Fjárborg, -hús, stekkur, skjólgarður og refagildrur ofan Höfða

Borg

Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um fjárborg, fjárhús og stekk ofan Breiðagerðis og Höfða:

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

„Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólum.
Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

Drjúgan veg ofan Borgar eða rúmlega miðja vegu að Reykjanesbraut eru tveir Geldingahólar með um 300 m bili. Nyrðri-Geldingahóll eða Eystri-Geldingahóll og Syðri-Geldingahóll eða Vestri-Geldingahóll en um þann nyrðri eru landamerki Knarrarness og Breiðagerðis og er sá stærri og grónari en syðri hóllinn. Hólarnir eru nokkuð áberandi í heiðinni og þó sérstaklega séðir frá Reykjanesbraut.
Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti. Skjólgarðurinn er nefndur í landamerkjabréfum Breiðagerðis og Auðna.“

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu II„, segir um Borgina: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá.
Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður. Holtið er í nokkuð gróinni hraunheiði, í hraunklapparmóa.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg. Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr.“

Í sömu skráningur segir m.a. um Litlastekk: „Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn. Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I“ segir um beitarhús á grónum hól skammt austan við Borg: „Um 300 m vestur af Skálholti og stuttu ofan við Strandarveginn er fjárhústóft á grónum hól. Fjárhústóft er á hólnum, sem er í hraunmóa með moldarflögum. Næst tóftinni er grasi vaxið og þýft.
Tóftin skiptist í fjögur hólf og er líklega torf og grjóthlaðin. Hún er um 13×9 m að stærð, snýr austur-vestur. Vestast er hólf I og er gengið inn í tóftina um það hólf í vesturenda. Það er um 2×3,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur.

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Mikið grjóthrun er inni í hólfinu. Næst austan við það er lítið hólf II sem er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sjást op á því. Hólf III er í austurenda og er það um 4×4 m að innanmáli. Veggir þess eru víðast mjög signir. Óljós inngangur er í austurenda hólfsins. Hólf IV er fast sunnan við hólf I. Það er í brekku og er um 2×3 m að stærð. Það snýr norðvestur-suðaustur og er óljós inngangur í norðausturenda. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,6 m.“
Búið er að planta grenitrjám við tóftirnar.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður – uppdráttur.

Í sömu skráningu segir um Breiðagerðisskjólgarð: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. Skjólgarðurinn er um 1,7 km suðaustan við bæ. Skjólgarðurinn er á háum hól sunnarlega á holti í hraunklapparmóa. Fremur lítill gróður er á þessum slóðum.
Landið lækkar til suðurs niður af holtinu og sést vel af því að Reykjanesbraut.
Grjóthlaðinn skjólgarðurinn er um 11×11 m að stærð. Hleðslan er hrunin og er mesta veggjabreidd um 2 m og mesta hæð um 0,5 m. Mest sjást 2 umför hleðslu. Hleðslan myndar kross og snýr annar armur hans norður-suður en hinn austur-vestur. „

Neðarlega í heiðinni var gengið fram á leifar af þremur hlöðnum refagildrum í misjöfnu ástandi. Í fyrstu virtist vera um fallnar vörður að ræða, en við nánari skoðun, m.a. af umfangi og lögun, virðist augljóst að um refagildrur var ræða. Þær voru í lægðum á milli klapparhæða.

Gangan tók 1 klst og 11. mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir,
2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Refagildra

Refagildra ofan Höfða.