Gísli Sigurðsson – aldarafmæli
Þann 23. júní 2003 var aldarafmæli Gísla Sigurðssonar, fyrrverandi lögregluvarðstjóra, skáta, íþróttamanns, útivistarmanns, örnefna- og minjasafnara, hljómlistarmanns og fyrrum forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Gísli Sigurðsson fæddist að Sólheimum í Hrunamannahreppi 23. júní 1903. Faðir hans, Sigurður Gíslason og móðir, Jóhanna Gestsdóttir, voru þar í vinnumennsku og fóru á milli bæja. Hjónin komu til Hafnarfjarðar árið 1910 og settust þar að. Sigurður stundaði verkamannavinnu og sjómennsku, var í veri, bæði með Ströndinni og í Grindavík. Foreldrar hans voru dugnaðarfólk þótt fátækir væru.
Tólf ára gamall hitti Gísli Stíg Sæland, lögregluþjón og stefnuvott. Tókst með þeim góður vinskapur. M.a. fóru þeir saman alla leið austur að Skálum á Langanesi á vertíð, en þá var Gísli 12 eða 13 ára gamall. Hann hafði sérstaklega orð á því að á leiðinni heim hafi þeir komið við á Seyðisfirði og skoðað þar rafmagnsverksmiðju. Þar sá hann fyrsta rafmagnsljósið og þótti mikið til koma.
Andrés Björnsson las í Útvarpið hugvekju eftir Gísla á jólunum 1961. Helgi Hjörvar hringdi í Gísla að henni lokinni og hældi honum fyrir efnið. Gísla þótti sérstaklega vænt um það. Hugvekjan bar heitið „Fyrsta endurminning mín um jólin“.
Árið 1931 kvæntist Gísli Vigdísi Klöru Stefánsdóttur frá Fitjum í Skorradal, og eignuðust þau tvö börn, Eyjalínu Þóru og Gunnlaug Stefán, og auk þess ólst upp hjá þeim, dóttursonur þeirra, Gísli Grettisson.
Um vorið 1985 vildu íþróttafélögin í bænum bjóða Gísla til samsætis honum til handa, en hann treysti sér ekki vegna lasleika. Gunnlaugur, sonur hans, fór í hans stað. Í samsætinu voru rifjuð upp ýmis merkilegheit varðandi íþróttaferil hans og afrek.
Lögreglumaður – safnvörður (Saga Hafnarfjarðar).
Þorleifur Jónsson lét af starfi lögregluþjóns 1. júlí 1930. Gísli Sigurðsson var ráðinn lögregluþjónn í hans stað. Um haustið tók Jón Guðmundsson til starfa við liðið. Þá voru fyrir þeir Stígur Sveinsson Sæland, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Vegna mikilla fjárhagsvandræða, sem bærinn átti við að glíma af völdum kreppunnar, gerði bæjarstjórn nokkrar sparnaðarráðstafanir haustið 1932. M.a. var þremur lögregluþjónum sagt upp störfum og auglýstar til umsóknar tvær lögregluþjónsstöður. Um þessar tvær stöður sóttu lögregluþjónarnir þrír og voru þær veittar Stíg Sæland og Jóni Guðmundssyni. Reynslan af þessari ráðstöfun varð sú, að veturinn 1932 – 33 varð bærinn oft og einatt að ráða mann til aðstoðar lögreglunni, og varð það síst ódýrara en þó að lögregluþjónarnir hefðu verið þrír á föstum launum. Því ákvað bæjarstjórn að bæta við einum fastlaunuðum manni í lögreglulið bæjarins frá 1. júlí 1933, og var Gísli Sigurðsson á ný ráðinn til starfans.
Gísli var skipaður varðstjóri árið 1948 ásamt Kristni Hákonarsyni. Gísli fékk síðan leyfi frá störfum árið 1957, um hálfs árs skeið. Hinn 1. mars 1968 var Gísli skipaður yfirvarðstjóri. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1. júní 1973.
Íþróttir
Gísli var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Framsókn, 9. júní 1919. Varð hann gjaldkeri hins nýja félags. Í fyrstu var æft á Víðistöðum, en láðst hafði að fá leyfi til þess hjá landeigendum, sem brugðust illa við. Ruddu félagsmenn þá knattspyrnuvöll uppi á Öldum suðvestur af Hamrinum og æfðu þar um skeið, eða þangað til félagið tók á leigu svæðið við vesturenda hraunsins í Víðistöðum. Gísli lék um sinn bakvörð hjá liðinu. Árið 1920 færði félagið sig upp á nýjan knattspyrnuvöll á Hvaleyrarholti.
Þá fóru félagsmenn einnig að æfa aðrar íþróttir, s.s. hlaup og aðrar frjálsíþróttir. Árið 1919 var Knattspyrnufélagið stofnað. Þessi félög, auk nokkurra félaga úr Glímufélaginu Sköflungi, voru síðan sameinuð árið 1922 undir nafninu Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Gísli varð þá féhirðir þess félags. Á íþróttamóti í bænum árið eftir sigraði Gísli í 1500 metra hlaupi. Vorið 1924 hófust á vegum Íþróttafélagsins æfingar í frjálsum íþróttum. Spjótkast og kringukast var æft á Hörðuvöllum, en kúluvarp var æft inni í bæ á götunum. Félagið sendi Gísla, einan keppanda á allsherjarmót ÍSÍ. Hann keppti í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti og náði góðum árangri.
Gísli var um þetta leyti fremstur í flokki hafnfirskra frjálsíþróttamanna. Árið 1925 vann hann afreksmerki ÍSÍ. Er hann fyrsti og eini Hafnfirðingurinn sem unnið hefur það afrek (skrifað 1983). Vorið 1926 kenndi Jón Kaldal hlaup hjá Íþróttafélagi Hafnarfjarðar. Gerði hann það endurgjaldslaust. Þá um sumarið kepptu Gísli og Jón V. Hinriksson í kastgreinum á allsherjarmóti ÍSÍ fyrir hönd félagsins og árið 1927 keppti Gísli í spretthlaupi á sama móti.
Árið 1928 var Gísli kosinn formaður á aðalfundi félagsins þótt hann væri fjarverandi. Fimm sóttu fundinn. Um sumarið tók hann þátt í allsherjarmóti ÍSÍ. Ekki tókst að hefja starf félagsins um haustið í og með vegna þess að formaður þess var í Hvítárbakkaskóla um veturinn og var Íþróttafélag Hafnarfjarðar þar með úr sögunni. FH var stofnað haustið 1929 og síðan Haukar 1931. Þessi félög hafa starfað óslitið síðan.
Árið 1934 urðu þáttaskil í starfsemi FH, en þá sendi félagið í fyrsta sinn keppendur á frjálsíþróttamót, Meistaramót Íslands, þá Hallstein Hinriksson, Sigurð Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þetta varð upphafið að blómlegu frjálsíþróttastarfi á vegum félagsins þó að ekkert æfingasvæði væri í bænum fyrir frjálsíþróttamenn. Gísli var í frjálsíþróttasveit FH árið 1942. Á 15 ára afmæli FH 1944 var gert íþróttasvæði á Hörðuvöllum undir umsjón Gísla og naut félagið fjárstuðnings frá Hafnarfjarðabæ við þessar framkvæmdir. Mikil bót var að þessu frjálsíþróttasvæði, þó að það væri ekki fullkominn íþróttavöllur. Við þessa vallargerð hljóp aukið fjör í iðkun frjálsra íþrótta í bænum og voru þær með mestum blóma á árunum 1943-1950. Á þessu tímabili háðu Hafnfirðingar sex sinnum bæjakeppni við Vestmanneyinga og sigruðu tvisvar.
Á 30 ára afmæli FH var Víðavangshlaup Hafnarfjarðar endurvakið, sumardaginn fyrsta 1959. Sama ár þreyttu Hafnarfjörður og Keflavík bæjarkeppni í frjálsum íþróttum, og bar þar helst til tíðinda, að Gísli Sigurðsson keppti í kringlukasti og átti þar með 40 ára keppnisafmæli. Hann var formaður félagsins á árunum 1940-1943.
Árið 1935 kom Íþróttaráð Hafnarfjarðar saman til fyrsta fundar síns. Fimm menn voru í ráðinu, skipaðir af ÍSÍ. Árið eftir tók Gísli sæti í ráðinu. Stofnárið stóð það fyrir íþróttanámskeiði um sumarið og varð Gísli kennari ásamt Hallsteini Hinrikssyni. Námskeiðið var haldið á skólamölinni framan við barnaskólann við Lækinn. Um haustið efni ráðið til íþróttamóts, auk þess sem það beitti sér fyrir að lagfæra knattspyrnuvöllinn á Hvaleyrarholti í samvinnu við Hauka.
Á fundi ÍH árið 1936 vakti Gísli máls á því, að nauðsyn bæri til að safna saman verðlaunagripum, fundargerðarbókum og öðrum þeim gögnum, sem enn kynnu að vera til um starfsemi þeirra íþróttafélaga, sem hætt væru störfum, og bjarga frá glötun. Íþróttaráð fól Gísla að reyna að hafa upp á öllu, sem til væri af þessu tagi. Honum var vel ágengt, og tókst að hafa upp á fundargerðarbókum flestra gömlu íþróttafélaganna, en að auki skráði Gísli frásagnir nokkurra manna, sem voru félagar í elstu íþróttafélögunum í bænum. Þessi gögn eru nú í vörslu byggðasafnsnefndar Hafnarfjarðar. Árið 1943 fór bæjarráð Hafnarfjarðar þess á leit við íþróttaráð, að það hlutaðist til um, að íþróttafélögin í bænum tilnefndu menn til að gera tillögur um gerð íþróttasvæðis og tilhögun þess. Voru þeir sammála um að besti staðurinn væru Víðisstaðir.
Skoruðu íþróttaráð og stjórnir íþróttafélaganna á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að kaupa Víðistaði og láta gera þar sem fyrst íþróttasvæði. Gísli lagði fram á fundinum teikningu af íþróttasvæði á Víðistöðum, sem hann hafði fengið Valgarð Thoroddsen til að gera. En þar eð Víðistaðir voru í einkaeign, reyndist ekki unnt að velja hinu fyrirhugaða íþróttasvæði stað þar, og var það gert á Hörðuvöllum árið 1944. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) var stofnað 28. apríl 1945 og var það arftaki íþróttaráðs Hafnarfjarðar. Stofnendur ÍBH voru FH, Haukar og Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar. Gísli var formaður þess á árunum 1948-1949. Árin 1947-1950 gaf Íþróttabandalag Hafnarfjarðar út blaðið Íþróttablað Hafnarfjarðar. Gísli var ritstjóri og ábyrgðarmaður þess.
Hinn 22. febrúar 1925 var Skátafélag Hafnarfjarðar stofnað. Það fór mjög myndarlega af stað, og brátt störfuðu fjórir flokkar á vegum þess. Fyrsti sveitarforingi var Gísli, síðar lögregluþjónn. Árið 1945 var nafni félagsins breytt í Skátafélagið Hraunbúar. Lionsklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 1956. Fyrsti gestur á fundi félagsins var Gísli, sem hélt þá erindi um sögu Hafnarfjarðar. Á fyrstu árum klúbbsins unnu félagsmenn t.d. við að raða gömlum myndum í byggðasafni Hafnarfjarðar og merkja þær. Var það verk unnið undir stjórn Gísla, sem það var orðinn minjavörður.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar hóf starfsemi sína haustið 1923. Gísli kom fljótlega inn í sveitina og lék þar á horn um tíma.
Hinn 29. nóvember 1931 var Íþróttafélag verkamanna stofnað í bæjarþingsalnum í gamla barnaskólanum við Suðurgötu. Forgöngu um stofnun félagsins höfðu Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) og Félag ungra kommúnista (FUK). Gísli var kennari hjá félaginu fyrstu árin, sem það starfaði, og kenndi bæði karlaflokki og kvennaflokki til haustsins 1936. Haustið 1935 var nafni félagsins breytt í Íþróttafélag verkamanna og –kvenna og einnig var þá samþykkt breyting á lögum félagsins þess efnis, að það væri algerlega óháð öllum stjórnmálum. Enn var nafninu breytt haustið 1937 í Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Virðist það hafa hætt starfsemi sinni í árslok 1940. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar var stofnað 28. apríl 1945. Á stofnfundinum var því hreyft að stofna bæri sundfélag í bænum. Sundfélag Hafnarfjarðar var síðan stofnað 19. júní sama ár. Gísli var þá kosinn formaður og gegndi hann því starfi fyrsta árið.
Byggðasafnið
Í apríl 1953 kaus bæjarstjórn Hafnarfjarðar byggðasafnsnefnd og átti Gísli sæti í henni ásamt Óskari Jónssyni og Kristni J. Magnússyni. Hlutverk nefndarinnar var að koma upp byggðasafni í bænum. Sumarið 1955 féllst bæjarstjórn á að nefndin fengi neðri hæð Vesturgötu 6, hús Bjarna riddara, til umráða. Nauðsynlegt þótti þá að koma húsvilltu fólki fyrir á efri hæð þess vegna húsnæðisekklu í bænum.
Þegar byggðasafnsnefnd fékk húsið í hendur, voru fluttir þangað munir þeir, sem henni höfðu þegar áskotnast. Það var einkum Gísli, sem vann að söfnun muna á vegum byggðasafnsnefndarinnar. Setti nefndin sér í öndverðu það markmið að afla hluta, er varða iðnað, sjómennsku, húshald, rafmagn og búskap, og einnig ljósmynda frá Hafnarfirði og af Hafnfirðingum. Þegar hafist var við að endurbyggja Hús Bjarna riddara árið 1973 voru munir fluttir í geymslu í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og í Bryde-pakkhúsið við hliðina á Húsi Bjarna riddara, s.s. fiskibátur, gamli líkvagninn og ýmsar útgerðarvörur. Þegar Slökkvilið Hafnarfjarðar fluttist úr Slökkvistöðinni við hliðina á Bryde-pakkhúsi í maí 1974 fékk Byggðasafnið hana til umráða. Sama ár var Gísli ráðinn safnvörður við Byggðasafnið. Skrásetti hann mikinn fróðleik um byggðina í Hafnarfirði fyrr á tímum.
Hinn 1. júlí 1980 lét Gísli af störfum minjavarðar. Óhætt er að fullyrða, að enginn einn maður á jafnmikinn þátt í, að Byggðasafnið hefur eignast jafnmarga muni og raun ber vitni.
Þegar Gísli lét af störfum við Byggðasafnið, var Magnús Jónsson kennari, ráðinn minjavörður. Á fundi 16. desember 1980 staðfesti bæjarstjórn samning milli ríksins og bæjarins þess efnis, að sjóminjasafnsnefnd tæki Brydepakkhús og gömlu slökkvistöðina á leigu fyrir sjóminjasafn og yrði það til húsa þar, þangað til Sjóminjasafn Íslands hefði verið reist á Skerseyri.
Þegar minnst var 75 ára afmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar 1983, var m.a. haldin sögu- og sjóminjasýning í Brydepakkhúsi. Þegar hún var opnuð afhenti Gunnlaugur Stefán, listmálari, Byggðasafninu að gjöf málverk af föður sínum.
Samstarfsmenn.
Gísli Sigurðsson hóf störf í lögreglunni í Hafnarfirði árið 1930. Afstaða og stjórnmálaskoðanir skiptu máli þá eins og nú. Má segja að það hafi haft sitt að segja um að hann var ekki ráðinn á ný þegar staða hans var auglýst árið 1932.
Gísli talaði þó aldrei illa um nokkurn mann, ekki einu sinni um hörðustu andstæðinga sína.
Gísli vann lengi með Stíg Sæland. Síðan komu til starfa menn eins og Jón Guðmundsson, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Steingrímur Atlason byrjaði í nóv. 1941. Þá voru fyrir Gísli, Stígur, Kristinn Hákonarson, Kristján Andrésson og Haukur Magnússon. Þá var lögreglan í einu herbergi að Suðurgötu 8. Fangahúsið var þá í vesturenda Edinborgarhússins, tveir klefar, innréttaðir með mótatimbri. Um 1945 var flutt í viðbygginguna við Suðurgötu 8. Sýslumaðurinn hafði áður nýtt fjós þar sem viðbyggingin síðar reis, en í millitíðinni var það bílskúr (byggður 1942 eða 1943).
Steingrímur hætti í lögreglunni árið 1946, en kom aftur til starfa árið 1953. Hann minnist þess að þá hafi Gísli verið kominn á fullt að ræða við eldra fólk í bænum um byggðina, fólkið, örnefnin, húsheiti og annað tilheyrandi. Að hans mati hefur Gísli án efa bjargað miklum verðmætum upplýsingum því margt af þessu fólki dó næsu ár á eftir. Hann teiknaði auk þess upp gömul hús og húsaskipan eftir frásögn fólksins, sem mundi hvernig þau höfðu litið út á meðan þau voru enn brúkleg. Gísli byrjaði í fyrstu að ræða við elsta fólkið í bænum, en fór lítið út fyrir hann til að byrja með. Hann skrifaði upp og fór oft þrisvar til fjórum sinnum yfir textann áður en hann skilaði honum frá sér í formi upplýsinga eða erinda. Þegar hann fékk nýjar upplýsingar bætti hann þeim umsvifalaust inn í textann, sem fyrir var. Hann skrifaði í rit og blöð, ekki síst bæjarblöðin, um afmarkað efni. Þá sendi hann m.a. hugvekju í útvarpið skömmu eftir stríð, sem þulur las í kringum jól. Það var hjartnæm lýsing á því hvernig móðir hans meðhöndlaði krakkana sína fyrir jólin og heimfærði jólaboðskapinn yfir á uppeldið.
Gísli var byrjaður að tala við fólk um örnefni, staði, sögur og fólk og skrifa niður hjá sér fyrir 1958. Eftir 1960 var Gísli flestar næturvaktir við skriftir á meðan aðrir tefldu eða tóku í spil á milli útkalla og eftirlitsferða.
Gísli gekk mikið í kringum Hafnarfjörð, Hvaleyri og Garðahverfi. Stundum fór hann í lengri gönguferðir, jafnvel í framhaldi af næturvakt. Hann kom þá með kaffibrúsann undir hendinni niður á stöð og bað lögreglumennina á vakt um að skutla sér út fyrir bæinn, s.s. upp í Kaldársel eða út á Vatnsleysuströnd. Þar kvaddi hann og gekk einn síns liðs upp í hraunin og hvarf. Oft var hann svo „heppinn“ að hitta á lögreglumennina á bílnum undir kvöld, t.d. ofarlega á Krýsuvíkurveginum eða annars staðar, og óku þeir honum í bæinn aftur svo hann næði næturvaktinni.
Vitað er til þess að Gísli heimsótti hvern einasta mann í Selvogi og á Vatnsleysuströndinni og tók viðtöl við fólkið. Frásagnirnar las hann síðan upp fyrir lögreglumennina á næturvöktum.
Gísli byrjaði í framhaldi af því að skoða selin og aðrar minjar fyrir ofan Hafnarfjörð. Ein ástæðan var sú að flest selin þar eru þannig staðsett að tiltölulega auðvelt er að nálgast þar vatn, en það var göngumanni nauðsynlegt á löngum leiðum. Hann fór yfirleitt einn í þessar göngur til að byrja með. Honum var þá ekið langleiðina út á Reykjanesbraut og þaðan var gengið upp í hraunið. Ef tími var til á vaktinni var reynt að aka á móti honum að kvöldi.
Kristján Eldjárn og Gísli voru ágætir mátar. Auk þess sem nokkrir menn lögðu síðar til að Gísli fengi Fálkaorðuna fyrir söfnun upplýsinga, lýsinga og örnefna, skemmdi það ekki fyrir möguleikum hans að Kristján var þá orðinn forseti. Gísli lét síðan mynda sig með orðuna og var stoltur af. Hann og Kristján fóru margar ferðir saman á hina og þessa staði, bæði til að skoða og skrá.
Sögur:
Eitt sinn á næturvakt var Gísli að skrifa eitthvað eftir Kristrúnu og Sigurði á Hvassahrauni þegar hann reis allt í einu upp og sagði: „Æ, nú er ég búinn að gleyma því nafninu. Jæja, ég nota þá bara þetta“, sagði hann og stakk upp á öðru sennilegu, settist niður og hélt áfram að skrifa. En hafa ber í huga að sami staður gat heitið fleiri en einu nafni, allt eftir því hver sagði frá, við hvaða tíma var miðað og í hvaða tilgangi örnefnið var notað.
Þannig voru ekki allir alltaf sammála um nöfnin og vildu jafnvel stundum halda því fram að annað en þeirra eigin vissa væri ranghermi. Það þurfti þó ekki að vera, eins og dæmin sanna.
Eitt sinn í aðdraganda 17. júní var Gísla uppálagt að muna eftir að lyfta hendi í heiðurskveðju þegar þjóðsöngurinn væri leikinn. Gísli átti að vera á vakt á Hörðuvöllum. Þegar lúðrasveitin byrjaði á „Ísland ögrum skorið“ lyfti Gísli og aðrir lögregluþjónar hendi að enni sér, en virtust fljótt átta sig á hvers kyns var. Hann lét höndina síga hægt og rólega og snérist á hæl svo lítið bar á. Hinir fylgdu á eftir. Þjóðsöngurinn var leikinn síðar.
Lögreglustöðin við Suðurgötu, nýbyggingin, var vígð árið 1947. Þar voru hurðir fyrir fangaklefum járnslegnar að innanverðu og einungis hægt að opna þær utan frá. Gísli þurfti eitt sinn að handtaka Magnús Gíslason frá Vesturhamri og færa í tukthúsið. Það þurfti oft að slást við Magnús. Þegar færa átti hann inn í klefann upphófust slagsmál sem endranær og náði Magnús einhvern veginn að krækja í hurðina með þeim afleiðingum að þeir lokuðust báðir inni í klefanum. Gísla tókst þó að tálga með vasahníf upp úr dyrastafnum eftir langa mæðu og losa sig úr prísundinni.
Eitt sinn skilaði Gísli skýrslu um rúðubrot í verslun Valdimars Long við Strandgötu og handtöku gerningsmannsins. Hún var eitthvað á þessa leið: „Ég elti hann, en hann dreifði sér vestur Strandgötuna. Móts við Skafta (hús þar sem verslun Ól. Steins, var reist síðar) náði ég að umkringja hann“.
Gísli var kallaður á árekstursvettvang. Hann gerði uppdrátt eins og venja var. Á uppdrættinum var merktur rauður punktur og við hann stóð: „Hér stóð ég“. Gísli gat verið gamansamur, eins og sögur herma. Hann var líka traustur og gott var að vera með honum í átökum. Eftir að hann náði taki á einhverjum sleppti hann því ekki svo auðveldlega.
Gísli hafði mikinn áhuga á að aka lögreglubílnum. Kom til útkalls rauk hann jafnan fyrstur til , greip bíllyklana og þusti. Hann var hins vegar ekki alveg að sama skapi laginn ökumaður. Vantaði stundum svolítið á samhæfingu á milli tengils og eldsneytisgjafar, en allt bjargaðist þetta þó að lokum. Eitt sinn var útkall á Nýju bryggjuna vegna ölvaðra manna, sem þar voru að slást. Eftir að þeir höfðu verið afgreiddir og komið í bílinn kom í ljós að bílinn var fastur í bakkgírnum. Það vafðist þó ekki fyrir Gísla frekar en margt annað. Hann setti bara í gang og ók bílnum aftur á bak sem leið lá um bryggjuna, Strandgötu og staðnæmdist ekki fyrr en komið var framan við lögreglustöðina. Þegar taka átti mennina út úr bílnum var runnið af þeim öllum.
Gísli var oft heppinn í sínum aðgerðum og afgreiddi mál oftar af skynsemi en nákvæmlega eftir laganna bókstaf. Þá átti hann það jafnvel stundum til að framkvæma án þess að hugsa, en allt fór þó yfirleitt vel að lokum. Hann kom m.a. einu sinni í veg fyrir stórkostleg slagsmál. Þannig var að lýður hafði safnast að lögreglustöðinni við Suðurgötu á þrettándanum með hrópum og köllum. Fór svo að hópurinn reyndi að loka lögreglumennina inni á stöðinni með því að bera hlera fyrir hurðina. Gísli tók sig þá til, náði að ryðjast út og byrjaði á því að rota þann fyrsta sem hann náði til. Við það lagði lýðurinn á flótta.
Gísli gat verið forn í orðavali og tali og hafði góðan orðaforða. Hann notaði t.d. orðið þormur fyrir stuðara á bíl, sem þá þótti sérstakt. Þá hafði hann sinn sérstaka hátt á að lýsa atvikum, sem stundum gat valdið kátínu.
Lítillátur:
Eitt sinn hitti félagi Gísla hann í sjoppu í Keflavík. Félaginn spurði á hvaða leið hann væri. „Ég er svo sem ekki að fara neitt. Ég er bara á ferð með félaga mínum. Við ætlum hér norðureftir að líta á Skagagarðinn mikla“. Að því búnu gekk hann út og steig þar upp í bíl, sem beið fyrir utan. Undir stýri sat Kristján Eldjárn, fyrrv. þjóðminjavörður, sem þá var orðinn forseti Íslands.
Garpur.
Gísli var fæddur og uppalinn í Árnessýslu. Hann fór á Íþróttaskóla á Hvítárbökkum í Borgarfirði, og var þar tvo vetur. Síðar keppti hann í sleggjukasti og í kúluvarpi. Steingrímur kynntist Gísla fyrst á árunum 1938 og 1939, þegar Steingrímur bar út póst. Gísli kom þá oft á pósthúsið fyrir sýslumann og ræddi við póstberana.
Eitt sinn hvatti hann Steingrím til að koma með sér upp á íþróttavöll á Holtinu til að reyna sig í hlaupum. Þar tók Gísli tímann og sagðist að því búnu myndi skrá hann á mót í Reykjavík daginn eftir. Varð úr að Steingrímur keppti þar í 1500 m og 3000 m hlaupum, varð fjórði í því fyrrnefnda, en annar í því síðarnefnda, af 10-15 keppendum. Síðar skráði Gísli hann í 10 km kappgöngu frá Árbæ, vestur Suðurlandsbraut, niður Laugaveg, inn Aðalstræti, um Suðurgötu og inn á Melavöll. Þetta var á sunnudagsmorgni í september. Gísli hafði þá á orði að Steingrímur hefði bara staðið sig vel. Hann hefði orðið annar í göngunni. Ekki fylgdi sögunni að keppendur höfðu einungis verið tveir að þessu sinni.
Gísli var mikill íþróttamaður. Hann keppti m.a. í sleggjukasti, kúluvarpi og kappgöngu. Hann keppti alltaf í sleggjukasti í bæjarkeppnum milli Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja. Sagan segir að eitt sinn hafi Gísli misst sleggjuna aftur fyrir sig í einni slíkri keppni á Hörðuvöllum og stefni hún beint á dómarana, sem stóðu til hliðar. Þeir sáu þó sem betur fer hvað verða vildi og náðu að skýla sér á bak við jarðfastan staur áður en sleggjan lenti á staurnum er bjargaði dómurunum.
Gísli keppti t.d. í kappgöngu á einu Íslandsmóti. Gísli varð nr. 1 og félagi hans nr. 2. Þegar lögreglumenn spurðu hvað hefðu verið margir í göngunni sagði Gísli: „Þeir voru a.m.k. tveir, svo mikið get ég sagt ykkur“.
Gísli var mikill skáti í sér og stundaði m.a. skátamótin í Krýsuvík samhliða því sem hann og félagar hans voru þar á vakt um tíma. Ástæðan var aðallega sú að bandarískir skátar voru þá á mótunum og nokkrir hernaðarandstæðingar áttu erfitt með að þola að sjá bandaríska fána þar við hún. Á nóttunni svaf Gísli í svefnpoka í fjárhellinum syðst í Bæjarfelli.
Lokaorð.
Gísli Sigurðsson ólst upp í fátækt, varð snemma að aðstoða foreldra sína og vinna fyrir sér. Hann kynntist því snemma hvernig er að heyja erfiða lífsbaráttu við þröngan kost og erfiðar aðstæður. Mótaði það mjög hug hans og afstöðu til lífsins síðar meir. Gísli var eljusamur, ósérhlífinn og hjálpsamur. Hann lagði snemma stund á íþróttir og varði ásamt öðrum miklum tíma til að byggja upp og viðhalda íþróttastarfi í Hafnarfirði. Hann var í stjórnum margra ólíkra íþróttafélaga og varð sjálfur mikill afreksmaður.
Um og eftir þrítugt starfaði Gísli sem lögreglumaður og gegndi hann því starfi uns hann hætti fyrir aldurs sakir, þá sjötugur. Um og eftir miðjan aldur hóf hann að ræða við og skrá sögur og sagnir, upplýsingar og fróðleik ýmis konar eftir eldri Hafnfirðingum og síðar öðru fólki, bæði á Reykanesi og víðar. Safnaði hann m.a. upplýsingum um sögu Hafnarfjarðar, örnefni, gamlar leiðir og minjar og skrifaði margar greinar og erindi um efnið. Enn í dag leitar áhugafólk um útivist og göngur í yfirgripsmikið efni það er Gísli skyldi eftir sig og varðveitt hefur verið á Bókasafni Hafnarfjarðar og í Byggðasafninu. Þá hafa fjölmargir fræðimenn notið góðs af fjömörgum örnefnalýsingunum og öðrum skrifum er skoða þarf og meta hin ýmsu svæði byggðalagsins.
Ef ekki hefði verið fyrir þetta starf Gísla væri margt af þessu með öllu glatað í dag. Margir núlifandi mættu taka hann sér til fyrirmyndar, safna fróðleik og efni frá eldra fólki, sem enn býr yfir mikilli vitneskju um liðna tíma og minjar, sem líklegt er að kunni að glatast ella.
Gísli lét ávallt gott af sér leiða. Störf hans og áhugi hafði ekki einungis jákvæð áhrif á meðan hann lifði. Hvorutveggja hefur jákvæð áhrif enn þann dag í dag. Eftirlifandi kynslóðir hafa notið og munu njóta góðs af því. Gísli var alþýðuhetja, sem verðskuldar að hans verði minnst, ekki bara af þeim sem hann þekktu heldur og þeim er bera hag uppvaxandi æsku og umhverfis fyrir brjósti. Hafnarfjörður, eftirlifandi samferðamenn Gísla og komandi kynslóðir eiga honum mikið að þakka.
Gísli Sigurðsson lést á Hrafnistu þann 30. okt. 1985, 82 ára að aldri.
-Ómar Smári Ármannsson tók saman á aldarafmæli Gísla 23. júní 2003.