Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1950 eru minningarorð Ólafs Þorvaldssonar um Magnús Ólafsson, síðasta ábúandans í Krýsuvík er lést 10. okt. sama ár:

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson (1872-1950).

„Í dag verður jarðsunginn frá þjóðkirkju Hafnarfjarðar, Magnús Ólafsson í Krýsuvík, en svo var hann oftast nefndur.
Fæddur var Magnús 9. sept. 1872, að Óttarsstöðum í Garðahreppi. Foreldrar hans voru Guðný Jónsdóttir frá Lambhaga í Mosfellssveit og Ólafur Magnússon frá Eyðikoti í Garðahreppi.
Þegar Magnús var 3 ára, varð faðir hans fyrir slysaskoti úr byssu og dró það skot hann til dauða eftir tæp tvö ár. Var Ólafur þá farinn að búa að Lónakoti. Þegar hann dó eftir 20 mánaða veikindi, voru efnin gengin til þurrðar, en fjögur börn í ómegð.
Á þeim tímum lá ekki nema eitt fyrir heimilum, sem svona var ástatt um, þau voru „tekin upp“, börnunum tvístrað til vandalausra — og þegar best ljet, væri móðirin hraust, gat hún máski einhvers staðar komið sjer niður með eitt barn. Þannig varð saga Lónakotsheimilisins, við fráfall Ólafs.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Magnúsi, sem þá var fimm ára, var komið fyrir í Hafnarfirði, hjá hjónunum Kolfinnu og Sigurði Halldórssyni í Kolfinnubæ, og mátti Magnús víst teljast heppinn með fósturforeldrana, þrátt fyrir fátækt þeirra. Með þessum hjónum ólst Magnús upp til 15 ára aldurs. Þá fór hann til Krýsuvíkur, og var þar í vinnu mennsku í 26 ár, nokkur ár í Stóra-Nýjabæ, en flest árin á heimajörðinni, þ.á.m. hjá Árna sýslumanni Gíslasyni.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði þar sem Magnús dvaldist við fjárgæslu.

Öll þessi ár hafði Magnús fjárgæslu á hendi, og varð brátt orðlagður fjármaður. Á sumrin, meðan fje gekk frjálst, stundaði hann venjuleg heimilisstörf, og var heyskapurinn þar fyriferðarmestur, enda var hann heyskaparmaður í besta lagi, svo og húsagerð og smíðar, því að hagur var hann vel.
Magnús giftist 1917, eftirlifandi konu sinni, Þóru Þorvarðardóttur, bónda að Jófríðarstöðum, hinni ágætustu konu. Þeim varð 5 barna auðið, og eru 4 þeirra á lífi, öll hin mannvænlegustu, eitt barn þeirra dó í æsku. Eitt barn átti Magnús áður en hann giftist, og er það nú gift kona í Hafnarfirði.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir ( 1884-1957).

Eftir giftinguna hóf Magnús búskap að Suðurkoti í Krýsuvík, þótt til húsa væri á heimajörðinni, þar eð Suðurkotið var þá húsalaust. Þannig bjó Magnús í 28 ár, eða þar til að hann var fluttur veikur frá Krýsuvík í nóv. 1945. Tíu síðustu árin var hann aleinn í Krýsuvíkurhverfinu, utan þann tíma, sem kona hans og börn voru tíma og tíma hjá honum á sumrin, og svo það, sem synir hans, einkum sá elsti, Ólafur, fór til hans við og við á veturna. Þótt atvikin höguðu því svo, að ekki gætu þau hjónin ávallt notið samvistar, var hjónaband þeirra hið ástúðlegasta.
Eftir að börnin komust á skólaaldur, var ekki um annað að gera en að konan færi með þau þangað, sem skólavist var að fá, og lá því leið móðurinnar með börnin til Hafnarfjarðar. Annað var það og, sem gerði veru þar upp frá, fyrir konu með ungbörn, óbærilega, en það voru hin ljelegu og síhrörnandi húsakynni, sem enginn fjekkst til að bæta úr, þar eð jörðin var þá í höndum manna ýmist innlendra eða erlendra, sem ekkert vildu fyrir hana nje ábúendurna gera. Mjer er það kunnugt, að sársaukalaus var ekki þessi flutningur Þóru og barnanna, frá ástríkum föður og maka. Einkum var þeim vera Magnúsar þar upp frá mikið áhyggjuefni, eftir að þau voru flutt þaðan og hann orðinn einn eftir.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Jeg hygg að Magnús hafi oft hugsað eins og segir í þjóðsögunni: ,Mjer er um og ó‘. Hann átti konu og börn við sjó, sem hann hefði helst kosið að vera „.
Já, — en hann átti líka börn á landi, það voru skepnur hans, einkum þó kindurnar. Þetta voru líka börn hans, því að dýravinur var hann mikill. Svo er annað, sem vert er að minnast, það var hin órofa tryggð, sem hann var fyrir löngu búinn að taka við Krýsuvíkina, svo að honum fannst hann ekki geta, meðan kraftar entust, lifað annars staðar, nema verða sjer og sinum til angurs og byrði, og til þess gat hann ekki hugsað.
Hjer var það vandamál, sem fjöldinn ekki skildi, hann varð því einn að ráða fram úr því. Í Krýsuvík gat hann lifað og starfað fyrir konu og börn, betur en á nokkrum öðrum stað. Um líðan sjálfs sín hugsaði hann minna.
Líf hans var helgað konu og börnum þótt í fjarlægð væru. — Tvo síðustu áratugina hefur atvinna við sjó og búnaðarhættir til sveita breyst svo, að segja má, að sá umbreytingatími gangi Krýsuvíkina af sjer á fáum árum. Þar þótti ekki lengur lífvænlegt, og allir flúðu þaðan, nema Magnús, hann sat á meðan sætt var — og næstum því lengur.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson (1884-1972).

Allir, sem þekktu Magnús, vissu að hann var góður fjármaður, og mikill vinnumaður, — en hann var meira. Hann var greindur í besta lagi, lesinn og fróður, meira en margan grunaði, enda átti hann nokkuð góðra bóka, þótt ekki lægju þær á glámbekk daglega. Hann gat verið skemmtinn og gamansamur í hæfilegum fjelagsskap, einkum þó við börn og unglinga. Svo prúður var hann í orðum, að ekki minnist jeg þess að hafa heyrt blótsyrði hrjóta honum af vörum. —
Þannig var hann í allri umgengni alltaf sami rólegi og æðrulausi maðurinn, afskiftalaus um annarra hagi, og talaði ógjarnam um sína. Slíkum mönnum er gott að kynnast.
Magnús dó á Hafnarfjarðarspítala 10. okt. síðastliðinn, eftir tveggja mánaða dvöl þar, en hafði hinn tímann (frá því í nóv. 1945) legið heima.
Um ævi Magnúsar, þótt fábreytt virtist fljótt á litið, mætti margt segja. Saga hans verður ekki sögð hjer í þessari stuttu kveðju.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árni Óla rithöfundur segir frá Magnúsi í bók sinni, „Landið er fagurt og frítt“, í kafla, sem hann nefnir: „Einbúi í Krýsuvík“. Segir þar meðal annars orðrjett: „Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt urn 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.“ Þannig skrifar Árni Óla 1941. Karlinn „Einbúi í Krýsuvík“ sýnir, að Árni hefur skilið Magnús betur en margur annar, og er þetta betur skrifað en óskrifað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Ekki er ólíklegt að mikil einurð um áratugi, t.d. við fjárgæslu og yfirstöðu, um eða yfir 50 vetur, svo og margra ára einlífi mestan hluta ársins mörg hin síðustu ár hans í Krýsuvík, hafi orðið til þess, að nokkur skel hafi myndast um lund hans og líf, sem að fjöldanum sneri, — en undir sló glatt og trútt hjarta, stór og viðkvæm lund, en drengileg. — Tilfinningum hans, ást og umhyggju fyrir elskaðri konu hans og börnum reyni jeg ekki að lýsa hjer. Það er öllum kunnugt, sem þar til þekktu nokkuð.
Fleiri voru það en hans nánustu, sem vissu um hans höfðings lund og heiðarleik. Jeg, sem þessar línur skrifa, var lengi búinn að þekkja Magnús, og vissi fyrir löngu hver maður hann vár, en best fann jeg það í handtaki hans jegar jeg kvaddi hann síðasta sinn heilbrigðan á Krýsuvíkurhlaði, sá það í augum hans og heyrði á rödd hans.
Við hjónin vorum þá að leggja heim úr sumarfríi, því þriðja, sem við höfðum eytt undir þaki Magnúsar í Krýsuvík, sem við ávallt minnumst með hlýju og þökk.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1953.

Magnús gerði sjer aldrei far um að sýnast, hvorki fyrir mjer nje öðrum. Fyndist Magnúsi, sem einhver hefði sjer greiða gert, var hann ekki í rónni fyrr en hann hafði á einhvern hátt yfirborgað þann greiðá. Hann gat engan látið eiga hjá sjer, jafnvel ekki þótt vinur hans væri. Hjer máttu engin mótmæli, ef hin stóra og viðkvæma sál hans skyldi ósærð. —
Gestrisni hans við gesti og gangandi er svo kímin, að ekki þarf hjer um að ræða, enda of langt mál fyrir stutta blaðagr., en þess mun margur minnast nú, þegar fráfall hans berst þeim til eyrna.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

— Á fjárlögum 1945 veitti Alþingi, eftir einróma samþykkt fjárveitinganefndar, eitt þúsund krónur sem viðurkenningu fyrir aðhlynningu og hjálpsemi við gesti, sem til Krýsuvíkur komu, — en þá hafði hann, eins og segir í brjefi til fjárveitinganefndar, „verið aleinn í hinni fornu Krýsuvíkursókn í 10 ár, og haft þar opinn bæ, á þessum afskekkta, en oft heimsótta stað af innlendu og erlendu fólki.“

Nú hefur þú, vinur, gengið hina síðustu göngu hjerna megin elfunnar miklu. Ferjumaðurinn hefur sótt þig að bakkanum, þar sem þú varst búinn að bíða örþreyttur en æðrulaus í 5 ár.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús frá Krýsuvíkurbænum frá fyrri tíð.

Hvað þú hefur hugsað öll þessi ár, er okkur að mestu hulið, en þegar kunnugir komu til þín og töluðu við þig, duldist þeim ekki að löngum muni hugur þinn hafa dvalið í Krýsuvík, og þá einkum við þau verk, sem þjer voru hugleiknust alla ævi, fjárgæsluna. —
Þrátt fyrir ástúðlegustu umönnun konu og barna, skyldi engan undra þótt sú bið hafi verið orðin þjer ærið löng; en þú varst eftir því, sem jeg best veit, sami rólyndi maðurinn, sem þú ávallt varst, meðan þú gekkst heill til skógar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Á einverustundum orna mjer enn minningar frá okkar fyrri fundum, hvort heldur þeir urðu á heimíli þínu, eða þegar fundum bar saman, þá við hagræddum fje okkar í vetrarharðindum í högum úti. Ekki gafst þá alltaf mikið tóm til samræðna, þar eð báðir áttum langt heim að sækja, — annar í austur, hinn í vestur.
Oft gekkst þú á veg með mjer, þegar leið mín lá um Krýsuvík, og spjölluðum við þá um okkar hugðarefni. Í dag fylgi jeg þjer hljóður, úr þínu hlaði, síðasta spölinn, og þakka þjer fyrir alla samveruna.
Jeg tel að nú sje genginn síðasti Krýsvíkingurinn, þ.e.a.s. sá maðurinn, sem nú um langan aldur mun hafa dvalið þár lengst, og yfirgaf síðastur staðinn.
Góða ferð yfir til fyrirheitna landsins; þar munu bíða þín verkefni trúverðugrar sálar.“ – Ólafur Þorvaldsson frá Herdísarvík.

Heimild:
-Morgunblaðið 21.10.1950, Magnús Ólafsson, minning, bls. 10.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1945.

 

Sjómannablaðið Víkingur

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr annari greininni.

Tímabil Mattíasar Þórðarsonar

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson (1914-2005).

Þegar danska útgerðarfélagið lagði upp laupana, átti Einar Sveinbjörnsson bóndi í Sandgerði forkaupsrétt að fiskveiðistöð þess. Hafði hann ekki tök á að kaupa, eða kærði sig ekki um það. Varð það úr, að Pétur J. Thorsteinsson, útgerðarmaður frá Bíldudal keypti stöðina af hinu danska útgerðarfélagi, en seldi brátt helminginn Matthíasi Þórðarsyni, sem verið hafði útgerðarstjórinn. Ráku þeir stöðina í sameiningu árið 1909, en vorið 1910 keypti Matthías hinn helminginn af Pétri, og átti þá stöðina alla. Rak hann síðan útgerð frá Sandgerði um fjögurra ára skeið.
Matthías Þórðarson er fæddur árið 1872, á Móum á Kjalarnesi. Hann er sonur Þórðar hreppstjóra Runólfssonar og Ástríðar Jochumsdóttur. Matthías tók skipstjórapróf árið 1890, og var skipstjóri í nokkur ár. Árið 1899 gerðist hann leiðsögumaður strandvarna- og mælingaskipanna dönsku hér við land, og hafði þann starfa á hendi til ársins 1907.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1872-1959).

Matthías hafði mikinn áhuga á framfaramálum útvegsins. Sá hann það glögglega, að eitthvert bezta vopnið í baráttunni fyrir þróun og eflingu þessa mikilvæga atvinnuvegar var gott og vekjandi málgagn. Árið 1905 hófst hann því handa af eigin atorku, og byrjaði útgáfu fiskveiðiritsins ,,Ægis“, er kom út mánaðarlega. Gaf Matthías Ægi út í fjögur ár og annaðist ritstjórn hans að öllu leyti. Þá hætti Ægir að koma út um sinn. Var það einkum vegna þess, að Matthías hafði mörgu öðru að sinna, og gat ekki í því snúizt að halda úti blaðinu, en enginn þess um kominn að grípa merkið á lofti. Síðar var Ægir vakinn til nýs lífs, eins og kunnugt er, eftir að Fiskifélag Íslands var stofnað. Hefur Fiskifélagið gefið ritið út síðan.
Þegar er Matthías Þórðarson hafði keypt útgerðarstöðina í Sandgerði tók hann að leita þeirra leiða, er hann áleit vænlegastar til góðs og farsæls árangurs. Hann var sannfærður um það, að Sandgerði var kjörinn staður til vélbátaútgerðar, ef rétt væri á haldið.

Ægir

Ægir, 1. tbl. 1945.

Lét hann svo um mælt í blaði sínu, Ægi, er hann skýrði frá því að hin danska útgerðartilraun hafði farið út um þúfur, að þrátt fyrir allt hafi staðurinn verið ,,mjög vel valinn, hvað snertir sjósókn og hægt að ná til fiskjar, . . . og mun því tíminn bezt leiða það í ljós, að hér verður framtíðar fiskistöð Suðurlands“.
Matthías sá þegar, að Sandgerði var fyrst og fremst til þess kjörið, að þaðan væri róið á vetrarvertíð. Til þess þurfti góða og sterka báta, sem hægt væri að bjóða annað og meira en blíðu sumarsins. Lét Matthías nú smíða þrjá vélbáta í Reykjavík. Hétu þeir Óðinn, Þór og Freyr. Þá leigði hann viðlegurúm aðkomubátum, og tók ákveðið gjald fyrir. Einnig hóf hann verzlunarrekstur í Sandgerði.
Matthías var svo hepinn að fá góða aflamenn á báta sína. Gekk þeim fremur vel að fiska, og var viðgangur útgerðarstöðvarinnar hægur og jafn þau árin, sem Matthías veitti henni forstöðu. Meginhluti alls þess starfsliðs, sem til þurfti bæði á sjó og landi, var aðkomufólk, því að enn voru menn ekki farnir að setjast að í Sandgerði til stöðugrar dvalar.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Þótt aflinn í Sandgerði væri dágóður þessi árin, var aðstaða að ýmsu leyti erfið og kostnaður reyndist mikill við bátana. Bryggjan var ákaflega stutt, miðað við þörfina. Bátarnir komust ekki að henni nema á flóði. Þá varð að fleygja fiskinum upp á bryggjuhausinn og bera hann síðan í kassabörum upp í fiskkassana. Sumir höfðu til þess hjólbörur. Síðar komu handvagnar og þóttu þeir miklir kostagripir.
Á þessum árum urðu menn að bera salt allt á bakinu. Þegar saltskip komu, urðu þau að liggja úti á höfn, en síðan var saltið sótt um borð á árabátum. Frá árabátunum var hver einasti saltpoki síðan borinn á bakinu og komið í hús.
Þá var ekki smáræðis staut við fiskverkunina. Allan fisk burfti að bera og draga fram og til baka, milli húsa til vöskunar, söltunar og geymslu, út á kamb til þurrkunar, heim í hús aftur o.s.frv. Einn þeirra manna, sem átti í þessu stauti árum saman, hefur lýst því á þá leið, að í raun og veru hafi allt lífið veriö einlægur burður og dráttur, sí og æ, aftur og fram.

Sandgerði

Sandgeðri – fiskur á bryggjunni.

Stúlkur unnu mjög mikið að störfum þessum, og var ekki talið ofverkið þeirra að bera jafnvel hundrað punda pokana á bakinu klukkustundum saman. Oft var það við uppskipun, að nauðsyn bar til að vaða. Vöknuðu þá margir, og það jafnvel allt upp til miðs. Einatt slampaðist kvenfólkið með karlmönnunum við slíkt vos, og þótti engum mikið.
Matthíasi Þórðarsyni mun ekki hafa fundizt útgerðarstöðin bera sig nógu vel. Ákvað hann því að selja, og snúa sér að öðrum verkefnum. Urðu eigendaskipti að Sandgerði árið 1913. Eftir að Matthías hvarf frá Sandgerði, gerðist hann ráðsmaður hjá Fiskifélagi Íslands, en hann hafði átt góðan hlut að stofnun þess. Starfi þessu hjá Fiskifélaginu gegndi Matthías þó ekki nema eitt ár. Árið 1914 fluttist hann til Danmerkur og hefur átt þar heima síðan.

Sandgerði

Þýðing úr skrifum Matthíasar í „Nordisk Havfiskeri Tidskrift“ í Ægi 1927.

Matthías hefur fengizt mikið við ritstörf. Hann stofnaði og gaf út ritið „Nordisk Havfiskeri Tidsskrift“, er út kom árin 1926—1932, og þótti fróðlegt. Síðan árið 1935 hefur hann gefið út „Aarbog for Fiskeri“, sem einnig hefur aflað sér nokkurra vinsælda. Tvær stórar bækur hefur hann samið. Hin fyrri, „Havets Rigdomme“ er skrifuð á dönsku og kom út árið 1927. Síðari bókin er „Síldarsaga Íslands“, sem út var gefin árið 1930. Matthías er fróður mjög um fiskveiðamálefni og allvel ritfær.

Loftur Loftsson

Sjómaður

Sjómaður í vinnufatnaði þess tíma.

Segja má, að nýr kafli hefjist í sögu Sandgerðis þegar Akurnesingar „uppgötvuðu“ staðinn og komu þangað með dugnað sinn, tæki og verkkunnáttu.
Menn þeir, sem keyptu útgerðarstöðina af Matthíasi Þórðarsyni voru félagamir Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson á Akranesi. Þeir höfðu stofnað verzlun í sameiningu árið 1908, og hugðust nú að færa út kvíarnar. Varð það hlutskipti Lofts að sjá um rekstur Sandgerðisstöðvarinnar, en Þórður stjórnaði fyrirtæki þeirra félaga á Akranesi. Síðar gerðist Loftur einn eigandi stöðvarinnar í Sandgerði. Rak hann þar útgerð samfleytt í 22 ár.
Loftur Loftsson er fæddur á Akranesi árið 1884, sonur Lofts Jónssonar sjómanns þar og konu hans, Valgerðar Eyjólfsdóttur verkamanns í Reykjavík Pálssonar. Loftur hóf verzlunarstörf á unga aldri, en stofnaði sem áður segir verzlun á Akranesi, árið 1908 með Þórði Ásmundssyni. Áttu þeir verzlunina þar og Sandgerðisútgerðina í sameiningu til 1918, en þá slitu þeir sameigninni, og tók Loftur að öllu leyti við fyrirtækinu í Sandgerði. Loftur hefur jafnan verið búsettur í Reykjavík síðan útgerð hans hófst í Sandgerði. Kvæntur er hann Ingveldi Ólafsdóttur læknis í Þjórsártúni Ísleifssonar.

Loftur Loftsson

Loftur loftsson (1884-1960).

Þegar Loftur hóf útgerðina í Sandgerði, keypti hann báta þá er Matthías Þórðarson hafði átt, Óðinn, Þór og Frey. Brátt tók hann að færa meira út kvíarnar og bætti við sig ýmsum bátum. Hétu þeir Ingólfur, Björgvin, Svanur II og Hera. Voru þessir bátar stærri miklu en áður hafði tíðkazt að gera út frá Sandgerði, eða um og yfir 30 smálestir. Þeir voru og svonefndir útilegubátar, komu ekki tilhafnar á hverjum degi, en beittu og gerðu að fiskinum um borð.
Strax og Loftur kom til Sandgerðis, fjölgaði þar einnig aðkomubátum, sem keyptu sér viðleguleyfi og aðstöðu til róðra á vertíðinni. Í fyrstu voru bátar þessir einkum frá Akranesi, en brátt kom þar, að til Sandgerðis streymdu bátar víðs vegar að. Má óhætt segja, að með komu Lofts hófst mikið athafnalíf í Sandgerði.
Stækkaði Loftur allmikið hús þau sem fyrir voru, þar á meðal íshúsið. Rak hann stöðina af dugnaði og myndarskap. Margir höfðu góða atvinnu í landi á vertíðinni, auk þess sem sjómenn báru oftast mikið úr býtum, þegar miðað er við það sem annars staðar var. Fiskvinna var mikil að sumrinu. Kvenfólk kom fjölmargt úr Garði, af Miðnesi og víðar að, vaskaði fiskinn og þurrkaði hann. Síldveiðar voru hins vegar sáralítið stundaðar í Faxaflóa á þessum árum, og var mikil beitusíld fengin frá Norðurlandi.

Haraldur Böðvarsson

Sandgerði

Haraldur Böðvarsson (1889-1967).

Þegar er Loftur hafði dvalizt árlangt í Sandgerði og gert þaðan út eina vertíð, þótti sýnt, að þar væru ágæt skilyrði til vélbátaúrgerðar. Einkum var þessi skoðun ofarlega í hugum manna á Akranesi, því að þaðan var Loftur og þar var, af eðlilegum ástæðum, einna mest talað um framkvæmdir hans.
Á Akranesi óx upp um þessar mundir mannval mikið svo sem síðar hefur komið greinilega í ljós. Einna fremstur í þeim hópi er sá maðurinn, sem um langan aldur hefur borið höfuð og herðar yfir aðra atvinnurekendur á Akranesi, og þótt víðar væri leitað. Sá hinn sami maður var og um nær þrjá tugi ára annar helzti máttarstólpinn í Sandgerði, og átti meginþáttin í því, ásamt Lofti Loftssyni, að gera þann stað að einu stærsta útgerðarþorpi landsins. Maðurinn var Haraldar Böðvarsson.
Haraldur Böðvarsson er fæddur árið 1889 á Akranesi. Foreldrar hans voru Böðvar kaupmaður Þorvaldsson og kona hans Helga Guðbrandsdóttir bónda í Hvítadal Sturlusonar. Haraldur sá það glögglega, þegar er hann kynntist Sandgerði, að þar var um mikinn framtíðarstað að ræða. Þetta hið sama ár, 1914, leigði hann allstóra lóðaspildu af landi Einars bónda Sveinbjörnssonar í Sandgerði, og hóf þegar að reisa þar nýja útgerðarstöð frá grunni. Naut hann við þetta hjálpar föður síns og tókst með framsýni mikilli og dugnaði að sigra allar torfærur. Lét hann smíða állstór verzlunar- og
vörugeymsluhús, salthús, sjóbúðir og bræðsluskúr.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Næsta ár lét Haraldur gera bryggju og íshús. Hélt hann svo áfram að fjölga byggingum eða stækka þær, sem fyrir voru, unz upp hafði risið mikil þyrping húsa, og taka mátti til fastrar viðlegu um 20 báta á stöðina. Voru byggingar flestar af miklum myndarskap gerðar, eftir því sem þá var talið hæfa; að langmestu leyti úr steini og vel vandaðar.
Jafnhliða þessum framkvæmdum í Sandgerði, hélt Haraldur áfram að auka bátaflota sinn.
Sá var jafnan háttur Haraldar Böðvarssorar, að hann hafði báta sína í Sandgerði blómann úr vetrarvertíðinni, en flutti þá til Akraness og gerði út þaðan er honum þótti það vænlegra til árangurs eða hentugra. Auk sinna eigin báta, hafði hann á sínum snærum í Sandgerði mikinn hóp viðlegubáta víðs vegar að af landinu. Voru þeir jöfnum höndum af Akranesi, úr Hafnarfirði, Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði eða Eyrarbakka.

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Bátar þessir fengu allar sínar nauðsynjar hjá verzluninni. Hún keypti aftur af þeim fiskafurðirnar og lét í té svefnskála fyrir skipverja, beitingaskúra, fiskaðgerðasvæði og þar frarn eftir götunum. Þá var og mikill fjöldi svonefndra útilegubáta, sem sóttist eftir að skjótast inn á Sandgerðishöfn. Gerðu þeir oft og einatt samninga við annan hvorn útgerðarmanninn á staðnum, Harald eða Loft, um að fá hjá þeim kost, veiðarfæri, salt og beitu, en seldu þeim aftur lifrina úr fiskinum eða lýsið. Voru oft mikil viðskipti við þessa báta, enda komu þeir sömu oft ár eftir ár. Mátti stundum sjá vænan hóp vélbáta liggja á Sandgerðishöfn, þegar gerði frátök og útileguskipin leituðu í var.
Hafði nú hróður Sandgerðis sem útgerðarstöðvar vaxið svo mjög, að bátaeigendur víða um land gerðust æ ákafari að fá þar viðlegu fyrir fleytur sínar.

Sandgerði

Sandgerði – frá útgerð Haraldar Böðvarssonar.

Þessi mikli vöxtur vélbátaútgerðar frá Sandgerði hafði þau áhrif, að róðrar á opnum bátum lögðust að mestu niður í Garði og á Miðnesi, en netaveiðar höfðu löngum verið mjög mikið stundaðar í Garðsjó og víðar. Garðmenn hófu nú að koma sér upp vélbátum til viðlegu í Sandgerði, því að hafnleysi bannar þeim heimaróðra á öllum meiri háttar fleytum. Frumherji Garðmanna í þessum efnum mun hafa verið Þorsteinn bóndi og útgerðarmaður Gíslason á Meiðastöðum. Síðan kom Guðmundur Þórðarson í Gerðum og þá hver af öðrum.
Þegar flestir voru vélbátarnir í Sandgerði, munu hafa hafzt þar við nálega 40 landróðrabátar, — um 20 frá hvorri útgerðarstöð, — en auk þess hafði þar bækistöð mikill fjöldi útilegubáta, og munu þeir jafnvel hafa komizt upp í 80 eða meira.

Enn frá Haraldi Böðvarssyni

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Árið 1916 keyptu þeir Haraldur Böðvarsson og Loftur Loftsson í sameiningu jörðina Sandgerði, af Einari Sveinbjörnssyni, og skiptu henni á milli sín. Einar fluttist til Reykjavíkur og átti þar heima til banadægurs.
Árið 1920 keypti Haraldur Böðvarsson hjáleiguna Tjarnarkot, og sameinaði þá landspildu aðaljörðinni. Við það varð olnbogarými meira og aðstaða betri til hvers konar framkvæmda. Rak Haraldur útgerðina í Sandgerði alla stund af fyrirhyggju og dugnaði, enda græddist honum þorp nokkurt í Sandgerði, utan um útgerð þá, sem þaðan var rekin. Þó hefur sá háttur jafnan haldizt, að mikill hluti þess liðsafla, sem starfar í Sandgerði á vertíðinni er aðkominn.
Haraldur Böðvarsson er kvæntur Ingunni Sveinsdóttur frá Mörk. Þau giftust árið 1915, og settust þá að í Reykjavík. Þar bjuggu þau til ársins 1924, að þau fluttu búferlum til Akraness. Hafa þau átt heima á Akranesi síðan.

Aflagarpar

Sandgerði

Sandgerði í gamla daga.

Útgerðarmenn í Sandgerði voru svo lánsamir, að þangað völdust ýmsir dugandi og aflasælir formenn, þegar á hinum fyrri árum vélbátaútgerðarinnar. Sýndu þeir og sönnuðu það svo glögglega, að ekki varð um villzt, hversu auðug fiskimið þau voru, sem róið varð til frá Sandgerði. Eiga margir þessir garpar það fyllilega skilið, að minningu þeirra sé á lofti haldið. Og þótt varla tjái að þylja nöfnin tóm, verður nokkurra þeirra hér lítið eitt getið.
Kristjón Pálsson var höfðings- og dugnaðarmaður, og einhver hin mesta aflakló, sem um getur. Hann hafði um skeið forystu fyrir öðrum skipstjórum er reru frá Sandgerði. Fyrstur manna suður þar hætti hann algerlega við þorskanot og veiddi eingöngu á línu alla vertíðina.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Áður hafði það verið föst og ófrávíkjanleg regla, að allir köstuðu frá sér línunni og tóku upp þorskanet þegar sílið (loðnan) kom, en það var oftast í marzmánuði. Höfðu menn þá trú, að ekki þýddi hið minnsta að leggja línu eftir að loðnan var komin. Kristján sýndi fram á að þessi skoðun var röng. Hélt hann áfram línuveiðum þó að loðna kæmi, og fiskaði allra manna bezt. Tóku þá flestir þann hátt eftir honum, og lagðist netaveiði að verulegu leyti niður hjá Sandgerðisbátunum. Bátur sá, er Kristjón stýrði, hét Njáll. Áttu þeir hann í sameiningu Kristjón og Loftur Loftsson. Njáll fórst 11. febrúar 1922, og drukknaði Kristjón þar ásamt hásetum sínum öllum. Þetta var í afskaplegu útsynningsroki, og skeði slysið lítið eitt innan við Garðsskaga. Annar vélbátur, Björg að nafni, hafði orðið að mestu leyti samhliða Njáli, og var að lensa inn fyrir Skaga eins og hann. Sáu skipverjar á Björgu að upp reis ofsaleg holskefla, stærri öllum öðrum. Lenti Björg í útjaðri brotsins og var mjög hætt komin, en Njáll var í miðju hvolfi þessarar himinglæfu og stakkst á endann þráðbeint niður í djúpið. Kristjón var enn ungur maður er hann fórst, og þótti að honum rnikill mannskaði, sem og skipverjum hans.

Sjúkraskýlið

Sandgerði

Sandgerði – sjúkraskýli RKÍ.

„Margt skeður á sæ“, segir gamalt máltæki, og hefur það löngum þótt sanni nær. Eitthvað svipað má eflaust segja um þá staði, þar sem athafnalíf allt er með miklum hraða og stendur ekki með miklum blóma nema skamman tíma á ári hverju, þar sem fjöldi manna safnast saman úr ýmsum áttum, leggur á sig vos og vökur til að grípa gullið meðan það gefst, og verður oft að búa við misjafna aðbúð fjarri heimilum sínum. Ef til vill er óvíða meiri þörf á einhverri aðhlynningu og hjálp í viðlögum en einmitt þeim stöðum, þar sem þessu líkt stendur á.
Í Sandgerði hefur aldrei læknir setið. Hefur því orðið að leita til Keflavíkur eða Grindavíkur þegar til læknis þurfti að grípa. Reyndist það oft mjög bagalegt, meðan ekki var hægt að fá gert skaplega við skurð á hendi eða graftarbólu á hálsi án þess að standa í læknisvitjun eða ferðalögum undir læknishendur. Þá var það ákafiega illt, að sitja ráðalítill uppi ef maður veiktist skyndilega. Var sjaldan hlaupið á að koma sjúklingi fyrirvaralaust í sjúkrahús, enda langan veg að fara, en á hinn bóginn engin leið að annast fárveika menn í litlum og loftillum svefnskálum, þar sem fjöldi sjómanna hafðist við og gekk um á öllum tímum sólarhringsins.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Það var því hið þarfasta verk, er Rauði Kross Íslands hófst handa árið 1937 og reisti í Sandgerði ágætt sjúkraskýli. Það er að vísu ekki stórt, en bætir þó prýðilega úr brýnni þörf. Í húsinu eru tvær vel búnar sjúkrastofur, og geta legið þar fjórir sjúklingar í einu. Ef nauðsyn krefur, er hægt að taka við nokkru fleiri sjúklingum um stundarsakir.
Veturinn 1939—1940 var sjúkraskýlið endurbætt allmikið. Þar var þá einnig komið upp finnsku baði. Hafði tekizt að festa kaup á baðofni og fá hann afhentan fáum dögum áður en styrjöldin hófst. Hefur bað þetta verið mikið notað síðan, og þykir sjómönnum það hið mesta þing. Þá eru og venjuleg steypiböð í húsinu.

Sandgerði

Sandgerði – bátar við bryggju.

Á hverri vertíð hefur Rauði Krossinn ráðið vel mennta hjúkrunarkonu til að annast rekstur Sjúkraskýlisins, en læknir frá Keflavík hefur eftirlit með sjúklingum og framkvæmir meiri háttar aðgerðir. Nýtur starfsemi þessi mjög mikilla vinsælda, enda hefur hún bætt úr brýnni þörf. Áður en Sjúkraskýlið var reist höfðu hjúkrunarkonur frá Rauða krossinum starfað um langt skeið á vertíð hverri í Sandgerði.

(Í þriðju og síðastu greininni, 01.12.1945, um Sandgerði er fjallað um uppbyggingu bæjarins og framtíð hans. Hún birtist í næsta blaði).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 9. tbl. 01.09.1945, Útgerðarstöðvar og verstöðvar, Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 207-213.

Sandgerði

Sandgerði – aflinn kominn á land.

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr fyrstu greininni.

Fortíðin

Sjómannablaðið Víkingur

Sjómannablaðið Víkingur, 10. tbl. 1945.

Á Reykjanesskaga hefur allt frá fornu fari verið mikill fjöldi verstöðva, stórra og smárra. Hinar helztu þeirra voru Bieringstangi á Vatnsleysuströnd, Vogar, Njarðvíkur, Leira, Garður, Sandgerði, Stafnes, Hafnir og Grindavík. Frá öllum þessum stöðum og mörgum fleiri, leituðu menn út á mið Faraflóa og Suðurstrandarinnar.
Fiskimiðin reyndust að vísu misjafnlega gjöful, og brugðust stundum, en þegar öllu er á botninn hvolft, má það heita miklum vafa bundið, hvort nokkur annar landshluti hefur átt slíka auðlegð fyrir ströndum úti, sem þessi hrjóstrugi, eldbrunni og hraunrunni skagi, sem teygir hæl og tá út í Atlantshafið.
Neðan á „ilinni“ á Reykjanesskaga, en þó miklum mun nær tánni (Garðskaga) en hælum (Reykjanesi), er byggðarlag það, sem Miðnes heitir. Þar er Miðneshreppur. Skiptist hann í sjö hverfi, er sum hafa verið fjölbyggð mjög á fyrri tímum, meðan útræði opinna skipa var í fullum blóma. Hverfi þessi heita: Kirkjubólshverfi, Klapparhverfi, Sandgerðishverfi, Bæjaskershverfi, Fuglavíkurhverfi, Hvalsneshverfi og Stafneshverfi. Nálægt miðbiki þessa svæðis er Sandgerði, sem hefur á síðari árum orðið bækistöð mikils vélbátaflota, og telst nú í hópi stærstu útgerðarstöðva þessa lands.

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Jörðin Sandgerði er snemma nefnd í skjölum. Einna fyrst mun hennar getið í skrá nokkurri um rekaskipti á Rosmhvalanesi, en sú skrá er talin vera frá því seint á Sturlungaöld, eða nálægt 1260—1270. Gömul munnmæli herma, að jörðin hafi upphaflega heitið Sáðgerði, af því að þar lágu kornakrar Gullbringu, sem sýslan er við kennd. Segja sagnir, að hún hafi gefið þræli sínum, Uppsa, jörð þá, er hann nefndi Uppsali. Uppsalir eru skammt ofan við Sandgerði. Voru þeir 20 hundruð að fornu mati, en Sandgerði 60 hundruð. Líklegt má telja, að saga þessi um þrælinn Uppsa, sé alþýðleg skýringartilraun á bæjarnafninu Uppsalir. Jarðarheitið Sáðgerði kemur hvergi fyrir í gömlum skjölum, og er það að öllum líkindum tilbúningur síðari tíma. Hitt mun rétt vera, að Sandgerði hefur fyrr á öldum verið grasgefnara miklu og frjósamara en síðar varð.

Sandgerði

Sandgerði – örnefni.

Votta heimildir, að áður á tlmum hafi verið svo hátt stargresi milli Bæjaskerja og Sandgerðis, að fénaður sást ekki er hann var þar á beit. Síðar blés þetta svæði upp og gekk á það sjór, svo að þar urðu ýmist berar klappir eftir eða gróðurlaus foksandur. Til skamms tíma hafa sézt nokkur merki í Sandgerðislandi, sem bent geta til þess, að þar hafi akuryrkja verið stunduð í allríkum mæli fyrr á öldum. Séra Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli, sem kunnur er vegna þess að hann var annar helzti upphafsmaður þjóðsagnasöfnunar hér á landi, kynnti sér fornmenjar á Reykjanesskaga, og skrifaði um þær merkilega grein. Hann ræðir þar nokkuð um Sandgerði, og kemst meðal annars svo að orði:

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

„Suður af Flankastöðum við sjóinn eigi langt er bær, sem nú er kallað Sandgerði, en hét að sögn áður Sáðgerði. Þar eru tún fögur og allslétt. Mikið af túni þessu hefur í fyrndinni verið akrar, og sér þar glöggt fyrir skurðum, scm hafa skipt ökrunum í breiðar og langar reimar. Austan og norðanvert með akrinum liggur hóll eða brekka, sem hefur skýlt honum. Garðar sjást hér ei kringum akurinn eða um hann eins og á Skaganum. Tjörn ein er fyrir norðan bæinn, og sér til skurðar úr henni niður á akurinn. Hefur þar mátt hleypa vatni úr í allar rásirnar og af eða á akurinn eftir geðþekkni. Vestanvert við akurinn er túnið nokkuð hálendara. Þar eru þrír eða fjórir bollar eða lautir í röð, og mótar fyrir skurði á milli þeirra og fram úr þeim út í sjó.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Bollar þessir eru nærfellt kringlóttir, misstórir og eigi djúpir nú. Bolla þessa held ég vera mannaverk, og hafi þeir verið notaðir sem böð eða laugar, því að vel hefði mátt hleypa í þá vatni úr tjörninni og kann ske sjó, þó nú virðist það miður ætlandi. Má og vera að þeir hafi verið notaðir til einhvers við akurinn, t. a. m. til að láta vatn standa í (Vandbeholdere). Þeir eru nú grasi grónir innan. Engar sögur hafa menn nú um bolla þessa, en þeir eru svo frábrugnir öllum hlutum þar í nánd, að mér þótti þeir eftirtektarverðir. Þeir eru hér um bil 3 til 5 faðma í þvermæli“.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903; Rosmhvalanes.

Árið 1703, er Árni Magnússon og Páll Vídalín ferðuðust um Gullbringusýslu, lýstu þeir jörðinni Sandgerði allnákvæmlega, og er þá lýsingu að finna í jarðabók þeirra. Um þær mundir var eigandi og ábúandi Sandgerðis Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður. Ekki hafði hann stórt bú á svo mikilli jörð. Kvikfénaður var talinn þessi: „Sjö kýr, ein kvíga tvævetur, ein kvíga veturgömul, einn kálfur, sextán ær, tólf sauðir veturgamlir, tveir tvævetrir, lömb tíu, tveir hestar“. Hlunnindi jarðarinnar voru ekki margvísleg, og bar þar útræðið langt af öðrum. Hlunnindum lýsir jarðabókin svo:
„Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörð. Lyngrif nokkuð lítið. Eldiviðartak af fjöruþangi bæði lítið og erfitt. Sölvatekja fyrir heimamenn. Grasatekja nærri því engin. Eggver nokkuð lítið af kríu, en hefur áður betra verið. Rekavon nokkur.

Sandgerði

Sandgerði – Hamarssund.

Heimiræði er árið í kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum; áður hafa hér stundum gengið inntökuskip fyrir undirgift, sem ábúandinn eignaðist; mætti og enn vera ef fiskirí tekist. Lending er góð. Sjór og sandur brjóta nokkuð á túnin þó ekki til stórmeina enn nú. Vatnsból sæmilegt en bregst þó, en það mjög sjaldan“.
Árið 1703 fylgdu Sandgerði hvorki meira né minna en níu hjáleigur, er svo hétu: Bakkakot, Krókskot, Landakot. Tjarnarkot, Harðhaus (?), Gata, Stöðulkot, Bakkabúð og Helgakot. Tvær hinar síðastnefndu voru komnar í eyði, önnur fyrir meira en 10 árum, hin fyrir nær 30 árum.

Reykjanes og Miðnes - sjóslys

Reykjanes og Miðnes – sjóslys.

Þessi mikli fjöldi af hjáleigum á ekki víðlendara né gróðurríkara svæði en Sandgerðishverfið er, talar skýru máli um það, að afkomumöguleikar fólksins hafa fyrst og fremst verið við sjóinn bundnir. Það var útræðið, sem gerði hjáleigumönnum kleift að haldast við á þessum stað. Ella hefði þar verið ólíft með öllu.
Árið 1839, þegar Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum, samdi sóknarlýsingu sína, taldi hann Sandgerði einhverja fallegustu jörðina þar um slóðir, kvað túnið grasgefið og í góðri rækt, en kvartaði undan því að sjór bryti þar upp á svo að til mikils tjóns horfði. Þá voru enn sex hjáleigur bvggðar frá Sandgerði og útræði mikið stundað.

Umhverfið
Í Sandgerði er lending góð. Þar er eitthvert hið bezta og tryggasta sund fyrir sunnan Skaga. Það heitir Hamarssund.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Sundið er fremur mjótt og blindsker á báða vegu, svo að voði er fyrir höndum ef nokkuð ber út af. Þarf því allmikla nákvæmni og kumiugleik til að taka sundið rétt, þegar illt er í sjóinn, enda er þá nauðsynlegt að kunna skil á straumaköstum þar. En sé rétt að farið, er sundið hættulaust í öllu skaplegu.
Sandgerðishöfn myndast af Bæjaskerseyri að sunnan og vestan, en Sandgerðis- og Flankastaðalandi að norðan og austan. Mynni víkurinnar snýr í norðurátt. Að sunnanverðu við sundið, sem siglt er um inn á höfnina, er skerig Bóla, en skerið Þorvaldur að norðanverðu. Sú frásaga er höfð í munnmælum, að bóndi einn hafi í fyrndinni búið á Flankastöðum og átt sonu, efnispilta hina mestu. Sóttu þeir sjó af kappi, og réru úr Sandgerðisvík. Einhverju sinni komu þeir úr róðri og lögðu á sundið.

Flankastaðir

Flankastaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Stórstraumsfjara var og bára mikil. Steytti skipið á hellu nokkurri í miðju sundinu, hvolfdi því og drukknuðu menn allir. Bónda féllst mjög um atvik þetta. Litlu síðar rann á hann hamremmi. Fór hann þá út með menn sína og tóku þeir að þreyta fangbrögð við helluna. Tókst þeim að reisa hana upp sunnan til við sundið, og er hún sker það hið mikla, sem nú kallast Bóla. Eftir þessar aðgerðir reyndist sundið nægilega djúpt hverju skipi.
Út af skerinu Bólu, sem eins konar framhald af Bæjaskerseyri, er rif eitt mikið, sem Bólutangarif heitir. Skagar það langt í sjó fram, og mega skip hvergi nærri koma, svo að þeim sé ekki grand búið. Eru dæmi þess, að fiskiskip og jafnvel kaupför hafi strandað á Bólutangarifi. Árið 1839 strandaði þar frönsk húkkorta frá Dunkirque. Menn komust af allir, en skip braut í spón.

Sveinbjörn Þórðarson

Sandgerði

Sandgerði – bátar.

Litlu eftir miðja 19. öld, fluttist sá maður frá Hrauni í Grindavík og að Sandgerði, sem Sveinbjörn hét og var Þórðarson. Sveinbjörn var fæddur árið 1817. Snemma varð hann alkunnur maður um allan Reykjanesskaga fyrir fádæma dugnað, kapp og áræði. Svo var harðhugur Sveinbjarnar mikiil og sjósókn hans grimm, að flestum blöskraði, jafnvel þeim, sem ýmsu voru vanir og köllu ekki allt ömmu sína. Sveinbjörn var hverjum manni skjótráðari og ákafari, svo að óðagot hans varð stundum ærið hlátursefni.
Eftir að Sveinbjörn Þórðarson fluttist til Sandgerðis, rak hann þar gott bú og sinnti útræði af ofurkappi. Auðgaðist hann brátt að fé. Þá var það, að hann lét smíða lítinn þiljubát, sem Skarphéðinn var nefndur.

Sandgerði

Sandgerði – steinbryggja og fiskhús.

Gerði hann bátinn út um skeið, aðallega til lúðu- og þorskveiða í Reykjanesröst og þar í kring. Var Sveinbjörn sjálfur formaður bátsins. En er hann hafði átt Skarphéðinn í fjögur ár eða þar um bil, rak bátinn upp í klappirnar norðan við Sandgerðisvík, í ofsaveðri á suðaustan, og brotnaði hann í spón. Þá varð Sveinbirni að orði, er hann sá bát sinn í braki og bútum: „Kári skal hefna Skarphéðins!“ Lét hann ekki sitja við orðin tóm, en hóf samstundis smíð á nýjum þiljubát, er hann nefndi Kára. Þann bát notaði Sveinbjörn til fiskveiða að sumarlagi, og mun hafa átt hann um alllangt skeið. Jón, sonur Sveinbjarnar, var formaður bátsins hin síðari ár. Var hann, eins og faðir hans, sjógarpur hinn mesti og tilheldinn. Stýrði hann áttæringi þeirra feðga á vetrum, og sat einatt fram í rauða myrkur, svo framarlega sem veður leyfði. Þá formenn, er það gerðu, kölluðu Sunnlendingar setuhunda.

Sandgerði

Sandgerði – fjara, fiskhús og bryggja.

Það þóttust menn vita, að fráleitt hefðu viðtökurnar verið blíðar hjá Sveinbirni gamla, hefði sonur hans lagt það í vana sinn að koma fyrr að landi en karli þótti hóf að vera. Var sagt, að Sveinbjörn ýtti helzt til of undir syni sína að róa, stundum jafnvel út í nálega ófæru.
Var hann einatt óður og uppvægur, æddi um hús öll og tautaði, unz Jón stóðst ekki lengur mátið, kallaði á Einar bróður sinn og aðra menn sína og ýtti á flot. Hægðist karli þá í bili. En þegar þeir voru komnir út fyrir sundið, umsnerist Sveinbjörn á nýjan leik og sagði að þeir væru helvítis flón, þessir strákar sínir, að æða út í vitlaust veður. Gat hann síðan naumast á heilum sér tekið alla þú stund sem synir hans voru á sjónum, og hægðist ekki fyrr en þeir voru komnir heilu og höldnu í land.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Einhverju sinni er veður var ískyggilegt, höfðu þeir bræður, Jón og Einar, róið í skemmra lagi. Var ekki laust við að þess sæist vottur, er aflinn var athugaður, að þar hefði skotizt þaraþyrslingur innan um. Sveinbirni gamla þótti slælega að verið, en hafði þó venju fremur fá orð um að sinni. Næstu nótt var enn hið verstaveðurútlit, og ákváðu þeir bræður að sitja heima og róa hvergi. Að morgni, þegar Sveinbjörn gamli kom á fætur, sér hann að veður er allgott, en verður þess var, að synir hans hafa ekki róið. Verður hann nú ofsareiður, veður inn til þeirra, og sváfu báðir. Segir Sveinbjörn þá með þjósti miklum: „Ykkur hefði verið nær að fara út í þara og sofa þar!“ Strax og karli rann reiðin, sá hann eftir orðum sínum, og var það oft síðan, er synir hans voru á sjó í vondu veðri, að hann minntist ónotalega þessara ummæla.
Hér fer á eftir frásögn um fyrirbæri nokkuð, sem kunnugir menn fullyrða að hafi orðið í Sandgerði. Hafa sumir sett það í samband við Jón Sveinbjörnsson og drukknun hans. Aðrir telja, að þar sé ekkert samband á milli.

Höfuðskeljar
SandgerðiFyrir allmörgum árum bar svo við, að höfuðkúpur tvær rak á land í Sandgerði. Einhverjir tóku þær úr fjörunni og báru upp til húsa. Enginn vissi nein deili á höfuðkúpum þessum, en það þótti sýnt, að þær voru jarðneskar leifar sjódrukknaðra manna. Benti margt til þess, að þær væru nokkuð gamlar og hefðu velkst lengi í sjó. Lítt var um höfuðkúpur þessar hirt í fyrstu, og ekki voru þær færðar til greftrunar eða veittur neinn sá umbúnaður, sem hæfa þykir leifum dauðra manna. Lágu höfuðkúpurnar innan um allskonar skran í vörugeymsluhúsi og þoldu misjafna meðferð. Var loks svo komið, að flestir höfðu gleymt fundi þessum, og vissu fáir hvar höfuðkúpurnar voru niður komnar.

Hauskúpa

Hauskúpa.

Þá urðu þau atvik er nokkuð var frá liðið, að berdreymir menn tóku að láta illa í svefni og þóttust verða ýmissa hluta varir. Hinir aðrir, er ekkert dreymdi, höfðu slíkt allt í flimtingum, kváðu lítt mark takandi á þess konar rugli og hindurvitnum. Þrátt fyrir öll slík ummæli, tók það nú að verða æ tíðara, að draumvísir menn yrðu þess áskynja, að til þeirra kæmu halir tveir, er báðu þess, að eigi væri hraklega með höfuðbein sín farið. Báðu þeir þess einatt með mörgum fögrum orðum, að þeim væri komið í einhvern þann stað, þar sem þeir gætu verið í friði og rnættu horfa út á sjóinn. Létu þeir svo um mælt, að ekki myndi bátur farast eða slys verða á Hamarssundi, meðan þeir fengju að líta fram á hafið. Ágerðust draumfarir þessar smám saman, og var erindi hinna látnu sæfara einatt hið sama. Báðu þeir stöðugt um að fá að horfa út á sundið.
SandgerðiNokkuð bar á því um skeið, að hinir framliðnu létu sér ekki nægja að vitja manna í draumi. Urðu ýmsir varir við eitt og annað þótt vakandi væru. Mergjaðasta draugasagan, $em við hauskúpurnar er tengd, hefur verið sögð á þessa leið:
Það var einhverju sinni, að sjómenn nokkrir áttu leið um húsið, þar sem hauskúpurnar lágu. Með var í förinni ungur maður, ærslafenginn nokkuð og djarfmæltur. Gekk hann þar að, sem höfuðkúpurnar voru, þreif til þeirra ómjúklega og manaði eigendur beina þessara til að birtast sér í vöku eða svefni, ef þeir væru ekki alls vesælli. Að því búnu varpaði hann frá sér höfuðskeljunum og gekk burtu hlæjandi.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Hið sama kvöld var veður ekki gott og réru engir. Gekk sjómaður þessi til náða ásamt félögum sínum. Svaf hann á efri hæð í tvílyftu húsi, og var svo til hagað, að svefnskálar sjómanna opnuðust allir að sameiginlegum gangi, sem lá eftir endilöngu húsinu.
Leið nú af kvöldið, og bar ekkert til tíðinda. Um miðnæturskeið, er flestir voru sofnaðir, varð maður einn, er í fremsta svefnskálanum hvíldi, var við það, að hurðin opnaðist og inn var gengið í skálann. Sér hann að inn koma karlmenn tveir, og er annar stórvaxinn mjög. Verður honum bilt við og leggja ónot um hann allan, en hvergi má hann sig hræra. Ganga komumenn inn skálann og lúta að hinni fremstu rekkju, svo sem leiti þeir einhvers. Hljóðlaust hverfa þeir þaðan og halda áfram ferð sinni frá einni hvílu til annarar. Er þeir höfðu farið um allan skálann, hurfu þeir út jafnhljóðlega og þeir komu.
SandgerðiFáar mínútur liðu. Heyrðist þá vein rnikið og svo ámátlegt, að það vakti af værum blundi alla þá, er á svefnloftunum sváfu. Hrukku menn upp með andfælum, kveiktu ljós í skyndi og tóku að leita orsaka þessa fyrirbæris. Reyndust hljóðin koma frá hvílu sjómanns þess, sem fyrr um daginn hafði gamnað sér við höfuðkúpurnar. Var hann kominn hálfur fram á rekkjustokkinn og hékk höfuðið fram af. Hafði hann andþrengsli svo mikil, að lá við köfnun, og allur var hann orðinn blár og afmyndaður ásýndum.
Fóru félagar hans að stumra yfir honum og kom þar brátt, að honum hægðist nokkuð. Leið þetta smám saman frá. Þegar hann hafði að mestu leyti náð sér, var hann spurður um orsakir til þessa atviks. Kvaðst hann hafa verið sofnaður sem aðrir í skálanum. Þótti honum þá sem maður kæmi inn í skálann og gengi að rekkju sinni. Var hann reiður mjög, og mælti á þá leið, að nú skyldi hefnt hæðnisorða þeirra, sem fallið hefðu um daginn, og annara mótgerða við sig. Við sýn þessa og orð komumanns, dró allan mátt úr sjómanninum. Fann hann að hinn óboðni gestur beygði sig niður að rekkjunni. Þóttist hann þá skynja óglöggt í myrkrinu, að ekki væri hér holdi klædd vera á ferð, heldur beinagrind ein.

Sandgerði

Sandgerði – nokkur húsa h.f. Miðness.

Í þeim svifum læsti beinagrindin berum kjúkunum um kverkar honum og herti að sem fastast. Tókst honum með erfiðismunum miklum að gefa frá sér óp það, er vakti hina sjómennina. Þegar er ljósinu var brugðið upp, hvarf hinn óboðni gestur.
Sjómaður þessi hafði ekki kunnað að hræðast, en mátti nú ekki einn sofa og vildi helzt láta yfir sér loga ljós á hverri nóttu. Ella þótti honum sem beinagrindin sækti að sér og sæti um að kyrkja sig.

Nokkru eftir að atburður þessi gerðist, urðu eigendaskipti að fiskveiðistöð þeirri, sem vörugeymsluhús það tilheyrði, sem höfuðkúpurnar voru í. Þegar hinn nýji eigandi hafði kynnt sér alla málavöxtu, lagði hann svo fyrir, að höfuðkúpurnar skyldu teknar úr vörugeymslunni.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Var síðan smíðaður utan um þær kassi eða stokkur, með gleri á þeirri hliðinni, sem fram vissi. Kassa þessum var síðan valinn staður í aðalglugga verzlunarinnar. Þaðan blasti við höfnin, svo að nú var öllu réttlæti fullnægt.
Svo virðist og, sem eigendur höfuðskeljanna yndu nú betur hlutskipti sínu en áður, því að mjög dró úr öllum draumum og tók fyrir flest það, sem menn höfðu viljað reimleika kalla.
Fyrir þrem eða fjórum árum var kassinn með höfuðskeljunum tekinn úr búðarglugganum og honum valinn staður þar sem minna ber á. Eru kúpurnar enn í kassa sínum í húsi einu frammi við sjó. Verða þær að horfa í gegnum héðan vegginn, en virðast una því hið bezta.

Dönsk útgerðartilraun

Lauritz Ditlev Lauritzen

Lauritz Ditlev Lauritzen (1859-1935).

Árið 1906 hófust miklar umræður í dönskum blöðum um auðæfi hafsins við strendur Íslands. Gekk þar maður undir manns hönd til að sannfæra Dani um það, að fátt væri gróðavænlegra og líklegra til skjótrar auðsöfnunar, en að nytja vel þær gullnámur, sem íslenzku fiskimiðin væru. Var rætt um það fram og aftur, að það væri Dönum meira en meðalskömm, hversu stórfeldir möguleikar lægju ónotaðir, meðan ekki væri hafizt handa um mikla útgerð á íslandi. Þyrfti nú að gera gangskör að því, sögðu blöðin, að kom upp miklum Íslandsflota, og reisa á hentugum stöðum fiskveiðistöðvar í stórum stíl.
Blaðaskrif þessi komu allmikilli hreyfingu á málið, og urðu þess valdandi, að fjármálamenn ýmsir tóku að kynna sér þennan möguleika. Í fremstu röð þeirra manna, sem horfðu hingað rannsóknaraugum, var D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg. Hann var enginn byrjandi á sviði útgerðarmála, hafði rekið mikla fiskútgerð í Danmörku, og var öllum þeim hnútum kunnugur. Lauritzen beitti sér nú fyrir stofnun öflugs félags, er reka skyldi fiskveiðar við ísland og í Norðursjó, bæði á vélskipum og gufuskipum.

Sandgerði

Sandgerði – bryggja og viti.

Sumarið 1907 vann Lauritzen að félagsstofnuninni, en lét þó ekki þar við sitja. Þegar á því ári sendi hann út hingað nokkur skip, er stunduðu fiskveiðar fyrir Vestur- og Norðurlandi. Veiðin gekk mjög illa, svo að stórtjón varð á útgerðinni. Var það ekki glæsilég byrjun, en þó lét Lauritzen þetta hvergi á sig festa.
Lauritzen konsúll vildi kynnast sem flestu, er til sjávarútvegs heyrði og að gagni mætti koma við fiskveiðar frá Íslandi. Ferðaðist hann hingað í því skyni, — var með í konungsförinni 1907, — og gerði sér þá ljóst, að fyrsta skilyrðið til góðs árangurs var að ráða vel hæfan og þaulkunnugan Íslending í þjónustu félagsins. Fyrir valinu varð Matthías Þórðarson, skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Skyldi hann gerast framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi þegar er það væri formlega stofnað, og annast vélbátarekstur allan, er þar yrði.

Sandgerði

Sandgerði – nýr viti í smíðum.

Haustið 1907 var smiðshöggið rekið á félagsstofnunina. Langstærstu hluthafarnir voru D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg og J. Balslev, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Auk þess voru ýmsir minni hluthafar, þar á meðal nokkrir Íslendingar. Hlutaféð var ákveðið 300 þús. kr., en mátti auka það að vild upp í 1/2 millj. kr. Skyldi félagið hafa aðalbækistöð í Kaupmannahöfn. Í stjóm þess voru kjörnir eftirtaldir menn: D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg, formaður og meðstjórnendur Joh. Balslev, stórkaupmaður, J. Krabbe, yfirréttarmálafærzlumaður og C. Trolle, sjóliðsforingi, allir í Kaupmannahöfn og Ágúst Flygenring, kaupmaður í Hafnarfirði.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerðarhús Haraldar Böðvarssonar.

Eitthvert fyrsta verkefnið, sem Lauritzen, konsúll varð að leysa af höndum, var að kynna sér það sem rækilegast, hvar skilyrði til útgerðar væru einna vænlegust við strendur landsins. Ætlunin var sú, að reka vélbátaútgerð í stórum stíl, en auk þessi átti að stunda veiðar á togurum og línugufuskipum. Þá var og til þess hugsað, að notfæra sér síldarmiðin fyrir Norðurlandi. Ýmsir staðir komu til athugunar.
Eftir nokkra könnun var ákveðið að Sandgerði í Miðneshreppi yrði fyrir valinu sem fiskveiðistöð fyrir vélbáta, er stunda áttu þorskveiðar með línu bæði vor og sumar. Það var talið af kunnugum, að skilyrði væru einhver hin beztu, sem hugsast gæti. Þá mun það og hafa ráðið nokkru um val staðarins, að þar var íshús þeirra Hjálmarsson frá Mjóafirði, og stóð nú autt. Var því engum erfiðleikum bundið að fá það keypt fyrir lítið fé. Samningar tókust einnig greiðlega við eiganda jarðarinnar, Einar Sveinbjörnsson. Var síðan hafizt handa um framkvæmdir.
Þessu næst var Hafnarfjörður valinn að bækistöð fyrir botnvörpuútgerðina, en Siglufjörður sem síldarstöð.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Aðalstjórnandi þessa nýja fiskveiðifélags var ráðinn J. Balslev, og hafði hann skrifstofur sínar í Kaupmannahöfn. Auk hans gengu í þjónustu félagsins þrír framkvæmdastjórar. Einn þeirra, Adamsen að nafni, skyldi hafa aðalstjórn á útveginum í Esbjerg, en þar átti að vera ein deild félagsins. Annar, S. Goos, hafði aðalumsjónina hér á landi, og annaðist reikningsfærzlu. Hann bjó í Hafnarfirði. Hinn þriðji, Matthías Þórðarson, átti að hafa umsjón með vélbátaútgerðinni í Sandgerði, eins og fyrr segir.
Innarlega við Sandgerðisvík að austanverðu, út frá Sandgerðistúninu, liggur hólmi nokkur, umflæddur á flóði. Nefnist hólmi þessi Hamar, enda eru þar víða berar klappir. Á hólma þessum lét hið nýja útgerðarfélag reisa hús allstór. Voru það bæði fiskhús, salthús og bækistöð til að beita í línu fiskibátanna. Framan við Hamarinn var gerð steinbryggja, 10 fet á hæð og 75 álnir á lengd. Öll var bryggja þessi steypt og hlaðin úr höggnu grjóti. Var grjótið höggvið úr klettum þeim, sem næstir voru.

Sandgerði

Sandgerði – hús og trébryggja.

Þá var gerð trébryggja frá landi og niður á Hamarinn. Var lengd hennar um 70 álnir. Fiskhúsið á Hamrinum þótti myndarleg smíð. Það var 35 álnir á lengd og 16 álnir á breidd. „Bólverk“ allstórt eða fiskaðgerðarsvæði var steypt fyrir framan húsið. Breidd þess var 10 álnir.
Þá var ennfremur reist stórt hús, — eða öllu heldur tvö hús sambygð —, fyrir ofan Hamarinn. Var annað húsið íbúðarhús fyrir verkafólk, skrifstofur og eldhús, en í hinum hlutanum var verzlun og vörugeymsla.
Allar þessar byggingar voru reistar að fyrirsögn Matthíasar Þórðarsonar og undir umsjón hans. Tók verkið skamman tíma og var að mestu leyti lokið á fimm mánuðum. Mannvirki þessi öll munu ekki hafa kostað nema um 50 þús. kr.

Bágborin sjómennska

Sandgerði

Sandgerði – Nelly við bryggju.

Um miðjan marzmánuð 1908, kom fyrsta skipið frá félagi þessu til að fiska hér við land. Var það togari er „Britta“ hét. Á togara þessum voru að mestu leyti íslenzkir hásetar, en skipstjóri og stýrimaður danskir. Ráðinn var íslenzkur fiskiskipstjóri, og fór „Britta“ síðan út á veiðar. Litlu síðar kom annað skip félagsins, línuveiðarinn „Nelly“. Á „Nelly“ voru skipverjar allir Norðmenn. Bæði voru skip þessi gömul og illa löguð til fiskveiða hér við land. Afli reyndist nauðatregur, og mun félagið hafa orðið fyrir allmiklum skaða á þessari útgerð.
Frá því um miðjan júlímánuð og þar til í septemberbyrjun, stunduðu „Britta“ og ,,Nelly“ síldveiðar frá Siglufirði. Afli var góður, en síldin seldist fyrir smánarverð. Fór því svo, að síldarleiðangurinn svaraði naumast kostnaði.

Sandgerði

Sandgerði – síldarsöltun.

Í byrjun maímánaðar komu fyrstu Danirnir, sem fiska áttu frá Sandgerði, og höfðu með sér tvo opna vélbáta. Um miðjan mánuðinn komu tólf vélbátar frá Esbjerg, 15—20 smálestir að stærð. Áttu þeir einnig að stunda línuveiðar frá Sandgerði. Bátar þessir voru allt tvístöfnungar, vel smíðaðir og góðir í sjó að leggja, en vélarnar reyndust gersamlega ófullnægjandi. Var það hvort tveggja, að þær voru of litlar og illa gerðar, svo að bilanir máttu heita daglegt brauð. Lágu sumir bátarnir stöðugt vélvana og í algerum ólestri. Var og ekki hlaupið að því að fá viðgerð í fljótu bragði, og mátti einu gilda hvort stórt var eða smátt, sem úr lagi hafði gengið. Þurfti að leita með hvað eina til Reykjavíkur, en það reyndist tafsamt og kostnaðarmikið.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Væri það lítilræði, sem bilað hafði, var einatt til þess gripið að senda röskan mann gagngert með hinn brákaða hlut til Reykjavíkur, en það var hvorki meira né minna en fullur tólf stunda gangur. Mátti því ekki slæpast ef komast átti á einum degi hvora leið, sízt þegar bera þurfti allþunga pinkla, sem oftast var.
Skipverjar á þessum józku bátum voru allir danskir. Aðeins var ráðinn einn íslenzkur leiðsögumaður eða fiskiskipstjóri, sem átti að,,lóðsa“ allann flotann á fiskimiðin. Í landi voru 40—50 íslenzkar stúlkur, sem beittu línuna, 4—5 stúlkur við hvern bát. Útgerðinn gekk mjög skrykkj ótt, og mátti raunar segja að á flestum bátunum færi allt í handaskolum. Voru það ekki nema opnu bátarnir tveir, sem komust upp á lag með að fiska svo að nokkru næmi. Þar voru aðeins þrír menn á sjónum, tveir Danir og einn Íslendingur á hvorum. Allir fiskuðu bátarnir með línu. Bar margt til þess, hversu lélegur árangur varð af tilraun þessari. Þess er fyrr getið, hve lélegar vélar bátanna voru.

Síldarnet

Síldarnet.

Mátti heita að tveir þeirra lægju rígbundnir við bryggju allt sumarið, og komust ekki út fyrir höfnina án þess að allt endaði með ósköpum og skelfingu. Þá voru yfimennirnir algerlega ókunnugir öllum staðháttum hér við land, og höfðu ekki hugmynd um hvernig hentast væri að bera sig til við línuveiðar á Íslandsmiðum.
Enn kom það til, að veiðar þessar voru reyndar að sumarlagi, en þá er jafnan minnstur fiskur í Faxaflóa og út af Reykjanesi. Loks er þess að geta, að hinir dönsku sjómenn reyndust heldur illa. Voru þeir daufir og áhugalausir um sjósókn, en drukku bæði oft og mikið. Sá var fastur siður þeirra, að róa aldrei á laugardögum.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Vildi það við brenna hjá sumum a. m. k., að þeir fleygðu línunni örgrunnt á leirinn á föstudagskvöldum, til að vera kamnir í land um hádegi á laugardögum; þá stokkuðu þeir upp línuna og fóru í betri brækurnar. Síðan var efnt til dansleiks í beitingaskúrunum á laugardagskvöldum. Þangað komu að sjálfsögðu beitingastúlkurnar og auk þeirra allmikið meyjaval úr nágrenninu. Drykkjuskapur var mikill og enginn skortur á áfenginu. Var sá siður hafður, að blikkfata, full af brennivíni, stóð á hentugum stað, nálægt því sem dansinn var troðinn, og spilkoma eða bolli hjá fötunni. Fékk sér þar hver sem vildi, og var sótt í skjóluna eftir þörfum, líkt og þegar farið er til brunns eftir vatni.
Oft var ,,ástand“ mikið um helgar, og þótti einna hentugast form þess að fara í „eggjaleit“ upp um heiði, en þar verptu fáeinar kríur. Alla sunnudaga slæptust Danir í landi og gerðu ekki handarvik. Síðan beittu þeir á mánudögum og réru þá loks um kvöldið. Þótti Íslendingum þetta helzt til mikið gauf og slóðaskapur, enda voru þeir meiri og harðvítugri sjósókn vanir.
Að lokinni sumarvertíðinni 1908, fór Lauritzen, konsúll að kynna sér það, hvernig félaginu hafði reitt af. Kom þá í ljós það, sem raunar var áður vitað, að stórtap hafði orðið á allri útgerðinni. Urðu þetta slík vonbrigði fyrir eigendur og stjórnendur félagsins, að þeir ákváðu að hætta allri útgerð við Ísland og selja fasteignir þær, sem félagið átti þar. Varð þetta til þess, að löngun Dana til að ráðast í útgerðarbrask á Íslandi rénaði stórum.

(Í annarri grein verður sagt frá útgerð Matthíasar Þórðarsonar, Lofts Loftssonar og Haraldar Böðvarssonar).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 8. tbl. 01.08.1945, Útgerðarstaðir og verstöðvar – Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 172-179.

Sandgerði

Fiskimið á Íslandi fyrrum.

Sandgerði

Gísli Sigurðsson fjallar um „Forvitninleg hús á förnum vegi“ í Lesbók Morgunblaðsins 1999, þar á meðal „Efra-Sandgerði“ í Sandgerðisbæ.

Sandgerði

Sandgerði – örnefni.

Þegar gamli Sandgerðisbærinn (Neðra-Sandgerði), sem stóð um aldir, eða allt frá því um 1200, niður við sjóinn skammt ofan við Hamarsundið í Sandgerðisvík, upp af Stokkavör ofan við núverandi Sjávarbraut, hætti að þjóna hlutverki sínu sem útvegsbændabýli þar sem frá upphafi hafði verið stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt í fengsæl mið, húsakynnin orðin léleg og nýir og bættir atvinnuhættir að hefja innreið sína, keyptu fjársterkir aðilar jörðina. Í stað þess að ætla sér að hýrast í gamla torfhúsakotinu byggðu þeir sér nýtt og stærra hús úr timbri ofar í landareigninni og nefndur Efra-Sandgerði. Upp frá því myndaðist þar umleikis hverfi og síðan bær, sem hefur til langs tíma byggt afkomu sína á útgerð, líkt og var gert fyrrum, en nú með öðrum og með betri áhöldum en áður þekktust.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði – líkan á Byggðasafninu á Garðskaga, gert af Sigurði Hilmari Guðjónssyni.

„Sum hús eiga sér merka sögu, önnur eru bara skrýtin og skemmtileg. Á ferðum sínum um landið hefur blaðamaður Lesbókar átt stefnumót við dálítið öðruvísi hús en þau sem kynnt hafa verið í Lesbók annað veifið.

Þegar komið er til Sandgerðis eftir veginum norðan frá Garðskaga vekur einstakt hús athygli á útmörkum bæjarins. Sandgerðingar búa í einbýlishúsum og þau eru yfirleitt steinsteypt og bera öll merki þessarar aldar og nútímans. En þetta bárujárnsklædda og blámálaða hús, sem heitir Efra-Sandgerði, vísar aftur til 19. aldar, en ber jafnframt með sér að einhver annast um það af kostgæfni.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði. Ljósmynd frá ljósmyndasafni Akraness.
Texti: Efra-Sandagerði, við norðurhlið og er það elsta húsið í Sandgerði, byggt árið 1883 Frá vinstri: Óþekktur, óþekktur, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekktur, óþekktur, Sturlaugur Haraldsson Böðvarsson (1917-1976), óþekkt, Ingunn Sveinsdóttir (1887-1969), óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt og óþekkt.

Það kemur raunar í ljós þegar að er gáð, að Efra-Sandgerði er elzta húsið í Sandgerði og að það á sér 116 ára sögu. Sú saga hófst með skipsstrandi sem varð happafengur fyrir húsakost í næsta nágrenni líkt og skipsstrandið nokkru síðar austur í Selvogi sem varð til þess að Árnesingar fengu ódýran húsavið.
Það var árið 1881 að kaupfarið James Town rak mannlaust að landi við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes. Ekki hef ég rekizt á heimildir um hvað varð af skipshöfninni; hvort henni var bjargað í annað skip, eða hvort allir fórust. En svo mikið er víst að skipið var hlaðið húsaviði. Segja heimildir að þar hafi verið um 100 þúsund plankar og áttu menn erfitt verk fyrir höndum að koma farminum í land. En allt þetta timbur var vitaskuld eins og hver önnur himnasending, því mikill skortur var á timbri. Á næstu mánuðum risu mörg myndarleg timburhús á Suðurnesjum og Efra-Sandgerði var eitt þeirra.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði 2025.

Húsbyggjandinn þar var Sveinbjörn Þórðarson útvegsbóndi í Sandgerði, fæddur 1817 á Járngerðarstöðum í Grindavík, þá talinn annar auðugasti maður á Suðurnesjum á eftir Katli Ketilssyni í Kotvogi í Höfnum. Hann gerði út marga báta og átti auk þeirra nokkur þilskip. Litlar heimildir er að hafa um byggingu Efra-Sandgerðis en séra Sigurður B. Sívertsen segir í Suðurnesjaannál sínum að mörg hús hafi verið í smíðum haustið 1883, „þeirra mest Sandgerði hjá Sveinbirni bónda“.
Sími var fyrst lagður suður til Sandgerðis 1915 og þá í húsið Efra-Sandgerði, sem um tíma varð símstöð í plássinu. Enda þótt grunnflötur hússins sé aðeins um 60 fermetrar var oft þétt setinn bekkurinn í húsinu, en það var þó fremur regla en undantekning á fyrstu áratugum aldarinnar.

Efra-Sandgerði

Seinna ankerinu af James Town komið fyrir við Efra-Sangerði árið 2010. Þetta var vel við hæfi því viðurinn í húsinu er reki frá skipinu 1881.

Fyrir utan heimilisfólk fengu sjómenn á vertíðum að búa í húsinu og þar að auki voru þar 3-4 vinnukonur sem bjuggu í „stúlknaherberginu“.
Tvær stofur voru á jarðhæð, „Hornstofan“ og „Laufeyjarstofa“. Í suðurenda var stúlknaherbergið en þrjú herbergi á loftinu. Kolaofn var í stofunni og engin önnur upphitun, en í einangrun hafði verið notaður mór og ýmis skonar dót; þar á meðal fannst skinnskór. Oft var kalt í Efra-Sandgerði; einnig það var regla fremur en undantekning í húsum af þessu tagi. Í viðbyggingu að norðan var upphaflega hlóðaeldhús og barst þaðan reykur upp á loftið; var stundum talað um „svartaloft“ og „svartagang“. Spölkorn sunnan við húsið voru hlaða, hesthús og 8-9 kúa fjós, en mjólk var seld til bátanna í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – hluti tófta gamla Sandgerðisbæjarins.

Svo fór að Efra-Sandgerði þótti ekki íbúðarhæft og lengi stóð húsið mannlaust og vildu sumir rífa það eða brenna. Af því varð þó ekki og svo fór fyrir 20 árum að Lyonsklúbburinn í Sandgerði eignaðist húsið og þar er nú félagsheimili klúbbsins.
Á síðustu tveimur áratugunum hefur verið unnið að endurgerð Efra-Sandgerðis og er nú aðeins lítilháttar verk eftir á loftinu. Allir gluggar hafa verið endursmíðaðir í upprunalegri gerð, nema hvað þeir eru tvöfaldir og komin er hitaveita í stað kolaofnsins og veggir einangraðir á nútímavísu. Upprunalega var standandi timburklæðning utan á húsinu úr 2,5×7 tommu borðum, en með tilkomu bárujárns fyrir aldamótin var húsið járnklætt og er það enn.
Fyrir Lyonsklúbbinn og Sandgerðinga alla er sómi að Efra-Sandgerði, húsinu sem speglast í góðu veðri í Kettlingatjörn og er ólíkt öllum öðrum húsum í bænum.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13.11.199, Forvitnileg hús á förnum vegi, Efra-Sandgerði, Gísli Sigurðsson, bls. 12.
Efra-Sandgerði

 

Halakot

Í Víkurfréttum 1998 segir af „Aldargömlum báti endurbyggðum„. Um er að ræða svonefndan „Halakotsbát„, sem allt og fáar sagnir eru til um – en er þó samt sem áður enn til:

Halakot

Halakotsbáturinn.

Ragnar Ágústsson í Halakoti á Vatnsleysuströnd hefur látið endurbyggja nær aldargamlan bát og hefur komið honum fyrir á túninu við heimili sitt. Báturinn, tveggja manna far, var smíðaður árið 1902 af Guðmundi Jónssyni bátasmið og er báturinn með sunnulenska laginu. Guðmundur var mikill hagleikssmiður og segir Ragnar að báturinn sé mjög vandaður. Báturinn var gerður út frá Halakoti. Honum var róið á haustin en einnig á gráslepputímanum. Gert var að fisknum á klöppunum í fjörunni og hann saltaður í húsi í fjörukambinum. Stærri bátar voru síðan á sjálfri vertíðinni.

Kálfatjarnarbátur

Kálfatjarnarbáturinn t.v. og Halakotsbáturinn t.h. í sjávarhúsinu ofan Halakotsvarar.

Ragnar sagði að þessi bátur hafi verið mikið notaður í ferðir frá Halakoti á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar, þar sem að í þá daga hafi ekki verið kominn vegur frá Hafnarfirði til Keflavíkur og samgöngur á sjó því verið fljótlegri en að fara á hestum yfir hraunið.

Í sjóhúsinu eru bæði Halakotsbáturinn og Kálfatjarnarbáturinn, sem er í eigu Minjafélags Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
-Víkurfréttir, 26. tbl. 02.07.1998, Aladargamall bátur endurbyggður, bls. 4.

Halakot

Halakotsbáturinn t.v. og Kálfatjarnarbáturinn t.h.

Sandgerðisviti

Fyrstu hafnarframkvæmdir í Sandgerðisvík hófust árið 1907 á vegum Ísland-Færeyjarfélagsins, sama ár kom fyrsti vélbáturinn sem gerður var út frá Suðurnesjum, sá hét Gammur RE 107 og var gerður út frá Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerðisviti fyrrum.

Árið 1914 hófu þrír menn frá Akranesi útgerð í Sandgerði, þeir Haraldur Böðvarsson, Þórður Ásmundarson og Loftur Loftsson. Innsiglingarviti var byggður árið 1916 fyrir Sandgerðishöfn, timburhús á steinsteyptri undirstöðu. Á gólfi ljóshússins var borð og á því tveir steinolíulampar með holspeglum. Árið 1921 var byggður innsiglingarviti úr steinsteypu í stað þess gamla.

Sandgerðisviti var byggður við enda fiskverkunarhúss Haralds Böðvarssonar, til að leiða skip til Sandgerðishafnar um hið þrönga Hamarssund. Byggður var 9 metra hár turn og á hann var sett ljóshús úr plötujárni sem logsoðið var saman á járnsmíðaverkstæði ríkisins og á það var sett linsa og gasljóstæki.
Sandgerðisviti var hækkaður frá steinsteypta handriðinu á upphaflega vitanum um 10 m árið 1945, en sama ljóshús og búnaður notaður áfram.
Raflýsing var sett í vitann 1949 og ný linsa árið 1965.
Vitinn var hvítur allt til ársins 1961 en þá var hann málaður gulur.
Árið 1983 fékk Sandgerðishöfn vitan afhentan til eignar og reksturs.

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Stafnes

Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Þann 28. febrúar 1928 varð hörmulegt sjóslys þegar togarinn Jón forseti strandaði og fórst við Stafnes. Þá fórust 10 skipverjar og 15 skipverjum var bjargað af heimamönnum og fleirum sem komu að björguninni.

Stafnesviti

Stafnesviti fyrrum.

Þetta sjóslys hafði mikil áhrif á alla sem að strandinu komu og varð til þess að Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði var stofnuð sama ár, 1928. Hún er fyrsta sjóbjörgunarsveit landsins sem stofnuð var innan Slysavarnarfélags Íslands, nú Landsbjörg. Sigurvon hefur sinnt öryggis- og slysavörnum til lands og sjávar frá Sandgerði alla tíð síðain.

Stafnesviti var bygður árið 1925 á Stafnesi, milli Hafna og Sandgerðis. Í fyrstu var notað gasblossatæki en árið 1956 var vitinn rafvæddur. Anddyri var byggt við vitann árið 1932. Vitinn var hvítur í upphafi með rautt lárétt band ofarlega til að ayðkenna hann sem dagmerki. Árið 1962 var vitinn málaður gulur.

Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Útróðrar héldust þar að nokkru marki fram til 1945, en lítil eftir það.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Hólmbergsviti

Hólmabergsviti var reistur árið 1956 en tekinn í notkun árið 1958. Hann var einn þriggja vita sem reistir voru eftir sömu teikningu Axels Sveinssonar, hinir eru í Seley og Vattarnesviti.

Hólmbergsviti

Hólmbergsviti – skemmdarverk unnin á vitanum.

Vitinn stendur á Hólmsbergi norðan við Helguvík í landi Suðurnesjabæjar. Á fyrstu árum Hólmsbergsvita voru unnin skemmdarverk á vitanum. Í frétt Morgunblaðsins 4. maí árið 1958 og 24. mars árið 1959 er sagt frá því þegar mikil spjöll voru unni á Hólsbergsvita. Skotið var úr rifflum á hurð vitans og á ljóskerahúsið. Ári síðar voru enn unnin skemmdarverk á Hólmabergsvita, með grjótkasti. Gluggi brotnaði sem hefði getað haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef súgur hefði komist að ljósinu en gasljós var í vitanum á þessum tíma.
Vitaverðir Garðskagavita, þeir Sigurbergur Helgi Þorleifsson og Guðni Ingimundarson, höfðu eftirlit með hinum sjálfvirka Hólmsbergsvita. Vitinn var ekki undir stöðugri gæslu heldur var farið þangað einu sinni í viku til eftirlits.
Steypt var upp í öll gluggaopin síðar meir til að verjast skemmdarverkum.

Hólmsbergsviti

Hólmsnesviti 1956.

Fram

Á Byggðasafninu á Garðskaga í Garði er áraskipið Fram. Við hlið skipsins er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

Fram

Fram.

„Talið er að sexæringurinn Fram sé smíðaður árið 1887. Skipið er með Engeyjarlagi. Þorsteinn Gíslason útvegsbóndi í Melbæ í leiru, síðar a Meiðastöðum í Garði, eignaðist Fram fyrir aldarmótin 1900. Um aldarmótin byrjar Halldór, sonur Þorsteins, að sækja sjó með föður sínum á skipinu, þá á fjórtánda ári. Sautján ára gamall er Halldór orðinn formaður á Fram. Seinna selur Þorsteinn skipið til Vatnsleysustrandar.
Í kringum 1930 kaupir Halldór Þorsteinsson, þá orðinn útvegsbóndi í Vörum í garði, Fram aftur í Garðinn og lætur þá setja vél í skipið af grerðinni „Solo“ og síðar „Gray“. Skipið er svo gert út frá Vörum. Gísli, sonur Halldórs, byrjar einnig sjómennsku sína á Fram og er formaður á skipinu ó nokkur ár. Þorvaldur, bróðir Gísla, byrjaði einnig sjómennsku sína á Fram, þá á sextánda ári. Árið 1940 lætur Halldór son sinn, Vilhjálm, hafa skipið og gerði Vilhjálmur Fram út um árabil. Síðastur til að róa á Fram var Sigurður, sonur Vilhjálms, en um 1960 var bátnum lagt.
Þorvaldur Þorvaldsson, sonur Þorvalds Halldórssonar í Vörum, annaðist allar endurbætur á skipinu undir leiðsögn Gunnars Marels Eggertssonar.“

Fram

Áraskipið Fram á Byggðasafninu í Garði.

Stekkjarkot

Stekkjarkot í Njarðvík var þurrabúð á árunum 1860 til 1924. Skömmu eftir 1990 ákváðu stjórnendur Njarðvíkurbæjar að endurbyggja kotið, sem þá hafði farið í eyði. Kotinu var ætlað endurspegla önnur slík dæmigerð í Víkunum á 19. öldinni.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – Teikning unnin af Haraldi Valbergssyni.

Í Dagblaðið Vísir árið 1993 segir frá að „Njarðvíkurbær fær fé úr Atvinnutryggingarsjóði, 2.5 milljónir í torfbæ„:
„Eitt af verkefnum Njarðvíkurbæjar á þessu ári var að reisa torfbæ fyrir 2,5 milljónir króna rétt við Fitjar í Njarðvík. Fé til framkvæmda var að hluta tíl fengið úr Atvinnutryggingasjóði.
Torfbæir sem þessi hafa einnig verið kallaðir þurrabúðir og voru notaðir sem híbýli sjálfstæðra sjómanna hér áður íyrr. Þurrabúöir voru mjög látlausar byggingar og fátæklegar á að líta og þess vegna vekur það óneitanlega mikla furðu að kostnaðurinn við framkvæmdina skuli vera 2,5 milljónir.
Stekkjarkot„Það kostar auðvitað sitt hafa menn í vinnu í þrjá mánuði en við vorum með fimm menn af atvinnuleysisskrá í vinnu og einnig tvo sérfræðinga,“ sagði Kristján Pálsson, bæjarstjóri Njarðvíkur. „Við notuðum m.a. rekavið hérna úr fjörunni í bygginguna en svo er alls kyns flutningskostnaður og efni inni í þessu.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot – húsbændur koma úr róðri í Stekkjarkotsvör.

Torfbærinn hefur hlotið nafnið Stekkjarkot, eftir síðustu þurrabúðinni í Njarðvík. Hann er 93 fermetrar að grunnfleti og 37 fermetrar að innanmáli.
Fyrstu heimildir í manntali um ábúð í þurrabúð eru um 1860 en talið er að búseta í Stekkjarkoti hafi lagst niður um 1924.
Það var Tryggvi Gunnar Hansen hleðslusérfræðingur sem hafði yfirumsjón með byggingunni.“

Í Víkurfréttum 1993 er síðar fjallað um Stekkjarkot er „Nálgast endanlega mynd„:

Stekkjarkot

Stekkjarkot í byggingu 1993.

„Stekkjarkot, en svo heitir bærinn sem Njarðvíkingar eru að endurreisa á Fitjum, tekur æ meira á sig endanlega mynd. Mun ætlunin vera að vígja húsið um miðjan ágúst og mun Forseti Íslands frú Vigdís Finnbogadóttir vera viðstödd þá athöfn. En hún kom einmitt að rústunum á afmælishátíð Njarðvíkur á síðasta ári.
Upprunalega býlið Stekkjakot fór í eyði um 1924 og voru síðustu ábúendur þar móðurbróðir Ingvars og Rúnars Hallgrímssona og þeirra systkina í Keflavík svo og móðurbróðir Jóns Pálma Skarphéðinssona og þeirra systkina, svo einhverjir séu nefndir.“

StekkjarkotÍ Víkurfréttum síðla sama ára segir; „Stekkjarkot, þakið lak á nokkrum stöðum„:
„Mest allt torf og dúkur var rifinn af þaki torfbæjarins Stekkjarkots í Njarðvík í síðustu viku vegna leka. Að sögn Kristjáns Pálssonar, bæjarstjóra í Njarðvík, lak þakið á nokkrum stöðum á milli gangs og baðstofu. Dúkur er undir torfinu er hann virðist hafa lekið á nokkrum stöðum. Það var því ráðlegt að skipta um hann strax, frekar en að geyma verkið fram á næsta vor.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot – Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir á spjalli við þœr Helgu
Óskarsdóttur og Helgu Ingimundardóttur í baðstofu Stekkjarkots.

Enn sama ár fjalla Víkurfréttir um Stekkjarkot og þá um vígslu byggingarinnar, þ.e. í ágústmánuði þetta ár undir fyrirsögninni „Svefnsstaður fyrir brúðhjón eða ferðamannstaður„:
„Stekkjarkot í Njarðvík var m.a. formlega tekið í notkun síðasta fimmtudag. Viðstödd athöfnina var forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir. Við þetta tækifæri var boðið upp á ýmislegt er minnir á garnla tíma, þ.e. þá tíma er Stekkjarkot var í ábúð, en talið er að byggð hafi lagst þar niður 1924.
Uppbygging hússins hefur tekist mjög vel og er þeim er þar lögðu hönd á plóginn til sóma. Það mátti heyra á fjölmennum hópi viðstaddra.
Fram kom m.a. í orðum Kristjáns Pálssonar, bæjarstjóra í Njarðvík við þetta tækifæri að ýmsar hugmyndir hefðu komið upp um notagildi bæjarins. T.d. mætti nota hann sem byggðarsafn, kennslustað fyrir skóla, ferðamannastað
eða jafnvel svefnstað fyrir brúðhjón svo eitthvað sé nefnt.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot 2000.

Í Faxa árið 1993 er frásögn „Af Jóni og Rósu, Ástarsaga úr Stekkjarkoti„:
„Endurbygging Stekkjarkots gefur okkur tækifæri til að velta vöngum yfir því veraldlega umhverfi sem forfeður okkar og mæður bjuggu í og skópu. Reyndar er ekki síður auðgandi að huga að lífshlaupi sama fólks og lífsskilningi þess. Áhugi okkar kviknar ekki síst þegar ljóst verður að Stekkjarkot var byggt af fólki í eldheitu ástarævintýri, þar sem fornar dyggðir eins og heiður og hyggindi urðu kveikja að áhugaverðu lífshlaupi.
Áður en ástarsagan verður sögð má hafa hugfast að í Stekkjarkoti bjuggu þrjár fjölskyldur á ólíkum tímum og óskyldar. Sú fyrsta, er reisti Stekkjarkot bjó líklega á árunum 1857-1887.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – grunnteikning.

Önnur fjölskylda, ætt Imbu í Stekk og Magnúsar Gíslasonar, endurreisti Slekkjarkot og bjó þar frá 1917-1921, ættmenni þeirra eru mörg á Suðurnesjum. Þriðja fjölskylda, þau Bjarni í Stekk og Björg Einarsdóttir bjuggu svo seinust ábúenda á árunum 1921-1924, þau eignuðustu ellefu börn, mörg þeirra búa og bjuggu á Suðurnesjum, við getur farið nærri um að afkomendur eru fjölmargir.
Vonandi gefst síðar tækifæri til að segja sögur er tengjast þessum tveimur seinni fjölskyldum og skal nú sögð sagan af tilurð Stekkjarkots og fyrstu ábúendunum, þeim heiðurshjónum Jóni Gunnlaugssyni og Rósu Ásgrímsdóttur.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti – búr og eldiviðargemsla innst.

Jón og Rósa er tilheyrðu bæði Kálfatjarnarsókn þótt Jón hafi átt heimili á Vatnsleysuströnd en Rósa nærri Hafnarfirði, reyndar verður að hafa í huga að Njarðvík út að Vatnsnesi tilheyrði einnig Kálfatjarnarsókn á þessum tíma sem um er rætt (fyrstu áratugum eftir 1800). Nú verður vart talið til tíðinda að fólk felli hugi saman eða verði ástfangið upp fyrir haus, en svo sem títt var á þessum tíma var ekki hverjum sem er leyft ástfengi við hvern sem er. Reyndar má skilja setninguna að framan á marga vegu og auðvitað er hún enn að nokkru leyti í gildi!

Stekkjarkot

Stekkjarkot – hlóðareldhús.

Hvað sem öllu líður þá virtust Rósa og Jón ekki mega eigast. Hverjir voru mestu áhrifavaldar þessa og hvers vegna sá rembihnútur var settur á ástina verður ekki fullyrt með góðu móti. Jón var reyndar af ríkum ættum og stóð svo á málum að faðir Jóns hét honum arfleysi ef hann giftist Rósu.
Þá sannast að góð ráð eru dýr og eins og síðar sannast var Rósa meira virði en nokkurt fé. Sumir vildu nú halda því fram að svo muni um fleira fólk. Jón gat auðvitað ekki fyrir nokkurn mun lifað án Rósu, þau fluttust til Njarðvíkur rúmlega tvítug að aldri og hann arflaus gerður. Ekki verður séð af tiltækum heimildum að Rósa hafi haft með sér heimamund.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – búr.

Ógift koma þau til Innri Njarðvíkur og fá inni og stýra búi að Ólafsvöllum, en Ólatsvellir voru í eign Ásbjarnar Ólafssonar og Ingveldar Jafetsdóttur. Jón mun hafa átt ættir að rekja til Njarðvíkurbænda og því hafa ættingjar hans í Njarðvík skotið skjólshúsi yffr hjónaleysin. Fyrir þá sem vilja vita þá voru Ólafsvellir staðsettir rétt ofan tjarnarinnar í Innri Njarðvík, rústir eru enn greinilegar og liggja við hlið nokkuð kunnara kots kennt við Hólmfast og er á sama svæði. Þó tilviljun ráði og atburðurinn sé hryggilegur, þá var umræddur Hólmfastur hrakinn frá Vatnsleysuströnd af fádæma niðurlægingu, ekki af ást heldur vegna óvæginna upphlaupa danskra kaupmanna. Tilviljun nær líka til þess að það voru forfeður Ásbjarnar á Njarðvíkurhöfuðbólinu er hýstu Hólmfast.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – brunnur.

Jón og Rósa búa að Ólafsvöllum í nokkur ár og eru örugglega búandi þar árið 1855. Jafnhliða byggja þau Stekkjarkot, brunn við kotið og Stekkjakotsvör. Þau eru flutt að Stekkjarkoti fyrir 1860 og hafa þá gifst og eignast tvær dætur. En alls eignuðust þau sjö börn, meir um þau síðar.
Matarkostur var rýr og lifðu þau einkum á trosi, þ.e. soðnum fiskhausum, þunnildum og öðru því sem óseljanlegt var af fiskinum. Þó var grautargerð algeng, drýgð með skarfakáli, fuglasúpur og söl borðuð. Þó segir Guðmundur Á. Finnbogason svo frá í bók sinni Sagnir af Suðurnesjum (bls. 17): „Narfakotsseylan var góður staður, þar voru oft endur á ferð og gott til fanga á haustin. Hentugasti tíminn var seinni hluti dags og um dimmumótin. Þá var oft hægt að fá góða kippu. Eins var það utan Byrgistanga, hjá Stekkjakotsvörinni, þar mátti fá fugl og sel, þegar vel hentaði með veður.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot – fjós.

Jón og Rósa héldu ekki skepnur og Stekkjarkot því kölluð þurrabúð eða tómthús. Athyglisvert er hvað orðið tómt-hús er merkilegt eða þurra-búð, sem greinilega vísar til þess hversu lítilsgild slík kot voru og lífsskilyrði erfið.
Við skulum hafa hugfast að í einhverjum skilningi kusu þau Jón og Rósa sér slíka erfiðleika saman, fremur en meiri veraldargæði hvort í sínu lagi.
Þrátt fyrir augljósa fátækt bjuggu þau börnum sínum menntandi heimili, kenndu þeim lestur, skrift og önnur fræði er við hæfi þóttu. Um þetta efni eru til nokkrar heimildir. Árangur barna þeirra í yfirheyrslum sóknarnefndar, prests og prófasts sýnir að þau stóðu jafnfætis eða framar öðrum börnum í lnnri Njarðvík og þótt leitað væri í nærsveitum. Til dæmis segir svo frá í bréft sem fylgir sóknarmannatali árið 1885 í Njarðvíkursókn, að Guðbjörg Jónsdóttir, úr Stekkjarkoti, þá 13 ára sé vel læs og kver sé útlært, þó kom hún ekki í skólann fyrr en eftir áramót. Ekkert annað barn var þá vel læst en nokkur teljast hafa útlært kverið.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – framhlið.

Önnur heimild segir frá Kristínu systur Guðbjargar og reyndar eldri að þann 19. des. 1874 haft hún orðið hæst þeirra sem voru yfirheyrð. Kristín sótti skóla í Brunnastaðahverfi, sem að líkindum var byggður fyrir fé úr Thorkilliisjóði. Guðbjörg sótti hins vegar skóla í Innri Njarðvík, sem reyndar var ekki annað en húsgarmur og kennsluklefinn er lítil, hrörleg kotnpa, eins og þar stendur.
Prófgreinar Kristínar eru allar athygli verðar en þær voru: kverið, biblíusögur, lestur, skrift, reikningur og hegðun. Hið
athygliverða er að lestur, skrift og reikningur teljast enn prófgreinar, en ástæðulaust þykir að reyna á þekkingu nemenda í biblíusögum og hegðun í dag.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – bakhlið.

Auk Guðbjargar og Kristínar eignuðust Jón og Rósa fimm önnur börn, son sem dó ungur og tjórar dætur, þær voru: Ingunn sem var elst, hún giftist manni frá Blönduósi og fluttu þau til Kanada. Valgerður, næstelst, flutti til Reykjavíkur.
Margrét, var sennilegast fjórða barn þeirra hjóna, veiktist af bólguveiki og var vart hugað líf, á sama tíma bjó í Njarðvík Þórður Guðmundsson (Gudmundssen) læknir, tók hann Margréti að sér og bjargaði lífl hennar. Hún bjó hin síðari ár í Reykjavík, en þá var Þórður fluttur til Vesturheims.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Ein dætra Margrétar, Agústa Kristófersdóttir, hefur verið mímisbrunnur um lífið í Stekkjarkoti. Guðlaug Sigríður var yngst dætranna, en hún var í fyrsta fermingarhópnum í hinni nýbyggðu Njarðvíkurkirkju, sem átti aldarafmæli 18. júlí 1986.
Fjölskyldan í Stekkjarkoti tengdist hinni nýju kirkju á annan og sorglegri hátt, en Jón lést þann 28. feb. 1887 og var hann hinn fyrsti er jarðsunginn var frá hinni nýbyggðu Njarðvíkurkirkju þann 12. mars sama ár.
Fögur ævintýri búa yfir fögru lífi og þegar endir er bundinn á líf jafn yndislegs fólks sem Jóns og Rósu, fer ástin á flug með vonir um fagurt líf öllum til handa.“ – Helga Óskarsdóttir og Ágúst Ásgeirsson

Stekkjarkot

Rétt utan við eystra túngarðshornið í
Stekkjarkoti er jarðfastur steinn. Í honum eru meitlaför. Líklega er steininn fiskasteinn. (Steinn til að berja harðfisk á). Hans er ekki getið í kynningaritinu um Stekkjarkot.

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1999 segir um „Forvitnileg hús á förnum vegi„, þ.e. Stekkjarkot:
„Skömmu áður en komið er til Njarðvíkur og Keflavíkur liggur Keflavíkurvegurinn yfir fornar leiðir sem lágu suður með sjó. Þjóðleiðamót voru við Njarðvíkurfitjar; þar tengdust götur sem lágu til Grindavíkur og Hafna þjóðleiðunumm milli Innnesja og Rosmhvalaness hins forna. Þessi merkilegu þjóðleiðamót við Njarðvík er grasi gróin og horfin. En skammt frá þeim stendur torfbær sem lætur þó lítið yfir sér í móanum og eins víst að þeir sem þeysa eftir Keflavíkurveginum hafi aldrei veitt honum eftirtekt. Þetta er Stekkjarkot.
Ástæðan fyrir því að kotið stendur með prýði, og hefur raunar verið gert upp, er sú Njarðvíkurbæ þótti ástæða til að varðveita þurrabúð, en svo vom nefnd hús eða bæir þeirra sem hvorki áttu ær né kýr. Þar bjuggu sjómenn sem rém á vertíðum, leigðu landskika af bændum, stundum með aðgangi að sjó. Þess vegna er engin gripahús utan bæjarins í Stekkjarkoti, heldur er þar einungis lítil baðstofa með eldhúsi innst, bæjardyram og göngum í skúrbyggingu og einu útihúsi með lægri burst. Þar hefur verið einn fjósbás, geymsla, útieldhús og eitt rúmstæði. Baðstofugaflinn er klæddur með reisifjöl, svo og gaflinn á útihúsinu.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – loftmynd.

Stekkjarkot var upphaflega byggt 1856-60 og búið var þar samfleytt til 1887. Þá lagðist. Stekkjarkot í eyði um 30 ára skeið, en var endurreist 1917. Fjórum árum síðar var það orðið grasbýli, en svo voru nefnd býli á húsmannslóðum, þar sem vom smávegis grasnytjar. Ekki hafa þær verið umtalsverðar hér, en örlitill túnbleðill er við kotið og grasnytjunum hefur fylgt sá sólargeisli að mjólkurkýr hefur komið í kotið og útihúsið þá verið notað sem fjós. Vatn var sótt í brunn og annað sem fylgdi Stekkjarkoti var bátaskýli og saltbyrgi við Stekkjarkotsvör.
Inn úr bæjardyranum er komið breið göng sem hafa nýzt sem geymsla, m.a. annars fyrir vatnstunnu og áhöld vegna sjósóknar. Þaðan er gengið til vinstri inn í eldhús með kolaeldavél frá síðustu árum búskapar í kotinu og þaðan inn í baðstofuna þar sem fjögur rúmstæði em meðfram veggjum. Undir baðstofugólfinu er kjallari þar sem matur var geymdur, en síðast var búið í Stekkjarkoti 1924.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – Víkingasafnið í bakgrunni.

Kotið var ásamt hluta garðsins byggt upp undir stjórn Tryggva Hansen, sem er landskunnur hleðslumaður, en lokið var við garðinn á síðasta ári og er hann mikilfenglegur. Það verk unnu þeir Jón Sveinsson og Jón Hrólfur Jónsson undir leiðbeiningum og verkstjórn Víglundar Kristjánssonar. Er þarna enn eitt gleðilegt dæmi um að hlaðnir garðar sjást nú að nýju í vaxandi mæli og þá ekki sízt vegna þess að ný kynslóð hleðslumanna hefur tileinkað sér gömul og allt að því týnd vinnubrögð við vegghleðslur.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Í Fréttablaðinu 2007 er fjallað um „Gamla tímann í Reykjanesbæ„:
„Torfbærinn Stekkjarkot er við Fitjar, á milli Innri- og Ytri-Njarðvíkur. Búið var á bænum með hléum frá árinu 1857 til ársins 1924. Á fimmtíu ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar fyrir fimmtán árum var ákveðið að endurreisa bæinn, sem staðið hafði í eyði.
„Hér er víkingaskipið Íslendingur, við erum að sýna það og segja sögu þess. Svo er hér líka Stekkjarkot, sem var svokölluð þurrabúð á þeim tíma sem hér var búið,“ segir Böðvar Þórir Gunnarsson, starfsmaður á svæðinu. Stekkjarkot var fyrst reist á árunum 1855 til 1857. Búið var í húsinu með hléum fram til ársins 1924.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – baðstofa.

Þegar Njarðvíkurkaupstaður varð fimmtíu ára var ákveðið að endurreisa kotið. „Það voru rústir hér og mótaði vel fyrir húsinu. Mér skilst meira að segja að sumir af gömlu steinunum hafi verið notaðir aftur,“ segir Böðvar.

Að sögn Böðvars koma margir ferðamenn að skoða kotið og skipið. „Hingað kemur til dæmis mikið af ferðamönnum úr skemmtiferðaskipunum, svo er þetta vinsælt hjá skólabörnum. Á sumrin er opið hérna frá eitt til fimm á daginn, annars eftir samkomulagi.“

Íbúar í Stekkjarkoti
Búseta hófst í Stekkjarkoti árið 1857 og stóð samfleytt til 1887. Kotið var í eyði þar til 1917 þegar það var endurreist. Árið 1921 varð Stekkjarkot grasbýli sem gaf íbúum rétt til þess að halda einhverjar skepnur. Búseta lagðist endanlega af í Stekkjarkoti árið 1924.

1857-1887: Jón Gunnlaugsson og Rósa Ásgrímsdóttir
1917-1921:  Magnús Gíslason og Ingibjörg Guðmundsdóttir
1921-1924: Bjarni Sveinsson og Björg Einarsdóttir.

Heimildir:
-Dagblaðið Vísir, 144. tbl. 30.06.1993, Njarðvíkurbær fær fé úr Atvinnutryggingarsjóði, 2.5 milljónir í torfbæ, bls. 7.
-Víkurfréttir, 30. tbl. 28.07.1993, Stekkjarkot nálgast endanlega mynd, bs. 4.
-Víkurfréttir, 38. tbl. 30.09.1993, Stekkjarkot, þakið lag á nokkrum stöðum, bls. 3.
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1993, Af Jóni og Rósu, Ástarsaga úr Stekkjarkoti, bls. 122-123.
-Lesbók Morgunblaðsins, 13.11.1999, Forvitnileg hús á förnum vegi, Stekkjarkot, bls. 13.

Stekkjarkot

Stekkjarkot 2025.