Grindavík um aldamótin

Grindavík

Eftirfarandi grein Sæmundar Tómassonar, Æskuminningar [frá Grindavík], birtist í Lesbók Mbl 26.  mars 1961:
“Þegar ellin sækir að, mun flestum svo fara, að minningar fá æskuárum og æskustöðvum verða áleitnar. Og þá gera menn ósjálfrátt samanburð á því sem var og er, daglegum störfum og lífsvenjum, og undrast þær Norðurvörinbreytingar, sem orðið hafa á öllum sviðum.
Mér hefir þá stundum komið til hugar, að gaman hefði verið að eiga kvikmyndir af þjóðháttum og vinnubrögðum, eins og þetta var um aldamót. Og vegna þess að ég  var alinn upp í verstöð og brimlendingastað, verður mér frekast hugsað til þess hve mikilsvert hefði verið að eiga góðar kvikmyndir af sjóferðum á þeim árum, ýtingum og lendingum þegar illt var í sjó. Á ég bágt með að trúa öðru en að æskunni nú á dögum hefði þótt spennandi að horfa á slíkar myndir á tjaldi. En þó var enn stórkostlegr að horfa á raunveruleikann sjálfan, eins og við strákarnir fengum að gera. Þá voru leikslokin oft tvísýn og skammt á milli lífs og dauða, og þetta nam huga okkar enn fastar vegna þess að þarna áttu í hlut nánustu ættingjar okkar og  vinir.
Ég var alinn upp á Járngerðarstöðum (eystri bænum) í Grindavík og æskuminningar mínar eru aðallega bundnar við fiskveiðar og róðra í misjöfnum veðrum á vetrarvertíð. Þarna var sjór sóttur á opnum skipum og oft teflt djarft. En náttúruöflin voru líka oft víðsjál og á skammri stund gat skipast veður í lofti. Bar það stundum við þegar skip voru á sjó í logni, að sjór breyttist skyndilega, öldurnar stækkuðu mjög ört, og þá gat farið svo er skipin komu undir land, að þá braut á öllum grynningum. Var þá kallað að allir boðar voru uppi. En albrima var kallað þegar brotin lokuðu öllum leiðum.
Grindvískur sjómaðurÞá var oft alvara á ferðum, er mörg skip voru á sjó. Þyrptust þá flestir ungir og gamlir niður að lendingunni og horfðu með kvíða og eftirvæntingu á skipin, sem nálguðust sundið. Þau urðu að bíða eftir lagi nokkuð langt frá landi. Talið var að lag kæmi helzt eftir stærstu brotin, og þá var lagt á sundið, ef það þótti fært. Stundum var þá helt lýsi í sjóinn til að kyrra hann, og þótti það oft gott bjargráð. Þegar lagt var á sundið urðu menn að leggjast á árar af allri orku og þá var um að gera að allir væru samtaka og engin mistök ætti sér stað, því að hér var um líf og dauða að kefla. Var þessi róður því oft kallaður lífróður, en stundum líka brimróður.
Þegar komið var inn úr sundinu á svokallað lón eða legu, gátu menn kastað mestu mæðinni. Stundum urðu þeir þó að bíða lengi lags inn í sjálfa vörina, eða lendinguna. Þegar hátt var í sjó og mikið brim, var þarna oft mikil hætta á ferðum og mátti engu skeika. Vörin var ekki annað en klettakvos, klappir og grjót á báðar hendur.
Ef eitthvert skip hafði ekki róið um daginn, komu skipverjar af því, skinnklæddir niður í vör til að taka á móti fyrsta bátnum. Stóðu þeir þar í sjónum í tveimur fylkingum, og renndi síðan skipið inn á milli þeirra. Árar voru lagðar inn í skipið, formaður beitti stjakanum til þess að skipið snerist ekki flatt við sjónum. Og svo gripu sterkar hendur um bæði borð og drógu skipið upp í fjöru þar til það var úr allri hættu. Mátti þá sjá mörg traust og örugg handtök, enda voru þessir menn volkinu vanir og vissu hvað í húfi var. Þarna háði maðurinn nokkurs konar kappleik við hin villtu náttúruöfl, og fyrir unga drengi var þetta áhrifamikil sjón, því að þeir vissu hvað í veði var. En ótrúlega sjaldan urðu slys í þessari miklu brimstöð.
Mér finnst rétt að skjóta hér inn fáorðri lýsingu á húsakynnum heima. Fyrst var á baðstofan, þar sem heimafólk svaf. Þar voru 10 rúm, sex í suðurenda og fjögur í norðurenda. Milli skilrúmanna þar var eitt stafgólf og þar var uppgangurinn. Beint á móti dyrum var stórt borð, kallað kaffiborð. Þar var drukkið morgunkaffi á vertiðum. Svo voru tvö hús úr timbri, annað allstórt á þeirra tíma mælikvarða, og í því allstór stofa og gestaherbergi. Svo var sjóbúð, alltaf kölluð “Búðin”. Veggir hennar voru hlaðnir úr grjóti og reft á þá, en á áreftinu var tvöfallt þak. Með báðum veggjum voru grjótbálkar. Það voru rúm sjómannanna og ekkert timbur í þeim nema rúmstokkar og milligerðir. Hvert rúm var ætlað tveimur Stígurmönnum og voru þeir kallaðirlagsmenn. Enn voru þarna útihús, svo sem smiðja, og nokkrir torfkofar.
Þegar ég var að alast upp voru gerðar út frá okkur tvær fleytur og stundum þrjár; voru það þá tveir áttæringar og eitt sexmannafar. Á þessi skip þurfti 30 menn, og voru því margir aðkomumenn á vetrum, líklega um tuttugu. Voru þeir úr ýmsum áttu, en flestir úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Í “Búðinni” voru sex rúm og þar voru alltaf 12 menn. Handa hinum voru gerð bráðabirgðarúm í hinum húsunum.
Oftast höfðu sjómenn sjóklæði sín heima og voru þau geymd í sérstökum torfkofa, þar sem þau gátu ekki frosið á nóttum, því oft voru mikil frost framan af vertíð. Þessi sjóklæði voru saumuð úr skinnum, ýmist úr sauðskinnum, kálfskinnum eða há, og voru því kölluð skinnkæði. Þau voru sjóhattur, stakkur og brók, og svo voru skór úr sútuðu leðri, sem mest líktist sólarleðri. Skinnklæðin voru smurð með þorskalýsi, eða lifur núið í þau, svo að þau þyldu betur bleytu. Þetta gátu verið beztu flíkur, og þeir sem kunnu að klæðast þeim rétt, þoldu vel bæði sjólvolk og kulda. Í þessi sjóklæði fóru menn oft á morgnana heima og gengu í þeim til skips, en sjávargatan hjá okkur var um hálfur kílómetri.
Við skulum hugsa okkur að við séum komin til Grindavíkur á vertíðinni 1898, eða fyrir 63 árum. Og svo skal ég reyna að lýsa fyrir ykkur einum degi þar. Það er ekki neinn ákveðinn dagur, heldur einn af mörgum, því að hið sama gerðist þar dag eftir dag og ár eftir ár á sama tíma. En ég tek dæmið frá vetrarvertíð, því að hún var aðalbjargræðistíminn og þá var mest um að vera. Þá var þar og fjölmennast, vegna þess hve margir vour vertíðarmenn; þeir voru ýmist kallaðir Norðanmenn eða Austanmenn, eftir því hvaðan þeir voru, eða aðeins sjómenn.
Vertíðin er nýlega byrjuð. Þá var allatf notuð ýsulóð (sem nú er kölluð lína). Var hún beitt að kvöldi, en róið þegar með birtu á morgnana. Þá voru ekki til nein ljósatæki, er bátar gátu notað, svo að þeir urðu að haga sér eftir dagskímunni, en alltaf var lagt á sjóinn áður en fullljóst var.
Það var oft þessa morgna, að við krakkar vöknuðum við mikinn umgang, því að allt var á ferð og flugi í baðstofunni er heimamenn voru að búast á sjóinn. Svo Frá Grindavíkbættist það við, að flestir aðkomusjómenn komu úr útihúsum til baðstofu, stundum skinnklæddir, til þess að fá sér kaffi eða mjólkurbland. Það hafði einhver vinnukonan hitað. Ekki var neitt með þessari hressingu annað en kandísmoli. Aldrei man ég eftir því að sjómennirnir fengi matarbita á morgnana, enda munu þeir ekki hafa verið matlystugir svo snemma dags.
Þessi hamagangur stóð þó ekki lengi. Allir flýttu sér sem mest þeir máttu. Það þótti mannsbragur að því að vera fljótur til skips, og seinlátir menn voru all staðar illa liðnir. Við vorum þá heima þrír strákar 10-12 ára að aldri. Langaði okkur jafnan til þess að fara með piltunum austur að sjó, sem svo var kallað, einkum ef við höfðum heyrt þá minnast á við kaffiborðið, að nú mundi verða “lá”. Þá héldu okkur engin bönd, og upp úr rúmunum rukum við og eltum þá, til þess að horfa á þegar ýtt var á flot í “lá”. Þegar flóð var að morgni og alda í sjónum, brotnaði hún við landið og gengu þá tíðum ólög inn í vörina. Það var kallað “lá”.
Í vörinniÞegar skipi hjá okkur var hrundið til sjávar, var skuturinn jafnan látinn ganga á undan. Þegar “lá” var, þá var skipið sett fram á fremsta hlunn, algveg við sjó, og þurfti þá stundum að bíða eftir lagi. Formaðurinn fór þá upp í skipið aftast og stóð þar með 12-14 feta langa stöng, sem kölluð var stjaki. Var broddur í einda stjakans og notaði formaður stjakann ef rétta þurfti skipið þegar ýtt var. Öllum árum var stungið niður í “sog”, það er við kjöl, og risu þær svo frá borði. Hver maður stóð við sinn keip, og árin í keipnum.
Nú var beðið með eftirvæntingu þangað til hið stóra augnablik kom, að formaður “kallaði lagið”. Sagði hann þá oft: “Áfram nú, blessaðir”, eða einhverja aðra hvatningu til hásetanna. Þá máttu engin mistök verða, ef vel átti að takast ýtingin, halda skipinu á réttum kili og fylgja því, en komast þó upp í það sem fysrt, maður á móti manni og allar árar í sjó á svipstundu. Seinastir fóru fremstu mennirnir upp í, þeir voru kallaðir framámenn. Svo varð að róa lífróður til þess að vera ekki fyrir næsta ólagi.
Það kom fyrir, þegar ýtt var í “lá”, að ýmis smámistök áttu sér stað, einkum í vertíðarbyrjun, meðan menn voru óvanir og ekki samæfðir. Þar var alltaf brýnt fyrir óvönum mönnum, að þeir mætti alls ekki sleppa hönd af skipinu, og kæmist þeir ekki upp í það, þá að halda sér sem fastast í það og dragast út með því þangað til það væri úr hættu. Þetta vildi koma fyrir, að menn kæmist ekki upp í skipið, stundum tveir eða þrír. Og svo drógust þeir með skipinu út á legu, og þar voru þeir innbyrtir. Það þótti alltaf leiðinlegt til afspurnar að láta innbryða sig. En við strákaranir skemmtum okkur kostulega Frá Grindavíkvið að horfa á mennina dragast með bátnum og síðan innbyrta. Þetta skeði ekki eftir að sjómennirnir fóru að æfast, en þeim var hættast við þessu, sem ekki höfðu róið í Grindavík áður, eða voru óvanir brimlendingum.
Þótt okkur strákunum þætti þetta kátleg sjón, sem við vildum sízt af missa, máttum við þó ekki eyða alltof löngum tíma niðri hjá vörinni, því að við höfðum líka skyldustörfum að gegna, þótt ungir værum. Við áttum að annast skepnurnar, hross og lömb, sem voru í húsi. Fyrst urðum við að gefa lömbunum og því næst láta hrossin út og reka þau niður í fjöru. Þar var oftast þari og hann rifu þau i sig. Við urðum að tína saman þara þarna í fjörunni og bera hann heim í hesthúsin og láta hann í stallana. Stundum var hann svo grófgerður að við urðum að brytja hann með hníf. Þar næst urðum við að sækja niður í fjöru gödduð bein, dálka og litla þorskhausa, berja  vel og láta í stallana með þaranum, og dreifa svo örlitlu af heyi ofan á. Þetta átu hrossin á nóttunni.
Þegar við höfðum lokið þessum störfum var oft liðið svo á daginn að skipin voru að koma að. Þá varð nú að hlaupa niður í fjöru til þess að vita hvort okkart menn væru komnir. Fórum við þá með skóna þeirra handa þeim, því að þegar þeir skinnklæddust heima, skildu þeir skóna sína alltaf eftir. Oft fórum við með drukk handa þeim í fötu, það var sýrublanda, einkum ef norðanátt var og sýnt að þeir hefði fengið barning, því að þá komu þeir móðir og sveittir að landi og þótti hressandi að fá sýrublöndu að drekka.
Stundum urðum við að bíða eftir okkar mönnum, en þegar þeir voru lentir og við höfðum haft tal af einhverjum þeirra, helzt formanninum, og spurt um það sem við þurftum að vita, þá urðum við að taka sprettinn heim og láta vita að þeir væru komnir að. Og spurningarnar sem við vissum að við þurftum þá að svara, voru alltaf þessar: Hvað fiskuðu þeir mikið? Hvað seiluðu margir? Þarf að senda þeim kaffi og bita? Kom þeir heim að borða? Um allt þetta höfðum við orðið að þýfga formanninn áður til þess að geta gefið fullnægjandi skýrslu heima.
Spruningin um hve margir seiðluðu var algeng vegna þess að menn vissu að af hverri seil komu 4-5 í hlut. Það minnsta var að einn seilaði, en stundum átta, ef skipið var fullt af fiski. Og þegar það heyrðist að 8 hefðu seilað, þá komust allir á loft, bæði ungir og gamlir.
Frá GrindavíkÞað kom varla fyrir snemma á vertíð, að tvíróið var, en eftir að sílfiskur var kominn, var oft tvíróið og stundum þríróið. Þá notuðu menn eingöngu handfæri, því að net voru þá ekki notuð sunnan við Reykjanes. Það gerðist ekki fyr en upp úr aldramótum, og í mjög smáum stíl í fyrstu.
Að þessu sinni átti ekki að tvíróa, og piltarnir ætluðu allir að koma heim til matar þegar þeir höfðu komið skipinu í naust, borið upp fiskinn og skift honum. Að máltíð lokinni fóru þeir svo allir niður að sjó aftur til þess að gera að fiskinum og beita lóðina fyrir næsta dag. Þessu var venjulega lokið áður en myrkið datt á. Eftir það áttu sjómennirnir frí og máttu hvíla sig og spjalla saman.
Um líkt leyti höfðum við strákarnir lokið skyldustörfum okkar, gefið lömbunum seinni gjöf og komið hestunum í hús, ásamt ýmsum fleiri snúningum. Eftir það máttum við leika okkur.
Á föstunni voru Passíusálmarnir sungnir á hverju kvöldi og lesin hugvekja. Voru sjómennirnri þá oft við í baðstofunni. Þó var það stundum, ef þeir komu seint af sjónum, að þeir fóru beina leið inn í “Búð”. Þá fengu þeir léðar bækur heima, og svo las einhver upphátt Passíusálm og hugvekju, áður en gengið væri til náða eftir langan og oft heillaríkan vinnudag.
Nú er öldin önnur. Nú ganga sjómennirnir í Grindavík á báta sínu við bryggju, og þegar þeir koma að, leggjast þeir við bryggju og ganga þurrum fótum af skip á land. Nú er, sem betur fer, ekki um að ræða hættulegar ýtingar og lendingar, og á öllum vinnubrögðum er reginmunur frá því sem áður var.
Hvern skyldi hafa órað fyrir því í Grindavík um aldarmótin, að slík gjörbylting mundi verða á næsta mannsaldri?“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, sunnudagur 26. mars 1961 – Sæmundur Tómasson – Æskuminningar.Flagghúsið-21Grindavik