleitan háls og síður. Flórgoðinn verpir við ferskvötn þar sem hann hefur fæðu og varpstaði við sitt hæfi. Aðalfæða flórgoðans á sumrin er hornsíli og vatnaskordýr. Algengast er að sjá flórgoða kafa eftir æti en þeir tína líka af vatnsborðinu. Flórgoðinn er einstakur meðal íslenskra fugla því hann er algjörlega háður vatnalífi og fer ekki einu sinni á land til að verpa, heldur gerir sér flothreiður sem hann festir í stör eða annan vatnagróður. Flórgoðar ættu að hafa fæðu við sitt hæfi í Ástjörn og vötnum í nágrenninu eins og Urriðakotsvatni og Vífilsstaðavatni, en ákjósanleg varpskilyrði er aðeins að finna í tjarnarstarabreiðunum við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Flórgoðinn var áður nefndur sefönd, enda héldu menn að hér væri um önd að ræða.
Í ferðabók Eggerts og Bjarna (1975), sem segir frá ferðum þeirra á árunum 1752-1757, kemur fram að sefönd hafi verið á stöðuvötnum í Gullbringusýslu. Ekki segir hvort um varpfugla sé að ræða eða hvort hún hafi aðeins sést á vötnunum.
Fyrr á þessari öld voru flórgoðar mun tíðari varpfuglar á Suðvesturlandi en nú og var m.a. vitað um varp við Silungatjörn og Leirtjörn á Miðdalsheiði og Rauðavatn ofan Reykjavíkur, auk Urriðakotsvatns og Ástjarnar. Sumarið 1992 var svo komið að á öllu svæðinu frá Laugardal í austri að Hofgarðatjörn á Snæfellsnesi í vestri var aðeins eftir ein flórgoðabyggð, þ.e. við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Elstu heimildir um flórgoðabyggðina við Ástjörn eru frá 1954 en fyrir þann tíma er ekki vitað til að fuglaskoðarar hafi sótt þangað. Flórgoðar hafa verið árvissir varpfuglar við tjörnina alla tíð síðan (4-6 pör). Elstu heimildir um flórgoða við Urriðakotsvatn eru frá svipuðum tíma og við Ástjörn. Þeir eru óreglulegir varpfuglar við Urriðakotsvatn en stöku pör hafa orpið þar á undanförnum árum.

Fornir vegir hjá Ási

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfír Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhlíðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 1997-1998, 3.-4. tbl. bls. 275-286.

Ástjörn

Ástjörn.

Úlfarsá

Í „Fornleifaskráningu Úlfarsárdals, Reykjavík 2017„, segir m.a. um Úlfarsá:

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

„Úlfarsá telst vera hluti af víðáttumiklu landnámi Ingólfs Arnarsonar en hann nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá. Samkvæmt þessu hefur landnám Ingólfs náð yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef frá er talið svæðið sem liggur milli Brynjudalsár og Botnsár, og Árnessýslu vestan við Ölfusá. Ingólfur gaf svo vinum og vandamönnum er síðar komu hluta af landnámi sínu.1 Svæðið sem jörðin Úlfarsá tilheyrir var því síðar land Þórðar skeggja Hrappssonar en hann hafði fyrst numið land austur í Lóni og búið þar í um tíu ár. Þegar Þórður skeggi frétti að öndvegissúlur hans hafði rekið á land í Leiruvogi seldi hann land sitt Úlfljóti sem þekktur var fyrir að hafa komið með lögin til Íslands. Þórður flutti svo suður og settist að, með ráði Ingólfs, á svæðinu milli Úlfarsár og Leiruvogs.

Úlfarsá

Úlfarsá – gatan að nýjasta bænum.

Við siðbreytinguna urðu þær jarðir sem áður höfðu tilheyrt kirkjunni eign konungs. Úlfarsá er ekki að finna í fógetareikningum, jarðaskiptabréfum né jarðaskrám kirkjunnar frá miðöldum. Jarðarinnar er fyrst getið í jarðabók 1584 og þá undir nafninu Kálfastaðakot og telst jörðin þá vera konungseign. En hvernig má það vera? Ólafur Lárusson hefur komið með skýringu á þessu. Hann taldi víst að jörðin hafi farið undir konung á árunum 1552-1584. Flestar jarðirnar í kringum Kálfakot tilheyrðu Viðeyjarklaustri á miðöldum og því nokkuð líklegt að það hafi einnig átt við Kálfakot. Ólafur bendir á að algengt hafi verið að bæjarnöfn fengju endinguna – kot við það að leggjast í eyði. Jörðin hafi því áður heitið Kálfastaðir en það gæti verið afbökun úr enn eldra nafni, Kálfarrstaðir sem sé þá dregið af karlmannsnafninu Kálfarr.
Hannes Þorsteinsson gerði nafn jarðarinnar einnig að umtalsefni í skrifum sínum um 1923. Hann benti á að jörðin nefnist Kálfastaðakot í jarðabókum frá 1639 og 1696 “og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” Ólafur Lárusson taldi sennilegt að Kálfastaðir hafi lagst við nágrannajörðina Lambhaga þegar jörðin fór í eyði. Lambhagi tilheyrði Viðeyjarklaustri og fór svo undir konung og þannig hafi Kálfakot komist undir konungshendur. Þegar jörðin var aftur byggð þá var það undir nafninu Kálfastaðakot. Upp úr 1590 er farið að nefna jörðina Kálfakot og árið 1925 er jörðin nefnd Úlfarsá, þá átti hana Sigurjón Einarsson.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Samkvæmt jarðabókinni 1704 var jörðin þá konungseign. Ábúendur voru tveir, Salbjörg Gunnlaugsdóttir sem bjó á helmingi jarðar og Einar Sveinbjörnsson sem bjó á hinum helmingnum. Landskuld af allri jörðinni voru xl álnir og skiptist til helminga á milli ábúenda. Landskuld skyldi borgast í fríðu með sama taxta og gilti um Helliskot. Ábúendur skyldu leggja fram við til húsabóta. Kúgildi voru þrjú, eitt og hálft hjá hvorum ábúanda. Leigur skyldu borgast í smjöri heim til Bessastaða eða í Viðey eftir því sem fyrirmæli voru. Ábúendum bar að yngja upp kúgildin. Á jörðinni voru sömu kvaðir og á Reynisvatni nema hvað hestlán varðar en hestlán höfðu ekki verið á kvöð á jörðinni þar sem ábúendur voru svo fátækir að þeir áttu annað hvort engan hest eða einn og þá „lítt eður ekki færan, og fóður minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu“. Engjar voru taldar „ærið“ litlar, útigangur lakur og landþröng mikil. Kvikfénaður Salbjargar voru tvær kýr en Einar var með fjórar kýr, eina kvígu veturgamla, einn hest, sjö ær með lömbum, tvær geldar ær, tvo veturgamla sauði og einn tvævetur. Talið var að á allri jörðinni gætu fóðrast sex kýr, 10 lömb og einn hestur. Tveir voru til heimilis hjá Salbjörgu og þrír hjá Einari. Torfskurður til húsagjörðar og eldiviðar var talinn nægilegur.

Úlfarsá

Úlfarsá – fjárborg.

Árið 1882 var jörðin í eigu Jóns Péturssonar „háyfirdómara” og Tómasar Hallgrímssonar „læknaskólakennara” sem bendir til þess að þá hafi eigendur ekki búið á sjálfir jörðinni allt árið. Árið 1909 þegar Herforingjaráðskortið var gert af svæðinu, er Úlfarsáin nefnd Korpúlfsstaðaá og Úlfarsfell Hamrafell. Frá Vesturlandsvegi sem þá var orðinn vagnavegur liggja tveir vegir inn Úlfarsárdalinn að norðan, en við Lambhaga greinast þeir í tvær leiðir, önnur fer upp að hryggnum sunnan við Leirtjörn að Úlfarsfelli og áfram að Reykjarkoti og Syðri-Reykjum, en neðri leiðin fer beint að Kálfakoti.
Samkvæmt manntali frá árinu 1703 til 1920 bjuggu í Kálfakoti ein til tvær fjölskyldur frá 1703 til 1920, fæst fimm manneskjur en flest nítján.

Kálfakot

Kálfakot – túnakort 1916.

Túnakort var gert af jörðinni Kálfakot árið 1916, af Vigfúsi Guðmundsyni frá Keldum. Aðalbærinn er á miðju kortinu undir „Fellinu“ og samanstendur hann af sjö húsum sem hafa verið torfhús með standþili og snúa þau suður. Á hlaðinu eru auk þess tveir stórir kálgarðar, bæjartröðin lá í austur frá bænum. Norðaustur af bænum í Fellinu hefur verið annar bústaður, tvö hús og annað þá greinilega orðið tóft, en við það var lítill kálgarður.
Austur af bænum voru tvö útihús og hefur anað þeirra verið tóft. Suður af bænum neðst í túninu hefur verið lítið timburhús, þar suður af var skeifulaga skjólgarður og lítill kálgarður. Í athugasemdum við kortið kemur fram að timburhúsið neðst í túninu hafi verið byggt til íbúðar (Margrét Zoega) árið 191?, og rifið aftur (Jón Kr.) 1917 og selt til Reykjavíkur. Jaðar túnsins er markaður en einungis hefur verið hlaðinn túngarður frá Gili í austur að bústaðnum en þar hefur tekið við girðing. Í Gilinu hefur verið girðing eða aðhald. Túnið telst vera 3,2 teigar (hektarar) og er um helmingur sléttaður nýlega og kálgarðar hafa verið um 950 m2.

Úlfarsá

Úlfarsá – stekkur.

Á árunum 1915-17 bjó Margrét Zoëga í Kálfakoti, en hún flutti þangað í kjölfar brunans á Hótel Reykjavík, en hún var þá orðiðn ekkja (Einar Zoëga). Margrét átti þá tvær jarðir, Einarsstaði á Grímstaðholti og Kálfakot. Sjálf ræktaði hún garðávexti að Einarstöðum en hafið ráðsmann í Kálfakoti. Margrétt lét byggja lítið timburhús fyrir sig í túnfætinum á Kálfakoti trúlega árið 1915, en þar var síðar reist steinhús á Úlfarsá (1930). Árið 1918 reisti Margrét Zoëga síðan húsið Þrúðvang við Laufásveg 7 og flutti þangað í kjölfarið.
Í framhaldi eignast Jón Kristjánsson prófessor í Reykjavík jörðina árið 1918 og lætur hann rífa hús Margrétar og selur það til Reykjavíkur. Hann var stórhuga í búskapnum, og árið 1918 lét hann þurrka upp tjörn fyrir utan og ofan bæinn (Leirtjörn), sem var 18 dagsláttur að stærð. Þar ætlaði hann, ef honum hefði enst aldur til, að sá í hana höfrum. Að meðaltali fengust 18 hestar af hafragrasi af dagsláttunni hér á landi þá. Auk þess byggði hann, ásamt eiganda Reynisvatns, vatnsveitugarða og ætluðu þeir að veita Úlfarsá yfir allar engjarnar, sem liggja með fram henni.

Úlfarsá

Úlfarsá – stífla.

Í Fasteignamatsbók Kjósarsýslu frá 1918 er jörðin nefnd Kálfá en svo innan sviga (=rkot) þannig að bæði nöfnin hafa verið þekkt á þeim tíma. Að auki hefur nafninu Úlfarsá verið bætt við fyrir aftan og er það líklega gert árið 1930, þegar athugasemdum var bætt inn í bókina. Í matsbókinni kemur fram að jörðin sé norðanvert í Úlfarsdalnum, um 11 km frá Reykjavík, eigandi og notandi sé Jón Kristjánsson. Jörðin er skattsett 200 krónur. Svo virðist sem enginn búi á jörðinni á veturna. Tún voru 3,2 teigar, hölluðu til suðurs og tæplega helmingur var sléttaður og taða var um 130 hestburðir. Sáðreitir voru 800 m2 og uppskeran um 12-15 tunnur. Miðað við stærð sáðreita hefur þetta verið lítill hluti af Leirtjörninni sem sáð var í. Útslægjur voru taldar fremur þýfðar en nokkuð samfelldar og mest var af þeim hafa um 300 hestburði. Land var ekki mikið, og fremur rýrt, sunnan í Úlfarsfelli. Tún var girt á tvo vegu, mest var notast við þriggja strengja vír en restin var grjótgarður. Aðrir kostir eða ókostir voru „varla teljandi“ en mótak talið sæmilegt, vatnsból gott, byggingarefni lélegt og „hægt um tún útfærslu“. Bent er á að foss sé í ánni á merkjum og mögulegt væri að veita á slægjublett. Árið 1918 er engin áhöfn á jörðinni um veturinn en talið að hún fóðri þrjár kýr og einn vetrung, þrjú hross og 100 fjár. Hvað húsakost varðar var hann metinn á 1100 krónur en hann samanstóð af timburhúsi í smíðum úr fremur lélegu efni, 4,4 x 6,9 m metið á 500 krónur, hlaða fyrir 250 hesta metin á 300 krónur, fjós fyrir tólf nautgripi (sumarfjós) metið á 160 krónur, hesthús fyrir fimm hross metið á 40 krónur. Jarðabætur voru metnar á 300 krónur og heildarmat var því um 6000.

Úlfarsá

Úlfarsá – stíflugarður fyrir vorflæðið.

Björn Bjarnason segir svo í riti sínu Sagnir, ljóð o.fl. frá 1931: „Úlfarsá (áður Kálfakot). Þar bjó lengi Guðm. Jónsson á síðari hluta 19. aldar. Síðan hafa ýmsir búið þar, sumir eigendur, þar á meðal Margrét (Tómasd.) Zoega. Hún færði bæinn, er var ofarlega í túni, á lítinn bala neðst í því. Byggði þar timburh. og leiddi vatn inn. Það hús var síðar rifið, og byggt annað minna. Síðar var annað íbúðarhús byggt við það, en eldra húsið gert að geymslu. Fjós og hlaða er nú steypt. Eig. + ábúandi nú Jón Guðnason hefur gert nýrækt allmikla. Túnið að mestu sléttað. Var 3 kúa tún, nú 10-12. Talsvert sauðfé. Girðingar miklar.“
Ljóst er af þessum lýsingum að staðsetning bæjarins hefur ekki verið samfelld á einum bæjarhól. Bærinn var að hluta færður um 1916 þar sem síðar var steypt hús á Úlfarsá. Þar byggði Margrét Zoega fyrst 1915 það hús var síðan rifið og nýtt í byggingu 1918 þegar úttektin fór fram, sjá hér að framan, sama ár létust hjónin Jón Kristjánsson lagaprófessor og kona hans Þórdís T. Benedikts. Jörðin var síðan auglýst til sölu í desember 1918 metin á 12,2 hr. að dýrleika og átti að seljast hvort sem er með eða án áhafnar. Þá virðist ekki hafa fundist kaupandi, því jörðin var boðin upp 8. maí árið eftir og þá eru þar 6 kýr 25 kindur, 2 vagn hestar og 6 hænsni auk vagna, plóga, herfis, reipa og annarra húsmuna.

Úlfarsá

Úlfarsá – kennileiti.

Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944 og byggðu þau upp jörðina. Árið 1930 var búið að byggja tvö íbúðarhús annað úr timbri en hitt steypt, auk steyptar hlöðu og fjóss. Vatnleiðsla lá heim að bænum og búið að stækka túnin frá fyrra mati.
Fjárhús var á jörðinni auk þess sem búið var að ryðja bílfæra braut að bæjarstæðinu. Úlfarsá var í ábúð til ársins 1953.
Á árunum 1948-50 fékk Atvinnudeild Háskólans að gera ræktunartilraunir á Úlfarsá og var dr. Áskell Löve þar fremstur í flokki með ræktun, t.d. á jarðaberjum, eplatrjám ásamt 97 afbrigðum af kartöflum.
Upp úr 1950 var farið að huga að byggingu fyrir drykkjumannahæli í nágrenni Reykjavíkur og árið 1979 var Gæsluvistarsjóður orðinn eigandi Úlfarsár. Jörðin var þá nýtt sem útibú frá Kleppspítala og var drykkjumannahæli þar til ársins 1962. Gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Jörðin tilheyrði Mosfellssveit til ársins 2001, þegar sveitafélagsmörkum var breitt. Uppbygging á íbúðahverfi innan jarðamarka Úlfarsár hófst í kjölfar samþykktar á deiliskipulags fyrir Úlfarsárdal árið 2006.“

Heimild:
-Fornleifaskráning Úlfarsárdals, Reykjavík 2017.

Úlfarsá

Úlfarsá – brunnur.

Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Annar þáttur. Frá 21.janúar 1973:

Stadur 202„Og við höldum áfram spölkorn í vestur og erum nú komin heim á stórbýli. Hér er heldur lífvænlegra því hér eru gardínur fyrir gluggum og  málning á húsum. Fyrir framan húsið er kirkjugarður, sennilega kirkjugarður Grindvíkinga, grænn og grösugur með trékrossum og legsteinum og kirkjuport í miðjum garði. Hér er sérstaklega falleg fjallasýn til austurs. Fjöllin fyrir ofan og austan Grindavík blasir við og Grindavík sjálf. Þetta mun vera hinn forni kirkjustaður þótt kirkjan sé horfin.“

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

„Já, við erum staddir á Stað. Og ef það er rétt að Staður hafi einhvern tímann verið í miðri sveit hlýtur það að vera langt síðan. Nú er Staður í enda sveitarinnar. Hvergi sjást hér fyrir vestan neinar minjar um neina byggð. Hér hafa margir klerkar setið og brauðið gott. Jörðin er stór, beitarlandið mikið og rekasælt með afbrigðum því Staður á reka og jörð allt vestur að Reykjanesvita, að Valahnúk.
Þjóðkunnastur presta á Stað er áreiðanlega séra Oddur V. Gíslason. Hann var hér fyrir aldarmótin prestur í nokkur ár. Eins og allir vita lét hann slysavarnarmál til sín taka. Hann bar fyrir brjósti löngun til þess að verða að gangi við sjávarsíðuna. Hann horfði upp á sjóslys og horfði upp á þau og hann lá ekki á liði sínu til að þeim gæti fækkað. Sérstaklega lagði hann áherslu á bárufleyginn. Þetta tæki þrautreyndi Oddur hér í Grindavík. Eitt man ég eitt fyrir víst á tíma árabátanna hér í Grindavík þá fóru þeir ekki á sjóinn á vertíðinni án þess að hafa með sér í það minnsta lýsi á brúsa þeir sem ekki höfðu með sér bárufleyginn. Það var sannarlega ekki óalgengt þegar þeir komu að hálfófærum sundunum þá helltu þeir lýsi í sjóinn svo þeir gátu bjargað sér til lands á næsta lagi.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Séra Oddur vildi láta stofna Bjargráðanefndir í hverri sýslu, en draumur hans rættist ekki. Árið 1894 var hann orðinn þreyttur maður og afréð að flytja búferlum frá Íslandi. Ómegðin og fátæktin var orðin mikil. Séra Oddur fluttirst til Kanada og varð prestur í Nýja-Íslandi. Þar tók hann fyrir að læra læknisfræði og lauk prófi í þeirri grein. Oddur er frægur fyrir sitt brúðarrán. Hann vildi kenna Íslendingum að nýta lifrina. Einhvern tímann stunadi hann lifrabræðslu í Höfnum. Þá var þar Vilhjálmur Hákonarsona, stórbóndi. Hann átti tvær dætur, Þær hétu Steinunn og Anna. Heimasæturnar í Kirkjuvogi þóttu glæsilegur kvenkostur. Oddur og Anna féllu hugi saman. Það kom að því að Oddur fór á fund Vilhjálms, en fékk ekki Önnu. Oddi þótti á þeim árum gott að dreypa á víni og var ekki vænlegur kostur. Oddur sætti sig ekki við þetta, en hrökklaðist frá Höfnum og eitt er víst að hann var kominn til Reykjavíkur. Svo var það að hann tekur sig upp frá Reykjavík og fer gangandi til Njarðvíkur. Þá var ekki vegur. Menn urðu að fara gangandi þar sem þeir fóru. Þar átti hann góðan vin, Björn í Þórukoti. Hann fann hann að máli og sagði honum hvernig meyjarmálin stóðu og bað hann hjálpar. Björn var til í það og lánaði Oddi hesta og fylgdarmenn. Oddur hafði áður með brögðum komið bréfi til heimasætunnar að hún skyldi búast við honum þetta kvöld eða þessa nótt að hún skyldi koma með honum til Reykjavíkur. Hún mætti um nóttina með föggur sína í poka og tilbúin til reisunnar. Hún steig á bak og þau riðu mikinn til Njarðvíkur og komu þangað með morgninum. Þá hafði Björn í Þórukoti tilbúinn sexæring og hann skyldi flytja þau til Reykjavíkur.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Morguninn eftir sendi Vilhjálmur menn á eftir Önnu en þegar þeir komu til Njarðvíkur var Oddur og Anna að stíga um borð í bátinn. Þegar þeir komu niður í fjöru hafði Oddur ýtt frá og bað menn í landi að skila góðri kveðju til Vilhjálms. Þau komust heim til Reykjavíkur og skömmu síðar voru þau gefin saman í hjónaband og er ekki getið um annað en Vilhjálmur hafi síðar orðið ánægður með tengdasoninn.

Síðar varð séra Oddur prestur hér í Grindavík. Hann var víst nokkuð ölkær á tímabili. Sögur fóru af því. T.d. segir frá því að séra Oddur átti að jarða húsfreyju í Þórkötlustaðahverfi. Á leiðinni frá Stað mætti hann Lárusi Pálssyni hómapata sem þá átti heima á Ströndinni. Þeir voru góðir kunningjar. Þeir hittust einhvers staðar fyrir ofan Hóp. Tóku þeir tal saman og annar hvor átti ýmislegt í hnakktöskunni auk hempunnar og lyfjanna. Nema þeir urðu mjög góðglaðir. Þegar þeir stigu á bak aftur vildi svo til að þeir fóru á bak hvors annars hesti.
Þó segir sagan að annar hesturinn hafi verið grá en hinn brúnn. Þegar Presturinn kom austur í Þórkötlustaðahverfi brá honum við því þar var lyfjaskrína læknisins. Húskveðjan var því í heldur styttra lagi, en svo var kistan borin alla leið út að Stað, tveggja til þriggja stunda leið, og mun presturinn víst hafa jafnað sig á þeim tíma.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Eitt sinn kom vinnumaður heim með miklu írafári og sagði frá því að koníakstunna hefði rekið hér út á Mölinni. Það lyftist strax brúnin á presti. Tveir vinnumenn voru sendir til að sækja tunnuna. Það leið á daginn og þeir komu ekki aftur. Þá sendi prestur aðra tvo og þriðja vinnumann sinn og einn ábúandann úr Gerðinu, Þorgeir Björnsson, og þeir skyldu nú leita að mönnunum og tunnunni. Þegar þeir komu í túnfótinn, þar var hlið, og þar fundu þeir annan vinnumanninn þar sem hann lá þversum yfir hliðsgrindina og hinn fundu þeir liggjandi við tunnuna. Tunnan var flutt heim og drukkið var talsvert í Staðarhverfinu næstu daga.
Þess er sjaldnar getið að Oddur var síðar bindindismaður og þá alveg sérstaklega ákveðinn og passaði það vel, enda hefði hann ekki gert það sem hann gerði vel.
Þegar Oddur fór utan urðu a.m.k. tvö börn hans hérna áfram. Annað þeirra var Steinunn, kona Ólafs ketilssonar á Kalmanstjörn en þeirra sonur er Oddur Ólafsson sem öðrum fremur gerði Reykjalund að því sem hann er í dag.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Eftir Odd var séra Kristján Eldjárn prestur á Stað. Sonur hans var Þórarinn á Tjörn í Svarfaðadal, faðir forsetans sem nú er, Kristjáns Eldjárns. Næstur held ég að séra Gunnar Brynjólfsson verði prestur á Stað, á eftir honum Brynjólfur Magnússon og síðan Jón Árni Sigurðsson sá sem situr hér sóknarprestur í dag, að vísu ekki lengur á Stað því prestbústaður hefur verið byggður í Járngerðarstaðahverfinu.
Sóknarkirkjan var aftur á móti flutt frá Stað 1909 eða ’10 og austur í Járngerðarstaðahverfi. Hún var alveg á byggðarenda hér úti á Stað, og þótt hér áður fyrri hafi e.t.v. ekki þótt langt frá Hrauni og út á Stað vegna áhuga að sækja kirkju, en fólk fór að finna fyrir því upp úr 1930 að leiðin var löng í kirkjuna, alla leið út að Stað.
Annars hafði séra Þórarinn Böðvarson byggt kirkju um miðja 19. öldina og var það fyrsta timburkirjan sem byggð hafði verið í Grindavík. Þangað til hafði verið torfkirkja í Grindavík. Í dag er nú aðeins klukknaport hér í kirkjugarðinum af byggingum, annað ekki.“
„Dýralífið virðist hér mjög fjölskrúðugt, krían flýgur hjá með síli í nefni og úti á víkinni var hvalur að velta sér. Eitthvað er hér fleira um tóftir og húsarústir hér við Stað. Hér úti á tanganum sést í grónar tóftir.“

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

„Já, það er hérna töluvert um rústir í túnfætinu. Og ef við bregðum okkur niður á tangann þá var þar býli fram allt til líkast til 1918. Fyrir og fram yfir aldarmótin bjuggu hér þrjú systkin. Ein systirin hét Sigríður og Vernharður og Þorgeir bræður hennar. Ekkert þeirra giftist. Það var óvenjulegt með þeirra systkin að Sigríður réði öllu með fjármálin. Þorgeir þótti duglegur að bera. Hann hvíldi sig v´st oftast þannig að hann beygði sig alveg í rétt horn. Versta baggan sem hann taldi sig hafa borið var kommóða frá Stað og austur í Járngerðarstaðahverfið. Heimasætan var að yfirgefa sitt foreldraheimili og kommóðan var full af glertaui. Það þótti ekki ataka því að tæma kistuna því Þorgeir átti að bera. Annar maður var fenginn Þorgeiri til fylgdar sem átti að skipta við hann að bera. Sá tók kistuna fyrr á bak sér og komst 200-300 metra metra austur fyrir Staðarhúsið. Þar lagði hann kommóðuna frá sér, fór heim og sagðist ekki snerta á þessu meira. Þórgeir tók þá kistuna á bak sér og bara hana út í Járngerðarstaðahverfi.
Þorgeir var umtalaður maður að honum þótti gott í staupinu og var það eina gleði mannsins.

Skúta

Skúta.

Sárgrætilegasta stund lífs Þorgeirs var sú að eitt sinn strandaði frönsk fiskiskúta á Tóftardal. Hún var vel útbúin af koníak og aðrar víntegundir. Karlarnir sem björguðu skútunni fengu víst vel í staupinu, þeir höfðu borið heim vínið í sjóbróknum sínum og sjóhöttunum. Þorgeir, sem aldrei hafði orðið misdægurt, lá veikur þessa daga.
Það var líkast til 1918 að Sigríður var dáin og þeir bræður voru komnir af fótum fram. Þá gerðust þeir próventumenn ekkju Ólafs bróður þeirra sem bjó hér í Móakoti, en Ólöf og Ólafur í Móakoti voru foreldrar Guðmundar R úr Grindavíkinni sem margir kannast við. Þegar hún Sigríður var dáin skyldu gömlu mennirnir fara til þeirra, skila þeim efnum sínum, þ.e. reitunum, því heimilið var vel efnað. Það var selt að dánarbúið hafi verið selt á 60 þús. krónur og það voru miklir peningar í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

Þessum peningum skiluðu svo gömlu mennirnir til ekkju bróður síns í Móakoti og áttu að verða próventumenn hjá henni en um þær mundir fluttist hún með sonum sínum til Reykjavíkur. Þeir fóru nú ekki með henni þangað, Vernharður dó skömmu síðar hér heima, en þá skyldi Þorgeir að fara til hennar til Reykjavíkur, en kom gangandi til baka á öðrum eða þriðja degi og hafði á orði að á því í hundsrassi vildi hann ekki vera því þar gæti maður ekki einu sinni pissað úti.
Hérna í túnfætinum var Kvíadalur, ég man líka eftir byggð þar. Eyjólfur og Vilborg bjuggu þar. Eyjólfur þessi var Oddsson. Faðir hans var formaður á bát í Járngerðarstaðahverfi. Hann drukknaði þar í góðu veðri. Það var talið að hann hafi hlaðið skipið í sjó. Með honum fórst t.d. Einar faði ömmu minnar, Margrétar, og bróðir Margrétar.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Hérna eru rústir. Í hólnum fyrir neðan af Löndum. Það er nú ekkert en gamalt tómtús. Ég man eftir þegar það var byggt upp. Hér á Staðarbringnum voru hvorki minna en þrjú býli, fjögur býli, þrjú sem öll hétu Bergskot og eitt sem hét Nýibær. Það var svon fram undir 1915-’20 að fólk var í sumum þessara húsa. Þetta voru bara tómthús og höfðu bara sjávarnytjar, en lítið not af jörð. Höfðu þó nokkrar kindur sem áttu heima hér í þessum tómthúsum. Aftur á móti Móakot og Staðargerði voru hjáleigur og höfðu töluverða grasnyt. Vilmundur á Löndum kom hér upp mörgum brnum og bjó við mikla ómegð. Allt þetta fólk er flutt til Reykjavíkur og Keflavíkur. Eitt barnabarna hans er t.d. Þórunn Magnúsdóttir leikkona.

Staðarhverfi

Gengið um Staðarhverfi.

Alltaf höfðum við gaman af sögunni um hann Sigga á Löndum. Það vildi nefnilega þannig til að rak víntunna hér úti á Mölunum, Móakotsmölum. Presturinn á Stað, Brynjólfur Magnússon, gerði boð um þetta heim til hrepsstjórans, pabba sáluga, og hann skipaði svo fyrir að tunnan skyldi flutt heim að Löndum til varðveislu. Þar var hún læst inni í skemmu sem var að nokkru leiti byggð af rimlum, milligerði og tunnan flutt inn í það allra helgasta, en annars karn þar fyrir utan. Þá var farið í símann og sýslumanni tilkynnt um rekann. Hann gerði ráðstafnir til að láta rannsaka innihaldið og komst að því að eitthvað örlítið væri það blandað sjó, þetta væri annars hreinn spíritus, og væri ekki hæft til meðalanotkunar og innihaldinu skyldi hellt niður. Það liðu nú nokkrir dagar. Meðan þetta var í bígerð hvers skyldu afdrif tunnunnar skeði þetta. Sigurður, sem var vinnumaður hjá Vilmundi þótti ákaflega gott í staupinu. Það voru hans ánægjustundir. Einhvern tíman var það að bóndinn í Móakoti kom heim til Vilmundar og sagði honum að eitthvað þótti skrýtið atferli hans Sigurðar núna í dag, hann hefði séð hann þarna austur í Tóftunum og hann þá verið hvítur eins og enginn og sætglaður raftfullur.

Staður

Staðarhverfi.

Svo það er farið að athuga þetta og mönnum dettur strax tunnan í hug og farið að athuga þetta. Þegar komið var þarna að þá sést að brotið hafði verið gat í milligerðina og skriðið þar inn til tunnunnar og sposnerinn náð úr og síðan hafi verið notað lítið glas bundinn spotti við það og nagli til að sökkva glasinu niður um sponsgatið og náð víninu upp. Þetta hafði Sigurður gert, dundað við þetta. Eitthvað hafi hann orðið valtur og ekki tókst betur til að hann valt ofan í hveititunnu á leiðinni út.
Nú barst út að víninu skyldi hellt niður. Pabbi sá um að allt skyldi fara vel fram.Þegar henni var velt þarna út þá mættu þeir þessir karlar, Siggi á Löndum og Sveinn Hall sem bjó á Vindheimum í Staðarhverfi. Hann var mjög vínhneigður maður. Þeir fylgdu tunnunni til hinstu stundar og vínið var látið leka niður í sandinn. Pabbi gaf hvorum karli sína krús, en þeir tárfellu þegar þeir sáu vínið leka þarna niður.“
Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Einar Einarsson – Gatan mín II, 21. jan. 1973.

Grindavík

Grindavík.

Grindavíkurhöfn

Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3.febrúar 1973.

Grindavík fyrrum.

Grindavík fyrrum.

„Þú hefur rakið fyrir okkur, Einar, helstu stórviðburði hér í byggðalaginu sem þú mannst eftir, þá sem ollu aldarhvörfum, síma, útvarpi, vegakerfinu og öðru. En ef við víkjum nú að daglegri önn fólksins hér. Þar sem við erum staddir horfum við yfir víkina. Þar er heldur tómlegt um að lítast þessa stundina. Örlar varla á steini, eins og þeir segja hérna í Grindavík. Einhvern tímann hefur sjálfsagt verið líflegra um að litast hér ef við horfum aftur í tímann?“
„Já, það er sléttur sær hérna í dag og ef við horfum hérna yfir Víkurnar örlar hvergi við stein og alls staðar hægt að lenda, en því verður ekki neitað að sjórinn hefur gefið mikið, Grindvíkingum og þjóðinni allri, en hann hefur líka heimt sína fórnir, sína tolla. Og hér á þessu svæði hafa örlög ráðist á mjög skammri stundu.

Björgunartæki

Fyrsta fluglínubyssan.

Það breyttust mikið aðstæðurnar eftir að Slysavarnarfélag Íslands kom til sögunnar og með þeim tækjum sem það bjó björgunarsveitunum með því það var oft mjög erfitt að ná sambandi úr landi við strandmenninna. Björgunarsveitin Þorbjörn var stofnuð 29. janúar 1928 og u.þ.b. fjórum mánuðum seinna þá gekk hún undir sína eldvígslu því þá bjargaði hún af frönskum togara sem strandaði hér austur af Hrauni að ég held 38 mönnum. Það gekk ákaflega fljótt og vel og örskömmum tíma eftir að síðasti maðurinn var dreginn í land dróst skipið út af skerinu níður í mikið dýpi og sást varla á það meira.
Nú þegar við lítum hérna niður í víkina fyrir framan okkur og vestur með landinu þá hefur þessi strönd margar sögur að geyma og sumar þungar. Mér dettur t.d. í hug þegar færeyska skútan Anna fra Tofte fórst hér. Það var 4. apríl 1924. Þá voru menn hér á gangi hér við sjóinn og urðu varir við rekald í fjörunni, spýtnabrak, tuskur, flattan fisk og það leyndi sér ekki að skip hafði farist. Og þegar að nánar var að gætt fundust strax hér lík þetta fyrsta kvöld. Og hér nokkru vestar með ströndinni þar var svo úti í brimgarðinu skipsflak sem reyndist vera af færeyskri skútu, sem hét Anna frá Tofte í Færeyjum.

Börgunarsveit

Merki Björgunarsveitar Þorbjarnar.

Þarna fórust allir mennirnir, nóttina áður, án þess að nokkur hefði hugmynd um. Næstu daga var gengið á fjörur og þeir dánu fluttir til byggða eftir því sem þá rak. Það var ákaflega þungt yfir þessa daga. Og svo fór að gefa á sjóinn aftur næstu daga og menn tóku upp sína fyrri hætti og tóku að róa á sjónn. Ég man eftir því einn morgun þá vakti pabbi sálugi mig og sagði mér að ég yrði að fara út með fjörum og leita hvort finndust ekki fleiri lík. Sjálfur þyrfti hann að fara austur í Járngerðarstaðahverfi í síma. Ég færðist undan þessu. Eg var ungur og var ekki í sjálfu sér ekki laus við líkhræðslu, sem margir voru á þeim árum. Hann sagði að þetta yrði að ske áður en færi að falla að. Það þýddi þá ekki annað að hlýða. Þórhallur bróðir minn skyldi fara með mér, hann var yngri en ég. Nú svo fórum við af stað og gengum hér út með kampana og vorum komnir út undir strandið og ég var farinn að hlakka yfir því að líklega skyldum við engan finna í þessari ferð. En þá allt í einu var mér litið neðst niður í fjöruna í stórgrýttum kampi. Þar stóð mannsfótur, nakinn mannsfótur, upp úr klettunum.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Ég sá að ekki var um annað að ræða en að reyna að koma hinum dána upp undan sjó, fórum þarna niður eftir. Þá lá líkið þarna í djúpri holu, fóturinn stóð aðeins upp úr eins og hann væri að veifa okkur að koma og bjarga sér. Eftir töluverða erfiðleika náðum við hinum dauða upp úr gjótunni. Hann var fatalaus, hafði verið stór maður, feitur, var alveg heill, en það var svöðusár á enninu. Nú, við höfðum varla orku til að koma honum undan sjónum. Loksins tókst okkur það þannig að ég stóð klofvega yfir honum og spennti greipar undir bak hans og þannig gat ég dröslað honum áfram, en Þórhallur hélt undir fæturnar. Svo þetta gekk vel og á meðan á þessu stóð fann ég ekki neitt til geigs. Þegar upp á fjöruborðið lögðum við hann til eins og við höfðum vit á og nú var mér horfin öll hræðsla, sneri við honum baki og ætlaði að halda áfram út með fjörunni. En um leið og ég sneri við honum þá greip mig ótti og ég tók strikið upp frá fjörunni, upp í heiði og beint heim. Og fram eftir sumri fór ég ekki meira þarna úteftir á þessar slóðir. Svona var geigur í ungum og þungt yfir öllum þegar svona ömurleg strönd áttu sér stað.

Grindavíkurhöfn

Frá Grindavíkurhöfn.

Nú, hér í nefinu fyrir framan okkur strandaði 1924, það var sama árið, fjórum mánuðum fyrr en Anna fra Tofte strandaði, þýskur togari í þessu nefi. „Sludup“ hét hann. Hann var koma beint frá Þýskalandi og var að fara á fiskimiðin. Þetta var hans fyrsta landkenning að hann sigldi hér á fullri ferð á háflóði upp í malarkambinn þarna. hann var léttur, það voru aðeins kol og salt í honum. Að vísu voru þá flugbjarglínutækin ekki til. En þegar fór bara að bresta út var togarinn á þurru. Og ég man það að skipsmenn renndu út stiga og gengu þurrum fótum í land. Og lá vel á öllum. Þessi togari flutti hins vegar Staðhverfingum og Grindvíkingum mikið af kolum og ýmsu fleiru og þetta strand var í sjálfu sér ekki neitt harmað því að það meiddist enginn, og skipsmennirnir virtust mjög ánægðir þegar þeir komu í land því það var svo farið með þá austur í Járngerðarstaðahverfið…“
„Skipstjórinn líka kannski?“
„Og skipstjórinn, ja, það sá maður ekki annað.

Björgunarsveit

Björgunarskiptið Oddur V. Gíslason.

Skipstjórinn líka, segir þú. Mér er skipstjórinn dálítið minnisstæður. Hann var ákaflega feitur maður, mjög feitur maður. Og vegna þess að kampurinn er nú dálítið ósléttur þá varð að brúa leiðina yfir kampinn með timburbrú til að koma honum upp á græn grös. Og skipstjórinn líka, segir þú. Það var nefnilega haft á orði hér í Grindavík, að þegar hann var að yfirgefa landið og var u.þ.b. kominn um borð í Reykjavík í skip sem átti að flytja hann til Englands þá hafði hann haldið ræðu og rómaði þar með stórkostlegum orðum hve afburðafórnfýsi og kjark Grindvíkingar hefðu sýnt við að bjarga þeim í land við þessar kringumstæður, en Grindvíkingar muna ekki eftir því að auðveldara hefði verið um mannbjörg úr standi en í þessu tilviki því eins og ég sagði áðan, það var rennt út stiga og þeir gengu á ilskóm í land.

Skúli fógeti

Skúli fógeti á strandsstað.

En það voru nú ekki öll ströndin sem voru svona þægileg. 1933 var hér hörmulegt, aðeins hér utan við háan malarkambinn, heitir Alnbogi. Þar standaði Skúli fógeti. Af honum var bjargað 24 mönnum en 13 fórust. Það stóð þannig á að um nóttina var mjög vont veður, kafaldsbylur, það sást ekki út úr augunum og snjóaði mikið og hvassviðri. Það var eftir lágnætti var kallað í Loftskeytastöðina í Reykjavík, frá Skúla fógeta, að hann væri strandaður og hann gaf út staðinn nálægt Grindavík, en ekki nánar. Það urðu einhverjar tafir að ná til Grindavíkur um síma, en þó tókst það von bráðar. Strax lagði þó samt af stað vegnara þessar tafa björgunarsveit frá Reykjavík, en hún komst mjög skammt á leið vegna illvirðist og þess hvað snjórinn var orðinn mikill. Von bráðar náðist svo í björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík og hún var nú fljót að tygja sig, fór af stað hér út með fjörum, en sendi samt til vonar og vara tvo menn hér austur með fjörum ef kynni að vera að skipið hafi strandað austan við þorpið.

Jón Baldvinsson

Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 á strandsstað undir Krossavíkurbergi.

Þeir urðu að sjálfsögðu að bera tækin. Veðrið var mjög slæmt og snjórinn mikill. Það tafðist fyrir þeim nokkuð að finna hið strandaða skip. Þeir voru komnir hér útundan Staðarberg, snéru þar við aftur og komu þá von bráðar á strandstaðinn, en þá var klukkan víst að ganga fimm um morguninn. Aðkoman þarna var ákaflega ömurleg. Það var hátt í sjó og miðjan af skipunu var alveg í kafi og brúin var að mestu leyti í kafi, en hópur manna stóð upp af kvalbaknum og tveir menn höfðu komist í „afturlamtinn“. Björgunarsveitin kom svo fyrir sínum tækjum og ég held að það hafi verið í öðru skoti sem lukkaðist að ná sambandi við þá sem á hvalbaknum voru og á mjög skömmum tíma tókst að bjarga þeim öllum til lands. Þá voru 13 menn dánir. Það er víst staðreynd að það dó enginn eftir að björgunarsveitin kom á vettvang. Og þeir sem komust á hvalbakinn björguðust allir. Hinir fóru á kaf með skipinu. Þeim var minnistætt sem að stóðu að þessari björgun að hvað eftir annað gengu holskeflur yfir hvalbakinn á Skúla fógeta og á eftir sáu þeir stundum mann og mann hanga utan á hvalbaknum en alltaf tókst þeim sjálfum og félögum þeirra að tosa þeim aftur inn yfir grindurnar. Nú, þá voru þeir eftir þessir tveir á „afurvanftinum“, afturmastrinu, þá varð að bíða við eftir að féll meira út og þá tókst þeim tveimur, af miklum dugnaði, að komsat millum stórsjóanna fram á hvalbakinn og þá var þeim bjargað fljótlega er þeir voru komnir þangað.

Garðhús

Garðhús.

Svona gekk það til með Skúla fógeta, en það kom öllum saman um, sem þarna voru á strandstað, að ýmsir af hásetunum á Skúla hafi sýnt alveg afburða þrek og dug að bjarga sér og félögum sínum úr þessum háska – og ég hef heyrt, og það mun vera rétt, að meðan þeir dokuðu við eftir að þeir kæmust þessir tveir úr afturmastrinu, að þá hafi tveir af þeim sem búið var að bjarga í land heimtað að þeir væru dregnir út aftur um borð með heitt kaffi handa þeim og aðstoða ef þá þeir væru orðnir mjög miður sín þegar að því að þeir ættu að fara í björgunarstól. Þetta var Skúli fógeti.
Ef við förum svo hér áfram, nokkuð vestar, vestur fyrir Háleyjar, þá strandaði þar botnvörpungurinn Jón Baldvinsson. Það var 31. mars 1955. Þar var 42 mönnum bjargað. Björgunarsveitin, eins og hún hefur alltaf verið, mjög fljót á vettvang. Og enda þótt bera þurfti tækin alllanga leið þá var þar margt manna sem fylgdi þeim að það gekk greiðlega og aðstaða til að bjarga af Jóni Baldvinssyni var góð því hann hafði farið þarna upp undir berg.

Krossavíkur

Krossavíkur.

Fyrir neðan þetta berg var stórgrýtisurð, hins vegar var veltubrim og stórsjóir lömdu þarna á skipinu og gengu mikið yfir það. En á örskömmum tíma tókst að draga alla þessa 42 menn í land og það var gott, að það gekk greiðlega, því þótt Jón Baldvinsson væri ákaflega traust og gott skip og sjóunum heppnaðist ekki að brjóta það niður á lítilli stundu að þá voru brimskaflarnir búnir að velta togaranum um hvolf örskömmu stundu eftir að mennirnir voru komnir í land og það var áreiðanlegt að flugbjörgunartækin komu þarna að góðu haldi því ekki er að vita hvernig gengi tækist að koma línu fyrir borð m.v. þau tækis sem þá voru fyri hendi.
Nú, við skulum færa okkur aðeins vestar, og þó aðeins vestur fyrir Litlavitan, þar strandaði olíuskip, Clam held að ég hafi heitið, líklega eitthvert stærsta skip sem strandað hefur hér á Íslandi, það var um 10.000 tonn að stærð. Það var nú búið að lenda í einhverjum ævintýrum inn á Reykjavíkurhöfn, hafði slitnað þar upp og rekið að landi. Það voru fengnir dráttarbátar, einn eða fleiri, ég held frá frá Englandi, og það náðist á flot aftur og síðan skyldi draga það frá Reykjavík til Englands.

Clam

Clam á strandsstað.

Það var komið hérna fyrir Reykjanesið í svona suðvestan brælu, ekki slæmu veðri, en svona töluverðri brælu, þá slitnaði dráttartaugin og það rak að landi. Strax var kallað á Slysavarnarfélag Íslands og það tilkynni björgunarsveitinni hvað var um að vera og hún lagði af stað hingað út á Reykjanes, en ilu heilli þá strandaði skipið nokkrum mínútum áður en hana bar að. Það strandaði undan lágu bergi og það voru auðvitað töluverðir sjóir sem skullu þar á því og svo óheppilega tókst til að það þurstu strax menn í tvo björgunarbáta. Okkur var sagt að yfirmenn skipsins hefðu lagt alveg brátt bann við því að þeir færu í björgunarbátana en þeir hefðu ekkert ráðið við það. En þegar bátarnir voru orðnir fullir, þessir tveir, nokkurn veginn samtímis, þá hvoldi þeim þarna í sjónum, en á sjónum var mikil olíubrák (það var búið að dæla olíu sjóinn), og þeir drukknuðu þarna allir sem í bátanna komust nema þrír eða fjórir menn sem sjórinn kastaði upp í bergsillurnar eða urðina þarna fyrir neðan og eftir einum þeirra varð að síga.

Clam

Frá björgun áhfnar Clams.

Nú, í sömu mund bar svo björgunarsveitina þarna að, í sama mund bara hana að, og þá fengust þeir ekki meira, skipsmenn að fara í báta og siðan var þeim bjargað mjög fljótlega. Aðstaðan gat ekki verið betri. Þetta stóra skip, þilfarið á því bar jafnhátt berginu, því bergið þarna var mjög átt, og ekki nema 30-40 metrar á milli. Og svo voru þeir teknir í land. Það voru Englendingar og Kínverjar á þessu skipi og mér var sagt að jafnmargir sem fórust af hvoru þjóðerni. Þarna var 24 mönnum bjargað, ég held af 54. Þetta tókst ákaflega hörmulega til að það skyldi ekki öllum verið bjargað því að svo einkennilega vildi til að þetta skip brotnaði svo seint og bar svo hátt yfir sjó að það hefði verið hægt að lifa góðu lífi þarna um borð í skipinu allt fram vorið og og fram á næsta haust, en nú sést ekkert meira til þessa skips.
Nú, svo man ég eftir, á þessu tímabili, þremur mótorbátum sem strandað hafa á þessu svæði, bara á þessari 10-12 km strandlínu. Ég man eftir mótorbát úr Hafnarfirði, Búðarklettur hét hann. Hann strandaði þarna í vondu veðri. Skipverjarnir björguðust, en það höfðu verið með honum tveir farþegar, veit ekki hvernig á ferðum þeirra stóð – þeir fórust.

Staður

Staður.

Öðlingur, lítil bátur af Stokkseyri. Hann rak þarna upp, en var mannlaus. Hann hafði verið yfirgefinn undan Stokkseyri í vondu veðri. Hann rak svo mannlaus hérna með ströndinni og hann brotnaði undir Hrafnkelstaðabergi. Nú, bátur úr Vestmannaeyjum, hann var að veiðum grunnt undan Háleyjum og það kviknaði í bátnum. Þeir gátu ekki slökkt eldinn og þeir gátu stímað honum upp í land og það björguðust allir á honum.
Síðasta opna skipið sem fórst héðan úr Staðarhverfinu. Það var vetrarvertíðin 1915. Það var tvíróið þennan dag. Vestan bræla, gekk á með éljum. Og þessi bátur fór út með seinni róðum til að leggja þorskanet. Menn sáu til hans þar sem hann var undir seglum. Nokkru seinna gerði hvasst vestan él – og hann sást ekki meira. Það hefur verið víst verið 11 manna áhöfn með þessu bát. Þar fórust þrír bræður, synir Árna Jónssonar sem bjó hér í Staðarhverfinu þá.

Grindavík

Grindavík – bátur í innsiglingunni.

Nú, hér hafa, eins og gefur að skilja, þegar maður horfir út á þessa eyðulegu hafnlausu strönd, að þá hafi oft orðið hrakningar, erfiðleikar, í gamla daga þegar einungis var hægt að treysta á árar og segl, kannski var róðið í góðu veðri. Það gat brimað hér á nokkrum mínútum, þannig að það var algerlega ófært var að komast í gegnum sundin… Það gat orðið erfitt – jafnvel upp á líf og dauða. Þótt landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum gat brimað hér á nokkrum mínútum… Eins og gefur að skilja, þegar maður horfir yfir þessa hafnlausu strönd, þegar treysta þarf á árar og segl, kannski var róið á góðu veðri, að brimað var hér á nokkrum mínútum og ófært þannig að komast í gegnum sundin. Þá gat verið hér erfitt.
Norðanáttir, þótt, landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum, gátu orðið hrakningsveður mikil. „Man eg hrakningsveður mikil 1916. Þá reru hér allir í mjög góðu veðri, rennisléttum sjó og hægur andvara af norðan en þá skall á norðanveður eins og hendi væri veifað. Og ég held að einn bátur úr Grindavík, hverfunum þremur, hafi náð heimahöfn.

Grindavík

Grindavík – innsiglingin í Hópið.

Hinir lentu allir í hrakningum og náðu landi hingað og þangað í þessum víkum, nema fjórir. Þá hrakti vestur fyrir Litlavita og þá tók röstin við þeim og stórviðri af norðan og það er nú ekki efnilegt þegar þannig er komið. Þá vildi þannig til að austan við Reykjanesið var staddur kútter úr Reykjavík. Ester hét þessi skúta. Skipstjóri á henni var Guðbjartur Ólafsson sem síðar var forseti Slysavarnarfélags Íslands í mörg ár. þegar veðrið skall á var hann staddur hér austan við röstuina og þótti ekki árennilegt að leggja í hana því hann var búinn að fiska mikið og dokaði eitthvað við. Hann var var við og sá þá sem hraktir voru og hann bjargaði þeim öllum, fjórum skipshöfnum, yfir 40 manns og ég held að það hafi verið mikið afrek því sjálft skipið var ekki nema 100 tonn. Næstu dagar voru erfiðir hjá Grindvíkingum, en fjórum dögum síðar sigldi skútan Ester inn á víkina og skilaði öllum af sér heilum og frískum. Ég efast um að nokkur maður hafi af Grindvíkingum verið blessaður meira en þessi skipstjóri.“
„Þessi sífellda nálægð við dauðann og baráttan fyrir daglegu brauði hefur sett mark sitt á lífsviðhorf fólksins og hugsunarhátt.“

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Von.

„Það er ekki ólíklegt. Sérstaklega held ég að þetta hafi verið erfit fyrir kvenfólkið, fyrir mæðurnar. Ég held að þetta hafi horft öðruvísi við frá bæjardyrum sjómannsins, sem sótti sjóinn. Hafið laðar, hafið heillar og hraustir menn hafa geð til þess að stýra í stóru, en ég held að þetta hafi oft verið erfitt fyrir mæðurnar sérstaklega sem horfðu á eftir sonum sínum út á sjóinn við þessar aðstæður sem hér voru. Það er ekki hægt að neita því að það var mikið umkomuleysi í skammdeginu að róa á árabáti úr vör út á hafið og hlýtur að hafa valdið þeim áhyggjum sem gerðu sér grein fyrir hvað öll sund gátu lokast fljótlega. Þegar útlitið var sem erfiðast þá héldu þessar konur sig ekki innan um aðra, fóru einförum, en háðu sína baráttu við sinn drottinn. Nú hafa aðstæður breyst til hins betra,  stórkostlega. Bátarnir eru orðnir stórir, þetta eru sjóborgir, og ef farið er með gát þá sýnist manni mikið öryggi vera á ferðinni. Þeir stærstu eru vel út búnir og geta tekið land hvar sem er, þetta eru orðin hafskip og aðbúnaður um borð er allt annar, menn hafa heitan mat, eldhús, sjónvarp og heitt bað svo mikil breyting er orðin á.
Héðan eru nú allir lifandi menn horfnir. Síðasti ábúandinn hér var Gamalíal Jónsson. Hann dó 1964. 


Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3. febrúar 1973.

Grindavík

Grindavík 1963.

 

Riftún

Á Riftún í Ölfusi er kaþólsk kapella. Þar er einnig safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar á Suðurlandi.
Riftun-1Kapellan ber heitið „Kapella hins helga kross“ og vísar heitið til fornrar sögu krossins sem var í Kaldaðarnesi í Flóa sem er handan Ölfusár. Árið 1985 var reistur kross á hamrinum fyrir ofan bæinn og stendur hann enn. Nær krossmessu á hausti eru farnar krossgöngur að krossinum.
Forsaga þess að kaþólska kirkjan eignaðist Riftún var sú að íslenska Jósefssystirin systir Clementía „yngri“ (Svanlaug Guðmundsdóttir), ein fjögurra íslenskra kvenna sem gekk í Jósefsregluna hafði forgöngu um það ásamt séra George þáverandi skólastjóra Landakotsskóla. Systir Clementía ráðstafaði hluta af arfi sínum til kaupanna. Kirkjan keypti svo jörðina árið 1963 til að reka þar sumarbúðir fyrir nemendur Landakotsskóla. Riftún var rekið sem sumardvalarheimili en nemendur Landakotsskóla nutu líka aðstöðunnar á öðrum árstímum.
Síðustu árin hefur sóknarprestur Maríukirkjusóknar haft umsjón með staðnum. Hann messar þar á sunnudögum kl. 16 og á miðvikudagskvöldum kl. 20. Reglulegar pílagrímsferðir eru farnar að krossinum í september ár hvert.  Kapellan dregur nafn sitt af krossinum.
Skammt frá eru kirkjuleifar og grafreitur frá árinu 1000, án þess þó að nokkur hafi veitt því athygli.

RGB/Heimild: „St. Jósefssystur á Íslandi 1896-1996“. Ólafur H. Torfason. Útg. St. Jósefsreglan af Chambéry, 1997. Bls. 434.

Ölfus

Riftún.

Gálgahraun

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði um „Gálgahraun“ í Morgunblaðið árið 1988:
„Einhver aðgengilegasti staður til útiveru og gönguferða hér í nágrenni Reykjavíkur er Gálgahraun, en það er sunnan við Arnarnesvog og er raunar nyrsti hluti Garðahrauns, en sker sig að nokkru úr vegna þess hvað það er úfið og sundur skorið af sprungum. Þessi hraun eiga upptök sín í Búrfellsgíg suðaustan Hafnarfjarðar og munu vera um 7200 ára gömul.
galgahraun-299Hér við hraunjaðarinn er skjólgott og mikill gróður, en utar þar sem ekki nýtur skjóls er gróður allur minni og er þar kríuvarp, sem varið er af mikilli atorku og er því betra að halda sig við hraunjaðarinn á varptíma. Þegar stutt er að Lambhúsatjörn verða á vegi okkar tvær litlar vörður í hraunjaðrinum, en þær vísa á gömlu þjóðleiðina sem liggur hér yfir hraunið. Þetta er rudd gata og hefur sýnilega verið mjög fjölfarin á öldum áður, enda er gatan merkt á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar. Við skulum fylgja þessari götu yfír hraunið, en hún er furðu glögg þótt nú sé hún algróin. Þegar inn í hraunið er komið verður það allúfíð og sprungið og eru þar margar skjólgóðar lautir og bollar. Hér er gott að setjast niður og njóta útiverunnar. Sé sólskin má jafnvel fara í sólbað. Síðan höldum við göngunni áfram og þegar við erum komin í gegnum hraunið erum við stödd syðst við Arnarnesvoginn og höldum með sjónum til baka og komum við þá brátt að nesi sem heitir Eskines og skilur að Arnarnesvog og Lambhúsatjörn. Á fjöru er auðvelt að ganga út á nesið, en á flóði verður nesið að eyju og er landsig mjög áberandi hér, svo sem nafnið Lambhúsatjörn gefur til kynna, en Lambhúsatjörn er nú sjávarvogur.
eskines-221Kofatótt er við hraunjaðarinn upp af Eskinesi og á hún þá sögu að um 1870 hugðist Þórarinn Böðvarsson, prestur í Görðum, koma upp æðarvarpi á Eskineseyrum. Lét hann byggja kofann og setti þar niður karl og kerlingu og skyldu þau búa í haginn fyrir æðarvarpið með því meðal annars að halda hænsni, þar sem menn töldu að hænsn lokkuðu fulginn að með vappi sínu ásamt gali hanans. Þessi tilraun mistókst.
Hér í fjörunni er rekaþang víða í hrúgum, en það var áður notað til eldsneytis af Garðhverfingum og Hafnfirðingum, sem þurrkuðu það og báru síðan á sjálfum sér heim í kotin og tómthúsin, því erfitt var um eldivið á þessum slóðum.
Við höldum nú ferðinni áfram vestur með Lambhúsatjörn en förum varlega, því hér er hraunið mjög úfið og sprungið, en þegar við erum komin beint á móti Bessastöðum verða Gálgaklettar á vegi okkar. Gálgaklettar eru auðþekktir þar sem þeir rísa hærra en klettarnir í kring og eru brattir og sundur sprungnir svo auðvelt hefur verið að koma þar fyrir gálgatré. Það voru aðallega þjófar og umrenningar sem voru hengdir, og voru þeir yfirleitt dysjaðir nálægt aftökustað og munu mannabein hafa fundist í hraungjótum í grennd við klettana.“

Heimild:
-Morgunblaðið 25. júní 1988, bls. 12-13.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Grafarkot

Í Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967, er getið um sel frá Árbæ á Nónhæð, „austanverðum ásnum“ ofan Grafar, suðaustan Grafarvogs. Í þá daga hafði jörðin Gröf ekki verið byggð eftir að hafa verið í eyði um tíma. Sömu sögu var að segja um Grafarholt og Grafarkot (Holtastaði).

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt og Gröf – kort 1908.

„Um Grafarkot segir í A.M. 1703; „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Á sauðaútflutningsárunum vóru hér geymdir 2200 sauðir um tíma, gerði næturbyrgingar búið til á þann hátt, að í túninu var rist ofan af löngum flögum og þökunum hlaðið í garða á ytri brúninni.
Sel hefur verið suðaustan undir ásnum [Nónhæð]. Það er í Árbæjarlandi.“

Gröf var við Grafará. Ofar var Grafarholt, eða Suður-Gröf. Enn ofar í hallanum var Grafarkot. Tóftir þeirra fyrstnefndu og síðastnefndu sjást að hluta til enn.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í Nónhæð.

Í annars óaðgengilegri fornleifaskráningu Bjarna Einarssonar fyrir Reykjavík 1995 segir m.a. um fornleif í Nónæð, skammt vestan mýrarlækjar, sem rennur í Grafarlæk:

„Sel; 7x5m (A-V). Veggir úr torfi og grjóti, br. 0,6-1,3m og h. 0,2-0,5m. Fornleifarnar samanstanda af 2 hólfum (A og B). Dyr á báðum hólfum í N. Við NA- horn, er rúst 4x 3m (N – S).
Veggir úr torfi, dyr trúlega í N. Í A-vegg er stór steinn, 0,3×0,8 m. Nýlegur troðningur liggur yfir NA-horn hólfsins. 5m S af selinu er vegur (A-V), br. 2,5 m (gróinn) og l. 4 m.“

Árbæjarsel

Árbæjarsel – stekkur í Nónhæð.

Hér þrennu við að bæta; í fyrsta lagi er þriðja tóftin ekki við NA-horn selsins. Hún er við SV-horn þess. Í öðu lagi vantar í skráninguna forna fjárborg eða aðhald SV við selið. Og í þriðja lagi vantar stekkinn, sem tillheyra öllum öðrum selstöðum á Reykjanesskaganum. Hann er að finna á grónu svæði skammt vestan við selið.

Grafarsel

Grafarsel.

Í Örnefnalýsingunni segir auk þess: „Gröf/Grafarholt er býli sunnanvert við botn Grafarvogs. Það hét áður Gröf en þegar bæjarstæðið var flutt á núverandi stað árið 1907 var nafninu breytt. Gröf er eign Viðeyjarklausturs árið 1395 og varð konungseign við siðaskipti. Um 1840 var jörðin sel en árið 1943 var hún lögð undir Reykjavík og meginhluti hennar tekinn eignarnámi 1944. Í landi Grafar voru meðal annars Baldurshagi, Engi, Rauðavatn, Selás og Smálönd.144 Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“ Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni.“

Árbæjar er ekki getið í Jarðabókinni 1703.

Árbær

Árbær – fornleifauppgröftur.

Í „Byggðakönnun – Árbær – 2017“ segir: „Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.“

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. III: 296
-Bjarni F. Einarsson 1995, Fornleifaskrá Reykjavíkur.
– Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Byggðakönnun – Árbær – 2017.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Eftirfarandi grein Sæmundar Tómassonar, Æskuminningar [frá Grindavík], birtist í Lesbók Mbl 26.  mars 1961:
“Þegar ellin sækir að, mun flestum svo fara, að minningar fá æskuárum og æskustöðvum verða áleitnar. Og þá gera menn ósjálfrátt samanburð á því sem var og er, daglegum störfum og lífsvenjum, og undrast þær Norðurvörinbreytingar, sem orðið hafa á öllum sviðum.
Mér hefir þá stundum komið til hugar, að gaman hefði verið að eiga kvikmyndir af þjóðháttum og vinnubrögðum, eins og þetta var um aldamót. Og vegna þess að ég  var alinn upp í verstöð og brimlendingastað, verður mér frekast hugsað til þess hve mikilsvert hefði verið að eiga góðar kvikmyndir af sjóferðum á þeim árum, ýtingum og lendingum þegar illt var í sjó. Á ég bágt með að trúa öðru en að æskunni nú á dögum hefði þótt spennandi að horfa á slíkar myndir á tjaldi. En þó var enn stórkostlegr að horfa á raunveruleikann sjálfan, eins og við strákarnir fengum að gera. Þá voru leikslokin oft tvísýn og skammt á milli lífs og dauða, og þetta nam huga okkar enn fastar vegna þess að þarna áttu í hlut nánustu ættingjar okkar og  vinir.
Ég var alinn upp á Járngerðarstöðum (eystri bænum) í Grindavík og æskuminningar mínar eru aðallega bundnar við fiskveiðar og róðra í misjöfnum veðrum á vetrarvertíð. Þarna var sjór sóttur á opnum skipum og oft teflt djarft. En náttúruöflin voru líka oft víðsjál og á skammri stund gat skipast veður í lofti. Bar það stundum við þegar skip voru á sjó í logni, að sjór breyttist skyndilega, öldurnar stækkuðu mjög ört, og þá gat farið svo er skipin komu undir land, að þá braut á öllum grynningum. Var þá kallað að allir boðar voru uppi. En albrima var kallað þegar brotin lokuðu öllum leiðum.
Grindvískur sjómaðurÞá var oft alvara á ferðum, er mörg skip voru á sjó. Þyrptust þá flestir ungir og gamlir niður að lendingunni og horfðu með kvíða og eftirvæntingu á skipin, sem nálguðust sundið. Þau urðu að bíða eftir lagi nokkuð langt frá landi. Talið var að lag kæmi helzt eftir stærstu brotin, og þá var lagt á sundið, ef það þótti fært. Stundum var þá helt lýsi í sjóinn til að kyrra hann, og þótti það oft gott bjargráð. Þegar lagt var á sundið urðu menn að leggjast á árar af allri orku og þá var um að gera að allir væru samtaka og engin mistök ætti sér stað, því að hér var um líf og dauða að kefla. Var þessi róður því oft kallaður lífróður, en stundum líka brimróður.
Þegar komið var inn úr sundinu á svokallað lón eða legu, gátu menn kastað mestu mæðinni. Stundum urðu þeir þó að bíða lengi lags inn í sjálfa vörina, eða lendinguna. Þegar hátt var í sjó og mikið brim, var þarna oft mikil hætta á ferðum og mátti engu skeika. Vörin var ekki annað en klettakvos, klappir og grjót á báðar hendur.
Ef eitthvert skip hafði ekki róið um daginn, komu skipverjar af því, skinnklæddir niður í vör til að taka á móti fyrsta bátnum. Stóðu þeir þar í sjónum í tveimur fylkingum, og renndi síðan skipið inn á milli þeirra. Árar voru lagðar inn í skipið, formaður beitti stjakanum til þess að skipið snerist ekki flatt við sjónum. Og svo gripu sterkar hendur um bæði borð og drógu skipið upp í fjöru þar til það var úr allri hættu. Mátti þá sjá mörg traust og örugg handtök, enda voru þessir menn volkinu vanir og vissu hvað í húfi var. Þarna háði maðurinn nokkurs konar kappleik við hin villtu náttúruöfl, og fyrir unga drengi var þetta áhrifamikil sjón, því að þeir vissu hvað í veði var. En ótrúlega sjaldan urðu slys í þessari miklu brimstöð.
Mér finnst rétt að skjóta hér inn fáorðri lýsingu á húsakynnum heima. Fyrst var á baðstofan, þar sem heimafólk svaf. Þar voru 10 rúm, sex í suðurenda og fjögur í norðurenda. Milli skilrúmanna þar var eitt stafgólf og þar var uppgangurinn. Beint á móti dyrum var stórt borð, kallað kaffiborð. Þar var drukkið morgunkaffi á vertiðum. Svo voru tvö hús úr timbri, annað allstórt á þeirra tíma mælikvarða, og í því allstór stofa og gestaherbergi. Svo var sjóbúð, alltaf kölluð “Búðin”. Veggir hennar voru hlaðnir úr grjóti og reft á þá, en á áreftinu var tvöfallt þak. Með báðum veggjum voru grjótbálkar. Það voru rúm sjómannanna og ekkert timbur í þeim nema rúmstokkar og milligerðir. Hvert rúm var ætlað tveimur Stígurmönnum og voru þeir kallaðirlagsmenn. Enn voru þarna útihús, svo sem smiðja, og nokkrir torfkofar.
Þegar ég var að alast upp voru gerðar út frá okkur tvær fleytur og stundum þrjár; voru það þá tveir áttæringar og eitt sexmannafar. Á þessi skip þurfti 30 menn, og voru því margir aðkomumenn á vetrum, líklega um tuttugu. Voru þeir úr ýmsum áttu, en flestir úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Í “Búðinni” voru sex rúm og þar voru alltaf 12 menn. Handa hinum voru gerð bráðabirgðarúm í hinum húsunum.
Oftast höfðu sjómenn sjóklæði sín heima og voru þau geymd í sérstökum torfkofa, þar sem þau gátu ekki frosið á nóttum, því oft voru mikil frost framan af vertíð. Þessi sjóklæði voru saumuð úr skinnum, ýmist úr sauðskinnum, kálfskinnum eða há, og voru því kölluð skinnkæði. Þau voru sjóhattur, stakkur og brók, og svo voru skór úr sútuðu leðri, sem mest líktist sólarleðri. Skinnklæðin voru smurð með þorskalýsi, eða lifur núið í þau, svo að þau þyldu betur bleytu. Þetta gátu verið beztu flíkur, og þeir sem kunnu að klæðast þeim rétt, þoldu vel bæði sjólvolk og kulda. Í þessi sjóklæði fóru menn oft á morgnana heima og gengu í þeim til skips, en sjávargatan hjá okkur var um hálfur kílómetri.
Við skulum hugsa okkur að við séum komin til Grindavíkur á vertíðinni 1898, eða fyrir 63 árum. Og svo skal ég reyna að lýsa fyrir ykkur einum degi þar. Það er ekki neinn ákveðinn dagur, heldur einn af mörgum, því að hið sama gerðist þar dag eftir dag og ár eftir ár á sama tíma. En ég tek dæmið frá vetrarvertíð, því að hún var aðalbjargræðistíminn og þá var mest um að vera. Þá var þar og fjölmennast, vegna þess hve margir vour vertíðarmenn; þeir voru ýmist kallaðir Norðanmenn eða Austanmenn, eftir því hvaðan þeir voru, eða aðeins sjómenn.
Vertíðin er nýlega byrjuð. Þá var allatf notuð ýsulóð (sem nú er kölluð lína). Var hún beitt að kvöldi, en róið þegar með birtu á morgnana. Þá voru ekki til nein ljósatæki, er bátar gátu notað, svo að þeir urðu að haga sér eftir dagskímunni, en alltaf var lagt á sjóinn áður en fullljóst var.
Það var oft þessa morgna, að við krakkar vöknuðum við mikinn umgang, því að allt var á ferð og flugi í baðstofunni er heimamenn voru að búast á sjóinn. Svo Frá Grindavíkbættist það við, að flestir aðkomusjómenn komu úr útihúsum til baðstofu, stundum skinnklæddir, til þess að fá sér kaffi eða mjólkurbland. Það hafði einhver vinnukonan hitað. Ekki var neitt með þessari hressingu annað en kandísmoli. Aldrei man ég eftir því að sjómennirnir fengi matarbita á morgnana, enda munu þeir ekki hafa verið matlystugir svo snemma dags.
Þessi hamagangur stóð þó ekki lengi. Allir flýttu sér sem mest þeir máttu. Það þótti mannsbragur að því að vera fljótur til skips, og seinlátir menn voru all staðar illa liðnir. Við vorum þá heima þrír strákar 10-12 ára að aldri. Langaði okkur jafnan til þess að fara með piltunum austur að sjó, sem svo var kallað, einkum ef við höfðum heyrt þá minnast á við kaffiborðið, að nú mundi verða “lá”. Þá héldu okkur engin bönd, og upp úr rúmunum rukum við og eltum þá, til þess að horfa á þegar ýtt var á flot í “lá”. Þegar flóð var að morgni og alda í sjónum, brotnaði hún við landið og gengu þá tíðum ólög inn í vörina. Það var kallað “lá”.
Í vörinniÞegar skipi hjá okkur var hrundið til sjávar, var skuturinn jafnan látinn ganga á undan. Þegar “lá” var, þá var skipið sett fram á fremsta hlunn, algveg við sjó, og þurfti þá stundum að bíða eftir lagi. Formaðurinn fór þá upp í skipið aftast og stóð þar með 12-14 feta langa stöng, sem kölluð var stjaki. Var broddur í einda stjakans og notaði formaður stjakann ef rétta þurfti skipið þegar ýtt var. Öllum árum var stungið niður í “sog”, það er við kjöl, og risu þær svo frá borði. Hver maður stóð við sinn keip, og árin í keipnum.
Nú var beðið með eftirvæntingu þangað til hið stóra augnablik kom, að formaður “kallaði lagið”. Sagði hann þá oft: “Áfram nú, blessaðir”, eða einhverja aðra hvatningu til hásetanna. Þá máttu engin mistök verða, ef vel átti að takast ýtingin, halda skipinu á réttum kili og fylgja því, en komast þó upp í það sem fysrt, maður á móti manni og allar árar í sjó á svipstundu. Seinastir fóru fremstu mennirnir upp í, þeir voru kallaðir framámenn. Svo varð að róa lífróður til þess að vera ekki fyrir næsta ólagi.
Það kom fyrir, þegar ýtt var í “lá”, að ýmis smámistök áttu sér stað, einkum í vertíðarbyrjun, meðan menn voru óvanir og ekki samæfðir. Þar var alltaf brýnt fyrir óvönum mönnum, að þeir mætti alls ekki sleppa hönd af skipinu, og kæmist þeir ekki upp í það, þá að halda sér sem fastast í það og dragast út með því þangað til það væri úr hættu. Þetta vildi koma fyrir, að menn kæmist ekki upp í skipið, stundum tveir eða þrír. Og svo drógust þeir með skipinu út á legu, og þar voru þeir innbyrtir. Það þótti alltaf leiðinlegt til afspurnar að láta innbryða sig. En við strákaranir skemmtum okkur kostulega Frá Grindavíkvið að horfa á mennina dragast með bátnum og síðan innbyrta. Þetta skeði ekki eftir að sjómennirnir fóru að æfast, en þeim var hættast við þessu, sem ekki höfðu róið í Grindavík áður, eða voru óvanir brimlendingum.
Þótt okkur strákunum þætti þetta kátleg sjón, sem við vildum sízt af missa, máttum við þó ekki eyða alltof löngum tíma niðri hjá vörinni, því að við höfðum líka skyldustörfum að gegna, þótt ungir værum. Við áttum að annast skepnurnar, hross og lömb, sem voru í húsi. Fyrst urðum við að gefa lömbunum og því næst láta hrossin út og reka þau niður í fjöru. Þar var oftast þari og hann rifu þau i sig. Við urðum að tína saman þara þarna í fjörunni og bera hann heim í hesthúsin og láta hann í stallana. Stundum var hann svo grófgerður að við urðum að brytja hann með hníf. Þar næst urðum við að sækja niður í fjöru gödduð bein, dálka og litla þorskhausa, berja  vel og láta í stallana með þaranum, og dreifa svo örlitlu af heyi ofan á. Þetta átu hrossin á nóttunni.
Þegar við höfðum lokið þessum störfum var oft liðið svo á daginn að skipin voru að koma að. Þá varð nú að hlaupa niður í fjöru til þess að vita hvort okkart menn væru komnir. Fórum við þá með skóna þeirra handa þeim, því að þegar þeir skinnklæddust heima, skildu þeir skóna sína alltaf eftir. Oft fórum við með drukk handa þeim í fötu, það var sýrublanda, einkum ef norðanátt var og sýnt að þeir hefði fengið barning, því að þá komu þeir móðir og sveittir að landi og þótti hressandi að fá sýrublöndu að drekka.
Stundum urðum við að bíða eftir okkar mönnum, en þegar þeir voru lentir og við höfðum haft tal af einhverjum þeirra, helzt formanninum, og spurt um það sem við þurftum að vita, þá urðum við að taka sprettinn heim og láta vita að þeir væru komnir að. Og spurningarnar sem við vissum að við þurftum þá að svara, voru alltaf þessar: Hvað fiskuðu þeir mikið? Hvað seiluðu margir? Þarf að senda þeim kaffi og bita? Kom þeir heim að borða? Um allt þetta höfðum við orðið að þýfga formanninn áður til þess að geta gefið fullnægjandi skýrslu heima.
Spruningin um hve margir seiðluðu var algeng vegna þess að menn vissu að af hverri seil komu 4-5 í hlut. Það minnsta var að einn seilaði, en stundum átta, ef skipið var fullt af fiski. Og þegar það heyrðist að 8 hefðu seilað, þá komust allir á loft, bæði ungir og gamlir.
Frá GrindavíkÞað kom varla fyrir snemma á vertíð, að tvíróið var, en eftir að sílfiskur var kominn, var oft tvíróið og stundum þríróið. Þá notuðu menn eingöngu handfæri, því að net voru þá ekki notuð sunnan við Reykjanes. Það gerðist ekki fyr en upp úr aldramótum, og í mjög smáum stíl í fyrstu.
Að þessu sinni átti ekki að tvíróa, og piltarnir ætluðu allir að koma heim til matar þegar þeir höfðu komið skipinu í naust, borið upp fiskinn og skift honum. Að máltíð lokinni fóru þeir svo allir niður að sjó aftur til þess að gera að fiskinum og beita lóðina fyrir næsta dag. Þessu var venjulega lokið áður en myrkið datt á. Eftir það áttu sjómennirnir frí og máttu hvíla sig og spjalla saman.
Um líkt leyti höfðum við strákarnir lokið skyldustörfum okkar, gefið lömbunum seinni gjöf og komið hestunum í hús, ásamt ýmsum fleiri snúningum. Eftir það máttum við leika okkur.
Á föstunni voru Passíusálmarnir sungnir á hverju kvöldi og lesin hugvekja. Voru sjómennirnri þá oft við í baðstofunni. Þó var það stundum, ef þeir komu seint af sjónum, að þeir fóru beina leið inn í “Búð”. Þá fengu þeir léðar bækur heima, og svo las einhver upphátt Passíusálm og hugvekju, áður en gengið væri til náða eftir langan og oft heillaríkan vinnudag.
Nú er öldin önnur. Nú ganga sjómennirnir í Grindavík á báta sínu við bryggju, og þegar þeir koma að, leggjast þeir við bryggju og ganga þurrum fótum af skip á land. Nú er, sem betur fer, ekki um að ræða hættulegar ýtingar og lendingar, og á öllum vinnubrögðum er reginmunur frá því sem áður var.
Hvern skyldi hafa órað fyrir því í Grindavík um aldarmótin, að slík gjörbylting mundi verða á næsta mannsaldri?“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, sunnudagur 26. mars 1961 – Sæmundur Tómasson – Æskuminningar.Flagghúsið-21Grindavik

Nykur

Fyrirbærið „nykur“ kemur fyrir í ýmsum þjóðsögum, án þess að vitað sé til tilvist þess hafi nokkru sinni verið staðfest með óyggjandi hætti; ljósmynd, rissi eða nákvæmri lýsingu fleiri vitna á tilteknum stað á skráðri stundu.

Nykur

Nykur.

Nykur er því þjóðsagnaskepna. Hann á að líkjast gráum hesti, en þekkist á því að hófar hennar snúa aftur. Samkvæmt norrænni þjóðtrú lifur nykurinn í vötnum. Hann gengur á land og reynir að tæla fólk á bak sér og hleypur þá með knapann út í vötn.
Orðið nykrað er notað í bragfræði og vísar til ósamstæðra líkinga líkt og orðið finngálknaður var í fornu máli haft um ósamrýmanlegar eða afskræmdar líkingar í skáldskap. Finngálknaður er eins og nykrað dregið af heiti furðuskepnu, en finngálkn var maður ofan en dýr að neðan. Aðrir segja það afkvæmi makalausra skepna.
Til þess að hrekja nykur á flótta átti að vera nóg að nefna nafn hans.

Heimild:
-visindavefur.hi.is

Bjarnarvatn

Bjarnarvatn. Menn töldu sig hafa séð nykur í og við vatnið.

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi „Tilkynning frá ríkisstjórninni“ birtist í Morgunblaðinu árið 1942:

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur, vígsla.

„Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.

BANNSVÆÐI
Bannsvaedi-221Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.“

Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.