Garðabær

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, skrifaði um “Minnisvarða í Garðabæ“:

Alfred Wegener – Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – stöpullinn á Arnarnesi.

Minnismerki um Alfred Wegener og “Landrekskenningu” hans er fremst á Arnarnesi

.Alfred Wegener setti landrekskenningu sína fram á árunum 1908-1912. Hann hafði veitt því eftirtekt að strendur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla býsna vel hvor að annarri. Hið sama átti við um jarðmyndanir og plöntu- og dýrasteingervinga á aðskildum meginlöndum.
Wegener dró þá ályktun að upphaflega hefðu öll löndin myndað eitt meginland, Pangeu. Hann hélt því jafnframt fram að á miðlífsöld, fyrir um það bil 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna, fyrst í tvo meginlandsfleka og síðar í fleiri og væru þeir á stöðugri hreyfingu, sums staðar hver frá öðrum, annars staðar hver að öðrum.
Samtímamenn Wegeners höfnuðu landrekskenningunni enda var fátt sem renndi stoðum undir hana í upphafi. það var ekki fyrr en um 1960 að hún fékk byr undir báða vængi. Það gerðist í kjölfar þess að breskum jarðeðlisfræðingum tókst að túlka rákamynstur sem fram kom við segulmælingar á Reykjaneshrygg. Síðan þá hafa fjölmargar niðurstöður mælinga á jarðskorpunni staðfest kenningu Wegeners enn frekar þannig að nú nýtur hún almennrar viðurkenningar.

Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – splatti á stöplinum; minnismerki um Alfred.

Stöpul þennan reisti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) í aprílmánuði 1930 ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að færa sönnur á landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912. Landrekskenningunni var fálega tekið í upphafi. Nú nýtur landrekskenning Wegeners almennrar viðurkenningar. Alfred Wegener varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi 1930.

Í DV 2017 skrifaði Kristinn H. Guðnason grein með fyrirsögninni “1930 – Wegener reisir stöpul á Arnarneshæð“:
“Alfred Wegener var þýskur stjörnu- og jarðeðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á norðurhveli, sér í lagi á Grænlandi. Árið 1915 setti hann fram hugmyndir um landrek sem urðu forveri flekakenningarinnar sem hefur verið viðtekin síðan árið 1968. Wegener sá að meginlöndin Suður-Ameríka og Afríka passa saman eins og púsluspil og því hlytu meginlöndin að vera á hreyfingu.

Alfred Wegener

Alfred Wegener – minnismerki um “Landrekskenninguna”.

Árið 1930 kom Wegener við á Íslandi á leið sinni til Grænlands í rannsóknarleiðangur. Hann sótti hingað íslenska hesta sem gefist höfðu vel í slíkum leiðöngrum sem burðardýr. Þá fóru Wegener og fylgdarlið hans í æfingaferð yfir Vatnajökul. Stöpulinn á Arnarneshæðinni reisti hann til að prófa landrekskenningu sína en sambærilegur stöpull var síðar reistur á vesturströnd Grænlands. Ferðin til Grænlands endaði hins vegar illa því að Wegener og annar samferðamaður hans létust. Wegener, sem var fimmtugur, reykti mikið og hjartað þoldi ekki álagið í jöklaferðunum.
Samferðamaður hans týndist eftir að hafa grafið Wegener.

Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur segir í samtali við DV að stöplarnir hafi ekki haft neina þýðingu því að þeir séu báðir á sama jarðflekanum. „Hann ætlaði að staðfesta kenningu sína með því að koma aftur mörgum árum síðar og mæla rekið.“

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Skömmu síðar kom annar þýskur fræðimaður, Bernauer að nafni, og gerði sams konar tilraun yfir gosbelti Íslands. „En stríðið kom og rótaði því fyrir þeim og í raun var engin hreyfing á norður-gosbeltinu á þessum tíma. Þetta gerist í rykkjum.“

Árið 1930 var ekki þéttbýli í kringum stöpulinn á Arnarneshæð. Nú stendur hann í mynni íbúðahverfis en margir gera sér ekki grein fyrir því að hann sé hluti af merkum jarðfræðitilraunum.”

Urriðavöllur

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu.

Minnismerki um gróðursetningu við völlinn stendur á Urriðavelli í Urriðavatnsdölum milli golfskálans og vélahúss. Um er að ræða stuðlabergsstöpul með áletrunni “Lundur þessi er gróðursettur í tilefni af Landsmóti Oddfellowa 1994”.

Urriðavöllur
Minnismerkið er um frumkvöðla og er áfest bjargi við skúr ofan golfskálans.
Oddfellowar á Íslandi létu gera þessa plötu til heiðurs þeim Oddfellowum sem gáfu Oddfellowreglunni á Íslandi jörðina Urriðavatn.

Gísli Guðmundsson skrifaði um Urriðavatn (Urriðakot) í fylgiblað Morgunblaðsins 1997 undir fyrirsögninni “Útivistaparadís í Urriðavatnslandi”:
“Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni eignast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.
Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Minnismerkið um frumkvöðlana.

Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri. Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir. Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára; „þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.
En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki. Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.”

Hausastaðaskóli 1792-1812

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

Minnismerki um Hausastaðaskóla er við aðkeyrsluna að Hausastöðum.

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er aflíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistarbarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Árið 1793 var byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn.”

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafði starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði. [Lengri útgáfa á Ferlir.is, sjá HÉR, HÉR og HÉR.]

Minnisvarðinn var reistur 18.10.1978.

Heilsuhælis-félagið

Garðabær

Garðabær-minnismerki; Vífilsstaðir.

Framan við Vífilsstaðaspítala eru þrír uppistandandi stuðlabergsstandar, bundnir saman með keðju. Framan við minnismerkið er skjöldur. “1906 – Heilsuhælis-félagið. Berið hvers annars byrðar. Heilsuhælisfélagið var stofnað 19. nóvember 1906 að forgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis og félögumhans í Oddfellowreglunni Ingólfi. Mikil og almenn samstaða var meðal þjóðarinnar um þetta verkefni. Fjórum árum síðar þann 5. september 1910 var Vífilstaðahælið vígt. Vífilsstaðahælið 1910”.

Undir skildinum er annar skjöldur: “Gefandi Oddfellowreglan á Íslandi. Hönnuðir Jón Otti Sigurðsson – Þorkell Gunnar Guðmundsson. 5 september 2010”.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/gardabaer-minn/

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerkið.