Fornasel
Gengið var í Fornasel ofan við Brunntorfur.
Til að komast þangað þurfti að fara fetið í gegnum þéttan „Brunntorfuskóginn“. Reyndar vildi svo vel til að þessu sinni að fljótleg avar komið inn á forna götu er lá í sneiðing upp Brunntorfuhæðirnar til suðurs. Líklega hefur hér verið „dottið um“ hinn eiginlega Hrauntungustíg, en hann lá með Fornaseli. Ákveðið var þó að ganga norðar og vestar en selstaðan segir til um ef ske kynni að þar leyndust einhverjar mannvistarleifar – sem reyndist rétt. Þegar komið var upp í Vonduhóla blasti myndarleg varða á þeim við, líklega landamerki. Skammt „sunnar“ birtist önnur myndarleg varða á lágum hraunhól. Líklega er um að ræða vörðu við Hrauntungustíginn með stefnu á selið.
Hafa ber í huga að áttir eru þarna mjög varasamar að teknu tilliti til örnefnalýsinga. Í einni slíkri segir m.a.: „Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“ Hér ber tvennt að varast; annars vegar hét þetta sel Fornasel, en Gjáselið er „norðar“, og hins vegar hefur „norður“ greinilega verið „útnorður“, þ.e. bein lína til sjávar. Þá er selsvarðan rétt staðsett.
Vatnsstæðið er við selið, sem verið hefur með tvískiptum húsakosti, sem verður að teljast sjaldgæft í þeim 250 selstöðum er enn má greina á Reykjanesskaganum. Eldhúsið stendur skammt vestan við baðstofuna og búrið. Vestar er stekkurinn og kvíin. Nátthagi er þar skammt vestar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.
Glöggri götu var fylgt út frá selinu til „vesturs“. Eftir stutta göngu framhjá nátthaganum beygði hún til „norðurs“ og fylgdi neðri brún Hafurbjarnarholts áleiðis niður í Katla. Þar, á leiðinni, lá önnur glögg gata þvert á hana, með stefnu frá Gjáseli að Straumsseli. Skammt utar er Gránuskúti (-hellir). Það, að rekja þessar götur frá upphafi til enda, bíður (fljótlega) betri tíma. Líklega mun gatan frá Fornaseli tengjast Gjáselsstígnum við Gjáselsvörðu „norðan“ Gjásels og þverstígurinn mun væntanlega liggja millum seljanna, sem fyrr sagði. Með því er komin bein götutenging milli Gjásels, Straumsels, Óttarsstaðasels og Lónakotssels.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.